Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

87/2013 Lambastaðahverfi

Með

Árið 2014, föstudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2013, er barst nefndinni 30. s.m., kæra J og K, Tjarnarbóli 14, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að á lóðinni nr. 1 við Skerjabraut verði einungis heimiluð bygging þriggja hæða húss. Með bréfi, dags. 26. mars 2014, mótteknu sama dag, krefjast sömu aðilar þess að framkvæmdir á lóðinni að Skerjabraut 1-3 verði stöðvaðar með vísan til 5. gr. laga nr. 130/2011. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkæru kærenda.

Gögn í  máli þessu bárust frá Seltjarnarnesbæ 24. janúar 2014.

Málavextir: Vinna við gerð deiliskipulags Lambastaðahverfis hófst á árinu 2008. Hinn 28. apríl 2010 samþykkti bæjarstjórn Seltjarnarness deiliskipulag fyrir hverfið og í nóvember s.á. voru samþykktar breytingar á skipulaginu. Auglýsing um gildistöku þess var þó ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda og í desember 2010 var samþykkt í bæjarstjórn að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi umrædds svæðis. Hinn 22. júní 2011 samþykkti bæjarstjórn nefnt skipulag og tók það gildi í október s.á. Var skipulagið kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vísaði málinu frá hinn 25. október 2012 með vísan til þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kvað á um ógildi skipulagsákvarðana væri auglýsing um gildistöku ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda innan lögboðins frests.

Í kjölfar þess var ákveðið af hálfu sveitarfélagsins að hefja skipulagsferlið að nýju. Var skipulagslýsing vegna svonefndrar endurauglýsingar deiliskipulags Lambastaðahverfis kynnt, m.a. á íbúafundi hinn 10. janúar 2013, og veittur nokkurra daga frestur til að koma að athugasemdum. Í nefndri lýsingu var tekið fram að gert væri ráð fyrir að nýtt deiliskipulag Lambastaðahverfis yrði í samræmi við deiliskipulagstillögu Lambastaðahverfis sem samþykkt var í bæjarstjórn 22. júní 2011, að öðru leyti en því að skipulag fyrir lóðina að Skerjabraut 1-3 yrði í samræmi við tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina, dags. 17. júlí 2012. Þá myndi við gildistöku skipulagsins falla úr gildi deiliskipulag lóðarinnar Skerjabrautar 1-3 sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn árið 2007 og skipulags- og byggingarskilmálar fyrir Hamarsgötu 2, 4 og 6 frá árinu 1973.

Tillaga að deiliskipulagi Lambastaðahverfis var kynnt á íbúafundi hinn 14. febrúar 2013 og á fundi bæjarstjórnar hinn 27. s.m. var samþykkt að auglýsa hana til kynningar og var frestur til athugasemda til 26. apríl 2013. Á þeim tíma bárust 13 bréf og umsagnir með athugasemdum, þ. á m. frá kærendum. Bæjarstjórn tók málið fyrir hinn 12. júní 2013 að undangenginni umfjöllun skipulags- og mannvirkjanefndar 4. s.m. og afgreiddi málið með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn samþykkir samhljóða smávægilega breytingu á deiliskipulagstillögum og tillögur um svör frá skipulags- og mannvirkjanefnd vegna deiliskipulags Lambastaðahverfis. Skipulagsstjóra falið að senda svörin til íbúa og afrit ásamt deiliskipulagstillögu með smávægilegri breytingu til umsagnar Skipulagsstofnunar.“ Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. ágúst 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur andmæla heimild til byggingar fjögurra hæða húss á lóðinni nr. 1-3 við Skerjabraut og telja að með því sé brotið á grenndarrétti þeirra. Húsið muni, vegna nálægðar við fasteign kærenda, skerða útsýni þeirra, hafa áhrif á lífsgæði kærenda og rýra verðmæti fasteignar þeirra. Geri skipulagið ráð fyrir að á milli húsanna að Tjarnarbóli 14 og Skerjabraut 1 verði aðeins 11 m og að veggir þeirra verði samhliða. Samrýmist húsið ekki byggðamynstri á svæðinu en þær fjögurra hæða blokkir sem þar séu fyrir liggi ekki samhliða og skerði útsýni íbúa lítið.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að öllum kröfum kærenda um ógildingu hins kærða deiliskipulags, í heild eða að hluta, verði hafnað. Bent sé á að árið 2007 hafi verið samþykkt í bæjarstjórn deiliskipulag er heimilaði að reisa á lóðinni að Skerjabraut 1-3 fjölbýlishús á allt að fjórum hæðum með meira byggingarmagni og nær húsi kærenda en núverandi deiliskipulag geri ráð fyrir. Séu grenndaráhrif hins nýja deiliskipulags því minni en fyrra skipulags og rýri síst verðmæti íbúðar kærenda miðað við fyrra skipulag sem hafi verið í gildi þegar kærendur hafi keypt íbúð sína á árinu 2011. Þá séu grenndaráhrifin á almennan mælikvarða ekki meiri en íbúar í þéttbýli þurfi almennt að sætta sig við en þeir megi búast við breytingum í samræmi við þróun byggðar og aðstæður allar. Slíkar almennar takmarkanir, sem breytingar á skipulagi hafi í för með sér, s.s. eins og skerðing á útsýni, verði íbúar í þéttbýli að þola bótalaust og sé í því sambandi vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. mars 2012, í máli nr. 478 frá 2011, einkum rökstuðnings héraðsdóms.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. september 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulags Lambastaðahverfis er samþykkt var í bæjarstjórn Seltjarnarness 12. júní 2013 og tók gildi 1. ágúst s.á. Tekur deiliskipulagið til íbúðarsvæðis sem afmarkast af Nesvegi til norðausturs, bæjarmörkum að Reykjavík til austurs og sjó til suðvesturs, og af Skerjabraut til norðvesturs. Í skipulaginu eru byggingarreitir markaðir og tekin afstaða til nýtingarhlutfalls einstakra lóða.

Kæruheimild er að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að taka nýja ákvörðun verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Lýsing á skipulagsverkefni Lambastaðahverfis var kynnt á almennum fundi sem og tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis. Tillagan var auglýst til kynningar og afstaða tekin til athugasemda er bárust við tillöguna og þeim svarað. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að formi til í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Hið umdeilda deiliskipulag tekur til svæðis þar sem er mótuð byggð sem risið hefur á löngum tíma. Er í greinargerð Aðalskipulags Seltjarnarness 2006-2024 m.a. tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir grundvallarbreytingum á yfirbragði eldri hverfa en að þétting byggðar sé talin jákvæð þar sem henta þyki. Á lóðunum við Tjarnarból nr. 2, 4, 6 og 8 sem og 10 og 12 eru fjölbýlishús á 3½-5 hæðum. Kærendur eru eins og fyrr greinir búsettir í fjölbýlishúsinu að Tjarnarbóli 14 sem er á fjórum hæðum og snýr gafl hússins að lóðinni að Skerjabraut 1-3 sem er hornlóð. Með deiliskipulagi fyrir lóðina er tók gildi 2007 var veitt heimild til niðurrifs þáverandi bygginga Skerjabrautar 1 og 3 og var lóðin óbyggð um nokkurt skeið frá því að sú heimild var nýtt. Jafnframt var veitt heimild í deiliskipulaginu frá 2007 til að reisa á lóðinni eitt fjölbýlishús, allt að fjögurra hæða, með nýtingarhlutfalli allt að 1,27. Með hinni umdeildu skipulagsákvörðun er nú heimilað að reisa á umræddri lóð tvö fjölbýlishús, annars vegar tveggja til þriggja hæða hús með kjallara og hins vegar fjögurra hæða hús með inndreginni efstu hæð og kjallara. Hærra húsið er í beinu framhaldi af fjölbýlishúsunum við Tjarnarból en það lægra er við Skerjabrautina þar sem byggð fer lækkandi niður að sjó. Er nýtingarhlutfall lóðar með kjallara 1,05 en án kjallara 0,95. Er ekki annað að sjá en að deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag. Ráða má af framangreindu, sem og af staðsetningu byggingarreita, að hinar kærðu breytingar munu fela í sér óveruleg ef nokkur aukin grenndaráhrif gagnvart kærendum, m.a. hvað varðar útsýni, frá því sem verið hefði að óbreyttu deiliskipulagi. Þá er ekki til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa, en í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er aðeins tekið fram að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið svo ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. Verði hins vegar sýnt fram á að umdeild skipulagsákvörðun valdi kærendum fjártjóni kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 12. júní 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Lambastaðahverfi á Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

127/2012 Bergstaðastræti

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. Þ, Bergstaðastræti 54, í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. október 2012 að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun og útgáfa byggingarleyfis verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun yfirvofandi framkvæmda. Með úrskurði, upp kveðnum 24. maí 2013, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. Er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg hinn 14. maí 2013.

Málavextir: Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og mynda vinkil en standa hvort á sinni lóð. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. júlí 2005 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að setja svalir á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar ásamt samþykki fyrir „áður gerðri stækkun íbúðar 2. hæðar um hluta af 3. hæð og fyrir stiga á milli 2. og 3. hæðar“ fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti. Ódagsett samþykki meðeigenda að Bergstaðastræti 56 fylgdi erindinu ásamt samþykki hluta eigenda að Bergstaðastræti 54. Leyfisumsóknin var grenndarkynnt fyrir íbúum Bergstaðastrætis 53, 54, 55 og íbúum að Laufásvegi 49-51 og bárust nokkrar athugasemdir við áformaðar framkvæmdir. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir í skipulagsráði sem gerði ekki athugasemdir við að byggingarleyfi yrði veitt þegar teikningar hefðu verið lagfærðar og breytingar gerðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og umsögn skipulagsstjóra.

Málið var til umfjöllunar á fundum byggingarfulltrúa á árunum 2005, 2006 og 2011, en á afgreiðslufundi hans 28. ágúst 2012 var erindinu vísað að nýju til skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 31. ágúst s.á. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna m.a. fyrir kæranda. Í kjölfar grenndarkynningarinnar var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 24. október s.á. þar sem fyrir lágu fram komnar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og umsögn skipulagsstjóra, dags. 11. s.m. Skipulagsráð bókaði að ekki væru gerðar athugasemdir við erindið og vísaði því til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti byggingaráformin á fundi sínum hinn 30. október 2012. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 1. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með tilkomu svala þeirra sem hin kærða ákvörðun heimili verði friðhelgi einkalífs og heimilis hans raskað með óásættanlegum hætti og verðmæti fasteignar hans skert. Svalirnar muni skerða útsýni úr stofu kæranda mót suðri og bein sjónlína verði frá þeim í vistarverur hans. Á skorti að lögboðið samþykki eigenda húseignanna að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi legið fyrir, sbr. 2. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Þá eigi umdeildar framkvæmdir sér ekki stoð í skipulagi og hafi reglna nábýlis- og grenndarréttar ekki verið gætt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að meðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið í samræmi við lög og reglur. Ekkert deiliskipulag sé til fyrir umrædda lóð og hafi umsóknin því verið grenndarkynnt í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Við meðferð málsins hafi verið komið til móts við athugasemdir kæranda með því að stytta fyrirhugaðar svalir miðað við upprunaleg áform. Húsin á lóðunum nr. 54 og 56 standi hvort á sinni lóð og séu ekki eitt fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaga. Eigi reglur þeirra laga um samþykki meðeigenda því ekki við í máli þessu. Rétt sé að taka fram að svipaðar svalir og hér um ræði séu á hússins nr. 54 við Bergstaðastræti og því megi ætla að flest þau rök sem kærandi tefli fram gegn umþrættum svölum eigi við um þær svalir. Jafnræðis að þessu leyti hafi verið gætt við umdeilda leyfisveitingu.

Málsrök leyfishafa: Byggingarleyfishafi andmælir kröfum kæranda og bendir á að um sé að ræða þéttbýlasta svæði borgarinnar og sé nánd milli fasteigna því mikil. Kæranda ætti að vera þetta ljóst og taka verði mið af þessum aðstæðum við mat á grenndarsjónarmiðum. Ekki sé fallist á að umdeildar svalir muni rýra verðgildi fasteignar kæranda heldur megi færa rök fyrir því að endurbætur á húsinu að Bergstaðastræti 56 muni virka á hinn veginn. Umdeildar svalir hafi m.a. þann tilgang að uppfylla kröfur um flóttaleiðir vegna bruna og verið sé að færa gamalt hús að nútímakröfum.

———

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Úrskurðarnefndarinnar hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða: Í málinu er einungis deilt um leyfi fyrir svölum á húsinu að Bergstaðastræti 56 en ekki um þær breytingar innanhúss sem í hinu kærða byggingarleyfi felast.

Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og var hið kærða byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndarkynningu svo sem heimilt er í þegar byggðum hverfum þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Húsin að Bergstaðastræti 54 og 56 eru sambyggð og voru þau upprunalega ein húseign samkvæmt aðaluppdrætti frá 30. desember 1927. Húseigninni var síðar skipt í Bergstaðastræti 54 og 56 og samkvæmt aðaluppdrætti fyrir Bergstaðastræti 56 frá 12. maí 1959 var útliti hússins er breytt með því bæta við kvisti. Frá þeim tíma hafa útlitsbreytingar átt sér stað nokkrum sinnum á báðum húseignum án þess að gögn sýni að það hafi sérstaklega verið talið varða sameiginlegt útlit og heildarsvip húseignanna. Þó er áréttað af byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar í byggingarleyfi frá 5. apríl 2011 vegna stækkunar kvists á húsinu að Bergstaðastræti 54 að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Af framangreindu má ætla að húseignirnar að Bergstaðastræti 54 og 56 hafi frá 1959, hið minnsta, viðhaldið sjálfstæðu útliti og heildarsvip, þrátt fyrir að útveggir þess á norðurhlið mætist. Þá liggur fyrir að húsin standa hvort á sinni lóð og að eignaskiptayfirlýsingar hafi verið gerðar fyrir sín hvora húseignina, en fjöleignarhúsalög nr. 26/1994 gera ráð fyrir því að eignaskiptayfirlýsing sé gerð fyrir öll fjöleignarhús og að atbeina allra eða meirihluta eigenda þurfi til þess gernings, sbr. 16. gr. laganna. Með vísan til þessa lítur úrskurðarnefndin svo á að Bergstaðastræti 54 og 56 séu tvö sjálfstæð hús í skilningi áðurnefndra fjöleignarhúsalaga og eigi 30. gr. laganna sem áskilur samþykki meðeigenda því ekki við um hið kærða byggingarleyfi. Ennfremur er það álit úrskurðarnefndarinnar í ljósi alls framangreinds að ákvæði 2. mgr. 3. gr. fjöleignarhúsalaga, þess efnis að ákvæði laganna gildi eftir því sem við geti átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg séu á milli tveggja eða fleiri sjálfstæðra húsa, s.s. útlit og heildarsvip ef því sé að skipta, eigi ekki við. Hafði kærandi því ekki íhlutunarrétt vegna hinnar umdeildu breytingar á grundvelli fjöleignarhúsalaga.

Ljóst er að kærandi hefur grenndarhagsmuna að gæta í málinu. Bakhliðar Bergstaðastrætis 54 og 56 liggja í vinkil til suðvesturs. Með vísan til legu og staðsetningar húsanna, stærð og gerð fyrirhugaðra svala, sem og staðsetningar nærliggjandi húsa, telur úrskurðarnefndin hins vegar að útsýnis- og birtuskerðing verði óveruleg. Hvað varðar friðhelgi einkalífs kæranda bendir úrskurðarnefndin á að staðsetning glugga í báðum byggingum er slík að sjónlína er nú þegar á milli vistarvera. Þá verður að líta til þess að nú þegar eru til staðar svalir á húsinu að Bergstaðastræti 54 þar sem kærandi býr. Tekur úrskurðarnefndin því undir þau jafnræðissjónarmið sem fram hafa komið af hálfu Reykjavíkurborgar. Loks má eðli máls samkvæmt gera ráð fyrir því að eitthvert almennt ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kæranda sem hann hefur haldið fram ekki umfram það sem búast má við. Verður því ekki fallist á að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér slík grenndaráhrif að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 30. október 2012 um að veita leyfi fyrir uppsetningu svala á suðvesturhlið 1., 2. og 3. hæðar fjölbýlishússins á lóð nr. 56 við Bergstaðastræti í Reykjavík. 

__________________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

83/2012 Kópavogsbraut

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 83/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi leyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2012, er barst nefndinni 17. s.m., kæra M og S, Kópavogsbraut 96 í Kópavogi, samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi tvö gróðurhús á lóðinni að Kópavogsbraut 98 í Kópavogi. Hin kærða afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 26. s.m. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfi fyrir húsunum var hins vegar ekki samþykkt af byggingarfulltrúa fyrr en 16. október sama ár. Með hliðsjón af framangreindu, og eins og hér stendur á, þykir verða að líta svo á að kæra þessi lúti að framangreindu byggingarleyfi húsanna enda þótt hún hafi borist fyrir samþykkt þess.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að hluta, þ.e. leyfis fyrir stærra gróðurhúsinu. Jafnframt er gerð krafa um að Kópavogsbæ verði gert að fjarlægja nefnt gróðurhús. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Kópavogsbæ 31. október 2012.

Málavextir: Á fundi byggingarfulltrúa í nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni að Kópavogsbraut 98, öðru 28 m² klæddu plasti og hinu 8 m² klæddu gleri. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu. Í apríl 2012 barst skipulagsnefnd bréf frá lóðarhöfum Kópavogsbrautar 98, ásamt yfirlýsingu frá 22 íbúum 12 húsa við vestanverða Kópavogsbraut, m.a. Kópavogsbrautar 100, er mæltu með því að veitt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu. Hinn 26. apríl s.á. samþykkti skipulagsnefnd að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum að Kópavogsbraut 96 og 100. Með bréfi kærenda til skipulagsnefndar, dagsettu 5. júní 2012, lögðust þeir gegn því að samþykkt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu, en ekki fyrir því minna. Þá var bent á að húsin hefðu verið reist í óleyfi og að Kópavogsbæ bæri skylda til að fjarlægja stærra húsið.

Skipulagsnefnd tók erindið fyrir að nýju hinn 17. júlí 2012, ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsettri 27. júní s.á. Var erindið samþykkt og því vísað til bæjarráðs, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 26. júlí s.á. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með bréfi kærenda til Kópavogsbæjar, dagsettu 15. ágúst s.á., var greindri afgreiðslu mótmælt og farið fram á frekari rökstuðning. Ítarlegri rökstuðningur var lagður fram á fundi skipulagsnefndar hinn 18. september s.á. Var rökstuðningurinn samþykktur á þeim fundi, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 25. s.m. Byggingarfulltrúi tók umsókn um byggingarleyfi gróðurhúsanna fyrir á ný hinn 16. október 2012. Var umsóknin samþykkt og talin samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010. Bæjarráð samþykkti fundargerð byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. og bæjarstjórn hinn 23. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hið umdeilda gróðurhús sé allt of stórt til að geta talist gróðurhús til tómstundanota á lóð í miðju íbúðarhverfi. Útlit þess og stærð geri það verkum að helst líti út fyrir að gróðurhúsið hýsi einhvers konar iðnaðar- eða landbúnaðarstarfsemi. Húsið sé lýti á götumynd Kópavogsbrautar, einkum á árstíma er tré séu lítt eða ekki laufguð. Blasi byggingin við úr stofuglugga húss kærenda og sé af henni mikil sjónmengun.

Umrædd bygging hafi verið reist í tíð laga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og hafi lóðarhafar við bygginguna farið gegn ákvæðum 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðarinnar. Séu tilvitnuð ákvæði að megininntaki samhljóða gr. 2.3.1. og gr. 2.3.2. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett hafi verið með stoð í mannvirkjalögum nr. 160/2010 og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 75/2000, sem og 1. og 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Í ljósi ofangreindra lagaraka, og með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, sé það skylda Kópavogsbæjar að sjá til þess að byggingin verði fjarlægð sem fyrst.   

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Um formlega og efnislega rétta ákvörðun sé að ræða.

Skírskotað sé til þess að skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu en ódeiliskipulögðu hverfi og hafi svo verið gert hér. Skuli við mat á því hvort veita skuli byggingarleyfi einkum líta til fyrrnefndra þátta og verði þær framkvæmdir sem séu í meginatriðum í samræmi við þá þætti að teljast óverulegar. Í því sambandi þurfi að líta til þess hvort og að hvaða marki sé um að ræða skerðingu á hagsmunum kærenda.

Hagsmunir kærenda sé í engu skertir hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Eingöngu hafi verið bent á að út frá fagurfræðilegu sjónarmiði kunni hagsmunir kærenda að vera skertir, þ.e. að um sjónmengun sé að ræða. Hvort þannig hátti til sé matskennt og við slíkt mat verði m.a. að líta til sjónarmiða annarra lóðarhafa og þeirra sem eigi lögvarða hagsmuni og hafi látið málið til sín taka. Fjölmargir íbúar hafi lýst sig samþykka byggingarleyfi fyrir gróðurhúsinu. Þá standi það í töluverði fjarlægð frá lóðamörkum og á laufgunartíma trjágróðurs sé húsið ekki sýnilegt kærendum.

Almennt sé viðurkennt að grenndarsjónarmið vegi þungt við mat á því hvort breyta skuli deiliskipulagi eða samþykkja byggingarleyfi í hverfum sem ekki hafi verið deiliskipulögð. Það hafi verið mat skipulagsnefndar og byggingarfulltrúa að taka bæri undir sjónarmið nágranna um grenndaráhrif og að tilvist hússins hefði engin neikvæð heldur einungis mjög jákvæð grenndaráhrif. Komi fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar að umrætt gróðurhús sé í 28 m fjarlægð frá stofuglugga húss kærenda, það hafi ekki áhrif á götumynd, ekki sé um varanlega byggingu að ræða, það sé snyrtilegt og því sé vel við haldið. Þá hafi gróðurhúsið í afar litlum mæli áhrif á landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og um eðlilega og hóflega nýtingu á lóðinni sé að ræða.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafar vekja athygli á því að hið umdeilda gróðurhús hafi verið á lóðinni í rúmlega ár án þess að komið hafi verið á framfæri athugasemdum vegna þess.

Nauðsynlegt sé að setja stærðarhlutföll í samhengi. Lóð leyfishafa sé 950 m². Íbúðarhús og bílskúr séu um 170 m² og nýtingarhlutfall 0,17. Ef bætt sé við léttbyggingum á lóðinni, gróðurhúsum og geymsluskúr sem séu samtals 41 m², verði nýtingarhlutfall 0,22. Miðað við lóðir í nýrri byggingarhverfum Kópavogs sé það mjög lágt.

Álit kærenda á stærð, útliti og notagildi gróðurhúsanna sé huglægt mat og styðjist ekki við lög og reglugerðir. Vísað sé til yfirlýsingar annarra íbúa í næsta nágrenni. Segi þar m.a. að gróðurhúsið sé einstaklega snyrtilegt og vel staðsett á lóðinni. Húsið og garður leyfishafa sé til sóma fyrir hverfið og ræktunarstarf til fyrirmyndar. Margir þessara nágranna búi nær gróðurhúsinu og í mun beinni sjónlínu við það en kærendur. 

Ofmælt sé að tala um að gróðurhúsið blasi við út um stofuglugga á heimili kærenda og að af því sé sjónmengun. Húsið sjáist en það skyggi ekki á útsýni. Ekki verði séð að það valdi nokkru óhagræði fyrir kærendur, enda langt frá stofugluggum þeirra, og um 15 m séu frá mörkum lóðar þeirra að gróðurhúsinu. Þar að auki sé mikill og fallegur gróður í garði leyfishafa sem skýli húsinu að verulegu leyti. Krafa um niðurrif gróðurhússins virðist sett fram í þeim eina tilgangi að valda leyfishöfum fjárhagslegu tjóni og leiðindum. Spurt sé hvaða lögmætu hagsmunir geti legið að baki nefndri kröfu.
 
——-

Færð hafa verið fram frekari rök í málinu og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.
 
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi leyfis fyrir 28 m² gróðurhúsi á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut. Lóðin er í grónu hverfi í Kópavogi sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis og er unnt að veita byggingarleyfi, að undangenginni grenndarkynningu, í þegar byggðum hverfum þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það er þó gert að skilyrði að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 44. gr.

Í hinu kærða tilviki er um að ræða gróðurhús á íbúðarhúsalóð sem telja verður að samræmist landnotkun svæðisins. Umrætt gróðurhús er klætt plasti og er hæð þess 2,42 m þar sem það er hæst. Það er staðsett á vesturhluta lóðarinnar, um 15 m frá mörkum lóðar kærenda. Eru lóðir kærenda og leyfishafa nokkuð stórar og er þar töluverður gróður. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Kópavogsbraut 98 sé 0,19 en verði eftir samþykkta breytingu 0,23. Sé litið til upplýsinga úr fasteignaskrá Þjóðskrár er nýtingarhlutfall Kópavogsbrautar 98 sambærilegt því sem er á næstu lóðum. Þannig er nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,18, nýtingarhlutfall er 0,20 á lóðinni nr. 100 og 0,22 á lóðinni nr. 102 við Kópavogsbraut. Úrskurðarnefndin fellst á að hið umdeilda gróðurhús sé nokkuð stórt og geti af þeim sökum haft einhver grenndaráhrif en telur þó í ljósi fyrrgreindra staðhátta að það raski ekki með slíkum hætti grenndarhagsmunum kærenda að ógildingu varði. Þá skal tekið fram að þrátt fyrir stærð og staðsetningu gróðurhússins hefur Kópavogsbær metið það svo að það falli að byggðamynstri svæðisins og m.a. vísað til þess í rökstuðningi til kærenda að hefðbundin gróðurhús, klædd plastdúk eða gleri, séu algeng í eldri hverfum bæjarins, enda sé ræktun grænmetis og blóma gömul hefð á Kársnesi í anda sjálfbærni, sem mikils sé metin í bæjarfélaginu. Eins og hér stendur á eru ekki efni til endurskoðunar á því mati sveitarfélagsins.

Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem aðrar ástæður liggja ekki fyrir í máli þessu er leitt geta til ógildingar, er kröfu kærenda hafnað.

Kærendur vísa máli sínu til stuðnings m.a. til ákvæða 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar er meðal annars kveðið á um að óheimilt sé að reisa hús nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Eins og að framan greinir hefur Kópavogsbær nú samþykkt byggingarleyfi fyrir téðum gróðurhúsum. Kemur því af þeim sökum ekki til álita að beita áðurnefndu lagaákvæði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis frá 16. október 2012 fyrir 28 m² gróðurhúsi klæddu plasti á lóðinni Kópavogsbraut 98 í Kópavogi.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

117/2012 Steinhella Hafnarfirði

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 12. september 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 1. áfanga, er fól í sér stækkun lóðar og byggingarreits að Steinhellu 10, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2012, er barst nefndinni 6. nóvember s.á., kæra þrír eigendur fasteignarinnar að Steinhellu 14, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 12. september 2012 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 1. áfanga, fyrir lóðina nr. 10 við Steinhellu. Tók ákvörðunin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 16. október 2012. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2012, er barst nefndinni 9. s.m., kæra eigendur fasteignarinnar að Steinhellu 12, Hafnarfirði, sömu deiliskipulagsákvörðun með kröfu um ógildingu hennar.  Verður það kærumál, sem er nr. 120/2012, sameinað máli þessu enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Hafnarfjarðarbæ í nóvember 2012.

Málavextir: Deiliskipulag Hellnahrauns, 1. áfangi, tekur m.a. til lóðarinnar nr. 10 við Steinhellu. Liggur lóðin austan, og samhliða að nokkru, við lóðir nr. 12 og 14 við Steinhellu og er aðkoma að lóðinni milli þeirra lóða. Í maí 2012 var í kjölfar beiðni um stækkun lóðarinnar Steinhellu 10 samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar að heimila Advania hf. að vinna breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina í samvinnu við skipulags- og byggingarsvið bæjarins. Hinn 26. júní s.á. var á fundi skipulags- og byggingarráðs lögð fram frumtillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar. Samþykkti ráðið að lokið yrði við gerð deiliskipulags og það auglýst til kynningar. Var fundargerð skipulags- og byggingarráðs kynnt á fundi bæjarstjórnar 27. s.m. Fól auglýst tillaga í sér að lóðin að Steinhellu 10 yrði stækkuð, sem og byggingarreitur lóðarinnar, og heimilað nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,5 í 0,6. Gert var ráð fyrir kvöð um aðkomu að lóðinni milli lóða nr. 12 og 14 við Steinhellu héldist óbreytt.

Andmæli bárust gegn tillögunni á kynningartíma. Tók skipulags- og byggingarsvið athugasemdirnar til skoðunar og lagði til að byggingarreitur yrði styttur um 12,5 m á vesturhlið og að kvöð um aðkomu yrði lagfærð til samræmis við ákvæði lóðarleigusamnings. Hinn 4. september 2012 var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarráðs. Var fært til bókar að tekið væri undir svör skipulags- og byggingarsviðs við fram komnum athugasemdum, deiliskipulagið væri samþykkt og að afgreiðslu þess yrði lokið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Enn fremur var lögð fram tillaga til bæjarstjórnar um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar og að afgreiðslu yrði lokið í samræmi við fyrrgreint lagaákvæði. Samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi hinn 12. september 2012, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur að Steinhellu 14 benda á að lóð þeirra sé í útjaðri svæðisins. Gert hafi verið ráð fyrir því í deiliskipulagi að um „andlitslóð“ væri að ræða með þeim sýnileika sem því fylgi. Blasi húsið að Steinhellu 14 við á meira en 1½ km kafla áður en ekið sé fram hjá húsinu um Reykjanesbraut til suðurs frá Hafnarfirði. Staðsetning og sýnileiki Steinhellu 14, gagnvart bæði Reykjanesbraut og Krísuvíkurvegi, skipti sköpum og sé afar mikils virði sem tapist við breytinguna. Samþykkt breyting feli í sér ófyrirséða og afar mikla stækkun á húsi Steinhellu 10. Með henni muni umhverfi lóðar og ásýnd Steinhellu 14 gerbreytast. Lóðin verði ekki lengur sýnileg heldur hverfi á bak við heimilaða nýbyggingu. Er kærendur hafi fest kaup á fasteign sinni hafi verið gert ráð fyrir að húsið og nágrenni þess yrði óbreytt en markmið með fjárfestingunni hafi verið að ná til viðskiptavina. Kippi breytingin fótum undan þeim fyrirætlunum sem til grundvallar hafi legið við kaupin. Séu áætlanir og fjárfestingar kærenda settar í uppnám og erfitt sé að hætta við á þessum tímapunkti.

Aðkoma að húsinu að Steinhellu 10 sé í miklum ólestri. Muni stækkun hússins auka þann vanda verulega. Aka þurfi milli hússins og húss kærenda til að komast að aðalinngangi og vörumóttöku Steinhellu 10. Samkvæmt samþykktri teikningu fyrir Steinhellu 14 séu bílastæði hússins þannig staðsett að þau hindri þessa aðkomu og ógerlegt sé að komast að Steinhellu 10 þegar lagt sé í bílastæðin. Frá bílastæðunum að girðingu Steinhellu 10 séu þá eftir 3 m fyrir alla umferð, þ. á m. flutningabíla með 40 feta gáma. Sé aðkoma og aðgangur að Steinhellu 14 verulega hindraður af núverandi rétti til aðkomu að Steinhellu 10. Loks sé bent á að útsýni til norðausturs muni skerðast að fullu. Leiði það til verðrýrnunar fasteignar kærenda og dragi úr möguleikum á sölu og nýtingu eignarhluta hússins, svo sem til útleigu.

Kærendur að Steinhellu 12 telja að við breytinguna skerðist eignarréttindi þeirra verulega, en þau séu varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi um fasteignina Steinhellu 12 hvíli kvöð á lóðinni um gegnumakstur um norðurhluta hennar. Aðrar kvaðir en þær sem fram komi í lóðarleigusamningi hvíli ekki á eigninni. Í tillögu um breytt deiliskipulag sé þetta nefnt kvöð um aðkomu. Muni aukið byggingarmagn á lóð Steinhellu 10 þýða aukna bílaumferð og aukið slit á lóð kærenda. Í ljósi þeirrar kvaðar er hvíli á eigninni hafi það verulega þýðingu fyrir kærendur að verið sé að tvöfalda byggingarmagn á umræddri lóð. Hafnarfjarðarbær geti ekki einhliða breytt inntaki þinglýstra kvaða til hagsbóta fyrir eigendur Steinhellu 10 en á kostnað kærenda. Samþykkis kærenda sé þörf sé heimiluð aukin umferð á lóð þeirra. Vísi kærendur til sjónarmiða í dómi Hæstaréttar nr. 118/2009 í því sambandi. Hafi bæjaryfirvöld við meðferð málsins ekki svarað þessari megin athugasemd kærenda.

Kvöð um gegnumakstur feli í sér að heimilt sé að aka gegnum lóðina en með kvöð um aðkomu sé umfang þeirrar kvaðar aukið. Mikill munur sé hér á. Kvöð um gegnumakstur sé ekki beint sérstaklega til lóðar nr. 10 við Steinhellu. Með kvöð um aðkomu að lóðinni, í gegnum lóðir kærenda nr. 12 og 14, sé með beinum hætti verið að skerða réttindi þeirra til hagsbóta fyrir lóðarhafa Steinhellu 10. Sé verið að festa greinda aðkomu í sessi um ókomna tíð.

Jafnframt hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Unnt væri að hafa aðkomu að lóðinni að Steinhellu 10 um Krísuvíkurveg og væri þá ekki með sama hætti gengið á eignarrétt kærenda.

Þá sé bent á að þrátt fyrir að fáir starfi í húsinu að Steinhellu 10 í dag veiti það enga tryggingu fyrir því að umferð um lóð kærenda, og þar með umfang kvaðarinnar, verði til framtíðar það sama. Engin trygging sé fyrir því að ætíð verði gagnaver í húsinu heldur gæti þar komið starfsemi með fjölda starfsmanna. Séu sjónarmið þau sem Hafnarfjarðarbær byggi á ólögmæt og ómálefnaleg og til þess fallin að valda kærendum tjóni. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, í máli nr. 41/2010, en það mál sé algjörlega sambærilegt máli kærenda. Verið sé að leggja nýja og umfangsmeiri kvöð á lóð kærenda án þess að fyrir liggi samningur eða eignarnám og engu svarað um þátttöku eiganda Steinhellu 10 í viðhaldi lóðarhlutanna sem kvöðin liggi um.

Samkvæmt gildandi skipulagi og breytingartillögu sé gert ráð fyrir aðkomu að lóðinni Steinhellu 10 við enda ræmu á milli lóða nr. 12 og 14. Aðgengið sé þannig í dag að lóðarhafi hafi girt af lóð nr. 10. Hlið inn á þá lóð sé 10 m norðar inn á lóð nr. 14 og sé alltaf læst. Af þeim sökum keyri starfsmenn og gestir Steinhellu 10 ekki um hliðið heldur sé ekið eftir endilangri lóð nr. 14 inn á ómalbikað bílastæði við norðurenda lóðarinnar nr. 10.

Loks sé bent á að samkvæmt lóðarleigusamningi sé umrædd lóð á svæði sem ætlað sé undir léttan iðnað og atvinnustarfsemi sem ekki hafi mengandi áhrif á umhverfi sitt. Ekki verði séð hvernig umrædd breyting samræmist þessu. Gagnaver sem starfrækt sé að Steinhellu 10 hafi nú þegar í för með sér verulega hljóðmengun sem sé langt yfir lögbundnum mörkum. Stafi sú hljóðmengun frá loftræstikerfi hússins og að viðbúið sé að hljóðmengun muni a.m.k. tvöfaldast við stækkun þess.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Hafnarfjarðarbær skírskotar til þess að komið hafi verið til móts við athugasemdir með því að minnka byggingarreit og lagfæra kvöð um gegnumakstur í samræmi við þinglýst skjöl.

Bent sé á, vegna málsraka eigenda Steinhellu 14, að sýnileiki Steinhellu 14 verði óbreyttur úr norðri að Reykjanesbrautinni. Sýnileiki frá austri muni skerðast. Á núgildandi deiliskipulagsuppdrætti nái byggingarreitur Steinhellu 10 talsvert lengra til norðurs en núverandi bygging. Stækkun byggingarreits sé 24-26% á skipulagstillögu.

Lóðir nr. 10, 12 og 14 við Steinhellu hafi sameiginlega aðkomu. Kvöð sé um gegnumakstur á lóð nr. 14 samkvæmt lóðarleigusamningi. Skipulag bílastæða innan lóðar nr. 14 skuli leyst óháð aðliggjandi lóðum og samkvæmt afstöðumynd sé gert ráð fyrir bílastæðum umhverfis húsið. Við austurhlið húss séu 5,0 m löng bílastæði og 11,5 m í lóðamörk. Eigi því að vera nægilegt pláss til að bakka úr bílastæði innan lóðar. Bílastæði við Steinhellu 10 skuli vera innan lóðarinnar og aðkoma að henni með óbreyttri kvöð gegnum lóðir nr. 12 og 14.

Gagnaver falli undir skilgreinda landnotkun svæðisins. Ekki hafi verið lögð áhersla á gott útsýni á iðnaðarsvæðum. Útlit Steinhellu 14 leggi ekki áherslu á útsýni í norður eða norðaustur. Þar séu innkeyrsludyr á jarðhæð og litlir gluggar á efri hæð og gafli. Hönnun byggingar skuli uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um hljóðvist, sbr. gr. 11.1.3. Hávaði vegna t.d. nauðsynlegrar kælingar á tölvubúnaði muni því ekki fara yfir leyfileg mörk. Loks sé skírskotað til þess að tenging frá Krísuvíkurvegi inn á lóð Steinhellu 10 sé ekki æskileg þar sem vegurinn sé stofnbraut og beinar tengingar við hann ekki leyfilegar.

———–

Lóðarhafa Steinhellu 10 var veitt færi á að tjá sig um úrlausnarefni máls þessa en sjónarmið hans hafa ekki borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar Steinhellu 10 fer úr 0,5 í 0,6. Lóðin stækkar um 2.107 m², þ.e. úr 6.319 m² í 8.426 m². Við þessar breytingar eykst heimilað byggingarmagn á lóðinni úr 3.160 m² í 5.056 m², eða um 1.896 m². Byggingarreitur lóðarinnar stækkar um 1.090 m², þ.e. úr 3.446 m² í 4.536 m², en byggingarreitur sá er fyrir var á Steinhellu 10 er ekki fullnýttur í dag. Aðkoma að lóðinni er um lóðamörk Steinhellu 12 og 14 í skjóli umferðarkvaðar sem stoð á í lóðarleigusamningum fyrir nefndar lóðir frá árinu 2006. Þessi umferðarkvöð var sýnd á skipulagsuppdrætti fyrir umdeilda skipulagsbreytingu.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga og heyrir það undir sveitarstjórn að samþykkja deiliskipulag endanlega, sbr. 40. til 42. gr. laganna, og gildir hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. laganna. Við töku skipulagsákvarðana ber m.a. að hafa í huga markmið þau sem tíunduð eru í a-c lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að við þróun byggðar sé tekið mið af efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum landsmanna, að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og tryggja að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Fallast má á að umdeild skipulagsbreyting geti haft nokkur grenndaráhrif gagnvart kærendum og þá einkum gagnvart kærendum að Steinhellu 14 vegna stækkunar byggingarreits á móts við lóð þeirra. Að fullnýttum byggingarreit mun sú stækkun takmarka sýn úr norðaustri að Steinhellu 14 frá umferðaræðum umfram það sem verið hefði að óbreyttu skipulagi. Hins ber þó að gæta að full nýting byggingarreits að óbreyttu skipulagi myndi vega þar þyngra en sú stækkun sem hin kærða ákvörðun heimilar. Auknu byggingarmagni að Steinhellu 10 fylgir væntanlega aukin umferð en með hliðsjón af gildandi landnotkun svæðisins verður ekki talið að sú aukning verði stórfelld. Þá verður ekki af gögnum málsins ráðið að staðsetning aðkomu að Steinhellu 10 hafi verið breytt með hinni umdeildu skipulagsbreytingu og fyrrgreind umferðarkvöð því óbreytt hvað það varðar. Aukning nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Steinhellu 10 í 0,6 er töluverð en þykir þó ekki óhófleg með hliðsjón af því sem algengt er á atvinnulóðum. Meðal annars eru dæmi um slíkt nýtingarhlutfall fyrir aðrar lóðir á skipulagssvæðinu.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki raska lögvörðum hagsmunum kærenda með þeim hætti að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verði hins vegar sýnt fram á að umdeild skipulagsákvörðun valdi verðrýrnun á eign kærenda kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 12. september 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hellnahrauns, 1. áfanga, fyrir lóðina nr. 10 við Steinhellu í Hafnarfirði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

10/2013 Vogafjós Skútustaðahreppi

Með

Árið 2013, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður,  Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá  10. janúar 2013 um að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. febrúar 2013, kærir H, Hólmum í Mývatnssveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til nefndarinnar, mótteknu sama dag, kærir Þ, og B í Mývatnssveit, einnig áðurgreinda ákvörðun, en engin rök hafa borist af hans hálfu fyrir kærunni. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Skútustaðahreppi hinn 15. mars 2013. 

Málavextir:  Hinn 8. október 2012 var sótt um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Vogafjós, þ.e. stækkun á núverandi byggingu Vogafjóss um 8 m til vesturs. 

Á fundi sínum 15. október 2012 samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd Skútustaðahrepps að leggja til við sveitarstjórn að þar sem ekkert deiliskipulag lægi fyrir af svæðinu yrði erindið grenndarkynnt fyrir nágrönnum og öðrum hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Samþykkti sveitarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 25. s.m.  Var erindið grenndarkynnt frá 30. október til 27. nóvember s.á. 

Athugasemdir bárust frá þremur aðilum, m.a. frá kærendum.  Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um athugasemdirnar á fundi sínum 17. desember 2012 og bókaði svör við þeim.  Lagði nefndin til við sveitarstjórn að fallist yrði á fyrirhugaðar framkvæmdir enda væru þær fyrst og fremst ætlaðar til að uppfylla starfsleyfisskyld skilyrði sem gerð væru til reksturs veitingahúsa.  Nefndin setti þó fram tiltekin skilyrði, þ.e. að skipulagsfulltrúa yrði falið að ræða við eigendur Vogafjóss um hvernig koma mætti til móts við sjónarmið nefndarinnar, sem fram kæmu í svörum við athugasemdum, að engar frekari byggingarframkvæmdir yrðu leyfðar í Vogum nema fyrir lægi samþykkt deiliskipulag og að Umhverfisstofnun féllist á fyrirhugaðar framkvæmdir, sbr. lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 10. janúar 2013 var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar, um heimild til viðbyggingar við Vogafjós, samþykkt.  Varðandi áðurgreind skilyrði áréttaði sveitarstjórn að gera yrði greinarmun á umferð landbúnaðartækja við fjósið vegna búrekstrarins og umferð vinnuvéla á framkvæmdatíma byggingarinnar.  Staðsetning rúllustæðu við fjósið yrði ekki talin efnisleg athugasemd við grenndarkynninguna og hafi átt að vísa henni frá á þeim forsendum.  Þá hafi sveitarstjórn ekki borist svar Umhverfisstofnunar um framkvæmdina. 

Skútustaðahreppi barst bréf frá Umhverfisstofnun hinn 11. janúar 2013 þar sem fram kom að stofnunin gerði ekki athugasemdir við breytingu hússins þar sem um væri að ræða óverulega stækkun á þeim mannvirkjum sem fyrir væru.  Þá voru þeim sem komið höfðu að athugasemdum við grenndarkynninguna send bréf 15. janúar s.á. þar sem athugasemdum var svarað og greint frá afgreiðslu sveitarstjórnar á málinu. 

Málsrök kæranda:  Kærandi kveðst hafa verið mótfallin byggingu umrædds fjóss frá upphafi.  Síðar hafi verið bætt við veitingastað og honum veitt vínveitingaleyfi og loks hafi veitingaaðstaðan verið stækkuð.  Eigi nú enn að bæta við og gangi sögur um að næst eigi að gera húsið að hóteli.  Þeim vinnubrögðum, að veita leyfi fyrir litlu og bæta svo ítrekað við með þeim rökum að það þurfi að bæta þjónustuna og styrkja reksturinn, sé mótmælt. 

Ólykt berist frá fjósinu.  Mest beri á henni í suðlægum áttum, en þá sé veður jafnan hvað best til útivistar.  Lyktin berist yfir hús kæranda og inn í það, þegar gluggar séu opnir, og valdi kæranda og gestum hans óþægindum.  Í fjósinu séu viftur sem dæli út fjósaloftinu til að draga úr lykt innandyra og komi það niður á kæranda.  Vogafjós sé skammt frá húsi kæranda og fylgi atvinnurekstrinum þar hávaði af umferð bíla og vinnuvéla, oft frá morgni og langt fram á kvöld.  Þá myndi heyrúllur þar virkisvegg og sé það ekkert augnayndi.  Útsýni kæranda frá húsi sínu til Bláfjalls, sem sé ein aðalperla Mývatnssveitar, hverfi endanlega með hinni fyrirhuguðu viðbyggingu.  Þá telji kærandi að verðgildi fasteignar hans rýrni eftir því sem umfang Vogafjóss aukist. 

Kærandi geri athugasemd við að grafið hafi verið fyrir viðbyggingunni haustið 2012.  Framkvæmdaaðilar telji greinilega fullvíst að framkvæmdin verði heimiluð og sé byggingarefni komið á staðinn.  Aldrei hafi verið rætt við kæranda um fyrirhugaða stækkun Vogafjóss, hvorki af hálfu framkvæmdaaðila né byggingarfulltrúa. 

Málsrök Skútustaðahrepps:  Það sé mat skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar að umrædd viðbygging sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi.  Með hliðsjón af því og að ekki hafi verið fyrir hendi deiliskipulag á svæðinu hafi þótt rétt að grenndarkynna tillöguna fyrir nágrönnum, þ.e. öllum eigendum fasteigna með fasta búsetu vatnsmegin vegar í Vogum. 

Stækkun Vogafjóss sé eingöngu ætluð til að auka og bæta vinnuaðstöðu í veitingasölu en ekki til stækkunar á veitingasal eða fjölgunar gesta.  Vakin sé athygli á því að kærandi hafi undirritað yfirlýsingu, dags. 3. september 2008, og hafi þar ekki gert neinar athugasemdir við stækkun Vogafjóss, sem þá hafi verið fyrirhuguð.  Engar hugmyndir um hótel á staðnum hafi verið kynntar sveitarfélaginu.  Þá sé bent á samþykkt sveitarstjórnar um að frekari framkvæmdir í Vogum skuli háðar því að fyrir liggi samþykkt deiliskipulag.  Vakin sé athygli á því að stækkunin miði einungis að því að bæta vinnuaðstöðu í veitingasölu. Stækkunin muni ekki hafa áhrif á ólykt frá fjósinu, og á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 17. desember 2012 hafi verið bókað að nefndin myndi gera þær kröfur til eigenda Vogafjóss að umferð véla og tækja utan venjulegs dagvinnutíma yrði haldið í algjöru lágmarki og einungis leyfð í undantekningartilfellum.  Jafnframt yrði farið fram á að heyrúllum yrði fundinn staður sem nágrannar gætu sætt sig við. 

Athugasemd kæranda varðandi skerðingu á útsýni sé talin réttmæt en ekki hafi verið sýnt fram á með neinum rökum að verðgildi húss kæranda muni minnka við stækkun Vogafjóss. 

Framkvæmdaaðila hefði verið gerð grein fyrir því að engar framkvæmdir yrðu heimilaðar fyrr en skilyrði til útgáfu byggingarleyfis hefðu verið uppfyllt.  Að hans sögn hefði verið farið í jarðvegsskipti, sem þurft hefði að ráðast í hvort sem af viðbyggingunni yrði eða ekki. 

Bent sé á að grenndarkynning sé hin lögboðna leið til að kynna fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir.  Í grenndarkynningarbréfi sem sent hafi verið viðkomandi aðilum hafi verið tekið fram að skipulagsfulltrúi gæfi nánari upplýsingar ef eftir þeim yrði leitað.  Það sé ekki hlutverk skipulagsfulltrúa að hafa frumkvæði að frekari kynningum nema eftir því sé leitað sérstaklega. 
_____

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 um að veita leyfi til að reisa viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og var erindi byggingarleyfishafa grenndarkynnt með vísan til 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var Aðalskipulag Skútustaðahrepps 1996-2015 í gildi.  Samkvæmt því er jörðin Vogar 1 skilgreind sem landbúnaðarsvæði/heimalönd.  Í greinargerð skipulagsins segir m.a. varðandi framtíðarbyggð í Vogum að áhersla sé lögð á að halda svæðinu vatnsmegin við þjóðveginn óbreyttu hvað landnýtingu varði.  Þá sé ekki gert ráð fyrir nýbyggingum af neinu tagi þeim megin vegar öðrum en byggingum vegna landbúnaðar.  Umdeild viðbygging er ætluð undir aðstöðu starfsfólks við þá starfsemi sem þegar er rekin á umræddri jörð og tengist m.a. þjónustu við ferðamenn.  Sú starfsemi og húsakostur er henni fylgir var heimiluð á sínum tíma og sæta ákvarðanir þar að lútandi ekki endurskoðun í máli þessu.  Telja verður, eins og hér stendur sérstaklega á, að viðbyggingin sem ætluð er fyrir starfsfólk búsins fari ekki í bága við gr. 4.14.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem í gildi var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, þar sem kveðið er á um að á landbúnaðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni. 

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi.  Samkvæmt III. hluta 1. kafla greinargerðar þágildandi Aðalskipulags Skútustaðahrepps 1996-2015 er svæðið Vogar skilgreint sem þéttbýliskjarni.  Umfang og staðsetning hinnar umdeildu byggingar verður ekki talin fela í sér breytingu á þéttleika byggðar eða byggðamynstri í skilningi áðurnefnds ákvæðis.  Eins og atvikum er háttað var því heimilt að afgreiða umsókn um hið kærða byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu. 

Umrædd bygging er rúmlega 116 m2 að flatarmáli, á einni hæð.  Vegghæð er 2,60 m og hæsta mænishæð 4,53 m og stendur byggingin í töluverðri fjarlægð frá næstu húsum.  Þótt byggingin hljóti eðli máls samkvæmt að hafa einhver grenndaráhrif, svo sem skerðingu á útsýni, verða þau áhrif ekki slík að valdið geti ógildingu hins kærða byggingarleyfis. 

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leiða eigi til ógildingar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 10. janúar 2013 um að heimila viðbyggingu við Vogafjós á jörðinni Vogum 1 í Mývatnssveit. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

________________________________              ________________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

70/2012 Vesturvallareitur Reykjavík

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2012, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. apríl 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Vesturvallareit í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ástríður Gísladóttir hrl., f.h. H, Vesturvallagötu 2, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. apríl 2012 að samþykkja deiliskipulag Vesturvallareits.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að ákvörðunin verði felld úr gildi að því leyti sem hún brjóti gegn hagsmunum og réttindum kæranda.  Jafnframt er gerð krafa um að lagt verði fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík að lagfæra skipulagið hvað það varði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 11. september 2012.

Málavextir:  Hinn 13. apríl 2011 var á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur lögð fram lýsing skipulags- og byggingarsviðs á skipulagsverkefni fyrir Vesturvallareit, sem og húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur fyrir reitinn.  Markast reiturinn, sem hefur staðgreininúmer 1.134.5, af Vesturvallagötu, Sólvallagötu, Framnesvegi og Holtsgötu.  Í greindri lýsingu er m.a. tiltekið að megintilefni skipulagsvinnunnar hafi verið það að skipulagsráð hafi samþykkt á árinu 2009 að hefja undirbúning að skipulagsvinnu á reitnum í kjölfar umsóknar sem borist hafði Reykjavíkurborg um leyfi til að reisa viðbyggingu við hús á lóð nr. 4 við Vesturvallagötu.  Var á fundi skipulagsráðs fært til bókar að lýsingin væri samþykkt til kynningar og umsagnar, m.a. Skipulagsstofnunar, og málinu vísað til borgarráðs.  Hús kæranda, sem er einlyft með kjallara og risi stendur á næstu lóð við hliðina, þ.e. að Vesturvallagötu 2.

Með bréfi skipulags- og byggingarsviðs, dags. 20. apríl 2011, var hagsmunaaðilum send lýsing Vesturvallareits og þeim veitt færi á að koma að athugasemdum og ábendingum við hana, jafnframt því að vera boðaðir til fundar vegna málsins.  Umsögn barst frá Skipulagsstofnun sem gerði ekki athugasemd við nefnda lýsingu og á fundi borgarráðs 28. apríl 2011 var lýsingin samþykkt.

Tillaga að deiliskipulagi umrædds reits var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 9. nóvember 2011.  Var þar samþykkt að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum á skipulagssvæðinu og þeim sem komið höfðu að athugasemdum.  Gerði tillagan m.a. ráð fyrir að á baklóð Vesturvallagötu 4 yrði heimiluð tvílyft viðbygging er tengd yrði við eldra hús á lóðinni, og að á lóð Vesturvallagötu 2 yrði heimilað að reisa einlyft hús með risi og kjallara, auk húss sem fyrir væri á lóðinni.  Kom kærandi að athugasemdum við tillöguna og mótmælti nýbyggingu á lóð Vesturvallagötu 4, m.a. vegna staðsetningar og skuggavarps, og fór enn fremur fram á að heimilað yrði í deiliskipulagi að hús hans yrði tvær hæðir og ris, líkt og á teikningu af húsinu frá 1928.  Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 11. janúar 2012, þar sem m.a. lágu fyrir athugasemdir er borist höfðu á kynningartíma og umsögn skipulagsstjóra, dags. 5. janúar 2011.  Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu þegar uppdrættir hefðu verið lagfærðir í samræmi við umsögn skipulagsstjóra, en í henni var m.a. lagst gegn því að orðið yrði við fyrrgreindum óskum kæranda.  Málinu var jafnframt vísað til borgarráðs.  Tillagan var tekin fyrir á ný á fundi skipulagsráðs hinn 25. janúar s.á.  Var bókun frá fundinum 11. s.m. þá lagfærð og samþykkt að nýju hvað auglýsingu og vísun til borgarráðs ræðir.  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu á fundi sínum 26. s.m.

Hinn 8. febrúar 2012 var tillaga að deiliskipulagi umrædds reits auglýst til kynningar. Kom kærandi á ný fram athugasemdum sínum og áréttaði áður fram komna beiðni sína.  Á fundi skipulagsráðs hinn 11. apríl 2012 var tillagan tekin fyrir að nýju ásamt athugasemdum og umsögn skipulagsstjóra, dags. 30. mars s.á.  Var tillagan samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar, án breytinga vegna lóða nr. 2 og 4 við Vesturvallagötu.  Borgarráð samþykkti nefnda afgreiðslu hinn 26. s.m. og öðlaðist deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. júní 2012 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að heimiluð viðbygging á lóð Vesturvallagötu 4 feli í sér rúmlega 170% stækkun á eigninni.  Samræmist viðbyggingin því ekki markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur, sem miði að því að farið sé varlega í uppbyggingu, hlúð sé að því sem fyrir sé á svæðinu og leitast við að halda í fremur smágerðan mælikvarða sem einkenni vesturbæinn.  Sé viðbyggingin í algjöru ósamræmi við heildarmynd hverfisins, en svæðið hafi verið skilgreint sem randbyggð.

Við breytinguna muni eign kæranda lokast nær algerlega af að sunnan og suðvestan og veruleg skerðing verða á birtuskilyrðum fyrir kæranda og aukið skuggavarp.  Leiði þetta til lakari lífsgæða en kærandi hefði mátt gera ráð fyrir þegar hann festi kaup á eign sinni og rýri verðgildi og gæði eignarinnar umfram það sem eðlilegt geti talist.

Skipulagið leiði til þess að hús kæranda verði lægra en önnur hús í nágrenninu, sem séu tvær hæðir og ris, auk þess sem fjögurra hæða fjölbýlishús séu til hliðar við fasteign kæranda, við Holtsgötu 17, og á móti við Vesturvallagötu.  Bendi kærandi á að verði hús hans tvær hæðir og ris verði engar skerðingar á birtuskilyrðum fyrir hús í næsta nágrenni sambærilegar við það sem verði ef reist yrði viðbygging við húsið að Vesturvallagötu 4.

Fasteign kæranda sé reist árið 1928 og fyrir liggi fullgild og samþykkt teikning byggingarnefndar Reykjavíkur frá sama ári, sem geri ráð fyrir að hús hans verði tvær hæðir og ris og nái upp fyrir hornið á Holtsgötu.  Sé teikningin í samræmi við fjölmörg hús sem reist hafi verið á þessum tíma.  Húsið hafi þó ekki hafa verið fullklárað.  Sé það nú ein hæð og ris og nái ekki út að horni, en kærandi hafi ítrekað gert þær kröfur að deiliskipulagið heimilaði að húsið yrði fullbyggt og tæki mið af samþykktum teikningum.  Hafi skipulagsyfirvöld upp á sitt einsdæmi gert ráð fyrir aukningu sem ekki sé í neinu samræmi við upphaflega teikningu.

Með setningu deiliskipulagsins hafi heimildir kæranda verið skertar umfram það sem hefði mátt vænta við kaup hússins og eignarréttur kæranda þar með skertur verulega og án heimildar.  Sé hvorki til að dreifa haldbærum skýringum eða rökstuðningi skipulagsyfirvalda á því hverjar ástæður þess séu, né hvers vegna eigendum fasteigna á svæðinu sé mismunað og þannig brotið gegn jafnræðisreglu.  Brjóti ákvörðunin í bága við réttindi kæranda og lög og sé því ógildanleg.

Þá sé vísað til þess að ekki sé í deiliskipulaginu tekið tillit til lágmarks fjarlægðar á milli húsa, sbr. gr. 9.7.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Fylla eigi upp í port sem sé á milli umræddra húsa og muni nýbyggingin ná upp að húsi kæranda en ekki hafi verið tekið á því í deiliskipulaginu hvernig fara skuli með lagnir sem í portinu séu og tilheyri Vesturvallagötu 2.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Því sé mótmælt að fyrirhuguð viðbygging að Vesturvallagötu 4 muni skerða hagsmuni kæranda.  Markmið deiliskipulagsins sé að unnt verði að varðveita húsið að Vesturvallagötu 4, sem reist hafi verið árið 1901 og sé um 30 m² að grunnfleti.  Hafi eigendur þess um langt skeið óskað eftir því að fá að byggja við húsið, þ.e. að halda gamla húsinu óbreyttu, en reisa nýtt hús innar á lóðinni og tengja það gamla húsinu.  Tillaga að viðbyggingu hússins sé unnin með það fyrir augum að hlúa að sérkennum gamla vesturbæjarins og halda í „fremur smágerðan mælikvarða sem einkenni vesturbæinn“.  Sé viðbyggingin lægri en hús kæranda.  Hafi Reykjavíkurborg talið rétt að koma til móts við sjónarmið eigenda Vesturvallagötu 4 og telji að það hafi tekist án þess að gengið sé gegn rétti nágranna.

Byggðamynstur sé ekki heildstætt á skipulagsreitnum en gert sé ráð fyrir verndun götumyndar Vesturvallagötu, þ.e. húsa nr. 2, 4, og 6, í samræmi við húsakönnun Minjasafns Reykjavíkur.  Ekki sé tekið undir að viðbyggingin muni varpa óeðlilega miklum skugga á lóð kæranda.  Lóð Vesturvallagötu 4 sé vestan við lóð kæranda en ekki sunnan við hana og húsið að Vesturvallagötu 2 skyggi því mest á eigin lóð á hádegi.

Tilvitnun kæranda til aðalskipulags Reykjavíkur sé tilvitnun í markmið sem finna megi í lýsingu og greinargerð deiliskipulags Vesturvallareits en sé hvergi að finna í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Í því skipulagi sé enga ákveðna stefnu að finna um verndun eldri byggðar í vesturbæ Reykjavíkur.  Hugsanlegt sé að kærandi hafi lesið þetta út úr drögum að nýju aðalskipulagi, þ.e. borgarverndarstefnunni, eða þá ritinu „Húsvernd í Reykjavík“, sem hafi verið fylgiskjal með gildandi aðalskipulagi en sé ekki staðfestur hluti þess.

Verði hús kæranda stækkað eins og staðið hafi til árið 1928 sé ekki mögulegt að varðveita götumynd Vesturvallagötu 2, 4 og 6.  Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála.  Hafa verði í huga að sveitarstjórnir annist gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Þau fari með skipulagsvald á Íslandi en hætt sé við því að það vald færi fyrir lítið ef jafnræðisreglan yrði túlkuð jafn vítt og kærandi vilji vera láta.  Mótmæli Reykjavíkurborg því að jafnræðisregla hafi verið brotin á kæranda að þessu leyti.  Jafnframt sé minnt á að almennt sé lítið um heimildir til stækkunar húsa í deiliskipulaginu og að kærandi hafi fengið heimild til að stækka hús sitt talsvert.  Hús hans sé 110,4 m² en geti eftir stækkun orðið 328,4 m².  Auk þess sé heimilt að fjölga íbúðum á lóðinni um eina.

Mjög algengt sé að hús standi þétt saman í þessum borgarhluta og sé þá eldvarnarveggur á milli þeirra.  Sé ekkert athugavert við það, enda séu þá gerðar viðeigandi kröfur um brunavarnir þegar sótt sé um byggingarleyfi.  Húsið að Vesturvallagötu 2 sé byggt að lóðarmörkum Vesturvallagötu 4. Liggi því kaldavatnslögn Vesturvallagötu 2 um sund á lóð Vesturvallagötu 4 og þurfi að færa hana verði byggt í sundið.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var m.a. heimilað að reisa annars vegar tvílyfta viðbyggingu við húsið að Vesturvallagötu 4 og hins vegar einlyft hús með kjallara og risi við hús kæranda að Vesturvallagötu 2.  Deiliskipulagið heimilar einnig hækkun hússins að Holtsgötu 25, auk óverulegra breytinga á svölum, skyggnum, litlum viðbyggingum og geymslum þar sem slíkt falli vel að húsum og umhverfi.  Þá eru m.a. verndaðar götumyndir Framnesvegar 31 og 33 og Vesturvallagötu 2, 4, og 6.

Lóðin nr. 4 við Vesturvallagötu er 191,3 m².  Er nýtingarhlutfall hennar 0,28 en verður 0,90 samkvæmt deiliskipulaginu.  Lóðin að Vesturvallagötu 2 er 248,3 m² og fer nýtingarhlutfall hennar úr 0,44 í 1,32 samkvæmt skipulaginu.  Nýtingarhlutfall annarra einbýlishúsa á reitnum, t.d. að Framnesvegi, er allt að 1,50.  Með vísan til þessa verður hið kærða deiliskipulag ekki talið hafa falið í sér mismunun gagnvart kæranda hvað varðar nýtingarrétt hans á lóð sinni.

Ýmsar málefnalegar ástæður geta ráðið því að nýtingarhlutfall einstakra lóða á deiliskipulagssvæði sé misjafnt eða að ekki sé unnt að verða við óskum lóðarhafa um heimildir deiliskipulags.  Einkum getur það átt við um skipulagsreit sem er að mestu þegar byggður við skipulagsgerð, eins og hér á við.  Borgaryfirvöld hafa m.a. gefið þá skýringu að ekki hafi þótt fært að verða við óskum kæranda um að hækka hús hans þar sem lögð sé til verndun götumyndar Vesturvallagötu 2, 4, og 6.  Þessar ástæður verður að virða sem málefnaleg skipulagsrök.

Ljóst er að umrædd viðbygging hefur grenndaráhrif á lóð kæranda enda mun nýbyggingin, sem er tvílyft, samkvæmt skýringarmynd á deiliskipulagsuppdrætti, ná alveg að einlyftu húsi kæranda.  Tengist nýbyggingin við einlyft hús sem fyrir er á lóðinni sem liggur vestan við lóð kæranda.  Fyrrgreind teikning frá árinu 1928 verður ekki talin binda hendur skipulagsyfirvalda við skipulagsgerð og hefur þegar af þeirri ástæðu ekki þýðingu um gildi umdeilds skipulags og ekki er til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem hindra að byggt sé að lóðarmörkum eða kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður ekki talið að slíkir ágallar séu á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að leiða eigi til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar borgarráðs frá 26. apríl 2012 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Vesturvallareit.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

59/2013 Þormóðseyri, Siglufjörður

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 4. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 59/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 um að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri, Siglufirði.  Jafnframt er kærð sú ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu skólahúsnæðis að Norðurgötu 10, Siglufirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2013, er barst nefndinni 4. s.m., kærir Guðmundur Siemsen hdl., f.h. Sögu ráðgjafar ehf., Eyrargötu 3, Siglufirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri, Siglufirði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað.

Með bréfi, dags. 29. október 2013, er móttekið var 30. s.m., kærir sami aðili ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við skólahúsnæði að Norðurgötu 10, Siglufirði, með kröfu um ógildingu.  Gerð var og krafa um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða leyfi meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Verður síðari kæran, sem fékk málsnúmerið 105/2013, sameinuð máli þessu.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekin til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu. 

Málavextir:  Í lok árs 2012 mun hafa verið grenndarkynnt tillaga að viðbyggingu við Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði.  Bárust nokkrar athugasemdir, m.a. frá kæranda, og í framhaldi af því var á fundi bæjarráðs Fjallabyggðar hinn 5. febrúar 2013 samþykkt að fela skipulags- og umhverfisnefnd bæjarins að vinna deiliskipulag að lóð skólans og götureits sem hann stendur á.  Samþykkt var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar hinn 6. s.m. að fela arkitektastofu að vinna tillögu að deiliskipulagi, kynna fyrirliggjandi skipulagslýsingu og leita umsagnar Skipulagsstofnunar um hana.  Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 13. febrúar s.á.  Gerði Skipulagsstofnun nokkrar athugasemdir við nefnda lýsingu í bréfi, dags. 6. mars s.á., og taldi frekari upplýsinga þörf, t.d. um samráð við hagsmunaaðila. 
Hinn 6. mars 2013 var á fundi skipulags- og umhverfisnefndar lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir grunnskólareit á Þormóðseyri, sem afmarkast af Norðurgötu, Eyrargötu, Vetrarbraut og Aðalgötu.  Fól tillagan m.a. í sér að heimilað yrði að reisa við grunnskólann að Norðurgötu 10 tveggja hæða viðbyggingu til norðurs að Eyrargötu.  Samþykkt var að auglýsa tillöguna og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 13. s.m.  Var þá og fært til bókar að ekki væri talin þörf á forkynningu þar sem meginforsendur hennar lægju fyrir í aðalskipulagi.  Á kynningartíma tillögunnar bárust andmæli, annars vegar frá kæranda sem eiganda hússins að Eyrargötu 3 og hins vegar frá eiganda Eyrargötu 7, og taldi kærandi m.a. að fyrirhuguð viðbygging hefði í för með sér veruleg grenndaráhrif gagnvart húsi hans.  Tillagan var einnig send Minjastofnun Íslands og Siglingastofnun Íslands til umsagnar og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum vakti Siglingarstofnun í umsögn sinni athygli á flóðahættu á Þormóðseyri en ekki voru að öðru leyti gerðar athugasemdir af hálfu umsagnaraðila. 

Tillagan var tekin fyrir að nýju hjá skipulags- og umhverfisnefnd hinn 8. maí 2013, ásamt athugasemdum sem borist höfðu á kynningartíma og greinargerð sveitarfélagsins um þær.  Var tillagan samþykkt með þeirri breytingu að gangstétt við bílastæði við Norðurgötu yrði færð inn fyrir bílastæðin.  Staðfesti bæjarstjórn Fjallabyggðar afgreiðslu nefndarinnar á fundi hinn 15. maí 2013.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 13. júní s.á., að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar er gerði ekki athugasemd við birtingu hennar.  Í kjölfar þess samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd umsókn um viðbygginguna við skólann í samræmi við nýsamþykkt deiliskipulag og voru nefndar ákvarðanir kærðar til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að helstu áhrif fyrirhugaðrar byggingar séu gagnvart fasteign hans að Eyrargötu 3.  Viðbyggingin liggi nærri mörkum lóðar hans og sé á svæði sem hafi verið óbyggt um margra ára skeið.  Hún sé umtalsvert stærri að allri gerð en önnur mannvirki á svæðinu, að grunnskólahúsinu frátöldu.  Áætluð fjarlægð milli viðbyggingarinnar og íbúðarhúss kæranda sé minni en hefðbundin fjarlægð á milli húsa á sama svæði, en stærð hennar hefði átt að leiða til þess að gert yrði ráð fyrir meiri fjarlægð milli húsanna.  Þrátt fyrir að engar upplýsingar liggi fyrir um skuggavarp af viðbyggingunni seinni hluta dags gagnvart fasteign kæranda, og halli þannig verulega á rétt hans í því efni, sé ljóst að skuggavarpið verði umtalsvert eftir kl. 13 og muni byggingin koma nær algjörlega í veg fyrir að hægt verði að njóta kvöldsólar á lóð hússins. 

Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við að sveitarfélagið, sem rekstraraðili grunnskólans og skipulagsyfirvald, geri ráð fyrir að uppbygging á svæðinu miði öðru fremur að því að varðveita hagsmuni sveitarfélagsins og skólans á kostnað kæranda.  Sé þannig gert ráð fyrir að byggt verði norðan við núverandi húsnæði skólans, þar sem ekki verði skyggt á suðurhlið hans, og ekki gengið á skólalóð sem sé sunnan við skólabygginguna. 

Fram komi í greinargerð með tillögunni að ekki sé þörf á jafn mikilli uppbyggingu á skólahúsnæði á Siglufirði eftir sameiningu sveitarfélaga og því vandséð hvernig fyrirhuguð viðbygging fari saman við það.  Þá sé eðlilegt að sveitarfélagið sýni fram á að ekki sé unnt að uppfylla þær kröfur sem eðlilegt þykir að gera til nútíma skólahúsnæðis, s.s. um mötuneyti og verknámsstofur, í núverandi húsnæði skólans.  Hafi ekkert komið fram um nauðsyn svo viðamikillar viðbyggingar sem gert sé ráð fyrir, en í það minnsta sé ekki nauðsynlegt að stækka húsnæði skólans um þriðjung til að koma þar fyrir mötuneyti og verknámsstofum. 

Lóð kæranda að Eyrargötu 3 sé skilgreind sem svæði fyrir þjónustustarfsemi í gildandi aðalskipulagi.  Það hafi komið kæranda á óvart enda hafi þess í engu verið getið af sveitarfélaginu þegar hann hafi keypt hluta íbúðarhússins að Eyrargötu 3, þrátt fyrir að sveitarfélaginu hafi verið ljóst að hann hygðist nota húsið sem íbúðarhúsnæði.  Í greinargerð skipulagsins segi að þeir sem búi á svæðum sem liggi að opinberum lóðum megi búast við því að á slíkum svæðum séu byggðar umfangsmiklar byggingar sem geti verið í öðrum kvarða en íbúðarbyggð í nágrenninu.  Sé því alfarið mótmælt að þessi fullyrðing geti átt við í málinu.  Sveitarfélagið hafi selt kæranda húsið sem íbúðarhúsnæði og samþykkt umsóknir hans um umtalsverðar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu, sem miðuðu að því að það nýttist sem slíkt, og með því hafi sveitarfélagið útilokað að það gæti byggt á greindu sjónarmiði við afgreiðslu málsins. 

Þá geti skilgreind landnotkun ekki rýrt rétt kæranda samkvæmt almennum meginreglum grenndarréttar og ákvæðum skipulagsreglugerðar, sem kveði á um að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess að jafnaði gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Fasteign kæranda sé skráð sem íbúðarhúsnæði og nýtt sem slík og sé lóð hennar því óumdeilanlega íbúðarlóð, eins og deiliskipulagið geri raunar ráð fyrir, hvað sem aðalskipulagi svæðisins líði. 

Átalið sé að sveitarfélagið réttlæti umrædda viðbyggingu með vísan til þess húss sem áður hafi staðið að Eyrargötu 5, en það hafi verið umtalsvert minna en fyrirhuguð viðbygging, sem og bílgeymsla þess, sem áður hafi staðið næst fasteign kæranda.  Umtalsvert lengri vegalengd hafi einnig verið milli húsanna sjálfra. 

Vegna staðsetningar byggingarreits viðbyggingar, einkum m.t.t. lóðar kæranda, verði að líta á reitinn sem sjálfstæða, staka lóð, á horni Norðurgötu og Eyrargötu.  Nýtingarhlutfall þeirrar lóðar yrði því á bilinu 2,0-3,0, sem sé langt umfram það sem tíðkist á öðrum lóðum við Eyrargötu.  Ekki sé tekið nægilegt tillit til ákvæða skipulagsreglugerðar um fjarlægðir milli byggingarreita og lóðamarka, en fyrirhugað sé að mannvirkið nái alveg að lóðarmörkum á horni Norðurgötu og Eyrargötu og að það standi aðeins í 1,9 m fjarlægð frá lóðarmörkum Eyrargötu 3.  Í skipulagsreglugerð sé gert ráð fyrir að við ákvörðun um fjarlægð á milli byggingarreita skuli taka tillit til sólarhæðar, skuggavarps, vindstrengja o.fl., eftir því hver notkun bygginga sé.  Verulega hafi skort á að tekið væri tillit til þess í hinu umdeilda skipulagi að fasteign kæranda sé íbúðarhúsnæði.  Verði fjarlægð viðbyggingarinnar frá fasteign hans ekki réttlætt með vísan til legu annarra mannvirkja innan skipulagsreitsins, sem séu víðsfjarri fasteign kæranda, eða til húss sem áður hafi staðið skammt frá lóðarmörkum Eyrargötu 3. 

Deiliskipulagið samræmist því á engan hátt byggðamynstri, götumynd og þéttleika byggðarinnar við Eyrargötu.  Þá sé gagnrýnisvert að sveitarfélagið hafi vanrækt skyldu sína til að gera húsakönnun á svæðinu samhliða gerð deiliskipulags en aðeins sé vísað til húsaskráningar á Siglufirði sem sé enn í vinnslu.  Ekkert sérstakt mat sé lagt á varðveislugildi eða svipmót byggðar eða einstakra bygginga á svæðinu. 
Bent sé á að yrði byggt við grunnskólann til suðurs yrði ekki gengið jafn freklega gegn rétti eigendum íbúðarhúsa í nágrenni hans, auk þess sem hægt hefði verið að gera ráð fyrir bílastæðum innan marka skipulagssvæðisins, eins og verið hafi, í stað þess að reiða sig á að samningar takist við eigendur fasteigna utan svæðisins um bílastæði.  Sé tekið undir athugasemdir annarra hagsmunaaðila á svæðinu að því er varði bílastæði grunnskólans. 

Loks telji kærandi að unnt hefði verið að ná sama markmiði og stefnt sé að með deiliskipulaginu með því að grípa til úrræða sem ekki séu jafn verulega íþyngjandi fyrir kæranda og sú leið sem deiliskipulagið geri ráð fyrir.  Hvorki hafi verið færð rök fyrir að svo umfangsmikil stækkun sé nauðsynleg á sama tíma og dregið hafi úr fjölda nemenda né hvers vegna stækka þurfi húsnæði grunnskólans um tæplega 500 m² til að koma megi þar fyrir mötuneyti og verknámsstofu.  Virðist sveitarstjórn ekki hafa lagt nokkurt mat á það hvort önnur minna íþyngjandi úrræði hefðu komið til álita til að ná þessu sama markmiði.  Sé samþykkt sveitarstjórnar skýlaust brot gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi styður kröfu sína um ógildingu byggingarleyfisins við það að deiliskipulagið sem leyfið á stoð í beri að ógilda af þeim ástæðum sem raktar hafa verið.

Málsrök Fjallabyggðar:  Af hálfu Fjallabyggðar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.  Telji úrskurðarnefndin að einhver afmarkaður hluti deiliskipulagsins stangist á við lög að efni eða formi sé gerð sú krafa að skipulagið verði eingöngu fellt úr gildi hvað varði þann afmarkaða þátt. 

Viðurkennt sé að byggingarreitur samkvæmt skipulaginu sé stutt frá mörkum lóðar kæranda.  Á skipulagsreitnum séu hús reist mjög nálægt lóðamörkum og sum þeirra hvert upp að öðru.  Það eitt sé hvorki einsdæmi á reitnum né í byggðamynstri nálægðra reita.  Hæð viðbyggingar sé nokkur en þó ekki meiri en hæð hússins að Eyrargötu 3.  Mælikvarði fyrirhugaðrar viðbyggingar sé hins vegar annar en íbúðarhúsanna á svæðinu enda sé um stofnun að ræða.  Mælikvarðinn sé hins vegar í góðu samræmi við núverandi skólahús. 

Byggingin muni auka skuggavarp seinnipart dags þegar sól sé hæst á lofti en líta þurfi til landfræðilegra aðstæðna, þ.e. fjallanna í kringum bæinn sem sólin hverfi á bak við á þeim tíma.  Af þeim sökum hafi ekki verið talið nauðsynlegt að sýna skuggavarp seinnipart dags. 

Í greinargerð komi fram ástæður þess að byggt sé norðan en ekki sunnan við skólann.  Viðbygging sunnan við skólann myndi skyggja á suðurhlið hans, sem setji sterkan svip á umhverfið og hafi ákveðið varðveislugildi.  Þá myndi byggingin einnig rýra skólalóðina að sunnanverðu en þar sé aðalleiksvæðið.  Að auki hefði sú staðsetning sömu áhrif gagnvart öðrum húsum og nú gagnvart kæranda.  Þá hafi viðbygging á þessum stað verið talin falla betur að skipulagi núverandi húss. 

Tillagan taki mið af því að ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu en umræddri viðbyggingu í samræmi við stefnu sveitarstjórnar í skólamálum.  Tilgangur umræddrar stækkunar sé að bæta aðstöðu nemenda, þ.e. með matsal og rými fyrir verknámsstofur, en ekkert húsnæði í grunnskólanum sé laust fyrir slíka starfsemi.  Ekki sé hægt að sýna fram á slíka nauðsyn frekar en nauðsyn á bættri aðstöðu almennt.  Ljóst megi vera að málefnaleg og lögmæt sjónarmið búi að baki ákvörðuninni, þ.e. betri kennsluaðstaða.  Ekki sé verið að byggja við skólann til þess eins að stækka hann eða af öðrum hvötum.  Fyrir liggi m.a. skýrsla um framtíðarskipan fræðslumála í Fjallabyggð frá árinu 2009 og byggi tillagan m.a. á niðurstöðu hennar um þörf fyrir húsnæði. 

Í grenndarrétti sé það viðurkennt að aðilar þurfi að búa við mismunandi aðstæður í grenndarréttarlegu tilliti eftir staðsetningu eigna.  Þannig sé mælikvarði, stærð og útlit húsa mjög mismunandi eftir því hvaða starfsemi fari þar fram, sem og með tilliti til áhrifa starfseminnar sjálfrar.  Í því tilviki sem hér um ræði verði vart séð að grenndaráhrif skipulagsins séu meiri en eigendur húsa, sem standi á eða við svæði fyrir opinberar stofnanir, megi búast við.  Þá sé aðstaðan sú að lóð kæranda sé umlukin skólalóð á þrjá vegu og ljóst að staða hennar sé nokkuð sérstök.  Allt framangreint hafi eiganda hússins á lóðinni nr. 3 við Eyrargötu mátt vera ljóst við kaup hússins.  Sé málið skoðað almennt sé ljóst að grenndaráhrif skipulagsins, að því er varði skólalóðina, séu ekki meiri en fólk sem búi í þéttbýli þurfi almennt að þola.  Hvorki skuggavarp, nálægð hússins né önnur áhrif af mögulegri viðbyggingu fari út fyrir slík mörk né séu þess eðlis að brjóti gegn grenndarrétti kæranda.  Ekki verður heldur séð að notkunarmöguleikar hússins rýrni frá því sem sé í dag.  Grenndarsjónarmið geti því ekki leitt til þess að skipulagið verði talið ólögmætt og ógildanlegt. 

Að baki þeirri ákvörðun að leyfa viðbyggingu við skólann búi lögmæt, málefnaleg og samfélagsleg sjónarmið.  Þá sé bent á 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Í skipulagi verði aldrei tryggt að allir geti notið ótakmarkaðrar sólar eða friðsældar, eða ótakmarkaðs útsýnis eða skjóls.  Skipulagsreglugerð mæli heldur ekki fyrir um það, en frekar að horfa beri til þessara þátta við gerð skipulags. 

Athugasemd kæranda um nýtingarhlutfall styðjist hvorki við efnisleg rök né ákvæði laga og reglugerða.  Hugtakið sé skýrt í skipulagslögum og reglugerð og beri að miða við það.  Samkvæmt því sé nýtingarhlutfall á skólalóðinni 0,45.

Ekkert hámark eða lágmark á fjarlægð milli húsa sé tiltekið í skipulagsreglugerð.  Fjarlægð milli umræddra bygginga sé ekki minni en almennt á reitnum eða reitum í nágrenninu.  Staðsetning byggingarreitsins sé með þeim hætti að hann sé ekki í höfuðsólarátt séð frá húsi kæranda og áhrif skuggavarps séu því ekki veruleg.  Ljóst megi vera að ekki sé hægt að tryggja í skipulagi í þéttbýli útsýni í allar áttir.

Hvað húsakönnun varði sé bent á að í deiliskipulaginu sé vísað til húsaskráningar fyrir Siglufjörð og gerð grein fyrir þeim húsum sem gert sé ráð fyrir að verði sett undir hverfisvernd í deiliskipulagi.  Í deiliskipulaginu sé tekið mið af þessu og húsin Aðalgata 14, 16 og 18 hverfisvernduð sem slík.  Skuli álit húsafriðunarnefndar liggja fyrir áður en samþykktar séu breytingar á þeim húsum.  Í sérákvæðum gr. 4.2 í skipulaginu sé og tekið fram að við breytingar eða endurbyggingar húsa á reitnum skuli byggingarmagn og hæð vera í samræmi við núverandi hús.  Jafnframt að við breytingar, endurbætur og endurbyggingu skuli upphafleg gerð, byggingarstíll og hlutföll virt.  Það sé því ekki rétt að ekki hafi farið fram könnun á varðveislugildi húsa á svæðinu og ekki hafi verið lagt mat á varðveislugildi einstakra húsa í skipulaginu.  Tillagan geri þannig ráð fyrir að öll húsin sem nú standi á reitnum standi þar áfram og að þeim húsum sem verndargildi hafi verði ekki breytt nema að fenginni umsögn Minjastofnunar Íslands.  Minnt sé á að tillagan hafi einnig verið send til Minjastofnunar Íslands til skoðunar, sem hafi ekki gerð athugasemd. 

Fjallabyggð telji að meðalhófs hafi verið gætt enda gangi skipulagið ekki á hagsmuni kæranda umfram það sem gera megi ráð fyrir í þéttbýli, m.t.t. fyrirliggjandi aðstæðna og aðalskipulags.  Áréttað sé að umdeild viðbygging við skólann sé til að mæta þörfum nemenda um betri aðstöðu við skólann til samræmis við nútíma kennsluhætti. 

Hið kærða byggingarleyfi eigi samkvæmt framansögðu stoð í lögmætu deiliskipulagi. 

Niðurstaða:  Hið kærða deiliskipulag tekur m.a. til skólalóðarinnar að Norðurgötu 10 á Siglufirði og í máli þessu er fyrst og fremst deilt um heimild fyrir viðbyggingu við skólahúsið sem þar stendur.  Með skipulaginu eru lóðir skilgreindar innan götureitsins, svo og byggingarreitur fyrir fyrirhugaða viðbyggingu, ásamt því að kveðið er á um fyrirkomulag bílastæða. 

Í 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags, en skv. 2. mgr. 37. gr. laganna skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Samkvæmt ákvæðum þessum hvílir á sveitarstjórnum sú skylda að hlutast til um gerð deiliskipulags þegar við á. 

Lóð grunnskólans við Norðurgötu 10 er á svæði sem skilgreint er í Aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028 sem svæði fyrir þjónustustofnanir og kemur þar fram að gert sé ráð fyrir að skólastofnanir geti stækkað á núverandi landnotkunarreitum á skipulagstímabilinu.  Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags og er fyrirhuguð stækkun á húsnæði skólans því ekki í andstöðu við það ákvæði aðalskipulags.  Þá mátti vænta þess að breytingar yrðu gerðar á skólahúsnæðinu með hliðsjón af breyttum kröfum um umhverfi og aðstöðu.  Verður og að telja að málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki ákvörðun bæjarstjórnar um stækkun húsnæðisins og staðsetning viðbyggingarinnar norðan við skólann tekur mið af lóð og leiksvæði barna. 

Hámarksbyggingarmagn nefndrar viðbyggingar er samkvæmt deiliskipulagi 470 m², hæð hennar skal að hámarki vera 8,7 m yfir gólfkóta 1. hæðar og vegghæð að hámarki 6,3 m og fjarlægð milli viðbyggingarinnar og húss kæranda verður 7,5 m.  Nýtingarhlutfall fyrir skólalóðina, að teknu tilliti til viðbyggingarinnar, verður 0,43.  Mun viðbyggingin af þessum sökum hafa töluverð grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda.  Verður þó ekki fallist á að sú skerðing sé svo veruleg að hinar kærðu ákvarðanir teljist af þeim sökum ólögmætar.  Leiði gildistaka hinnar umdeildu skipulagsákvörðunar hins vegar til þess að verðmæti eignar kæranda lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var heimilt eða hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður kann það að leiða til bótaréttar skv. 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um álitaefni þar að lútandi er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar. 

Í hinu kærða deiliskipulagi er vikið að því hvaða hús skuli sett undir hverfisvernd, s.s. Norðurgata 10, en jafnframt er tilgreint að gert sé ráð fyrir að öll íbúðarhús sem þegar standi á skipulagssvæðinu standi þar áfram.  Við skipulagsgerðina var stuðst við húsaskráningu Fjallabyggðar í þessu efni og var eins og sakir stóðu ekki tilefni til frekari húsakönnunar við deiliskipulagsgerðina. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hið kærða deiliskipulag sé haldið slíkum annmörkum að ógildingu varði. 

Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi styðst við gilt deiliskipulag.  Þar sem ekki liggur fyrir að nokkrir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá byggingaryfirvöldum Fjallabyggðar að ógildingu geti varðað verður kröfu kæranda þar um hafnað. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. maí 2013 um að samþykkja deiliskipulag grunnskólareits á Þormóðseyri á Siglufirði. 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 19. júní 2013 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við skólahúsnæði að Norðurgötu 10, Siglufirði.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

40/2012 Bankastræti

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2012, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir B, Skólavörðustíg 4C, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að fjarlægja óleyfisbyggingarnar.  Til vara krefst kærandi þess að umsóknin verði tekin til afgreiðslu á nýjan leik.  Að auki krefst kærandi greiðslu málskostnaðar. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 14. ágúst 2012. 

Málavextir:  Í byrjun ágúst 2011 sendi kærandi byggingarfulltrúa fyrirspurn þess efnis hvort veitt hefði verið byggingarleyfi fyrir stórum viðarstrúktúrum, svölum, tröppum o.fl. sem byggðir hefðu verið í porti sunnan við veitingastaðinn Prikið að Bankastræti 12, og þá til hvaða starfsemi það leyfi næði, en eins og sæist af myndum neyttu gestir staðarins áfengis á svölunum og í portinu eftir klukkan 22 á kvöldin.  Svar byggingarfulltrúa barst hinn 9. s.m. þar sem fram kom að málið hefði verið skoðað og að greinilegt væri að byggt hefði verið út fyrir heimildir.  Aðspurður staðfesti kærandi við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdin ylli ónæði í nágrenninu. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð umrædds húss.  Var umsóknin tekin fyrir á ný á fundi hinn 22. s.m og er í fundargerð vísað til athugasemda eldvarnaeftirlits á umsóknarblaði.  Umsóknin var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. desember s.á. 

Kærandi ítrekaði erindi sitt til byggingarfulltrúa 30. nóvember 2011, sem og 3. janúar 2012.  Svar byggingarfulltrúa barst honum hinn 3. febrúar s.á. þar sem fram kom að leyfi fyrir framkvæmdinni hefði verið veitt hinn 6. desember 2011. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að þrátt fyrir að hann hafi gert alvarlegar athugasemdir við byggingar þær sem málið snúist um hafi byggingarfulltrúi ekki hirt um að upplýsa hann um gang málsins eða veita honum tækifæri til að tjá sig um framkvæmdirnar áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Þá sé það kyndug stjórnsýsla að blessa, að því er virðist án athugasemda, slíkar óleyfisframkvæmdir með því að veita leyfi fyrir áður gerðum framkvæmdum. 

Byggðar hafi verið svalir og tröppur út í port sunnan við húsið án heimildar byggingarfulltrúa og hafi þetta port þjónað sem viðbót við skemmtistaðinn og aukið hávaða og ónæði frá staðnum.  Notkun svalanna að nóttu hafi falist í að þar megi reykja utandyra en auk þess sé þar leyfð neysla áfengra drykkja sem sé skýlaust brot á lögum, reglugerðum og samþykktum um áfengisveitingar.  Með tilkomu svalanna hafi hávaðinn og ónæðið aukist enn frekar enda átt greiðari leið að húsi kæranda. 

Framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt þótt hún hafi í för með sér mikla breytingu á hljóðvist og lífsgæðum nágranna og feli í sér breytingu á notkun, þ.e. breytingu á porti í útiveitingastað.  Íbúar hafi ítrekað kvartað vegna hávaða sem leiði af fyrrgreindri notkun svalanna.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi ekki látið fara fram könnun eða mælingu á hljóðvist í nágrenni Bankastrætis 12 né látið skoða hvaða breytingar hafi orðið á henni.  Telja verði að samræmi eigi að vera í stjórnkerfinu hvað þetta varði en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, sem sé skylt að fjalla um mál tengd hljóðvist, hafi enga aðkomu átt að afgreiðslu málsins. 

Í deiliskipulagi svæðisins sé ekki að finna heimild fyrir viðbyggingu við Bankastræti 12 heldur einungis fyrir gerð stakrar byggingar fyrir aftan húsið.  Geti umræddar framkvæmdir ekki talist falla innan þeirrar heimildar.  Í deiliskipulaginu komi jafnframt fram að húsið sé byggt árið 1868 og að það sé háð þjóðminjalögum um allar breytingar á núverandi ástandi þess sökum aldurs.  Ekki hafi verið leitað álits Húsafriðunarnefndar á framkvæmdunum, hvorki áður en framkvæmdir hófust né áður en hið kærða leyfi var gefið út, og hafi því verið brotið gegn 6. gr. húsafriðunarlaga nr. 104/2001.  Þá segi í skipulaginu að lagt sé til í Húsverndarskrá Reykjavíkur að húsið njóti verndar vegna mikilvægis þess í götumynd Bankastrætis og Ingólfsstrætis.  Þeir viðarstrúktúrar sem reistir hafi verið stingi mjög í stúf við hið gamla hús og breyti götumynd, bæði frá Bankastræti og Ingólfsstræti. 

Þá bendi kærandi á þá miklu fjölgun skemmtistaða og bara í miðborginni sem orðið hafi á síðustu árum en sú þróun hafi óneitanlega skert lífsgæði íbúa svæðisins.  Með stefnu sinni í málefnum miðborgarinnar hafi borgaryfirvöld rýrt verðmæti fasteigna á svæðinu auk þess sem grenndarkynning hafi aðeins farið fram vegna örfárra fyrrnefndra staða og réttur íbúa til að tjá sig um nærumhverfi sitt því verið að engu hafður. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis enda séu umrædd mannvirki í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Í deiliskipulagi fyrir Laugavegs- og Skólavörðustígsreiti, reitur 1.171.2, sem samþykkt hafi verið hinn 10. ágúst 2002, sé gert ráð fyrir 400 m2 nýbyggingu, sem sé fjórar hæðir og kjallari, á baklóð Bankastrætis 12.  Rúmist hinar kærðu framkvæmdir vel innan þeirra heimilda og hafi því ekki borið að grenndarkynna umrædda byggingarleyfisumsókn. 

Hvað varði þá málsástæðu að leita hefði þurft álits húsafriðunarnefndar skuli á það bent að ekki hafi verið gerðar neinar breytingar á húsinu, heldur hafi aðeins verið um að ræða viðbyggingu, þ.e. svalir, sorpgerði og geymslu, í portinu.  Loks sé á það bent að engin leyfi hafi verið veitt fyrir útiveitingum á staðnum og því sé neysla áfengra drykkja óheimil utandyra.  Allar kvartanir vegna slíks heyri undir lögreglustjóra en ekki byggingarfulltrúa. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum  sínum  í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 8. ágúst 2013. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 8. maí 2012, eða rúmum þremur mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um útgáfu byggingarleyfisins.  Verður því að líta svo á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.2, sem afmarkast af Bankastræti, Skólavörðustíg, Bergstaðastræti, Hallveigarstíg og Ingólfsstræti.  Samkvæmt deiliskipulaginu er heimilt að byggja fjögurra hæða hús með kjallara syðst á lóð nr. 12 við Bankastræti, á bak við núverandi hús.  Efsta hæð hússins skal vera inndregin frá Bankastræti.  Hið kærða byggingarleyfi veitir hins vegar leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og útisvölum úr timbri á baklóð hússins, með aðgengi út á svalirnar frá vínveitingastað í núverandi húsnæði á lóðinni.  Leyfi til byggingar svala, sem eru í beinum tengslum við og með aðgengi frá veitingastað, er til þess fallið að valda nágrönnum ónæði umfram það sem búast hefði mátt við samkvæmt gildandi deiliskipulagi, en ekki er að finna heimild fyrir slíkum mannvirkjum innan umrædds byggingarreits. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.  Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að hið kærða byggingarleyfi er í andstöðu við gildandi deiliskipulag og ber því að fella það úr gildi. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins að Bankastræti 12. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

82/2013 Lambhagavegur

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 6. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 82/2013, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 á umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2013, er barst nefndinni 19. s.m., kærir D, f.h. Þrístiklu, Lambhagavegi 31, Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 á umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Lambhagavegur 29 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir svonefndan Lambhagareit og tekur skipulagið til alls átta lóða sem skilgreindar eru sem ræktunarlóðir.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. mars 2013 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr staðsteyptri steinsteypu á nefndri lóð.  Var afgreiðslu málsins frestað, með vísan til athugasemda á umsóknarblaði, og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem á fundi sínum hinn 15. s.m. vísaði málinu til umsagnar hjá verkefnisstjóra.  Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 22. s.m. og það afgreitt jákvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag. 

Hinn 23. apríl 2013 var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og fylgdi erindinu útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 22. mars s.á. og umsögn hans, dagsett sama dag.  Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.  Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2013, gerði kærandi athugasemdir við fyrrgreinda afgreiðslu og fór fram á að tekið yrði tillit til þess að byggingarreitur íbúðarhúss Lambhagavegar 31 lægi samhliða samþykktri byggingu.  Í framhaldi af því munu byggingarfulltrúi og kærandi m.a. hafa fundað um málið, en lyktir urðu þær að kærandi skaut afgreiðslu byggingarfulltrúa frá 23. apríl 2013 til úrskurðarnefndarinnar, eins og fyrr greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi til þess að samþykktar teikningar brjóti í bága við gildandi deiliskipulag fyrir svæðið.  Samkvæmt skipulagi megi hæð gróður- og þjónustuhúsa ekki fara yfir 7,0 m, mælt frá gólfplötu og upp í mæni.  Þar sem hæðarmunur sé sérstaklega mikill sé kjallari leyfður undir slíkum húsum og megi hæð þá ekki fara yfir 9,0 m, mælt frá gólfplötu í kjallara.  Byggingin fari upp í 9,7 m, þar sem hún sé hæst, mælt frá kjallaraplötu, og í 11,3 m þar sem þak sé sýnt hæst.  Þá sé þakið klætt gróðri en þótt deiliskipulagið leyfi tæknibúnað og þakglugga yfir mænishæð sé ekki átt við að allt þakið megi þekja torfi og gróðri upp í 11,0 m hæð.  Því hafi verið haldið fram að þar sem húsið sé ekki með risi megi vegghæð fara í leyfða mænishæð og sé það jafngilt í deiliskipulagi.  Þessu sé kærandi ósammála og telji að hús sem sé 5,5 m að hæð með 1,5 m risi sé síður íþyngjandi en 7,0 m hús með flötu þaki gagnvart húsi í 5,0 m fjarlægð frá lóðamörkum og 13,0 m fjarlægð frá íbúðarbyggingarreit.

Umrædd bygging sé af slíkri stærðargráðu að hún rýri verulega gæði ræktunarlóðar garðyrkjubýlisins Þrístiklu.  Byggingarreitur íbúðarhúss að Þrístiklu sé í uppnámi og því hærri sem byggingin sé því meira íþyngjandi verði hún, einkum þar sem ekki sé um gróðurhús að ræða heldur steypt hús.  Ræktunarland fyrir ofan byggingarreit íbúðarhúsnæðis Þrístiklu verði fyrir verulegum áhrifum af byggingunni, svo og allt nærsvæði hennar, hvað varði vind og snjóþyngsli, og rýri þannig uppskeru og afkomu af landinu.  Hafi byggingaryfirvöldum borið að líta til meðalhófsreglu þegar hæð byggingarinnar hafi verið ákveðin þannig að hún yrði ekki hærri en nauðsyn bæri til.  Þá sé bent á að engin grenndarkynning hafi farið fram á fyrirhuguðum framkvæmdum. 

Samkvæmt deiliskipulagi megi á svæðinu reisa gróðurhús og þjónustubyggingar til garðyrkjuframleiðslu.  Kærandi telji að hlutfall gróðurhúsa gagnvart þjónustubyggingum sé ekki í eðlilegu samhengi.  Jafnframt sé fyrirhuguð starfsemi í húsinu, þ.e. pökkun eða frekari vinnsla á landbúnaðarvörum, ekki garðyrkja heldur iðnaður og því í trássi við deiliskipulag. 

Þá sé gerð athugasemd við að skýringarmynd, er lögð hafi verið inn með umsókn um byggingarleyfi, sé í engu lík teikningu af ræktunar- og þjónustuhúsi.  Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að teikningar hafi verið samþykktar óbreyttar eftir að þeim hefði áður verið hafnað. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist af kröfu kæranda verði hafnað. 

Hæðir húshluta heimilaðrar byggingar séu í samræmi við gr. 2.5 í greinargerð og skilmála skipulagsins.  Hæð sé miðuð við núverandi landhæð í hverju tilviki og í samræmi við eftirfarandi atriði:  Bygging sem hærra standi í lóðinni (nyrst) hafi 7,0 m leyfilega mænishæð yfir núverandi landhæð.  Núverandi landhæð á aðkomuhlið þeirrar byggingar sé frá 62,12 m (NV-horn) og um 66,0 m (NA-horn).  Eðlileg gólfhæð aðkomuhæðar gæti verið meðaltal þess, eða um 64,0 m, og leyfileg mænishæð 71,0 m.  Gólfhæð byggingarinnar samkvæmt aðalteikningu sé í 63,20 m hæð, eða 0,8 m neðar.  Mesta hæð útveggja sé ráðgerð 4,5 m yfir gólfhæð, þ.e. í 67,7 m hæð, eða 3,3 m undir leyfilegri mænishæð. 

Sú bygging sem lægra standi í lóð (syðst) sé með heimilaða hámarkshæð, mælt frá botnplötu kjallara, allt að 9,0 m.  Núverandi landhæð á aðkomuhlið þeirrar byggingar sé frá um 57,0 m (SV-horn) og 59,5 m (SA-horn).  Eðlileg gólfhæð aðkomuhliðar gæti verið meðaltal þessa, eða 58,25 m, og leyfileg hámarkshæð, mælt frá botnplötu, í allt að 67,25 m hæð.  Gólfhæð samkvæmt aðalteikningu sé í 57,42 m hæð, eða 0,83 m lægri.  Mesta hæð útveggja sé ráðgerð 6,93 m yfir botnplötu kjallara.  Áætluð mænishæð gróðurhúss, sem ekki sé hér til umfjöllunar, sé ráðgerð 9,0 m yfir botnplötu, þ.e.a.s. í hæðinni 66,42 m, eða 0,83 m lægra en leyfileg hámarkshæð miðað við núverandi landhæð. 

Það að kjallarahluti atvinnuhúsnæðisins nái inn undir þá byggingu sem hærra standi í lóðinni hafi ekkert með mestu hæð hennar að gera og hafi sá hluti kjallarans engin áhrif á umhverfið þar.  Þess sé heldur ekki getið í deiliskipulagi lóðarinnar að kjallari megi ekki vera undir þeirri byggingu eða hver gólfhæð hans skuli þá vera. 

Ekki sé heldur fallist á að skýringamynd á skipulagsuppdrætti sé ekki lík uppdráttum. Skýringarmyndir séu ekki endanleg útfærsla á hönnun heldur sé með þeim verið að gefa hugmynd um form, hæðir og legu í landi. 

Sú fullyrðing að byggingarreitur íbúðarhúss kæranda sé í uppnámi fái ekki staðist.  Hin umdeilda bygging sé innan byggingarreits og vel það.  Sé sjónarmiðum um áhrif byggingarinnar á vind, snjóalög og ræktunarmöguleika á Þrístiklu mótmælt sem ósönnum og ósönnuðum.  Þá vísi Reykjavíkurborg enn fremur til röksemda byggingarleyfishafa í málinu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Sjónarmið byggingarleyfishafa eru á svipaðan veg og hjá Reykjavíkurborg.  Jafnframt er vísað til þess að samanlagt byggingarmagn ræktunar- og þjónustuhúss sé 1.838,3 m², sem sé langt undir heimilaðri hámarksstærð samkvæmt deiliskipulagi.  Svo hátti einnig til um þakhæðir.  Þannig sé hámarkshæð ræktunarhúss með handriðum 6,93 m, og hámarkshæð þjónustuhúss, á hæsta punkti grasþaks, sé um 5,5 m og hámarksvegghæð 4,5 m.  Meðalhófsreglunnar hafi því verið gætt.  Hvergi séu gefnir upp fastir hæðarkótar á byggingum í deiliskipulagi, en þess farið á leit við hönnuði að þeir aðlagi legu húsa sem mest að landi.  Hæðarmunur á umræddri lóð sé þannig að ræktunarhús verði að langmestu leyti niðurgrafið.  Sé grenndarkynningar ekki þörf þegar unnið sé innan gildandi deiliskipulags. 

Enn fremur sé á það bent að aðeins hluti af þeirri hlið hússins sem snúi að Þrístiklu standi hærra en land Þrístiklu en hluti af þeirri sömu hlið sé einnig neðar en land þeirra, eða um 2,0 m.  Grasþök hafi verið hönnuð með það að leiðarljósi að húsin féllu betur inn í umhverfið en hvergi sé tekið fram í skipulagsskilmálum að ekki megi grasleggja þök.  Mikill trjágróður sé milli lóða og inni á landi Þrístiklu.  Byrgi hann nú þegar sýn milli lóða enda séu trén um 8-10 m há.  Muni fyrirhugað hús því ekki verða íþyngjandi á neinn hátt. 

Garðyrkja sé iðnaður í nútímasamfélagi.  Í skilmálum deiliskipulagsins sé sérstaklega tekið fram að í byggingunum geti m.a. verið pökkunarhús.  Telji leyfishafi það gott fordæmi að heimila byggingu ræktunarhúsa/þjónustuhúsa/geymslna sem séu í samræmi við deiliskipulag.  Þá sé skýringarmynd í samræmi við endanlegar teikningar.  Skýringarmynd segi ekkert til um stærðir heldur sé hugmynd um hvernig hentugt sé að byggja upp svæðið þar sem mikill landhalli sé.  Loks sé bent á að teikningar, sem kærandi vísi til að hafi verið hafnað, hafi átt við um annað erindi. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir staðsteyptu ræktunar- og gróðurhúsi að Lambhagavegi 29 í Reykjavík og lúta álitaefni málsins einkum að því hvort hæð byggingarinnar sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags. 

Kveðið er á um hámarkshæð bygginga í gr. 2.5 í gildandi deiliskipulagi svonefnds Lambhagareits, er tekur til umrædds svæðis.  Er þar tilgreint að mesta leyfilega mænishæð annarra húsa en íbúðarhúsa megi vera 7,0 m.  Á lóðum nr. 25, 27 og 29 sé heimilt að byggja kjallara undir atvinnuhúsnæði þar sem hæðarmunur í landi bjóði upp á slíkt og sé hámarkshæð, mæld frá botnplötu kjallara, heimiluð allt að 9,0 m. 

Fram kemur í byggingarlýsingu aðaluppdrátta hins kærða byggingarleyfis að byggingin sé „ein samhangandi bygging, kjallari og 1. hæð“.  Nánar tiltekið er norðurhluti byggingarinnar kjallari en suðurhlutinn er á einni hæð.  Eru byggingarhlutarnir samtengdir með stigagangi.  Samkvæmt samþykktum uppdrætti er vegghæð norðurhlutans yfir gólfplötu hvergi meiri en 4,5 m og mænishæð þar af leiðandi mest 5,5- 6,0 m.  Hæð frá gólfplötu suðurhluta byggingarinnar (kjallara) upp á þakplötu er 5,8 m og þar með innan þeirra marka sem deiliskipulagið áskilur.  Heildarhæð stigagangs milli byggingarhluta er hins vegar um eða yfir 11 m samkvæmt teikningum, mælt frá botnplötu að mæni.  Að auki er hæð frá tæknirými við stigagang undir suðurhluta byggingarinnar um eða yfir 11 m.  Víkur hin kærða ákvörðun að þessu leyti frá skilmálum skipulagsins hvað hámarkshæð húss varðar, en frávikið fellst að öllu leyti í rúmmálsaukningu neðanjarðar. 

Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir, skv. 1.tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er þó heimilað að víkja frá gildandi skipulagi við útgáfu byggingarleyfis þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðast í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.  Form, staðsetning og hæð umræddrar byggingar ofan jarðar er í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og verða grenndaráhrif hennar því þau sömu og vænta mátti.  Þá verður ekki séð að byggingarleyfið fari gegn skilmálum skipulagsins um landnotkun og landnýtingu.      

Með hliðsjón af framangreindu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

1/2012 Grundartangi

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2011 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2012, er barst nefndinni 6. s.m., kæra S, Kiðafelli í Kjós og R, Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit, birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. desember 2011, um breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á samþykki sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2011 á breytingu deiliskipulags Grundartanga, vestursvæðis.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda, en þar sem hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi og felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir voru ekki skilyrði til að kveða upp úrskurð um stöðvunarkröfu kærenda. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Hvalfjarðarsveit hinn 19. júní 2013. 

Málavextir:  Í júlí 2010 tók gildi Aðalskipulag Hvalfjarðarsveitar 2008-2020, en áður var í gildi á umræddu svæði Aðalskipulag Skilmannahrepps 2002-2014.  Meginbreytingin við gildistöku hins nýja aðalskipulags gagnvart byggð á Grundartanga varðaði vestursvæðið, en þar var gert ráð fyrir athafnasvæði og blandaðri landnotkun athafnasvæðis og hafnarsvæðis í stað iðnaðarsvæðis og blandaðrar landnotkunar iðnaðar- og hafnarsvæðis. 

Hinn 31. mars 2011 var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar 2008-2020 auglýst.  Tillagan fól í sér stækkun iðnaðarsvæðis Grundartanga um 6,9 ha til suðurs.  Samkvæmt greinargerð skipulagstillögunnar var markmið hennar að geta boðið fyrirtækjum með lítt mengandi iðnaðarstarfsemi aðgang að atvinnusvæðinu.  Aðalskipulagið, sem og tillaga til breytinga á því, þótti gefa tilefni til að breyta deiliskipulagsáætlun vestursvæðisins á Grundartanga og var því tillaga að breytingu á deiliskipulagi þess svæðis auglýst hinn 12. maí 2011, með athugasemdafresti til 30. júní s.á.  Samkvæmt greinargerð með tillögu að deiliskipulagsbreytingunni fól hún í sér að landnotkun samkvæmt gildandi deiliskipulagi á umræddu svæði yrði breytt úr iðnaðarsvæði og blandaðri landnotkun iðnaðar- og hafnarsvæðis í athafnasvæði og blandaða landnotkun athafna- og hafnarsvæðis.  Landnotkun á tæplega 7 ha svæði austast á skipulagssvæðinu yrði þó áfram skilgreint sem iðnaðarsvæði.  Jafnframt fól tillagan í sér fækkun lóða og breytingu á lóðastærðum og byggingarreitum á skipulagssvæðinu. 

Athugasemdir bárust, m.a. frá öðrum kæranda hinn 28. júní 2011.  Var þeim svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar, dags. 11. júlí s.á. 

Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hinn 12. júlí 2011 og  auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. október s.á.  Skipulagsstofnun barst deiliskipulagsbreytingin ásamt fylgiskjölum 1. nóvember 2011.  Vegna athugasemda stofnunarinnar við málsmeðferð skipulagstillögunnar var fyrrgreind gildistökuauglýsing afturkölluð með auglýsingu, birtri í B-deild Stjórnartíðinda 29. nóvember s.á.  Í kjölfarið var Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun send umhverfisskýrsla vegna deiliskipulagsbreytingarinnar til athugunar og umsagnar.  Að fengnum umsögnum var deiliskipulagsbreytingin tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar hinn 29. nóvember 2011 og afgreiðsla málsins frá 12. júlí staðfest.  Hinn 1. desember s.á. var Skipulagsstofnun send til yfirferðar deiliskipulagsbreytingin ásamt fylgigögnum. Tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 7. desember 2011 að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar.  Birtist sú auglýsing hinn 9. desember 2011 og öðlaðist breytingin þar með gildi. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að áhrifa mengunar gæti á jörðum þeirra og hafi það verið staðfest með rannsóknum vegna umhverfisvöktunar iðjuveranna á Grundartanga.  Flúorinnihald í beinösku sauðfjár kæranda að Kiðafelli hafi u.þ.b. þrefaldast samkvæmt niðurstöðum mælinga og sé komið yfir þau mörk að geta valdið vanhöldum.  Í beinösku hrossa kæranda að Kúludalsá hafi flúorinnihald mælst langt umfram áætlað landsmeðaltal.  Iðnaðaruppbyggingin hafi einnig veruleg neikvæð áhrif á ímynd og verðgildi jarða kærenda.  Með vísan til þessa sé ljóst að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og sé frekari stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga aðför að þeim hagsmunum. 

Kærendur vísa til þess að meðferð sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar á umdeildri breytingu deiliskipulags hafi ekki verið í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Samkvæmt auglýsingu hafi athugasemdafrestur runnið út 30. júní 2011.  Samkvæmt  ákvæði 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga hafi sveitarstjórn borið að senda gögn málsins til Skipulagsstofnunar fyrir 26. ágúst 2011 en stofnuninni hafi hins vegar fyrst borist deiliskipulagsbreytingin hinn 1. nóvember s.á.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar, dags. 7. desember 2011, komi fram að sveitarstjórn hafi sent inn skýringar á því af hverju ekki hafi verið unnt að halda tímafresti um afgreiðslu deiliskipulagsins samkvæmt skipulagslögum.  Í því felist viðurkenning á því að málsmeðferðin hafi ekki verið samkvæmt lögum.  Þá komi jafnframt fram í bréfinu að þar sem ekki sé liðið ár frá því að athugasemdafrestur vegna tillögunnar hafi runnið út telji Skipulagsstofnun að ekki þurfi að auglýsa hana að nýju.  Kærendur krefjist skýringar á niðurstöðu Skipulagsstofnunar hvað þetta varði þannig að ljóst sé við hvaða lagabókstaf stofnunin styðjist og hvort sú túlkun sé réttmæt.  Ljóst sé að Skipulagsstofnun sé ekki heimilt að styðjast við 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar sem um sé að ræða samþykkt deiliskipulag frá 12. júlí 2011 en ekki tillögu að deiliskipulagi. 

Dregið sé í efa að sveitarstjórn sé heimilt að auglýsa deiliskipulagstillögu á kynningartíma tillögu að breytingu á aðalskipulagi eins og gert hafi verið.  Annað hvort þurfi að afgreiða breytingu á aðalskipulagi fyrir auglýsingu á breytingu á tengdu deiliskipulagi eða auglýsa báðar tillögurnar samhliða eða í það minnsta afgreiða þær samhliða.  Með því að auglýsa deiliskipulagstillöguna á kynningartíma aðalskipulagstillögu taki sveitarstjórnin afstöðu til þess að aðalskipulagstillagan nái fram að ganga hvað sem öllum athugasemdum líði.  Málsmeðferðin sé ekki í samræmi við skipulagslög eða þann rétt sem almenningi sé tryggður til að hafa áhrif á gerð skipulags. 

Hvorki skipulagsnefnd né sveitarstjórn hafi samþykkt svör við athugasemdum við tillögu að breytingu á áðurnefndu deiliskipulagi með skýrum hætti.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Hvalfjarðarsveitar hinn 11. júlí 2011 hafi meirihluti nefndarinnar lagt fram bókun sem hafi m.a. falið í sér svör við innsendum athugasemdum.  Ekki komi fram að nefndin samþykki svörin við lokaafgreiðslu heldur aðeins að meirihluti nefndarinnar leggi til við sveitarstjórn að breytingin verði samþykkt.  Í fundargerð sveitarstjórnar frá fundi 12. júlí s.á. komi einungis fram að tillaga meirihluta nefndarinnar um samþykki breytingarinnar sé samþykkt.  Bent sé á að tillögur skipulagsnefndar, m.a. að svörum við innsendum athugasemdum, öðlist eigi gildi fyrr en sveitarstjórn staðfesti þær. 

Málsrök Hvalfjarðarsveitar:  Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefnd en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. 

Aðalkrafa um frávísun sé byggð á því að kærendur eigi ekki einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta, en þeir séu eigendur jarða í liðlega 4-5 km fjarlægð frá umþrættu deiliskipulagssvæði.  Kærendur hafi ekki sýnt fram á að gildistaka breytingarinnar muni hafa í för með sér skerta landnýtingu og verðfall jarða þeirra frá því sem verið hafi og umfram aðrar eignir í nágrenninu.  Sérstaklega hafi þó verið þörf á slíkri sönnunarfærslu vegna fjarlægðar jarða kærenda frá deiliskipulagssvæðinu og í ljósi þess að þegar sé rekin umfangsmikil stóriðja á Grundartanga. 

Með gagnályktun frá 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga geti misbrestur á því að fylgja átta vikna tímafresti 1. mgr. 42. gr. ekki verið ógildingarástæða ein og sér.  Um sé að ræða verklagsreglu um málshraða og brot gegn slíkri formreglu hafi að meginreglu ekki í för með sér ógildingu ákvörðunar í stjórnsýslurétti nema sérstaklega sé kveðið á um slíkt í lögum.  Þá þurfi formgallinn að teljast verulegur og hafa áhrif á efni ákvörðunar auk þess sem veigamikil rök mæli því ekki í mót að ákvörðun verði ógilt.  Ekkert af þessum skilyrðum sé fyrir hendi í fyrirliggjandi máli.  Sá dráttur sem hafi orðið á afgreiðslu deiliskipulagsins hafi auk þess átt rætur að rekja til þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar að staðfesta ekki breytingar á aðalskipulagi sem samþykktar hefðu verið í sveitarstjórn hinn 14. júní 2011, en afgreiðsla deiliskipulagstillögunnar hafi verið háð samsvarandi breytingum á aðalskipulagi.  Hinn 5. október 2011 hafi sveitarstjórn verið tilkynnt um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að staðfesta aðalskipulag  Hvalfjarðarsveitar en þá hafi hinn átta vikna frestur verið liðinn.  Þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar hafi því verið réttlætanlegar.

Breyting á deiliskipulagi hafi verið samþykkt af sveitarstjórn hinn 29. nóvember 2011, eða rösklega fjórum mánuðum eftir að athugasemdafresti tillögunnar hafi lokið.  Þá hafi liðlega ein og hálf vika liðið frá samþykkt sveitarstjórnar uns auglýsing hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. desember 2011.  Tímamarka hafi því verið gætt og verði deili-skipulagsbreytingin hvorki ógilt á grundvelli þágildandi né núgildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga.  Skipulagsstofnun taki öðrum þræði undir þessar röksemdir í bréfi sínu, dags. 7. desember 2011. 

Tillaga að breyttu aðalskipulagi hafi verið auglýst á undan tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Hafi það verið í fullu samræmi við orðalag og efni 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga þar sem komi fram að þegar auglýsa skuli tillögu að deiliskipulagi, sem kalli á samsvarandi breytingu á aðalskipulagi, skuli aðalskipulagsbreyting auglýst áður eða samhliða.  Þá liggi fyrir að umþrætt deiliskipulag hafi verið samþykkt eftir að samsvarandi breyting á aðalskipulagi var samþykkt hinn 5. október 2011. 

Sveitarstjórn hafi tekið tillögu að breytingu á umþrættu deiliskipulagi til umræðu á fundi 12. júlí 2011, að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar 11. júlí s.á., þar sem fyrir hafi legið fram komnar athugasemdir og bókuð svör nefndarinnar.  Á fundi sveitarstjórnar hafi verið tekin afstaða til athugasemda sem borist hefðu og hafi deiliskipulagsbreytingin verið samþykkt með breytingu á annarri málsgrein í kafla umhverfisskýrslu skipulagsins.  Með þeirri breytingu hafi birting deiliskipulagsbreytingar í B-deild Stjórnartíðinda verið samþykkt.  Hafi sveitarstjórn því samþykkt tillögu og bókanir meirihluta skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. júlí 2011, þ.m.t. svör við athugasemdum.  Með endanlegri afgreiðslu sveitarstjórnar hinn 29. nóvember 2011 hafi verið samþykkt að staðfesta fyrri afgreiðslu sveitarstjórnar frá 12. júlí s.á., varðandi breytingu á deiliskipulagi, athugasemdum og viðbótum við skilmála, og þeim er gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillöguna hafi verið svarað. 

Afgreiðsla sveitarstjórnar á málinu hafi því verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði.  Kærendur búa í námunda við deiliskipulagssvæðið, eða í um 4-5 kílómetra fjarlægð.  Telja verður að ákvörðun um landnotkun á skipulagssvæðinu geti haft áhrif á hagsmuni kærenda og verður kærumáli þessu því ekki vísað frá sökum skorts á kæruaðild. 

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan átta vikna frá því að frestur til athugasemda rann út.  Frestur til athugasemda við hina kærðu skipulagsákvörðun rann út hinn 30. júní 2011, samkvæmt auglýsingum skipulags- og byggingarfulltrúa sem birtust í Lögbirtingablaði og Morgunblaðinu 18. maí s.á.  Deiliskipulagsbreytingin ásamt fylgiskjölum barst Skipulagsstofnun eftir fyrrgreindan átta vikna frest, eða hinn 1. nóvember 2011.  Þessi annmarki, er lýtur að hraða og samfellu í meðferð máls, verður ekki talinn þess eðlis að hann hafi haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar eða réttarstöðu kærenda og verður ekki talinn, eins og hér stendur á, geta ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar. 

Fyrri afgreiðsla sveitarstjórnar á umræddri deiliskipulagsbreytingu átti sér stað hinn 12. júlí 2011 og hin síðari 29. nóvember s.á., að undangenginni afturköllun á fyrri gildistökuauglýsingu skipulagsins.  Nefndar ákvarðanir voru því teknar innan árs frá því að athugasemdafresti vegna tillögunnar lauk, svo sem áskilið var í þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga.  Í nefndu ákvæði var gert ráð fyrir að eftir samþykkt sveitarstjórnar á skipulagstillögu gæti komið til þess að málið yrði tekið fyrir að nýju til afgreiðslu hjá sveitarstjórn vegna lagfæringa í tilefni af athugasemdum Skipulagsstofnunar.  Var meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar eftir fyrri samþykkt hennar því í samræmi við nefnd fyrirmæli 42. gr. skipulagslaga. 

Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar var auglýst hinn 31. mars 2011 og tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hinn 12. maí s.á.  Sú tilhögun er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga þar sem segir að sé tillaga að deiliskipulagi ekki í samræmi við aðalskipulag skuli samsvarandi aðalskipulagsbreyting auglýst áður eða samhliða.  Þá verður ekki fallist á að sveitarstjórn beri að afgreiða slíkar tillögur samhliða.  Sveitarstjórn er það heimilt en ekki skylt skv. áður nefndri 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga, en þar kemur fram að sveitarstjórn geti að loknum auglýsingartíma samþykkt breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi samhliða. 

Á fundi sveitarstjórnar hinn 12. júlí 2011 var farið yfir fundargerð skipulags- og byggingarnefndar, dags. 11. sama mánaðar, og hún samþykkt.  Verður að skilja þá afgreiðslu svo að sveitarstjórn hafi gert afgreiðslu nefndarinnar að sinni, þ.á m. bókuð svör við fram komnum athugasemdum. 

Deiliskipulag skal vera í samræmi við aðalskipulag samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.  Eins og rakið hefur verið felur hin kærða skipulagsákvörðun í sér breytingar á landnotkun.  Þegar litið er til efnis aðalskipulags Hvalfjarðarsveitar hvað varðar landnotkun á vestursvæði Grundartanga, og breytingar á aðalskipulaginu sem staðfest var af Skipulagsstofnun 5. október 2011, er ljóst að hin kærða ákvörðun hefur í för með sér að deiliskipulag svæðisins verður í samræmi við gildandi aðalskipulag. 

Að öllu framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir annmarkar, hvorki að formi né efni, á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 29. nóvember 2011 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Grundartanga, vestursvæði. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson