Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2002 Sefgarðar

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2002, kæra eiganda fasteignarinnar að Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarnefndar Seltjarnarness á erindi um endurupptöku máls.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. ágúst 2002, sem barst nefndinni 2. september s.á. kærir B, Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarnefndar Seltjarnarness á endurupptökumáli.

Kærandi krefst þess að byggingarnefnd hraði endurupptöku ákvörðunar byggingarnefndar frá 24. apríl 2002 varðandi skjólvegg og gróður á lóðamörkum lóðanna Sefgarða 16 og 24.

Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málavextir:  Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Sefgörðum 16, Seltjarnarnesi en þannig hagar til að mörk lóðar kæranda liggja að mestu að lóð hússins nr. 24 við sömu götu.  Við upphaflegan frágang lóðar nr. 24 setti eigandi þeirrar lóðar niður trjáplöntur á lóðamörkum þar sem lóðirnar liggja saman en síðar, árið 1979, reisti hann skjólvegg úr timbri inn á lóð sinni, samsíða mörkum lóðanna, en í u.þ.b. 30 cm fjarlægð frá þeim.  Skjólveggurinn var einnig reistur á lóðamörkum lóðanna nr. 18 og 24 og einnig á lóðamörkum lóðanna nr. 24 og 26 við Sefgarða.  Deilur hafa staðið milli eigenda fasteignanna að Sefgörðum 16 og 24 um skjólvegg þennan í nokkur ár og m.a. hefur úrskurðarnefndin tvívegis kveðið upp úrskurð vegna þessa; mál nr. 23/2000 og 18/2002. 

Í máli nr. 18/2002 kærði eigandi Sefgarða 24 ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness þess efnis að honum var gert skylt að rífa niður eða endurgera skjólvegg við lóðamörk lóðanna Sefgarða 16 og 24 ásamt nánar tilgreindum frágangi á lóðamörkum.  Þessa ákvörðun byggingarnefndar kærði eigandinn til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Þegar kæranda máls þessa varð kunnugt um ákvörðun byggingarnefndar í málinu vakti hann athygli nefndarmanna á því að krafa hans hafi frá upphafi beinst að öllum skjólveggnum en ekki aðeins þeim hluta sem snúi að lóð hans.  Kærandi fór því fram á það við byggingarnefnd að tekin yrði ný ákvörðun, sama efnis, en að auki yrði tekin afstaða til þess hluta skjólveggjarins sem snúi að Sefgörðum 18 og 26.  Þá fór kærandi einnig fram á að nefndin tæki afstöðu til kröfu kæranda um brottnám trjágróðurs á lóðamörkum Sefgarða 16 og 24.  Byggingarnefnd fjallaði um erindi kæranda á fundi hinn 22 maí 2002 og afgreiddi með svofelldri bókun:  „Byggingarnefnd hefur tekið erindið til umræðu og mun í framhaldinu kynna eigendum lóðanna Sefgarðar 26 og 18 framkomna beiðni.“

Kærandi hefur nú skotið drætti á afgreiðslu byggingarnefndar á erindi hans til úrskurðarnefndar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur nauðsynlegt að byggingarnefnd taki nýja ákvörðun í málinu í stað þeirrar fyrri í ljósi þess að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úrskurði ekki um efnisatriði sem lægra sett stjórnvald hafi ekki tekið fullnægjandi ákvörðun um.  Dráttur sá sem orðinn sé á málinu sé óhæfilegur af hálfu byggingarnefndar og óásættanlegur með vísan til 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og krefst kærandi þess að málið verði endurupptekið og tekið til efnismeðferðar hjá byggingarnefnd.
 
Málsrök Seltjarnarnesbæjar:
  Í greinargerð lögmanns byggingarnefndar kemur fram að nefndin hafi ekki tekið til greina kröfu kæranda um að skjólveggurinn yrði fjarlægður á mörkum lóðanna nr. 24 og 26 þar sem nefndin hafi talið að kærandi ætti ekki aðild að því máli.

Niðurstaða:  Ákvörðun byggingarnefndar frá 24. apríl 2002 þess efnis að eiganda fasteignarinnar að Sefgörðum 24 bæri að að rífa eða endurgera skjólvegg á lóðamörkum lóðar hans og nr. 16 ásamt nánar tilgreindum frágangi á lóðamörkum var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir og með úrskurði dagsettum í dag hefur nefndin kveðið upp úrskurð sinn.  Samkvæmt þeim úrskurði er ákvörðun byggingarnefndar Seltjarnarness felld úr gildi.  Ákvörðun byggingarnefndar hefur því ekki lengur gildi að lögum og á því kærandi ekki lögvarða hagmuni af því að fá málið endurupptekið hjá byggingarnefnd. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________     _____________________
Þorsteinn Þorsteinsson                Ingibjörg Ingvadóttir

20/2003 Aðalskipulag Mosfellsbæjar

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 26. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2003; kæra Logos lögmannsþjónustu, f.h. M, á samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 á tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. mars 2003, sem barst nefndinni 25. s.m., kærir Logos lögmannsþjónusta, f.h. M, samþykkt bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 á tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.  Hin kærða ákvörðun hefur hlotið lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar og bíður nú staðfestingar umhverfisráðherra. 

Kærandi krefst þess að fellt verði úr gildi það ákvæði samþykktarinnar að breyta deiliskipulögðu svæði fyrir íbúða- frístundabyggð við Reykjahvamm í landi Suður-Reykja í opið óbyggt svæði.

Málsatvik:  Þann 18. febrúar 1982 var samþykkt af hreppsnefnd Mosfellshrepps deiliskipulag fyrir lóðir við Reykjahvamm í landi Suður-Reykja.  Nánar tiltekið er um að ræða 31 lóð og er kærandi eigandi tíu þessara lóða.  Var deiliskipulag þetta að sögn kæranda unnið af eigendum landsins og á þeirra kostnað, en það síðan samþykkt af hreppsnefnd.  Var það vilji eigenda landsvæðisins að lóðirnar yrði skipulagðar sem íbúðarhúsalóðir.  Það var hins vegar ekki samþykkt af skipulagsnefnd, að undanskildum neðstu lóðunum, en að öðru leyti voru lóðirnar ætlaðar fyrir sumarhús.

Í tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 var gert ráð fyrir að umræddu byggingarsvæði í landi Suður-Reykja yrði breytt í opið, óbyggt svæði.  Var áformum þessum mótmælt af kæranda og öðrum lóðarhöfum á svæðinu, en ekki var fallist á mótmæli þeirra.  Var hin breytta landnotkun samþykkt við afgreiðslu bæjarstjórnar á tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 hinn 12. febrúar 2003.  Vísaði kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. mars 2003, svo sem að framan er rakið.

Eftir að kæra í máli þessu barst nefndinni var lögmanni kæranda bent á að nefndin hefði ítrekað vísað frá kærumálum þar sem kærðar hefðu verið ákvarðanir um aðalskipulag eða breytingar á aðalskipulagi.  Lægi og fyrir álit Umboðsmanns Alþingis þar sem tekið væri undir þau sjónarmið nefndarinnar að hana brysti vald til þess að fjalla um skipulagsákvarðanir sem sætt hefðu staðfestingu ráðherra.  Af hálfu lögmanns kæranda var á það bent að hin kærða ákvörðun í máli þessu hefði enn ekki hlotið staðfestingu ráðherra og væri málið því ekki sambærilegt þeim málum sem nefndin hefði áður vísað frá á grundvelli sjónarmiða um valdmörk.  Hefur úrskurðarnefndin af þessu tilefni ákveðið að taka af sjálfsdáðum til úrlausnar hvort vísa eigi máli þessu frá eins og atvikum er háttað.

Málsrök aðila:  Við úrlausn frávísunarþáttar málsins þykja ekki efni til að rekja málsrök aðila í einstökum atriðum.  Nægir að taka fram að kærandi telur hina umdeildu samþykkt hafa í för með sér verulega verðmætarýrnun á umræddum lóðum og verði hann því fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni standi samþykktin óröskuð.  Telur hann rök bæjaryfirvalda fyrir hinni umdeildu ákvörðun ekki standast og að ástæðulaust hafi verið að rýra rétt eigenda umræddra lóða með þeim hætti sem  gert sé með hinni kærðu samþykkt.

Af hálfu bæjaryfirvalda er hin kærða ákvörðun m.a. studd þeim rökum að umrætt svæði henti illa sem byggingarsvæði.  Snjóþungi og landhalli sé þar mikill og hætta á ofanflóðum.  Að auki liggi svæðið illa við þjónustu.  Verða málsástæður aðila ekki raktar hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið hefur úrskurðarnefndin talið sig bresta vald til að fjalla efnislega um skipulagsákvarðanir sveitarstjórna sem sætt hafa staðfestingu ráðherra.  Rök nefndarinnar fyrir þeirri niðurstöðu hafa áður komið fram, m.a. í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 43/1998, en þar segir m.a:  „Með setningu nýrra laga um skipulags- og byggingarmál nr. 73/1997, sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998, var tekið upp það nýmæli að fela sérstakri úrskurðarnefnd að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál, en úrskurðarvald í þeim málum var fyrir þann tíma í höndum umhverfisráðherra.  Ekki er í lögunum gerð með skýrum hætti grein fyrir því hvaða ágreiningsmál falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar en af 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 má ráða, að meginviðfangsefni hennar séu að leysa úr álitaefnum sem eiga rætur að rekja til ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna um byggingar- eða skipulagsmál.  Þá er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining um það hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum laganna um framkvæmdaleyfi sbr. 2. mgr. 27. gr. nefndra laga, hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skv. 36. gr. laganna, svo og um  ágreining um niðurstöðu Skipulagsstofnunar um erindi er varðar undanþágur skv. 3. tl. ákvæða til bráðabirgða með lögunum.  Loks er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalds skv. 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997.  Hvergi er hins vegar að því vikið í lögunum að nefndin hafi það hlutverk að endurskoða ákvarðanir ráðherra um staðfestingu  aðalskipulags eða breytinga á því.

Þegar sérstakri kærunefnd hefur verið komið á fót í tilteknum málflokki, eins og hér um ræðir, verður að líta svo á að ráðherra og kærunefndin séu hliðsett stjórnvöld á æðra stjórnsýslustigi með lögbundinni verkaskiptingu.  Leiki vafi á um valdmörk milli ráðherra og kærunefndar verður að telja valdið í höndum ráðherra, enda er það meginregla að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum undanskilin forræði hans.

Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag, eða breyting á því, sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, eða breytingar á því, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni. 

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún, að mati úrskurðarnefndar, einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vald til þess að taka þessar ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.“

Í áliti sínu í máli nr. 2906/2000 fjallaði Umboðsmaður Alþingis um framangreind álitaefni og var það niðurstaða hans að ekki væru efni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að vísa máli frá af framangreindum ástæðum.  Í álitinu segir jafnframt svo:  „Þar sem aðalskipulag tekur ekki gildi fyrr en við staðfestingu ráðherra tel ég enn fremur að ekki sé unnt að bera samþykkt sveitarstjórnar á aðalskipulagstillögu eða meðferð Skipulagsstofnunar við álitsgjöf til ráðherra undir úrskurðarnefndina.“

Með hliðsjón af þeim rökum sem fram koma í tilvitnuðu áliti er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða samþykkt verði ekki borin undir nefndina þrátt fyrir að hún hafi ekki hlotið staðfestingu ráðherra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

49/2001 Smiðjuvegur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2001; kæra eigenda hússins nr. 32 við Smiðjuveg í Kópavogi á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 26. júlí 2001 um að synja erindi  hans um að bæjarráð leggi fyrir byggingarnefnd að afturkalla byggingarleyfi frá 8. júní 2001 fyrir steinvegg á lóðinni að Smiðjuvegi 30 og gert verði ráð fyrir stærra gönguopi í veggnum án þröskulds.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. október 2001, sem barst nefndinni hinn 2. nóvember sama ár, kærir Björn Þorri Viktorsson hdl., f. h. J ehf., og O,eigenda hússins nr. 32 við Smiðjuveg í Kópavogi þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 28. júlí 2001 að synja beiðni kærenda um afturköllun byggingarleyfis frá 8. júní 2001 fyrir steinvegg á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg, og að hlutast verði til um að gönguop á veggnum verði breikkað í a.m.k. 100 sentimetra og 10-15 sentimetra þröskuldur í gönguopinu verði fjarlægður.

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og byggingarleyfi fyrir umdeildum vegg verði ógilt og leyfishafa verið gert að breikka gönguop á veggnum og fjarlægja þröskuld í gönguopinu áður en byggingarleyfi verði veitt að nýju.

Málavextir:  Hinn 27. nóvember 1975 samþykkti byggingarnefnd Kópavogs teikningar af húsunum nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi ásamt uppdrætti af fyrirkomulagi á lóð húsanna.  Hús þessi eru sambyggð, tvær hæðir hvert, en vegna landhalla eru efri hæðir húsanna í götuhæð að sunnanverðu og neðri hæðir niðurgrafnar á þeirri hlið, en að norðanverðu eru neðri hæðir um það bil í götuhæð.  Húsin eru ætluð til atvinnustarfsemi.  Umrædd hús munu hafa verið byggð á árunum eftir 1975 en lóðarleigusamningar fyrir húsin eru gerðir hinn 8. mars 1977 (nr. 34), 13. mars 1978 (nr. 32) og 27. nóvember 1978 (nr. 30).  Snemma árs 1980 fékk eigandi hússins nr. 34 leyfi til að stækka neðri hæð hússins með því að byggja kjallara undir bílastæði efri hæðar þess, en samsvarandi stækkun neðri hæðar hússins nr. 32 var samþykkt snemma árs 1982.  Eftir byggingu kjallaranna eru bílastæði við efri hæðir húsanna ofan á steyptri loftplötu viðbyggingarinnar en upp úr plönunum standa fyrirferðarmiklir steinsteyptir reyklosunarstokkar.  Er slíkur stokkur tilheyrandi húsinu nr. 32 fram af skilvegg efri hæða húsanna nr. 30 og 32 og er stokkur þessi, samkvæmt samþykktri teikningu, 50 sentimetrar á hæð, 1,1 metri á breidd og 8,2 metrar að lengd, samsíða mörkum húsanna, en inni á þeim hluta lóðarinnar sem er framan við húsið nr. 32.  Er 1,7 metra fjarlægð frá húsvegg að þeim enda stokksins sem veit að húsinu.

Í lok ágúst og byrjun september 1998 reisti eigandi hússins nr. 30 við Smiðjuveg steinsteyptan vegg frá mótum húsanna nr. 30 og 32 á mörkum lóðarhluta þeirra sem eru fram af húsunum.  Er veggur þessi 85 – 90 sentimetrar á hæð og nær fram undir götu þá sem liggur meðfram lóð húsanna.  Endar hann þar í veggstubb sem byggður er hornrétt á vegginn og er samsíða götunni inn á lóðarhluta hússins nr. 30.  Á 8,2 metra bili er veggur þessi samsíða áðurnefndum reyklosunarstokki og byggður fast upp að honum.  Auk veggjar þessa byggði eigandi hússins nr. 30 hliðstæðan vegg að norðanverðu milli lóðarhlutanna framan við jarðhæðir sömu húsa, en fyrir lá samþykki eiganda neðri hæðar hússins nr. 32 fyrir veggnum að norðanverðu við húsin.

Kærendur mótmæltu þessum framkvæmdum á lóðinni sunnan húsanna og komu á framfæri kvörtun við byggingarfulltrúa þegar veggirnir voru steyptir.  Hinn 10. september 1998 ritaði lögmaður þeirra bréf til byggingarfulltrúans í Kópavogi, þar sem þess var krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um að veggirnir yrðu fjarlægðir og að gengið yrði frá lóðinni í fyrra horf.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. nóvember 1998.  Lágu þá fyrir nefndinni erindi frá kærendum, svo og bréf eiganda Smiðjuvegar 30, dags. 6. október 1998, ásamt umsögn bæjarlögmanns Kópavogs um málið, dags. 21. október 1998.  Vísaði byggingarnefnd málinu frá á grundvelli umsagnar bæjarlögmanns og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 10. nóvember 1998.  Þessari ákvörðun byggingarnefndar vildu kærendur ekki una og skutu málinu því til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 10. desember 1998.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 26. febrúar 1999 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um frávísun málsins.  Var lagt fyrir nefndina að taka til úrlausnar hvort veita skyldi byggingarleyfi fyrir veggjum þeim sem eigandi Smiðjuvegar 30 hafði byggt á sameiginlegri lóð húsanna nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi, og skyldi gefa eiganda veggjanna kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og afla tilskilins samþykkis og hönnunargagna innan hæfilegs frests.

Með vísan til úrskurðar nefndarinnar óskaði eigandi Smiðjuvegar 30 eftir leyfi fyrir steyptum stoðveggjum við fasteign sína.  Byggingarnefnd tók erindið fyrir og frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum 24. mars 1999, með vísan í 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gaf málsaðilum kost á að kynna sér afstöðu byggingarnefndar og gögn málsins.

Á fundi byggingarnefndar 28. apríl 1999 var tekið fyrir erindi umsækjanda varðandi leyfi til að reisa steypta stoðveggi að Smiðjuvegi 30.  Var erindinu synjað þar sem samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 lægi ekki fyrir.  Taldi byggingarnefnd, með tilvísun til ákvæða 30., 33., 36. og 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og sérstaklega með vísun til 7., 8. og 10. töluliðar A-liðar 41. gr., að samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 þyrfti fyrir framkvæmdum á lóð, þar með talið notkun og skiptingu á sameiginlegum bílastæðum.  Ennfremur hefði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með úrskurði sínum 26. febrúar 1999 úrskurðað að lóðin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg væri sameiginleg.

Þessari niðurstöðu vildi umsækjandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndar sem kvað upp úrskurð sinn hinn 23. desember 1999.  Niðurstaða málsins varð sú að ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddum vegg var felld úr gildi.  Lagt var fyrir byggingarnefnd að gefa kæranda í því máli kost á að sækja að nýju um byggingarleyfi fyrir veggjunum, með þeirri breytingu að gert yrði ráð fyrir óhindraðri umferð gangandi manna milli lóðarhlutanna sunnan húsanna nr. 30 og 32 við Smiðjuveg.  Var tekið fram að áður en byggingarleyfi yrði veitt bæri að gera úttekt á undirstöðum veggjanna og var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að samþykki einfalds meirihluta sameigenda lóðarinnar, miðað við eignarhluta, nægði til þess að fullnægja skilyrði 4. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Kærendur gerðu kröfu um að umdeildir veggir yrðu fjarlægðir í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2000, en þá virðist ekkert hafa verið aðhafst í málinu frá því að greindur úrskurður gekk hinn 23. desember 1999.  Byggingarnefnd Kópavogs tók fyrir byggingarleyfisumsókn vegna umdeildra veggja á fundi hinn 15. nóvember 2000.  Fyrir fundinum lá fyrrgreint bréf kærenda, álitsgerð Ragnars Gunnarssonar tæknifræðings, dags. 14. nóvember 2000, um úttekt á stöðugleika veggjanna og samþykki einfalds meirihluta eigenda Smiðjuvegar 30-34 miðað við eignarhluta.  Var það álit nefndarinnar að samþykkja bæri fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn, þar sem tekið hefði verið tillit til atriða í síðari úrskurði úrskurðarnefndarinnar en ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins og gefa kærendum kost á að gera grein fyrir afstöðu sinni til óhindraðrar gönguumferðar milli lóðarhlutanna.  Kærendur settu fram þá ósk í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember 2000, að fyrirhugað 80 sentimetra gönguop á vegg milli lóðarhlutanna yrði breikkað.  Málið var á dagskrá byggingarnefndar á fundi hinn 29. nóvember 2000 þar sem greint bréf kærenda frá 23. nóvember lá frammi.  Var ályktað að gönguop milli lóðarhlutanna væri fullnægjandi svo sem það væri útfært í byggingarleyfisumsókn og lagði nefndin fyrir umsækjanda að saga umrætt göngugat í vegginn áður en til formlegrar samþykktar umsóknarinnar kæmi og var frestur til framkvæmdanna veittur til 15. desember 2000.  Byggingarfulltrúa var falin fullnaðarafgreiðsla málsins að uppfylltum greindum skilyrðum.  Kærendum var tilkynnt um þessa niðurstöðu í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 2000.

Bréfaskipti urðu um málið milli kærenda og bæjaryfirvalda í kjölfar þessa.  Kærendur sendu bæjarráði bréf, dags. 6. febrúar 2001, þar sem kvartað var yfir meðferð málsins af hálfu byggingarfulltrúa og því haldið fram að byggingaryfirvöld drægju taum framkvæmdaaðila á kostnað kærenda.  Var þess farið á leit að bæjarráð hlutaðist til um að gönguop á umdeildum vegg yrði breikkað og framkvæmdaaðila yrði gert að ganga frá framkvæmdum með fullnægjandi hætti. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 15. febrúar 2001 og vísað til byggingarfulltrúa og bæjarlögmanns.  Umsögn byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi ráðsins hinn 22. febrúar og umsögn lögmanna á fundi ráðsins hinn 22. mars 2001, þar sem byggingarfulltrúi og formaður byggingarnefndar gerðu grein fyrir málinu.  Kærendur sendu bæjarráði bréf hinn 1. júní 2001 með fyrirspurn um afdrif erindis þeirra frá 6. febrúar og með fyrirspurn um hvort ráðinu hefði borist greinargerð byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar vegna málsins.

Kærendum var sent bréf, dags. 3. júlí 2001, þar sem greint var frá að bæjarráð hefði á fundi sínum hinn 28. júní samþykkt umsögn bæjarlögmanns frá 27. júní sama ár í tilefni af erindi kærenda frá 1.  Var lagt til að kærendum yrði send greinargerð lögmanna um málið, dags. 28. febrúar 2001.

Lyktir umdeildrar byggingarleyfisumsóknar urðu þær að byggingarfulltrúi veitti umrætt byggingarleyfi fyrir veggjunum á fundi sínum hinn 8. júní 2001 þar sem þá hafði verið fullnægt skilyrði um sögun gönguops á vegg milli fasteignar kærenda og byggingarleyfishafa.  Byggingarleyfishafa og kærendum var tilkynnt þetta í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. júní 2001.  Umrædd afgreiðsla mun hafa verið staðfest af byggingarnefnd hinn 13. júní, í bæjarráði hinn 21. júní og í bæjarstjórn hinn 26. júní 2001.

Með bréfi, dags. 19. júlí 2001, sendu kærendur bæjarráði Kópavogs erindi þar sem athugasemdir voru gerðar við breidd gönguops á umdeildum vegg að Smiðjuvegi 30 og ýmsar athugasemdir gerðar við meðferð málsins.  Var þess farið á leit við bæjarráð að byggingarnefnd yrði gert að afturkalla umdeilt byggingarleyfi og hlutast yrði til um að gönguop á veggnum yrði breikkað í a.m.k. 100 sentimetra og 10-15 sentimetra þröskuldur í gönguopinu yrði fjarlægður.  Bæjarráð hafnaði erindi kærenda á fundi sínum hinn 26. júlí 2001 og var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu í bréfi bæjarlögmanns, dags. 2. ágúst 2001.

Kærendur hafa nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið.

Málsrök kæranda:  Kærendur byggja kröfu sína á því að ómálefnalega hafi verið staðið að meðferð beiðni kærenda um breikkun á gönguopi í vegg milli fasteigna kærenda og byggingarleyfishafa sem hafi á hendi iðnaðarstarfsemi í fasteign sinni.  Óskiljanlegt sé að bæjaryfirvöld miði gönguopið við breidd dyra á íbúðarherbergjum sem sé 80 sentimetrar samkvæmt gr. 79.9 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 í ljósi þess að um sé að ræða aðgengi að tveimur iðnaðarrýmum þar sem koma þurfi fyrirferðarmiklum hlutum að og frá.  Hin kærða ákvörðun byggi á ranghugmyndum um aðkomu og aðgengi að umræddum rýmum og niðurstaða málsins því reist á röngum forsendum auk þess sem engin rök hafi verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Kærendur telji að miða hefði átt margnefnt gönguop við 200. gr. byggingarreglugerðar sem kveði á um að gangar, þar með taldir svalagangar, skuli vera a.m.k. 1,3 metra breiðir.

Niðurstaða: Kærufrestur vegna ákvarðana um byggingarmál er einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gengur sá frestur framar almennum kærufresti stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga.

Erindi kærenda, dags. 19. júlí 2001, fól í sér beiðni til bæjarráðs Kópavogs um að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 8. júní 2001, um veitingu byggingarleyfis fyrir þegar reistum steinvegg við fasteignina að Smiðjuvegi 30, yrði endurupptekin og breytt á þann veg er kærandi gerði kröfu um.  Bæjarráð synjaði erindinu og fól bæjarlögmanni að svara því og var kærendum tilkynnt um synjunina með bréfi bæjarlögmanns, dags. 2. ágúst 2001, sem kærendur kveðast hafa móttekið hinn 6. ágúst sama ár.  Málskot kærenda er dagsett hinn 31. október 2001, og barst úrskurðarnefndinni hinn 2. nóvember 2001, eða tæpum þremur mánuðum eftir að kærendum var kunn hin kærða ákvörðun.  og var kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga þá löngu liðinn.  Kemur þá til álita hvort taka eigi kæruna til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguheimildum 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í nefndri 28. gr. er kveðið á um að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Meginregla stjórnsýslulaganna er að vísa beri kæru frá að liðnum kærufresti og verður að skýra undantekningar frá meginreglunni þröngt.

Hvorki í tilkynningu bæjaryfirvalda til kæranda um synjun bæjarráðs á erindi hans, dags. 2. ágúst 2001, né í tilkynningu byggingarfulltrúa um veitingu umdeilds byggingarleyfis var gerð grein fyrir kæruheimild hans til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest eins og áskilið er í 20. gr. stjórnsýslulaga.  Deilumál um umræddan vegg hafa tvívegis áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar og voru kærendur aðilar að þeim málum.  Þeim var strax í nóvember 2000 kunn afstaða byggingarnefndar til athugasemda kærenda við fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn og var tilkynnt um veitingu leyfisins með bréfi byggingarfulltrúa Kópavogs, dags. 11. júní 2001, og hafði að tilhlutan bæjarráðs fengið senda umsögn lögmanna til bæjarráðs um málið og meðferð þess, dags. 28. febrúar 2001.  Málið fékk ítarlega umfjöllun hjá bæjaryfirvöldum og áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli þeirra og kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins.  Í ljósi þessarar forsögu málsins verður greindur annmarki ekki talinn eiga að leiða til þess að beita eigi undanþágureglum 28. gr. stjórnsýslulaga frá kærufresti.  Ekki verður talið að dráttur á málskoti kæranda sé afsakanlegur í ljósi málsatvika og álitaefni það sem uppi er í málinu þykir ekki þess eðlis að mikilvægar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Með skírskotun til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu og með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga þótti ekki efni til að afla umsagnar bæjaryfirvalda í málinu eða leita andmæla byggingarleyfishafa enda liggur nægjanlega fyrir afstaða bæjaryfirvalda og byggingarleyfishafa í gögnum þessa máls og í þeim tveimur málum sem áður hafa komið til kasta nefndarinnar vegna veggjarins á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg, Kópavogi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

29/2001 Tjarnarstígur

Með

Ár 2003, miðvikudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2001, kæra íbúa í húsunum nr. 103, 105, og 107 við Nesveg nr. 6, 14, 16, 20, 22 og 26 við Tjarnarstíg og nr. 4 við Hamarsgötu á Seltjarnarnesi á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness að hafna framkomnum athugasemdum kærenda við grenndarkynningu á dælustöð við Tjarnarstíg, Seltjarnarnesi.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júní 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hdl., fyrir hönd íbúa í húsunum nr. 103, 105, og 107 við Nesveg, nr. 6, 14, 16, 20, 22 og 26 við Tjarnarstíg og nr. 4 við Hamarsgötu á Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Seltjarnarness frá 17. maí 2001 að hafna athugasemdum kærenda sem komið var á framfæri við grenndarkynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum við dælustöð við Tjarnarstíg, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 23. maí 2001.

Kærendur gera þær kröfur að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og staðfest verði að ekki sé heimilt að gera grjótvarnargarð og göngustíg sunnanvert við Sækamb og   byggja dælustöð við Tjarnarstíg.  Þá er gerð krafa um að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 27. mars 2001, var nokkrum íbúum við Nesveg og Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi grenndarkynnt fyrirhuguð bygging dælustöðvar við Tjarnarstíg og framkvæmdir henni tengdar.  Í bréfinu kom fram að grenndarkynningin væri gerð samkvæmt 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Auk fyrrgreindrar dælustöðvar, er tengjast átti fráveitukerfi Seltjarnarness, var í bréfinu gerð grein fyrir fyrirhuguðum aðkomu- og lagnaleiðum, sjóvörnum, landfyllingum og áætlun um framkvæmd verksins.

Lögmaður kærenda kom á framfæri athugasemdum vegna fyrirhugaðra framkvæmda í bréfi til Seltjarnarnessbæjar, dags. 23. apríl 2001.  Var á því byggt að lagagrundvöll skorti fyrir grenndarkynningu umræddra framkvæmda og samþykki lóðaeigenda á framkvæmdasvæðinu skorti.  Athugasemdir kærenda voru teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 17. maí 2001 og var þar samþykkt umsögn vegna athugasemdanna þar sem ekki var fallist á rök kærenda.  Var tekið fram að málið snerti aðeins fáa á svæðinu, sem væri verið að deiliskipuleggja, og eðlilegt væri að afgreiða umræddar framkvæmdir með grenndarkynningu.  Málið hefði fengið ítarlega kynningu á almennum fundum vegna skipulagsvinnunnar og eigandi lóðar þeirrar sem ætlunin væri að reisa dælustöðina á hefði samþykkt framkvæmdina.  Lögmanni kærenda var tilkynnt um þessa afstöðu bæjaryfirvalda í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 7. júní 2001, og var þar bent á málsskotsrétt samkvæmt gr. 10.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Kærendur skutu málinu síðan til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kröfum sínum til stuðnings benda kærendur á að hin kærða ákvörðun sé haldin margvíslegum annmörkum.  Ekki sé unnt að beina málinu í farveg undantekningarákvæðis 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Grenndarkynningin hafi einungis snúið að gerð dælustöðvar en ljóst sé að bæjaryfirvöld ætli sér að hefja miklar framkvæmdir við gerð grjótvarnargarðs og landfyllingar auk göngustígagerðar ofan á hinum nýja varnargarði og málið hafi ekki verið kynnt öllum þeim sem hagsmuna eigi að gæta vegna framkvæmdanna.  Ljóst sé samkvæmt þinglýstum heimildum og öðrum gögnum að lóðir kærenda séu eignarlóðir og fjaran fyrir framan eignarlóðirnar sé eignarland þeirra og eigi þeir rétt yfir netlögum.  Umdeildar framkvæmdir séu háðar því að samþykki eigenda liggi fyrir en eftir því hafi ekki verið leitað og ekkert samráð við þá haft.

Umdeildar framkvæmdir séu ólögmætar og nauðsynlegt sé að úrskurða um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða svo unnt sé að tryggja að endanleg efnisleg úrlausn málsins hafi þýðingu.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:    Vísað er til þess að skipulagsnefnd hafi hinn 31. janúar 2002 tekið fyrir breyttan uppdrátt vegna umdeildra framkvæmda.  Felist breytingarnar aðallega í því að aðkomuleið að dælustöðinni sé breytt ásamt lagnaleið auk breytinga á staðsetningu dælustöðvarinnar frá fyrri tillögu.  Við þessar breytingar sé fallið frá meginhluta fyllingar og grjótvarnargarðs sem kynnt hafi verið í apríl 2001 þannig að einungis verði fyllt umhverfis dælustöðina sjálfa.  Samþykkt hafi verið að grenndarkynna hinar breyttu framkvæmdir og sé því tillagan sem kynnt hafi verið í apríl 2001 fallin úr gildi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afstaða Seltjarnarnesbæjar til athugasemda kærenda sem komið var á framfæri við grenndarkynningu vegna fyrirhugaðrar byggingar dælustöðvar og annarra framkvæmda í tengslum við þá byggingu.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls.  Hin kærða samþykkt ber ekki með sér að í henni felist ákvörðun eða heimild til að hefja umdeildar framkvæmdir, sem verða að eiga stoð í skipulagsákvörðun eða eftir atvikum veitingu framkvæmda- eða byggingarleyfis.  Átti ábending bæjaryfirvalda um kæruheimild í bréfi til lögmanns kærenda, dags. 7. júní 2001, því ekki við.  Þá er fram komið að bæjaryfirvöld hafi fallið frá fyrri tillögu og hafi samþykkt að grenndarkynna breytta tillögu um framkvæmdir við dælustöð við Tjarnarstíg.

Að þessu virtu verður hin kærða samþykkt Seltjarnarnesbæjar ekki tekin til efnismeðferðar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

                 ___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Óðinn Elísson

 

16/2001 Haukanes

Með

Ár 2003, miðvikudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Haukanesi 4, Garðabæ, á ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 10. janúar 2001, að synja um leyfi til að yfirbyggja svalir fasteignarinnar.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. apríl 2001, er barst úrskurðarnefndinni hinn 24. apríl sama ár, kærir Elísabet Sigurðardóttir hdl., fyrir hönd S, kt. 101037-4609, Haukanesi 4, Garðabæ, þá ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 10. janúar 2001, að synja umsókn kæranda um leyfi til að yfirbyggja svalir hússins að Haukanesi 4, Garðabæ.  Bæjarstjórn Garðabæjar staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 18. janúar 2001.

Málavextir:  Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir yfirbyggingu á svölum hússins að Haukanesi 4 í Garðabæ.  Fól umsóknin í sér gerð sólskála á stórum hluta svala hússins með því að yfirbyggja þær og mun flatarmál skálans vera 13,6 fermetrar.

Skipulagsnefnd bæjarins tók umsóknina fyrir og ákvað að grenndarkynna hana sem óverulega breytingu á deiliskipulagi og bárust athugasemdir frá eiganda fasteignarinnar að Haukanesi 6, Garðabæ.  Var umbeðnum framkvæmdum mótmælt, m.a. með þeim rökum að framkvæmdin raskaði afstöðu milli húsa og skerti útsýni.  Skipulagsnefnd afgreiddi málið af sinni hálfu á fundi hinn 6. desember 2000 með eftirfarandi bókun:  „Farið hefur fram grenndarkynning vegna umsóknar Sólvers H. Guðnasonar Haukanesi 4 um byggingu sólskála á svölum hússins að Haukanesi 4.  Í umsókninni felst að byggt er yfir svalir að mestu.  Hluti svalanna þ.e. sá hluti sem er á vesturgafli hússins er utan byggingarreits.  Að grenndarkynningu lokinni hafa borist tvö erindi með athugasemdum undirrituð af sama aðila þ.e. Sigurði Sigurjónssyni Haukanesi 6, dags. 15. nóv. 2000, þar sem byggingu sólskálans utan við byggingarreit er mótmælt.  Er m.a. talið að verið sé að raska afstöðu  á milli húsa og útsýni.  Skipulagsnefnd mælir ekki með umræddri breytingu í ljósi framkominna athugasemda.”  Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti þessa afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum hinn 21. desember 2001.

Kæranda var tilkynnt um synjun byggingarleyfisumsóknarinnar með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. desember 2000, þar sem vakin var athygli á kæruheimild og kærufresti.

Með bréfi, dags. 1. janúar 2001, mótmælti kærandi afgreiðslu málsins og fór fram á að bæjaryfirvöld endurskoðuðu ákvörðun sína.  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 10. janúar 2001 og taldi nefndin að framkomnar athugasemdir kæranda í bréfi hans frá 1. janúar 2001 gæfu ekki tilefni til að breyta fyrri ákvörðun.  Bæjarstjórn Garðabæjar staðfesti þessa afgreiðslu á fundi hinn 18. janúar 2001 og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dags. 22. janúar 2001.

Kærandi undi ekki þessum málalokum og kærði ákvörðun bæjaryfirvalda til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og með henni hafi bæjaryfirvöld fórnað mikilvægum hagsmunum kæranda fyrir órökstudda og minni hagsmuni eiganda nágrannaeignar.

Bent er á að rökstuðning skorti fyrir ákvörðun bæjaryfirvalda að synja umsókn kæranda og þær athugasemdir, sem fram hafi komið við grenndarkynningu og skipulagsnefnd geri að sínum, eigi ekki við rök að styðjast.  Ófullnægjandi sé að hafna erindi kæranda með þeim rökum að umbeðin framkvæmd raski afstöðu milli húsa og útsýni í því ljósi að engar athuganir, mælingar eða kannanir hafi verið framkvæmdar af hálfu skipulagsnefndar er renni stoðum undir þær fullyrðingar.  Kærandi heldur því fram að af gögnum málsins megi ljóst vera að umbeðin framkvæmd skerði hvorki útsýni frá húsinu að Haukanesi 6 né raski afstöðu milli húsa.  Fyrirhugaður sólskáli hafi ekki meiri áhrif á útsýni og afstöðu húsa en svalahandrið sem nauðsynlegt sé að reisa á viðkomandi svölum til þess að gera þær löglegar.

Er á því byggt að hin kærða ákvörðun uppfylli hvorki fyrirmæli 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 né 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning.  Rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt og ekki hafi verið farið að meðalhófsreglu 12. gr. laganna við ákvarðanatökuna þar sem verulegir hagsmunir kæranda séu fyrir borð bornir án þess að fyrir liggi haldbær rök fyrir þeirri niðurstöðu.

Kærandi telur að kæra til úrskurðarnefndarinnar sé nægilega snemma fram komin miðað við atvik máls.  Kærandi hafi með bréfi, dags. 1. janúar 2001, beðið um endurskoðun ákvörðunar bæjarstjórnar sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 27. desember 2000.  Hafi málið verið tekið upp að nýju og kærufrestur þar með rofinn.

Afstaða bæjarstjórnar hafi verið tilkynnt til kæranda með bréfi, dags. 22. janúar 2001.  Í þeirri tilkynningu hafi kæranda ekki verið bent á kæruheimild til æðra stjórnvalds, kærufrests ekki getið eða bent á rétt kæranda til þess að fá skriflegan rökstuðning frá viðkomandi stjórnvaldi, en að hans mati skorti rökstuðning fyrir umdeildri ákvörðun.  Tilkynning ákvörðunarinnar hafi ekki verið í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga og þar með hafi réttarvernd kæranda og möguleikar hans á málskoti verið í hættu.  Með hliðsjón af þessu og með vísan til 27. og 28. gr. stjórnsýslulaga telur kærandi að taka beri kæru hans til efnislegrar meðferðar.

Málsrök Garðabæjar:  Bæjaryfirvöld gera þá kröfu að ákvörðun bæjarstjórnar um að hafna umsókn kæranda standi óröskuð.

Umsókn kæranda sé í raun beiðni um byggingarleyfi fyrir 13,6 fermetra sólskála og með þeim framkvæmdum yrði farið út fyrir byggingarreit samkvæmt samþykktum teikningum.  Framkvæmdin feli því í sér frávik frá gildandi lóðarskilmálum sem eðlilegt sé að gefa hugsanlegum hagsmunaaðilum kost á að tjá sig um.

Hús kæranda sé á svæði þar sem skipulag byggi á skilmálum sem settir hafi verið á sínum tíma um byggingar á Arnarnesi.  Umsókn kæranda hafi falið í sér óverulega breytingu á skipulagi og hafi hún verið grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og aðilum sem kynnu að eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir, sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Fram hafi komið athugasemdir frá nágranna kæranda þar sem framkvæmdum utan byggingarreits hafi verið mótmælt.

Að hálfu Garðabæjar sé litið svo á að þegar fram komi athugasemdir, sem almennt geti talist málefnalegar frá aðilum sem sannanlega eigi hagsmuna að gæta, verði ekki vikið frá gildandi skilmálum um byggingu húsa.  Telja verði að aðilar eigi að geta treyst því að við byggingu mannvirkja verði farið að gildandi skilmálum og ekki verði heimiluð frávik nema að fengnu samþykki hagsmunaaðila.  Bæjaryfirvöld telji því ekki unnt að fallast á umsókn kæranda og ganga með því á hagsmuni nágranna.

Niðurstaða:  Kærufrestur vegna ákvarðana um byggingarmál er einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gengur sá frestur framar almennum kærufresti stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga.

Með afgreiðslu bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 21. desember 2000 á byggingarleyfisumsókn kæranda var tekin ákvörðun sem var kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Erindi kæranda til bæjaryfirvalda, dags. 1. janúar 2001, fól í sér beiðni um endurupptöku fyrri ákvörðunar eins og heimilað er í 24. gr. stjórnsýslulaga.  Endurupptökubeiðnin var sett fram innan kærufrests á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda.  Skipulagsnefnd Garðabæjar tók erindið fyrir á fundi sínum hinn 10. janúar 2001 og var m.a. bókað að „Athugasemdir í ofangreindu erindi breyta ekki afstöðu skipulagsnefndar og ítrekar hún bókun sína frá 06.12.00.” og samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar þessa afgreiðslu hinn 18. janúar 2001.

Skilja verður afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar hinn 10. og 18. janúar 2001 svo að beiðni kæranda um endurupptöku fyrri ákvörðunar hafi verið hafnað og hafi kærufrestur fyrri ákvörðunar farið að líða að nýju eftir að kæranda var tilkynnt um þá afstöðu, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.  Svar bæjaryfirvalda við erindi kæranda frá 1. janúar 2001 var dagsett hinn 27. janúar 2001 og rann kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt þessu út í síðasta lagi í febrúarlok 2001 eða nokkrum vikum fyrir dagsetningu kæru og móttöku.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Meginregla stjórnsýslulaganna er að vísa beri kæru frá að liðnum kærufresti og verður að skýra undantekningar frá meginreglunni þröngt.

Í tilkynningu bæjaryfirvalda til kæranda um efnislega afgreiðslu umsóknar hans, dags. 27. desember 2000, var gerð grein fyrir kæruheimild hans til úrskurðarnefndarinnar og kærufresti en eins og fyrr er rakið telur úrskurðarnefndin að seinni tilkynning til kæranda hafi falið í sér synjun á endurupptöku fyrri ákvörðunar.  Í ljósi þessara aðstæðna verður ekki talið tilefni til að víkja frá meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga um frávísun kæru að liðnum kærufresti með þeim rökum að dráttur á málskoti kæranda sé afsakanlegur. 

Hin kærða ákvörðun fól í sér afstöðu bæjaryfirvalda til umsóknar kæranda um yfirbyggingu svala á fasteign hans að Haukanesi 4, Garðabæ.  Af því sem fram er komið í málinu verður ekki ráðið að byggingarnefnd bæjarins hafi afgreitt umsóknina svo sem fyrir er mælt í 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en málið hefði átt að sæta meðferð eftir 7. mgr 43. gr. sömu laga.  Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að kærandi eigi þess enn kost að leita lögmæltrar afgreiðslu byggingarnefndar á erindi sínu og mæla veigamiklar ástæður því ekki með því að taka kærumál þetta til efnislegrar meðferðar.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir

65/2002 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, föstudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2002, kæra íbúa að Bogahlíð 8 og 10 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. desember 2002, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 9. sama mánaðar, kæra S og A f.h. íbúa að Bogahlíð 8 og 10 í Reykjavík ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. nóvember 2002.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á vormánuðum 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því, sem á lóðinni væri, í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október það ár.

Samhliða meðferð tillögu að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var á lóðinni og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þessar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hefði verið áfátt og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 4. desember 2002, svo sem að framan greinir.

Með úrskurði, uppkveðnum 31. janúar 2003, stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 að kröfu íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6, sem einnig höfðu kært hina umdeildu ákvörðun.  Taldi úrskurðarnefndin slíka annmarka vera á hinni kærðu ákvörðun að líklegt væri að hún yrði ógilt.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. febrúar 2003 var framangreindur úrskurður um stöðvun framkvæmda lagður fram.  Jafnframt var á fundinum ákveðið að afturkalla hið umdeilda byggingarleyfi frá 16. október 2002 og veita að nýju leyfi fyrir sömu framkvæmdum á lóðinni.  Voru ákvarðanir þessar staðfestar á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að grenndarkynningu sem fram hafi farið við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.  Misræmi sé í gögnum og tilgreint nýtingarhlutfall  rangt.  Þá sé fyrirhuguð nýbygging of stór með hliðsjón af stærð lóðar.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er málatilbúnaði kærenda mótmælt og því haldið fram að við gerð og undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið gætt lagaskilyrða og að hin kærða ákvörðun sé í alla staði lögmæt.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt.  Telur hann hina kærðu ákvörðun í alla staði lögmæta og mótmælir því að á henni séu einhverjir hnökrar er ógildingu varði.  Málið hafi verið unnið og undirbúið í samráði við kærendur og hafi ítrekað verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra.  Að öðru leyti sé vísað til röksemda sem fram hafi komið af hálfu borgaryfirvalda í málinu.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki þurfa að gera nánari grein fyrir röksemdum aðila í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.  Einnig er til þess að líta að úrskurðarnefndin hefur, fyrr í dag, kveðið upp úrskurð í öðru kærumáli um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis og er í honum gerð ítarlegri grein fyrir álitaefnum málsins og sjónarmiðum aðila.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var hin kærða ákvörðun frá 16. október 2002 afturkölluð á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 5. febrúar 2003.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. sama mánaðar.  Þar sem ákvörðun sú, sem kærð er í máli þessu, hefur verið afturkölluð af hálfu borgaryfirvalda hefur hún ekki lengur gildi að lögum og sætir því ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.  Ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson

64/2002 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, föstudaginn 21. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2002, kæra íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2002, kærir B, formaður húsfélagsins Bogahlíð 2, 4 og 6, f.h. íbúa hússins, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 16. október 2002 um að veita leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. nóvember 2002.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Á vormánuðum 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því, sem á lóðinni væri, í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október það ár.

Samhliða meðferð tillögu að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var á lóðinni og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þessar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða þeirra og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. nóvember 2002, og kröfðust síðan stöðvunar framkvæmda við niðurrif hússins með bréfi, dags. 30. desember 2002.  Féllst úrskurðarnefndin á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmdanna með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2003 enda taldi nefndin slíka annmarka vera á hinni kærðu ákvörðun að líklegt væri að hún yrði ógilt.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. febrúar 2003 var framangreindur úrskurður um stöðvun framkvæmda lagður fram.  Var á fundinum ákveðið að afturkalla hið umdeilda byggingarleyfi frá 16. október 2002 og veita að nýju leyfi fyrir sömu framkvæmdum á lóðinni.  Voru ákvarðanir þessar staðfestar á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á það bent að lögum og reglum um skipulagsmál, auk ákvæða stjórnsýslulaga, sé ætlað að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga verði ekki fyrir borð borinn, þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Margt bendi til þess að kynnningu á aðalskipulagstillögu þeirri sem verið hafi undanfari hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið stórlega ábótavant og hafi hún tæplega fullnægt lagaskilyrðum.  Þá hafi skort rökstuðning fyrir breyttu aðalskipulagi.  Ekkert deiliskipulag hafi verið í gildi um lóðina að Stakkahlíð 17.  Borgarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags.  Því sé harðlega mótmælt, að borgarstjórn hafi verið heimilt að samþykkja framkvæmd á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, þar sem óheimilt hafi verið að fara með málið eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæði þetta beri að skýra svo að það eigi einungis við um minni háttar framkvæmdir sem ekki feli í sér breytingar á byggðamynstri.

Kærendur hafi talið sig mega treysta því að ekki yrði heimiluð bygging á umræddri lóð sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni, án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins, m.a. vegna höfnunar umsóknar um leyfi fyrir slíkri byggingu á árinu 1991.  Hafi kærendur m.a. stuðst við vitneskju um þetta við ákvörðun um kaup á dýrum íbúðum í húsinu Bogahlíð 2, 4 og 6 á árunum 1995 og 1996.  Þá sé áréttað að 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga heimili ekki þá málsmeðferð, sem viðhöfð hafi verið, þar sem aðalskipulag hafi ekki heimilað íbúðabyggingu á lóðinni þegar grenndarkynningin hafi talist byrja þann 17. desember 2001.

Loks sé nýtingarhlutfall hinnar umdeildu nýbyggingar of hátt, auk þess sem grenndaráhrif byggingarinnar muni skerða lögvarða hagsmuni kærenda.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt málatilbúnaði kærenda er varðar málsmeðferð breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 varðandi lóðina nr. 17 við Stakkahlíð.  Eins og ráða megi af gögnum málsins hafi meðferð tillögunnar verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi tillagan verið auglýst til kynningar en ekki grenndarkynnt eins og kærendur haldi fram.  Í fyrra grenndarkynningarbréfinu hafi þess hins vegar verið getið, til frekari upplýsingar fyrir hagsmunaaðila, að samhliða grenndarkynningunni væri auglýst til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina.  Ekki verði fjallað frekar um þessa málsástæðu kærenda þar sem hún hafi ekki þýðingu í málinu, enda úrskurðarnefndin ekki til þess bær að fjalla um lögmæti breytinga á aðalskipulagi sem umhverfisráðherra hafi staðfest.

Rétt sé hjá kærendum að ekkert deiliskipulag sé til af því svæði sem lóðin að Stakkahlíð nr. 17 standi á en einmitt af þeirri ástæðu hafi það verið byggingarleyfisumsókn sem grenndarkynnt hafi verið fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, en ekki breyting á deiliskipulagi.  Umfjöllun kærenda um deiliskipulag og þær kröfur sem gerðar séu til slíkra skipulagsáætlana hafi því ekki þýðingu.

Óumdeilt sé að núgildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 byggi á því að allt land sé skipulagsskylt og framkvæmdir skuli að jafnaði byggja á deiliskipulagsáætlunum.  Í 9. gr. skipulags- og byggingarlaga komi fram meginregla laganna um skipulagsskyldu, þ.e. að landið allt sé skipulagsskylt, og að allar framkvæmdir, þ.e. bygging húsa, annarra mannvirkja og aðrar framkvæmdir, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Með ákvæði þessu hafi í fyrsta sinn verið kveðið afdráttarlaust á um skipulagsskyldu á Íslandi.  Frá þessari meginreglu séu hins vegar nokkrar undantekningar en hér skipti bara ein þeirra máli og komi hún fram í 3. mgr. 23. gr. laganna.  Samkvæmt þeirri grein sé sveitarstjórn heimilt, í þegar byggðu hverfi þar sem ekki sé til deiliskipulag, að veita leyfi til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, eins og gert hafi verið í því máli sem hér sé fjallað um.  Ákvæðið hafi verið skýrt með þeim hætti að aðeins sé hægt að neyta þessarar undanþágu þegar byggingarleyfi samræmist byggðamynstri og ákvæðum aðalskipulags.  Það sé skoðun borgaryfirvalda að fyrirhuguð bygging að Stakkahlíð 17 samræmist byggðamynstri svæðisins og að heimilt hafi verið að fara með málið á þann veg sem gert hafi verið.

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu kærenda að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umsóknina áður en tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina hafi verið samþykkt.  Hvergi í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé mælt fyrir um að það sé bannað.  Í 2. mgr. 43. gr. segi aðeins að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í því máli sem hér um ræði hafi hið kærða byggingarleyfi verið samþykkt, bæði í skipulags- og byggingarnefnd og borgarstjórn, eftir að umhverfisráðherra hafi staðfest aðalskipulagsbreytinguna.  Ljóst sé því, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga, að þegar framkvæmdir hafi verið hafnar við niðurrif hússins hafi þær verið í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Þá verði að skýra 3. mgr. 23. gr. í samræmi við breytingu sem gerð hafi verið á 1. mgr. sömu greinar, sem nú sé 2. mgr., með lögum nr. 170/2001, en með þeirri breytingu hafi sveitarstjórnum verið heimilað að auglýsa tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi samhliða tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi varðandi sama svæði.  Sömu sjónarmið eigi við um samhliða auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi og grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn, en skýra verði ákvæði laganna í samræmi hvað þetta varði. 

Kærendur telji að vegna höfnunar byggingarleyfisumsóknar frá árinu 1991 hafi þeir mátt treysta því að ekki yrði heimiluð bygging sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni án þess að unnið yrði deiliskipulag.  Í þessu sambandi verði að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum og veita leyfi til framkvæmda án þess að fyrir liggi deiliskipulag, sbr. t.d. 21., 23. og 26. gr. laganna.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti því ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi eða byggingum sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Borgaryfirvöld telji að byggingarleyfi það sem um sé deilt í máli þessu hafi óveruleg áhrif á grenndarrétt hagsmunaaðila, þ.m.t. kærenda.  Telji aðilar sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist eða þeir hafi mátt búast við eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Kærendur hafi ekki sýnt fram á þeir verði fyrir tjóni vegna breytingarinnar.  Umfjöllun um bætur falli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar og verði því ekki gerð frekari skil í þessu máli.  Hafa beri í huga að kærendur búi í húsi, sem á sínum tíma hafi verið byggt á grundvelli sambærilegrar málsmeðferðar og hin kærða byggingarleyfisumsókn hafi hlotið, og hafi þeim því mátt vera ljóst að breytingar gætu átt sér stað á svæðinu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt.  Telur hann hina kærðu ákvörðun í alla staði lögmæta og mótmælir því að á henni séu einhverjir hnökrar er ógildingu varði.  Málið hafi verið unnið og undirbúið í samráði við kærendur og hafi ítrekað verið tekið tillit til sjónarmiða þeirra.  Að öðru leyti sé vísað til röksemda sem fram hafi komið af hálfu borgaryfirvalda í málinu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var hin kærða ákvörðun frá 16. október 2002 afturkölluð á fundi skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 5. febrúar 2003.  Var sú ákvörðun staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. sama mánaðar.  Þar sem ákvörðun sú, sem kærð er í máli þessu, hefur verið afturkölluð af hálfu borgaryfirvalda hefur hún ekki lengur gildi að lögum og sætir því ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.  Ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Óðinn Elísson

30/2001 Fellasmári

Með

Ár 2003, föstudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2001, kæra eigenda Fellasmára 7, Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að gefa lóðarhöfum að Fellasmára 7 kost á að ná samkomulagi við lóðarhafa að Fellasmára 5 fyrir 1. júlí 2001, en að öðrum kosti að fjarlægja skjólveggi á og við lóðamörk Fellasmára 5 og 7.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júní 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. eigenda Fellasmára 7, Kópavogi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að gefa lóðarhöfum að Fellasmára 7 kost á að ná samkomulagi við lóðarhafa að Fellasmára 5 fyrir 1. júlí 2001, en að öðrum kosti að fjarlægja skjólveggi á og við lóðamörk Fellasmára 5 og 7.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001.  Af hálfu kærenda er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar dregið í efa og verður að skilja kæruna á þann veg að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2001, setur Jón Sigurðsson hdl. fram athugasemdir við ofangreinda kæru f.h. eigenda Fellasmára 5.  Krefst hann þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Jafnframt krefst hann þess að úrskurðarnefndin geri kærendum að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir.

Málsaðilar hafa einungis reifað málið að því er varðar framkomna frávísunarkröfu en hafa áskilið sér rétt til þess að koma að frekari málatilbúnaði um efnisatriði málsins á síðari stigum, verði frávísunarkröfunni hafnað.  Þykir rétt, með hliðsjón af því hvernig málið hefur verið lagt fyrir nefndina, að taka til sérstakrar úrlausnar kröfu eigenda Fellasmára 5 um frávísun og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Í þessum þætti málsins þykir ekki nauðsynlegt að gera ítarlega grein fyrir málavöxtum umfram það sem varðar frávísunarþátt málsins.  Verður af málsgögnum ráðið að ágreiningur hafi risið með málsaðilum um skjólgirðingu, sem eigendur Fellasmára 7 munu hafa reist á mörkum lóða þeirra.  Kom ágreiningur þessi til kasta byggingaryfirvalda í Kópavogi og var úr honum skorið af þeirra hálfu með hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar hinn 9. maí 2001.  Kærendum var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 10. maí 2001, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 10. gr. byggingarreglugerðar væri hverjum þeim sem teldi rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar heimilt, innan mánaðar frá því honum væri kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar, að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Framangreind ákvörðun byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001 og er ekki til þess vitað að kærendum hafi verið tilkynnt um þá afgreiðslu.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 25. júní 2001, svo sem að framan greinir, en með bréfi, dags. 24 ágúst 2001, krafðist umboðsmaður eigenda Fellasmára 5 frávísunar málsins.

Málsrök eigenda Fellasmára 5:  Frávísunarkröfu sína byggja eigendur Fellasmára 5 alfarið á því að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni og beri því, skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa kærunni frá, enda verði ekki talið afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr.  Kærendum hafi verið tilkynnt um ákvörðun byggingarnefndar með bréfi, dags. 10. maí 2001, og þá verið leiðbeint um eins mánaðar kærufrest.  Þrátt fyrir það hafi kærendur ekkert aðhafst í málinu fyrr en um einum og hálfum mánuði síðar eða hinn 25. júní 2001.  Hafi kærufrestur þá verið liðinn.  Þá hafi einnig verið liðinn meira en einn mánuður frá samþykkt bæjarstjórnar á hinni umþrættu ákvörðun byggingarnefndar.  Ekki tíðkist að tilkynna aðilum stjórnsýslumála um formlegar afgreiðslur sveitarstjórnarfunda á fundargerðum einstakra nefnda og hafi kærendur því ekki mátt vænta sérstakrar tilkynningar um samþykkt bæjarstjórnar á ákvörðun byggingarnefndar í málinu.  Fundargerðir bæjarstjórnar séu hins vegar birtar á vefsíðu bæjarins og öllum aðgengilegar á skrifstofum hans.  Sérstaklega sé mótmælt kröfu kærenda um að málið verði tekið til efnisúrlausnar þrátt fyrir að kærufrestur yrði talinn hafa verið liðinn er kæran barst, enda hafi málið enga þá sérstöðu að réttlætanlegt væri að beita undantekningarheimildum 28. gr. stjórnsýslulaganna í tilviki kærenda.  Því beri að vísa kærunni frá.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er frávísunarkröfunni mótmælt.  Upphaf kærufrests eigi að miða við það tímamark þegar kærendum hafi orðið kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á ákvörðun byggingarnefndar, enda hafi ákvörðun byggingarnefndar ekki verið lokaákvörðun í málinu, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendum hafi aldrei verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinni kærðu ákvörðun, þrátt fyrir ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi kærendum ekki orðið um hana kunnugt fyrr en 25. júní 2001.  Hafi kæra í málinu verið send úrskurðarnefndinni þann sama dag.  Líta verði til þess að kærufrestur skv. skipulags- og byggingarlögum sé styttri en almennt gerist í stjórnsýslunni, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kveðið sé á um almennan þriggja mánaða kærufrest.  Af þessum sökum verði að gera ríkari kröfur um að aðilum mála á skipulags- og byggingarsviði sé tilkynnt sem fyrst um ákvarðanir er þá varði. 

Verði hins vegar litið svo á að kæra hafi borist eftir að kærufresti lauk beri allt að einu að taka hana til efnismeðferðar, enda verði að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr og eigi því við 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafi alvarleg veikindi valdið því um tíma að kærendum hafi ekki verið unnt að sinna málinu en auk þess hafi málið sérstöðu þar sem það snúist í raun um jafnræðisreglu.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 miðast upphaf kærufrests í ágreiningsmálum, sem lögin taka til, við það tímamark er kæranda verður kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á þeirri ákvörðun, sem kæran tekur til.  Er þessi regla í samræmi við þá meginreglu að einungis lokaákvarðanir á lægra stjórnsýslustigi geti sætt kæru til æðra stjórnvalds.  Eru samþykktir byggingarnefnda ekki meðal slíkra ákvarðana, enda eru þær háðar staðfestingu sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 39. gr., 1. mgr. 43. gr. og 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 73/1997.

Samkvæmt fundargerð sem fyrir liggur í málinu hófst fundur bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001 kl. 16:00 og var honum slitið kl. 19:00 sama dag, en á umræddum fundi var hin umdeilda ákvörðun byggingarnefndar staðfest.  Verður ekki séð að kærendum hafi með nokkru móti mátt verða kunnugt um afgreiðsluna fyrr en í fyrsta lagi næsta virka dag, eða hinn 23. maí 2001, jafnvel þótt af þeirra hálfu hefði verið fylgst grannt með upplýsingum um afgreiðslur bæjarstjórnar á fundargerðum byggingarnefndar.

Væri talið að kærendum hefði mátt vera kunnugt um afgreiðslu bæjarstjórnar þegar hinn 23. maí 2001, sem er fyrsta mögulega tímamark, hefði kærufrestur byrjað að líða hinn 24. maí 2001, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga.  Hefði lokadagur frestsins þá verið hinn 24. júní 2001 en með því að þann dag bar upp á sunnudag lengdist fresturinn til næsta virka dags eða til 25. júní 2001, sbr. 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, en þann dag barst úrskurðarnefndinni kæra í málinu.  Yrði lokadagur frestsins raunar hinn sami þótt upphaf hans væri miðað við 23. maí 2001, þar sem lokadag frestsins hefði þá borið upp á laugardag 23. júní, sem einnig var frídagur, og hefði fresturinn því einnig framlengst til 25. júní í því tilviki.

Samkvæmt framansögðu barst kæra í máli þessu innan kærufrests, þótt miðað sé við fyrsta mögulegt upphaf hans, og verður frávísunarkröfu eigenda Fellasmára 5 því hafnað.  Er óþarft, að fenginni framangreindri niðurstöðu, að taka afstöðu til þess hvort kærendur hafi átt að hafa frumkvæði að því að fylgjast með afgreiðslu málsins hjá bæjaryfirvöldum eða til þess hvort afsakanlegur dráttur hafi orðið á því að kæran bærist úrskurðarnefndinni.

Enda þótt mál þetta hafi einungis verið reifað um frávísun gerir umboðsmaður eigenda Fellasmára 5, auk frávísunarkröfunnar, kröfu um að „…úrskurðarnefndin geri eigendum Fellasmára 7 að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk þegar í stað, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir.“  Í kröfugerð þessari felst efniskrafa sem með engu móti fær samrýmst frávísunarkröfu sama aðila í málinu.  Að auki felst í henni krafa um að úrskurðarnefndin taki ákvörðun, sem gangi lengra en felst í hinni kærðu ákvörðun.  Fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að taka slíkar ákvarðanir og verður framangreindri kröfu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál þetta verður tekið til efnisúrlausnar um gildi hinnar kærður ákvörðunar að lokinni gagnaöflun um þann þátt málsins.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda Fellasmára 5 í Kópavogi um frávísun kærumáls þessa.  Kröfu þeirra um að „…úrskurðarnefndin geri eigendum Fellasmára 7 að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk þegar í stað, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir“, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Óðinn Elísson

47/2001 Hamrahlíð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 23. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Hamrahlíð 8, Vopnafirði, vegna dráttar á afgreiðslu byggingarnefndar og sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps á erindi um byggingarleyfi fyrir breytingum á greindri fasteign. 

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. október 2001, er barst nefndinni 22. október sama ár, kærir Hilmar Gunnlaugsson hdl., fyrir hönd V hf., kt. 640179-0159, Lyngási 6-7 Egilsstöðum, drátt á afgreiðslu byggingarnefndar og sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps á erindi kæranda, dags. 17. júlí 2001, um byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra breytinga á fasteigninni að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.

Kærandi gerir þá kröfu að úrskurðarnefndin fallist á umbeðnar breytingar í samræmi við erindi hans til Vopnafjarðarhrepps.

Málavextir:  Með bréfi til byggingarfulltrúa Vopnafjarðarhrepps, dags. 17. júlí 2001, óskaði kærandi eftir heimild byggingaryfirvalda hreppsins fyrir breytingum á íbúðarhúsinu að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.  Í fyrirhuguðum framkvæmdum fólst að gluggum yrði fjölgað og breytt, svalir byggðar, bíleymsla stækkuð og bætt við göngudyrum á húsið.  Í bréfinu var tekið fram að fullnaðaruppdrættir samkvæmt byggingarreglugerð yrðu lagðir fram að fengnu samþykki byggingarnefndar fyrir breytingunum.

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps hinn 13. september 2001 og afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Byggingarnefnd Vopnafjarðarhrepps getur fallist á útlit fyrirhugaðra breytinga en getur ekki tekið endanlega afstöðu til erindisins fyrr en endanlegar teikningar liggja fyrir með endanlegum málsetningum.  Sérstaklega þarf að gæta að skilyrðum um brunavarnir sé uppfyllt hvað fjarlægðarmörk snertir og einnig staðsetning framkvæmda innan lóðar.  Jafnframt er minnt á nauðsyn þess að fá samþykki nágranna fyrir breytingunum.”  Mun hafa láðst að tilkynna kæranda um þessa afgreiðslu málsins.

Kærandi kærði síðan drátt á afgreiðslu málsins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að honum sé ekki kunnugt um að efnisleg rök mæli gegn beiðni hans um greint byggingarleyfi.  Kæra til úrskurðarnefndarinnar byggi á ákvæði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimili að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.  Fer kærandi fram á að úrskurðarnefndin heimili umræddar breytingar í samræmi við erindi kæranda frá 17. júlí 2001 enda fullnægi erindið skilyrðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einkum 3. mgr. 43. gr. laganna.

Málsrök Vopnafjarðarhrepps:  Bent er á að erindi kæranda hafi verið afgreitt á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps hinn 13. september 2001.  Í bókun nefndarinnar hafi verið tekið jákvætt á erindinu  en bent á að ekki væri hægt að taka ákvörðun í málinu fyrr en fullnægjandi uppdrættir er uppfylltu skilyrði byggingarreglugerðar lægju fyrir.  Þau mistök virðist hafa átt sér stað að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um þessa afgreiðslu en það hafi verið gert jafnskjótt og mistökin hafi komið í ljós.

Hinn 14. mars 2002 barst úrskurðarnefndinni símbréf frá sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps, þar sem fram kom að erindi kæranda hafi verið tekið fyrir hinn 13. september 2001 og afgreitt með bókun.  Var haft samband við lögmann kæranda og leitað eftir afstöðu kæranda til framhalds málsins í ljósi framkominna upplýsinga.  Kærandi telur mál sitt enn óafgreitt af hálfu byggingarnefndar þar sem svo hafi verið um samið að grenndarkynning yrði látin fara fram áður en endanlegar teikningar yrðu gerðar og þá að teknu tilliti til athugasemda nágranna ef einhverjar yrðu.

Niðurstaða:  Tilefni kærumáls þessa er ætlaður dráttur á afgreiðslu byggingarnefndar Vopnafjarðarhrepps á erindi kæranda frá 17. júlí 2001, þar sem leitað var eftir heimild til þar greindra breytinga á húsinu að Hamrahlíð 8, Vopnafirði.

Umrætt erindi kæranda fól í sér beiðni um heimild til breytinga sem byggingarleyfi þarf til samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í bréfi kæranda er tekið fram að fullnaðaruppdrættir samkvæmt byggingarreglugerð verði lagðir fram að fengnu samþykki byggingarnefndar fyrir umbeðnum breytingum en erindinu munu hafa fylgt teikningadrög er sýndu breytingarnar.  Í 4. mgr. 43. gr. nefndra laga segir að byggingarleyfisumsókn skuli fylgja nauðsynleg hönnunargögn og skilríki sem nánar sé kveðið á um í byggingarreglugerð.  Í 46. gr. laganna og 15.-24. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði um fylgigögn byggingarleyfisumsóknar og kröfur sem gerðar eru til uppdrátta og annarra hönnunargagna.

Fyrir liggur að umrætt erindi kæranda til byggingaryfirvalda Vopnafjarðarhrepps fullnægði ekki lögboðnum skilyrðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar um fylgigögn enda tekið fram í erindinu að fullnaðaruppdrættir yrðu lagðir fram að lokinni afgreiðslu þess.   Bókun byggingarnefndar frá 13. september 2001 ber þess og vitni að réttilega hafi verið litið á erindi kæranda sem fyrirspurn um afstöðu nefndarinnar til erindisins áður en kærandi réðist í að láta gera fullnaðaruppdrætti, sbr. gr. 12.4 í byggingarreglugerð, en slíkt mun tíðkað til þess að komast hjá kostnaði við gerð aðal- og séruppdrátta reynist byggingaryfirvöld mótfallin umsókn. Verður að skýra 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga svo, með hliðsjón af 3. og 4. mgr. ákvæðisins, að byggingarleyfisumsókn verði að uppfylla lágmarkskröfur þess, um aðaluppdrátt og framkvæmdaáform, til þess að umsóknin verði grenndarkynnt með lögformlegum hætti.

Að þessu virtu telur úrskurðarnefndin að erindi kæranda frá 17. júlí 2001 hafi verið afgreitt með fullnægjandi hætti á fundi byggingarnefndar Vopnafjarðar hinn 13. september sama ár eða áður en kæra um drátt á afgreiðslu barst úrskurðarnefndinni.  Kærandi hafði því ekki hagsmuni af því að fá afstöðu úrskurðarnefndarinnar til þess álitaefnis hvort óhæfilegur dráttur væri orðinn á afgreiðslu erindisins og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

______________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

___________________________                       _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                          Óðinn Elísson

 

39/2001 Reykjavíkurflugvöllur

Með

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2001, kæra Samtaka um betri byggð á ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra frá 11. apríl 2001 að flýta framkvæmdum við byggingu flugvallar í Vatnsmýri um allt að eitt ár.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. ágúst 2001, kærir Ö, fyrir hönd stjórnar samtaka um betri byggð, ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra frá 11. apríl 2001 að flýta framkvæmdum við byggingu flugvallar í Vatnsmýri um allt að eitt ár.

Málavextir:  Vorið 1998 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar.  Á árinu 1999 var gert mat á umhverfisáhrifum framkvæmda við norður-suður braut flugvallarins og í framhaldi af því veitti Reykjavíkurborg framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum.  Áætlað var að framkvæmdum lyki í október 2002.  Hinn 11. apríl 2001 ákvað Flugmálastjórn að fengnu samþykki samgönguráðherra að flýta verkinu og ljúka því í júní-júlí 2002.  Kærandi sætti sig ekki við þá ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra að flýta umræddum framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll.

Kærandi bendir á að með hinni kærðu ákvörðun hafi framkvæmdum, sem vinna átti á árinu 2002 við norður-suður braut flugvallarins, verið flýtt og færðar fram á árið 2001.  Kærandi telur að flýting framkvæmda fari í bága við frummat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra á árinu 1999.  Auk þess sé ákvörðunin í ósamræmi við framkvæmdaleyfi Borgarskipulags frá sama ári sem byggi á umhverfismatinu.

Niðurstaða:  Kærumál þetta snýst um ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðuneytis um tilhögun verkframkvæmda við endurbætur á norður-suður braut Reykjavíkurflugvallar sem framkvæmdaleyfi var veitt fyrir á árinu 1999.

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sker úrskurðarnefndin úr ágreiningi um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Það fellur ekki undir verksvið úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úr um lögmæti ákvörðunar samgönguráðuneytisins um framvindu verks sem framkvæmdaleyfi er fyrir, enda hafa skipulags- og byggingarlög ekki að geyma ákvæði um það efni.  Þegar af þessari ástæðu er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni og þykir ekki efni til að taka afstöðu til annarra atriða er gætu varðað frávísun svo sem kærufrests og aðildar í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir