Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2007 Fjarskiptamastur

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 6. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Rangárþings bs. frá 31. maí 2007 um að veita leyfi til byggingar fjarskiptastöðvar í landi Gunnarsholts í Rangárþingi ytra. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. september 2007, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Ásdís J. Rafnar hrl., f.h. H, Heklugerði, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun byggingarnefndar Rangárþings bs. frá 31. maí 2007 um að veita leyfi til byggingar fjarskiptastöðvar í landi Gunnarsholts í Rangárþingi ytra.  Var ákvörðun byggingarnefndar staðfest á fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra hinn 6. júní 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  

Málavextir og rök:  Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra hinn 6. júní 2007 var staðfest ákvörðun byggingarnefndar frá 31. maí s.á. um veitingu byggingarleyfis til Og fjarskipta ehf. fyrir uppsetningu fjarskiptamasturs og tækjahúss í landi Gunnarsholts.  Fyrir lá samþykki Landgræðslu ríkisins, eiganda jarðarinnar Gunnarsholts, fyrir umræddum framkvæmdum.  Um er að ræða tækjaskýli sem hýsir tækjabúnað og 20,3 metra hátt stálgrindarmastur fyrir fjarskiptaloftnet.  Framkvæmdir hófust í kjölfar útgáfu leyfisins og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var mastrið reist hinn 10. júlí 2007.

Skaut kærandi framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið. 

Af hálfu kæranda er á því byggt að hann hafi ekki haft vitneskju um að hið umdeilda mastur skyldi reist og að sveitarstjórn hafi borið að kynna framkvæmdina fyrir hagsmunaaðilum með fullnægjandi hætti, eða með grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá sé því haldið fram að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 áður en mastrið hafi verið reist þar sem skylt hafi verið að leita umsagnar Skipulagsstofnunar á því hvort framkvæmdin hafi verið háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 43. gr. in fine skipulags- og byggingarlaga. 

Þá sé því haldið fram að mastrið hafi verið reist er kærandi hafi verið á ferðalagi í lok júlí 2007.  Þegar hann hafi haft samband við sveitarstjóra og spurst fyrir um málið hafi hann látið þá skoðun sína í ljós að hann væri mjög ósáttur við framkvæmdina. 

Undirstaða mastursins sé í hvarfi frá íbúðarhúsunum á torfunni og eina sem kærandi geti sagt um upphaf framkvæmdarinnar sé að hann hafi verið var við að hola hefði verið grafin sem ekki sé nýnæmi á svæði Landgræðslunnar.  Kærandi starfi á höfuðborgarsvæðinu og sé aldrei heima á virkum dögum og hafi því ekkert fylgst með hvað reist hafi verið ofan í holunni.  Hafi kærandi verið erlendis 6. til 20. ágúst og hafi honum ekki verið kunnugt um veitingu byggingarleyfis fyrir framkvæmdinni fyrr en 26. þess mánaðar.  Í byrjun september hafi verið gerð fyrirspurn hjá Skipulagsstofnun um hvort eitthvað væri þar til um framkvæmd þessa og hafi svo ekki reynst vera.  

Af hálfu Rangárþings ytra er krafist frávísunar málsins og á því byggt að kæran sé of seint fram komin auk þess sem kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar hinn 6. júní 2007.  Með kæru, dags. 18. september 2007, sem móttekin hafi verið hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 24. september sama ár, hafi kærandi kært veitingu byggingarleyfisins.  Ekki verði annað ráðið af lýsingu kæranda en að honum hafi verið eða mátt vera ljósar hinar umdeildu framkvæmdir í júlí 2007.  Vísi kærandi að auki til jarðvegsframkvæmda sem og samtals við sveitarstjóra.

Vinna við framkvæmdir hafi hafist hinn 11. júní 2007 og undirstöðusteypa verið steypt 12. s.m.  Vinnu verktaka hafi verið lokið 2. júlí og 10. júlí hafi mastrið verið reist.  Frá þeim tíma a.m.k. hafi kæranda mátt vera ljósar umræddar framkvæmdir.  Kæran sé hins vegar ekki móttekin fyrr en 24. september 2007 og hafi því kærufrestur verið liðinn er kærandi skaut máli sínu til nefndarinnar.  Beri því að vísa því frá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Einnig sé tekið fram að kæranda hafi verið eða hafi mátt vera ljósar þær framkvæmdir sem hafi átt sér stað á lóðinni, sem hafi hafist í kjölfar útgáfu byggingarleyfisins.  Vitneskja um þessar framkvæmdir hafi því verið til staðar mun fyrr en greindar dagsetningar í kærunni gefi til kynna.  Þá hefði kærandi átt að grípa til aðgerða en hafi ekki gert. 

Þá sé því einnig haldið fram að kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga geti þeir „…einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.“  Í því máli sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir.  Þá segi í kæru að hinar umdeildu framkvæmdir séu í 334 metra fjarlægð frá heimili kæranda.  Hann geti því ekki átt slíka hagsmuni, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2006.  

Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu sveitarfélagsins.  Mótmælir hann fullyrðingu þess efnis að hann eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.  Hið kærða leyfi gangi gegn einstaklegum, verulegum og lögvörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að hann eigi kæruaðild að málinu.  Mastrið og búnaður þess valdi kæranda og bústofni hans sannanlega óþægindum og truflunum og sé alvarlegt lýti í fögru landslagi. 

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem úrskurðarnefndin hefur tekið til skoðunar en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Af hálfu Rangárþings ytra er því haldið fram að kærandi eigi ekki aðild að kærumáli þessu þar sem hið kærða byggingarleyfi skerði í engu hagsmuni hans.  Á þetta verður ekki fallist.  Hið umdeilda fjarskiptamastur er um 20 metra hátt og blasir við kæranda frá heimili hans.  Er mastrið all áberandi í landslaginu og verður því að telja að bygging þess snerti lögvarða hagsmuni hans. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um, eða mátti vera kunnugt um, ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar. 

Eins og áður greinir er kærandi máls þessa búsettur í nágrenni við jörðina Gunnarsholt.  Af gögnum þeim er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina má ráða að hinn 10. júlí 2007 hafi fjarskiptamastrið verið reist.  Hefur því ekki verið andmælt af kæranda.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kæranda hafi, a.m.k. frá þeim tíma, mátt vera kunnugt um byggingu þess og að honum hafi þá borið að kynna sér byggingarleyfið, staðreyna hvort það væri í samræmi við skipulagsheimildir og skjóta því til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma.  Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni aftur á móti ekki fyrr en 24. september 2007 og voru þá liðnir tveir og hálfur mánuður frá því að mastrið var reist.  Var kærufrestur þá liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. laganna.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

72/2005 Hamrahlíð

Með

Ár 2005, föstudaginn 4. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússson héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2005, kæra fjögurra íbúa og eigenda fasteigna við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. september 2005 um að veita takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. september 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Hróbjartur Jónatansson hrl., f.h. Ó, Stigahlíð 50, Ó og Þ, Stigahlíð 56 og H Stigahlíð 60, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita takmarkað byggingarleyfi til að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.  Kefjast kærendur þess í kærunni að framkvæmdir verði stöðvaðar en jafnframt hefur lögmaður þeirra áréttað síðar í bréfi til úrskurðarnefndarinnar að einnig sé gerð krafa um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Málsatvik og rök:  Kærendur í máli þessu höfðu áður, með bréfi dags. 10. ágúst 2005, kært ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júlí 2005 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 10 við Hamrahlíð, sem er lóð Menntaskólans við Hamrahlíð.  Birtist auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda þann  29. ágúst 2005.  Er það mál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Hinn 22. september 2005 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík leyfi það sem um er deilt í máli þessu.  Ber umrætt leyfi yfirskriftina Hamrahlíð 10, takmarkað byggingarleyfi, en síðan segir svo í leyfisbréfinu:  „Með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 13. og 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og samþykkt á byggingarleyfisumsókn nr BN032554, sem er í vinnslu hjá Byggingarfulltrúanum í Reykjavík er Menntamálaráðuneytinu kt. 460269-2969 veitt takmarkað byggingarleyfi til þess að vinna jarðvinnu á lóðinni nr. 10 við Hamrahlíð.  Öll framkvæmdin skal unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál.“  Síðan er í bréfinu getið byggingarstjóra verksins og tekið fram að þetta takmarkaða byggingarleyfi falli sjálfkrafa úr gildi við útgáfu á endanlegu byggingarleyfi.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að útgáfa téðs byggingarleyfis fari alfarið í bága við þá stöðu sem nú sé uppi vegna ágreinings um lögmæti deiliskipulags þess sem Reykjavíkurborg sé að reyna að knýja fram í mikilli óþökk kærenda, sem keypt hafi eignarlóðir af borginni árið 1984 og goldið fyrir hátt verð á þeim forsendum að þágildandi skipulag myndi standa óbreytt.  Augljóst sé að fái byggingarleyfishafinn að hefja framkvæmdir, samkvæmt áformum hins ólögmæta deiliskipulags, á meðan ágreiningurinn sé til meðferðar í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, muni það leiða til þess að hann knýji fram niðurstöðu sér í hag á þeim grundvelli að ekki verði hróflað við mannvirkjum sem þegar hafi risið á lóðinni.  Slík aðstaða sé algerlega óviðunandi og gangi gegn meginreglum stjórnsýslulaga, sem og skipulags- og byggingarlaga, enda við það miðað að ekki verði ráðist í byggingarframkvæmdir nema ótvíræður lagagrunnur sé til staðar fyrir þeim.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er mótmælt kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Telja borgaryfirvöld að ekki hafi verið sýnt fram á að form eða efnisgallar hafi verið á skipulagsákvörðun þeirri sem fyrirhugaðar framkvæmdir að Hamrahlíð 10 styðjist við og hafi takmarkað byggingarleyfi verið veitt í samræmi við umsókn um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.  Hafi sú umsókn verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 11. október 2005 og staðfest í borgarráði 13. sama mánaðar.  Endanlegum frágangi leyfa samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi loks lokið 2. nóvember 2005.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt og vísað til þess að framkvæmdir eigi sér stoð í leyfi þar til bærs stjórnvalds.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. gr. samþykktar um embættisafgreiðslur byggingarfulltrúans í Reykjavík, nr. 161/2005, afgreiðir hann, án staðfestingar skipulagsráðs, mál er falla undir skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 með síðari breytingum og skilgreind eru sem verkefni byggingarnefnda í lögunum.  Í 4. gr. nefndrar samþykktar er áskilið að afgreiðslur byggingarfulltrúa samkvæmt samþykktinni skuli hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs. 

Byggingarleyfi það sem byggingarfulltrúi veitti hinn 22. september 2005 og um er deilt í máli þessu var veitt með vísan til heimildar í 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Segir þar í 2. mgr. að standi sérstaklega á megi veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkist leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Leyfið var veitt milli afgreiðslufunda og verður ekki séð að það hafi fengið frekari meðferð í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Hvorki er í skipulags- og byggingarlögum né í áður nefndri samþykkt heimild til að víkja frá því skilyrði að byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi afgreiðir skuli hljóta endanlega afgreiðslu borgarráðs, jafnvel þótt um takmarkað byggingarleyfi sé að ræða.  Telst hin kærða ákvörðun því ekki hafa hlotið lögboðna fullnaðarafgreiðslu borgaryfirvalda og gat hún því ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni og kemur því ekki til úrlausnar hvort lagaskilyrði voru fyrir útgáfu takmarkaðs byggingarleyfis eins og atvikum var háttað í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Ásgeir Magnússon

 

 

90/2007 Hesteyri

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2007, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar frá 22. maí 2007 um breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðárkróki er felur m.a. í sér sameiningu lóða nr. 2 við Hesteyri og nr. 3 við Vatneyri.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 5. júní 2007 um að veita leyfi til byggingar verkstæðishúss á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. ágúst 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Njarðargötu 29, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar frá 22. maí 2007 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðarkróki.  Sveitarstjórn samþykkti fyrrgreinda ákvörðun á fundi sínum hinn 24. maí 2007.  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.  Jafnframt er þess krafist að leyfi frá 5. júní 2007 til byggingar verkstæðishúss á lóðinni verði fellt úr gildi.  Þá fór kærandi fram á að umræddar framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar. 

Úrskurðarnefndin hefur tekið sérstaklega til athugunar álitaefni um lögvarða hagsmuni kæranda í máli þessu og aðild hans að því.  Af þeirri ástæðu hefur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda ekki verið tekin til sjálfstæðrar úrlausnar.  Er málið nú tekið til endanlegrar afgreiðslu.

Málavextir:  Á svæði því sem hin kærða deiliskipulagsbreyting varðar er í gildi deiliskipulag hafnarsvæðis sem samþykkt var á árinu 1995.  Samkvæmt greinargerð með hinni kærðu ákvörðun var árið 1975 byggt hús á lóðinni nr. 2 við Hesteyri fyrir rekstur útgerðar, skrifstofur og verkstæði og er þar nú starfrækt vélaverkstæði.  Á lóð nr. 3 við Vatneyri var fyrir hálfum öðrum áratug hins vegar byggður sökkull fyrir verksmiðju til pökkunar á vatni til útflutnings sem hefur nú verið fjarlægður.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar hinn 22. maí 2007 var tekin fyrir áður auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins er náði til fyrrgreindra lóða og opins svæðis á uppfyllingu neðan við Gránumóa við Hesteyri og Vatneyri og var tillagan samþykkt óbreytt.  Á fundinum kom jafnframt fram að borist hefðu athugasemdir við tillöguna frá kæranda máls þessa og þættu svör skipulags- og byggingarfulltrúa við þeim fullnægjandi.  Samþykkti sveitarstjórn Skagafjarðar fyrrgreinda tillögu að breyttu deiliskipulagi hafnarsvæðisins á fundi sínum hinn 24. maí 2007.  Felur breytingin í sér að lóð nr. 2 við Hesteyri er stækkuð þar sem lóð nr. 3 við Vatneyri er lögð undir hana.  Var jafnframt fyrirhugað að reisa á svæðinu byggingu fyrir bílaverkstæði og fleiri þjónustuþætti.  Var umsókn um leyfi til byggingar verkstæðishúss á lóðinni samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. júní 2007.  Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti fundargerð nefndarinnar á fundi sínum 7. júní 2007. 

Hefur kærandi skotið ofangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi, sem hefur skráð lögheimili við Aðalgötu 20 á Sauðárkróki,  bendir á að framkvæmdir við byggingu bílaverkstæðis séu hafnar og þær beri að stöðva þar sem ekki sé búið að staðfesta breytingu á deiliskipulagi svæðisins í B-deild Stjórnartíðinda.

Telji kærandi m.a. að með úthlutun lóðarinnar til reksturs bílaverkstæðis felist skipulagsslys sem eigi að afturkalla.  Með ólíkindum sé að sveitarstjórnarmenn sjái ekki þá meinbugi sem umrædd starfsemi muni hafi í för með sér á þessu svæði og bendi kærandi á að seint verði talið að þörf sé á hafnaraðstöðu í tengslum við rekstur bílaverkstæðis.

Málsrök sveitarfélagsins Skagafjarðar:  Sveitarfélagið tekur fram að markmið með breytingu á deiliskipulagi svæðisins hafi verið að fá fram lögformlegan grunn til að breyta mörkum lóðanna Hesteyrar 2 og Vatneyrar 3 svo að starfsemi á svæðinu geti þróast.  Framkvæmdir við byggingu húss á lóðinni hafi verið heimilaðar að fenginni brunatæknilegri hönnun byggingarinnar, skriflegri umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra og á grundvelli svarbréfs Skipulagsstofnunar frá 29. júní 2007.  Þá sé því mótmælt að kærandi máls þessa geti talist aðili að málinu enda vandséð með hvaða hætti deiliskipulagsbreytingin geti skaðað hagsmuni hans eða haft áhrif á þá.

Niðurstaða:  Kærandi mun vera búsettur í Reykjavík en hefur skráð lögheimili að Aðalgötu 20 á Sauðárkróki.  Er sú fasteign í talsverðri fjarlægð frá lóðum þeim sem hin kærða ákvörðun tekur til.  Þegar litið er til þessarar fjarlægðar og innbyrðis afstöðu umræddra eigna verður hvorki séð að breyting sú á deiliskipulagi hafnarsvæðisins, sem samþykkt var á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. maí 2007, né framkvæmdir þær er heimilaðar voru á lóðinni með samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 5. júní 2007, raski til muna lögvörðum rétti kæranda.  Verður hann því ekki talinn eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________              _________________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

17/2008 Ánanaust

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2008, kæra á útgáfu skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 4. febrúar 2008 á framkvæmdaleyfi fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2008, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir E, Vesturgötu 73, Reykjavík, fyrir sína hönd, annarra íbúa í hverfinu og húsfélagsins að Vesturgötu 69-75, útgáfu skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 4. febrúar 2008 á framkvæmdaleyfi fyrir allt að þriggja hektara landfyllingu út frá Ánanaustum í Reykjavík, með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi en að öðrum kosti að framkvæmdir verði stöðvaðar ef til þeirra komi.

Í málinu liggur ekki fyrir umboð íbúa hverfisins eða húsfélagsins að Vesturgötu 69-75 til að kæra umdeilda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og verður því litið svo á að aðild málsins sé á hendi kæranda persónulega. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júní 2007 var lagt fram á fundi skipulagsráðs Reykjavíkurborgar bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdasviðs borgarinnar, dags. 10. júní 2007, þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi til að koma fyrir út frá Ánanaustum allt að þriggja hektara landfyllingu með efni úr grunni bílastæðahúss á byggingarsvæði við Geirsgötu.  Var afgreiðslu erindisins frestað en það hlaut síðan samþykki ráðsins á fundi hinn 20. júní 2007.  Var þeirri ákvörðun skotið til úrskuðarnefndarinnar sem vísaði kærumálinu frá hinn 14. desember 2007 þar sem ekki var talið að kærandi í því máli hefði einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, sem er skilyrði kæruaðildar að stjórnsýslurétti.  Hinn 4. febrúar 2008 var leyfisbréf vegna umræddrar framkvæmdar gefið út í umboði skipulagsstjóra Reykjavíkur með stoð í samþykkt skipulagsráðs um veitingu leyfisins frá 20. júní 2007.  Hefur kærandi nú skotið þessari útgáfu framkvæmdaleyfisins til úrskurðarnefndarinnar.

Vísar kærandi til bréfs til borgarráðs frá 27. febrúar 2008 með tilmælum um að framkvæmdaleyfið frá 4. febrúar 2008 yrði afturkallað og fallið frá umræddri framkvæmd.  Framkvæmdin snerti grenndarhagsmuni íbúa á svæðinu enda fylgi fyrirhuguðum flutningi á 300.000 rúmmetrum jarðvegs mikill hávaði og rykmengun.  Ógildingarkrafa kæranda byggi m.a. á 4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er fjalli um framkvæmdaleyfi, en álit Skipulagsstofnunar hafi ekki legið fyrir er leyfið hafi verið gefið út.  Jarðvegur sem nota eigi við landfyllinguna sé talinn mengaður og snerti framkvæmdin að því leyti grenndarhagsmuni íbúa með ríkum hætti.  Sé hún ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag Reykjavíkur og brjóti í bága við lög um mat á umhverfisáhrifum og sé vísað í því sambandi til bréfa Skipulagsstofnunar til borgaryfirvalda, dags. 26. september 2007 og 11. febrúar 2008.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram í fyrra kærumáli um fyrrgreinda framkvæmd að ástæða fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi vegna landfyllingar við Ánanaust sé sú staðreynd að mikið efni komi upp úr grunni vegna byggingar tónlistarhúss við Geirsgötu.  Sé litið til umhverfisáhrifa verði að telja þetta hagkvæmustu lausnina við að losna við efnið jafnframt því að leyst yrði vandamál vegna ágangs sjávar við Ánanaust.  Efnið sem um ræði sé gömul landfylling sem sjór hafi leikið um í áraraðir, en sjávarfalla hafi gætt langt inn í hana. 

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé gert ráð fyrir um 35 hektara landfyllingu við Ánanaust.  Skilgreind landnotkun á fyllingunni sé blönduð byggð og í fyrstu töflu í greinargerð I í skipulaginu segi að þessi uppbygging verði á tímabilinu 2012 til 2024.  Í neðanmálsgrein í sömu töflu segi enn fremur:  „Meginhluti uppbyggingar viðkomandi svæðis fari fram á tilgreindu tímabili.  Nauðsynlegur undirbúningur vegna uppbyggingar á einstökum svæðum, s.s. landfyllingar, getur hafist mun fyrr.  Gert er ráð fyrir að landfylling fyrir framhaldsskóla við Ánanaust verði gerð fyrir 2012.“  Fyrirhuguð framkvæmd fari því ekki í bága við aðalskipulag.  Heildarskipulag svæðisins verði unnið í samráði við íbúa og umhverfismat framkvæmt áður en til uppbyggingar komi á væntanlegri landfyllingu samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Hin heimilaða þriggja hektara landfylling sé ekki tilkynningarskyld eða matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. 

Um sé að ræða afturkræfa framkvæmd en ekki verði ráðist í frekari landfyllingu á svæðinu eða framkvæmdir fyrr en að uppfylltum skilyrðum aðalskipulags Reykjavíkurborgar varðandi fyrirhugaða 35 hektara landfyllingu á svæðinu.

Niðurstaða:  Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er framkvæmdaleyfi skilgreint sem leyfi sveitarstjórnar til framkvæmda sem ekki eru háðar ákvæðum IV. kafla skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi.  Þá kemur fram í gr. 9.3 í greindri reglugerð að gefa megi út framkvæmdaleyfi þegar sveitarstjórn hafi staðfest samþykkt skipulagsnefndar um veitingu þess.  Ákvörðun sveitarstjórna um veitingu framkvæmdaleyfis er endanleg stjórnvaldsákvörðun í því efni og er unnt að skjóta henni til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Hinn 20. júní 2007 tók skipulagsráð Reykjavíkur lokaákvörðun um veitingu umdeilds framkvæmdaleyfis á grundvelli c- liðar 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð, er staðfest var í borgarstjórn hinn 5. apríl 2005.  Í nefndri grein er skipulagsráði falin lokaákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfa skv. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga með stoð í 2. mgr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 svo sem henni var breytt með lögum nr. 74/2003.  Eins og fyrr var að vikið var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá á grundvelli aðildarskorts.

Sú embættisathöfn, sem gerð var í umboði skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar, að gefa út framkvæmdaleyfisbréf hinn 4. febrúar 2008 fyrir umdeildri landfyllingu, er gerð með stoð í fyrrgreindri ákvörðun skipulagsráðs.  Hún felur því ekki í sér sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar og markar ekki nýjan kærufrest vegna umdeilds framkvæmdaleyfis frá árinu 2007, sem telja verður að hafi verið löngu liðinn er kæra í máli þessu barst.  Verður kærumáli þessu samkvæmt framansögðu vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

     

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________        ______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

34/2007 Langabrekka

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 3. apríl 2007 um að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni nr. 5 að Löngubrekku í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. apríl 2007, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 3. apríl 2007 að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku.

Er þess krafist að ofangreind afgreiðsla skipulagsnefndar verði ógilt.  Ennfremur er gerð krafa um að úrskurðað verði að leyfi til stækkunar bílskúrs skuli veitt á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
 
Málavextir:  Á lóðinni nr. 5 við Löngubrekku stendur tvíbýlishús ásamt bílskúr.  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. janúar 2007 var tekið fyrir erindi kæranda um stækkun bílageymslu til suðurs þannig að fjarlægð frá lóðarmörkum yrði einn metri.  Samþykkt var að grenndarkynna málið og var það kynnt lóðarhöfum að Löngubrekku 1, 3 og 7 og Álfhólsvegar 59, 61 og 63 sem breytt deiliskipulag skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Athugasemdir bárust frá lóðarhöfum að Álfhólsvegi 61 en sú lóð liggur að lóð kæranda.

Hinn 6. mars 2007 var erindið lagt fram að nýju á fundi skipulagsnefndar, ásamt framkomnum athugasemdum, afgreiðslu frestað og bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn um innsendar athugasemdir.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 20. mars s.á. var erindið tekið fyrir á ný ásamt umsögn bæjarskipulags þar sem lagt var til að tillaga að stækkun bílageymslu yrði samþykkt.  Var afgreiðslu málsins frestað.  Hinn 3. apríl 2007 var erindið enn á ný lagt fyrir í skipulagsnefnd og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Skipulagsnefnd telur að núverandi bílgeymsla 80,4 m² sé hæfileg að stærð miðað við aðstæður og hafnar erindi um stækkun bílgeymslu um 15 m² á grundvelli athugasemda.“  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 4. apríl s.á.

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsnefndar, dags. 3. apríl 2007, til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að umsókn hans um stækkun bílskúrs, dags. í febrúar 2006, hafi verið hafnað með vísan til 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sem nú hafi verið breytt.  Í ljósi þess, og að höfðu samráði við skipulagsstjóra Kópavogs, hafi aftur verið sótt um stækkun bílskúrs.  Bæjarskipulag Kópavogs hafi lagt til að tillagan yrði samþykkt óbreytt en engu að síður hafi skipulagsnefnd hafnað umsókn kæranda.  Bent sé á að allir lóðarhafar á svæðinu hafi fengið að byggja bílskúr að lóðamörkum við Álfhólsveg og gæta beri jafnræðis.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Þess er aðallega krafist að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum verði hafnað. 

Byggingarnefnd beri að afgreiða mál að lokinni grenndarkynningu og umfjöllun skipulagsnefndar skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 en byggingarnefnd hafi enn ekki afgreitt umsókn lóðarhafa þar sem hann hafi ekki lagt fram fullnægjandi hönnunargögn.  Hin kærða ákvörðun feli ekki í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun og sú staðreynd, að fram komi í fundargerð bæjarráðs að ráðið samþykki umfjöllun og tillögu skipulagsnefndar, hafi enga þýðingu að lögum þar sem umfjöllun skipulagsnefndar skuli vísa til byggingarnefndar til afgreiðslu.  Þar sem málið hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu byggingarnefndar beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.  Ranglega hafi verið vísað til ákvæða 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 við kynningu umsóknar en rétt sé að um hafi verið að ræða málsmeðferð skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga, þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið og hafi öll meðferð málsins borið þess merki.

Varakrafa bæjarins sé á því byggð að umfjöllun skipulagsnefndar við grenndarkynningu hafi verið réttmæt og í samræmi við 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sem og ákvæði stjórnsýslulaga.  Mótmælt sé að rétti kæranda hafi verið hallað með vísan til jafnræðisreglu.  Vísað sé til þess að ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 eigi ekki við líkt og í fyrri ákvörðun nefndarinnar. 

Bílageymsla kæranda sé mjög stór og ekki hafi verið unnt að fallast á umsótta breytingu þar sem ekki yrði séð hvaða rök, sjónarmið, þörf eða nauðsyn lægju að baki stækkuninni sem réttlæta ættu og kæmu til móts við þau neikvæðu grenndaráhrif sem hún hefði.

Andmæli kæranda við málsrökum Kópavogsbæjar:  Kærandi tekur m.a. fram að í bréfi, dags. 12. apríl 2007, þar sem honum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar, hafi verið vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Svo hafi einnig verið í bréfi skipulagsstjóra Kópavogs til kæranda, dags. 3. maí s.á., vegna sama máls. 

Síðan sé gerð krafa um frávísun málsins og velti kærandi fyrir sér hvort embættismenn Kópavogsbæjar séu að hæðast að honum og hafa hann að fífli.  Bendi kærandi á að það hafi varla verið ætlan löggjafans að umsækjandi um byggingarleyfi verði að stofna til kostnaðar við hönnun byggingar, sem hafnað hafi verið af skipulagsnefnd, til þess eins að fá málið tekið fyrir af úrskurðarnefnd.  Tæplega geti byggingarnefnd samþykkt teikningu sem hafnað hafi verið af skipulagsnefnd. 

Umsókn hafi verið hafnað á grundvelli innsendra athugasemda en ekki tilgreint til hvaða athugasemda væri vísað.  Þá bendi kærandi á að engin tilraun hafi verið gerð til að kalla eftir „rökum, sjónarmiðum, þörf eða nauðsyn“ fyrir stækkun bílageymslunnar.  Bílageymslur á öðrum lóðum á svæðinu séu upp við lóðarmörk og hér sé um jafnræðissjónarmið að ræða.  Jafnframt sé því andmælt að stækkun bílageymslunnar muni hafa neikvæð grenndaráhrif gagnvart lóðinni að Álfhólsvegi 61.

Niðurstaða:  Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi.  Ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókn kæranda.  Gildir einu þótt það hafi verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn, enda bar nefndinni þá að kynningu lokinni að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin var. 

Fundargerð skipulagsnefndar frá 3. apríl 2007 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 4. apríl 2007 en engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindinu eða samþykkja það.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs.  Var þannig ekki bundinn endi á málið með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar.

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um leyfi til stækkunar bílskúrs að Löngubrekku 5 ekki hlotið lögboðna meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________   
 Hjalti Steinþórsson     

 

____________________________               ___________________________    
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Ásgeir Magnússon

97/2006 Langabrekka

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2006, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 20. júní 2006 um að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóð nr. 5 við Löngubrekku.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. ágúst 2006, er barst nefndinni 17. sama mánaðar, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 20. júní 2006 að synja um leyfi til stækkunar bílskúrs á lóð nr. 5 við Löngubrekku í Kópavogi.

Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði ógilt og að úrskurðað verði að leyfið skuli veitt á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Málavextir:  Á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 7. mars 2006 var lagt fram erindi kæranda um leyfi til að stækka bílskúr á lóð hans.  Var afgreiðslu málsins frestað og óskað eftir umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs bæjarins.

Hinn 4. apríl 2006 var erindið tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd og samþykkt að kynna málið fyrir lóðarhöfum að Löngubrekku 3 og 7 og Álfhólsvegi 59, 61 og 63. Athugasemdir bárust frá lóðarhöfum Álfhólsvegar 61 og á fundi skipulagsnefndar hinn 20. júní 2006 var umsókninni hafnað á grundvelli umsagnar bæjarskipulags sem taldi ljóst að þinglýst samþykki nágranna fyrir byggingu bílskúrs að lóðamörkum myndi ekki fást.  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 22. júní s.á.

Hefur kærandi skotið ákvörðun skipulagsnefndar frá 20. júní 2006 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Í kæru er vikið að ástæðum þess hversu seint kæra er fram komin og m.a. bent á að í engu sé getið um kærufrest í bréfi skipulagsstjóra þar sem fyrrgreind ákvörðun skipulagsnefndar hafi verið tilkynnt kæranda.

Kærandi bendi á að á umræddu svæði sé ekki í gildi deiliskipulag og því verði að líta til „ríkjandi skipulags“ svæðisins við ákvörðun um veitingu byggingarleyfa en bílskúrar við Löngubrekku og Álfhólsveg séu í nær öllum tilvikum upp við lóðamörk.  Sé þess krafist að jafnræðis sé gætt við úthlutun byggingarleyfa og bent á að veitt hafi verið leyfi til byggingar bílskúrs á Álfhólsvegi 61 við lóðarmörk.  Þá sé bent á að í gr. 75.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segi að ákveða megi í skipulagi að fjarlægð húss frá lóðarmörkum geti verið minni en tilskilin sé í gr. 75.1 í reglugerðinni.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella hafnað.  Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um samþykkt þá sem hann kæri.  Kæranda hafi verið tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 28. júní 2006, en kæra hafi ekki borist fyrr en tveimur mánuðum síðar og kærufrestur því liðinn.

Kópavogsbær byggi varakröfu sína aðallega á því að ákvörðun skipulagsnefndar hafi verið lögmæt og réttmæt.  Ljóst sé að bílageymsla sú sem óskað hafi verið eftir að stækka sé mjög stór.  Tillögunni hafi verið hafnað á grundvelli innsendra athugasemda og einnig með vísan til þess að nefndin hafi talið stærð núverandi bílageymslu hæfilega miðað við aðstæður.  Ekki hafi verið unnt að fallast á breytinguna þar sem ekki yrði séð hvaða rök, sjónarmið, þörf eða nauðsyn lægju að baki stækkuninni sem réttlæta ættu hana og kæmu til móts við þau neikvæðu grenndaráhrif sem hún hefði.

Niðurstaða: Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja um leyfi fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni að Löngubrekku 5 í Kópavogi.  Ekki er í gildi deiliskipulag að svæðinu. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókn kæranda.  Gildir einu þótt það hafi verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn, enda bar nefndinni þá, að kynningu lokinni, að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með efnislegri afgreiðslu svo sem raunin varð.

Fundargerð skipulagsnefndar frá 20. júní 2006 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 22. júní 2006 en engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindinu eða samþykkja það.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs.  Var þannig ekki bundinn endi á málið með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar.   

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um leyfi til stækkunar bílskúrs að Löngubrekku 5 ekki hlotið lögboðna meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

  ___________________________    
 Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

 

66/2006 Álfhólsvegur

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 11. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2006, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. nóvember 2006 um að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. desember 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir K, íbúðareigandi að Löngubrekku 5, þá afgreiðslu byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. nóvember 2006 að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum.

Kærandi krefst þess jafnframt að byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr verði úrskurðað ólöglegt og að þar af leiðandi beri að fjarlægja hann.

Málavextir:  Á lóðinni að Álfhólsvegi 61 í Kópavogi stendur einbýlishús og bílskúr og liggur lóð kæranda að þeirri lóð.

Hinn 20. júní 2006 var erindi kæranda, um stækkun bílskúrs á lóð hans, hafnað með þeim rökum að ljóst teldist að þinglýst samþykki lóðarhafa að Álfhólsvegi 61 um byggingu bílskúrs að lóðamörkum fengist ekki.  Í kjölfarið gerðist það að kærandi óskaði skýringa á því í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 3. júlí 2006, hvers vegna veitt hefði verið leyfi fyrir byggingu bílskúrs að Álfhólsvegi 61 árið 1998, um 30 cm frá mörkum lóðar kæranda, án þinglýsts samþykkis hans og án undangenginnar grenndarkynningar.  Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína í tölvupósti, dags. 8. ágúst s.á.

Í svarbréfi Kópavogsbæjar, dags. 24. október 2006, var beiðni kæranda um rökstuðning hafnað þar sem frestur til að óska eftir rökstuðningi ákvörðunar væri liðinn samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvæðið kvæði á um að beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skyldi bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðun.  Andmælti kærandi því með bréfi, dags. 15. nóvember s.á., að honum hefði verið tilkynnt um ákvörðunina.  Með bréfinu krafðist kærandi þess jafnframt að umþrætt bílskúrsbygging yrði fjarlægð eða færð minnst þrjá metra frá lóðamörkum og lækkuð til samræmis við aðrar næstu bílskúrsbyggingar við Álfhólsveg.

Í svari embættis byggingarfulltrúa, dags. 28. nóvember 2006, var vísað til yfirlýsingar sem undirrituð hefði verið af hálfu kæranda hinn 24. júní 1998.  Þar hafi komið fram að kæranda hefðu verið kynntar teikningar að umræddum bílskúr og að engar athugasemdir hefðu verið gerðar.  Þá sagði svo:  „Í ljósi þess að ekki hefur verið sýnt fram á að ákvörðun um útgáfu framangreinds byggingarleyfis hafi verið haldin annmörkum er kröfu yðar um niðurrif hafnað.“  Jafnframt var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.

Hefur kærandi skotið fyrrgreindri synjun, dags. 28. nóvember 2006, til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að þegar byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir byggingu umrædds bílskúrs hafi hvorki skipulags- né byggingarnefnd fjallað um umsókn og engin grenndarkynning farið fram líkt og kveðið sé á um í gr. 12.5 byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá hafi kæranda verið synjað um byggingarleyfi á grundvelli þess að skort hafi þinglýst samþykki lóðarhafa nágrannalóðar en ekki hafi þurft samskonar þinglýst samþykki við útgáfu hins kærða byggingarleyfis og því hafi jafnræðis ekki verið gætt.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær krefst þess aðallega að kröfum kæranda verði vísað frá.  Kærufrestur sé samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út í ágúst 1998 og kæra því allt of seint fram komin.

Til vara sé þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað þar sem ákvörðun sveitarstjórnar um veitingu byggingarleyfis hafi verið lögmæt.  Jafnframt sé bent á að í gögnum málsins liggi fyrir undirskrift kæranda við grenndarkynningu þar sem hann samþykki að bílskúrinn verði reistur.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð sú niðurstaða byggingarfulltrúa frá 28. nóvember 2006 að ekki hafi verið sýnt fram á að útgáfa byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóðinni að Álfhólsvegi 61 hafi verið haldin annmörkum og þar af leiði að synja beri kröfu kæranda um að bílskúrinn verði fjarlægður eða færður frá lóðamörkum og lækkaður. 

Þá krefst kærandi þess jafnframt fyrir úrskurðarnefndinni að byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr verði úrskurðað ólöglegt og að þar af leiðandi beri að fjarlægja hann.

Hin kærða afstaða byggingarfulltrúa frá 28. nóvember 2006 kemur fram í bréfi til kæranda og er svar við erindi sem skilja verður svo að krafist hafi verið íhlutunar byggingaryfirvalda og beitingar þvingunarúrræða.  Hefði afgreiðsla slíks erindis þurft að koma til kasta bæjarstjórnar og verður svar byggingarfulltrúa ekki talið fela í sér ákvörðun sem bindi enda á meðferð máls.  Sætir hin umdeilda afgreiðsla byggingarfulltrúa því ekki kæru, skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður þessum lið kærunnar því vísað frá.

Byggingarleyfi vegna bílskúrs að Álfhólsvegi 61 mun hafa verið gefið út á árinu 1998.  Var kærufrestur vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda um byggingarleyfið því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 27. desember 2007, en fresturinn er einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Voru því  ekki lengur skilyrði til þess að bera lögmæti leyfisins undir úrskurðarnefndina, er kæra í máli þessu barst nefndinni hinn 27. desember 2006, enda verður ekki fallist á að síðbúið erindi kæranda til bæjaryfirvalda geti markað upphaf nýs kærufrests varðandi leyfisveitinguna.  Ber því einnig skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa þessum þætti kærumálsins frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til þess er að framan greinir er málinu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________         
 Hjalti Steinþórsson        

 

____________________________        ____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson               

 

 

 

 

 

165/2007 Ennishvarf

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 165/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. febrúar 2007 um að veita leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2007, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. J og R, Ennishvarfi 13, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. febrúar 2007 að veita leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 7. mars 2007 og staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar. 

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda heldur kveðinn upp endanlegur úrskurður í málinu. 

Málavextir:  Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Vatnsendahverfis, Norðursvæði, er öðlaðist gildi hinn 12. september 2002.  Af málsgögnum verður ráðið að kærendur hafi fengið fjórar grenndarkynningar til umfjöllunar vegna tillagna að breyttu skipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Ennishvarf, síðast í október 2006.  Í þeirri útfærslu, sem þá var kynnt, fólst að hesthús var staðsett út fyrir byggingarreit og svölum breytt.  Gerðu kærendur athugasemdir vegna þessa.  Var tillagan samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 23. janúar 2007.  Deiliskipulagsbreyting varðandi umrædda lóð mun þó ekki enn hafa öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. 

Hinn 21. febrúar 2007 veitti byggingarfulltrúinn leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf.  Var ákvörðun byggingarfulltrúa lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 7. mars 2007 og staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar. 

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir eigi aðliggjandi lóð við Ennishvarf 6.  Þeir hafi tekið eftir því hinn 1. desember 2007 að framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf væru ekki samræmi við skipulag það er þeim hefði verið kynnt.  Hafi þeir talið að í gildi væri skipulag er gerði ráð fyrir að farið yrði 2,5 m út fyrir byggingarreit til norðurs.  Eftir að byggingarleyfi hafi verið veitt hafi verið hafist handa við að fjarlægja mikið magn af uppfyllingarefni og sökkla sem áður hefði verið veitt leyfi fyrir á lóðinni.  Byggingarframkvæmdir hafi hafist sumarið 2007 og í nóvember það ár hafi útveggir hússins risið.  Hinn 1. desember 2007 hafi kærendur ákveðið að mæla útveggi bílskúrsins að Ennishvarfi 6, enda hafi þeir talið að útsýni þeirra yfir Elliðavatn ætti ekki að skerðast svo mikið miðað við það skipulag sem þeir hafi talið í gildi.  Í ljós hafi komið að bílskúr fari út fyrir byggingarreit til norðurs um 4,5 m miðað við gildandi deiliskipulag. 

Ljóst sé að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins en hinar ólögmætu framkvæmdir skerði m.a. útsýni þeirra. Þá sé kæra þeirra lögð fram innan þeirra tímafresta sem skipulags- og byggingarlög mæli fyrir um.  Kærendum hafi ekki verið um það  kunnugt fyrr en hinn 1. desember 2007 að hinar umdeildu framkvæmdir væru í andstöðu við gildandi skipulag. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hið kærða byggingarleyfi. 

Þá sé því einnig haldið fram að frestur til að skila inn kæru til nefndarinnar hafi verið útrunninn er kæran hafi borist.  Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Kæra í máli þessu hafi borist níu mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.  Samkvæmt byggingarsögu mannvirkisins séu framkvæmdir fyrir löngu hafnar.  Kærendum hafi því mátt vera kunnugt um að byggingarleyfi hafi verið veitt en þeir hafi látið undir höfuð leggjast að krefjast stöðvunar framkvæmda eða ógildingar leyfisins fyrr en að loknum kærufresti. 

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá.  Í ljósi þess sem að framan sé rakið beri að vísa kröfu um stöðvun framkvæmda sem og um ógildingu byggingarleyfis frá úrskurðarnefndinni. 

Andsvör kærenda vegna málsraka Kópavogsbæjar:  Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu Kópavogsbæjar.  Mótmæla þeir fullyrðingu bæjaryfirvalda þess efnis að þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta.  Farið sé með byggingarlínu bílskúrs 4,5 m út fyrir byggingarreit miðað við gildandi deiliskipulag.  Umræddur bílskúr minnki bil sem sé á milli Ennishvarfs 6 og 8, einmitt þar sem helsta útsýni sé frá borðstofu og eldhúsi kærenda, eða útsýni yfir Elliðavatn, sem augljóslega sé mjög verðmætt. 

Þá sé ítrekað að breytingar á deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2002 hafi aldrei verið kláraðar og enn síður hafi nokkurn tíma verið veitt leyfi fyrir því að fara með bílskúrinn 4,5 m út fyrir byggingarreit, hvorki hjá Kópavogsbæ né annars staðar. 

Í byrjun desember 2007 hafi uppsláttur fyrir útveggjum bílskúrsins hafist, og þá fyrst hafi kærendum fundist útsýni þeirra skerðast mun meira en þeir hafi reiknað með.  Hafi þeir því farið út og mælt og hafi þá hið rétta komið í ljós eða að farið væri 4,5 m út fyrir byggingarreit hússins. 

Byggingarleyfishafa gafst kostur á að tjá sig um kröfu kærenda en hann hefur ekki gert það. 

Málsaðilar hafa fært fram ítarleg rök fyrir kröfum sínum en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að kærendur eigi ekki aðild að kærumáli þessu þar sem hið kærða byggingarleyfi skerði í engu hagsmuni þeirra.  Á þetta verður ekki fallist.  Kærendur eru búsettir að Ennishvarfi 13 og er hús þeirra gegnt lóðinni að Ennishvarfi 6.  Verður því að játa kærendum aðild að kærumáli þessu enda höfðu þeim verið grenndarkynntar tillögur skipulagsyfirvalda að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Ennishvarfi 6. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar. 

Eins og áður greinir eru kærendur máls þessa búsettir alveg í næsta nágrenni við lóðina að Ennishvarfi 6.  Af gögnum þeim er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina má glöggt ráða að í apríl og maí 2007 hafi sökkull og botnplata hússins að Ennishvarfi 6 verið steypt.  Á tímabilinu júní til september sama ár hafi veggir neðri hæðar og plata fyrstu hæðar verið steypt og veggir annarrar hæðar hafi verið steyptir upp í október og nóvember 2007.  Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum hafi, a.m.k. frá því uppsteypu neðri hæðar hússins að Ennishvarfi 6 var lokið í september 2007, mátt vera kunnugt um staðsetningu þess og afstöðu til þess kærenda og að þeim hafi þá borið að kynna sér byggingarleyfið og staðreyna hvort það væri í samræmi við deiliskipulag og skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma.  Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 18. desember 2007 er húsið var að mestu risið og var kærufrestur þá liðinn. 

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. greinar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

123/2007 Aspargrund

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2007, kæra á samþykkt bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9-11, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Stefán BJ Gunnlaugsson hrl., f.h. S, Aspargrund 1, S og G, Aspargrund 3, Á og G, Aspargrund 5 og F og O, Aspargrund 7, samþykkt bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9-11, Kópavogi.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 22. október 1996 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs deiliskipulag við Birkigrund í Kópavogi.  Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 3. maí 2006 var tekið fyrir erindi um að reisa bílskúr og byggja við húsið að Aspargrund 9.  Var erindinu vísað til skipulagsnefndar sem samþykkti á fundi sínum hinn 16. maí 2006 að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2006.

Hinn 5. september 2006 var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar og tillagan samþykkt með þeirri breytingu að bílskúr yrði færður þrjá metra frá lóðarmörkum Aspargrundar 7.  Á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 7. september 2006 var ákvörðun skipulagsnefndar samþykkt.

Eftir framangreinda samþykkt bárust athugasemdir frá íbúum nærliggjandi húsa um að bílastæði við götu væru ekki lengur fyrir hendi og í bréfi bæjarskipulags til lóðarhafa að Aspargrund 9a, dags. 20. september 2006, sagði m.a:  „Í ljósi þess að fyrirhugaður bílskúr er staðsettur innan við almenn bílastæði í götunni (sbr. gildandi deiliskipulag) hefur erindið verið tekið að nýju til athugunar hjá bæjarskipulagi.  Skoðað verður með hvaða hætti sé unnt að leysa málið, þannig að umræddur bílskúr og aðkoma að honum takmarki ekki nýtingu almennra bílastæða í götunni.  Þess hefur verið farið á leit við byggingarfulltrúa að ákvörðun um byggingarleyfi verði frestað þar til áðurnefndri athugun er lokið…“

Í kjölfar þessa var málið skoðað að nýju í samráði við lóðarhafa að Aspargrund 9-11 og á fundi bæjarráðs hinn 30. nóvember 2006 var óskað eftir því að unnin yrði tillaga að breyttri staðsetningu gestabílastæða.  Vísaði bæjarráð erindinu til bæjarlögmanns og skipulagsstjóra til umsagnar og mælti skipulagsstjóri með því í umsögn, dags. 18. janúar 2007, að lóðarhafi ynni að deiliskipulagstillögu er byggði á fyrri tillögu, þó þannig að bílastæði á bæjarlandi yrðu flutt til samkvæmt fyrirsögn skipulagsnefndar.

Hinn 6. febrúar 2007 var tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar að Aspargrund 9-11 tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar.  Gerði hún ráð fyrir að byggð yrði 124 fermetra viðbygging við hús það er á lóðinni stendur ásamt 22 fermetra svölum á suðurhlið og um 9 fermetra svalir á austurhlið. Auk þess var gert ráð fyrir 50 fermetra bílskúr og að bílastæði á bæjarlandi yrðu færð til.

Umrædd tillaga var grenndarkynnt og að kynningartíma loknum var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 3. apríl 2007 og afgreiðslu þess frestað en bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn varðandi innsendar athugasemdir.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. maí 2007 var erindið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.  Á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2007 var framlagt erindi samþykkt með vísan til umsagnar bæjarskipulags. 

Auglýsing um gildistöku breytingar deiliskipulags Aspargrundar 9 og 11 var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. september 2007 og hljóðaði svo:  „…Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, hefur bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkt þann 7. september 2007 tillögu að breyttu deiliskipulagi við Aspargrund 9 og 11….“  Skutu kærendur deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að deiliskipulagið brjóti gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, bæði hvað varði málsmeðferð og efni.

Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hafi bæjarráð samþykkt tillögu að breyttu deiliskipulagi þann 7. september 2007.  Þann dag hafi enginn fundur verið haldinn í bæjarráði og með vísan til þess sé ljóst að auglýsingu sé áfátt og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hið breytta deiliskipulag úr gildi. 

Hið breytta deiliskipulag feli ekki aðeins í sér breytingar á skipulagi lóðar nr. 9-11 við Aspargrund heldur öllu deiliskipulagi Aspargrundar.  Bílastæðum sé breytt, þau hreyfð til og fækkað miðað við gildandi deiliskipulag frá 1996.  Deiliskipulagið sé því ekki unnið á lögmætan hátt.  Tillögur að breyttu deiliskipulagi, sem kynntar hafi verið kærendum, hafi verið ranglega settar fram og hafi ekki náð yfir allt svæðið sem ætlunin hafi verið að breyta.  Athugasemdir hafi verið gerðar við framlagða tillögu en engar teknar til greina en síðan hafi skipulagsyfirvöld breytt sjálfri tillögunni og samþykkt sem núverandi skipulag.  Hafi kærendur ekki fengið að koma að athugasemdum við endanlega útgáfu deiliskipulagsins eins og það hafi verið samþykkt.  Því hafi þeir óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun skipulagsnefndar en ekkert svar hafi borist.

Kærendur telji að það að taka sameiginleg bílastæði af öðrum íbúum til hagsbóta fyrir þann sem óski breytinga sé hvorki í anda skipulagslaga né skipulagsreglugerðar.  Breytingar á skipulagi í grónum hverfum skuli gera með sem minnstum óþægindum fyrir þá sem þar séu fyrir en lóðin að Aspargrund 9-11 sé stærsta lóðin við Aspargrund og auðvelt væri að koma þar fyrir innkeyrslu og fjölga bílastæðum þannig að allir væru sáttir.  Jafnframt vísi kærendur til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 727/1992.

Þá hafi breytingar á fasteign ekki verið kynntar kærendum nægjanlega.  Ekki hafi verið gerð grein fyrir hæð breytinganna og á kynningargögnum hafi hvorki hæðarkótar, fjarlægð frá lóðarmörkum né magntölur verið sýndar, hvorki af bílskúr né húsi.

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi. Hún hafi engu að síður verið samþykkt en kærendum hafi ekki verið tilkynnt um þær.

Að lokum sé bent á að í erindi Kópavogsbæjar til Skipulagsstofnunar sé ekki gert ráð fyrir þeim skilyrðum sem sett séu í 2. mgr. 26. gr. i.f. laga nr. 73/1997 svo sem mikilvægt sé.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. 

Málsmeðferð við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi verið byggð á 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ákvörðunin hafi verið ítarlega grenndarkynnt þeim sem taldir voru eiga hagsmuna að gæta og hafi borist athugasemdir frá lóðarhöfum að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 og Birkigrund 3.  Að lokinni grenndarkynningu hafi skipulagsnefnd yfirfarið málið að nýju með tilliti til framkominna athugasemda og hafi einkum kannað grenndaráhrif með tilliti til rasks, útlitsbreytinga, nýtingarmöguleika, skuggavarps og annarra þátta.  Við skoðun hafi komið í ljós að í upphaflegu skipulagi lóðarinnar að Aspargrund 9-11 hafi ekki verið gert ráð fyrir bílastæðum innan lóðar en svo hafi verið um aðrar lóðir í götunni.

Ákvörðun skipulagsnefndar hafi m.a. verið byggð á þeim grundvelli að fyrirhuguð breyting myndi fela í sér verulega aukna nýtingarmöguleika lóðarhafa á lóð, í samræmi við nýtingu innan annarra lóða í götunni.  Vegi hér þungt að ekki hafi verið gert ráð fyrir bílastæðum innan lóðarinnar í eldra skipulagi og hafi verið litið svo á að um leiðréttingu væri að ræða.

Ákveðið hafi verið að færa bílskúr frá lóðarmörkum um þrjá metra vegna framkominna athugasemda en önnur grenndaráhrif talin óveruleg, ef nokkur.

Andmæli lóðarhafa Aspargrundar 9-11:  Lóðarhafar benda á að þeir séu með fjórar bifreiðar á heimilinu og noti þrjú bílastæði af fjórum fyrir framan lóð sína.  Verði nýja skipulagið samþykkt muni losna um eitt bílastæði í viðbót og þá hafi þeir tvö stæði til að aka upp að bílskúr sínum og séu þá tvö gestastæði eftir og eitt stæði neðst í götu.  Þá hafi einn lóðarhafi við götuna nýtt sér endastæði á milli lóða nr. 7 og 9 við Aspargrund til lengri tíma og noti jafnframt stæði efst í götunni sem gæti allt eins verið gestastæði. 

Lóðarleyfishafar hafi verið upplýstir um það við kaup á fasteign sinni að bílastæði fyrir framan lóð tilheyrði húsi nr. 9 og 11 við Aspargrund og hafi þau verið merkt sem bílastæði en ekki gestastæði.  Réttilega hafi verið staðið að grenndarkynningum og nágrannar hafi ekki gert athugasemd við stækkun hússins sem liggi mun lægra á lóð en húsin nr. 3, 5, og 7 að Aspargrund.

Niðurstaða:  Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, er birtist hinn 19. september 2007, var hin kærða deiliskipulagsbreyting vegna Aspargrundar 9-11 staðfest í bæjarráði Kópavogs hinn 7. september 2007.  Við eftirgrennslan hefur komið í ljós að þann dag var ekki haldinn fundur í bæjarráði.  Hins vegar liggur fyrir í málinu að bæjarráð Kópavogs staðfesti tillögu skipulagsnefndar bæjarins frá 6. september 2006, um skipulagsbreytingu varðandi greinda lóð, hinn 7. september 2006.  Þá liggur og fyrir að bæjarráð staðfesti hinn 18. maí 2007 nýja deiliskipulagsbreytingu að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt tillögu skipulagsnefndar frá 15. maí 2007.  Víkur síðargreinda breytingin frá hinni fyrri hvað varðar tilhögun bílastæða.

Að framangreindum atvikum virtum þykir vafa undirorpið til hvaða ályktunar bæjarráðs um skipulagsbreytingu varðandi Aspargrund 9-11 fyrrgreind auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda taki.  Verður því að líta svo á að samþykkt um deiliskipulagsbreytingu vegna Aspargrundar 9-11, er mál þetta snýst um, hafi ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en umrædd birting er gildistökuskilyrði samkvæmt gr. 6.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Var því ekki fullnægt því skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kæruheimild að málið væri til lykta leitt og lá því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.   

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
   Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

145/2007 Leyfisgjald

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 145/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar frá 3. október 2007 um að hafna kröfu um niðurfellingu gjalds vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á landspildu úr landi Úteyjar í Bláskógarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2007, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Helgi V. Jónsson hrl., fyrir hönd T, eiganda landspildu úr landi Úteyjar í Bláskógarbyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar frá 3. október 2007 að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu gjalds vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á fyrrgreindri landspildu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 20. apríl 2007, krafði byggingarfulltrúi Bláskógarbyggðar kæranda um greiðslu gjalds að fjárhæð kr. 7.300 vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi er stendur á landspildu kæranda í landi Úteyjar.  Kærandi skaut ákvörðuninni um gjaldtökuna til sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar með bréfi, dags. 7. ágúst 2007, og krafðist ógildingar hennar þar sem gjaldtakan ætti ekki lagastoð.  Að fenginni umsögn byggingarfulltrúa ákvað byggðarráð sveitarfélagsins á fundi hinn 25. september 2007 að halda gjaldtökunni til streitu með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.  Sveitarstjórn staðfesti þá afstöðu á fundi sínum hinn 3. október sama ár.  Hefur kærandi skotið þeirri afgreiðslu sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Byggir kærandi málskot sitt á því að túlkun sveitarfélagsins á 27. og 29. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem umdeild gjaldtaka sé talin styðjast við, eigi ekki stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þá uppfylli gjaldtakan ekki skilyrði 27. gr. byggingarreglugerðar þess efnis að gjöld samkvæmt greininni megi ekki fara fram úr kostnaði sveitafélagsins vegna leyfisveitinga og skuli byggjast á gjaldskrá sem sveitarstjórn setji og birt sé í B-deild Stjórnartíðinda.  Ekki sé í skipulags- og byggingarlögum gert ráð fyrir að leyfi þurfi fyrir staðsetningu hjólhýsa eða gjaldtöku vegna þeirra en í 2. mgr. 37. gr. laganna sé aðeins tekið fram að í byggingarreglugerð skuli setja ákvæði um staðsetningu þeirra.  Gangi gr. 71.1 í byggingarreglugerð um leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa gegn fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 37. gr. og sé gjaldtakan einnig í andstöðu við það ákvæði og eigi ekki stoð í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kröfur sveitarfélagsins um umrædda leyfisskyldu og gjaldtöku brjóti jafnframt gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og 40. gr., 72. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.  Loks sé á það bent að 71. gr. byggingarreglugerðar kveði á um að stöðuleyfi þurfi m.a. fyrir hjólhýsi ef það standi til notkunar á sama stað lengur en einn mánuð.  Hjólhýsi kæranda standi á landi hans til geymslu en ekki til notkunar.  Önnur sveitarfélög láti það óáreitt að eigendur hjólhýsa geymi þau á lóðum sínum án þess að leyfi og gjaldtaka komi til.

Í gögnum málsins kemur fram að Bláskógarbyggð styður leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa við 71. gr. byggingarreglugerðar þar sem segi að óheimilt sé að láta hjólhýsi standa til notkunar á sama stað, utan tjaldstæða og skipulagðra hjólhýsasvæða, lengur en einn mánuð án stöðuleyfis byggingarnefndar.  Gjaldtaka vegna stöðuleyfis eigi stoð í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga  og 27. gr. byggingarreglugerðar.  Gjaldið sé kr. 7.300 sem fullyrða megi að sé undir raunkostnaði sveitarfélags við leyfisveitingu og eftirlit.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði sveitarstjórn Bláskógarbyggðar kröfu kæranda um niðurfellingu gjalds að fjárhæð kr. 7.300 sem innheimt var með bréfi byggingarfulltrúa, dags 20. apríl 2007, vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi kæranda.  Snýst ágreiningur í máli þessu um hvort gjaldtakan eigi sér viðhlítandi lagastoð og þá hvort efnisskilyrði séu fyrir gjaldtökunni.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. 8. gr. laganna er tekið fram að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum.

Gjaldtaka fyrir þjónustu opinberra stofnana, svo sem vegna leyfisveitinga, byggir á almennum stjórnvaldsfyrirmælum sem eftir atvikum eru sett fram í samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám.  Einstakar stjórnvaldsákvarðanir á sviði skipulags- og byggingarmála fela því ekki í sér efnislega ákvörðun um gjaldtöku heldur styðst hún í hverju tilfelli við almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem sett kunna að vera með heimild í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga,  sbr. 27. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Fyrrgreind ákvæði 8. gr. skipulags- og byggingarlaga verða ekki túlkuð á annan veg en að einungis stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum falli undir úrskurðarvald nefndarinnar nema að sérstök fyrirmæli séu um annað í lögum.  Er sú túlkun í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um kæruheimild stjórnvaldsákvarðana til æðra stjórnvalds en samkvæmt 1. gr. laganna taka þau ekki til almennra stjórnvaldsfyrirmæla nema sérstaklega sé mælt fyrir um það í lögum.

Að öllu þessu virtu telur úrskurðarnefndin ágreiningsefni máls þessa falla utan úrskurðarvalds nefndarinnar og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, enda eru ekki fyrir hendi lagafyrirmæli um að ágreiningur um lögmæti leyfisgjalds vegna stöðuleyfis heyri undir nefndina.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson