Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2008 Helguvík

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2008, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi, dags. 27. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir T, Bleikjukvísl 1, Reykjavík, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Síðar, eða með bréfi, dags. 6. ágúst 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 11. ágúst 2008, kærir E, Skógarbraut 926, Reykjanesbæ, sömu ákvarðanir.  Með bréfi, dags. 11. ágúst 2008, sem póstlagt var sama dag, en barst úrskurðarnefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir G, Garðabraut 78, Garði einnig sömu ákvarðanir.  Með hliðsjón af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standi því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verða síðari tvö kærumálin, sem eru nr. 75/2008 og 81/2008, því sameinuð hinu elsta, en það er nr. 53/2008. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs hinn 2. júlí 2008 var lagt til við sveitarstjórn að samþykkt yrði umsókn Norðuráls Helguvíkur sf. um byggingu álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Var tillaga nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 3. sama mánaðar.  Þá var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar hinn 2. júlí 2008 samþykkt tillaga sama efnis og hún samþykkt í bæjarráði Reykjanesbæjar hinn 3. sama mánaðar. 

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að áhrif byggingar álvers í Helguvík verði mikil í samfélaginu á Suðurnesjum.  Álverið muni hafa neikvæð áhrif á annan rekstur, svo sem ferðamennsku, heilsustarfsemi.  Það mengi og spilli náttúru og heilsu fólks. 

Þá telji kærendur að með hinu kærða leyfi sé brotið gegn réttindum þeirra sem þegna í réttarríki með brotum á grundvallargildum, ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegum skuldbindingum. 

Af hálfu Reykjanesbæjar og Garðs er þess krafist að kærunum verði vísað frá sökum þess að kærendur eigi ekki einstaklegra eða lögvarinna hagsmuna að gæta og eigi því ekki aðild að málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eiga á Íslandi, jafnframt sama rétt enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er aðild slíkra samtaka, eðli máls samkvæmt, ekki bundin því skilyrði að þau eigi lögvarinna hagmuna að gæta. 

Kærendur máls þessa eru einstaklingar og eru þeir búsettir í talsverðri fjarlægð frá þeim stað þar sem hin umdeildu mannvirki eiga að rísa.  Hafa þeir í kærum sínum vísað til sjónarmiða er fremur lúta að almannahagmunum en einkahagsmunum og hefur enginn þeirra sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti.  Verða þeir því ekki taldir eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         _________________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

57/2008 Sparkvöllur

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2008, kæra vegna framkvæmda á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 31. sama mánaðar, kærir I, Skildinganesi 37 í Reykjavík framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar á svæði milli Bauganess, Bauganestanga og Skildinganess.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hinar kærðu framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar. 

Með bréfi, mótteknu 6. ágúst 2008, kærir P, Skildinganesi 37, sömu framkvæmd.  Með hliðsjón  af málatilbúnaði kærenda verður ekki séð að neitt standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð og verður seinna kærumálið, sem er nr. 71/2008, því sameinað hinu fyrra.  Kærendur hafa í kærum sínum gert kröfu um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem málið telst nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar. 

Málsatvik og rök:  Hinn 13. júlí 2004 tók gildi breyting á deiliskipulagi, er tekur m.a. til umrædds svæðis, þar sem það var skilgreint sem útivistar- og leiksvæði.  Hinn 3. júlí 2008 hófust framkvæmdir á svæðinu að tilhlutan umhverfis- og samgöngusviðs í umboði umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.  Fól framkvæmdin í sér að hluti svæðisins var sléttaður og útbúinn þar boltavöllur. 

Kærendur vísa til þess að við deiliskipulagsbreytinguna á árinu 2004 hafi komið fram að ekki yrði ráðist í frekari framkvæmdir og skipulagningu þess nema að undangenginni kynningu og samráði við íbúa en það hafi ekki verið gert.  Með framkvæmdinni hafi ósnortinn valllendismói verið eyðilagður.  Boltavöllur á umræddu svæði muni valda þeim er næst búi ónæði og óþægindum og hafi það komið í ljós á þeim stutta tíma sem leiksvæðið hafi verið nýtt til boltaleikja.  Jafnframt blasi við að boltavöllurinn, sem sé nánast í bakgarði húsa þeirra er næst standi, muni rýra verðgildi þeirra og jafnvel hindra sölu íbúða.  Íbúar hafi ekki mátt búast við umdeildum framkvæmdum miðað við gildandi deiliskipulag og engin ákvörðun virðist hafa verið tekin um þær af þar til bærum yfirvöldum.  Bent sé á að í um 200 metra fjarlægð sé sparkvöllur með mörkum. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að staðfest verði að umræddar framkvæmdir rúmist innan gildandi deiliskipulags fyrir Skildinganes.  Þar sé umrætt svæði skilgreint sem útivistar- og leiksvæði sem þarfnist úrbóta.  Umdeild framkvæmd feli í sér sléttun grassvæðis til leikja sem hafi til þessa verið notað sem sparksvæði.  Í miðju svæðisins sé gert ráð fyrir grasflöt en svæðið umhverfis verði ósnortið.  Ráðgert sé að setja niður stólpa sem gætu verið „óformleg“ mörk.  Svæðið muni nýtast yngri börnum í nágrenninu  fyrir boltaleiki og aðra hópleiki.  Beiðni um sparkvöll hafi komið til umhverfis- og samgöngusviðs frá formanni íbúasamtaka hverfisins og hafi því verið haldið fram að fullur stuðningur væri við málið meðal íbúa.  Tillaga um gerð sparksvæðis hafi því farið inn á framkvæmdaáætlun umhverfis- og samgönguráðs fyrir árið 2008 og hafi hún verið kynnt á samráðsfundi borgarstjóra með íbúum í vesturbæ síðastliðið vor.  Ekki hafi þurft að grenndarkynna framkvæmdirnar enda hafi þær verið í samræmi við skipulag.  Nánari útfærsla á slíkum svæðum sé á hendi umhverfis- og samgönguráðs. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Ekki liggur fyrir í máli þessu að önnur stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin varðandi umdeildar framkvæmdir eða útfærslu þeirra en fyrir liggur í áðurgreindri deiliskipulagsbreytingu er tók gildi hinn 13. júlí 2004. 

Þar sem kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn og engin ný stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin á grundvelli skipulags- og byggingarlaga um skipulag eða útfærslu umdeilds svæðis af þar til bærum stjórnvöldum, verður lögmæti umræddra framkvæmda ekki borið undir úrskurðarnefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

________________________________                  ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson

3/2006 Hesthúsahverfi

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 um breytt deiliskipulag á svæði hestamanna á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra G, Grenigrund 46, H, Grenigrund 21 og I, Furugrund 34, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 að breyta deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Gera kærendur, sem kveðast eiga hesthús á umræddu svæði, þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 16. ágúst 2005 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Fól tillagan m.a. í sér sameiningu nokkurra lóða á svæðinu og áform um að stærri lóðir yrðu nýttar undir atvinnuhestamennsku.  Var tillagan auglýst til kynningar hinn 7. september 2005 og var frestur til að koma að athugasemdum til 19. október sama ár.  Bárust athugasemdir við skipulagstillöguna, m.a. frá kærendum.  Að loknum fyrrgreindum fresti tók skipulags- og byggingarnefnd hana fyrir hinn 8. nóvember 2005 og lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt sem og bæjarstjórn gerði á fundi sínum hinn 14. desember 2005.  Birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar hinn 18. apríl 2006. 

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á því að rökstuðningi hennar sé ábótavant, rannsóknarskyldu hafi ekki verið sinnt og að samþykktin brjóti gegn meginreglum stjórnsýslulaga.  Ekki hafi verið tekin sjálfstæð afstaða til framkominna athugasemda við tillöguna heldur hafi lögmönnum sveitarfélagsins verið falið það verk.  Þá felist í hinni kærðu samþykkt sameining lóða, í þeim tilgangi að koma þar fyrir reiðhöll, sem hafi í för með sér mun meiri umferð og átroðning á svæðinu sem og breytta landnotkun frá gildandi skipulagi. 

Niðurstaða:  Á fundi bæjarstjórnar Árborgar hinn 9. apríl 2008 var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi er fól í sér breytingu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Birtist auglýsing um gildistöku samþykktar þessarar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. júní 2008.  Hefur þeirri samþykkt ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar. 

Þar sem nýtt og breytt deiliskipulag gildir nú um skipulagssvæði það, er hin kærða ákvörðun tók til, eiga kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar enda hefur hún ekki lengur neina þýðingu að lögum.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson

72/2008 Traðarkotssund

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2008, kæra vegna framkvæmda á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. ágúst 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Laugavegi 5 í Reykjavík, framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Þykir málið nú vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kæranda. 

Málavextir og málsrök:  Lóðin Taðarkotssund 6 er óbyggð sem nýtt hefur verið sem bílastæði.  Fyrir skömmu hófust framkvæmdir á lóðinni sem að sögn borgaryfirvalda  miðuðu að fegrun hennar til bráðabirgða.   

Af hálfu kæranda er vísað til þess að umræddar framkvæmdir séu í andstöðu við gildandi deiliskipulag svæðisins en samkvæmt því eigi að byggja hús á lóðinni.  Þá hafi kynning á framkvæmdunum verið öll hin undarlegasta, einhver arkitekt segist hafa farið til hagsmunaaðila á svæðinu, en hann hafi aldrei komið að máli við kæranda.  Farið sé fram á stöðvun framkvæmda og að formleg grenndarkynning fari fram.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem umrædd framkvæmd sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi.   

Bent sé á að í vor og sumar hafi borgaryfirvöld unnið að fegrun miðborgarinnar, þ.á m. lóðarinnar að Traðarkotssundi 6, sem sé í eigu einkaaðila en ekki Reykjavíkurborgar.    Ákveðið hafi verið í samráði við eigendur að fegra lóðina til bráðabirgða þar sem ástand hennar hafi verið bágborið.  Samkvæmt skipulagi sé heimilt að byggja á lóðinni 660 fermetra hús en lóðarhöfum sé í sjálfsvald sett hvort þeir nýti þá heimild eða ekki.  Fram að þessu hafi bílum verið ólöglega lagt á lóðinni en ekki sé gert ráð fyrir að þar séu bílastæði.  

Ólögformleg hagsmunaaðilakynning hafi farið fram áður en framkvæmdir hafi hafist.  Kynningarbæklingur hafi verið borinn út til nágranna og harmi Reykjavíkurborg að sá bæklingur hafi ekki borist kæranda.  Hin umdeilda framkvæmd miði einungis að fegrun svæðisins og sé hvorki byggingarleyfisskyld né kalli á breytingu á deiliskipulagi og því ekki nauðsynlegt að fram fari hefðbundin grenndarkynning eins og kærandi fari fram á.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt eða skyldu aðila í skjóli stjórnsýsluvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærðar framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Traðarkotssund í Reykjavík.  Ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun borgaryfirvalda er byggir á skipulags- og byggingarlögum vegna hinna umdeildu framkvæmda og geti sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hinna umdeildu framkvæmda.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________                   ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

120/2007 Lækjarbotnar

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 15. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 120/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 um að synja umsókn um leyfi til að byggja við og breyta sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Þ, Bræðraborgarstíg 21b, Reykjavík, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi í Kópavogi, synjun skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 á umsókn um  leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi. 

Kærandi krefst þess að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Árið 2002 var auglýst tillaga að deiliskipulagi lóðanna nr. 40 og 43 í landi Lækjarbotna.  Í tillögunni sagði að í henni fælist m.a. heimild til að byggja við núverandi sumarbústað í Lækjarbotnalandi 40.  Var tillagan samþykkt og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2003. 

Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 1. september 2006, óskaði kærandi eftir heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnum.  Var umsókn hans vísað til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu, sbr. bréf byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 7. september 2006.  Var umsóknin lögð fram á fundi skipulagsnefndar hinn 19. september 2006 og erindinu frestað.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. október s.á. var erindið lagt fram að nýju og óskað eftir umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Á fundi hinn 17. október 2006 var umsókninni hafnað þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi skipulag.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 7. ágúst 2007 var erindið enn lagt fram ásamt bréfi kæranda.  Skipulagsnefnd hafnaði erindinu með vísan til samþykktar bæjarráðs frá 26. júlí 2007 þess efnis að ekki væri fyrirhugað að framlengja lóðarleigusamningum í Lækjarbotnum þegar þeir rynnu út. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að á lóðinni nr. 40 í Lækjarbotnalandi hafi verið sumarbústaður allar götur frá árinu 1935 og hafi kærandi eignast hann árið 1984.  Kópavogsbær hafi á sínum tíma samþykkt kaupin og framlengt leigusamningnum tvívegis síðan þá, í seinna skiptið árið 1994 til ársins 2010.  Þá hafi Kópavogsbær tvívegis heimilað stækkun lands til skógræktar.  Árið 1985 hafi byggingarnefnd veitt heimild til viðbótarbyggingar á elsta hluta bústaðarins sem þá hafi verið hruninn.  Þá hafi skipulagsnefnd í október 2002 veitt heimild til endurbyggingar og/eða viðbótabyggingar þess hluta gamla bústaðarins sem ekki hafi verið endurnýjaður árið 1985.  Fram hafi komið að tekið hafi verið tillit til stækkunarbeiðninnar við útfærslu nýs deiliskipulags.  Kærandi hafi þá ekki haft tök á að byggja samkvæmt heimildinni sem hafi verið fyrirvaralaus, bæði skipulagslega og tímalega.  Nú hagi svo til að þak þessa hluta sé illa farið vegna snjóþyngsla á síðasta áratugi liðinnar aldar ásamt því að endurgera þurfi þakið og einn vegg bústaðarins. 

Í ágúst 2006 hafi kærandi sent inn teikningar að endurbyggingu sumarbústaðarins ásamt lítilsháttar stækkun hans.  Teikning þessi hafi af skipulagsyfirvöldum verið túlkuð sem útfærsla skipulags og því haldið fram að með teikningunni væri farið væri út fyrir heimildir deiliskipulags um 1,9 metra.  Að mati kæranda sé um fyrirslátt að ræða enda hafi á árinu 2002 verið samþykkt deiliskipulag þar sem gert hafi verið ráð fyrir endurbyggingu sumarbústaðar hans ásamt viðbyggingu við hann. 

Bent sé á að hinn 3. október 2006 hafi erindi kæranda verið tekið fyrir að nýju í skipulagsnefnd og því vísað til umsagnar skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs.  Málinu hafi aldrei verið vísað til byggingarnefndar heldur í allt annan farveg. 

Af hálfu kæranda er því haldið fram að gróflega hafi verið brotið á áður samþykktum skilyrðislausum rétti hans til að endurreisa gamla og leka byggingu og bæta eilítið við hana. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að afstaða skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 sé ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun þar sem með henni sé nefndin að ítreka fyrri afstöðu og vísi til eldri ákvörðunar í málinu.  Sé því ekki um sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun að ræða og beri af þeim sökum að vísa kærumálinu frá úrskurðarnefndinni. 

Verði ekki fallist á framangreint sé bent á að lóðarréttindi kæranda byggi á lóðarleigusamningi sem gerður hafi verið hinn 7. nóvember 1994.  Samkvæmt samningnum sé lóðin leigð til 1. maí 2010.  Í 9. gr. hans segi svo:  „Vilji landeigandi ekki að loknum leigutímanum, með nýjum leigusamningi, endurnýja hann, skal leigutaki fjarlægja mannvirki þau, er á landinu standa Kópavogskaupstað að kostnaðarlausu.“ 

Ákvörðun Kópavogsbæjar um að synja umsókn kæranda byggi m.a. á því að sveitarfélagið hyggist ekki endurnýja lóðarleigusamninga í Lækjarbotnum að leigutíma loknum, en langflestir samningar á jörðinni séu útrunnir eða renni út þann 1. maí 2010.  Ástæða þess sé sú að gert sé ráð fyrir breytingum á landnotkun á jörðinni. 

Í ljósi þessa sé afstaða Kópavogsbæjar sú að ekki verði veitt frekari leyfi fyrir varanlegum mannvirkjum á svæðinu.  Byggi sú ákvörðun m.a. á framangreindu ákvæði leigusamnings, sem sé staðlað og að finna í öllum samningum. 

Ákvörðun Kópavogsbæjar byggi því annars vegar á því að umsókn kæranda sé ekki í samræmi við skipulagsáætlun og landnotkun sem fyrirhuguð sé á svæðinu, auk þess að réttindi kæranda geri ekki ráð fyrir varanlegum mannvirkjum á lóðinni, líkt og sótt hafi verið um. 

Niðurstaða:  Í máli því er hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogsbæjar að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna.  Krefst Kópavogsbær frávísunar málsins þar sem í erindi kæranda felist aðeins beiðni um afgreiðslu erindis er skipulagsyfirvöld hafi áður tekið afstöðu til.  Á þetta verður ekki fallist enda var hin kærða ákvörðun studd nýjum rökum og var kæranda bent á kærurétt og kærustjórnvald er honum var tilkynnt um ákvörðunina.  Verður því að líta svo á að um nýja ákvörðun hafi verið að ræða, sem ekki verði vísað frá á þeim grundvelli sem frávísunarkrafa bæjaryfirvalda byggist á. 

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Virðist skipulagsnefnd hafa tekið til skoðunar hvort erindið samræmdist ófullkomnu deiliskipulagi sem skipulagsyfirvöld munu hafa sett á árinu 2003 fyrir tvær lóðir á umræddu svæði, þrátt fyrir ákvæði gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, en í deiliskipulagi þessu skortir auk þess á að kveðið sé á um stærðir byggingarreita, fjarlægðir frá lóðamörkum og ýmsar aðrar nauðsynlegar forsendur til túlkunar þess.  Lauk nefndin síðar málinu með hinni kærðu ákvörðun án þess að það kæmi til frekari umfjöllunar af hálfu byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar. 

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um umsóknir um byggingarleyfi sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Heimilt er, með sérstakri samþykkt er ráðherra staðfestir, að fela byggingarfulltrúa afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi en hvergi er stoð fyrir því í lögum að skipulagsnefnd sé bær til þess að afgreiða mál sem eiga undir byggingarnefnd eða byggingarfulltrúa.  Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn kæranda til meðferðar svo sem hún þó gerði.  Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún synjaði umsókninni. 

Að auki liggur fyrir að engin afstaða var tekin til þess hvort synja ætti erindi kæranda eða samþykkja það er fundargerð skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007.  Þá verður heldur ekki séð að bæjarstjórn hafi fjallað um erindið.  Verður ákvörðun skipulagsnefndar því ekki talin hafa hlotið staðfestingu bæjarráðs eða bæjarstjórnar og var því ekki bundinn endi á meðferð máls með hinni kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Sætir hin kærða ákvörðun því ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar og eru af þeim sökum ekki efni til að taka afstöðu til lögmætis hennar eða til þess hvort hún hafi haft einhverja þýðingu við afgreiðslu á erindi kæranda. 

Samkvæmt framansögðu hefur erindi kæranda um heimild til að byggja við og breyta núverandi sumarbústað á lóðinni nr. 40 í landi Lækjarbotna ekki hlotið rétta meðferð bæjaryfirvalda og liggur ekki fyrir í málinu lögmæt ákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Ber af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  _______________________________
         Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

55/2007 Lindir IV

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. febrúar 2007 um deiliskipulag fyrir Lindir IV, Skógarlind nr. 1 og 2, og á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. ágúst 2007 um breytt deiliskipulag fyrir sama svæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júní 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir P, Krossalind 35, Kópavogi, samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. febrúar 2007 um deiliskipulag fyrir Lindir IV.  Kærandi hefur jafnframt með bréfi, dags. 2. nóvember 2007, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kært breytingu sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 28. ágúst 2007 á ofangreindu skipulagi.  Þykir ekkert standa því í vegi að það kærumál, sem er nr. 149/2007, verði sameinað máli þessu.  Eru málin því sameinuð.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Málavextir og málsrök:  Hinn 19. júlí 2005 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir Lindir IV.  Í auglýsingu um tillöguna kom m.a. fram að á umræddu svæði, sem afmarkast af Reykjanesbraut í vestur og norður, Lindarvegi í austur og Fífuhvammsvegi í suður, væri gert ráð fyrir nýju verslunar- og þjónustusvæði og að breytingar yrðu gerðar á umferðarmannvirkjum á svæðinu.

Annars vegar væri um að ræða eins til þriggja hæða byggingu meðfram Lindarvegi, sem áætluð væri um 15.500 m² að flatarmáli.  Við húsið væri gert ráð fyrir 460 bílastæðum og hluti þeirra, eða um 180 stæði, fyrirhuguð á þaki hússins með aðkomu frá Lindarvegi.  Hins vegar væri gert ráð fyrir byggingu meðfram Fífuhvammsvegi sem væri ráðgerð þrjár hæðir auk kjallara, samtals um 9.500 m² að flatarmáli.  Áætluð væru 315 bílastæði við húsið, að stærstum hluta í tveggja hæða bílgeymslu. 

Aðkoma að svæðinu væri fyrirhuguð frá Lindarvegi í austri og af tengirampa milli Fífuhvammsvegar og Reykjanesbrautar úr vestri.  Einnig yrði gert ráð fyrir nýjum akfærum undirgöngum undir Reykjanesbraut sem tengja myndu Dalveg og Lindir IV.  Þá væri gert ráð fyrir nýju hringtorgi á gatnamótum Núpalindar og Lindarvegar og breikkun Lindarvegar milli þess og Fífuhvammsvegs. 

Kom kærandi máls þessa á framfæri athugasemdum við tillöguna.  Málið var til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum næsta árið og á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. febrúar 2006 var tillagan samþykkt að hluta.

Hinn 13. febrúar 2007 var tillaga að deiliskipulagi fyrir Lindir IV, Skógarlind nr. 1 og 2, með nýrri útfærslu vegtenginga samþykkt á fundi bæjarstjórnar Kópavogs ásamt umsögn bæjarskipulags og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. maí s.á.

Stuttu síðar, eða hinn 12. júní 2007, var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Lindir IV og gerði kærandi máls þessa athugasemdir við tillöguna.  Að loknum kynningartíma var málið tekið fyrir að nýju á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 28. ágúst 2007 og var tillaga að breyttu deiliskipulagi samþykkt.

Fól tillagan m.a. í sér að lóðinni yrði skipt upp í tvær lóðir og yrði heildarlóðarstærð 4,5 ha, þ.e. lóð Skógarlindar 1 yrði 1,4 ha og lóð Skógarlindar 2 yrði 3,1 ha. Heildarbyggingarmagn yrði 27.200 m² í stað 25.000 m².  Nýtingarhlutfall yrði 0,6.  Bílastæði er ráðgerð höfðu verið á þaki byggingar Skógarlindar 2 með aðkomu frá Lindarvegi yrðu felld út ásamt aðkomuleiðum og þeim komið fyrir að vestanverðu við bygginguna.  Fyrirhuguð bygging yrði eins að formi til með mestu hæð útveggjar til vesturs allt að 12 metra.  Þak skyldi hallast niður til austurs.  Hæðarskilum í norðurenda hússins yrði breytt.  Þá var jafnframt gert ráð fyrir að á lóðinni að Skógarlind 1 yrði heimilt að nota kjallararými undir atvinnustarfsemi.

Auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. október 2007.

Framangreindum samþykktum bæjarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kærandi vísar m.a. til þess að við gerð umrædds deiliskipulags hafi ekki verið haft samráð við íbúa svæðisins og að svörum skipulagsnefndar við framkomnum athugasemdum kæranda hafi verið ábótavant.  Umrætt skipulagssvæði beri ekki fyrirhugað byggingarmagn og umferðarmannvirki sveitarfélagsins muni ekki anna þeirri aukningu á umferð sem því muni fylgja, enda hafi við hönnun þeirra verið byggt á þeim forsendum að umferð yrði mun minni um svæðið en nú sé reiknað með.

Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar málsins.  Í fyrsta lagi með vísan til þess að frestur til að skila inn kæru til úrskurðarnefndarinnar hafi verið liðinn er kæra barst nefndinni.  Kærufrestur sé einn mánuðir frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Deiliskipulagið hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 21. maí 2007 en kæra hafi borist rúmum mánuði síðar eða þann 25. júní s.á.

Í öðru lagi byggi frávísunarkrafa á því að kærandi eigi hvorki einstaklegra né verulegra hagsmuna að gæta varðandi deiliskipulag fyrir Lindir IV.  Breytingin feli hvorki í sér veruleg né óveruleg grenndaráhrif fyrir kæranda og leiði ekki til skuggamyndunar, sjónmengunar, útsýnisskerðingar, né annars ónæðis eða skerðingar á beinum hagsmunum kæranda.  Athugasemdir kæranda beinist aðallega að umferðarmálum en fullt samráð hafi verið haft við Vegagerðina.

Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.  Hið kærða deiliskipulag sé í fullu samræmi við gildandi Aðalskipulag Kópavogs 2000-2012 en þar sé umrætt svæði skipulagt sem verslunar- og þjónustusvæði.  Sé byggingarmagn sem og nýting lóðar í samræmi við aðalskipulag og nýtingu á aðliggjandi lóðum.

Niðurstaða:  Kærandi máls þessa er búsettur að Krossalind 35 í Kópavogi.  Frá húsi hans og að svæði því er um er deilt í máli þessu eru um 500 metrar.  Húsið er parhús og er afstaða þess til skipulagssvæðisins þannig að lítilla sjónrænna áhrifa gætir á lóð hans af mannvirkjum þar.

Byggir kærandi málatilbúnað sinn að efni til fyrst og fremst á skipulagslegum atriðum, svo sem að umrætt svæði þoli ekki heimilað byggingarmagn samkvæmt skipulagi eða þá umferðaraukningu sem vænta megi af þeim sökum.

Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags.  Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttað í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvara hagsmuni af úrlausn máls.

Úrskurðarnefndin telur að kærandi eigi ekki einstaklegra eða verulegra hagsmuna að gæta hvað varðar uppbyggingu á Lindum IV.  Telur nefndin ljóst að deiliskipulagið skerði ekki útsýni eða hafi í för með sér svo verulegar breytingar á umferð eða áhrif á umhverfi kæranda að það geti snert lögvarða hagsmuni hans þegar miðað er við staðsetningu húss hans og afstöðu þess til bygginga þeirra er heimilaðar eru samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi.  Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga slíka hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið sem áskilið er, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________      _______________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

19/2007 Bæjarlind

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 um breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10, sem fól m.a. í sér heimild til byggingar 10 hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ásamt tveggja hæða bílgeymslu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. mars 2007, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir P, Krossalind 35, Kópavogi, samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 28. nóvember 2006 um breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10, sem fól m.a. í sér heimild til byggingar 10 hæða verslunar- og skrifstofuhúsnæðis ásamt tveggja hæða bílgeymslu.   Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 10. ágúst 2006 samþykkti bæjarráð Kópavogs að auglýsa breytingu á deiliskipulagi Bæjarlindar 8-10.  Fól tillagan í sér að umrædd lóð yrði stækkuð úr 7.700 fermetrum í 17.400 fermetra og heimild til að byggja 10 hæða verslunar- og þjónustuhúsnæði ásamt tveggja hæða bílgeymslu norðan við byggð þá sem fyrir var.  Heildarbyggingarmagn færi úr 3.200 fermetrum í 11.300 fermetra.  Þá var gert ráð fyrir inn- og útakstri að fyrirhuguðu bílgeymsluhúsi frá nýrri hliðargötu, samsíða Fífuhvammsvegi, auk breytts fyrirkomulags bílastæða.  Tvær athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, þ.á m. frá kæranda.  Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti hina auglýstu tillögu óbreytta, ásamt umsögn vegna framkominna athugasemda, hinn 28. nóvember 2006 og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi skírskotar m.a. til þess að umrætt svæði þoli ekki heimilaða stækkun, ekkert tillit sé tekið til nærliggjandi svæða og umferðarmannvirki anni ekki þeirri umferð sem fylgja muni auknu byggingarmagni og fyrirhugaðri uppbyggingu á nærliggjandi svæðum.  Ekki hafi verið haft samráð við íbúa hverfisins sem þurfi að nýta umræddar akstursleiðir og svörum við framkomnum athugasemdum við skipulagstillöguna sé áfátt.

Af hálfu bæjaryfirvalda Kópavogs er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting snerti ekki grenndarhagsmuni kæranda.  Breytingunni fylgi ekki skuggamyndun gagnvart kæranda, sjónmengun, útsýnisskerðing né annað ónæði eða skerðing á beinum hagsmunum hans.  Athugasemdir kæranda beinist aðallega að umferðarmálum en fullt samráð hafi verið haft við Vegagerðina við meðferð tillögunnar. 

Ekki verði séð að kærandi eigi einstaklegra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og skorti hann því kæruaðild samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Niðurstaða:  Hús kæranda að Krossalind 35 er í rúmlega 800 metra fjarlægð frá því svæði sem hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til.  Húsið er parhús og er afstaða þess til skipulagssvæðisins þannig að lítilla sjónrænna áhrifa gætir á lóð hans af mannvirkjum þar.  Lúta efnisleg andmæli kæranda við skipulagsbreytingunni fyrst og fremst að skipulagslegum atriðum, svo sem auknum byggingarheimildum og umferðaraukningu sem vænta megi af þeim sökum.

Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags. 

Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttuð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvara hagsmuni af úrlausn máls.

Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður ekki séð að umdeild deiliskipulagsbreyting snerti grenndarhagsmuni kæranda eða aðra lögvarða hagsmuni hans.  Tilhögun umferðar og skipulag umferðarmannvirkja, svo sem stofn- eða tengibrauta í vegakerfi sveitarfélags, verður ekki talin tengjast einstaklegum lögvörðum hagsmunum heldur fremur almannahagsmunum.  Einungis kæmi til álita að telja slíka einstaklega hagsmuni vera fyrir hendi ef um væri að ræða bein grenndaráhrif aukinnar umferðar eða tilhögunar umferðarmannvirkja varðandi einstakar fasteignir. 

Að framangreindum atvikum virtum verður kærandi ekki talinn eiga kæruaðild í máli þessu og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

________________________________     _____________________________
    Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

55/2006 Lyngholt

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 10. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 55/2006, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar frá 30. maí 2006 um að veita leyfi til byggingar parhúss á lóðunum að Lyngholti 2a og 2b á Húsavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. júní 2006, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir Karl Axelsson hrl., f.h. 13 íbúa í nágrenni við Lyngholt 2a og 2b á Húsavík þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar frá 30. maí 2006 að veita leyfi til byggingar parhúss á lóðunum að Lyngholti 2a og 2b.  Var framangreind ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 6. júní 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Ekki kom til þess að úrskurðað væri um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda þar sem fyrir lá að þær höfðu verið stöðvaðar af byggingarfulltrúa Húsavíkurbæjar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar hinn 30. maí 2006 var samþykkt umsókn um leyfi til byggingar parhúss á lóðunum að Lyngholti 2a og 2b og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 6. júní sama ár.  Á fundi sínum hinn 19. júní 2006 fjallaði nefndin um óánægju nágranna vegna samþykktar leyfisins og var byggingarfulltrúa falið að leita eftir samkomulagi við byggingarleyfishafa.  Í bréfi byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa sagði að nefndin vildi nú þegar stöðva framkvæmdir og koma þannig til móts við sjónarmið nágranna.  Í kjölfar þessa stöðvaði byggingarfulltrúi framkvæmdir við byggingu húsanna.  Síðar voru lóðirnar sameinaðar og nýrri lóð úthlutað undir einbýlishús.  Leyfi til byggingar þess var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 1. mars 2008.   

Af hálfu kærenda er á því byggt að teikningar að umræddum parhúsum séu í ósamræmi við deiliskipulag svæðisins.  Af þessum sökum beri að ógilda hið kærða leyfi. 

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að hinn 1. mars 2008 var samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 2a við Lyngholt en samkvæmt upplýsingum frá byggingarfulltrúa hafði áður náðst samkomulag við byggingarleyfishafa um að falla frá áformum um byggingu parhúss samkvæmt hinu kærða leyfi. 

Eiga kærendur af framangreindum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins umdeilda leyfis og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Máli þessu var upphaflega frestað af hálfu úrskurðarnefndarinnar þar sem viðræður voru hafnar við byggingarleyfishafa af hálfu byggingaryfirvalda og þótti líklegt að hið kærða byggingarleyfi yrði afturkallað.  Var nefndinni ekki tilkynnt um lyktir málsins og dróst uppkvaðning úrskurðar í málinu af þeim sökum.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

 

27/2008 Traðarland

Með

Ár 2008, miðvikudaginn 21. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 27/2008, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna íþróttasvæðis Víkings að Traðarlandi 1, Reykjavík, sem gerir m.a. ráð fyrir gervigrasvelli, heimild til að girða af svæðið og reisa flóðlýsingarmöstur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. apríl 2008, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kærir Ragnar Aðalsteinsson hrl., f.h. Þ og H, Traðarlandi 10, D og T, Traðarlandi 2, M og D, Traðarlandi 4, J og J Traðarlandi 8 og E og Á, Traðarlandi 16, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 22. febrúar 2007 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna íþróttasvæðis Víkings að Traðarlandi 1, Reykjavík, sem gerir m.a. ráð fyrir gervigrasvelli, heimild til að girða af svæðið og reisa flóðlýsingarmöstur.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 18. október 2006 samþykkti skipulagsráð Reykjavíkur að auglýsa til kynningar tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna íþróttasvæðis Víkings að Traðarlandi 1.  Gerði tillagan ráð fyrir nýjum upplýstum gervigrasvelli með sex ljósamöstrum á suðurhluta svæðisins og að malarvelli er fyrir er á svæðinu yrði breytt í grasæfingasvæði.  Þá var gert ráð fyrir 85 nýjum álagsbílastæðum á opnu svæði, norðaustan við íþróttahús sem þar er fyrir.

Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir við hana frá nokkrum aðilum, þ.á.m. frá kærendum í máli þessu.  Borgarráð samþykkti síðan breytingartillöguna hinn 22. febrúar 2007 en bæjarstjórn Kópavogs hafði samþykkt hana fyrir sitt leyti hinn 8. febrúar 2007.  Var þeim sem gert höfðu athugasemdir við hina auglýstu tillögu sent bréf með svörum við athugasemdum og var þeim kynntur réttur til þess að kæra ákvörðunina innan mánaðar frá birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku tillögunnar. 

Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun 26. febrúar 2007 og gerði hún athugasemdir við form tillögunnar og framsetningu.  Að loknum lagfæringum tilkynnti Skipulagsstofnun í bréfi, dags. 8. júní 2007, að hún gerði ekki athugasemdir við að gildistaka hinnar samþykktu deiliskipulagsbreytingar yrði auglýst í B-deild og birtist auglýsingin hinn 14. júní 2007.  Hafa kærendur nú skotið hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kærendur telja að form- og efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun eigi að leiða til ógildingar hennar og að taka eigi kæru þeirra til efnismeðferðar á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þrátt fyrir að hún hafi borist að liðnum kærufresti.

Meðferð og afgreiðsla hinnar kærðu ákvörðunar hafi tekið afar langan tíma, en tæplega fjórir mánuðir hafi liðið frá því að kærendum var tilkynnt um kæruheimild og þar til kærufrestur hafi byrjað að líða.  Á þessum mánuðum hafi kærendur lagt sig fram um að fylgjast með gangi málsins enda hafi þeir haft fullan hug á að nýta sér kæruheimildina.  Þó hafi farið svo að auglýsingin í Stjórnartíðindum hafi farið framhjá kærendum og þeim hafi ekki orðið kunnugt um gildistökuna fyrr en að liðnum kærufresti.  Hafa verði í huga í þessu sambandi að kærendum hafi ítrekað verið bent á upplýsingavef skipulags- og byggingarsviðs í tilefni af fyrirspurnum þeirra um afdrif málsins, nánar tiltekið þann hluta vefsins er beri yfirskriftina „Nýlega samþykktar skipulagsáætlanir“.  Þessum vef hafi þeir fylgst náið með í samræmi við leiðbeiningar borgaryfirvalda.  Af óljósum orsökum, líklega fyrir mistök borgarstarfsmanna, hafi breytingin hins vegar ekki birst undir þessum lið, heldur undir liðnum „Mál í vinnslu“ og hafi enn svo verið hinn 20. september 2007.

Ljóst sé að hinn langi tími sem það hafi tekið borgaryfirvöld að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar hafi gert það að verkum að kærendum hafi reynst afar erfitt að fylgjast með gangi málsins.  Minni kærendur á málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga og þá sérstaklega á 3. mgr. greinarinnar er kveði á um að stjórnvaldi sé skylt að skýra aðila máls frá því þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast og upplýsa um ástæður tafarinnar og hvenær ákvörðunar sé að vænta.  Kærendum hafi ekki verið skýrt frá þeirri miklu töf sem orðið hafi á málinu.  Því megi halda fram að góðir stjórnsýsluhættir hefðu átt að leiða til þess að þeim væri send tilkynning við upphaf kærufrests um kæruheimild og kæruleiðbeiningar.

Ennfremur hafi rangar upplýsingar verið birtar á upplýsingavef skipulags- og byggingarsviðs. Þótt kærendum sé ljóst að upplýsingar á slíkum vef geti ekki komið í stað auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda breyti það ekki því að stjórnvaldið hafi vísað kærendum ítrekað á téðan upplýsingavef þegar leitað hafi verið upplýsinga um gang málsins.  Hafa verði hér í huga leiðbeiningarskyldu stjórnvalda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga og þá staðreynd að borgaryfirvöldum hafi verið ljós sú ætlun kæranda að kæra ákvörðunina.

Af framangreindu megi vera ljóst að ástæður þess að kæra hafi ekki borist innan lögbundins frests verði einkum raktar til seinagangs í málsmeðferð borgaryfirvalda og rangra og villandi upplýsinga, m.ö.o. til atvika er snerti stjórnvaldið. Ótækt sé að réttaröryggi kærenda skerðist vegna vinnubragða stjórnvalda.  Verði að telja að skilyrði 1. töluliðar 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við, þ.e. að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist innan kærufrests.

Jafnframt telji kærendur að síðara skilyrði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sé uppfyllt í máli þessu

Kærendur búi í næsta nágrenni við skipulagssvæðið.  Eins og ljóst sé af athugasemdum þeim sem nágrannar hafi sent til borgaryfirvalda vegna málsins sé um að ræða miklar breytingar á nærumhverfi heimila þeirra.  Samkvæmt skipulaginu sé gert ráð fyrir nýjum gervigrasvelli á svæðinu, ásamt háum girðingum og flóðlýsingu á 18 metra háum möstrum, sem muni hafa mikil áhrif á hið rólega svæði í Fossvogsdal.  Þá muni bílastæðum á svæðinu fækka um 200 en umferð aukast gríðarlega og sé fyrirsjáanlegt að þetta valdi ómældum óþægindum fyrir nágranna.

Kærendum sé ekki skylt að þola slíkar breytingar á nærumhverfi sínu sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulagsbreytingunni.  Með henni sé bæði vegið að friðhelgi einkalífs þeirra og heimilis svo og vernd eignarréttar þeirra.  Það aukna ónæði sem muni fylgja breytingunum hafi í för með sér að svefnró í hverfinu minnki, einkum í húsunum við Traðarland.  Þeim friði sem íbúarnir eigi rétt á verði útrýmt.  Jafnframt muni íbúunum í húsunum við Traðarland ekki nýtast húsin og lóðirnar með sama hætti og áður og með því sé vernd eignarréttinda þeirra skert og hafi það í för með sér fjárhagslegt tjón fyrir eigendur fasteignanna.

Benda megi auk þess á að sé ekki tekið við kæru þessari, þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn, sé hætta á því að skipulagsyfirvöld nýti sér þær aðferðir að draga afgreiðslu mála og veita villandi upplýsingar til þess að gera borgurum erfiðara um vik að kæra ákvarðanir.  Þannig væri sveitarstjórnum mögulegt að draga afgreiðslu erfiðra og umdeildra mála en birta auglýsingu síðan þegar líklegt sé að hún fari framhjá þeim sem í hlut eigi.  Þegar ástæður þess að kæra hafi ekki borist innan tilskilins frests megi rekja til stjórnvalds, líkt og í þessu máli, verði að telja að mikilvægt sé að játa nægilegt svigrúm til þess að tryggja réttaröryggi borgaranna.

Af þessu megi vera ljóst að um mikilsverða og verðmæta hagsmuni sé að ræða fyrir kærendur og því verði að telja að skilyrðið um að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar sé uppfyllt en ekki sé liðinn sá ársfrestur sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

_ _ _

Úrskurðarnefndin mun í þessum úrskurði einungis taka afstöðu til þess hvort kæra í málinu verði tekin til efnismeðferðar þótt hún hafi borist að liðnum kærufresti.  Þykir því ekki ástæða til að rekja rök kærenda er snerta efni og form hinnar kærðu ákvörðunar.

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt í borgarráði hinn 22. febrúar 2007.  Í kjölfar þess mun þeim sem gert höfðu athugasemdir við skipulagstillöguna hafa verið tilkynnt um samþykkt hennar og leiðbeint um kærurétt og kærufrest.  Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. júní 2007. 

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og telst sá frestur frá dagsetningu opinberrar birtingar ákvörðunar þegar um hana er að ræða.  Rann kærufrestur vegna hinnar umdeildu ákvörðunar út mánudaginn 16. júlí 2007, að teknu tilliti til útreiknings frests skv. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 11. apríl 2008 þegar um sjö mánuðir og þrjár vikur voru liðnar frá lokum kærufrests.  Telja kærendur að taka skuli mál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti þar sem efnisskilyrði 1. og 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við enda afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr og veigamiklar ástæður, er varði hagsmuni kærenda og góða stjórnsýsluhætti, mæli með því.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er sett fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti.  Kærendur skírskota hins vegar til 1. og 2. tl. greinarinnar er fela í sér undantekningu frá fyrrnefndri meginreglu en hana ber að túlka þröngt samkvæmt viðteknum lögskýringarsjónarmiðum. 

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður það ekki talið afsakanlegt í skilningi 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra berist að liðnum kærufresti sökum þess að lögboðin opinber birting ákvörðunar sem kæra skal fari framhjá kæranda.  Á þessi ályktun stoð í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað þar sem kveðið er á um að birt fyrirmæli bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt.  Öndverð niðurstaða væri til þess fallin að skapa réttaróvissu og draga úr þeirri festu sem opinberri birtingu er ætlað að skapa. 

Þá verður ekki fallist á að þær ástæður séu fyrir hendi í málinu að réttlætanlegt sé að taka það til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga.  Í kærumáli þessu er tekist á um hagsmuni einstakra fasteignaeigenda á skipulagssvæði, eins og oftast nær er um að ræða í kærumálum vegna skipulagsákvarðana, og þótt taka megi undir það með kærendum að stjórnsýsla hafi mátt betur fara í samskiptum borgaryfirvalda við þá verður það ekki talið geta leitt til þess að málið verði tekið til efnismeðferðar að löngu liðnum kærufresti.

Þá mælir það gegn því að beita umræddum undanþáguákvæðum frá kærufresti að fleiri en kærendur eiga hagsmuna að gæta um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun og leiða rétt sinn af henni.  Hafa verður og í huga að þar sem málskot til æðra stjórnvalds er frjálst, en kæruleið ekki skyldubundin, eiga aðilar þess ávallt kost að leita til dómstóla í því skyni að verja lögmæta hagsmuni sína.

Af framangreindum sjónarmiðum virtum telur úrskurðarnefndin ekki heimilt að víkja frá kærufresti á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga eins og hér stendur á og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

__________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________       ___________________________
          Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 
   

 

28/2005 Álfaskeið

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2005, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 1. mars 2005 um að synja umsókn um skiptingu eignar að Álfaskeiði 127, matshluta 0201, í tvo eignarhluta. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. apríl 2005, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kærir S, Álfaskeiði 127, Hafnarfirði þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 1. mars 2005 að synja um leyfi til að skipta eign að Álfaskeiði 127, matshluta 0201, í tvær séreignir. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir og rök:  Á lóðinni að Álfaskeiði 127 stendur tvíbýlishús og bílskúr.  Skiptist fasteignin í tvo matshluta, 0101 og 0201 og er kærandi eigandi síðargreinds hluta. 

Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 3. febrúar 2004 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að fá að loka stigaopi í fyrrnefndu húsi og skipta á þann veg matshluta 0201 í tvær séreignir, þannig að í húsinu yrðu þrjár íbúðir.  Eftir nokkra umfjöllun bæjaryfirvalda var erindinu hafnað.  Í kjölfar þess lagði kærandi fram nýja og breytta umsókn og fór fram á endurupptöku málsins.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 1. mars 2005 var erindið afgreitt með svohljóðandi bókun:  „Skipulags- og byggingarráð synjar erindinu, þar sem hér er um að ræða einbýlishúsahverfi, og lóðaleigusamningur gerir ráð fyrir einni íbúð með leyfi fyrir aukaíbúð, sem þegar hefur verið veitt leyfi fyrir.  Þótt ekki liggi fyrir deiliskipulag af hverfinu, má gera ráð fyrir að íbúar aðliggjandi einbýlishúsa hafi gert ráð fyrir að í henni yrði eingöngu um einbýlishús að ræða, en þriggja íbúða hús má að mati ráðsins túlka sem fjölbýlishús.  Enn fremur rúmast bílastæði illa innan lóðarinnar, nær öll lóðin framan við húsið yrði bílastæði og stækka þyrfti innkeyrsluna til muna.  Það er mat ráðsins að þetta rýri gæði götunnar og því beri að synja erindinu.“   Var greind fundargerð skipulags- og byggingarráðs lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 8. mars s.á.

Hefur kærandi skotið framangreindri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og áður greinir.

Af hálfu kæranda er m.a. tekið fram að með beiðni um samþykkt íbúðar á neðri hæð sé aðeins verið að óska staðfestingar á því sem verið hafi um langt skeið og engar athugasemdir hafi verið gerðar við.  Þegar kærandi hafi keypt íbúð sína hafi henni verið skipt þannig að á efri hæð hafi verið íbúð og á neðri hæð fjögur einstaklingsherbergi með sérinngangi ásamt baðherbergi, geymslu, þvottahúsi og eldhúsi.  Ekki hafi verið innangengt milli íbúðar á efri hæð og sérherbergja á neðri hæð, sem hafi verið í útleigu um nokkurt skeið.

Hæglega rúmist þrjár íbúðir í húsinu en birt flatarmál þess sé 396,2 m².  Bílastæði hússins séu öll fyrir framan það og ekki sé vitað til þess að gerðar hafi verið athugasemdir af hálfu bæjaryfirvalda um fyrirkomulag vegna þessa.  Ætla megi að fyrri nýting hússins hafi kallað á mun fleiri bílastæði við húsið en áætlanir kæranda geri nú ráð fyrir.  Við Álfaskeið séu mörg fjölbýlishús og hverfið mjög þéttbýlt.  Fjarstæðukennt sé að halda fram að gæði hverfisins rýrni vegna framkominnar beiðni.  Þá hafi nágrannar ekki gert athugasemdir við að í húsinu séu þrjár íbúðir.

Bæjaryfirvöld Hafnarfjarðar benda á að um sé að ræða einbýlishúsalóð í íbúðarhverfi á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag.  Samkvæmt gildandi lóðaleigusamningi skuli reisa eitt íbúðarhús með bílageymslu fyrir einn bíl á lóðinni.  Ein aukaíbúð hafi verið leyfð í kjallara hússins og óleyfilegt sé að bæta við fleiri íbúðum.

Niðurstaða:  Í máli því sem hér er til úrlausnar er kærð sú ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 1. mars 2005 að synja um byggingarleyfi til að skipta séreign að Álfaskeiði 127, matshluta 0201, í tvær séreignir. 

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr.73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. tilvitnaðra laga.  Sveitarstjórnum er þó heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. laganna að víkja frá ákvæðum þeirra um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra. 

Fundargerð skipulags- og byggingarráðs frá 1. mars 2005, þar sem bókað var um hina kærðu ákvörðun, var lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 8. mars s.á. en ekki verður séð að hin umdeilda afgreiðsla hafi verið staðfest í bæjarstjórn. 

Þar sem ekki liggur fyrir að á umræddum tíma hafi verið í gildi samþykkt, staðfest af ráðherra, um að fela skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar lokaákvörðunarvald um afgreiðslu byggingarleyfa hefur hin kærða ákvörðun ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum þar sem á skortir að bæjarstjórn hafi staðfest hina umdeildu ákvörðun.  Ber því, með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um erindi kæranda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna þess dráttar sem varð af hálfu Hafnarfjarðarbæjar á afhendingu umbeðinna gagna en þau bárust nefndinni 28. mars 2008.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________            _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                              Þorsteinn Þorsteinsson