Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2019 Arctic Sea Farm og Fjarðalax

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að taka til meðferðar frummatsskýrslu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. frá janúar 2019 um 14.500 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði, án þess að um hana hafi verið fjallað í matsáætlun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga þá ákvörðun Skipulagsstofnunar „að taka til meðferðar nýja frummatsskýrslu Fjarðalax og Arctic Sea Farm um 14.500 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Patreks- og Tálknafirði án þess að um hana hafi verið sérstaklega fjallað í matsáætlun.“ Er þess krafist að „málsmeðferð Skipulagsstofnunar, sem telst fela í sér ætlað brot á rétti almennings, verði úrskurðuð óheimil með vísan til IV. kafla laga nr. 106/2000.“ Jafnframt er gerð krafa um að málsmeðferð verði byggð á 8.-11. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 28. mars 2019.

Málavextir: Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að lokinni lögboðinni athugun Skipulagsstofnunar lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm hinn 9. maí 2016 fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í áliti Skipulagsstofnunar frá 23. september s.á. komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.

Fjarðalax og Arctic Sea Farm sóttu um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar með umsóknum, dags. 26. júlí og 23. september 2016. Gaf stofnunin út rekstrarleyfi þeim til handa 22. desember 2017 fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi, en Umhverfisstofnun hafði veitt fyrirtækjunum starfsleyfi vegna eldisins 13. s.m. Felldi úrskurðarnefndin þær ákvarðanir úr gildi með úrskurðum kveðnum upp 27. september og 4. október 2018 í kærumálum nr. 3, 4, 5 og 6/2018.

Með breytingarlögum nr. 108/2018 bættist ný málsgrein við 21. gr. c. í lögum um fiskeldi nr. 71/2008 er fól í sér heimild ráðherra, að fenginni umsögn Matvælastofnunar, til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að 10 mánaða hafi eldra rekstrarleyfi verið fellt úr gildi vegna annmarka á leyfisveitingu. Á grundvelli ákvæðisins sóttu fiskeldisfyrirtækin hinn 10. október 2018 um rekstrarleyfi til bráðabirgða skv. 2. mgr. tilvitnaðs lagaákvæðis til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Féllst ráðherra á umsóknina og gaf út rekstrarleyfi til bráðabirgða með ákveðnum skilyrðum, m.a. að bætt yrði úr þeim ágöllum sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefði talið vera á málsmeðferð við útgáfu rekstrarleyfanna. Með sömu skilyrðum veitti umhverfis- og auðlindaráðherra fyrirtækjunum undanþágu frá starfsleyfi vegna eldis þess sem þá var þegar hafið.

Í janúar 2019 lögðu kærendur fram til meðferðar hjá Skipulagsstofnun skýrsluna „Framleiðsla á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“. Í kjölfarið var skýrslan auglýst, m.a. á heimasíðu Skipulagsstofnunar 1. febrúar 2019, og kostur gefinn á að koma að athugasemdum til 19. mars s.á. Matsskýrsla um valkosti vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði var send Skipulagsstofnun í apríl s.á. og lá álit stofnunarinnar fyrir 16. maí 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að í málsmeðferð Skipulagsstofnunar felist athöfn stjórnvalds sem brotið hafi gegn þátttökurétti almennings. Sæti málið þar með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 2. tölul. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sem lúti að 4. málsl. 1. mgr. 8. gr. um matsáætlun. Skylt sé við endurupptöku mats á umhverfisáhrifum að fara eftir ákvæðum 8.-11. gr. laganna. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skuli í matsáætlun koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti. Aðrir mögulegir framkvæmdakostir hafi ekki verið tilgreindir í matsáætlun þegar hið sameiginlega mat hafi farið fram sem frummatsskýrsla Fjarðalax og Arctic Sea Farm taki nú til. Af þessu leiði að ekki verði bætt úr þeim ágalla á mati á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem um ræði með því að leggja einungis fram nýja frummatsskýrslu. Kærandi telji að með málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi verið skautað framhjá fyrirmælum 8. gr. laganna um kynningu og samráð við almenning við gerð frummatsskýrslunnar. Slík málsmeðferð sé óheimil þar sem ekki sé tryggður aðgangur almennings að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að lög og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum gangi út frá því að matsskyld framkvæmd, sem ekki hafi áður sætt mati á umhverfisáhrifum, skuli undirgangast þá málsmeðferð sem lýst sé í IV. kafla laganna og hefjist með gerð matsáætlunar. Staðan í því máli sem kæran lúti að sé hins vegar sú að framkvæmdin hafi farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum.

Stofnunin telji aðstæður í málinu vera áþekkar því þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um að endurskoða þurfi mat á umhverfisáhrifum að hluta, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en þá beri að fylgja málsmeðferð samkvæmt 8.-11. gr. laganna „eftir því sem við á.“ Því sé ekki fortakslaus skylda til að endurtaka allt ferlið samkvæmt 8.-11. gr. þegar tekin sé ákvörðun um að endurskoða skuli mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin telji ekki tilefni til málsmeðferðar samkvæmt 8. gr. laganna þar sem úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um leyfi til umræddra framkvæmda beinist að því að í mati á umhverfisáhrifum hafi ekki verið fjallað um og lagt mat á tiltekna valkosti.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að ekki sé fullnægt því skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kæruheimild að mál hafi verið til lykta leitt. Því liggi ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu. Ákvarðanir sem teknar séu um meðferð stjórnsýslumáls og feli ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verði því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar. Skýrlega komi fram í kæru að um sé að ræða kæru vegna tiltekinnar málsmeðferðar hjá Skipulagsstofnun sem óumdeilanlega bindi ekki enda á mál í skilningi stjórnsýslulaga. Hin kærða málsmeðferð Skipulagsstofnunar sé því ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun og verði af þeim sökum að vísa kærunni frá nefndinni.

Almennt sé það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neinna slíkra hagsmuna að gæta er gæti verið grundvöllur aðildar hans að máli þessu samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Þá verði ekki ráðið af samþykktum kæranda að það samrýmist tilgangi hans að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að, sbr. undanþágureglu 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Ekki komi til álita að fella kæruefni þessa máls undir kæruheimild d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, þ.e. að um sé að ræða athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lúti að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Líta beri til þess að um sé að ræða framkvæmd sem hafi þegar sætt fullu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 8.-11. gr. laga nr. 106/2000, þar sem gætt hafi verið að þátttökurétti almennings á öllum stigum. Hin svokallaða viðbót við frummatsskýrslu feli í sér nánari upplýsingaöflun og úrvinnslu sem almenningi sé gefið fullt færi á að kynna sér og gera athugasemdir við.

Frekari athugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir frávísunarkröfu leyfishafa og telur að ekki verði byggt á því að málið hafi ekki verið til lykta leitt með vísan til skilyrða 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu sérlög og gangi því framar stjórnsýslulögum. Framangreind ákvæði stjórnsýslulaga eigi því aðeins við þegar ákvæðum laga nr. 130/2011 sleppi, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu máli hafi Skipulagsstofnun tekið kæranlega ákvörðun um að víkja frá skýrum fyrirmælum 8.-11. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Það hafi stofnunin gert þegar ný frummatsskýrsla hafi verið tekin fyrir og auglýst til athugasemda án þess að fyrir lægi matsáætlun um aðra framkvæmdarkosti. Í það minnsta hafi verið um athöfn eða athafnaleysi að ræða í skilningi d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með lögum nr. 89/2018 um breytingar á lögum nr. 106/2000 hafi verið innleidd að fullu ákvæði 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Með lögunum hafi verið brugðist við athugasemdum og rökstuddu áliti ESA þar um. Í athugasemdum með 3. gr. laganna segi m.a.: „Þau tilvik sem eru talin falla undir þátttökurétt almennings og kveðið er á um í 1.-5. tölul. 3. gr. frumvarpsins eru eftirfarandi hvað varðar athafnaleysi: […] 5. Framkvæmdaraðili, í samráði við Skipulagsstofnun, lætur líða hjá að kynna almenningi tillögu að matsáætlun, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000.“ Í nefndri 11. gr. tilskipunarinnar séu tilgreind þrjú tilvik sem skuli vera kæranleg. Í fyrsta lagi ákvörðun, í öðru lagi athöfn og í þriðja lagi athafnaleysi. Athöfn og athafnaleysi eigi því að vera hægt að kæra sérstaklega á sama hátt og ákvörðun. Kærandi telji því engu máli skipta hvort hin kærða málsmeðferð eða annmarki á henni verða felld undir ákvörðun eða athöfn Skipulagsstofnunar eða athafnaleysi framkvæmdaraðila í samráði við Skipulagsstofnun. Hér skipti það eitt máli að málsmeðferð Skipulagsstofnunar sem slík fari augljóslega í bága við lög nr. 106/2000 með þeim breytingum sem gerðar hafi verið með lögum nr. 89/2018. Sérstaklega sé bent á að í 4. mgr. 6. gr. Árósarsamningsins komi fram að ríki skuli tryggja þátttöku almennings snemma í ferlinu á meðan allir kostir séu fyrir hendi og virk þátttaka almennings geti átt sér stað. Sömu sjónarmið komi fram í 2. og 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB sem hafi verið leidd í íslenskan rétt með lögum nr. 89/2018. Hin kærða málsmeðferð skerði því augljóslega virka þátttöku almennings snemma í ferlinu þegar allir kostir eigi að vera fyrir hendi.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir eða ætlað brot á þátttökurétti almennings til úrskurðarnefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um tilteknar ákvarðanir og ætlað brot á þátttökurétti er að ræða, enda samrýmist það tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að. Teljast slík samtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi t.d. ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr., og varðandi athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. d-lið ákvæðisins. Kærandi er hagsmunasamtök og uppfyllir þau skilyrði til kæruaðildar sem þeim eru sett, en öll veiðifélög samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði hafa með sér landssamtök, Landssamband veiðifélaga, sem gætir sameiginlegra hagsmuna þeirra, sbr. 5. mgr. 4. gr. þeirra laga.

Í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndarinnar í kærumálum nr. 3, 4, 5 og 6/2018 þar sem rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðalax og Arctic Sea Farm voru felld úr gildi hófust fyrirtækin handa, í samráði við Skipulagsstofnun, við að bæta úr mati því á umhverfisáhrifum sem lá hinum ógiltu leyfum til grundvallar. Í því mati á umhverfisáhrifum var lögð fram tillaga að matsáætlun í júní 2014 og var frestur til athugasemda við hana til 16. júlí s.á. Álit Skipulagsstofnunar í málinu lá fyrir 23. september s.á., svo sem nánar greinir í málavaxtalýsingu. Eins og þar kemur fram lá skýrslan „Framleiðsla á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ fyrir í janúar 2019, en ekki var unnin viðbót við matsáætlunina frá 2014 eða ný matsáætlun gerð sem síðan væri kynnt almenningi. Heldur kærandi því fram að í því felist brot á þátttökurétti almennings sem kæranlegt sé til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Mælt er fyrir um kæruheimildir til úrskurðarnefndarinnar í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Annar ágreiningur, sem kann að rísa um framkvæmd þeirra laga og ekki er tilgreindur í 14. gr. þeirra eða öðrum lögum, sætir hins vegar ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, enda er þá ekki mælt fyrir um það í lögum, eins og fyrrnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur.

Með breytingalögum nr. 89/2018 var 14. gr. laga nr. 106/2000 breytt á þann veg að athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem brýtur gegn þátttökurétti almennings á nánar tilgreindum grundvelli sætir nú kæru til úrskurðarnefndarinnar. Sá grundvöllur sem um ræðir er talinn upp í fimm töluliðum í 6. mgr. nefndrar 14. gr. og hefur kærandi vísað til 2. tölul., sem aftur vísar til 4. málsl. 1. mgr. 8. gr. um matsáætlun. Í þeim málslið sagði á þeim tíma sem um ræðir: „Framkvæmdaraðili skal kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun.“ Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 er fjallað um skyldu framkvæmdaraðila til að gera matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Var það og gert á árinu 2014 en ný eða breytt tillaga að matsáætlun lá ekki fyrir áður en viðbót við frummatsskýrslu var kynnt. Kæra á athöfn eða athafnaleysi sem snýr að því að þátttökuréttindi almennings séu ekki virt lýtur að þeim skyldum sem lagðar eru á herðar Skipulagsstofnunar að sjá til þess að kynnt séu ákveðin lykilgögn í mati á umhverfisáhrifum, gefinn kostur á að gera athugasemdir o.s.frv. Það að framkvæmdaraðili hafi, í samráði við Skipulagsstofnun, látið hjá líða að gera nýja matsáætlun felur hins vegar ekki í sér athöfn eða athafnaleysi í skilningi þeirra ákvæða sem að framan eru rakin. Er enda ljóst að tillaga sem ekki hefur litið dagsins ljós verður eðli máls samkvæmt ekki kynnt almenningi, en samkvæmt orðalagi sínu er kæruheimild 2. tölul. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 8. gr., bundin við ágalla á slíkri kynningu.

Kærandi hefur einnig vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi við meðferð málsins tekið kæranlega ákvörðun um að víkja frá skýrum fyrirmælum 8.-11. gr. laga nr. 106/2000 hvað varði matsáætlun. Almennt verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og áður segir teljast m.a. hagsmunasamtök hafa lögvarða hagsmuni af ákvörðunum um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður ekki skorið úr um lögmæti þess að bæta úr ágöllum á mati á umhverfisáhrifum án þess að gera og kynna matsáætlun að nýju fyrr en í kærumáli vegna útgáfu slíkra leyfa.

Þar sem að í málinu liggur hvorki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, né liggur fyrir athöfn eða athafnaleysi í skilningi d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

67 og 69/2019 Furugerði

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2019, kæra á afgreiðslu borgarráðs Reykjavíkur frá 4. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina að Furugerði 23 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir íbúar og eigendur Furugerðis 10 og Furugerðis 12, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Furugerði 23, Reykjavík.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 19. júlí 2019, er móttekin var hjá nefndinni sama dag, kæra 34 nánar tilgreindir eigendur og íbúar íbúða við Furugerði og Espigerði í Reykjavík sömu ákvörðun. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er nr. 69/2019, sameinað máli þessu.

Upplýsingar er málið varða bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. og 24. september 2019.

Málsatvik og rök: Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Furugerði 23 er á lóðinni gróðrarstöð, gróðurhús, söluskáli og ræktunarreitir ásamt íbúðarhúsi. Hinn 26. júní 2019 var samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Í breytingunni felst að núverandi mannvirki verði fjarlægð og heimilað að reisa allt að 30 íbúðir á umræddri lóð. Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 4. júlí s.á.

Kærendur telja að þeir muni verða fyrir alvarlegu ónæði og röskun á margvíslegum hagsmunum sínum. Að auki muni eignir þeirra rýrna í verði vegna þeirrar miklu aukningar á byggingarmagni sem verið sé að heimila. Breytingin sé í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og fari m.a. gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og meginreglu stjórnsýsluréttarins um réttmætar væntingar. Jafnframt hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá séu hvorki uppfyllt ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða né undanþáguheimild hljóðvistarstaðalsins ÍST 45:2003.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að ekki sé búið að birta auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu breytingar í B-deild Stjórnartíðinda, en breytingin sé í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eftir samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar var hún send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bárust athugasemdir frá Skipulagsstofnun við yfirferð málsins sem sveitarfélagið þarf að bregðast við og er því ekki búið að senda breytinguna til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Að lokinni meðferð tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á því skal birta auglýsingu um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðinda skv. 42. gr., sbr. 43. gr. skipulagslaga. Fyrir liggur að ekki hefur enn verið birt auglýsing um gildistöku hinnar kærðu breytingar í B-deild Stjórnartíðinda, en þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að tillagan taki breytingum eða hætt verði við gildistöku hennar, svo sem vegna framkominna athugasemda Skipulagsstofnunar. Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Verði birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagbreytingar þeirrar er um ræðir er rétt að benda á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar vegna ákvarðana sem sæta opinberri birtingu einn mánuður frá birtingu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

50/2019 Döllugata

Með

Árið 2019, mánudaginn 16. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 50/2019, kæra á umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2019, er barst nefndinni 1. júlí s.á., er kærð umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 11. júlí 2019.

Málavextir: Kærendur sóttu um byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með auka íbúð og innbyggðum bílskúr úr CLT krosslímdum timbureiningum á staðsteyptum grunni á lóð nr. 4 við Döllugötu, Reykjavík. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. mars 2019 þar sem henni var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn frá 3. maí s.á. bókaði skipulagsfulltrúi: „Neikvætt. Samræmist ekki deiliskipulagi, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. maí s.á.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. maí s.á. var málinu frestað með vísan til athugasemda skipulagsfulltrúa. Málinu var aftur frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júní s.á. með vísan til athugasemda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. júlí 2019 var umsókn kærenda samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærendur telja, andstætt niðurstöðu skipulagsfulltrúa, að teikningar standist deiliskipulag. Kærendur hafi skilað inn greinargerð og gögnum sem styðji framangreinda afstöðu kærenda. Engin viðbrögð hafi fengist vegna þeirrar greinargerðar. Hvergi í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í reglugerðir máli skipulagsfulltrúa til stuðnings.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið frestað hjá byggingarfulltrúa með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og annarra athugasemda sem séu við erindið. Því hafi engin stjórnsýsluákvörðun verið tekin um afgreiðslu erindisins. Þar sem ekki sé um lokaákvörðun að ræða beri að vísa málinu frá nefndinni skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þrátt fyrir umsögn skipulagsfulltrúa hefur byggingarfulltrúi samþykkt að veita kærendum byggingarleyfi það er umsögnin snerist um. Hafa kærendur því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um lögmæti umsagnarinnar, sem aukinheldur batt ekki enda á málið eins og áskilið er til að hún verði kærð skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

81/2018 Fitjar

Með

Árið 2019, föstudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2018, kæra á beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 þess efnis að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2018, er barst nefndinni 7. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Fitja, Skorradalshreppi, beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 um að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er þess krafist að staðfest verði að máls­meðferð Skorradalshrepps hvað varðar skipulagskröfur vegna „aukahúss á bújörð“ sé óhófleg og að byggingarfulltrúi, skipulagsfulltrúi, skipulagsnefnd og hreppsnefnd hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði að á grundvelli Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 og skipulagslaga sé eðlilegast að landeigendur sæki um byggingarleyfi þegar um er að ræða „aukahús á bújörð“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 18. júlí 2018.

Málavextir: Á árinu 2017 áttu kærendur í samskiptum við Skorradalshrepp vegna stofnunar íbúðalóða í landi Fitja. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 12. desember s.á. var tekin fyrir ósk kærenda um gerð deiliskipulags fyrir tvær íbúðalóðir í landi Fitja. Hafnaði nefndin beiðninni þar sem að hún samræmdist ekki stefnu Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 en í aðalskipulaginu kom fram að innan annarrar íbúða­lóðarinnar væri skilgreint svæði fyrir verslun og þjónustu. Annar kærandi þessa máls sendi skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var leiðbeininga um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi fyrir aukahúsi í landi Fitja eða hvort óska ætti eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi sem fælist í því að svæði fyrir verslun og þjónustu á Fitjum yrði fellt út. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa 23. s.m. kemur m.a. fram að svo málið verið tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd verði kærandinn að leggja fram óverulega breytingu á aðalskipulagi og samhliða því mætti senda inn deiliskipulags­tillögu íbúðalóðanna.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 segi í kafla 5.2 um íbúðarsvæði að heimilt sé að reisa þrjú stök íbúðarhús á hverri jörð, óháð búrekstri, án þess að aðalskipulagi sé breytt. Með lögum nr. 7/2016 um breytingu á skipulags­lögum nr. 123/2010 hafi verið gerð breyting á 44. gr. skipulagslaga. Eftir breytinguna segi í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, en deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis komi fram að markmið þeirra breytinga sem lagðar séu til í frumvarpinu sé að sveitarfélög geti veitt leyfi til einstakra framkvæmda, m.a. á svæðum utan þegar byggðra hverfa, án þess að deiliskipuleggja svæðið.

Ekki sé hægt að gera þá kröfu til almennra borgara að þeir þekki lög og reglur til hlítar og því verði stjórnvöld að sinna leiðbeiningarskyldu sinni. Annar kærandi þessa máls hafi í byrjun janúar 2018 haft samband við Skipulagsstofnun til að ræða muninn á breytingu aðalskipulags og óverulegri breytingu aðalskipulags og í kjölfarið talið að lag væri að leggja fram óverulega breytingu aðalskipulags. Þessi kærandi hafi farið með þær upplýsingar á fund skipulagsfulltrúa og formanns skipulagsnefndar 16. janúar s.á. og hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi skyldi senda inn slíka beiðni. Hvorki skipulagsfulltrúi né formaður skipulagsnefndar minntust á að komast mætti hjá skipulagsferli í málinu, þ.e. að sækja mætti um byggingarleyfi fyrir húsinu. Kærandi hafi síðar fengið þær upplýsingar frá öðrum fulltrúa í skipulagsnefnd sveitarfélagsins að ekki þyrfti að fara í neinar skipulags­breytingar þegar um væri að ræða „aukahús á bújörð“.

Í viðbótarathugasemdum kærenda er frekari framgangur málsins rakinn og er m.a. vísað til þess að skipulags- og byggingarnefnd hafi á fundi sínum 7. júní 2018 talið þörf á lýsingu deiliskipulags. Telja kærendur að falla hefði mátt frá lýsingu deiliskipulags á grundvelli 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga auk þess sem hægt hefði verið að auglýsa deiliskipulagstillögu samhliða óverulegri aðalskipulagsbreytingu.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem fjallað er um efni kæru til nefndarinnar, segi m.a. að í kæru skuli koma fram hvaða ákvörðun það sé sem verið sé að kæra. Efni kærunnar varði ekki tiltekna lokaákvörðun sveitarfélagsins eða skipulagsfulltrúa þess í afmörkuðu stjórnsýslumáli eins og áðurnefnt lagaákvæði kveði á um. Kröfur kærenda lúti allar að því að nefndin staðfesti skilning kærenda sjálfra á því hvað sé óhófleg og/eða eðlileg málsmeðferð og einnig að staðfest verði að nefndir og starfsmenn hreppsins hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu við meðferð umrædds skipulagsmáls. Í málinu sé þannig að mati hreppsins ekki gerð nein krafa um að tilteknar lokaákvarðanir séu felldar úr gildi. Jafnframt segi í 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Það vísi til þess áskilnaðar laganna að til þess að nefndin geti tekið mál til úrskurðar þurfi að kæra tiltekna ákvörðun eða ákvarðanir. Enn fremur sé kæran óskýr og ruglingsleg hvað varðar hin kærðu atriði og geri þannig mun erfiðara að svara þeim atriðum sem fram komi í kærunni. Þar sem engin lokákvörðun sé kærð sé þess krafist að kærunni verði vísað frá.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála efir því sem mælt er fyrir um í lögunum. Er slíka kæruheimild að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sóttu kærendur um gerð deiliskipulags vegna tveggja íbúðalóða í landi Fitja í Skorradalshreppi. Átti annar kærandi í sam­skiptum við starfsmenn sveitarfélagsins vegna málsins. Fór svo að sá kærandi sendi skipulags­fulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var eftir leiðbeiningum um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi eða óska eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi. Í svari skipulagsfulltrúa 23. s.m. er kærendum leiðbeint um að leggja verði fram óverulega breytingu á aðalskipulagi til þess að málið verði tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd.

Með vísan til þessa verður hin kærða beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps ekki talin fela í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

106/2018 Suðurnesjalína 2

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. júlí 2018 um að fallast á tillögu Landsnets hf. að matsáætlun fyrir Suðurnesjalínu 2 á milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavíkurbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. ágúst 2018, er barst nefndinni 7. s.m., kærir Guðjón Ármansson hrl. f.h. sinna umbjóððenda þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. júlí 2018 að fallast á tillögu Landsnets hf. að matsáætlun fyrir Suðurnesjalínu 2 á milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavíkurbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 7. september 2018.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Suðurnesjalína 2 er fyrirhuguð háspennulína á Suðurnesjum og var hún hluti framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Í kjölfar málsmeðferðar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum veitti iðnaðar- og viðskiptaráðherra Landsneti heimildir á árinu 2014 til eignarnáms á tilgreindum jörðum sem Suðurnesjalína 2 skyldi liggja um. Þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. Orkustofnun hafði áður veitt Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, en það leyfi var fellt úr gildi með dómi Hæstaréttar 13. október 2016 í máli nr. 796/2015. Sveitarfélögin Reykjanesbær, Grindavík, Hafnarfjörður og Vogar veittu öll framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 og var dómsmál rekið vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum. Var það leyfi fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015, og sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016.

Ráðist var í nýtt mat á umhverfisáhrifum og 20. apríl 2018 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2 á milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavíkurbæ samkvæmt 8. gr. laga nr. 106/2000. Með bréfi, dags. 11. maí s.á., gerðu kærendur athugasemdir við tillögu að matsáætlun. Hinn 6. júlí s.á. féllst Skipulagsstofnun á tillögu framkvæmdaraðila með athugasemdum og er það hin kærða ákvörðun.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé haldin bæði form- og efnisannmörkum og því beri að fella hana úr gildi. Nauðsynlegt sé að Landsnet skýri með ítarlegri þarfagreiningu hvers vegna nauðsynlegt sé að byggja 220 kV línu og jafnframt hvort og þá hvers vegna ekki sé talið nægilegt að byggja nýja 132 kV línu eða styrkja núverandi línu.

Í umfjöllun um valkost B, þ.e. jarðstreng meðfram Reykjanesbraut, segi m.a. að sá valkostur feli í sér sambærilega veikleika og valkostur A, jarðstreng sem fylgi Suðurnesjalínu, varðandi áhrif á jarðmyndanir, vatnsvernd, stefnu stjórnvalds, rekstraráhættu, 61. gr.  Laga um náttúruvernd nr. 60/2013 og framkvæmdakostnað. Þessu hafni kærendur og bendi á að áhrif jarðstrengs meðfram Reykjanesbraut hafi verið metin óveruleg við umhverfismat Aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga 2008-2028. Í umfjöllun um valkost A sé talið til styrkleika að framkvæmdakostnaður sé lægri en vegna annarra kosta en hvergi sé getið um aukinn líftímakostnað. Einungis sé hægt að gera raunverulegan samanburð á kostnaði með því að taka tillit til bæði stofn- og rekstrarkostnaðar. Athugasemd sé gerð við að í framsetningu valkosta D og E, sem geri ráð fyrir blandaðri leið jarðstrengs og loftlína/annarra útfærslna, liggi ekkert fyrir um hvaða svæði gæti verið að ræða.

Nauðsynlegt sé að Landsnet leggi mat á og beri saman þjóðhagslega hagkvæmni mismunandi framkvæmdakosta við mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2. Fráleitt sé að mat á umhverfislegum kostnaði sé ekki meðal þess sem meta eigi í mati á umhverfisáhrifum á meðan framkvæmdakostnaður sé meðal þeirra þátta sem framkvæmdaraðili hyggist leggja mat á. Kærendur fái ekki séð að mat á framkvæmdakostnaði eigi heima í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar á grundvelli laga nr. 106/2000.

Þá séu þau skilyrði sem framkvæmdaraðila séu sett í ákvörðun Skipulagsstofnunar hvergi nærri fullnægjandi til að matsáætlun geti orðið grundvöllur að fullburða mati. Kærendur séu landeigendur á mögulegum línuleiðum og hafi ríka hagsmuni af því að matsáætlun standist lágmarkskröfur.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að kæran sé borin fram með vísan til 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 52. gr. skipulagslaga sé kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Stofnunin hafi tekið ákvörðun um að fallast á matsáætlun Landsnets með athugasemdum á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því eigi 52. gr. skipulagslaga ekki við í málinu.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 sé mælt fyrir um að úrskurðarnefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála „eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði.“ Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er orðið hafi að lögum nr. 130/2011 sé tekið fram að eingöngu verði kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar þær ákvarðanir sem „afmarkaðar eru í lögum hverju sinni“ sem og önnur úrlausnaratriði „ef lög mæla svo.“

Í 14. gr. laga nr. 106/2000 sé fjallað um málskot. Samkvæmt 2. mgr. geti framkvæmdaraðili kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. um breytingar á matsáætlun. Ákvörðun stofnunarinnar um að fallast á tillögu að matsáætlun Landsnets með athugasemdum feli í sér breytingar á henni. Eins og tilvitnuð 2. mgr. sé úr garði gerð sé ljóst að aðrir en framkvæmdaraðili, t.d. landeigendur, geti ekki kært ákvörðun af þessu tagi. Í dómi Hæstaréttar frá 14. mars 2008 í máli nr. 114/2008 sé þessi lagaskilningur lagður til grundvallar, sbr. eftirfarandi orð í dóminum: „Þótt mælt sé fyrir í lögum um þrengri aðild að kærumálum hjá æðri stjórnvöldum en leiðir af almennum reglum …“. Með lögum nr. 89/2018, sem samþykkt hafi verið á Alþingi í júní 2018, hafi bæst við 14. gr. tvær nýjar málsgreinar, en efni þeirra feli ekki í sér að landeigendur geti kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fallast á tillögu að matsáætlun með breytingum.

—–

Kærendum voru kynntar athugasemdir Skipulagsstofnunar en frekari athugasemdir komu ekki fram af þeirra hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Í máli þessu ritar lögmaður undir kæru fyrir hönd kærenda og liggur fyrir umboð Reykjaprents ehf. til reksturs kærumálsins fyrir úrskurðarnefndinni. Vegna annarra kærenda hefur lögmaðurinn vísað til umboðs í kærumálum nr. 80/2014 og nr. 40, 73, 101 og 108/2015, en þau mál lutu einnig að ágreiningi vegna Suðurnesjalínu 2. Það umboð er þó ekki veitt af öllum kærendum þess máls sem hér er til meðferðar auk þess sem eldra umboðið tekur samkvæmt efni sínu eingöngu til þeirra kærumála sem þar eru tilgreind. Verður kröfum annarra kærenda en Reykjaprents því vísað frá vegna þessa formgalla.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Með hinni kærðu ákvörðun féllst Skipulagsstofnun á tillögu Landsnets að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2 með athugasemdum á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í nefndu ákvæði að geri stofnunin athugasemdir skuli þær verða hluti af matsáætlun.

Í 14. gr. laga nr. 106/2000 er fjallað um málskot til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli laganna. Í 1. mgr. 14. gr. er tiltekið að ákvarðanir skv. 6. gr. um matsskyldu framkvæmdar, sem tilgreind er í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin, og ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 5. gr. sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sama eigi við um ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 12. gr. um endurskoðun matsskýrslu. Er nefnd kæruheimild ekki bundin við aðra en þá er uppfylla aðildarskilyrði laga nr. 130/2011, sbr. og 7. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í 2. mgr. 14. gr. laganna að framkvæmdaraðili geti kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. laganna um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni, en hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar er þess efnis. Af skýru orðalagi laganna er ljóst að kæruheimild vegna þeirrar ákvörðunar er bundin við framkvæmdaraðila. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði til kæruaðildar vegna hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum tafa við gagnaöflun og vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

70/2019 Torfur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 20. júní 2019 um að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar að lóð undir svínabú að Torfum og borunar eftir neysluvatni á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2019, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grundar I og IIa og Finnastaða, Eyjafjarðarsveit, ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 20. júní 2019 um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar að lóð undir svínabú að Torfum og borunar eftir neysluvatni á sömu lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi eða að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið aftur til meðferðar. Jafnframt er farið fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 26. júlí 2019.

Málavextir: Hinn 28. mars 2019 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí 2019. Tiltekið er í auglýsingunni að skipulagssvæðið sé 15 ha spilda sunnan Finnastaðaár sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagstillagan taki til byggingar tveggja gripahúsa samtals u.þ.b. 5.700 m² að stærð, auk tilheyrandi fóðursílóa, hauggeymslu og starfsmannahúss. Ráðgert sé að á hverjum tíma verði fjöldi grísa í eldi 2.400 og fjöldi gylta 400. Framkvæmdin falli undir lið 1.10 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og liggi fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 12. mars 2019, um að framkvæmdin skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Samþykkt deiliskipulagsins hefur verið kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 49/2019.

Með umsókn, dags. 19. júní 2019, sóttu landeigendur að Torfum um framkvæmdaleyfi á grundvelli áðurgreinds deiliskipulags fyrir vegtengingu frá Eyjafjarðarbraut vestri að lóð svínabúsins, borun eftir neysluvatni innan lóðar búsins og breytingar á árfarvegi Finnastaðaár. Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 20. júní s.á. var umsóknin tekin fyrir og framkvæmdaleyfi veitt. Upplýsti skipulagsfulltrúi umsækjanda um að sveitarstjórn hefði samþykkt að veita framkvæmdaleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag, þ.e. fyrir vegtengingu og borun eftir vatni en ekki fyrir breytingu á árfarvegi Finnastaðaár. Með vísan til samþykktar sveitarstjórnar gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi 13. ágúst 2019 og tekur leyfið til vegtengingar við Eyjafjarðarbraut vestri (vegnr. 821) og borunar eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að hið kærða framkvæmdaleyfi eigi rætur að rekja til ákvarðana sem hugsanlega reynist ólögmætar sem a.m.k. þurfi að vísa aftur til meðferðar hjá viðkomandi stjórnvöldum. Því sé ljóst að kærendur hafi lögvarða hagsmuni af því að komið verði í veg fyrir að framkvæmdir sem síðar reynist mögulega ólögmætar fái að eiga sér stað. Nái framkvæmdirnar fram að ganga áður en endanleg ákvörðun sé tekin um lögmæti deiliskipulags og ákvörðunar Skipulagsstofnunar, sbr. kæru kærenda, dags. 24. júní 2019, muni það veikja möguleika þeirra á réttlátri niðurstöðu við úrlausn málsins.

Ákvörðun um deiliskipulag og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, sem kærðar hafi verið séu grundvallar­forsendur fyrir áframhaldandi framkvæmdum fyrir fyrirhugað svínabú að Torfum. Óhjákvæmilegt sé að líta til þess við úrlausn á kæru um framkvæmda­­­­­leyfi. Þá hafi framkvæmdaraðili farið fram á flýtimeðferð málsins fyrir úrskurðar­nefndinni. Með það í huga verði að teljast óeðlilegt að veitt sé leyfi fyrir slíkum framkvæmdum á meðan málið bíði úrlausnar um lögmæti lögbundinna skilyrða slíkra framkvæmda.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Þær framkvæmdir sem leyfðar hafi verið standi vissulega í tengslum við deiliskipulagið, sem og fyrirhugaðar framkvæmdir við svínabú. Sá þáttur framkvæmda sem nú hafi verið heimilaður sé ekki mengandi starfsemi. Um sé að tefla landmótun, vatnsöflun og bakkavarnir vegna flóðahættu frá Finnastaðaá. Þær framkvæmdir ógni ekki þeim hagsmunum sem kærendur tefli fram að verið sé að verja og hafi kærendur ekki leitt rök að því að svo sé.

Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Ákvörðun um framkvæmdaleyfi hafi verið tekin eftir að nýtt skipulag hafi tekið gildi. Aðdragandi og grundvöllur ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis byggi þannig á gildum réttarheimildum og lögmætri stjórnsýslumeðferð. Engin lagaleg rök hafi verið færð fram af hálfu kærenda sem leiða mættu til annarrar niðurstöðu. Kærendur hafi ekki fært fram lögfræðileg rök fyrir því hvað í málsmeðferðinni megi leiða til ógildingar framkvæmdaleyfisins eða endurupptöku málsins hjá sveitarfélaginu. Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis sé bindandi. Verði málið því ekki tekið upp að nýju eða ný ákvörðun tekin í málinu. Skorti á að lagaskilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fullnægt svo að svo megi verða.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að framkvæmdaleyfið sé gefið út á grundvelli gildandi deiliskipulags vegna spildunnar úr Torfum. Leyfishafi hafi tilkynnt Skipulagsstofnun um framkvæmdina og stofnunin hafi tekið þá ákvörðun að ekki væri þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs svínabús. Þar sem ekki hafi verið talin þörf á að fram færi mat á umhverfisáhrifum hafi Eyjafjarðarsveit afgreitt deiliskipulagið án þess að slíkt mat lægi fyrir og gefið út framkvæmdaleyfi. Ekkert sé athugavert við málsmeðferð Skipulagsstofnunar eða ferlið við samþykkt deiliskipulagsins sem framkvæmda­leyfið sæki stoð í. Því beri að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess.

Hið fyrirhugaða svínabú sé staðsett langt utan fjarlægðarmarka, eða í um 950 til 1000 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum, en áskilið sé að svínabú með fleiri en 2000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 600 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum, sbr. 6. gr. reglugerðar um eldishús alifugla, loðdýra og svína nr. 520/2015. Staðsetning svínabúsins að Torfum hafi þótt henta hvað best með tilliti til fjarlægðar frá næstu mannabyggðum, aðgengi að hitaveitu og úrgangslosunar frá dýrum.

—–

Aðilar máls hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar hér.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna kærðrar stjórnvalds­ákvörðunar. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Í hinu kærða framkvæmda­leyfi felst heimild til handa leyfishafa að bora eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús og tengja veginn frá Eyjafjarðarbraut vestri við lóð búsins. Svo sem lýst er í greinargerð deiliskipulags fyrir svínabú að Torfum er talsverð fjarlægð í næstu mannabústaði í umráðum kærenda. Íbúðarhús á Finnastöðum er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitum svínabús til norðvesturs og íbúðarhús við Grund I og II er í rúmlega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitum svínabús til norðausturs. Minni fjarlægð er frá landamerkjum jarða kærenda að lóð svínabúsins en hún er þó að lágmarki nokkrir tugir metra. Með hliðsjón af þessu og að virtu eðli heimilaðra framkvæmda verður ekki séð að þær geti raskað hagsmunum kærenda í nokkru. Þótt framkvæmdirnar séu óumdeilanlega hluti af undirbúningi vegna svínabús sem kærendur setja fyrir sig er ekki um slík tengsl framkvæmda að ræða að kærendur geti byggt aðild sína á því. Þá skapar það kærendum ekki kæruaðild að þeir hafi kært deiliskipulag það sem framkvæmdaleyfið er veitt með stoð í, enda snerta þær framkvæmdir sem leyfið heimilar ekki hagsmuni þeirra, svo sem áður greinir. Þar sem kærendur verða ekki taldir eiga þá lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

39/2019 Strandarvegur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2019, beiðni um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2019, er barst nefndinni 3. júní s.á., fór skipulags- og byggingarfulltrúi Seyðisfjarðar, f.h. bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, fram á, með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að úrskurðað verði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 3. júní 2019.

Málsatvik: Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum 16. apríl 2019 að óska eftir ofangreindri málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar með vísan til 4. mgr. 9. gr. mannvirkja-laga nr. 160/2010, þar sem uppi væri verulegt álitamál um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Fram kemur í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú undantekning er gerð í 4. mgr. 9. gr. laganna að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. ákvæðisins skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar skv. 59. gr. laganna. Er í slíkum málum því tekin afstaða til þess hvort gerð tiltekins mannvirkis eða breyting á því sé háð byggingarleyfi.

Í máli þessu er ekki leitað niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um byggingarleyfisskyldu vegna gerðar tiltekins mannvirkis eða breytinga á því heldur er leitað álits nefndarinnar á því hvort samþykkt tiltekinnar reyndarteikningar af innra skipulagi Strandarvegar 21 feli í sér ákvörðun um byggingarleyfi. Slík lögspurning verður ekki borin undir úrskurðarnefndina á grundvelli 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga heldur verður einungis tekin afstaða til þess álitaefnis í kærumáli þar sem ágreiningur er uppi um gildi eða þýðingu áritunar svonefndrar reyndarteikningar.

Af framangreindum ástæðum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Beiðni bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, um að úrskurðarnefndin úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

56/2018 Gagnheiði

Með

Árið 2019, föstudaginn 28. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 56/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir ÞGÁ trésmíði slf., eigandi fasteignarinnar að Gagnheiði 19, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 19. mars 2018 að leggja fyrir kæranda að fjarlægja tengibyggingu við hús hans að því marki sem hún nær inn fyrir sökkul húss að Gagnheiði 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 14. maí 2018.

Málsatvik og rök: Hinn 19. mars 2018 lagði byggingarfulltrúi Árborgar fyrir kæranda að fjarlægja tengibyggingu milli húss hans að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17 að því marki sem tengibyggingin færi inn fyrir sökkul húss sem veitt hafði verið byggingarleyfi til að endurreisa  á lóðinni Gagnheiði 17.

Kærandi bendir á að útveggur sá sem hafi verið á húsinu að Gagnheiði 17, sem hafi orðið eldi að bráð, hafi verið gaflveggur á tengibyggingu kæranda. Hafa verði í huga að eignin með fastanúmerinu 229-0097 hafi verið skeytt við Gagnheiði 17. Gaflveggur tengigangs og Gagnheiðar 17 sé í eigu kæranda. Um sé að ræða eign sem kærandi hafi eignast með kaupsamningi og afsali á árunum 2005-2006. Þar komi efnislega fram að ytra byrði hússins, þak, gaflar, sökklar o.fl. séu sameign. Með hliðsjón af því sé ljóst að sökklar séu í sameign lóðarhafa Gagnheiðar 17 og kæranda.

Bæjaryfirvöld benda á að óumdeilt sé að tengibyggingin, sem hafi verið byggð án samráðs við eiganda Gagnheiðar 17, hafi verið byggð inn á byggingarreit Gagnheiðar 17 enda nái hún inn fyrir sökkul. Í ljósi þessa hafi eiganda tengibyggingar milli Gagnheiðar 17 og 19 verið gert að fjarlægja hana að því marki sem hún nái inn fyrir sökkul mannvirkis að Gagnheiði 17.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands hafa orðið eigendaskipti að umræddri tengibyggingu milli fasteignar kæranda að Gagnheiði 19 og Gagnheiðar 17. Í afsali, þinglýstu 29. mars 2019, lýsti kærandi Sveitarfélagið Árborg réttan og lögmætan eiganda tengibyggingarinnar sem stendur á lóðinni Gagnheiði 17. Upplýst hefur verið af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar að nefnd tengibygging hafi þegar verið fjarlægð á vegum sveitarfélagsins og hafi því hinni kærða ákvörðun ekki verið fylgt eftir gagnvart kæranda. Muni sveitarfélagið ekki gera frekari kröfur um þvingunaraðgerðir vegna tengibyggingarinnar.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem eiganda áðurnefndrar tengibyggingar og skyldu þeirri sem á hann var lögð sem eiganda að fjarlægja hluta hennar. Liggur nú fyrir að Sveitarfélagið Árborg varð eigandi tengibyggingarinnar samkvæmt áðurgreindu afsali og lét síðan fjarlægja hana.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir að kærandi eigi lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

100/2018 Kvistavellir

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 19. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðar-nefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 100/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2018, er barst nefndinni 18. s.m., kæra eigendur, Kvistavöllum 48,  Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 27. mars 2018 að samþykkja með skilyrðum leyfisumsókn fyrir skjólvegg á lóðarmörkum Kvistavalla 48 og bæjarlands. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 19. júlí 2018 og í maí og júní 2019.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 27. mars 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um leyfi fyrir skjólvegg sem stendur á mörkum lóðar þeirra við Kvistavelli og lands í eigu bæjarins. Umsóknin var samþykkt að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett voru fram í umsögn arkitekts, dags. s.d. Í umsögninni kemur m.a. fram að grindverkið sé mjög hátt og myndi langan vegg. Lækka þurfi grindverkið út mót götu niður í 140 cm. Kærendum barst tilkynning um afgreiðslu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 18. febrúar 2019, þar sem beðist var velvirðingar á því að tilkynning um afgreiðsluna hafi ekki borist fyrr.

Kærendur vísa til þess að þau hafi upphaflega byggt 180 cm hátt grindverk, en vilji sættast á að hafa það 160 cm. Bæjaryfirvöld vilji það hins vegar ekki og gangi út frá að grindverkið verði að vera 140 cm að hæð. Aðrir eigendur íbúða í umræddu raðhúsi hafi þegar reist grindverk sín og séu þau frá 140 cm og upp í 160 cm.

Bæjaryfirvöld benda á að með umsókn óski kærendur eftir leyfi fyrir grindverki sem þegar sé reist við lóðarmörk sem liggi að bæjarlandi og gangstétt. Óski kærendur eftir að reisa 180 cm grindverk. Verklag sem unnið sé eftir af hálfu bæjaryfirvalda sé að samþykkja 140 cm há grindverk almennt að bæjarlandi, en leyfa 160 cm grindverk við umferðargötur þar sem sé strætisvagnaumferð. Hæð sé miðuð við G tölur á útgefnum hæðarblöðum. Einnig þurfi að passa upp á götuhorn og innkeyrslur inn á lóðir vegna útsýnis og slysahættu.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands urðu eigendaskipti að fasteign kærenda í húsinu að Kvistavöllum 48 með kaupsamningi, dags. 29. nóvember 2018, sem þinglýst var 10. desember s.á. Var afsal fyrir eigninni til kaupenda þinglýst 15. júní 2019.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kærenda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu þeirra sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Kvistavöllum 48. Eins og fyrr er rakið eiga kærendur ekki lengur réttindi tengda umræddri fasteign og eiga því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

46/2018 Hafravatn

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 11. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2018, kæra á ákvörðun Mosfellsbæjar frá 20. febrúar 2018 um að synja umsókn um skiptingu lóðar í tvo hluta og að heimila uppbyggingu á lóðunum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur frístundalóðar í Úlfarsfellslandi, fasteignanúmer 2084959, þá ákvörðun Mosfellsbæjar frá 20. febrúar 2018 að synja umsókn um skiptingu lóðarinnar í tvo hluta og að heimila uppbyggingu á lóðunum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að viðurkenndur verði réttur kærenda til að skipta landi sínu í tvær lóðir og að stærð byggingar á hvorri lóð verði allt að 130 m2 eða að stærð bygginga á lóð þeirra verði allt að 200 m2 á óskiptri lóð. Þess er að auki krafist að ýmis ákvæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar verði ógilt. Að lokum er málskostnaðar krafist.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 25. mars 2019.

Málavextir: Kærendur eru eigendur 9.247 m2 frístundarlóðar í Úlfarsfellslandi við norðanvert Hafravatn. Á lóðinni stendur nú 60 m2 sumarbústaður auk bátaskýlis. Með bréfi kærenda til skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, dags. 13. apríl 2016, óskuðu þeir eftir leyfi sveitarfélagsins til að skipta lóð sinni í tvo hluta, sem yrðu u.þ.b. jafn stórir, og að byggja frístundahús á nýrri lóð. Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar hafnaði erindi kærenda 3. maí 2016 með vísan til þess að það væri í ósamræmi við stefnumörkun aðalskipulags sveitarfélagsins. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 11. s.m. Kærendur sendu Mosfellsbæ erindi 10. janúar 2018 þar sem aftur var farið fram á heimild til að skipta umræddri lóð í tvær lóðir og byggja á þeim. Lögmaður Mosfellsbæjar svaraði kærendum með bréfi, dags. 20. febrúar s.á., þar sem erindinu var synjað.

Málsrök kæranda: Kærendur telja ýmis ákvæði aðalskipulags Mosfellsbæjar ekki standast skipulagslög nr. 123/2010, nánar tiltekið c.- og d.-lið 1. gr. laganna. Þá benda kærendur á að aðalskipulagið brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Nýtingarréttur þeirra skerðist vegna brota Mosfellsbæjar á skipulagslögum, eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga. Í ljósi þessara lögbrota sé eðlileg krafa að kærendur fái fullan rétt til jafns við eigendur frístundalanda í öðrum frístundabyggðum sveitarfélagsins til að skipta landi sínu í tvær lóðir og byggja allt að 130 m2 bústað óháð lóðarstærð á hvorri lóð. Það sé einnig eðlileg krafa að viðurkenndur verði réttur kærenda til að byggja allt að 200 m2 hús á óskiptri lóð.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að í kæru sé m.a. krafist ógildingar á ákveðnum þáttum aðalskipulags. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 hafi verið staðfest af Skipulagsstofnun 19. september 2013 og tekið gildi með birtingu auglýsingar í Stjórnartíðindum 3. október s.á. Undirbúningur, gerð og samþykkt núgildandi aðalskipulags hafi verið fullkomlega í samræmi við ákvæði laga nr. 73/1997, líkt og staðfesting þess og auglýsing beri merki um. Bent sé á að samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæti ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri samkvæmt skipulagslögum að staðfesta, ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þá sé kærufrestur samkvæmt 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 löngu liðinn, enda hafi hann byrjað að líða á árinu 2013 þegar aðalskipulagið hafi verið staðfest.

Kærendur hafi sent Mosfellsbæ erindi 10. janúar 2018 þar sem farið hafi verið fram á heimild til að skipta landi undir frístundahús við Hafravatn í tvær sjálfstæðar lóðir og byggja á þeim. Sama erindi hafi áður verið synjað á 412. fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 3. maí 2016, sem staðfest hafi verið á 671. fundi bæjarstjórnar 11. s.m.

Fyrri ákvörðun varðandi erindi kæranda hafi ekki verið breytt, endurupptekin eða afturkölluð heldur hafi nýju erindi verið svarað með vísan til þess að þegar hefði verið tekin ákvörðun í málinu. Ákvörðun sú sem deilt sé um hafi því verið tekin 3. maí 2016 en ekki 10. janúar 2018, eins og haldið sé fram í kæru. Kærufrestur samkvæmt 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé því liðinn.

Allur rökstuðningur kærenda lúti að efni og forsendum núgildandi aðalskipulags. Engan rökstuðning sé þar að finna í þá átt að ákvörðun í málinu sé röng eða ógildanleg teljist núgildandi aðalskipulag gilt. Mosfellsbær telji aðalskipulagið hafa fullt gildi og að því gættu verði að hafna kröfum kærenda.

Að lokum sé bent á að hvorki sé heimild í skipulagslögum, lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála né stjórnsýslulögum til að ákvarða málskostnað í kærumálum sem þessu. Séu því ekki lagaskilyrði til að taka málskostnaðarkröfuna til greina.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur fara fram á að úrskurðarnefndin víki sæti í málinu þar sem nefndin hafi sýnt Mosfellsbæ ólögmætt langlundargeð og velvild með því að láta sveitarfélagið komast upp með að svara ekki kæru innan svarfrests. Þá hafi nefndin ekki orðið við ítrekuðum kröfum kærenda að úrskurða í málinu á grundvelli kærunnar og framkominna gagna þegar frestir Mosfellsbæjar til andmæla hafi verið löngu liðnir. Kærendur geti því ekki treyst því að úrskurðarnefndin líti hlutlaust á málið.

Kærendur fari jafnframt fram á að málið verði úrskurðað á grundvelli kæru og kærugagna, þar sem greinargerð Mosfellsbæjar hafi borist of seint. Það sé grundvallarregla stjórnsýslu og réttarfars að úrskurða eigi eða dæma á grundvelli kæru og kærugagna nema þær séu augljóslega rangar, berist andsvör ekki innan tilskilins frests. Réttur kærenda um hraða, skilvirka og gegnsæja málsmeðferð sé freklega brotinn og sveitarfélagið verði að bera hallann af því, frekar en kærendur. Þá sé því mótmælt að umsókn kærenda 10. janúar 2018 sé hluti af sama máli, þ.e. fyrri umsókn kærenda. Kærendur hafi aflað sér nýrra upplýsinga og gagna og byggi nýju umsóknina á öðrum lagarökum en áður.

Niðurstaða: Kærendur fara fram á að úrskurðarnefndin víki sæti í málinu með þeim rökum að nefndin hafi sýnt Mosfellsbæ ólögmætt langlundargeð og velvild með því að hafa tekið við gögnum frá sveitarfélaginu að liðnum lögmæltum fresti.

Í tilkynningu til kærenda, dags. 16. mars 2018, var upplýst að sökum mikils fjölda óafgreiddra mála hjá nefndinni væri fyrirsjáanlegt að úrskurður í máli þeirra yrði að öllum líkindum ekki kveðinn upp innan árs. Þeim var svo sendur tölvupóstur 13. febrúar 2019 þar sem fram kom að vænta mætti að málið yrði tekið fyrir á öðrum ársfjórðungi ársins 2019. Þá töf sem orðin er á afgreiðslu máls þessa má rekja til nefndra ástæðna.

Mosfellsbæ var tilkynnt um kæru þessa 16. mars 2018 og var veittur 30 daga frestur til að skila til úrskurðarnefndarinnar gögnum og umsögn um málið í samræmi við 5. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2010. Þrátt fyrir fjölmargar ítrekanir bárust nefndinni ekki gögn málsins fyrr en 25. mars 2019. Þrátt fyrir þann mikla drátt sem varð á afhendingu gagna frá Mosfellsbæ verður að telja, með hliðsjón af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að úrskurðarnefndinni beri að hafa við úrlausn málsins hliðsjón af greinargerð og þeim gögnum sem bárust frá sveitarfélaginu. Þess má og geta að kærendur fengu umbeðinn framlengdan frest til að skila viðbótarathugasemdum af sömu ástæðu þar sem framlenging frestsins tafði ekki afgreiðslu málsins, eins og atvikum var háttað.

Af framangreindu verður ekki séð að úrskurðarnefndin eða starfsmenn hennar hafi verið hlutdræg við meðferð kærumáls þessa í skilningi 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga og ekki liggja fyrir þar vanhæfisástæður sem tíundaðar eru í 1.-5. tl. ákvæðisins. Eru því ekki lagaskilyrði til þess að nefndarmenn úrskurðarnefndarinnar víki sæti í máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta, ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 var samþykkt í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 26. júní 2013, staðfest af Skipulagsstofnun 19. september s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. október s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að taka nefnt aðalskipulag til endurskoðunar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 11. maí 2016 batt enda á stjórnsýslumál það sem hófst með umsókn kærenda 13. apríl s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 18. mars 2018 og var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar þá löngu liðinn. Kærendur sendu erindi til Mosfellsbæjar 10. janúar 2018 þar sem farið var fram á heimild til að skipta landi undir frístundahús við Hafravatn í tvær sjálfstæðar lóðir og byggja á þeim. Lögmaður Mosfellsbæjar svaraði erindinu með bréfi 20. febrúar s.á. og benti á að sama erindi kærenda hefði áður verið synjað af skipulagsnefnd bæjarins og að sú synjun hefði verið staðfest á fundi bæjarstjórnar 11. maí 2016. Ekki væru efni til að breyta, endurupptaka eða afturkalla fyrri ákvörðun. Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests.

Óljóst er af bréfi lögmanns Mosfellsbæjar til kærenda, dags. 20. febrúar 2018, og öðrum gögnum málsins hvort sveitarfélagið leit á erindi kærenda sem nýja beiðni um skiptingu lóðar eða beiðni um endurupptöku á máli því sem lauk með ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 11. maí 2016. Hafi sveitarfélagið talið vafa leika á því hefði verið rétt að fá úr honum skorið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, enda eiga ólík lagaskilyrði við um endurupptöku mála og ný erindi.

Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga er óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. Sveitarstjórn er heimilt að framselja vald til fastanefndar eða einstakra starfsmanna að uppfylltum skilyrðum 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Slíkt framsal skal koma fram í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Í 51. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar nr. 238/2014 kemur fram að um framsal bæjarstjórnar til starfsmanna til fullnaðarafgreiðslu mála vísist til 35. gr. samþykktarinnar. Samkvæmt 2. og 3. mgr. þeirrar greinar getur bæjarstjórn heimilað aðilum innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar fullnaðarafgreiðslu erinda í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð. Ekki liggur fyrir að slíkt framsal hafi farið fram vegna afgreiðslu umsókna um skiptingu lóðar samkvæmt 48. gr. skipulagslaga eða að sveitarstjórn hafi tekið umrætt erindi kærenda til afgreiðslu.

Í samræmi við kröfur 4. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga fjallar 6. mgr. 35. gr. samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar um endurupptöku mála. Þar er kveðið á um að aðili máls eigi rétt á endurupptöku máls að uppfylltum skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni um endurupptöku skuli beint til bæjarráðs. Sé litið á erindi kærenda sem beiðni um endurupptöku er það í höndum bæjarráðs, en ekki lögmanns bæjarins, að taka beiðnina til afgreiðslu samkvæmt skýrum orðum samþykktar um stjórn Mosfellsbæjar.

Samkvæmt framangreindu liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður slík ákvörðun ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Í ljósi þess að umsókn kærenda um skiptingu lóðar og uppbyggingu á lóðunum hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum þykir rétt að vekja athygli á réttarúrræði 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Ekki er fyrir hendi heimild í lögum fyrir úrskurðarnefndina til að ákvarða greiðslu málskostnaðar til handa aðilum máls og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Að öllu framangreindu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikil fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.