Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2001 Reykjavíkurflugvöllur

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2001, kæra Samtaka um betri byggð á ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra frá 11. apríl 2001 að flýta framkvæmdum við byggingu flugvallar í Vatnsmýri um allt að eitt ár.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. ágúst 2001, kærir Ö, fyrir hönd stjórnar samtaka um betri byggð, ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra frá 11. apríl 2001 að flýta framkvæmdum við byggingu flugvallar í Vatnsmýri um allt að eitt ár.

Málavextir:  Vorið 1998 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar.  Á árinu 1999 var gert mat á umhverfisáhrifum framkvæmda við norður-suður braut flugvallarins og í framhaldi af því veitti Reykjavíkurborg framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum.  Áætlað var að framkvæmdum lyki í október 2002.  Hinn 11. apríl 2001 ákvað Flugmálastjórn að fengnu samþykki samgönguráðherra að flýta verkinu og ljúka því í júní-júlí 2002.  Kærandi sætti sig ekki við þá ákvörðun og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðherra að flýta umræddum framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll.

Kærandi bendir á að með hinni kærðu ákvörðun hafi framkvæmdum, sem vinna átti á árinu 2002 við norður-suður braut flugvallarins, verið flýtt og færðar fram á árið 2001.  Kærandi telur að flýting framkvæmda fari í bága við frummat Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra á árinu 1999.  Auk þess sé ákvörðunin í ósamræmi við framkvæmdaleyfi Borgarskipulags frá sama ári sem byggi á umhverfismatinu.

Niðurstaða:  Kærumál þetta snýst um ákvörðun Flugmálastjórnar og samgönguráðuneytis um tilhögun verkframkvæmda við endurbætur á norður-suður braut Reykjavíkurflugvallar sem framkvæmdaleyfi var veitt fyrir á árinu 1999.

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sker úrskurðarnefndin úr ágreiningi um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Það fellur ekki undir verksvið úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úr um lögmæti ákvörðunar samgönguráðuneytisins um framvindu verks sem framkvæmdaleyfi er fyrir, enda hafa skipulags- og byggingarlög ekki að geyma ákvæði um það efni.  Þegar af þessari ástæðu er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni og þykir ekki efni til að taka afstöðu til annarra atriða er gætu varðað frávísun svo sem kærufrests og aðildar í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir