Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

145/2007 Leyfisgjald

Ár 2008, fimmtudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 145/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar frá 3. október 2007 um að hafna kröfu um niðurfellingu gjalds vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á landspildu úr landi Úteyjar í Bláskógarbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. október 2007, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Helgi V. Jónsson hrl., fyrir hönd T, eiganda landspildu úr landi Úteyjar í Bláskógarbyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar frá 3. október 2007 að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu gjalds vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi á fyrrgreindri landspildu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 20. apríl 2007, krafði byggingarfulltrúi Bláskógarbyggðar kæranda um greiðslu gjalds að fjárhæð kr. 7.300 vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi er stendur á landspildu kæranda í landi Úteyjar.  Kærandi skaut ákvörðuninni um gjaldtökuna til sveitarstjórnar Bláskógarbyggðar með bréfi, dags. 7. ágúst 2007, og krafðist ógildingar hennar þar sem gjaldtakan ætti ekki lagastoð.  Að fenginni umsögn byggingarfulltrúa ákvað byggðarráð sveitarfélagsins á fundi hinn 25. september 2007 að halda gjaldtökunni til streitu með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.  Sveitarstjórn staðfesti þá afstöðu á fundi sínum hinn 3. október sama ár.  Hefur kærandi skotið þeirri afgreiðslu sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Byggir kærandi málskot sitt á því að túlkun sveitarfélagsins á 27. og 29. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem umdeild gjaldtaka sé talin styðjast við, eigi ekki stoð í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þá uppfylli gjaldtakan ekki skilyrði 27. gr. byggingarreglugerðar þess efnis að gjöld samkvæmt greininni megi ekki fara fram úr kostnaði sveitafélagsins vegna leyfisveitinga og skuli byggjast á gjaldskrá sem sveitarstjórn setji og birt sé í B-deild Stjórnartíðinda.  Ekki sé í skipulags- og byggingarlögum gert ráð fyrir að leyfi þurfi fyrir staðsetningu hjólhýsa eða gjaldtöku vegna þeirra en í 2. mgr. 37. gr. laganna sé aðeins tekið fram að í byggingarreglugerð skuli setja ákvæði um staðsetningu þeirra.  Gangi gr. 71.1 í byggingarreglugerð um leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa gegn fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 37. gr. og sé gjaldtakan einnig í andstöðu við það ákvæði og eigi ekki stoð í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kröfur sveitarfélagsins um umrædda leyfisskyldu og gjaldtöku brjóti jafnframt gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga og 40. gr., 72. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.  Loks sé á það bent að 71. gr. byggingarreglugerðar kveði á um að stöðuleyfi þurfi m.a. fyrir hjólhýsi ef það standi til notkunar á sama stað lengur en einn mánuð.  Hjólhýsi kæranda standi á landi hans til geymslu en ekki til notkunar.  Önnur sveitarfélög láti það óáreitt að eigendur hjólhýsa geymi þau á lóðum sínum án þess að leyfi og gjaldtaka komi til.

Í gögnum málsins kemur fram að Bláskógarbyggð styður leyfisskyldu fyrir staðsetningu hjólhýsa við 71. gr. byggingarreglugerðar þar sem segi að óheimilt sé að láta hjólhýsi standa til notkunar á sama stað, utan tjaldstæða og skipulagðra hjólhýsasvæða, lengur en einn mánuð án stöðuleyfis byggingarnefndar.  Gjaldtaka vegna stöðuleyfis eigi stoð í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga  og 27. gr. byggingarreglugerðar.  Gjaldið sé kr. 7.300 sem fullyrða megi að sé undir raunkostnaði sveitarfélags við leyfisveitingu og eftirlit.

Niðurstaða:  Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði sveitarstjórn Bláskógarbyggðar kröfu kæranda um niðurfellingu gjalds að fjárhæð kr. 7.300 sem innheimt var með bréfi byggingarfulltrúa, dags 20. apríl 2007, vegna stöðuleyfis fyrir hjólhýsi kæranda.  Snýst ágreiningur í máli þessu um hvort gjaldtakan eigi sér viðhlítandi lagastoð og þá hvort efnisskilyrði séu fyrir gjaldtökunni.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. 8. gr. laganna er tekið fram að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum.

Gjaldtaka fyrir þjónustu opinberra stofnana, svo sem vegna leyfisveitinga, byggir á almennum stjórnvaldsfyrirmælum sem eftir atvikum eru sett fram í samþykktum, reglugerðum og gjaldskrám.  Einstakar stjórnvaldsákvarðanir á sviði skipulags- og byggingarmála fela því ekki í sér efnislega ákvörðun um gjaldtöku heldur styðst hún í hverju tilfelli við almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem sett kunna að vera með heimild í 53. gr. skipulags- og byggingarlaga,  sbr. 27. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.

Fyrrgreind ákvæði 8. gr. skipulags- og byggingarlaga verða ekki túlkuð á annan veg en að einungis stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum falli undir úrskurðarvald nefndarinnar nema að sérstök fyrirmæli séu um annað í lögum.  Er sú túlkun í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kveður á um kæruheimild stjórnvaldsákvarðana til æðra stjórnvalds en samkvæmt 1. gr. laganna taka þau ekki til almennra stjórnvaldsfyrirmæla nema sérstaklega sé mælt fyrir um það í lögum.

Að öllu þessu virtu telur úrskurðarnefndin ágreiningsefni máls þessa falla utan úrskurðarvalds nefndarinnar og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, enda eru ekki fyrir hendi lagafyrirmæli um að ágreiningur um lögmæti leyfisgjalds vegna stöðuleyfis heyri undir nefndina.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson