Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2001 Baugatangi

Ár 2003, fimmtudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2001; kæra eigenda Baugatanga 1 og 2 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. október 2001 um breytingu á deiliskipulagi Skildinganess vegna lóðarinnar nr. 4 við Baugatanga, Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni hinn 26. nóvember 2001, kæra S, Baugatanga 1, Reykjavík og G, Baugatanga 2, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 24. október 2001 að breyta deiliskipulagi Skildinganess fyrir lóðina nr. 4 við Baugatanga.  Gera kærendur þá kröfu að umdeild deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 31. ágúst 2001 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 4 við Baugatanga samkvæmt teikningu Teiknistofu Halldórs Guðmundssonar, dags. 21. ágúst 2001.  Var tillagan grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og komu fram athugasemdir og mótmæli við deiliskipulagstillöguna frá kærendum og nokkrum öðrum nágrönnum.  Lutu framkomin mótmæli að því að fyrirhugað hús yrði of hátt, stöllun þess félli ekki að landhalla lóðarinnar og með byggingu þess væri heildaryfirbragði götunnar raskað, auk þess sem skuggavarp ykist á nágrannalóðir.  Í umsögn Borgarskipulags frá 23. október 2001 um framkomnar athugasemdir var tekið undir að fyrirhugað hús væri of hátt og stöllun þess félli ekki vel að umhverfinu.  Var lagt til að húsið yrði lækkað og stöllun þess yrði hagað með svipuðum hætti og á lóðinni nr. 6 við Baugatanga.

Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur tók deiliskipulagsbreytinguna fyrir á fundi sínum hinn 24. október 2001 og samþykkti hana á grundvelli 4. gr. þágildandi samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, þar sem nefndinni var falið lokaákvörðunarvald um minni háttar deiliskipulagsbreytingar.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og lokamálslið 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja sjónarmið málsaðila í úrskurði þessum.

Niðurstaða:  Ákvörðun um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu var tekin af skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur samkvæmt 4. gr. þágildandi samþykktar fyrir nefndina og hlaut ákvörðunin ekki staðfestingu borgarráðs eða sveitarstjórnar.  Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 15/2002 frá 12. september 2002 var tekin afstaða til þessa afgreiðslumáta deiliskipulagsbreytingar og segir þar m.a: 

„Samkvæmt 6. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fara byggingar- og skipulagsnefndir með byggingar- og skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna.  Heimilt er að fela umrædda málaflokka einni nefnd, skipulags- og byggingarnefnd, og hefur það fyrirkomulag verið tekið upp í Reykjavík.  Í 39. gr. skipulags- og byggingarlaga er kveðið á um störf byggingarnefnda.  Segir í 2. mgr. þess ákvæðis að ákvarðanir nefndarinnar skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.  Sveitarstjórn er þó heimilt, skv. 4. mgr. 40. gr., að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í sérstakri samþykkt, að fenginni staðfestingu ráðherra.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. sömu laga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags, sem skylt er að gera þar sem framkvæmdir eru fyrirhugðar, sbr. 2. mgr. 23. gr.  Sveitarstjórn hefur og með höndum breytingar á deiliskipulagi skv. 26. gr. tilvitnaðra laga.  Sé um óverulega breytingu að ræða er heimilt að taka ákvörðun um hana að undangenginni grenndarkynninu, en sérstaklega er þá áskilið að sveitarstjórn sendi Skipulagstofnun hið breytta skipulag, sbr. 3. mgr. 25. gr., ásamt yfirlýsingu um að hún taki að sér að bæta það tjón sem einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er með skýrum hætti mælt fyrir í skipulags- og byggingarlögum um valdmörk skipulags- og byggingarnefnda annars vegar og sveitarstjórna hins vegar við meðferð skipulags- og byggingarmála og um heimildir til að víkja frá ákvæðum laganna í þessu efni.  Þykja þessi ákvæði standa í vegi fyrir því að skipulags- og byggingarnefnd sé falið vald til að taka lokaákvarðanir um meintar óverulegar breytingar á deiliskipulagi, en ekki er heimilt að fela nefnd, ráði eða stjórn fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt 2. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem lög mæla á annan veg.  Skortir því lagastoð fyrir þeim ákvæðum í samþykkt fyrir skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur frá 21. mars 2002 sem fara í bága við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um lögbundið hlutverk skipulags- og byggingarnefndar og sveitarstjórnar við meðferð skipulags- og byggingarmála.

Samkvæmt framansögðu brast skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur vald til þess að taka lokaákvörðun um hina umdeildu skipulagsbreytingu og hefur ákvörðun nefndarinnar því ekki gildi sem fullnaðarákvörðun á sveitarstjórnarstigi.”

Með skírskotun til framangreindra sjónarmiða felur hin kærða ákvörðun ekki í sér endanlega ákvörðun um umdeilt deiliskipulag og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir