Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2020 Hlíðarbraut

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 80/2020, kæra á málsmeðferð vegna breytingar á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars, vegna lóðarinnar Suðurgötu 41.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4.september 2020, er barst nefndinni 5. s.m., kæra Hollvinasamtök St. Jósefsspítala, Birkibergi 18, Hafnarfirði, „málsmeðferð og breytingu á skipulagi stofnanalóðar St. Jósefsspítala“. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé breyting á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars vegna nefndrar lóðar og þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 7. október 2020.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag Suðurbæjar sunnan Hamars frá 28. maí 2014. Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar 10. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi vegna lóðanna nr. 10 og 12 við Hlíðarbraut og nr. 41 við Suðurgötu. Samhliða var auglýst breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Bæjarstjórn samþykkti tillögurnar til auglýsingar á fundi sínum 18. mars s.á. og voru þær kynntar á tímabilinu frá 23. apríl 2020 til 4. júní s.á. Tillögurnar voru samþykktar óbreyttar í bæjarstjórn 17. júlí 2020 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 25. júní 2020. Með erindi, dags. 4. ágúst 2020, sendu bæjaryfirvöld Skipulagsstofnun aðal- og deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin tilkynnti með bréfi, dags. 10. september s.á., að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir svar sveitarfélagsins við bréfi stofnunarinnar, dags. 27. ágúst s.á., vegna breytingar á gildandi aðalskipulagi fyrir umrætt svæði. Hafnarfjarðarbær brást við þeim athugasemdum stofnunarinnar með bréfi, dags. 21. október s.á.

Kærandi bendir meðal annars á að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila og almenning við breytingu á stofnanalóð St. Jósefsspítala. Kynning og samráð virðist ekki hafa verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Hafnarfjarðarbær gerir fyrst og fremst kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts. Telji bæjaryfirvöld ljóst að kærandi eigi hvorki lögvarinna hagsmuna að gæta er tengist hinni kærðu ákvörðun né uppfylli hann önnur skilyrði kæruaðildar. Ella sé gerð sú krafa að framkominni kæru verði hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Í máli þessu samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, en svo sem lýst er í málavöxtum gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við aðalskipulagsbreytinguna sem nú hefur verið svarað af hálfu bæjaryfirvalda. Stofnunin hefur hins vegar hvorki staðfest nefnda breytingu á gildandi aðalskipulagi né birt auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 3. mgr. 32. gr., sbr. og 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

Umdeild deiliskipulags­breyting hefur ekki heldur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu slíkrar auglýsingar. Verður ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar, enda telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni. Hefur þá ekki verið tekin afstaða til þess hvort kærandi geti yfirhöfuð átt aðild að kærumáli þessu, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

55/2020 Látrar

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2020, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðvík ehf., eigandi hluta eyðijarðarinnar Látra í Aðalvík, meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum. Gerir kærandi þá kröfu „að höfnun Ísafjarðarbæjar á niðurrifi viðbyggingu sjávarhússins verði dæmd ógild.“ Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 um að hafna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús verði fjarlægð og að ógildingar afgreiðslunnar sé krafist.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 31. júlí og í nóvember 2020.

Málavextir: Látrar í Aðalvík teljast hluti af friðlandi á Hornströndum, sbr. auglýsingu nr. 332/1985. Á svæðinu eru nokkur hús, þeirra á meðal svonefnd Sjávarhús og Ólafsskáli er standa hlið við hlið. Hefur kærandi um langt skeið komið á framfæri athugasemdum við Ísafjarðarbæ vegna meintrar óleyfisbyggingar Sjávarhússins, viðbyggingar við það og byggingar smáhýsa/áhaldahúsa í fjörukambinum. Með bréfi kæranda til Ísafjarðarbæjar, dags. 26. ágúst 2014, var þess farið á leit við byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að Sjávarhúsið yrði fjarlægt. Veitti sveitarfélagið eigendum hússins kost á því að koma að athugasemdum og bárust þær með bréfi, dags. 20. janúar 2015. Hinn 3. febrúar s.á. tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kæranda að beiðni hans væri hafnað með vísan til þess að langt væri liðið frá byggingu hússins, auk þess sem það félli ekki undir valdsvið Ísafjarðarbæjar að skera úr um einkaréttarlegan ágreining.

Sama dag tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi eigendum Sjávarhússins að sveitarfélagið teldi ekki rök standa til þess að það hlutaðist til um að fasteignin í heild sinni yrði fjarlægð, en að óskað væri skýringa á breytingum og/eða endurbótum sem gerðar hefðu verið á umræddri fasteign á undanförnum árum, að því er virtist án tilskilinna leyfa. Í svarbréfi, dags. 23. febrúar 2015, kom m.a. fram að byggingaraðilar hússins væru ekki eigendur umræddrar jarðar, en hefðu fengið leyfi frá eiganda hennar til að reisa húsið á sínum tíma. Hefði þess einnig verið farið á leit við Náttúruverndarráð með bréfi árið 1994 að húsið fengi að standa. Væri þeim ekki kunnugt um að bréfinu hefði verið svarað og væri þeim því rétt að líta svo á að ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við byggingu hússins. Mættu þeir því hafa réttmætar væntingar til þess að sú ákvörðun stæði óbreytt. Endurbætur sem byggingaraðilar hefðu ráðist í vegna viðhalds hússins væru aðeins minniháttar lagfæringar. Viðbyggingu hefði verið skeytt við húsið árið 2012, en byggingaraðilar hefðu ekki komið að þeirri framkvæmd og væru ekki eigendur viðbyggingarinnar. Þá var óskað eftir afstöðu Ísafjarðarbæjar til þess hvort málinu teldist lokið hvað eigendur Sjávarhússins varðaði.

Hinn 11. mars 2015 var tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar erindi varðandi niðurrif Sjávarhússins og vísað til fyrrgreinds svars eigenda þess. Færði skipulags- og mannvirkjanefnd eftirfarandi til bókar: „Ekki er unnt að fallast á þessi sjónarmið eigenda Sjávarhússins varðandi viðbyggingu fasteignarinnar. Viðbygging verður að teljast tilheyra þeirri fasteign sem hún er skeytt við, sbr. 2. gr. laga nr. 40/2002, og þannig á ábyrgð eiganda eða eigenda þeirrar fasteignar að lögum. Byggingarfulltrúa er falið að tilkynna eigendum Sjávarhússins þá afstöðu Ísafjarðarbæjar að málinu sé þannig ekki lokið gagnvart þeim. Eigendum fasteignarinnar skal jafnframt tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, þrátt fyrir framangreinda afstöðu þeirra til málsins, að til greina komi að krefjast þess að óleyfisframkvæmdirnar verði fjarlægðar, og skal þeim gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum hvað það varðar.“ Ekki munu athugasemdir hafa borist sveitarfélaginu á þeim tíma, en árið 2016 skaut kærandi afgreiðslum sveitarfélagsins varðandi meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með úrskurði nefndarinnar 6. september 2018, í máli nr. 116/2016, var tekið fram að samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ hefði erindi kæranda um að fjarlægja stækkun Sjávarhússins ekki verið tekið fyrir að nýju og var lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til þeirrar kröfu. Í úrskurðinum var einnig lagt fyrir byggingarfulltrúa að afgreiða erindi kæranda um að áhaldahús í fjörukambinum skyldu fjarlægð. Þá var vísað frá kröfu kæranda um að fjarlægja skyldi Sjávarhúsið þar sem kæra þar að lútandi hefði borist nefndinni of seint, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 18. janúar 2019, varðandi málefni Sjávarhússins og áhaldahúsa/smáhýsa í fjörukambinum og veitti honum færi á að koma að sjónarmiðum sínum. Í kjölfar þessa óskaði kærandi eftir því að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna því að fjarlægja Sjávarhúsið yrði endurupptekin með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún hefði m.a. byggst á röngum forsendum um það hvenær húsið hefði verið reist. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. maí 2019, var tilkynnt að kröfu um endurupptöku væri hafnað. Skaut kærandi þeirri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði 30. júní 2020, í máli nr. 66/2019, hafnaði kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun. Með sama úrskurði var felld úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að synja kröfu kæranda um að fimm smáhýsi sem staðsett væru í fjörukambinum yrði fjarlægð.

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til eigenda Sjávarhússins, dags. 18. janúar 2019, var bent á að ekki hefði verið brugðist við fyrrnefndri bókun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 11. mars 2015 varðandi viðbyggingu Sjávarhússins og var veittur á ný fjögurra vikna frestur til að koma sjónarmiðum á framfæri. Barst svar með tölvupósti 26. febrúar s.á. þar sem m.a. var bent á að erfitt væri um vik að færa fram athugasemdir þar sem að í bréfi Ísafjarðarbæjar kæmi hvergi fram hvaða meintu óleyfisframkvæmdir það væru sem um ræddi. Væri vísað til fyrri samskipta og skýringa vegna málsins og því alfarið mótmælt að fyrir hendi væru atvik sem leiða ættu til þess að eigendum hússins yrði gert að fjarlægja tiltekna hluta fasteignarinnar, þ.e. svokallaðar óleyfisframkvæmdir. Jafnframt var tekið fram að liðin væru tæplega fjögur ár frá því að síðustu samskipti vegna þessa máls hefðu átt sér stað milli aðila. Hefðu eigendur Sjávarhússins því staðið í þeirri trú að málinu væri lokið.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 20. maí 2020 var tekin fyrir krafa kæranda um að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð. Í fundargerð kom m.a. fram að landeigendum Látra hefði verið gefið færi á að koma með athugasemdir við kröfu kæranda um að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð. Hefðu borist sex svör frá landeigendum og hefði enginn þeirra sett sig upp á móti viðbyggingunni. Var eftirfarandi fært til bókar: „Skipulags- og mannvirkjanefnd áskildi sér rétt til þess að leita eftir sjónarmiðum annarra landeigenda jarðarinnar Látra, í útsendu bréfi dags. 14. júní 2019. Ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu landeigenda og vegna þess hve langt er um liðið að umræddri viðbyggingu var skeytt við húsið, telur nefndin ekki tilefni til að gera kröfu á það að viðbygging verði fjarlægð.“ Er það hin kærða ákvörðun, svo sem áður er komið fram, en kæranda var formlega tilkynnt greind afgreiðsla nefndarinnar með tölvupósti skipulagsfulltrúa 2. nóvember 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að einungis sex af 34 landeigendum Látra hafi tekið afstöðu til skoðanakönnunar sveitarfélagsins um hina umþrættu viðbyggingu, en samtals eigi þessir sex aðilar 23,3854% í jörðinni. Eignarhluti kæranda í Látrum sé 50%. Þjóni það ekki hagsmunum umræddra aðila að málefni kæranda nái fram að ganga, en aðeins einn þeirra virðist ekki hafa hag af þessu máli. Ef eingöngu sé horft til þeirra sem tekið hafi afstöðu þá séu tæplega 70% sem vilji láta fjarlægja viðbygginguna.

Fram komi hjá Ísafjarðarbæ að ekki sé tilefni til að gera kröfu á það að viðbyggingin verði fjarlægð vegna þess hve langt sé um liðið frá því að henni hafi verið skeytt við húsið. Þetta sé ekki rökstutt frekar en dráttur sá sem orðið hafi á afgreiðslu málsins sé alfarið sveitarfélaginu að kenna. Kærandi hafi lagt fram erindi í ágúst 2014, úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi verið kveðinn upp 6. september 2018 og niðurstaða Ísafjarðarbæjar legið fyrir 20. maí 2020, eða 622 dögum síðar. Það hafi tekið sveitarfélagið 281 dag að koma fyrirspurnum til landeigenda og 310 daga að vinna úr svörum sex aðila.

Sjávarhúsið hafi verið stækkað á árunum 2010-2014. Þurfi samþykki allra landeigenda á sameignarlandi fyrir framkvæmdum sem þessum, en slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Ekki hafi verið aflað umsagnar hjá Umhverfisstofnun eða Náttúruvernd ríkisins, líkt og lög áskilji. Þá hafi Ísafjarðarbær ekki veitt byggingarleyfi svo vitað sé, enda væri slíkt leyfi ólöglegt.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað, verði henni ekki vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2016 hafi krafa kæranda verið tekin til nánari athugunar. Á ný hafi verið óskað eftir afstöðu eigenda Sjávarhússins til umræddrar kröfu og hafi þeir hafnað henni. Auk þess hafi m.a. verið óskað eftir afstöðu eigenda Ólafsskála sem ekki hafi gert athugasemdir við viðbyggingu Sjávarhússins. Ljóst sé af framkomnum svörum að afstaða þeirra sem hagsmuna eigi að gæta á svæðinu, annarra en kæranda, sé sú að þeir geri ekki athugasemdir við umrædda viðbyggingu. Til þessa hafi verið litið sérstaklega þegar tekin hafa verið afstaða til kröfu kæranda. Einnig hafi verið horft til þess að nokkuð sé um liðið frá því að viðbyggingin hafi verið reist, auk þess sem hún feli ekki í sér umfangsmikla breytingu á þeim húsum sem hún standi á milli.

Af fyrirliggjandi gögnum megi enda ráða að þegar svonefndur Ólafsskáli hafi verið endurbyggður í upprunalegri mynd á árinu 2012 og í tengslum við endurbætur á Sjávarhúsinu hafi verið skeytt við Sjávarhúsið u.þ.b. tveggja metra viðbyggingu sem lokað hafi þröngu sundi/bili á milli Sjávarhússins og Ólafsskála. Ekki sé um nein grenndaráhrif, útsýnisskerðingu eða skuggavarp að ræða af viðbyggingunni. Sé hún í sömu mynd og húsin sem hún standi á milli. Af þessum sökum megi gera ráð fyrir að töluvert rask yrði á báðum húsunum ef viðbyggingin yrði fjarlægð. Enn fremur hafi verið horft til þess að umrædd krafa lyti að því að fasteign í eigu annars aðila yrði fjarlægð að hluta og að ákvörðun þess efnis myndi teljast verulega íþyngjandi fyrir þann aðila. Slík ákvörðun verði ekki tekin nema á sterkum grundvelli, en kærandi hafi ekki fært fyrir því rök.

Lög og byggingarreglugerð feli í sér heimildir skipulags- og byggingarfulltrúa til að m.a. krefjast þess að mannvirki sé fjarlægt. Ekki sé um að ræða skyldu hans til aðgerða á grundvelli kröfu eins aðila. Við mat á því hvort slíkum heimildum skuli beitt verði að taka tillit til annarra sjónarmiða, þ. á m. hagsmuna annarra, sem og þess rasks sem fylgi því að kröfunni verði framfylgt. Eins verði að horfa til þess að kæranda standi til boða einkaréttarleg úrræði til að framfylgja rétti sínum. Að teknu tilliti til þessara atriða, sem og annarra sjónarmiða sem komið hafi fram af hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa á fyrri stigum, hafi ekki þótt tilefni til að fallast á kröfu kæranda.

Athugasemdir kæranda varðandi „skoðanakönnun“ skipulags- og byggingarfulltrúa hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins. Þá geti athugasemdir við málsmeðferðartíma ekki haft þau áhrif eins og hér hátti til að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að við afgreiðslu málsins hafi Ísafjarðarbær ekki tekið tillit til brunavarna og lámarksbils milli húsa, en augljóst sé að komi upp eldur í öðru hvoru húsinu þá verði hitt húsið einnig eldinum að bráð. Þrengi framkvæmdir eigenda Sjávarhússins að Ólafsskála. Sé því alfarið hafnað að rask verði á báðum húsunum við það að fjarlægja þennan hluta af viðbyggingunni. Verði sundið á milli húsanna opnað að nýju muni það ekki hafa áhrif á Ólafsskála að öðru leyti en því að hægt verði að sinna eðlilegu viðhaldi á þeirri hlið.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, m.a. af hálfu eigenda Sjávarhússins, sem ekki verða rakin nánar í ljósi niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 að synja kröfu kæranda um að fjarlægð verði viðbygging við svonefnt Sjávarhús á Látrum. Mun húsið hafa verið stækkað án þess að fyrir lægi heimild byggingarfulltrúa fyrir þeim breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í kröfu kæranda felst að beitt verði ákvæðum 2. mgr. 55. gr. laganna, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur m.a. byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Segir í athugasemdum við 2. mgr. 55. gr. í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að þetta sé metið í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Þá kemur fram í almennum athugasemdum með frumvarpinu að í því sé um að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu til ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar þar að lútandi. Er og tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki er í gildi samþykkt um afgreiðslur skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar sem sett hefur verið skv. 7. gr. laga nr. 160/2010, en skv. 6. mgr. þeirrar lagagreinar skal samþykkt sem sett er samkvæmt henni lögð fyrir félags- og barnamálaráðherra, áður umhverfis- og auðlindaráðherra, til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hins vegar er í gildi samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 535/2014 með síðari breytingum, þar sem m.a. segir að skipulags- og mannvirkjanefnd fari með byggingar- og skipulagsmál samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Auk verkefna sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi með höndum samkvæmt lögum geti bæjarstjórn falið henni ýmis verkefni með erindisbréfi. Slíkt erindisbréf liggur fyrir og í því segir m.a. að hlutverk nefndarinnar sé að fjalla um skipulagsmál og fara með hlutverk skipulagsnefndar í skilningi 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með síðari breytingum, sbr. einnig heimild í 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Jafnframt er tekið fram að skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar sitji fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt með vísan í 5. mgr. gr. 2.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og fari hann með verkefni nefndarinnar, sbr. lög nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslög nr. 123/2010.

Samþykkt nr. 535/2014 er sett með stoð í 9. gr. sveitarstjórnarlaga og var staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á sér ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir, enda er það vald ekki sveitarstjórnar samkvæmt tilvitnaðri grein.

Við meðferð kærumáls þessa aflaði úrskurðarnefndin frekari gagna og beindi m.a. fyrirspurn til Ísafjarðarbæjar um aðkomu byggingarfulltrúa að málinu. Fengust þau svör að byggingarfulltrúi hefði ekki afgreitt erindið á afgreiðslufundi sínum en hann hefði ekki heimildir til að taka afstöðu til kröfu kæranda þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir Látra. Hefði öll málsmeðferðin verið í höndum skipulags- og mannvirkjanefndar og útsend bréf séu með hliðsjón af afgreiðslu nefndarinnar um erindið. Liggur samkvæmt framangreindu fyrir að sú málsmeðferð var ekki í samræmi við skýr ákvæði mannvirkjalaga. Var  skipulags- og mannvirkjanefnd ekki til þess bær að taka hina kærðu ákvörðun heldur þurfti til að koma sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa og breytti engu þar um þótt um væri að ræða byggingu á ódeiliskipulögðu svæði. Þar sem slík ákvörðun byggingarfulltrúa hefur ekki verið tekin liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður því að vísa kröfu kæranda frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var með úrskurði nefndarinnar 6. september 2018, í máli nr. 116/2016, lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til kröfu kæranda um fjarlægingu stækkunar Sjávarhússins. Með því að ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi brugðist við framangreindri niðurstöðu nefndarinnar verður lagt fyrir hann að nýju að taka afstöðu til fyrrgreindrar kröfu kæranda án frekari dráttar, svo sem honum ber að gera samkvæmt mannvirkjalögum, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 um að hafna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús á Látrum verði fjarlægð.

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að taka afstöðu án frekari dráttar til kröfu kæranda um að umrædd viðbygging verði fjarlægð.

121/2019 Reynilundur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Reynilundi 11, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir: Með umsókn, dags. 27. september 2017, sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs þeirra að Reynilundi 11 um 1,5 m til suðurs auk þess sem settar yrðu dyr og gluggi á suðurhlið bílskúrsins. Með umsókn voru lögð fram samþykki íbúa Reynilundar 13 og 15, en ekki Reynilundar 17, en um er að ræða raðhúsalengjuna Reynilund 11-17. Skipulagsnefnd tók umsóknina fyrir 26. apríl 2019 og ákvað að grenndarkynna hana þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu. Tillögurnar voru grenndarkynntar íbúum Reynilundar 9, 13, 15 og 17. Athugasemdir bárust frá íbúa Reynilundar 17 sem lagðist gegn hinum umsóttu breytingum, en íbúinn er jafnframt arkitekt raðhúsalengjunnar. Með erindi skipulagsstjóra Garðabæjar, dags. 2. september 2019, var kærendum tilkynnt að lögð hefði verið fram niðurstaða húsakönnunar varðandi raðhúsalengjuna Reynilund 11-17, í tengslum við nýtt deiliskipulag Lundahverfis, þar sem varðveislugildi hússins væri metið hátt. Á fundi skipulagsnefndar 4. október 2019 var umsóknin tekin fyrir og með vísan til niðurstöðu húsakönnunar var mælt gegn því að byggingarleyfi yrði veitt og afgreiðslu málsins vísað til bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 17. s.m. var málið tekið fyrir og umsókn kærenda hafnað. Með bréfi, dags. 3. desember 2019, var sú ákvörðun kærð eins og að framan greinir.

Með tölvupósti, dags. 28. janúar 2020, óskaði Garðabær eftir fresti til þess að skila greinargerð og gögnum í málinu þar sem tillaga um nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hefði verið tekin fyrir að lokinni auglýsingu á fundi skipulagsnefndar 16. janúar 2020. Samkvæmt upplýsingum skipulagsstjóra hafi verið gerð tillaga að breyttum uppdrætti er sýni stækkun byggingarreita raðhúsanna nr. 11-17 við Reynilund og yrðu þeir uppdrættir á dagskrá skipulagsnefndar 7. febrúar s.á. Kærendur voru upplýstir um beiðni Garðabæjar og gerðu ekki athugasemd við hana. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var nýtt deiliskipulag fyrir umrætt svæði, Lundahverfi, samþykkt og tók það gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 6. maí s.á. Sú ákvörðun bæjarstjórnar var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu þess með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020.

Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar, 22. september 2020, var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að tilkynnt framkvæmd vegna stækkunar bílskúrs að Reynilundi 11 væri undanþegin byggingarleyfi, sbr. h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Sú ákvörðun hefur verið kærð af eiganda Reynilundar 17 til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að höfnun byggingarleyfisins sé ómálefnaleg og byggð á meðvirkni og hræðslu. Bæjaryfirvöld hafi í öllum samskiptum við kærendur gefið í skyn að þeim sé ekki stætt á að veita byggingarleyfið þar sem þeir óttist lögsókn eiganda Reynilundar 17 en ekki litið til mögulegrar málsóknar kærenda. Telji kærendur að með þessu sé jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 brotin, sbr. 11. gr. laganna, en þar segi að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá segi í 2. mgr. ákvæðisins að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á m.a. þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Hér sé niðurstaða málsins grundvölluð á því hver gagnaðilinn í málinu sé, þ.e. eigandi Reynilundar 17, en skoðunum hans sé gert hátt undir höfði hjá bæjaryfirvöldum. Með því séu kærendur álitnir réttlægri í þessu máli og halli verulega á þá. Þá hafi leiðbeiningar bæjaryfirvalda gagnvart kærendum verið af skornum skammti, en skv. 7. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerti starfssvið þess. Að lokum hafi meðferð málsins tekið óhóflega langan tíma, eða rúm tvö ár, og málshraðaregla stjórnsýslulaga því ekki virt, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

———-

Bæjaryfirvöldum Garðabæjar var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í máli þessu en þau hafa ekki tjáð sig um málatilbúnað kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningar­tilvikum sem þar eru greind.

Hinn 27. september 2017 sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir breytingum á lóð sinni Reynilundi 11, Garðabæ. Þeirri umsókn var hafnað af bæjarstjórn Garðabæjar 17. október 2019. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var samþykkt nýtt deiliskipulag sem tekur til þessa svæðis og er byggingarreitur húss kærenda þar stækkaður um 10 m2 til suðurs. Sú deiliskipulagsákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020. Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 22. september 2020 var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að heimila áformaðar framkvæmdir og jafnframt að tilkynntar framkvæmdir væru undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Með tölvupósti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2020, var kærendum gefinn kostur á að koma að skýringum um það hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins. Svar barst sama dag og kom fram að ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 22. september s.á. væri enn innan kærufrests og hefðu kærendur þar af leiðandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar, 16. október 2020, var kærendum tilkynnt um það að með úrskurði uppkveðnum sama dag hefði úrskurðarnefndin hafnað kröfu um ógildingu deiliskipulags svæðisins. Voru kærendur inntir eftir því hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins með tilliti til þess að sú ákvörðun sem kæra í máli þessu beinist að var tekin áður en deiliskipulag hafði tekið gildi. Þeim tölvupósti var ekki svarað.

Fyrir liggur að eftir hina kærðu synjun bæjaryfirvalda á umsókn kærenda um stækkun bílskúrs hafi verið sett deiliskipulag fyrir umrætt svæði þar sem byggingarreitur á lóð kærenda hefur verið stækkaður um 10 m2 en þar var stækkun bílskúrsins fyrirhuguð. Með fyrrgreindri afgreiðslu bæjarráðs 22. september 2020 hafa bæjaryfirvöld heimilað áformaðar framkvæmdir á lóðinni Reynilundi 11 og samkvæmt upplýsingum bæjarins er um að ræða sömu framkvæmdir og synjað var um með hinni kærðu ákvörðun í máli þessu. Með samþykki byggingaráforma kærenda hefur hin kærða ákvörðun um synjun fyrri umsóknar sama efnis fallið brott og hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildrar ákvörðunar. Breytir þar engu um hver örlög kærumáls vegna hinnar nýju ákvörðunar um samþykki byggingaráforma þeirra verða eins og atvikum er háttað. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Afgreiðsla máls þessa hjá úrskurðarnefndinni hefur dregist vegna beiðni aðila sem freistuðu þess að leita lausnar í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

100/2020 Urðarbrunnur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 22. október tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 100/2020, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 28. ágúst 2020 á fyrirspurn um byggingu tvíbýlishús á tveimur hæðum við Urðarbrunn 16, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir VG verk og bygg ehf. „vegna ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 28. ágúst 2020, þar sem hafnað var að framangreindum aðila væri heimilt að byggja tvíbýlishús á tveimur hæðum á lóð nr. 16 við Urðarbrunn, með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.” Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt fyrir skipulagsfulltrúa að taka nýja ákvörðun í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. október 2020.

Málavextir: Hinn 22. júní 2020 sendi kærandi á þar til gerðu eyðublaði fyrirspurn til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á leyfi til þess að byggja tvíbýlishús á tveimur hæðum á lóð nr. 16 við Urðarbrunn. Eyðublaðinu fylgdi minnisblað byggingarverkfræðings sem sýndi tillögu að fyrirkomulagi lóðarinnar og aðkomu fyrir tvíbýlishús og var efni minnisblaðsins tilgreint sem „fyrirspurn vegna breytingar á deiliskipulagi“ Samkvæmt deiliskipulagi Úlfarsárdals sem tók gildi 6. febrúar 2018 er umrædd lóð skráð sem einbýlishúsalóð og kom það fram í minnisblaðinu. Með tölvupósti 29. júní 2020 var kæranda tilkynnt að af hálfu byggingarfulltrúa hefði erindið verið framsent til skipulagsfulltrúa til afgreiðslu.

Fyrirspurnin var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. júlí 2020 og henni vísað til umsagnar verkefnastjóra. Fyrirspurnin ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst 2020, var lögð fram að nýju á fundi skipulagsfulltrúa sama dag. Í umsögninni kom m.a. fram að þegar deiliskipulag Úlfarsárdals hefði farið í gegnum heildarendurskoðun hafi m.a. verið skoðuð samsetning húsagerða og hvar þyrfti að breyta fjölda íbúða. Niðurstaðan hafi verið að Urðarbrunnur 16 yrði einbýlishúsalóð í skipulagslegu samhengi við aðrar einbýlishúsalóðir. Fjölda íbúða verði að skoða út frá samhengi við aðra þætti, t.d. stærð og lögun lóðar, byggðamynstur, innviði og lágmarkskröfum sem gerðar séu fyrir hvert fastanúmer. Umrædd lóð, byggðamynstur og innviði byði ekki upp á að fjölga fastanúmerum. Var og bókað á fundi skipulagsfulltrúa að neikvætt væri tekið í erindið með vísan til greindrar umsagnar og hefur sú afgreiðsla verið kærð.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með ákvörðun skipulagsfulltrúa hafi sveitarfélagið gerst brotlegt gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Margvísleg dæmi séu um að skipulagsfulltrúi hafi heimilað að breyta einbýlishúsalóðum í lóðir fyrir tvíbýli og eða fjölbýli í Gefjunar-, Iðunnar- og Urðarbrunni. Skipulagsfulltrúi tiltaki að Urðarbrunnur 16 verði áfram einbýlishúsalóð, en skömmu áður hafi hann samþykkt að einbýlishúsalóð Urðabrunnar 10-12 verði breytt í parhúsalóð. Röksemdum skipulagsfulltrúans um að lóðin nr. 16, byggðamynstur og innviðir bjóði ekki upp á breytingu sé því hafnað sem röngum.

Þegar markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 séu skoðuð sé ljóst að umrædd ákvörðun sé ekki í samræmi við yfirlýst markmið þess um stóraukna áherslu á þéttingu byggðar og blöndun byggðarmynsturs. Þessi takmörkun og órökstudda kvöð sem sett sé á lóð nr. 16 að Urðarbrunni samræmist illa framangreindum markmiðum og megi leiða að því líkum að takmörkunin byggist á ómálefnanlegum sjónarmiðum og gangi lengra en nauðsyn krefji.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki hafi verið tekin nein lokaákvörðun í málinu, en kært sé svar við fyrirspurn kæranda til skipulagsfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verði ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli geti ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgi. Sé því ljóst að svar skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar feli ekki í sér lokaákvörðun og beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er í máli þessu deilt um neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á erindi kæranda þar sem á eyðublaði vegna fyrirspurna til byggingarfulltrúa er „sótt um leyfi til að byggja tvíbýlishús“ á lóðinni Urðarbrunni 16. Eyðublaðinu fylgdi minnisblað og efni þess tilgreint sem fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi. Erindi kæranda var því sett fram sem fyrirspurn þótt orðalagið benti til þess að öðrum þræði væri sótt um leyfi. Afgreiðsla skipulagsfulltrúa og umsögn hans bera þess einnig öll merki að um afgreiðslu á fyrirspurn væri að ræða.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Neikvæð afgreiðsla skipulagsfulltrúa á fyrirspurn kæranda fól því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það athugist að minnisblað það sem fylgdi erindi kæranda bar með sér að fyrirspurnin lyti að breytingu deiliskipulags. Í ljósi þess að skýrt kom fram að um fyrirspurn væri að ræða verður ekki gerð athugasemd við að erindinu hafi ekki verið beint í farveg deiliskipulagsbreytingar en verði af hálfu kæranda sótt um slíka breytingu er ákvörðun um samþykkt hennar eða synjun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd.

82/2020 Þerneyjarsund

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 13. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 82/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. september 2020 um að fjarlægja skuli allt rusl og aðra lausafjármuni af lóðinni Þerneyjarsund 23 og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þerneyjarsunds 23, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. september 2020 að fjarlægja skuli allt rusl og aðra lausafjármuni af lóðinni Þerneyjarsund 23 og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 9. október 2020.

Málsatvik og rök: Með bréfi til kæranda, dags. 8. september 2020, fór byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps fram á að tekið yrði til á lóð kæranda, Þerneyjarsundi 23, og að allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Var einnig farið fram á að komið verði í veg fyrir frekari mengun og þá hættu sem til staðar sé vegna þeirra bygginga sem séu á lóðinni. Var bent á að umrædd lóð væri skipulögð sem sumarhúsalóð en ekki geymslusvæði fyrir lausafjármuni og rusl.

Kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi í framhaldinu beita þeim aðgerðum sem tilgreindar væru í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ.e. dagsektum sem geti numið allt að kr. 500.000.

Af hálfu kæranda kemur fram að verið sé að laga sumarbústaðinn á umræddri lóð. Bent sé á að bústaðurinn sé á lokaðri lóð með læstu hliði og almenningi sé ekki ætlað að fara þar inn eða um lóðina. Byggingarfulltrúi hafi farið inn á lóðina í leyfisleyfi og ekki haft samband við kæranda eða beðið útskýringa á því hvað væri um að ræða.

Vegna framkvæmda sé byggingarefni við bústaðinn sem notað sé eftir þörfum og einnig hafi nokkuð af lausamunum verið settir út úr húsinu vegna framkvæmdanna. Eðli málsins samkvæmt sé fyrst og fremst unnið að sumri til við bústaðinn.

Af hálfu hreppsyfirvalda er bent á að Þerneyjarsund 23 sé í skipulagðri frístundabyggð Hraunborga í Grímsnes- og Grafningshreppi. Sent hafi verið bréf til kæranda, dags. 8. september 2020 þar sem farið hafi verið fram á að hann myndi taka til á lóðinni og að allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Byggingarfulltrúi hafi farið aftur í skoðun að Þerneyjarsundi 23 hinn 9. október 2020. Við skoðun hafi komið í ljós að eigandi lóðarinnar hafi ekki brugðist við nefndu bréfi frá 8. september 2020. Enn sé mikið magn byggingaúrgangi, rusli og öðrum lausafjármunum á lóðinni. Þá sé bent á hrunhættu bygginga og mengun frá plasti og öðrum úrgangi sem liggi út um alla lóð.

Í viðbótarathugasemdum tekur kærandi fram að hann muni fjarlægja eigur sínar úr bústað sínum næsta vor og sumar og selja bústaðinn í framhaldi af því. Fari hann fram á frest til þess.

Niðurstaða: Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunarúrræðum til þess að knýja aðila til athafna. Markmiðið að baki þeim þvingunarúrræðum er að ásigkomulag, frágangur, umhverfi og viðhald mannvirkja og lóða sé þannig að ekki stafi hætta af því eða teljist skaðlegt. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að beita allt að 500.000 króna dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga, m.a. til að knýja fram úrbætur.

Sú afgreiðsla byggingarfulltrúa sem sætir kæru var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. september 2020. Kom þar fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir af lóðinni og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt mætti kærandi búast við því að lagðar yrðu á dagsektir sem gætu numið allt að kr. 500.000 þar til tilmælum byggingarfulltrúa væri sinnt. Efni bréfs byggingarfulltrúa fól einungis í sér tilmæli til kæranda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Greint bréf ber með sér að vera liður í meðferð máls sem eftir atvikum getur lokið með ákvörðun um dagsektir, en bréfinu hefur ekki verið fylgt eftir með slíkri ákvörðun þar sem þyrfti m.a. að tilgreina fjárhæð dagsekta frá tiltekinni dagsetningu að virtum andmælarétti kærenda. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Verði tekin ákvörðun um dagsektir í kjölfar þessa úrskurðar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

58/2020 Lerkigerði

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 8. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 58/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 28. apríl 2020 um fjarlægja skuli stöðuhýsi af lóðinni Lerkigerði 2 í Mýrarkotslandi og að gerð skuli grein fyrir öðru húsi á lóðinni eða það fjarlægt einnig.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. júlí 2020, kæra eigendur Lerkigerðis 2, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 28. apríl 2020 að fjarlægja skuli stöðuhýsi af lóðinni Lerkigerði 2 í Mýrarkotslandi og að gerð skuli grein fyrir öðru húsi á lóðinni eða það fjarlægt. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að veitt verði stöðuleyfi fyrir stöðuhýsinu til eins árs hið minnsta.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 16. júlí 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. júní 2016 var fjallað um umsókn kærenda um stöðuleyfi á lóðinni Lerkigerði 2 í Mýrarkotslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Umsóknin, er laut að stöðuleyfi fyrir tímabundu sumarhúsi var samþykkt og gilti leyfið til 1. júní 2017.

Hinn 28. apríl 2020 fór fram vettvangsskoðun af hálfu byggingarfulltrúa á lóð kærenda og kom í ljós að á lóðinni var enn 42 m2 sumarhús, en ekki hafði verið sótt um nýtt stöðuleyfi þegar það rann út 1. júní 2017. Þá var annað hús á lóðinni sem ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir. Var það mat byggingarfulltrúa að bæði húsin væru óleyfisframkvæmdir. Í kjölfarið sendi byggingarfulltrúi bréf til kærenda, dags. 28. apríl 2020, og fór fram á að stöðuhýsið, sem áður hefði verið veitt stöðuleyfi vegna, yrði fjarlægt og að gerð yrði grein fyrir hinu húsinu eða það einnig fjarlægt. Í bréfinu kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi ráðstafanir fyrir 30. maí 2020 mættu kærendur búast við því að lagðar yrðu á dagsektir, sbr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Með umsókn, dags. 12. maí 2020, sóttu kærendur um stöðuleyfi fyrir sumarhúsinu að nýju. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. júní s.á. var umsókninni synjað og var bókað að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir sumarhúsum og skuli þau uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Kærendur óskuðu þá eftir fresti til þess að fjarlægja sumarhúsið af lóð sinni sem þeir og fengu til 10. september 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda kemur fram að haustið 1998 hafi þau keypt sumarhúsið að Lerkigerði 2, Mýrarkotslandi. Í júní árið 2000 hafi húsið skemmst í jarðskjálfta. Þá hafi það verið endurgert að hluta og sendar inn teikningar af nýrri útgáfu á útliti þess. Árið 2016 hafi sumarhúsið orðið fyrir vatnstjóni og allt verið rifið út nema útveggir. Á meðan á endurbótum hafi staðið hafi kærendur keypt sér stöðuhýsi frá Englandi og sett upp með stöðuleyfi. Uppbygging hafi dregist á langinn en í október 2019 hafi sumarhúsið loksins verið tilbúið. Hinn 22. desember 2019 hafi það hins vegar brunnið til kaldra kola. Eftir brunann standi stöðuhýsið ennþá, tengt við rotþró, vatn og rafmagn. Ljóst sé þó að aðstæður séu ekki þær sömu og þær hafi verið, þ.e. fyrir brunann í desember, enda hafi staðið til að selja stöðuhýsið í ár.

Kærendur hafi verið í samskiptum við byggingarfulltrúa og hafi þeim verið veittur frestur til september 2020 til að fjarlægja stöðuhýsið. Sjái þeir ekki fram á að geta fjarlægt það innan frests með tilliti til þess að þeir standi enn í deilum við tryggingarfélag sitt vegna tjóns og sjái þar af leiðandi ekki fram á að hefja mögulega uppbyggingu á nýju sumarhúsi fyrr en sú deila sé leyst. Vegna greindra atriða vilji kærendur að afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 28. apríl 2020 verði endurskoðuð í ljósi aðstæðna, enda hafi hvorki tími né fjárhagur gefist til að meta stöðu kærenda varðandi landareignina um hvað sé best að gera í framhaldinu. Svo megi benda á að aðstæður í þjóðfélaginu hafi verið þess eðlis í vetur að lítið sem ekkert hafi verið hægt að gera vegna þess heimsfaraldurs sem geysi.

Óski kærendur þess að þeim verði veitt stöðuleyfi fyrir stöðuhýsinu til eins árs hið minnsta, svo hægt sé að skoða og meta hvað sé best að gera með tilliti til núverandi aðstæðna.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu hreppsyfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda vaðr kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin 28. apríl 2020 og vísi kærendur til þeirrar dagsetningar í kæru sinni. Kæran hafi hins vegar ekki borist nefndinni fyrr en 9. júlí 2020 eða um tveimur og hálfum mánuði síðar. Kærufrestur hafi því verið liðinn er kærendur hafi skotið máli sínu til nefndarinnar.

Verði ekki fallist á kröfu um frávísun byggi hreppsyfirvöld á því að samkvæmt gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé að finna heimild fyrir leyfisveitanda til að fjarlægja lausafjármuni. Þar segi orðrétt: „Þegar lausafjármunir sem getið er um í 2.6.1. gr. eru staðsettir án stöðuleyfis skal leyfisveitandi krefja eiganda um að fjarlægja þá innan eðlilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar, að öðrum kosti verði það gert á kostnað eiganda.“ Einnig segi: „Þegar handhafi stöðuleyfis uppfyllir ekki þær kröfur sem fram koma í 2.6.1. gr. eða önnur skilyrði stöðuleyfis skal leyfisveitandi krefja hann um úrbætur innan hæfilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar. Verði viðkomandi ekki við þeim kröfum skal leyfisveitandi krefjast þess að lausafjármunirnir verði fjarlægðir innan hæfilegs frests, að öðrum kosti verði það gert á kostnað handhafa stöðuleyfis.“

Samkvæmt framangreindu hafi byggingarfulltrúi verið til þess bær að gera þá kröfu að stöðuhýsi kærenda yrði fjarlægt, enda hafi áður veitt leyfi verið útrunnið. Beri því að hafna kröfum kærenda. Í niðurlagi kærunnar segi kærendur að þau óski þess að þeim verði veitt stöðuleyfi til eins árs. Hins vegar liggi fyrir að umsókn kærenda um stöðuleyfi fyrir sumarhús á lóðinni hafi verið synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. júní 2020. Sú ákvörðun hafi ekki verið kærð til nefndarinnar. Þá sé það ekki hlutverk úrskurðarnefndar að veita stöðuleyfi og verði því að vísa þeirri ósk kærenda frá.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til beiðni kærenda um að þeim verði veitt stöðuleyfi og verður ekki heldur tekið á synjun byggingarfulltrúa á umsókn kærenda um slíkt leyfi, enda er sú synjun ekki kærð.

Sú afgreiðsla byggingarfulltrúa sem sætir kæru var kynnt kærendum með bréfi, dags. 28. apríl 2020. Kom þar fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að umdeilt stöðuhýsi yrði fjarlægt og gerð yrði grein fyrir öðru húsi á lóðinni fyrir 30. maí s.á. mættu kærendur búast við því að lagðar yrðu á dagsektir þar til tilmælum byggingarfulltrúa væri sinnt. Gögn málsins bera með sér að kærendur hafi beiðst og fengið frest í því skyni að fara að tilmælunum, a.m.k. hvað stöðuhýsið varðaði, en þegar þeim varð ljóst að áætlanir þeirra gengju ekki eftir lögðu þeir fram kæru 9. júlí 2020, eftir að eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar var liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Það þykir þó afsakanlegt í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki var leiðbeint um kærufrest í greindu bréfi þótt þar væri getið kæruheimildar. Kærufrestur til nefndarinnar er styttri en almennt er að stjórnsýslulögum og var því rík ástæða til slíkra leiðbeininga. Verður máli þessu því ekki vísað frá af þeim sökum að kæra hafi borist of seint. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að efni bréfs byggingarfulltrúa fól einungis í sér tilmæli til kærenda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Greint bréf ber með sér að vera liður í meðferð máls sem eftir atvikum getur lokið með ákvörðun um dagsektir, en bréfinu hefur ekki verið fylgt eftir með slíkri ákvörðun þar sem þyrfti m.a. að tilgreina fjárhæð dagsekta frá tiltekinni dagsetningu að virtum andmælarétti kærenda. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Verði tekin ákvörðun um dagsektir í kjölfar þessa úrskurðar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

87/2020 Akrahverfi

Með

 

Árið 2020, föstudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 87/2020, kæra á samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. september 2020 á tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Byggakri 22, Garðabæ, og eigendur, Byggakri 20, samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. september 2020 á tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 24. september 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 10. september 2020 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur. Í bókun nefndarinnar kom fram að tillagan gerði ráð fyrir því að flatarmál neðri hæðar hússins, þ.e. kjallara, yrði stærri en 70% að flatarmáli aðalhæðar. Innréttað hafi verið herbergi í djúpum kjallara með gólfsíðum gluggum og svæði á lóð í sömu hæð. Áður hafi verið veitt leyfi fyrir kjallararýminu sem tæknirými án glugga. Hafi sú tillaga verið samþykkt sem frávik frá deiliskipulagi. Gluggar á umræddu rými breyti þeim forsendum. Mat nefndin tillöguna sem svo að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og vísaði henni til grenndarkynningar. Á fundi bæjarráðs 15. september 2020 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna umræddar deiliskipulagsbreytingar. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 17. s.m.

Kærendur benda á að ekki sé um óverulega breytingu á deiliskipulagi að ræða og því verði að fara með framkomna breytingu eftir 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga en ekki undantekningarákvæði 2. mgr. 43. gr. Breytingin feli í sér stefnumarkandi ákvörðun fyrir Akrahverfi. Kærendur geti staðið frammi fyrir orðnum hlut ef ekki verði tekin afstaða til lögmætis málsmeðferðarinnar áður en grenndarkynningu deiliskipulagsbreytingarinnar verði lokið og hún eftir atvikum staðfest.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar frá 17. september 2020, um að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um að fram fari grenndarkynning vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarneslands – Akrar vegna lóðarinnar nr. 9 við Frjóakur, er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur liður í málsmeðferð deiliskipulagsbreytingar. Ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður henni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagsbreytingin og öll málsmeðferð hennar, þ. á m. hvort farið er með er með hana sem óverulega eða verulega breytingu á deiliskipulagi, lögmætisathugun nefndarinnar.

Þar sem ekki liggur fyrir lokaákvörðun í máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

67/2020 Fjósatunga

Með

Árið 2020, föstudaginn 28. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur spildunnar Grjótárgerðis, Þingeyjarsveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 25. júní 2020 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu. Er þess m.a. krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Þingeyjarsveit 21. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Á árinu 2019 var óskað heimildar til að fara að 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hefja vinnu við deiliskipulag fyrir hluta jarðarinnar Fjósatungu í Fnjóskadal vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar frístundabyggðar. Skipulagslýsing var auglýst og í kjölfar athugasemda og umsagna var unnin deiliskipulagstillaga. Hinn 26. mars 2020 samþykkti sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu vegna uppbyggingar frístundabyggðar. Tillagan var auglýst og frestur gefinn til athugasemda til 20. maí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Þingeyjarsveitar 18. júní 2020 var lagt til við sveitarstjórn að hún samþykkti fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi Fjósatungu með áorðnum breytingum í samræmi við svör nefndarinnar við innsendum athugasendum. Jafnframt lagði nefndin til að skipulagsfulltrúa yrði falið að sjá um málsmeðferð vegna gildistöku tillögunnar í samræmi við lög og reglugerðir. Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 25. júní 2020 var tekin fyrir fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar frá 18 s.m. Samþykkti sveitarstjórn tillögu að nýju deiliskipulagi Fjósatungu að teknu tilliti til athugasemda/umsagna og svara nefndarinnar. Var og bókað að skipulagsfulltrúa væri falin málsmeðferð vegna gildistöku deiliskipulagsins.

Kærendur vísa m.a. til þess að deiliskipulagstillagan lúti að landnýtingu jarðarinnar Fjósatungu, Þingeyjarsveit sem liggi að og umlyki spildu kærenda, Grjótárgerði. Breytt deiliskipulag hafi bein og mikil áhrif á nýtingu þeirrar frístundalóðar vegna gríðarlegs þéttleika og byggingarmagns sem hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir.

Af hálfu Þingeyjarsveitar er krafist frávísunar. Umþrætt deiliskipulag hafi ekki tekið gildi og gildistaka þess ekki auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Málsmeðferð deiliskipulags samkvæmt ákvæði 42. gr. skipulagslaga standi nú yfir. Þar sé gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun taki deiliskipulag til athugunar og fari yfir það hvort efnis- eða formannmarkar séu á samþykktu deiliskipulagi. Nú séu ekki lögvarðir hagsmunir kærenda til kærumálsmeðferðar enda ríki óvissa um gildistöku ákvörðunar og endanlegt efni hennar. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Auglýsing hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulags Fjósatungu en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Jafnframt liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur ekki lokið yfirferð sinni á deiliskipulaginu, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar um, og hefur af hálfu Þingeyjarsveitar verið vísað til þess að ekki liggi fyrir hver afgreiðsla stofnunarinnar verði á hinu umdeilda deiliskipulagi. Þar sem óvissa ríkir um afdrif deiliskipulagsins og lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar eru ekki uppfyllt, verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Árétta skal að ljúki meðferð deiliskipulagsins með gildistöku þess með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda telst mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar frá þeirri birtingu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2020 Kirkjubraut

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 19/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erinda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Skólabraut 6, Seltjarnarnesi, þá „háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að gera ekki neitt skv. bréfi dags. 30. janúar 2020“. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærður sé dráttur á afgreiðslu erinda kæranda vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 16. apríl og 18. ágúst 2020.

Málsatvik og rök: Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur beint erindum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnessbæjar frá ágúst 2017 vegna skúrs á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut sem kærandi er ósáttur við. Í kjölfar nokkurra samskipta stöðvaði byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar framkvæmdir við byggingu umdeilds skúrs með erindi, dags. 23. júlí 2018, þar sem vísað var til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Voru framkvæmdir stöðvaðar þar til borist hefðu fullnægjandi svör við nánar tilgreindum spurningum byggingarfulltrúa, m.a. hvort eigandi skúrsins teldi framkvæmdina falla undir minniháttar framkvæmd samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Skýringar bárust með bréfi, dags. 1. ágúst s.á., og áttu frekari samskipti sér stað eftir það.

Með umsókn, dags. 22. nóvember 2019, sótti eigandi íbúðar að Kirkjubraut 7 um byggingarleyfi fyrir geymsluskúr á lóðinni. Í umsókninni var vísað til þess að skúrinn stæði á milli tveggja steyptra bílgeymsla annars vegar á Kirkjubraut 7 og hins vegar á Skólabraut 8 og að byggingarfulltrúa hefðu borist undirskriftir frá aðilum um samþykki fyrir skúrnum. Hinn 15. janúar 2020 var erindi Kirkjubrautar 7 tekið til umræðu á fundi skipulags- og umferðarnefndar. Bókaði nefndin að fela byggingarfulltrúa að kynna fyrirliggjandi gögn fyrir lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Kærandi leitaði upplýsinga frá bæjaryfirvöldum með tölvupósti 3. febrúar s.á. og benti að staðfest hefði verið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Fékk kærandi sent afrit af áðurgreindri afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar og barst kæra úrskurðarnefndinni 28. febrúar 2020, svo sem áður segir.

Meðferð málsins var fram haldið og með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Kirkjubrautar 7, dags. 15. apríl 2020, var upplýst að ljóst væri að bygging skúrsins félli undir ákvæði g-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar um að vera smáhýsi sem ekki þyrfti byggingarleyfi að öðru leyti en því að ekki lægi fyrir samþykki lóðarhafa á lóðinni nr. 6 við Skólabraut en skúrinn stæði nær þeim lóðarmörkum en þrír metrar. Þar sem skilyrði ákvæðisins væru ekki uppfyllt og ekki hefði verið sótt um byggingarleyfi fyrir skúrnum væri ljóst að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Var lóðarhafa gefinn frestur til að sækja um byggingarleyfi en ella fjarlægja skúrinn innan 21 dags frá móttöku bréfsins.

Kærandi vísar til þess að mál skúrsins á lóðinni nr. 7 við Kirkjubraut hafi nokkrum sinnum verið tekið fyrir í skipulags- og umferðarnefnd. Kærandi sé einn eigandi að nærliggjandi lóð og hafi aldrei skrifað undir eða samþykkt eitt né neitt. Sé kærð sú háttsemi skipulags- og umferðarnefndar á Seltjarnarnesi að aðhafast ekki samkvæmt bréfi, dags. 30. janúar 2020. Skúrinn sé óleyfisframkvæmd og standi enn þá og hafi ekkert farið. Ekki sé að sjá að hann sé á förum.

Af hálfu Seltjarnarnessbæjar er vísað til þess að það bærinn hafi ekki talið sér fært að fallast á að framkvæmdin félli undir undanþágu gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 þar sem samþykki kæranda hafi ekki legið fyrir í málinu, sbr. skilyrði 5. tölul. g-liðar ákvæðisins. Í þessu sambandi sé þó bent á að lóðirnar snertist ekki nema horn í horn auk þess sem skúr standi á lóðinni nr. 6 við Skólabraut.

Sveitarfélagið hafi ekki talið annað fært en að gefa eiganda skúrsins kost á að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni enda hafi fjarlægðarreglan ekki átt við í því tilviki sem sótt sé um byggingarleyfi. Nokkur dráttur hafi orðið á málinu en það hafi stafað af því að sveitarfélagið hafi leitast við að ná sáttum í málinu á milli nágranna en hafi ekki haft erindi sem erfiði í þeirri viðleitni sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt því sem rakið hefur verið í málavaxtalýsingu er uppi ágreiningur um byggingu skúrs á lóðinni að Kirkjubraut 7 og hefur kærandi ítrekað beint athugasemdum til bæjaryfirvalda Seltjarnarnesbæjar vegna framkvæmdarinnar. Af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið slegið föstu að skúrinn sé byggingarleyfisskyldur og var framkvæmdaraðila gefinn kostur á að sækja um slíkt leyfi eða fjarlægja skúrinn ella, en til þess stendur vilji kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, svo sem viðurkennt hefur verið af hálfu sveitarfélagsins. Meðferð málsins var þó fram haldið eftir af kæra barst og hefur úrskurðarnefndin aflað þeirra upplýsinga frá bæjaryfirvöldum að málið sé í vinnslu og standi til á næstu dögum að beita þvingunarúrræðum til að umdeildur skúr verði fjarlægður. Benda þessar upplýsingar til þess að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar. Þá er rétt að benda á að breytist afstaða sveitarfélagsins á þann veg að byggingarfulltrúi samþykki byggingaráform fyrir umræddan skúr er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

56/2020 Esjumelar

Með

Árið 2020, föstudaginn 14. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 56/2020, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Mosfellsbær þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. apríl 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. júlí 2020.

Málavextir: Hinn 11. desember 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Í breytingunni fólst að heimilt væri að starfrækja malbikunarstöð á lóðinni. Borgar-ráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 9. janúar 2020 og var hún auglýst til kynningar með fresti til athugasemda frá 20. s.m. til 2. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og var afstaða tekin til þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. mars 2020. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 1. apríl s.á. sem sam-þykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 2. s.m. Með erindi, dags. 24. apríl 2020, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulagsbreytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 22. maí s.á, tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemd við birtingu aug-lýsingar um samþykkt deiliskipulagsins og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að deiliskipulagsbreytingin vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu feli í sér að verið sé að breyta stórum hluta „athafnasvæðisins“ á Esjumelum í „iðnaðarsvæði“ í skilningi skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Slík breyting samræmist ekki gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Óheimilt sé að breyta landnotkun sem ákveðið hafi verið í aðalskipulagi með deiliskipulagsbreytingu. Óumdeilt sé að umrætt svæði á Esju-melum sé skilgreint sem „athafnasvæði (AT)“ í aðalskipulagi. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér að verið sé að heimila starfsemi sem geti haft mengun í för með sér. Í breytingunni felist þ.a.l. rýmkun á landnotkun sem samræmist ekki aðalskipulagi. Hafi breytingin vegna framan-greindra lóða ekki verið kynnt kæranda. Slíkt brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annars vegar sé skýrt kveðið á um að athafnasvæðið á Esjumelum sé ekki ætlað undir iðnaðarstarfsemi en hins vegar sé að finna vissar heimildir fyrir slíkri starfsemi. Í ljósi framangreinds verði því að túlka aðalskipulagið á þann veg að iðnaðarstarfsemi verði eingöngu heimiluð í algjörum undantekningartilvikum.

Umrætt svæði á Esjumelum sé nálægt sveitarfélagamörkum kæranda og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins. Aðeins sé um einn km milli nýrrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Starfsemin hafi einnig í för með sé neikvæð sjónræn áhrif auk neikvæðra umhverfis-áhrifa sem gætu skert gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Kærandi telur sig eiga lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þótt hin kærða ákvörðun beinist ekki sérstaklega að kæranda varði hún hagsmuni hans og réttindi umfram aðra. Lagaleg skylda hvíli á borgaryfirvöldum að haga skipulagsáætlunum sínum til samræmis við skipulagsáætlanir kæranda. Skipulagslöggjöfin geri beinlínis ráð fyrir því að hagsmunir aðliggjandi sveitarfélaga fari saman við uppbyggingu á svæðum á sveitarfélagamörkum.

Esjumelar séu m.a. í nágrenni við íbúðarbyggð og svæði á náttúruminjaskrá sem séu innan sveitarfélagamarka kæranda. Kærandi hafi því augljósra hagsmuna af því að gæta að uppbyggingu á iðnaðarsvæðum á Esjumelum enda sé fyrirséð að slík landnotkun í næsta nágrenni muni hafa veruleg takmarkandi áhrif á athafnir kæranda og skipulagsáætlanir til frambúðar. Mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá slíku iðnaðarsvæði kunni að takmarka möguleika á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum. Þá séu ótalin þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi rétt utan við bæjardyr.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur að ljóst sé að eftir breytingu á Aðal-skipulagi Reykjavíkur 2010-2030, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 20. júní 2019 og staðfest af Skipulagsstofnun 2. september s.á. og hafi m.a. tekið til atvinnusvæðisins á Esju-melum, sé heimilt að vera með iðnaðarstarfsemi á lóðinni nr. 6-8 við Koparsléttu enda sé starfsemin tilgreind sérstaklega í deiliskipulagi og háð sérstöku mati á umhverfisáhrifum viðkomandi starfsemi. Í þeirri ákvörðun hafi m.a. verið lagt mat á það hvort forsvaranlegt væri að viðkomandi svæði, sem áður hafi verið ætlað að taka við þrifalegri iðnaðarstarfsemi, taki við grófari starfsemi.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að hvaða marki hann telji að aðalskipulagið samræmist ekki skipulagsáætlunum sveitarfélags kæranda. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi sérstakrar lýsingar ekki verið þörf enda hafi allar meginforsendur legið fyrir í aðalskipulaginu. Ekki sé heldur fallist á að verið sé að skilgreina landnotkun rýmra í deiliskipulaginu en aðalskipulagið geri ráð fyrir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulags og ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags innan marka sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna. Taki deiliskipulagstillaga til svæðis sem liggur að mörkum aðliggjandi sveitarfélags skal tillagan kynnt sveitarstjórn þess sveitarfélags skv. 41. gr. skipulagslaga. Að öðru leyti gera lögin ekki ráð fyrir aðkomu nágrannasveitarfélaga við deili-skipulagsgerð annars sveitarfélags. Samráð nágrannasveitarfélaga um sameiginleg hagsmuna-mál á vettvangi skipulagsmála fer fram við gerð svæðisskipulags.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Um lögvarða hagsmuni af úrlausn kæru-máls þessa hefur kærandi vísað í kæru sinni m.a. til þess að umþrætt svæði sé nálægt sveitarfélagamörkum og í næsta nágrenni við stóra íbúðabyggð bæjarins en aðeins sé um einn km á milli fyrirhugaðrar malbikunarstöðvar og þéttrar byggðar. Þá hafi starfsemin í för með sér neikvæð sjónræn áhrif ásamt neikvæðum umhverfisáhrifum, sem geti m.a. skert gæði útivistar á nærliggjandi svæðum sem margir höfuðborgarbúar nýti sér. Verður að telja að framangreind málsrök lúti fyrst og fremst að gæslu hagsmuna sem ekki teljist til einstaklingsbundinna hagsmuna kæranda. Getur kærandi því hvorki talist aðili að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né átt þá einstaklega lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með hljóðsjón af því sem að framan er rakið telst kærandi ekki eiga aðild að kærumáli þessu og verður því af þeirri ástæðu málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.