Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2017 Rannsóknarleyfi utan netlaga

Árið 2018, fimmtudaginn 31. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 51/2017, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 um að veita leyfi til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 19. apríl 2017 að „heimila rannsóknarboranir vegna fyrirhugaðrar nýtingar jarðhita til orkuvinnslu á Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 1. júní 2017.

Málsatvik og rök: Með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins sótti North Tech Energy hf. hinn 13. janúar 2017 um leyfi til Orkustofnunar til leitar og rannsókna á jarðhita á tveimur rannsóknarsvæðum utan netlaga, við Reykjaneshrygg og fyrir Norðurlandi. Sótt var um rannsóknarleyfi til þriggja ára og var jafnframt óskað eftir fyrirheiti til forgangs að nýtingarleyfi, skv. 3. gr. nefndra laga í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis lyki. Hinn 19. apríl s.á. var hið umsótta leyfi veitt og fékk leyfishafi forgang til nýtingar jarðhita á leyfissvæðinu vegna jarðvarmavirkjunar í tvö ár að loknum gildistíma leyfisins, þ.e. til 2022.

Af hálfu kæranda er vísað til b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er varði kæruheimild. Falli framkvæmdin undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en hún kunni að hafa í för með sér umtalsferð umhverfisáhrif og metið sé í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort slík framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt skv. 6. gr., sbr. tl. 2.06. í 2. kafla 1. viðauka laga nr. 106/2000. Í i-lið tl. 2.06 komi fram að borun á vinnsluholum og rannsóknarholum á háhitasvæðum sé tilkynningarskyld framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna.

Kærandi hafi lögvarða hagsmuni sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000 og í samræmi við tilgang samtakanna, sbr. og 2. mgr. 9. gr. Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum, sem fullgiltur hafi verið hér á landi. Einnig sé byggt á 3. mgr. 9. gr. samningsins að því er varði kæruheimild samtakanna vegna brota gegn landslögum er varði umhverfið. Þá sé og vísað til 33. gr. laga nr. 57/1998 um kæruheimild. Kærandi vísi loks til 6. gr. laga nr. 73/1990 að því er varði ágreining um gildi þeirra laga í málinu.

Af hálfu Orkustofnunar er tekið fram að hið kærða leyfi feli hvorki í sér heimild til nýtingar eða virkjunar á rannsóknarsvæðinu, sbr. 3. gr. leyfisins. Fram komi í leyfinu og fylgibréfi þess að rannsóknarboranir séu ekki hluti af leyfinu og sé tekið fram að slíkar framkvæmdir, og eftir atvikum aðrar framkvæmdir, séu háðar mati á umhverfisáhrifum. Þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umhverfissamtök eins og kærandi geti þó kært ákvarðanir, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, sé um að ræða ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum og endurskoðun mats, ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum og ákvarðanir um að veita leyfi samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur til sleppingar eða dreifingar erfðabreyttra lífvera. Hin kærða ákvörðun varði engan veginn þær tæmandi töldu tegundir ákvarðana sem tryggi kæranda kæruaðild að málum. Kærandi hafi því enga lögvarða hagsmuni í málinu og beri þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Samkvæmt b-lið ákvæðisins geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga kært ákvörðun um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Í 5. gr. hins kærða leyfis er tekið fram að framkvæmdir á rannsóknarsvæðinu kunni eftir atvikum að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000 þess efnis. Rannsóknarleyfið sé háð því að farið verði að þeim lögum áður en fyrirhugaðar framkvæmdir, einkum jarðboranir, hefjist á rannsóknarsvæðinu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Skipulagsstofnun hefur stofnunin ekki fengið tilkynningu samkvæmt lögum nr. 106/2000 um framkvæmdir vegna þeirra rannsókna sem leyfðar eru á grundvelli hins kærða rannsóknarleyfis Orkustofnunar.

Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu, enda liggur ekki fyrir nein ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins útgefna rannsóknarleyfis. Verður kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir