Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48, 23, 64, og 65/2019 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2020, föstudaginn 22. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna og ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júní 2019, er barst nefndinni 24. s.m., kæra nokkrir eigendur jarðarinnar Drangavíkur þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 að samþykkja deiliskipulag vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun og ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní s.á. að veita framkvæmdaleyfi fyrir  gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsins yrði frestað og að framkvæmdir á grundvelli framkvæmdaleyfisins yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra nokkrir eigendur lóða úr landi Eyrar við Ingólfsfjörð og nokkrir eigendur jarðarinnar Seljaness fyrrgreinda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna. Krefjast kærendur þess að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að viðurkennt verði að deiliskipulagið sé ógilt. Er það kærumál nr. 23/2019.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni 16. s.m., kærir hluti eigenda jarðarinnar Seljaness áðurnefnda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Einnig var með sama bréfi kærð ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar, en sá hluti málsins, sem er nr. 64/2019, var sameinaður kærumáli nr. 51/2019 og var kveðinn upp úrskurður í því 24. apríl 2020.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Fornasel ehf., eigandi jarðarinnar Dranga, áðurgreinda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er það kærumál nr. 65/2019.

Þar sem um sömu ákvarðanir er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða kærumál nr. 23/2019, nr. 64/2019 að hluta og nr. 65/2019 sameinuð máli þessu.

Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 19. júlí 2019 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað sem og kröfu um frestun réttaráhrifa. Í kjölfar þess var farið fram á það við nefndina að hún endurskoðaði þá niðurstöðu sína, en síðar var fallið frá þeirri beiðni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi  27. maí 2019 og í júlí s.á. og 16. apríl 2020, en afgreiðslu málsins var frestað þar sem hinum kærðu ákvörðunum var jafnframt skotið til dómstóla af hluta eigenda Drangavíkur.

Málavextir: Fyrirhuguð Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði hefur sætt mati á umhverfisáhrifum og liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar frá 3. apríl 2017 um það mat.

Hinn 18. október 2018 var birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september s.á. að samþykkja deiliskipulag ásamt umhverfisskýrslu er tæki til hluta fyrirhugaðs virkjunarsvæðis Hvalár. Sætti ákvörðun hreppsnefndar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði sínum 16. nóvember 2018, í máli nr. 57/2018, vísaði kærunni frá. Var niðurstaða nefndarinnar sú að hin kærða ákvörðun hefði verið ógild þegar auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda þar sem auglýsingin hefði ekki birst innan lögbundins frests. Lægi því ekki fyrir gild ákvörðun er réttarverkan gæti haft að lögum.

Tillaga að deiliskipulagi Hvalár v/rannsókna var auglýst til kynningar að nýju í nóvember 2018 í samræmi við ákvörðun hreppsnefndar þar um. Málið var tekið fyrir á ný á fundi hreppsnefndar 13. mars 2019 að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Samþykkti hreppsnefnd fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi, dags. 25. febrúar 2019, með breytingum sem gerðar voru eftir auglýsingarferlið. Jafnframt var samþykkt afstaða til umsagna og athugasemda. Þá var skipulagsfulltrúa falið að svara þeim er gert höfðu athugasemdir og senda Skipulagsstofnun deiliskipulagið til yfirferðar. Með bréfi stofnunarinnar til Árneshrepps, dags. 28. mars 2019, kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og var það gert 14. júní 2019. Samkvæmt auglýsingunni tekur deiliskipulagið, sem fyrr segir, til hluta fyrirhugaðs virkjunarsvæðis Hvalár, nánar tiltekið til lóðar fyrir starfsmannabúðir og vinnusvæði, vinnuvega frá Ófeigsfjarðarvegi upp á Ófeigsfjarðarheiði og efnistöku. Þá kemur fram í auglýsingunni að skipulagssvæðið sé um 13,4 km² að stærð.

Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 12. júní 2019 var tekin fyrir umsókn Vesturverks ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun, en skipulagsnefnd hafði fjallað um erindið 11. s.m. Taldi hreppsnefnd að lagaskilyrði væru til útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og samþykkti umsóknina með nánar tilgreindum skilyrðum. Var jafnframt samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi þegar deiliskipulagið Hvalárvirkjun v/rannsókna hefði verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Afgreiðsla hreppsnefndar um samþykkt framkvæmdaleyfisins var auglýst í Lögbirtingablaðinu 26. júní 2019 og í Morgunblaðinu 27. s.m. Hinn 1. júlí 2019 gaf skipulagsfulltrúi f.h. Árneshrepps út framkvæmdaleyfið.

Svo sem áður greinir var afgreiðslu máls þessa frestað þar sem greindum ákvörðunum var jafnframt skotið til dómstóla af hálfu hluta eigenda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi. Með úrskurði Landsréttar kveðnum upp 26. mars 2020 í máli nr. 54/2020 var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa bæri málinu frá þar sem sóknaraðilar hefðu ekki sýnt nægilega fram á að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Hinn 24. apríl 2020 tók úrskurðarnefndin fyrir mál er lutu að framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar. Vísaði hún frá kröfum tiltekinna kærenda um ógildingu leyfisins og hafnaði sömu kröfu annarra kærenda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta sem eigendur jarðanna Drangavíkur, Dranga, Eyrar og Seljaness.

Kærendur sem eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Drangavíkur taka fram að hið kærða deiliskipulag varði eignarréttindi þeirra á fernan hátt. Í fyrsta lagi sé virkjunarsvæðið skilgreint innan landamerkja jarðarinnar Drangavíkur í aðalskipulagi Árneshrepps og sé deiliskipulagið byggt á því skipulagi. Í öðru lagi myndi vegur sem sýndur sé í deiliskipulaginu liggja um landareign kærenda að Eyvindarfjarðarvatni. Í þriðja lagi myndu óbyggð víðerni innan landamerkja jarðarinnar skerðast verulega við vegaframkvæmdir þær sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu. Í fjórða lagi sé deiliskipulagið órjúfanlegur hluti af áætlunum um virkjunarframkvæmdir og framkvæmdinni Hvalárvirkjun. Með þeim yrði raskað á margvíslegan annan hátt en með vegagerðinni svæðum og fyrirbærum sem lúti að eignarréttindum kærenda, m.a. vatnsréttindum. Af sömu ástæðu eigi kærendur sérstakra og einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta varðandi samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis.

Við undirbúning og töku hinna kærðu ákvarðana hafi verið brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Auk þess fari þær í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi, löggjöf er varði mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og umhverfismat áætlana, skipulagslöggjöf og meginreglur umhverfisréttar, auk sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þá skerði umræddar ákvarðanir eignarrétt kærenda, en slík skerðing sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærendur hafi hvorki heimilað miðlun vatnasviðsins með stíflu neðan Eyvindarfjarðarvatns og jarðgangagerð til suðurs né vegagerð að vatninu. Af orðalagi í framkvæmdalýsingu verði ekki annað ráðið en að hinar kærðu framkvæmdir séu beinlínis hluti af heildarframkvæmdinni Hvalárvirkjun. Það sé fáheyrt í íslenskri virkjanasögu að skipulagsáætlunum og framkvæmdaleyfi sé skipt upp með þeim hætti sem gert sé í máli þessu og gangi það þvert gegn þeim meginsjónarmiðum er liggi að baki lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda um að litið sé heildstætt á framkvæmdirnar. Umsagnir fagstofnana þar að lútandi hafi hingað til verið hunsaðar. Í hinum kærðu ákvörðunum sé fjallað um fyrsta hluta framkvæmdanna án þess að fjallað sé þar um sjálfar virkjunarframkvæmdirnar. Þannig sé fjallað um vegagerð sem eyði óafturkræft óbyggðum víðernum svo hundruðum ferkílómetra skipti án þess að fjallað sé um rask á vatnasviði. Hvorki víðerni né skerðing þeirra séu kortlögð í samræmi við lög. Samvirk áhrif með öðrum tengdum framkvæmdum séu ekki metin. Gengið hafi verið á svig við grundvallarsjónarmið um að framkvæmdaraðili verði að leggja fyrir almenning og leyfisveitanda gögn er sýni heildarmyndina. Liggi fyrir úrskurðarnefndinni að fara gaumgæfilega yfir sjónarmið um svokallað „project splitting“ í tengslum við þetta mál,  en það sé sú aðferð að skipta verkþáttum upp til að komast hjá því að fjalla um verk heildstætt í mati á umhverfisáhrifum. Umrædd framkvæmd sé ekki sú sama og sætt hafi mati á umhverfisáhrifum, t.a.m. séu  kjarnaborun og könnunargryfjur þær, sem séu hluti af hinum kærðu ákvörðunum, ekki meðal þess sem Skipulagsstofnun hafi fjallað um í áliti sínu frá 3. apríl 2017. Engin nauðsyn sé til að leggja vegi um alla heiði til að sinna kjarnaborun.

Verulegir gallar séu almennt á því á hvern hátt leyfisveitandi hafi haft hliðsjón af þeim athugasemdum er borist hafi. Leyfisveitanda hafi ekki verið heimilt að líta fram hjá skýrslu Environice um þann kost að friðlýsa óbyggð víðerni við Drangajökul skv. 46. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en honum hafi verið kynnt skýrslan 18. janúar 2019. Það mat leyfisveitanda í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins að skipulagið sé ekki líklegt til að takmarka möguleika á stofnun þjóðgarðs á svæðinu sé órökstutt og ekki stutt neinum gögnum. Rask sem heimilað sé gangi mun lengra en þörf sé á og raski verndarhagsmunum náttúruverndarlaga. Eyðileggingin verði mikil og sé í því sambandi vísað til skýrslu International Union for Conservation of Nature (IUCN) frá janúar 2020.

Jarðarmörk þau sem komi fram á yfirlitsuppdrætti og afstöðuuppdráttum sem fylgi með framkvæmdalýsingu séu ekki í samræmi við þinglýstar heimildir að því er varði norðurmörk jarðarinnar Ófeigsfjarðar. Uppdrættirnir sýni ekki heldur merki milli jarðanna Drangavíkur og Engjaness í samræmi við þinglýstar heimildir og seinni jarðarinnar sé ekki getið. Jörðin Eyvindarfjörður, sem þar sé merkt og getið um í texta, finnist ekki í landamerkjaskrám eða öðrum heimildum. Vísi kærendur til landamerkja jarðarinnar Drangavíkur á uppdrætti, dags. 19. júní 2019, sem dregin séu upp í samræmi við þinglýstar eignaheimildir

Jörðin Seljanes sé næsta jörð við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Hvalá. Ljóst sé að þær framkvæmdir sem gert sé ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi hafi veruleg áhrif á landeigendur að Seljanesi og Eyri svo og virkjunarframkvæmdin í heild sinni. Hafi framkvæmdirnar bein áhrif á einstaklingsbundin, lögvarin réttindi kærenda og varði mikilsverð réttindi þeirra, sem fólgin séu í eignarrétti þeirra að Seljanesi og Eyri.

Við mat á lögvörðum hagsmunum kærenda verði að hafa í huga að ef að líkum láti muni fleiri deiliskipulög er varði framkvæmdir á svæðinu líta dagsins ljós. Umrætt deiliskipulag og framkvæmdaleyfi sé hluti af stórri virkjunarframkvæmd í næsta nágrenni við fasteignir kærenda og augljóst að þeir hafi lögvarðra hagsmuna að gæta af ákvörðun um slíka framkvæmd. Geri hinar kærðu ákvarðanir ráð fyrir því að lagðir verði vegir sem notaðir verði til að ferja ýmis tól og tæki að framkvæmdasvæðinu. Verði þeir vegir tengdir við veg sem liggi í gegnum jörðina Seljanes í eigu kærenda og þétt við hús kærenda að Eyri. Muni það leiða til aukinnar umferðar um þann veg og þá sérstaklega umferð hinna ýmissa vinnutækja. Verði af þessu sjón-, hljóð- og loftmengun og hafi deiliskipulagið þannig bein áhrif á hagsmuni kærenda.

Heimilaðar framkvæmdir verði sjáanlegar frá jörðinni Seljanesi og muni iðnaðarsvæði blasa við. Slíkt hafi í för með sér umtalsverða sjónmengun og töluverða hljóð- og loftmengun. Takmarki slíkt ýmsa mögulega hagnýtingu á jörðinni Seljanesi og að húsinu að Eyri, s.s. í ferðamannaiðnaði, enda sé helsta aðdráttarafl svæðisins náttúrufegurð og friðsæld. Auk þess takmarki framkvæmdirnar möguleika kærenda til að njóta þeirrar friðsældar sem þar sé. Séu hagsmunir kærenda alls ekki fjarlægari en t.d. hagsmunir kærenda í málum hjá úrskurðarnefndinni sem varðað hafi laxeldi, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 3/2018, nr. 4/2018, nr. 5/2018 og nr. 6/2018.

Ljóst sé að umræddar ákvarðanir muni hafa í för með sér gríðarlega eyðileggingu á óbyggðum víðernum auk þess sem gríðarlegt tjón muni verða á vistkerfum og vatnasvæðum sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Hið kærða deiliskipulag og afgreiðsla þess sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess sé ógild eða ógildanleg. Þannig hafi meðferð málsins ekki verið í samræmi við 15. gr. sveitarstjórnarlaga. Nánar tilgreindur sveitarstjórnarmaður hafi verið vanhæfur skv. 1. mgr. 20. gr. þeirra laga og 3. gr. stjórnsýslulaga. Skort hafi verulega á að tekið hafi verið tillit til ýmissa athugasemda eða rökstutt hvers vegna svo hafi ekki verið gert. Hið umdeilda deiliskipulag sé í reynd hluti af heildarframkvæmdunum. Óheimilt sé að skilja þær framkvæmdir frá, hvort sem sé í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða umhverfismati áætlunar. Samræmist það ekki skipulagslögum nr. 123/2010 að skipuleggja heila virkjunarframkvæmd í bútum heldur þurfi að taka málið fyrir í heild sinni. Með þessari málsmeðferð sé verið að eyðileggja aðra valkosti, s.s. eflingu byggðar á grunni náttúruverndar, áður en endanleg ákvörðun um virkjun verði tekin. Sé því mótmælt að uppskipting skipulagsins eigi sér eðlilegar skýringar. Verulegir annmarkar séu á valkostaumfjöllun í umhverfismati skipulagsins og ekki hafi verið uppfyllt ákvæði laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/42/EB. Ekki hafi verið lagt mat á áhrif valkosta sem hefðu minni áhrif á umhverfið en sú sem hreppsnefnd hafi valið. Sú röskun óbyggðra víðerna sem sé heimiluð sé í andstöðu við verndarmarkmið náttúruverndarlaga. Því sé sérstaklega mótmælt að vegagerð sé haldið í lágmarki. Þvert á móti standi til að leggja vegi eins og um virkjunarframkvæmdir sé að ræða. Þá séu gerðar alvarlegar athugasemdir við svör við umsögnum og athugasemdum.

Eigandi Dranga tekur fram að hann eigi beinna, verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta sem landeigandi þar sem hin kærða ákvörðun sé hluti framkvæmdar sem skerða muni óbyggð víðerni innan jarðarinnar og hamla lögmæltu og yfirstandandi friðlýsingarferli hennar skv. 46. gr. náttúruverndarlaga.

Málsrök Árneshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í ljósi niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020 beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Dómurinn hafi afdráttarlaust fordæmisgildi um þá réttarstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á lögvarða hagsmuni eigenda Drangavíkur varðandi hinar kærðu ákvarðanir. Ekki séu forsendur til þess að úrskurðarnefndin leggi mat á lögvarða hagsmuni kærenda með öðrum hætti en dómstóll hafi gert. Hið kærða deiliskipulag hafi afmarkað skipulagssvæði sem liggi allt sunnan Eyvindarfjarðarár og Eyvindarfjarðarvatns innan marka jarðarinnar Ófeigsfjarðar. Samkvæmt þeim landamerkjum sem upplýsingar hafi legið fyrir um liggi land jarðarinnar Engjaness milli lands Drangavíkur og skipulagssvæðisins, sem sé sunnan Eyvindarfjarðarár. Umrædd málsástæða hafi bein tengsl við eignarréttarlegan ágreining en slíkar málsástæður geti úrskurðarnefndin ekki lagt mat á. Til hliðsjónar sé t.d. vísað til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 71/2016 og nr. 116/2012. Gert sé ráð fyrir því að vegur verði lagður að Eyvindarfjarðarvatni, sunnan megin, en óljóst sé hvort sá vegslóði liggi að nokkru leyti innan meints lands Drangavíkur. Í öllu falli sé ljóst að aðeins geti verið um að ræða lítið brot af framkvæmdinni.

Lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu geri ráð fyrir að rannsóknarleyfi verði gefin út án tillits til afstöðu landeigenda. Falli skipulagssvæði deiliskipulagsins innan þess svæðis sem rannsóknarleyfið taki til. Í ljósi markmiða deiliskipulagsins og eðlis þeirra framkvæmda sem leyfið varði virðist framkvæmdirnar geta farið fram á grundvelli réttarstöðu sem rannsóknarleyfið veiti óháð afstöðu landeigenda.

Í ljósi umfjöllunar Landsréttar í máli nr. 54/2020, um lögvarða hagsmuni, sönnunarkröfur og eðli framkvæmda, beri að vísa frá kærum kærenda að Seljanesi og Eyri. Verði ekki fallist á frávísun sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Kærendur séu ekki aðilar að þeirri stjórnvaldsákvörðun sem felist í samþykkt deiliskipulagsins. Landareignir og húsbyggingar sem kærendur vísi til um eignarhald á falli ekki innan marka deiliskipulagssvæðisins. Fasteignin Eyri lóð 2 standi við Ingólfsfjörð. Aðrir kærendur eigi hlut í jörðinni Seljanesi, en sú jörð liggi að jörðinni Ófeigsfirði. Liggi skipulagssvæði deiliskipulagsins innan jarðarinnar Ófeigsfjarðar og ekki að landamerkjum við jörðina Seljanes. Ekki sé dregið í efa að frá jörðinni Seljanesi geti sést inn á skipulagssvæðið og til mannvirkja að einhverju leyti. Lögvarðir hagsmunir séu þó ekki til staðar, sérstaklega sé haft í huga eðli þeirra mannvirkja sem deiliskipulagið varði og þau er verði helst sýnileg, en einkum sé um samgöngumannvirki að ræða. Framkvæmdir sem deiliskipulagið varði yrðu í verulegri fjarlægð frá landi jarðarinnar Seljaness þegar litið sé til grenndarhagsmuna.

Sjónarmið um hljóð- og loftmengun vegna framkvæmda sem skipulagið varði séu með öllu óútskýrð. Hvað varði umferð um veg þá séu lögvarðir hagsmunir ekki til staðar þótt hugmynda um ferðamannaiðnað sé getið, enda séu þær óútskýrðar. Þar fyrir utan verði ekki séð að umrætt deiliskipulag takmarki með nokkru móti heimildir kærenda til nýtingar á fasteignum sínum. Því fari fjarri að þeir sem búi í nágrenni við þjóðvegi geti vísað til þess sem lögvarinna hagsmuna við deiliskipulagsákvarðanir að framkvæmdir á grunni skipulags geti leitt til einhverrar aukningar á umferð. Gera megi ráð fyrir að umferð á öllum Ófeigsfjarðarvegi og Strandavegi aukist vegna framkvæmdanna, en hún geti einnig komið til af fjölda annarra ástæðna.

Loks liggi jörðin Drangar ekki að framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar. Ákvarðanir um friðlýsingu samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd séu á forræði stjórnvalda umhverfismála, en ekki landeigenda.

Varðandi efni málsins taki sveitarfélagið fram að engar afgerandi málsástæður liggi fyrir um að form- eða efnisannmarkar séu á hinum kærðu ákvörðunum sem leitt geti til ógildingar þeirra. Málsmeðferð við framkvæmd deiliskipulagsins hafi í öllum meginatriðum verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 þar um. Fyrirkomulag deiliskipulagsins hvíli á aðalskipulagi Árnesshrepps, sbr. breytingu á því frá árinu 2018. Undir markmiðskafla aðalskipulagsins komi fram að skapa eigi svigrúm til frekari rannsókna innan virkjunarsvæðisins og leggja þannig grunn að ákvarðanatöku um framhald verkefnisins. Hvíli deiliskipulagið á þessari forsendu. Með því fyrirkomulagi að skipta upp deiliskipulagi sé unnt að vinna sem best að því að rannsóknir sem nauðsynlegar séu vegna undirbúnings stórframkvæmdarinnar taki sem mest tillit til umhverfissjónarmiða. Það fyrirkomulag sem viðhaft sé við gerð deiliskipulagsins samræmist vel markmiðum skipulagslaga. Vangaveltur um svokallaða uppskiptingu framkvæmdar og skipulags standist því enga skoðun. Ljóst sé að margar af stærri vatnsaflsvirkjunum á Íslandi hafi verið rannsakaðar með nýtingu vega sem lagðir hafi verið í þágu rannsókna, áður en endanlegar skipulagsáætlanir fyrir virkjun hafi verið samþykktar. Hvalárvirkjun hafi verið flokkuð í orkunýtingarflokk á grundvelli þingsályktunar en skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun séu þær áætlanir bindandi við gerð skipulagsáætlana. Það sé algert grundvallaratriði að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi farið fram og með því hafi verið fjallað um umhverfisáhrif á heildstæðan hátt, þ.m.t. vegna tengdra framkvæmda.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Vísað sé til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020, en málið hafi beint og ótvírætt fordæmisgildi um lögvarða hagsmuni kærenda máls nr. 48/2019. Jörðin Drangar sé enn lengra frá en Drangavík og niðurstaða dómsins hafi því einnig fordæmisgildi hvað þann kæranda varði. Geti kærandi ekki átt lögvarða hagsmuni af framkvæmd sem sé að langmestu leyti í tæplega 10 km fjarlægð og að litlu leyti í 4 km fjarlægð. Auk þess skilji að fjöll, vogar og firðir. Framkvæmdir séu ekki sjáanlegar frá Dröngum og grenndaráhrif þeirra því engin. Þá feli framkvæmdaleyfið ekki í sér heimildir til neinna framkvæmda sem skert geti möguleika til friðlýsingar jarðarinnar Dranga. Fullyrðingar um annað séu rangar og misvísandi.

Jafnframt sé augljóst með hliðsjón af greindri niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020 að kærendur að Seljanesi og Eyri geti ekki átt lögvarða hagsmuni, m.a. vegna fjarlægðar frá framkvæmdum. Einnig sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 51/2019. Þá fjalli kæra þeirra aðeins að litlu leyti um það deiliskipulag sem samþykkt hafi verið á fundi hreppsnefndar 13. mars 2019. Sé kæran fremur með því sniði eins og um væri að ræða deiliskipulag fyrir virkjunarframkvæmdina í heild. Hin kærða ákvörðun varði ekki einstaklega og lögvarða hagmuni nefndra kærenda í þeim mæli að þeir geti átt aðild að kæru.

Við mat á því hvort kærandi geti átt kæruaðild á grundvelli grenndarréttar hafi almennt verið litið til þess hvort hagnýtingarmöguleikar kæranda á eign hans skerðist með einhverri breytingu sem leiði af hinni kærðu ákvörðun. Þær rannsóknir sem deiliskipulagið lúti að kalli á lítilsháttar aðstöðusköpun. Gert sé ráð fyrir vinnubúðum, en þær verði í u.þ.b. 4 km fjarlægð í beinni loftlínu frá Seljanesi og enn lengra frá Eyri í Ingólfsfirði. Þarna á milli sé önnur byggð og því ekki um ósnortið land eða víðerni að ræða. Þótt hluti kærenda geti mögulega séð til granna sinna í vinnubúðunum frá hlaðinu í Seljanesi og telji það skerða útsýni sitt þá takmarki það í engu nýtingarmöguleika á jörð þeirra. Þá geti þeir kærendur sem séu að hluta eigendur jarðarinnar Eyrar ekki með nokkru móti byggt kæruaðild sína á grenndarrétti enda staðsetning jarðarinnar þannig að þeir verði ekki fyrir nokkurri sjón-, loft- eða hljóðmengun. Hvorki vegna vinnubúða né vegaframkvæmda.

Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar verði ekki á landi kærenda og snerti hvorki vatnasvið jarðanna né skerði hagnýtingarmöguleika eigenda þeirra. Skráður eignarhluti kærenda í jörðinni Seljanesi sé undir 10% og um 60% í jörðinni Eyri lóð 2, sem sé agnarsmár hlutur í heildarjörðinni Eyri. Hafi sameigendur þeirra ekki mótmælt deiliskipulaginu eða kært afgreiðslu þess. Þrátt fyrir að Ófeigsfjarðarvegur sé fáfarinn þá snerti það tímabundna ónæði sem verði vegna flutnings tækja og búnaðar ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kærenda í þeim mæli að þeir geti átt aðild að kærumálinu.

Meðferð málsins hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, laga nr. 105/2006 um mat á umhverfisáhrifum áætlana, ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og annarra laga og reglugerða. Öllum fullyrðingum um annað sé mótmælt og málsástæðum kærenda hafnað. Deiliskipulagið byggi á stefnu aðalskipulagsins í samræmi við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og hafi virkjunarframkvæmdin ávallt verið unnin sem ein heild í því skipulagi. Málið hafi verið kynnt með ítarlegum hætti frá upphafi og reynt að vinna það í sátt og samráði við hagsmunaaðila. Fjallað sé um núllkost í greinargerð deiliskipulagsins. Þá sé því ranglega haldið fram að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda.

Viðbótarathugasemdir kærenda að Drangavík: Kærendur telja að ekki hafi verið færðar fram neinar röksemdir eða gögn til sönnunar á því að leyfishafi hafi þau eignarráð er þurfi til hagnýtingar alls þess vatnsafls sem um ræði. Kærendur hafni sem fráleitum þeim sjónarmiðum að full sönnun falli á þá gegn einhliða fullyrðingum leyfishafa um landamerki. Landamerki þau sem þinglesin hafi verið árið 1890 hafi ekki verið umdeild á þessu svæði og séu þar enda engin önnur landamerki til. Kærendur byggi hvort tveggja á eignarrétti og grenndarrétti. Þurfi úrskurðarnefndin aðeins að taka afstöðu til þess hvort kærendur hafi gert nægilega sennilegt að þeir eigi lögvarða hagsmuni. Það hafi þegar verið gert með landamerkjakorti því sem þeir hafi lagt fram. Frekari sönnunarkröfur verði ekki lagðar á eigendur Drangavíkur þar sem að af hálfu leyfisveitanda og leyfishafa hafi ekkert verið lagt fram sem styðji fullyrðingar þeirra. Jarðamörk á kortum, sem teiknuð hafi verið af hálfu annarra en til þess séu bærir, þ.e. landeigendum sjálfum, séu ekki landamerki í skilningi laga nr. 41/1919 um landamerki, auk þess sem þau mörk séu alls staðar birt með fyrirvara. Sönnunarkröfu verði að leggja á leyfishafa og leyfisveitanda fyrir fullyrðingum um landamerki.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu en í ljósi niðurstöðu málsins verða þær ekki raktar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tveggja ákvarðana sveitarstjórnar Árneshrepps. Annars vegar ákvörðunar frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna og hins vegar ákvörðunar frá 12. júní s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir virkjunina. Er gerð krafa um frávísun málsins með þeim rökum að kærendur eigi ekki kæruaðild fyrir nefndinni samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að viðkomandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og að þeir hagsmunir séu verulegir. Þó verður almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að lögvarða hagsmuni skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni viðkomandi að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Ljóst er að hinar kærðu ákvarðanir eru undanfari fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda, enda tekur mat á umhverfisáhrifum þeirra m.a. til vinnuvega. Það er þó ekki hægt að játa kærendum kæruaðild á þeim grundvelli einum að þeir telji sig eiga hagsmuna að gæta af því að af virkjunaráformum verði ekki, heldur verður að gera þá kröfu að efni hinna umdeildu ákvarðana raski einstaklingsbundnum og verulegum hagsmunum þeirra. Stendur enda ekkert því í vegi að skipulag eða veitt leyfi taki eingöngu til hluta framkvæmda sem mat á umhverfisáhrifum hefur tekið til og kann það raunar að vera nauðsynlegt þegar um flóknar stórframkvæmdir er að ræða.

Í greinargerð deiliskipulagsins er því lýst að tæplega 14 km² skipulagsvæði sé í landi Ófeigsfjarðar, en liggi ekki að landamerkjum jarðarinnar og taki aðeins til svæðis umhverfis starfsmannabúðir, vinnuvegi og efnistökusvæði. Gert sé ráð fyrir 5,8 ha lóð fyrir tímabundnar starfmannabúðir og vinnusvæði við Hvalá neðan Strandarfjalla. Innan byggingarreits sé heimilt að reisa einn eða fleiri skála með svefnaðstöðu fyrir allt að 30 manns, hreinlætisaðstöðu, mötuneyti, geymslu og skrifstofu. Samanlögð stærð bygginga megi vera allt að 400 m² og hámarksmænishæð 7 m. Byggingar skuli staðsettar þannig að þær falli sem best að landslagi og landmótun skuli haldið í lágmarki. Skuli efni, form og litaval bygginga falla vel að landslagi og umhverfi. Ef fallið verði frá virkjunaráformum falli tilheyrandi heimildir niður einu ári eftir að rannsóknum ljúki. Öll mannvirki skuli fjarlægð og gengið frá vinnusvæðum innan þess tíma. Ganga skuli um skipulagssvæðið með það í huga að um tímabundna landnotkun sé að ræða.

Þá er tekið fram að gert sé ráð fyrir vegum frá Ófeigsfjarðarvegi sunnan Hvalár að Neðra-Hvalárvatni og þaðan að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og Rjúkanda hins vegar, samtals um 25 km. Einnig sé gert ráð fyrir vegi að námu ES19 við Neðra-Hvalárvatn. Aðeins sé um malarvegi að ræða. Ekki sé gert ráð fyrir neinum borplönum eða sambærilegum framkvæmdum utan vega. Um sé að ræða um 6,2 km langan vinnuveg frá þjóðveginum við Hvalárfoss að fyrirhugaðri Hvalárstíflu. Þar kvíslist vegurinn í tvær áttir. Annars vegar sé gert ráð fyrir 11,9 km löngum vinnuvegi að Rjúkanda og hins vegar 6,8 km löngum vinnuvegi að fyrirhugaðri Eyvindarfjarðarstíflu. Vegurinn verði 4 m breiður með útskotum. Um 600 m ofan Hvalárfoss liggi vegurinn um nýja einbreiða stálbrú yfir Hvalá, sem hvíla muni á steyptum burðarbitum sem staðsettir verða við hvorn enda brúarinnar. Brúin verði um 22 m að lengd og tæplega 6 m breið í heild, en akstursbreidd verði 4,2 m. Huga skuli að því að sýnileiki vega verði eins lítill og kostur sé. Þetta eigi bæði við um veglínu upp Strandarfjöll og á heiðinni. Vegir skuli vera eins lítið uppbyggðir og kostur sé og falla vel að landslagi þannig að þeir hafi sem minnst áhrif á víðernin. Í fyrstu séu vegirnir ætlaðir fyrir aðkomu tækja til rannsókna á fyrirhuguðu virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar. Leitast skuli við að halda vegaframkvæmdum í algjöru lágmarki á þessu stigi og skuli umfang þeirra takmarkast við það að nauðsynleg tæki komist að rannsóknarsvæðum. Þar sem það sé mögulegt skuli vegagerð sleppt. Samhliða vegagerðinni skuli hugað að frágangi svæðisins og öllu raski haldið í lágmarki. Komi til virkjunarframkvæmda skuli vegirnir nýttir sem aðkomuvegir að lónum og stíflum. Ef fallið verði frá virkjunaráformum skuli vegirnir og brúin fjarlægð og ummerki þeirra eins og kostur sé. Loks er samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins gert ráð fyrir þremur nýjum efnistökusvæðum í tengslum við vegagerð og uppbyggingu starfsmannabúða. Efnistökusvæði ES18 við Hvalárósa, svæði ES19 vestan megin við Neðra-Hvalárvatn  og efnistökusvæði ES20 í Hvalá, rúmum kílómetra ofan við Hvalárfoss.

Fellur framkvæmdalýsing í fylgigögnum með útgefnu framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku að því sem áður er rakið úr deiliskipulaginu, en leyfið tekur ekki til starfsmannabúða. Að auki er í nefndum gögnum að finna nánari lýsingu á fyrirhuguðum rannsóknum.

Kærendur máls þessa eru hluti eigenda Drangavíkur, eigandi Dranga, nokkrir eigendur lóða í landi Eyrar við Ingólfsfjörð, sem og hluti eigenda jarðarinnar Seljaness. Vísa þeir til eignarhalds síns um lögvarða hagsmuni sína sem þeir telja raskað með hinum kærðu ákvörðunum.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var dómsmáli hluta eigenda Drangavíkur vísað frá af dómstólum, sbr. úrskurð Landsréttar í máli nr. 54/2020, þar sem þeir hefðu ekki sýnt nægilega fram á að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Tók dómurinn fram að eigendurnir teldu þinglýstar landamerkjaskrár frá 1890 staðfesta eignarrétt þeirra yfir mun stærra landsvæði en áður hefði verið talið og miðað hefði verið við í opinberum gögnum. Sóknaraðilar hefðu ekki fyrr gert reka að því að fá skorið úr ágreiningi um landamerki Drangavíkur, Engjaness og Ófeigsfjarðar og yrði ekki leyst úr slíkum ágreiningi án aðildar eigenda síðargreindu jarðanna. Þá tók dómurinn fram að þegar litið væri til grenndarsjónarmiða, án tillits til stöðu landamerkja, hefðu aðilar í ljósi fjarlægðar jarðarinnar frá framkvæmdum ekki sýnt fram á slíka röskun á hagsmunum Drangavíkur, svo sem vegna hávaða, sjónmengunar eða annarra atriða, að eignarréttindi þeirra sem nytu verndar meginreglna nábýlis- og grenndarréttar væru skert.

Líkt og í nefndu dómsmáli byggja kærendur að Drangavík á því fyrir úrskurðarnefndinni að fyrirhugað virkjunarsvæði, svo og vegaframkvæmdir sem hinar kærðu ákvarðanir heimili, verði að hluta innan landamerkja jarðarinnar. Við fyrirhugaðar vegaframkvæmdir muni óbyggð víðerni innan landamerkjanna skerðast. Hafa atvik breyst að því leyti að tilteknir eigendur Drangavíkur hafa nú höfðað landamerkjamál og er aðalkrafa stefnenda í því máli sú að Drangavík verði talin eiga landamerki að jörðinni Ófeigsfirði, þau verði dregin sunnan við Neðra-Eyvindafjarðarvatn og raunar sunnar en landamerki Engjaness og Ófeigsfjarðar hafa verið talin liggja. Varakrafa í dómsmálinu lýtur að því að landamerki Drangavíkur og Engjaness verði talin liggja um Neðra-Eyvindarfjarðarvatn.

Á sveitarfélagsuppdrætti gildandi Aðalskipulags Árneshrepps 2005-2025 eru landamerki Ófeigsfjarðar og Engjaness m.a. sýnd um Neðra-Eyvindarfjarðarvatn og mörk jarðanna Engjaness og Drangavíkur nokkru norðar. Norðanverð mörk virkjunarsvæðis fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar eru á uppdrættinum sýnd meðfram Eyvindarfjarðará, sem skilur að Ófeigsfjörð og Engjanes, í átt að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni. Áður en komið er að vatninu er dregin lína til norðurs að sýndum landamerkjum Engjaness og Drangavíkur sem mörk virkjunarsvæðisins fylgja að sýndum landamerkjum Engjaness og Dranga og þaðan vestur að Drangajökli. Í hinu kærða deiliskipulagi er tekið fram að deiliskipulagssvæðið sé að fullu innan jarðarinnar Ófeigsfjarðar og kemur það heim og saman við þau mörk jarðarinnar sem áður er lýst og sýnd eru til skýringar, en án staðfestingar, í aðalskipulagi. Nyrsti hluti deiliskipulagssvæðisins er skammt sunnan Neðra-Eyvindarfjarðarvatns og nái aðalkrafa kærenda fram að ganga í nýhöfðuðu landamerkjamáli mun lítill hluti skipulagssvæðisins, þar sem ekki er gert ráð fyrir öðrum framkvæmdum en vinnuvegi, fara inn á land kærenda.

Í Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025, sem öðlaðist gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar 2014, kemur fram að ýmsar tafir hafi orðið á framgangi og staðfestingu aðalskipulagstillögunnar og sé ástæða þess m.a. áætlun um virkjun Hvalár. Við upphaf skipulagsvinnu hafi verið gert ráð fyrir tiltölulega litlum breytingum á landnotkun en virkjun Hvalár einungis verið kynnt sem framtíðarmöguleiki. Það hafi breyst við þá ákvörðun hreppsnefndar að stefna að því að staðfesta virkjunarsvæði við Ófeigsfjörð með virkjun Hvalár. Mun sú ákvörðun hafa verið tekin veturinn 2007-2008. Ágreiningur um eignarréttindi, sem stafar af óvissu um hvernig túlka beri þinglýstar landamerkjaskrár, verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur undir dómstóla. Eins og fram er komið hefur nú verið höfðað landamerkjamál um þann ágreining, en þar til úr honum hefur verið skorið verður að telja líkur á því að opinber gögn, s.s. skipulagsáætlanir, sýni þá legu landamerkja sem almennt hafi verið talin rétt. Miðað við það er meira en kílómetri frá landamerkjum Drangavíkur að deiliskipulagssvæðinu sunnan Neðra-Eyvindarfjarðarvatns þar sem vinnuvegur endar, en frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar sunnar á skipulagssvæðinu. Drangar eru norðan Drangavíkur og því lengra frá skipulagssvæðinu. Jörðin Seljanes liggur að jörðinni Ófeigsfirði austan megin, en frá landamerkjum jarðanna eru a.m.k. 3 km að skipulagssvæðinu þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Eyri í Ingólfsfirði er enn lengra frá skipulagssvæðinu.

Kærendur geta ekki byggt einstaklingshagsmuni sína á atriðum sem varða almannahag, s.s. sjónarmiðum um verndun víðerna eða náttúru, án þess að sýna sérstaklega fram á hvernig einstaklingsbundnir hagsmunir þeirra skerðast. Í þágu undirbúningsrannsókna gera hinar kærðu ákvarðanir eingöngu ráð fyrir lagningu vinnuvega, efnistöku og gerð starfsmannabúða, sem samkvæmt framansögðu verða í mesta lagi 400 m2 að flatarmáli og að hámarki 7 m háar. Í ljósi þeirra takmörkuðu framkvæmda sem um ræðir, sem og þess að skipulagssvæðið er í töluverðri fjarlægð frá eignum kærenda, munu hagsmunir þeirra ekki skerðast í þeim mæli að það skapi þeim kæruaðild jafnvel þótt einhverjir þeirra kunni að heyra hljóð berast frá framkvæmdum á skipulagssvæðinu eða kærendur að Seljanesi t.d. eygi þær starfsmannabúðir sem heimilað er að reisa. Munu þær búðir t.a.m. ekki skerða útsýni þeirra kærenda þótt ásýnd lands verði breytt að nokkru. Af sömu sökum er ekki hægt að líta svo á að möguleikar kærenda að Seljanesi og Eyri til uppbyggingar, t.d. ferðaþjónustu, séu takmarkaðir í nokkru. Verður atvikum þessum ekki jafnað saman við atvik í þeim kærumálum vegna fiskeldis sem kærendur hafa vísað til.

Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum öllum og eins og atvikum máls þessa er háttað þykja þær framkvæmdir sem leyfðar hafa verið og sækja stoð sína í umdeilt deiliskipulag ekki þess eðlis að þær snerti grenndarhagsmuni eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild í máli þessu. Þar sem skilyrðum kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 telst ekki fullnægt verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist þar sem málsmeðferð þess var frestað á meðan hinar kærðu ákvarðanir voru til meðferðar hjá dómstólum.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

16/2020 Egilsgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 24. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2020, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afhendingu gagna varðandi útgáfu lokaúttektarvottorðs Egilsgötu 6.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir IKAN ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá afgreiðslu Borgarbyggðar sem kæranda var kynnt með bréfi, dags. 17. janúar 2020, að hafna afhendingu gagna varðandi útgáfu lokaúttektarvottorðs Egilsgötu 6. Er þess krafist að úrskurðað verði að Borgarbyggð beri að afhenda kæranda umbeðin gögn.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 9. apríl 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur ítrekað lagt fram kæru til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði á lóðinni Egilsgötu 6. Á árinu 2018 sótti eigandi Egilsgötu 6 um byggingarleyfi til að breyta umræddu húsnæði og á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2019 var samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gefa út umsótt byggingarleyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda að Egilsgötu 6, en í vottorðinu kom fram að verið væri að klæða og einangra útveggi hússins. Byggingarfulltrúi gaf síðan út byggingarleyfi 2. apríl s.á.

Hinn 12. desember 2019 gaf byggingarfulltrúi út að nýju lokaúttektarvottorð þar sem utanhúss framkvæmdum var þá lokið. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi, dags. 14. s.m., óskaði kærandi eftir öllum gögnum varðandi öryggisúttekt og lokaúttekt. Hinn 17. janúar 2020 synjaði sveitarfélagið beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna með vísan til þess að um væri að ræða gögn undanþegin upplýsingarétti, sbr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Með úrskurði 20. mars 2020, í kærumáli nr. 129/2019, var kæru kæranda vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim grundvelli að kærandi ætti ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að þau gögn og svör sem sveitarfélagið hafi látið kæranda í té til þessa taki ekki af öll tvímæli um að lokaúttekt og öryggisúttekt hafi yfirhöfuð farið fram á íbúðunum að Egilsgötu 6. Það hljóti að vera sveitarfélaginu í hag að afhenda umrædd gögn og sanna með þeim hætti að rétt hafi verið staðið að úttektunum.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kærunni verði vísað frá nefndinni. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst nefndinni. Bréf sveitarfélagsins sé dagsett 17. janúar 2020 en kæran sé dagsett 23. febrúar. Því hafi kæran borist nefndinni of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þar komi fram að kærufrestur sé einn mánuður frá því kæranda hafi orðið kunnugt um hina kærða ákvörðun. Þá hafi úrskurðarnefndin í kærumáli nr. 129/2019 komist að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti ekki lögvarða hagsmuni vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs á nágrannahúsi og geti því ekki talist aðili málinu í skilningi stjórnsýsluréttar. Með vísan til þess hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá afhent hin umræddu gögn, sem öll tengist lokaúttekt á mannvirki sem ekki sé í eigu kæranda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórn­sýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Ljóst er að veiting byggingarleyfis getur snert lögvarða hagsmuna annarra aðila, einkum nágranna, og hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli að málum fyrir úrskurðar­nefndinni vegna slíkra leyfisveitinga fyrir Egilsgötu 6. Aftur á móti hefur útgáfa lokaúttektar­vottorðs á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingastjóra, sbr. 15. og 36. gr. þeirra laga. Hefur kæranda verið hafnað um kæruaðild að máli fyrir úrskurðarnefndinni vegna útgáfu loka­úttektarvottorðs fyrir umþrætt húsnæði, sbr. úrskurður nefndarinnar frá 20. mars 2020 í kærumáli nr. 129/2019. Að sama skapi getur hann ekki talist aðili máls í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga þegar kemur að aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða útgáfu umrædds lokaúttektarvottorðs. Verður því kröfu kæranda í máli þessu vísað frá vegna skorts á kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

129/2019 Egilsgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 129/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 18. febrúar 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur ítrekað lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi er eigandi Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingar­fulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Ákvörðun um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6 var síðan felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 9. nóvember 2019 í kærumáli nr. 89/2016. Eigandi Egilsgötu 6 sótti að nýju um leyfi til breytinga á húsnæðinu og á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2018 var samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda að Egilsgötu 6, en í vottorðinu kom fram að verið væri að klæða og einangra útveggi hússins. Byggingarfulltrúi gaf svo út byggingarleyfi 2. apríl s.á. og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 12. desember 2019 gaf byggingarfulltrúi út að nýju lokaúttektarvottorð þar sem utanhúss framkvæmdum var þá lokið. Með úrskurði 23. janúar 2020, í kærumáli nr. 24/2019, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að grenndarkynning byggingarleyfisumsóknar fyrir breytingum að Egilsgötu 6 hafi ekki uppfyllt skilyrði laga. Útgefið byggingarleyfi frá 2. apríl 2019 og hönnunargögn uppfylli ekki heldur skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki eða byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Ekki hafi komið fram í greinargerð grenndarkynningar til hverra nota íbúðirnar ættu að vera, en fyrir liggi að byggingarfulltrúi og sveitarstjóri sveitar­félagsins hafi gefið sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð hússins. Ágallar á hönnun íbúðanna hafi aldrei gefið forsendur til lokaúttektar eða jákvæðra umsagna um gistiþjónustu.

—–

Leyfishafa og Borgarbyggð voru veitt tækifæri til að koma að athugasemdum í málinu en þessir aðilar kusu að nýta sér það ekki. Þó var tekið fram af hálfu Borgarbyggðar að litið væri svo á að ákvörðun um útgáfu lokavottorðs væri fallin niður þar sem byggingarleyfi það sem hin kærða lokaúttekt hafi verið byggð á hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Í IV. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki er fjallað um ábyrgð eiganda mannvirkis og tilhögun byggingar­eftirlits. Samkvæmt 15. gr. laganna ber eigandi m.a. ábyrgð á því að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra, en byggingar­stjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Mælt er fyrir um það í 3. mgr. 36. gr. laganna að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá segir í 6. mgr. ákvæðisins að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirkið uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert. Að framangreindum ákvæðum virtum er ljóst að útgáfa lokaúttektarvottorðs hefur fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingastjóra. Verður kærandi, sem er eigandi húss á aðliggjandi lóð, því ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af útgáfu lokaúttektarvottorðs á grundvelli mannvirkjalaga þótt steyptar tröppur tengi húsin saman. Þá er heldur ekki að sjá að fyrir hendu séu að öðru leyti þeir einstaklegu og verulegu hagsmunir sem eru skilyrði kæruaðildar skv. áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Að auki telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að þótt ekki liggi fyrir að hin kærða ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs hafi verið formlega afturkölluð af byggingarfulltrúa þá lítur sveitar­félagið svo á að hún sé fallin úr gildi þar sem byggingarleyfi það sem henni lá til grundvallar var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019. Mun eigandi Egilsgötu 6 og hafa verið upplýstur um þá afstöðu sveitarfélagsins.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

78/2019 Dalbraut, Eskifirði

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2019, kæra á ákvörðunum eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Langadal 4, Eskifirði, þá ákvarðanir eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 8. júlí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við tengivirkishús og byggingu nýs tengivirkishúss að Dalbraut 4, Eskifirði. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Til vara er þess krafist að málið verði tekið til efnismeðferðar að nýju hjá eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 2. september 2019.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn Rarik ohf., dags. 31. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja 116 m² viðbyggingu við tengivirkishús fyrirtækisins að Dalbraut 4, Eskifirði. Jafnframt sótti Landsnet hf. 28. júní s.á. um byggingarleyfi fyrir 266 m² og 132 kílóvatta tengivirki á sömu lóð. Báðar umsóknirnar voru teknar fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 8. júlí 2019. Á fundinum var m.a. bókað að lögð hefði verið fram yfirlýsing Rarik um að ákveðið hefði verið í samráði við Landsnet að framkvæmd yrði hljóðmæling umhverfis mannvirkin og að ráðgjafi legði fram tillögur að úrbótum sem myndu stuðla að bættri hljóðvist umhverfis þau. Í ljósi yfirlýsingar Rarik samþykkti eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd byggingaráformin.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir samræmist ekki gildandi deiliskipulagi þar sem á deiliskipulagsuppdrætti komi einungis fram að um 33 kv/11 kv og 66 kv aðveitustöðvar sé að ræða, en ekki sé þar gert ráð fyrir 132 kv tengivirki. Lóðin að Dalbraut 4 sé skilgreind í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027 sem þjónustulóð en hún liggi ein og sér að íbúðarhverfi og sé deiliskipulögð með því. Ekki verði annað séð en að þær framkvæmdir sem séu fyrirhugaðar séu það umfangsmiklar og geti valdið það miklum óþægindum fyrir íbúa húsa á aðliggjandi lóðum að þær brjóti í bága við stefnu Fjarðabyggðar á íbúðarsvæðum. Fyrirhuguð framkvæmd fari langt út fyrir stefnu aðalskipulags og sé í ósamræmi við deiliskipulagsuppdrátt. Áhrif stækkunar á umhverfi og samfélag hafi ekki verið nægilega könnuð, en vakin sé athygli á nauðsyn umfjöllunar um rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar. Jafnframt muni þetta koma til með að hafa neikvæð áhrif á virði fasteigna á svæðinu.

Málsrök Fjarðabyggðar: Bæjaryfirvöld benda á að Dalbraut 4 sé á svæði fyrir þjónustu­stofnanir og sé innan reits S1 samkvæmt Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027. Næst reitnum S1 sé íbúðarbyggð. Lýsing reitsins sé eftirfarandi í aðalskipulagi: „Aðveitustöð og spennistöð við Dalbraut.“ Þá séu skipulagsákvæði reitsins eftirfarandi: „Svigrúm fyrir breytingar á núverandi mannvirkjum og framkvæmdir sem falla að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki.“ Deiliskipulag Barðs 1 geri ráð fyrir aðveitustöð og þeim byggingum sem henni séu tengdar innan lóðar Dalbrautar 4. Á deiliskipulagsuppdrætti sé byggingarreitur staðsettur innan lóðar með almennum hætti. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við ákvæði greinargerðar deiliskipulags og ákvæði aðalskipulags. Í aðalskipulagi sé beinlínis vísað til þess að til staðar séu heimildir til breytinga á núverandi mannvirkjum og framkvæmdum sem falli að nýtingu svæðisins fyrir veitumannvirki. Spennubreyting og uppbygging mannvirkja vegna þess feli ekki í sér breytingu á landnotkun sem verið hafi til staðar á lóðinni og gert sé ráð fyrir.

Eðli máls samkvæmt þurfi eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt að sæta því að verða fyrir einhverjum áhrifum af starfsemi sem heimiluð sé á nálægum lóðum. Niðurstöður mælinga á hljóði og rafsegulsviði gefi til kynna að áhrif af starfsemi í heimiluðum byggingum verði fyrst og fremst innan lóðarinnar Dalbrautar 4. Í öllu falli sé ljóst að einungis geti verið um að ræða óveruleg áhrif á lóð kæranda og þau áhrif yrðu langt innan þeirra marka sem íbúar í þéttbýli þurfi að sæta vegna starfsemi á nálægum lóðum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er á það bent að umræddar framkvæmdir séu nauðsynlegar fyrir aðgengi að raforku á Austfjörðum, íbúum og öðrum á svæðinu til hagsbóta. Annars vegar sé um að ræða viðbyggingu við tengivirkishús, sem feli í sér nauðsynlega uppbyggingu innviða á svæðinu, og hins vegar byggingu nýs tengivirkis. Að því er varði tilvísun kæranda til nauðsynjar á umfjöllun um „rafsegulsvið slíkrar framkvæmdar“ sé bent á niðurstöðu mælinga Geislavarna ríkisins á segulsviði í og við sambærilegt tengivirki að Hnoðraholti í Kópavogi. Niðurstöður mælinga hafi verið vel innan viðmiðunarmarka reglugerðar nr. 1290/2015 um hámörk geislunar. Þá sé bent á skýrslu Verkís hvað varði hávaða en samkvæmt henni fari hávaði frá tengivirkinu aldrei yfir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða nr. 724/2008.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum verður að líta til þess að hús hans stendur í u.þ.b. 100 m fjarlægð frá þeirri lóð sem fyrirhuguð byggingaráform taka til og stendur hús á lóð sem er á milli fasteignar kæranda og umræddrar lóðar. Ekki verður séð að grenndarhagsmunir kæranda muni skerðast, svo sem vegna skuggavarps eða innsýnar, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Þegar litið er til staðhátta verður ekki séð að útsýni kæranda muni skerðast að neinu marki. Þá liggja fyrir upplýsingar í málinu sem gefa til kynna að áhrif rafsegulsviðs og hávaði frá umdeildum byggingum verði vel innan lögákveðinna viðmiðunarmarka.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af hinum kærðu ákvörðunum umfram aðra. Á kærandi af þeim sökum ekki kæruaðild í máli þessu í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

124 og 128/2019 Elliðaárdalur norðan Stekkjarbakka

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2019, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. desember 2019, kæra 14 eigendur fasteigna við Fremristekk, Hólastekk, Urðarstekk og Skriðu­stekk í Reykjavík þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunar­svæði Þ73. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2019, er barst nefndinni 17. s.m., kæra tveir eigendur fasteignar við Fremristekk í Reykjavík sömu ákvörðun borgarstjórnar og krefjast ógildingar hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 128/2019, sameinað kærumáli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. janúar 2020.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2016 var lögð fram lýsing á deiliskipulagsbreytingu Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73, og hún samþykkt til kynningar og umsagnar með vísan til 1. mgr., sbr. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var ákvörðunin samþykkt á fundi borgarráðs 22. desember s.á. Að lokinni kynningu á lýsingu deiliskipulagsins var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. febrúar 2017. Voru umsagnir þeirra sem gerðu athugasemdir við lýsinguna á kynningartíma lagðar fram og málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Var málið síðan ítrekað tekið fyrir á fundum umhverfis- og skipulagsráðs og skipulags- og samgönguráðs frá 8. febrúar 2017 til 19. september 2018. Hinn 19. desember s.á. var á fundi skipulags- og samgönguráðs samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi borgarstjórnar 15. janúar 2019. Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl s.á og athugasemdir sem bárust á kynningartíma tillögunnar lagðar fram. Á fundi ráðsins 26. júní s.á. var tillagan lögð fram nýju og samþykkt með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. s.m. um þær athugasemdir sem borist höfðu. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 4. júlí 2019.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 30. október 2019 var lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 11. september s.á., þar sem gerð var athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda vegna tilgreindra atriða. Var einnig lögð fram og samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. september s.á., þar sem lagt var til að auglýst tillaga yrði samþykkt með breytingum og lagfærðum uppdráttum til samræmis við athuga­semdir Skipulagsstofnunar. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 7. nóvember s.á. og á fundi borgarstjórnar 19. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 25. nóvember 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við þá stefnu aðalskipulags varðandi þróunarsvæði Þ73 að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað og miðist við 1-2 hæðir. Ekki sé hægt að bera saman 9 m háar byggingar við hús sem séu 1-2 hæðir. Það orðalag deiliskipulagsins að hæðir mælist jafnaði frá botnplötu á aðkomu­hæð komi hvergi fram í aðalskipulagi. Fyrirhugaðar gróðurhvelfingar verði 4.500 m2 og hæð bygginga frá gólfi verði 20 m, en það geti ekki talist takmarkað. Mannvirkin verði heldur ekki í samræmi við aðalskipulag vegna ljósmengunar. Þá sé verslunar- og veitingarekstur að sama skapi ekki í samræmi við aðalskipulagið.

Hæð mannvirkjanna komi til með að byrgja fyrir útsýni kærenda til norðurs og muni það, ásamt ljósmengun, valda þeim fjárhagslegum skaða með tilliti til áhrifa á söluverðmæti fasteigna þeirra. Kærendur verði allir með mannvirkið í beinni sjónlínu frá sínum heimilum. Ljósmengunin muni hafa veruleg áhrif á rétt íbúa til að njóta útsýnis, ljósaskipta og skamm­degis. Fram komi í blaðaumfjöllun að gróðurhvelfingarnar muni líta út eins og ljóshnettir í landslaginu. Á það sé bent að áætluð fjarlægð frá lóðarmörkum fasteignar eins kærenda að lóð gróðurhvelfinganna séu tæpir 100 m. Mannvirkin komi til með að hafa aukna umferð í för með sér um Stekkjarbakka, sem sé einungis tveggja akreina stofnbraut, en kærendur fari þar mörgum sinnum á dag. Í blaðaviðtali hafi forsvarsmaður félags þess sem hyggist byggja hvelfingarnar sagst gera ráð fyrir 300.000-400.000 gestum á ári.

Loks sé vísað til þess að borgarfulltrúi hafi í blaðaviðtali upplýst að Garðheimar eigi að fá úthlutaða lóð nr. 1 á svæðinu undir starfsemi sína. Samkvæmt deiliskipulaginu sé ekki gert ráð fyrir neinum byggingum á lóð nr. 1. Sá formgalli varði ógildi deiliskipulagsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé gerð vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á þróunarsvæðinu í sam­ræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Í skilmálum deiliskipulagsins séu settar takmarkanir á mögulegri starfsemi, uppbyggingu, útliti fasteigna og meðferð á meng­andi ofanvatni og efnum en með því sé verið að vernda grænt yfirbragð Elliðaárdals, sem og vatnasvið Elliðaáa. Fyrirhuguð starfsemi teljist til grænnar starfsemi með sjálfbærni að leiðarljósi og sem slík sé hún í samræmi við markmið aðalskipulags. Mikilvægt sé að hafa í huga að með því að skilgreina landsvæði sem þróunarsvæði þá sé fyrirhugað að fara í enduruppbyggingu án þess að taka endanlega afstöðu til þess í hvaða mynd hún eigi að vera.

Í aðalskipulaginu sé kveðið á um að hæð mögulegra bygginga á svæðinu miðist við 1-2 hæðir, en um viðmið sé að ræða og feli það ekki í sér endanlega afmörkun á fjölda hæða. Glöggt komi fram á skýringaruppdráttum að verulegur landhalli sé á svæðinu sem leiði til þess að sá hluti hússins sem verði ofan aðkomuhæðar mildist verulega þar sem bæði Stekkjarbakki og byggðin fyrir ofan liggi hærra í landi. Að því leyti sé eðlilegt að kveða á um hámarkshæð byggingar frá aðkomuhæð, enda verði ekki séð að nokkur áhrif verði af þeim hluta byggingarinnar sem grafa megi niður. Raunveruleg sjónræn áhrif verði minni en ætla megi jafnvel þótt byggingin verði 9 m á hæð mælt frá aðkomuhæð vegna fyrrgreinds landhalla. Af sniðmyndum megi ráða að byggingarnar muni valda óverulegum áhrifum á nærliggjandi byggð. Bent sé á að við vinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi byggingarnar verið lækkaðar frá því sem fyrirhugað hafi verið auk þess sem byggingarreit hafi verið hnikað til suðurs, en markmiðið með þeim breytingum hafi verið að draga úr áhrifum bygginganna. Útsýni sé ekki lögverndaður réttur íbúa í borg og megi íbúar vænta þess að uppbygging og þróun byggðar kunni að skerða útsýni frá því sem áður hafi verið.

Sérstakar og ítarlegar skorður séu í skilmálum deiliskipulagsins varðandi ljósmagn, en með því sé tryggt að lýsingin valdi sem minnstum „lífeðlisfræðilegum og vistlegum vandamálum“ fyrir umhverfi og fólk. Rannsókn á núverandi ljósmengun á svæðinu hafi sýnt að ólíklegt sé að mengunin muni aukast við fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu. Í athugasemdum Skipulags­stofnunar við deiliskipulagstillöguna hafi verið talið að breyta þyrfti vísun til ÍST staðals og setja skilmála um mörk heimilaðs ljósmagns á svæðinu. Jafnframt hafi stofnunin talið að gera þyrfti viðbragðsáætlun ef ljósmagn reyndist vera meira en heimilað væri samkvæmt skil­málum skipulagsins. Vegna þeirra athugasemda hafi verið gerðar breytingar á tillögunni. Ljósmagn verði ekki meira en almennt megi vænta innan borgarmarka.

Hvað varði aukna umferð sé bent á að rekstraraðili á svæðinu fyrirhugi að nota „skutlur“ til að aka gestum til og frá svæðinu. Slíkt fyrirkomulag eigi að leiða til þess að umferðaraukning verði ekki veruleg. Þá séu engar heimildir til uppbyggingar á lóð nr. 1 á svæðinu og þyrfti að gera breytingu á deiliskipulaginu til að byggja mætti þar. Einnig sé bent á að skipulagslög nr. 123/2010 hafi að geyma lagalegt úrræði fyrir þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni við samþykkt deiliskipulagstillögu, sbr. 52. gr. laganna.

Athugasemdir Spors í sandinn ehf: Af hálfu félagsins er vísað til þess að það hafi beinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu nefndarinnar um kærumálin, en því hafi verið gefið vilyrði fyrir úthlutun lóðar nr. 3 á svæðinu Þ73 til byggingar gróðurhvelfinga. Þeir einir geti átt aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þetta skilyrði hafi verið skýrt þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Ekkert komi fram í kærunum sem styðji að kærendur eigi verulega og einstaklega hagsmuni umfram aðra af hinni kærðu ákvörðun. Kærendur eigi það sameiginlegt að vera eigendur fasteigna í svokölluðu Stekkjarhverfi í Reykjavík. Frá fasteignum kærenda og að næstu mörkum svæðis Þ73 séu á bilinu u.þ.b. 100 m til nokkra hundraða metra. Á milli fasteigna kærenda og svæðis Þ73 liggi mikil umferðargata sem um fari u.þ.b. 20.000 bifreiðar á degi hverjum. Hljóðvistarkort sýni að hávaði frá umferð til nærliggjandi byggðar í Stekkjum sé um 62 dB. Syðst á svæði Þ73, á milli Stekkjahverfis og skipulagðra byggingarreita, sé hár trjágróður sem að mestu sé hærri en byggingar sem þar eigi að rísa samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. Álitaefni um samræmi deiliskipulags við aðalskipulag skjóti engum stoðum undir lögvarða hagsmuni kærenda af úrlausn málsins. Kærendur eigi ekki fasteignir á deiliskipulagssvæðinu. Auk þess hafi þeir ekki getað haft lögmætar væntingar til þess að aldrei yrðu reistar byggingar á svæði Þ73 sem hefðu áhrif á útsýni þeirra til norðurs, að eingöngu yrðu reistar óupplýstar byggingar eða byggingar sem hefðu engin áhrif á umferð um Stekkjarbakka. Sjálfstæður réttur kærenda til kæruaðildar geti ekki risið fyrr en og ef til þess komi að veitt verði byggingarleyfi fyrir gróðurhvelfingunum. Kærendur geti ekki haft hagsmuni af því að fá fellt úr gildi deiliskipulag vegna óljósra og rangra hugmynda þeirra um áhrif fyrirhugaðra mannvirkja sem enn hafi ekki verið fullhönnuð eða fjármögnuð. Þá geti vangaveltur kærenda um mögulega úthlutun lóðar nr. 1 á svæðinu fyrir starfsemi Garðheima enga aðild veitt að málinu. Ekkert liggi fyrir um slíka úthlutun og komi til hennar þurfi til þess deiliskipulagsbreytingu.

Verði málinu ekki vísað frá telji leyfishafi að hafna beri kröfum kærenda. Deiliskipulagið gangi ekki gegn því orðalagi gildandi aðalskipulags að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað með hliðsjón af stærð hinnar skipulögðu lóðar. Aðalskipulagið kveði ekki á um afgerandi hæðarviðmið. Ekki sé fjallað um frá hvaða hæðarpunkti mishæðótts landslagsins skuli miða við að byggingar megi vera 1-2 hæðir, hversu há í metrum hver hæð skuli teljast eða hvert þakform megi vera. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmda­leyfis, sbr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist m.a. skv. b-lið gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að í deiliskipulagi, ekki aðalskipulagi, skuli setja skilmála um stærð bygginga og hæðarfjölda ofan og neðan jarðar. Af hinum samþykkta deiliskipulags­uppdrætti megi sjá að skipulagið uppfylli allar kröfur sem til þess séu gerðar hvað varði tilgreiningu á hæð bygginga og hafi niðurgrafni hluti gróðurhvelfinganna að sjálfsögðu engin sjónræn áhrif. Ljósmengun á svæði Þ73 sé í dag töluverð og ólíklegt að hún aukist mikið með tilkomu fyrirhugaðra bygginga. Myrkramæling hafi verið framkvæmd og núverandi ástand svæðis Þ73 myndi flokkast sem slæm umhverfislýsing borgar og sé ljósmengunin á svæðinu yfir meðaltali ljósmengunar í Reykjavík. Skilmálar deiliskipulagsins tryggi að ljósmengun frá starfseminni verði innan marka samkvæmt staðli ÍST EN 12464-2:2007 um utanhússlýsingu og hönnunarleiðbeiningum ILE (The Institution of Lighting Engineers: Guidance notes for the reduction of obstructive light). Aðalskipulagið heimili starfsemi sem tengist „grænni starfsemi“ og fari fyrirhuguð starfsemi ekki í bága við það, en hún muni fela í sér aðgang að gróðurvin með plöntum frá heitari löndum í miðjarðarhafsloftslagi, að stórum hluta án kostnaðar fyrir gesti en að nokkrum hluta gegn endurgjaldi, auk þess að selja gestum veitingar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í greinargerð borgaryfirvalda sé ekkert fjallað um byggingarmagnið sem fyrirhugað sé að byggja á lóðinni, en það byggingar­magn sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Sérstök ákvæði í skilmálum deiliskipulagsins um ljósmengun hafi enga þýðingu þar sem engar mælingar liggi fyrir sem réttlætt geti byggingu gróðurhvelfinganna á þessum stað. Þær myrkramælingar sem borgaryfirvöld vísi til hafi ekki verið birtar. Röksemd borgaryfirvalda um að skutlur eigi að leysa vanda sem fylgi umferðarþunga sé haldlaus á meðan rekstraraðili hafi það alfarið í hendi sér að framkvæma með þeim hætti.

Kærendur krefjist þess að athugasemdir Spors í sandinn ehf. verði ekki hluti af máli þessu þar sem félagið sé ekki aðili kærumálsins. Kærunum sé beint að Reykjavíkurborg en ekki félaginu og geti lóðarvilyrði borgaryfirvalda ekki gert það að aðila málsins, enda hafi það ekki lýst afdráttarlausum vilja til að nýta sér lóðina. Kærendur geri engar athugasemdir við fyrirætlanir félagsins en mótmæli harðlega fyrirætlunum borgaryfirvalda. Í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri nefndinni að gefa Garðyrkjufélagi Íslands sama tækifæri til að koma að athugasemdum. Aðalskipulagið kveði skýrt á um að umfang hverrar byggingar fyrir sig skuli vera takmarkað og sé því til lítils að reikna út hlutfall fyrirhugaðra bygginga á svæðinu miðað við svæðið í heild sinni. Félagið víki sér undan að fjalla um fyrirhugaðan verslunar- og veitingarekstur, en verði mannvirkið að veruleika verði um að ræða stærstu mathöll landsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæðis Þ73. Felur breytingin m.a. í sér að skilgreina byggingar­lóð fyrir gróðurhvelfingar á vegum félagsins Spor í sandinn ehf. samkvæmt fyrirliggjandi lóðarvilyrði og snúa málsrök kærenda nær einvörðungu að þeirri breytingu skipulagsins. Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem félagið hefur að gæta vegna hinnar kærðu ákvörðunar, sem og þeirri rannsóknarskyldu sem hvílir á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, var félaginu gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kæranna.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinni kærðu deiliskipulags­breytingu verður að líta til þess að hús þeirra standa bæði ofar í landi og að lágmarki í tæplega 100 m fjarlægð frá þeim gróðurhvelfingum og öðrum mannvirkjum sem áætlað er að byggja. Skilur nokkur trjágróður svo og þung umferðargata með tilheyrandi götulýsingu á milli húsa kærenda og umrædds deiliskipulagssvæðis. Þau mannvirki sem deiliskipulagið heimilar að byggja munu þó verða í sjónlínu frá flestum húsum kærenda. Ekki verður séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda húsin í talsverðri fjarlægð frá skipulagssvæðinu. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif vegna aukinnar umferðar verði teljandi með hliðsjón af þeirri umferð sem fyrir er. Þrátt fyrir að ásýnd þess landsvæðis þar sem fyrirhugað er að reisa upplýstar gróðurhvelfingarnar og aðrar byggingar muni breytast verður ekki talið, að virtum fyrrnefndum staðháttum, að grenndaráhrif útsýnisbreytinganna séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kærenda á þann veg að þeir eigi þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi þeim kæruaðild. Þar sem kærendur hafa ekki þeirra verulegu hagsmuna að gæta sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, og aðrar þær ástæður liggja ekki fyrir sem leitt geta til hennar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

42/2019 Strandavegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2019, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðar­kaupstaðar frá 13. maí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2019, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi, Hánefsstöðum, Seyðisfirði, þá ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 13. maí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði. Er gerð krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seyðisfjarðarkaupstað 11. september 2019.

Málsatvik og rök: Sjálfseignarstofnunin LungaA-skólinn er eigandi hússins að Strandarvegi 13. Samkvæmt gögnum málsins var húsnæðið áður í eigu Síldarvinnslunnar hf., en félagið færði skólanum það að gjöf árið 2018. Árið 2019 sótti skólinn um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæðinu innanhúss ásamt breytingu á notkun þess í geymslur og vinnustofur fyrir skólann. Með umsókninni fylgdu reyndarteikningar, dags. 30. apríl 2019, ásamt öðrum gögnum. Byggingarleyfis­umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfisnefndar 13. maí 2019 og var hún samþykkt með þeim rökum að notkunin kallaði ekki á aukna viðveru fólks miðað við fyrri notkun hússins. Var byggingarfulltrúa falið að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn lægju fyrir.

Kærandi telur verulegan vafa leika á lögmæti samþykktar umhverfisnefndar bæjarins. Breytingar á notkun hússins sem skólahúsnæðis í stað geymsluhúsnæðis samræmist ekki landnotkun svæðisins samkvæmt aðalskipulagi en þar sé hafnarsvæði. Breytingin sé auk þess hvorki í samræmi við lög né reglugerð um varnir gegn ofanflóðum og teikningar að breytingum á húsinu í skólahúsnæði uppfylli ekki kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012.

Kærandi telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu en hann sé kjörinn bæjarfulltrúi sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 24. gr. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem fjalli um almennar skyldur sveitarstjórnarmanna og sjálfstæði þeirra í starfi. Óhjákvæmilegt sé að fá úr málinu skorið með hliðsjón af þeim stórfelldu almanna- og öryggishagsmunum sem séu undir í málinu, sbr. hættumat vegna ofanflóða fyrir Seyðisfjarðar­kaupstað.

Bæjaryfirvöld benda á að umrætt húsnæði sé skilgreint sem vinnustofur og geymslur en ekki sem skólahúsnæði og að viðvera í húsinu yrði ekki meiri en áður hafi verið. Fjöldi fólks starfi á svæðinu í kring, sem einnig sé skilgreint sem C-svæði hættumats snjóflóða og aurskriða. Mikilvægara sé að efla viðbragðsáætlanir frekar en að hefta nýtingu á húsnæðinu sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls, umfram aðra, og að þeir hagsmunir séu verulegir.

Málsrök kæranda lúta fyrst og fremst að almannahagsmunum en ekki liggur fyrir með hvaða hætti umdeild ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar snertir persónulega lögvarða hagsmuni hans. Kærandi á ekki heimili í nágrenni við þá fasteign sem hin breytta notkun tekur til og getur því ekki átt kæruaðild á grundvelli grenndarhagsmuna. Sú staðreynd að kærandi er starfandi sveitarstjórnarmaður veitir honum ekki að lögum aðild að kærumáli þessu án þess að hann uppfylli áðurnefnt skilyrði um lögvarða hagsmuni.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

60, 61 og 63/2019 Vesturlandsvegur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. júní 2019, um að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Akraneskaupstaður ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. júní 2019 um að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með tveimur bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2019, er bárust nefndinni 15. og 16. s.m., kæra annars vegar Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Dalabyggð, Helgafellssveit og Borgarbyggð og hins vegar Grundarfjarðarbær, sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar og krefjast ógildingar hennar. Krefst Grundarfjarðarbær þess einnig að Skipulagsstofnun verði gert að taka málið aftur til meðferðar. Verða nefnd kærumál, sem eru nr. 61/2019 og 63/2019, sameinuð kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 16. ágúst 2019.

Málavextir: Vegagerðin áformar að breikka um 9 km kafla Vesturlandsvegar um Kjalarnes milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Felur framkvæmdin í sér breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2019, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að lokinni málsmeðferð stofnunarinnar komst hún að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni, dags. 11. júní 2019, að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ranga þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum. Sé það mat kærenda að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé ekki framkvæmd sem kunni að hafa í för með sér veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki sé unnt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Hafi stofnunin ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni eða séð til þess að umfang framkvæmdar væri upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin um matsskyldu.

Kærendur telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sveitarfélögin séu í næsta nágrenni við hina fyrirhuguðu framkvæmd, en Vesturlandsvegur sé afar mikilvæg tenging íbúa þeirra við höfuðborgarsvæðið og umferðaröryggi vegarins skipti miklu máli. Það sé lögbundið verkefni sveitarfélaga að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, sbr. 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Umferðaröryggi íbúa sveitarfélaga sé eitt þeirra velferðarmála. Kærendur hafi því verulega og sérstaka hagsmuni af því að fá úrlausn kærumálsins í því skyni að sinna lögbundnu hlutverki sínu og vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, en hin kærða ákvörðun muni fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við veginn.

Ljóst sé að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar muni auka umferðaröryggi íbúa kærenda svo um muni. Eðli máls samkvæmt stundi hluti íbúa sveitarfélaganna vinnu á höfuðborgarsvæðinu og aki því umræddan vegkafla daglega, auk þess sem íbúar sæki afþreyingu til höfuðborgarsvæðisins reglulega. Sveitarfélögin og íbúar þeirra hafi því lögvarinna hagsmuna að gæta þegar komi að því að framkvæmdinni sé hraðað, en sveitarfélögunum sé umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið. Þá sé rétt að nefna að breikkun Vesturlandsvegar sé forgangsmál samkvæmt sameiginlegri samgönguáætlun sveitarfélaga á Vesturlandi. Hin kærða ákvörðun, verði hún látin standa, muni seinka framkvæmdunum um umtalsverðan tíma.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að hún taki ekki afstöðu til þess hvort kærendur hafi aðild að málinu skv. lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Um efni málsins sé bent á að í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, séu vegaframkvæmdir tilgreindar í tl. 10.07 – 10.10. Í tl. 13.01-13.03 sé síðan að finna ákvæði sem eigi almennt við um breytingar á framkvæmdum eða viðbætur við framkvæmdir sem falli undir einhvern af töluliðunum í 1.-12. kafla viðaukans. Undir tl. 13.01 falli breytingar og viðbætur við framkvæmdir í flokki A þar sem breytingin eða viðbótin sjálf fari yfir þau viðmið sem flokkur A setji. Undir tl. 13.02 falli breytingar og viðbætur við framkvæmdir í flokki A og B, aðrar en þær sem falli undir tl. 13.01.

Vegagerðin hafi tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar með vísan til tl. 13.02, án þess að tilgreina undir hvaða tölulið í 10. kafla 1. viðauka hún félli, en allar framkvæmdir sem séu tilkynningarskyldur samkvæmt 13. kafla viðaukans, tilheyri einhverjum þeirra framkvæmdaflokka sem fram komi í 1.-12. kafla hans. Hafi Skipulagsstofnun talið að framkvæmdin væri tilkynningarskyld samkvæmt tl. 13.02 og því hafi verið tekið við erindi Vegargerðarinnar samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt nefndri lagagrein skuli stofnunin fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna, þegar tekin sé ákvörðum um hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Áhrif á hljóðvist og skortur á upplýsingum um mótvægisaðgerðir vegna hávaða hafi ekki eitt og sér leitt til þeirrar niðurstöðu að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum heldur sé það meðal þeirra atriða sem leitt hafi til þess að Skipulagsstofnun hafi talið að framkvæmdin skyldi háð slíku mati, sbr. viðmiðin í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Ljóst sé að umferðarrýmd vegarins aukist, sem og umferðarhraði fram hjá þéttbýlasta svæðinu á Kjalarnesi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Vegagerðinni liggi fyrir að hávaðinn verði yfir viðmiðunarmörkum skv. reglugerð um hávaða nr. 724/2008 og hafi ekki verið lagðar fram upplýsingar um gerð og útfærslu hljóðvarna og virkni þeirra, sem sé meðal þess sem fjalla skuli um við mat á umhverfisáhrifum, sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Þá séu mengun og ónæði meðal þeirra atriða sem horfa skuli til við ákvörðun um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. tl. v. í 2. viðauka laganna. Samkvæmt 2. tl. 2. viðauka nefndra laga skuli við ákvörðun samkvæmt 6. gr. þeirra einnig horfa til staðsetningar framkvæmdar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér að teknu tilliti til niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal þeirra eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Eru kærendur í máli þessu sveitarfélög en ekki samtök í skilningi framangreinds ákvæðis. Þá njóta sveitarfélögin ekki lögfestrar kæruheimildar, en stjórnvöld hafa almennt ekki kærurétt í stjórnsýslunni.

Verður því að líta svo að sveitarfélög þau sem um ræðir verði að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins til að geta átt að því kæruaðild. Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum verður og við það að miða að þau verði að eiga sérstaka einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Um lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa hafa kærendur vísað til 2. mgr. nefndrar lagagreinar, en þar segir að sveitarfélög skuli vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa eftir því sem fært þyki á hverjum tíma. Ekki verður borið á móti því að mikilvægir hagsmunir felast í því að tryggja umferðaröryggi borgaranna. Þar er þó um almannahagsmuni að ræða, en ekki einstaklingsbundna hagsmuni þeirra sveitarfélaga sem að kærumáli þessu standa. Verða þau því hvorki talin aðilar að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né eiga þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni tengda henni sem gerðir eru að skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærendur eiga ekki aðild að kærumáli þessu og verður því af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

90/2018 Svarfhólsskógur

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 10. nóvember 2021, sjá hér.

Árið 2019, þriðjudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2018, kæra á gjaldtöku „fyrir sorp- og rotþróahreinsun í frístundabyggðinni Svarfhólsskógur […] í Hvalfjarðarsveit“.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Svarfhólfsskógur, félag eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, gjaldtöku „fyrir sorp- og rotþróahreinsun í frístundabyggðinni Svarfhólsskógur“. Er þess krafist að allir sem greitt hafi fern árgjöld fyrir eina hreinsun sinnar rotþróar fái næsta árgjald niðurfellt eða fjórða árgjaldið endurgreitt með vöxtum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 3. ágúst 2018.

Málavextir: Hinn 15. mars 2017 sendi formaður kæranda sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar tölvupóst þar sem bent var á að rotþrær í Svarfhólsskógi, sem síðast hefðu verið hreinsaðar árið 2013, hefðu ekki verið hreinsaðar árið 2016. Því myndu líða fjögur ár á milli hreinsana þrátt fyrir að í 15. gr. Samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit væri kveðið á um að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ára fresti. Í bréfinu kom einnig fram að margir sumarhúsaeigendur hefðu látið í ljós óánægju sína með hækkun á hreinsunargjaldi fyrir rotþró, en með gjaldskrá nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit hækkaði hreinsunargjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús úr kr. 8.440 í kr. 11.650. Kom formaður kæranda þeim tilmælum á framfæri við sveitarstjórn að hún freistaði þess að ná hagstæðari samningi um hreinsun rotþróa. Svaraði sveitarstjóri samdægurs og þakkaði ábendingarnar, benti á að farið yrði yfir málin heildstætt og að þjónustugjöld skuli standa undir kostnaði við veitta þjónustu.

Frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað í desember 2017 og 4. janúar 2018 sendi formaður kæranda bréf til sveitarstjóra þar sem óskað var eftir því að upplýsingar um sundurliðaðan og rökstuddan kostnað við síðustu hreinsun rotþróa í Svarhólfsskógi. Bent var á að sumarhúsaeigendur hefðu verið búnir að greiða árlegt rotþróargjald í fjögur ár þegar loksins hefði verið hreinsað hjá þeim sumarið 2017. Í kjölfar frekari samskipta barst kæranda 11. apríl 2018 bréf frá skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins þar sem útskýrt var skipulag sveitarfélagsins á hreinsun rotþróa og að árið 2013 hefðu verið gerðar breytingar á fyrirkomulaginu. Bent var á að sveitarfélagið hefði gert samning um hreinsun rotþróa árið 2014 sem gilti til ársins 2019 og væri hann ekki uppsegjanlegur á samningstímanum. Einnig kom fram að undanfarin ár hefði rotþróarhreinsun verið rekin með halla og nauðsynlegt hefði reynst að hækka gjöldin árið 2016 til að mæta raunkostnaði við rotþróahreinsunina.

Hinn 21. apríl 2018 var á aðalfundi kæranda skorað á sveitarstjóra að svara erindi formanns félagsins er varðaði forsendur gjaldtöku fyrir sorp- og rotþróahreinsun og hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarhúsaeigenda fyrir rotþróahreinsun. Á fundi sveitarstjórnar 8. maí s.á. var samþykkt að hafna kröfu um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að meintur kostnaður Hvalfjarðarsveitar vegna sorphreinsunar hafi verið innheimtur með fasteignagjöldum á hverju ári fyrir hvert almanaksár. Þá hafi meintur kostnaður sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa einnig verið innheimtur með fasteignargjöldum, en skipt niður á þrjú ár fyrir hverja hreinsun. Árið 2016 hefði samkvæmt greiðslufyrirkomulagi og reglum sveitarfélagsins átt að hreinsa rotþrær í Svarfhólfsskógi en það hafi ekki verið gert. Hvorki hafi verið haft samráð við sumarhúsaeigendur né þeim verið tilkynnt um breytingu á tíðni hreinsunar. Þegar í ljós hafi komið að árlegt rotþróargjald fyrir árið 2017 hefði verið hækkað um 35% frá fyrra ári hafi mörgum verið misboðið. Fyrirheit um rökstuddar og sundurliðaðar upplýsingar um gjaldtöku vegna sorp- og rotþróahreinsunar hafi verið svikin ítrekað.

Á aðalfundi kæranda 21. apríl 2018 hafi verið skorað á sveitarstjóra að svara erindi formanns félagsins. Áskorunin hafi verið afgreidd með bókun á sveitarstjórnarfundi 8. maí s.á., en þar hafi ranglega verið sagt að gerð hafi verið krafa um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Aðeins hafi verið spurt um hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarhúsaeigenda á gjaldinu. Þá sé þeirri staðhæfingu í bókuninni mótmælt að aðilar í Svarfhólsskógi hafi ekki ofgreitt umrætt gjald.

Rotþrær hafi verið hreinsaðar árið 2013 en fyrir hverja hreinsun séu þrjár árlegar greiðslur innheimtar. Sumarhúsaeigendur hafi gert ráð fyrir að næsta hreinsun færi fram árið 2016, sbr. 15. gr. samþykktar um fráveitur í Hvalfjarðarsveit nr. 583/2008, þar sem kveðið sé á um að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ára fresti. Vegna misskilnings milli forsvarsmanna sveitarfélagsins og verktakans hafi rotþrær í Svarhólfsskógi ekki verið hreinsaðar fyrr en árið 2017. Eigi að síður hafi eigendum verið gert að greiða 33,33% meira en öðrum í sveitarfélaginu og þar með verið beittir mikilli mismunun.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í kæru komi ekki fram hvaða stjórnvaldsákvörðun sveitarfélagsins verið sé að kæra, sbr. áskilnað þar um í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé vísað til neinnar einnar ákvörðunar sveitarfélagsins sem kveði einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli. Ekki liggi fyrir nein kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu. Athugasemdir kæranda snúi ýmist að ákvörðunum sveitarfélagsins sem varði fleiri en einn aðila sem teljist vera stjórnvaldsfyrirmæli og heyri því ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar, að tiltekinni ákvörðun stjórnvalds einkaréttarlegs eðlis, þ.e. samningi við verktaka um hreinsun rotþróa eða að framsetningu upplýsinga. Ákvörðun um breytingu á fyrirkomulagi á hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu, sem gengið hafi í gildi árið 2014, sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Fyrirkomulaginu hafi verið breytt með hliðsjón af rekstrarlegum forsendum en augljóst sé að slík ákvörðun varði ekki bara kæranda í afmörkuðu máli heldur alla eigendur fasteigna í sveitarfélaginu sem séu með rotþró.

Þá sé bent á að ekki liggi neitt fyrir í málinu neitt um tilvist kæranda, um aðildarhæfi hans að stjórnsýslumáli eða um hvort að ákvörðun um að leita til úrskurðarnefndarinnar hafi verið tekin í samræmi við samþykktir félagsins. Þá hafi í kærunni ekki verið leiddar líkur að því af hálfu kæranda hvaða einstaklegu og verulegu lögvörðu hagsmuni kærandi hafi af því að fá mál sitt tekið fyrir hjá nefndinni. Liggi því hvorki ljóst fyrir hvort umrætt félag geti, eða sé til þess fallið, að eiga aðild að máli fyrir úrskurðarnefndina, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, né hvort að skilyrði lagagreinarinnar um lögvarða hagsmuni séu uppfyllt.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Ágreiningur máls þessa lýtur að gjaldtöku vegna rotþróahreinsunar í Hvalfjarðarsveit en kærandi telur gjaldið of hátt. Auk þess hefur hann gert athugasemdir við fjárhæð sorphreinsunargjalds, sem kærandi telur hafa hækkað of mikið. Er ljóst að kærandi er almennt ósáttur við þau svör sem hann hefur fengið af hálfu sveitarfélagsins vegna gjaldtöku þess. Hefur kærandi og fundið að afgreiðslu sveitarstjórnar frá 8. maí 2018 þar sem félagið hafi ekki gert kröfu um endurgreiðslu álagðs gjalds vegna hreinsunar rotþróa heldur spurt hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarhúsaeigenda á gjaldinu.

Álagning gjalda, s.s. vegna hreinsunar rotþróa, sorphirðu og sorpeyðingar, er almennt kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Í kærumáli vegna slíkrar álagningar getur eftir atvikum komið til skoðunar hvort fjárhæð þjónustugjalds sem innheimt er á grundvelli gjaldskrár er innan þess ramma sem slíkum gjöldum er settur. Gjaldskrár sem slíkar eru hins vegar stjórnvaldsfyrirmæli sem beinast að hópi manna og hafa þeir ekki hagsmuna að gæta af þeim umfram aðra fyrr en álagning fer fram.

Kærandi er félag eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólfsskógi og samkvæmt samþykktum félagsins er hlutverk þess m.a. að gæta hagsmuna félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd sameiginlega. Á félagið sjálft hafa hins vegar ekki verið lögð þau gjöld sem ágreiningsmál þetta snýst um og hafa einstakir félagsmenn kæranda sem á kunna að hafa verið lögð gjöld ekki lagt fram kæru. Kæra í máli þessu er lögð fram fyrir hönd félagsins og umboð stjórnarmanna þess til handa formanni til að bera fram kæru lúta að þeim málarekstri. Þá lúta málsrök kæranda að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna og bera samskipti félagsins við sveitarfélagið þess einnig vitni. Verður því ekki séð að kærandi hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun. Þá verður kæruaðild ekki heldur byggð á þeim forsendum að félagið hafi stundað almenna hagsmunagæslu fyrir sína félagsmenn gagnvart sveitarfélaginu. Hafa ekki komið fram aðrar ástæður sem leitt geta til kæruaðildar samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu því vísað frá sökum aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

103/2019 Austurey

Með

Árið 2019, föstudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III og ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Austureyjar II, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III, og ákvörðun byggingar­fulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III. Er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að úrskurðar­nefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 10. október 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Austureyjar I og III frá 7. júní 2002. Með umsókn, dags. 1. apríl 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Í umsókninni fólst skilmálabreyting fyrir heildarsvæðið varðandi nýtingarhlutfall lóða sem yrði 0,03 í stað ákvæðis um hámarksstærð bygginga í fer­metrum. Heimilað yrði að reisa á hverri frístundalóð eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Auk þess yrði frístundalóðin Eyrargata 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m² ásamt stækkun byggingarreits. Tilgreint var að byggingarreitur væri 50 m frá vatnsbakka og 10 m frá lóðarmörkum og að gert yrði ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi.

Á fundi skipulagsnefndar Bláskógabyggðar 10. apríl 2019 var mælst til þess að sveitarstjórn samþykkti framkomna breytingatillögu og að hún yrði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags­­laga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum 9. maí 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 22. maí til 3. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 22. ágúst 2019 og tók afstöðu til framkominna athugasemda. Skipulagsfulltrúi sendi athugasemdaaðilum svör bæjarstjórnar með bréfi, dags. 4. september s.á.

Með erindi, dags. 5. september 2019, sendi Bláskógabyggð Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar umfjöllunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 18. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulags­breytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2019.

Með umsókn, dags. 10. september 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um byggingarleyfi fyrir 183,7 m² sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið aflað álits Umhverfisstofnunar og Náttúruverndarnefndar á umdeildri deiliskipulagsákvörðun eða samþykktu byggingarleyfi. Með þeim framkvæmdum sem nú eigi sér stað í Austurey III sé verið að raska vistkerfi Apa­vatns. Það sé skýrt samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að við slíkar framkvæmdir beri að afla umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir samkvæmt 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Hvorki við samþykkt deili­skipulags né byggingarleyfis hafi þessara álita verið aflað og því beri að ógilda byggingarleyfið og taka deiliskipulagið til endurskoðunar.

Telji úrskurðarnefndin aftur á móti að afgreiðsla sveitarstjórnar hafi að þessu leyti átt við rök að styðjast og að ákvæði náttúruverndarlaga felli ekki úr gildi samþykkt deiliskipulagsins telji kærandi engu að síður að byggingarleyfið brjóti gegn lögum nr. 61/2006 um lax- og silungs­veiði en samkvæmt 33. gr. þeirra sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrr en leyfi hafi fengist hjá Fiskistofu. Þá hafi ekki verið óskað eftir áliti Veiðifélags Apavatns og umsagnar sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmda á lífríki vatnsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og skipulagslaga nr. 123/2010 við samþykkt deiliskipulagsins. Ekki hafi verið leitað samráðs við hagsmunaaðila, sbr. gr. 5.2.1. reglugerðarinnar. Þannig hafi ekki verið haft samband við Veiðifélag Apavatns eða Náttúrufræðistofnun Íslands þrátt fyrir að framkvæmdirnar snerti viðkvæmt lífríki Apavatns sem hafi verið tilnefnt til B-hluta Náttúruminjaskrár árið 2018. Ekki sé í deiliskipulagi að finna skilgreindar takmarkanir á landnotkun sökum náttúruvár, en ljóst sé af myndum frá 2006 að mikil flóðahætta sé á svæðinu. Myndir af flóðum hafi verið sendar til sveitarstjórnar en hafi ekki fengið efnislega meðferð.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarstjórn byggir á því að málsmeðferðin hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við lög. Samkvæmt deiliskipulagi frá 2002 sé gert ráð fyrir byggingarreit á lóðinni Eyrargötu 9 á þeim stað þar sem hann sé í dag. Með deiliskipulags­breytingunni sé reiturinn stækkaður til austurs og suðurs og lóðin stækkuð um 1.735 m². Bent sé á að samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi sé þegar gert ráð fyrir byggingu á staðnum og að stækkun lóðarinnar hafi engin áhrif á vistkerfi eða náttúru svæðisins enda sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjum á þeim stöðum sem stækkunin taki til. Byggingarreiturinn sé í 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en málsástæða kæranda, um að ekki megi byggja í meira en 100 m fjarlægð frá vatnsbakka þar sem svæðið sé tilnefnt í B-hluta Náttúruminjaskrár, sé hafnað þar sem svæðið sé ekki enn komin inn á skrána með þeim réttaráhrifum sem því fylgi.

Því sé hafnað að ákvæði 61. og 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við í málinu enda sé byggingarreitur í meira en 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en það sé Apavatn sjálft sem njóti verndar, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir byggingarreit á umræddum stað í skipulagi sem hafi hlotið lögmælta afgreiðslu og geti lög nr. 60/2013 ekki verið afturvirk. Heimiluð bygging samkvæmt umræddu byggingarleyfi hafi ekki áhrif á fiskigengd Apavatns og eigi 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði ekki við í máli þessu. Við vatnið séu fjöldamörg önnur sumarhús sem ekki hafi verið talið að hafi slík áhrif.

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í samræmi við markmið skipulagslaga og ákvæði skipulags­reglugerðar. Hún hafi verið auglýst og hafi öllum sem hafi átt hagsmuna að gæta gefist tækifæri til að koma að athugasemdum. Hvað varði þau málsrök kæranda að ekki hafi verið skilgreind takmörkun landnotkunar vegna náttúruvár sé til þess að líta að Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027 hafi verið samþykkt 25. maí 2018. Við gerð þess hafi farið fram mat á því hvaða svæði féllu undir náttúruvá.

Að lokum sé því hafnað að skilyrði séu til staðar til þess að fella úr gildi ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og veita byggingarleyfi. Samþykkt byggingaráform hafi verið í samræmi við skipulag og málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við lög. Ekki hafi verið talið að framkvæmdir gætu haft í för með sér röskun á þeim landslagsgerðum sem verndaðar væru samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að fyrir liggi að hluti úr landi Austureyjar III hafi verið skipulagður sem frístundasvæði árið 2002, þar með talin lóðin Eyrargata 9, og hafi verið heimilt að byggja 163 m² á lóðinni fyrir breytingu. Sumarhúsið sem sé nú í byggingu verði 183,7 m². Ólíklegt sé að stækkun á sumarhúsi um 20 m² muni valda frekara raski eða hafa úrslitaáhrif um verndun Apavatns. Fyrirhugað sumarhús sé í eins og hálfs km fjarlægð frá Austurey III og er jörðin að Austurey I á milli. Mun því fyrirhugað sumarhús hvergi vera í sjónlínu frá landi kæranda.

Ekki sé verið að raska óröskuðu landi. Nú þegar hefur verið framkvæmt á svæðinu, en bæði séu frístundahús staðsett á lóðinni Eyrargötu 7 og jarðhiti hefur verið virkjaður. Fuglavarp á lóðinni að Eyrargötu 9 og umhverfis hana sé í engu ríkara en annars staðar í landi Austureyjar nema síður sé og til að mynda verpi engir andfuglar á lóðinni eða í námunda við hana.

Niðurstaða: Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 teljast jarðirnar að Austurey I og III til frístundasvæðis. Í lýsingu aðalskipulagsins segir m.a. um frístundasvæði að á þeim skuli lóðir að jafnaði vera ½ til 1 ha að stærð og nýtingarhlutfall skuli ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geti frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér skilmálabreytingu heildarsvæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt verði að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús og þá verði lóðin að Eyrargötu 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m². Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulags­áætlana því fullnægt.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 18. september 2019, tilkynnti stofnunin að hún hefði farið yfir framlögð gögn og gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er ekki á B-hluta náttúruminjaskrár, sbr. lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, því bar sveitarfélaginu ekki að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar samkvæmt 68. gr. laganna. Með vísan til alls framangreinds liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinu kærða byggingarleyfi er leyfishafa veitt heimild að byggja 183,7 m² sumarhús á lóðinni Eyrargötu 9 í landi Austureyjar III, en fyrir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu mátti reisa á lóðinni byggingar, samtals 163 m² að stærð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðar­nefndarinnar. Fyrirhugað sumarhús verður í nokkur hundrað metra fjarlægð frá landi kæranda. Verður ekki séð að stækkun heimilaðrar byggingar um 20,7 m² samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda vegna þeirrar fjarlægðar sem er á milli lands hans og fyrirhugaðs húss. Á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti byggingarleyfisins svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

50/2019 Döllugata

Með

Árið 2019, mánudaginn 16. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 50/2019, kæra á umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2019, er barst nefndinni 1. júlí s.á., er kærð umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 11. júlí 2019.

Málavextir: Kærendur sóttu um byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með auka íbúð og innbyggðum bílskúr úr CLT krosslímdum timbureiningum á staðsteyptum grunni á lóð nr. 4 við Döllugötu, Reykjavík. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. mars 2019 þar sem henni var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn frá 3. maí s.á. bókaði skipulagsfulltrúi: „Neikvætt. Samræmist ekki deiliskipulagi, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. maí s.á.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. maí s.á. var málinu frestað með vísan til athugasemda skipulagsfulltrúa. Málinu var aftur frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júní s.á. með vísan til athugasemda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. júlí 2019 var umsókn kærenda samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærendur telja, andstætt niðurstöðu skipulagsfulltrúa, að teikningar standist deiliskipulag. Kærendur hafi skilað inn greinargerð og gögnum sem styðji framangreinda afstöðu kærenda. Engin viðbrögð hafi fengist vegna þeirrar greinargerðar. Hvergi í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í reglugerðir máli skipulagsfulltrúa til stuðnings.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið frestað hjá byggingarfulltrúa með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og annarra athugasemda sem séu við erindið. Því hafi engin stjórnsýsluákvörðun verið tekin um afgreiðslu erindisins. Þar sem ekki sé um lokaákvörðun að ræða beri að vísa málinu frá nefndinni skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þrátt fyrir umsögn skipulagsfulltrúa hefur byggingarfulltrúi samþykkt að veita kærendum byggingarleyfi það er umsögnin snerist um. Hafa kærendur því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um lögmæti umsagnarinnar, sem aukinheldur batt ekki enda á málið eins og áskilið er til að hún verði kærð skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.