Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2004 Úrskurður vegna kæru Impregilo S.p.A. gegn Heilbrigðiseftirliti Auslurlands.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2005 þriðjudaginn 25. janúar, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2004  Impregilo S.p.A gegn Heilbrigðiseftirliti Austurlands.  

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

I.

Stjórnsýslukæra Þórarins V. Þórarinssonar hdl. fyrir hönd Impregilo S.p.A., hér eftir nefnt kærandi,  er dags. 22. september 2004, en barst úrskurðarnefnd í byrjun október  2004.  Krefst lögmaðurinn þess f.h. kæranda að ákvörðun kærða frá 16. ágúst s.l. um álagningu dagsekta og áminningu verði felld úr gildi. Gögn sem kærunni fylgdu eru :

1)           Afrit af starfsleyfi til handa Impregilo S.p.A. fyrir starfsmannabúðir á Laugarási, Main Camp, við Kárahnjúka á Norður-Héraði.

2)           Afrit af starfsleyfi til handa Impregilo S.p.A. fyrir starfsmannabúðir og mötuneyti við Tungu, Adit 3, Norður-Héraði.

3)           Afrit af leiðbeinandi reglum fyrir starfsmannabúðir.

4)           Afrit af fundargerð 49/18 fundar heilbrigðisnefndar Austurlands 13. ág. 2004.

5)           Afrit af bréfi Heilbrigðiseftirlits Austurlands dags. 16. ágúst, 2004 til kæranda, áminning og frestur og tilkynning um dagsektir ef ekki verði úrbætur.

6)           Yfirlit yfir vaska  og uppsetningu þeirra.

7)           Afrit innheimtubréfs Lögheimtunnar  vegna álagðra dagsekta.

Afrit af gögnum kæranda var sent Heilbrigðiseftirliti Austurlands,  hér eftir nefnt kærði,  sem skilaði greinargerð dags. 7. nóvember 2004.  Gögn sem greinargerðinni fylgdu eru :

1)      Fskj. 1. Samskipti kærða og kæranda sem varða ræstiaðstöðu og ræstilaugar.

2)      Fskj 2.  Bókanir heilbrigðisnefndar vegna starfsemi kæranda á virkjanasvæði.

3)      Fskj. 3.  Starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits fyrir starfsmannabúðir.

4)      Viðauki 1.  Bréf dagsett og afhent þann 5. ágúst 2004, varðandi ræstiaðstöðu í svefnskálum í aðalbúðum kæranda á Laugarási við Kárahnjúka og á Adit 3, Tungu, hvort tveggja í Norður-Héraði.

5)      Viðauki 2.   Bréf dags 16. ágúst, 2004. Áminning og frestur sem og tilkynning um dagsektir ef ekki verður bætt úr hvað varðar ræstiaðstöðu í svefnskálum starfsmannabúða kæranda á Laugarási og Tungu.

6)      Sýnishorn af teikningum af svefnskálum sem um ræðir.

Afrit greinargerðar og gagna frá kærða var sent lögmanni kæranda sem ritaði greinargerð dags. 24. nóvember 2004.

II.

Eins og fram er komið eru kröfur kæranda að ákvörðun kærða dags. 16. ágúst 2004 um álagningu dagsekta og áminningu með vísan til 26. gr. l. um hollustuhætti nr. 7/1998 með síðari breytingum og 70. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, verði felld úr gildi.  Kærandi greinir frá málavöxtum sem séu þeir að kærandi annist umfangsmikla verktöku fyrir Landsvirkjun við Kárahnjúka á Austurlandi.  Þær starfsmannabúðir sem málið varði hafi verið pantaðar, samsettar og byggðar árið 2003, miðað við þær kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda sem þá voru í gildi, sbr. leiðbeinandi reglur um starfsmannabúðir dags. janúar 2002, útg. af kærða.  Frágangi hafi endanlega verið lokið í ársbyrjun 2004.  Kveður kærandi að hann hafi fengið útgefið starfsleyfi til reksturs starfsmannabúða við Kárahnjúka í aðalbúðum I á Laugarási og í Tungu við aðkomugöng 3.  Um sé að ræða svefnskála fyrir allt að 724 manns í 30 svefnskálum auk íbúðarhúsa að Laugarási annars vegar og hins vegar svefnskálar fyrir allt að 150 manns í 6 skálum og tveim húsum, mötuneyti fyrir íbúa, vatnsveitur og fráveitu sem þjóni aðstöðunni í aðkomu 3 í Tungu. Kærandi kveður að í starfsleyfi kærða fyrir starfsmannabúðir á Laugarási, sem gefið hafi verið út 3. janúar 2004, sé getið um skilyrði er varði kröfu um að ræstiaðstöðu og forstofu verði komið í rétt horf sbr. ákvæði í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 hið fyrsta og ekki seinna en 1. apríl 2004.  Ekki er frekari tilvísun til annarra skilyrða.  Starfsleyfi fyrir Tungu var gefið út 1. febrúar 2004.  Í því er tilgreint að farið skuli eftir starfsreglum fyrir starfsmannabúðir og mötuneyti frá kærða og á hér hið sama við og fyrr, að hvergi er vikið orði að nauðsyn þess að hafa sérstaka ræstilaug í hverjum skála.

Kveður kærandi að byggð hafi verið upp starfsmannaaðstaða fyrir framkvæmdirnar við Kárahnjúkavirkjun í samræmi við kröfur íslenskra laga, reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla. Hafi starfsleyfi verið útgefið með tilteknum skilyrðum skv. almennum útgefnum reglum og hafi verið farið að þeim.  Þannig séu allir skálarnir útbúnir með sérstakri geymslu fyrir ræstiáhöld, efnavörur og rekstrarvörur sem þarf fyrir slíka skála.  Því telur hann ótvírætt að búðirnar hafi fullnægt lögmæltum kröfum þegar starfsleyfi hafi verið gefin út í upphafi árs 2004.  Hafi það því komið kæranda á óvart þegar fulltrúi kærða ámálgaði að settar yrðu upp sérstakar ræstilaugar í öllum húsunum.  Þar eð kærandi hefur viljað kosta kapps um að hafa gott samstarf við íslensk yfirvöld var leitað leiða til að verða við þessum kröfum og fannst ásættanleg aðferð sem fulltrúi kærða virtist sætta sig við.   Vísar lögmaður kæranda til þess að með þann stutta framkvæmdatíma sem á hálendinu sé, verði  mikið álag að nýta þann tíma sem best.  Þá hafi ennfremur verið í gangi umfangsmikil endurnýjun á búðunum m.a. tvöföldun á þaki flestra svefnskála til að vinna á lekavandamáli sem gert hafði vart við sig áður.  Þá höfðu hafist framkvæmdir við breytingar á ræstiaðstöðu til samræmis við óskir kærða og það eins þótt þær kröfur væru ekki í samræmi við skilmála fyrir útgefnum starfsleyfum s.s. áður hafi komið fram.  Vísar lögmaður kæranda til þess að í ljósi framangreinds hafi það komið forráðamönnum kæranda mikið á óvart þegar þeim var kynnt að í fundargerð 49/18 fundar heilbrigðisnefndar Austurlands þann 13.ágúst 2004 væri þess getið að nefndin veiti kæranda skriflega áminningu og einnar viku frest til að uppfylla ákvæði hollustuháttareglugerðar og starfsleyfisskilyrða með vísan til 26. gr. l. um hollustuhætti og 70. gr. hollustuháttareglugerðar.  Ennfremur komi fram í fundargerð að verði úrbótum ekki lokið fyrir 20. ágúst muni verða lagðar á dagsektir sem nemi kr. 1000,- pr. dag pr. svefnskála þar til allir svefnskálar verði komnir með ræstiaðstöðu, annars vegar í starfsmannabúðum á Laugarási og hins vegar í Tungu.  Ákvörðun kærða var tilkynnt kæranda með bréfi dags. 16. ágúst 2004 og veittur einnar viku frestur til að uppfylla skilyrði.  Kærði bendir á að raunverulegur frestur hafi einungis verið 4 dagar, því bréf kærða hafi verið afhent 16. ágúst og frestur veittur til 20. ágúst.  Innheimtubréf hafi borist kæranda dags. 1. september, þar sem vísað hafi verið til kröfu vegna dagsekta fyrir tímabilið 21. ágúst –30. ágúst 2004 að báðum dögum meðtöldum.

Kærandi vísar til þess um málsástæður að í rgl. 941/2002 í 7. mgr. 14. gr. sé getið um að sérstakt loftræst rými skuli vera fyrir ræstiáhöld og ræstilaug, þar sem það á við.  Nánari tilgreining á því hvers konar rými skuli vera eða hvar það skuli vera sé þar ekki að finna.  Þannig verði ekki séð að endilega sé skylt að hafa slíka aðstöðu í hverjum skála í bráðabirgðabústöðum af þessum toga, heldur geti fleiri en einn skáli samnýtt slíka aðstöðu þar sem hún sé fyrir hendi.  Lykilatriðið hér sé að það sé lagt á vald viðkomandi heilbrigðisnefndar að meta hvort nauðsynlegt sé að gera kröfu um sérstakt loftræst rými með ræstilaug í hverjum skála.  Lögmaður kæranda vísar og til þess að í leiðbeinandi reglum kærða fyrir starfsmannabúðir dags. í janúar 2002, sé þess einungis getið að sérstakt geymslurými skuli vera fyrir ræstingaráhöld og efnavörur, en hvergi sé minnst á sérstaka ræstilaug og telur því kærandi að búðirnar hafi uppfyllt kröfur að þessu leyti við útgáfu starfsleyfis.  Kærandi vísar til þess að í starfsleyfi fyrir starfsmannabúðir á Laugarási sé skilyrði starfsleyfis lýst sem svo að ræstiaðstöðu verði komið í rétt horf og vísað til meðfylgjandi starfsreglna fyrir starfsmannabúðir kærða.  Telur því kærandi að ekki verði betur séð en að krafan lúti eingöngu að því að geymslurými sé í búðunum fyrir efnavörur og ræstingaáhöld.  Þrátt fyrir að þetta hafi verið til staðar hafi kærði tekið þá ákvörðun að sekta fyrir vöntun á ræstilaug í þeim skálum sem slík laug hafi ekki verið fyrir hendi í ræstingageymslum skálanna í búðunum í Tungu.  Telji kærandi því að forsendur bresti fyrir slíkri ákvörðun með hliðsjón af því að búðirnar hafi tvímælalaust uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir þær þegar þær voru reistar.  Kærandi bendir á að eftir útgáfu starfsleyfa fyrir starfsmannabúðir í Laugarási og Tungu hafi tekist samkomulag með kæranda og kærða um að kærandi léti setja upp ræstilaug í hverjum skála í búðunum.  Unnið hafi verið að þeim uppsetningum í ágúst og september 2004.  Lögmaður kæranda vísar til þess að við beitingu þvingunarúrræða hollustulaga verði stjórnvöld að byggja slíkar ákvarðanir á lögmætum forsendum og af meðalhófi. Vísað er ennfremur til þess að kærði hafi tekið ákvörðun um að sekta fyrir vöntun á ræstilaugum í þeim skálum þar sem slík laug hafi ekki verið fyrir hendi í ræstingarrými í báðum búðum.  Telur kærandi enn á ný að séu skilyrði þau skoðuð sem til staðar voru þegar búðirnar voru byggðar verði ekki séð að ákvörðun kærða hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum.

Enn er á það bent af kæranda að ákvörðun kærða um álagningu dagsekta fjórum dögum eftir að bréfleg tilkynning hafi verið send, hafi haft í för með sér grundvallarbreytingar á um fjórða tug salernisklefa þar sem salerni skyldu fjarlægð og sérstakur ræstivaskur settur upp í staðinn. Þetta sé verulegt verkefni sem kalli bæði á aðföng og mannskap.  Því hafi verið fyrirsjáanlega ógerlegt að ljúka verkinu fyrir tilskilinn frest og að ákvörðunin hafi því ekki haft þann lögmæta tilgang að ýta með hóflegum hætti á eftir tiltekinni framkvæmd heldur hafi hún falið í sér ákvörðun um tekjuöflun handa kæranda með þessum hætti.  Vísar kærandi til þess að mjög sérstakt og umdeilanlegt sé hvað lögmæti varði að stjórnvald fái aukið tekjur sínar með álagningu sekta eða annarra refsikenndra viðurlaga s.s. gildi um kærða.  Verði við þær aðstæður a.m.k. að vera hafið yfir allan vafa að þolandi dagsekta eigi raunverulegan kost á að komast hjá sektum með því að fara að vilja og lögmætum fyrirmælum yfirvalds.  Sé frestur settur svo naumur að ekki verði með sanngirni ætlast til að kröfur verði uppfylltar á þeim tíma, jafngildi það álagningu og innheimtu gjalds til handa kærða, gjalds sem kærandi telur ekki lögmætar forsendur fyrir.  Kærandi árettar að hann telji að refsikennd sektarákvörðun heilbrigðisnefndar eigi sér ekki stoð í tilvitnuðum ákvæðum reglugerðar og leiðbeinandi reglna og starfsleyfa fyrir umræddar búðir.  Sérstaklega mótmælir kærandi innheimtuaðferðum kærða og þeim kostnaði sem þeim fylgir.  Þá er innheimtukostnaði mótmælt sérstaklega.

Í umsögn kæranda um greinargerð kærða dags. 24. nóvember, 2004 ítrekar lögmaður kæranda að kæruefnið lúti að ákvörðun kærða frá 16. ágúst, 2004 um álagningu dagsekta og áminningar varðandi starfsmannabúðir í aðalbúðum og í Tungu við Kárahnjúka.  Ekki sé kæruefni annað en þetta og mótmælir því kærandi framlögðum gögnum kærða þar sem umfjöllun  sé um aðra starfsemi kæranda.  Kærandi vísar til þess að grunnkröfum laga um ræstiaðstöðu í starfsmannabúðum sé ekki til að dreifa.  Ákvæði reglugerðar nr. 941/2002 sé ónákvæmt og nánari tilgreiningu á því hverskonar rými skuli vera fyrir hendi í starfsmannabúðum eða hvar sé ekki þar að finna.  Matið skv. tilgreindu ákvæði sé lagt í hendur viðkomandi heilbrigðisnefndar.  Kærði hafi gefið út leiðbeiningar árið 2002 um starfsmannabúðir sem hafðar hafi verið til hliðsjónar við byggingu búðanna árið 2003.  Í þeim komi ekkert fram um ræstilaug.  Mótmælir lögmaður kæranda því sérstaklega að hlutir sem séu varanlega skeyttir við fasteign s.s. vaskar geti flokkast sem “áhöld”

Lögmaður kæranda vísar til þess að í starfsleyfi fyrir starfsmannabúðir á Laugarási, aðalbúðir hafi sérstaklega verið vísað til leiðbeinandi reglna frá 2002.  Þegar starfsleyfi hafi verið gefið út fyrir starfsmannabúðir við Tungu, Adit 3 hafi verið vísað til samræmdra starfsleyfisskilyrða sem hafi stuttu áður verið samþykktar.  Þar komi fram að aðgangur skuli vera að ræstiaðstöðu og skolvaski.  Orðalag þetta sé ekki krafa um að ræstiaðstaðan sé í sama húsnæði og hver skáli.  Óumdeilt sé að aðgangur sé tryggður að sérstakri ræstiaðstöðu og skolvaski innan búðanna að Tungu.  Vísar lögmaður kæranda til þess að almennt hafi verið talið að stjórnvaldi sé óheimilt að setja frekari og meira íþyngjandi skilyrði fyrir starfsleyfi en lög og reglugerðir kveði á um.  Kröfur þær sem settar hafi verið fram í samræmi við útgefnar leiðbeinandi reglur hafi verið uppfylltar af kæranda.  Kærandi ítrekar enn á ný að hann telji að kærði hafi brotið á sér grundvallarreglur stjórnsýslulaga með því að ákveða honum dagsektir með einungis fjögurra daga fyrirvara frá því ákvörðun hafi verið tekin þar til sektir skyldu falla á, þegar ljóst var að ekki yrði unnt að verða við kröfunum innan þeirra tímamarka.  Hann telur því að kærði hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga með þessari ákvörðun, ekki síst í ljósi þess að kærði hafi vitað að umbeðnar endurbætur væru þegar hafnar.

III.

Eins og fyrr er getið er greinargerð kærða dags. 7. nóvember, 2004.  Kemur fram í upphafi greinargerðar að mat kærða sé að efnislega gangi kæra út á eftirfarandi :

1)        Dregið sé í efa að ræstivaskur flokkist sem ræstiáhald.

2)        Hvort réttmætt sé og lagastoð fyrir því að gera kröfu um ræstiaðstöðu í svefnskálum í starfsmannabúðum

3)        Hvort kærði hafi komið því nægilega skýrt á framfæri við kæranda að kærði gerði slíka kröfu.

Gerir kærði fyrst grein fyrir þessum efnisatriðum og fjallar síðan um kærubréf kæranda.

1)      Kærði vísar til þess að vatn sé nauðsynlegt til þrifa á húsnæði .  Umsagnir um nýbyggingar fari alla jafna í gegnum byggingarnefndir sveitarfélaga og í byggingarreglugerð segi um ræstiklefa í öðrum húsum en þeim sem séu til íbúðar, að þar  skuli vera fullnægjandi loftræstir ræstiklefar er rúmi ræstivask og ræstibúnað.  Kærði vill taka fram að starfsmannabúðir flokkist ekki sem íbúð enda ekki um varanlegt húsnæði að ræða og starfsemin líkari atvinnuhúsnæði.en heimili.  Vísar svo kærði til þess að mannvirki á Kárahnjúkasvæði hafi ekki farið í hefðbundið umsagnarferli en ljóst sé að gert sé ráð fyrir því að svo sé sbr. 14. gr. rgl.   Telur því kærði ljóst að í umræddri setningu úr starfsreglum kærða fyrir starfsmannabúðir frá 2002 sé gert ráð fyrir þeim skilningi á orðinu ræstigeymsla sem getið sé um í 14.gr.  Hafi orðalag því verið fært inn í samræmdar starfsreglur Umhverfisstofnunar og kærða fyrir starfsmannabúðir frá janúar 2004 en þar komi fram að aðgangur skuli vera að sérstakri loftræstri ræstiaðstöðu og skolvaski o.sv. frv.

2)      Kærði telur augljóst að þar sem 17-20 manns af ólíkum uppruna sofi í sama húsi og samnýti alla hreinlætisaðstöðu þurfi að vanda þrif og búa þá aðstöðu að unnt sé að þrífa almennilega.  Ekki sé ásættanlegt að ætla ræstitæknum að bera vatn, efni og áhöld milli húsa við þær aðstæður sem fyrir hendi séu á Íslandi.  Vísar kærði til þess að mat kærða sé einnig í samræmi við hollustuháttareglugerð, byggingarreglugerð, starfsreglur og það sem fram kemur hér að ofan að nauðsynlegt sé að hafa í hverjum svefnskála innangengi að ræstigeymslu með ræstivaski og rými til að geyma ræstiefni og áhöld.  Í tilgreindri rgl. 941/2002 sé lagt í hendur heilbrigðisnefndar að meta hvenær sé réttmætt að gera kröfu um þessa aðstöðu og í starfsleyfisskilyrðum Umhverfisstofnunar og kærða fyrir starfsmannabúðir frá 2004 sé þetta skýrt tekið fram.  Kærði bendir á að kærandi hafi ekki andmælt kröfu um eða neytt andmælaréttar þegar kröfur hafa verið gerðar um úrbætur vegna skorts á ræstiaðstöðu með ræstilaug.

3)      Kærði telur að óyggjandi sé að upplýsingum um kröfur um fullbúna ræstiaðstöðu hafi oftar en einu sinni verið komið á framfæri við kæranda og einnig hafi kærandi aldrei mótmælt kröfu þessari eða neytt andmælaréttar þegar kröfur um úrbætur á þessu sviði hafi verið settar fram.  Vísar kærði til þess að kærandi hafi frekar komið fram með upplýsingar um að búið sé að kaupa ræstivaska og stutt sé í að þeir verði settir upp.  Tekur kærði máli sínu til stuðnings tvö dæmi annað úr fundargerð samráðsfundar frá 20. Október 2003 og hitt úr eftirlitsskýrslu fyrir Main Camp dags. 31.01.2004.

Í greinargerð sinni setur kærði fram athugasemdir við fullyrðingar kærða í

stjórnsýslukæru.

Fullyrðingu kæranda um að starfsmannabúðirnar hafi verið samsettar og byggðar miðað við kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda svarar kærði því að byggingaryfirvöld hafi ekki aðkomu að mannvirkjagerð og málefnum á virkjanasvæði aðra en skipulagslega.   Því sé umsagnarferli um teikningar og starfsleyfisvinnslu óvenjulegt og verkefnum að hluta til varpað til kærða án þess að nokkur úrræði fylgi.  Kærði vísar um þetta enn á ný til 14. gr. rgl. nr. 941/2002 um að sérstakt loftræst rými skuli vera fyrir ræstiáhöld og ræstilaug þar sem það eigi við.   Kveður kærði koma fram í texta úttektarskýrslna og bréfa fyrir Adit 3 og aðalbúðir kæranda að krafa var strax gerð um ræstilaugar í ræstikompur, enda þá þegar unnið í samræmi við það en kærandi hafi ekki nýtt sér andmælarétt varðandi þetta.

Yfirlýsingu lögmanns kæranda um  að í starfsleyfi kæranda fyrir

starfsmannabúðir á Laugarási sem gefið hafi verið út 3. janúar 2004 sé getið um skilyrði varðandi kröfu um að ræstiaðstöðu og forstofu verði komið í rétt horf og að  ekki séu frekari tilvísanir til annarra starfsleyfisskilyrða, svarar kærði með því að vísa í eftirlitskýrslu sem fylgdi starfsleyfi aðalbúðanna.  Þar  komi fram að innrétta þurfi hillur og ræstivaska eins og búið sé að gera í vinnubúðunum á Teigsbjargi og Axará.  Svar kærða við því að í starfsleyfi fyrir Tungu sé hvergi vikið orði að nauðsyn þess að hafa sérstaka ræstilaug í hverjum skála svarar kærði því að í eftirlitsskýrslu vegna starfsleyfisvinnslu komi þetta skýrt fram, þar sé haft eftir starfsmanni kæranda að ræstilaugar séu ekki komnar.

Öðrum fullyrðingum kæranda um ræstilaugar svarar kærði með sömu

rökum og vísar til vinnslugagna.   Kærði ítrekar að kæranda hafi verið afhent

bréf 5. ágúst 2004 sem hafi verið tilkynning um fyrirhugaða áminningu og dagsektir þar til bætt hafi verið úr að fullu og jafnframt hafi kæranda gefist kostur á andmælum sem skila hafi átt fyrir 12. ágúst 2004.

Hvað varðar gagnrýni kæranda á gefinn frest svarar kærði því til að af texta í bókun heilbrigðisnefndar sé ljóst að frestur hafi í raun verið til 26. ágúst, en þá fyrst hafi átt að innheimta dagsektir.  Hefði verkum verið lokið þann dag hefði ekki komið til innheimtu dagsekta eins og reyndar sé raunin í aðalbúðunum.  Í Ad 3 hafi hins vegar ekki verið hafin vinna við uppsetningu ræstilauga fyrr en í september og hafi því verið sendir út reikningar vegna dagsekta frá 21. ágúst til 30. ágúst.  Velvilji kærða í garð kæranda hafi endurspeglast í því að ákveðið hafi verið að innheimta ekki dagsektir í aðalbúðum, þó farið væri 4 daga fram yfir þann frest.  Í Ad. 3 hafi hins vegar ekki einu sinni verið hafin vinna við uppsetningu ræstilauga í lok mánaðarins og því hafi kærði ekki komist hjá því að beita þeim úrræðum sem hann hefur.  Kærði mótmælir því að samkomulag hafi tekist um uppsetningu ræstilauga.  Kærði minnir á að í Ad 1 og 3 hafi verið löngu búið að setja upp ræstivaska í samræmi við umsagnir um teikningar.    Kærði mótmælir því að nauðsynlegt hafi verið að breyta salernisklefum, leysa hafi mátt kröfu um ræstiaðstöðu á annan máta og eina krafan hafi verið að settir yrðu upp ræstivaskar.  Kærði mótmælir því að ekki hafi verið mögulegt að ljúka verkinu fyrir gefinn frest.  Bendir kærði á að í gögnum málsins hafi komið fram að skv. upplýsingum starfsmanna kæranda í janúar 2004 hafi verið búið að panta ræstilaugar fyrir Ad 3,  og ennfremur að skv. mati fyrirtækisins í október 2003, hafi einungis þurft um tvær vikur til að ljúka uppsetningu þeirra í aðalbúðunum.  Frestur til framkvæmda hafi verið yfrið nógur að mati kærða.  Kærði mótmælir harðlega fullyrðingum um að kærandi vilji nota kærða sem féþúfu, enda sé fjárhæð dagsekta stillt mjög í hóf og tilgangur einungis sá að tryggja að þrif og aðstaða til þrifa séu fullnægjandi.  Athugsemd kæranda um að það þurfi að vera hafið yfir allan vafa að þolandi dagsekta eigi raunverulegan kost á að komast hjá sektum með því að fara að vilja og lögmætum fyrirmælum, svarar kærandi þannig að ávallt sé hægt að komast hjá dagsektum með því að fara að lögum og lögmætum fyrirmælum.  Telji eftirlitsþegi að fyrirmæli stjórnvalds séu ekki lögmæt á hann þess ætíð kost að nýta sér andmælarétt skv. stjórnsýslulögum.  Kærði telur að þegar fyrirtæki sinni hvorki fyrirmælum, áminningum, gefnum frestum né heldur andmæli stjórnvaldsfyrirmælum eða geri athugasemdir vegna þeirra eigi heilbrigðisnefnd sem stjórnvald fárra kosta völ annarra en þeirra þvingunarúrræða sem l.nr. 7/1998 leggi henni í hendur.  Mat heilbrigðisnefndar hafi verið að dagsektir hafi verið vægasta tækið sem lög leggi henni í hendur til að ná fram tilskyldum úrbótum.  Búið hafi verið að áminna, veita fresti og hafi valið staðið á milli dagsekta og lokunar eða takmörkunar á starfsemi.  Hafi því sektir verið tvímælalaust vægari kosturinn.

Til viðbótar greinargerð leggur kærði fram nokkur fylgiskjöl.  Eitt þeirra er um samskipti kærða og kæranda vegna ræstiaðstöðu og ræstilaugar í svefnskálum allra starfsmannabúða á vegum kæranda.  Um er að ræða fjórar búðir, Adit 1, Adit 2, Adit 3 og aðalbúðir.  Vísar kærandi til þess að þótt Adit 1 og Adit 2 séu ekki efni framlagðrar kæru þá gildi umsagnir um teikningar af þeim skálum einnig fyrir Adit 3 og aðalbúðirnar, enda vísað til þessa í umsóknum um starfsleyfi.

IV.

Kærandi krefst ógildingar á áminningu og ákvörðun kærða um dagsektir.  Kærði krefst þess að aðgerðir sínar verði staðfestar. Málavextir og málsástæður eru raktar í löngu máli bæði frá kæranda og kærða.  Líta verður svo á að álagning dagsekta hafi verið réttmæt miðað við forsögu málsins, en horfa verður til þess að of skammur frestur leið frá því ákvörðun um dagsektir var tekin þar til þeim var beitt.  Þá var frestur til andmæla ekki liðinn.  Þá er og rétt að benda á að  formleg áminning og dagsektir eru tilkynntar í sama bréfi, en með áminningu hlýtur að eiga að veita eðlilegan frest til úrbóta, áður en til beitingar dagsekta kemur.  Þá verður ennfremur að líta til þess að ákvörðun um dagsektir sem þvingunarúrræði hafði náð tilgangi sínum með úrbótum sem lokið var 9. september s.l.   Fallast má því á með kæranda að ákvörðun um beitingu dagsekta með fjögurra daga fyrirvara sé of skammur tími.

Nefndin tekur ekki afstöðu til réttmætis kærða til að krefjast umræddra úrbóta á ræstiaðstöðu, enda lítur nefndin svo á að eingöngu sé verið að kæra álagningu dagsekta og áminningu.  Ljóst er og af gögnum málsins að kærði hefur ekki nýtt sér andmælarétt sinn í máli þessu varðandi tilmæli kærða um úrbætur.  Nefndin telur að áminning geti staðið óhögguð, enda ekki um íþyngjandi ákvörðun stjórnvalda að ræða og kynnt með hæfilegum fyrirvara.

ÚRSKURÐARORÐ:

Álagning dagsekta  er felld úr gildi.  Áminning kærða stendur óhögguð.

 Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                      Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 2/2/05