Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2020 Lerkigerði

Árið 2020, fimmtudaginn 8. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 58/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 28. apríl 2020 um fjarlægja skuli stöðuhýsi af lóðinni Lerkigerði 2 í Mýrarkotslandi og að gerð skuli grein fyrir öðru húsi á lóðinni eða það fjarlægt einnig.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. júlí 2020, kæra eigendur Lerkigerðis 2, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 28. apríl 2020 að fjarlægja skuli stöðuhýsi af lóðinni Lerkigerði 2 í Mýrarkotslandi og að gerð skuli grein fyrir öðru húsi á lóðinni eða það fjarlægt. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að veitt verði stöðuleyfi fyrir stöðuhýsinu til eins árs hið minnsta.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 16. júlí 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. júní 2016 var fjallað um umsókn kærenda um stöðuleyfi á lóðinni Lerkigerði 2 í Mýrarkotslandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Umsóknin, er laut að stöðuleyfi fyrir tímabundu sumarhúsi var samþykkt og gilti leyfið til 1. júní 2017.

Hinn 28. apríl 2020 fór fram vettvangsskoðun af hálfu byggingarfulltrúa á lóð kærenda og kom í ljós að á lóðinni var enn 42 m2 sumarhús, en ekki hafði verið sótt um nýtt stöðuleyfi þegar það rann út 1. júní 2017. Þá var annað hús á lóðinni sem ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir. Var það mat byggingarfulltrúa að bæði húsin væru óleyfisframkvæmdir. Í kjölfarið sendi byggingarfulltrúi bréf til kærenda, dags. 28. apríl 2020, og fór fram á að stöðuhýsið, sem áður hefði verið veitt stöðuleyfi vegna, yrði fjarlægt og að gerð yrði grein fyrir hinu húsinu eða það einnig fjarlægt. Í bréfinu kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi ráðstafanir fyrir 30. maí 2020 mættu kærendur búast við því að lagðar yrðu á dagsektir, sbr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Með umsókn, dags. 12. maí 2020, sóttu kærendur um stöðuleyfi fyrir sumarhúsinu að nýju. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. júní s.á. var umsókninni synjað og var bókað að sækja skuli um byggingarleyfi fyrir sumarhúsum og skuli þau uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Kærendur óskuðu þá eftir fresti til þess að fjarlægja sumarhúsið af lóð sinni sem þeir og fengu til 10. september 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda kemur fram að haustið 1998 hafi þau keypt sumarhúsið að Lerkigerði 2, Mýrarkotslandi. Í júní árið 2000 hafi húsið skemmst í jarðskjálfta. Þá hafi það verið endurgert að hluta og sendar inn teikningar af nýrri útgáfu á útliti þess. Árið 2016 hafi sumarhúsið orðið fyrir vatnstjóni og allt verið rifið út nema útveggir. Á meðan á endurbótum hafi staðið hafi kærendur keypt sér stöðuhýsi frá Englandi og sett upp með stöðuleyfi. Uppbygging hafi dregist á langinn en í október 2019 hafi sumarhúsið loksins verið tilbúið. Hinn 22. desember 2019 hafi það hins vegar brunnið til kaldra kola. Eftir brunann standi stöðuhýsið ennþá, tengt við rotþró, vatn og rafmagn. Ljóst sé þó að aðstæður séu ekki þær sömu og þær hafi verið, þ.e. fyrir brunann í desember, enda hafi staðið til að selja stöðuhýsið í ár.

Kærendur hafi verið í samskiptum við byggingarfulltrúa og hafi þeim verið veittur frestur til september 2020 til að fjarlægja stöðuhýsið. Sjái þeir ekki fram á að geta fjarlægt það innan frests með tilliti til þess að þeir standi enn í deilum við tryggingarfélag sitt vegna tjóns og sjái þar af leiðandi ekki fram á að hefja mögulega uppbyggingu á nýju sumarhúsi fyrr en sú deila sé leyst. Vegna greindra atriða vilji kærendur að afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 28. apríl 2020 verði endurskoðuð í ljósi aðstæðna, enda hafi hvorki tími né fjárhagur gefist til að meta stöðu kærenda varðandi landareignina um hvað sé best að gera í framhaldinu. Svo megi benda á að aðstæður í þjóðfélaginu hafi verið þess eðlis í vetur að lítið sem ekkert hafi verið hægt að gera vegna þess heimsfaraldurs sem geysi.

Óski kærendur þess að þeim verði veitt stöðuleyfi fyrir stöðuhýsinu til eins árs hið minnsta, svo hægt sé að skoða og meta hvað sé best að gera með tilliti til núverandi aðstæðna.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu hreppsyfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda vaðr kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin 28. apríl 2020 og vísi kærendur til þeirrar dagsetningar í kæru sinni. Kæran hafi hins vegar ekki borist nefndinni fyrr en 9. júlí 2020 eða um tveimur og hálfum mánuði síðar. Kærufrestur hafi því verið liðinn er kærendur hafi skotið máli sínu til nefndarinnar.

Verði ekki fallist á kröfu um frávísun byggi hreppsyfirvöld á því að samkvæmt gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé að finna heimild fyrir leyfisveitanda til að fjarlægja lausafjármuni. Þar segi orðrétt: „Þegar lausafjármunir sem getið er um í 2.6.1. gr. eru staðsettir án stöðuleyfis skal leyfisveitandi krefja eiganda um að fjarlægja þá innan eðlilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar, að öðrum kosti verði það gert á kostnað eiganda.“ Einnig segi: „Þegar handhafi stöðuleyfis uppfyllir ekki þær kröfur sem fram koma í 2.6.1. gr. eða önnur skilyrði stöðuleyfis skal leyfisveitandi krefja hann um úrbætur innan hæfilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar. Verði viðkomandi ekki við þeim kröfum skal leyfisveitandi krefjast þess að lausafjármunirnir verði fjarlægðir innan hæfilegs frests, að öðrum kosti verði það gert á kostnað handhafa stöðuleyfis.“

Samkvæmt framangreindu hafi byggingarfulltrúi verið til þess bær að gera þá kröfu að stöðuhýsi kærenda yrði fjarlægt, enda hafi áður veitt leyfi verið útrunnið. Beri því að hafna kröfum kærenda. Í niðurlagi kærunnar segi kærendur að þau óski þess að þeim verði veitt stöðuleyfi til eins árs. Hins vegar liggi fyrir að umsókn kærenda um stöðuleyfi fyrir sumarhús á lóðinni hafi verið synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. júní 2020. Sú ákvörðun hafi ekki verið kærð til nefndarinnar. Þá sé það ekki hlutverk úrskurðarnefndar að veita stöðuleyfi og verði því að vísa þeirri ósk kærenda frá.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til beiðni kærenda um að þeim verði veitt stöðuleyfi og verður ekki heldur tekið á synjun byggingarfulltrúa á umsókn kærenda um slíkt leyfi, enda er sú synjun ekki kærð.

Sú afgreiðsla byggingarfulltrúa sem sætir kæru var kynnt kærendum með bréfi, dags. 28. apríl 2020. Kom þar fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að umdeilt stöðuhýsi yrði fjarlægt og gerð yrði grein fyrir öðru húsi á lóðinni fyrir 30. maí s.á. mættu kærendur búast við því að lagðar yrðu á dagsektir þar til tilmælum byggingarfulltrúa væri sinnt. Gögn málsins bera með sér að kærendur hafi beiðst og fengið frest í því skyni að fara að tilmælunum, a.m.k. hvað stöðuhýsið varðaði, en þegar þeim varð ljóst að áætlanir þeirra gengju ekki eftir lögðu þeir fram kæru 9. júlí 2020, eftir að eins mánaðar kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar var liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Það þykir þó afsakanlegt í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ekki var leiðbeint um kærufrest í greindu bréfi þótt þar væri getið kæruheimildar. Kærufrestur til nefndarinnar er styttri en almennt er að stjórnsýslulögum og var því rík ástæða til slíkra leiðbeininga. Verður máli þessu því ekki vísað frá af þeim sökum að kæra hafi borist of seint. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að efni bréfs byggingarfulltrúa fól einungis í sér tilmæli til kærenda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Greint bréf ber með sér að vera liður í meðferð máls sem eftir atvikum getur lokið með ákvörðun um dagsektir, en bréfinu hefur ekki verið fylgt eftir með slíkri ákvörðun þar sem þyrfti m.a. að tilgreina fjárhæð dagsekta frá tiltekinni dagsetningu að virtum andmælarétti kærenda. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Verði tekin ákvörðun um dagsektir í kjölfar þessa úrskurðar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.