Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2010 Gámasvæði

Með

Ár 2011, þriðjudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2010, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. nóvember 2010 um heimild til staðsetningar grenndargáma á Akureyri.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2010, er barst nefndinni samdægurs, kærir J, Ránargötu 30 á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. nóvember 2010 að heimila staðsetningu grenndargáma á fjórum stöðum í bænum. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gild. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Akureyrarbæjar 15. nóvember 2010 var eftirfarandi fært til bókar:  „Gámasvæði vegna sorpflokkunar. Leyfi fyrir staðsetningu … Erindi dags. 08.11.2010 frá Bergi Þorra Benjamínssyni f.h. framkvæmdadeildar þar sem hann óskar eftir leyfi til að setja niður gáma til sorpflokkunar á eftirtöldum stöðum á Akureyri.  Samþykki lóðarhafa og leigjenda um staðsetningarnar liggja fyrir.
Á verslunarlóðum:
1) Hrísalundur 5, Samkaup.
2) Byggðavegur 98, Strax.
Á svæði Akureyrarbæjar:
3) Kjarnagata sunnan við Bónus (heimild til staðar í deiliskipulagi).
4) Hólmatún austan leikskóla (heimild til staðar í deiliskipulagi).
Skipulagsnefnd heimilar staðsetningar grenndargáma samkvæmt meðfylgjandi tillögu framkvæmdadeildar til sorpflokkunar á ofangreindum stöðum til eins árs á grundvelli gr. 71.2 í byggingarreglugerð.“

Af hálfu kæranda er bent á að með hinni kærðu samþykkt fari skipulagsnefnd á svig við heimild í gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 um bráðabirgðaleyfi til að setja niður grenndargáma.  Framkvæmd sem þessi sé ótvírætt deiliskipulagsskyld og með samþykktinni sé sveitarfélagið að hliðra sér hjá því að vinna deiliskipulag og þar með sé fest í sessi starfsemi í hverfum bæjarins sem íbúum hafi aldrei verið veitt færi á að tjá sig um.  Með þessu sé gróflega gengið á rétt íbúa.

Af hálfu Akureyrarbæjar er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu samþykktar mótmælt og vísað til þess að í grenndargámunum verði ekki lífrænt sorp og því sé ekki hætta á lyktarmengun frá þeim nema að mjög takmörkuðu leyti.

Ákveðið hafi verið að veita bráðabirgðastöðuleyfi þar sem um tilraunaverkefni sé að ræða en reynslan muni skera úr um hvort staðsetningarnar séu hentugar.  Að því fengnu verði gámastæði fest í deiliskipulagi viðkomandi svæða.  Með vísan til þessa sé því mótmælt að skipulagsnefnd sé með hinni kærðu samþykkt að hliðra sér hjá deiliskipulagsgerð.  

Niðurstaða:  Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta í málinu.  Var þessi regla áréttuð hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005.  Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hin umdeilda samþykkt varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann málatilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að framkvæmdin sé deiliskipulagsskyld og að íbúum hafi aldrei verið veitt færi á að tjá sig um hana.  Þegar litið er þess að væntanleg staðsetning grenndargámanna er fjarri heimili kæranda verður ekki séð að hann eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Hefur kærandi ekki heldur bent á að hann eigi neina slíka hagsmuni af öðrum ástæðum og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

55/2010 Sundlaug Norðfjarðar

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 55/2010, kæra á afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 5. júlí 2010 um aðkomu að sundlauginni á Norðfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. ágúst 2010, er barst nefndinni samdægurs, kærir P, eigandi íbúðar í húsinu að Egilsbraut 9, Neskaupstað, afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 5. júlí 2010 um aðkomu að sundlauginni á Norðfirði. 

Með samþykktu kauptilboði S og B, dags. 24. september 2010, í fasteign kæranda tóku þau við kæruaðild málsins hjá úrskurðarnefndinni. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.  Með bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. desember 2010, gerðu þau jafnframt kröfu um að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu yrðu stöðvaðar. 

Málavextir og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar 27. janúar 2010 var eftirfarandi bókað varðandi aðkomu að sundlauginni á Norðfirði:  „Lögð fram teikning skipulagsfulltrúa dagsett 22. janúar 2010 af tillögu af bílastæðum við sundlaugina á Norðfirði.  Nefndin fór yfir tillöguna og felur skipulagsfulltrúa að setja hana í grenndarkynningu.  Nefndin óskar eftir kostnaðaryfirliti frá umhverfisstjóra vegna fyrri framkvæmda við sundlaugarplanið.“  Að genndarkynningu lokinni var á fundi eigna- skipulags- og umhverfisnefndar 5. júlí 2010 m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Á 39. fundi umhverfis- og skipulagsnefndar samþykkti nefndin að senda tillögu um breytingar við Norðfjarðarsundlaug í grenndarkynningu með vísan í 7. mgr. 43 gr. skipulags- og byggingarlaga.  Grenndarkynningu er lokið og barst ein athugasemd frá Pétri Óskarssyni og Kristínu Brynjarsdóttur.  Nefndin fellst ekki á framkomnar athugasemdir og felur skipulagsfulltrúa að svara þeim.  Afgreiðslu deiliskipulagsins er vísað til bæjarráðs.“ 

Á fundi bæjarráðs 6. júlí s.á. var eftirfarandi bókað varðandi málið:  „Vísað frá eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd vegna afgreiðslu á deiliskipulagi.  Vísað til bæjarstjórnar.“  Á fundi bæjarstjórnar 22. júlí 2010 var bókað varðandi aðkomu að sundlauginni:  „Staðfest af bæjarstjórn með 9 atkvæðum.“ 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að nýbygging við sundlaugina á Norðfirði hafi verið reist án samráðs við næstu nágranna og að hvorki hafi farið fram grenndarkynning né gerð deiliskipulags er heimilað hafi viðbygginguna.  Með viðbyggingunni muni aðkoma að sundlauginni breytast og áformi bæjaryfirvöld nú lagningu vegar mjög nærri lóð kærenda.  Hafi vegurinn í för með sér mikið ónæði og geri fasteign þeirra illseljanlega.

Af hálfu Fjarðabyggðar er viðurkennt að mistök hafi átt sér stað á fyrstu stigum máls þessa og mikill tími farið í að reyna að ná sáttum við kærendur en ekki tekist.  Ekki verði séð að aðkomuvegur að sundlauginni rýri á nokkurn hátt verðmæti húseignarinnar að Egilsbraut 9 enda sé vegurinn vel utan lóðarmarka og alfarið í landi bæjarins.  Aðeins sé um að ræða stæði fyrir 14 bíla en aðalatriðið sé að mikilvægt sé að geta komið tækjum að byggingunni öryggisins vegna.  

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið ákváðu skipulags- og byggingaryfirvöld í Fjarðabyggð að grenndarkynna áform um breytta aðkomu að sundlauginni á Norðfirði og komu kærendur athugasemdum sínum á framfæri við þá fyrirætlan.  Á fundi eigna,- skipulags- og umhverfisnefndar 5. júlí 2010 var annars vegar bókað að nefndin féllist ekki á framkomnar athugasemdir og fæli skipulagsfulltrúa að svara þeim og hins vegar að afgreiðslu deiliskipulagsins væri vísað til bæjarráðs.  Á fundi bæjarráðs 6. júlí s.á. var málinu vísað til bæjarstjórnar, sem á fundi 22. júlí 2010 staðfesti framangreint, en af bókunum þessum verður aðeins ráðið að skipulagsfulltrúa hafi verið falið að svara kærendum og að deiliskipulagi væri vísað til bæjarstjórnar.  Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og verður ekki af málsgögnum ráðið að nein ákvörðun hafi verið tekin af bæjaryfirvöldum um gerð deiliskipulags fyrir svæðið.  Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun, sem bindur enda á meðferð máls, og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

76/2008 Nesjaskógur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2008, kæra á byggingarframkvæmdum við sumarhús á lóð nr. 12 í Nesjaskógi í Grímsnes- og Grafningshreppi, byggingarleyfi vegna sömu lóðar og samþykkt sveitarstjórnar um breytt deiliskipulag svæðisins.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. K og Ö, eigenda sumarhúss á lóð nr. 13 í Nesjaskógi í Grímsnes- og Grafningshreppi, byggingarframkvæmdir við sumarhús á lóð nr. 12 í sama landi.  Með bréfi lögmanns kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl 2009, er gerð krafa um ógildingu annars vegar leyfis til byggingar sumarhúss á lóðinni, sem byggingarfulltrúi veitti á árinu 2003, og hins vegar samþykktar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 7. október 2007 um breytt deiliskipulag í landi Nesja.  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. júní 2008. 

Málavextir og rök:  Í frístundabyggðinni Nesjaskógi í landi Nesja í Grímsnes- og Grafningshreppi er í gildi deiliskipulag frá árinu 1993.  Á skipulagi þessu munu tvívegis hafa verið gerðar breytingar og tók sú seinni gildi með auglýsingu samþykktar sveitarstjórnar þar að lútandi í B-deild Stjórnartíðinda 4. júní 2008.  Fól breytingin í sér heimild til að reisa á svæðinu allt að 250 m2 hús þar sem mænishæð mætti vera allt að 6 m frá aðalgólfi og 7 m frá jörðu. 

Telja kærendur að byggingarframkvæmdir sem átt hafi sér stað á lóð nr. 12 í Nesjaskógi séu ekki í samræmi við gildandi skipulag svæðisins og hús er þar standi sé í andstöðu við skipulag, m.a. hvað varði hæð þess og staðsetningu.  Í júlí 2008 hafi kærendur orðið þess varir að verið væri að byggja skúr norðvestan við húsið, auk mannvirkis suðaustan þess, en samkvæmt samþykktum teikningum sé ekki gert ráð fyrir þessum mannvirkjum á lóðinni. 

Í síðara bréfi lögmanns kærenda til úrskurðarnefndarinnar er greint frá því að skipulags- og byggingarnefnd hafi, að kröfu kærenda, staðfest ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun byggingarframkvæmda á lóðinni. 

Kærendur halda því fram að meira en 7 m séu frá gólfplötu og upp í mæni hússins og benda á að hámarkshæð samkvæmt skipulagsskilmálum, eftir breytingu þeirra á árinu 2008, sé 7 m frá jörðu.  Húsið hafi hins vegar verið byggt fyrir þann tíma og því örugglega ekki í samræmi við skilmála.  Hafi húsið verið meira en 7 m á hæð þegar hinir breyttu skilmálar hafi öðlast gildi sé deiliskipulagsbreytingin ólögmæt með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til byggingarfulltrúa, dags. 20. ágúst 2008, var óskað eftir gögnum er málið vörðuðu og hefur sú beiðni verið ítrekuð í tölvupósti en engin gögn hafi borist.  Eins og atvikum er háttað þykir það þó ekki standa í vegi fyrir því að málið verði tekið til úrlausnar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kveður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurði um ágreiningsmál um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar, sbr. 5. mgr. fyrrnefnds ákvæðis.  Í sömu málsgrein er áréttað að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga sæti kæru til nefndarinnar. 

Byggingarleyfi vegna sumarhúss á lóð nr. 12 í Nesjaskógi var veitt á árinu 2003 og samþykkt sveitarstjórnar um breytt deiliskipulag svæðisins öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. júní 2008.  Var kærufestur vegna þessara ákvarðana liðinn þegar erindi kærenda um þær bárust úrskurðarnefndinni og ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá hvað þær varðar.  Þá liggur ekki fyrir að framkvæmdir við byggingu skúrs og annars mannvirkis á lóð nr. 12 í Nesjaskógi, sem kærðar eru, hafi stuðst við stjórnvaldsákvörðun er sæti kæru og verður þeim þætti kærunnar því einnig vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

39/2008 MR reitur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 39/2008, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. apríl 2008 um deiliskipulag reits Menntaskólans í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2008, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl., f.h. K, þáverandi eiganda Þingholtsstrætis 14 í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. apríl 2008 að samþykkja deiliskipulag fyrir reit Menntaskólans í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. janúar 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi reits 1.180.0, Menntaskólareits.  Var málinu frestað og lagt fyrir skipulagshönnuð að leggja fram umsagnir Húsafriðunarnefndar ríkisins og Borgarminjavarðar vegna hússins að Bókhlöðustíg 7.  Skipulagsráð samþykkti síðan á fundi sínum hinn 29. júní 2005 að auglýsa skipulagstillöguna en þá lá fyrir umsögn Húsafriðunarnefndar ríkisins, dags. 31. janúar s.á.  Að lokinni auglýsingu tillögunnar samþykkti ráðið tillöguna hinn 31. ágúst 2005 með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð Reykjavíkur, en engar athugasemdir höfðu borist á kynningartíma hennar. 

Málið var á ný tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. janúar 2008 og lagður fram nýr skipulagsuppdráttur og greinargerð með breytingum frá fyrri tillögu, dags. 3. janúar 2008.  Skipulagsfulltrúi vísaði málinu til skipulagsráðs.  Samþykkti ráðið á fundi sínum 9. janúar 2008 að auglýsa tillöguna að nýju og vísaði málinu til borgarráðs.  Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 2. apríl 2008 þar sem lögð var fram umsögn Húsafriðunarnefndar ríkisins, dags. 1. desember 2005.  Athugasemdir við tillöguna höfðu borist frá nágranna að Þingholtsstræti 12.  Skipulagsráð samþykkti hina auglýstu skipulagstillögu, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 2. apríl 2008.  Borgarráð samþykkti tillöguna á fundi sínum hinn 3. apríl 2008.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2008. 

Af hálfu kæranda er á því byggt að þétting byggðar á svæðinu og hin mikla uppbygging sem felist í hinni kærðu ákvörðun eigi sér ekki stoð í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og ekki sé tekið nægilegt mið af íbúðarbyggð þeirri sem fyrir sé.  Því sé mótmælt að ákvörðunin sé aðeins lítillega breytt frá tillögunni sem lögð hafi verið fram á árinu 2005, eins og borgaryfirvöld haldi fram.  Vikið sé frá lágmarkskröfum um fjölda bílastæða án þess að sýnt sé fram á að bílastæðaþörfinni verði mætt með öðrum hætti.  Leita hefði þurft eftir samráði við Borgarminjavörð og Húsafriðunarnefnd vegna hinnar breyttu skipulagstillögu, en ekki verði séð að það hafi verið gert.  Ekkert tillit sé tekið til hæðar á lóð kæranda við staðsetningu íþróttahúss menntaskólans svo nærri lóðamörkum á bak við hús hans.  Jarðhæð Þingholtsstrætis 14 verði eins og í gryfju miðað við íþróttahúsið, sem virki eins og langur fangelsisveggur bak við hús kæranda.  Birtuskilyrði muni skerðast verulega og skuggavarp verði mikið.  Loks hafi ekki verið hugað að því hvort unnt sé að koma fyrir byggingum neðanjarðar á reitnum í ljósi þess að í nágrenninu standi gömul hús og óvíst um hvort fasteign kæranda verði ekki fyrir tjóni við slíkt jarðrask. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Sé sú krafa á því byggð að kærandi í máli þessu eigi enga lögvarða hagsmuni lengur af því að fá skorið úr um gildi hins kærða deiliskipulags.  Í ljós hafi komið að hann sé ekki lengur eigandi Þingholtsstrætis 14, en málatilbúnaður kæranda hafi einkum lotið að því að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum hans sem eiganda þeirrar fasteignar.  Þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fyrirliggjandi upplýsingar úr veðmálabókum beri með sér að Íslandsbanki hafi eignast Þingholtsstræti 14 á nauðungarsölu hinn 12. apríl 2010 og hafi síðan selt núverandi eiganda fasteignina tveimur dögum síðar. 

Kærandi gerir þá athugasemd við framkomna frávísunarkröfu að hann eigi töluverðra hagsmuna að gæta við úrlausn máls þessa.  Hann hafi selt fasteign sína en þeim kaupum hafi verið rift vegna hins kærða skipulags, sem aldrei hafi verið kynnt kæranda á sínum tíma, og í kjölfarið hafi hann tapað eign sinni.  Kærandi hafi beðið úrskurðar í máli þessu og ítrekað hringt og sent tölvupóst til úrskurðarnefndarinnar með fyrirspurnum um framvindu málsins og hvort verið væri að bíða eftir fyrningu þess.  Hann hafi fengið þau svör að málið fyrntist ekki í meðförum nefndarinnar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er aðild að kærumálum, sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, bundin við þá sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni hinni kærðu ákvörðun.  Er það í samræmi við meginreglur íslensks stjórnarfarsréttar að kæruaðild í kærumálum innan stjórnsýslunnar eigi þeir einir sem eiga einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi kærða ákvörðun. 

Samkvæmt fyrirliggjandi veðbandayfirliti fyrir fasteignina að Þingholtsstræti 14 í Reykjavík fór hún úr eigu kæranda við útgáfu nauðungarsöluafsals til Íslandsbanka hf. hinn 12. apríl 2010.  Eignin var síðan seld þriðja aðila með kaupsamningi, dags. 16. apríl sama ár.  Snertir hin kærða deiliskipulagsákvörðun því ekki lengur lögvarin réttindi kæranda sem fasteignareiganda á umræddu svæði, en ákvörðun um mögulegan rétt til skaðabóta vegna gildistöku skipulagsins á ekki undir úrskurðarnefndina. 

Með hliðsjón af framangreindu á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun, en umbeðin málsgögn bárust ekki úrskurðarnefndinni frá borgaryfirvöldum fyrr en 7. september 2010. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

50/2010 Vogar, byggingarsvæði

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2010, erindi J vegna moldarfoks frá byggingarsvæði í Vogum á Vatnsleysuströnd. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2010, er barst nefndinni 28. sama mánaðar, framsendir úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir til úrskurðarnefndarinnar ódagsett erindi J, þar sem hann fer fram á að „…fá endanlega niðurstöðu um hvort heilbrigðisfulltrúa Suðurnesja sé heimilt að hafna rannsókn á meintri mengun er kvartað er yfir í neðangreindum póstum …“

Málavextir og rök:  Hinn 14. maí 2010 barst úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir erindi J vegna moldarfoks frá byggingarsvæði í Vogum á Vatnsleysuströnd og fylgdu því tölvupóstsamskipti hans við heilbrigðisfulltrúa Suðurnesja og skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga auk fleiri aðila.  Verður af þeim ráðið að Jakob hefur ítrekað kvartað yfir moldarfoki frá byggingarsvæði í Vogum og krafist aðgerða af hálfu heilbrigðisfulltrúa og byggingarfulltrúa til að koma í veg fyrir það. 

Í tölvupósti til kæranda hinn 16. apríl 2010 svaraði framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja erindi hans og segir þar að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki valdheimildir til að taka á málinu.  Byggingarlóðir og moldrok af þeim sé alfarið í höndum byggingarfulltrúa og sé kæranda bent á að snúa sér þangað.  Virðist kærandi ekki hafa viljað una þessari niðurstöðu heilbrigðiseftirlitsins og krafðist hann þess að úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnar skæri úr um það hvort heilbrigðisfulltrúa væri heimilt að hafna rannsókn á meintri mengun.  Var það erindi framsent úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir. 

Jafnframt liggur fyrir að kærandi sendi skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga tölvubréf hinn 25. apríl 2010 og kvartaði yfir moldarfokinu.  Svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi erindinu með tölvubréfi hinn 29. apríl 2010 þar sem tekið var fram að byggingarfulltrúa og stjórnendum sveitarfélagsins væri ljós sá vandi sem fælist í foki lausra jarðefna af umræddu svæði og hafi verið lagt fyrir eiganda landsins að grípa til viðeigandi aðgerða til að hefta fokið.  Lítill árangur hafi verið af aðgerðum hans en sveitarfélagið muni hefja vinnu við uppgræðslu þeirra svæða sem rofin hafi verið og sé þess vænst að við það dragi úr fokinu, en allt taki þetta tíma.  Kærandi svaraði tölvubréfi þessu hinn 30. apríl 2010 og krafðist tafarlausra úrbóta. 

Skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Voga hefur upplýst að ekki hafi verið tekin nein stjórnvaldsákvörðun í tilefni tölvupósta kæranda vegna moldarfoks frá Grænuborgarsvæði.  Ekki liggi heldur fyrir neitt óafgreitt erindi vegna þess og hafi erindi kæranda verið svarað á fullnægjandi hátt. 

—————–

Málsaðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar. 

Niðurstaða:  Erindi það sem úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir framsendi úrskurðarnefndinni til úrlausnar laut að því að fá skorið úr um réttmæti þeirrar afstöðu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að taka erindi kæranda ekki til meðferðar.  Að því gefnu að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða þá átti það úrlausnarefni ekki undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Tók erindið ekki til neinnar ákvörðun á grundvelli skipulags- og byggingarlaga og verður hinu framsenda erindi því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Í máli þessu eru jafnframt áhöld um valdmörk stjórnvalda á lægra stjórnsýslustigi.  Þau álitaefni koma hins vegar ekki úrlausnar úrskurðarnefndarinnar, enda liggur ekki fyrir í málinu kæranleg ákvörðun, tekin á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, er borin verði undir úrskurðarnefndina.  Verður kærumáli þessu því vísað í heild frá nefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

49/2008 Höfðavegur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2008, kæra annars vegar á samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík og hins vegar samþykkt hennar frá 20. maí 2008 um breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg á Húsavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. júlí 2008, er barst úrskurðarnefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Ingvar Þóroddsson hdl., f.h. S, Laugarbrekku 3, Húsavík og H, Laugarbrekku 5, Húsavík, annars vegar samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík og hins vegar samþykkt hennar frá 20. maí 2008 um breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Auglýsingar um gildistöku hinna kærðu ákvarðana birtust í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2008 og 10. júlí s.á. 

H lést hinn 29. ágúst 2009 en eftirlifandi eiginkona hans, J, Höfðabrekku 5, Húsavík, hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi og tekur hún við aðild málsins vegna dánarbúsins. 

Af hálfu kærenda er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana. 

Málavextir:  Göturnar Höfðavegur og Laugarbrekka eru hluti gamalgróinnar íbúðarbyggðar á Húsavík.  Á milli þessara gatna er opið óbyggt svæði, sem að hluta er nýtt undir leiksvæði, m.a. sparkvöll.  Eru kærendur eigendur húsa við Laugarbrekku og snúa baklóðir þeirra að svæðinu. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 19. apríl 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Höfðavegar, þar sem m.a. var gert ráð fyrir tveggja hæða parhúsum á lóðum nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Í sömu auglýsingu var kynnt tillaga að breyttu aðalskipulagi og m.a. tekið fram að opið svæði til sérstakra nota milli Laugarbrekku og Höfðavegar stækkaði til vesturs, en austurhluti þess breyttist í íbúðarsvæði þar sem gert væri ráð fyrir íbúðarlóð, þ.e. Höfðavegi 6a og 6b.  Öðlaðist samþykkt um breytt aðalskipulag gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. desember 2006. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 31. júlí 2006 var rætt um fyrrgreinda deiliskipulagstillögu en engar athugasemdir bárust er hún var auglýst til kynningar.  Lagði nefndin til við sveitarstjórn að tillagan yrði samþykkt.  Á fundi sveitarstjórnar 25. september 2006 var framangreint staðfest.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 5. september 2007 var samþykkt að byggingarfulltrúi gerði nauðsynlegar textaleiðréttingar á deiliskipulagsuppdrætti og sendi Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 9. október 2007 var tekið fyrir erindi lóðarhafa Höfðavegar 6a og 6b, þar sem hann óskaði eftir umsögn nefndarinnar um hvort leyfilegt yrði að byggja á lóðunum fimm til sex einstaklingsíbúðir.  Tók nefndin jákvætt í erindið, með þeim fyrirvara að slík bygging væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Á fundi nefndarinnar 13. nóvember 2007 var ákveðið að grenndarkynna framangreint og bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir vegna þessa. 

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til Skipulagsstofnunar, dags. 30. nóvember 2007, óskaði hann eftir heimild stofnunarinnar til að auglýsa gildistöku deiliskipulags, sem hefði verið samþykkt í sveitarstjórn 25. september 2006 og birtist auglýsing þess efnis 7. janúar 2008. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 15. janúar 2008 voru lagðar fram athugasemdir er borist höfðu er grenndarkynnt var tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg um fjölgun íbúða á lóðunum.  Á fundinum ákvað nefndin að falla frá tillögunni í ljósi athugasemdanna og var formanni hennar og byggingarfulltrúa falið að ræða við fulltrúa nágranna og lóðahafa um umfang bygginga á lóðinni. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. febrúar 2008 var m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Sótt er um byggingarleyfi fyrir 6 smáíbúða húsi á einni hæð á lóðinni.  Húsið er 351,4 m² að grunnfleti og 1.125 m3 að rúmmáli og stendur þar af leiðandi talsvert útyfir byggingarreit.  Húsið er teiknað af Hauki Haraldssyni tæknifræðingi hjá AVH.  Skv. gildandi deiliskipulagi Höfðavegar er heimilt að byggja tveggja hæða hús allt að 280 m² að grunnfleti á lóðinni með hæð allt að 7,5 m yfir gólfplötu.  Nágrannar lóðarinnar hafa nú mótmælt svo háu húsi á lóðinni.  Skipulags- og byggingarnefnd telur að lóðarhafi bjóði raunhæfa sáttaleið með því að láta teikna á lóðina einnar hæðar hús með mestu hæð 4,7 m gegn því að byggingarreitur verði rýmkaður um 25,5%.  Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar samþykkir að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagsuppdrætti og kynna skv. ákvæðum skipulags- og byggingarlaga.“  Var framangreint staðfest á fundi sveitarstjórnar 19. febrúar 2008 og tillagan auglýst.  Með bréfum kærenda, dags. 5. og 6. apríl 2008, komu þeir á framfæri athugasemdum sínum vegna tillögunnar. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 29. apríl 2008 var fjallað um framkomnar athugasemdir og m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar telur: a1) Nefndin telur að skipulagsbreytingin feli ekki í sér aukna skuggamyndun á lóðum við Laugarbrekku þar sem jafnframt því að útvíkka byggingarreitinn var leyfileg hæð húss lækkuð úr 7,5 m í 5,0 metra.  Ekki verður fallist á að 5 m hátt hús sem stendur 3,5 m frá lóðarmörkum geti valdið óhóflegri skuggamyndum á næstu lóðum.  a2) Ekki er lagt til í breytingartillögunni að lóðarmörkum verði breytt og því ekki um að ræða skerðingu á leiksvæði frá gildandi deiliskipulagi.  b1) Nýtingarhlutfall upp á 40% getur ekki talist óhóflegt, sérstaklega í ljósi þess að gert er ráð fyrir fullnægjandi bílastæðafjölda utan lóðar.  Heimilað nýtingarhlutfall skv. gildandi deiliskipulagi er 60% og því í raun verið að minnka byggingarrétt á lóðinni frá gildandi deiliskipulagi.  b2) Nefndin telur að umrædd lóð rúmi það mannvirki sem gert er ráð fyrir í skipulagstillögunni sbr. b1).  b3) Nefndin telur að skipulagsbreytingin feli ekki í sér aukna skuggamyndun á lóðum við Laugarbrekku þar sem jafnframt því að útvíkka byggingarreitinn var leyfileg hæð húss lækkuð úr 7,5 m í 5,0 metra.  Ekki verður fallist á að 5 m hátt hús sem stendur 3,5 m frá lóðarmörkum geti valdið óhóflegri skuggamyndum á næstu lóðum.  b4) Við gerð núverandi aðalskipulags var leitast við að takmarka umfang þéttbýlisins á Húsavík, m.a. með þéttingu byggðar.  Lóðin sem stofnað hefur verið til að Höfðavegi 6 er liður í þeirri þéttingu.  Skipulags- og byggingarnefnd telur ekki tilefni til að falla frá þeirri hugmynd að nýta svæðið fyrir húsbyggingu, enda er skv. skipulagstillögunni skilið eftir umtalsvert óbyggt svæði milli Höfðavegar og Laugarbrekku.  Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt eins og hún var kynnt.“  Sveitarstjórn samþykkti tillögu að breyttu deiliskiplagi Höfðavegar á fundi 20. maí 2008 og 10. júlí s.á. birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. 

Hafa kærendur skotið samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að líta beri á alla málsmeðferð við gerð deiliskipulags Höfðavegar sem aðdraganda að einni ákvörðun varðandi lóðina á opna svæðinu milli Höfðavegar og Laugarbrekku.  Þeir telji að skipulagsferlið hafi verið ein heild frá því að fyrst hafi verið kynntar hugmyndir um þéttingu byggðar á svæðinu og því hafi ekki lokið fyrr en auglýsing birtist í B-deild Stjórnartíðinda 10. júlí 2008. 

Áður en deiliskipulagið, sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn 18. september 2007, hafi formlega tekið gildi 7. janúar 2008 hafi sveitarfélagið tekið ákvörðun um að breyta þessu sama deiliskipulagi vegna austurhluta svæðisins, norðan Höfðavegar.  Hinn 13. nóvember 2007 hafi skipulags- og byggingarnefnd tekið ákvörðun um að grenndarkynna fyrirhugaða fimm íbúða byggingu á tveimur hæðum, sem hafi verið í andstöðu við samþykkt deiliskipulag.  Sveitarstjórn hafi samþykkt þessa ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar á fundi 27. nóvember 2007.  Telji kærendur að með þessu hafi sveitarfélagið í raun afturkallað ákvörðun um deiliskipulagið og auglýsing deiliskipulagsins 7. janúar 2008 hafi verið markleysa, að minnsta kosti vegna byggingarlóða 6a og 6b, þar sem þá þegar hafi verið búið að falla frá fyrri skipulagshugmyndum um þetta tiltekna svæði.  Með vísan til þessa geti úrskurðarnefndin endurskoðað viðkomandi ákvarðanir sveitarfélagsins, sbr. niðurlag 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þannig að upphaf kærufrests gagnvart öllum ákvörðunum í ferlinu beri að miða við 10. júlí 2008, þegar auglýsingin hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Þá sé einnig á því byggt að málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt þegar upphaflega deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst.  Einkum sé byggt á því að í auglýsingu, sem birst hafi í Lögbirtingarblaði og öðrum fjölmiðlum, hafi í engu verið kynnt efnisatriði deiliskipulagstillögunnar.  Þetta hafi verið í beinni andstöðu við 1. mgr. gr. 6.2.3 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, þar sem segi að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt.  Sérstaklega hafi verið nauðsynlegt að geta um efni tillögunnar í auglýsingunni, og þar með kynna hana almenningi, þar sem hún hafi gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á viðkomandi byggingarreit miðað við það sem áður hafi komið fram.  Á kynningarfundi árið 2005 hafi eingöngu verið rætt um einbýlis- eða parhús á einni hæð.  Tillagan hafi hins vegar gert ráð fyrir parhúsi á tveimur hæðum.  Á það sé einnig að líta að deiliskipulagstillagan hafi verið í beinni andstöðu við aðalskipulagstillöguna, þar sem hún hafi gert ráð fyrir einni lóð á svæðinu, en deiliskipulagstillaga hafi gert ráð fyrir tveimur lóðum, Höfðavegi 6a og 6b.  Af auglýsingunni verði ekki annað ráðið en að ekkert deiliskipulag hafi verið í gildi um svæðið þegar hafist hafi verið handa við gerð tillögunnar sem auglýst hafi 15. júní 2006, sbr. vísun til 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Sveitarfélaginu hafi verið skylt að kynna hagsmunaaðilum sérstaklega framkomna tillögu að nýju deiliskipulagi, sbr. ákvæði í gr. 3.2.1 í skipulagsreglugerð, ekki síst þar sem búið hafi verið að kynna aðra útfærslu varðandi byggingarmagn á opna svæðinu milli Höfðavegar og Laugarbrekku.  Enn meiri ástæða hafi verið til að kynna hagsmunaaðilum þessa útfærslu þar sem efnisatriða hennar hafi í engu verið getið í opinberum auglýsingum um hið nýja skipulag.  Í þessu sambandi sé einnig vísað til meginreglna í stjórnsýslurétti um rannsóknarskyldu stjórnvalds og skyldu til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt, sbr. 10., 13, og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Um rannsóknarskyldu við þessar aðstæður sé einnig vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 7. september 2007 í máli nr. 74/2006. 

Þá sé því haldið fram að sveitarfélagið hafi ekki farið að réttum málsmeðferðarreglum skv. 1. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga, þegar breytingartillagan, sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn 20. maí 2008, hafi verið undirbúin.  Kærendur telji að tillagan hafi hvorki verið samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd né sveitarstjórn í endanlegri gerð áður en hún hafi verið auglýst.  Hins vegar hafi nefndin samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gera tillögu að breyttu deiliskipulagi og kynna er umsókn um byggingarleyfi hefði borist.  Þessi samþykkt skipulags- og byggingarnefndar hafi verið afgreidd í sveitarstjórn 19. febrúar 2008 án þess að ákveðin breytingartillaga hafi legið fyrir, eftir því sem best verði séð af fundargerð. 

Með hinum kærðu ákvörðunum sé gengið svo gegn grenndarhagsmunum kærenda að það varði ógildingu, þar sem farið sé á svig við þær meginreglur sem settar séu í 4. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð.  Óþægindi, s.s. skuggavarp og útsýnisskerðing, fari út fyrir þau mörk sem húseigendur megi búast við í grónum hverfum.  Verið sé að skerða með víðtækum hætti opið svæði, sem liggi að lóðum kærenda, og takmarki það leik- og frístundasvæði íbúa í grenndinni.  Með skipulagsákvörðuninni sé verið að ákveða húsagerð að á lóðinni Höfðavegi 6, sem ekki sé að finna annars staðar í hverfinu.  Ákvörðunin sé í beinni andstöðu við það sem komi fram í greinargerð tillögunnar, dags. 14. febrúar 2008, þar sem segi að stefnt sé að hverfisvernd skipulagssvæðisins að hluta, með vísun til gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð. 

Sveitarfélagið hafi ekki sinnti rannsóknarskyldu sinni varðandi ábendingar kærenda um að hin fyrirhugaða bygging muni varpa skugga á hús og lóðir þeirra.  Engra gagna virðist hafa verið aflað til að rökstyðja það álit skipulags- og byggingarnefndar að skuggavarp af fyrirhugaðri byggingu skipti ekki máli fyrir kærendur.  Ekki sé nægilegt að líta eingöngu til hæðar fyrirhugaðs húss að Höfðavegi 6 þegar skuggavarp gagnvart nágrönnum sé skoðað heldur verði að hafa í huga að hús kærenda standi neðar í landi.  Um skyldu til að upplýsa mál sé vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga.  Kærendur hafi skilning á þéttingu byggðar en þeir bendi jafnframt á að engin skipulagsleg rök hafi verið sett fram í þessu máli af hálfu bæjarfélagsins sem réttlæti að byggja á svo stórum reit með þeim hættu sem ákveðið hafi verið með hinni kærðu ákvörðun, er tekið hafi gildi 10. júlí 2008. 

Málsrök Norðurþings:  Af hálfu Norðurþings er vísað til þess að sveitarstjórn hafi samþykkt fullbúið deiliskipulag að Höfðavegi á fundi 20. mars 2007.  Gerðar hafi verið fáeinar prentvilluleiðréttingar á skipulaginu sem engu hafi breytt um innihald skipulagstillögunnar og hafi þær verið samþykktar á fundi sveitarstjórnar 18. september 2008.  Því miður hafi dregist hjá embættismönnum sveitarfélagsins að auglýsa gildistöku deiliskipulagsins en þessu skipulagsferli hafi endanlega lokið með auglýsingu um gildistöku í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2008 eftir yfirferð Skipulagsstofnunar á skipulagsferlinu. 

Vissulega sé ofangreint ferli ekki hnökralaust.  Það að gildistaka samþykkts deiliskipulags hafi ekki verið auglýst fljótlega eftir fund sveitarstjórnar 20. mars 2007 verði að skrifast á embættismenn sveitarfélagsins og skýringa þar að lútandi líklegast að leita í þeim mannaskiptum í embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sem átt hafi sér stað á tímabilinu.  Þrátt fyrir þetta langa skipulagsferli hafi engar formlegar athugasemdir borist við byggingarmagn á lóðinni að Höfðavegi 6 skv. þessu skipulagi fyrr en með kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júlí 2008, en kærufrestur hafi þá löngu verið liðinn, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Sveitarstjórn hafi falið skipulags- og byggingarfulltrúa að grenndarkynna breytingu á skipulagi vegna byggingar tveggja hæða fjölbýlishúss á lóðinni í nóvember 2007.  Vegna mótmæla nágranna hafi sveitarstjórn alfarið fallið frá breytingunni í janúar 2008.  Ekki sé rétt sem fram komi í kæru að sveitarstjórn hafi verið búin að taka ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi áður en auglýsing um gildistöku fyrra skipulags hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda heldur hafi sveitarstjórn aðeins verið að kynna tillögu að breytingu deiliskipulags sem hún hafi svo algerlega fallið frá þegar athugasemdir hafi borist frá nágrönnum.  Engar forsendur séu fyrir því að álykta sem svo að auglýsing um gildistöku fyrra skipulags sé markleysa, enda stjórnvaldsákvörðun sem að baki hennar liggi tekin löngu áður en grenndarkynning hafi farið fram og hún aldrei afturkölluð. 

Í undirbúningsferli að breyttu aðalskipulagi Húsavíkur hafi vissulega verið kynnt þétting byggðar, m.a. með nýtingu umrædds svæðis við Höfðaveg.  Þar verði að teljast fremur ósennilegt að skipulagsyfirvöld hafi kynnt hæðarmörk húss/húsa á svæðinu enda hafi engin ákvörðun þar að lútandi verið tekin á þeim tímapunkti.  Engar athugasemdir hafi borist við nýtingu lóðarinnar að Höfðavegi 6 við kynningu á tillögu að breyttu aðalskipulagi.  Það hefði ekki þurft að koma kærendum á óvart að gert væri ráð fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni í þeirri deiliskipulagstillögu sem kynnt hafi verið í júní 2006, enda nánast öll hús í umhverfinu, þ.m.t. þeirra húseignir, á tveimur hæðum eða aðalhæð auk hárra rishæða. 

Því sé alfarið hafnað að útsýnisskerðing og skuggavarp fari yfir þau mörk sem húseigendur megi búast við í grónum hverfum, hvort sem litið sé til fyrra skipulags né breytts deiliskipulags.  Fyrra skipulag hafi heimilað allt að 7,5 m háa byggingu á lóðinni sem sé alls ekki í ósamræmi við önnur hús á svæðinu og geti á engan hátt talist yfirþyrmandi.  T.d. séu hús beggja kærenda um 7,5 m há.  Nýlega samþykkt deiliskipulagsbreyting heimili allt að 5 m hátt hús, 3,5 m frá lóðarmörkum kærenda, og sé varla hægt að skilgreina mikið lágreistari byggingu í deiliskipulagi.  Lítill og nokkuð jafn landhalli, um 1:20, sé á svæðinu milli umræddrar lóðar og íbúða kærenda þannig að aðalgólf íbúða beggja kærenda séu nærri 1,0 m neðar í landi en fyrirhugaður gólfkóti nýs húss.  Íbúðir kærenda séu næst í 19,5 m fjarlægð frá byggingarreit nýju lóðarinnar. 

Málflutningi kærenda um að rannsóknarskyldu sveitarfélagsins hafi ekki verið fullnægt vegna mögulegrar skuggamyndunar inn á lóðum þeirra sé hafnað.  Ljóst sé að 5 m hátt mannvirki sem standi í 3,5 m fjarlægð, sunnan og suðvestan lóða kærenda, valdi litlu skuggavarpi á lóðir þeirra nema þegar sól sé allra lægst á loft, hvað þá á íbúðir í um og yfir 20 m fjarlægð, þótt þær standi metranum neðar í landi.  Í því samhengi megi geta þess að kærendur hafi nærri sínum lóðarmörkum að nýju lóðinni röð hávaxinna trjáa, á að giska 8-15 m hárra, sem séu mun líklegri til að valda skuggamyndun á lóðum þeirra en fyrirhugað hús. 

Ekki sé fallist á með kærendum að með hinum kærðu ákvörðunum sé skert með víðtækum hætti opið svæði sem liggi að lóðum þeirra sem takmarki leik- og frístundasvæði íbúa í grenndinni.  Ákvörðun um skerðingu hafi verið tekin með samþykkt Aðalskipulags Húsavíkurbæjar 2005-2025, sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn Norðurþings árið 2006. 

Því sé hafnað að ekki hafi verið farið að málsmeðferðarreglum skipulags- og byggingarlaga.  Bæði skipulags- og byggingarnefnd, svo og sveitarstjórn, hafi verið fullkunnugt um hvað hafi falist í þeirri deiliskipulagsbreytingu sem ákveðið hafi verið að kynna á fundum nefndanna 12. og 19. febrúar 2007, þó svo hinn endanlegi uppdráttur hafi ekki verið tilbúinn fyrr en 21. febrúar.  Um það hafi ekki verið efast fyrr en með kæru í máli þessu.  Ekki komi fram í skipulags- og byggingarlögum að sveitarstjórn skuli hafa hina endanlega útgáfu deiliskipulagstillögu í höndum þegar ákvörðun sé tekin um kynningu og telja verði nóg að nefndarfulltrúar hafi haft aðgang að fullnægjandi gögnum til ákvarðanatökunnar. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar deilt um gildi samþykktar sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík og hins vegar samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 20. maí 2008 um breytingu þess deiliskipulags, vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Auglýsingar um gildistöku hinna kærðu ákvarðana birtust í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar og 10. júlí 2008. 

Eins og framan er rakið var samþykkt á árinu 2006 að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi Höfðavegar, þar sem m.a. var gert ráð fyrir tveggja hæða parhúsum á lóðum nr. 6a og 6b við Höfðaveg.  Í sömu auglýsingu var kynnt tillaga að breyttu aðalskipulagi og tekið m.a. fram að opið svæði til sérstakra nota milli Laugarbrekku og Höfðavegar stækkaði til vesturs, en austurhluti þess breyttist í íbúðarsvæði þar sem gert væri ráð fyrir íbúðarlóð, þ.e. Höfðavegi 6a og 6b.  Öðlaðist samþykkt um breytt aðalskipulag gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. desember 2006 en samþykkt um nýtt deiliskipulag Höfðavegar öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2008. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta ákvarðanir sveitarfélaga, sem þar er getið, kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu ákvörðunar, sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu svo sem er í hinu kærða tilviki.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 24. júlí 2008, eða rúmum fjórum mánuðum eftir lok kærufrests, og ber því að vísa þessum hluta málsins frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ákvörðun sveitarstjórnar um breytingar á nýlega samþykktu deiliskipulagi Höfðavegar fól m.a. í sér að í stað tveggja hæða parhúsa á lóðunum nr. 6a og 6b við Höfðabraut voru lóðirnar sameinaðar í eina lóð, Höfðaveg nr. 6, þar sem heimilt yrði að byggja eitt íbúðarhús með fimm íbúðum á einni hæð.  Hámarkshæð hússins yrði 5,0 m yfir gólfkóta og nýtingarhlutfall 0,4. 

Tillaga að deiliskipulagsbreytingunni var auglýst og málsmeðferð hagað í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kærendur komu athugasemdum á framfæri og þeim var svarað af skipulagsyfirvöldum.  Ákvörðun bæjarstjórnar um hið breytta skipulag hlaut lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997 og gerði stofnunin ekki athugasemdir við að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Öðlaðist hún gildi með auglýsingu hinn 10. júlí 2008.  Verður hvorki séð að neinir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins er ógildingu gætu varðað né að með ákvörðuninni hafi verið gengið gegn lögvörðum rétti kærenda, enda var með breyttu aðalskipulagi Húsavíkur tekin ákvörðun um breytta landnotkun svæðis þess er um ræðir.  Verður því ekki fallist á kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Norðurþings frá 25. september 2006 um deiliskipulag Höfðavegar á Húsavík. 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings frá 20. maí 2008 um breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 6a og 6b við Höfðaveg. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________   _____________________________
Ásgeir Magnússon                                Þorsteinn Þorsteinsson

53/2010 Aðalskipulag Akureyrar

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2010, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kæra E og S, Lerkilundi 24 á Akureyri, samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018, er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Kærendur krefjast þess að hætt verði við tengingu Brálundar við Miðhúsabraut og að lagt verði fyrir Akureyrarbæ að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að sá hluti aðalskipulagsins sem varðar tenginguna verði felldur úr gildi. 

Málsatvik:  Í hinni umdeildu aðalskipulagsbreytingu fólst meðal annars að gerð var nánari grein fyrir helstu tengingum innan gatnakerfis Akureyrar við stofn- og tengibrautir.  Þar á meðal var ákvörðun um að Brálundur yrði tengdur inn á Miðhúsabraut og er það sú breyting sem kærendur telja raska lögvörðum hagsmunum sínum.

Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 12. maí 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 18. sama mánaðar.  Umhverfisráðherra staðfesti breytinguna á aðalskipulaginu hinn 10. júní 2010 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júlí 2010. 

Ekki þótti tilefni til að leita eftir áliti Akureyrarbæjar í málinu. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem sæta slíkri staðfestingu ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

3/2009 Bakkasmári

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2009, kæra á synjun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. desember 2008 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 16 við Bakkasmára. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. janúar 2009, er barst nefndinni samdægurs, kærir H, Bakkasmára 16 í Kópavogi, synjun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. desember 2008 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi vegna stækkunar húss á lóðinni nr. 16 við Bakkasmára.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Erindi kæranda varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðar nr. 16 við Bakkasmára, dags. 10. janúar 2008, var lagt fram í skipulagsnefnd hinn 15. janúar 2008.  Fyrirhuguð breyting fól í sér heimild til byggingar bílgeymslu og glerskála út frá eldhúsi.  Á fundi nefndarinnar 5. febrúar 2008 var skipulagsstjóra falið að kanna afstöðu íbúa hverfisins til breytinganna skv. tillögunni.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. júní 2008 var erindið lagt fram að nýju og samþykkti nefndin að kærandi léti vinna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 16 við Bakkasmára.  Var deiliskipulagstillaga lögð fram hinn 1. júlí 2008 en skipulagsnefnd óskaði þá eftir ítarlegri gögnum.  Á fundi nefndarinnar hinn 26. ágúst 2008 voru umbeðin gögn lögð fram og samþykkti nefndin að tillagan yrði auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var tillögunni vísað til afgreiðslu bæjarráðs. 

Á fundi bæjarráðs 28. ágúst 2008 var samþykkt að tillagan yrði auglýst og var hún til kynningar frá 30. september til 28. október, með athugasemdafresti til 11. nóvember 2008.  Ein athugasemd barst.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 18. nóvember 2008 var bæjarskipulagi falið að taka saman umsögn varðandi innsenda athugasemd.  Hinn 16. desember hafnaði skipulagsnefnd loks erindi kæranda á grundvelli umsagnar bæjarskipulags, dags. 16. desember 2008.  Bréf þess efnis var sent kæranda hinn 22. desember 2008. 

Kærandi telur að athugasemd eins aðila af 51, sem grenndarkynning vegna fyrirhugaðra breytinga hafi náð til, eigi ekki að koma í veg fyrir breytinguna.  Lög um skipulags- og byggingarmál geri ekki ráð fyrir að í grenndarkynningu felist neitunarvald.  Einnig telji kærandi að stærð bílgeymslu hafi ekki áhrif á hvort húseigandi stundi sjálfstæða atvinnustarfssemi eða ekki. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að synjun skipulagsnefndar sé byggð á umsögn skipulags- og umhverfissviðs bæjarins frá 16. desember vegna athugasemdar sem borist hafi við grenndarkynningu.  Kópavogsbær telji afgreiðslu bæjarins á erindi kæranda bæði formlega og efnislega rétta og geri þá kröfu að úrskurðarnefndin hafni framkominni kæru og staðfesti ákvörðun skipulagsnefndar í máli þessu. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu, sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði á fundi sínum hinn 16. desember 2008 tillögu að deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 16 við Bakkasmára.  Fundargerð skipulagsnefndar frá þeim fundi var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs hinn 18. sama mánaðar, þar sem afstaða var tekin til tiltekinna liða hennar.  Þar er þó ekki að finna bókun ráðsins varðandi afstöðu þess til áðurnefndrar afgreiðslu skipulagsnefndar.  Þá var og fyrrgreind fundargerð skipulagsnefndar á dagskrá fundar bæjarstjórnar hinn 19. desember 2008, þar sem hún var afgreidd án umræðu.

Samkvæmt 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 tekur sveitarstjórn ákvarðanir um deiliskipulag.  Þeir annmarkar eru á meðferð málsins að ekki kemur fram í bókunum afstaða bæjarráðs eða bæjarstjórnar til þess.  Verður framangreind afgreiðsla skipulagsnefndar ekki talin fela í sér ákvörðun er bindi endi á meðferð máls og ber því, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________      __________________________
Ásgeir Magnússon                                    Þorsteinn Þorsteinsson

26/2009 Birkihlíð

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 24. mars 2009 um að veita heimild til útgáfu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 15 við Birkihlíð, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 20. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. G, Birkihlíð 17 og T og S, Birkihlíð 11, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 24. mars 2009 að veita heimild til útgáfu byggingarleyfis fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 15 við Birkihlíð.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik:  Hinn 4. febrúar 2009 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja að grenndarkynna umsókn lóðarhafa Birkihlíðar 15 um byggingu íbúðarhúss á lóðinni, en hún er á íbúðarsvæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. mars 2009 og lágu þá fyrir tvö athugasemdabréf, þar sem m.a. kærendur andmæltu umsóttum byggingarframkvæmdum að Birkihlíð 15. Tók ráðið afstöðu til athugasemdanna og samþykkti síðan umsóknina og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Óljóst sé hvort um hafi verið að ræða grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, óverulega breytingu á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna eða nýtt deiliskipulag fyrir eina lóð, sem óheimilt sé að lögum.  Nauðsynlegt hafi verið að deiliskipuleggja umrætt svæði samkvæmt meginreglu 23. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en heimild væri veitt fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og þá sérstaklega í ljósi bókunar eins nefndarmanns umhverfis- og skipulagsráðs um að svipað óleyst álitaefni væri til staðar í götunni.  Þá sé byggingarreitur lóðarinnar að Birkihlíð 15 dýpri en flestra lóða á svæðinu, útlit og form fyrirhugaðs húss víki frá því sem almennt gerist og sama eigi við um nýtingarhlutfall lóðarinnar.  Þá hafi rannsókn máls að hálfu sveitarfélagsins verið ábótavant hvað varði fullyrðingu tveggja kærenda um að þeir hafi öðlast afnotarétt yfir hluta umræddrar lóðar með samkomulagi eða fyrir hefð. 

Fyrir um 23-24 árum hafi starfsmaður bæjarins komið og sett niður lóðarmörk Birkihlíðar 11 gagnvart Birkihlíð 15 með þeim hætti að lóðin næði þrjá metra lengra til austurs en samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.  Lóðarhafar að Birkihlíð 11 hafi frá þeim tíma nýtt lóð sína í samræmi við nefnd lóðamörk og sett niður palla og gróðursett tré.  Hafi hið kynnta byggingarleyfi því komið þeim kærendum sem um ræði í opna skjöldu en bent sé á að þótt ekki lægi fyrir formlegt samkomulag við bæjaryfirvöld um stækkun lóðarinnar að Birkihlíð 11 hafi myndast hefðarréttur til núverandi nýtingar lóðarinnar.  Með hinni kærðu ákvörðun sé því verið að taka hluta lóðarinnar að Birkihlíð 11 af lóðarhöfum en slíkt verði ekki gert nema með eignarnámi. 

Grenndaráhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni að Birkihlíð 15 gagnvart kærendum verði íþyngjandi hvað varði rými og útsýni vegna nálægðar lóðar kærenda.  Hafa verði í huga að kærendur hafi búið við fyrra ástand um áratuga skeið og hafi mátt vænta að lóðin yrði ekki nýtt eins og nú sé fyrirhugað.  Draga megi í efa að eðlilegt sé að samþykkja nú byggingu húss á lóð, sem sé lítil og henti illa til byggingarframkvæmda, gegn hagsmunum íbúa í íbúðarhverfi sem byggst hafi upp fyrir mörgum áratugum. 

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Bæjaryfirvöld Vestmannaeyja taka fram að málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi í engu verið áfátt.  Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs um að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi vegna Birkihlíðar 15 komi fram að það sé gert á grundvelli 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hafi verið um að ræða einstaka framkvæmd í þegar byggðu hverfi sem ekki hafi verið deiliskipulagt.  Fyrirhuguð nýbygging falli vel að byggðamynstri götunnar og sé heildarmynd hennar styrkt með jafnri húsaröð, götulínum og samsvarandi byggingarmagni.  Sé nú loks lokið við götumynd Birkihlíðar að norðanverðu.  Að kynningu lokinni hafi verið fjallað um framkomnar athugasemdir, þeim svarað og niðurstaðan send þeim sem athugasemdir gerðu og jafnframt vakin athygli á kæruheimild. 

Fyrir liggi lóðarleigusamningar um lóðirnar að Birkihlíð 11, 15 og 17 og við endurnýjun samninga árið 2004 hafi lóðir verið mældar upp með GPS tækni.  Við þá mælingu hafi lóðin að Birkihlíð 11 verið stækkuð til vesturs svo að bílgeymsla er fylgi þeirri fasteign yrði innan lóðar.  Engin breyting hafi verið gerð á upphaflegum lóðarleigusamningi fyrir Birkihlíð 11 og ekki liggi fyrir gögn um meinta mælingu starfsmanns bæjarins, sem nú sé látinn, á lóðamörkum Birkihlíðar 11 og 15. 

Þá sé því hafnað að réttur til hluta lóðarinnar að Birkihlíð 15 hafi unnist fyrir hefð.  Um þá lóð hafi í þrígang verið gerðir leigusamningar og engin gögn liggi fyrir um hvenær notkun lóðarhafa Birkihlíðar 11 á hluta fyrrnefndrar lóðar hafi átt sér stað og með hvaða hætti hún hafi verið síðan.  Bent sé á að samkvæmt 68. gr. gildandi byggingarreglugerðar beri lóðarhafa að halda vexti trjáa og runna innan lóðarmarka.  Geti hugsanleg ólögmæt notkun, er fari í bága við þá skyldu, ekki skapað hefðarrétt að lögum þar sem slíkur réttur náist ekki fram með óráðvendni.  Ætti fullyrðing um að ætluð notkun styddist við samkomulag um þau not við rök að styðjast kæmi hefðarréttur heldur ekki til álita enda væri notkunin þá samningsbundin.  Loks sé bæjaryfirvöldum ekki kunnugt um dómafordæmi þess að hægt sé að vinna hefð á landi með gróðursetningu trjáa á skipulögðu byggingarsvæði. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun sveitarstjórnar Vestmannaeyjabæjar um veitingu byggingarleyfis var tekin hinn 24. mars 2009.  Upplýst hefur verið í málinu að formlegt byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út af byggingarfulltrúa og framkvæmdir því ekki hafnar að Birkihlíð 15 en byggingarleyfisgjöld hafi hins vegar verið greidd. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins og byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd.  Í 4. mgr. sömu greinar segir að staðfesting sveitarstjórnar falli úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.  Þá segir í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. 

Eins og að framan greinir hefur byggingarleyfi samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið gefið út og framkvæmdir enn ekki hafist á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar, en um 16 mánuðir eru nú liðnir frá staðfestingu sveitarstjórnar á veitingu umdeilds byggingarleyfis.  Er sú samþykkt því úr gildi fallin samkvæmt fyrrgreindri 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Byggingarleyfishafi mun hafa greitt tilskilin byggingarleyfisgjöld í kjölfar afgreiðslu bæjaryfirvalda á umsókn hans.  Jafnvel þótt svo yrði litið á að með því hafi honum verið veitt byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga er það leyfi jafnframt úr gildi fallið, sbr. 1. mgr. 45. gr. laganna.  Eru því úr gildi fallnar allar heimildir til þeirra framkvæmda sem samþykktar voru með hinni kærðu ákvörðun og verður hér eftir ekki í þær ráðist nema að undangenginni nýrri samþykkt sveitarstjórnar.  Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildrar samþykktar sveitarstjórnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________     ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Aðalheiður Jóhannsdóttir

1/2009 Hörðukór

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2009, kæra á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2009, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kæra S og S, eigendur íbúðar í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1 í Kópavogi breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. janúar 2009, er barst nefndinni 30. sama mánaðar, kæra eigendur átta íbúða í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1 sömu deiliskipulagsbreytingu og áður greinir.  Ákvað úrskurðarnefndin að sameina síðara kærumálið máli þessu. 

Skilja verður málskot kærenda á þann veg að krafist sé ógildingar á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór og að efsta hæð hússins verði fjarlægð án tafar ásamt svalahandriði sem sé ofan á húsinu. 

Málsatvik og rök:  Árið 2003 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs deiliskipulag Vatnsendasvæðis er m.a. tók til lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór.  Með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 31. október 2005 tók gildi breyting á deiliskipulagi þessu er laut að fyrrgreindri lóð.  Fól breytingin m.a. í sér að heimilað var að stækka byggingarreit,  lyfta þaki um 4,8 m, nýta þakrými sem hluta íbúða á 12. hæð, fjölga íbúðum úr 48 í 52 og auka hámarksflatarmál hússins um 700 m2.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir húsinu 10. október 2005. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að í desember 2008 hafi þau fengið vitneskju um að íbúðarblokkin að Hörðukór 3 hafi verið hækkuð um eina hæð og ca. 1,65 m að auki og að líkindum einnig verið færð til á lóðinni, í átt að Hörðukór 1.  Þá virðist ljóst að reglugerðarkrafa um að minnst helmingur hæðar húss sé að lóðarmörkum hafi verið gróflega brotin.  Þetta hafi verið gert án undangenginnar grenndarkynningar. 

Kærendur, sem séu eigendur íbúða í fjölbýlishúsinu að Hörðukór 1, hafi gert samning um kaup á íbúðum í húsinu áður en bygging Hörðukórs 3 hafi hafist og áður en breyting hafi verið samþykkt á deiliskipulagi.  Hefðu þau haft grun um breytingarnar hefði þeim verið í lófa lagið að kaupa íbúðir annars staðar í húsinu þar sem þau hefðu ekki orðið fyrir skaða vegna breytinganna sem ýmist ræni kærendur umhverfis-, fjalla- eða sólarsýn. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að afgreiðsla bæjarins á breyttu deiliskipulagi lóðarinnar að Hörðukór 3 frá árinu 2005 hafi verið rétt, bæði að formi og efni, og krefst staðfestingar hennar. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu tilgreina kærendur ekki sérstaklega hina kærðu ákvörðun en af málsgögnum verður helst ráðið að um sé að ræða ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 22. september 2005 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 3 við Hörðukór er tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 31. október 2005.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir húsinu 10. sama mánaðar. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. 

Eins og að framan er rakið bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni 8. og 30. janúar 2009 eða rúmum þremur árum eftir lok kærufrests og ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________
Hjalti Steinþórsson

______________________    ________________________
Þorsteinn Þorsteinsson            Aðalheiður Jóhannsdóttir