Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2018 Sogavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2017 og 19. september s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðum nr. 73-77 við Sogaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Sogavegi 88, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst og 19. september 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðum nr. 73-77 við Sogaveg. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu byggingarleyfa og að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. maí 2018.

Málavextir:
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 9. mars 2016 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Sogavegar, Vonarlands, vegna lóða nr. 73-77 við Sogaveg. Í tillögunni fólst að rífa tvö hús á lóðunum nr. 73-75 og byggja fjölbýlishús í stað þeirra ásamt byggingu fjölbýlishúss á óbyggðri lóð nr. 77. Á fundinum var samþykkt að kynna deiliskipulagstillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og var íbúafundur haldinn 31. mars 2016.

Hinn 13. apríl 2016 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar að auglýsa tillöguna til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010 og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði. Tillagan var auglýst til kynningar 1. júlí 2016 með athugasemdafresti til 12. ágúst s.á. Tvær athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar. Að kynningartíma loknum samþykkti umhverfis- og skipulagsráð skipulagstillöguna með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 26. ágúst s.á. Skipulagsbreytingin var staðfest í borgarráði 15. september 2016 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. janúar 2017.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. júní 2017 var samþykkt byggingarleyfi fyrir niðurrifi húsa sem stóðu á lóðunum nr. 73-75 við Sogaveg og var þeim framkvæmdum lokið 9. nóvember 2017. Þá samþykkti byggingarfulltrúi takmarkað byggingarleyfi vegna jarðvinnu við grunn fjölbýlishúsa á lóðunum nr. 73-77 við Sogaveg 25. júlí s.á. og var byggingarleyfi þess efnis gefið út 31. ágúst 2017. Byggingarleyfi fyrir greindum fjölbýlishúsum var síðan samþykkt annars vegar 15. ágúst 2017 fyrir Sogaveg 77 og hins vegar 19. september s.á. fyrir Sogaveg 73-75. Hinn 18. janúar 2018 var gerð úttekt á vinnu við grunn húsanna þar sem fram kom að búið væri að fylla yfir klöpp með púða sem væri tilbúinn til þjöppunar.

Málsrök kæranda:
Af hálfu kæranda er á því byggt að ýmsir annmarkar hafi verið á aðdraganda og framkvæmd umræddrar deiliskipulagsbreytingar og framkvæmda sem sæki stoð í byggingarleyfin. Þær breytingar sem samþykktar hafi verið muni breyta ásýnd og karakter hverfisins ásamt því að hafa ýmis neikvæð áhrif í för með sér sem muni lækka fasteignaverð í hverfinu og draga úr vilja fólks til að sinna almennu fasteigna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða byggingarleyfi fyrir lóð nr. 73-75 við Sogaveg hafi verið samþykkt 19. september 2017 og niðurrif húsa á lóðunum hafi verið samþykkt 27. júní s.á. Í framhaldi af því hafi verið samþykkt takmarkað byggingarleyfi vegna jarðvinnu fyrir fjölbýlishús á lóðunum. Vottorð um lokaúttekt á niðurrifi hafi síðan verið gefið út 29. nóvember 2017. Því sé ljóst að kæranda hafi átt að vera kunnugt um uppbyggingu á Sogavegi haustið 2017 þegar eldri hús á lóðunum nr. 73-75 voru rifin og farið var af stað í jarðvinnu. Eigi því að miða kærufrest við það tímamark.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að erfitt sé að taka til varna í málinu vegna óljósrar kröfugerðar kæranda. Hvergi sé tekið fram hvaða ákvörðun sé kærð, hverjar kröfur kæranda séu og hvort kærandi standi einn að kærunni eða sé í umboði fyrir fleiri aðila. Þá sé kærufrestur liðinn vegna byggingarleyfisins og deiliskipulagsins skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 og beri því að vísa málinu frá. Kærandi hafi mátt vita af þeim framkvæmdum sem hann kærir þegar breyting á deiliskipulagi var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 27. janúar 2017 og í síðasta lagi þegar framkvæmdir hófust haustið 2017.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Deiliskipulagsbreyting sú sem var undanfari hinna kærðu byggingarleyfa fyrir byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðunum Sogavegi 73-75 og 77 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. janúar 2017. Tók kærufrestur þeirrar ákvörðunar því að líða 28. s.m., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er því ljóst að kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn. Sætir sú deiliskipulagsbreyting því ekki endurskoðun í máli þessu.

Undanfari hinnar kærðu ákvörðunar var fyrrgreind breyting á deiliskipulagi umrædds svæðis. Var sú breyting auglýst til kynningar með almennri auglýsingu og auk þess boðað til íbúafundar þar sem tillagan var kynnt. Var hagsmunaaðilum tilkynnt um fundin með bréfi, þ.á m. kæranda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. júní 2017 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir niðurrifi húsa sem áður stóðu á lóðunum nr. 73-75 við Sogaveg. Samkvæmt gögnum frá byggingarfulltrúa höfðu húsin verið rifin fyrir 9. nóvember 2017. Þá voru gefin út takmörkuð byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna nýbygginganna 31. ágúst 2017 og við úttekt byggingarfulltrúa 18. janúar 2018 var skráð að búið væri að fylla yfir klöpp með púða sem væri tilbúinn til þjöppunar. Með hliðsjón af þessum aðdraganda og framkvæmda á umræddum lóðum mátti kæranda vera kunnugt um að byggingarleyfi fyrir nýbyggingum hafi verið veitt eða a.m.k. gefið honum tilefni til að leita upplýsinga þar um hjá byggingaryfirvöldum í síðasta lagi í janúar 2018. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 30. apríl s.á. Var eins mánaðar kærufrestur vegna umdeildrar ákvörðunar byggingarfulltrúa því liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hina kærðu leyfa ekki saman. Eins og málsatvikum er háttað og með tilliti til hagsmuna leyfishafa, eru ekki skilyrði til þess að taka mál þetta til meðferðar á grundvelli áðurgreindrar undanþágu 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Þorsteinn Þorsteinsson

 

34/2018 Lykilfellslína

Með

Árið 2018, föstudaginn 6. júlí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 34/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs frá 9. janúar 2018 um veitingu framkvæmdarleyfis vegna lagningar Lyklafellslínu 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 9. janúar 2018 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis vegna Lyklafellslínu 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Forsaga málsins er sú að á árinu 2009 sendi Landsnet hf. Skipulagsstofnun til meðferðar frummatsskýrslu um Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Stofnunin auglýsti nefnda skýrslu til kynningar og að kynningartíma liðnum skilaði Landsnet til Skipulagsstofnunar endanlegri matsskýrslu, dags. 10. ágúst 2009. Álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 17. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 9. janúar 2018 var umsókn Landsnets hf., dags. 29. desember 2016, um framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1 lögð fram og samþykkt. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir

Kærendur vísa til þess að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita hið kærða framkvæmdaleyfi þar sem undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið ábótavant.

Bæjaryfirvöld Kópavogs vísa til þess að undirbúningur og taka hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að með bréfum, dags. 19. júní 2018, fór leyfishafi fram á það við sveitarstjórnir í Mosfellsbæ, Kópavogi og Garðabæ, að framkvæmdaleyfi sem samþykkt voru af þeirra hálfu vegna Lyklafellslínu 1 yrðu afturkölluð og felld niður. Bæjarráð Kópavogsbæjar tók þá ákvörðun á fundi 28. júní 2018 að afturkalla hina kærðu ákvörðun frá 9. janúar s.á. um að veita framkvæmdaleyfi vegna Lyklafellslínu 1.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Byggja kærendur aðild sína í máli þessu á greindri lagaheimild fyrir aðild tiltekinna hagsmunasamtaka.
Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna, að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar og taka afstöðu til kröfu kærenda um ógildingu hennar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

83/2018 Rauðagerði Miklabraut

Með

Árið 2018, föstudaginn 29. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 83/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 20. júní 2017 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir forgangsrein fyrir strætisvagna á Miklubraut við Rauðagerði, gerð hljóðmana, stíga, stoð- og hljóðveggja o.fl.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júní 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kærir íbúi, Rauðagerði, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 20. júní 2017 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir forgangsrein fyrir strætisvagna á Miklubraut við Rauðagerði, gerð hljóðmana, stíga stoð- og hljóðveggja o.fl.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. júní 2018.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. júní 2017 var samþykkt framkvæmdaleyfi vegna lagningar forgangsreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut frá Skeiðarvogi að rampi sem liggur að Reykjanesbraut, lagningu göngu- og hjólastígs, gerð hljóðmana, stoð- og hljóðveggja o.fl. Framkvæmdaleyfi var gefið út sama dag og var gildistími þess til 20. júní 2018. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa dags. 19. júní 2018 var samþykkt að framlengja gildistíma leyfisins vegna framkvæmda við Rauðagerði, til 15. október 2018, þar sem framkvæmdum sé ekki lokið.

Með bréfi, dags. 2. júlí 2017, kærði kærandi samþykkt framkvæmdaleyfisins en það kærumál  var fellt niður þar sem kæran uppfyllti ekki formkröfur um undirritun skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæranda var veittur frestur til þess að bæta úr þeim annmarka en það var ekki gert. Með bréfi, dags. 24. júlí 2017, var kæranda tilkynnt um að kærumálið, sem er nr. 71/2017, hafi verið fellt niður þar sem undirrituð kæra hefði ekki borist. Hefur kærandi nú kært umdeilt framkvæmdaleyfi að nýju svo sem að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi sé ekki í samræmi við skipulagsáætlanir og að málsmeðferð þess hafi verið ábótavant.

Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hið umþrætta framkvæmdaleyfi sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag og að kærufrestur í málinu sé löngu liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða:
Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar.

Fyrir liggur að kæranda var kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar er hann kærði framkvæmdaleyfið með kæru, dags. 2. júlí 2017. en það mál var felld niður svo sem að framan greinir. Síðari kæran barst úrskurðarnefndinni 8. júní 2018, eða rúmum 11 mánuðum eftir að fyrri kæran um sama leyfi barst úrskurðarnefndinni. Var eins mánaðar kærufrestur því löngu liðinn vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki þykja skilyrði til þess að taka málið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

48/2018 Brynjureitur

Með

Árið 2018, föstudaginn 29. júní tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 48/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra vegna ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 um að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. mars 2018, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur 2., 3. og 4. hæðar hússins að Klapparstíg 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. september 2017 að samþykkja breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi

Málsatvik og rök: Hinn 27. júní 2017 var óskað eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi  Brynjureits, staðgreinireits 1.172.0, á þann veg að heimilað yrði að hafa veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa var samþykkt að grenndarkynna tillögu að breytingu á skipulagi reitsins fyrir hagsmunaaðilum að Klapparstíg 25-27, 28, 30 og 31, Laugavegi 23 og Hverfisgötu 40. Að lokinni grenndarkynningu var tillagan lögð fram að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 30. ágúst 2017 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. s.m. Var hin kynnta deiliskipulagstillaga samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa. Borgarráð samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi 7. september 2017 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. október 2017.

Kærendur vísa til þess að grenndarkynning hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið ólögleg þar sem hún hafi ekki náð til eigenda fasteigna í húsinu að Klapparstíg 29 og þannig hafi verið brotið á andmælarétti þeirra. Þeim hafi ekki verið leiðbeint um kærufrest og ekki fengið aðgang að gögnum málsins sem hafi torveldað þeim að leita réttar síns. Þá hafi undirbúningur og rannsókn máls verið í andstöðu við skipulagslög nr. 123/2010 og almennar reglur stjórnsýsluréttar.

Niðurstaða: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. maí 2018 var samþykkt tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðarinnar nr. 29 við Klapparstíg með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 27. apríl 2018. Felur breytingin í sér heimild til að hafa veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29. Öðlaðist sú skipulagsbreyting gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að hin nýja breyting á deiliskipulagi vegna Klapparstígs 29 tók gildi hefur hin kærða ákvörðun ekki réttarverkan að lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar enda stæði síðari ákvörðunin óhögguð hvað sem öðru liði. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

79/2018 Miðstræti

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 20. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 79/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2018 um að krefjast lagfæringar á skemmdri frárennslislögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2018, sem barst nefndinni 1. júní s.á., kæra húsfélögin Miðstræti 8a og Miðstræti 8b þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að gefa kærendum frest til 1. júní 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn. Gera kærendur kröfu um að ákveðið verði með úrskurði að þvingunarúrræðum verði ekki beitt gagnvart þeim.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 13. júní 2018.

Málavextir: Kærendur eru húsfélög fasteignanna Miðstrætis 8a og Miðstrætis 8b. Liggur frárennslislögn frá húsinu undir lóð Laufásvegar 7 áður en hún tengist stofnlögn. Í mars 2018 stíflaðist sá hluti lagnarinnar sem liggur undir lóðina að Laufásvegi 7 en kærendum hefur verið neitað um aðgengi að lögninni til að fá gert við hana, bæði af eigendum Laufásvegar 7 og 9. Afleiðing stíflunnar var sú að skolpblandað vatn lak inn í húsnæði að Laufásvegi 9. Með bréfi, dags. 20. mars 2018, fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn tafarlaust og skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 3. apríl s.á. Eftir bréfleg samskipti var ákveðið að framlengja umræddan frest og með bréfi, dags. 20. s.m., ítrekaði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrri kröfu um að kærendur létu lagfæra umrædda skólplögn. Skyldi viðgerð lokið eigi síðar en 30. s.m. Var í bréfinu jafnframt vakin athygli á því að yrði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins gæti heilbrigðisnefnd látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað eiganda. Kærendur lögðu fram kæru til úrskurðarnefndarinnar 27. apríl 2018 og var málinu vísað frá með úrskurði dags. 16. maí s.á. á grundvelli þess að ekki var um lokaákvörðun að ræða.

Með bréfi heilbrigðiseftirlitsins, dags. 17. maí 2018, var enn skorað á kærendur að láta gera við umrædda lögn og var gefinn frestur til 1. júní s.á. Segir jafnframt í bréfinu að verði ekki orðið við kröfunni fyrirhugi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að fá heimild heilbrigðisnefndar Reykjavíkur til að láta framkvæma viðgerð á kostnað kærenda. Fari skólp aftur að renna inn í húseignina að Laufásvegi 9 og valda mengun, skemmdum og ónæði fyrirhugi heilbrigðiseftirlitið einnig að banna notkun skólplagna frá Miðstræti 8a og 8b þar til viðgerð sé lokið.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast ekki geta unað því að eigendur Laufásvegar 7 og 9 stöðvi nauðsynlegar viðgerðir á frárennslislögnum kærenda. Aldrei hafi staðið á kærendum að gera við lagnirnar. Erfitt sé að samþykkja að vera knúnir með kúgun til að samþykkja afarkosti um m.a. óskyld mál eða vera neyddir til að leysa frárennslismálin með sértækum lausnum sem kosti margfalt á við hina gömlu og hefðbundnu leið frárennslisins, sem auk þess sé styst og hagkvæmust. Kærendur hafni jafnframt hvers kyns ábyrgð á skemmdum vegna lagnanna, enda verið meinað að grípa til eðlilegra og fyrirbyggjandi ráðstafana til viðgerða í haust er leið og nú aftur, til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.

Þar sem skýrt komi fram í bréfi heilbrigðiseftirlitsins að um lokafrest til viðgerðar sé að ræða telji kærendur að um kæranlega lokaákvörðun sé að ræða.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er krafist frávísunar kærunnar eða að henni verði hafnað. Kærendur hafi fengið frest til 1. júní 2018 til að gera við skemmda frárennslislögn á lóðinni nr. 8 við Miðstræti. Hafi jafnframt verið tekið fram að ef ekki yrði orðið við kröfunni gæti heilbrigðiseftirlitið látið fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað lóðarhafa. Umræddur frestur sé liðinn og engin ný ákvörðun hafi verið tekin. Hafi kærendur því enga lögvarða hagsmuni af því að fá úr gildi ákvörðunarinnar skorið og beri því að vísa kærunni frá.

Verði ekki fallist á kröfu um frávísun sé á því byggt að hafna beri kröfu kærenda, enda eigi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um veitingu frests til úrbóta sér stoð í 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og 61. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr. kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt ákvæðum þessum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi. Rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laganna.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kærenda, dags. 17. maí 2018, þar sem skorað er á þá að lagfæra skólplögn sem liggur frá húsi þeirra. Er tekið fram að verkinu skuli lokið eigi síðar en 1. júní s.á. Í bréfinu segir jafnframt að verði ekki farið að kröfu heilbrigðiseftirlitsins sé fyrirhugað að fá heimild heilbrigðisnefndar Reykjavíkur til að láta fara fram lagfæringar á lögninni á kostnað kærenda. Jafnframt kemur fram að heilbrigðiseftirlitið fyrirhugi að banna notkun skolplagnarinnar komi aftur fram leki í henni. Er vísað til heimildar í 61. gr. laga nr. 7/1998 og 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, en þar segir að heilbrigðisnefnd geti bannað notkun ófullnægjandi fráveitulagna og krafist endurbóta og endurnýjunar þeirra.

Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins tilkynningu um að til álita komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998, nánar tiltekið 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. laganna, verði kærendur ekki við áskorun um að vinna ákveðið verk. Skiptir þar ekki máli þótt segi að um lokafrest sé að ræða. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Þó þykir rétt að benda á að á fundi sínum 8. júní 2018 samþykkti heilbrigðisnefnd Reykjavíkur beiðni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að láta lagfæra skólplögn Miðstrætis 8a og 8b á kostnað eigenda og að sú ákvörðun er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

166/2016 Hliðsnes 2

Með

Árið 2018, mánudaginn 11. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 166/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar um að samþykkja breytingu á hesthúsi að Hliðsnesi 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2016, er barst nefndinni 12. s.m., kærir A þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 1. desember 2016 að samþykkja útgáfu byggingarleyfis vegna breytinga á hesthúsi að Hliðsnesi 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 25. janúar 2017 og 8. júní 2018.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 15. september 2016 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi vegna breytinga á hesthúsi að Hliðsnesi 2. Nefnd lóð er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt og var af þeirri ástæðu ákveðið af skipulagsnefnd að láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var í kjölfarið grenndarkynnt öllum lóðarhöfum og íbúum á Hliðsnesi með bréfi, dags. 7. október 2016. Var gefinn frestur til athugasemda til 4. nóvember s.á. Kærandi kom að athugasemdum þar sem hann mótmælti fyrirhuguðum breytingum og tók fram að hann teldi umrædda breytingu fela í sér breytingu húsnæðisins úr hesthúsi í íbúðarhús.

Á fundi skipulagsnefndar 10. nóvember 2016 voru innsendar athugasemdir teknar til umræðu og tekin ákvörðun um að vísa málinu til frekari skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði bæjarins. Á fundi nefndarinnar 17. s.m. var bókað að hún gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfisins þar sem ekki væri gert ráð fyrir breytingu á notkun hússins til íbúðar eða atvinnustarfsemi. Tillaga skipulagsnefndar um að gera ekki athugasemdir við útgáfu byggingarleyfisins var staðfest af bæjarstjórn 1. desember 2016.

Kærandi krefst þess að notkunargildi húsnæðisins sem um ræðir haldist óbreytt sem hesthús.

Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafi ekki verið gefið út líkt og krafa sé gerð um í 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því liggi ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu. Ef ekki verði fallist á frávísun sé á það bent að afgreiðsla byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar að samþykkja breytingu á hesthúsi að Hliðsnesi 2. Ákvörðunin var tekin að undangenginni grenndarkynningu, en ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir umrætt svæði. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráform, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhuguð mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landanotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingarleyfi án deiliskipulags. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu samþykkti skipulagsnefnd umsókn um breytingu á húsnæðinu á fundi sínum 17. nóvember 2016 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarstjórn 1. desember 2016. Að þeirri afgreiðslu lokinni var byggingarfulltrúa heimilt að lögum að veita umsótt byggingarleyfi. Leyfi hefur hins vegar ekki verið veitt samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Er því við að bæta að skv. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar, en sá tími er nú liðinn.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

164/2016 Búðavegur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 7. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 164/2016, kæra á ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 11. ágúst 2016, sem staðfest var af bæjarráði 15. s.m., um að afturkalla leyfi fyrir breyttri skráningu matshluta 0201 að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði í Fjarðabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kærir A þá ákvörðun eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar frá 11. ágúst 2016, sem staðfest var af bæjarráði 15. s.m., að afturkalla leyfi fyrir breyttri skráningu matshluta 0201 að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði, Fjarðabyggð.

Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skráningu umrædds rýmis verði breytt í íbúðarhúsnæði. Verði hin kærða ákvörðun ekki metin ógild er gerð krafa um að Fjarðabyggð greiði kæranda skaðabætur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 9. janúar 2017 og í maí 2018. 

Málavextir: Kærandi er samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skráður eigandi efri hæðar hússins að Búðavegi 35, Fáskrúðsfirði, matshluta 0201, en tveir eignarhlutar eru í húsinu. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 20. apríl 2015 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að breyta notkun umrædds rýmis  úr verslunar- og skrifstofuhúsnæði í íbúð. Mótmæltu eigendur neðri hæðar hússins þeirri ákvörðun og kröfðust þess að hún yrði felld úr gildi. Jafnframt óskaðu þeir eftir áliti kærunefndar húsamála vegna málsins og lá álit nefndarinnar fyrir 11. apríl 2016. Var niðurstaða þess sú að eiganda efri hæðar hússins væri óheimilt að breyta eignarhluta sínum úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði án samþykkis allra eigenda hússins. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 15. júní 2016 var fært til bókar að nefndin teldi að í ljósi fyrrgreinds álits kærunefndar húsamála kynni samþykkt byggingarleyfi um breytta notkun efri hæðar hússins að Búðavegi 35 að vera ógildanlegt. Var byggingarfulltrúa falið að tilkynna eiganda efri hæðarinnar um mögulega ákvörðun nefndarinnar um afturköllun byggingarleyfisins og veita rétt til andmæla áður en ákvörðun yrði tekin. Staðfesti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 23. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 11. ágúst 2016. Á fundinum var lagt fram andmælabréf eiganda efri hæðar Búðavegs 35. Lagði nefndin til að samþykkt byggingarleyfi frá 20. apríl 2015 fyrir breyttri notkun á efri hæð hússins yrði afturkallað. Var fært til bókar að ástæða afturköllunarinnar væri sú að byggingarleyfið teldist ógildanlegt þar sem eigandi efri hæðar hefði ekki haft eignarréttarlegar heimildir til breyttrar notkunar eignarinnar skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, sbr. álit kærunefndar húsamála, dags. 11. apríl 2016. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að tilkynna um afturköllunina og færa skráningu eignarinnar til samræmis við skráningu fyrir útgáfu byggingarleyfisins. Staðfesti bæjarráð nefnda afgreiðslu 15. ágúst 2016.

Málsrök kæranda:
Kærandi tekur fram að það sé með öllu óásættanlegt að stjórnvald afturkalli byggingarleyfi 16 mánuðum eftir að það hafi verið gefið út. Ekki sé um ógildanlega ákvörðun að ræða skv. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd ákvörðun sé mjög íþyngjandi og ekki hafi verið sýnt fram á nauðsyn hennar eða að veigamiklar ástæður séu fyrir henni. Rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið sinnt. Verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ekki hafi verið sýnt fram á neina þá hagsmuni sem skerðist eða tjón sem eigendur neðri hæðarinnar verði fyrir við það að byggingarleyfi sé veitt. Búið sé að leggja í mikla vinnu og fjármuni við að gera eignina þannig úr garði að hún uppfylli skilyrði til íbúðar. Varðandi kærufrest þá hafi aðili sá sem kæri fyrir hönd dánarbúsins fengið bréf skipulags- og byggingarfulltrúa í tölvupósti 8. nóvember 2016.

Málsrök Fjarðabyggðar. Sveitarfélagið krefst frávísunar málsins en ella að kröfum kæranda verði hafnað. Ljóst sé að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögboðnum kærufresti. Tilkynning um hina kærðu ákvörðun hafi verið send í ábyrgðarbréfi á lögheimili kæranda í ágúst 2016 en kæra hafi ekki borist nefndinni fyrr en 8. desember sama ár. Hinn 8. nóvember 2016 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi náð símleiðis í talsmann dánarbúsins og í kjölfarið sent honum framangreint bréf í tölvupósti.

Þegar álit kærunefndar húsamála í málinu hafi komið fram hafi ein grundvallarforsenda fyrir upphaflegu byggingarleyfi brostið. Hafi efnisleg skilyrði fyrir afturköllun byggingarleyfisins því verið til staðar og við þá ákvörðun hafi verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.
 
Með bréfi sínu, dags. 22. ágúst 2016, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi um afturköllun ákvörðunar sinnar frá 20. apríl 2015, um veitingu byggingarleyfis fyrir breyttri notkun á efri hæð Búðavegar 35. Var bréfið sent í ábyrgðarpósti til talsmanns dánarbúsins. Tilgreindur komudagur ábyrgðarsendingarinnar var 30. ágúst 2016 samkvæmt afriti af bréfinu. Var bréfsins ekki vitjað og það endursent 29. september s.á. Liggur fyrir staðfesting frá Þjóðskrá Íslands um að fyrrgreindur aðili hafi verið með skráð lögheimili með því heimilisfangi er bréfið var sent á. Afrit bréfsins var jafnframt sent til einkahlutafélags sem skráð er með aðsetur að Búðavegi 35, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá er fyrrgreindur talsmaður dánarbúsins stjórnarmaður þess félags og forráðamaður. Hafði umræddur talsmaður verið í samskiptum við sveitarfélagið vegna málefna er lutu að Búðavegi 35.

Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að ákvörðun sé bindandi eftir að hún sé komin til aðila máls. Það er þó ekki gert að skilyrði að ákvörðun sé komin til vitundar hans en þetta kemur fram í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til stjórnsýslulaga. Kærandi getur því ekki frestað eða afstýrt réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar með því að taka ekki á móti bréfi sem ákvörðunina hefur að geyma. Í samræmi við þetta verður að telja að hin kærða ákvörðun hafi borist kæranda í skilningi stjórnsýslulaga 30. ágúst 2016 er tilkynning um hana barst á lögheimili talsmanns kæranda. Samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða næsta dag, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga, og honum lauk 3. október s.á. Svo sem fram hefur komið barst úrskurðarnefndinni kæran 8. desember 2016 og var kærufrestur þá liðinn. Þá verður ekki séð  að fyrir hendi séu þau atvik eða ástæður er mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar á grundvelli undantekningarheimilda 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. Þá liggur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til kröfu kæranda um greiðslu skaðabóta.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson (sign)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign)                          Ásgeir Magnússon (sign)

152/2016 Rauðarárstígur 1

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 6. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 152/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2016, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hostel LV 105 hf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun eignarhluta 0101 og 0102 á 1. hæð hússins að Rauðarárstíg 1, Reykjavík, úr verslunarhúsnæði í gististað í flokki II, tegund E. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að innrétta gististað í flokki II, tegund E, fyrir átta gesti í eignarhlutum 0101 og 0102 á fyrstu hæð í íbúðar- og atvinnuhúsi á lóð nr. 1 við Rauðarárstíg í Reykjavík. Var umsókninni synjað með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. október 2015. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði 20. október 2016.

Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um annað erindi en sótt hafi verið um. Umsótt breyting sé í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags Reykjavíkur og gildandi deiliskipulag umrædds svæðis. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi farið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, laga um mannvirki nr. 160/2010 og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Borgaryfirvöld benda á að í fyrrgreindri umsögn, sem vísað hafi verið til við töku hinnar kærðu ákvörðunar, hafi verið fjallað um sambærilegt tilvik og mál þetta snúist um. Aðalskipulag kveði á um að verslunar- og þjónustustarfsemi hafi forgang á fyrstu hæðum götuhliða húsa á svæðinu. Umsókn kæranda sem synjað hafi verið hafi hvorki verið í samræmi við aðalskipulag né deiliskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti á fasteignum kæranda í húsinu að Rauðarárstíg 1 á árinu 2017 og voru afsöl þess efnis þinglýst 26. maí 2017.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Rauðarárstíg 1. Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Auk þess hafa nýir eigendur eignarhlutanna sótt um og fengið samþykkt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun þeirra samkvæmt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 20. febrúar og 10. apríl 2018. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
  

_________________________________________
Ómar Stefánsson (sign)

53/2018 Skemmubygging í Bjarnarflagi

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 29. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Björk, Mývatni, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var fallist á stöðvunarkröfu kæranda með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 17. apríl 2018.

Málsatvik og rök:
Með bréfi byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 7. mars 2018, var Léttsteypunni ehf. tilkynnt að umsókn félagsins um byggingu skemmu í Bjarnarflagi hefði verið samþykkt sama dag. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Kærandi vísar til þess að hann sé sameigandi að lóðarréttindum þeirrar lóðar sem heimiluð skemma skuli standa á. Með hinni kærðu ákvörðun sé því brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti hans. Auk þess fari ákvörðunin í bága við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé málsmeðferð að öðru leyti svo ábótavant að ógildingu varði.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að eftir athugun málsins hafi verið ákveðið að kanna hvort tilefni væri til að afturkalla hina kærðu ákvörðun. 

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins, en hann hefur ekki nýtt sér þann kost í ljósi þeirrar málsmeðferðar sem fram fór hjá sveitarfélaginu í kjölfar kæru.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem veitt var 7. mars 2018 til byggingar skemmu í Bjarnarflagi. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. maí 2018, var leyfishafa tilkynnt um afturköllun hins kærða byggingarleyfis. Var vísað til bókunar skipulagsnefndar á fundi sínum 14. s.m. um málið, sem og til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tiltekið að þar sé m.a. gert ráð fyrir að heimilt sé að afturkalla ákvörðun ef hún teljist ógildanleg. Var og tekið fram að vegna stöðu eignaréttarlegra heimilda hafi ekki verið uppfyllt skilyrði til útgáfu byggingarleyfis.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Nanna Magnadóttir

51/2017 Rannsóknarleyfi utan netlaga

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 31. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 51/2017, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 um að veita leyfi til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 að „heimila rannsóknarboranir vegna fyrirhugaðrar nýtingar jarðhita til orkuvinnslu á Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 1. júní 2017.

Málsatvik og rök: Með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sótti North Tech Energy hf. hinn 13. janúar 2017 um leyfi til Orkustofnunar til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga, við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi. Sótt var um rannsóknarleyfi til þriggja ára og var jafnframt óskað eftir fyrirheiti til forgangs að nýtingarleyfi, skv. 3. gr. nefndra laga í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis lyki. Hinn 19. apríl s.á. var hið umsótta leyfi veitt og fékk leyfishafi forgang til nýtingar jarðhita á leyfissvæðinu vegna jarðvarmavirkjunar í tvö ár að loknum gildistíma leyfisins, þ.e. til 2022.

Af hálfu kæranda er vísað til b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er varði kæruheimild. Falli framkvæmdin undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en hún kunni að hafa í för með sér umtalsferð umhverfisáhrif og metið sé í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort slík framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt skv. 6. gr., sbr. tl. 2.06. í 2. kafla 1. viðauka laga nr. 106/2000. Í i-lið tl. 2.06 komi fram að borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum sé tilkynningarskyld framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Kærandi hafi lögvarða hagsmuni sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 og í samræmi við tilgang samtakanna, sbr. og 2. mgr. 9. gr. Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum, sem fullgiltur hafi verið hér á landi. Einnig sé byggt á 3. mgr. 9. gr. samningsins að því er varði kæruheimild samtakanna vegna brota gegn landslögum er varði umhverfið. Þá sé og vísað til 33. gr. laga nr. 57/1998 um kæruheimild. Kærandi vísi loks til 6. gr. laga nr. 73/1990 að því er varði ágreining um gildi þeirra laga í málinu.

Af hálfu Orkustofnunar er tekið fram að hið kærða leyfi feli hvorki í sér heimild til nýtingar eða virkjunar á rannsóknarsvæðinu, sbr. 3. gr. leyfisins. Fram komi í leyfinu og fylgibréfi þess að rannsóknarboranir séu ekki hluti af leyfinu og sé tekið fram að slíkar framkvæmdir, og eftir atvikum aðrar framkvæmdir, séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umhverfissamtök eins og kærandi geti þó kært ákvarðanir, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, sé um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun mats, ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera. Hin kærða ákvörðun varði engan veginn þær tæmandi töldu tegundir ákvarðana sem tryggi kæranda kæruaðild að málum. Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni í málinu og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Samkvæmt b-lið ákvæðisins geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga kært ákvörðun um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Í 5. gr. hins kærða leyfis er tekið fram að framkvæmdir á rannsóknarsvæðinu kunni eftir atvikum að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000 þess efnis. Rannsóknarleyfið sé háð því að farið verði að þeim lögum áður en fyrirhugaðar framkvæmdir, einkum jarðboranir, hefjist á rannsóknarsvæðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Skipulagsstofnun hefur stofnunin ekki fengið tilkynningu samkvæmt lögum nr. 106/2000 um framkvæmdir vegna þeirra rannsókna sem leyfðar eru á grundvelli hins kærða rannsóknarleyfis Orkustofnunar.

Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu, enda liggur ekki fyrir nein ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins útgefna rannsóknarleyfis. Verður kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir