Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

29/2001 Tjarnarstígur

Ár 2003, miðvikudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2001, kæra íbúa í húsunum nr. 103, 105, og 107 við Nesveg nr. 6, 14, 16, 20, 22 og 26 við Tjarnarstíg og nr. 4 við Hamarsgötu á Seltjarnarnesi á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness að hafna framkomnum athugasemdum kærenda við grenndarkynningu á dælustöð við Tjarnarstíg, Seltjarnarnesi.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. júní 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hdl., fyrir hönd íbúa í húsunum nr. 103, 105, og 107 við Nesveg, nr. 6, 14, 16, 20, 22 og 26 við Tjarnarstíg og nr. 4 við Hamarsgötu á Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Seltjarnarness frá 17. maí 2001 að hafna athugasemdum kærenda sem komið var á framfæri við grenndarkynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum við dælustöð við Tjarnarstíg, Seltjarnarnesi.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 23. maí 2001.

Kærendur gera þær kröfur að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og staðfest verði að ekki sé heimilt að gera grjótvarnargarð og göngustíg sunnanvert við Sækamb og   byggja dælustöð við Tjarnarstíg.  Þá er gerð krafa um að fyrirhugaðar framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 27. mars 2001, var nokkrum íbúum við Nesveg og Tjarnarstíg á Seltjarnarnesi grenndarkynnt fyrirhuguð bygging dælustöðvar við Tjarnarstíg og framkvæmdir henni tengdar.  Í bréfinu kom fram að grenndarkynningin væri gerð samkvæmt 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Auk fyrrgreindrar dælustöðvar, er tengjast átti fráveitukerfi Seltjarnarness, var í bréfinu gerð grein fyrir fyrirhuguðum aðkomu- og lagnaleiðum, sjóvörnum, landfyllingum og áætlun um framkvæmd verksins.

Lögmaður kærenda kom á framfæri athugasemdum vegna fyrirhugaðra framkvæmda í bréfi til Seltjarnarnessbæjar, dags. 23. apríl 2001.  Var á því byggt að lagagrundvöll skorti fyrir grenndarkynningu umræddra framkvæmda og samþykki lóðaeigenda á framkvæmdasvæðinu skorti.  Athugasemdir kærenda voru teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 17. maí 2001 og var þar samþykkt umsögn vegna athugasemdanna þar sem ekki var fallist á rök kærenda.  Var tekið fram að málið snerti aðeins fáa á svæðinu, sem væri verið að deiliskipuleggja, og eðlilegt væri að afgreiða umræddar framkvæmdir með grenndarkynningu.  Málið hefði fengið ítarlega kynningu á almennum fundum vegna skipulagsvinnunnar og eigandi lóðar þeirrar sem ætlunin væri að reisa dælustöðina á hefði samþykkt framkvæmdina.  Lögmanni kærenda var tilkynnt um þessa afstöðu bæjaryfirvalda í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 7. júní 2001, og var þar bent á málsskotsrétt samkvæmt gr. 10.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Kærendur skutu málinu síðan til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kröfum sínum til stuðnings benda kærendur á að hin kærða ákvörðun sé haldin margvíslegum annmörkum.  Ekki sé unnt að beina málinu í farveg undantekningarákvæðis 2. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Grenndarkynningin hafi einungis snúið að gerð dælustöðvar en ljóst sé að bæjaryfirvöld ætli sér að hefja miklar framkvæmdir við gerð grjótvarnargarðs og landfyllingar auk göngustígagerðar ofan á hinum nýja varnargarði og málið hafi ekki verið kynnt öllum þeim sem hagsmuna eigi að gæta vegna framkvæmdanna.  Ljóst sé samkvæmt þinglýstum heimildum og öðrum gögnum að lóðir kærenda séu eignarlóðir og fjaran fyrir framan eignarlóðirnar sé eignarland þeirra og eigi þeir rétt yfir netlögum.  Umdeildar framkvæmdir séu háðar því að samþykki eigenda liggi fyrir en eftir því hafi ekki verið leitað og ekkert samráð við þá haft.

Umdeildar framkvæmdir séu ólögmætar og nauðsynlegt sé að úrskurða um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða svo unnt sé að tryggja að endanleg efnisleg úrlausn málsins hafi þýðingu.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:    Vísað er til þess að skipulagsnefnd hafi hinn 31. janúar 2002 tekið fyrir breyttan uppdrátt vegna umdeildra framkvæmda.  Felist breytingarnar aðallega í því að aðkomuleið að dælustöðinni sé breytt ásamt lagnaleið auk breytinga á staðsetningu dælustöðvarinnar frá fyrri tillögu.  Við þessar breytingar sé fallið frá meginhluta fyllingar og grjótvarnargarðs sem kynnt hafi verið í apríl 2001 þannig að einungis verði fyllt umhverfis dælustöðina sjálfa.  Samþykkt hafi verið að grenndarkynna hinar breyttu framkvæmdir og sé því tillagan sem kynnt hafi verið í apríl 2001 fallin úr gildi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afstaða Seltjarnarnesbæjar til athugasemda kærenda sem komið var á framfæri við grenndarkynningu vegna fyrirhugaðrar byggingar dælustöðvar og annarra framkvæmda í tengslum við þá byggingu.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls.  Hin kærða samþykkt ber ekki með sér að í henni felist ákvörðun eða heimild til að hefja umdeildar framkvæmdir, sem verða að eiga stoð í skipulagsákvörðun eða eftir atvikum veitingu framkvæmda- eða byggingarleyfis.  Átti ábending bæjaryfirvalda um kæruheimild í bréfi til lögmanns kærenda, dags. 7. júní 2001, því ekki við.  Þá er fram komið að bæjaryfirvöld hafi fallið frá fyrri tillögu og hafi samþykkt að grenndarkynna breytta tillögu um framkvæmdir við dælustöð við Tjarnarstíg.

Að þessu virtu verður hin kærða samþykkt Seltjarnarnesbæjar ekki tekin til efnismeðferðar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

                 ___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Óðinn Elísson