Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

42/2019 Strandavegur

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2019, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðar­kaupstaðar frá 13. maí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2019, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi, Hánefsstöðum, Seyðisfirði, þá ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 13. maí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði. Er gerð krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seyðisfjarðarkaupstað 11. september 2019.

Málsatvik og rök: Sjálfseignarstofnunin LungaA-skólinn er eigandi hússins að Strandarvegi 13. Samkvæmt gögnum málsins var húsnæðið áður í eigu Síldarvinnslunnar hf., en félagið færði skólanum það að gjöf árið 2018. Árið 2019 sótti skólinn um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæðinu innanhúss ásamt breytingu á notkun þess í geymslur og vinnustofur fyrir skólann. Með umsókninni fylgdu reyndarteikningar, dags. 30. apríl 2019, ásamt öðrum gögnum. Byggingarleyfis­umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfisnefndar 13. maí 2019 og var hún samþykkt með þeim rökum að notkunin kallaði ekki á aukna viðveru fólks miðað við fyrri notkun hússins. Var byggingarfulltrúa falið að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn lægju fyrir.

Kærandi telur verulegan vafa leika á lögmæti samþykktar umhverfisnefndar bæjarins. Breytingar á notkun hússins sem skólahúsnæðis í stað geymsluhúsnæðis samræmist ekki landnotkun svæðisins samkvæmt aðalskipulagi en þar sé hafnarsvæði. Breytingin sé auk þess hvorki í samræmi við lög né reglugerð um varnir gegn ofanflóðum og teikningar að breytingum á húsinu í skólahúsnæði uppfylli ekki kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012.

Kærandi telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu en hann sé kjörinn bæjarfulltrúi sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 24. gr. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem fjalli um almennar skyldur sveitarstjórnarmanna og sjálfstæði þeirra í starfi. Óhjákvæmilegt sé að fá úr málinu skorið með hliðsjón af þeim stórfelldu almanna- og öryggishagsmunum sem séu undir í málinu, sbr. hættumat vegna ofanflóða fyrir Seyðisfjarðar­kaupstað.

Bæjaryfirvöld benda á að umrætt húsnæði sé skilgreint sem vinnustofur og geymslur en ekki sem skólahúsnæði og að viðvera í húsinu yrði ekki meiri en áður hafi verið. Fjöldi fólks starfi á svæðinu í kring, sem einnig sé skilgreint sem C-svæði hættumats snjóflóða og aurskriða. Mikilvægara sé að efla viðbragðsáætlanir frekar en að hefta nýtingu á húsnæðinu sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls, umfram aðra, og að þeir hagsmunir séu verulegir.

Málsrök kæranda lúta fyrst og fremst að almannahagsmunum en ekki liggur fyrir með hvaða hætti umdeild ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar snertir persónulega lögvarða hagsmuni hans. Kærandi á ekki heimili í nágrenni við þá fasteign sem hin breytta notkun tekur til og getur því ekki átt kæruaðild á grundvelli grenndarhagsmuna. Sú staðreynd að kærandi er starfandi sveitarstjórnarmaður veitir honum ekki að lögum aðild að kærumáli þessu án þess að hann uppfylli áðurnefnt skilyrði um lögvarða hagsmuni.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.