Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

104/2020 Þúfukot

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lögbýlisins Þúfukots í Kjósarhreppi þá ákvörðun hrepps­nefndar Kjósarhrepps að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun sveitarfélagsins um breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús og breytta notkun húss þess er stendur á umræddri lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 18. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 29. ágúst 2019 tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps fyrir á fundi sínum beiðni þess efnis að notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr landi Þúfukots yrði breytt úr frístundalóð í lóð undir íbúðarhús. Nefndin tók jákvætt í erindið og vísaði því til sveitar­stjórnar. Hreppsnefnd Kjósarhrepps staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 8. október 2019 með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðar­nefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 27. mars 2020 í kærumáli nr. 115/2019. Var í úrskurðinum bent á að skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væri óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Því lægi ekki fyrir ákvörðun í málinu sem byndi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Kjósarhrepps mun hafa móttekið 23. júní 2020 hnitsettan uppdrátt lóðarinnar Þúfukot 4, Nýjakots. Hinn 18. ágúst s.á. stimplaði skipulags- og byggingarfulltrúi uppdrátt fyrir mannvirki á lóðinni með undirrituðun hönnuðar þar sem vísað var til gr. 10.1.2. og 12.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sama dag skrifaði skipulags- og byggingarfulltrúi undir skjal með fyrirsögninni „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“, þar sem m.a. kom fram að mannvirkið á umræddri lóð uppfyllti skilyrði til að vera „samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum megin atriðum.“ Vakti skipulags- og byggingarfulltrúi jafnframt athygli á að einangrunargildi hússins væri samkvæmt eldri reglugerð og uppfyllti því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Skyldi leitast við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að það hafi verið fyrir tilviljun að hann hafi komist að því að búið væri að breyta skráningu Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar komi fram að mannvirki á lóðinni væri skráð á byggingar­stig 4 (fokhelt) og matsstig 8 (ólokið, tekið í notkun). Út frá þeim upplýsingum verði að gera ráð fyrir að tekin hafi verið ný ákvörðun af hálfu hreppsnefndar um að heimila breytta notkun lóðarinnar. Sú ákvörðun sé ólögmæt þegar af þeirri ástæðu að kærandi hafi ekki fengið að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð málsins, sbr. 13. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd lóð sé innan landareignar kæranda, Þúfukots, og því hafi breytt notkunar lóðarinnar augljóslega veruleg áhrif á hagsmuni hans. Sveitarfélaginu hafi verið vel kunnugt um afstöðu kæranda í málinu og hafi því borið að veita honum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hin skilyrta ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hafi verið háð ýmsum efnis­annmörkum. Ljóst sé að umsókn um breytingu lóðarinnar hafi einungis stafað frá öðrum eiganda hennar, en skráðir eigendur lóðarinnar séu tveir. Úr þessu hafi ekki verið bætt með fullnægjandi hætti. Þá hafi ákvörðuninni verið vísað til hreppsnefndar af skipulags- og byggingarnefnd, en á fundi nefndarinnar 29. ágúst s.á. hafi einungis verið bókað um að jákvætt væri tekið í erindið en engin tillaga hafi fylgt frá nefndinni. Hvorki efnisleg né málefnaleg ákvörðun hafi verið tekin um hvort breyta eigi landnotkun lóðarinnar. Það sé heldur ekki á færi skipulags- og byggingarnefndar að taka málið til fullnaðarafgreiðslu, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Bent sé á að staðsetning lóðarinnar sé innan jarðar kæranda og því ljóst að lóðarmörkin verði ekki ákveðin án aðkomu hans. Hafi hnitsettur lóðaruppdráttur verið afhentur sveitarfélaginu en sé ekki sé hægt að byggja ákvörðun á honum þar sem aðilar beggja vegna lóðarmarka þurfi að samþykkja ytri mörk hennar.

Kæranda sé ekki kunnugt um að málið hafi verið tekið fyrir af byggingarfulltrúa. Ekki fáist séð hvernig skráning mannvirkisins samrýmist 1. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr., laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hið skráða byggingarstig staðfesti í raun að ekki sé heimilt að breyta skráningu á notkun lóðarinnar. Á lóðinni standi fullkláraður sumarbústaður en hann sé nú skráður sem fokhelt og óklárað íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá. Því gefi auga leið að sumar­bústaðurinn uppfylli ekki kröfur til að vera skráður sem íbúðarhús. Mjög mikilvægt sé að fasteignir séu skráðar til samræmis við raunverulegt ástand og notagildi þeirra. Virðist sem um einhverskonar málamyndaskráningu sé að ræða. Þá liggi heldur ekki fyrir hvort umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið leitað. Liggi fyrir leyfi byggingarfulltrúa um breytta skráningu sé ljóst að leyfið sé ógildanlegt í ljósi framangreinds.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé hin umrædda lóð innan svæðis sem skilgreint sé sem landbúnaðarland. Samkvæmt stofnskjali lóðarinnar frá 2007 hafi hún verið stofnuð sem frístundalóð og henni síðan afsalað til eigandans. Sé það andstætt þágildandi skilmálum nefnds aðalskipulags þar sem svæðið hafi verið skilgreint sem landbúnaðarland. Samkvæmt stefnumörkun þess skipulags hafi mátt reisa þrjú frístundahús á landbúnaðarsvæði en þau skyldu þó standa í grennd við hvert annað. Stofnun lóðarinnar í öndverðu hafi því verið ólögmæt. Í núgildandi aðalskipulagi megi finna skilgreint frístundasvæði innan Þúfukots á svæði auðkenndu sem F6. Staðsetning Þúfukots 4, Nýjakots, sé utan þess svæðis. Nýtingar­hlutfall og stærð lóðar falli þó nær skilgreiningu á lóð fyrir frístundahús samkvæmt núgildandi aðalskipulagi en þar sé ekki gert ráð fyrir að íbúðarhúsalóðir séu að jafnaði minni en 0,5 ha. Umdeild lóð sé hins vegar aðeins 0,40 ha.

Í kafla 2.3.1 í gildandi aðalskipulagi komi fram almenn stefnumörkum um að staðsetja skuli alifuglahús í góðri fjarlægð frá annarri byggð. Þá sé þar vísað til þess að gerð sé grein fyrir lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Þó verði að skoða staðsetningu eldishúsa í hverju tilfelli fyrir sig og meta t.d. út frá ríkjandi vindátt og fjölda dýra. Fram komi í 6. gr. reglugerðarinnar að ákveða skuli í skipulags­áætlun hver fjarlægðarmörkin eigi að vera en í gildandi aðalskipulagi hafi ekki verið mörkuð stefna um það. Ekki hafi farið fram rannsóknar eða athuganir á ríkjandi vindátt eða fjölda dýra, eins og aðalskipulagið mæli fyrir um. Hin kærða ákvörðun sé því á engan hátt í samræmi við skilmála gildandi aðalskipulags. Einnig sé bent á að umsókn um breytingu landnotkunar hinnar umdeildu lóðar hafi verið hafnað í gildistíð Aðalskipulags Kjósarhrepps 2005-2017. Kærandi hafi því haft réttmætar væntingar til þess að ekki yrðu breytingar þar á þrátt fyrir gildistöku nýs aðalskipulags, enda ekkert í skilmálum hins nýja skipulags sem gefi tilefni til annars. Hin kærða ákvörðun fari því að öllum líkindum í bága við gildandi aðalskipulag.

Ekki liggi fyrir hver áform leyfishafa séu varðandi notkun lóðarinnar eða frekari skilmála. Fráleitt sé að slík áform liggi ekki fyrir þegar samþykki sé veitt fyrir eðlisbreytingu á lóð sem skipt sé út fyrir landabúnaðarland. Grundvallarmunur sé á þörf fyrir aðgengi að neysluvatni fyrir frístundahús og íbúðarhús með heilsársbúsetu. Ekki liggi fyrir með hvaða hætti öflun neysluvatns verði. Hið sama gildi um tengingu við hitaveitu, en staðsetning lóðarinnar liggi alls ekki vel við stofnæðum hitaveitu. Eigi slík tenging að fara fram verði það ekki gert án samþykkis kæranda. Einnig sé bent á að aðkomuvegur frá Eyrarfjallsvegi að fyrirhugaðri íbúðarhúsalóð liggi um land kæranda, en engir samningar liggi fyrir um slíka vegtengingu. Um leið og lögheimili fáist skráð þurfi að tryggja aðkomuveg samkvæmt vegalögum nr. 80/2007, en slíkt verði ekki gert án samþykkis kæranda.

Auk framangreinds sé ógildingarkrafa kæranda byggð á því að oddviti hreppsnefndar sveitar­félagsins hafi verið vanhæfur til þess að taka þátt í undirbúningi, meðferð og úrlausn mála sem kærandi sé aðili að eða vegna mála þar sem hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Í því sambandi sé vísað til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga og 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi orðið fyrir líkamsárásum og hótunum af hendi íbúa Þúfukots 4, Nýjakots, en íbúinn sé jafnframt fyrri eigandi lóðarinnar. Um þær deilur hafi verið fjallað í fjölmiðlum og þar hafi oddvitinn tekið afgerandi afstöðu með íbúanum. Þá hafi oddvitinn krafist þess í tölvupósti til fyrirsvarsmanns kæranda að hann hagaði sér eins og „siðaður maður“. Ljóst sé að oddvitinn hafi sýnt óvild í garð fyrirsvarsmanns kæranda og það opinberlega. Draga verði óhlutdrægni hans verulega í efa. Kveðið sé á um þrengri vanhæfisreglur í 20. gr. sveitarstjórnarlaga en almennt gildi skv. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þá kunni vanhæfi hans að leiða til vanhæfis undirmanna hans.

Málsrök Kjósarhrepps: Sveitarfélagið telur að sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrir breyttri notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, geti ekki komið til endurskoðunar þar sem kærandi hafi ekki haft uppi kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Að því marki sem það kunni að skipta máli sé ljóst að við þá afgreiðslu hafi skipulagsfulltrúi tekið afstöðu til þess hvort umrædd samþykkt samræmdist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki.

Lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr jörðinni Þúfukoti á árinu 2007. Í þágildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2017 hafi lóðin verið á svæði skilgreindu sem landbúnaðar­svæði. Fyrir liggi að skipulagsyfirvöld hafi á sínum tíma samþykkt stofnun lóðarinnar sem sérstakrar og afmarkaðrar fasteignar án þess að landið væri tekið úr landbúnaðarnotum, án þess að aðalskipulagi hefði verið breytt og án þess að gert væri deiliskipulag vegna þess. Í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé umrætt svæði enn skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Litið hafi verið svo á að unnt væri að breyta skráðri landnotkun án þess að gera breytingar á aðalskipulagi eða gera deiliskipulag fyrir þessa einu lóð. Umrædd lóð sé ekki lengur hluti af lögbýlinu Þúfukoti heldur sérstök og afmörkuð fasteign. Heimilt sé að samþykkja byggingu íbúðarhúss á landi sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi. Til þess hafi verið litið að ekki væri að sjá eðlismun á þeirri lóð og lóðunum Þúfukoti 1, Lyngholti og Þúfukoti 2, Hálsakoti, sem skráðar væru sem íbúðarhúsalóðir. Gildandi aðalskipulag útiloki ekki að íbúðarhúsalóðir geti verið minni en 0,5 ha þó þær skuli að jafnaði vera það í nýjum íbúðarhúsabyggðum.

Horft hafi verið til þess að undanfarin ár hafi umrædd lóð verið nýtt til fastrar búsetu og heilsársdvalar. Sveitarfélagið hafi þjónustað þá eign með sambærilegum hætti og önnur íbúðar­hús, s.s. varðandi sorphirðu. Með því að samþykkja breytta notkun liggi fyrir að heimilt yrði að skrá þar lögheimili, sem hefði væntanlega í för með sér auknar skatttekjur fyrir sveitarfélagið.

Í kafla 2.3.1 í greinargerð gildandi aðalskipulags komi fram að um lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð gildi reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um fjarlægðir og komi þar fram að eldi alifugla með bú ætluð fyrir fleiri en 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 stæði fyrir hænur skuli vera að lágmarki í 100 m fjarlægð frá byggð. Sé bú ætlað fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 6.000 stæði fyrir hænur skuli fjarlægð vera 50 m. Fjarlægð mannvirkis á lóð Þúfukots 4, Nýjakots, frá næsta alifuglabúi uppfylli skilyrði nefndrar 6. gr. reglugerðarinnar, hvort sem um sé að ræða íbúðarhúsnæði eða sumarbústað.

Almennt sé sú krafa gerð við stofnun lóða í sveitarfélaginu að mörk þeirra séu hnitsett þannig að enginn vafi geti verið um afmörkun þeirra. Af þessum sökum hafi þótt rétt, þegar leyfishafar hafi óskað eftir heimild til að breyta skráðri landnotkun, að setja skilyrði um hnitsetningu lóðarinnar. Ekkert hafi komið fram um að ágreiningur væri uppi milli kæranda og leyfishafa um hvar landamerki lóðanna Þúfukots og Þúfukots 4, Nýjakots, væru, en þau landamerki hafi verið ákveðin áður en kærandi hafi eignast Þúfukot. Þá sé það ekki á forræði eða valdsviði sveitarfélagsins að leysa úr slíkri landamerkjaþrætu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi móttekið hnitsettan uppdrátt en ekki verði séð að sú hnitasetning hafi áhrif á réttarstöðu kæranda, enda landamerki þau sömu og áður.

Bent sé á að þegar Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr Þúfukoti og hús reist á lóðinni hafi verið gengið frá aðgangi að neysluvatni úr landi Þúfukots. Sama gildi um hitaveitu, en mannvirkið á lóðinni sé tengt við hitaveitu Kjósarveitu ehf. Þá sé þegar fyrir hendi vegtenging við lóðina. Ekki sé hægt að fallast á að breyting á notkun umræddrar lóðar hafi veruleg og íþyngjandi áhrif á réttarstöðu kæranda. Sú mögulega skerðing sem geti falist í hinni kærðu ákvörðun sé innan þeirra marka sem fasteignaeigendur verði að þola í nábýli. Að lokum fáist ekki séð að meint vanhæfi oddvita hreppsnefndar sveitarfélagsins hafi verið fyrir hendi þegar ákvörðun hreppsnefndar um að samþykkja umsókn leyfishafa hafi verið tekin 8. október 2019. Þá sé það meginregla 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 að starfsmaður sveitar­félags verði ekki vanhæfur vegna vanhæfis yfirmanns.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að mannvirkið á umræddri lóð hafi í upphafi verið byggt sem íbúðarhúsnæði. Lóðinni hafi skipt út úr jörðinni Þúfukoti ásamt þeim réttindum og skyldum sem fasteigninni fylgdi, þ.m.t. rétti til vatns. Húsið hafi verið notað til heilsársíbúðar frá því það hafi fyrst verið reist. Fullnægt hafi verið þeim fyrirvörum sem hreppsnefnd hafi sett með samþykkt sinni á umsókn leyfishafa 8. október 2019. Hvorki fáist séð að breytingin hafi nokkur áhrif á eignarréttindi kæranda né takmarki notkun á jörð hans.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hljóti að vera grundvöllur hinnar breyttu skráningar á landnotkun sem hafi verið framkvæmd, en kærandi hafi til vara krafist þess að hún yrði felld úr gildi. Líti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hins vegar svo á að önnur ákvörðun Kjósarhrepps liggi fyrir um heimild til breyttrar landnotkunar sé þess krafist að sú ákvörðun verði felld úr gildi.

Vísað sé til þess að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi ekki heimild til að taka endanlega ákvörðun í málinu, sbr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og erindisbréf skipulags- og byggingarnefndar. Einnig vísist til 4. mgr. 30. gr. samþykkta stjórnar sveitarfélagsins Kjósar­hrepps þar sem fram komi að ef nefnd sé falið fullnaðarafgreiðsla mála skuli kveða á um það í sérstökum viðauka við samþykktina. Enginn slíkur viðauki sé fyrir hendi. Hafnað sé þeim málatilbúnaði sveitarfélagsins að hreppurinn hafi ekki tekið ákvörðun um breytta landnotkun heldur hafi það verið í höndum skipulags- og byggingarfulltrúa. Hreppsnefnd hagi málmeðferð vísvitandi þannig að hún sé flókin, villandi og ógagnsæ. Með því að taka skilyrta stjórnvalds­ákvörðun í upphafi, sem ekki sé unnt að kæra nema skilyrðin komi fram, virðist sem hrepps­nefndin geri í raun tilraun til að taka ákvarðanir sem ekki séu kæranlegar.

Ítrekað sé að hnitsettur uppdráttur þurfi að vera undirritaður af bæði kæranda og leyfishafa. Bent sé á að á fundi skipulags- og byggingarnefndar 11. nóvember 2020 hafi verið tekin fyrir umsókn um breytingu á stærð tiltekinnar lóðar og í afgreiðslu nefndarinnar hafi það verið gert að skilyrði að fyrir lægi samþykki eiganda eða eigenda upprunafasteignar, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Ekki fáist séð hvers vegna hreppsnefnd og skipulags- og byggingarnefnd geri ekki sömu kröfur í þessu máli. Vísist um það til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun sett fram í aðalskipulagi. Hins vegar eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðanotkun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en heimilt er að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Um notkun húsa fer þó eftir lögum nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 1. mgr. 9. gr. þeirra laga er óheimilt að breyta notkun mann­virkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, auk þess sem það er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að greinarmunur er á því hvort um breytta notkun lóðar eða húss er að ræða.

Upphaf máls þessa má rekja til erindis eins af eigendum lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, um að breyta notkun hennar úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Svo sem rakið er í málavöxtum tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps 29. ágúst 2019 jákvætt í erindið og vísaði því til sveitarstjórnar. Hreppsnefnd staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 8. október s.á. með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Fyrir liggur að þau skilyrði sem hreppsnefnd setti hafa verið uppfyllt og verður því að líta svo á að nefndin hafi tekið endanlega ákvörðun um að breyta notkun lóðarinnar. Þá liggur einnig fyrir í máli þessu að 2. september 2020 var skráningu hússins á lóðinni breytt úr sumarbústað í einbýlishús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en slík breyting getur einungis átt sér stað að undangengnu byggingarleyfi byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki, sem er kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar. Að virtum atvikum málsins og málatilbúnaði kæranda verður því litið svo á að einnig sé kærð sú ákvörðun sem legið hafi að baki breyttri skráningu á notkun hússins í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Af ákvæði 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga verður ráðið að ákvörðun um notkunar lóðar sé að meginstefnu til tekin með deiliskipulagi. Þrátt fyrir það verður talið að sveitarstjórn sé heimilt að samþykkja breytta notkun lóðar að því gefnu að sú notkun rúmist innan heimilda aðalskipulags, enda er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna. Í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 er hin umrædda lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Fjallað er um landbúnaðarsvæði í kafla 2.3.1 í skipulaginu en þar segir m.a. að með skipulaginu sé horfið frá því að takmarka fjölda íbúðarhúsa á hverri jörð, enda sé það talið geta staðið í vegi fyrir íbúafjölgun í sveitarfélaginu. Þá segir jafnframt að heimilt sé að reisa stök mannvirki á landbúnaðarsvæðum, eins og lýst sé í kafla 2.3.9. Í þeim kafla kemur fram að á landbúnaðarlandi sé heimilt að reisa íbúðarhús til fastrar búsetu, enda hamli uppbygging hvorki eðlilegri landbúnaðarstarfsemi né spilli samfellu í góðu landbúnaðarlandi. Með hliðsjón af framan­greindu var ákvörðun hreppsnefndar um að breyta notkun lóðarinnar í samræmi við stefnu og heimildir aðalskipulags.

Líkt og kemur fram hér að framan er skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt 11. gr. laganna skal byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og tilkynna umsækjanda skriflega um samþykkt byggingaráforma. Upphaflegt erindi eigenda Þúfukots 4, Nýjakots, fól ekki í sér formlega byggingarleyfisumsókn um breytta notkun húss heldur umsókn um breytta notkun lóðarinnar. Af atvikum málsins verður þó ráðið að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi litið svo á að með umsókn um breytta notkun lóðarinnar hafi eigendur hennar jafnframt sótt um breytta notkun hússins sem stendur á lóðinni. Fyrir liggur að 18. ágúst 2020 stimplaði hann uppdrætti frá árinu 2007 sem merktir eru „Frístundahús Nýjakot 2“. Þá er á uppdrættinum ódagsett áritun hönnuðar við eftirfarandi texta: „Samanber byggingarreglugerð nr. 112/2012 gr. 10.1.2. og 12.1.2.“ Samkvæmt nefndri gr. 10.1.2. skal hönnuður við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, en 10. hluti reglugerðarinnar ber heitið „Hollusta, heilsa og umhverfi“. Sambærilega orðað ákvæði er í gr. 12.1.2., en 12. hluti reglugerðarinnar fjallar um öruggi við notkun. Sama dag og skipulags- og byggingarfulltrúi stimplaði nefnda uppdrætti skrifaði hann undir skjal með heitinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“. Þar kemur fram eftirfarandi afgreiðsla embættisins: „Í samræmi við 10.1.2. gr. og 12.1.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, staðfestist hér með, að hús það (F2310159) sem stendur á umræddri lóð, uppfyllir skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum meginatriðum. Athygli er samt sem áður vakin á að einangrunargildi hússins er skv. eldri reglugerð og uppfyllir því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Leitast skal við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.“

Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að ákvarðanir þeirra séu að formi og efni til nægilega skýrar þannig að ekki sé vafa undirorpið á hvaða lagagrundvelli þær eru teknar og hvert sé efni þeirra. Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfylla fyrrgreindar afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa ekki þá kröfu þar sem þær fela fyrst og fremst í sér mat hans á því að tiltekin ákvæði byggingarreglugerðar séu uppfyllt. Verður því ekki talið að um formlega stjórnvaldsákvörðun á grundvelli 1. mgr. 9. gr. eða 11. gr. laga um mannvirki hafi verið að ræða. Er þá m.a. litið til þess að í yfirskrift stimplaðs uppdráttar frá árinu 2007 kemur fyrir orðið „Frístundahús“ og að stimplunin ber ekki með sér að breytt notkun hússins hafi verið samþykkt. Þá er horft til þess að í skjalinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“ segir að umrætt hús uppfylli skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði „í öllum meginatriðum.“ Verður því að líta svo á að ekki hafi verið tekin ákvörðun í skilningi 9. gr. laga um mannvirki um breytta notkun hússins. Verður því ekki komist hjá því að vísa þeim hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðar­afgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda. Verður að telja að sú regla eigi við hvort sem byggingarleyfisumsókn varðar heimild til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. um mannvirki. Fyrir liggur að ekki var formlega sótt um leyfi til að breyta notkun mannvirkisins, en sem fyrr greinir mun skipulags- og byggingarfulltrúi hafa litið svo á að umsókn um breytta notkun lóðar varðaði jafnframt breytta notkun hússins á lóðinni. Sú umsókn var ekki grenndarkynnt en ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins hvort láðst hafi að gera það með formlega réttum hætti eða hvort að það hafi verið mat skipulags­yfirvalda að erindið varðaði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda, sbr. fyrrnefnda 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni þeim hluta málsins er lýtur að breyttri notkun húss á lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti.

131/2020 Fífuhvammur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 6. janúar 2021 var hafnað kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða byggingarleyfis.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. janúar 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér þó nokkra forsögu. Að lokinni grenndarkynningu samþykkti skipulagsnefnd Kópavogsbæjar á fundi sínum 3. júlí 2007 erindi lóðarhafa Fífuhvamms 25 um leyfi til byggingar 62,5 m2 bílskúrs ásamt skyggni yfir innkeyrslu og var byggingarleyfi samþykkt á fundi byggingarnefndar Kópavogs 22. ágúst s.á. Eigendur Fífuhvamms 27, sem komið höfðu að athugasemdum við grenndarkynningu, kærðu nefndar ákvarðanir til úrskurðar­nefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi þær úr gildi með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2008, í kærumáli nr. 118/2007. Á fundi byggingarnefndar Kópavogs 6. ágúst 2008 var eigendum Fífuhvamms 25 veitt leyfi til að byggja 56,8 m2 bílskúr með geymslu á lóð þeirra. Kærðu eigendur Fífuhvamms 27 einnig það leyfi til til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 25. september 2008, í máli nr. 87/2008. Lóðarhafar Fífuhvamms 25 sóttu um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á 56,8 m2 bílskúr sem þá hafði verið reistur, en að lokinni grenndarkynningu var umsókninni synjað af byggingarfulltrúa Kópavogs 21. júní 2011. Kærðu umsækjendur þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en með úrskurði uppkveðnum 15. janúar 2015, í máli nr. 48/2011, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála synjunina úr gildi þar sem undirbúningi og rökstuðningi hennar þótti svo áfátt að leiða ætti til ógildingar. Hinn 26. nóvember 2015 synjaði byggingarfulltrúi að nýju umsókn eigenda Fífuhvamms 25 um leyfi fyrir 56,8 m2 viðbyggingu ofan á umræddan bílskúr, m.a. með vísan til grenndaráhrifa. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 1. desember 2017, í máli nr. 116/2015.

Með umsókn, dags. 7. október 2019, sóttu eigendur Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 gróðurhús ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndar­kynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulags­ráð erindið og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs. Kærendur kærðu ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði uppkveðnum 8. maí 2020 vísaði kærumálinu, sem var nr. 31/2020, frá nefndinni þar sem ekki lægi fyrir lokaákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 4. desember 2020 samþykkti byggingar­fulltrúi umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi lagt umtalsvert fjármagn og vinnu í að koma svæði milli húsanna Fífuhvamms 25 og 27 í snyrtilegt horf, m.a. með matjurtagarði og gróðursetningu plantna. Þær framkvæmdir og frekari áform kærenda um að setja upp heitan pott og gróðurhús til að nýta lóð þeirra sem mest séu sett í uppnám með byggingu gróðurhúss og útsýnispalls ofan á bílskúr nágranna, sem að auki sé ekki í samræmi við götumynd. Feli framkvæmdin í sér útsýnispall ofan á bílskúr, sem sé alveg við lóðarmörk lóðar kærenda, og hafi það áhrif á friðhelgi einkalífs og heimilis kærenda. Fari útgáfa byggingarleyfisins því í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni þeir verða fyrir tjóni af þeim sökum. Sérstaklega sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2015 þar sem deilt hafi verið um sambærilega byggingu á sama stað. Í niðurstöðu nefndarinnar segi m.a. að umsótt viðbygging yrði á eða nærri mörkum lóðarinnar að Fífuhvammi 27 og að ljóst væri að af byggingunni yrðu grenndaráhrif. Vísað var til þess að viðbyggingin myndi valda auknu skugga­varpi á lóð kærenda. Sömu sjónarmið eigi hér við fullum fetum.

Leyfishafar hafi gert ítrekaðar tilraunir til að auka við byggingamagn á lóð þeirra við lóðamörk, en þeim áformuð hafi verið synjað af bæði skipulagsyfirvöldum í Kópavogi og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Á árinu 2008 hafi þó verið fallist á að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóð Fífuhvamms 25 en kærendur bendi á að bílskúrinn hafi verið notaður undir íbúð. Samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi Fífuhvamms 27 liggi bílskúr Fífuhvamms 25 alveg upp að lóðarmörkum lóðar kærenda og séu lóðamörk því ekki rétt á teikningu sem lögð hafi verið fram af hálfu leyfishafa, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2015. Sé þannig umsögn skipulags- og byggingardeildar um að viðbyggingin muni ekki ná að mörkum lóðar kærenda, augljóslega röng.

Á teikningu leyfishafa sem hafi verið grenndarkynnt sé ekki merkt handrið ofan á bílskúr. Hins vegar sé gróðurhúsið teiknað þannig að útgengt sé frá því til bæði norðurs og suðurs. Úr þessu virðist reynt að bæta með síðari teikningum en kærendum sé ekki kunnugt um að þær teikningar hafi farið í grenndarkynningu. Sú útfærsla sé í algjöru trássi við gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um handrið, en jafnframt vísist til gr. 6.5.4. í sömu reglugerð, þar sem komi fram að handrið veggsvala skuli vera minnst 1,1 m að hæð. Aukin hæð á vegg sem liggi að mörkum lóðar kærenda muni þrengja að fasteign þeirra, spilla útliti og auka skuggavarp. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar segi að gert sé ráð fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi sem standa muni um 3 m frá mörkum lóðar kærenda. Nú þegar sé byrjað að byggja gróðurhúsið og sé það einungis 1,8 m frá lóðarmörkum. Útsýnispallur eigi samkvæmt teikningum að vera úr hömruðu gleri og liggja alveg að lóðamörkum. Því sé klárlega um hækkun á mannvirki á lóðamörkum að ræða þrátt fyrir að öðru sé haldið fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar. Þetta hafi m.a. áhrif á ræktunarsvæði kærenda. Að lokum sé bent á að í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð sé m.a. kveðið á um að staðsetning bygginga skuli vera þannig að sólar og skjóls njóti á sem heppilegastan hátt á leik- og dvalarstæðum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hin kærða ákvörðun feli í sér byggingu 8,1 m2 gróðurhúss á þaki bílskúrs á lóðinni Fífuhvammi 25. Um sé að ræða töluverða breytingu frá fyrri tillögu, þ.e. 56,8 m2 steinsteypta viðbyggingu sem hefði fyllt út í þakflöt bílskúrsins. Óveruleg grenndaráhrif fylgi gróðurhúsinu hvað varði skuggavarp, nánd, innsýn og útsýni. Gróðurhúsið muni standa 3 m frá mörkum lóðar kærenda auk þess sem teikningum hafi verið breytt til að koma til móts við athugasemdir kærenda. Sé nú gert ráð fyrir ógegnsæju gleri á þeim gafli gróðurhússins sem snúi að lóð kærenda. Jafnframt sé aðeins gert ráð fyrir útgengi frá gróðurhúsi út á svalir í norður til þess að lágmarka ónæði. Þá muni fyrirhugað handrið á svölum ekki takmarka útsýni frá lóð kærenda. Að lokinni breytingu verði nýtingar­hlutfall lóðarinnar 0,18, en það sé vel innan marka meðalnýtingarhlutfalls á svæðinu, sem sé 0,29. Loks sé að finna fordæmi fyrir byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs í götunni og falli breytingin því vel að götumynd.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að þegar bílskúr lóðar Fífuhvamms 25 hafi verið samþykktur hafi lóðamörk verið 40 cm austan við viðbygginguna, en síðar hafi Kópavogsbær breytt mörkunum án samþykkis leyfishafa. Gróðurhúsið hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda, hvorki varðandi skuggavarp né vegna annarra óþæginda sem kærendur vísi til. Austurhlið gróðurhússins verði ógegnsæ og þar að auki sé enginn gluggi á vesturhlið húss kærenda. Hvað sem líði legu lóðamarka sé ekkert í gildandi rétt sem girði fyrir að byggt sé á lóðamörkum ef gætt sé þeirra reglna sem gildi um brunavanir. Ekki sé lengur kveðið á um lágmarksfjarlægð húsa frá lóðamörkum í byggingarreglugerð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs um að veita byggingarleyfi fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25, en lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Í slíkum aðstæðum er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá fara fram grenndarkynning.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er Fífuhvammur 25 á svæði íbúðarbyggðar, merktu ÍB-2 Digranes. Kemur fram í aðalskipulaginu að þar sé nokkuð fastmótuð byggð en um sé að ræða þéttustu byggð Kópavogs með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli. Fer hið kærða leyfi því ekki í bága við landnotkun aðalskipulags. Þá verður ekki séð að 8,1 m2 gróðurhús á þaki bílskúrs fari í bága við byggðamynstur eða þéttleika byggðar. Eykst enda nýtingarhlutfall óverulega og við sömu götu er að finna gróðurhús, auk þess sem ámóta glerhýsi er að finna ofan á bílskúrum að Fífuhvammi 21 og að Fífuhvammi 31. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu umsókn. Var það og gert með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti, sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Við þá kynningu komu kærendur að athugasemdum sínum og vegna þeirra lögðu leyfishafar fram uppfærða teikningu. Fólu breytingarnar í sér að ekki yrði lengur gert ráð fyrir að gengið yrði út á þak bílskúrsins frá gróðurhúsinu sunnan megin heldur einungis til norðurs, auk þess sem austurhlið gróðurhússins yrði úr ógegnsæju gleri til að takmarka innsýn yfir vestanverða lóð kærenda. Þá var gert ráð fyrir handriði úr hömruðu gleri á þakfleti bílskúrsins sem myndi afmarka svalaflöt á bílskúrsþakinu norðan megin. Kærendum voru kynntar uppfærðar teikningar í samræmi við gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og komu að athugasemdum, sem m.a. lutu að stærð fyrirhugaðra svala, yfirsýn yfir garð þeirra og að birtuskilyrði myndu versna með tilkomu svalahandriðs. Í kjölfarið tók skipulagsráð umsóknina til umfjöllunar þar sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda og uppfærðra teikninga.

Gróðurhús það sem um ræðir er úr gleri, það er lægra en íbúðarhús leyfishafa, ekki mikið að umfangi og nær einungis yfir lítinn hluta þakflatar bílskúrsins, sem er 56,8 m2. Þá var dregið úr grenndaráhrifum gagnvart lóð kærenda með áðurnefndum breytingum á teikningum. Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og til þess fallin að hafa áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna yfirsýnar yfir á næstu lóð, mun sú innsýn ekki aukast svo nokkru nemi yfir suður- og vesturhluta lóðar kærenda, þegar litið er til staðsetningar þess glugga sem áður var á austurhlið húss leyfishafa, þar sem nú er gengið inn í gróðurhúsið. Hins vegar verður aukin yfirsýn yfir bakgarð kærenda, sem vísar til norðurs, en sá hluti garðsins er minni. Úr þeim áhrifum er þó dregið með svalahandriði úr ógegnsæju gleri. Almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og að mati úrskurðarnefndarinnar er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kærenda sem þeir hafa haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð. Skuggavarp eykst ekki að marki vegna handriðsins, enda verður það úr hömruðu gleri sem hleypir birtu í gegn. Er því ekki hægt að líta svo á að grenndaráhrif vegna þess séu þau sömu og ef um steyptan vegg væri að ræða.

Að framangreindu virtu geta grenndaráhrif vegna þeirra framkvæmda sem heimilaðar eru með hinu kærða leyfi ekki talist slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli mega búast við. Þá liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á ákvörðuninni að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

126/2020 Búland

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 25. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 um að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36 og ákvörðun sama embættis frá 28. s.m. um að aðhafast ekki vegna framkvæmdarinnar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Búlands 38, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36. Jafnframt er kærð ákvörðun sama embættis frá 28. s.m. um að aðhafast ekki vegna framkvæmdarinnar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 5. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 19. febrúar 2019 sendi annar kærenda máls þessa tölvupóst til byggingar-fulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda eigenda raðhússins Búlands 36 á lóðinni. Þar kom fram að skipt hefði verið um jarðveg á hluta lóðarinnar og við hann bætt, þar sem grasflöt hafði verið fyrir og flöturinn þar hellulagður svo unnt væri að leika þar körfubolta. Var því beint til embættisins hvort ekki þyrfti leyfi fyrir framkvæmdunum og þess farið á leit að embættið tæki málið til skoðunar. Í svari byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí s.á., kom fram að framkvæmdirnar hefðu verið skoðaðar í vettvangsferð og teldust þær falla undir e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um minniháttar framkvæmdir sem undanþegnar væru byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi myndi því ekki aðhafast frekar í málinu. Með bréfi, dags. 21. ágúst 2019, var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi ákvörðunina úr gildi með úrskurði uppkveðnum 27. mars 2020 í kærumáli nr. 82/2019. Taldi nefndin framkvæmdina ekki vera í samræmi við skilmála deiliskipulags Fossvogshverfis og þegar af þeirri ástæðu gæti ekki komið til skoðunar að fella hana undir e-lið fyrrnefndrar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Hinn 4. maí 2020 sendi byggingarafulltrúi eigendum Búlands 36 bréf þar sem þeim var með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki gert að fjarlægja hellur og koma lóð hússins í fyrra horf þannig að skilmálar deiliskipulagsins væru uppfylltir um að láréttur flötur lóðar næði ekki lengra en 5 m út frá suðurhlið hússins. Skyldi framkvæmdinni lokið innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Með bréfi, dags. 25. júní 2020, óskuðu eigendur Búlands 36 eftir endur­upptöku málsins hjá úrskurðarnefndinni en þeirri beiðni var hafnað með bréfi nefndarinnar, dags. 30. september s.á. Byggingarfulltrúi sendi 1. október s.á. eigendum Búlands 36 bréf þar sem fram kom að ákvörðun byggingarfulltrúa 4. maí s.á. um beitingu þvingunarúrræða væri afturkölluð vegna þess annmarka að ekki hafi verið veittur frestur til andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Væri því ákvörðunin ógildanleg, sbr. 25. gr. sömu laga. Hinn 8. október 2020 óskaði annar kærenda þessa máls eftir því við embætti byggingarfulltrúa að það framfylgdi ákvörðun sinni frá 4. maí s.á. um beitingu þvingunarúrræða. Eigendur Búlands 36 komu að athugasemdum sínum vegna málsins með bréfi til byggingarfulltrúa 19. október 2020 og vegna þeirra athugasemda tók embættið í kjölfarið frágang lóða í grennd við Búland 36 til skoðunar. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. s.m., til annars kærenda þessa máls kom fram að ljóst þyki að aðrir lóðarhafar í Fossvogi hafi „gert sambærilega fleti út fyrir gildandi deiliskipulagsskilmála.“ Framkvæmdirnar raski ekki hagsmunum nágranna umfram það sem eðlilegt megi teljast miðað við notkun á görðum til afþreyingar og útiveru og ekki verði séð að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim sem búi að baki lögum um mannvirki. Í ljósi þess muni byggingarfulltrúi ekki aðhafast frekar í málinu.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að sveitarfélögum sé ekki aðeins skylt skv. skipulags­lögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að útbúa deiliskipulagsáætlanir heldur beri þeim einnig skylda til að framfylgja þeim. Því til viðbótar séu skipulagsskilmálar skilgreindir í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð sem bindandi ákvæði í deiliskipulagi um útfærslu skipulags. Deiliskipulag Fossvogshverfis sé því bindandi hvað varði hæðarlegu lóða.

Það sé rétt sem komi fram í bréfi byggingafulltrúa frá 28. október 2020 til annars kærenda þessa máls um að honum sé eftirlátið mat hvort tilefni sé til þess að beita þvingunarúrræðum. Hins vegar sé það svo að það mat sé ekki frjálst að öllu leyti heldur verði málefnaleg sjónarmið að liggja því til grundvallar eins og almennt sé um sérhverja stjórnvalds­ákvörðun. Efnisleg rök byggingarfulltrúans séu þau að fjöldi annarra íbúa í nágrenni við Búland 36 hafi brotið gegn deiliskipulagi því sem gildi samkvæmt skipulagslögum á svæðinu og því hafi eigendum eignarinnar verið heimilt að gera slíkt hið sama. Slík rök uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til málefnalegra sjónarmiða sem stjórnvald geti notað til að rökstyðja stjórnvaldsákvörðun. Reglan um málefnaleg sjónarmið feli það í sér að stjórnvald skuli líta til þess hvort að lög eða stjórnvaldsfyrirmæli geymi ákvæði um sjónarmið sem matskennd ákvörðun stjórnvalds skuli byggð á, hvort að stjórnvaldsákvörðun sé í samræmi við þau markmið sem því beri að vinna að lögum samkvæmt eða hvort að ákvörðun sé til þess fallin að stuðla að því að samræmi sé í úrlausnum stjórnsýslumála. Hin kærða ákvörðun uppfylli ekkert þessara viðmiða.

Í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um það að í rökstuðningi stjórnvalds fyrir stjórnvaldsákvörðun skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Telja verði með hliðsjón af þessu ákvæði laganna að umræddur rökstuðningur byggingar-fulltrúans standist ekki þessar kröfur þar sem í honum sé ekki að finna neinar tilvísanir til réttarreglna heldur vísan til þess að fjöldi brota á gildandi deiliskipulagsáætlun, sem hafi lögformlegt gildi samkvæmt skipulagslögum, réttmæti fleiri brot á henni. Um ákvarðanir stjórnvalda gildi auk þess svokölluð lögmætisregla. Í henni felist annars vegar að ákvarðanir stjórnvalda verði að eiga sér stoð í lögum og hins vegar að ákvörðun megi ekki vera í andstöðu við lög. Rökstuðningur byggingarfulltrúans gangi þvert gegn lögboðnu hlutverki bindandi deiliskipulagsáætlana og lögboðnu hlutverki byggingarfulltrúa að samþykkja ekki fyrirhuguð byggingaráform sem ekki séu í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þá varði það almannahagsmuni að þær leikreglur sem deiliskipulagsáætlanir hafi sett um nábýli manna séu virtar af borgar­yfirvöldum.

Byggingarfulltrúi rökstyðji jafnframt ákvörðun sína með vísan til meðalhófs. Í bréfinu færi byggingarfulltrúi hins vegar engin rök fyrir því með hvaða hætti hin kærða ákvörðun gæti meðalhófs. Í 12. gr. stjórnsýslulaga segi að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti og skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Það hefði því verið eðlilegt ef byggingarfulltrúinn hefði fært rök fyrir því með hvaða hætti sú ákvörðun að aðhafast ekki neitt hafi náð lögmætu markmiði í málinu en meðalhóf í skilningi stjórnsýslulaga feli það í sér að ganga ekki lengra en þörf þyki. Ákvörðun um að beita meðalhófi með þeim hætti að það bitni alfarið á öðrum aðila stjórnsýslumáls geti ekki staðist.

Byggingarfulltrúi hafi aldrei leitað eftir afstöðu kærenda í þessu máli þrátt fyrir að það hafi verið þeir sem hafi upphaflega leitað til embættisins. Sé því ekki annað að sjá en að byggingarfulltrúinn hafi tekið umrædda ákvörðun án þess að hafa haft upplýsingar um afstöðu málshefjenda til hinnar nýju ákvörðunar og þeirra gagna og þess rökstuðnings sem hafi legið henni til grundvallar. Með því hafi hann brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Byggingarfulltrúi hafi tilkynnt eigendum Búlands 36 það með bréfi, dags. 5. maí 2020, að þau skyldu fjarlægja umdeilda framkvæmd. Í kjölfarið hafi eigendur Búlands 36 komið á framfæri sjónarmiðum sínum á framfæri, m.a. varðandi aðrar lóðir í Fossvoginum, í bréfi til byggingar­fulltrúa, dags. 19. s.m. Sömu sjónarmið hafi eigendur Búlands 36 sent úrskurðarnefndinni 25. júní s.á. vegna kröfu um endurupptöku máls nr. 82/2019, en þeim sjónarmiðum hafi nefndin hafnað. Eigendum Búlands 36 hafi síðan verið gefinn kostur á að veita frekari andmæli þegar byggingarfulltrúi hafi 1. október s.á. afturkallað ákvörðun sína um að þau skyldu fjarlægja umdeilda framkvæmd og í kjölfarið hafi þau sent byggingarfulltrúanum bréf 19. október s.á. Þegar það bréf sé skoðað komi í ljós að bent hafi verið á sömu sjónarmið og áður, þ.e. um fyrirkomulag annarra lóða í Fossvoginum. Ekkert nýtt komi aftur á móti fram í bréfinu varðandi hinar kærðu framkvæmdir og því sé ljóst að þau andmæli sem byggingarfulltrúi vísi til í bréfinu sínu sem rökstuðning fyrir aðgerðarleysi sínu hafi legið fyrir í maí 2020.

Byggingarfulltrúanum hafi því verið óheimilt að afturkalla áðurnefnda ákvörðun sína þar sem að lög og reglugerðir á sviði skipulags- og byggingarmála leggi honum á herðar skyldur að framfylgja ákvæðum þeirra um byggingarleyfisumsóknir og framkvæmdaleyfisumsóknir um leið og skipulagslög og lög um mannvirki kveði með skýrum hætti á um það að skilmálar deiliskipulags séu bindandi hvað varði lóðarhæð. Það hvort gætt hafi verið að andmælarétti við meðferð málsins geti ekki haft áhrif á þær lögbundnu starfsskyldur. Því sé ástæðu aftur­köllunarinnar byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum og brjóti um leið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins líkt og gerð hafa verið grein fyrir.

Minnst sé á að í máli nr. 82/2019 komi fram það álit úrskurðarnefndarinnar að hin kærða framkvæmd sé landmótun og að slíkar framkvæmdir falli undir ákvæði skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Til viðbótar við framangreind kæruefni sé þess því jafnframt óskað að nefndin taki afstöðu til þess hvort að byggingarfulltrúa Reykjavíkur hafi, þegar honum hafi verið kunnugt um þá afstöðu nefndarinnar, borið skylda til þess að leiðbeina kærendum í málinu um að ástæða kynni að vera til að leita til skipulagsfulltrúa borgarinnar eða til að gera sjálfur ráðstafanir til að embættið kæmi að málinu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að það hafi verið mat embættisins að fyrri ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða hafi verið haldin þeim galla að eigendum Búlands 36 hafi ekki verið veittur andmælaréttur áður en ákvörðun hafi verið tekin skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því talist ógildanleg ákvörðun, sbr. 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt stjórnsýslulögum séu gerðar ríkar kröfur til þess að andmælaréttur aðila sé virtur og verði aðili máls að eiga þess kost að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í málinu, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða að slíkt sé augljóslega óþarft.

Þegar brotið hafi verið gegn andmælareglunni þannig að aðila hafi ekki verið veitt færi á að tjá sig teljist það almennt verulegur annmarki sem leiði til þess að íþyngjandi ákvörðun teljist yfirleitt ógildanleg. Þetta eigi ekki síst við um mál þar sem ákvörðun feli í sér að refsikennd viðurlög verði lögð á aðila eða hún á annan hátt verði talin mjög íþyngjandi eins og fyrir liggi í máli þessu.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 123/2010 sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og sé tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að lögum um mannvirki að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé í hverju metin, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefi sveitarfélögum kost á að bregðast við ef gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki lögum um mannvirki, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðis­hagsmunum. Með hliðsjón af þessu verði ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklings­hagsmuna enda séu þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búi að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Ljóst hafi verið að fordæmi væru fyrir því að lóðarhafar í Fossvogi hafi stækkað lóðir meira en heimilt sé samkvæmt gildandi deiliskipulagsskilmálum. Ennfremur hafi verið talið að framkvæmdirnar raski ekki hagsmunum nágranna umfram það sem eðlilegt megi teljast miðað við notkun á görðum til afþreyingar og útiveru. Ekki hafi heldur verið séð að gengið væri gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki lögum um mannvirki, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi því verið studd fullnægjandi efnisrökum.

Athugasemdir eigenda Búlands 36: Eigendur lóðarinnar benda á að í úrskurði úrskurðar­nefndarinnar í máli nr. 82/2019 hafi nefndin ekki tekið afstöðu til þess hvort beita ætti þvingunarúrræðum. Þvert á móti sé í bréfi úrskurðarnefndarinnar frá 30. september 2020 vegna beiðni þeirra um endurupptöku málsins tekið fram að slíkt sé hlutverk byggingar­fulltrúa að fullrannsökuðu máli. Þau hafi hvorki haft vitneskju um umfjöllun byggingar­fulltrúa um framkvæmdirnar né úrskurð úrskurðarnefndarinnar fyrr en að frétt hafi birst í fjölmiðli 3. apríl 2020 og ekki verið tilkynnt um málið með formlegum hætti fyrr en með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. maí s.á., þar sem þeim hafi verið gefinn 30 daga frestur til að koma lóð hússins í fyrra horf. Ákvörðunin hafi því verið tekin án þess að þeim hafi verið gefin kostur á tjá sig um hana svo sem skylt sé skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrirkomulag lóðarinnar hafi verið með sambærilegum hætti svo áratugum skipti og nýtt yfirborð lóðar breyti engu þar um. Sambærileg túlkun gildandi deiliskipulags hafi verið viðhöfð víðast í Fossvogshverfinu, þ.e. að nánast allar lóðir séu láréttar, í einum eða tveimur stöllum, út frá suðurhlið húsanna. Eigendur Búlands 36 hafi bent á þá staðreynd um túlkun deiliskipulagsins þegar þeim hafi verið gefinn kostur á að koma að andmælum við byggingar­fulltrúa og hafi embættið staðfest þetta með rannsókn á eignum í 150 m radíus frá lóðinni. Skýrt sé tekið fram að þau hafi á engan hátt breytt lögun eða halla lóðar heldur einungis yfirborði þess.

Ef þess yrði krafist að fallið yrði frá núgildandi túlkun deiliskipulags í hverfinu og öllum eigendum fasteigna gert að færa lóðir sínar til þess sem fram komi í úrskurði nefndarinnar megi ljóst vega að sameiginlegt tjón eigenda fasteigna í hverfinu yrði talið í hundruðum milljóna króna. Þá myndi nýting lóða til afþreyingar og útiveru verða skert verulega.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 18. febrúar 2021 að viðstöddum fulltrúum borgaryfirvalda, öðrum kærenda og fulltrúa eigenda Búlands 36.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36 og ákvörðun sama embættis frá 28. s.m. að aðhafast ekki vegna framkvæmdarinnar.

Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 1. október 2020, þar sem fyrri ákvörðun embættisins um beitingu þvingunarúrræða var afturkölluð, kom fram að ákvörðunin hafi verið haldin þeim annmarka að ekki hafi verið veittur frestur til andmæla skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því sé hún ógildanleg, sbr. 25. gr. sömu laga. Fram kemur í síðarnefndu ákvæði að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Þegar aðila hefur ekki verið veitt færi á að tjá sig áður en íþyngjandi ákvörðun er tekin telst það almennt verulegur annmarki sem leitt getur til þess að ákvörðun telst ógildanleg. Þrátt fyrir að afstaða eigenda Búlands 36 hafi legið fyrir í bréfi þeirra til byggingarfulltrúa 13. maí 2020, sem og í beiðni þeirra frá 25. júní s.á. til úrskurðarnefndarinnar um endurupptöku máls nr. 82/2019, lá hún hins vegar ekki fyrir þegar upphafleg ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða var tekin. Verður því að telja að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að afturkalla fyrri ákvörðun sína með vísan til þess að ekki hafi verið gætt að andmælarétti.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingar­lýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. frumvarps þess er varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Gefur umrætt ákvæði sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum, en einstaklingar eiga þó ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu nefndra þvingunarúrræða. Þótt beiting þeirra sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim almannahagsmunum sem áður greinir.

Vettvangsskoðun leiddi í ljós að umdeildar yfirborðsframkvæmdir á baklóð Búlands 36 valda því að hæðarmunur hefur myndast á hluta lóðamarka þeirrar lóðar og lóðar kærenda, en sá hæðarmunur getur ekki talist verulegar. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki vegna umdeildra framkvæmda var rökstudd með vísan til þess að aðrir lóðarhafar í Fossvogi hafi „gert sambærilega fleti út fyrir gildandi deiliskipulagsskilmála.“ Taldi embættið að ekki yrði séð að framkvæmdirnar færu gegn almannahagsmunum þeim er búi að baki lögum um mannvirki, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Það mat byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að aðhafast var því stutt nægjanlegum efnisrökum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2020 um að afturkalla ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. október 2020 um að aðhafast ekki vegna framkvæmda á baklóð Búlands 36.

102/2020 Rjúpnabraut

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 16. september 2020 að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Krókshlíð ehf., lóðarhafi Rjúpnabrautar 10, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 16. september 2020 að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að taka ákvörðun um fjarlægingu eða lækkun á sumarhúsinu á nefndri lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 9. nóvember 2020.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Hinn 4. mars 2020 lagði lóðarhafi Rjúpnabrautar 9 fram umsókn um byggingarleyfi sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa sama dag. Á aðaluppdráttum sem fylgdu byggingarleyfis-umsókninni kom fram að um væri að ræða sumarhús á lóð umsækjanda með rishæð, 131,8 m² að flatarmáli og með 5,8 m mænishæð. Í fundargerð var bókað að sótt hefði verið um að setja hús niður á steinsteyptan grunn sem tæki mið af landi í kringum húsið. Fyrir lægju gögn vegna hæðarmælinga á lóð og sökkli. Eigandi hefði áður verið búinn að fá byggingarleyfi fyrir sumarhúsi með risi sem yrði samtals 131,8 m² á umræddri lóð. Að endingu var bókað að umsóknin samræmdist gildandi deiliskipulagi og var hún samþykkt. Þeirri ákvörðun byggingar­fulltrúa var skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu lóðarhafa Rjúpnabrautar 10 með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 29/2020, uppkveðnum 4. júní 2020, hafnaði nefndin kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Vísaði nefndin til þess að í mars 2007 hefði verið samþykkt breyting á skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Úthlíðar sem tók m.a. til stærða húsa á skipulagssvæðinu. Með breytingunni væri heimilað að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á hverri lóð, en nýtingarhlutfall mætti þó ekki fara yfir 0,03. Þá var og tiltekið að „mænishæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, megi vera 6,5 m“. Þá tiltók nefndin í niðurstöðu sinni að í hinu kærða byggingarleyfi væri heimiluð bygging að flatarmáli 131,8 m² með 5,8 m mænishæð. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar yrði samkvæmt því 0,027. Samkvæmt því væri ljóst að stærð hússins og mænishæð hefðu ekki farið í bága við skilmála gildandi deiliskipulags.

Í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins sendi kærandi bréf til sveitarstjóra Bláskógabyggðar, dags. 24. ágúst 2020. Í bréfinu voru gerðar athugasemdar við samþykkt þess deiliskipulags sem hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans væri byggð á. Taldi kærandi að samþykkt þess hefði ekki farið fram með lögmætum hætti, nánar tiltekið samþykki á þeim skilmála deiliskipulagsins um að „mænis­hæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, má vera 6,5 m“. Vísað var til þess að deiliskipulags­breytingin hefði verið auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu, Blaðinu og Glugganum 26. apríl til 24. maí 2007. Í auglýsingunum hefðu allar upplýsingar komið fram, nema þær sem hefðu varðað breytingu á skilmálum um mænishæð húsanna. Kærandi telji ljóst vera að umrædd breyting hefði ekki verið samþykkt í sveitarstjórn í aðdraganda auglýsingarinnar. Hvernig slíkur skilmáli hefði komist inn í deiliskipulagið eftir birtingu auglýsingarinnar væri kæranda hulin ráðgáta. Með hliðsjón af þessu krafðist kærandi þess að sveitarfélagið kæmi því til leiðar að sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut yrði fjarlægt án tafar eða lækkað svo það uppfyllti skilmála deiliskipulagsins um mænishæð eins og það hefði verið áður en breytingin var gerð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar beindi erindi kæranda til byggingarfulltrúa sem tók það fyrir á afgreiðslufundi 16. september 2020. Í fundargerð var bókað að kröfu um að fjarlægja sumar­bústað á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut í Úthlíð eða að húsið yrði lækkað væri hafnað. Ítarlegur rökstuðningur yrði sendur kröfuaðila. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 16. september 2020, eru færð fram frekari rök fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í bréfinu eru m.a. raktar þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupsstungum árið 2007 og gerð grein fyrir málavöxtum í kærumáli nr. 29/2020 fyrir úrskurðarnefndinni. Ályktaði byggingarfulltrúi að endingu að hin umrædda bygging væri í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála svæðisins og málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfisins væri lögmæt. Því væri ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hvorki væri því lagaskilyrði né tilefni til að beita 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að þvinga það fram að húsið yrði fjarlægt eða lækkað.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa sé ekki tekin afstaða til  málsástæðna í erindi kæranda. Óskað hafi verið eftir nánari skýringum frá byggingarfulltrúa og sveitarstjóra Bláskógabyggðar. Í tölvupóstsamskiptum kæranda og sveitarfélagsins hafi sveitarstjóri gert tilraunir til þess að útskýra fyrir kæranda að afgreiðsla deiliskipulagsins hafi staðist lög en án árangurs. Frekari upplýsingar hefðu aftur á móti borist sem hafi verið til þess fallnar að styrkja grunsemdir kæranda um að samþykkt deiliskipulagsins hefði verið ólögmæt. Þannig hafi sveitarstjóri sent kæranda auglýsta skilmálabreytingu sem hefði birst í B-deild Stjórnartíðinda 16. ágúst 2007. Í auglýsingunni segi að í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkt eftir­farandi deiliskipulag og deiliskipulagsbreytingu: „2. Breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum, skilmálabreyting.“ Í auglýsingunni hafi þó hvergi verið minnst á skilmálabreytinguna um leyfilega mænishæð húsa á hinu deiliskipulagða svæði sem renni frekari stoðum undir að skilmálinn hafi ekki verið samþykktur með lögmætum hætti.

Það veki athygli að kærandi hafi fengið í hendur tvær mismunandi útgáfur af greinargerð með deiliskipulaginu sem báðar eigi að heita samþykktar af sveitarstjórn. Fyrri útgáfan hafi að geyma greinargerðina á einni blaðsíðu, en þar sé hvergi að finna ummerki þess að hún hafi verið samþykkt. Við greinargerðina hafi svo verið hengt blað með staðfestingarstimpli skipulags­fulltrúa. Ómögulegt sé að vita um tengingu þess blaðs eða stimpilsins við sjálfa greinargerðina. Seinni útgáfan hafi verið lögð fram við  meðferð úrskurðarnefndarinnar á málinu sem hafi verið kært til nefndarinnar 4. mars 2020. Þá hafi stimplinum í fyrri útgáfu greinargerðarinnar verið bætt neðst við greinargerðina sjálfa svo allt hafi verið á einu blaði. Leturstærðinni hafi einnig verið breytt til samræmis við letrið í greinargerðinni. Virðist vera að sveitarfélagið hafi afritað stimpil og undirskrift skipulagsfulltrúans á aukablaði fyrri útgáfunnar og límt það við sjálfa greinargerðina. Engar skýringar hafi verið veittar um ofangreint föndur starfsfólks sveitarfélagsins við greinargerð deiliskipulagsins. Telji kærandi þessa framreiðslu sveitar­félagsins á gögnum málsins með miklum ólíkindum, en ljóst megi vera að alvarlegt sé ef átt hafi verið við gögnin til einhvers konar matreiðslu á málsástæðum sveitarfélagsins fyrir stjórnsýslunefnd sem hafi mál þess til skoðunar. Sé þess óskað að úrskurðarnefndin taki þetta til sérstakrar athugunar. Það athugast einnig að byggingarfulltrúi hafi vísað til úrskurðar nefndar­innar í máli nr. 29/2020 um gildi deiliskipulagsins. Það hafi enga þýðingu fyrir þetta mál enda hafi þau álitaefni sem nú séu borin undir nefndina ekki verið til umfjöllunar í því máli sem hafi varðað ákvörðun byggingarfulltrúa til veitingar byggingarleyfis.

Kærandi hafi mikla hagsmuni af málinu. Sumarhúsið sem nú sé verið að reisa á lóðinni nr. 9 standi örstutt frá sumarhúsi hans. Skilmálar eldra deiliskipulags hafi gert ráð fyrir að mænishæð húsa, þar sem hús standi hæst, mætti vera 6,5 m. Sumarhúsið sem standi andspænis lóð kæranda fari hins vegar langt yfir slíkar takmarkanir og rýri gríðarlega lífsgæði þeirra sem noti sumarhús og lóð hans.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda í málinu. Er bent á að mál þetta hafi áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en með úrskurði sínum 4. júlí 2020 í máli nr. 29/2020 hafi nefndin staðfest að umdeilt byggingarleyfi hefði verið í samræmi við skipulag og hafi því kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa verið hafnað. Þá hafi úrskurðarnefndin staðfest með umfjöllun í niðurstöðu sinni að ákvæði um 6,5 m mænishæð þaðan sem jörð standi hæst væri í gildandi deiliskipulagi. Verði ekki annað séð en að úrskurðarnefndin hafi með fyrri úrskurði sínum tekið afstöðu til þess að umrætt deiliskipulag hafi verið lögmætt og að byggingarleyfið hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Verði því ekki séð að þörf sé fyrir nefndina að leysa úr þessum ágreiningi aftur í ljósi þess að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi, sbr. 6. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Hefði því verið eðlilegra að kærandi hefði krafist endurupptöku ef hann teldi skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vera fyrir hendi.

Af hálfu Bláskógabyggðar sé sem fyrr byggt á því að málsmeðferð þeirrar breytingar sem hafi verið gerð á deiliskipulagi árið 2007 hafi verið lögum samkvæmt og skýrt hafi komið fram í gögnum sem hafi fylgt þeirri breytingu að mænishæð húsa á svæðinu mætti vera 6,5 m þar sem jörð standi hæst. Beiðni um breytingu á skilmálum deiliskipulagsins hafi fyrst verið tekin fyrir á 34. fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 8. febrúar 2007. Þar hafi komið fram að í þágildandi deiliskipulagi hafi verið heimilt að byggja allt að 100 m² frístundahús og 10 m² aukahús, með 6,5 m mænishæð frá jörðu þar sem jörð standi hæst. Samkvæmt þessu sé ljóst að í eldra deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir að mænishæð húsa væri 6,5 m frá jörðu þar sem það standi hæst. Með umræddri breytingu hafi því ekki staðið til að breyta reglum um mænishæð heldur fyrst og fremst leyfilegum fermetrafjölda húsa á svæðinu. Þá sé einnig ljóst að töluvert misræmi hafi verið milli skipulaga á svæðinu og margar smáar deiliskipulags­breytingar hafi verið gerðar á götum og lóðum innan svæðisins. Með breytingu á heildarsvæðinu sem hafi verið gerð 6. mars 2007 hafi þessu verið breytt og deiliskipulag svæðisins samræmt. Með þeirri breytingu sem samþykkt hafi verið 6. mars 2007 hafi því ákvæði deiliskipulags um mænishæð húsa verið samræmd fyrir heildarsvæði þannig að miðað væri við 6,5 m þar sem jörð standi hæst. Verði því að telja að um hafi verið að ræða þarfa samræmingu sem hafi stuðlað að auknu réttaröryggi í skipulagsmálum á svæðinu.

Tekið hafi verið fram í greinargerð með breytingu á deiliskipulagi, dags. 25. apríl 2007, að hámarks mænishæð yrði 6,5 m. Ljóst sé að greinargerð með deiliskipulagi teljist almennt til skipulagsgagna. Samkvæmt 4. mgr. 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé ljóst að greinargerð tilheyri deiliskipulaginu og sé sá þáttur þess þar sem einstök atriði séu skýrð ítarlegar. Eðli máls samkvæmt komi því ekki allt fram í auglýsingu sem sé birt vegna þeirra breytinga sem séu gerðar. Í auglýsingu sem birt sé í B-deild Stjórnartíðinda komi almennt aðeins fram helstu atriði sem felist í breytingunni. Með auglýsingu um breytingu á deili­skipulaginu sem hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. ágúst 2007, hafi þannig aðeins verið tilteknar þær helstu breytingar sem gerðar hefðu verið á deiliskipulaginu, þ.e. að hámarksstærð frístundahúsa yrði 280 m² og hámarksstærð aukahúss yrði 30 m² og að nýtingarhlutfall mætti ekki vera hærra en 0,03. Hvað varði hæð húsa sé ljóst að ekki hafi deiliskipulaginu verið beinlínis breytt hvað þetta varðaði þar sem heimiluð mænishæð í eldra deiliskipulagi hafi verið 6,5 m. Hins vegar hafi ákvæði deiliskipulags um hæð húsa verið samræmt samhliða breytingu á deiliskipulaginu og telja verði eðlilegt að slíkt hafi verið tiltekið í greinargerð með breytingu á deiliskipulaginu. Þá sé einnig ljóst að málsmeðferð breytingarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Sveitarfélagið telji ásakanir um meint skjalafals vera verulega ámælisverðar og ómálefnalegar. Ásökunum kæranda sé alfarið vísað á bug. Ljóst sé að þessar „mismunandi“ útgáfur af greinar­gerðinni séu eitt og sama skjalið. Annað skjalið, sem hafi verið skilað til úrskurðarnefndarinnar í fyrra máli, hafi verið skalað niður svo bæði greinargerð og undirskrift kæmust fyrir á sömu blaðsíðu. Ljóst sé að slíkt hafi verið gert við ljósritun, einungis til þess að einfalda lestur skjalsins og minnka umfang þess. Getur slíkt ekki undir nokkrum kringumstæðum talist skjalafals enda ljóst að um sama skjal sé að ræða og hafi slíkt engin áhrif á gildi skjalsins eða í því sem þar komi fram. Sé rétt að úrskurðarnefndin skoði hvort tilefni og heimilt sé að ávíta kæranda vegna þessara röngu ásakana.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir því að úrskurðarnefndin hafi slegið því föstu í fyrra máli að deiliskipulagið, sem sé til umfjöllunar í málinu, hafi verið gilt. Kærandi hafi lagt fram ný gögn um samþykkt hins umrædda deiliskipulags sem ekki hafi legið fyrir í hinu fyrra máli, þar sem sveitarfélagið hefði m.a. lagt fram gögn um samþykkt deiliskipulagsins sem hafi verið til þess fallin að gefa villandi mynd af deiliskipulagsferlinu. Vísist um það til umfjöllunar í kæru um tvær mismunandi útgáfur af greinargerð með deiliskipulaginu sem lagðar hafi verið fram til nefndarinnar. Þá verði ekki talið að svör sveitarfélagsins við athugasemdum kæranda um framreiðslu þessara gagna séu mjög frambærileg. Þær skýringar sem sveitarfélagið gefi á misræmi skjalanna séu frekar máttlausar, þar sem sagt sé að um eitt og sama skjalið sé að ræða, en seinna skjalið hafi verið „skalað niður“ svo bæði undirskrift og greinargerð kæmust fyrir á einni blaðsíðu.

Í greinargerð sveitarfélagsins sé því svo haldið fram að ekki hafi verið nauðsynlegt að taka fram mænishæð í auglýsingu þar sem helsta breytingin hafi snúið að stærð og fermetrafjölda húsa. Þessu sé mótmælt. Í fyrsta lagi telji kærandi að aldrei hafi staðið til hjá sveitarstjórn að breyta skilmála um mænishæð, sé litið til gagna málsins, en hvað sem því líði sé um að ræða gríðarlega breytingu frá fyrra skipulagi sem varði hagsmuni allra íbúa á svæðinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi byggir málflutning sinn einna helst á því að samþykkt breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum 6. mars 2007 hafi ekki verið lögum samkvæmt. Umþrætt breyting var samþykkt í sveitarstjórn 6. mars 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst s.á. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kærufrestur vegna deiliskipulagsbreytingarinnar er því löngu liðinn og kemur málsmeðferð eða efni hennar þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingar­framkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti séu fjarlægð. Er ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis háð mati stjórn­valds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. laganna í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þess sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Gefur umrætt ákvæði sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hags­munum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða var m.a. studd þeim rökum að hin umdeilda bygging væri í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfis mannvirkisins hefði verið lögmæt. Í því sambandi var vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 29/2020 þar sem því var slegið föstu að hið kærða byggingarleyfi hefði ekki farið í bága við skilmála gildandi deiliskipulags. Verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna beitingu þvingunarúrræða hafi verið studd efnislegum rökum.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 16. september 2020 um að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut.

120/2020 Neðan Sogsvegar

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 120/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Neðan-Sogsvegar 4, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. október 2020 að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 8. janúar 2021.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps 14. október 2020 var tekin fyrir athugasemd lóðarhafa Neðan-Sogsvegar 4A varðandi breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots. Gerð var athugasemd við að byggingarreitur innan lóðar nr. 4 nái yfir svæði sem standi töluvert hærra en bústaður á lóð nr. 4A. Bygging þar geti verið veruleg ógnun við friðhelgi þeirra auk þess að vera sjónmengun. Var óskað eftir því að viðkomandi deiliskipulagsbreyting yrði felld úr gildi og nýtt deiliskipulag unnið sem tæki tillit til athugasemda varðandi byggingarreit. Lagði skipulagsnefnd til að óveruleg breyting yrði unnin á deiliskipulagi og byggingarreitur lóðar nr. 4 minnkaður. Á fundi sveitarstjórnar 21. október 2020 var samþykkt að gera óverulega breytingu á deiliskipulaginu. Var skipulagsfulltrúa falið að ljúka málinu á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skyldi niðurstaða sveitarstjórnar og skipulagsbreytinga grenndarkynnt lóðarhafa lóðar nr. 4 og honum gefinn kostur á andmælum.

Kærandi telur að óviðkomandi aðilar séu að ganga freklega á eignarrétt hans að ástæðulausu. Erfiðara verði að skipta upp lóðinni í tvær aðskildar lóðir. Verði settar hömlur á byggingarreitinn rýri það verðgildi eignarinnar umtalsvert. Skipulagsnefnd hafi farið fram úr sínum valdheimildum með því að samþykkja athugasemdir lóðarhafa lóðar nr. 4A án röksemda. Engin ákvörðun hafi verið tekin um að byggja á umdeildu svæði. Það svæði sem standi hærra en húsið á lóð nr. 4A sé hóll og því óheppilegt sem byggingasvæði. Lóðarhafar þeirrar lóðar hafi ekki rétt á að krefjast skerðingar á byggingarreitnum.

Sveitarfélagið bendir á að deiliskipulagsbreyting vegna breyttrar legu byggingarreits hafi ekki verið kláruð þar sem ákveðið hafi verið að bíða með grenndarkynningu þar til niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála lægi fyrir. Hin kærða ákvörðun hafi því ekki tekið gildi og enn eigi eftir að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Því verði ekki séð að um kæranlega ákvörðun sé að ræða, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar frá 21. október 2020, um að leggja til að óveruleg breyting verði unnin á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Norðurkots vegna lóðarinnar Neðan-Sogsvegar 4, er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur liður í málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar. Ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður henni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagsbreytingin og öll málsmeðferð hennar lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2020 Garðarsbraut, Húsavík

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 21. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2020, kæra vegna synjunar byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 á endurskoðun og endurgreiðslu sorphirðugjalda sem lögð voru á vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir Bjarkarkot ehf. þá ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 að synja um „endurgreiðslu og niðurfellingu sorphirðugjalda“ sem lögð voru á kæranda vegna fasteignarinnar Garðarsbrautar 12, Húsavík, árin 2018, 2019 og 2020. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Norðurþingi 23. ágúst 2020 og 30. nóvember s.á.

Málavextir: Hinn 13. maí 2020 sendi kærandi sveitarstjóra Norðurþings bréf þar sem þess var óskað að álagning sorphirðugjalds vegna eignar hans Garðarsbrautar 12, fastanúmer 215-2556, 228-6800 og 228-6801, yrði endurskoðuð og gjaldið endurgreitt fyrir tímabilið 1. mars 2018 til og með 1. maí 2020. Mun kærandi starfrækja gistiþjónustu í húsnæðinu.

Á fundi byggðarráðs Norðurþings 11. júní 2020 var erindi kæranda tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Byggðarráð felur sveitarstjóra að taka saman minnisblað og leggja fyrir ráðið að viku liðinni. Sveitarstjóra er falið að svara erindunum og tjá íbúðareigendum að sveitarfélagið sjái sér ekki fært að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda.“ Með tölvupósti 16. s.m. var kæranda tilkynnt niðurstaða málsins og var vísað til þess að samkvæmt lögum, reglugerðum og samþykktum væru lögð gjöld á alla íbúðareigendur í Norðurþingi, þar með talin sorphirðugjöld, enda væri húsnæðið skráð sem íbúðarhúsnæði. Væri hins vegar tilefni til þess að eign yrði skráð sem atvinnuhúsnæði breyttust álögð gjöld til samræmis við lög, reglugerðir og samþykktir þannig að sorphirðugjöld væru ekki innheimt og þar með á ábyrgð eiganda húsnæðisins að kaupa slíka þjónustu. Var jafnframt tekið fram að óskaði eigandi Garðarsbrautar 12 eftir því að fasteignin yrði skráð sem atvinnuhúsnæði og fengi þar með felld niður sorphirðugjöld á vegum sveitarfélagsins væri sjálfsagt að verða við þeirri beiðni og skyldi hún berast skipulags- og byggingarfulltrúa Norðurþings á tiltekið netfang.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi eignast húsnæðið að Garðarsbraut 12 í upphafi árs 2018 og hafi ætlunin verið að gera upp íbúðirnar og leigja út til ferðamanna í skammtímaleigu. Hafi Norðurþing bent kæranda á að heppilegast væri að skrá húsnæðið sem íbúðarhúsnæði þar sem auðveldara væri að selja íbúðirnar í sitthvoru lagi og að hver íbúð hefði sitt fastanúmer. Fljótlega eftir að kærandi hafi komið að rekstri húsnæðisins hafi honum orðið það ljóst að sorpmálum væri mjög ábótavant. Sorpílátum hafi verið illa sinnt. Þau hafi verið losuð sjaldan og gjarnan innsigluð þar sem ekki hafi verið hægt að fylgjast með réttri flokkun. Til að koma í veg fyrir áframhaldandi sóðaskap og óþægindi hefði verið óskað eftir því að sveitarfélagið fjarlægði sorpílátin þar sem tíðni losunar og stærð ílátanna hentaði ekki þeirri starfsemi sem væri í húsnæðinu. Sveitarfélagið hefði fjarlægt sorpílátin, eins og óskað hefði verið eftir, og hætt allri þjónustu við húsnæðið. Hefði kæranda ekki verið bent á að bærinn gæti komið til móts við þarfir eigenda í sorphirðumálum og hefði kærandi ekki haft vitneskju um slíkt. Hann hefði því óskað eftir því að Íslenska gámafélagið (ÍGF), sem sjái um sorphirðu fyrir sveitarfélagið, útvegaði stórt sorpílát og tæki að sér losun þess eftir pöntunum. ÍGF hafi verið greitt fyrir leigu á sorpíláti og losun á sorpi síðan í mars árið 2018. Í maí 2020 hafi kæranda þótt kostnaður við sorphirðu orðinn óvenju hár og við nánari skoðun hefði komið í ljós að sveitarfélagið hefði innheimt gjöld fyrir sorphirðuþjónustu allt frá því að óskað hefði verið eftir því við sveitarfélagið að þjónustu við Garðarsbraut 12 yrði hætt, sem það hefði og gert.

Hinn 13. maí 2020 hefði kærandi sent sveitarfélaginu formlegt bréf þar sem þess hefði verið óskað að sorphirðugjöld fyrir fasteignir með fastanúmerin 215-2556, 228-6800 og 228-6801 yrðu endurgreidd yfir tiltekið tímabil og þau felld niður í kjölfarið þar sem kostnaður sveitarfélagsins vegna þjónustu við sorphirðu vegna húsnæðisins væri enginn. Hefði beiðnin verið tekin fyrir á fundi byggðarráðs Norðurþings hinn 11. júní 2020 og henni hafnað.

Í 1. gr. gjaldskrár Norðurþings um meðhöndlun og förgun sorps árið 2020 sé tilgreind upphæð árlegs þjónustugjalds vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í Norðurþingi til þess að standa undir kostnaði við sorphirðu. Í 3. gr. gjaldskrárinnar segi að gjöld fyrir meðhöndlun og urðun úrgangs skuli innheimt með fasteignagjöldum. Í 8. gr. samþykktar nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í Norðurþingi frá 3. júlí 2017 komi fram að sveitarstjórn sé heimilt að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar að setja gjaldskrá og innheimta sorphirðugjöld til að standa straum af öllum kostnaði við sorphirðu. Þar komi einnig fram að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði fyrir veitta þjónustu. Jafnframt segi í ákvæðinu að gjöld miðist við stærð og fjölda íláta, magn úrgangs og tíðni sorphirðu.

Í máli þessu sé tekist á um hvort þjónustugjöldum við sorphirðu samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins sé beitt eins og um fasteignaskatt sé að ræða. Sorphirðugjöld vegna Garðarsbrautar séu sannanlega hærri en sem nemi rekstrarkostnaði sveitarfélagsins við þjónustuna, auk þess sem gjöldin séu augljóslega ekki miðuð við stærð, fjölda, magn úrgangs eða tíðni sorphirðu vegna eignarinnar. Engu máli skipti hvort húsnæðið sé skráð sem íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði þar sem kostnaður við þjónustuna hafi ekki lent á sveitarfélaginu. Sorphirðugjöldin séu ekki ætluð til annars en að standa undir rekstrarkostnaði við sorphirðu.

Verði að gera ríka kröfu á ríki og sveitarfélög um að þau sinni upplýsingagjöf og leiðbeiningaskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sveitarfélaginu hefði verið í lófa lagið að benda á að sorphirðugjöld yrðu eftir sem áður innheimt vegna fasteignanna óháð því hvort kærandi þæði þjónustu af hálfu sveitarfélagsins eða ekki. Sveitarfélaginu beri að tryggja jafnræði á milli eigenda fasteigna og að einstaka aðilar greiði ekki hærri gjöld en sanngjarnt sé hverju sinni. Því beri að líta til meðalhófs við ákvarðanir sínar, taka mið af reglum varðandi sorphirðu og innheimta ekki þjónustugjöld fyrir þjónustu sem hafi ekki verið veitt í tvö og hálft ár.

Sveitarfélaginu sé ekki stætt á því að leggja gjöld á fyrirtækið vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna þess fyrir tímabilið 1. mars 2018 og út árið 2020 þar sem engin þjónusta hafi þá verið veitt og enginn kostnaður fallið á sveitarfélagið. Greitt hafi verið samviskusamlega fyrir losun á því sorpi sem fallið hafi til á tímabilinu. Ekki sé verið að reyna að komast hjá því að greiða fyrir losun og urðun á því sorpi sem til falli. Umrætt húsnæði sé skráð sem íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði. Öllum tilmælum sveitarfélagsins í þá veru að fyrirtækið breyti skráningu húsnæðisins í atvinnuhúsnæði, til þess eins að bæta sveitarfélaginu upp tekjumissi í gegnum þjónustugjöld við sorphirðu, sé alfarið hafnað.

Málsrök Norðurþings: Sveitarfélagið bendir á að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skuli sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélagi. Hafi sveitarfélagið á því tímabili sem hér um ræði byggt á samþykkt sinni nr. 646/2017 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu frá 3. júlí 2017, sem sæki lagastoð í framangreint ákvæði laga nr. 55/2003 og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Árlega hafi sveitarfélagið samþykkt gjaldskrá vegna meðhöndlunar og förgunar úrgangs í sveitarfélaginu. Gjaldskrá fyrir árið 2018 hafi verið samþykkt af sveitarstjórn 29. nóvember 2017, gjaldskrá fyrir árið 2019 hafi verið samþykkt 13. desember 2018 og gjaldskrá fyrir árið 2020 hinn 4. desember 2019. Í öllum tilvikum hafi gjaldskrárnar tekið gildi 1. janúar viðkomandi ár. Krafa kæranda nái til áranna 2018, 2019 og 2020. Kærandi hafi keypt þær þrjár íbúðir sem um ræði með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018. Fyrir vikið hafi álagningarseðill ársins 2018 verið sendur á fyrri eiganda en aðrir innheimtuseðlar á kæranda. Samkvæmt kaupsamningi skyldi gefa út afsal 15. febrúar 2018 og verði að leggja til grundvallar að eigi síðar en þá hafi kæranda verið kynntur álagningarseðill vegna fasteignagjalda. Afsali hafi ekki enn verið þinglýst. Kæranda hafi verið sendir álagningarseðlar vegna 2019 hinn 7. febrúar það ár og vegna 2020 hinn 10. febrúar það ár. Kærandi hafi hingað til greitt umrædda álagningu fasteignagjalda athugasemdalaust, eða allt þar til 14. maí 2020.

Kærandi geti ekki búið til nýjan kærufrest með því að krefjast endurgreiðslu á þegar greiddum sorphirðugjöldum. Kærufresturinn byrji að líða þegar gjöldin séu lögð á. Sé það í síðasta lagi þegar álagningarseðill vegna gjaldanna sé sendur til viðkomandi gjaldanda. Samkvæmt 2. mgr. 4. laga nr. 130/2011 hafi kærufrestur vegna sorphirðugjalda runnið út 10. mars 2018 vegna gjalda það ár, 9. mars 2019 vegna gjalda það ár og 11. mars 2020 vegna gjalda það ár. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi verið lögð fram 10. júlí 2020.

Í kæru komi kröfugerð ekki skýrt fram. Orðalagið í kæru verði ekki skilið öðruvísi en svo að það sé álagningin sem verið sé að kæra, en ekki synjun á endurgreiðslu. Þannig segi í upphafsorðum niðurstöðukafla kærunnar: „Norðurþingi er ekki stætt að leggja gjöld á Bjarkarkot ehf. vegna þjónustu við sorphirðu fasteigna fyrirtækisins …“ Sé litið svo á að kröfugerðin lúti að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna endurgreiðslu, þá blasi við að yrði sú ákvörðun felld úr gildi þá breytti það engu um réttarástandið, álagningin stæði eftir sem áður. Kærandi hafi þannig ekki lögvarða hagsmuni af slíkri niðurstöðu sem væri í reynd ekkert annað en lögfræðileg álitsgerð.

Við ákvörðun gjaldskrár vegna þjónustugjalda sé sveitarfélögum veitt ákveðið svigrúm til að haga gjaldtökunni með almennum hætti og þurfi þau ekki að sýna fram á að gjaldið samsvari kostnaði gagnvart hverjum einstökum viðtakanda þjónustunnar. Sérstaklega komi fram í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 að sveitarfélagi sé heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Norðurþing hafi, eins og önnur sveitarfélög, valið þessa leið við gjaldtöku og ákvarðað samræmt gjald vegna meðhöndlunar úrgangs á allar íbúðir í sveitarfélaginu. Ekki sé hægt að útiloka að eigendur einstakra íbúða geti rökstutt að kostnaður við þjónustuna gagnvart þeim sé lægri en þau gjöld sem greidd séu. Nægilegt sé að sveitarfélagið sýni fram á almenna, gagnsæja og sanngjarna álagningu gjalda og að gjaldtöku sé ekki þannig hagað að hagnaður sé af starfseminni að jafnaði.

 

Eftirfarandi sé samantekt úr bókhaldi sveitarfélagsins vegna sorphirðu þess árin 2015 til 2019:

Ár                   Tekjur*                       Gjöld              Niðurstaða

2015                59.621.844                  84.431.826      24.809.982

2016                59.958.717                  70.178.809      10.220.092

2017                62.178.687                  56.092.237      -6.086.450

2018                57.217.959                  61.694.150        4.476.191

2019                58.187.505                  70.906.279      12.718.774

Nettó             297.164.712                343.303.301     46.138.589

*Sorphirðugjald og sorpeyðingargjald

 

Árið 2017 hafi tekjur orðið aðeins hærri en bein útgjöld vegna sorphirðu sveitarfélagsins. Þótt sveitarfélagið telji að það hefði getað rökstutt óbreytta gjaldtöku hafi verið ákveðið að lækka gjöldin árið 2018 vegna þessa, þannig að bein útgjöld við starfsemina væru meiri en allar tekjur vegna hennar. Áætlun 2020 geri ráð fyrir tapi af starfseminni.

Sveitarfélagið hafi beinlínis lögbundna heimild til að ákveða fast gjald á hverja fasteignar-einingu miðað við þjónustustig. Skráning eigna kæranda sem íbúða skilgreini þjónustustig og skyldur sveitarfélagsins í þessum efnum. Kæranda hafi verið veitt sama þjónusta og sama þjónustustig og öðrum íbúðareigendum. Ekki sé hægt að bera ábyrgð á því hvort aðrir en þeir sem dvelji í íbúð noti sorpílát sem tilheyri þeirri íbúð og hver séu viðbrögð íbúðareigenda við slíku. Tíðari tæmingar eða notkun annarra íláta séu á ábyrgð hvers fasteignareigenda. Íbúðareigandi virðist ekki hafa snúið sér til sveitarfélagsins árið 2018 heldur samið beint við þjónustuaðila sveitarfélagsins um aðra tilhögun. Ekki fáist séð að kostnaðurinn hafi tekið nokkrum breytingum við þessa aðgerð kæranda.

Áréttað sé að það standist ekki viðurkennd lagasjónarmið að ætla sveitarfélagi að reikna út kostnað við hverja staka íbúð fyrir sig, heldur sé nægilegt að deila allri gjaldtöku á eignir með sama þjónustustig með gagnsæjum og sanngjörnum hætti. Það sé gert og þrátt fyrir það nægi heildartekjur ekki til að standa straum af öllum kostnaði við að veita þjónustuna. Sé gjaldtakan þannig á allan hátt innan ramma þeirra reglna sem gildi um þjónustugjöld.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar að sveitarfélagið hafi um árabil ekki þurft að þjónusta Garðarsbraut 12 vegna losunar sorps, en hafi engu að síður innheimt gjöld af kæranda fyrir þjónustuna. Ljóst sé að Norðurþing innheimti gjald sem eigi ekki rétt á sér og sé bent á að í lögum nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda segi í 8. gr. um endurgreiðslu oftekins fjár að stjórnvöldum beri að hafa frumkvæði að endurgreiðslu þegar þeim verði ljóst að ofgreitt hafi verið.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um álagningu sorphirðugjalda á kæranda vegna eigna hans að Garðarsbraut 12 fyrir árin 2018, 2019 og 2020 og synjun á kröfu hans um endurgreiðslu þeirra gjalda. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Þó skal kæru ekki sinnt skv. 2. mgr. nefndrar 28. gr. ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðlum, dags. 7. febrúar 2018, 7. febrúar 2019 og 10. febrúar 2020. Leitaði kærandi til sveitarfélagsins með ósk um endurgreiðslu 13. maí 2020 og 15. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra máls þessa með bréfi, dags. 10. s.m., sem póstlagt var þann dag. Meira en ár var þá liðið frá því að álagning vegna sorphirðu árið 2019 var tilkynnt kæranda með álagningarseðlum og einnig frá því að hún var tilkynnt fyrri eiganda með sama hætti vegna sorphirðu 2018. Kærandi eignaðist fasteignir þær sem um ræðir með kaupsamningi, dags. 31. janúar 2018, og var afsal gefið út honum til handa 15. febrúar s.á., en þá fer almennt fram uppgjör gjalda milli aðila. Var einnig liðið meira en ár frá því tímamarki þegar kæran var móttekin. Í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kæru kæranda vegna álagningar þessara ára því ekki sinnt og þeim kröfum hans vísað frá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður við úrlausn þessa atriðis að meta hagsmuni og tengsl kærenda við úrlausn málsins, þ.e. hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Við meðferð máls þessa hefur sveitarfélagið upplýst að það hafi fellt niður sorphirðugjöld vegna ársins 2020, en það hafi ekki fordæmisgildi gagnvart álagningu fyrri eða síðari ára. Hefur úrskurðarnefndin undir höndum álagningarseðla, dags. 2. október 2020, þar sem fram kemur að álagning sorphirðugjalds á kæranda vegna fasteigna hans hafi verið felld niður. Eftir niðurfellingu gjaldanna hefur álagning ársins 2020 ekki lengur réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um lögmæti gjaldtöku þess árs. Verður kröfum kæranda hvað það ár varðar því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem áður greinir óskaði kærandi eftir endurskoðun álagningar sorphirðugjalda með bréfi, dags. 13. maí 2020, en því erindi var synjað af byggðarráði 11. júní s.á. Synjun um endurupptöku máls bindur á það enda að nýju og er því stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Kæra til nefndarinnar var póstlögð 10. júlí s.á og hún því nægilega snemma framkomin hvað varðar ákvörðun um synjun á endurgreiðslu sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019, sem ekki hafa verið felld niður, og verður sá hluti málsins því tekinn til efnismeðferðar.

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum. Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þó er mælt fyrir um það í 2. mgr. 24. gr. laganna að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tl. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ljóst er að þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Norðurþingi voru allir þeir tímafrestir er tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir. Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði hennar séu sett m.a. til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd. Er og tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Við mat á því hvort endurupptaka eigi mál ber að líta til eðlis þess hverju sinni og málsatvika allra, sem og þeirra sjónarmiða sem leiða má af skilyrðum ákvæðanna um tímafresti. Eiga fyrrgreind sjónarmið einnig við um rétt til endurupptöku máls sem leiða má af ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins þótt þær reglur kunni að vera rýmri en gert er ráð fyrir í ákvæðum stjórnsýslulaga. Þau rök voru færð fyrir synjun sveitarfélagsins á beiðni kæranda um endurskoðun að það „sjái sér ekki fært“ að verða við óskum um niðurfellingu sorphirðugjalda án þess að rakið væri af hvaða orsökum það væri. Í tilkynningu til kæranda var þó tekið fram að um álagningu á alla íbúðareigendur væri að ræða en álögð gjöld myndu breytast yrði eign skráð sem atvinnuhúsnæði, en til þess þyrfti að koma fram beiðni íbúðareiganda. Af nefndum gögnum verður hins vegar hvorki ráðið að afstaða hafi verið tekin til þess hvort álagningin hefði t.d. byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, né að fram hafi farið mat á því hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að endurskoða álagninguna, sbr. 2. mgr. sama lagaákvæðis. Í þessu sambandi skal tekið fram að undir meðferð kærumáls þessa leitaði úrskurðarnefndin upplýsinga hjá sveitarfélaginu um númer og birtingu gjaldskráa þeirra sem nefnd álagning byggðist á, en skv. 4. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skal láta birta í B-deild Stjórnartíðinda gjaldskrár vegna gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs, s.s. sorphirðu. Fengust þau svör að ekki yrði séð að gjaldskrár þær sem um ræðir hefðu fengið númer en vísað til þess að þær hefðu verið birtar opinberlega á vef Norðurþings. Þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að umræddar gjaldskrár hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Með hliðsjón af framangreindu var því fullt tilefni til þess fyrir sveitarfélagið að leggja sérstakt mat á og taka afstöðu til þess hvort vafi um lögmæti álagningar hinna umdeildu gjalda ætti að leiða til endurskoðunar álagningarinnar, þrátt fyrir þann tíma sem liðinn væri frá henni. Er því óhjákvæmilegt að fella úr gildi synjun byggðarráðs á beiðni kæranda um endurskoðun og endurgreiðslu álagðra gjalda vegna áranna 2018 og 2019. Hins vegar verður öðrum kröfum kæranda vísað frá úrskurðarnefndinni, eins og áður er komið fram.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggðarráðs Norðurþings frá 11. júní 2020 um að synja um endurskoðun og endurgreiðslu álagningar sorphirðugjalda vegna áranna 2018 og 2019 á kæranda vegna Garðarsbrautar 12, Húsavík.

Öðrum kröfum kæranda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

88/2020 Ásvallagata

Með

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2020, er barst nefndinni 30 s.m., kæra eigendur, Ásvallagötu 23, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt eru gerðar kröfur um að framkvæmdin uppfylli öll lög og reglugerðir, að haft verði nákvæmara eftirlit, að gengið verði frá húsi kærenda eins og það hafi upphaflega verið, að skoðað verði hvort byggingarstjóri hafi tilheyrandi starfsleyfi og tryggingar og að kærendur séu upplýstir ef breytingar verði á fyrirhuguðum verklokum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. október 2020.

Málavextir: Hinn 7. nóvember 2006 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi sem fólst m.a. í því að gera þaksvalir og aðkomurými úr gleri á húsinu nr. 21 við Ásvallagötu, en byggingarleyfið var síðan endurnýjað á árinu 2009. Gerð var breyting á leyfinu árið 2010 sem fólst m.a. í því að breyta þakgerð á þaksvölum úr glerþaki í bárujárnsþak. Þá var aftur gerð breyting á leyfinu árið 2017 sem fólst m.a. í því að samþykkja reyndarteikningar af þaksvölum vegna lokaúttektar. Leyfishafar festu kaup á fasteigninni að Ásvallagötu 21 í júní 2018, en frágangi vegna framkvæmda á þaksvölum mun þá ekki hafa verið lokið.

Með bréfi, dags. 19. maí 2020, sendu kærendur minnisblað til byggingarfulltrúa vegna framkvæmdanna þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum vegna þeirra. Kom þar m.a. fram að íbúar í húsi kærenda hafi orðið varir við leka í íbúðum sínum sem þeir telji að megi rekja til framkvæmdanna. Gerðu kærendur ýmsar kröfur í minnisblaðinu, þ. á m. að ef fyrirhugað væri að leyfa breytingar á verklokum yrðu þeir upplýstir um það. Hinn 1. júlí 2020 sóttu leyfishafar um byggingarleyfi fyrir breytingum á þaksvölum hússins og kom þar fram að einungis væri um útfærslubreytingar að ræða. Breytingar hafi verið gerðar á hliðarveggjum aðliggjandi húsa en séu alfarið innan lóðarmarka Ásvallagötu 21. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. s.m. var bókað að sótt væri um leyfi til að breyta áður samþykktu byggingarleyfi vegna lokaúttektar sem fælist í því að gaflar yrðu klæddir á húsinu. Var umsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi fyrst fengið fregnir af samþykki um­deilds byggingarleyfis þegar þeir hafi haft samband við byggingarfulltrúa 10. september 2020. Því sé kæran lögð fram innan kærufrests.

Samþykki umsóknarinnar hafi komið kærendum á óvart þegar tekið sé tillit til þess að þeir hafi sent minnisblað til byggingarfulltrúa 19. maí 2020 þar sem skilmerkilega hafi verið gerð grein fyrir fjölmörgum göllum við framkvæmd þaksvalanna. Í umsókninni komi fram að ekki sé um stækkun að ræða heldur einungis útfærslubreytingu. Hið rétta sé að svalirnar hafi breikkað um 180 cm, 90 cm hvoru megin, frá þeim áformum sem hafi verið grenndarkynnt og þau samþykkt. Í umsókninni segi einnig að allar breytingar séu innan lóðarmarka Ásvallagötu 21, en hið rétta sé að til standi að klæða gaflinn á Ásvallagötu 23. Svalagólfið muni ná upp að húsgafli húss kærenda og svalirnar séu 4-5 m2 stærri en á fyrri teikningum. Að kærendum óspurðum hafi verið byggt ofan á þak þeirra og göt boruð í vegg og bárujárn, sem gæti hafa valdið leka og geti valdið leka í framtíðinni.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli bera breytingar sem þessar undir nágranna sem eigi hagsmuna að gæta áður en samþykki sé veitt. Hagsmunir kærenda séu miklir en vatnstjón hafi nú þegar orðið í þremur íbúðum vegna leka frá svölum. Teikningarnar, sem sýni að gólf svalanna endi upp við gafl, hafi aldrei verið bornar undir kærendur. Fjölmargir sérfræðingar séu sammála um að svalagólf sem endi við samskeyti húsa feli í sér aukna hættu á vatnsleka, en á þeim teikningum sem kynntar hafi verið fyrir kærendum og þeir samþykkt hafi 90 cm þakkantur verið á húsi Ásvallagötu 21, á milli svalanna og gaflsins á húsi kærenda. Þegar áður samþykktar teikningar séu bornar saman við þær teikningar sem nú hafi verið samþykktar sjáist greinilega að um umtalsverða stækkun sé að ræða. Þá sé eldvörnum ábótavant þar sem þak hafi verið hækkað með forsköluðum timburvegg á milli húsanna, en einnig sé forskalaður timbur­­­veggur, þ.e. timbur með vírneti og steypu, yfir steyptum eldvarnarvegg milli húsanna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Ljóst megi vera að kærendum hafi verið kunnugt um framkvæmdina allt frá því fyrst hafi verið leitað leyfis þeirra vegna fram­kvæmdarinnar. Hafi kærendur verið meðvitaður um framkvæmdirnar, sbr. nýlegt erindi þeirra til byggingarfulltrúa.

Árið 2010 hafi þaki yfir svölum samkvæmt byggingarlýsingu verið breytt úr glerþaki í hefðbundið bárujárnsþak. Sótt hafi verið um samþykki fyrir reyndarteikningum af þaksvölum vegna lokaúttektar sem varði útfærslu þaksvala á árinu 2017. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið sótt um samþykki fyrir nýrri útfærslu á þaki svalanna þar sem byggt sé glerhýsi ofan á þær. Samkvæmt uppdráttum sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn sé breytingin innan þeirra stærðarmarka sem samþykktar hafi verið árið 2017 og því sé ekki um að ræða stækkun. Kærð stækkun hafi í raun átt sér stað fyrr eða á árinu 2017.

Fram komi í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlun sveitarfélagsins. Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu byggingarleyfis. Fram komi að sé framkvæmd í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn ákveðið að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skilyrði fyrir slíkri málsmeðferð sé að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Ekkert deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði og því gildi nefnd 44. gr. skipulagslaga. Byggingarfulltrúi hafi metið það svo að ekki væri þörf á aðkomu skipulags­fulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur hafi sent kæruna að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra hafi verið send 76 dögum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsvæði Reykjavíkurborgar og því sé kærufrestur liðinn. Kærendur hafi fylgst grannt með hinum umdeildu framkvæmdum og verið í tíðum samskiptum við starfsmenn byggingarfulltrúa vegna þeirra. Fyrir liggi tölvupóstur frá starfsmanni byggingarfulltrúa 9. september 2020 til annars leyfishafa þar sem fram komi að einn eigenda Ásvallagötu 23 óski eftir upplýsingum um stöðu byggingarleyfis. Það sé því ljóst að kærendur hafi verið upplýstir um hina kærða ákvörðun þann dag og hafi raunar verið  upplýstir um hana allt frá þeim tíma sem hún hafi verið birt. Þá komi fram í byggingarsögu að aðilar á vegum kærenda hafi óskað 22. júlí 2020 eftir afriti allra gagna sem varði framkvæmdina.

Málsmeðferð byggingarleyfisins hafi á allan hátt verið lögmæt. Hin kærða ákvörðun feli í sér óverulega breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi sem snerti hagsmuni kærenda ekki á nokkurn hátt, enda séu þær allar innan lóðarmarka og hafi engin nábýlisréttarleg áhrif á kærendur. Skerði breytingin í engu hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp, innsýn eða aðra hagsmuni. Rúmist sú breyting að öllu leyti innan ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í þessu samhengi sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að í hinni kærðu ákvörðun felist samþykki fyrir stækkun svalanna um 180 cm. Hið rétta sé að stærð svala sé óbreytt, fari hvorki yfir lóðarmörk né byggingarreit hússins og sé í samræmi við áður útgefið byggingarleyfi. Eina breytingin felist í smávægilegum frágangi sem engum sé sýnileg öðrum en leyfishöfum. Bent sé á að ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kærendur vísi til, eigi við um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi, en um það sé ekki að ræða í máli þessu.

Þá sé bent á að breytingin ein og sér væri í öllu falli ekki byggingarleyfisskyld á grundvelli gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda væri þá um að ræða endurnýjun þakkants og veggklæðningar þar sem sambærilegt efni og frágangur væri notaður og samþykkt hafi verið í upphaflegu byggingarleyfi auk þess sem útliti byggingarinnar væri svo til ekkert breytt. Slíkar framkvæmdir einar og sér væru einfaldlega ekki byggingarleyfisskyldar. Kærumálið muni ekki leysa úr ágreiningi um hvort rekja megi leka til frágangs á þaki sem leyfishafar leitist nú við að lagfæra. Sú deila hafi ekkert með forsendur byggingarleyfisins að gera. Kærendur vilji að framkvæmdirnar séu gerðar á þeirra forsendum og í samráði við þá. Það hafi ekkert með lögmæti byggingarleyfisins að gera heldur varði það hvort rekja megi rakatjón til þeirra framkvæmda sem þegar hafi átt sér stað. Hvað sem öðru líði sé bent á að ákvæði um grenndarkynningu byggingarleyfisskyldra framkvæmda sé einfaldlega ekki ætlað að vernda hagsmuni af þessum toga og væri það í andstöðu við markmið laga að fallast á sjónarmið kærenda. Vettvangurinn fyrir úrlausn deilu milli leyfishafa og kærenda sé ekki þetta kærumál.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Fundargerð byggingarfulltrúa, sem m.a. hafði að geyma hina kærðu ákvörðun, mun hafa verið birt á heimasíðu borgarinnar í kjölfar afgreiðslufundar hans 14. júlí 2020. Sá birtingarmáti telst ekki til opinberrar birtingar í skilningi 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur birting fundargerðar byggingarfulltrúa því ekki markað upphaf kærufrests í máli þessu, enda er ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild um að slík birting teljist vera opinber birting. Ekkert liggur fyrir um að kærendum hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun meira en mánuði áður en kæra barst úrskurðarnefndinni 30. september 2020. Verður því við það að miða að kæran hafi borist innan lögmælts kærufrests. Hið kærða byggingarleyfi snertir framkvæmdir á þakfleti hússins að Ásvallagötu 21, sem er sambyggt húsi kærenda, og er ekki útilokað að ákvörðunin geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra eins og atvikum er háttað. Verða þeir því taldir eiga kæruaðild í máli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21, en upphaflegt byggingarleyfi til að gera þaksvalir og aðkomurými er frá árinu 2009. Ágreiningur í málinu lýtur m.a. að því hvort byggingarleyfið feli einungis í sér útfærslubreytingu vegna frágangs, líkt og kemur fram í byggingarleyfinu, eða hvort um stækkun á umræddum svölum sé að ræða, eins og kærendur halda fram.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulagi liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að grenndarkynning felist í því að skipulags­nefnd kynni leyfisumsóknina nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda.

Líkt og rakið var í málavöxtum var með umsókn hins kærða byggingarleyfis sótt um leyfi vegna breytinga sem gerðar höfðu verið á hliðarveggjum aðliggjandi húsa. Á samþykktum uppdráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að um sé að ræða útfærslubreytingar sem gerðar hafi verið eftir að reyndarteikningar hússins voru samþykktar árið 2017. Hins vegar verður af samanburði teikninga sem samþykktar voru árið 2017 og samþykktra teikninga vegna umþrætts byggingarleyfis ráðið að svalirnar hafa breikkað og ná nú að gafli húss kærenda að Ásvallagötu 23 auk þess sem svalahandrið hefur færst utar. Er því ljóst að ekki er einungis um útfærslubreytingu að ræða, svo sem kemur fram bæði í umsókn um byggingarleyfi og á samþykktum uppdráttum. Hin kærða ákvörðun heimilar stækkun svalanna auk þess sem þær ná að gafli húss kærenda. Bar því samkvæmt fyrrnefndri 44. gr. skipulagslaga að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina áður en byggingarfulltrúi tók afstöðu til hennar.

Að öllu framangreindu virtu verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.

98/2020 Lindarbær

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2020, kæra á ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 um að synja beiðni um skiptingu jarðarinnar Lindarbæjar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Lindarbæjar, Ölfusi, þá ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss frá 17. september 2020 að synja beiðni um skiptingu nefndrar jarðar. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunarinnar. Þess er jafnframt krafist að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að gera deiliskipulag vegna skiptingar jarðarinnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 16. nóvember 2020.

Málavextir: Hinn 11. maí 2020 sendi kærandi tölvupóst til skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss þar sem kom fram að hann hygðist selja íbúðarhúsið á jörð sinni Lindarbæ og því þyrfti að skipta upp jörðinni. Óskaði hann eftir leiðbeiningum um framhaldið og munu kærandi og skipulags- og byggingarfulltrúi hafa fundað um málið 13. s.m. Á fundi skipulags- og umhverfis­nefndar 20. s.m. var erindi kæranda tekið fyrir og bókað að umrætt svæði væri „skilgreint sem landbúnaðarland“ og muni lögbýlisréttur fylgja öðrum skikanum eftir skiptingu. Lagði nefndin til að erindinu yrði vísað til tæknisviðs til frekari úrvinnslu. Mun kærandi í kjölfarið hafa verið upplýstur um að gera þyrfti deiliskipulag til að fá landinu skipt. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa til kæranda 19. júní s.á. kom fram að það væri regla hjá sveitarfélaginu að áskilja gerð deiliskipulags ef skipta ætti lóðum sem væru á íbúðarsvæðum samkvæmt aðalskipulagi. Hinn 23. júlí s.á. var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar tekin fyrir deiliskipulagstillaga kæranda sem gerði ráð fyrir að jörðinni yrði skipt í tvær lóðir. Var lagt til að tillagan yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundinum var jafnframt tekin fyrir beiðni kæranda um að fá að skipta jörðinni í tvennt og stofna nýjar lóðir. Var bókað að samþykkt yrði að stofna lóðirnar þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi.

Með ódagsettu bréfi til sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs og skipulagsfulltrúa gerði kærandi ýmsar athugasemdir við meðferð málsins hjá sveitarfélaginu. Var í bréfinu jafnframt lögð fram málamiðlunartillaga um að málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar héldi áfram en að árituð lóðablöð yrðu send til Þjóðskrár Íslands ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 var erindi kæranda tekið fyrir. Bókað var að kærandi vildi fá að „stofna lóðir áður en deiliskipulagið tekur gildi.“ Synjaði nefndin þeirri beiðni á þeim grundvelli að ekki yrði samþykkt skipting á ódeiliskipulögðu landi sem ætlað væri til uppbyggingar fyrr en deiliskipulagið hefði tekið gildi. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 24. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ekki hefði þurft að gera deiliskipulag til að stofna nýja lóð heldur hefði nægt að skila lóðablöðum ásamt eyðublaði um skráningu nýrra landeigna til fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands. Kærandi hafi mótmælt því að gera deiliskipulag en honum hafi verið stillt upp við vegg og hann síðan látið undan þrýstingi. Sveitarfélagið hafi vísað til þess að krafa um deiliskipulag væri regla hjá þeim en aldrei hafi verið vísað til þess hvar sú regla komi fram þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Deiliskipulagsferlið hafi tekið langan tíma þrátt fyrir loforð um að málið myndi fara „hratt og vel“ í gegn. Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglunni með þvingun um gerð deiliskipulags samkvæmt ósýnilegri reglu. Kærandi hafi lagt fram málamiðlunartillögu en enginn viðbrögð fengið. Skipulagsfulltrúi hafi upplýst kæranda um að nefnd regla sé hvergi skrifuð. Það geti ekki staðist að munnleg regla sé nægileg til að velja þyngstu hugsanlegu leiðina. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. september 2020 hafi komið fram í fyrsta sinn að nefndin geri kröfu um deiliskipulagsgerð. Því sé kæran miðuð við þá ákvörðun. Sérfræðistofnanir, þ. á m. landbúnaðarráðuneytið og Skipulags­stofnun, séu sammála um að óeðlilegt sé að áskilja deiliskipulag í þessu tilfelli.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að óljóst sé að hvaða stjórnvaldsákvörðun kæran beinist. Óumdeilt sé að í málinu hafi kærandi látið vinna deiliskipulagstillögu sem hlotið hafi samþykki á vettvangi sveitarfélagsins og tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Einnig liggi fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi staðfest stofnun nýrrar fasteignar. Kærandi virðist telja að hann hafi að óþörfu verið neyddur til að deiliskipuleggja land í tilefni þess að hann vildi skipta landi sínu í tvær lóðir. Þessu sé alfarið mótmælt. Skipulags- og umhverfisnefnd hafi tekið erindi kæranda fyrir á fundi sínum 23. júlí 2020 þar sem uppdráttur deiliskipulagstillögu kæranda hafi legið fyrir, en hann sé dagsettur 16. júní s.á. Í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að óheimilt sé að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitar­stjórnar komi til. Byggt sé á því að skipulags- og umhverfisnefnd hafi verið fullheimilt að gera kröfu um deiliskipulag svo að forsendur lægju fyrir áður en uppskipting fasteignar kæranda væri heimiluð. Slíkt felist beinlínis í skipulagsvaldi sveitarfélaga. Kærandi hafi nýtt sér heimild 38. gr. skipulagslaga til að gera tillögu að deiliskipulagi. Mestu máli skipti að skipulagsferli málsins sé lokið og stofnun lóða komin á leiðarenda. Hvort tveggja sé í þágu kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann sé í raun að kæra ákvörðun sem aldrei hafi verið tekin. Skipulagsnefnd hafi tekið erindi hans fyrir þrisvar sinnum og á fyrstu tveimur fundunum komi hvergi fram krafa um deiliskipulagsgerð. Það hafi ekki verið fyrr en á fundi nefndarinnar 17. september 2020 sem fram hafi komið synjun á því að stofna lóðir án deiliskipulags. Þar komi afstaða nefndarinnar um deiliskipulagsgerð fyrst fram og því eigi að miða kærufrest við það. Þá sé ekki hægt að ætlast til þess að almenningur viti af kærufresti. Þó nefndinni hafi hugsanlega verið fullheimilt að gera deiliskipulag að forsendu fyrir afgreiðslu umsóknar hans þá hafi hún ekki gert það formlega.

———-

Eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi deiliskipulag Lindarbæjar með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. nóvember 2020. Með skipulaginu var jörð kæranda skipt í tvær lóðir og byggingarreitur fyrir íbúðarhús markaður á hvorri lóð fyrir sig.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Þó er einungis unnt að skjóta ákvörðunum sem binda enda á mál til æðra stjórnvalds skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málum eða að leggja fyrir stjórnvald að taka slíka ákvörðun með tilteknu efni. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að viðurkennt verði að ekki hafi þurft að ráðast í deiliskipulagsgerð vegna umsóknar hans um stofnun tveggja lóða.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar frá 17. september 2020 að synja beiðni kæranda um skiptingu jarðarinnar Lindabæjar áður en deiliskipulagstillaga kæranda tæki gildi. Í fundargerð nefndarinnar er beiðni kæranda synjað en jafnframt tekið fram að samþykkt verði að stofna mætti lóð þegar deiliskipulagið hefði tekið gildi. Sú ákvörðun nefndarinnar sneri að meðferð máls um stofnun nýrrar lóðar en fól ekki í sér lyktir þess. Telst hin kærða ákvörðun því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

84/2020 Sæbraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2020, kæra vegna heimilaðrar viðbyggingar að Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Sæbraut 8, Seltjarnarnesi, „málsmeðferð vegna viðbyggingar við Sæbraut 6 á Seltjarnarnesi.“ Verður að skilja málskot kærenda svo að kærð sé ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 21. ágúst 2019 um breytingu á deiliskipulagi Melhúsatúns vegna lóðarinnar Sæbrautar 6 og ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. júní 2020 um að samþykkja byggingaráform um viðbyggingu við húsið að Sæbraut 6 og að krafist sé ógildingar nefndra ákvarðana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 27. október 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness 3. júlí 2019 var tekin fyrir umsókn um stækkun bílskúrs við húsið að Sæbraut 6 og var kynning eigenda fyrir nágrönnum lögð fram á fundinum. Var málið afgreitt með svofelldum hætti: „Grenndarkynning fór fram og bárust engar athugasemdir. Nefndin samþykkir að vísa málinu til byggingarfulltrúa sem auglýsir deiliskipulagsbreytinguna sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.” Var ákvörðunin staðfest í bæjarráði 11. júlí 2019 og í bæjarstjórn 21. ágúst s.á.

Samkvæmt gögnum máls fékk tillagan hins vegar málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags­laga. Auglýsing til kynningar á tillögu um breytingu á deiliskipulagi svæðisins vegna Sæbrautar 6 var birt á vef Seltjarnarnesbæjar og í Lögbirtingablaðinu 2. ágúst 2019 og í Fréttablaðinu 3. s.m. Var tekið fram að hún væri aðgengileg á bæjarskrifstofu sem og á vef sveitarfélagsins og fæli í sér stækkun byggingarreits á lóðinni Sæbraut 6 og hækkun nýtingarhlutfalls. Frestur til að gera athugasemdir var frá 3. ágúst til 3. september 2019 en engar athugasemdir bárust. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020.

Hinn 5. júní 2020 samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu hússins að Sæbraut 6 í samræmi við umsókn eigenda. Var heimilað að byggja við núverandi bílskúr suðvestan megin við húsið og útisturtu/gufu á baklóð. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,25 í 0,29 og stærð húss úr 214 m² í 244 m².

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að grenndarkynning vegna umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi ekki farið fram skv. skipulagslögum nr. 123/2010 heldur hafi eigandi Sæbrautar 6 sjálfur séð um að ganga í hús og safna undirskriftum. Gögnin sem hann hafi lagt fram hafi verið ófullnægjandi og ekki kynnt fyrir öllum eigendum Sæbrautar 8. Enginn af eigendum þess húss hafi ritað samþykki sitt á þennan uppdrátt en skipulags- og umferðar­nefnd hafi ekki kannað hverju það sætti við samþykkt málsins. Við nánari skoðun sé ekki um að ræða stækkun á bílageymslu eins og kynnt hafi verið, heldur stækkun á íbúðarrými. Kærendur séu ósammála því að þetta sé óveruleg breyting sem snerti eingöngu hagsmuni bæjarins og eiganda Sæbrautar 6. Í bréfi til bæjarstjóra Seltjarnarness, dags. 21. júlí 2020, hafi verið óskað eftir því að inngangur í viðbygginguna yrði færður þar sem hann myndi valda ónæði gagnvart fasteign kærenda, en því erindi hafi ekki verið svarað.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að kærunni beri að vísa frá sökum þess að kærufrestir séu liðnir. Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu stjórnvalds­ákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um kærufrest fari samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kæran snúi að því að tillaga um breytingu á deiliskipulagi hafi ekki verið réttilega kynnt kærendum. Í síðasta lagi við birtingu deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. janúar 2020 hafi kærendum verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um kæruefnið. Kæran sé dagsett 14. september s.á. Á þeim tímapunkti hafi eins mánaðar kæru­frestur verið löngu liðinn.

Verði talið að kæran lúti að einhverju leyti að afgreiðslu byggingarfulltrúa vegna samþykktra byggingaráforma hafi kærufrestir allt að einu verið liðnir þegar kæra í máli þessu hafi komið fram. Byggingarfulltrúi hafi samþykkt aðaluppdrætti að breytingunum 5. júní 2020 en kæran sé sem fyrr segi dagsett 14. september s.á. Eins mánaðar kærufrestur vegna stjórnvaldsákvarðana á grundvelli mannvirkjalaga hafi því einnig verið löngu liðinn þegar kæran hafi komið fram.

Engir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð sveitarfélagsins sem kærendur haldi fram. Um breytingu á deiliskipulagi sé fjallað í 43. gr. skipulagslaga þar sem komi fram að verulegar breytingar séu auglýstar skv. 1. mgr. ákvæðisins en óverulegar breytingar megi grenndarkynna skv. 2. mgr. þess. Ekki sé um það deilt að breytingingarnar hafi ekki verið verulegar. Sé í því samhengi bent á að samkvæmt deiliskipulagsbreytingunni nemi stækkun til vesturs (breikkun) 80 cm út fyrir núverandi byggingarreit. Stækkun til suðurs, í átt að gangstétt, nemi frá 0-200 cm út fyrir samþykktan byggingarreit. Mörg dæmi væru í næsta nágrenni um að byggingarhlutar húsa næðu út fyrir byggingarreit og væru dæmi um að byggingarhlutar næðu allt að lóðarmörkum. Sú tillaga sem lögð hafi verið fram um breytingu á deiliskipulagi vegna Sæbrautar 6 hafi þar að auki verið kynnt af hálfu húseigenda. Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum við auglýsingu tillögunnar. Það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar, þegar fram­kvæmdir hafi verið hafnar, sem slíkar athugasemdir hafi borist.

Í kynningu hafi komið fram að óskað hafi verið eftir „að byggja við núverandi bílskúr suð-vestanmegin við hús og útisturtu/gufu á baklóð.“ Engin þörf hafi verið á því að taka sérstaklega fram hver nýting eldri byggingar yrði í kjölfar breytingarinnar. Sé nýtingin enda innan gildandi skipulags og engin þörf sé á að grenndarkynna slíka nýtingu. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 sé gert ráð fyrir að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi að hún valdi ekki verulegum óþægindum, nánar tiltekið að starfsemin fari fram innan hefðbundins dagvinnutíma, starfsemi hvers rekstraraðila valdi ekki ónæði og að notkun gangi ekki verulega á afnot íbúa í nálægum húsum af sameiginlegum bílastæðum. Í gildandi deiliskipulagi sé vísað til gildandi aðalskipulags varðandi landnotkun. Það megi því ljóst vera að engin þörf hafi verið á breyttri landnotkun vegna þeirrar nýtingar sem tilgreind sé á aðaluppdrætti.

Óljóst sé hvort því sé haldið fram í kæru að grenndarkynna hafi átt staðsetningu aukainngangs. Staðsetning hans á baklóð sé hefðbundin, krefjist ekki mikillar uppbyggingar fyrir aðgengi og ekki verði séð að rask geti orðið af honum. Hafi inngangurinn óveruleg grenndaráhrif og ekki meiri en almennt megi búast við í þéttbýli.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í athugasemdum með nefndri grein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu til að víkja frá kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Í þeim tilfellum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Auglýsing um gildistöku umdeildrar deiliskipulagsbreytingar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2020 að undangenginni almennri auglýsingu skipulagstillögunnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga sem felur í sér meginreglu um málsmeðferð breytinga á deiliskipulagi. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar eða hinn 15. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 17. september 2020 eða rúmum sjö mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður ekki talið að nefndur dráttur geti talist afsakanlegur eða önnur atvik séu fyrir hendi í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga svo að málið verði tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Fyrir liggur að kærendum var kunnugt um hið kærða byggingarleyfi seinni hluta júlímánaðar 2020, sbr. fyrirliggjandi tölvubréf frá þeim til yfirvalda Seltjarnarnesbæjar frá 22. júlí s.á. Þar var og tekið fram að tveir kærenda hafi átt fund með sviðstjóra skipulags- og umhverfissviðs bæjarins um málið hinn 25. júní 2020. Voru framkvæmdir að Sæbraut 6 þá þegar hafnar. Var eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar því liðinn þegar kæra í málinu barst. Verður með hliðsjón af framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga einnig að vísa þessum hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

70/2020 Garðavegur

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 22. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2020, er barst nefndinni 31. s.m., kærði eigandi Garðavegar 18, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á kæranda frá og með 10. s.m. Málskot kæranda var skilið svo að gerð væri krafa um að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 8. september s.á. var kærumálinu vísað frá.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. nóvember 2020, fór kærandi fram á endurupptöku málsins. Féllst úrskurðar­nefndin á þá kröfu 10. desember s.á. og var aðilum tilkynnt sú niðurstaða. Sem fyrr verður að skilja málskot kæranda á þann veg að hann krefjist þess að felld verði úr gildi fyrrnefnd ákvörðun byggingarfulltrúa og verður nú kveðinn upp úrskurður í málinu að nýju.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 24. ágúst og 11. nóvember 2020.

Málsatvik: Með bréfi, dags. 10. október 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem farið var fram á að stigi við vesturhlið húss kæranda að Garðavegi 18 yrði fjarlægður, en byggingarleyfisumsókn kæranda vegna stigans hafði áður verið synjað. Veittur var fjögurra vikna frestur til að fjarlægja stigann en að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir frá 12. nóvember 2019 í samræmi við 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Kærandi kærði þá afgreiðslu byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 109/2019, uppkveðnum 20. mars 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Tilmælum byggingarfulltrúa hefði hins vegar ekki verið fylgt eftir með ákvörðun um beitingu dagsekta og fjárhæð þeirra frá nefndri dagsetningu og hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 30. mars 2020, barst kæranda tilkynning frá byggingarfulltrúa þar sem vísað var til áðurgreindrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og farið fram á að umdeildur stigi yrði fjarlægður innan fjögurra vikna eða í síðasta lagi 29. apríl 2020. Ef ekki yrði brugðist við yrði dagsektum beitt frá og með 30. s.m. Mál kæranda var svo aftur tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júní 2020. Á fundinum var samþykkt að leggja dagsektir á kæranda frá og með 10. júlí 2020. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 43/2020, uppkveðnum 10. júlí 2020, var vísað til þess að í málinu lægi fyrir ákvörðun um beitingu dagsekta frá 10. júlí 2020 en hvergi væri getið um fjárhæð þeirra. Því væri ljóst að á grundvelli þeirrar ákvörðunar einnar og sér, sem hefði verið kærð, yrðu dagsektir ekki lagðar á kæranda. Hefði því ekki legið fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga og var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál kæranda var enn tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. júlí 2020. Á fundinum var eftirfarandi bókað: „Tekið fyrir að nýju. Eigandi hefur reist stiga í óleyfi. Eiganda hafa verið send bréf þess efnis og ekki brugðist við. Afgreiðslufundur skipulags- og byggingarfulltrúa samþykkir að leggja dagsektir á eiganda Garðavegs 18 í samræmi við 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Dagsektir, 20.000 kr. pr. dag, verða lagðar á frá og með 10. júlí 2020.“ Kæranda var send tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 15. júlí 2020, og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur meðal annars fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júlí 2020 hafi verið ákveðið að leggja á dagsektir frá og með 10. s.m. Sé þetta löglegt neyðist hann til að selja fasteign sína. Ekki sé hægt að hafa þetta yfir höfði sér.

Málsrök sveitarfélagsins: Bæjaryfirvöld vísa til athugasemda í kærumáli nr. 43/2020. Þar hafi m.a. verið bent á að kærandi hafi reist án leyfis stiga við hlið hússins að Garðavegi 18. Hafi verið farið ítarlega yfir stöðu málsins og honum gerð grein fyrir eðli þess. Í öllum samskiptum hafi komið skýrt fram að byggingarfulltrúi geti ekki heimilað þær breytingar sem gerðar hafi verið á húsinu. Hafi því borið að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi og hafi byggingarfulltrúi lögum samkvæmt gert kröfu um að umræddur stigi yrði fjarlægður, sbr. heimild í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 að leggja dagsektir á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. s.m. Svo sem áður er komið fram var kærumálinu vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði kveðnum upp 8. september s.á. Var það gert á grundvelli þess að kærandi ætti ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar, en nefndinni höfðu borist þær upplýsingar í tölvupósti 7. s.m. frá bæjaryfirvöldum Hafnarfjarðarbæjar að kærandi hefði fjarlægt stiga þann sem um var deilt og byggingarfulltrúi því fallið frá ákvörðun sinni um dagsektir. Með bréfi, dags. 1. nóvember s.á., fór kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til þess að hann hefði beðið fjártjón vegna ákvörðunarinnar. Væri honum því nauðsynlegt að fá efnislega niðurstöðu í málinu. Úrskurðarnefndin féllst á endurupptökubeiðnina 10. desember 2020 þar sem ekki hefðu legið fyrir nefndinni nein þau gögn sem bent hefðu til þess að dagsektir hefðu verið innheimtar og greiddar og skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til endurupptöku því uppfyllt. Eins og atvikum er hér háttað telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi um hinnar kærðu dagsektarákvörðunar þótt hún hafi ekki lengur réttarverkan að lögum, enda telur hann sig hafa orðið fyrir tjóni við framfylgd hennar.

Hlutverk byggingarfulltrúa samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum til að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis, sbr. 55. og 56. gr. laganna. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að leggja á dagsektir skv. 2. mgr. nefndrar 56. gr., m.a. til að knýja fram úrbætur á mannvirki eða til að aflað verði lögbundinna leyfa fyrir framkvæmdum. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hafa ákvarðanir byggingarfulltrúa um þvingunarúrræði vegna umrædds stiga komið til kasta úrskurðarnefndarinnar í þrígang. Komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu í kærumáli nr. 109/2019 að byggingarfulltrúa hefði verið heimilt að gera kröfu um að stiginn yrði fjarlægður eða eftir atvikum að aflað yrði byggingarleyfis fyrir honum svo m.a. væri tryggt að öryggiskröfum væri fullnægt. Átti hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 15. júlí 2020 að sama skapi sér stoð í fyrrnefndum ákvæðum mannvirkjalaga. Hins vegar er ákvörðunin haldin þeim verulega ágalla að dagsektir voru lagðar á afturvirkt, eða frá 10. s.m. Það er grundvallaratriði að þvingunarúrræðum verður ekki beitt afturvirkt, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Verður því ekki komist hjá því að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. júlí 2020 um álagningu dagsekta á lóðarhafa Garðavegar 18 frá og með 10. júlí 2020.