Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

46/2012 Fannafold

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2012, kæra á afgreiðslu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl 2012 vegna sviptingar leyfis til hundahalds að Fannafold 176 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. maí 2012, er barst nefndinni 16. s.m., kærir R, Fannafold 176, Reykjavík, þá afgreiðslu heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl s.á. að ítreka fyrri samþykkt um afturköllun leyfis kæranda til að halda hund að Fannafold 176 í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisyfirvöldum hinn 1. júní 2012.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, tilkynnti Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kæranda um fyrirhugaða sviptingu leyfis hans til hundahalds.  Málið var tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hinn 1. september s.á. þar sem nefnt bréf heilbrigðiseftirlitsins var lagt fram og bókaði nefndin á að hún staðfesti ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur einróma.  Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða með bréfi heilbrigðiseftirlits, dags. 2. september 2011, og gefinn kostur á andmælum.  Kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum í tilefni af þeirri tilkynningu með bréfi, dags. 16. s.m.  Þeim athugasemdum var svarað með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 7. október s.á., þar sem m.a. var tekið fram að kærandi hefði ekki lengur leyfi borgaryfirvalda til að halda umræddan hund.  Kærandi skaut fyrrgreindri afgreiðslu heilbrigðisnefndar til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir með kæru, dags. 31. október 2011.  Hinn 12. mars 2012 kvað sú úrskurðarnefnd upp frávísunarúrskurð í því máli með þeim rökum að ekki lægi fyrir lokaákvörðun um að svipta kæranda leyfi til hundahalds.

Á fundi heilbrigðisnefndar Reykjavíkur hinn 12. apríl 2012 var lagður fram fyrrgreindur úrskurður úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda frá 3. ágúst 2011.  Bókaði nefndin að hún ítrekaði fyrri samþykkt sína um að afturkalla leyfi kæranda til að halda hund, skráningarnúmer 4505, að Fannafold 176.  Með bréfi, dags. 16. s.m., var kæranda tilkynnt að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefði samþykkt áðurnefnda bókun og var kæranda leiðbeint um kæruleið og kærufrest. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að fyrir liggi úrskurður þar sem einungis hafi verið staðfest boðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að svipta kæranda leyfi til hundahalds en ekki ákvörðun um sviptingu.  Það að „ítreka“ ógilda ákvörðun geri hana ekki gilda og breyti þar engu þó heilbrigðisnefndin skýri skilning sinn á upphaflegri „ákvörðun“. 

Kærandi telji að í máli þessu hafi bæði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur brotið gegn ákvæðum 10., 12., 13., og 14. gr og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Andmælaréttar kæranda hafi ekki verið gætt og hann ekki nægjanlega upplýstur um fyrirhugaðar aðgerðir áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Þannig hafi kærandi ekki haft vitneskju um, eftir úrskurð úrskurðarnefndarinnar, að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hygðist samt sem áður svipta hann leyfi til hundahalds.  Ekki hafi verið gætt jafnræðis deiluaðila og heilbrigðisnefndin hafi ekki framkvæmt sjálfstæða skoðun á málinu áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin, en slíkt ætti að vera grundvallaratriði til að geta fellt hlutlægan úrskurð í málinu.

Heyrt hafi til undantekninga að hundur kæranda hafi sloppið úr gæslu og gengið laus og fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda heilbrigðiseftirlitsins þegar á árinu 2009.  Ónæði af gelti hundsins sé ekki meira en almennt gerist og eigi kvartanir sumra nágranna yfir hundahaldi kæranda ekki við rök að styðjast og orsakist m.a. af nágrannaerjum.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:  Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. 

Heilbrigðisnefnd hafi brugðist við niðurstöðu úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og hafi fjallað aftur um málið á fundi sínum hinn 12. apríl 2012, ítrekað fyrri ákvörðun sína um afturköllun hundaleyfis kæranda frá 1. september 2011 og gert niðurstöðuna skýrari í bókun fundargerðar.  Með hliðsjón af forsögu málsins hafi ekki verið veittur andmælaréttur í bréfi, dags. 16. apríl 2012, en hins vegar hafi kæranda verið leiðbeint um kæruleiðir.  Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vilji jafnframt taka fram að í bréfi til kæranda, dags. 2. september 2011, hafi ákvörðun heilbrigðisnefndar verið skýr og bent sé á að ákvörðunin standi þar sem heilbrigðiseftirlitið vinni í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt 14. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Niðurstaða:  Hin kærða samþykkt heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 12. apríl 2012 var gerð með svofelldri bókun nefndarinnar: „Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur ítrekar fyrri samþykkt sína um að afturkalla leyfi [R….] til að halda hund, skráningarnúmer 4505, að Fannafold 176.“  Ekki liggur fyrir í málinu önnur samþykkt nefndarinnar en sú sem gerð var hinn 1. september 2011 og var til umfjöllunar í úrskurði úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir, uppkveðnum hinn 12. mars 2012. 

Gera verður þá kröfu til stjórnvalda við töku stjórnvaldsákvörðunar að bókun ákvörðunar og tilkynning til málsaðila beri með sér með skýrum hætti að um ákvörðun sé að ræða en eftir atvikum ekki aðeins ráðagerð um töku slíkrar ákvörðunar.  Ekki síst á þetta við þegar um er að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun.  Fyrir liggur að fyrri samþykkt heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, sem tengist máli þessu, fól í sér staðfestingu á meintri ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í bréfi þess til kæranda frá 3. ágúst 2011, þar sem kæranda var tilkynnt um fyrirhugaða sviptingu leyfis til hundahalds.  Í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 var sú samþykkt heilbrigðisnefndar ekki talin fela í sér kæranlega ákvörðun og málinu af þeim sökum vísað frá.  Hin kærða afgreiðsla heilbrigðisnefndar í máli því sem hér er til meðferðar fól aðeins í sér ítrekun fyrri samþykktar nefndarinnar um að staðfesta fyrirhugaða leyfissviptingu gagnvart kæranda og verður því ekki, fremur en fyrri samþykkt, talin hafa að geyma ákvörðun sem bindi enda á málið en það er skilyrði þess að það verði borið undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson