Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

28/2004 Sunnuhvoll

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 3. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2004, kæra eiganda sumarhússins Víðilundar, Miðengi, Grímsnes- og Grafningshreppi, á ákvörðun byggingarnefndar frá 27. janúar um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til stækkunar nýbyggingar á lóð Sunnuhvols.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með stjórnsýslukæru, dags. 29. apríl 2004, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Birgir Már Ragnarsson, hdl., f.h. H, eiganda sumarhússins Víðilundar í landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi, ákvörðun byggingarnefndar frá 27. janúar 2004 um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til stækkunar sumarhúss á lóð Sunnuhvols í landi Miðengis.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 4. febrúar 2004

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og útgefið byggingarleyfi, sem veitt hafi verið á grundvelli hennar, verði ógilt.  Þá er þess krafist að úrskurðað verði þegar í stað að framkvæmdir, sem hafnar séu á grundvelli fyrrgreinds byggingarleyfis, verði stöðvaðar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og 5. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina.

Úrskurðarnefndin gerði byggingarleyfishöfum þegar viðvart um kæru í máli þessu og kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Bárust nefndinni stuttar athugasemdir lögmanns þeirra í bréfi, dags. 6. maí 2004, þar sem m.a. kemur fram að steypuframkvæmdum við þann hluta byggingarinnar, sem hin kærða ákvörðun taki til, sé fyrir löngu lokið.   

Með bréfi, dags. 12. maí 2004, féll umboðsmaður kæranda frá kröfu um stöðvun framkvæmda.  Verður því ekki frekar um hana fjallað, en málið að öðru leyti tekið til úrlausnar.

Málavextir:  Kærandi og byggingarleyfishafar eiga saman liðlega tveggja hektara spildu úr landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Á landspildu þessari standa tveir sumarbústaðir, Sunnuhvoll og Víðilundur, og er hinn síðarnefndi í eigu kæranda.  Umrædd landspilda er í sameign eigenda sumarbústaðanna tveggja en afnotum er skipt samkvæmt samningi þannig að hvorum bústað fylgja afnot af sérgreindri lóð, en ágreiningur er með aðilum um skýringu á ákvæðum samnings þessa um rétt og skyldur eigendanna.

Snemma árs 2003 fengu eigendur Sunnuhvols leyfi til byggingar nýs tvískipts sumarhúss, 115,4 m² að stærð, í stað eldra húss sem yrði rifið.  Af hálfu kæranda var fyrirhugaðri bygginu mótmælt og átti hann samskipti við byggingaryfirvöld og byggingarleyfishafa um málið vorið og sumarið 2003.  Ekki náðist samkomulag með aðilum og skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. október 2003, en þá höfðu byggingarleyfishafar þegar lokið við að rífa eldra hús og ganga frá sökkli nýbyggingar að mestu.

Úrskurðarnefndin tók framangreint kærumál til úrskurðar hinn 22. desember 2003 og var málinu vísað frá nefndinni með þeim rökum að kærufrestur hefði verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni. 

Af hálfu kæranda er upplýst að hann hafi höfðað mál um gildi hins umdeilda byggingarleyfis og að það mál sé til meðfeðar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Eftir að byggingarleyfishafar hófu framkvæmdir við nýbygginguna sóttu þeir um leyfi til breytingar á áður veittu byggingarleyfi þannig að í stað uppfyllts sökkuls yrði leyft að hafa geymslu- og lagnakjallara í sökkulrýminu, en jarðvegsdýpt mun hafa verið meiri en gert hafði verið ráð fyrir og sökkullinn því hærri en búist hafði verið við.  Umrætt leyfi til breytingar var samþykkt í byggingarnefnd 27. janúar 2004 og staðfest af sveitarstjórn 4. febrúar s.á. og er það þessi ákvörðun sem kærð eru í málinu. 

Kærandi telur að ummerki bendi til að nota eigi umrætt sökkulrými sem íbúð og sé því verið að bæta einni hæð við húsið.  Skort hafi á að samþykkis kæranda, sem sameiganda að óskipu sameignarlandi, væri aflað eða að öðrum kosti að umrædd breyting á fyrra byggingarleyfi væri grenndarkynnt.  Þá hafi málsmeðferð við afgreiðslu málsins verið áfátt.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarnefndar um að heimila breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi.  Samkvæmt upplýsingum byggingarfulltrúa í bréfi, dags. 13. maí 2004, hefur breytingin ekki í för með sér breytingar á hæðarsetningu hússins eða útliti þess, en kjallari sem leyfður var með hinni kærðu ákvörðun er undir verönd og er ástæðulaust að ætla að hann verði notaður sem íverurými, enda stendur byggingarleyfið ekki til þess.  Verður ekki séð að hin umdeilda breyting á byggingarleyfi hússins snerti hagsmuni kæranda á þann veg að rétti hans sé hallað með þeim hætti sem áskilið er í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en af ákvæðinu verður ráðið að lögvarðir hagsmunir séu skilyrði aðildar að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni.

Með vísan til þess að kærandi telst ekki eiga einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að fá sérstaklega skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar um breytingu á byggingarleyfi nýbyggingarinnar að Sunnuhvoli ber að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________            _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

5/2004 Laufás

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2004, kæra J á ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. janúar 2004, sem barst nefndinni 28. s.m., kærir J, eigandi sumarhúss að Selási 4 í landi Laufáss í Borgarbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærandi á sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið var við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústað kæranda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess og rekstur á svæðinu sem kærandi setur fyrir sig. 

Niðurstaða:  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni höfðu aðrir hagsmunaaðilar þegar kært hina umdeildu ákvörðun, mál nr. 75/2003.  Með tilliti til þess að kærufrestur var liðinn er kæran barst þótti ekki rétt að sameina hana fyrra máli um sömu ákvörðun.  Úrskurðarnefndin hefur nú, með úrskurði fyrr í dag, tekið fyrra kærumál um hina kærðu ákvörðun til efnisúrlausnar og hafnað kröfu kærenda í því máli um ógildingu ákvörðunarinnar.  Á kærandi, að gengum nefndum úrskurði, ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar eða um rétt sinn til að fá kæru sína tekna fyrir hjá úrskurðarnefndinni og verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

11/2004 Laufás

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 13. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2004, kæra G á ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. janúar 2004, sem barst nefndinni 28. s.m., kærir G, eigandi sumarhúss að Selási 7 í landi Laufáss í Borgarbyggð, ákvörðun bæjarstjórnar Borgarbyggðar frá 24. ágúst 2003 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundahús í Hálsabyggð í landi Laufáss.  Auglýsing um gildistöku hinnar kærðu ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2003.  Kærandi krefst ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. 

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærandi á sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið var við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústað kæranda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess og rekstur á svæðinu sem kærandi setur fyrir sig.  Einnig byggir kærandi á því að ekki hafi verið gætt andmælaréttar eigenda sumarhúsa á umræddu svæði við skipulagsgerðina.

Niðurstaða:  Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni höfðu aðrir hagsmunaaðilar þegar kært hina umdeildu ákvörðun, mál nr. 75/2003.  Með tilliti til þess að kærufrestur var liðinn er kæran barst þótti ekki rétt að sameina hana fyrra máli um sömu ákvörðun.  Úrskurðarnefndin hefur nú, með úrskurði fyrr í dag, tekið fyrra kærumál um hina kærðu ákvörðun til efnisúrlausnar og hafnað kröfu kærenda í því máli um ógildingu ákvörðunarinnar.  Á kærandi, að gengnum nefndum úrskurði, ekki lengur lögvarða hagsmun af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar eða um rétt sinn til að fá kæru sína tekna fyrir hjá úrskurðarnefndinni og verður kærumáli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir

50/2003 Halldórskaffi

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 20. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2003, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 22. maí 2003 um endurnýjun vínveitingaleyfis fyrir Halldórskaffi, Vík. 

Í málinu er nú kveðin upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. ágúst 2003, er barst nefndinni með símbréfi sama dag og með pósti hinn 12. september 2003, kærir J, veitingamaður á Hótel Lunda, Vík ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps frá 22. maí 2003 um endurnýjun vínveitingaleyfis fyrir Halldórskaffi, Vík. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi sveitarstjórnar Mýrdalshrepps hinn 22. maí 2003 var lagt fram bréf Ágústs Freys Bjartmarssonar f.h. Undanfara ehf., rekstraraðila Halldórskaffis í Vík, dags. 28. apríl 2003, um endurnýjun vínveitingaleyfis vegna Halldórskaffis.  Upphaflegt vínveitingaleyfi var útgefið af sveitarstjóra Mýrdalshrepps hinn 21. maí 2001.  Fyrir áðurgreindum fundi sveitarstjórnar lágu jákvæðar umsagnir skipulags- og byggingarnefndar, lögreglustjóra og heilbrigðiseftirlits vegna umsóknarinnar sem og sjónarmið kærenda til hennar.  Sveitarstjórn samþykkti að verða við umsókninni og skyldi leyfið til áfengisveitinga gilda í fjögur ár.  Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu sveitarstjórnar með bréfi, dags. 23. maí 2003. 

Framangreindri samþykkt sveitarstjórnar Mýrdalshrepps skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið. 

Málsrök kæranda:  Kærandi mótmælir því að leyfi til áfengisveitinga hafi verið veitt fyrir Halldórskaffi í Vík og heldur því fram í bréfi til sveitarstjórnar, dags. 12. maí 2003, að rekstur skemmtistaðar eða kráar í húsnæði Halldórskaffis sé ekki í samræmi við gildandi skipulag svæðisins.  Samkvæmt skipulagi Mýrdalshrepps sé svæðið sem Hótel Lundi og Halldórskaffi standi á skipulagt sem verslunar- og þjónustusvæði.  Kærandi telur að sú ráðstöfun að taka húsnæðið sem Halldórskaffi sé í undir rekstur safns eða kaffihúss gangi ekki gegn því skipulagi, en öðru máli gegni um skemmtistað eða krá sem sé opin til kl. 2 eftir miðnætti og um helgar.  Slíkt hljóti að teljast breytt notkun húsnæðisins sem skylt sé að grenndarkynna, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Kærandi gerir og athugasemdir við útgáfu vínveitingaleyfisins þar sem ónæði stafi af viðskiptavinum Halldórskaffis um nætur þegar gestir á Hótel Lundi vilji njóta friðar og hvíldar.  Nálægð Halldórskaffis og Hótels Lunda sé mjög mikil og þessi rekstur fari illa saman. 

Málsrök sveitarstjórnar Mýrdalshrepps:  Af hálfu sveitarstjórnar er tekið fram að hún, sem lægra sett stjórnvald, telji sig ekki eiga beina aðild að kærumálinu þar sem það varði hvorki sértæka né lögvarða hagsmuni sveitarfélagsins.  Telji úrskurðarnefndin að sveitarfélagið eigi beina aðild er því haldið fram að vísa beri málinu frá þar sem það eigi ekki undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ekki liggi fyrir neinn ágreiningur um skipulags- eða byggingarmál í skilningi laganna. 

Verði ekki fallist á ofangreint er því haldið fram af hálfu sveitarfélagsins að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar hafi verið liðinn er kæra barst nefndinni, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði talið að hún eigi við um málsatvik. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps um framlengingu vínveitingaleyfis vegna Halldórskaffis í Vík en upphaflegt vínveitingaleyfi var gefið út hinn 21. maí 2001 og gilti í tvö ár.  Af hálfu sveitarfélagsins er sett fram krafa um frávísun málsins. 

Við undirbúning ákvörðunarinnar aflaði sveitarstjórn sér umsagnar lögreglustjóra, heilbrigðiseftirlits og skipulags- og byggingarnefndar svo sem lögskylt er, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1998. 

Samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kveður úrskurðarnefndin upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál.  Í máli þessu liggur fyrir að veitingastarfsemi hefur verið rekin í húsnæði Halldórskaffis í a.m.k. þrjú ár áður en hin kærða ákvörðun var tekin, með leyfi frá viðkomandi yfirvöldum, sbr. starfsleyfi veitingastaðarins, dags. 19. júní 2000, og veitingaleyfi sýslumannsembættisins í Vík, dags. 5. júní 2000.  Ákvörðun sveitarstjórnar laut því ekki að breyttri notkun húsnæðisins og var ekki skipulagsákvörðun í skilningi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur einvörðungu ákvörðun um framlengingu vínveitingaleyfis.  Í 29. gr. áfengislaga nr. 75/1998 segir að heimilt sé að bera ákvarðanir sveitarstjórnar samkvæmt þeim lögum undir úrskurðarnefnd um áfengismál sem úrskurðar um ágreininginn.  Í málinu liggur fyrir að kærandi hafi einnig skotið ákvörðun sveitarstjórnar til þeirrar nefndar.

Samkvæmt framansögðu sætir umrædd ákvörðun ekki kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og er máli þessu vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________          _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                    Ingibjörg Ingvadóttir

 

33/2003 Brekkuland

Með

Ár 2004, miðvikudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2003, kæra eiganda neðri hæðar fasteignarinnar nr. 3 við Brekkuland, Mosfellsbæ á bókun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 15. apríl 2003 varðandi framtíðaraðkomu að lóðinni nr. 3 við Brekkuland.

Á málið er lagður svofelldu

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. maí 2003, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar kærir K, eigandi neðri hæðar fasteignarinnar nr. 3 við Brekkuland, Mosfellsbæ, bókun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar varðandi framtíðaraðkomu að lóðinni nr. 3 við Brekkuland.

Krefst kærandi þess að hin kærða bókun verði fell úr gildi.

Bókun skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar hinn 23. apríl 2003.

Málsatvik: Með bréfi, dags. 31. mars 2003, óskaði kærandi máls þessa eftir því við skipulags- og byggingarnefnd Mosfellsbæjar að framtíðaraðkoma að lóðinni nr. 3 við Brekkuland yrði með þeim hætti sem verið hefði, eða frá Álafossvegi.

Samkvæmt Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992 – 2012 var ekki gert ráð fyrir aðkomu frá Álafossvegi að húsinu nr. 3 við Brekkuland. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002 – 2024 var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar hinn 12. febrúar 2003, staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003 og birt í Stjórnartíðindum hinn 22. júlí 2003, en samkvæmt því er ekki gert ráð fyrir breytingum varðandi þennan þátt skipulagsins.

Skipulags- og byggingarnefnd tók erindi kæranda til afgreiðslu á fundi hinn 15. apríl 2003 og bókaði að því tilefni eftirfarandi: „Brekkuland 3. Erindi frá Konný Agnarsdóttur og Gunnari Atlasyni, dags. 31.03.2003, þar sem farið er fram á að aðkoma að neðri hæð verði frá Álafossvegi. Byggingarfulltrúi gerði grein fyrir skipulaginu og forsögu aðkomu að lóðinni. Lagt var fram minnisblað frá byggingarfulltrúa, dags. 10.02.2003, og skipulagsráðgjafa, dags. 17.03.2003. Nefndin leggur áherslu á að framtíðaraðkoma að lóðinni verði frá Brekkulandi, en gerir ekki athugsemdir við aðkomu frá Álafossvegi meðan uppbygging á Helgafellshverfi kallar ekki á öfluga vegtengingu við Vesturlandsveg. Gera má ráð fyrir að frekari uppbygging á Helgafellslandi hefjist á allra næstu árum.“

Framangreinda bókun sættir kærandi sig ekki við og hefur skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi heldur því fram að ætlun bæjarfélagsins sé sú að skerða lóðarina að Brekkulandi 3 með þeim afleiðingum að engin aðkeyrsla verði að húsinu. Kærandi heldur því og fram að skipulagsyfirvöld hafi ekki boðið upp á neina lausn málsins og telji hann því verulega á sér brotið. Eignin verði verðminni fyrir vikið og næsta óseljanleg að mati fasteignasala.

Í bréfi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar, dags. 31. mars 2003, kveðst hann hafa eignast fasteignina árið 2002 og hafi þá verið tjáð að ekki stæði til að loka fyrir aðgengi framan við húsið. Hann hafi og aflað sér gagna á skrifstofum Mosfellsbæjar sem hann hafi túlkað sem svo að aðkoman frá Álfossvegi hafi verið heimil. Í fyrrnefndu bréfi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar segir einnig að í garðinum að Brekkulandi 3 séu gömul birkitré sem myndi göngustíg að inngangi neðri hæðar hússins og yrði af þeim sjónarsviptir ef breyta þyrfti göngustíg að húsinu. Áfram segir í bréfinu að öruggt megi telja að húsnæðið að Brekkulandi 3 falli verulega í verði ef breytt aðkoma að húsinu verði að veruleika. Ekkert hús sé þannig byggt í dag að bílastæði séu í gluggahæð að svefnherbergjum en sú yrði einmitt raunin ef breyta þyrfti aðkomunni. Miðað við fyrirliggjandi skipulag sé ekkert skipulagt bílastæði við Brekkuland 3 og sé það eina húsið í öllu hverfinu sem svo sé ástatt um. Úr þessu megi bæta með því að skipuleggja bílastæði þar sem bílum hafi verið lagt við húsið í áratugi.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu Mosfellsbæjar er þess krafist að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála staðfesti hina kærðu ákvörðun. Mosfellsbær bendir á að húsið að Brekkulandi 3 sé tvíbýlishús. Íbúar neðri hæðar hafi ekið að húsinu frá Álafossvegi, en íbúar efri hæðar hafi ekið að húsinu frá Brekkulandi. Hafi þetta verið látið óátalið af hálfu bæjaryfirvalda.

Einnig er á það bent og á að samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi bæjarins sé gert ráð fyrir því að í framtíðinni verði Álafossvegur byggður upp, enda kalli framtíðaruppbygging í Helgafellshverfi á öfluga vegtengingu við Vesturlandsveg. Eftir að vegurinn verði byggður upp verði aðkoma að lóð kæranda frá Álafossvegi ómöguleg nema með ærnum tilkostnaði. Ótækt sé út frá umferðaröryggissjónarmiðum að heimilaður verði út- og innakstur að einstökum húsum meðfram veginum. Því sé það svo samkvæmt aðalskipulaginu að aðkoman að Brekkulandi 3 sé frá Brekkulandi en ekki Álafossvegi. Það hafi því verið niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar að hafna erindi kærenda. Nefndin hafi aftur á móti ekki séð ástæðu til að amast við því að íbúarnir héldu áfram að aka að húsinu frá Álafossvegi meðan vegurinn hafi ekki verið byggður upp.

Loks segir í greinargerð Mosfellsbæjar að af kærunni megi ráða að kærendur vilji að skipulaginu verði breytt þannig að þeir geti haldið áfram að aka að húsi sínu frá Álafossvegi og leggja bifreiðum sínum þar. Með vísan til framanritaðs geti bæjaryfirvöld ekki fallist á þá kröfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um bókun skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar varðandi framtíðaraðkomu að lóðinni nr. 3 við Brekkuland í Mosfellsbæ og má af málatilbúnaði kæranda ráða að þess sé óskað að framtíðaraðkoma að lóð kæranda verði frá Álafossvegi í stað Brekkulands.

Í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 1992 – 2012 var gert ráð fyrir að Álafossvegur yrði tengibraut og hið sama kemur einnig fram í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002 – 2024. Samkvæmt þessu hefur um all langt skeið verið gert ráð fyrir því að aflögð verði sú skipan, sem verið hefur, að aðkoma lóðarinnar nr. 3 við Brekkuland verði frá Álafossvegi.

Af svæði því sem hér um ræðir er ekki til staðfest deiliskipulag en á ósamþykktum skipulagsuppdrætti og lóðablöðum kemur fram lega lóða, lóðamörk og götustæði.

Erindi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar, dags. 31. mars 2003, fól í sér ósk um að framtíðarskipan yrði með þeim hætti sem að framan er lýst og hin kærða bókun var svar við þeirri ósk. Hin kærða bókun fól því aðeins í sér afstöðu til óskar kæranda um efnið en ekki ákvörðun um réttindi eða skyldur til handa kæranda sem metin verður sem stjórnvaldsákvörðun á sviði skipulagsmála sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður af þessum sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

                                                                       Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________    _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Ingibjörg Ingvadóttir

15/2004 Akrar

Með

Ár 2004, miðvikudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2004, kæra eiganda jarðarinnar Akrar I, Borgarbyggð, á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 24. júní 2003 um að heimila byggingu sumarhúss á lóð í landi Akra I. 

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. febrúar 2004, er barst nefndinni með símbréfi hinn 25. sama mánaðar og með pósti hinn 1. mars 2004, kærir Þórður Þórðarson hdl., f.h. M, eiganda jarðarinnar Akra I, Borgarbyggð, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 24. júní 2003 um að heimila byggingu sumarhúss á lóð í landi Akra I.

Ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 26. júní 2003. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda við byggingu sumarhússins.

Málavextir:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar hinn 24. júní 2003 var tekin fyrir beiðni um að byggja sumarhús á lóð í landi Akra I.  Samkvæmt teikningum er fylgdu erindinu skyldi sumarhúsið vera 76,9 m².  Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti beiðnina og á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  Byggingarleyfið var gefið út hinn 27. júní 2003. 

Hinn 21. júlí 2003 var grafið fyrir undirstöðum sumarhússins og hinn 31. júlí sama ár sendi kærandi máls þessa, ásamt öðrum eigendum jarðarinnar, byggingarleyfishafanum símskeyti þar sem þess var krafist að hann fjarlægði tafarlaust þau mannvirki sem reist hefðu verið.  Þá var þess og krafist að byggingarleyfishafinn lagfærði hugsanleg landspjöll sem hlotist hefðu af framkvæmdunum. 

Með bréfi, dags. 30. september 2003, óskaði lögmaður kæranda eftir því við bæjarráð Borgarbyggðar að fyrrgreind ákvörðun yrði endurskoðuð.  Með bréfi lögmanns Borgarbyggðar, dags. 27. október 2003, var erindinu hafnað, með þeim rökstuðningi að fyrir lægi þinglýstur leigusamningur, dags. 31. ágúst 2002, um það land sem leyfið tæki til.  Þá hefðu og bændur á jörðinni Ökrum I gert með sér samkomulag um skipti á túni og ræktarlandi jarðarinnar hinn 26. júní 1955. 

Á fundi bæjarráðs Borgarbyggðar hinn 19. febrúar 2004 var bókað að ofangreindu erindi lögmanns kæranda hefði verið hafnað á fundi ráðsins hinn 23. október 2003, en láðst hafi að bóka um það.  Á fundinum hinn 19. febrúar 2004 var ákvörðunin færð til bókar og lögmanni Borgarbyggðar falið að tilkynna ákvörðunina með formlegum hætti. 

Kærandi er ósáttur við framangreinda afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar og hefur kært hana til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Lögmaður kæranda heldur því fram að bréf lögmanns Borgarbyggðar, dags. 27. október 2003, um synjun á beiðni hans um endurupptöku málsins, hafi borist honum í símbréfi hinn 26. janúar 2004.  Á því sé byggt að fyrrgreint bréf lögmanns Borgarbyggðar hafi ekkert gildi í málinu þar sem ekki hafi legið fyrir heimild til hans um að svara erindi kæranda. 

Kærandi heldur því og fram að land Akra I sé í óskiptri sameign og því sé einum eigenda landsins óheimilt að ráðstafa því á nokkurn hátt án samþykkis annarra eigenda landsins.  Kærandi sé einn eigenda Akra I og hafi ekki verið óskað eftir samþykki hans fyrir gerð leigusamningsins, sem sé grundvöllur hins kærða byggingarleyfis.  Greindur leigusamningur sé því ógildur og geti ekki orðið grundvöllur byggingarleyfis.

Kærandi hafnar þeirri röksemd bæjarstjórnar Borgarbyggðar að umræddur leigusamningur hvíli á samningi landeigenda um skiptingu lands frá 26. júní 1955 og að leiguréttur verði byggður á þeim samningi. 

Kærandi gerir einnig athugasemd við það að ekki liggi fyrir deiliskipulag á svæði því sem byggingarleyfið nái til.  Grenndarkynning hefði því þurft að eiga sér stað áður en byggingarleyfið hafi verið veitt, samkvæmt 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Greint hús blasi við kæranda og skyggi á útsýni hans. 

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem krafan sé of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997.  Miða beri upphaf kærufrests við veitingu byggingarleyfisins en ekki ákvörðun sveitarstjórnar um að hafna endurupptöku málsins. 

Byggingarleyfishafi bendir á að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi hafi hafist strax eftir útgáfu þess.  Um það hafi kæranda verið kunnugt enda hafi hann sent byggingarleyfishafa skeyti hinn 31. júlí 2003 og krafist þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar.  Byggingarleyfishafi hafi hafnað því með skeyti, dags. 6. ágúst 2003. 

Sjónarmið Borgarbyggðar:  Borgarbyggð hefur ekki sett fram sérstakar athugasemdir í málinu en byggingarfulltrúi Borgarbyggðar sendi úrskurðarnefndinni, með símbréfi hinn 25. mars sl., byggingarsögu sumarhússins.  Þar greinir frá því að hinn 21. júlí 2003 hafi verið grafið fyrir undirstöðum og hinn 30. desember sama ár hafi byggingin verið fokheld. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um útgáfu byggingarleyfis vegna sumarhúss á lóð í landi Akra I, Borgarbyggð.  Fyrir liggur að hinn 21. júlí 2003 var grafið fyrir undirstöðum sumarhússins og að hinn 30. desember sama ár var það fokhelt.  Kæran barst úrskurðarnefndinni hinn 25. febrúar 2004.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einungis einn mánuður, samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd. 

Eins og áður segir hófust framkvæmdir við hið umdeilda sumarhús í júlí 2003 og þá þegar var kæranda í lófa lagið að leita frekari upplýsinga um verkið.  Allt að einu setti kærandi ekki fram kæru í málinu fyrr en um sjö mánuðum seinna og tveimur mánuðum eftir að húsið var fokhelt.  Verður við það að miða að kærufrestur hafi í allra síðasta lagi byrjað að líða hinn 31. júlí 2003, eða þann dag er kærandi krafði byggingarleyfishafa um stöðvun framkvæmda.  Var kærufestur því liðinn hinn 30. september 2003 er kærandi óskaði endurupptöku málsins og gat sú beiðni því ekki rofið kærufrest í málinu sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framansögðu barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ingibjörg Ingvadóttir

59/2003 Litli-Botn

Með

Ár 2004, föstudaginn 19. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2003; kæra P, á þeirri ákvörðun hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps frá 12. febrúar 2003 að synja erindi kæranda um að fella úr gildi útgáfu byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2003, sem nefndinni barst hinn 29. sama mánaðar, kærir Guðmundur H. Pétursson hdl., f.h. P, Egilsgötu 16, Borgarnesi, synjun hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps frá 12. febrúar 2003 á erindi kæranda um að fella úr gildi útgáfu byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.

Eru þær kröfur gerðar að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felli úr gildi annars vegar útgáfu framangreinds byggingarleyfis og hins vegar synjun byggingarfulltrúa að stöðva byggingarframkvæmdirnar.

Málavextir og málatilbúnaður kæranda:  Að sögn kæranda er jörðin Litli-Botn í Hvalfjarðarstrandarhreppi í óskiptri sameign 9 einstaklinga í tilteknum hlutföllum.  Ágreiningur er m.a. uppi í máli þessu um ráðstöfun eins eigendanna á lóð úr landi jarðarinnar fyrir sumarbústað þann sem hinar kærðu ákvarðanir varða.  Er því haldið fram af hálfu kæranda að þurft hafi samþykki sameigendanna fyrir ráðstöfun umræddrar lóðar og meðan það hafi ekki legið fyrir hafi byggingarnefnd og hreppsnefnd verið óheimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi.  Af  sömu ástæðum hafi byggingarfulltrúa verið skylt að stöðva framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda leyfi, enda hafi þær verið ólögmætar.  Að auki hafi skort á að hinar kærðu ákvarðanir væru rökstuddar með fullnægjandi hætti.

Kærandi krafðist þess að hreppsnefnd felldi hið umdeilda byggingarleyfi, og aðrar ákvarðanir er tengdust framangreindri ráðstöfun, úr gildi eftir að Héraðsdómur Vesturlands hafði, með úrskurði hinn 23. október 2002, fallist á kröfu kæranda um að leggja fyrir þinglýsingarstjóra að afmá lóðarleigusamning um umrædda lóð úr þinglýsingarbókum.  Hafnaði hreppsnefnd því erindi á fundi sínum hinn 11. febrúar 2003.

Kærandi vildi ekki una niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu og vísaði hann því til félagsmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 3. apríl 2003, á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga.  Kærunni var vísað frá með bréfi ráðuneytisins, dags. 23. apríl 2003.  Var í bréfinu á það bent að hinar umdeildu ákvarðanir sættu að hluta kæru til landbúnaðarráðuneytisins og að hluta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Væri kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda væri kunnugt um ákvörðun þá er hann kærði, sbr. 2. gr. reglug. nr. 621/1997.  Þar sem kærufrestur væri liðinn teldi ráðuneytið hins vegar ekki rétt að framsenda  erindið til áðurgreindra stjórnvalda.

Við þetta vildi kærandi ekki una þar eð hann taldi frávísun málsins byggjast á röngum forsendum og óskaði eftir því með bréfi, dags. 22. maí 2003, að ráðuneytið endurskoðaði fyrri ákvörðun sína.  Því hafnaði ráðuneytið með bréfi, dags. 4. júní 2003.  

Með bréfi, dags. 27. júní 2003, óskaði lögmaður kæranda álits umboðsmanns Alþingis á meðferð hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps og félagsmálaráðuneytisins á málinu.  Í áliti umboðsmanns, dags. 3. júlí 2003, kemur fram að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu félagsmálaráðuneytisins að vísa máli kæranda frá, enda hafi þau úrlausnarefni sem stjórnsýslukæran hafi tekið til verið falin öðrum stjórnvöldum að lögum.  Ekki séu lagaskilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar enda hafi umræddar ákvarðanir hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps hvorki sætt umfjöllun landbúnaðarráðuneytisisns né úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Að fengnu áliti umboðsmanns Alþingis vísaði kærandi málinu til landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dags 31. júlí 2003.  Þeirri kæru vísaði ráðuneytið frá með bréfi, dags. 22. ágúst 2003, með þeim rökum að kærufrestur í málinu væri löngu liðinn, sbr. 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976 og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem að framan greinir vísaði lögmaður kæranda málinu loks til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 25. september 2003.  Kemur fram í erindinu að kæranda sé kunnugt um að kærufrestur skv. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997, sbr. 8. gr. laga nr. 73/1997, sé einn mánuður.  Þess beri hins vegar að geta að í ákvörðun sveitarfélagsins frá 12. febrúar 2003 hafi hvorki verið að finna leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti né hvert kærunni skyldi beint, eins og stjórnsýslulög kveði skýrt á um, sbr. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. l. nr. 37/1993.  Þessi upplýsingaskortur hafi haft í för með sér keðjuverkandi áhrif og hafi málinu verið vísað frá einni ríkisstofnun til annarrar.  Í því ljósi telji kærandi að beita eigi 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um kærufrestinn.  Telji kærandi reyndar að reglugerðarákvæðið sem kveði á um lengd kærufrestsins hafi ekki lagastoð þar sem ekkert sé minnst á lengd kærufrests í skipulags- og byggingarlögum.  Beri því að taka kæruna til efnislegrar úrlausnar.

Andmæli hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps:  Úrskurðarnefndin leitaði afstöðu hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps til kæruefnis máls þessa.  Í svari oddvita f.h. hreppsnefndar, sem úrskurðarnefndinni barst 2. desember 2003, kemur fram að hreppsnefndin vísi til fyrri afgreiðslu í málinu sem fram komi í málsgögnum.  Einnig sé staðfest að afstaða hreppsnefndar sé óbreytt.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur nú fyrir hefur úrskurðanefndin ákveðið að taka sérstaklega til úrlausnar hvort vísa eigi málinu frá nefndinni með vísan til ákvæðis 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að framan er því lýst að kærandi leitaði eftir því við hreppsnefnd Hvalfjarðarstrandarhrepps að felld yrði úr gildi útgáfa byggingarleyfis fyrir stækkun sumarhúss að Litla-Botni í Hvalfirði, sem staðfest var 26. júní 2002, og synjun byggingarfulltrúa á kröfu um að stöðva byggingarframkvæmdir frá 30. september s.á.   Erindi þessu hafnaði hreppsnefnd á fundi sínum hinn 11. febrúar 2003 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.  Eins og kröfugerð kæranda er háttað verður jafnframt að skilja málatilbúnað hans á þann veg að einnig sé krafist ógildingar á útgáfu umrædds byggingarleyfis og á synjun byggingarfulltrúa á kröfu um stöðvun framkvæmda frá 30. september 2002. 

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.  Er á því byggt af hálfu kæranda að afsakanlegt sé að kæran hafi borist of seint og að auki skorti lagastoð fyrir ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um eins mánaðar kærufrest.  Verði því að miða við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um þriggja mánaða kærufrest, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur á ákvörðunum byggingarnefnda og sveitarstjórna samkvæmt lögunum einn mánuður.  Felst í ákvæði þessu fullnægjandi lagastoð fyrir framangreindu reglugerðarákvæði og er staðhæfingum kæranda um hið gagnstæða hafnað.  Verður við það að miða að kærufrestur í máli þessu sé einn mánuður en fallast má á að miða beri upphaf kærufrestsins við það tímamark þegar ætla verður að kæranda hafi verið orðið kunnugt um kærustjórnvald og kærufrest, enda skorti á að upplýsingar þar að lútandi kæmu fram í tilkynningum hreppsnefndar Hvalfjarðarstrandarhrepps um ákvarðanir hennar í málinu.

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins til lögmanns kæranda, dags. 23. apríl 2003, er skilmerkilega gerð grein fyrir kæruheimildum í máli þessu, kærustjórnvöldum og kærufresti hvað úrskurðarnefndina varðar.  Verður við það að miða að kæranda hafi allt frá móttöku nefnds bréfs verið kunnugt um kæruheimildir sínar og annað er máli skipti varðandi þær og því beri að miða upphaf kærufrestsins við það tímamark.  Kærandi vísaði málin fyrst til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi, dags. 23. september 2003, eða um fimm mánuðum eftir að honum hafði verið gerð grein fyrir því sem máli skipti um málskotsréttinn.  Var kærufrestur þá löngu liðinn og verður ekki fallist á að afsakanlegt sé að kæran hafi borist svo seint sem raunin varð.  Gildir einu þótt kærandi hafi leitað álits umboðsmanns Alþingis, enda lá það fyrir hinn 3. júlí 2003 og var kærufrestur því einnig liðinn þótt upphaf hans yrði miðað við það tímamark þegar álitið kom fram.  Loks verður það ekki talið hafa áhrif á upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar þótt kærandi hafi, að fengnu áliti umboðsmanns, beint kæru til landbúnaðarráðuneytisins, enda varðaði sú kæra afmarkaðan þátt, sem ekki átti undir úrskurðarnefndina og var kæranda í lófa lagið að kæra samhliða til nefndarinnar þau úrlausnarefni sem undir hana gátu átt.  Réttlætti bið eftir niðurstöðu landbúnaðarráðuneytisins því ekki þann drátt sem varð á kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Þegar allt framanritað er virt er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að lögboðinn kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni og að ekki hafi verið fyrir hendi þau atvik er leiða eigi til þess að beitt verði undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri því, skv. meginreglu ákvæðisins, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

 

___________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Ingibjörg Ingvadóttir

52/2002 Ásgarður

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2002; kæra eiganda íbúðar að Ásgarði 22 í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja byggingarleyfi fyrir eignarhluta í fasteigninni Ásgarði 22-24, er fól í sér breytingu á verslunarhúsnæði í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu á ytra byrði hússins.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. september 2002, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir A, eigandi íbúðar að Ásgarði 22-24, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. ágúst 2002 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingu verslunarhúsnæðis á fyrstu hæð fasteignarinnar í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu á ytra byrði hússins.  Ákvörðunin var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 5. september 2002.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir:  Í maímánuði árið 2001 voru haldnir tveir húsfundir í húsfélaginu Ásgarði 22-24, þar sem til umræðu var fyrirhuguð breyting byggingarleyfishafa á eignarhluta hans á annarri hæð hússins úr verslunarrými í þrjár íbúðir og breyting á ytra byrði hússins af þeim sökum.  Var kærandi mótfallinn fyrirhuguðum framkvæmdum.  Í kjölfar húsfundanna var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir framkvæmdunum en kærandi leitaði álits kærunefndar fjöleignarhúsa hinn 11. maí 2001 um það hvort umdeildar breytingar væru háðar samþykki allra meðeigenda fjöleignarhússins.  Álit kærunefndarinnar, dags. 17. september 2001, var á þann veg að fyrir skiptingu eignarhlutans í þrjár íbúðir og útlitsbreytingu hússins þyrfti samþykki allra eigenda fjöleignarhússins.

Hinn 27. ágúst 2002 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn byggingarleyfishafa frá maímánuði 2001 um umdeildar breytingar og var umsóknin samþykkt með svofelldri bókun:  „Umsókn eiganda verslunarhúsnæðis í húsinu við Ásgarð 22-24 um að gera þar þrjár íbúðir hefur verið til umfjöllunar hjá embætti byggingarfulltrúa síðan 28. maí 2001 eða í 15 mánuði.  Tveir eigendur í húsinu hafa mótmælt umsókninni.  Þeir hafa ekki sýnt fram á með haldbærum rökum að hagsmunir þeirra skerðist við að íbúðir verði samþykktar í verslunarhúsnæði.  Þá er útlitsbreyting á norðurhlið í samræmi við þá breytingu sem gerð var með samþykkt á íbúð nr. 0205.  Ætla má að breyting úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði sé öllum eigendum til hagsbóta þar sem atvinnuhúsnæði getur fylgt meiri umferð, hávaði og lyktarmengun.  Eigendur verslunarhúsnæðisins hafa ekki getað nýtt það sem slíkt um 2 ára skeið en borið af því allan kostnað, hagsmunir þeirra eru því ríkir.  Með skírskotun til ofanritaðs samþykkir byggingarfulltrúi umsóknina.“

Kæranda var tilkynnt um málalyktir með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. ágúst 2002, og skaut hann síðan veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.  Er krafa kæranda um ógildingu byggingarleyfisins byggð á þeirri málsástæðu að umdeildar framkvæmdir hafi ekki hlotið samþykki allra eigenda fjölbýlishússins svo sem lögskylt sé og fram komi í fyrrnefndu áliti kærunefndar fjöleignarhúsa, sem legið hafi fyrir við afgreiðslu byggingarleyfisins.

Með kaupsamningi, dags. 13. desember 2002, seldi kærandi eignarhlut sinn í húsinu Ásgarði 22-24 og fór afhending hins selda og útgáfa afsals til kaupanda fram sama dag samkvæmt ákvæðum þess samnings.  Kaupandi eignarhluta kæranda hefur ekki látið kærumál þetta til sín taka.

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda að eignarhluta í fjölbýlishúsinu að Ásgarði 22-24.  Fyrir liggur kaupsamningur þar sem kærandi afsalar eignarhluta sínum í umræddu húsi til þriðja aðila og urðu eigendaskiptin hinn 13. desember 2002.  Frá þeim tíma hefur kærandi ekki hagsmuna að gæta vegna nýtingar séreignar eða breytingar á sameign fjölbýlishússins og á þar ekki lengur íhlutunarrétt í þeim efnum samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994.

Vegna þessara ástæðna á kærandi nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                            Ingibjörg Ingvadóttir

62/2002 Bleikjukvísl

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2002, kæra eigenda húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 4. júlí 2002 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar leikskóla á lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2002, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kæra Á og E, eigendur húseignarinnar að Birtingakvísl 15, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar frá 4. júlí 2002 að gefa út byggingarleyfi vegna byggingar leikskóla á lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl, Reykjavík. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og í bréfi lögmanns kærenda, dags. 27. febrúar 2002, er þess krafist að framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar.

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarráði hinn 16. júlí 2002.

Málavextir:  Húseignin að Birtingakvísl 15, Reykjavík stendur neðst í götu og austan og sunnan hennar er lóðin að Bleikjukvísl 10.  Á milli þeirra er göngustígur.

Samkvæmt aðalskipulagi var svæðið skilgreint sem útivistarsvæði til sérstakra nota.  Samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 1982 var gert ráð fyrir dagvistarstarfsemi á lóðinni en með deiliskipulagi samþykktu í skipulagsnefnd hinn 5. júní 1989 og borgarráði 6. sama mánaðar var samþykkt deiliskipulag lóðarinnar sem fól í sér að á lóðinni skyldi vera gæsluvöllur, 60m² hús, leiktæki og náttúrulegt holt.  Starfrækslu gæsluvallarins var hætt fyrir nokkrum árum og húsið sem stóð á lóðinni flutt í burtu. 

Í júlí árið 2001 sótti núverandi lóðarhafi um að fá lóðinni nr. 10 við Bleikjukvísl úthlutað fyrir leikskóla.  Honum var úthlutað lóðinni og sótti hann um byggingarleyfi fyrir leikskóla.  Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 30. janúar 2002 og var frestað, en samþykkt að auglýsa óverulega breytingu á aðalskipulagi þar sem lóðinni skyldi breytt úr grænu svæði í stofnanasvæði.  Þá var hönnuði bent á að hafa samband við skipulagsfulltrúa vegna breytinga á deiliskipulagi.  Tillaga að breyttu aðalskipulagi var auglýst til kynningar frá 19. febrúar 2002 með athugasemdafresti til 20. mars s.á.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febrúar 2002 var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar Bleikjukvísl 10 fyrir húseigendum að Bleikjukvísl 1, 2, 6, 8, 12, 14, 16, 18, 24 og 26, Birtingakvísl 11-19 (oddatölur), frá 19. febrúar 2002 til og með 19. mars sama ár. 

Að lokinni auglýsingu og grenndarkynningu voru tillögurnar lagðar fyrir skipulags- og byggingarnefnd á fundi hinn 24. apríl 2002.  Nefndin samþykkti breytingu á aðal- og deiliskipulagi lóðarinnar og staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 30. apríl 2002.  Kærendur skutu ákvörðunum þessum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði uppkveðnum í dag hefur vísað frá kæru vegna aðalskipulags en fellt úr gildi hið kærða deiliskipulag lóðarinnar .

Hinn 4. júlí 2002 var gefið út byggingarleyfi vegna leikskólabyggingarinnar, en hún er 461,7 m² að stærð.  Leikfangageymsla er stendur á lóðinni er 7 m².  Húsið er finnskt timbureiningahús, klætt að utan með lóðréttri timburklæðningu í ljósgráum lit. 

Framangreinda ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að kæran þeirra hafi borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests en byggingarleyfi það sem um sé deilt í málinu hafi verið gefið út 4. júlí 2002.  Það hafi verið kært til nefndarinnar með bréfi, dags. 28. nóvember s.á. sem borist hafi nefndinni hinn 29. sama mánaðar.  Kærendur telja framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi ólögmætar og gera þeir athugasemd við að ósamræmi sé milli hins nýsamþykkta deiliskipulags og byggingarleyfisins.  Í kærunni segir að kærendum hafi orðið kunnugt um byggingarleyfið um miðjan nóvember er þeim hafi borist í hendur teikningar af leikskólanum og kæran hafi því borist innan kærufrests.  Vísa kærendur til þess að þeir séu ólöglærðir, enda segi í kærunni að þeir hafi talið að ekki mætti gefa út byggingarleyfi á meðan ekki hafi verið úrskurðað í eldri kæru þeirra vegna aðal- og deiliskipulags lóðarinnar.  Þeim hafi því ekki verið kunnugt um að fyrir lægi kæranleg stjórnsýsluákvörðun og framkvæmdir á lóðinni breyti þar engu um.  Með vísan til fyrri samskipta kærenda við borgaryfirvöld sé því haldið fram að þeir hafi mátt ætla að þeim yrði tilkynnt sérstaklega um veitingu byggingarleyfisins.  Kærufrestur teljist almennt ekki byrja að líða þótt óstaðfestar upplýsingar berist aðila á skotspónum og því verði að telja að kæran hafi borist innan kærufrests samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997. 

Verði ekki fallist á ofangreinda röksemdafærslu vísa kærendur til 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem segi að málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni fari eftir stjórnsýslulögum nr. 73/1993 sem geri lágmarkskröfur til málsmeðferðar.  Ákvæði reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina víki fyrir settum lögum.  Því sé haldið fram að ef í skipulags- og byggingarlögum eða reglugerð um úrskurðarnefndina felist ákvæði um málsmeðferð sem geri vægari kröfur til málsmeðferðar, þ.e. veiti aðila minna réttaröryggi en samkvæmt stjórnsýslulögum, verði að telja að stjórnsýslulögin gildi. 

Þá er því einnig haldið fram með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ekki skuli vísa kæru kærenda frá þar sem að afsakanlegt sé að hún hafi ekki borist fyrr.  Einnig sé vísað til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar vegna hinna skýru og alvarlegu ágalla á byggingarleyfinu og vegna þess að byggingarleyfið varði mikilvæga hagsmuni fjölda fólks sem búsett sé í nágrenni við bygginguna. 

Kærendur byggja á því að aðal- og deiliskipulag sem liggi til grundvallar hinu kærða byggingarleyfi séu ógild og þar með sé byggingarleyfið einnig ógilt, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Verði fallist á að aðal- og deiliskipulag lóðarinnar séu gild halda kærendur því fram að slíkir efnislegir annmarkar séu á hinu útgefna byggingarleyfi að ógildingu þess varði.  Samþykktar teikningar og framkvæmdaáform, sem séu hluti af hinu kærða byggingarleyfi, séu ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Í deiliskipulagsskilmálum segi að aðkoma akandi að lóðinni sé um Bleikjukvísl og utan lóðar séu 12 bílastæði við enda götunnar.  Kærendur halda því fram að þetta sé hið bindandi ákvæði deiliskipulagsins sem beri að hlíta, sbr. 11. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þó svo að í greinargerðinni með deiliskipulaginu segi að aðkoma og bílastæði verði frá Streng og að þar verði gerð átta ný bílastæði feli slíkt ekki í sér bindandi ákvæði deiliskipulagsins, heldur einungis lýsingu forsendna þess og skýringu við það, sbr. 4. mgr. 23. leiki gr. skipulags- og byggingarlaga og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð.  Því sé óheimilt samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins að hafa bílastæði og aðkomu lóðarinnar annars vegar frá Bleikjukvísl og hins vegar frá Streng eins og fram komi í byggingarleyfinu.  Auk þess komi fram í byggingarleyfinu að aðkoma að leikskólanum verði ekki frá Bleikjukvísl og Streng heldur annars vegar frá Bleikjukvísl og þaðan eftir göngustíg að vestanverðu og hins vegar frá Streng að sunnanverðu og eftir göngustíg að vestan.  Deiliskipulagið heimili ekki að aðkoma sé um göngustíga heldur einungis frá Bleikjukvísl og hugsanlega Streng verði ekki fallist á sjónarmið kærenda um að það sé óheimilt samkvæmt deiliskipulaginu.  Byggingarleyfið sé því í ósamræmi við deiliskipulagið og beri af þeim sökum að ógilda það.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er því haldið fram að krafan sé of seint fram komin.

Þá heldur Reykjavíkurborg því fram að aðkomur að leikskólanum, samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, séu í fullu samræmi við deiliskipulagið.  Kveðið sé á um aðkomu bíla frá Bleikjukvísl og Streng og ekkert banni það að gengið sé inn á lóðina frá göngustígnum milli lóðanna.  Þá hafi hliðið inn á lóðina verið fært að Streng og hafi verið sótt um þá breytingu.  Engu breyti um gildi byggingarleyfisins þótt lóðarhafar hafi vikið frá því enda muni byggingaryfirvöld bregðast við þeim framkvæmdum í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2002, lýsa byggingarleyfishafar sjónarmiðum sínum varðandi framkomna kæru.  Þeir benda á að framkvæmdum við leikskólann sé að mestu lokið og að börn hafi þegar hafið skólagöngu í leikskólanum.  Byggingarleyfishafar telji sig hafa farið að leikreglum enda þótt um misskilning af þeirra hálfu hafi verið um að ræða þegar þau hafi farið út fyrir lóðarmörk.

Niðurstaða:  Eins og mál þetta liggur fyrir kemur fyrst til skoðunar hvort kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hinn 29. nóvember 2002, en hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út hinn 4. júlí s.á.  Um kærufrest í málinu gildir ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en samkvæmt ákvæðinu er kærufrestur einn mánuður frá því aðila er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar á samþykkt, sem hann hyggst kæra til úrskurðarnefndarinnar. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að í september árið 2002 var kærendum kunnugt um að framkvæmdir við bygginguna væru hafnar, enda segir í bréfi þeirra til úrskurðarnefndar, dags. 30. september 2002, að vinna við sökkla leikskólabyggingarinnar sé vel á veg komin.  Kærendum var ekki formlega kynnt leyfi skipulags- og byggingarnefndar fyrir byggingunni en á móti verður til þess að líta að þeir búa örskammt frá byggingarstað.  Það er álit úrskurðarnefndar að ætlast verði til þess að þeir sem kæra vilji framkvæmdir, sem þeir telja andstæðar hagsmunum sínum, leiti sér upplýsinga um heimildir fyrir þeim.  Kærendur kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hinn 29. nóvember 2002 og var þá vinna við gerð sökkla vel á veg komin.  Með vísan til þessa verður að telja að kærufrestur vegna útgáfu byggingarleyfisins sé einn mánuður frá því að kærendum hafi mátt vera ljóst að framkvæmdir væru hafnar við bygginguna og hafi því byrjað að líða í síðasta lagi 30. september 2002 er kærendur rituðu úrskurðarnefndinni áðurnefnt bréf.  Því verður að telja að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt framansögðu ber, með vísan til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um ógildingu leyfis fyrir byggingu leikskóla við Bleikjukvísl 10 í Reykjavík, samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 4. júlí 2002, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________   ____________________
Þorsteinn Þorsteinsson              Ingibjörg Ingvadóttir

48/2003 Hafnarbraut

Með

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Bjarkarbraut 9, Dalvík, á ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. ágúst 2003, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., f.h. S og I, Bjarkarbraut 9, Dalvík, þá ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.  Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar staðfesti ákvörðun umhverfisráðs hinn 13. maí 2003.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umdeildar byggingarframkvæmdir fjarlægðar.

Málavextir:  Lóðin að Hafnarbraut 18 er 880 m² að stærð og á lóðinni stendur 165,3 fermetra einbýlishús úr timbri.  Fasteign kærenda að Bjarkarbraut 9 liggur skáhallt frá norðvesturhorni lóðarinnar að Hafnarbraut 18 og mun vera um 5 metra bil milli lóðamarka umræddra lóða.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Í febrúar 2003 var gerð fyrirspurn til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um hvort heimilaðar yrðu byggingarframkvæmdir á lóðinni er fælust í að reisa 36,14 fermetra bílskúr og viðtengt 37,5 fermetra íbúðarrými auk 37,5 fermetra kjallararýmis eða samtals 111,14 fermetra.  Var umsækjanda tjáð að umsóknina þyrfti væntanlega að grenndarkynna en bent á að komast mætti hjá formlegri grenndarkynningu ef fyrir lægju yfirlýsingar nágranna um að þeir gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugðar framkvæmdir.

Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar hinn 2. apríl 2003 þar sem lágu frammi teikningar af fyrirhugaðri byggingu, dags. 14. mars 2003, ásamt yfirlýsingu eigenda Bjarkarbrautar 11 og Hafnarbrautar 16 um að þeir gerðu ekki athugasemdir við hana.  Bókað var á fundinum að umhverfisráð gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 15. sama mánaðar.  Í kjölfar þess mun byggingarfulltrúi hafa heimilað framkvæmdir við gröft á lóðinni til undirbúnings byggingarframkvæmdum og þær þá þegar hafist.

Með bréfi, dags. 2. maí 2003, gerði lögmaður kærenda fyrirspurn til umhverfisráðs bæjarins í tilefni af framkvæmdunum og mun formaður umhverfisráðs hafa átt fund með öðrum kærenda vegna framkvæmdanna hinn 7. maí 2003, eða sama dag og umhverfisráð samþykkti umdeilt byggingarleyfi.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. maí 2003.  Lögmaður kærenda ítrekaði fyrirspurn sína frá 2. maí 2003 með tölvupósti, dags. 5. júní 2003, sem formaður umhverfisráðs svaraði með sama hætti hinn 6. júní það ár.  Í svarinu kom fram að álitið hafi verið að málið væri úr sögunni af hálfu kærenda og fyrrgreind fyrirspurn hafi því ekki verið tekin fyrir.  Jafnframt var lofað svari af hálfu bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda.  Kærandi ítrekaði enn fyrirspurn sína vegna framkvæmdanna með bréfi, dags. 25. júní 2003, og var erindi hans svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á.  Kærendur skutu síðan málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur kveðast hafa haft samband við bæjaryfirvöld er framkvæmdir hófust á lóðinni að Hafnarbraut 18, Dalvík og leitað skýringa bæjarins á þeim framkvæmdum.  Bréf hafi verið sent af því tilefni hinn 2. maí 2003 og aftur hinn 25. júní s.á. þar sem svör hefðu ekki borist.  Upplýsingar um umdeildar framkvæmdir hafi fyrst borist með bréfi hinn 27. júní 2003, sem þó hafi ekki haft að geyma fullnægjandi svör við erindi kærenda.  Í bréfinu hafi komið fram að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir umdeildum framkvæmdum að fengnu samþykki eigenda fasteignanna að Bjarkarbraut 11 og Hafnarbraut 16 en ekki hafi þótt ástæða til að kynna kærendum fyrirhugaða framkvæmd þar sem lóðirnar liggi ekki saman og að aðkoma að lóðunum sé úr gangstæðri átt.  Telja kærendur að sömu rök eigi við um lóðina að Bjarkarbraut 11. 

Kærendur geti ekki fallist á svör bæjaryfirvalda og ófullnægjandi útskýringar á umræddum byggingarframkvæmdum og telja að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu byggingarleyfisins.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram svo sem lögskylt hafi verið skv. 7. mgr. 43. gr. laganna og komi samþykki tveggja nágranna ekki í hennar stað.  Kærendur eigi hagsmuna að gæta í málinu og nægi að benda á að umdeild framkvæmd skerði útsýni frá húsi þeirra.  Þrátt fyrir skort á fullnægjandi gögnum um aðra þætti leyfisveitingarinnar telji kærendur að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 fari yfir leyfileg mörk með veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og við útgáfu þess hafi ekki legið fyrir nauðsynleg gögn.  Bent sé á að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út og það látið afskiptalaust af byggingaryfirvöldum.

Af greindum ástæðum beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi og jafnframt beri að fjarlægja hina ólöglegu byggingu skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga.

Kærendur skírskota til þess að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Svarbréf bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda vegna byggingarleyfisins virðist að vísu hafa borist á starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003 en vegna fjarveru í feðraorlofi hafi honum ekki borist svarið fyrr en hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að miða upphaf kærufrests við þann dag, þegar kærendum varð fyrst kunnugt um hina umdeildu ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar, en kærendum hafi ekki enn verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinu kærða byggingarleyfi.

Málsrök Dalvíkurbyggðar:  Lögmaður bæjaryfirvalda gerir aðallega þá kröfu, fyrir hönd bæjarins, að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni sem of seint fram kominni með vísan til 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina, en ella að kröfu um ógildingu umdeilds byggingarleyfis og kröfu um niðurrif framkvæmda verði hafnað.

Með minnispunktum byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar, dags. 14. október 2003, og tölvupóstssamskiptum formanns umhverfisráðs og lögmanns kærenda í maí og júní 2003 sé í ljós leitt að kærendur fengu upplýsingar um afgreiðslu umhverfisráðs á byggingarleyfisumsókninni hinn 8. maí 2003, eða daginn eftir að hún var samþykkt í ráðinu.  Í síðasta lagi hafi kærendum verið kunnugt um afgreiðslu erindisins við móttöku bréfs Dalvíkurbæjar til lögmanns kærenda, dags. 27. júní 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefndina sé kærufrestur á veitingu byggingarleyfa 30 dagar frá því kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann hyggst kæra.  Kærubréfið til úrskurðarnefndarinnar sé dagsett 20. ágúst 2003, eða að loknum kærufresti, hvort heldur sem miðað sé við 8. maí eða 27. júní 2003.  Ekki sé byggjandi á staðhæfingu lögmanns kæranda, sem fram komi í niðurlagi kærubréfsins, þess efnis að hann hafi fyrst fengið vitneskju um efni þess hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Um efnishlið máls vísa bæjaryfirvöld til þess að kærendur hafi ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ógildingar- og niðurrifskröfu sinni.  Samkvæmt fyrrgreindum minnispunktum byggingarfulltrúa hafi umsækjanda byggingarleyfisins verið gerð grein fyrir því í febrúar 2003 að hinar fyrirhuguðu byggingarframkvæmdir þyrfti trúlega að grenndarkynna og tæki það sinn tíma, en unnt væri að flýta afgreiðslu málsins ef samþykki nágranna lægi fyrr og gæti umhverfisráð litið svo á að slíkt samþykki væri ígildi grenndarkynningar.  Hafi umsækjanda og verið bent að það að umhverfisráð liti oftast þannig á að næstu nágrannar væru þeir sem ættu lóðir saman.

Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé heimilað að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd.  Með ákvæðinu sé því lögfest heimild til að afla skriflegra yfirlýsinga þeirra nágranna, sem hagsmuna eigi að gæta, um að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Heimildin verði ekki skilin á annan veg en þann að slíkar yfirlýsingar séu ígildi grenndarkynningar, sem raunar sé ekki skilgreind í lögunum sérstaklega, svo sem gert sé við flest hugtök skipulags- og byggingarlaga í 2. grein laganna.

Samkvæmt þessum skilningi hafi farið fram lögboðin kynning á hinum fyrirhuguðu byggingarframkvæmdum.  Um það megi deila hvort kynningin hafi verið nægilega víðtæk, þ.e. hvort hún hafi tekið til allra þeirra, sem hagsmuna áttu að gæta í skilningi ákvæðisins.  Við mat á því sé óhjákvæmilegt að líta til viðhorfa umhverfisráðs og bæjarstjórnar í þeim efnum og ennfremur þeirrar staðreyndar, að engir húseigendur aðrir en kærendur á umræddum byggingarreit (Hafnarbraut 2-14 og Bjarkarbraut 1-9) hafi gert athugasemdir eða haft í frammi mótmæli við umræddri byggingu á lóðinni Hafnarbraut 18.

Staðhæfing kærenda um of hátt nýtingarhlutfall á umræddri lóð eigi ekki við rök að styðjast.  Leyfilegt nýtingarhlutfall lóðar skv. gildandi aðalskipulagi sé 0,35.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 eftir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis sé 0,314.

Ekki sé fallist á að ófullnægjandi gögn hafi búið að baki veitingu byggingarleyfisins.  Eins og áður hafi verið frá greint haf umhverfisráð talið að fullnægjandi grenndarkynning fyrir hagsmunaaðilum hafi átt sér stað áður en byggingarleyfi hafi verið veitt og vegna ummæla kærenda þess efnis að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út sé rétt að taka fram að gröftur á lóð hafi verið heimilaður fyrir útgáfu leyfisins með stoð í 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar þann 15. apríl 2003.  Sé slíkt leyfi algengur framgangsmáti slíkra mála.

Að lokum sé vakin athygli á því að aðild að kröfugerð um niðurrif skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga sé einvörðungu í höndum skipulags- og/eða byggingarfulltrúa viðkomandi bæjarfélags.  Hér sé um að ræða þvingunarúrræði sem byggingaryfirvöldum sé heimilt að beita með þeim skilyrðum að sýnt sé með óyggjandi hætti fram á að viðkomandi framkvæmd brjóti í bága við gildandi skipulag eða hún hafin eða framkvæmd án leyfis viðkomandi byggingaryfirvalda.  Eigi kærendur enga aðild að slíkri kröfu.

Niðurstaða:  Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hófust framkvæmdir á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut á Dalvík í aprílmánuði 2003 og sendu kærendur af því tilefni bréf, dags. 2. maí það ár, til umhverfisráðs bæjarins með fyrirspurnum af því tilefni.  Fundur mun hafa verið haldinn af hálfu formanns umhverfisráðs með öðrum kærenda hinn 7. maí 2003 vegna málsins og endanlegt svar við fyrirspurnum lögmanns kærenda gefið í bréfi, dags. 27. júní s.á., er að sögn hans barst hinn 7. júlí.  Efni þess bréfs hafi ekki komist til vitundar hans fyrr en hinn 18. ágúst s.á.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að þeim, er telur rétti sínum hallað með þeirri ákvörðun, er kunnugt um hana.  Kærendur og lögmaður þeirra höfðu samskipti við bæjaryfirvöld vegna umdeildra framkvæmda frá maíbyrjun 2003 eða skömmu eftir að þær hófust og var fyrirspurnum kærenda um málsmeðferð og forsendur umdeilds byggingarleyfis svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á., eins og áður greinir.  Af þessum málsatvikum verður ráðið að kærendum hlaut að hafa verið ljós veiting hins umdeilda byggingarleyfis skömmu eftir að framkvæmdir hófust og í öllu falli í kjölfar svarbréfs bæjaryfirvalda við fyrirspurnum lögmanns þeirra er barst starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003.  Enda þótt innihald bréfsins hafi eigi komist til vitundar kærenda fyrr en nokkru seinna þykir hér verða að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða á fyrrgreindum móttökudegi bréfsins, sbr. meginreglu 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Ekki þykja þær ástæður vera fyrir hendi í máli þessu að tilefni sé til að víkja frá kærufresti skv. 1. og 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir