Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2004 Úrskurður vegna kæru Gunnar Jóhannsdóttur og Stefáns Finnbogasonar gegn Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, föstudaginn 22. október, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2004  Gunnur Jóhannsdóttir og Stefán Finnbogason, Hlíðarvegi 29, Kópavogi gegn Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Gunnar A. Jóhannsdóttur og Stefáns Gísla Finnbogasonar hér eftir nefnd kærendur er dags. 6. apríl, 2004. Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)      Afrit bréfs til heilbrigðisnefndar Kópavogs dags. 4.02. 2004.

2)      Afrit bréfs kærenda til heilbrigðisnefndar Kópavogs dags. 04.02.2004.

3)      Afrit bréfs íbúa Hlíðarvegs 29 og 29a dags. 03.05.2004 til bæjarráðs Kópavogs.

4)      Afrit bréfa Guðmundar Þórðarsonar hdl. f.h. eigenda að Hlíðarvegi 29 og svarbréf lögmanns Kópavogskaupstaðar.

5)      Afrit rannsóknarskýrslu rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins v. hávaðatruflunar.

6)      Afrit svarbréfs Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis dags 17. mars, 2004.

7)      Svarbréf kærenda eftir að gögn kærða voru birt þeim.

Afrit af gögnum kærenda var sent Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, hér eftir nefndur kærði og  er greinargerð þess dags. 02.06. 2004.  Greinargerð fylgdu eftirfarandi gögn :

1)      Ljósmynd sem lýsir ytri aðstæðum.

2)      Afrit af teikningum af Hlíðarvegi 29 þar sem staðsetning kælitækja er merkt inn.

3)      Afrit af tilkynningu rekstraraðila söluturns til eftirlitsins.

4)      Afrit af erindi kærenda dags. 04.02.2004.

5)      Afrit af eftirlitsskýrslu til rekstraraðila söluturns dags. 30.01.2004.

6)      Afrit af erindi rekstraraðila söluturns dags. 24.02.2004.

7)      Afrit af erindi kærða til kærenda dags. 17.03.2004.

8)      Afrit af erindi kærenda til heilbrigðisnefndar dags.22.03.2004.

9)      Skrá yfir skráðar kvartanir hjá heilbrigðiseftirliti frá 01.01.2003 vegna reksturs söluturns.

10)  Minnisblað kærða frá 26. 03. 2004.

11)  Afrit af erindi heilbrigðisnefndar til kærenda dags. 30.  mars, 2004.

Úrskurðarnefnd sendi Heilbrigðiseftirliti  á ný bréf dags. 5. september s.l. og óskaði eftir frekari mælingum.  Var óskað eftir því að sérstaklega yrði kannaður hávaði af skellum frá útidyrahurð og hávaði af völdum kælipressu.  Sendi Heilbrigðiseftirlit nefndinni bréf og greindi frá ferð tveggja heilbrigðisfulltrúa á staðinn og ennfremur þess að lengri tíma tæki að skoða málið betur.  Framkvæmdar voru nýjar mælingar aðfararnótt 7. október s.l.  Heilbrigðiseftirlitið sendi nefndinni niðurstöður þeirra mælinga með bréfi dags. 14. október s.l.

II.

Kærendur kæra aðgerðaleysi kærða vegna hávaða frá söluturni á jarðhæð Hlíðarvegar 29 í Kópavogi.  Benda kærendur á að ítrekað hafi verið kvartað yfir hávaða frá umræddum söluturni án árangurs.  Ástandinu lýsa kærendur svo í bréfi til heilbrigðisnefndar dags. 4. febrúar 2002 að stanslaus niður og hávaði sé til staðar dag og nótt og svo virðist sem kælipressa gangi oft og óreglulega.  Stundum kveiki hún og slökkvi á sér í sífellu.  Telja kærendur að það bendi til þess að eitthvað sé að kælikerfinu.  Ávallt sé einhver niður heyranlegur.  Þessi hávaði ásamt ónýtri eða bilaðri hurðarpumpu á útidyrahurð valdi kærendum hvað mestu ónæði.  Hurð skelli með miklum hávaða í hurðarkarm.  Kveða kærendur að áður en nýr eigandi hafi tekið við rekstri hafi umrædd vandamál ekki verið til staðar. Lýsa kærendur því yfir að þeir hafi ítrekað farið til núverandi rekstraraðila til að ræða við hann og hann  sagt sjálfsagt að lagfæra, en ekkert hafi verið aðhafst.   Telja kærendur úrræðaleysi kærða einkenna mál þetta.  Kærendur kveða ekki hafa verið unnt að ná fullum nætursvefni undanliðið ár vegna ónæðis frá söluturninum.  Ekki sé hægt að selja fasteignina vegna ástandsins og teljist það vart viðunandi.

Í bréfi kærenda dags. 22. mars s.l. til heilbrigðisnefndar Kópavogs vegna máls þessa, mótmæla kærendur bréfi kærða þar sem fram komi að allt sé í stakasta lagi í umræddum söluturni.  Mótmæla kærendur því að ástandið hafi batnað og staðhæfa að fullyrðingar rekstaraðila söluturnsins um úrbætur séu rangar.  Vísað er til hávaðamælinga og yfirlýsinga mælingamanns um að aðstæður séu ekki nægilega góðar til mælinga þar sem hávaðasöm vinnuvél var að störfum fyrir utan húsið. Krefjast kærendur að mælt verði að nýju hvort hávaði fari yfir leyfileg mörk.  Ítreka kærendur mótmæli sín við  aðgerðaleysi kærða.

Máli sínu til stuðnings leggja kærendur fram gögn vegna fyrri aðgerða.  Fyrstu gögnin eru frá lögmanni fyrri eigenda.  Elsta bréf kærenda er til bæjarráðs Kópavogs dags. 3. maí 2001 þar sem kvartað er undan hávaða vegna drukkinna unglinga og umgangs þeirra. Í bréfinu er gerð sú kæra að rekstrarleyfi verði endurskoðað verði ekki úr málinu bætt.

Í svarbréfi kærenda vegna greinargerðar kærða ítreka þeir kröfur sínar og mótmæli.  Benda þeir á að úrbætur sem sinna þurfi séu að setja gúmmílista á hurðarkarm þar sem útihurð skelli í og að slökkva þurfi á kælipressu. Benda kærendur ennfremur á að hávaði sem kvartað er yfir sé fyrst og fremst til ama á kvöldin og nóttunni.  Verði því að sinna hávaðamælingu aftur.  Fáist engar úrbætur telja kærendur sig verða að hafa vottorð frá úrskurðarnefnd um að ekkert sé að þegar kvartað verði yfir leyndum galla við sölu íbúðarinnar.

III.

Í greinargerð kærða kemur  fram að mál kærenda hafi verið til meðferðar á fundi heilbrigðisnefndar hinn 29. mars, 2004.  Hafi þá verið lögð fram erindi kærenda þar sem kvartað sé yfir ónæði frá rekstri söluturns í sama húsi og aðkomu kærða við afgreiðslu kvartananna.  Heilbrigðisnefnd taldi að umkvörtunarefnið yrði ekki leyst með vísan til reglugerðar um hollustuhætti og vísaði erindum frá.  Afstaða nefndarinnar byggðist á því að um löglega atvinnustarfsemi væri að ræða og starfsmenn kærða höfðu ekki getað staðfest, við ítrekaðar heimsóknir, að hávaði bærist frá búnaði söluturns til íbúðar.  Fram kemur í greinargerð kærða að neðri hæð hússins hafi verið samþykkt af byggingaryfirvöldum sem verslunarhúsnæði 1968 og íbúðarhúsnæði sé samþykkt á efri hæðinni.  Ljóst sé að umferð um lóð og umgangur um neðri hæð sé meiri heldur en væri eingöngu um íbúðarhúsnæði að ræða.  Hefur heilbrigðisnefnd ekki litið á það sem sitt hlutverk að stöðva rekstur söluturns og videóleigu í húsnæðinu.  Þannig geti nefndin ekki fyrirskipað að slökkt verði á kælum eða öðrum búnað sem sé eðlilegur hluti rekstrar nema ljóst sé að frá honum stafi það ónæði sem undan er kvartað. Reynt hafi verið að finna út hvort einstök tæki gætu valdið umræddum óþægindum.  Hafi aðkoma kærða að málinu verið með vísan til 16. gr. rgl.nr. 941/2002 um hollustuhætti. Samkvæmt skilgreiningu reglugerðarinnar sé ónæði “veruleg og ítrekuð truflun eða áreiti sem tiheyrir ekki því umhverfi sem um ræðir s.s. vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar eða varmaflæðis”  Hafi starfsmenn kærða farið ítrekað á staðinn án þess að geta sannreynt kvörtunarefnið.  Heilbrigðisfulltrúi hafi farið á staðinn þann 19. nóvember s.l. áður en nokkur starfsemi hafi hafist þann dag í söluturninum.  Hafi þá jafngildishljóðstig mælst vel undir 30dB.  Kærendur hafi í framhaldi af þessu verið beðnir um að koma kvörtunum sínum skriflega á framfæri til að auðvelda greiningu vandans og hafi það verið gert með erindi dags. 4. febrúar 2004.  Hafi þá verið unnt að kynna kvartanir formlega fyrir rekstraraðila.  Andmæli rekstraraðila komi fram í erindi hans dags. 24. febrúar 2004.  Kærði kveður tvo fulltrúa hafa farið á vettvang 13. febrúar s.l. og hafi þeir ekki getað greint hljóð upp á efri hæð frá rekstrinum.  Sú niðurstaða kærða hafi verið kynnt kærendum með bréfi dags. 17. mars .sl.  Í síðastgreindu bréfi kom m.a. fram að eftirlitsaðilar hafi aldrei orðið þess áskynja að eitthvert ákveðið tæki væri háværara en annað eða að einhver slökkvi- eða kveikihljóð heyrðust í kælum eða pressum.  Eigandi hafi alltaf kvaðst reiðubúinn til þess að finna ástæðu og gera ráðstafanir ef með þyrfti.  Fulltrúi kærða hafi ekki getað staðfest að pumpa á hurð væri í ólagi, eftir lagfæringu á henni fyrri hluta ársins.  Hávaðamælingar hafi ekki sýnt fram á óvenjulega háværa kæla.  Hafi heilbrigðisfulltrúi farið í íbúð á efri hæðinni og ætlað að gera hljóðmælingar en enginn hávaði hafi borist upp sem greinanlegur hafi verið á hljóðmæli.

Kærendur hafi komið fram mótmælum sínum í fyrrgreindu bréfi dags. 22. mars, 2004.  Ítreka þeir að slökkt verði á kælum,  lýsa samskiptum við rekstraraðila og gera athugasemdir við vinnubrögð kærða.

Í svarbréfi kærða dags. 30. mars, 2004, komi fram að niðurstaða heilbrigðisnefndar sé sú að umkvörunarefnið verði ekki leyst með vísun til reglugerðar um hollustuhætti og geti kærði ekki komið frekar að lausn málsins.  Afstaða nefndarinnar byggist á því að rannsókn hafi leitt í ljós að ekki væri hægt að sannreyna kvörtunina.  Þrír starfsmenn kærða hafi komið á vettvang á mismunandi tímum vegna þessa.

Kærði telur að ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til að taka málið til meðferðar að nýju.  Rétt sé sem fram komi í erindi kærenda að ýmis gögn frá fyrri tíð sé unnt að nálgast hjá kærða.

Eins og áður er komið fram voru framkvæmdar viðbótar mælingar að næturlagi í október.  Í svarbréfi kærða v. þessa, dags. 14. október, kemur fram að niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins sé sú að frekari aðkoma eða framkvæmd úrbóta í fjöleignahúsinu verði ekki á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Í niðurstöðu skýrslu vegna nýju mælinganna kemur fram að greina hafi mátt lágværan niðu í íbúðinni.  Ennfremur að mælingar gefi til kynna að talsvert sé af lágtíðnihljóðum í húsinu.  Þá segir í niðurstöðu:” Aðkoma heilbrigðiseftirlits takmarkast við ákvæði reglugerða eins og þær eru hverju sinni.  Í gildi er reglugerð um hávaða nr.933/1999 með síðari breytingum.  Mældur hávaði í íbúðinni er innan þeirra hávaðamarka sem reglugerðin telur að fólk verði að una við.  Munur á styrk lágtíðnihljóða í íbúðinni og styrk alls heyranlega hljóðsviðsins var einnig innan þeirra marka sem norrænar leiðbeiningar heimili að grípa megi til fráviksreglna í útreikningi til verndar íbúum.  Í raun gildir það sama þó svo gripið yrði til fráviksreglunnar og hljóðmælingar leiðréttar með tilliti til lágtíðnihljóðs, hávaðinn yrði sem fyrr innan þeirra marka sem reglugerð kveður á um. “

IV.

Mál þetta snýst um hávaða og hávaðamælingu.  Hlutverk úrskurðarnefndar er að ganga úr skugga um að kærði hafi unnið í samræmi við þau lög og reglugerðir sem við eiga í málinu. Í 16. gr. rgl. nr. 941/2002 um hollustuhætti er ónæði “veruleg og ítrekuð truflun eða áreiti sem tilheyrir ekki því umhverfi sem um ræðir s.s. vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, titrings, geislunar eða varmaflæðis”.  Í mælingum þeim sem kærði hefur unnið vegna kvartana kærenda hefur ekki mælst hávaði yfir viðmiðunarmörkum.  Í niðurstöðu vegna prófana sem framkvæmdar voru að næturlagi nú í október kemur fram að mældur hávaði í íbúðinni sé innan þeirra hávaðamarka sem reglugerðin telur að fólk verði að una við.  Sama gildir þó unnið yrði eftir fráviksreglum í útreikningi til verndar íbúum. Með tilvísan til framangreinds er ekki  unnt að fallast á kröfur kærenda í málinu. Ekki er í verkahring úrskurðarnefndar að gefa út vottorð sem kærendur gera kröfu um.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ekki er fallist á kröfu kærenda um aðgerðarleysi kærða.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                        Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 11/2/04