Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2018 Rauðagerði Miklabraut

Árið 2018, föstudaginn 29. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 83/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 20. júní 2017 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir forgangsrein fyrir strætisvagna á Miklubraut við Rauðagerði, gerð hljóðmana, stíga, stoð- og hljóðveggja o.fl.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

Úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júní 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kærir íbúi, Rauðagerði, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 20. júní 2017 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir forgangsrein fyrir strætisvagna á Miklubraut við Rauðagerði, gerð hljóðmana, stíga stoð- og hljóðveggja o.fl.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. júní 2018.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. júní 2017 var samþykkt framkvæmdaleyfi vegna lagningar forgangsreinar fyrir strætisvagna á Miklubraut frá Skeiðarvogi að rampi sem liggur að Reykjanesbraut, lagningu göngu- og hjólastígs, gerð hljóðmana, stoð- og hljóðveggja o.fl. Framkvæmdaleyfi var gefið út sama dag og var gildistími þess til 20. júní 2018. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa dags. 19. júní 2018 var samþykkt að framlengja gildistíma leyfisins vegna framkvæmda við Rauðagerði, til 15. október 2018, þar sem framkvæmdum sé ekki lokið.

Með bréfi, dags. 2. júlí 2017, kærði kærandi samþykkt framkvæmdaleyfisins en það kærumál  var fellt niður þar sem kæran uppfyllti ekki formkröfur um undirritun skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæranda var veittur frestur til þess að bæta úr þeim annmarka en það var ekki gert. Með bréfi, dags. 24. júlí 2017, var kæranda tilkynnt um að kærumálið, sem er nr. 71/2017, hafi verið fellt niður þar sem undirrituð kæra hefði ekki borist. Hefur kærandi nú kært umdeilt framkvæmdaleyfi að nýju svo sem að framan greinir.

Kærandi vísar til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi sé ekki í samræmi við skipulagsáætlanir og að málsmeðferð þess hafi verið ábótavant.

Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hið umþrætta framkvæmdaleyfi sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag og að kærufrestur í málinu sé löngu liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða:
Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Berist kæra að liðnum kærufresti ber að vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar.

Fyrir liggur að kæranda var kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar er hann kærði framkvæmdaleyfið með kæru, dags. 2. júlí 2017. en það mál var felld niður svo sem að framan greinir. Síðari kæran barst úrskurðarnefndinni 8. júní 2018, eða rúmum 11 mánuðum eftir að fyrri kæran um sama leyfi barst úrskurðarnefndinni. Var eins mánaðar kærufrestur því löngu liðinn vegna hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki þykja skilyrði til þess að taka málið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson