Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2006 Hesthúsahverfi

Ár 2008, miðvikudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2006, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 um breytt deiliskipulag á svæði hestamanna á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. janúar 2006, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kæra G, Grenigrund 46, H, Grenigrund 21 og I, Furugrund 34, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagins Árborgar frá 14. desember 2005 að breyta deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Gera kærendur, sem kveðast eiga hesthús á umræddu svæði, þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar 16. ágúst 2005 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi.  Fól tillagan m.a. í sér sameiningu nokkurra lóða á svæðinu og áform um að stærri lóðir yrðu nýttar undir atvinnuhestamennsku.  Var tillagan auglýst til kynningar hinn 7. september 2005 og var frestur til að koma að athugasemdum til 19. október sama ár.  Bárust athugasemdir við skipulagstillöguna, m.a. frá kærendum.  Að loknum fyrrgreindum fresti tók skipulags- og byggingarnefnd hana fyrir hinn 8. nóvember 2005 og lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði samþykkt sem og bæjarstjórn gerði á fundi sínum hinn 14. desember 2005.  Birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar hinn 18. apríl 2006. 

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á því að rökstuðningi hennar sé ábótavant, rannsóknarskyldu hafi ekki verið sinnt og að samþykktin brjóti gegn meginreglum stjórnsýslulaga.  Ekki hafi verið tekin sjálfstæð afstaða til framkominna athugasemda við tillöguna heldur hafi lögmönnum sveitarfélagsins verið falið það verk.  Þá felist í hinni kærðu samþykkt sameining lóða, í þeim tilgangi að koma þar fyrir reiðhöll, sem hafi í för með sér mun meiri umferð og átroðning á svæðinu sem og breytta landnotkun frá gildandi skipulagi. 

Niðurstaða:  Á fundi bæjarstjórnar Árborgar hinn 9. apríl 2008 var samþykkt tillaga að breyttu deiliskipulagi á svæði hestamanna á Selfossi er fól í sér breytingu á hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Birtist auglýsing um gildistöku samþykktar þessarar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. júní 2008.  Hefur þeirri samþykkt ekki verið skotið til úrskurðarnefndarinnar. 

Þar sem nýtt og breytt deiliskipulag gildir nú um skipulagssvæði það, er hin kærða ákvörðun tók til, eiga kærendur ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar enda hefur hún ekki lengur neina þýðingu að lögum.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________                          ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                         Þorsteinn Þorsteinsson