Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2001 Fellasmári

Ár 2003, föstudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í forföllum aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2001, kæra eigenda Fellasmára 7, Kópavogi á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að gefa lóðarhöfum að Fellasmára 7 kost á að ná samkomulagi við lóðarhafa að Fellasmára 5 fyrir 1. júlí 2001, en að öðrum kosti að fjarlægja skjólveggi á og við lóðamörk Fellasmára 5 og 7.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júní 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. eigenda Fellasmára 7, Kópavogi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 9. maí 2001 um að gefa lóðarhöfum að Fellasmára 7 kost á að ná samkomulagi við lóðarhafa að Fellasmára 5 fyrir 1. júlí 2001, en að öðrum kosti að fjarlægja skjólveggi á og við lóðamörk Fellasmára 5 og 7.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001.  Af hálfu kærenda er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar dregið í efa og verður að skilja kæruna á þann veg að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2001, setur Jón Sigurðsson hdl. fram athugasemdir við ofangreinda kæru f.h. eigenda Fellasmára 5.  Krefst hann þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Jafnframt krefst hann þess að úrskurðarnefndin geri kærendum að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir.

Málsaðilar hafa einungis reifað málið að því er varðar framkomna frávísunarkröfu en hafa áskilið sér rétt til þess að koma að frekari málatilbúnaði um efnisatriði málsins á síðari stigum, verði frávísunarkröfunni hafnað.  Þykir rétt, með hliðsjón af því hvernig málið hefur verið lagt fyrir nefndina, að taka til sérstakrar úrlausnar kröfu eigenda Fellasmára 5 um frávísun og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Í þessum þætti málsins þykir ekki nauðsynlegt að gera ítarlega grein fyrir málavöxtum umfram það sem varðar frávísunarþátt málsins.  Verður af málsgögnum ráðið að ágreiningur hafi risið með málsaðilum um skjólgirðingu, sem eigendur Fellasmára 7 munu hafa reist á mörkum lóða þeirra.  Kom ágreiningur þessi til kasta byggingaryfirvalda í Kópavogi og var úr honum skorið af þeirra hálfu með hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar hinn 9. maí 2001.  Kærendum var tilkynnt um ákvörðunina með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 10. maí 2001, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 10. gr. byggingarreglugerðar væri hverjum þeim sem teldi rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar heimilt, innan mánaðar frá því honum væri kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar, að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Framangreind ákvörðun byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001 og er ekki til þess vitað að kærendum hafi verið tilkynnt um þá afgreiðslu.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 25. júní 2001, svo sem að framan greinir, en með bréfi, dags. 24 ágúst 2001, krafðist umboðsmaður eigenda Fellasmára 5 frávísunar málsins.

Málsrök eigenda Fellasmára 5:  Frávísunarkröfu sína byggja eigendur Fellasmára 5 alfarið á því að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni og beri því, skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa kærunni frá, enda verði ekki talið afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr.  Kærendum hafi verið tilkynnt um ákvörðun byggingarnefndar með bréfi, dags. 10. maí 2001, og þá verið leiðbeint um eins mánaðar kærufrest.  Þrátt fyrir það hafi kærendur ekkert aðhafst í málinu fyrr en um einum og hálfum mánuði síðar eða hinn 25. júní 2001.  Hafi kærufrestur þá verið liðinn.  Þá hafi einnig verið liðinn meira en einn mánuður frá samþykkt bæjarstjórnar á hinni umþrættu ákvörðun byggingarnefndar.  Ekki tíðkist að tilkynna aðilum stjórnsýslumála um formlegar afgreiðslur sveitarstjórnarfunda á fundargerðum einstakra nefnda og hafi kærendur því ekki mátt vænta sérstakrar tilkynningar um samþykkt bæjarstjórnar á ákvörðun byggingarnefndar í málinu.  Fundargerðir bæjarstjórnar séu hins vegar birtar á vefsíðu bæjarins og öllum aðgengilegar á skrifstofum hans.  Sérstaklega sé mótmælt kröfu kærenda um að málið verði tekið til efnisúrlausnar þrátt fyrir að kærufrestur yrði talinn hafa verið liðinn er kæran barst, enda hafi málið enga þá sérstöðu að réttlætanlegt væri að beita undantekningarheimildum 28. gr. stjórnsýslulaganna í tilviki kærenda.  Því beri að vísa kærunni frá.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er frávísunarkröfunni mótmælt.  Upphaf kærufrests eigi að miða við það tímamark þegar kærendum hafi orðið kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á ákvörðun byggingarnefndar, enda hafi ákvörðun byggingarnefndar ekki verið lokaákvörðun í málinu, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendum hafi aldrei verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinni kærðu ákvörðun, þrátt fyrir ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi kærendum ekki orðið um hana kunnugt fyrr en 25. júní 2001.  Hafi kæra í málinu verið send úrskurðarnefndinni þann sama dag.  Líta verði til þess að kærufrestur skv. skipulags- og byggingarlögum sé styttri en almennt gerist í stjórnsýslunni, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kveðið sé á um almennan þriggja mánaða kærufrest.  Af þessum sökum verði að gera ríkari kröfur um að aðilum mála á skipulags- og byggingarsviði sé tilkynnt sem fyrst um ákvarðanir er þá varði. 

Verði hins vegar litið svo á að kæra hafi borist eftir að kærufresti lauk beri allt að einu að taka hana til efnismeðferðar, enda verði að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr og eigi því við 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafi alvarleg veikindi valdið því um tíma að kærendum hafi ekki verið unnt að sinna málinu en auk þess hafi málið sérstöðu þar sem það snúist í raun um jafnræðisreglu.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 miðast upphaf kærufrests í ágreiningsmálum, sem lögin taka til, við það tímamark er kæranda verður kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á þeirri ákvörðun, sem kæran tekur til.  Er þessi regla í samræmi við þá meginreglu að einungis lokaákvarðanir á lægra stjórnsýslustigi geti sætt kæru til æðra stjórnvalds.  Eru samþykktir byggingarnefnda ekki meðal slíkra ákvarðana, enda eru þær háðar staðfestingu sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 39. gr., 1. mgr. 43. gr. og 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 73/1997.

Samkvæmt fundargerð sem fyrir liggur í málinu hófst fundur bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. maí 2001 kl. 16:00 og var honum slitið kl. 19:00 sama dag, en á umræddum fundi var hin umdeilda ákvörðun byggingarnefndar staðfest.  Verður ekki séð að kærendum hafi með nokkru móti mátt verða kunnugt um afgreiðsluna fyrr en í fyrsta lagi næsta virka dag, eða hinn 23. maí 2001, jafnvel þótt af þeirra hálfu hefði verið fylgst grannt með upplýsingum um afgreiðslur bæjarstjórnar á fundargerðum byggingarnefndar.

Væri talið að kærendum hefði mátt vera kunnugt um afgreiðslu bæjarstjórnar þegar hinn 23. maí 2001, sem er fyrsta mögulega tímamark, hefði kærufrestur byrjað að líða hinn 24. maí 2001, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga.  Hefði lokadagur frestsins þá verið hinn 24. júní 2001 en með því að þann dag bar upp á sunnudag lengdist fresturinn til næsta virka dags eða til 25. júní 2001, sbr. 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, en þann dag barst úrskurðarnefndinni kæra í málinu.  Yrði lokadagur frestsins raunar hinn sami þótt upphaf hans væri miðað við 23. maí 2001, þar sem lokadag frestsins hefði þá borið upp á laugardag 23. júní, sem einnig var frídagur, og hefði fresturinn því einnig framlengst til 25. júní í því tilviki.

Samkvæmt framansögðu barst kæra í máli þessu innan kærufrests, þótt miðað sé við fyrsta mögulegt upphaf hans, og verður frávísunarkröfu eigenda Fellasmára 5 því hafnað.  Er óþarft, að fenginni framangreindri niðurstöðu, að taka afstöðu til þess hvort kærendur hafi átt að hafa frumkvæði að því að fylgjast með afgreiðslu málsins hjá bæjaryfirvöldum eða til þess hvort afsakanlegur dráttur hafi orðið á því að kæran bærist úrskurðarnefndinni.

Enda þótt mál þetta hafi einungis verið reifað um frávísun gerir umboðsmaður eigenda Fellasmára 5, auk frávísunarkröfunnar, kröfu um að „…úrskurðarnefndin geri eigendum Fellasmára 7 að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk þegar í stað, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir.“  Í kröfugerð þessari felst efniskrafa sem með engu móti fær samrýmst frávísunarkröfu sama aðila í málinu.  Að auki felst í henni krafa um að úrskurðarnefndin taki ákvörðun, sem gangi lengra en felst í hinni kærðu ákvörðun.  Fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að taka slíkar ákvarðanir og verður framangreindri kröfu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál þetta verður tekið til efnisúrlausnar um gildi hinnar kærður ákvörðunar að lokinni gagnaöflun um þann þátt málsins.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu eigenda Fellasmára 5 í Kópavogi um frávísun kærumáls þessa.  Kröfu þeirra um að „…úrskurðarnefndin geri eigendum Fellasmára 7 að verða við ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um að fjarlægja girðingar á og við lóðamörk þegar í stað, að öðrum kosti verði þeir fjarlægðir“, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Óðinn Elísson