Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2018 Sogavegur

Árið 2018, fimmtudaginn 12. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2017 og 19. september s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðum nr. 73-77 við Sogaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Sogavegi 88, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst og 19. september 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðum nr. 73-77 við Sogaveg. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinna kærðu byggingarleyfa og að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. maí 2018.

Málavextir:
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 9. mars 2016 var lögð fram tillaga um breytingu á deiliskipulagi Sogavegar, Vonarlands, vegna lóða nr. 73-77 við Sogaveg. Í tillögunni fólst að rífa tvö hús á lóðunum nr. 73-75 og byggja fjölbýlishús í stað þeirra ásamt byggingu fjölbýlishúss á óbyggðri lóð nr. 77. Á fundinum var samþykkt að kynna deiliskipulagstillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu og var íbúafundur haldinn 31. mars 2016.

Hinn 13. apríl 2016 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar að auglýsa tillöguna til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010 og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði. Tillagan var auglýst til kynningar 1. júlí 2016 með athugasemdafresti til 12. ágúst s.á. Tvær athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar. Að kynningartíma loknum samþykkti umhverfis- og skipulagsráð skipulagstillöguna með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 26. ágúst s.á. Skipulagsbreytingin var staðfest í borgarráði 15. september 2016 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. janúar 2017.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. júní 2017 var samþykkt byggingarleyfi fyrir niðurrifi húsa sem stóðu á lóðunum nr. 73-75 við Sogaveg og var þeim framkvæmdum lokið 9. nóvember 2017. Þá samþykkti byggingarfulltrúi takmarkað byggingarleyfi vegna jarðvinnu við grunn fjölbýlishúsa á lóðunum nr. 73-77 við Sogaveg 25. júlí s.á. og var byggingarleyfi þess efnis gefið út 31. ágúst 2017. Byggingarleyfi fyrir greindum fjölbýlishúsum var síðan samþykkt annars vegar 15. ágúst 2017 fyrir Sogaveg 77 og hins vegar 19. september s.á. fyrir Sogaveg 73-75. Hinn 18. janúar 2018 var gerð úttekt á vinnu við grunn húsanna þar sem fram kom að búið væri að fylla yfir klöpp með púða sem væri tilbúinn til þjöppunar.

Málsrök kæranda:
Af hálfu kæranda er á því byggt að ýmsir annmarkar hafi verið á aðdraganda og framkvæmd umræddrar deiliskipulagsbreytingar og framkvæmda sem sæki stoð í byggingarleyfin. Þær breytingar sem samþykktar hafi verið muni breyta ásýnd og karakter hverfisins ásamt því að hafa ýmis neikvæð áhrif í för með sér sem muni lækka fasteignaverð í hverfinu og draga úr vilja fólks til að sinna almennu fasteigna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða byggingarleyfi fyrir lóð nr. 73-75 við Sogaveg hafi verið samþykkt 19. september 2017 og niðurrif húsa á lóðunum hafi verið samþykkt 27. júní s.á. Í framhaldi af því hafi verið samþykkt takmarkað byggingarleyfi vegna jarðvinnu fyrir fjölbýlishús á lóðunum. Vottorð um lokaúttekt á niðurrifi hafi síðan verið gefið út 29. nóvember 2017. Því sé ljóst að kæranda hafi átt að vera kunnugt um uppbyggingu á Sogavegi haustið 2017 þegar eldri hús á lóðunum nr. 73-75 voru rifin og farið var af stað í jarðvinnu. Eigi því að miða kærufrest við það tímamark.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að erfitt sé að taka til varna í málinu vegna óljósrar kröfugerðar kæranda. Hvergi sé tekið fram hvaða ákvörðun sé kærð, hverjar kröfur kæranda séu og hvort kærandi standi einn að kærunni eða sé í umboði fyrir fleiri aðila. Þá sé kærufrestur liðinn vegna byggingarleyfisins og deiliskipulagsins skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 og beri því að vísa málinu frá. Kærandi hafi mátt vita af þeim framkvæmdum sem hann kærir þegar breyting á deiliskipulagi var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 27. janúar 2017 og í síðasta lagi þegar framkvæmdir hófust haustið 2017.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Deiliskipulagsbreyting sú sem var undanfari hinna kærðu byggingarleyfa fyrir byggingu tveggja fjölbýlishúsa á lóðunum Sogavegi 73-75 og 77 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. janúar 2017. Tók kærufrestur þeirrar ákvörðunar því að líða 28. s.m., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er því ljóst að kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn. Sætir sú deiliskipulagsbreyting því ekki endurskoðun í máli þessu.

Undanfari hinnar kærðu ákvörðunar var fyrrgreind breyting á deiliskipulagi umrædds svæðis. Var sú breyting auglýst til kynningar með almennri auglýsingu og auk þess boðað til íbúafundar þar sem tillagan var kynnt. Var hagsmunaaðilum tilkynnt um fundin með bréfi, þ.á m. kæranda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. júní 2017 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir niðurrifi húsa sem áður stóðu á lóðunum nr. 73-75 við Sogaveg. Samkvæmt gögnum frá byggingarfulltrúa höfðu húsin verið rifin fyrir 9. nóvember 2017. Þá voru gefin út takmörkuð byggingarleyfi fyrir jarðvinnu vegna nýbygginganna 31. ágúst 2017 og við úttekt byggingarfulltrúa 18. janúar 2018 var skráð að búið væri að fylla yfir klöpp með púða sem væri tilbúinn til þjöppunar. Með hliðsjón af þessum aðdraganda og framkvæmda á umræddum lóðum mátti kæranda vera kunnugt um að byggingarleyfi fyrir nýbyggingum hafi verið veitt eða a.m.k. gefið honum tilefni til að leita upplýsinga þar um hjá byggingaryfirvöldum í síðasta lagi í janúar 2018. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 30. apríl s.á. Var eins mánaðar kærufrestur vegna umdeildrar ákvörðunar byggingarfulltrúa því liðinn.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hina kærðu leyfa ekki saman. Eins og málsatvikum er háttað og með tilliti til hagsmuna leyfishafa, eru ekki skilyrði til þess að taka mál þetta til meðferðar á grundvelli áðurgreindrar undanþágu 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Þorsteinn Þorsteinsson