Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2003 Kirkjubæjarklaustur

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2003, kæra vegna byggingarframkvæmda á vegum Skaftárhrepps á skólalóð í Hæðargarðslandi og landspildu í landi Neðri-Merkur og vegna urðunar sorps í landi jarðanna Hæðargarðs, Eystri-Tungu, Ytri-Tungu og ef til vill í landi fleiri lögbýla, öllum í Skaftárhreppi.  Þá er kærð bygging íbúðarhúss á lögbýlinu Kirkjubæjarklaustri.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. janúar 2003, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar og bréfi, dags. 2. júní 2003, framsendi Skipulagsstofnun, með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, erindi L, Vesturbergi 69,  Reykjavík, til stofnunarinnar, dags. 12. desember 2002 og 17. maí 2003, til sveitarstjórnar Skaftárhrepps, úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Fasteignamats ríkisins.  Þau atriði í erindum kæranda er gætu átt undir úrskurðarnefndina varða fyrrgreindar byggingarframkvæmdir og sorpurðun.  Gerir kærandi þá kröfu að byggingarframkvæmdir á skólalóðinni í Hæðargarðslandi verði stöðvaðar, íþróttamannvirki í landi Neðri-Merkur og fyrirhleðsla við ána Stjórn verði fjarlægð og Skaftárhreppi verði gert að hreinsa allt sorp úr sandinum í landi Hæðargarðs, Eystri-Tungu, Ytri-Tungu „…og á ef til vill við um fleiri lögbýla-jarðahluta“.   Þá er gerð krafa um að íbúðarhúsið á framtúninu á lögbýlinu Kirkjubæjarklaustri verði fjarlægt.

Málavextir:  Í bréfi kæranda, dags. 12. desember 2002, kærir hann sveitarstjórn Skaftárhrepps, núverandi og fyrrverandi sveitarstjóra hreppsins og fyrrverandi starfsmann „…til æðra settra stjórnvalda, eftir því sem við á, vegna brota á ákvæðum Stjórnarskrárinnar Fyrir Lýðveldið Ísland, og fyrir brot á ýmsum lægra settum lögum og reglugerðum lýðveldisins Íslands.“  Telur kærandi að með ýmsum hætti hafi verið brotið gegn eignarrétti hans vegna landa og lóða í hreppnum sem séu „…skv. þinglýstum skjölum nr. 1264, nr. 5456, nr. 68/2000 hjá embætti þinglýsingardómarans í Vík í Mýrdal, Vestur-Skaftafellssýslu, vegna lögbýlisins Efri-Merkur og lögbýla-jarðar-hlutanna norðan við Skaftá, úr Hæðargarði, Ytri-Tungu, Eystri-Tungu, Ásgarði, og úr Geirlandi og Neðri-Mörk við Geirlandsá og Stjórn, sem tilgreint er í eignarheimild nr. 5456, og úr lögbýla-jarðahlutunum skv. eignaheimild Lhy nr. 68/2000 þinglýst úr Keldunúpi I og Keldunúpi II, Breiðabólstað, og í Prestbakka og hjáleigunni Prestbakkakoti, sem faðir minn Helgi Lárusson eignaðist með sandgræðslulögum.”  auk eignarhlutdeildar í föðurarfi „vegna eigna sem tilgreindar eru m.a. í þinglýstu skjali nr. 10811, vegna uppgjörs um sameign og skiptingu úr dánarbúi Lárusar sál. Helgasonar, Kirkjubæjarklaustri, sbr. uppskrift búsins, dags. 21/6 1943, og skiptagjörning, dags. 19/9 1975, sem þinglýst var miðvikudaginn 8. október 1975 kl. 1400 af Einari Oddssyni þinglýsingarstjóra.“   

Kærandi gerir grein fyrir kæruatriðum er varða umdeildar byggingar og sorpurðun með svofelldum hætti: 

„a)  Ólögmætar byggingarframkvæmdir á skólalóðinni í Hæðargarðslandi Skaftárhreppi, sem stöðvaðar verði nú þegar x), þ.e. sama lóðin sem skaftárhreppur höfðaði mál út af og tapaði í héraðsdómsmálinu nr. E-306/2002.  Staðfest með dómi hæstaréttar nr. 496/2002.  x) (lóðin getur að hluta verið vestan við samgirðingarstæðið, eftir því sem mælt er af mælingaverkfræðingi, frá Fossármynni, eins og það er á loftmynd frá árinu 1945, á móti rennslisfarvegi Fossár, þaðan í fleygboga og norðaustlæga stefnu í fjallsranann, frá fjallsrananumm í Klaustursmark á söndum, öðru nafni Stjórnarsandur.  Samgirðingin var samtals 2603 metrar á lengd.  Í fasteignamati 1918-1919 er tekið fram á matsblaðinu fyrir lögbýlið Kirkjubæ á Síðu svohljóðandi – tilvitnun byrjar.  ”Samgirðing með undirhleðslu í heiðarlandi jarðarinnar, samtals 2603 metrar á lengd”. – tilvitnun endar.  Hæðargarðsland, sjá þinglýsta eignarheimild nr. 1264, er austan- og sunnanvert við fyrnefnt samgirðingarstæði, eignarland Hæðargarðs norðan við Skaftá afmarkast af miðju Skaftár að sunnanverðu, þ.e. frá Fossármynni niður með rennslisfarvegi Skaftár að landamerkjalínu sem liggur yfir Skaftá, þ.e. frá endanum á merkigarði sem er sunnan við Skaftá, þaðan í norðlæga átt yfir Skaftá að Klaustursmarki á söndum, landamerkjalínan er sameiginleg Ytri-Tungu og Eystri-Tungu að austanverðu, og Hæðargarð að vestanverðu.  Skýring: Landamerki Ytri-Tungu og Eystri-Tungu eru sameiginleg, eru að austanverðu landamerki Hæðargarðs, bæði að norðanverðu og sunnanverðu við Skaftá, eins og þinglýstu landamerkin eru frá og með þinglýsingardegi þeirra árið 1890.  Að norðanverðu Klausturmark á Söndum, í framhaldi af Klausturmarki á Söndum er samgirðingarstæðið að norðanverðu og vestanverðu að Fossármynni.  Eins og kunnugt er af heimildum gömlum og nýjum, þá nefnist áin Fossá er rennur úr Systravatni.  Þegar lokið var við framkvæmdir á samgirðingu þessari árið 1914, 2603 metrar á lengd, þá var lögbýlið Hæðargarður ennþá þjóðjörð, ein af jörðunum sem heyrði undir umboð Kirkjubæjar- og Þykkvabæjarklausturs jarða.

b)  Ólögmæt bygging á vegum Skaftárhrepps verði fjarlægð nú þegar.  Bygging þessi er á landspildu í landi Neðri-Merkur, landspildan er þinglýst, eignarheimild nr. 5456.  Ólögmætt íþróttamannvirki, og ólögmæt fyrirhleðsla fyrir ána Stjórn, sem byggt hefur verið úr stolinni möl úr Efri-Merkur landi, með því að ´´ýta, eða flytja stolnu mölina úr Efri-Merkur landi (sjá landamerkjalínu Efri-Merkur er liggur frá miðjum Stjórnarfossi í Klausturmark á Söndum).  Ólögmæt útleiga og notkun á landinu undir ferðaþjónustu, tjaldstæði, á vegum Skaftárhrepps.  Auglýst í símaskránni.  Landspilda þessi afmarkast að vestanverðu af norður stólpa brúarinnar yfir ána Stjórn (afsalað með öllum vatnsréttindum í ánni Stjórn), þaðan eftir gamla farvegi Stjórnar að landamerkjalínu, sem liggur frá Söðulsteini að Klaustursmarki á Söndum (sjá hæstaréttardóm nr. 164/1976).  Að austanverðu takmarkast eignarlandið af fyrrgreindri landamerkjalínu (hluti af fyrrgreindri landamerkjalínu frá Söðulsteini að Klaustursmarki á Söndum).  Að sunnanverðu er landamerkjalína Efri-Merkur, frá miðjum Stjórnarfossi austur að Klaustursmarki á Söndum.

e)  Ólögmæt urðun á sorpi á lögbýla-jarðahlutum úr Hæðargarði, Eystri-Tungu og Ytri-Tungu, og á ef til vill við um fleiri lögbýla-jarðahluta, sbr. greinir í afsölum nr. 1264, nr. 5456, og nr. 68/2000.  Einnig er um að ræða iðnaðarsorp, ónýta hjólbarða, bílhræ og brotajárn, o. fl., sem komið hefur verið fyrir á eignarlandinu, hér og þar, sbr. fyr greind afsöl.  Það er ekki vitað hve víðtækt sorplosunarsvæðið er, enda losað og komið fyrir í algjöru heimildarleysi. -Sveitarstjóri Skaftárhrepps kvittaði fyrir harðorð mótmæli undirritaðs vegna ofangreinds skv. þessum lið e), síðla árs árið 2000, þar var bönnuð öll losun á sorpi á ofangreindum lögbýla-jarðahlutum.  Þess er krafist að Skaftárhreppur hreinsaði allt sorp úr sandinum.“

Með bréfi, dags. 2. júní 2003, framsendi Skipulagsstofnun til úrskurðarnefndarinnar erindi kæranda til stofnunarinnar, dags. 17. maí 2003, þar sem kærandi kvartar m.a. yfir því að úrskurðarnefndin hafi ekki kveðið upp úrskurð í máli hans innan lögboðins frests og látið hjá líða að stöðva framkvæmdir skv. lið a í fyrra erindi.  Þá er bætt við kæruatriði vegna byggingar íbúðarhúss á framtúni lögbýlisins Kirkjubæjarklausturs og byggir kærandi á því að byggingarlóðin sé í óskiptri sameign sinni og annarra eigenda en byggingarleyfishafi hafi engan eignarétt á byggingarlandinu.  Krefst kærandi þess að íbúðarhúsið verði fjarlægt.

Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa Skaftárhrepps var veitt byggingarleyfi fyrir 1. áfanga íþróttahúss Kirkjubæjarskóla, sem fjallað er um í kærulið a, en það hafi verið staðfest af sveitarstjórn hinn 23. maí 2002.  Byggingarleyfi fyrir vallarhúsi á íþróttavellinum við Kleifar, Kirkjubæjarklaustri, sem fjallað er um í kærulið b, hafi verið sótt um hinn 8. október 1996 og afgreitt af skipulags- og byggingarnefnd og sveitarstjórn á því ári.  Byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi í framtúni lögbýlisins Kirkjubæjarklausturs, sem kærandi fjallar um í kæruliðum h og i í framhaldskæru, hafi verið staðfest af sveitarstjórn hinn 4. nóvember 2002.  Þá liggur fyrir í málinu að Hollustuvernd ríkisins veitti Skaftárhreppi leyfi til sorpurðunar á umdeildum stað hinn 7. janúar 2000.

Niðurstaða:  Af málatilbúnaði kæranda verður ráðið að kröfur hans í kærumáli þessu stafi af ágreiningi um eignarrétt að landi því sem umrædd byggingarleyfi taka til og tekið hefur verið undir sorpurðun í Skaftárhreppi.  Í Hæstaréttarmálinu nr. 496/2002, er kærandi vitnar til í kærulið a, er máli Skaftárhrepps til viðurkenningar á eignarrétti hreppsins á landspildu úr jörðinni Kirkjubæjarklaustri vísað frá sökum vanreifunar.  Dómurinn sker því ekki úr ágreiningi málsaðila um eignarrétt að skólalóð Kirkjubæjarskóla.

Fyrir liggur að ákvarðanir um sorpurðun á Stjórnarsandi og byggingarleyfi fyrir íþróttamannvirki við Kleifar eru nokkurra ára gamlar og jafnframt að kæranda var kunnugt um byggingarframkvæmdir á skólalóð Kirkjubæjarskóla í ágústmánuði 2002 samkvæmt frásögn hans sjálfs í erindi hans til Skipulagsstofnunar, dags. 17. maí 2003.  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Kærufrestur vegna þessara álitaefna var því liðinn er Skipulagsstofnun tók við erindi kæranda hinn 12. desember 2002.

Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvenær kæranda var kunnugt um veitingu byggingarleyfisins frá 4. nóvember 2002 fyrir íbúðarhúsi því sem hann kærir í erindi sínu til Skipulagsstofnunar, dags. 17. maí 2003.  Úrlausn um kröfur kæranda er snerta það byggingarleyfi, sem heimilaði byggingu íbúðarhúss á framtúni lögbýlisins Kirkjubæjarklausturs, ræðst af því hvernig skorið verður úr ágreiningi um eignarrétt á landi undir umdeildri byggingu.  Það er ekki á valdi úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi heldur á úrlausn hans undir dómstóla.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir