Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2008 MR reitur

Ár 2010, fimmtudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 39/2008, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. apríl 2008 um deiliskipulag reits Menntaskólans í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2008, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl., f.h. K, þáverandi eiganda Þingholtsstrætis 14 í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. apríl 2008 að samþykkja deiliskipulag fyrir reit Menntaskólans í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. janúar 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi reits 1.180.0, Menntaskólareits.  Var málinu frestað og lagt fyrir skipulagshönnuð að leggja fram umsagnir Húsafriðunarnefndar ríkisins og Borgarminjavarðar vegna hússins að Bókhlöðustíg 7.  Skipulagsráð samþykkti síðan á fundi sínum hinn 29. júní 2005 að auglýsa skipulagstillöguna en þá lá fyrir umsögn Húsafriðunarnefndar ríkisins, dags. 31. janúar s.á.  Að lokinni auglýsingu tillögunnar samþykkti ráðið tillöguna hinn 31. ágúst 2005 með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð Reykjavíkur, en engar athugasemdir höfðu borist á kynningartíma hennar. 

Málið var á ný tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. janúar 2008 og lagður fram nýr skipulagsuppdráttur og greinargerð með breytingum frá fyrri tillögu, dags. 3. janúar 2008.  Skipulagsfulltrúi vísaði málinu til skipulagsráðs.  Samþykkti ráðið á fundi sínum 9. janúar 2008 að auglýsa tillöguna að nýju og vísaði málinu til borgarráðs.  Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 2. apríl 2008 þar sem lögð var fram umsögn Húsafriðunarnefndar ríkisins, dags. 1. desember 2005.  Athugasemdir við tillöguna höfðu borist frá nágranna að Þingholtsstræti 12.  Skipulagsráð samþykkti hina auglýstu skipulagstillögu, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 2. apríl 2008.  Borgarráð samþykkti tillöguna á fundi sínum hinn 3. apríl 2008.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2008. 

Af hálfu kæranda er á því byggt að þétting byggðar á svæðinu og hin mikla uppbygging sem felist í hinni kærðu ákvörðun eigi sér ekki stoð í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og ekki sé tekið nægilegt mið af íbúðarbyggð þeirri sem fyrir sé.  Því sé mótmælt að ákvörðunin sé aðeins lítillega breytt frá tillögunni sem lögð hafi verið fram á árinu 2005, eins og borgaryfirvöld haldi fram.  Vikið sé frá lágmarkskröfum um fjölda bílastæða án þess að sýnt sé fram á að bílastæðaþörfinni verði mætt með öðrum hætti.  Leita hefði þurft eftir samráði við Borgarminjavörð og Húsafriðunarnefnd vegna hinnar breyttu skipulagstillögu, en ekki verði séð að það hafi verið gert.  Ekkert tillit sé tekið til hæðar á lóð kæranda við staðsetningu íþróttahúss menntaskólans svo nærri lóðamörkum á bak við hús hans.  Jarðhæð Þingholtsstrætis 14 verði eins og í gryfju miðað við íþróttahúsið, sem virki eins og langur fangelsisveggur bak við hús kæranda.  Birtuskilyrði muni skerðast verulega og skuggavarp verði mikið.  Loks hafi ekki verið hugað að því hvort unnt sé að koma fyrir byggingum neðanjarðar á reitnum í ljósi þess að í nágrenninu standi gömul hús og óvíst um hvort fasteign kæranda verði ekki fyrir tjóni við slíkt jarðrask. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Sé sú krafa á því byggð að kærandi í máli þessu eigi enga lögvarða hagsmuni lengur af því að fá skorið úr um gildi hins kærða deiliskipulags.  Í ljós hafi komið að hann sé ekki lengur eigandi Þingholtsstrætis 14, en málatilbúnaður kæranda hafi einkum lotið að því að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum hans sem eiganda þeirrar fasteignar.  Þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fyrirliggjandi upplýsingar úr veðmálabókum beri með sér að Íslandsbanki hafi eignast Þingholtsstræti 14 á nauðungarsölu hinn 12. apríl 2010 og hafi síðan selt núverandi eiganda fasteignina tveimur dögum síðar. 

Kærandi gerir þá athugasemd við framkomna frávísunarkröfu að hann eigi töluverðra hagsmuna að gæta við úrlausn máls þessa.  Hann hafi selt fasteign sína en þeim kaupum hafi verið rift vegna hins kærða skipulags, sem aldrei hafi verið kynnt kæranda á sínum tíma, og í kjölfarið hafi hann tapað eign sinni.  Kærandi hafi beðið úrskurðar í máli þessu og ítrekað hringt og sent tölvupóst til úrskurðarnefndarinnar með fyrirspurnum um framvindu málsins og hvort verið væri að bíða eftir fyrningu þess.  Hann hafi fengið þau svör að málið fyrntist ekki í meðförum nefndarinnar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er aðild að kærumálum, sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, bundin við þá sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni hinni kærðu ákvörðun.  Er það í samræmi við meginreglur íslensks stjórnarfarsréttar að kæruaðild í kærumálum innan stjórnsýslunnar eigi þeir einir sem eiga einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi kærða ákvörðun. 

Samkvæmt fyrirliggjandi veðbandayfirliti fyrir fasteignina að Þingholtsstræti 14 í Reykjavík fór hún úr eigu kæranda við útgáfu nauðungarsöluafsals til Íslandsbanka hf. hinn 12. apríl 2010.  Eignin var síðan seld þriðja aðila með kaupsamningi, dags. 16. apríl sama ár.  Snertir hin kærða deiliskipulagsákvörðun því ekki lengur lögvarin réttindi kæranda sem fasteignareiganda á umræddu svæði, en ákvörðun um mögulegan rétt til skaðabóta vegna gildistöku skipulagsins á ekki undir úrskurðarnefndina. 

Með hliðsjón af framangreindu á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun, en umbeðin málsgögn bárust ekki úrskurðarnefndinni frá borgaryfirvöldum fyrr en 7. september 2010. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson