Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2002 Trönuhraun

Með

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2002, kæra framkvæmdastjóra Billjardstofu Hafnarfjarðar á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 10. september 2002 um að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. október 2002, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir S, framkvæmdastjóri Billjardstofu Hafnarfjarðar, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 að synja umsókn hans um undanþágu frá kröfu um aðgengi fatlaðra að Trönuhrauni 10, Hafnarfirði. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarráðs var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 17. september 2002. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 10. september 2002 var tekið fyrir erindi kæranda þar sem hann óskaði eftir undanþágu vegna aðgengi fatlaðra að Billjardstofu Hafnarfjarðar, Trönuhrauni 10, annari hæð.  Skipulags- og byggingarráð afgreiddi erindið með eftirfarandi hætti:  „Ákvæði byggingarreglugerðar eru lágmarksákvæði og er skipulags- og byggingarráði ekki heimilt að víkja frá þeim.  Að framansögðu getur skipulags- og byggingarráð ekki orðið við erindinu.  “

Undanfari umsóknar kæranda um undanþágu frá ákvæði byggingarreglugerðar um aðgengis fatlaðra að billjardstofunni var að hann óskaði eftir vínveitingaleyfi en var synjað vegna skorts á aðgengi fatlaðra að staðnum sem staðsettur er á annari hæð hússins. 

Kærandi vildi ekki una málalokum þessum og skaut málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og áður segir. 

Málsástæður kæranda:  Kærandi bendir á að fatlaðir einstaklingar, sem ekki séu í hjólastól, hafi sótt staðinn en þeir einstaklingar sem vegna fötlunar sinnar þurfi að vera í hljóastól eigi erfitt með að spila snóker vegna stærðar borðsins sem spilað sé við. 

Kærandi bendir og á þá staðreynd að hús það sem hér um ræðir sé komið til ára sinna og við byggingu þess hafi ekki verið gert ráð fyrir aðgengi fatlaðra í hjólastólum og ekki sé fyrir hendi sá möguleiki að setja lyftu í húsnæðið. 

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin kallaði eftir afstöðu Hafnarfjarðarbæjar til kærunnar með bréfi, dags. 7. nóvember 2002.  Byggingarfulltrúi upplýsti úrskurðarnefndina ítrekað um að til stæði að endurskoða fyrri afstöðu byggingaryfirvalda í málinu.  Það var þó ekki fyrr en hinn 9. september 2003 sem skipulags- og byggingarráð tók umsókn kæranda frá 27. ágúst 2002 fyrir að nýju og samþykkti að verða við henni með tilvísun í gr. 12.8 byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Í síðastgreindri ákvörðun fólst að skipulags- og byggingarráð dró til baka hina kærðu ákvörðun og tók nýja í hennar stað þar sem fallist var á umsókn kæranda.

Í ljósi breyttra aðstæðna á kærandi ekki lögvarða hagsmun af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________       _____________________
   Þorsteinn Þorsteinsson               Ingibjörg Ingvadóttir

14/2003 Ásland

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2003, kæra eiganda byggingarlóðar að Áslandi 24 í Mosfellsbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. mars 2003, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir I ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2003, sem barst nefndinni 16. sama mánaðar, áréttar kærandi að kæra hans hafi einnig átt að taka til byggingarleyfis fyrir húsi á lóðinni og að hann geri kröfu til að engar framkvæmdir fari fram á lóðinni Áslandi 22 meðan úrskurðarnefndin fjalli um kæruna.

Málavextir:   Hinn 8. október 2002 sótti eigandi lóðarinnar að Áslandi 22 í Mosfellsbæ um leyfi skipulags- og bygginganefndar Mosfellsbæjar til að byggja parhús á lóðinni.  Umrædd lóð er í íbúðarhverfi þar sem í gildi eru skipulags- og byggingarskilmálar frá maí 1982 sem gera ráð fyrir að á svæðinu rísi einbýlishús.  Þó er kveðið á um það í skilmálum að tvær íbúðir megi vera í húsum þar sem aðstæður leyfi.  Skipulags- og byggingarnefnd ákvað á fundi sínum sama dag að láta fara fram grenndarkynningu á erindinu, enda fólst í því að vikið yrði frá skipulagsskilmálum um húsgerð.  Grenndarkynning stóð yfir frá 15. október til 18. nóvember 2002.  Bárust athugasemdir frá tveimur aðilum, þar af önnur frá kæranda í máli þessu með símbréfi, dags. 18. nóvember 2002.  Taldi hann fyrirhugað hús m.a. ekki samræmast kröfum um húsgerð á svæðinu, skipting lóðar og fyrirkomulag húss væri í andstöðu við skipulagsskilmála, nýtingarhlutfall væri of hátt og húsið færi út fyrir byggingarreit.  Athugasemdum þessum var svarað en af málsgögnum verður jafnframt ráðið að nýtingarhlutfall hafi verið lækkað vegna athugasemda kæranda.  Málið var tekið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 og afstaða nefndarinnar til framkominna athugasemda færð til bókar.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt yrði að breyta lóðinni úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð „..í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.“  Tillögu þessa samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar á fundi sínum hinn 18. desember 2002 og er það sú samþykkt sem upphaflega var vísað  til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er rakið.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, var kæranda greint frá afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til framkominna athugasemda og ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Var honum, í niðurlagi bréfsins, gerð grein fyrir því að ákvörðuninni væri hægt að skjóta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Hinn 24. desember 2002 gaf byggingarfulltrúinn í Mosfellsbæ út byggingarleyfi fyrir umræddu parhúsi.  Var bókun byggingarfulltrúa um afgreiðslu málsins lögð fram í skipulags- og byggingarnefnd hinn 21. janúar 2003 og staðfest í bæjarstjórn 29. sama mánaðar.  Var kæranda tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi, dags. 4. febrúar 2003, og bent á að ákvörðunina mætti kæra til úrskurðarnefndarinnar innan eins mánaðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. mars 2003, sem barst hinn 7. sama mánaðar, kærði kærandi „…samþykki skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar að breyta lóðinni Ásland 22 úr einbýlishússlóð í parhússlóð, sem samþykkt var af bæjarstjórn 18. 12. 2002.“

Hinn 16. apríl 2003 barst úrskurðarnefndinni bréf kæranda, dags. 8. apríl 2003, þar sem hann áréttar að kæra hans frá 4. mars 2003 hafi einnig átt að taka til byggingarleyfisins og að gerð væri krafa til þess að engar framkvæmdir færu fram meðan úrskurðarnefndin fjallaði um kæruna.  Kveðst kærandi í bréfi þessu ekki hafa fengið bréf byggingarfulltrúa frá 19. desember 2002 fyrr en 13. janúar 2003 og að áður en hann hafi sent kæru sína hafi honum borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2003.  Hafi hann skilið það svo að kærufrestur hefði verið lengdur til 4. mars 2003.

Málsrök kæranda:  Málsrök kæranda koma einkum fram í athugasemdabréfi hans dags. 18. nóvember 2002.  Kveðst hann hafa keypt lóð sína að Áslandi 24 beinlínis sem lóð undir einbýlishús í einbýlishúsahverfi samkvæmt samþykktum skipulags- og byggingarskilmálum.  Þótt tvær íbúðir geti verið í einbýlishúsi undir sömu eign sé það ekkert sambærilegt við parhús með skiptingu lóðar, gjörólíkt að útliti og svip, tilheyrandi umferð og umgengni, kaupum og sölum.  Þá sé nýtingarhlutfall of hátt og húsið fari út fyrir byggingarreit.  Óréttmætt sé að vísa til þess að parhús hafi verið leyft að Áslandi 20, enda séu aðstæður þar aðrar, en sú lóð sé innst í botnlanga og nýtingarhlutfall allt annað.
Í niðurlagi athugasemdabréfs kæranda segir m.a:  „Vægt til orða tekið á þetta hús ekkert heima á þessum stað.  Þessir menn eiga ekki að vera að kássast upp á fólk í þessu hverfi, það er nóg til af stöðum fyrir þessa húsagerð.“

Málsrök bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ:  Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn málsins frá byggingarfulltrúanum í Mosfellsbæ.  Telur hann að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og að tillit hafi verið tekið til athugasemda kæranda.  Honum hafi verið tilkynnt um ákvarðanir í málinu með venjubundnum hætti.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að grenndarkynning hafi farið fram eins og lög standi til og hafi íbúar við götuna ekki mómælt fyrirhugaðri byggingu.  Einu efnislegu mótmælin hafi komið frá kæranda, sem búi úti á landi.  Við byggingu hússins séu ákvæði um hæðarkóta og nýtingarhlutfall virt og séu athugasemdir kæranda um þau atriði ekki á rökum reistar.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með ákvörðun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Liggur fyrir að kæranda hafði borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, eigi síðar en hinn 13. janúar 2003.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sem honum var kynnt í umræddu bréfi því til 13. febrúar 2003.

Með kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hinn 4. mars 2003 kærði kærandi framangreinda ákvörðun og gerði í kærunni með skýrum hætti grein fyrir því um hvaða ákvörðun væri að ræða.  Var kærufrestur vegna hennar þá liðinn og mátti kæranda vera það ljóst, enda var í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og kærustjórnvaldi.

Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. apríl 2003 kom kærandi því fyrst á framfæri að fyrir honum hafi vakað að kæra hans tæki einnig til ákvörðunar byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis sem kæranda hafði verið tilkynnt um með bréfi, dags. 4. febrúar 2003.  Kveðst kærandi hafa skilið málið svo að með síðastnefndu bréfi hefði kærufrestur verið framlengur til 4. mars 2003.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind sjónarmið kæranda.  Með bréfi byggingarfulltrúa hinn 4. febrúar 2003 var kæranda kynnt ný ákvörðun sem ekki verður séð að hann hafi kært fyrr en með bréfi sínu hinn 8. apríl 2003, sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. sama mánaðar.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti.  Víkja má frá þeirri reglu ef afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða ef veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar.  Verður hvorki talið að kærandi hafi sýnt fram á að afsakanlegt sé að kæra hans barst svo seint sem raun ber vitni né að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.  Væri það og andstætt hagsmunum byggingarleyfishafa, enda mátti hann með réttu ætlast til að hagsmunaaðilar tækju ákvörðun um það innan lögboðins frest hvort þeir ætluðu að neyta kæruréttar.

Með hliðsjón af framansögðu ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni og koma efnisatriði þess því ekki til úrlausnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir

63/2003 Langagerði

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2003, kæra eiganda fasteignarinnar að Langagerði 80, Reykjavík á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur um að koma fyrir sparkvelli við Réttarholtsskóla í Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. október 2003, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir B, Langagerði 80, Reykjavík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 7. maí 2003, um að koma fyrir sparkvelli með gervigrasi austan við og samsíða íþróttahúsi Réttarholtsskóla, Réttarholtsvegi 21 – 25 í Reykjavík. 

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 15. maí 2003.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 25. mars 2003 var sótt um leyfi til að koma fyrir upphituðum sparkvelli með gervigrasi austan við og samsíða íþróttahúsi Réttarholtsskóla á lóðinni nr. 21 – 25 við Réttarholtsveg.  Skyldi völlurinn vera hluti útileiksvæðis skólans.  Samkvæmt teikningu sem lögð var fyrir byggingarfulltrúa var gert ráð fyrir að umhverfis sparkvöllinn yrði timburgirðing á steinsteyptum sökkli sem væri þriggja metra há bak við mörk en einn metri á hæð á langhliðum.  Völlurinn skyldi upplýstur með tveimur kösturum með tímarofa á íþróttahúsi sem myndu beina ljósi beint á völlinn en lítið umhverfis hann.  Byggingarfulltrúi frestaði erindinu þar sem mæliblað skorti en vísaði því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. 

Erindi byggingarfulltrúa var tekið fyrir hjá Borgarskipulagi hinn 25. mars 2003 og var samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Ásgarði 73.

Erindið var í grenndarkynningu frá 2. apríl 2003 til 2. maí sama ár og bárust engar athugasemdir. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. maí 2003 var erindið samþykkt og hlaut fundargerð nefndarinnar staðfestingu borgarstjórnar hinn 15. sama mánaðar.

Kærandi er ósáttur við framangreinda afgreiðslu skipulags- og byggingaryfirvalda í Reykjavík og hefur kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að garður hennar snúi að lóð Réttarholtsskóla.  Þar hafi ríkt ró og næði en með tilkomu sparkvallarins, sem byggður hafi verið síðast liðið sumar, hafi umhverfinu verið raskað svo um muni.  Þetta telur kærandi alls óviðunandi, því frá vellinum sé töluvert ónæði frá því snemma morguns og langt fram á kvöld og tiltekur sérstaklega flóðlýsinguna sem kviknar á kvöldin. 

Kærandi heldur því fram að þegar hún hafi keypt fasteign sína að Langagerði 80 hafi hún leitað sér upplýsinga um deiliskipulag svæðisins og fengið þau svör að auða svæðið við skólann yrði eingöngu nýtt fyrir skólabyggingar, þar sem starfsemi færi fram innan dyra á virkum dögum. 

Kærandi telur að með tilkomu sparkvallarsins hafi skipulags- og byggingarlög verið margbrotin, þar sem hvorki hafi farið fram grenndarkynning né nýtt deiliskipulag auglýst eða birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Með vísan til þessa sé þess krafist að völlurinn verði fjarlægður hið fyrsta. 

Reykjavíkurborg hefur ekki sett fram sérstakar athugasemdir í máli þessu en sendi úrskurðarnefndinni tölvuskeyti, dags. 28. janúar 2004, þar sem fram kemur að tilboð í völlinn hafi verið opnuð hinn 20. maí 2003 og verkið hafist hinn 10. júní sama ár.  Þá kemur fram að völlurinn hafi verið vígður hinn 7. ágúst 2003 og verklok hafi verið hinn 13. sama mánaðar.  Þá sendi Reykjavíkurborg einnig nefndinni forúttekt verksins, dags. 8. september 2003, þar sem fram koma athugasemdir við verkið og hvað sé áskilið við lokaúttekt. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdir við gerð sparkvallar á lóð Réttarholtsskóla við Réttarholtsveg í Reykjavík.  Fyrir liggur að framkvæmdir við gerð vallarins hófust í júní 2003, vígsla hans fór fram hinn 7. ágúst sama ár og verklok voru hinn 13. sama mánaðar.  Kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 13. október 2003.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd. 

Eins og áður segir hófust framkvæmdir við hinn umdeilda sparkvöll í júní 2003 og þá þegar var kæranda í lófa lagið að leita frekari upplýsinga um verkið.  Allt að einu setti kærandi ekki fram kæru í málinu fyrr en fjórum mánuðum eftir að framkvæmdir hófust og tveimur mánuðum eftir að gerð sparkvallarins var lokið.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi í allra síðasta lagi byrjað að líða hinn 25. ágúst 2003, eða þann dag er skólastarf hófst í Réttarholtsskóla. 

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

44/2003 Melabraut

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Melabraut 31, Seltjarnarnesi á afgreiðslu mannvirkja- og skipulagsnefndar Seltjarnarnesbæjar á erindi þeirra um gróður á lóðarmörkum.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. júlí 2003, er barst nefndinni sama dag, kæra J og Þ, Melabraut 31, Seltjarnarnesi afgreiðslu erindis þeirra til mannvirkja- og skipulagsnefndar Seltjarnarnesbæjar um að gróður á mörkum lóðanna nr. 31 við Melabraut og nr. 34 við Miðbraut verði fjarlægður á kostnað eigenda lóðarinnar nr. 34 við Miðbraut. 

Málavextir:  Kærendur máls þessa eru eigendur fasteignarinnar að Melabraut 31, Seltjarnarnesi og liggur sú lóð að Miðbraut 34.  Í ágúst árið 2002 fóru kærendur fram á það við skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarnesbæjar að trérunni á mörkum lóðanna yrði fjarlægður þar sem hann væri að stórum hluta innan lóðar þeirra en eigendur nágrannafasteignarinnar teldu runnann í sinni eigu.  Jafnframt óskuðu kærendur eftir heimild til að reisa girðingu á sinni lóð við lóðarmörkin.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 6. september 2002 var erindi kærenda tekið til afgreiðslu og var byggingarfulltrúa falið að óska umsagnar eigenda lóðarinnar nr. 34 við Miðbraut varðandi erindið.  Það var tekið fyrir á ný á fundi nefndarinnar hinn 6. febrúar 2003 og var þá eftirfarandi samþykkt gerð:   „Íbúar Miðbrautar 34 gera ekki ágreining varðandi  girðingu enda sé hún samkvæmt reglugerð og samþykkja færslu runna á lóðamörkum séu þeir ekki rétt staðsettir.  Tæknideild var falið að mæla út lóðarmörkin.  Nefndin bendir jafnframt á að hafi aðilar hug á að girða við lóðarmörk þarf að sækja um það til skipulags- og mannvirkjanefnd og að girðing á mörkum lóða er háð samþykki beggja lóðarhafa.”

Með bréfi, dags. 23. mars 2003, veittu eigendur fasteignarinnar við Miðbraut 34 samþykki sitt fyrir girðingunni, með þeim fyrirvara þó að ekki myndu þau taka þátt í kostnaði við gerð hennar.  Að samþykkinu fengnu óskuðu kærendur eftir því að tæknideild Seltjarnarnesbæjar mældi út lóðarmörk ásamt því að skipulags- og mannvirkjanefnd sæi til þess að fyrrnefndur trjárunni á lóðarmörkum yrði fjarlægður af eigendum fasteignarinnar að Miðbraut 34 á þeirra kostnað og innan ákveðinna tímamarka.  Hinn 3. apríl 2003 var erindið tekið fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd og afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Fyrir liggur samþykki eigenda að Miðbraut 34 ásamt verklýsingu á fyrirhugaðri girðingu.  Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir girðinguna og felur jafnframt tæknideild að mæla út lóðarmörkin.”  Í kjölfar bókunarinnar gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi, dags. 10. apríl 2002, þar sem ekki var tekið undir þá kröfu kærenda að nágrönnum þeirra bæri að fjarlægi hinn umdeilda runna á eign kostnað innan ákveðinna tímamarka.  Byggingarleyfi þetta var ekki kært til úrskurðarnefndarinnar.

Með bréfi, dags. 26. maí 2003, sendu kærendur skipulags- og mannvirkjanefnd sjálfstætt erindi á ný þar sem farið var fram á það að nefndin sæi til þess að trérunni á mörkum lóðanna yrði fjarlægður á kostnað eiganda hans innan ákveðinna tímamarka.  Erindi þeirra var tekið fyrir í nefndinni hinn 5. júní 2003 og var eftirfarandi fært til bókar:  „Byggingafulltrúa falið að kynna eiganda Miðbrautar 34 efni bréfsins.” 

Kærendur eru ósáttir við framangreinda afgreiðslu skipulags- og byggingaryfirvalda á Seltjarnarnesi og hafa kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að skipulags- og mannvirkjanefnd hafi ekki svarað beiðni þeirra um að nefndin sjái til þess að eigendum Miðbrautar 34 verði gert að fjarlægja trjárunnann á lóðarmörkum á þeirra kostnað innan ákveðinna tímamarka. 

Kærendur benda á að staða máls þeirra sé sú að þeir hafi í höndunum samþykktir af hálfu bæjaryfirvalda sem ekki sé unnt að koma í framkvæmd.  Afgreiðsla erinda þeirra sé með öllu ófullnægjandi og krefjast þau þess að skipulags- og mannvirkjanefnd verði gert að fara eftir byggingarreglugerð og láta fjarlægja umræddan runna af lóð þeirra þannig að girðingarframkvæmdir geti hafist. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarnesbæjar heldur því fram að nefndinni sé óskylt að verða við kröfu kærenda um að láta fjarlægja runnagróður á lóðarmörkum Melabrautar 31 og Miðbrautar 34.  Báðar lóðirnar séu afmarkaðar eignarlóðir og settar út samkvæmt skipulagi.  Telji eigendur þessara lóða, annar hvor eða báðir, að brotinn sé á þeim réttur af hinum eða réttur af þeim tekinn við nýtingu lóðanna, t.d. með gróðursetningu trjáa eða runna, þá verði þeir að útkljá það á einkaréttarlegum grundvelli. 

Skipulags- og mannvirkjanefnd bendir á að á fundi nefndarinnar hinn 3. apríl 2003 hafi verið veitt leyfi fyrir girðingu þeirri sem kærendur hafi óskað eftir að reisa og talið málinu þar með lokið frá sinni hendi.  Ekkert hafi verið bókað um þá kröfu kærenda að byggingaryfirvöld fjarlægðu trjárunna á umræddum lóðarmörkum, þar sem nefndin telji byggingaryfirvöldum óskylt að verða við kröfum einkaaðila um framkvæmdir á lóðum þeirra.  Ekkert liggi fyrir um það í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem vísað sé til í kæru, að byggingaryfirvöld séu skyld að verða við kröfu um einkaréttarlegar framkvæmdir.  Aftur á móti hafi byggingaryfirvöld, samkvæmt 68. gr. reglugerðarinnar, eftirlit með framkvæmdum og veiti leyfi til þeirra, allt innan þess ramma sem reglugerðin setji.  Erindi kærenda hafi því ekki verið afgreitt með öðrum hætti en að ofan getur og ekkert bókað um þá kröfu kærenda að skipulags- og mannvirkjanefnd fjarlægði nefnda runna. 

Úrskurðarnefndin hljóti á grundvelli ofangreindra sjónarmiða að hafna kröfu kærenda.

Niðurstaða:  Kærefni máls þessa lýtur að afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar á erindi kærenda um að gróður á mörkum lóðanna nr. 31 við Melabraut og nr. 34 við Miðbraut verði fjarlægður á kostnað eigenda lóðarinnar nr. 34 við Miðbraut.  Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls.  Hin kærða samþykkt ber ekki með sér að í henni felist lokaákvörðun heldur var eingöngu um að ræða ákvörðun um að erindi kærenda yrði kynnt eigendum nágrannalóðarinnar.  Ekki verður heldur talið að fyrir hendi hafi verið kæruheimild með stoð í 9. gr. stjórnsýslulaga, sem kveður á um að stjórnsýsluákvarðanir skuli teknar svo fljótt sem unnt sé, enda varð að ætla nágönnum nokkurn tíma til andsvara.  Með vísan til framangreinds skorti kærendur málsins kæruheimild og verður hið kærða álitaefni því ekki tekið til efnismeðferðar og er af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________     ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                        Ingibjörg Ingvadóttir

65/2003 Sunnuhvoll

Með

Ár 2003, mánudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2003, kæra eigenda sumarhússins Víðilundar, Miðengi, Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu, á ákvörðunum byggingarnefndar og sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps og byggingarfulltrúa Árnessýslu um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til niðurrifs og nýbyggingar á lóð Sunnuhvols.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. október 2003, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Birgir Már Ragnarsson, hdl., f.h. Á og H, eigenda sumarhússins Víðilundar í landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu, ákvarðanir byggingarnefndar og sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps og byggingarfulltrúa Árnessýslu um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til niðurrifs og nýbyggingar á lóð Sunnuhvols.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og útgefið byggingarleyfi, sem veitt hafi verið á grundvelli þeirra, verði ógilt.  Þá er þess krafist að úrskurðað verði þegar í stað að framkvæmdir, sem hafnar séu á grundvelli fyrrgreinds byggingarleyfis, verði stöðvaðar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og 5. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina.

Úrskurðarnefndin gerði byggingarleyfishafa þegar viðvart um kæru í máli þessu og kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hefur byggingarleyfishafi haldið að sér höndum um framkvæmdir og hefur krafa kærenda um stöðvun þeirra því ekki þurft að koma til úrlausnar. 

Af hálfu byggingarleyfishafa og sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er krafist frávísunar máls þessa og hafa aðilar reifað málið um þá kröfu.  Hefur úrskurðarnefndin ákveðið að taka málið til úrlausnar um frávísunarkröfuna sérstaklega en eins og málið liggur nú fyrir telst það nægilega upplýst um þann þátt.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir málavöxtum og málatilbúnaði aðila að því marki sem nauðsyn ber til við úrlausn álitaefna um formhlið málsins.

Málavextir:  Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis til byggingarframkvæmda á liðlega tveggja hektara spildu úr landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu.  Á landspildu þessari standa tveir sumarbústaðir, Sunnuhvoll og Víðilundur og er hinn síðarnefndi í eigu kærenda.  Er landspildan í sameign eigenda sumarbústaðanna tveggja en afnotum er skipt samkvæmt samningi þannig að hvorum bústað fylgja afnot af sérgreindri lóð, en ágreiningur er með aðilum um skýringu á ákvæðum samnings þessa um rétt og skyldur eigendanna.

Hinn 19. mars 2003 sendu eigendur Sunnuhvols umsókn til byggingarnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps um leyfi til byggingar nýs tvískipts sumarhúss, 115,4 m² að stærð, í stað eldra húss sem yrði rifið.  Umsókninni fylgdu teikningar af hinni nýju byggingu.  Hinn 25. mars 2003 samþykkti byggingarnefnd umsóknina og var umsækjanda tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. mars 2003.  Sama dag sendi byggingarfulltrúinn kærendum máls þessa bréf með teikningum af nágrannahúsinu til fróðleiks.  Með bréfi, dags. 28. mars 2003, tilkynnti byggingarfulltrúinn umsækjendum að honum hefðu borist athugasemdir frá kærendum við útgáfu byggingarleyfisins og jafnframt að málið yrði tekið fyrir í sveitarstjórn þann 2. apríl sama ár.

Með bréfi, dags. 1. apríl 2003, gerðu kærendur athugasemdir og kváðust kæra leyfi til fyrirhugaðra byggingarframkvæmda að Sunnuhvoli og var erindinu beint að byggingarnefnd og byggingarfulltrúa.  Var tekið fram í bréfinu að kærendum hefði aldrei verið kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir og hefðu þeir fyrst séð teikningar af fyrirhuguðu húsi deginum áður, eða þann 31. mars 2003.  Lutu athugasemdir þeirra að því að húsið yrði allt of stórt.  Erindi kærenda var áréttað og reifað nánar með bréfi, dags. 2. apríl 2003.

Hinn 2. apríl 2003 var ákvörðun byggingarnefndar um að veita umrætt byggingarleyfi samþykkt í sveitastjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.

Með bréfi, dags. 22. apríl 2003, svaraði byggingarfulltrúi erindi kærenda frá 1. apríl 2003.  Var kærendum þar gerð grein fyrir samþykktum byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu.  Þá segir í bréfinu:  „Enginn ágreiningur er um að þið eigið land sitt hvoru megin við lækinn og nægjanlegt bil er á milli húsanna“  Ennfremur segir í bréfinu: „Varðandi kæruna á byggingarleyfinu þá hefur byggingarleyfið ekki verið gefið út enn.  Ef kæra á svona mál, þá er kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.“

Hinn 14. september 2003 mótmæltu kærendur með símskeyti framkvæmdum sem þá voru hafnar til undirbúnings byggingarframkvæmdum samkvæmt hinu umdeilda leyfi.  Skutu kærendur málinu loks til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. október 2003, en þá höfðu byggingarleyfishafar þegar lokið við að rífa eldra hús og var framkvæmdum við sökkul nýbyggingar að mestu lokið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að taka beri mál þetta til efnisúrlausnar þrátt fyrir að kærufrestur skv. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið liðinn þegar kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni.  Vísa kærendur í þessu sambandi til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggja þeir í fyrsta lagi á því að samkvæmt gögnum málsins liggi fyrir að með bréfum, dags. 1. og 2. apríl 2003, hafi kærendur kært umrædda málsmeðferð og veitingu byggingarleyfis.  Hinn 2. apríl 2003 hafi sveitastjórn samþykkt umrædda beiðni um byggingarleyfi.  Bréf kærenda þar sem umrædd ákvörðun hafi verið kærð hafi því borist byggingarnefnd og byggingarfulltrúa innan kærufrests samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Í 7. gr. stjórnsýslulaga sé fjallað um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds og í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snerti starfssvið þess, beri því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt sé.  Byggingarfulltrúinn hafi ekki framsent kæru þá sem honum hafi borist frá kærendum til úrskurðarnefndarinnar, líkt og honum hafi borið samkvæmt stjórnsýslulögum.  Hann hafi látið það nægja að benda kærendum á að kæra skyldi til úrskurðarnefndarinnar.  Með því hafi hann ekki sinnt lögboðinni skyldu sinni, en hefði hann gert það þá sé ljóst að kæran hefði borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests.  Telji kærendur í ljósi þessa afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. 

Í öðru lagi byggja kærendur á því að ákvarðanir byggingaryfirvalda hafi ekki verið birtar þeim með fullnægjandi hætti.  Samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nái hugtakið aðili máls ekki aðeins til þeirra sem séu beinir aðilar að máli.   Með tilliti til þeirra augljósu hagsmuna sem kærendur eigi af úrlausn umrædds máls um veitingu byggingarleyfis á sameignarlandi þeirra, sé ljóst að þeir teljist aðilar að meðferð þess.  Samkvæmt því hefði byggingarfulltrúa m.a. borið að gæta ákvæðis 20. gr. stjórnsýslulaga við birtingu ákvörðunar um veitingu byggingarleyfisins.  Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 22. apríl 2003, hafi þeim verið tilkynnt um samþykki sveitastjórnar og þeim bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar.  Samkvæmt skýru ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga hefði átt að veita kærendum, auk upplýsinga um kæruheimild og hvert ætti að beina kæru, upplýsingar um kærufresti og kærugjöld.  Þetta hafi ekki verið gert.  Í ljósi þess að kærufrestur til úrskurðarnefndar sé sérlega stuttur, eða einn mánuður, hefði verið sérstaklega mikilvægt að þessar upplýsingar kæmu fram.  Beri í því sambandi að líta til þess að byggingarfulltrúinn hafi vitað að kærendur hafi ekki verið sáttir við ákvarðanir byggingaryfirvalda, enda hefði hann móttekið kæru sem honum hefði borið að framsenda til úrskurðarnefndarinnar. 

Þá benda kærendur á að í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2003, segi að byggingarleyfið hafi ekki enn verið gefið út.  Telji kærendur að upplýsingar þessar séu beinlínis villandi og til þess fallnar að valda þeim misskilningi að ekki skuli kæra fyrr en byggingarleyfi liggi fyrir.  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga og ákvæðum byggingarreglugerðar og reglugerðar um úrskurðarnefndina, miðist upphaf kærufrest við ákvörðun sveitarstjórnar.  Með hliðsjón af ummælum byggingarfulltrúans hafi kærendur haft réttmæta ástæðu til að ætla að ekki þyrfti að huga að kærumálum fyrr en byggingarleyfi lægi fyrir. 

Telja kærendur í ljósi alls framangreinds að það sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr.  Beri í þessu sambandi að líta sérstaklega til þess að kærendur séu ekki löglærðir aðilar og ekki meðvitaðir um hinn stutta kærufrest, auk þess sem þau hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að málið væri til meðferðar á grundvelli fyrri kæru þeirra.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Sveitarfélagið krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni og vísar til 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem fram komi að vitneskja um samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar marki upphaf kærufrests til úrskurðarnefndar.  Frá því tímamarki hafi viðkomandi einn mánuð til að skjóta málinu til nefndarinnar.  Þegar gögn málsins séu skoðuð komi glöggt fram að kærendum hafi verið kunnugt um afgreiðslu byggingarnefndar, sveitarstjórnar og byggingarleyfi vegna framkvæmdanna áður en kærufrestur til úrskurðarnefndar hafi runnið út. 

Sveitarfélagið hafnar sjónarmiðum kærenda þess efnis að byggingarfulltrúi hafi ekki fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni og hafi afvegaleitt kærendur með upplýsingum um óútgefið byggingarleyfi.  Hið rétta sé að með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2003, hafi kærendum verið formlega tilkynnt um samþykkt byggingarnefndar og sveitarstjórnar.  Þar sem kærendur hafi áður sent inn „kæru á byggingarleyfi“ hafi þau verið upplýst um að byggingarleyfi hefði ekki enn verið gefið út og þeim bent á að ef kæra ætti mál sem þessi ætti að beina kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Óumdeilt sé að kærendum hafi með greindu bréfi verið tilkynnt um samþykkt byggingarnefndar og sveitarstjórnar, eins og reyndar tekið sé fram í kæru lögmanns kærenda til úrskurðarnefndar.  Ekkert meira hafi þurft til að koma.  Þar með liggi fyrir að frá þeirri stundu hafi kærendum verið kunnugt um greindar samþykktir, sem þau hafi nú kært. 

Þá er á það bent af hálfu sveitarfélagsins að byggingarfulltrúi hafi að öllu leyti uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Bréf kærenda frá 1. og 2. apríl 2003 hafi falið í sér athugasemdir varðandi óútgefið byggingarleyfi.  Byggingarfulltrúi hafi upplýst um að byggingarleyfið hefði ekki verið gefið út og hafi leiðbeint þeim um hvert þau gætu kært málið.  Engin skylda hafi hvílt á byggingarfulltrúa að framsenda bréf þeirra til úrskurðarnefndar, enda hafi þessi bréf verið á misskilningi byggð.  Eðlilegt hafi því verið að líta á bréfin sem athugasemdir við fyrirhugað byggingarleyfi en ekki kæru á samþykkt sveitarstjórnar, sem ekki hafi legið fyrir þegar bréfin hafi verið rituð.  Einnig verði að hafa í huga við umfjöllun um meintan misskilning kærenda að þau hafi tilkynnt sjálf í fyrrgreindum bréfum sínum til byggingarfulltrúa að þau nytu lögfræðilegrar aðstoðar og hafi nafngreint lögmann sinn.

Þá sé umfjöllun í kæru um ólögmæta birtingu á samþykkt byggingarnefndar og sveitarstjórnar á misskilningi byggð.  Óumdeilt sé að kærendum hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 22. apríl 2003, um samþykktir byggingaryfirvalda í sveitarfélaginu og jafnframt sérstaklega bent á hvert ætti að beina kæru vegna málsins. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar krefjast frávísunar málsins.  Ljóst sé af málsgögnum að kærendum hafi verið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi frá í apríl 2003.  Kæra berist engu að síður ekki fyrr en seint í október 2003.  Þar með sé lögbundinn mánaðar kærufrestur löngu liðinn.  Eins og fram komi í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga geti sá sem telji rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar skotið máli sínu til úrskurðarnefndar innan mánaðar frá því að honum sé orðið kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Ljóst megi telja af kærunni að mánuður hafi verið liðinn frá því að kærendum hafi verið ljóst að sveitarstjórn hafði samþykkt byggingarleyfi.  Það komi fram í bréfum og símtölum milli byggingarfulltrúa og kærenda.  Samkvæmt orðalagi í ákvæðinu sjálfu sé nægilegt að kæranda sé kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Í máli þessu liggi fyrir að kærendur hafi vitað um afgreiðslu sveitarstjórnar fljótlega eftir að málið hafi verið afgreitt í sveitarstjórn.  Öllum tilvísunum til þess að kærendur séu ekki löglærðir sé hafnað. 

Byggingarleyfishafar fallast ekki á þá túlkun kærenda að byggingarfulltrúa hafi borið skylda til að senda mótmæli við umsókn um byggingarleyfi sjálfkrafa áfram sem kæru hins útgefna leyfis.  Byggingarfulltrúa hafi verið rétt að líta á bréf kærenda sem mótmæli við umsókn um byggingarleyfi, en ekki kæru á samþykkt sveitarstjórnar, enda hafi sú samþykkt þá ekki legið fyrir.  Því hafi honum ekki borið að framsenda erindið til úrskurðarnefndarinnar.  Byggingarleyfishafar mótmæla einnig rökum varðandi ólögmæta birtingu.  Samkvæmt skýru ákvæði laganna sé nægilegt að aðila sé kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Ekki sé gerð krafa um formlega birtingu og því nægilegt að sannað sé að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðunina.  Mótmælt sé að 20. gr. stjórnsýslulaga eigi við, m.a. með hliðsjón af því að fyrir liggi að kærendur hafi notið aðstoðar lögmanns. 

Andsvör kærenda við málsrökum byggingarleyfishafa:  Kærendum var gefinn kostur á að koma að andsvörum vegna umsagnar byggingarleyfishafa og bárust þau úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 28. nóvember 2003.  Benda kærendur þar á að því hafi ekki verið haldið fram af þeirra hálfu að þeim hafi ekki verið kunnugt um afgreiðslu sveitastjórnar í lok apríl sl., en aftur á móti eigi tiltekin sjónarmið að leiða til þess að kæra þeirra sé tekin til greina, þ.e. annars vegar vegna þess að þeir hafi á þeim tíma þegar sent kæru og hins vegar vegna þess að birting stjórnsýsluákvörðunarinnar hafi verið ólögmæt. 

Kærendur mótmæla því að þeir hafi notið aðstoðar lögmanns enda hafi þeir aðeins notið aðstoðar lögmanns á tilteknum stigum málsins.  Þar fyrir utan sé það alþekkt í stjórnsýslurétti að það, að aðili njóti aðstoðar lögmanns, leysi stjórnvald á engan hátt undan því að sinna störfum sínum og leiðbeiningarskyldu í samræmi við lög.  Á það sé sérstaklega bent að umrædd ákvæði í skipulags- og byggingarlögum séu flókin og því mikilvægt að vandað sé til leiðbeininga hvað þau varði.

Loks hafna kærendur því að byggingarfulltrúi hafi mátt líta á kæru þeirra sem eitthvað annað en kæru.  Það komi greinilega fram í kærunni hvað um sé að ræða. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið ritaði byggingarfullrúi kærendum bréf, dags. 22. apríl 2003, þar sem fram kemur að byggingarnefnd hafi samþykkt teikningar að nýbyggingu og niðurrif eldra húss að Sunnuhvoli og að þessar ákvarðanir hafi verið staðfestar af sveitarstjórn 2. apríl 2003.  Þá kemur fram í bréfinu að kæra beri mál af þessu tagi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Óumdeilt er að kærendum barst umrætt bréf fljótlega eftir dagsetningu þess.

Fallast má á með kærendum að nokkrir annmarkar hafi verið á svari byggingarfulltrúans í nefndu bréfi og hafi m.a. verið villandi að taka fram að byggingarleyfi hefði ekki enn verið gefið út í því samhengi sem hér um ræðir, enda gátu þær upplýsingar verið til þess fallnar að villa um fyrir kærendum um upphaf kærufrests.  Einnig skorti á að getið væri um kærufrest.

Af umræddu bréfi verður ráðið að byggingarfulltrúi og byggingarnefnd hafi ekki ætlað að sinna erindum kærenda frá 1. og 2. apríl sem kærum og að til þess hafi verið ætlast að kærendur snéru sér sjálfir til úrskurðarnefndarinnar með kæru í málinu.  Var kærendum, eftir móttöku bréfsins, ekki rétt að líta svo á að þau hefðu þegar kært með fullnægjandi hætti jafnvel þótt fallist væri á að byggingarfulltrúa hefði borið að framsenda erindi þeirra til úrskurðarnefndarinnar.  Verður því við það að miða að kæra í málinu hafi fyrst komið fram hinn 23. október 2003 þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.

Kemur þá til úrlausnar hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist svo seint sem raun ber vitni þannig að við eigi undantekningarregla 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, um að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eins og kærendur halda fram. 

Við mat á því hvort umrætt ákvæði eigi við í hinu kærða tilviki verður að líta til þess að kærendum var kunngert um hinar kærðu ákvarðanir með bréfi hinn 22. apríl 2003 og jafnframt gerð grein fyrir því hvert beina ætti kæru í málinu.  Var kærendum eftir það í lófa lagið að leita frekari upplýsinga hjá hinu tilgreinda kærustjórnvaldi, sem hefur opna starfsstöð og leiðbeiningarskyldu.  Höfðu kærendur ítrekað tilefni til að kynna sér rétt sinn, m.a. þegar framkvæmdir hófust eða þegar sáttaviðræður aðila fóru út um þúfur.  Allt að einu héldu þeir að sér höndum í um 6 mánuði og hófust fyrst handa um kæru í málinu eftir að eigendur Sunnuhvols höfðu rifið eldra hús og hafið framkvæmdir við nýbyggingu.

Kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er einungis einn mánuður.  Er með ákvæðinu vikið frá almennri reglu stjórnsýsluréttarins um þriggja mánaða kærufrest, m.a., í því skyni að ekki ríki réttaróvissa um lögmæti ívilnandi leyfa til framkvæmda lengur en brýna nauðsyn ber til.  Verður að telja að sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggi að baki þessari sérreglu um kærufrest.

Með hliðsjón af atvikum máls og þeim sjónarmiðum sem að framin eru rakin fellst úrskurðarnefndin ekki á að þeir annmarkar sem voru á tilkynningu byggingarfulltrúa til kærenda leiði til þess að afsakanlegt verði talið að kæran í máli þessu hafi fyrst komið fram um hálfu ári eftir að kærendum var send umrædd tilkynning, en fallast má á að vanhöld um upplýsingar um hinn skerta kærufrest hefðu getað réttlætt að kæra hefði borist eftir að hann var liðinn en þó innan hóflegra tímamarka.

Engar aðrar ástæður eru fyrir hendi er þykja réttlæta hinn langa drátt sem varð á því að kært væri í máli þessu og  ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa máli þessu frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

53/2001 Baugatangi

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2001; kæra eigenda Baugatanga 1 og 2 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. október 2001 um breytingu á deiliskipulagi Skildinganess vegna lóðarinnar nr. 4 við Baugatanga, Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni hinn 26. nóvember 2001, kæra S, Baugatanga 1, Reykjavík og G, Baugatanga 2, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. október 2001 að breyta deiliskipulagi Skildinganess fyrir lóðina nr. 4 við Baugatanga.  Gera kærendur þá kröfu að umdeild deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 31. ágúst 2001 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 4 við Baugatanga samkvæmt teikningu Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar, dags. 21. ágúst 2001.  Var tillagan grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og komu fram athugasemdir og mótmæli við deiliskipulagstillöguna frá kærendum og nokkrum öðrum nágrönnum.  Lutu framkomin mótmæli að því að fyrirhugað hús yrði of hátt, stöllun þess félli ekki að landhalla lóðarinnar og með byggingu þess væri heildaryfirbragði götunnar raskað, auk þess sem skuggavarp ykist á nágrannalóðir.  Í umsögn Borgarskipulags frá 23. október 2001 um framkomnar athugasemdir var tekið undir að fyrirhugað hús væri of hátt og stöllun þess félli ekki vel að umhverfinu.  Var lagt til að húsið yrði lækkað og stöllun þess yrði hagað með svipuðum hætti og á lóðinni nr. 6 við Baugatanga.

Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tók deiliskipulagsbreytinguna fyrir á fundi sínum hinn 24. október 2001 og samþykkti hana á grundvelli 4. gr. þágildandi samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, þar sem nefndinni var falið lokaákvörðunarvald um minni háttar deiliskipulagsbreytingar.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og lokamálslið 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja sjónarmið málsaðila í úrskurði þessum.

Niðurstaða:  Ákvörðun um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu var tekin af skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur samkvæmt 4. gr. þágildandi samþykktar fyrir nefndina og hlaut ákvörðunin ekki staðfestingu borgarráðs eða sveitarstjórnar.  Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 15/2002 frá 12. september 2002 var tekin afstaða til þessa afgreiðslumáta deiliskipulagsbreytingar og segir þar m.a: 

„Samkvæmt 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fara byggingar- og skipulagsnefndir með byggingar- og skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna.  Heimilt er að fela umrædda málaflokka einni nefnd, skipulags- og byggingarnefnd, og hefur það fyrirkomulag verið tekið upp í Reykjavík.  Í 39. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um störf byggingarnefnda.  Segir í 2. mgr. þess ákvæðis að ákvarðanir nefndarinnar skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.  Sveitarstjórn er þó heimilt, skv. 4. mgr. 40. gr., að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í sérstakri samþykkt, að fenginni staðfestingu ráðherra.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. sömu laga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sem skylt er að gera þar sem framkvæmdir eru fyrirhugðar, sbr. 2. mgr. 23. gr.  Sveitarstjórn hefur og með höndum breytingar á deiliskipulagi skv. 26. gr. tilvitnaðra laga.  Sé um óverulega breytingu að ræða er heimilt að taka ákvörðun um hana að undangenginni grenndarkynninu, en sérstaklega er þá áskilið að sveitarstjórn sendi Skipulagstofnun hið breytta skipulag, sbr. 3. mgr. 25. gr., ásamt yfirlýsingu um að hún taki að sér að bæta það tjón sem einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er með skýrum hætti mælt fyrir í skipulags- og byggingarlögum um valdmörk skipulags- og byggingarnefnda annars vegar og sveitarstjórna hins vegar við meðferð skipulags- og byggingarmála og um heimildir til að víkja frá ákvæðum laganna í þessu efni.  Þykja þessi ákvæði standa í vegi fyrir því að skipulags- og byggingarnefnd sé falið vald til að taka lokaákvarðanir um meintar óverulegar breytingar á deiliskipulagi, en ekki er heimilt að fela nefnd, ráði eða stjórn fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt 2. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem lög mæla á annan veg.  Skortir því lagastoð fyrir þeim ákvæðum í samþykkt fyrir skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur frá 21. mars 2002 sem fara í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um lögbundið hlutverk skipulags- og byggingarnefndar og sveitarstjórnar við meðferð skipulags- og byggingarmála.

Samkvæmt framansögðu brast skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur vald til þess að taka lokaákvörðun um hina umdeildu skipulagsbreytingu og hefur ákvörðun nefndarinnar því ekki gildi sem fullnaðarákvörðun á sveitarstjórnarstigi.”

Með skírskotun til framangreindra sjónarmiða felur hin kærða ákvörðun ekki í sér endanlega ákvörðun um umdeilt deiliskipulag og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

 

 

 

70/2003 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2003, kæra íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2003 um að veita leyfi til þess reisa tvílyft steinsteypt fjölbýlishús á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð og samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. október s.á., að heimila niðurrif verslunarhúss á sömu lóð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur  

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. nóvember 2003, kærir B, formaður húsfélagsins Bogahlíð 2, 4 og 6, f.h. íbúa hússins, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2003, sem staðfest var í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 20. nóvember s.á., að veita leyfi til þess að reisa tvílyft steinsteypt fjölbýlishús á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð í Reykjavík og samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. október 2003, sem staðfest var í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. nóvember s.á., að heimila niðurrif verslunarhúss á sömu lóð. 

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og jafnframt að framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 verði stöðvaðar þar til málalyktir fáist í kærumálinu.

Úrskurðarnefndin hefur aflað gagna og leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til fyrirliggjandi kröfu um stöðvun framkvæmda og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Á vordögum árið 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því sem á lóðinni væri í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október 2002.

Samhliða meðferð tillögunnar að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þessar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða þeirra og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. nóvember 2002, og kröfðust síðan stöðvunar framkvæmda við niðurrif hússins með bréfi, dags. 30. desember 2002.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 31. janúar 2003 féllst úrskurðarnefndin á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Taldi nefndin líkur á því að byggingarleyfið yrði ógilt með vísan til þess að samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um það hefði verið gerð áður en gildi tók breyting á aðalskipulagi, sem verið hefði forsenda leyfisveitingarinnar.

Í kjölfar framangreinds úrskurðar ákvað skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur, á fundi hinn 5. febrúar 2003, að afturkalla byggingarleyfið frá 16. október 2002 en veitti jafnframt á sama fundi nýtt leyfi til sömu framkvæmda með vísan til þess að ekki léki lengur vafi á því að leyfið samræmdist aðalskipulagi eftir breytingar sem orðið hefðu á því.  Var ákvörðun þessi staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 20. febrúar 2003. 

Með hliðsjón af því að hin kærða ákvörðun í framangreindu máli hafði verið afturkölluð vísaði úrskurðarnefndin málinu frá með úrskurði uppkveðnum hinn 21. febrúar 2003.  Í framhaldi af þeim málalokum skutu kærendur hinni nýju ákvörðun um byggingarleyfið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. febrúar 2003.

Hinn 18. september 2003 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur deiliskipulag, er tekur m.a. til umdeildrar lóðar, og tók það skipulag gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. október 2003 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar. 

Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2003, sem móttekið var hinn 4. desember s.á., var tilkynnt að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hefði samþykkt á fundi sínum hinn 15. október 2003 að fella byggingarleyfið frá 5. febrúar úr gildi og heimila að nýju niðurrif húss þess sem fyrir var að Stakkahlíð 17 og borgarstjórn hefði staðfest þá afgreiðslu hinn 6. nóvember s.á.  Jafnframt kom þar fram að byggingarfulltrúi hefði samþykkt nýja byggingarleyfisumsókn fyrir fjölbýlishúsi á umræddri lóð hinn 4. nóvember sl. og borgarstjórn staðfest þá afgreiðslu hinn 20. nóvember 2003.

Kærendur í máli þessu hafa nú kært fyrrgreint deiliskipulag til úrskurðarnefndarinnar auk veitingu hins nýja byggingarleyfis og heimild til niðurrifs eldra húss.  Hús það sem stóð á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð hefur nú verið rifið og mun sú framkvæmd hafa átt sér stað hinn 11. desember sl.

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli kærenda, dags. 24. febrúar sl., og var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni í ljósi þess að hin kærða ákvörðun í því máli frá 5. febrúar 2003 hafði verið afturkölluð.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að fram til þessa hafi borgaryfirvöld tvívegis komið í veg fyrir að efnisúrskurður fengist í kærumálum þeirra til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana um niðurrif verslunarhúss á lóðinni að Stakkahlíð 17 og byggingar fjölbýlishúss á sömu lóð.  Í kjölfar tveggja úrskurða úrskurðarnefndarinnar um stöðvun framkvæmda við niðurrif hússins á lóðinni, hafi borgaryfirvöld afturkallað fyrri ákvarðanir og veitt leyfi til niðurrifs að nýju og með því komið í veg fyrir efnislega niðurstöðu í ágreiningsmálunum.

Byggingarnefndarteikningar, þær sem samþykktar hafi verið og hið umdeilda skipulag byggi á, séu óvandaðar og nýtingarhlutfall og stærðartölur séu umdeildar.  Göngustíg, sem liggi við lóðarmörk Stakkahlíðar 17, milli Stakkahlíðar og Bogahlíðar, hafi á sínum tíma verið afsalað til Reykjavíkurborgar og hafi stígurinn margsinnis verið sýndur sérgreindur frá umræddri lóð.  Fyrst nú, þegar byggja eigi fimmfalt stærra hús en fyrir sé á lóðinni, sé teikningum hagað svo að stígurinn endi á miðri leið, þ.e. þegar komið sé að lóðinni að Stakkahlíð 17, en sá hluti stígsins sem liggi um þá lóð sé nú talinn til flatarmáls hennar.  Þá komi fram í umdeildri samþykkt byggingarfulltrúa að þrátt fyrir það að báðar hæðir fyrirhugaðs húss séu jafnstórar og eigi að vera lokaðar, sé neðri hæðin sögð 526,9 fermetrar en efri hæðin 495,3 fermetrar.

Kærendur vísa jafnframt til framlagðra gagna og rökstuðnings sem þeir hafi byggt á í fyrri kærum um sama efni og séu enn í fullu gildi.  Kærendur hefðu talið sig mega  treysta því að ekki yrði vikið frá fyrri ákvörðun borgaryfirvalda, sem hafnað hafi stærri byggingu á lóðinni á sínum tíma.  Nálægð fyrirhugaðs húss við hús kærenda, innsýn gagnvart suðurhlið húss þeirra, hærri nýtingarprósenta en nokkurs staðar finnist í hverfinu, óleyst bílastæðamál og aukinn umferðarþungi séu meðal þeirra atriða sem leiða eigi til ógildingar hins kærða byggingarleyfis.

Nú sé svo komið að niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 hafi verið undirbúið.  Búið sé að rífa allar innréttingar úr húsinu og aðeins sé eftir að brjóta það niður en sú aðgerð taki aðeins nokkrar mínútur.  Óverjandi sé að eftir standi upprifin lóð sem kunni að vera hættuleg börnum og unglingum.  Í ljósi vafa um gildi hins kærða byggingarleyfis og ætlaðra annmarka við undirbúning hins kærða skipulags hafi kærendur ríka hagsmuni af því, að sem minnst röskun verði á lóðinni þar til fyrirliggjandi ágreiningur hafi fengið þá löglegu meðferð sem kærendur eigi kröfu á.

Vænta kærendur þess að úrskurðarnefndinni verði gert kleift að afgreiða kærumál þetta og fyrirliggjandi kæru þeirra vegna deiliskipulags svæðisins án inngrips frá skipulags- og byggingaryfirvöldum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17.  Bent er á að niðurrif hússins hafi ekki í för með sér óafturkræf neikvæð áhrif á hagsmuni kærenda. Reykjavíkurborg telji því að nefndinni beri að synja kröfunni m.t.t. eigin fordæma.  Telja verði að það varði ekki hagsmuni kærenda hvort niðurrif á núverandi húsi á lóðinni nái fram að ganga áður en úrskurðað verður um efnishlið málsins, vilji byggingarleyfishafinn taka þá áhættu að hefja framkvæmdir.  Í samræmi við þá meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði að skýra stöðvunarheimild nefndarinnar þröngt enda um mjög íþyngjandi aðgerð að ræða gagnvart byggingarleyfishafa.

Hið kærða deiliskipulag og hin kærða byggingarleyfisumsókn hafi fengið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Á fyrri stigum umfjöllunar byggingarleyfis að Stakkahlíð 17 hafi umtalsvert samráð verið haft við hagsmunaaðila og verulegt tillit tekið til sjónarmiða þeirra. Við gerð deiliskipulagsins hafi, með tilliti til hagsmuna þeirra, fyrirhuguð bygging verið færð um einn metra til vesturs. Við meðferð byggingarleyfisumsóknarinnar hafi gluggar verið minnkaðir á norður- og austurhlið hússins til að mæta athugasemdum kærenda enn frekar.  Þá séu grenndaráhrif breytingarinnar ekki meiri en íbúar í þéttbýli verði almennt að gera ráð fyrir og búa við.

Að öðru leyti vísar Reykjavíkurborg til fyrirliggjandi gagna, málavaxtalýsingar og umfjöllunar um einstakar málsástæður kærenda um efnishlið málsins í framlagðri umsögn borgarinnar í málinu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kröfu um stöðvun framkvæmda verði hafnað og er skírskotað um málsrök og sjónarmið til umsagnar Reykjavíkurborgar um stöðvunarkröfuna.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök í málinu og hafa skírskotað til málsraka í fyrri kærumálum um sama efni.  Með hliðsjón af niðurstöðu í þessum þætti kærumálsins og lokamálslið 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki þörf á að gera nánari grein fyrir sjónarmiðum aðila í úrskurði þessum.

Niðurstaða:  Í úrskurði þessum er einungis tekin afstaða til kröfu um hvort stöðva beri framkvæmdir við niðurrif húss að Stakkahlíð 17 í Reykjavík sem skipulags- og byggingarnefnd heimilaði hinn 15. október 2003 og borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti hinn 6. nóvember s.á.

Eins og rakið hefur verið hefur hið umdeilda hús nú verið rifið en á þeim tíma var í gildi úrskurður úrskurðarnefndarinnar um stöðvun framkvæmda við niðurrif hússins, sem kveðinn var upp hinn 3. apríl 2003 í tilefni af kröfu kærenda þar um í kærumáli þeirra vegna heimildar borgaryfirvalda til niðurrifs hússins frá 5. febrúar 2003.  Eins og málum er háttað er ekki tilefni til að taka afstöðu til fyrirliggjandi  kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og er kröfunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við niðurrif verslunarhússins að Stakkahlíð 17 í Reykjavík, sem skipulags- og byggingarnefnd heimilaði hinn 15. október 2003 og borgarstjórn staðfesti hinn 6. nóvember s.á., er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

11/2003 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2003, kæra íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2003 um að afturkalla áður útgefið byggingarleyfi og veita að nýju leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.

Á málið er nú lagður svofelldur  

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. febrúar 2003, kærir B, formaður húsfélagsins Bogahlíð 2, 4 og 6, f.h. íbúa hússins, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 5. febrúar 2003 um að afturkalla áður útgefið byggingarleyfi og veita að nýju leyfi til þess að rífa verslunarhús að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og að reisa á lóðinni tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2003.  Kærendur krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Kærendur kröfðust jafnframt að fyrirhugaðar framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 yrðu stöðvaðar meðan kærumálið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og var bráðabirgðaúrskurður kveðinn upp hinn 3. apríl 2003 þar sem fallist var á kröfu um stöðvun framkvæmda við niðurrif hússins meðan beðið væri efnisúrlausnar í kærumálinu.

Málavextir:  Á vormánuðum 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því sem á lóðinni væri í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október 2002.

Samhliða meðferð tillögunnar að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var á lóðinni og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þessar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að ekki hefði verið tekið nægjanlegt tillit til sjónarmiða þeirra og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 29. nóvember 2002, og kröfðust síðan stöðvunar framkvæmda við niðurrif hússins með bréfi, dags. 30. desember 2002.

Með úrskurði uppkveðnum hinn 31. janúar 2003 féllst úrskurðarnefndin á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Taldi nefndin líkur á því að byggingarleyfið yrði ógilt með vísan til þess að samþykkt skipulags- og byggingarnefndar um það hefði verið gerð áður en gildi tók breyting á aðalskipulagi, sem verið hefði forsenda leyfisveitingarinnar.

Í kjölfar framangreinds úrskurðar ákvað skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur, á fundi hinn 5. febrúar 2003, að afturkalla hið umdeilda byggingarleyfi en veitti jafnframt á sama fundi nýtt leyfi til sömu framkvæmda með vísan til þess að ekki léki lengur vafi á því að leyfið samræmdist aðalskipulagi eftir breytingar sem orðið hefðu á því.  Var ákvörðun þessi staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 20. febrúar 2003. 

Með hliðsjón af því að hin kærða ákvörðun í framangreindu kærumáli hafði verið afturkölluð vísaði úrskurðarnefndin málinu frá með úrskurði uppkveðnum hinn 21. febrúar 2003.  Í framhaldi af þeim málalokum skutu kærendur hinni nýju ákvörðun um byggingarleyfið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. febrúar 2003.

Hinn 18. september 2003 samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur deiliskipulag, er tekur m.a. til umdeildrar lóðar, og tók það skipulag gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. október 2003 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar. 

Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2003, sem móttekið var hinn 4. desember s.á., var tilkynnt að skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hafi samþykkt á fundi sínum hinn 15. október 2003 að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi og heimila niðurrif húss þess sem fyrir var að Stakkahlíð 17 og borgarstjórn hafi staðfest þá afgreiðslu hinn 6. nóvember s.á.  Jafnframt kom þar fram að byggingarfulltrúi hafi samþykkt nýja byggingarleyfisumsókn um fjölbýlishús á umræddri lóð hinn 4. nóvember sl. og borgarstjórn staðfest þá afgreiðslu hinn 20. nóvember 2003.

Kærendur í máli þessu hafa nú kært fyrrgreint deiliskipulag til úrskurðarnefndarinnar auk veitingu hins nýja byggingarleyfis og heimild til niðurrifs eldra húss.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar um afturköllun eldra byggingarleyfis og veitingu nýs leyfis sé stórlega áfátt.  Umsókn um nýtt leyfi hafi verið ófullnægjandi og ekki hafi verið gætt ákvæða stjórnsýslulaga við ákvörðun um afturköllun eldra leyfis.  M.a. hafi borið að tilkynna aðilum um fyrirhugaða ákvörðun, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og gefa þeim kost á að tjá sig um málið.  Þessa hafi ekki verið gætt. 

Af hálfu kærenda er einnig á það bent að lögum og reglum um skipulagsmál, auk ákvæða stjórnsýslulaga, sé ætlað að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga verði ekki fyrir borð borinn, þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.  Margt bendi til þess að kynningu á aðalskipulagstillögu þeirri sem verið hafi undanfari hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið stórlega ábótavant og hafi hún tæplega fullnægt lagaskilyrðum.  Þá hafi skort rökstuðning fyrir breyttu aðalskipulagi.  Ekkert deiliskipulag hafi verið í gildi um lóðina að Stakkahlíð 17.  Borgarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags.  Því sé harðlega mótmælt, að borgarstjórn hafi verið heimilt að samþykkja framkvæmd á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga 73/1997, þar sem óheimilt hafi verið að fara með málið eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæði þetta beri að skýra svo að það eigi einungis við um minni háttar framkvæmdir sem ekki feli í sér breytingar á byggðamynstri.

Kærendur hafi talið sig mega treysta því að ekki yrði heimiluð bygging á umræddri lóð sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni, án þess að unnið yrði deiliskipulag þar sem tekið yrði tillit til byggðamynsturs svæðisins, m.a. vegna höfnunar umsóknar um leyfi fyrir slíkri byggingu á árinu 1991.  Hafi kærendur m.a. stuðst við vitneskju um þetta við ákvörðun um kaup á dýrum íbúðum í húsinu Bogahlíð 2, 4 og 6 á árunum 1995 og 1996.  Þá sé áréttað að 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga heimili ekki þá málsmeðferð, sem viðhöfð hafi verið, þar sem aðalskipulag hafi ekki heimilað íbúðabyggingu á lóðinni þegar grenndarkynningin hafi talist byrja þann 17. desember 2001.

Loks sé nýtingarhlutfall hinnar umdeildu nýbyggingar of hátt, auk þess sem grenndaráhrif byggingarinnar muni skerða lögvarða hagsmuni kærenda.

Málsrök borgaryfirvalda:  Reykjavíkurborg mótmælir fullyrðingum kærenda um að ákvörðun um afturköllun fyrra byggingarleyfis hafi verið áfátt.  Ekki hafi verið þörf á að kynna þeim áform um þá ákvörðun, enda hafi með henni í raun verið fallist á kröfu þeirra um að umrædd ákvörðun yrði ógilt.  Ákvörðunin hafi því ekki verið íþyngjandi fyrir þá en fyrir hafi legið samþykki byggingarleyfishafans, sem sé sá aðili sem umrædd ákvörðun hafi fyrst og fremst beinst að.  Þá hafi sjónarmið kærenda verið borgaryfirvöldum kunn og legið fyrir þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Einnig er mótmælt málatilbúnaði kærenda er varðar málsmeðferð breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 varðandi lóðina nr. 17 við Stakkahlíð.  Eins og ráða megi af gögnum málsins hafi meðferð tillögunnar verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda hafi tillagan verið auglýst til kynningar en ekki grenndarkynnt eins og kærendur haldi fram.  Í fyrra grenndarkynningarbréfinu hafi þess hins vegar verið getið, til frekari upplýsingar fyrir hagsmunaaðila, að samhliða grenndarkynningunni væri auglýst til kynningar tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina.  Ekki verði fjallað frekar um þessa málsástæðu kærenda þar sem hún hafi ekki þýðingu í málinu, enda úrskurðarnefndin ekki til þess bær að fjalla um lögmæti breytinga á aðalskipulagi sem umhverfisráðherra hafi staðfest.

Rétt sé hjá kærendum að ekkert deiliskipulag sé til af því svæði sem lóðin að Stakkahlíð nr. 17 standi á, en einmitt af þeirri ástæðu hafi það verið byggingarleyfisumsókn sem grenndarkynnt hafi verið fyrir hagsmunaaðilum, sbr. 3. mgr. 23. gr. og 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, en ekki breyting á deiliskipulagi.  Umfjöllun kærenda um deiliskipulag og þær kröfur sem gerðar séu til slíkra skipulagsáætlana hafi því ekki þýðingu.

Óumdeilt sé að núgildandi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 byggi á því að allt land sé skipulagsskylt og framkvæmdir skuli að jafnaði byggja á deiliskipulagsáætlunum.  Í 9. gr. skipulags- og byggingarlaga komi fram meginregla laganna um skipulagsskyldu, þ.e. að landið allt sé skipulagsskylt, og að allar framkvæmdir, þ.e. bygging húsa, annarra mannvirkja og aðrar framkvæmdir, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Með ákvæði þessu hafi í fyrsta sinn verið kveðið afdráttarlaust á um skipulagsskyldu á Íslandi.  Frá þessari meginreglu séu hins vegar nokkrar undantekningar en hér skipti bara ein þeirra máli og komi hún fram í 3. mgr. 23. gr. laganna.  Samkvæmt þeirri grein sé sveitarstjórn heimilt, í þegar byggðu hverfi þar sem ekki sé til deiliskipulag, að veita leyfi til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, eins og gert hafi verið í því máli sem hér sé fjallað um.  Ákvæðið hafi verið skýrt með þeim hætti að aðeins sé hægt að neyta þessarar undanþágu samræmist byggingarleyfi byggðamynstri og ákvæðum aðalskipulags.  Það sé skoðun borgaryfirvalda að fyrirhuguð bygging að Stakkahlíð 17 samræmist byggðamynstri svæðisins og að heimilt hafi verið að fara með málið á þann veg sem gert hafi verið.

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu kærenda að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umsóknina áður en tillaga að breytingu á aðalskipulagi varðandi lóðina hafi verið samþykkt.  Hvergi í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé mælt fyrir um að það sé bannað.  Í 2. mgr. 43. gr. segi aðeins að framkvæmdir skv. 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í því máli sem hér um ræði hafi hið kærða byggingarleyfi verið samþykkt, bæði í skipulags- og byggingarnefnd og borgarstjórn, eftir að umhverfisráðherra hafi staðfest aðalskipulagsbreytinguna.  Ljóst sé því, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga, að þegar framkvæmdir hafi verið hafnar við niðurrif hússins hafi þær verið í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Þá verði að skýra 3. mgr. 23. gr. í samræmi við breytingu sem gerð hafi verið á 1. mgr. sömu greinar, sem nú sé 2. mgr., með lögum nr. 170/2001, en með þeirri breytingu hafi sveitarstjórnum verið heimilað að auglýsa tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi samhliða tillögu að samsvarandi breytingu á aðalskipulagi varðandi sama svæði.  Sömu sjónarmið eigi við um samhliða auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi og grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn, en skýra verði ákvæði laganna í samræmi hvað þetta varði. 

Kærendur telji að vegna höfnunar byggingarleyfisumsóknar frá árinu 1991 hafi þeir mátt treysta því að ekki yrði heimiluð bygging sem væri hærri og stærri en sú sem fyrir hafi verið á lóðinni án þess að unnið yrði deiliskipulag.  Í þessu sambandi verði að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta gildandi skipulagsáætlunum og veita leyfi til framkvæmda án þess að fyrir liggi deiliskipulag, sbr. t.d. 21., 23. og 26. gr. laganna.  Eigendur fasteigna í þéttbýli geti því ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi eða byggingum sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, umferðaraukningu eða aðrar breytingar. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Borgaryfirvöld telji að byggingarleyfi það sem um sé deilt í máli þessu hafi óveruleg áhrif á grenndarrétt hagsmunaaðila, þ.m.t. kærenda.  Telji aðilar sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt gerist eða þeir hafi mátt búast við eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Kærendur hafi ekki sýnt fram á að þeir verði fyrir tjóni vegna breytingarinnar.  Umfjöllun um bætur falli hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar og verði því ekki gerð frekari skil í þessu máli.  Hafa beri í huga að kærendur búi í húsi, sem á sínum tíma hafi verið byggt á grundvelli sambærilegrar málsmeðferðar og hin kærða byggingarleyfisumsókn hafi hlotið, og hafi þeim því mátt vera ljóst að breytingar gætu átt sér stað á svæðinu.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er því haldið fram að hin kærða ákvörðun sé í alla staði lögmæt og því sé mótmælt að á henni séu einhverjir hnökrar er ógildingu varði.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun var þágildandi byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi að Stakkahlíð 17 afturkallað, heimild veitt fyrir niðurrifi eldra húss og nýtt byggingarleyfi veitt fyrir byggingu húss á lóðinni.  Kærendur hafa krafist ógildingar allra þátta ákvörðunarinnar.

Eins og að framan er rakið var hið kærða byggingarleyfi frá 5. febrúar 2003, er fól í sér heimild til niðurrifs eldra húss og byggingar fjölbýlishúss á lóðinni að Stakkahlíð 17, afturkallað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 15. október 2003 og sú ákvörðun staðfest af borgarstjórn hinn 6. nóvember sl.  Hafa kærendur af þeim sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um gildi hins kærða byggingarleyfis.

Ákvörðun um afturköllun byggingarleyfis fyrir lóðina að Stakkahlíð 17, sem veitt var hinn 16. október 2002, var tekin með samþykki byggingarleyfishafa en kærendur höfðu áður krafist ógildingar þess byggingarleyfis í kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. nóvember 2002.  Því kærumáli var vísað frá úrskurðarnefndinni í kjölfar afturköllunarinnar.  Telja verður að hin kærða ákvörðun borgaryfirvalda um afturköllun byggingarleyfisins snerti ekki hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti átt kæruaðild varðandi þá ákvörðun.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

5/2003 Kirkjubæjarklaustur

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2003, kæra vegna byggingarframkvæmda á vegum Skaftárhrepps á skólalóð í Hæðargarðslandi og landspildu í landi Neðri-Merkur og vegna urðunar sorps í landi jarðanna Hæðargarðs, Eystri-Tungu, Ytri-Tungu og ef til vill í landi fleiri lögbýla, öllum í Skaftárhreppi.  Þá er kærð bygging íbúðarhúss á lögbýlinu Kirkjubæjarklaustri.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. janúar 2003, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar og bréfi, dags. 2. júní 2003, framsendi Skipulagsstofnun, með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, erindi L, Vesturbergi 69,  Reykjavík, til stofnunarinnar, dags. 12. desember 2002 og 17. maí 2003, til sveitarstjórnar Skaftárhrepps, úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Fasteignamats ríkisins.  Þau atriði í erindum kæranda er gætu átt undir úrskurðarnefndina varða fyrrgreindar byggingarframkvæmdir og sorpurðun.  Gerir kærandi þá kröfu að byggingarframkvæmdir á skólalóðinni í Hæðargarðslandi verði stöðvaðar, íþróttamannvirki í landi Neðri-Merkur og fyrirhleðsla við ána Stjórn verði fjarlægð og Skaftárhreppi verði gert að hreinsa allt sorp úr sandinum í landi Hæðargarðs, Eystri-Tungu, Ytri-Tungu „…og á ef til vill við um fleiri lögbýla-jarðahluta“.   Þá er gerð krafa um að íbúðarhúsið á framtúninu á lögbýlinu Kirkjubæjarklaustri verði fjarlægt.

Málavextir:  Í bréfi kæranda, dags. 12. desember 2002, kærir hann sveitarstjórn Skaftárhrepps, núverandi og fyrrverandi sveitarstjóra hreppsins og fyrrverandi starfsmann „…til æðra settra stjórnvalda, eftir því sem við á, vegna brota á ákvæðum Stjórnarskrárinnar Fyrir Lýðveldið Ísland, og fyrir brot á ýmsum lægra settum lögum og reglugerðum lýðveldisins Íslands.“  Telur kærandi að með ýmsum hætti hafi verið brotið gegn eignarrétti hans vegna landa og lóða í hreppnum sem séu „…skv. þinglýstum skjölum nr. 1264, nr. 5456, nr. 68/2000 hjá embætti þinglýsingardómarans í Vík í Mýrdal, Vestur-Skaftafellssýslu, vegna lögbýlisins Efri-Merkur og lögbýla-jarðar-hlutanna norðan við Skaftá, úr Hæðargarði, Ytri-Tungu, Eystri-Tungu, Ásgarði, og úr Geirlandi og Neðri-Mörk við Geirlandsá og Stjórn, sem tilgreint er í eignarheimild nr. 5456, og úr lögbýla-jarðahlutunum skv. eignaheimild Lhy nr. 68/2000 þinglýst úr Keldunúpi I og Keldunúpi II, Breiðabólstað, og í Prestbakka og hjáleigunni Prestbakkakoti, sem faðir minn Helgi Lárusson eignaðist með sandgræðslulögum.”  auk eignarhlutdeildar í föðurarfi „vegna eigna sem tilgreindar eru m.a. í þinglýstu skjali nr. 10811, vegna uppgjörs um sameign og skiptingu úr dánarbúi Lárusar sál. Helgasonar, Kirkjubæjarklaustri, sbr. uppskrift búsins, dags. 21/6 1943, og skiptagjörning, dags. 19/9 1975, sem þinglýst var miðvikudaginn 8. október 1975 kl. 1400 af Einari Oddssyni þinglýsingarstjóra.“   

Kærandi gerir grein fyrir kæruatriðum er varða umdeildar byggingar og sorpurðun með svofelldum hætti: 

„a)  Ólögmætar byggingarframkvæmdir á skólalóðinni í Hæðargarðslandi Skaftárhreppi, sem stöðvaðar verði nú þegar x), þ.e. sama lóðin sem skaftárhreppur höfðaði mál út af og tapaði í héraðsdómsmálinu nr. E-306/2002.  Staðfest með dómi hæstaréttar nr. 496/2002.  x) (lóðin getur að hluta verið vestan við samgirðingarstæðið, eftir því sem mælt er af mælingaverkfræðingi, frá Fossármynni, eins og það er á loftmynd frá árinu 1945, á móti rennslisfarvegi Fossár, þaðan í fleygboga og norðaustlæga stefnu í fjallsranann, frá fjallsrananumm í Klaustursmark á söndum, öðru nafni Stjórnarsandur.  Samgirðingin var samtals 2603 metrar á lengd.  Í fasteignamati 1918-1919 er tekið fram á matsblaðinu fyrir lögbýlið Kirkjubæ á Síðu svohljóðandi – tilvitnun byrjar.  ”Samgirðing með undirhleðslu í heiðarlandi jarðarinnar, samtals 2603 metrar á lengd”. – tilvitnun endar.  Hæðargarðsland, sjá þinglýsta eignarheimild nr. 1264, er austan- og sunnanvert við fyrnefnt samgirðingarstæði, eignarland Hæðargarðs norðan við Skaftá afmarkast af miðju Skaftár að sunnanverðu, þ.e. frá Fossármynni niður með rennslisfarvegi Skaftár að landamerkjalínu sem liggur yfir Skaftá, þ.e. frá endanum á merkigarði sem er sunnan við Skaftá, þaðan í norðlæga átt yfir Skaftá að Klaustursmarki á söndum, landamerkjalínan er sameiginleg Ytri-Tungu og Eystri-Tungu að austanverðu, og Hæðargarð að vestanverðu.  Skýring: Landamerki Ytri-Tungu og Eystri-Tungu eru sameiginleg, eru að austanverðu landamerki Hæðargarðs, bæði að norðanverðu og sunnanverðu við Skaftá, eins og þinglýstu landamerkin eru frá og með þinglýsingardegi þeirra árið 1890.  Að norðanverðu Klausturmark á Söndum, í framhaldi af Klausturmarki á Söndum er samgirðingarstæðið að norðanverðu og vestanverðu að Fossármynni.  Eins og kunnugt er af heimildum gömlum og nýjum, þá nefnist áin Fossá er rennur úr Systravatni.  Þegar lokið var við framkvæmdir á samgirðingu þessari árið 1914, 2603 metrar á lengd, þá var lögbýlið Hæðargarður ennþá þjóðjörð, ein af jörðunum sem heyrði undir umboð Kirkjubæjar- og Þykkvabæjarklausturs jarða.

b)  Ólögmæt bygging á vegum Skaftárhrepps verði fjarlægð nú þegar.  Bygging þessi er á landspildu í landi Neðri-Merkur, landspildan er þinglýst, eignarheimild nr. 5456.  Ólögmætt íþróttamannvirki, og ólögmæt fyrirhleðsla fyrir ána Stjórn, sem byggt hefur verið úr stolinni möl úr Efri-Merkur landi, með því að ´´ýta, eða flytja stolnu mölina úr Efri-Merkur landi (sjá landamerkjalínu Efri-Merkur er liggur frá miðjum Stjórnarfossi í Klausturmark á Söndum).  Ólögmæt útleiga og notkun á landinu undir ferðaþjónustu, tjaldstæði, á vegum Skaftárhrepps.  Auglýst í símaskránni.  Landspilda þessi afmarkast að vestanverðu af norður stólpa brúarinnar yfir ána Stjórn (afsalað með öllum vatnsréttindum í ánni Stjórn), þaðan eftir gamla farvegi Stjórnar að landamerkjalínu, sem liggur frá Söðulsteini að Klaustursmarki á Söndum (sjá hæstaréttardóm nr. 164/1976).  Að austanverðu takmarkast eignarlandið af fyrrgreindri landamerkjalínu (hluti af fyrrgreindri landamerkjalínu frá Söðulsteini að Klaustursmarki á Söndum).  Að sunnanverðu er landamerkjalína Efri-Merkur, frá miðjum Stjórnarfossi austur að Klaustursmarki á Söndum.

e)  Ólögmæt urðun á sorpi á lögbýla-jarðahlutum úr Hæðargarði, Eystri-Tungu og Ytri-Tungu, og á ef til vill við um fleiri lögbýla-jarðahluta, sbr. greinir í afsölum nr. 1264, nr. 5456, og nr. 68/2000.  Einnig er um að ræða iðnaðarsorp, ónýta hjólbarða, bílhræ og brotajárn, o. fl., sem komið hefur verið fyrir á eignarlandinu, hér og þar, sbr. fyr greind afsöl.  Það er ekki vitað hve víðtækt sorplosunarsvæðið er, enda losað og komið fyrir í algjöru heimildarleysi. -Sveitarstjóri Skaftárhrepps kvittaði fyrir harðorð mótmæli undirritaðs vegna ofangreinds skv. þessum lið e), síðla árs árið 2000, þar var bönnuð öll losun á sorpi á ofangreindum lögbýla-jarðahlutum.  Þess er krafist að Skaftárhreppur hreinsaði allt sorp úr sandinum.“

Með bréfi, dags. 2. júní 2003, framsendi Skipulagsstofnun til úrskurðarnefndarinnar erindi kæranda til stofnunarinnar, dags. 17. maí 2003, þar sem kærandi kvartar m.a. yfir því að úrskurðarnefndin hafi ekki kveðið upp úrskurð í máli hans innan lögboðins frests og látið hjá líða að stöðva framkvæmdir skv. lið a í fyrra erindi.  Þá er bætt við kæruatriði vegna byggingar íbúðarhúss á framtúni lögbýlisins Kirkjubæjarklausturs og byggir kærandi á því að byggingarlóðin sé í óskiptri sameign sinni og annarra eigenda en byggingarleyfishafi hafi engan eignarétt á byggingarlandinu.  Krefst kærandi þess að íbúðarhúsið verði fjarlægt.

Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa Skaftárhrepps var veitt byggingarleyfi fyrir 1. áfanga íþróttahúss Kirkjubæjarskóla, sem fjallað er um í kærulið a, en það hafi verið staðfest af sveitarstjórn hinn 23. maí 2002.  Byggingarleyfi fyrir vallarhúsi á íþróttavellinum við Kleifar, Kirkjubæjarklaustri, sem fjallað er um í kærulið b, hafi verið sótt um hinn 8. október 1996 og afgreitt af skipulags- og byggingarnefnd og sveitarstjórn á því ári.  Byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi í framtúni lögbýlisins Kirkjubæjarklausturs, sem kærandi fjallar um í kæruliðum h og i í framhaldskæru, hafi verið staðfest af sveitarstjórn hinn 4. nóvember 2002.  Þá liggur fyrir í málinu að Hollustuvernd ríkisins veitti Skaftárhreppi leyfi til sorpurðunar á umdeildum stað hinn 7. janúar 2000.

Niðurstaða:  Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að kröfur hans í kærumáli þessu stafi af ágreiningi um eignarrétt að landi því sem umrædd byggingarleyfi taka til og tekið hefur verið undir sorpurðun í Skaftárhreppi.  Í Hæstaréttarmálinu nr. 496/2002, er kærandi vitnar til í kærulið a, er máli Skaftárhrepps til viðurkenningar á eignarrétti hreppsins á landspildu úr jörðinni Kirkjubæjarklaustri vísað frá sökum vanreifunar.  Dómurinn sker því ekki úr ágreiningi málsaðila um eignarrétt að skólalóð Kirkjubæjarskóla.

Fyrir liggur að ákvarðanir um sorpurðun á Stjórnarsandi og byggingarleyfi fyrir íþróttamannvirki við Kleifar eru nokkurra ára gamlar og jafnframt að kæranda var kunnugt um byggingarframkvæmdir á skólalóð Kirkjubæjarskóla í ágústmánuði 2002 samkvæmt frásögn hans sjálfs í erindi hans til Skipulagsstofnunar, dags. 17. maí 2003.  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Kærufrestur vegna þessara álitaefna var því liðinn er Skipulagsstofnun tók við erindi kæranda hinn 12. desember 2002.

Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvenær kæranda var kunnugt um veitingu byggingarleyfisins frá 4. nóvember 2002 fyrir íbúðarhúsi því sem hann kærir í erindi sínu til Skipulagsstofnunar, dags. 17. maí 2003.  Úrlausn um kröfur kæranda er snerta það byggingarleyfi, sem heimilaði byggingu íbúðarhúss á framtúni lögbýlisins Kirkjubæjarklausturs, ræðst af því hvernig skorið verður úr ágreiningi um eignarrétt á landi undir umdeildri byggingu.  Það er ekki á valdi úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi heldur á úrlausn hans undir dómstóla.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

55/2002 Skarðsbraut

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2002, kæra eigenda Skarðsbrautar 4, Akranesi á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 um synjun á beiðni um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 11. október 2002, sem barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir Björn Þorri Viktorsson hdl. f.h. B og H, eigenda hússins að Skarðsbraut 4, Akranesi ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 þess efnis að synja beiðni kærenda um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hinn 27. ágúst 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að láta merkja kærendum tvö bifreiðastæði við hús þeirra. 

Málavextir:  Árið 1968 reistu kærendur u.þ.b. 160 m² einnar hæðar hús með bílgeymslu á lóðinni sem í dag er nr. 4 við Skarðsbraut á Akranesi.  Húsið var innra hús í tveggja húsa lokaðri götu.  Bílastæði við bílskúr hússins náði út fyrir lóðarmörk en það kom ekki að sök þar sem óverulegri umferð var til að dreifa um götuna.  Á árunum 1975 – 1976 var gatan opnuð og samtengd annarri götu.  Með þessari breytingu óx umferð um götuna og í kjölfarið voru reist fjögur fjöleignarhús við Skarðsbraut með samtals 64 íbúðum, auk þess sem byggður var leikskóli við götuna.  Þessu til viðbótar varð gatan einnig aðkomuleið að 60 íbúða fjöleignarhúsi við Vallarbraut.  Árið 1997 samþykktu bæjaryfirvöld á Akranesi breytingu á lóðinni nr. 1 við Garðabraut og heimiluðu byggingu tveggja fjöleignarhúsa á hluta lóðarinnar. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 24. september 2001 var lögð fram greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa varðandi stöðu bifreiða við Skarðsbraut og lagði nefndin til við bæjarstjórn að bönnuð yrði staða bifreiða við vesturkant götunnar frá Garðabraut að innkeyrslu Skarðsbrautar 1, 3 og 5. 

Bæjarstjórn samþykkti ofangreinda tillögu skipulagsnefndar á fundi hinn 9. október 2001 og hinn 2. sama mánaðar birtist í B–deild Stjórnartíðinda auglýsing Sýslumannsins á Akranesi þar sem greint var frá því að fallist hafi verið á tillöguna og að bannið tæki þegar gildi.  Kærendur ásamt fleirum mótmæltu ákvörðuninni og á fundi bæjarráðs hinn 1. nóvember s.á. var samþykkt að óska eftir umsögn skipulagsnefndar á erindinu.  Á fundi nefndarinnar hinn 5. nóvember 2001 var fyrri afgreiðsla staðfest með vísan til umferðaröryggis. 

Kærendur hafa átt í samskiptum við bæjaryfirvöld á Akranesi vegna ætlaðs bílastæðavandamáls sem til sé komið vegna þéttingar byggðar á svæðinu og á fundi bæjarráðs hinn 11. júlí 2002 var eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarráð er ekki reiðubúið að fella niður bann við lagningu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Stæði vegna umræddra fasteigna hafa verið merkt við götuna en þarfnist þau frekari merkinga er sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs falið að kanna málið“ 

Þessum málalokum hafa kærendur hafnað og skutu máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að opnun Skarðsbrautar og aukin umferð um götuna hafi áhrif á bílastæðamál þeirra þannig að þeir hafi ekki getað lagt bifreið við bílgeymslu sína og þurfi nú að leggja bifreiðum úti við götu, ýmist við austur- eða vesturkant hennar.  Jafnframt hafi bygging fjöleignarhúsanna við Garðabraut verið sérlega bagaleg fyrir þá, því svo virðist sem ekki hafi verið gætt ákvæða byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða á lóð, þegar samþykkt hafi verið að byggja á lóðunum.  Vegna alls þessa halda kærendur því fram að álagið á sameiginleg bílastæði fyrir framan hús þeirra sé mjög mikið og hafi stóraukist eftir að bifreiðastöður hafi verið bannaðar á vesturkanti Skarðsbrautar. 

Kærendur benda á grein 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 máli sínu til stuðnings, en þar segir að á hverri lóð við íbúðarhús skuli a.m.k. vera tvö bílastæði fyrir íbúð sem sé stærri en 80 m².  Samkvæmt því væri nauðsynlegt að í nýbyggingunum að Garðabraut 3 – 5 væru 16 bílastæði en þau séu í raun aðeins 10. 

Kærendur halda því og fram að með ákvörðun bæjaryfirvalda hafi réttindi þeirra og möguleikar til nýtingar eignar þeirra að Skarðsbraut 4 verið verulega þrengdir og fullyrða að þeir verði fyrir fjárhagstjóni verði núverandi staða ekki leiðrétt, þar sem ekkert sérbílastæði tilheyri einbýlishúsi þeirra. 

Málsrök Akraneskaupstaðar:  Akraneskaupstaður krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufresti, samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, hafi lokið. 

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er á það bent af hálfu Akraneskaupstaðar að fasteignin að Skarðsbraut 4 hafi verið byggð árið 1968 á grundvelli þágildandi byggingarlaga.  Breytingar á byggingarlögum og nýjar kröfur hafi ekki skapað kærendum fremur en öðrum rétt til bifreiðastæða á akbraut fyrir framan hús þeirra, úr því ekki sé unnt að koma bifreiðastæðum fyrir innan lóðar.  Þá hafi breytingar á deiliskipulagi í nágrenni við kærendur verið framkvæmdar lögum samkvæmt.

Akraneskaupstaður heldur því einnig fram að kæran lúti að banni við lagningu bifreiða og að þess háttar deilumál eigi ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, heldur ráðist af umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 81. gr. þeirra laga.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun varðar bann við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Gögn málsins bera með sér að engar breytingar eru gerðar á götu eða öðrum umferðarmannvirkjum, en gert er ráð fyrir að tilgreind bílastæði verði merkt við götuna.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér skipulagsákvörðun þótt skipulagsnefnd hafi komið að undirbúningi hennar.  Er það á valdsviði lögreglustjóra, að fengnum tillögum sveitarstjórnar, að kveða á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og sæta slíkar ákvarðanir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til framanritaðs verður hinni kærðu ákvörðun vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir