Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

132/2023 Sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði

Með

Árið 2023, föstudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 132/2023, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 20. nóvember 2023 um að synja kröfu um tafarlausa stöðvun starfsemi fiskeldisstöðva Arctic Sea Farm ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2023, kæra Náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 20. nóvember 2023 að synja kröfu kæranda um tafarlausa stöðvun starfsemi fiskeldisstöðva Arctic Sea Farm hf. í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að úrskurðarnefndin staðfesti að kært athafnaleysi Matvælastofnunar sé ekki í samræmi við lög.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 12. desember 2023.

Málavextir: Hinn 27. ágúst 2019 gaf Matvælastofnun út rekstrarleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir kynslóðaskipt sjókvíaeldi á laxi með 7.800 tonna hámarkslífmassa í Patreksfirði og Tálknafirði og var gildistími leyfisins til 27. ágúst 2023. Leyfið var endurútgefið 15. júlí 2022 með óbreyttum gildistíma. Hinn 22. desember s.á. sótti félagið um endurnýjun rekstrarleyfisins en sú umsókn hefur ekki hlotið endanlega afgreiðslu Matvælastofnunar. Dráttur varð á afgreiðslu málsins vegna þeirrar afstöðu stofnunarinnar að vinna þyrfti fyrst áhættumat siglinga í Patreksfirði og Tálknafirði í samræmi við kröfu þess efnis í Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða 2022. Í október 2023 lagði félagið fram drög að áhættumati um siglingaöryggi fyrir Kvígindisdal og Hvannadal í Patreksfirði og Tálknafirði. Þá sótti félagið um bráðabirgðaleyfi 15. september 2023, en þeirri umsókn synjaði Matvælastofnun 30. október s.á. Hinn 3. nóvember 2023 auglýsti stofnunin svo drög að tillögu um endurnýjun rekstrarleyfis félagsins í Patreksfirði og Tálknafirði.

Með bréfi kæranda til Matvælastofnunar, dags. 27. október 2023, var þess krafist að stofnunin stöðvaði tafarlaust starfsemi Arctic Sea Farm ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði með vísan til 1. mgr. 21. gr. c í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 20. nóvember s.á., var þeirri kröfu samtakanna synjað. Byggðist niðurstaðan á sjónarmiðum um meðalhóf og réttmætar væntingar félagsins um að umsókn þess yrði afgreidd áður en leyfið rynni úr gildi. Einnig taldi stofnunin að málefnaleg sjónarmið væru ekki fyrir hendi til að stöðva starfsemi félagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir aðild sína að kærumáli þessu á 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt hinu síðarnefnda ákvæði skuli umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um sé að ræða ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátttökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi. Kærandi sé umhverfisverndarsamtök í skilningi ákvæðisins og kæran lúti að athafnaleysi Matvælastofnunar sem feli í sér brot gegn þátttökurétti almennings í tengslum við ákvörðun um veitingu leyfis til framkvæmdar sem fellur undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Athafnaleyfið felist í því að stöðva ekki leyfislausa starfsemi 7.800 tonna sjókvíaeldis, sem rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 71/2008 hafi ekki verið gefið út fyrir, og þá að undangenginni lögboðinni málsmeðferð með lögbundnum þátttökurétti almennings samkvæmt ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Samkvæmt 1. mgr. 21 gr. c í lögum nr. 71/2008 sé Matvælastofnun skylt að stöðva starfsemi fiskeldisstöðvar sem rekin sé án þess að rekstrarleyfi eða staðfest skráning skv. 5. gr. laganna sé í gildi. Fyrirmæli greinds lagaákvæðis sé ekki matskennt heldur felist í því skýr og fastmótuð skylda. Sjónarmið um meðalhóf eða réttmætar væntingar komi ekki til skoðunar nema við beitingu matskenndra valdheimilda, en hér sé ekki um það að ræða. Meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu þar sem löggjafinn hafi í þessu tilviki ekki fengið Matvælastofnun val um úrræði heldur lagt fyrir hana að stöðva leyfislausa starfsemi. Sá þáttur reglunnar að gæta hófs við beitingu þess úrræðis sem fyrir valinu verði geti ekki leitt til þess að stjórnvald láti alfarið hjá líða að beita viðkomandi úrræði. Þá hafi félagið ekki getað haft réttmætar væntingar til að stunda leyfisskylda starfsemi lengur en leyfi til hennar gilti.

Málsrök Arctic Sea Farm ehf.: Félagið gerir kröfu um frávísun málsins þar sem hin kærða ákvörðun sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þær ákvarðanir Matvælastofnunar sem séu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar séu taldar upp í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Nánar tiltekið sé um að ræða veitingu, endurskoðun og afturköllun rekstarleyfis, en ekki verði séð að kæruefni málsins lúti að framangreindum ákvörðunum. Hvað varði kæruheimild náttúruverndarsamtaka á grundvelli b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá lúti sú heimild eingöngu að ákvörðunum um útgáfu leyfis til matsskyldra framkvæmda. Þar sem kæru­heimildin sé í eðli sínu undantekning frá almennum reglum um aðild að stjórnsýslumáli beri að skýra hana þröngt og alls ekki rýmra en orðalag ákvæðisins gefi tilefni til. Hafi þetta verið staðfest í umfjöllun um 30. gr. í frumvarpi því er síðar hafi orðið að lögum nr. 111/2021, en þar segi m.a. að lagt sé til að „ákvarðanir um matsskyldu og ákvarðanir um veitingu leyfa til framkvæmda verði áfram kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en að ekki sé heimilt að kæra sérstaklega önnur álit eða niðurstöður í ferlinu, þar með ætlað brot á þátttökuréttindum almennings.“

Verði kærumálinu ekki vísað frá sé á því byggt að rekstrarleyfi félagsins teljist enn í gildi. Sé um það vísað til tölvubréfs starfsmanns Matvælastofnunar frá 6. september 2023 um að leyfið væri tæknilega séð enn í gildi þar sem það hafi staðið á hinu opinbera að endurnýja leyfið. Hafi þar verið orðuð almenn regla sem gildi um stjórnsýslu fiskeldis þess efnis að gildistími rekstrarleyfis framlengist sjálfkrafa ef stjórnvaldi hefur, af ástæðum sem rekja megi til þess, ekki tekist að afgreiða umsókn um endurnýjun rekstrarleyfis áður en gildistími þess renni út. Við þær aðstæður sé starfsemin ekki „án leyfis“ enda fari hún fram með samþykki Matvælastofnunar. Þar sem rekstrarleyfi félagsins sé þannig enn í gildi verði viðurlagaheimildum 1. mgr. 21. gr. c í lögum nr. 71/2008 ekki beitt um starfsemi félagsins. Þá vísar félagið til sjónarmiða um meðalhóf, réttmætar væntingar, óskráðrar meginreglu um vernd meiri hagsmuna fyrir minni og eðlis máls.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Þá teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, varðandi þær ákvarðanir og ætlað brot á þátttökurétti sem taldar eru upp með tæmandi hætti í stafliðum nefndrar 3. mgr. 4. gr. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, m.a. vegna ætlaðs brots á þátttökuréttindum almennings með athöfnum eða athafnaleysi eða annars ágalla sem kann að hafa verið á málsmeðferð, sbr. b-lið ákvæðisins.

Hin kærða ákvörðun varðar synjun Matvælastofnunar á kröfu kæranda um tafarlausa stöðvun starfsemi fiskeldisstöðva Arctic Sea Farm ehf. í Patreksfirði og Tálknafirði á grundvelli 1. mgr. 21. gr. c í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Er þannig ekki um að ræða ákvörðun sem veitir leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. fyrri hluta áðurnefnds b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Byggir kærandi þó ekki kæruaðild sína á þeim grundvelli heldur á því að meint athafnaleysi Matvælastofnunar feli í sér brot gegn þátttökurétti almennings í tengslum við ákvörðun um veitingu leyfis til framkvæmdar sem fellur undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. síðari hluta sama stafliðs.

Með lögum nr. 111/2021 var fallið frá sérstakri kæruheimild í áðurgildandi d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 vegna athafnar eða athafnaleysis stjórnvalda sem laut að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2021 sagði að frumvarpið gerði ráð fyrir að ákvarðanir Skipulags­stofnunar um matsskyldu framkvæmda og ákvarðanir leyfisveitenda um leyfisveitingu yrðu áfram kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en á þeim stigum málsins yrði hægt að koma að þeirri málsástæðu að þátttökuréttindi hafi ekki verið virt, til dæmis vegna athafnaleysis.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að kærandi njóti kæruaðildar á grundvelli b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Að fenginni þeirri niðurstöðu og þar sem ekki liggur fyrir að samtökin eigi einstaklegra hagsmuna að gæta umfram aðra í kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

120/2023 Strandvegur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 15. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 120/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjar frá 14. september 2023 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2023, er barst nefndinni 11. s.m., kæra A, B og C, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjar frá 14. september 2023 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað og að skipulagsfulltrúa verði gert að sinna sínu hlutverki af hlutleysi með hagsmuni allra í huga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 13. nóvember 2023.

Málsatvik og rök: Á lóð Strandvegar 51 í Vestmannaeyjum stendur steinsteypt bygging á einni hæð. Er lóðin á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, frá árinu 2015. Samkvæmt skipulaginu er heimilt að byggja á lóðinni tveggja hæða hús með möguleika á þriðju hæð að hluta. Á fundi umhverfis- og skipulagsráð 5. júní 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulaginu vegna umræddrar lóðar sem fólst í því að heimilt yrði að byggja þar fjögurra hæða hús með átta íbúðum. Samþykkti ráðið að auglýsa tillöguna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn á fundi hennar 22. júní 2023. Athugasemdir bárust frá kærendum, en að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. september s.á. Samþykkti ráðið breytingartillöguna sem og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum sem bárust á kynningartíma. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu ráðsins á fundi hennar 14. s.m.

Kærendur vísa til þess að þau hafi staðið í stappi við Vestmannaeyjabæ vegna fyrirhugaðrar stækkunar hússins að Strandvegi 51, en óánægja þeirra lúti að því hvernig staðið hafi verið að að bílastæðamálum. Lög séu brotin með því að leyfa byggingaraðila hússins að nýta sér hluta af annarri lóð fyrir bílastæði. Þá veki ekki síður furðu samkomulag sem sveitarfélagið hafi gert við lóðarréttarhafa að Strandvegi 51 um að sá aðili hafi rétt til að nota bílastæði á vesturlóð við Strandveg 50 frá kl. 17 síðdegis til kl. 9 að morgni. Gildistími samningsins sé til 13 ára frá undirritun hans 26. september 2022 og sé því spurt hvar íbúar fjölbýlishússins eigi að leggja bílum sínum eftir 26. september 2035. Í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði fyrir hverja 35 m2 og a.m.k. einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Eftir stækkun hússins á grundvelli deiliskipulagsbreytingarinnar þurfi húsið að Strandvegi 51 því að hafa a.m.k. 10 bílastæði auk eins bílastæðis fyrir hreyfihamlaða. Fjöldi bílastæða á svæðinu sé þegar of lítill. Sveitarfélagið sé að ganga erinda byggingaraðila á kostnað nágranna og væntanlegra kaupenda íbúða í húsinu.

Vestmannaeyjabær bendir á að tillaga hinna kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og við þá auglýsingu hafi kærendur komið á framfæri athugasemdum sínum. Í svarbréfi sveitarfélagsins við framkomnum athugasemdum kærenda hafi þeim verið bent á að lög og reglur geri ekki ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða. Brugðist hafi verið við ábendingum kærenda vegna bílastæða með því að koma fyrir fleiri bílastæðum, m.a. á nærliggjandi lóð við Strandveg 50. Ítarlega hafi verið fjallað um bílastæðamál í deiliskipulagsbreytingunni. Enn fremur hafi verið merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Bæjarstjórn hafi samþykkt tillöguna en hún hafi ekki enn verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og því ekki tekið gildi.

Niðurstaða: Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar 14. september 2023 var samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsbreyting er enn til meðferðar hjá Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

94/2023 Víðiholt

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. október 2022, um að samþykkja deiliskipulag íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. ágúst 2023, kærir íbúi við Asparholt 6, Garðabæ, ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. október 2022 um deiliskipulag íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi. Er þess krafist að sveitarfélagið svari ítrekuðum spurningum íbúa við Asparholt og að nýtt hverfi við Víðiholt rísi ekki hærra en kynnt hafi verið fyrir íbúum og samþykkt hafi verið af bæjaryfirvöldum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 28. ágúst 2023.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 4. nóvember 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi. Tillagan var auglýst frá 10. nóvember 2021 til og með 16. febrúar 2022 og bárust 15 erindi með athugasemdum. Skipulags­tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 27. september 2022 með til­teknum breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir íbúa. Var tillagan samþykkt með vísan til 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarráðs 4. október s.á. var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um deili­skipulag íbúðar­byggðar við Víðiholt á Álftanesi. Var deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi bæjar­stjórnar 6. s.m. og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. desember 2022.

Málsrök kæranda: Byggt er á því að nýtt hverfi, Víðiholt á Álftanesi, hafi ekki verið kynnt íbúum með raunsönnum hætti. Íbúar sem hagsmuna hafi átt að gæta hafi ítrekað óskað gagna um áhrif hverfisins, frá fasteignum þeirra séð, en án árangurs. Íbúar við Asparholt óttist að hverfið rísi ekki lægra en Asparholt, svo sem kynnt hafi verið, og hafi ítrekað farið fram á upplýsingar af því tilefni án þess að svör hafi borist frá fulltrúum skipulagsnefndar. Draga megi í efa að slíkt skeytingarleysi standist stjórnsýslulög.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá þar sem kæra verði að teljast vanreifuð og tilefnislaus. Við afgreiðslu deiliskipulags íbúðar­byggðar við Víðiholt hafi þess verið gætt að uppfylla málsmeðferðarreglur skipulagslaga varðandi kynningu gagnvart íbúum og að sú ákvörðun verði nú ekki borin undir úrskurðar­nefndina. Frekari formleg kynning á deiliskipulaginu sé ekki fyrirhuguð og kæranda megi vera það ljóst. Sveitar­félagið muni hins vegar halda áfram að upplýsa kæranda og svara fyrir­spurnum um fram­gang framkvæmda eins og gert hafi verið.

Í kæru sé farið fram á að fá svör við beiðni um hæðarmælingar. Sveitarfélagið hafi hlutast til um að láta gera mælingar á sökklum lóðanna við Víðiholt 1 og 2 og verði niðurstöðurnar sendar kæranda. Samkvæmt mælingum hafi húsin verið reist samkvæmt uppgefnum kótum á hæðar­blöðum. Ekki hafi legið fyrir yfirborðsmælingar af svæðinu óröskuðu.

Á hæðarblöðum komi fram að gólfkóti Víðiholts 1 sé 5,30 og gólfkóti Víðiholts 3 sé 5,50. Á aðaluppdráttum fjölbýlishúsanna við Asparholt 2, 4 og 6 komi fram gólfkóti húsanna nr. 2 og 4 sé 5,85 og húss nr. 6 sé 6,05. Augljóst sé að fjölbýlishúsin við Víðiholt 1 og 3 standi lægra en fjölbýlishúsin við Asparholt 2, 4 og 6. Samþykktar teikningar fjölbýlishúsanna við Víðiholt 1 og 3 hafi verið yfirfarnar að nýju með tilliti til deiliskipulagsskilmála og sé hæð bygginga innan leyfilegrar hámarkshæðar. Fjölbýlishúsin séu því byggð í samræmi við deiliskipulags­skilmála og í samræmi við heimildir hvað hæðarsetningar varði.

Ljóst sé að allar upplýsingar liggi fyrir um fyrirhugaðar framkvæmdir við uppbyggingu íbúðabyggðar við Víðiholt. Sveitarfélagið muni tryggja eftirlit með því að framkvæmdir verði í samræmi við samþykkta deiliskipulagsskilmála. Hvað varði kvartanir kæranda um að fulltrúar í skipulagsnefnd hafi ekki svarað mikilvægum spurningum varðandi kynningu og fram­kvæmdir sé bent á að það sé ekki hlutverk einstakra nefndarmanna að svara spurningum í nafni nefndarinnar. Þá sé óljóst hverjar þær spurningar séu. Endanlegar ákvarðanir í málinu séu á ábyrgð bæjarstjórnar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að íbúar við Asparholt 2, 4 og 6 hafi á öllum stigum málsins óskað eftir raunverulegri kynningu á nýju hverfi við Víðiholt og að notast yrði við myndir teknar af svölum þeirra. Sveitarfélagið hafi algjörlega hunsað að svara þeirri beiðni sem og tölvupósti með fyrirspurnum frá því í júlí 2023. Í greinargerð bæjarritara frá lok ágúst séu ekki skýr svör við spurningunum, þar á meðal varðandi hæðarsetningar á húsum og lóðum.

Niðurstaða: Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé málsmeðferð bæjaryfirvalda Garðabæjar vegna deiliskipulags sem tekur til hverfisins Víðiholts á Álftanesi sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar 6. október 2022. Lúta aðfinnslur kæranda fyrst og fremst að kynningu hins nýja hverfis og ónógum svörum bæjaryfirvalda við óskum íbúa um frekari upplýsingar í kjölfar gildistöku deiliskipulagsins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hið kærða deiliskipulag tók gildi með auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 13. desember 2022 og rann kærufrestur vegna þess út 16. janúar 2023, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var kærufrestur vegna deiliskipulagsins því liðinn er kæra í máli þessu barst nefndinni hinn 9. ágúst 2023. Verður því ekki tekin afstaða til lögmætis málsmeðferðar bæjaryfirvalda Garðabæjar vegna hins umdeilda deiliskipulags í máli þessu í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kæru­málum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samskipti og skoðanaskipti stjórnvalda og borgara koma einungis til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni í tengslum við ákvörðun sem kæranleg er til nefndarinnar og tekin er til efnismeðferðar.

Að öllu framangreindu virtu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem sætt getur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

104/2023 Hafnargata

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 19. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild. í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 104/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands frá 20. júlí 2023 um að hafna kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða vegna hávaða frá atvinnustarfsemi að Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2023, er barst nefndinni 24. s.m, kæra íbúar Bústaðavegar 24, Fáskrúðsfirði, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands frá 20. júlí 2023 um að hafna kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða vegna hávaða frá atvinnustarfsemi að Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands 18. september 2023.

Málavextir: Kærendur í máli þessu og Loðnuvinnslan hf. hafa um nokkurt skeið deilt um hávaða sem berst frá fiskvinnslustöð síðarnefnda aðilans. Hefur mál vegna þessa borist úrskurðarnefndinni áður, sbr. úrskurður nefndarinnar frá 11. febrúar 2022 í máli nr. 138/2021.

Á fundi Heilbrigðisnefndar Austurlands 19. janúar 2023 var bókað að hávaði mældist yfir viðmiðunarmörkum að næturlagi og var óskað eftir tímasettri úrbótaáætlun frá Loðnuvinnslunni. Framkvæmdaráð Heilbrigðiseftirlits Austurlands samþykkti þá áætlun 10. febrúar s.á. og var sú afgreiðsla staðfest á fundi heilbrigðisnefndar 16. mars s.á.

Með bréfi kærenda til Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dags. 5. júlí s.á., var farið fram á að eftirlitið gripi strax til aðgerða gegn ólögmætri hávaðamengun sem hlytist af starfsemi Loðnuvinnslunnar við Hafnargötu 32-36. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins svaraði kærendum með bréfi, dags. 20. s.m., þar sem fram kom að unnið væri eftir samþykktri úrbótaáætlun og því væru ekki forsendur til að grípa til frekari aðgerða að svo stöddu. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að Heilbrigðiseftirlit Austurslands beri jákvæðar skyldur við að tryggja að aðilar sem gerist brotlegir við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða verði að lúta skilvirku eftirliti og þurfa að þola íþyngjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem sinna lögbundnum eftirlitsskyldum á því sviði. Synjun stjórnvalda um að grípa til aðgerða þegar aðstæður gefi tilefni til teljist því  stjórnvaldsákvörðun.

Hljóðmengun hafi viðgengist í meira en sjö ár og hafi yfirvöld ekki aðhafst í málinu. Kærendur hafi átt í skriflegum samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Austurslands frá því í janúar 2022. Kærendur telji ljóst að fyrirhuguð framkvæmd við hljóðmön muni ekki draga úr hávaða á fullnægjandi hátt þegar tekið sé tillit til hljóðtoppa sem mælingar sveitarfélagsins sýni. Heilbrigðiseftirlitið hafi lengi vitað af óviðunandi hávaða en hafi ekki beitt þvingunarúrræðum.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Austurlands: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Austurlands er farið fram á frávísun málsins. Samkvæmt 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir séu stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna, reglugerða og heilbrigðissamþykkta kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða svar stofnunarinnar frá 20. júlí 2023 hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun. Kærendur hafi verið upplýstir um málsmeðferð heilbrigðiseftirlitsins, sem hafi falið í sér samþykkt úrbótaáætlunar og að byggt hafi verið á því að þeirri áætlun yrði framfylgt, þrátt fyrir að tafir hefðu orðið þar á. Þá hafi kærendur verið upplýstir um fyrirhugaðar rannsóknir á hljóðvist við fasteign kærenda. Í þessu hafi ekki falist stjórnvaldsákvörðun heldur upplýsingagjöf, eða í mesta lagi ákvörðun um málsmeðferð, þ.e. ákvörðun um að ráðast ekki í frekari málsmeðferð á þessum tímapunkti.

 Athugasemdir Loðnuvinnslunnar hf: Af hálfu leyfishafa er bent á að skv. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir fari kærufrestur eftir lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé mælt fyrir um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

Úrbótaáætlun leyfishafa hafi verið samþykkt af framkvæmdaráði Heilbrigðiseftirlits Austurlands 10. febrúar 2023. Sú stjórnvaldsákvörðun hafi síðar verið staðfest á 172. fundi Heilbrigðisnefndar Austurlands 16. mars 2023. Ljóst sé að kærendur hafi ekki látið sig umrædda stjórnvaldsákvörðun varða og ekki kært hana til úrskurðarnefndarinnar. Verði því að líta svo á að kærendur hafi fellt sig við úrbótaáætlunina. Kærufrestur vegna samþykktar áætlunarinnar sé löngu liðinn. Það að kærendur hafi síðar skrifað heilbrigðiseftirlitinu bréf, dags. 5. júlí 2023, sem hafi verið svarað 20. s.m., þar sem kærendur hafi verið upplýstir um að unnið væri eftir úrbótaáætluninni breyti engu í þessu sambandi og feli ekki í sér nýja stjórnvaldsákvörðun. Beri því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Þá sé bent á að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, m.a. þar sem vinnslutímabili leyfishafa sé nú lokið árið 2023 og muni vinnsla ekki hefjast að nýju fyrr en í byrjun árs 2024. Séu því engar forsendur fyrir kröfum kærenda í málinu.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í bréfi kærenda til Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dags. 5. júlí 2023, er gerð krafa um að gripið verði „strax til aðgerða gegn ólögmætri hávaðamengun sem hlýst af starfsemi [leyfishafa] við Hafnargötu […]. Loðnuvertíð er hafin og nauðsynlegt að [heilbrigðiseftirlitið] bregðist strax við og fullnýti allar heimildir sínar vegna þessa máls“. Er síðar í bréfinu vísað almennt til laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og sérstaklega til 12. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða, en sú grein fjallar um þvingunarúrræði. Verður því litið svo á að með bréfi kærenda hafi verið farið fram á beitingu þvingunarúrræða skv. lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 724/2008. Bréfi kærenda var svarað með bréfi, dags. 20. s.m., sem var undirritað af framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

Fjallað er um valdsvið og þvingunarúrræði í XVII. kafla laga nr. 7/1998. Í kaflanum eru heimildir til beitingar þvingunarúrræða bundnar við heilbrigðisnefndir eða Umhverfisstofnun. Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 724/2008 fer heilbrigðisnefnd með beitingu þvingunarúrræða.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 7/1998 getur heilbrigðisnefnd falið framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits eða tilteknum heilbrigðisfulltrúa afgreiðslu einstakra mála í tilteknum málaflokkum sem undir heilbrigðisnefnd heyra og henni er ætlað að sinna samkvæmt lögum og reglugerðum. Heimilt er að kveða á um slíkt framsal heilbrigðisnefndar eftir atvikum í samstarfssamningi, í samþykktum um heilbrigðiseftirlit á hverju eftirlitssvæði eða í sérstakri samþykkt sem heilbrigðisnefnd samþykkir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda.

Hinn 7. mars 2022 birtist auglýsing nr. 272/2022 í B-deild Stjórnartíðinda um staðfestingu stofnsamnings fyrir byggðasamlagið Heilbrigðiseftirlit Austurlands bs. Í auglýsingunni kom fram að byggðasamlagið væri stofnað skv. 94. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og að tilgangur þess væri að annast lögbundin hlutverk heilbrigðisnefndar í samræmi við lög nr. 7/1998. Í 12. gr. stofnsamningsins segir að framkvæmdastjóri byggðasamlagsins skuli sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt. Þá segir í 13. gr. að hann skuli framfylgja ákvörðunum sem teknar eru á fundum stjórnar. Í sömu grein er fjallað um framsal valds til ákvörðunartöku til framkvæmdastjórans. Þar er engin heimild sem varðar ákvarðanir um beitingu þvingunarúrræða. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að Heilbrigðisnefnd Austurlands, þ.e. stjórn Heilbrigðiseftirlits Austurlands bs. skv. 1. mgr. 3. gr. stofnsamningsins, hafi tekið ákvörðun um synjun um beitingu þvingunarúrræða, sem framkvæmdastjóra væri falið að framfylgja.

Samkvæmt framangreindu er ekki til að dreifa í máli þessu gildri ákvörðun sem bindur enda á mál, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður máli þessu vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

108/2023 Njálsgata

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 3. október, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 108/2023, kæra á afgreiðslu skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar varðandi not kæranda af hluta lóðar sinnar fyrir bílastæði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Njálsgötu 54, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar sem fram komi í tölvupósti frá sveitarfélaginu 22. ágúst 2023 um að synja honum um að nýta bílastæði á lóð Njálsgötu 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu um frestun réttaráhrifa. Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. september 2023.

Málsatvik og rök: Á lóðinni Njálsgötu 54 stendur einbýlishús sem verið hefur í eigu kæranda í á þriðja áratug. Í greinargerð á uppdrætti gildandi deiliskipulags fyrir umrætt svæði frá árinu 2013 kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum innan lóða.

Fyrir hönd byggingarfulltrúans í Reykjavík var kæranda 13. júlí 2023 sent bréf með yfirskriftinni „Efni: Njálsgata 54 – Óleyfisframkvæmd“. Kom þar fram að ábending hefði borist þess efnis að búið væri að útbúa innkeyrslu frá Njálsgötu inn á lóð nr. 54 við götuna, ásamt því að gulmerkja kant og almenn bílastæði í götu. Kæranda var gert að láta af akstri inn á lóðina og lagningu bifreiða og ennfremur að loka fyrir innakstur. Var kæranda veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum sem hann og gerði. Þá kom fram að yrði þessum tilmælum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum  laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem gæti falið sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða mælt fyrir um dagsektir.

Hinn 22. ágúst 2023 barst kæranda tölvupóstur frá starfsmanni á skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar þess efnis að ítrekuð væri sú krafa að hann léti af akstri inn á lóðina og var um leið tilkynnt að borgaryfirvöld hygðust fjarlægja gulmerkingar af götunni og gangstéttarkanti. Um leið var leiðbeint um að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar- umhverfis og auðlindamála ásamt því að hann gæti kannað hjá skipulagsfulltrúanum í Reykjavík hvort unnt væri að breyta deiliskipulagi og fá bílastæðin með því samþykkt.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi allt frá árinu 1989 nýtt hluta lóðar sinnar sem bílastæði. Reykjavíkurborg hafi ekki gert við það athugasemdir og starfsmenn borgarinnar gulmerkt kant gangstéttar fyrir framan bílastæðið, sem hann hafi þó í fyrstu merkt að eigin frumkvæði, og með því viðurkennt rétt kæranda til að nýta umræddan lóðarpart með þessum hætti.

Borgaryfirvöld vísa til þess að ekki virðist um það deilt að tvö bílastæði á lóð nr. 54 við Njálsgötu hafi aldrei verið samþykkt af byggingar- eða skipulagsyfirvöldum borgarinnar. Þá sé fyrirkomulag lóðarinnar ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, sbr. gr. 4.3.1. og 4.4.4. í byggingarreglugerð. Ljóst sé að óheimilt sé að leggja bifreiðum inn á einkalóð ef skipulag geri ekki ráð fyrir því. Staðsetning bílastæðanna á lóðinni sé á þann veg að tvö skáhallandi almenningsstæði í götu séu ónothæf.

Niðurstaða: Fjallað er um hlutverk byggingarfulltrúa sveitarfélaga í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og felst það m.a. í því að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi. Annast þeir eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna, þ.e. byggingarleyfisskyldum framkvæmdum sem ekki heyra undir Húsnæðis og mannvirkja­stofnun, en sveitarstjórn ber ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010.  Samkvæmt 55. og 56. gr. laganna hafa þeir, og eftir atvikum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, heimildir til að beita þvingunarúrræðum.

Líkt og fram kemur í málavaxtalýsingu var kæranda með bréfi dags. 13. júlí 2023 gert að láta af akstri inn á lóð sína og tilkynnt um hugsanlega beitingu þvingunarúrræða. Var og vísað til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem kveðið er á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur og sem er um flest samhljóða 56. gr. laga nr. 160/2010. Áskorun skv. 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga er liður í undirbúningi mögulegrar ákvörðunar um beitingu þvingunarúrræða skv. 56. gr. en felur ekki í sér lokaákvörðun um beitingu þeirra. Verður sú ákvörðun því ekki ein og sér borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hin kærða afgreiðsla í máli þessu var í formi tölvupósts frá starfsmanni skrifstofu stjórnsýslu og gæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sem ekki verður jafnað við afgreiðslu valdbærs stjórnvalds.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að tekin hafi verið ákvörðun af byggingar­fulltrúanum í Reykjavík um hugsanlega beitingu þvingunar­úrræða í sam­ræmi við ákvæði 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Liggur því ekki fyrir nein kæranleg ákvörðun í málinu sem bindur enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

105/2023 Auglýsingaskilti

Með

Árið 2023, föstudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2023, kæra á ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um að staðsetja auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan lóðina Nesveg 113.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, framsendi innviðaráðuneytið þann hluta kærumála eigenda, Nesvegi 113, Seltjarnarnesi, er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlis fyrir framan hús kærenda.

Málsatvik og rök: Með kærum, dags. 22. apríl og 11. maí 2022, kærðu íbúar að Nesvegi 113 ákvörðun Seltjarnarnesbæjar um uppsetningu biðskýlis strætisvagna við nefnda lóð kærenda. Á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 framsendi úrskurðarnefndin kærumálin til innviðaráðuneytisins með bréfi, dags. 5. september 2022. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, framsendi ráðuneytið úrskurðarnefndinni þann hluta kærumálsins er varðaði auglýsingaskilti á hlið biðskýlisins þar sem sá hluti málsins félli undir valdsvið nefndarinnar, sbr. ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Kærendur benda á að um sé að ræða svonefnt LED ljósaskilti, sem muni blikka inn um svefnherbergisglugga þeirra. Sveitarfélagið vísaði til þess að ekki væri um auglýsingaskilti að ræða heldur nýtt strætóskýli í stað eldra skýlis sem staðið hafi skammt frá. Þá væri uppsetning skýlisins eða auglýsinga á því ekki í andstöðu við reglur sveitarfélagsins um auglýsingaskilti.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki falla skilti undir gildissvið laganna. Þá kemur fram í 8. tl. 1. mgr. 60. gr. laganna að kveða skuli á um stað­setningu, gerð og frágang skilta í reglugerð auk ákvæða um hvaða skilti skuli háð byggingar­leyfi. Í 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er kveðið á um að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir öllum frístandandi skiltum og skiltum á byggingum sem eru yfir 1,5 m2 að flatarmáli. Undanþegin eru þó skilti allt að 2,0 m2 að stærð sem ætlað er að standa skemur en tvær vikur sem og skilti sem sett eru upp samkvæmt ákvæðum umferðarlaga. Samkvæmt framangreindu ákvæði eru skilti einungis byggingarleyfisskyld þegar þau eru annað hvort frístandandi eða á byggingum.

Í 21. tl. gr. 1.2.1. byggingarreglugerðar er bygging skilgreind sem hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum, og önnur sambærileg mannvirki. Biðskýli eru mannvirki sem þjóna almenningssamgöngum og falla sem slík undir skilgreiningu hugtaksins vegur í 8. tl. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007. Þar er hugtakið vegur skilgreint sem „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“ Verður biðskýli því ekki talið falla undir hugtakið byggingu í skilningi framangreinds ákvæðis byggingarreglugerðar. Þá verður skiltið ekki talið frístandandi enda er það ein hlið á hinu umdeilda biðskýli sem útbúin er með LED skjá.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að hið umdeilda auglýsingaskilti falli ekki undir ákvæði 2. mgr. gr. 2.5.1. byggingarreglugerðar um byggingarleyfisskyldu. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í málinu sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

93/2023 Ólafsdalur

Með

 

Árið 2023, föstudaginn 8. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 93/2023, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 28. febrúar 2023 á erindi Minjastofnunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gróðursetningu í Ólafsdal í Gilsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Ólafsdalsfélagið, allar athafnir og athafnaleysi og/eða aðra ágalla á málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna tilkynningar Minjastofnunar um fyrirhugaðar skógræktarframkvæmdir í Ólafsdal sem kunni að vera háðar umhverfismati í samræmi við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Er þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir Skipulagsstofnun að fylgja ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana, rannsaki málið og taki í kjölfarið kæranlega ákvörðun um matsskyldu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 31. september 2023.

Málavextir: Árið 2015 afsalaði ríkissjóður 57,4 ha landspildu úr jörðinni Ólafsdal í Gilsfirði til Minjaverndar. Auk þess var samið um að Minjavernd hefði umsjón með jörðinni sem er alls 328 ha. Hinn 18. mars 2022 lagði Minjavernd fram nýtt deiliskipulag fyrir Ólafsdal þar sem m.a. var lagt upp með að stækka deiliskipulagssvæðið til að koma fyrir merktum gönguleiðum um dalinn, áningarstöðum með upplýsingaskiltum, prílum yfir girðingu og skógrækt.

Við afgreiðslu Skipulagsstofnunar á deiliskipulagi fyrir Ólafsdal, dags. 16. júní 2022, benti stofnunin sveitarstjórn Dalabyggðar á að fyrirhuguð skógrækt á verndarsvæði væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum sbr. lið 1.04 í 1. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. einnig 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 6. janúar 2023, óskaði Minjavernd eftir því að Skipulagsstofnun legði mat á hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirætlana um að koma fyrir lágvöxnum runnum á stökum stað í Ólafsdal og hugsanlega ögn þéttari utan til í dalnum. Skipulagsstofnun svaraði erindinu með tölvupósti 28. s.m. þar sem fram kom m.a. að með hliðsjón af lýsingu Minjaverndar á áformum væri ólíklegt að um skógrækt væri að ræða í skilningi laga nr. 111/2021 og að ef áformin fælu ekki í sér ræktun á skógi, sbr. skilgreiningu á skógi samkvæmt lögum nr. 33/2019, þá féllu þau ekki undir lög nr. 111/2021.

Ólafsdalsfélagið hafði samband við Skipulagsstofnun með tölvupósti 27. febrúar 2023 og kom á framfæri afstöðu félagsins til skógræktar í Ólafsdal ásamt gögnum því tengdu. Sendi félagið frekari gögn með tölvupósti 9. mars s.á. auk þess sem krafist var að áform Minjaverndar færu í ítarlegt umhverfismat. Skipulagsstofnun svaraði félaginu með tölvupósti 20. mars s.á. þar sem fram kom að erindi Minjaverndar hefði verið svarað 28. febrúar 2023. Þá kom fram að þar sem fyrir lægi ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu þá væri málið ekki lengur til meðferðar  auk þess sem það sem það félli ekki undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Ólafsdalsfélagið óskaði eftir afriti af erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar sem og upplýsingum um kærurétt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með tölvupósti 23. mars 2023. Var erindi félagsins svarað samdægurs með tölvupósti þar sem fram kom meðal annars að stofnunin hefði ekki kveðið upp neinn úrskurð í málinu heldur hafi Minjavernd verið leiðbeint um það hvort áformin féllu undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þar af leiðandi væri ekki hægt að kæra afgreiðslu Skipulagsstofnunar á málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála væru úr garði gerð. Aftur á móti yrði hægt að kæra framkvæmdaleyfi fyrir umræddum áformum kæmi til útgáfu slíks leyfis af hálfu sveitarfélagsins og krefjast ógildingar á því.

 Málsrök kæranda: Bent er á að málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi verið verulega ábótavant og fari ekki einvörðungu gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins, þar með talið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur hafi stofnunin einnig brotið gegn þáttökuréttindum almennings sem hafi haft þær afleiðingar að réttur kæranda til að koma að athugasemdum þegar ákvörðun um matskyldu skyldi undirbúin hafi verið sniðgengin. Hefði kærandi getað nýtt þennan rétt hefði hann leiðrétt rangfærslur og lýsingu Minjaverndar á fyrirhugaðri framkvæmd sem hefði haft áhrif á rannsókn Skipulagsstofnunar. Þá hafi réttur til að kæra niðurstöðu og ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu orðið óvirkur þar sem stofnunin hafi ekki tekið kæranlega ákvörðun.

Þar sem Skipulagsstofnun hafi brotið gegn þáttökuréttindum almennings og hvorki fylgt þeim ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem gildi um tilkynntar framkvæmdir sem kunni að vera háðar umhverfismati, né tekið ákvörðun um matsskyldu fyrirhugaðra framkvæmda Minjaverndar sem kærandi geti kært til úrskurðarnefndarinnar sé þess krafist að úrskurðarnefndin leggi fyrir stofnunina að fylgja ákvæðum tilvitnaðra laga, rannsaki málið og taki í kjölfarið kæranlega ákvörðun um matsskyldu.

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Bent er á að ekki fáist séð hvernig brotið sé á þáttökuréttindum Ólafsdalsfélagsins. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið matsskylduákvörðun, enda hafi erindi Minjaverndar ekki verið beiðni um matsskylduákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Stofnunin hafi verið að svara fyrirspurn og slíkt svar sé ekki stjórnvaldsákvörðun. Stofnuninni hafi ekki borið að framkvæma ítarlega rannsókn áður en hún svaraði erindinu og henni hafi ekki borið skylda að lögum að leita eftir sjónarmiðum Ólafsdalsfélagsins áður en erindið var afgreitt. Í tölvupósti Skipulagsstofnunar til Ólafsdalsfélagsins, dags. 23. mars 2023 hafi verið farið betur ofan í skilgreiningu á skógrækt og afstaða stofnunarinnar útskýrð frekar. Ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um drátt á afgreiðslu máls eigi ekki við í málinu. Ekki sé hægt að líta svo á að stofnunin hafi dregið á langinn eða sýnt athafnaleysi að taka matsskylduákvörðun, enda telji stofnunin að framkvæmd Minjaverndar sé ekki skógrækt í skilningi laga nr. 111/2021 og falli því ekki undir lögin. Af því leiði að stofnunin hafi ekki forsendur til  að taka matsskylduákvörðun. Af því leiði að stofnunin telji að vísa beri kæru Ólafsdalsfélagsins frá úrskurðarnefndinni.

 Málsrök Minjaverndar: Minjavernd bendir á að með málinu sé gerð tilraun til að endurvekja mál sem þegar hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. mál nr. 40/2023. Þess sé aðallega krafist að kærunni sé vísað frá en til vara að kröfum kæranda verði hafnað. Kæran hafi borist að liðnum kærufresti þar sem kærufrestur til nefndarinnar sé skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þáttökurétti almennings. Fyrir liggi að kæranda hafi verið tilkynnt um afstöðu Skipulagsstofnunar 20. mars 2023 og sú dagsetning sé það tímamark sem beri að miða upphaf kærufrests við. Kæran hafi hins vegar ekki verið lögð fram fyrr en 2. ágúst s.á., rúmum fjórum mánuðum eftir að kæranda hafi orðið kunnugt um afstöðu stofnunarinnar. Aðildarhæfi kæranda liggi ekki fyrir eða hvort ákvörðun um að leita til úrskurðarnefndarinnar hafi verið tekin í samræmi við samþykktir félagsins. Undanþáguskilyrði 3. og 4. gr. laga nr. 130/2011 séu ekki uppfyllt og kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann njóti kæruaðildar til nefndarinnar. Minjavernd, sem framkvæmdaraðili, hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaðar framkvæmdir með erindi, dags. 6. janúar 2023, í samræmi við tilmæli stofnunarinnar. Meðfylgjandi tilkynningunni hafi verið öll helstu gögn vegna fyrirhugaðra framkvæmda auk þess sem ráða megi af gögnum kærumálsins, sem og máls nr. 40/2023, að kærandi hafi verið í samskiptum við stofnunina, sent henni frekari gögn og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Verði því að telja að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið fullnægjandi gögn svo unnt væri að leggja mat á og taka afstöðu til þess hvort fyrirhuguð áform féllu undir gildissvið laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og þar með hvort beina ætti áformunum í ferli sem á við um matskylduákvarðanir stofnunarinnar. Það mat sæti ekki endurskoðun af hálfu úrskurðarnefndarinnar. Sjónarmið um þáttökurétt almennings komi því ekki til álita auk þess sem ekki verði litið framhjá því að gögn málsins beri með sér að kærandi hafi á öllum stigum málsmeðferðarinnar, bæði við deiliskipulagsbreytingar og við meðferð hjá Skipulagsstofnun, komið á framfæri athugasemdum, gögnum og sjónarmiðum sínum.

Niðurstaða: Tilefni kæru þessara er afgreiðsla Skipulagsstofnunar á fyrirspurn Minjaverndar um hvort fara þyrfti fram mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við gróðursetningu í Ólafsdal. Í kærunni kemur fram að kærðar séu allar athafnir og athafnaleysi og/eða annar ágalli á málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna tilkynningar Minjaverndar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Í 30. gr. laga nr. 111/2021 er málskot til úrskurðarnefndarinnar einskorðað við ákvarðanir Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd skuli háð umhverfismati skv. 20. gr. laganna og ákvarðanir leyfisveitanda um veitingu leyfis til framkvæmda, nema sérlög kveði á um annað.

 Fyrir liggur í málinu að erindi Minjaverndar til Skipulagsstofnunar var ekki beiðni um matsskylduákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021. Aðrar ákvarðanir, athafnir eða athafnaleysi Skipulagsstofnunar eru ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Þá fellur málsmeðferð stofnunarinnar, sem ekki líkur með ákvörðun á grundvelli 20. gr. laga nr. 111/2021, ekki undir endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan greinir er verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

106/2023 Mjólkárlína 2

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 6. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 106/2023, kæra á ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. júlí 2023 um að samþykkja tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 31. ágúst 2023, er barst nefndinni 3. september s.á., kærir íbúi í Ísafjarðarbæ, og 2 handhafar rækjuveiðiheimilda í Arnarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. júlí 2023 að samþykkja tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að nýtt umhverfismat fari fram.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar 12. september 2022 lagði Landsnet hf. fram tillögu að breytingu Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008–2020 vegna Mjólkárlínu 2 í Arnarfirði, þ.e. þess hluta sem liggur innan marka Ísafjarðarbæjar. Fól tillagan í sér áform um að lagður yrði jarðstrengur frá Mjólká að Hrafnseyri og þaðan með sæstreng yfir Arnarfjörð í átt að Bíldudal. Samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að hefja málsmeðferð í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 15. september 2022 var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt. Að lokinni frekari málsmeðferð og auglýsingu tillögunnar var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 11. júlí 2023. Samþykkti nefndin að fela skipulagsfulltrúa að svara umsögnum og athugasemdum og að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillöguna óbreytta með vísan til 32. gr. skipulagslaga. Í fjarveru bæjarstjórnar tók bæjarráð málið fyrir á fundi sínum 17. s.m. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar.

Kærendur telja að aðalskipulagsbreytingin gangi gegn 12. gr stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf. Vegna skammtíma hagsmuna Landsnets hafi ekki allir valkostir um lagnaleið yfir Arnarfjörð verið metnir. Þrír aðrir möguleikar um lagnaleið séu til staðar sem hafi minni áhrif á aðra nýtingu fjarðarins og væru sennilega álíka góðir kostir og sá sem Landsnet hafi kynnt, en þeir hafi ekki verið skoðaðir í valkostagreiningu. Fyrirhuguð lagnaleið muni skerða mikilvægasta veiðisvæði rækjusjómanna í firðinum um a.m.k. 11 km2 en ef strengurinn yrði lagði samhliða öðrum af þeim ljósleiðurum sem nú þveri fjörðinn yrði skerðingin mun minni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Hin kærða ákvörðun felur í sér samþykki á tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008–2020 en samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka þá ákvörðun til endurskoðunar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

76/2023 Hvammsvirkjun

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 31. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 14. júlí 2022 um að veita Landsvirkjun leyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá og byggingu mannvirkja henni tengdri.  

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúrugrið, Náttúruverndarsamtök Íslands og NASF á Íslandi ákvörðun Fiskistofu frá 14. júlí 2022, þar sem stofnunin heimilaði Landsvirkjun, fyrir sitt leyti, framkvæmdir við fyrirhugaða Hvammsvirkjun og byggingu mannvirkja henni tengdri, með nánari skilyrðum.

Málsatvik og rök: Um árabil hefur verið unnið að undirbúningi Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Hefur framkvæmdin sætt mati á umhverfisáhrifum, sbr. m.a. úrskurði Skipulagsstofnunar frá 19. ágúst 2003 og umhverfisráðuneytisins frá 27. apríl 2004 jafnframt því að áhrif hennar á landslag og ásýnd lands sem og ferðaþjónustu og útivist hafa verið endurskoðuð og má um það vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 15. febrúar 2018 í sameinuðum málum nr. 10, 11 og 15/2016.

Hinn 14. júlí 2022 féllst Fiskistofa á umsókn Landsvirkjunar vegna framkvæmdarinnar skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Var leyfið veitt með nánar tilgreindum skilyrðum og felur í sér heimild fyrir framkvæmdum við fyrirhugaða virkjun og byggingu mannvirkja henni tengdri. Hinn 21. júlí s.á. birti Fiskistofa auglýsingu á heimasíðu sinni um samþykkt leyfisins og veitti leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest. Tekið var fram að hann næmi einum mánuði frá birtingu auglýsingarinnar.

Um kæruheimild vísa kærendur til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 eins og lagagreininni var breytt með 1. gr. laga nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins, en í skýringum með frumvarpi því sem varð að þeim lögum hafi komið fram að gert væri ráð fyrir að allar stjórnvaldsákvarðanir sem lytu að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa vegna framkvæmda sem féllu undir lög um mat á umhverfisáhrifum yrðu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Um kæruaðild vísa kærendur til 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en kærendur séu þrenn félög á landsvísu sem hafi verndun náttúru og lífríkis á stefnuskrá sinni. Um upphaf kærufrests vísa þeir til 4. mgr. 13. gr. áðurgildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, nú 4. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en þar greinir að leyfisveitandi skuli tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína ásamt því að gera leyfi og greinargerð með því aðgengilegt almenningi á netinu innan tveggja vikna, en þessa hafi ekki verið gætt af hálfu Fiskistofu að því fram kemur í kæru. Þar sem hið kærða leyfi hafi ekki verið birt opinberlega verði að líta svo á að kærufrestur sé ekki hafinn og kæra hafi því borist innan kærufrests. Þá er því haldið fram í kærunni að hið kærða leyfi sé haldið ýmsum annmörkum, m.a. að rannsókn og undirbúningi leyfisveitingar hafi verið áfátt, leyfið standist ekki ákvæði laga er varði umhverfismat né að það samrýmist fyrirmælum laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Úrskurðarnefndinni bárust athugasemdir Fiskistofu og Landsvirkjunar í tilefni af kæru.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 14. júlí 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 2. máls.1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar. Hinn 21. júlí 2022 birti Fiskistofa auglýsingu á heimasíðu sinni um að stofnunin hefði veitt hið kærða leyfi til Landsvirkjunar. Þar kom fram að heimilt væri að kæra útgáfu leyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur einn mánuður. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 26. júní 2023, þ.e. rúmum 10 mánuðum eftir að þeim fresti lauk.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Engin rök hafa verið færð af hálfu kærenda að þeir eigi slíka hagsmuni. Til þess er þá að líta að umhverfisverndar, útivistar- og hagsmunasamtökum er játuð aðild að kærumálum fyrir nefndinni að nánari skilyrðum uppfylltum sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b-lið málsgreinarinnar. Lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Verður því í máli þessu að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 um leyfisveitingu vegna framkvæmdar.

Í c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2.–3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Í skýringum við 3. gr. með frumvarpi því er varð að lögum nr. 111/2021 var leitast við að afmarka hugtakið „leyfi til framkvæmda“ nánar en var í eldri lögum nr. 106/2000. Þar var greint frá því að fram til þessa hafi öll leyfi sem afla þyrfti í tengslum við slíka framkvæmd, verið álitin leyfi til framkvæmda, en þau hafi ekki endilega tengst umhverfismati. Í athugasemdum sem komu fram í frumvarpinu var lagt til að hugtakið yrði bundið við leyfi sem veittu heimild til að hefja þá framkvæmd og/eða starfsemi sem félli undir lögin. Þessi skilningur var þó ekki auðsær af því orðalagi sem lagt var til og náði fram að ganga, þ.e. að leyfisskyld framkvæmd þyrfti að varða „meginþætti framkvæmdar“ svo það teldist leyfi til framkvæmda, sbr. 5. tl. 3. gr. laganna. Í athugasemdunum voru í dæmaskyni nefnd leyfi sem ætlunin var að teldust ekki til slíkra leyfa og var þar m.a. nefnt leyfi Fiskistofu til mannvirkjagerðar í veiðivötnum samkvæmt lögum nr. 61/2006.

Oftlega varðar leyfisveiting Fiskistofu minni háttar framkvæmdir, t.d. efnistöku í ám og lækjum, bakkavörn eða ræsisgerð sem geta verið leyfisskyldar einar sér, en geta einnig verið þáttur í stærri framkvæmd. Heimild 33. gr. laga nr. 61/2006 er rúmt afmörkuð þannig að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif getur haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, er háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja slíkum umsóknum og er þar á meðal umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns. Gert er ráð fyrir því að Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti auk þess gera líffræðilega úttekt á veiðivatni. Í skýringum með greininni segir að reglur hennar feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar, sem unnt sé að krefjast, geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annara umsagnaraðila. Lagagreinin er í V. kafla laganna og virðist tilgangur hennar með þessu að fram fari vegið lögbundið mat á því hvort framkvæmd skuli heimiluð, en jafnframt er með matinu tryggð sönnun um tjón af völdum framkvæmdar sem getur átt undir bótaákvæði VII. kafla laganna.

Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 14. júlí 2022, heimilaði Fiskistofa fyrir sitt leyti Hvammsvirkjun og framkvæmdir tengdar henni, en um leið var tekið fram að ekki sé með henni veitt leyfi til gerðar fiskvegar. Samtímis var gerð bending um að skylt væri að kosta gerð og viðhald fiskvegar yrði veitt heimild til að reisa virkjunina samkvæmt öðrum lögum. Þau skilyrði sem sett voru með leyfinu fyrir framkvæmdinni voru byggð á heimildum sem stöfuðu frá ferli umhverfismats samkvæmt lögum nr. 106/2000. Verður með hliðsjón af því að telja hið kærða leyfi til leyfis til framkvæmda skv. lögum nr. 106/2000, sem skylt hafi verið að birta opinberlega með auglýsingu, sbr. 4. mgr. 13. gr. laganna. Í skyldu til opinberrar birtingar auglýsingar um útgáfu leyfis felst að viðkomandi upplýsingar skuli koma fyrir augu almennings eftir leiðum sem líklegt sé að nái til sem flestra er gætu talið sig málið varða, án þess að upplýsinganna þurfi að leita sérstaklega. Getur fréttatilkynning á heimasíðu stofnunar naumast fullnægt þessu og breytir engu í þeim efnum þótt finna megi sérákvæði þar um í öðrum lagabálkum, sbr. t.d. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er mælt fyrir um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Þar er þó einnig tekið fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í því felst að almenningi telst að lögum vera kunnugt um slíkar ákvarðanir frá því að þær hafa verið birtar. Tilgangur fyrirmæla um opinbera birtingu ákvarðana er að tryggja möguleika almennings til að kynna sér efni ákvarðana og eftir atvikum skjóta þeim til úrskurðaraðila. Um leið er leyfishafa með slíkri birtingu veitt trygging fyrir því að máli verði ekki skotið til úrskurðar löngu síðar, við þær aðstæður að aðila verður þá fyrst kunnugt um eða má vera kunnugt um ákvörðun.

 

Af gögnum þessa máls má álykta að kærendum var kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis löngu áður en kæra í máli þessu barst. Fjallað var um útgáfu leyfisins í fjölmiðlum á landsvísu á sínum tíma. Þá má athuga að með stjórnsýslukæru þeirra til nefndarinnar í máli er varðaði gildi virkjunarleyfis Orkustofnunar fyrir Hvammsvirkjun, dags. 7. janúar 2023, var af þeirra hálfu fjallað ítarlega um leyfi Fiskistofu til stuðnings málsrökum. Þykir með vísan til þess ekki óvarlegt að miða upphaf kærufrests í síðasta lagi við þá dagsetningu. Kæra í máli þessu barst nefndinni hins vegar ekki fyrr en tæpum sex mánuðum síðar, þ.e. 26. júní 2023, en þá var kærufrestur til nefndarinnar liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Er slíkum aðstæðum ekki til að dreifa í máli þessu að áliti úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

67/2023 Árbakki

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 9. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 28. apríl 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 24. maí 2023 kærir eigandi, Birkivöllum 14, Árborg, þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 28. apríl 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að ekki verði gefin út byggingarleyfi á grund­velli hins kærða deiliskipulags fyrr en jarðtæknileg rannsókn skv. gr. 8.1.5. í byggingar­reglugerð hafi verið gerð. Þá er þess einnig krafist að landeigandi og/eða sveitarfélagið kalli til óháða matsmenn, með sérfræðiþekkingu á grundunarhæfni byggingarlands, til að meta hvort land­svæðið sé byggingarhæft. Að auki er þess krafist að landeigandi láti vinna jarðtækniskýrslu sam­kvæmt Eurocode 7 auk verklýsingar og uppdrátta á því hvernig sé mögulegt á flóðasvæðinu að grunda mannvirki með viðurkenndum aðferðum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Árborg 13. júlí 2023.

Málavextir: Auglýsing vegna samþykktar bæjarstjórnar Árborgar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. júní 2023. Þar kom m.a. fram að tillagan hefði verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 28. apríl s.á., í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og auglýst í samræmi við 41. gr. sömu laga og að athugasemdir hefðu borist á auglýsingatímanum. Deiliskipulagssvæðið tæki til um 20 ha svæðis og að í breytingartillötunni væri íbúðum fjölgað um 263 frá eldra deiliskipulagi og gert ráð fyrir u.þ.b. 550 íbúðum í sérbýlis- og fjölbýlishúsum og lóð undir leikskóla. Var kærandi í máli þessu á meðal þeirra sem gerðu athugasemdir við tillöguna.

Málsrök kæranda: Kærandi telur breytingu deiliskipulagsins ekki vera í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036 og vísar m.a. til flóðahættu, loftmengunar og hljóðvistar. Hæð gólfkóta húsa í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi í för með sér verulega flóðahættu á 25-50 ára fresti. Á deiliskipulagsuppdrætti sé hvorki greint frá flóðasvæðinu né sé það merkt inn á uppdráttinn en í aðalskipulagi komi fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir flóðasvæðum þar sem við eigi. Þá séu fjórar lóðir staðsettar á skráðum og virkum jarðskjálftasprungum sem samrýmist ekki aðalskipulagi. Þar sem sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því skipulagi sem hún samþykki geti komið upp þær aðstæður að hafðar verði uppi skaðabótakröfur vegna ákvörðunar bæjarstjórnar. Kostnaður sem falli á sveitarfélagið muni því falla á kæranda, sem íbúa sveitarfélagsins, í formi aukinna álaga.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að vísa beri málinu frá úrskurðar­nefndinni þar sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kæruefnisins. Kærandi búi ekki á því svæði sem deiliskipulagsbreytingin taki til né heldur í nágrenni þess. Deiliskipulagsbreytingin hafi engin áhrif á verðmæti fasteignar hans. Hann hafi engra grenndarréttarlegra hagsmuna að gæta. Þá geti hugsanleg skaðabótaskylda sveitarfélags ekki leitt til þess að íbúar þess teljist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn tiltekins málefnis. Auk þess bendi ekkert til þess að skaðabótaábyrgð muni falla á sveitarfélagið vegna deiliskipulagsins enda sé það bæði í samræmi við lög og gildandi aðalskipulag. Loks eru færð fram efnisleg svör og ábendingar í tilefni af athugasemdum kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar sjónarmið sem varða m.a. flóðahættu, grundun og byggingarhæfi hins deiliskipulagða svæðis. Fram kemur m.a. að af þeim jarðvegsathugunum sem hafi verið gerðar sé ljóst að um sé að ræða risavaxna skál allt að 25 m að dýpt sem sé full af vatnsmettaðri mýri sem sitji á vatnsmettuðu árseti. Sá hluti sem eftir standi sé óstyrkur hraunjaðar. Þá ítrekar kærandi sjónarmið um hagsmuni sína og þar með rétt til aðildar að málinu. Hann hafi að gæta fjárhagslegra hagsmuna sem íbúi í sveitarfélaginu og hafi gert athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á undirbúningsstigi hennar, en þar með geti hann borið lögmæti ákvörðunarinnar undir úrskurðarnefndina.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er búsettur í Vallahverfi á Selfossi og byggir kæruaðild sína í máli þessu á því að hann sé íbúi í sveitarfélaginu Árborg, hann hafi sent inn athugasemdir og ábendingar vegna hinnar kærðu breytingar á deiliskipulagi og geti orðið fyrir fjárhagstjóni vegna skaðabóta sem sveitarfélaginu kynni að verða gert að greiða í framtíðinni. Með þessu er ljóst að kærandi býr í nokkurri fjarlægð frá mörkum deiliskipulagssvæðisins. Á milli heimilis kæranda og þess eru íbúagötur, Heilbrigðis­stofnun Suðurlands og fjölfarinn akvegur, Austurvegur. Liggur því ekki fyrir að umdeild deiliskipulagsbreyting raski grenndarhagsmunum kæranda. Þá varðar hugsanleg skaðabótaskylda sveitarfélagsins almenna hagsmuni allra íbúa þess en ekki einstaklega hagsmuni kæranda, en ekkert liggur fyrir um að til bótaábyrgðar geti komið.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einnig 1. mgr. 43. gr. sömu laga, er fyrirkomulag auglýsingar að tillögu að breytingu á deiliskipulagi með þeim hætti að sveitarstjórn skal auglýsa hana með áberandi hætti svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu og skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna, sbr. 31. gr. Með svo víðtækri birtingu er almenningi gert kleift að koma að athugasemdum og er ekki gerð krafa um aðild að málinu til þess að unnt sé að koma þeim að. Verður kærandi því ekki talinn aðili málsins af þeirri ástæðu einni að hann hafi látið sig málið varða við þessa málsmeðferð. Réttaráhrif þess að athugasemdir berast við tillögu að deiliskipulagi eru hins vegar þau að sveitarstjórn er skylt að taka afstöðu til þeirra og hvort gera skuli breytingar á tillögunni, jafnframt því að auglýsa ber niðurstöðu sveitar­stjórnar sérstaklega, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Af framangreindu virtu verður kærandi ekki talinn eiga kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Verður kröfu hans í málinu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.