Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2023 Árbakki

Árið 2023, miðvikudaginn 9. ágúst, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 28. apríl 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 24. maí 2023 kærir eigandi, Birkivöllum 14, Árborg, þá ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 28. apríl 2023 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að ekki verði gefin út byggingarleyfi á grund­velli hins kærða deiliskipulags fyrr en jarðtæknileg rannsókn skv. gr. 8.1.5. í byggingar­reglugerð hafi verið gerð. Þá er þess einnig krafist að landeigandi og/eða sveitarfélagið kalli til óháða matsmenn, með sérfræðiþekkingu á grundunarhæfni byggingarlands, til að meta hvort land­svæðið sé byggingarhæft. Að auki er þess krafist að landeigandi láti vinna jarðtækniskýrslu sam­kvæmt Eurocode 7 auk verklýsingar og uppdrátta á því hvernig sé mögulegt á flóðasvæðinu að grunda mannvirki með viðurkenndum aðferðum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu Árborg 13. júlí 2023.

Málavextir: Auglýsing vegna samþykktar bæjarstjórnar Árborgar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi í landi Árbakka var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. júní 2023. Þar kom m.a. fram að tillagan hefði verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 28. apríl s.á., í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og auglýst í samræmi við 41. gr. sömu laga og að athugasemdir hefðu borist á auglýsingatímanum. Deiliskipulagssvæðið tæki til um 20 ha svæðis og að í breytingartillötunni væri íbúðum fjölgað um 263 frá eldra deiliskipulagi og gert ráð fyrir u.þ.b. 550 íbúðum í sérbýlis- og fjölbýlishúsum og lóð undir leikskóla. Var kærandi í máli þessu á meðal þeirra sem gerðu athugasemdir við tillöguna.

Málsrök kæranda: Kærandi telur breytingu deiliskipulagsins ekki vera í samræmi við Aðalskipulag Árborgar 2020-2036 og vísar m.a. til flóðahættu, loftmengunar og hljóðvistar. Hæð gólfkóta húsa í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi í för með sér verulega flóðahættu á 25-50 ára fresti. Á deiliskipulagsuppdrætti sé hvorki greint frá flóðasvæðinu né sé það merkt inn á uppdráttinn en í aðalskipulagi komi fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir flóðasvæðum þar sem við eigi. Þá séu fjórar lóðir staðsettar á skráðum og virkum jarðskjálftasprungum sem samrýmist ekki aðalskipulagi. Þar sem sveitarstjórn sé ábyrg fyrir því skipulagi sem hún samþykki geti komið upp þær aðstæður að hafðar verði uppi skaðabótakröfur vegna ákvörðunar bæjarstjórnar. Kostnaður sem falli á sveitarfélagið muni því falla á kæranda, sem íbúa sveitarfélagsins, í formi aukinna álaga.

Málsrök Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að vísa beri málinu frá úrskurðar­nefndinni þar sem kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kæruefnisins. Kærandi búi ekki á því svæði sem deiliskipulagsbreytingin taki til né heldur í nágrenni þess. Deiliskipulagsbreytingin hafi engin áhrif á verðmæti fasteignar hans. Hann hafi engra grenndarréttarlegra hagsmuna að gæta. Þá geti hugsanleg skaðabótaskylda sveitarfélags ekki leitt til þess að íbúar þess teljist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn tiltekins málefnis. Auk þess bendi ekkert til þess að skaðabótaábyrgð muni falla á sveitarfélagið vegna deiliskipulagsins enda sé það bæði í samræmi við lög og gildandi aðalskipulag. Loks eru færð fram efnisleg svör og ábendingar í tilefni af athugasemdum kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar sjónarmið sem varða m.a. flóðahættu, grundun og byggingarhæfi hins deiliskipulagða svæðis. Fram kemur m.a. að af þeim jarðvegsathugunum sem hafi verið gerðar sé ljóst að um sé að ræða risavaxna skál allt að 25 m að dýpt sem sé full af vatnsmettaðri mýri sem sitji á vatnsmettuðu árseti. Sá hluti sem eftir standi sé óstyrkur hraunjaðar. Þá ítrekar kærandi sjónarmið um hagsmuni sína og þar með rétt til aðildar að málinu. Hann hafi að gæta fjárhagslegra hagsmuna sem íbúi í sveitarfélaginu og hafi gert athugasemdir við deiliskipulagstillöguna á undirbúningsstigi hennar, en þar með geti hann borið lögmæti ákvörðunarinnar undir úrskurðarnefndina.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi er búsettur í Vallahverfi á Selfossi og byggir kæruaðild sína í máli þessu á því að hann sé íbúi í sveitarfélaginu Árborg, hann hafi sent inn athugasemdir og ábendingar vegna hinnar kærðu breytingar á deiliskipulagi og geti orðið fyrir fjárhagstjóni vegna skaðabóta sem sveitarfélaginu kynni að verða gert að greiða í framtíðinni. Með þessu er ljóst að kærandi býr í nokkurri fjarlægð frá mörkum deiliskipulagssvæðisins. Á milli heimilis kæranda og þess eru íbúagötur, Heilbrigðis­stofnun Suðurlands og fjölfarinn akvegur, Austurvegur. Liggur því ekki fyrir að umdeild deiliskipulagsbreyting raski grenndarhagsmunum kæranda. Þá varðar hugsanleg skaðabótaskylda sveitarfélagsins almenna hagsmuni allra íbúa þess en ekki einstaklega hagsmuni kæranda, en ekkert liggur fyrir um að til bótaábyrgðar geti komið.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. einnig 1. mgr. 43. gr. sömu laga, er fyrirkomulag auglýsingar að tillögu að breytingu á deiliskipulagi með þeim hætti að sveitarstjórn skal auglýsa hana með áberandi hætti svo sem í dagblaði sem gefið er út á landsvísu og skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna, sbr. 31. gr. Með svo víðtækri birtingu er almenningi gert kleift að koma að athugasemdum og er ekki gerð krafa um aðild að málinu til þess að unnt sé að koma þeim að. Verður kærandi því ekki talinn aðili málsins af þeirri ástæðu einni að hann hafi látið sig málið varða við þessa málsmeðferð. Réttaráhrif þess að athugasemdir berast við tillögu að deiliskipulagi eru hins vegar þau að sveitarstjórn er skylt að taka afstöðu til þeirra og hvort gera skuli breytingar á tillögunni, jafnframt því að auglýsa ber niðurstöðu sveitar­stjórnar sérstaklega, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Af framangreindu virtu verður kærandi ekki talinn eiga kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Verður kröfu hans í málinu því vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.