Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2012 Grundarstígur

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 24. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 84/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2012 að veita leyfi til að byggja við kjallara hússins að Grundarstíg 10, Reykjavík, sal úr steinsteypu með steyptri loftplötu og torfi á þaki, steypa vegg á lóðamörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta notkun einbýlishúsalóðar í lóð fyrir blandaða atvinnustarfsemi. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 10. september 2012.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 var samþykkt umsókn um hið kærða byggingarleyfi en áður hafði verið fjallað um umsóknina á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. s.m.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 26. s.m. og byggingarleyfi gefið út af byggingarfulltrúa 14. mars s.á. 

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar byggingarleyfisins á þeim forsendum að breytingarnar brjóti í bága við 4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar og þróunaráætlun miðborgarinnar. Framkvæmdirnar styðjist við deiliskipulag sem kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í lok árs 2011 með kröfu um ógildingu skipulagsins. Sem eigandi helmingshluta í húseigninni nr. 9 við Grundarstíg eigi kærandi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.  Augljóst sé að breytingarnar sem heimilaðar séu í byggingarleyfinu séu gerðar til að skapa aðstöðu fyrir tónleikahald og veitingarekstur inni í miðju íbúðarhverfi. 

Kærandi tekur fram að kæran sé svo seint fram komin af þeim sökum að byggingarleyfi séu ekki auglýst og því sé torsótt að fylgjast með hvenær slík leyfi séu veitt.  Þá hafi úrskurðarnefndin í svari sínu, dags. 16. janúar 2012, við fyrirspurn um móttöku kæru vegna deiliskipulags frá 12. desember 2011, er taki til umræddrar lóðar, upplýst að úrlausnar væri að vænta eftir sex mánuði og vildi kærandi því ekki flækja málið óþarflega með því að kæra væntanlegt byggingarleyfi að nauðsynjalausu.  Auk þess hafi eftirgrennslan kæranda um kæru deiliskipulagsins með tölvupóstum, dags. 7. júlí, 13. ágúst og 15. ágúst 2012 ekki borið árangur.  Ekki hafi orðið ljóst fyrr en með símtali við starfsmann nefndarinnar 28. ágúst 2012 að ekki væri von á úrskurði vegna kæru deiliskipulagsins á næstunni.  Kærandi búi erlendis og hafi því ekki átt kost á því að fylgjast með framkvæmdum að Grundarstíg 10 undanfarið hálft ár. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé allt of seint fram komin.  Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út hinn 14. mars 2012 og framkvæmdir hafist fljótlega, en úttekt á botni fyrir sökkul hafi farið fram 30. apríl 2012.  Hafi fjölmargar úttektir verið gerðar á byggingunni síðan.  Telja verði því að kæranda hafi fyrir löngu mátt vera kunnugt um framkvæmdirnar.  Breyti engu í því sambandi þó kærandi sé búsettur erlendis, mönnum sé alla jafna í lófa lagið að fylgjast með framkvæmdum með einum eða öðrum hætti þrátt fyrir búsetu annars staðar.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 og byggingarleyfið var gefið út 14. mars s.á.  Í máli þessu liggur fyrir úrtak úr færslubók þar sem fram kemur að úttekt fór fram 30. apríl s.á. á botnplötu viðbyggingar.  Verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákörðun frá þeim tíma.  Kæra barst úrskurðarnefndinni um fjórum mánuðum eftir greint tímamark eða 3. september 2012 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Ekki þykja efni til að taka kærumál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti.  Fyrrgreind undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimila að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, ber að túlka þröngt og verða þau ekki talin eiga við um persónulegar ástæður á borð við ferðir eða dvöl aðila fjarri eigin fasteign.  Ber því að vísa  máli þessu frá úrskurðarnefndinni skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

41/2012 Hafnargata Keflavík

Með

Árið 2013, föstudaginn 11. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 41/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 9. maí 2012, kæra D og H fh., Dannhafs ehf., Mávabraut 12b, Reykjanesbæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 18. apríl 2012 að hafna veitingu starfsleyfis til handa kæranda til reksturs veitingarstaðar að Hafnargötu 28 í Keflavík.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hinn 11. júní 2012. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 29. mars 2012, barst heilbrigðiseftirliti Suðurnesja erindi frá Sýslumanninum í Keflavík þar sem óskað var eftir umsögn vegna umsóknar kæranda um rekstrarleyfi skv. lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald til að fá að reka veitingastað í flokki III að Hafnargötu 28, Keflavík.  Í þeim flokki eru umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á aukið eftirlit og/eða löggæslu, sbr. 3. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga.  Kærandi sendi síðan inn umsókn, dags. 18. apríl 2012, um starfsleyfi til að reka pöbb/sportbar með lágværri tónlist og á fundi heilbrigðisnefndar sama dag var umsókninni hafnað.  Skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Kærandi bendir á að umdeild umsókn hans hafi ekki lotið að rekstri hefðbundins skemmtistaðar þar sem leikin sé hávær tónlist.  Einungis væri fyrirhugað að starfrækja í húsnæðinu kaffihús á daginn og krá á kvöldin þar sem sýndir yrðu íþróttaviðburðir.  Margar slíkar sýningar séu eftir miðnætti og sé það ástæða þess að sótt sé um veitingaleyfi í þriðja flokki.  Að Hafnargötu 28 hafi verið reknir um árabil skemmtistaðir þar sem hámarksfjöldi gesta hafi verið 150 manns ásamt því að leikin hafi verið hávær tónlist.  Rök heilbrigðiseftirlitsins og heilbrigðisnefndarinnar eigi ekki við þar sem ekki verði opnaður skemmtistaður í húsnæðinu og hámarksfjöldi gesta verði 50 manns.  Forsvarsmenn kæranda hafi gengið í hús við Klapparstíg og rætt við íbúa varðandi framtíðarrekstur staðarins og hafi þeim litist vel á.

Af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er þess krafist að kærunni verði vísað frá varðandi þá ákvörðun að hafna umsókn um veitingaleyfi í flokki III.  Leyfisveitingin sé í höndum sýslumanns sem beri að afla umsagna ýmissa stofnana þ.á m. heilbrigðisnefnda.  Ákvarðanir sýslumanns að þessu leyti verði bornar undir innanríkisráðuneytið, sbr. kæruheimild í 26. gr. laga nr. 85/2007 vegna ákvarðana sýslumanns en eigi ekki undir úrskurðarnefndina.  Hvað ákvörðunina um synjun starfsleyfis varði sé bent á að reynslan hafi sýnt að með rekstri skemmtistaðar á umræddum stað hafi hljóðstig við útvegg íbúðarhúss í nágrenninu farið yfir þau mörk sem sett séu í reglugerð nr. 724/2008.  Húsið að Hafnargötu 28 hafi verið byggt árið 1942 og sé efri hæð hússins skráð sem skrifstofuhúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár.  Við byggingu og frágang hússins hafi ekki verið hugað sérstaklega að hljóðvist eða verið gerðar sérstakar endurbætur á húsnæðinu til að koma í veg fyrir hljóðmengun frá starfsemi þar sem slíkrar mengunar sé að vænta.  Fjöldi kvartana hafi borist vegna hávaða sem fylgt hafi skemmtanarekstri í húsinu um árabil og þá sérstaklega að næturlagi.

Niðurstaða:  Fyrir liggur í málinu að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin til endurskoðunar af hálfu heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og kæranda tilkynnt í bréfi, dags. 7. júní 2012, um veitingu starfsleyfis til veitingarekstrar að Hafnargötu 28 í Keflavík með fyrirvara um samþykki heilbrigðisnefndar.  Jafnframt var upplýst í bréfinu að embættið hygðist senda sýslumanni jákvæða umsögn um útgáfu rekstrarleyfis í flokki II fyrir umræddan stað í tilefni af breyttri umsókn kæranda þar um.  Ennfremur liggja nú fyrir upplýsingar um að kærandi sé hættur veitingarekstri að Hafnargötu 28.

Af framangreindum ástæðum á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

51/2012 Fannafold

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2012, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 10. maí 2012 er varðar hundahald að Fannafold 179 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2012, er barst nefndinni 29. sama mánaðar, kærir Jónas A. Þ. Jónsson lögfræðingur, f.h. V og B, Logafold 28, Reykjavík, afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 10. maí 2012 er varðar hundahald að Fannafold 179.  Gera kærendur kröfu um að hin kærða afgreiðsla verði ógilt og að kveðið verði á um sviptingu leyfis til hundahalds og aflífun hunds. 

Málavextir:  Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 1. apríl 2012, tilkynnti annar kærenda að tveir stórir hundar hefðu ráðist á kött kærenda fyrir utan heimili þeirra og sært illa.  Hundarnir hafi ekki sinnt ítrekuðum köllum en verið síðan króaðir af í bakgarði af lögreglu.  Þeir hafi ekki sýnt lögreglumönnunum neina grimmd heldur hafi þeir virst hinir spökustu þegar lögreglumennirnir hafi náð að hefta för þeirra í garðinum.  Eigendur hundanna búi að Fannafold 179 og hafi íbúi þaðan komið á staðinn og sett ólar á hundana og hafi það orðið niðurstaða lögreglu að afhenda eigendum þá.  Í lok skýrslunnar kemur fram að annar hundurinn, Birna, hafi verið blóðugur um kjaftinn en að öðru leyti er ekki lýsing af atburðum öðrum en handsömun og afhendingu hundanna.  Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 2. s.m., var atvikið kært til lögreglu af öðrum kærenda í máli þessu.  Kæran beindist að eigendum hundanna og var krafist refsingar vegna lausagöngunnar. Að auki áskildi kærandi sér rétt til skaðabóta vegna kattarins sem hafi drepist skömmu eftir árásina. 

Með bréfum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. apríl 2012, til eigenda hundanna Birnu og Ísbjarnar var þeim gert að skila ítarlegu skapgerðarmati sérfróðra aðila um hundana til heilbrigðiseftirlitsins.  Þá var tekið fram í bréfinu að ávallt bæri að mýla hundana utan heimilis og að reglur um hundahald væru í öllu virtar þar til heilbrigðiseftirlitið tæki ákvörðun um afdrif þeirra.  Eigandi hundsins Birnu tók í kjölfarið ákvörðun um að láta aflífa hundinn.

Niðurstaða skapgerðarmats um hundinn Ísbjörn var sú að hann væri ekki árásarhneigður gagnvart fólki, en ekki væri hægt að fullyrða um viðbrögð hans gagnvart öðrum hundum, köttum eða öðrum litlum dýrum.  Þjálfa þyrfti Husky hunda mjög vel og hleypa þeim aldrei lausum þar sem önnur dýr gætu verið á ferli.

Með bréfi, dags. 10. maí 2012, til eiganda hundsins Ísbjarnar fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á það við eigandann að fara að leiðbeiningum dýralæknis þess er gert hefði skapgerðarmatið svo ekki skapaðist hætta af hundinum og ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.  Var í lok bréfsins vakin athygli viðtakanda á því að vísa málinu til úrskurðarnefndar ef hann vildi ekki una ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.  Er það þessi afgreiðsla sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Kærandi kveður hina kærðu ákvörðun lítt rökstudda og að hún uppfylli ekki kröfur laga um form slíkra ákvarðana, en bréfið með hinni kærðu ákvörðun sé t.a.m. óundirritað og beri ógreinilega með sér að um formlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.  Ekki hafi verið aðhafst annað í málinu af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en að senda bréf um skapgerðarmat vegna hundanna og hundarnir því áfram í vörslu eigenda sinna eins og ekkert hafi í skorist.  Sé hin kærða ákvörðun aðeins ávísun á óbreytt ástand.  Það sé athugavert við skýrslu dýralæknisins að hann hafi gefið sér að hundurinn Birna hafi ráðist á og drepið kött í Grafarvogi en ekki sé ljóst að hve miklu leyti hundurinn Ísbjörn hafi tekið þátt í athæfinu.  Þetta sé merkilegt í ljósi þess að eina vitnið að árásinni hafi verið kærandi sem hafi borið fyrir lögreglu að báðir hundarnir hafi ráðist á köttinn og haft hann í kjöftum sér.  Af afgreiðslu málsins virðist mega draga þá ályktun að hundaeigandi, dýralæknir og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi ákveðið að skella skuldinni á annan hundinn, honum hafi verið fórnað og það talin nægileg friðþæging í málinu.  Þetta sætti kærendur sig ekki við.  Þeir telji að það hafi sýnt sig að hundaeigendum þessum sé ekki treystandi til hundahalds og þá sér í lagi að halda marga stóra og hættulega Husky úlfhunda.  Í tveimur bréfum frá heilbrigðiseftirlitinu til hundaeigendanna, dags. 3. apríl 2012, hafi komið fram að áður en atburður þessi hafi átt sér stað hafi borist kvartanir vegna lausagöngu hunda frá heimilinu og ógnandi framkomu þeirra.  Það sé með miklum ólíkindum að heilbrigðiseftirlitið skuli telja ásættanlegt að eitt heimili innan borgarmarka í fjölmennu íbúðarhverfi hafi getað fengið leyfi fyrir mörgum hundum af hættulegri tegund.  Þegar við bætist brot á leyfum í formi lausagöngu ómýldra hunda auk árásar á saklaust dýr þá hljóti grundvöllur leyfis til hundahalds að vera brostinn. 

Fyrirliggjandi skapgerðarmat segi ekkert til um skapgerð hundsins og breyti ekki þeirri staðreynd að hundurinn hafi tekið þátt í grófri árás á minna dýr.  Hundaeigendurnir hafi ítrekað brotið reglur um hundahald og litlar líkur séu á að breyting verði þar á.  Í máli þessu hafi hugsmunir hundaeigandans verið settir ofar hagsmunum almennings og dýra. 

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:  Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er tekið fram að umrædd ákvörðun hafi verið tekin í samræmi við það verklag sem hafi tíðkast í heilbrigðiseftirlitinu og með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þar sé kveðið á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.  Hins vegar myndu ítrekuð brot eða atvik leiða til endurskoðunar ákvörðunarinnar og þá mögulega til annarra og hertari krafna, s.s. aflífunar.  Ekki sé ljóst hvað kærandi eigi við með fullyrðingu um að ákvörðun hafi ekki verið rökstudd og uppfylli ekki kröfur laga um form og um óundirritað bréf.  Engin bréf er málið varði séu óundirrituð, eins og haldið sé fram í kærunni, auk þess sem í bréfum sé vísað til þeirra greina í samþykkt um hundahald í Reykjavík er varði ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins. 

Kærandi haldi því fram að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki aðhafst annað í málinu en að senda hundaeigendunum bréf með kröfu um skapgerðarmat á hundunum.  Þessi fullyrðing sé röng eins og sjá megi af gögnum sem kærandi leggi sjálfur fram.  Bæði hafi átt sér stað samtöl og samskipti við hundaeigendur, kæranda, dýralækna sem framkvæmt hafi skapgerðarmat og aflífun, sem og lögreglu.  Hafi heilbrigðiseftirlitið hafið rannsókn á málinu hinn 2. apríl 2012 og hafi niðurstaðan orðið sú að eigandi annars hundsins, Birnu, hafi tekið ákvörðun um aflífun líkt og gr. 19.2 í þágildandi samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 hafi kveðið á um.  Í millitíðinni hafi farið fram ítarlegt skapgerðarmat á báðum hundum.  Niðurstaða skapgerðarmats á hundinum Ísbirni hafi verið sú að hann væri ekki hættulegur mönnum en ekki hafi verið hægt að fullyrða um viðbrögð hans gagnvart öðrum dýrum.  Í kjölfar þessa hafi heilbrigðiseftirlitið tekið þá ákvörðun gagnvart eigandanum að hundurinn Ísbjörn, sem ekki hafi verið kvartað yfir áður, skyldi hvergi innan borgarmarka fá að vera laus og ekki heldur á skilgreindum lausagöngusvæðum. 

Kærandi hafi gert athugasemdir við skapgerðarmat á hundinum Ísbirni.  heilbrigðiseftirlitið tjái sig ekki um faglegar ályktanir í skapgerðarmatsskýrslu sérfræðings í dýraatferli sem liggi fyrir, en geri athugasemd við órökstuddar ályktanir um mat dýralæknisins þar sem vitnað sé til símaviðtals við hundaeiganda.  Hafi dýralæknirinn ekki verið með þetta málsgagn undir höndum og í minnisblaði heilbrigðiseftirlitsins um það samtal sé einungis haft eftir viðkomandi það sem komið hafi fram, en ekkert mat hafi verið lagt á það að öðru leyti.  Ekki sé heldur lagt mat á vitnisburð kæranda, en það sé lögreglunnar að rannsaka hann.  Kærandi segi að draga megi þá ályktun að m.a. heilbrigðiseftirlitið „… hafi ákveðið að skella allri skuldinni á annan hundinn, honum fórnað og málið leyst!“  Heilbrigðiseftirlitið mótmæli svona ómálefnalegum upphrópunum og vísi til þess sem áður hafi komið fram að samkvæmt rannsókn málsins af þess hálfu og þeim lögum, reglum og verklagi sem því sé uppálagt að fara eftir hafi niðurstaðan orðið eins og raun ber vitni. 

Í málsrökum kæranda sé staðhæft að ákvörðun kærða sé „aðeins ávísun á óbreytt ástand“ og að um „friðþægingu“ sé að ræða.  Heilbrigðiseftirlitinu finnist miður að kærandi skuli nota svo ómálefnaleg „rök“ og vísist aftur til þeirrar skyldu að gæta skuli meðalhófs og gefa skuli aðilum máls tækifæri til að bæta sig.  Heilbrigðiseftirlitið veigri sér ekki við að taka á málum eins og þau þróist hverju sinni og til þess hafi það þau tæki og takmarkanir sem felist í lögum, reglum og samþykktum, en það stjórnist ekki af geðþóttaákvörðunum á hverjum tíma.  Varðandi gagnrýni kæranda á heilbrigðiseftirlitið fyrir að hafa gefið leyfi fyrir sex hundum að Fannafold 179 þá sé ekkert í hundasamþykkt sem banni fyrirfram ákveðinn fjölda hunda á heimili.  Á það sé sérstaklega bent að fjórir lögráða aðilar, en ekki einn, hafi verið eigendur sex hunda (nú fimm) að Fannafold 179.  Á það sé líka bent að Husky hundar séu ekki bannaðir í Reykjavík samkvæmt samþykkt um hundahald.  Það hvort íbúum að Fannafold 179 sé treystandi til að halda hunda sé annað mál og þurfi að skoða hverju sinni þegar mál komi upp, en hundarnir séu í eigu mismunandi lögráða aðila og atvik sem tengist hundinum Ísbirni hafi ekki komið upp áður.  Kærandi bendi réttilega á að ítrekuð brot geti leitt til afturköllunar leyfa, sbr. ákvæði 20. gr. samþykktar um hundahald. 

—————————–

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 25. júní 2012.

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin.  Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 er gilti á þeim tíma er hér um ræðir.  Í 2. gr. samþykktarinnar sagði að hundahald væri heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett væru í henni. 

Í 20. gr. samþykktarinnar var kveðið á um að ef hundaeigandi bryti gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykktinni sjálfri eða öðrum reglum sem um dýrahald giltu, gæti umhverfissvið afturkallað leyfi hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar.  Þá sagði í 19. gr. samþykktarinnar að tjónþoli eða forráðamaður hans gæti krafist þess að hundur yrði aflífaður ef hann teldist hættulegur og var þá skylt að verða við þeirri kröfu, enda hefði verið leitað álits sérfróðra aðila, s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara, sem viðurkenndur væri af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, áður en ákvörðun um aflífun væri tekin.  Er sambærilegt ákvæði í 19. gr. núgildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012.

Í máli þessu krefjast kærendur ógildingar á því sem þeir telja vera ákvörðun í máli hundaeiganda að Fannafold 179.  Um er að ræða tilmæli sem beint var til eiganda umrædds hunds um að fara að leiðbeiningum í skapgerðarmati dýralæknis svo ekki skapaðist hætta af hundinum og ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.  Er vandséð að í erindinu hafi verið fólgin stjórnvaldsákvörðun sem bundið hafi endi á meðferð máls, en hafi svo verið þá var það ákvörðun í máli eiganda hunds, til þess gerð að gæta almannahagsmuna, og áttu kærendur ekki aðild að málskoti hennar til æðra stjórnvalds. 

Þá krefjast kærendur þess að hundaeigandi sá sem málið varðar verði sviptur leyfi til hundahalds og að umræddur hundur verði þegar í stað aflífaður.  Hvað fyrra atriðið varðar þá er það háð mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hvort svipta skuli hundaeiganda leyfi til að halda hund og verður ekki ráðið af ákvæði 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 að gert hafi verið ráð fyrir að þriðji maður, s.s. tjónþoli, ætti aðild að slíkri ákvörðun.  Hvað seinna atriðið varðar þá var tjónþola veittur réttur til þess, skv. 19. gr. tilvitnaðrar samþykktar, að krefjast þess að hundur yrði aflífaður, en skilja verður það ákvæði svo að beina hefði þurft slíkri kröfu að heilbrigðiseftirlitinu eða heilbrigðisnefnd.  Er ekki að finna í málinu nein gögn um að kærendur hafi borið fram kröfu við heilbrigðisyfirvöld um aflífun umrædds hunds og liggur því ekki fyrir nein ákvörðun í máli kærenda af því tilefni sem þeim hefði verið unnt að bera undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist lítillega sökum anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                               Þorsteinn Þorsteinsson

46/2012 Fannafold

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2012, kæra á afgreiðslu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl 2012 vegna sviptingar leyfis til hundahalds að Fannafold 176 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. maí 2012, er barst nefndinni 16. s.m., kærir R, Fannafold 176, Reykjavík, þá afgreiðslu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl s.á. að ítreka fyrri samþykkt um afturköllun leyfis kæranda til að halda hund að Fannafold 176 í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisyfirvöldum hinn 1. júní 2012.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, tilkynnti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kæranda um fyrirhugaða sviptingu leyfis hans til hundahalds.  Málið var tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hinn 1. september s.á. þar sem nefnt bréf heilbrigðiseftirlitsins var lagt fram og bókaði nefndin á að hún staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma.  Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi heilbrigðiseftirlits, dags. 2. september 2011, og gefinn kostur á andmælum.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum í tilefni af þeirri tilkynningu með bréfi, dags. 16. s.m.  Þeim athugasemdum var svarað með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 7. október s.á., þar sem m.a. var tekið fram að kærandi hefði ekki lengur leyfi borgaryfirvalda til að halda umræddan hund.  Kærandi skaut fyrrgreindri afgreiðslu heilbrigðisnefndar til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir með kæru, dags. 31. október 2011.  Hinn 12. mars 2012 kvað sú úrskurðarnefnd upp frávísunarúrskurð í því máli með þeim rökum að ekki lægi fyrir lokaákvörðun um að svipta kæranda leyfi til hundahalds.

Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hinn 12. apríl 2012 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda frá 3. ágúst 2011.  Bókaði nefndin að hún ítrekaði fyrri samþykkt sína um að afturkalla leyfi kæranda til að halda hund, skráningarnúmer 4505, að Fannafold 176.  Með bréfi, dags. 16. s.m., var kæranda tilkynnt að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefði samþykkt áðurnefnda bókun og var kæranda leiðbeint um kæruleið og kærufrest. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fyrir liggi úrskurður þar sem einungis hafi verið staðfest boðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að svipta kæranda leyfi til hundahalds en ekki ákvörðun um sviptingu.  Það að „ítreka“ ógilda ákvörðun geri hana ekki gilda og breyti þar engu þó heilbrigðisnefndin skýri skilning sinn á upphaflegri „ákvörðun“. 

Kærandi telji að í máli þessu hafi bæði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur brotið gegn ákvæðum 10., 12., 13., og 14. gr og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Andmælaréttar kæranda hafi ekki verið gætt og hann ekki nægjanlega upplýstur um fyrirhugaðar aðgerðir áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Þannig hafi kærandi ekki haft vitneskju um, eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar, að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hygðist samt sem áður svipta hann leyfi til hundahalds.  Ekki hafi verið gætt jafnræðis deiluaðila og heilbrigðisnefndin hafi ekki framkvæmt sjálfstæða skoðun á málinu áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, en slíkt ætti að vera grundvallaratriði til að geta fellt hlutlægan úrskurð í málinu.

Heyrt hafi til undantekninga að hundur kæranda hafi sloppið úr gæslu og gengið laus og fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda heilbrigðiseftirlitsins þegar á árinu 2009.  Ónæði af gelti hundsins sé ekki meira en almennt gerist og eigi kvartanir sumra nágranna yfir hundahaldi kæranda ekki við rök að styðjast og orsakist m.a. af nágrannaerjum.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:  Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. 

Heilbrigðisnefnd hafi brugðist við niðurstöðu úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og hafi fjallað aftur um málið á fundi sínum hinn 12. apríl 2012, ítrekað fyrri ákvörðun sína um afturköllun hundaleyfis kæranda frá 1. september 2011 og gert niðurstöðuna skýrari í bókun fundargerðar.  Með hliðsjón af forsögu málsins hafi ekki verið veittur andmælaréttur í bréfi, dags. 16. apríl 2012, en hins vegar hafi kæranda verið leiðbeint um kæruleiðir.  Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vilji jafnframt taka fram að í bréfi til kæranda, dags. 2. september 2011, hafi ákvörðun heilbrigðisnefndar verið skýr og bent sé á að ákvörðunin standi þar sem heilbrigðiseftirlitið vinni í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt 14. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Niðurstaða:  Hin kærða samþykkt heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl 2012 var gerð með svofelldri bókun nefndarinnar: „Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ítrekar fyrri samþykkt sína um að afturkalla leyfi [R….] til að halda hund, skráningarnúmer 4505, að Fannafold 176.“  Ekki liggur fyrir í málinu önnur samþykkt nefndarinnar en sú sem gerð var hinn 1. september 2011 og var til umfjöllunar í úrskurði úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir, uppkveðnum hinn 12. mars 2012. 

Gera verður þá kröfu til stjórnvalda við töku stjórnvaldsákvörðunar að bókun ákvörðunar og tilkynning til málsaðila beri með sér með skýrum hætti að um ákvörðun sé að ræða en eftir atvikum ekki aðeins ráðagerð um töku slíkrar ákvörðunar.  Ekki síst á þetta við þegar um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun.  Fyrir liggur að fyrri samþykkt heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, sem tengist máli þessu, fól í sér staðfestingu á meintri ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í bréfi þess til kæranda frá 3. ágúst 2011, þar sem kæranda var tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu leyfis til hundahalds.  Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 var sú samþykkt heilbrigðisnefndar ekki talin fela í sér kæranlega ákvörðun og málinu af þeim sökum vísað frá.  Hin kærða afgreiðsla heilbrigðisnefndar í máli því sem hér er til meðferðar fól aðeins í sér ítrekun fyrri samþykktar nefndarinnar um að staðfesta fyrirhugaða leyfissviptingu gagnvart kæranda og verður því ekki, fremur en fyrri samþykkt, talin hafa að geyma ákvörðun sem bindi enda á málið en það er skilyrði þess að það verði borið undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson

18/2012 Langamýri

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 um að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. íbúa að Löngumýri 2-12 og 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 14. mars 2012 var þeirri kröfu hafnað. 

Málsatvik og rök:  Hinn 3. janúar 2012 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn eiganda hússins að Löngumýri 14 um leyfi til breytinga á innra skipulagi þess.  Útgáfa byggingarleyfisins var staðfest með samþykkt bæjarráðs hinn 6. mars 2012 og loks á fundi bæjarstjórnar hinn 15. s.m. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekkert gilt deiliskipulag sé til af svæðinu og því hafi borið að grenndarkynna framkvæmdirnar.  Með hinu kærða leyfi sé í raun verið að heimila fjölgun íbúða í umræddu húsi sem telja verði óheimilt að óbreyttu skipulagi. 

Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi vegna framkvæmda við Löngumýri 14 verði úrskurðað lögmætt.  Í umsókn um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafi komið fram að verið væri að sækja um leyfi til að breyta innra skipulagi í viðkomandi eign og hafi sérstaklega verið tekið fram í umsókninni að ekki hafið verið að sækja um skiptingu eignarinnar.  Samkvæmt uppdráttum sé augljóst að verið sé að gera innanhússbreytingar á viðkomandi húsi og að alls ekki sé verið að sækja um leyfi til að breyta ytra byrði eða útliti þess á nokkurn hátt.  Í umsókninni hafi verið sótt um leyfi fyrir færslu lagna á jarðhæð í þvottahúsi og þá sýni uppdrættir nýtt hurðarop á jarðhæð, færslu raflagna á 1. og 2. hæð, færslu vatnslagna á 1. hæð vegna stækkunar á baðherbergi, færslu vatnslagna á 2. hæð, aðallega vegna nýs eldhúss, og breytingar á burðarvirki á 2. hæð þar sem burðarveggur sé fjarlægður við gerð nýs hurðarops fyrir baðherbergi.  Eiganda húsnæðisins sé frjálst að ákveða með hvaða hætti hann hagi innra skipulagi fasteignar sinnar að uppfylltum ákvæðum byggingarreglugerðar um kröfur til íbúðarhúsnæðis.  Kærendur geti varla talist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.  Hið kærða leyfi snúi eingöngu að breytingum innanhúss.  Þær séu ósýnilegar kærendum og geti því ekki á nokkurn hátt raskað hagsmunum þeirra. 

Af hálfu bæjaryfirvalda sé einnig á það bent að samkvæmt skipulagsuppdráttum frá 1975 og 1980 sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð í Hofstaðamýri.  Í samþykktu deiliskipulagi frá árinu 1981 sé þeirri byggð nánar lýst og verði að telja að deiliskipulagið ásamt uppdráttum fullnægi í einu og öllu þeim kröfum sem á sínum tíma hafi verið gerðar til skipulagsuppdrátta skv. 11. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.  Við mat á gildi deiliskipulags og uppdrátta verði því að horfa til framkvæmdar í skipulagsmálum.  Óyggjandi sé að ávallt hafi verið gengið út frá því af hálfu húsbyggjenda, og einnig bæjaryfirvalda og annarra skipulagsyfirvalda, að um útgáfu byggingarleyfa vegna framkvæmda við húsbyggingar í Hofstaðamýri færi samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið fyrir svæðið á árinu 1981 og þeim breytingum sem gerðar hafi verið á því síðar.  Í þessu sambandi megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 17. apríl 2008, í máli nr. 444/2007, en þar komi fram það sjónarmið að þegar skipulag sem sannanlega hafi verið samþykkt í sveitarstjórn hafi verið lagt til grundvallar í áratugi verði að telja að það sé í fullu gildi þrátt fyrir minni háttar ágalla að formi til, nema hægt sé að sanna hið gagnstæða.  Deiliskipulag fyrir Hofstaðamýri frá árinu 1981 sé því gildandi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og fari hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við það. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá.  Ekki felist í hinni kærðu ákvörðun skipting fasteignar eins og kærendur haldi fram.  Leyfið varði breytingar á innra fyrirkomulagi, sem í engu snerti hagsmuni nágranna. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ hinn 27. mars 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ.  Er um að ræða breytingar á herbergjaskipan og lögnum í húsinu.  Engar breytingar eru gerðar á ytra byrði hússins og ekki er í leyfinu veitt heimild til fjölgunar íbúða. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstakingbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur aðeins í sér leyfi til breytinga innanhúss og verður ekki talin raska grenndarhagsmunum kærenda eða öðrum lögvörðum hagsmunum þeirra sem veiti þeim kæruaðild í máli þessu.  Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í málinu og stafar hann af önnum hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

47/2010 Gufuneslóð

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson lögfræðingur, varaformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2010, kæra vegna framkvæmda á landspildu undir afþreyingarstarfsemi í Gufunesi í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni 14. júlí 2010, kæra sjö eigendur og íbúar að Viðarrima 41, 43, 45 og 49, Reykjavík, framkvæmdir á landspildu undir afþreyingarstarfsemi í Gufunesi.

Skilja verður málskot kærenda svo að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.  Jafnframt er krafist stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 29. september 2006, var falast eftir leigu á um 20.000 m2 landspildu í Gufunesi.  Í bréfinu er tekið fram að ætlunin sé að nota spilduna undir leik- og útivistarsvæði fyrir mismunandi aldurshópa sem ekki krefðist varanlegra bygginga.  Hinn 16. apríl 2008 var síðan undirritaður afnotasamningur milli Reykjavíkurborgar, fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, og umsækjandans um afnot spildunnar til 15 ára.  Í 6. gr. þess samnings segir m.a. svo:  „Þá er afnotahafa óheimilt að framkvæma meiriháttar breytingar eins og að reisa mannvirki, leggja götur og bílastæði, nema að fengnu samþykki landeiganda, utan þeirra lausamuna, þ.e. tækja og tóla og leikmynda, sem nauðsynlegt er að setja upp miðað við fyrirhugaðan rekstur afnotahafa.“ 

Kærendur vísa til þess að framkvæmdir á lóðinni séu til lýta og með ólíkindum sé að fullorðið fólk standi að þeim.  Í kæru er ekki tilgreint hvers eðlis framkvæmdirnar séu en samkvæmt símtali við einn kærenda hafi verið um að ræða uppsetningu timburturna og skriðdreka. 

Borgaryfirvöld hafa upplýst að engin byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir nefndum turnum og raunar liggi ekkert fyrir um hvort um sé að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir.  Engin kæranleg ákvörðun liggi fyrir í málinu og beri því að vísa því frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, hafði úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála það hlutverk að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. nefndrar lagagreinar var og tekið fram að kæru til úrskurðarnefndarinnar sættu stjórnvalds ákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og var sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærðar tilteknar framkvæmdir sem borgaryfirvöld hafa lýst yfir að styðjist ekki við ákvarðanir um leyfisveitingu samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum.  Umdeildar framkvæmdir styðjast samkvæmt því ekki við ákvarðanir sem bornar verða undir úrskurðarnefndina samkvæmt framangreindum lagaákvæðum og ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

62/2012 Friðarstaðir

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 17. júlí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 62/2012, kæra á erindi skipulags- og byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar dags. 21. maí 2012 varðandi úrbætur á mannvirkjum á jörðinni Friðarstöðum í Hveragerði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. júní 2012, er barst nefndinni 15. s.m., kærir D, Friðarstöðum í Hveragerði, erindi skipulags- og byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar, dags. 21. maí 2012, varðandi úrbætur á mannvirkjum að Friðarstöðum í Hveragerði.

Málsatvik og rök:  Hinn 21. maí 2012 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar bréf til kæranda þar sem skorað var á hann að koma ástandi mannvirkja á jörðinni Friðarstöðum í viðunandi horf.  Kom þar fram að ásigkomulagi og viðhaldi mannvirkja væri verulega ábótavant svo að hætta stafi af.  Var í bréfinu tekið fram að afhendi eða póstleggi ábúandi ekki aðgerðaráætlun fyrir 20. júní og hefji ekki tafarlaust framkvæmdir við úrbætur,  verði beitt sektum til að knýja á um aðgerðir, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.  Þar kom og fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laga um mannvirki séu kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Kærandi vísar til þess að efni bréfs skipulags- og byggingarfulltrúa sé svo almennt orðað að erfitt sé að átta sig á því nákvæmlega hvað við sé átt og verulegum vafa sé undirorpið að um kæranlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.  Þó megi af bréfinu ráða að  annars vegar sé verið að fjalla um hús sem skemmst hafi í suðurlandsskjálftanum árið 2008 sem ekki sé búið að meta af hálfu Viðlagatryggingu Íslands og  hins vegar gróðurhús sem ekki hafi fengist heimild hjá bæjaryfirvöldum til að breyta í hesthús.  Ekki eigi við rök að styðjast að hætta stafi af ásigkomulagi mannvirkja á jörðinni sem sé afgirt.  Stafi mál þetta að stærstum hluta af því að staðið hafi verið í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu á jörðinni af hálfu bæjaryfirvalda.  Ef gera eigi við hús eða rífa áður en uppgjöri við Viðlagatryggingu Íslands sé lokið sé verið að spilla sönnunargögnum.  Þá bendi kærandi á að honum hafi í tvígang verið synjað af hálfu Hveragerðisbæjar með ólögmætum hætti um að gera úrbætur á húsakosti á jörðinni.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er á það bent að flest öll mannvirki á jörðinni séu í niðurníðslu.  Af gróðurhúsum stafi t.d. mikil slysahætta en í því séu flestar rúður brotnar og glerbrot liggi út um allt.  Umhirðu jarðarinnar hafi til margra ára verið ábótavant eins og áskoranir allt frá árinu 2000 beri með sér ásamt bréfi Matvælastofnunar frá 15. maí 2009 varðandi aðbúnað og umhirðu dýra á Friðarstöðum.  Bæjaryfirvöld hafi á árinu 2011 samþykkt að endurskoða deiliskipulag  jarðarinnar í samráði við ábúendur en þeir hafi ekki sýnt áhuga eða vilja til að taka þátt í því samstarfi.  Fullyrðingar kæranda um að verið sé að krefjast þess að sönnunargögnum í máli hans og Viðlagatryggingar Íslands verði spillt séu órökstuddar.  Matsmenn Viðlagatryggingar Íslands hafi nú þegar skoðað og lagt mat á mannvirkin en ekki hafi þó verið samið um upphæð tjónabóta að sögn kæranda.  Að mati bæjaryfirvalda sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að hreinsunar- og endurbótastarf geti hafist.  Ef um einhver álita mál sé að ræða verði þau skoðuð og fullt tillit tekið til þeirra.  Ekki sé hægt að una við hættuástand og vanhirðu mannvirkja í mörg ár á meðan langvinnar deilur um tjónabætur standi yfir. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.  Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að leggja á dagsektir til þess að knýja menn til þeirra aðgerða.  Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. 

Tilefni máls þessa er bréf byggingarfulltrúa til kæranda með áskorun um úrbætur vegna mannvirkja á jörð kæranda innan tiltekins frests.  Segir þar jafnramt að verði kærandi ekki við áskoruninni innan frestsins megi hann búast við að gripið verði til aðgerða skv. 56. gr. mannvirkjalaga til þess að knýja fram úrbætur.  Í bréfinu er bent á leiðbeiningarskyldu sveitarfélagsins gagnvart kæranda og andmælarétt hans skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
 
Á skortir að í bréfinu komi fram með skýrum hætti til hvaða úrbóta kærandi skuli grípa.  Þá verður ekki talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum 56. gr. mannvirkjalaga verði kærandi ekki við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

35/2012 Fiskislóð

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 17. júlí, var með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 tekið fyrir af Hjalta Steinþórssyni, formanni úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mál nr. 35/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2008 um samþykkja umsókn um leyfi til að byggja flóttastiga, skyggni yfir inngang, milligólf yfir anddyri og afgreiðslu 1. hæðar og til að innrétta með geymslueiningum og tilheyrandi millipöllum og stigum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2012, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kæra H, f.h. HF Fasteigna ehf., og J, f.h. G1 ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingaráform að Fiskislóð 11-13 í Reykjavík. 

Af hálfu kærenda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði tekin til efnislegrar meðferðar og úr því skorið hvort hinar viðbættu millihæðir séu leyfilegar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. nóvember 2008 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja flóttastiga, skyggni yfir inngang, milligólf yfir anddyri og afgreiðslu 1. hæðar og til að innrétta atvinnuhús á lóðinni nr. 11-13 við Fiskislóð með geymslueiningum og tilheyrandi millipöllum og stigum, nýsamþykkt BN035034, dags. 12. desember 2006.  Umsóknin var samþykkt með skilyrði um þinglýsingu yfirlýsingar þess efnis að samþykktin gilti fyrir núverandi notkun hússins sem geymsluhúsnæðis.  Yrði henni breytt bæri að sækja um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun sem yrði innan marka ákvæða deiliskipulags um nýtingarhlutfall. 

Af hálfu kærenda er því haldið fram að um brot á byggingarreglugerð nr. 441/1998 hafi verið að ræða þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt að bæta við tveimur millihæðum að Fiskislóð 11-13.  Sú byggingaráætlun þýði að heildarfermetrar hússins séu komnir yfir tvöfalt leyfilegt hámark samkvæmt deiliskipulagi.  Þá virðist sem byggingarfulltrúi hafi réttlætt framkvæmdina með því að um geymsluhúsnæði væri að ræða en ekki  aðra gerð af húsnæði.  Þrátt fyrir að hafa verið hluthafar í fasteignafélaginu sem þá hafi átt húsið hafi upplýsingum um þessar framkvæmdir verið haldið frá kærendum af framkvæmdastjóra og stjórnarformanni FF 11-13, sem jafnframt hafi verið leigutaki hússins.  Eftir að kærendur hafi komist að umræddum framkvæmdum hafi þeir leitað til byggingarfulltrúans í Reykjavík.  Hafi þeir óskað eftir að fá úr því skorið hvort umræddar viðbætur hafi verið samþykktar eða ekki og hafi svarbréf þess efnis borist hinn 14. apríl 2012. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti verða kunnugt, um að ákvörðun þá sem kæra á.  Liðin séu u.þ.b. þrjú og hálft ár frá samþykkt byggingarfulltrúa í málinu.  Frestur til að kæra áðurgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Verði ekki fallist á að 5. mgr. 52. gr. eigi við í tilviki þessu sé á því byggt að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera fram stjórnsýslukæru innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.  Í 28. gr. stjórnsýslulaga sé svo allur vafi tekinn af um að vísa beri kærunni frá, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni annars vegar vegna þess að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni og hins vegar vegna þess að kæran sé of seint fram komin. 

Kærendur, eða félög þeirra, hafi verið hluthafar í Fasteignafélaginu Fiskislóð 11-13 ehf. frá hausti 2007 og fram til 25. febrúar 2010 en hafi ekki verið hluthafar  í félaginu síðan.  Þá hafi kærendur setið í stjórn Fasteignafélagsins Fiskislóð 11-13 ehf. frá 15. nóvember 2007 og fram til 25. febrúar 2010 en hafi ekki setið í stjórn félagsins síðan.  Kærendur hafi því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. 

Niðurstaða:  Samkvæmt  5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. nóvember 2008 og var fasteignafélaginu FISK 11-13 ehf. tilkynnt um ákvörðunina með bréfi sama dag.  Verður að telja, með hliðsjón af málsgögnum  og tengslum kærenda við byggingarleyfishafa, að þeim hafi mátt vera kunnugt um  hina kærðu ákvörðun fljótlega eftir að fasteignafélaginu var tilkynnt um hana.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn  27. apríl 2012 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Þá voru ekki lengur skilyrði til að víkja frá lögboðnum kærufresti.  Ber því að vísa máli þessu frá. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

7/2010 Borgarholtsbraut

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2010, kæra á synjun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010 á beiðni um breytta aðkomu að fasteigninni að Borgarholtsbraut 15 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. febrúar 2010, sem barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir Ólafur Örn Svansson hrl., f.h. S, eiganda fasteignarinnar að Borgarholtsbraut 15 í Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010 að synja beiðni kæranda um breytta aðkomu að greindri fasteign.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi  og að viðurkenndur verði réttur hans til breytinga á aðkomu að Borgarholtsbraut 15 í samræmi við fyrirliggjandi teikningar.

Með bréfi, dags. 16. júní 2011, sem barst úrskurðarnefndinni 21. sama mánaðar, skaut kærandi jafnframt til nefndarinnar ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 24. maí 2011 um að synja beiðni kæranda um breytta aðkomu að fasteigninni að Borgarholtsbraut 15.  Krefst kærandi þess að sú ákvörðun verði felld úr gildi og að kærumálið verði sameinað máli þessu.  Þar sem bæði kærumálin snúast um afgreiðslu Kópavogsbæjar á sömu beiðni kæranda verður kærumálið nr. 45/2011  sameinað kærumáli þessu.

Málsatvik og rök:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var reist íbúðarhús á lóðinni að Borgarholtsbraut 15 á árunum 2002-2003, en áður hafði staðið þar sumarhús.  Aðkoma að íbúðarhúsinu er um tröppur sem liggja yfir kamb við húsið norðanvert.   Kærandi sótti um leyfi til að leggja veg að húsinu á árinu 2007 en skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði erindinu hinn 2. október sama ár.  Kærandi leitaði enn eftir að fá leyfi fyrir innkeyrslu að húsi sínu á árinu 2009 og hóf jafnframt framkvæmdir við hana en var gert að stöðva þær.  Urðu málalyktir þær að skipulagsnefnd hafnaði erindinu á fundi hinn 19. janúar 2010 og tók bæjarráð undir þá afgreiðslu á fundi 21. sama mánaðar.  Í kjölfar þess óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins en þeirri málaleitan var hafnað af bæjaryfirvöldum.  Skaut kærandi synjun bæjaryfirvalda um breytta aðkomu að umræddri fasteign hans til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.  Eftir það ákvað skipulagsnefnd bæjarins að taka málið upp að nýju og samþykkti á fundi sínum hinn 17. maí 2011 aðkomu fyrir ökutæki og gangandi vegfarendur að fasteign kæranda í samræmi við tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar sem hafði verið grenndarkynnt.  Bæjarráð samþykkti þá afgreiðslu hinn 19. maí sama ár og vísaði málinu til bæjarstjórnar. Bæjarstjórn hafnaði hins vegar skipulagstillögunni á fundi hinn 24. sama mánaðar.  Hefur kærandi einnig skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Til stuðnings kröfum sínum bendir kærandi á að núverandi aðkoma að lóð hans og húsi fari í bága við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um greiða aðkomu slökkviliðs og sjúkrabíla, auk þess sem núverandi aðkoma torveldi aðgang fatlaðra, fólks með barnavagna og eldra fólks að fasteigninni.  Brýnt sé að gildandi deiliskipulag svæðisins taki mið af áðurnefndum kröfum um aðgengi að íbúðarhúsum.  Hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar þrátt fyrir fyrirliggjandi umsögn og álit sem styðji málstað kæranda og eftir grenndarkynningu þar sem engar athugasemdir hafi borist.  Synjun skipulagsyfirvalda Kópavogsbæjar um breytta aðkomu að fasteign kæranda sé með öllu ómálefnaleg, enda bendi allt til þess að um sé að ræða geðþóttaákvörðun sem reist sé á pólitísku og persónulegu hagsmunamati eins bæjarfulltrúa.

Úrskurðarnefndin kallaði eftir gögnum vegna kærumálanna og gaf Kópavogsbæ kost á að tjá sig um kæruefnið en gögn og greinargerð hafa ekki borist frá bæjaryfirvöldum.  Hins vegar upplýstu þau úrskurðarnefndina hinn 5. mars 2012 um að kærandi hefði höfðað mál á hendur bæjaryfirvöldum vegna umdeildrar synjunar á breyttri aðkomu að húsi kæranda og að málið hefði verið dómtekið.   

Niðurstaða:  Beiðni kæranda um breytta aðkomu að fasteign hans að Borgarholtsbraut, sem synjað var með ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 21. janúar 2010, var tekin til meðferðar að nýju og henni synjað með ákvörðun  bæjarstjórnar Kópavogs hinn 24. maí 2011.  Verður að líta svo á að með því hafi bæjaryfirvöld endurupptekið hina fyrri afgreiðslu sína á erindi kæranda og að lokinni málsmeðferð tekið nýja stjórnvaldsákvörðun hinn 24. maí 2011, sama efnis og hina fyrri.  Af þeim sökum hefur eldri ákvörðunin ekki lengur þýðingu að lögum og á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Fyrir liggur að hin kærða synjun bæjarstjórnar Kópavogs á erindi kæranda hinn 24. maí 2011 var borin undir dómstóla með þingfestingu máls á hendur Kópavogsbæ hinn 28. september 2011, þar sem krafist er ógildingar á téðri ákvörðun. 

Ágreiningsmál sem geta komið til kasta úrskurðarnefndarinnar verða borin undir dómstóla án þess að kæruleið innan stjórnsýslunnar sé tæmd.  Er því aðilum máls í sjálfsvald sett hvort þeir nýti sér þann kærurétt eða beri ágreining sinn um kæranlegar stjórnvaldsákvarðanir beint undir dómstóla, sem skera úr slíkum ágreiningi samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Kærandi hefur borið lögmæti ákvörðunar Kópavogsbæjar frá 24. maí 2011 undir dómstóla og verður ekki séð að hann eigi nú einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess sama réttarágreinings. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er ekki fullnægt lagaskilyrðum um aðild máls fyrir nefndinni skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem hér eiga við.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

41/2011 Reykjamörk

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 1. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 41/2011, kæra á samþykkt bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá 1. júní 2011 um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 að Reykjamörk í Hveragerði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst nefndinni 15. júní 2011, kærir J, Reykjamörk 14, Hveragerði, samþykkt bæjarráðs um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 við Reykjamörk sem samþykkt voru á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar 1. júní 2011. 

Málsatvik og rök:  Íbúðarlóðin Reykjamörk 11 er nú óbyggð, en íbúðarhús er þar stóð var rifið í kjölfar jarðskjálfta árið 2008.  Í maímánuði 2011 sendi skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar íbúum í nágrenni nefndrar lóðar bréf þar sem kynnt voru áform bæjaryfirvalda um að nota lóðina til skamms tíma sem garð til almenningsnota.  Í kjölfarið andmælti kærandi þessum áformum.  Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs hinn 1. júní 2011 og var þar samþykkt að vinna áfram að greindu verkefni.  Skaut kærandi þeirri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að umdeild breyting á notkun lóðarinnar Reykjamörk 11 sé ólögmæt.  Lóðin standi andspænis lóð kæranda að Reykjamörk 14 og óttist hann grenndaráhrif sem breytingin muni hafa í för með sér.  Vænta megi ónæðis vegna hópamyndana að kvöld- og næturlagi og þá sérstaklega um helgar með tilheyrandi háreysti.  Þá séu einu bílastæðin næst lóðinni staðsett við lóð kæranda og lóðina nr. 16 við Reykjamörk. 

Bæjaryfirvöld Hveragerðisbæjar benda á að kynningarbréf sem kærandi hafi fengið hafi ekki verið eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga.  Hins vegar hafi þótt rétt að fá fram athugasemdir nágranna við áformum um nýtingu umræddrar lóðar, sem einungis skyldi vera til bráðabirgða.  Ef í ljós kæmi að áformum um nýtingu lóðarinnar fylgdi röskun eða truflanir á högum þeirra væri unnt að gera ráðstafanir til að koma til móts við þá.  Vegna athugasemda kæranda hafi verið fallið frá fyrri hugmyndum um að nýta lóðina til útivistar fyrir aldraða og verði ekki séð að kærandi muni verða fyrir auknu ónæði vegna úrbóta á umræddri lóð.  Ekki liggi fyrir hvort ráðist verði í umdeildar framkvæmdir sem hafi verið til þess fallnar að bæta útlit lóðarinnar þar til byggt yrði á henni að nýju. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er giltu á þeim tíma sem hér um ræðir, sættu stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er það í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Aðeins þær stjórnvaldsákvarðanir sem binda endi á meðferð máls sæta kæru til æðra stjórnvalds. 

Í máli þessu eru kærð samþykkt bæjarráðs Hveragerðisbæjar um að halda áfram verkefni við frágang lóðarinnar nr. 11 við Reykjamörk.  Hins vegar liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun bæjaryfirvalda samkvæmt skipulagslögum eða lögum um mannvirki nr. 160/2010 um framkvæmd verkefnisins.  Telst hin kærða samþykkt því ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson