Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2012 Fannafold

Árið 2012, fimmtudaginn 4. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2012, kæra á afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 10. maí 2012 er varðar hundahald að Fannafold 179 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. maí 2012, er barst nefndinni 29. sama mánaðar, kærir Jónas A. Þ. Jónsson lögfræðingur, f.h. V og B, Logafold 28, Reykjavík, afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 10. maí 2012 er varðar hundahald að Fannafold 179.  Gera kærendur kröfu um að hin kærða afgreiðsla verði ógilt og að kveðið verði á um sviptingu leyfis til hundahalds og aflífun hunds. 

Málavextir:  Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 1. apríl 2012, tilkynnti annar kærenda að tveir stórir hundar hefðu ráðist á kött kærenda fyrir utan heimili þeirra og sært illa.  Hundarnir hafi ekki sinnt ítrekuðum köllum en verið síðan króaðir af í bakgarði af lögreglu.  Þeir hafi ekki sýnt lögreglumönnunum neina grimmd heldur hafi þeir virst hinir spökustu þegar lögreglumennirnir hafi náð að hefta för þeirra í garðinum.  Eigendur hundanna búi að Fannafold 179 og hafi íbúi þaðan komið á staðinn og sett ólar á hundana og hafi það orðið niðurstaða lögreglu að afhenda eigendum þá.  Í lok skýrslunnar kemur fram að annar hundurinn, Birna, hafi verið blóðugur um kjaftinn en að öðru leyti er ekki lýsing af atburðum öðrum en handsömun og afhendingu hundanna.  Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 2. s.m., var atvikið kært til lögreglu af öðrum kærenda í máli þessu.  Kæran beindist að eigendum hundanna og var krafist refsingar vegna lausagöngunnar. Að auki áskildi kærandi sér rétt til skaðabóta vegna kattarins sem hafi drepist skömmu eftir árásina. 

Með bréfum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. apríl 2012, til eigenda hundanna Birnu og Ísbjarnar var þeim gert að skila ítarlegu skapgerðarmati sérfróðra aðila um hundana til heilbrigðiseftirlitsins.  Þá var tekið fram í bréfinu að ávallt bæri að mýla hundana utan heimilis og að reglur um hundahald væru í öllu virtar þar til heilbrigðiseftirlitið tæki ákvörðun um afdrif þeirra.  Eigandi hundsins Birnu tók í kjölfarið ákvörðun um að láta aflífa hundinn.

Niðurstaða skapgerðarmats um hundinn Ísbjörn var sú að hann væri ekki árásarhneigður gagnvart fólki, en ekki væri hægt að fullyrða um viðbrögð hans gagnvart öðrum hundum, köttum eða öðrum litlum dýrum.  Þjálfa þyrfti Husky hunda mjög vel og hleypa þeim aldrei lausum þar sem önnur dýr gætu verið á ferli.

Með bréfi, dags. 10. maí 2012, til eiganda hundsins Ísbjarnar fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á það við eigandann að fara að leiðbeiningum dýralæknis þess er gert hefði skapgerðarmatið svo ekki skapaðist hætta af hundinum og ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.  Var í lok bréfsins vakin athygli viðtakanda á því að vísa málinu til úrskurðarnefndar ef hann vildi ekki una ákvörðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.  Er það þessi afgreiðsla sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda:  Kærandi kveður hina kærðu ákvörðun lítt rökstudda og að hún uppfylli ekki kröfur laga um form slíkra ákvarðana, en bréfið með hinni kærðu ákvörðun sé t.a.m. óundirritað og beri ógreinilega með sér að um formlega stjórnvaldsákvörðun sé að ræða.  Ekki hafi verið aðhafst annað í málinu af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en að senda bréf um skapgerðarmat vegna hundanna og hundarnir því áfram í vörslu eigenda sinna eins og ekkert hafi í skorist.  Sé hin kærða ákvörðun aðeins ávísun á óbreytt ástand.  Það sé athugavert við skýrslu dýralæknisins að hann hafi gefið sér að hundurinn Birna hafi ráðist á og drepið kött í Grafarvogi en ekki sé ljóst að hve miklu leyti hundurinn Ísbjörn hafi tekið þátt í athæfinu.  Þetta sé merkilegt í ljósi þess að eina vitnið að árásinni hafi verið kærandi sem hafi borið fyrir lögreglu að báðir hundarnir hafi ráðist á köttinn og haft hann í kjöftum sér.  Af afgreiðslu málsins virðist mega draga þá ályktun að hundaeigandi, dýralæknir og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi ákveðið að skella skuldinni á annan hundinn, honum hafi verið fórnað og það talin nægileg friðþæging í málinu.  Þetta sætti kærendur sig ekki við.  Þeir telji að það hafi sýnt sig að hundaeigendum þessum sé ekki treystandi til hundahalds og þá sér í lagi að halda marga stóra og hættulega Husky úlfhunda.  Í tveimur bréfum frá heilbrigðiseftirlitinu til hundaeigendanna, dags. 3. apríl 2012, hafi komið fram að áður en atburður þessi hafi átt sér stað hafi borist kvartanir vegna lausagöngu hunda frá heimilinu og ógnandi framkomu þeirra.  Það sé með miklum ólíkindum að heilbrigðiseftirlitið skuli telja ásættanlegt að eitt heimili innan borgarmarka í fjölmennu íbúðarhverfi hafi getað fengið leyfi fyrir mörgum hundum af hættulegri tegund.  Þegar við bætist brot á leyfum í formi lausagöngu ómýldra hunda auk árásar á saklaust dýr þá hljóti grundvöllur leyfis til hundahalds að vera brostinn. 

Fyrirliggjandi skapgerðarmat segi ekkert til um skapgerð hundsins og breyti ekki þeirri staðreynd að hundurinn hafi tekið þátt í grófri árás á minna dýr.  Hundaeigendurnir hafi ítrekað brotið reglur um hundahald og litlar líkur séu á að breyting verði þar á.  Í máli þessu hafi hugsmunir hundaeigandans verið settir ofar hagsmunum almennings og dýra. 

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur:  Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er tekið fram að umrædd ákvörðun hafi verið tekin í samræmi við það verklag sem hafi tíðkast í heilbrigðiseftirlitinu og með hliðsjón af 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þar sé kveðið á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til.  Hins vegar myndu ítrekuð brot eða atvik leiða til endurskoðunar ákvörðunarinnar og þá mögulega til annarra og hertari krafna, s.s. aflífunar.  Ekki sé ljóst hvað kærandi eigi við með fullyrðingu um að ákvörðun hafi ekki verið rökstudd og uppfylli ekki kröfur laga um form og um óundirritað bréf.  Engin bréf er málið varði séu óundirrituð, eins og haldið sé fram í kærunni, auk þess sem í bréfum sé vísað til þeirra greina í samþykkt um hundahald í Reykjavík er varði ákvörðun Heilbrigðiseftirlitsins. 

Kærandi haldi því fram að heilbrigðiseftirlitið hafi ekki aðhafst annað í málinu en að senda hundaeigendunum bréf með kröfu um skapgerðarmat á hundunum.  Þessi fullyrðing sé röng eins og sjá megi af gögnum sem kærandi leggi sjálfur fram.  Bæði hafi átt sér stað samtöl og samskipti við hundaeigendur, kæranda, dýralækna sem framkvæmt hafi skapgerðarmat og aflífun, sem og lögreglu.  Hafi heilbrigðiseftirlitið hafið rannsókn á málinu hinn 2. apríl 2012 og hafi niðurstaðan orðið sú að eigandi annars hundsins, Birnu, hafi tekið ákvörðun um aflífun líkt og gr. 19.2 í þágildandi samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 hafi kveðið á um.  Í millitíðinni hafi farið fram ítarlegt skapgerðarmat á báðum hundum.  Niðurstaða skapgerðarmats á hundinum Ísbirni hafi verið sú að hann væri ekki hættulegur mönnum en ekki hafi verið hægt að fullyrða um viðbrögð hans gagnvart öðrum dýrum.  Í kjölfar þessa hafi heilbrigðiseftirlitið tekið þá ákvörðun gagnvart eigandanum að hundurinn Ísbjörn, sem ekki hafi verið kvartað yfir áður, skyldi hvergi innan borgarmarka fá að vera laus og ekki heldur á skilgreindum lausagöngusvæðum. 

Kærandi hafi gert athugasemdir við skapgerðarmat á hundinum Ísbirni.  heilbrigðiseftirlitið tjái sig ekki um faglegar ályktanir í skapgerðarmatsskýrslu sérfræðings í dýraatferli sem liggi fyrir, en geri athugasemd við órökstuddar ályktanir um mat dýralæknisins þar sem vitnað sé til símaviðtals við hundaeiganda.  Hafi dýralæknirinn ekki verið með þetta málsgagn undir höndum og í minnisblaði heilbrigðiseftirlitsins um það samtal sé einungis haft eftir viðkomandi það sem komið hafi fram, en ekkert mat hafi verið lagt á það að öðru leyti.  Ekki sé heldur lagt mat á vitnisburð kæranda, en það sé lögreglunnar að rannsaka hann.  Kærandi segi að draga megi þá ályktun að m.a. heilbrigðiseftirlitið „… hafi ákveðið að skella allri skuldinni á annan hundinn, honum fórnað og málið leyst!“  Heilbrigðiseftirlitið mótmæli svona ómálefnalegum upphrópunum og vísi til þess sem áður hafi komið fram að samkvæmt rannsókn málsins af þess hálfu og þeim lögum, reglum og verklagi sem því sé uppálagt að fara eftir hafi niðurstaðan orðið eins og raun ber vitni. 

Í málsrökum kæranda sé staðhæft að ákvörðun kærða sé „aðeins ávísun á óbreytt ástand“ og að um „friðþægingu“ sé að ræða.  Heilbrigðiseftirlitinu finnist miður að kærandi skuli nota svo ómálefnaleg „rök“ og vísist aftur til þeirrar skyldu að gæta skuli meðalhófs og gefa skuli aðilum máls tækifæri til að bæta sig.  Heilbrigðiseftirlitið veigri sér ekki við að taka á málum eins og þau þróist hverju sinni og til þess hafi það þau tæki og takmarkanir sem felist í lögum, reglum og samþykktum, en það stjórnist ekki af geðþóttaákvörðunum á hverjum tíma.  Varðandi gagnrýni kæranda á heilbrigðiseftirlitið fyrir að hafa gefið leyfi fyrir sex hundum að Fannafold 179 þá sé ekkert í hundasamþykkt sem banni fyrirfram ákveðinn fjölda hunda á heimili.  Á það sé sérstaklega bent að fjórir lögráða aðilar, en ekki einn, hafi verið eigendur sex hunda (nú fimm) að Fannafold 179.  Á það sé líka bent að Husky hundar séu ekki bannaðir í Reykjavík samkvæmt samþykkt um hundahald.  Það hvort íbúum að Fannafold 179 sé treystandi til að halda hunda sé annað mál og þurfi að skoða hverju sinni þegar mál komi upp, en hundarnir séu í eigu mismunandi lögráða aðila og atvik sem tengist hundinum Ísbirni hafi ekki komið upp áður.  Kærandi bendi réttilega á að ítrekuð brot geti leitt til afturköllunar leyfa, sbr. ákvæði 20. gr. samþykktar um hundahald. 

—————————–

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 25. júní 2012.

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin.  Sé m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds.  Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 er gilti á þeim tíma er hér um ræðir.  Í 2. gr. samþykktarinnar sagði að hundahald væri heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett væru í henni. 

Í 20. gr. samþykktarinnar var kveðið á um að ef hundaeigandi bryti gegn lögum um dýravernd, dýrahald, samþykktinni sjálfri eða öðrum reglum sem um dýrahald giltu, gæti umhverfissvið afturkallað leyfi hans og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar.  Þá sagði í 19. gr. samþykktarinnar að tjónþoli eða forráðamaður hans gæti krafist þess að hundur yrði aflífaður ef hann teldist hættulegur og var þá skylt að verða við þeirri kröfu, enda hefði verið leitað álits sérfróðra aðila, s.s. dýralæknis eða hundaþjálfara, sem viðurkenndur væri af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, áður en ákvörðun um aflífun væri tekin.  Er sambærilegt ákvæði í 19. gr. núgildandi samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 478/2012.

Í máli þessu krefjast kærendur ógildingar á því sem þeir telja vera ákvörðun í máli hundaeiganda að Fannafold 179.  Um er að ræða tilmæli sem beint var til eiganda umrædds hunds um að fara að leiðbeiningum í skapgerðarmati dýralæknis svo ekki skapaðist hætta af hundinum og ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.  Er vandséð að í erindinu hafi verið fólgin stjórnvaldsákvörðun sem bundið hafi endi á meðferð máls, en hafi svo verið þá var það ákvörðun í máli eiganda hunds, til þess gerð að gæta almannahagsmuna, og áttu kærendur ekki aðild að málskoti hennar til æðra stjórnvalds. 

Þá krefjast kærendur þess að hundaeigandi sá sem málið varðar verði sviptur leyfi til hundahalds og að umræddur hundur verði þegar í stað aflífaður.  Hvað fyrra atriðið varðar þá er það háð mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hvort svipta skuli hundaeiganda leyfi til að halda hund og verður ekki ráðið af ákvæði 20. gr. samþykktar um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 að gert hafi verið ráð fyrir að þriðji maður, s.s. tjónþoli, ætti aðild að slíkri ákvörðun.  Hvað seinna atriðið varðar þá var tjónþola veittur réttur til þess, skv. 19. gr. tilvitnaðrar samþykktar, að krefjast þess að hundur yrði aflífaður, en skilja verður það ákvæði svo að beina hefði þurft slíkri kröfu að heilbrigðiseftirlitinu eða heilbrigðisnefnd.  Er ekki að finna í málinu nein gögn um að kærendur hafi borið fram kröfu við heilbrigðisyfirvöld um aflífun umrædds hunds og liggur því ekki fyrir nein ákvörðun í máli kærenda af því tilefni sem þeim hefði verið unnt að bera undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist lítillega sökum anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                               Þorsteinn Þorsteinsson