Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2002 Skarðsbraut

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember kom úrskurðarnefnd skipulags-og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2002, kæra eigenda Skarðsbrautar 4, Akranesi á ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 um synjun á beiðni um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 11. október 2002, sem barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir Björn Þorri Viktorsson hdl. f.h. B og H, eigenda hússins að Skarðsbraut 4, Akranesi ákvörðun bæjarráðs Akraneskaupstaðar frá 11. júlí 2002 þess efnis að synja beiðni kærenda um niðurfellingu banns við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut. 

Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar hinn 27. ágúst 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjarstjórn Akraneskaupstaðar að láta merkja kærendum tvö bifreiðastæði við hús þeirra. 

Málavextir:  Árið 1968 reistu kærendur u.þ.b. 160 m² einnar hæðar hús með bílgeymslu á lóðinni sem í dag er nr. 4 við Skarðsbraut á Akranesi.  Húsið var innra hús í tveggja húsa lokaðri götu.  Bílastæði við bílskúr hússins náði út fyrir lóðarmörk en það kom ekki að sök þar sem óverulegri umferð var til að dreifa um götuna.  Á árunum 1975 – 1976 var gatan opnuð og samtengd annarri götu.  Með þessari breytingu óx umferð um götuna og í kjölfarið voru reist fjögur fjöleignarhús við Skarðsbraut með samtals 64 íbúðum, auk þess sem byggður var leikskóli við götuna.  Þessu til viðbótar varð gatan einnig aðkomuleið að 60 íbúða fjöleignarhúsi við Vallarbraut.  Árið 1997 samþykktu bæjaryfirvöld á Akranesi breytingu á lóðinni nr. 1 við Garðabraut og heimiluðu byggingu tveggja fjöleignarhúsa á hluta lóðarinnar. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 24. september 2001 var lögð fram greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa varðandi stöðu bifreiða við Skarðsbraut og lagði nefndin til við bæjarstjórn að bönnuð yrði staða bifreiða við vesturkant götunnar frá Garðabraut að innkeyrslu Skarðsbrautar 1, 3 og 5. 

Bæjarstjórn samþykkti ofangreinda tillögu skipulagsnefndar á fundi hinn 9. október 2001 og hinn 2. sama mánaðar birtist í B–deild Stjórnartíðinda auglýsing Sýslumannsins á Akranesi þar sem greint var frá því að fallist hafi verið á tillöguna og að bannið tæki þegar gildi.  Kærendur ásamt fleirum mótmæltu ákvörðuninni og á fundi bæjarráðs hinn 1. nóvember s.á. var samþykkt að óska eftir umsögn skipulagsnefndar á erindinu.  Á fundi nefndarinnar hinn 5. nóvember 2001 var fyrri afgreiðsla staðfest með vísan til umferðaröryggis. 

Kærendur hafa átt í samskiptum við bæjaryfirvöld á Akranesi vegna ætlaðs bílastæðavandamáls sem til sé komið vegna þéttingar byggðar á svæðinu og á fundi bæjarráðs hinn 11. júlí 2002 var eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarráð er ekki reiðubúið að fella niður bann við lagningu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Stæði vegna umræddra fasteigna hafa verið merkt við götuna en þarfnist þau frekari merkinga er sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs falið að kanna málið“ 

Þessum málalokum hafa kærendur hafnað og skutu máli sínu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að opnun Skarðsbrautar og aukin umferð um götuna hafi áhrif á bílastæðamál þeirra þannig að þeir hafi ekki getað lagt bifreið við bílgeymslu sína og þurfi nú að leggja bifreiðum úti við götu, ýmist við austur- eða vesturkant hennar.  Jafnframt hafi bygging fjöleignarhúsanna við Garðabraut verið sérlega bagaleg fyrir þá, því svo virðist sem ekki hafi verið gætt ákvæða byggingarreglugerðar um lágmarksfjölda bílastæða á lóð, þegar samþykkt hafi verið að byggja á lóðunum.  Vegna alls þessa halda kærendur því fram að álagið á sameiginleg bílastæði fyrir framan hús þeirra sé mjög mikið og hafi stóraukist eftir að bifreiðastöður hafi verið bannaðar á vesturkanti Skarðsbrautar. 

Kærendur benda á grein 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 máli sínu til stuðnings, en þar segir að á hverri lóð við íbúðarhús skuli a.m.k. vera tvö bílastæði fyrir íbúð sem sé stærri en 80 m².  Samkvæmt því væri nauðsynlegt að í nýbyggingunum að Garðabraut 3 – 5 væru 16 bílastæði en þau séu í raun aðeins 10. 

Kærendur halda því og fram að með ákvörðun bæjaryfirvalda hafi réttindi þeirra og möguleikar til nýtingar eignar þeirra að Skarðsbraut 4 verið verulega þrengdir og fullyrða að þeir verði fyrir fjárhagstjóni verði núverandi staða ekki leiðrétt, þar sem ekkert sérbílastæði tilheyri einbýlishúsi þeirra. 

Málsrök Akraneskaupstaðar:  Akraneskaupstaður krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem hún hafi borist úrskurðarnefndinni eftir að kærufresti, samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, hafi lokið. 

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er á það bent af hálfu Akraneskaupstaðar að fasteignin að Skarðsbraut 4 hafi verið byggð árið 1968 á grundvelli þágildandi byggingarlaga.  Breytingar á byggingarlögum og nýjar kröfur hafi ekki skapað kærendum fremur en öðrum rétt til bifreiðastæða á akbraut fyrir framan hús þeirra, úr því ekki sé unnt að koma bifreiðastæðum fyrir innan lóðar.  Þá hafi breytingar á deiliskipulagi í nágrenni við kærendur verið framkvæmdar lögum samkvæmt.

Akraneskaupstaður heldur því einnig fram að kæran lúti að banni við lagningu bifreiða og að þess háttar deilumál eigi ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, heldur ráðist af umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 81. gr. þeirra laga.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun varðar bann við stöðu bifreiða við austanverða Skarðsbraut.  Gögn málsins bera með sér að engar breytingar eru gerðar á götu eða öðrum umferðarmannvirkjum, en gert er ráð fyrir að tilgreind bílastæði verði merkt við götuna.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér skipulagsákvörðun þótt skipulagsnefnd hafi komið að undirbúningi hennar.  Er það á valdsviði lögreglustjóra, að fengnum tillögum sveitarstjórnar, að kveða á um varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og sæta slíkar ákvarðanir ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til framanritaðs verður hinni kærðu ákvörðun vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir