Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

123/2007 Aspargrund

Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2007, kæra á samþykkt bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9-11, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. september 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Stefán BJ Gunnlaugsson hrl., f.h. S, Aspargrund 1, S og G, Aspargrund 3, Á og G, Aspargrund 5 og F og O, Aspargrund 7, samþykkt bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 7. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Aspargrund 9-11, Kópavogi.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 22. október 1996 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs deiliskipulag við Birkigrund í Kópavogi.  Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 3. maí 2006 var tekið fyrir erindi um að reisa bílskúr og byggja við húsið að Aspargrund 9.  Var erindinu vísað til skipulagsnefndar sem samþykkti á fundi sínum hinn 16. maí 2006 að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Fundargerð skipulagsnefndar var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2006.

Hinn 5. september 2006 var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar og tillagan samþykkt með þeirri breytingu að bílskúr yrði færður þrjá metra frá lóðarmörkum Aspargrundar 7.  Á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 7. september 2006 var ákvörðun skipulagsnefndar samþykkt.

Eftir framangreinda samþykkt bárust athugasemdir frá íbúum nærliggjandi húsa um að bílastæði við götu væru ekki lengur fyrir hendi og í bréfi bæjarskipulags til lóðarhafa að Aspargrund 9a, dags. 20. september 2006, sagði m.a:  „Í ljósi þess að fyrirhugaður bílskúr er staðsettur innan við almenn bílastæði í götunni (sbr. gildandi deiliskipulag) hefur erindið verið tekið að nýju til athugunar hjá bæjarskipulagi.  Skoðað verður með hvaða hætti sé unnt að leysa málið, þannig að umræddur bílskúr og aðkoma að honum takmarki ekki nýtingu almennra bílastæða í götunni.  Þess hefur verið farið á leit við byggingarfulltrúa að ákvörðun um byggingarleyfi verði frestað þar til áðurnefndri athugun er lokið…“

Í kjölfar þessa var málið skoðað að nýju í samráði við lóðarhafa að Aspargrund 9-11 og á fundi bæjarráðs hinn 30. nóvember 2006 var óskað eftir því að unnin yrði tillaga að breyttri staðsetningu gestabílastæða.  Vísaði bæjarráð erindinu til bæjarlögmanns og skipulagsstjóra til umsagnar og mælti skipulagsstjóri með því í umsögn, dags. 18. janúar 2007, að lóðarhafi ynni að deiliskipulagstillögu er byggði á fyrri tillögu, þó þannig að bílastæði á bæjarlandi yrðu flutt til samkvæmt fyrirsögn skipulagsnefndar.

Hinn 6. febrúar 2007 var tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar að Aspargrund 9-11 tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar.  Gerði hún ráð fyrir að byggð yrði 124 fermetra viðbygging við hús það er á lóðinni stendur ásamt 22 fermetra svölum á suðurhlið og um 9 fermetra svalir á austurhlið. Auk þess var gert ráð fyrir 50 fermetra bílskúr og að bílastæði á bæjarlandi yrðu færð til.

Umrædd tillaga var grenndarkynnt og að kynningartíma loknum var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 3. apríl 2007 og afgreiðslu þess frestað en bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn varðandi innsendar athugasemdir.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. maí 2007 var erindið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.  Á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2007 var framlagt erindi samþykkt með vísan til umsagnar bæjarskipulags. 

Auglýsing um gildistöku breytingar deiliskipulags Aspargrundar 9 og 11 var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. september 2007 og hljóðaði svo:  „…Í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, með síðari breytingum, hefur bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkt þann 7. september 2007 tillögu að breyttu deiliskipulagi við Aspargrund 9 og 11….“  Skutu kærendur deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að deiliskipulagið brjóti gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, bæði hvað varði málsmeðferð og efni.

Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hafi bæjarráð samþykkt tillögu að breyttu deiliskipulagi þann 7. september 2007.  Þann dag hafi enginn fundur verið haldinn í bæjarráði og með vísan til þess sé ljóst að auglýsingu sé áfátt og þegar af þeirri ástæðu beri að fella hið breytta deiliskipulag úr gildi. 

Hið breytta deiliskipulag feli ekki aðeins í sér breytingar á skipulagi lóðar nr. 9-11 við Aspargrund heldur öllu deiliskipulagi Aspargrundar.  Bílastæðum sé breytt, þau hreyfð til og fækkað miðað við gildandi deiliskipulag frá 1996.  Deiliskipulagið sé því ekki unnið á lögmætan hátt.  Tillögur að breyttu deiliskipulagi, sem kynntar hafi verið kærendum, hafi verið ranglega settar fram og hafi ekki náð yfir allt svæðið sem ætlunin hafi verið að breyta.  Athugasemdir hafi verið gerðar við framlagða tillögu en engar teknar til greina en síðan hafi skipulagsyfirvöld breytt sjálfri tillögunni og samþykkt sem núverandi skipulag.  Hafi kærendur ekki fengið að koma að athugasemdum við endanlega útgáfu deiliskipulagsins eins og það hafi verið samþykkt.  Því hafi þeir óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun skipulagsnefndar en ekkert svar hafi borist.

Kærendur telji að það að taka sameiginleg bílastæði af öðrum íbúum til hagsbóta fyrir þann sem óski breytinga sé hvorki í anda skipulagslaga né skipulagsreglugerðar.  Breytingar á skipulagi í grónum hverfum skuli gera með sem minnstum óþægindum fyrir þá sem þar séu fyrir en lóðin að Aspargrund 9-11 sé stærsta lóðin við Aspargrund og auðvelt væri að koma þar fyrir innkeyrslu og fjölga bílastæðum þannig að allir væru sáttir.  Jafnframt vísi kærendur til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 727/1992.

Þá hafi breytingar á fasteign ekki verið kynntar kærendum nægjanlega.  Ekki hafi verið gerð grein fyrir hæð breytinganna og á kynningargögnum hafi hvorki hæðarkótar, fjarlægð frá lóðarmörkum né magntölur verið sýndar, hvorki af bílskúr né húsi.

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við breytingu á deiliskipulagi. Hún hafi engu að síður verið samþykkt en kærendum hafi ekki verið tilkynnt um þær.

Að lokum sé bent á að í erindi Kópavogsbæjar til Skipulagsstofnunar sé ekki gert ráð fyrir þeim skilyrðum sem sett séu í 2. mgr. 26. gr. i.f. laga nr. 73/1997 svo sem mikilvægt sé.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. 

Málsmeðferð við afgreiðslu deiliskipulagsins hafi verið byggð á 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ákvörðunin hafi verið ítarlega grenndarkynnt þeim sem taldir voru eiga hagsmuna að gæta og hafi borist athugasemdir frá lóðarhöfum að Aspargrund 1, 3, 5 og 7 og Birkigrund 3.  Að lokinni grenndarkynningu hafi skipulagsnefnd yfirfarið málið að nýju með tilliti til framkominna athugasemda og hafi einkum kannað grenndaráhrif með tilliti til rasks, útlitsbreytinga, nýtingarmöguleika, skuggavarps og annarra þátta.  Við skoðun hafi komið í ljós að í upphaflegu skipulagi lóðarinnar að Aspargrund 9-11 hafi ekki verið gert ráð fyrir bílastæðum innan lóðar en svo hafi verið um aðrar lóðir í götunni.

Ákvörðun skipulagsnefndar hafi m.a. verið byggð á þeim grundvelli að fyrirhuguð breyting myndi fela í sér verulega aukna nýtingarmöguleika lóðarhafa á lóð, í samræmi við nýtingu innan annarra lóða í götunni.  Vegi hér þungt að ekki hafi verið gert ráð fyrir bílastæðum innan lóðarinnar í eldra skipulagi og hafi verið litið svo á að um leiðréttingu væri að ræða.

Ákveðið hafi verið að færa bílskúr frá lóðarmörkum um þrjá metra vegna framkominna athugasemda en önnur grenndaráhrif talin óveruleg, ef nokkur.

Andmæli lóðarhafa Aspargrundar 9-11:  Lóðarhafar benda á að þeir séu með fjórar bifreiðar á heimilinu og noti þrjú bílastæði af fjórum fyrir framan lóð sína.  Verði nýja skipulagið samþykkt muni losna um eitt bílastæði í viðbót og þá hafi þeir tvö stæði til að aka upp að bílskúr sínum og séu þá tvö gestastæði eftir og eitt stæði neðst í götu.  Þá hafi einn lóðarhafi við götuna nýtt sér endastæði á milli lóða nr. 7 og 9 við Aspargrund til lengri tíma og noti jafnframt stæði efst í götunni sem gæti allt eins verið gestastæði. 

Lóðarleyfishafar hafi verið upplýstir um það við kaup á fasteign sinni að bílastæði fyrir framan lóð tilheyrði húsi nr. 9 og 11 við Aspargrund og hafi þau verið merkt sem bílastæði en ekki gestastæði.  Réttilega hafi verið staðið að grenndarkynningum og nágrannar hafi ekki gert athugasemd við stækkun hússins sem liggi mun lægra á lóð en húsin nr. 3, 5, og 7 að Aspargrund.

Niðurstaða:  Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda, er birtist hinn 19. september 2007, var hin kærða deiliskipulagsbreyting vegna Aspargrundar 9-11 staðfest í bæjarráði Kópavogs hinn 7. september 2007.  Við eftirgrennslan hefur komið í ljós að þann dag var ekki haldinn fundur í bæjarráði.  Hins vegar liggur fyrir í málinu að bæjarráð Kópavogs staðfesti tillögu skipulagsnefndar bæjarins frá 6. september 2006, um skipulagsbreytingu varðandi greinda lóð, hinn 7. september 2006.  Þá liggur og fyrir að bæjarráð staðfesti hinn 18. maí 2007 nýja deiliskipulagsbreytingu að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt tillögu skipulagsnefndar frá 15. maí 2007.  Víkur síðargreinda breytingin frá hinni fyrri hvað varðar tilhögun bílastæða.

Að framangreindum atvikum virtum þykir vafa undirorpið til hvaða ályktunar bæjarráðs um skipulagsbreytingu varðandi Aspargrund 9-11 fyrrgreind auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda taki.  Verður því að líta svo á að samþykkt um deiliskipulagsbreytingu vegna Aspargrundar 9-11, er mál þetta snýst um, hafi ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en umrædd birting er gildistökuskilyrði samkvæmt gr. 6.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Var því ekki fullnægt því skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kæruheimild að málið væri til lykta leitt og lá því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.   

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
   Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson