Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2003 Melabraut

Ár 2004, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Melabraut 31, Seltjarnarnesi á afgreiðslu mannvirkja- og skipulagsnefndar Seltjarnarnesbæjar á erindi þeirra um gróður á lóðarmörkum.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. júlí 2003, er barst nefndinni sama dag, kæra J og Þ, Melabraut 31, Seltjarnarnesi afgreiðslu erindis þeirra til mannvirkja- og skipulagsnefndar Seltjarnarnesbæjar um að gróður á mörkum lóðanna nr. 31 við Melabraut og nr. 34 við Miðbraut verði fjarlægður á kostnað eigenda lóðarinnar nr. 34 við Miðbraut. 

Málavextir:  Kærendur máls þessa eru eigendur fasteignarinnar að Melabraut 31, Seltjarnarnesi og liggur sú lóð að Miðbraut 34.  Í ágúst árið 2002 fóru kærendur fram á það við skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarnesbæjar að trérunni á mörkum lóðanna yrði fjarlægður þar sem hann væri að stórum hluta innan lóðar þeirra en eigendur nágrannafasteignarinnar teldu runnann í sinni eigu.  Jafnframt óskuðu kærendur eftir heimild til að reisa girðingu á sinni lóð við lóðarmörkin.  Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 6. september 2002 var erindi kærenda tekið til afgreiðslu og var byggingarfulltrúa falið að óska umsagnar eigenda lóðarinnar nr. 34 við Miðbraut varðandi erindið.  Það var tekið fyrir á ný á fundi nefndarinnar hinn 6. febrúar 2003 og var þá eftirfarandi samþykkt gerð:   „Íbúar Miðbrautar 34 gera ekki ágreining varðandi  girðingu enda sé hún samkvæmt reglugerð og samþykkja færslu runna á lóðamörkum séu þeir ekki rétt staðsettir.  Tæknideild var falið að mæla út lóðarmörkin.  Nefndin bendir jafnframt á að hafi aðilar hug á að girða við lóðarmörk þarf að sækja um það til skipulags- og mannvirkjanefnd og að girðing á mörkum lóða er háð samþykki beggja lóðarhafa.”

Með bréfi, dags. 23. mars 2003, veittu eigendur fasteignarinnar við Miðbraut 34 samþykki sitt fyrir girðingunni, með þeim fyrirvara þó að ekki myndu þau taka þátt í kostnaði við gerð hennar.  Að samþykkinu fengnu óskuðu kærendur eftir því að tæknideild Seltjarnarnesbæjar mældi út lóðarmörk ásamt því að skipulags- og mannvirkjanefnd sæi til þess að fyrrnefndur trjárunni á lóðarmörkum yrði fjarlægður af eigendum fasteignarinnar að Miðbraut 34 á þeirra kostnað og innan ákveðinna tímamarka.  Hinn 3. apríl 2003 var erindið tekið fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd og afgreitt með eftirfarandi bókun:  „Fyrir liggur samþykki eigenda að Miðbraut 34 ásamt verklýsingu á fyrirhugaðri girðingu.  Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir girðinguna og felur jafnframt tæknideild að mæla út lóðarmörkin.”  Í kjölfar bókunarinnar gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi, dags. 10. apríl 2002, þar sem ekki var tekið undir þá kröfu kærenda að nágrönnum þeirra bæri að fjarlægi hinn umdeilda runna á eign kostnað innan ákveðinna tímamarka.  Byggingarleyfi þetta var ekki kært til úrskurðarnefndarinnar.

Með bréfi, dags. 26. maí 2003, sendu kærendur skipulags- og mannvirkjanefnd sjálfstætt erindi á ný þar sem farið var fram á það að nefndin sæi til þess að trérunni á mörkum lóðanna yrði fjarlægður á kostnað eiganda hans innan ákveðinna tímamarka.  Erindi þeirra var tekið fyrir í nefndinni hinn 5. júní 2003 og var eftirfarandi fært til bókar:  „Byggingafulltrúa falið að kynna eiganda Miðbrautar 34 efni bréfsins.” 

Kærendur eru ósáttir við framangreinda afgreiðslu skipulags- og byggingaryfirvalda á Seltjarnarnesi og hafa kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að skipulags- og mannvirkjanefnd hafi ekki svarað beiðni þeirra um að nefndin sjái til þess að eigendum Miðbrautar 34 verði gert að fjarlægja trjárunnann á lóðarmörkum á þeirra kostnað innan ákveðinna tímamarka. 

Kærendur benda á að staða máls þeirra sé sú að þeir hafi í höndunum samþykktir af hálfu bæjaryfirvalda sem ekki sé unnt að koma í framkvæmd.  Afgreiðsla erinda þeirra sé með öllu ófullnægjandi og krefjast þau þess að skipulags- og mannvirkjanefnd verði gert að fara eftir byggingarreglugerð og láta fjarlægja umræddan runna af lóð þeirra þannig að girðingarframkvæmdir geti hafist. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarnesbæjar heldur því fram að nefndinni sé óskylt að verða við kröfu kærenda um að láta fjarlægja runnagróður á lóðarmörkum Melabrautar 31 og Miðbrautar 34.  Báðar lóðirnar séu afmarkaðar eignarlóðir og settar út samkvæmt skipulagi.  Telji eigendur þessara lóða, annar hvor eða báðir, að brotinn sé á þeim réttur af hinum eða réttur af þeim tekinn við nýtingu lóðanna, t.d. með gróðursetningu trjáa eða runna, þá verði þeir að útkljá það á einkaréttarlegum grundvelli. 

Skipulags- og mannvirkjanefnd bendir á að á fundi nefndarinnar hinn 3. apríl 2003 hafi verið veitt leyfi fyrir girðingu þeirri sem kærendur hafi óskað eftir að reisa og talið málinu þar með lokið frá sinni hendi.  Ekkert hafi verið bókað um þá kröfu kærenda að byggingaryfirvöld fjarlægðu trjárunna á umræddum lóðarmörkum, þar sem nefndin telji byggingaryfirvöldum óskylt að verða við kröfum einkaaðila um framkvæmdir á lóðum þeirra.  Ekkert liggi fyrir um það í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem vísað sé til í kæru, að byggingaryfirvöld séu skyld að verða við kröfu um einkaréttarlegar framkvæmdir.  Aftur á móti hafi byggingaryfirvöld, samkvæmt 68. gr. reglugerðarinnar, eftirlit með framkvæmdum og veiti leyfi til þeirra, allt innan þess ramma sem reglugerðin setji.  Erindi kærenda hafi því ekki verið afgreitt með öðrum hætti en að ofan getur og ekkert bókað um þá kröfu kærenda að skipulags- og mannvirkjanefnd fjarlægði nefnda runna. 

Úrskurðarnefndin hljóti á grundvelli ofangreindra sjónarmiða að hafna kröfu kærenda.

Niðurstaða:  Kærefni máls þessa lýtur að afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar á erindi kærenda um að gróður á mörkum lóðanna nr. 31 við Melabraut og nr. 34 við Miðbraut verði fjarlægður á kostnað eigenda lóðarinnar nr. 34 við Miðbraut.  Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls.  Hin kærða samþykkt ber ekki með sér að í henni felist lokaákvörðun heldur var eingöngu um að ræða ákvörðun um að erindi kærenda yrði kynnt eigendum nágrannalóðarinnar.  Ekki verður heldur talið að fyrir hendi hafi verið kæruheimild með stoð í 9. gr. stjórnsýslulaga, sem kveður á um að stjórnsýsluákvarðanir skuli teknar svo fljótt sem unnt sé, enda varð að ætla nágönnum nokkurn tíma til andsvara.  Með vísan til framangreinds skorti kærendur málsins kæruheimild og verður hið kærða álitaefni því ekki tekið til efnismeðferðar og er af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________     ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                        Ingibjörg Ingvadóttir