Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2001 Smiðjuvegur

Ár 2003, fimmtudaginn 15. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl. formaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2001; kæra eigenda hússins nr. 32 við Smiðjuveg í Kópavogi á ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 26. júlí 2001 um að synja erindi  hans um að bæjarráð leggi fyrir byggingarnefnd að afturkalla byggingarleyfi frá 8. júní 2001 fyrir steinvegg á lóðinni að Smiðjuvegi 30 og gert verði ráð fyrir stærra gönguopi í veggnum án þröskulds.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. október 2001, sem barst nefndinni hinn 2. nóvember sama ár, kærir Björn Þorri Viktorsson hdl., f. h. J ehf., og O,eigenda hússins nr. 32 við Smiðjuveg í Kópavogi þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 28. júlí 2001 að synja beiðni kærenda um afturköllun byggingarleyfis frá 8. júní 2001 fyrir steinvegg á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg, og að hlutast verði til um að gönguop á veggnum verði breikkað í a.m.k. 100 sentimetra og 10-15 sentimetra þröskuldur í gönguopinu verði fjarlægður.

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og byggingarleyfi fyrir umdeildum vegg verði ógilt og leyfishafa verið gert að breikka gönguop á veggnum og fjarlægja þröskuld í gönguopinu áður en byggingarleyfi verði veitt að nýju.

Málavextir:  Hinn 27. nóvember 1975 samþykkti byggingarnefnd Kópavogs teikningar af húsunum nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi ásamt uppdrætti af fyrirkomulagi á lóð húsanna.  Hús þessi eru sambyggð, tvær hæðir hvert, en vegna landhalla eru efri hæðir húsanna í götuhæð að sunnanverðu og neðri hæðir niðurgrafnar á þeirri hlið, en að norðanverðu eru neðri hæðir um það bil í götuhæð.  Húsin eru ætluð til atvinnustarfsemi.  Umrædd hús munu hafa verið byggð á árunum eftir 1975 en lóðarleigusamningar fyrir húsin eru gerðir hinn 8. mars 1977 (nr. 34), 13. mars 1978 (nr. 32) og 27. nóvember 1978 (nr. 30).  Snemma árs 1980 fékk eigandi hússins nr. 34 leyfi til að stækka neðri hæð hússins með því að byggja kjallara undir bílastæði efri hæðar þess, en samsvarandi stækkun neðri hæðar hússins nr. 32 var samþykkt snemma árs 1982.  Eftir byggingu kjallaranna eru bílastæði við efri hæðir húsanna ofan á steyptri loftplötu viðbyggingarinnar en upp úr plönunum standa fyrirferðarmiklir steinsteyptir reyklosunarstokkar.  Er slíkur stokkur tilheyrandi húsinu nr. 32 fram af skilvegg efri hæða húsanna nr. 30 og 32 og er stokkur þessi, samkvæmt samþykktri teikningu, 50 sentimetrar á hæð, 1,1 metri á breidd og 8,2 metrar að lengd, samsíða mörkum húsanna, en inni á þeim hluta lóðarinnar sem er framan við húsið nr. 32.  Er 1,7 metra fjarlægð frá húsvegg að þeim enda stokksins sem veit að húsinu.

Í lok ágúst og byrjun september 1998 reisti eigandi hússins nr. 30 við Smiðjuveg steinsteyptan vegg frá mótum húsanna nr. 30 og 32 á mörkum lóðarhluta þeirra sem eru fram af húsunum.  Er veggur þessi 85 – 90 sentimetrar á hæð og nær fram undir götu þá sem liggur meðfram lóð húsanna.  Endar hann þar í veggstubb sem byggður er hornrétt á vegginn og er samsíða götunni inn á lóðarhluta hússins nr. 30.  Á 8,2 metra bili er veggur þessi samsíða áðurnefndum reyklosunarstokki og byggður fast upp að honum.  Auk veggjar þessa byggði eigandi hússins nr. 30 hliðstæðan vegg að norðanverðu milli lóðarhlutanna framan við jarðhæðir sömu húsa, en fyrir lá samþykki eiganda neðri hæðar hússins nr. 32 fyrir veggnum að norðanverðu við húsin.

Kærendur mótmæltu þessum framkvæmdum á lóðinni sunnan húsanna og komu á framfæri kvörtun við byggingarfulltrúa þegar veggirnir voru steyptir.  Hinn 10. september 1998 ritaði lögmaður þeirra bréf til byggingarfulltrúans í Kópavogi, þar sem þess var krafist að embætti byggingarfulltrúa hlutaðist til um að veggirnir yrðu fjarlægðir og að gengið yrði frá lóðinni í fyrra horf.  Erindi þetta var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 4. nóvember 1998.  Lágu þá fyrir nefndinni erindi frá kærendum, svo og bréf eiganda Smiðjuvegar 30, dags. 6. október 1998, ásamt umsögn bæjarlögmanns Kópavogs um málið, dags. 21. október 1998.  Vísaði byggingarnefnd málinu frá á grundvelli umsagnar bæjarlögmanns og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 10. nóvember 1998.  Þessari ákvörðun byggingarnefndar vildu kærendur ekki una og skutu málinu því til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 10. desember 1998.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 26. febrúar 1999 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs um frávísun málsins.  Var lagt fyrir nefndina að taka til úrlausnar hvort veita skyldi byggingarleyfi fyrir veggjum þeim sem eigandi Smiðjuvegar 30 hafði byggt á sameiginlegri lóð húsanna nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg í Kópavogi, og skyldi gefa eiganda veggjanna kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim og afla tilskilins samþykkis og hönnunargagna innan hæfilegs frests.

Með vísan til úrskurðar nefndarinnar óskaði eigandi Smiðjuvegar 30 eftir leyfi fyrir steyptum stoðveggjum við fasteign sína.  Byggingarnefnd tók erindið fyrir og frestaði afgreiðslu þess á fundi sínum 24. mars 1999, með vísan í 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gaf málsaðilum kost á að kynna sér afstöðu byggingarnefndar og gögn málsins.

Á fundi byggingarnefndar 28. apríl 1999 var tekið fyrir erindi umsækjanda varðandi leyfi til að reisa steypta stoðveggi að Smiðjuvegi 30.  Var erindinu synjað þar sem samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 lægi ekki fyrir.  Taldi byggingarnefnd, með tilvísun til ákvæða 30., 33., 36. og 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og sérstaklega með vísun til 7., 8. og 10. töluliðar A-liðar 41. gr., að samþykki allra eigenda að Smiðjuvegi 30, 32 og 34 þyrfti fyrir framkvæmdum á lóð, þar með talið notkun og skiptingu á sameiginlegum bílastæðum.  Ennfremur hefði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála með úrskurði sínum 26. febrúar 1999 úrskurðað að lóðin nr. 30, 32 og 34 við Smiðjuveg væri sameiginleg.

Þessari niðurstöðu vildi umsækjandi ekki una og skaut málinu til úrskurðarnefndar sem kvað upp úrskurð sinn hinn 23. desember 1999.  Niðurstaða málsins varð sú að ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 28. apríl 1999 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddum vegg var felld úr gildi.  Lagt var fyrir byggingarnefnd að gefa kæranda í því máli kost á að sækja að nýju um byggingarleyfi fyrir veggjunum, með þeirri breytingu að gert yrði ráð fyrir óhindraðri umferð gangandi manna milli lóðarhlutanna sunnan húsanna nr. 30 og 32 við Smiðjuveg.  Var tekið fram að áður en byggingarleyfi yrði veitt bæri að gera úttekt á undirstöðum veggjanna og var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að samþykki einfalds meirihluta sameigenda lóðarinnar, miðað við eignarhluta, nægði til þess að fullnægja skilyrði 4. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Kærendur gerðu kröfu um að umdeildir veggir yrðu fjarlægðir í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2000, en þá virðist ekkert hafa verið aðhafst í málinu frá því að greindur úrskurður gekk hinn 23. desember 1999.  Byggingarnefnd Kópavogs tók fyrir byggingarleyfisumsókn vegna umdeildra veggja á fundi hinn 15. nóvember 2000.  Fyrir fundinum lá fyrrgreint bréf kærenda, álitsgerð Ragnars Gunnarssonar tæknifræðings, dags. 14. nóvember 2000, um úttekt á stöðugleika veggjanna og samþykki einfalds meirihluta eigenda Smiðjuvegar 30-34 miðað við eignarhluta.  Var það álit nefndarinnar að samþykkja bæri fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn, þar sem tekið hefði verið tillit til atriða í síðari úrskurði úrskurðarnefndarinnar en ákveðið var að fresta afgreiðslu málsins og gefa kærendum kost á að gera grein fyrir afstöðu sinni til óhindraðrar gönguumferðar milli lóðarhlutanna.  Kærendur settu fram þá ósk í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember 2000, að fyrirhugað 80 sentimetra gönguop á vegg milli lóðarhlutanna yrði breikkað.  Málið var á dagskrá byggingarnefndar á fundi hinn 29. nóvember 2000 þar sem greint bréf kærenda frá 23. nóvember lá frammi.  Var ályktað að gönguop milli lóðarhlutanna væri fullnægjandi svo sem það væri útfært í byggingarleyfisumsókn og lagði nefndin fyrir umsækjanda að saga umrætt göngugat í vegginn áður en til formlegrar samþykktar umsóknarinnar kæmi og var frestur til framkvæmdanna veittur til 15. desember 2000.  Byggingarfulltrúa var falin fullnaðarafgreiðsla málsins að uppfylltum greindum skilyrðum.  Kærendum var tilkynnt um þessa niðurstöðu í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 2000.

Bréfaskipti urðu um málið milli kærenda og bæjaryfirvalda í kjölfar þessa.  Kærendur sendu bæjarráði bréf, dags. 6. febrúar 2001, þar sem kvartað var yfir meðferð málsins af hálfu byggingarfulltrúa og því haldið fram að byggingaryfirvöld drægju taum framkvæmdaaðila á kostnað kærenda.  Var þess farið á leit að bæjarráð hlutaðist til um að gönguop á umdeildum vegg yrði breikkað og framkvæmdaaðila yrði gert að ganga frá framkvæmdum með fullnægjandi hætti. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 15. febrúar 2001 og vísað til byggingarfulltrúa og bæjarlögmanns.  Umsögn byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi ráðsins hinn 22. febrúar og umsögn lögmanna á fundi ráðsins hinn 22. mars 2001, þar sem byggingarfulltrúi og formaður byggingarnefndar gerðu grein fyrir málinu.  Kærendur sendu bæjarráði bréf hinn 1. júní 2001 með fyrirspurn um afdrif erindis þeirra frá 6. febrúar og með fyrirspurn um hvort ráðinu hefði borist greinargerð byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar vegna málsins.

Kærendum var sent bréf, dags. 3. júlí 2001, þar sem greint var frá að bæjarráð hefði á fundi sínum hinn 28. júní samþykkt umsögn bæjarlögmanns frá 27. júní sama ár í tilefni af erindi kærenda frá 1.  Var lagt til að kærendum yrði send greinargerð lögmanna um málið, dags. 28. febrúar 2001.

Lyktir umdeildrar byggingarleyfisumsóknar urðu þær að byggingarfulltrúi veitti umrætt byggingarleyfi fyrir veggjunum á fundi sínum hinn 8. júní 2001 þar sem þá hafði verið fullnægt skilyrði um sögun gönguops á vegg milli fasteignar kærenda og byggingarleyfishafa.  Byggingarleyfishafa og kærendum var tilkynnt þetta í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. júní 2001.  Umrædd afgreiðsla mun hafa verið staðfest af byggingarnefnd hinn 13. júní, í bæjarráði hinn 21. júní og í bæjarstjórn hinn 26. júní 2001.

Með bréfi, dags. 19. júlí 2001, sendu kærendur bæjarráði Kópavogs erindi þar sem athugasemdir voru gerðar við breidd gönguops á umdeildum vegg að Smiðjuvegi 30 og ýmsar athugasemdir gerðar við meðferð málsins.  Var þess farið á leit við bæjarráð að byggingarnefnd yrði gert að afturkalla umdeilt byggingarleyfi og hlutast yrði til um að gönguop á veggnum yrði breikkað í a.m.k. 100 sentimetra og 10-15 sentimetra þröskuldur í gönguopinu yrði fjarlægður.  Bæjarráð hafnaði erindi kærenda á fundi sínum hinn 26. júlí 2001 og var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu í bréfi bæjarlögmanns, dags. 2. ágúst 2001.

Kærendur hafa nú skotið þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið.

Málsrök kæranda:  Kærendur byggja kröfu sína á því að ómálefnalega hafi verið staðið að meðferð beiðni kærenda um breikkun á gönguopi í vegg milli fasteigna kærenda og byggingarleyfishafa sem hafi á hendi iðnaðarstarfsemi í fasteign sinni.  Óskiljanlegt sé að bæjaryfirvöld miði gönguopið við breidd dyra á íbúðarherbergjum sem sé 80 sentimetrar samkvæmt gr. 79.9 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 í ljósi þess að um sé að ræða aðgengi að tveimur iðnaðarrýmum þar sem koma þurfi fyrirferðarmiklum hlutum að og frá.  Hin kærða ákvörðun byggi á ranghugmyndum um aðkomu og aðgengi að umræddum rýmum og niðurstaða málsins því reist á röngum forsendum auk þess sem engin rök hafi verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Kærendur telji að miða hefði átt margnefnt gönguop við 200. gr. byggingarreglugerðar sem kveði á um að gangar, þar með taldir svalagangar, skuli vera a.m.k. 1,3 metra breiðir.

Niðurstaða: Kærufrestur vegna ákvarðana um byggingarmál er einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gengur sá frestur framar almennum kærufresti stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga.

Erindi kærenda, dags. 19. júlí 2001, fól í sér beiðni til bæjarráðs Kópavogs um að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 8. júní 2001, um veitingu byggingarleyfis fyrir þegar reistum steinvegg við fasteignina að Smiðjuvegi 30, yrði endurupptekin og breytt á þann veg er kærandi gerði kröfu um.  Bæjarráð synjaði erindinu og fól bæjarlögmanni að svara því og var kærendum tilkynnt um synjunina með bréfi bæjarlögmanns, dags. 2. ágúst 2001, sem kærendur kveðast hafa móttekið hinn 6. ágúst sama ár.  Málskot kærenda er dagsett hinn 31. október 2001, og barst úrskurðarnefndinni hinn 2. nóvember 2001, eða tæpum þremur mánuðum eftir að kærendum var kunn hin kærða ákvörðun.  og var kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga þá löngu liðinn.  Kemur þá til álita hvort taka eigi kæruna til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguheimildum 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í nefndri 28. gr. er kveðið á um að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Meginregla stjórnsýslulaganna er að vísa beri kæru frá að liðnum kærufresti og verður að skýra undantekningar frá meginreglunni þröngt.

Hvorki í tilkynningu bæjaryfirvalda til kæranda um synjun bæjarráðs á erindi hans, dags. 2. ágúst 2001, né í tilkynningu byggingarfulltrúa um veitingu umdeilds byggingarleyfis var gerð grein fyrir kæruheimild hans til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest eins og áskilið er í 20. gr. stjórnsýslulaga.  Deilumál um umræddan vegg hafa tvívegis áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar og voru kærendur aðilar að þeim málum.  Þeim var strax í nóvember 2000 kunn afstaða byggingarnefndar til athugasemda kærenda við fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn og var tilkynnt um veitingu leyfisins með bréfi byggingarfulltrúa Kópavogs, dags. 11. júní 2001, og hafði að tilhlutan bæjarráðs fengið senda umsögn lögmanna til bæjarráðs um málið og meðferð þess, dags. 28. febrúar 2001.  Málið fékk ítarlega umfjöllun hjá bæjaryfirvöldum og áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli þeirra og kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins.  Í ljósi þessarar forsögu málsins verður greindur annmarki ekki talinn eiga að leiða til þess að beita eigi undanþágureglum 28. gr. stjórnsýslulaga frá kærufresti.  Ekki verður talið að dráttur á málskoti kæranda sé afsakanlegur í ljósi málsatvika og álitaefni það sem uppi er í málinu þykir ekki þess eðlis að mikilvægar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Með skírskotun til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu og með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga þótti ekki efni til að afla umsagnar bæjaryfirvalda í málinu eða leita andmæla byggingarleyfishafa enda liggur nægjanlega fyrir afstaða bæjaryfirvalda og byggingarleyfishafa í gögnum þessa máls og í þeim tveimur málum sem áður hafa komið til kasta nefndarinnar vegna veggjarins á lóðinni nr. 30 við Smiðjuveg, Kópavogi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Óðinn Elísson