Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

82/2020 Þerneyjarsund

Árið 2020, þriðjudaginn 13. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 82/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. september 2020 um að fjarlægja skuli allt rusl og aðra lausafjármuni af lóðinni Þerneyjarsund 23 og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þerneyjarsunds 23, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. september 2020 að fjarlægja skuli allt rusl og aðra lausafjármuni af lóðinni Þerneyjarsund 23 og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 9. október 2020.

Málsatvik og rök: Með bréfi til kæranda, dags. 8. september 2020, fór byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps fram á að tekið yrði til á lóð kæranda, Þerneyjarsundi 23, og að allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Var einnig farið fram á að komið verði í veg fyrir frekari mengun og þá hættu sem til staðar sé vegna þeirra bygginga sem séu á lóðinni. Var bent á að umrædd lóð væri skipulögð sem sumarhúsalóð en ekki geymslusvæði fyrir lausafjármuni og rusl.

Kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi í framhaldinu beita þeim aðgerðum sem tilgreindar væru í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ.e. dagsektum sem geti numið allt að kr. 500.000.

Af hálfu kæranda kemur fram að verið sé að laga sumarbústaðinn á umræddri lóð. Bent sé á að bústaðurinn sé á lokaðri lóð með læstu hliði og almenningi sé ekki ætlað að fara þar inn eða um lóðina. Byggingarfulltrúi hafi farið inn á lóðina í leyfisleyfi og ekki haft samband við kæranda eða beðið útskýringa á því hvað væri um að ræða.

Vegna framkvæmda sé byggingarefni við bústaðinn sem notað sé eftir þörfum og einnig hafi nokkuð af lausamunum verið settir út úr húsinu vegna framkvæmdanna. Eðli málsins samkvæmt sé fyrst og fremst unnið að sumri til við bústaðinn.

Af hálfu hreppsyfirvalda er bent á að Þerneyjarsund 23 sé í skipulagðri frístundabyggð Hraunborga í Grímsnes- og Grafningshreppi. Sent hafi verið bréf til kæranda, dags. 8. september 2020 þar sem farið hafi verið fram á að hann myndi taka til á lóðinni og að allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Byggingarfulltrúi hafi farið aftur í skoðun að Þerneyjarsundi 23 hinn 9. október 2020. Við skoðun hafi komið í ljós að eigandi lóðarinnar hafi ekki brugðist við nefndu bréfi frá 8. september 2020. Enn sé mikið magn byggingaúrgangi, rusli og öðrum lausafjármunum á lóðinni. Þá sé bent á hrunhættu bygginga og mengun frá plasti og öðrum úrgangi sem liggi út um alla lóð.

Í viðbótarathugasemdum tekur kærandi fram að hann muni fjarlægja eigur sínar úr bústað sínum næsta vor og sumar og selja bústaðinn í framhaldi af því. Fari hann fram á frest til þess.

Niðurstaða: Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunarúrræðum til þess að knýja aðila til athafna. Markmiðið að baki þeim þvingunarúrræðum er að ásigkomulag, frágangur, umhverfi og viðhald mannvirkja og lóða sé þannig að ekki stafi hætta af því eða teljist skaðlegt. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að beita allt að 500.000 króna dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga, m.a. til að knýja fram úrbætur.

Sú afgreiðsla byggingarfulltrúa sem sætir kæru var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. september 2020. Kom þar fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir af lóðinni og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt mætti kærandi búast við því að lagðar yrðu á dagsektir sem gætu numið allt að kr. 500.000 þar til tilmælum byggingarfulltrúa væri sinnt. Efni bréfs byggingarfulltrúa fól einungis í sér tilmæli til kæranda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Greint bréf ber með sér að vera liður í meðferð máls sem eftir atvikum getur lokið með ákvörðun um dagsektir, en bréfinu hefur ekki verið fylgt eftir með slíkri ákvörðun þar sem þyrfti m.a. að tilgreina fjárhæð dagsekta frá tiltekinni dagsetningu að virtum andmælarétti kærenda. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Verði tekin ákvörðun um dagsektir í kjölfar þessa úrskurðar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.