Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2020 Egilsgata

Árið 2020, föstudaginn 24. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2020, kæra á afgreiðslu Borgarbyggðar á beiðni kæranda um afhendingu gagna varðandi útgáfu lokaúttektarvottorðs Egilsgötu 6.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir IKAN ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá afgreiðslu Borgarbyggðar sem kæranda var kynnt með bréfi, dags. 17. janúar 2020, að hafna afhendingu gagna varðandi útgáfu lokaúttektarvottorðs Egilsgötu 6. Er þess krafist að úrskurðað verði að Borgarbyggð beri að afhenda kæranda umbeðin gögn.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 9. apríl 2020.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur ítrekað lagt fram kæru til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði á lóðinni Egilsgötu 6. Á árinu 2018 sótti eigandi Egilsgötu 6 um byggingarleyfi til að breyta umræddu húsnæði og á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2019 var samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gefa út umsótt byggingarleyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda að Egilsgötu 6, en í vottorðinu kom fram að verið væri að klæða og einangra útveggi hússins. Byggingarfulltrúi gaf síðan út byggingarleyfi 2. apríl s.á.

Hinn 12. desember 2019 gaf byggingarfulltrúi út að nýju lokaúttektarvottorð þar sem utanhúss framkvæmdum var þá lokið. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Með bréfi, dags. 14. s.m., óskaði kærandi eftir öllum gögnum varðandi öryggisúttekt og lokaúttekt. Hinn 17. janúar 2020 synjaði sveitarfélagið beiðni kæranda um afhendingu umbeðinna gagna með vísan til þess að um væri að ræða gögn undanþegin upplýsingarétti, sbr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Með úrskurði 20. mars 2020, í kærumáli nr. 129/2019, var kæru kæranda vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs vísað frá úrskurðarnefndinni á þeim grundvelli að kærandi ætti ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að þau gögn og svör sem sveitarfélagið hafi látið kæranda í té til þessa taki ekki af öll tvímæli um að lokaúttekt og öryggisúttekt hafi yfirhöfuð farið fram á íbúðunum að Egilsgötu 6. Það hljóti að vera sveitarfélaginu í hag að afhenda umrædd gögn og sanna með þeim hætti að rétt hafi verið staðið að úttektunum.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kærunni verði vísað frá nefndinni. Kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst nefndinni. Bréf sveitarfélagsins sé dagsett 17. janúar 2020 en kæran sé dagsett 23. febrúar. Því hafi kæran borist nefndinni of seint, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þar komi fram að kærufrestur sé einn mánuður frá því kæranda hafi orðið kunnugt um hina kærða ákvörðun. Þá hafi úrskurðarnefndin í kærumáli nr. 129/2019 komist að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti ekki lögvarða hagsmuni vegna útgáfu lokaúttektarvottorðs á nágrannahúsi og geti því ekki talist aðili málinu í skilningi stjórnsýsluréttar. Með vísan til þess hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá afhent hin umræddu gögn, sem öll tengist lokaúttekt á mannvirki sem ekki sé í eigu kæranda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál varða. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórn­sýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Ljóst er að veiting byggingarleyfis getur snert lögvarða hagsmuna annarra aðila, einkum nágranna, og hefur kæranda verið játuð kæruaðild á þeim grundvelli að málum fyrir úrskurðar­nefndinni vegna slíkra leyfisveitinga fyrir Egilsgötu 6. Aftur á móti hefur útgáfa lokaúttektar­vottorðs á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingastjóra, sbr. 15. og 36. gr. þeirra laga. Hefur kæranda verið hafnað um kæruaðild að máli fyrir úrskurðarnefndinni vegna útgáfu loka­úttektarvottorðs fyrir umþrætt húsnæði, sbr. úrskurður nefndarinnar frá 20. mars 2020 í kærumáli nr. 129/2019. Að sama skapi getur hann ekki talist aðili máls í skilningi 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga þegar kemur að aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er varða útgáfu umrædds lokaúttektarvottorðs. Verður því kröfu kæranda í máli þessu vísað frá vegna skorts á kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.