Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

48/2003 Hafnarbraut

Með

Ár 2004, föstudaginn 5. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Bjarkarbraut 9, Dalvík, á ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. ágúst 2003, sem barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir Hákon Stefánsson hdl., f.h. S og I, Bjarkarbraut 9, Dalvík, þá ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar frá 7. maí 2003 að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr og viðbyggingu á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut, Dalvík.  Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar staðfesti ákvörðun umhverfisráðs hinn 13. maí 2003.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og umdeildar byggingarframkvæmdir fjarlægðar.

Málavextir:  Lóðin að Hafnarbraut 18 er 880 m² að stærð og á lóðinni stendur 165,3 fermetra einbýlishús úr timbri.  Fasteign kærenda að Bjarkarbraut 9 liggur skáhallt frá norðvesturhorni lóðarinnar að Hafnarbraut 18 og mun vera um 5 metra bil milli lóðamarka umræddra lóða.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.

Í febrúar 2003 var gerð fyrirspurn til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins um hvort heimilaðar yrðu byggingarframkvæmdir á lóðinni er fælust í að reisa 36,14 fermetra bílskúr og viðtengt 37,5 fermetra íbúðarrými auk 37,5 fermetra kjallararýmis eða samtals 111,14 fermetra.  Var umsækjanda tjáð að umsóknina þyrfti væntanlega að grenndarkynna en bent á að komast mætti hjá formlegri grenndarkynningu ef fyrir lægju yfirlýsingar nágranna um að þeir gerðu ekki athugasemdir við fyrirhugðar framkvæmdir.

Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar hinn 2. apríl 2003 þar sem lágu frammi teikningar af fyrirhugaðri byggingu, dags. 14. mars 2003, ásamt yfirlýsingu eigenda Bjarkarbrautar 11 og Hafnarbrautar 16 um að þeir gerðu ekki athugasemdir við hana.  Bókað var á fundinum að umhverfisráð gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 15. sama mánaðar.  Í kjölfar þess mun byggingarfulltrúi hafa heimilað framkvæmdir við gröft á lóðinni til undirbúnings byggingarframkvæmdum og þær þá þegar hafist.

Með bréfi, dags. 2. maí 2003, gerði lögmaður kærenda fyrirspurn til umhverfisráðs bæjarins í tilefni af framkvæmdunum og mun formaður umhverfisráðs hafa átt fund með öðrum kærenda vegna framkvæmdanna hinn 7. maí 2003, eða sama dag og umhverfisráð samþykkti umdeilt byggingarleyfi.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 13. maí 2003.  Lögmaður kærenda ítrekaði fyrirspurn sína frá 2. maí 2003 með tölvupósti, dags. 5. júní 2003, sem formaður umhverfisráðs svaraði með sama hætti hinn 6. júní það ár.  Í svarinu kom fram að álitið hafi verið að málið væri úr sögunni af hálfu kærenda og fyrrgreind fyrirspurn hafi því ekki verið tekin fyrir.  Jafnframt var lofað svari af hálfu bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda.  Kærandi ítrekaði enn fyrirspurn sína vegna framkvæmdanna með bréfi, dags. 25. júní 2003, og var erindi hans svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á.  Kærendur skutu síðan málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. ágúst 2003, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur kveðast hafa haft samband við bæjaryfirvöld er framkvæmdir hófust á lóðinni að Hafnarbraut 18, Dalvík og leitað skýringa bæjarins á þeim framkvæmdum.  Bréf hafi verið sent af því tilefni hinn 2. maí 2003 og aftur hinn 25. júní s.á. þar sem svör hefðu ekki borist.  Upplýsingar um umdeildar framkvæmdir hafi fyrst borist með bréfi hinn 27. júní 2003, sem þó hafi ekki haft að geyma fullnægjandi svör við erindi kærenda.  Í bréfinu hafi komið fram að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir umdeildum framkvæmdum að fengnu samþykki eigenda fasteignanna að Bjarkarbraut 11 og Hafnarbraut 16 en ekki hafi þótt ástæða til að kynna kærendum fyrirhugaða framkvæmd þar sem lóðirnar liggi ekki saman og að aðkoma að lóðunum sé úr gangstæðri átt.  Telja kærendur að sömu rök eigi við um lóðina að Bjarkarbraut 11. 

Kærendur geti ekki fallist á svör bæjaryfirvalda og ófullnægjandi útskýringar á umræddum byggingarframkvæmdum og telja að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við útgáfu byggingarleyfisins.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram svo sem lögskylt hafi verið skv. 7. mgr. 43. gr. laganna og komi samþykki tveggja nágranna ekki í hennar stað.  Kærendur eigi hagsmuna að gæta í málinu og nægi að benda á að umdeild framkvæmd skerði útsýni frá húsi þeirra.  Þrátt fyrir skort á fullnægjandi gögnum um aðra þætti leyfisveitingarinnar telji kærendur að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 fari yfir leyfileg mörk með veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og við útgáfu þess hafi ekki legið fyrir nauðsynleg gögn.  Bent sé á að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út og það látið afskiptalaust af byggingaryfirvöldum.

Af greindum ástæðum beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi og jafnframt beri að fjarlægja hina ólöglegu byggingu skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga.

Kærendur skírskota til þess að kærufrestur hafi ekki verið liðinn er kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Svarbréf bæjaryfirvalda við fyrirspurn lögmanns kærenda vegna byggingarleyfisins virðist að vísu hafa borist á starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003 en vegna fjarveru í feðraorlofi hafi honum ekki borist svarið fyrr en hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að miða upphaf kærufrests við þann dag, þegar kærendum varð fyrst kunnugt um hina umdeildu ákvörðun umhverfisráðs Dalvíkurbyggðar, en kærendum hafi ekki enn verið tilkynnt um afgreiðslu bæjarstjórnar á hinu kærða byggingarleyfi.

Málsrök Dalvíkurbyggðar:  Lögmaður bæjaryfirvalda gerir aðallega þá kröfu, fyrir hönd bæjarins, að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni sem of seint fram kominni með vísan til 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina, en ella að kröfu um ógildingu umdeilds byggingarleyfis og kröfu um niðurrif framkvæmda verði hafnað.

Með minnispunktum byggingarfulltrúa Dalvíkurbyggðar, dags. 14. október 2003, og tölvupóstssamskiptum formanns umhverfisráðs og lögmanns kærenda í maí og júní 2003 sé í ljós leitt að kærendur fengu upplýsingar um afgreiðslu umhverfisráðs á byggingarleyfisumsókninni hinn 8. maí 2003, eða daginn eftir að hún var samþykkt í ráðinu.  Í síðasta lagi hafi kærendum verið kunnugt um afgreiðslu erindisins við móttöku bréfs Dalvíkurbæjar til lögmanns kærenda, dags. 27. júní 2003.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefndina sé kærufrestur á veitingu byggingarleyfa 30 dagar frá því kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann hyggst kæra.  Kærubréfið til úrskurðarnefndarinnar sé dagsett 20. ágúst 2003, eða að loknum kærufresti, hvort heldur sem miðað sé við 8. maí eða 27. júní 2003.  Ekki sé byggjandi á staðhæfingu lögmanns kæranda, sem fram komi í niðurlagi kærubréfsins, þess efnis að hann hafi fyrst fengið vitneskju um efni þess hinn 18. ágúst 2003.  Beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Um efnishlið máls vísa bæjaryfirvöld til þess að kærendur hafi ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir ógildingar- og niðurrifskröfu sinni.  Samkvæmt fyrrgreindum minnispunktum byggingarfulltrúa hafi umsækjanda byggingarleyfisins verið gerð grein fyrir því í febrúar 2003 að hinar fyrirhuguðu byggingarframkvæmdir þyrfti trúlega að grenndarkynna og tæki það sinn tíma, en unnt væri að flýta afgreiðslu málsins ef samþykki nágranna lægi fyrr og gæti umhverfisráð litið svo á að slíkt samþykki væri ígildi grenndarkynningar.  Hafi umsækjanda og verið bent að það að umhverfisráð liti oftast þannig á að næstu nágrannar væru þeir sem ættu lóðir saman.

Í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sé heimilað að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lýst skriflega yfir því með áritun á uppdrátt að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd.  Með ákvæðinu sé því lögfest heimild til að afla skriflegra yfirlýsinga þeirra nágranna, sem hagsmuna eigi að gæta, um að þeir geri ekki athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Heimildin verði ekki skilin á annan veg en þann að slíkar yfirlýsingar séu ígildi grenndarkynningar, sem raunar sé ekki skilgreind í lögunum sérstaklega, svo sem gert sé við flest hugtök skipulags- og byggingarlaga í 2. grein laganna.

Samkvæmt þessum skilningi hafi farið fram lögboðin kynning á hinum fyrirhuguðu byggingarframkvæmdum.  Um það megi deila hvort kynningin hafi verið nægilega víðtæk, þ.e. hvort hún hafi tekið til allra þeirra, sem hagsmuna áttu að gæta í skilningi ákvæðisins.  Við mat á því sé óhjákvæmilegt að líta til viðhorfa umhverfisráðs og bæjarstjórnar í þeim efnum og ennfremur þeirrar staðreyndar, að engir húseigendur aðrir en kærendur á umræddum byggingarreit (Hafnarbraut 2-14 og Bjarkarbraut 1-9) hafi gert athugasemdir eða haft í frammi mótmæli við umræddri byggingu á lóðinni Hafnarbraut 18.

Staðhæfing kærenda um of hátt nýtingarhlutfall á umræddri lóð eigi ekki við rök að styðjast.  Leyfilegt nýtingarhlutfall lóðar skv. gildandi aðalskipulagi sé 0,35.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Hafnarbraut 18 eftir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis sé 0,314.

Ekki sé fallist á að ófullnægjandi gögn hafi búið að baki veitingu byggingarleyfisins.  Eins og áður hafi verið frá greint haf umhverfisráð talið að fullnægjandi grenndarkynning fyrir hagsmunaaðilum hafi átt sér stað áður en byggingarleyfi hafi verið veitt og vegna ummæla kærenda þess efnis að framkvæmdir hafi byrjað áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út sé rétt að taka fram að gröftur á lóð hafi verið heimilaður fyrir útgáfu leyfisins með stoð í 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar þann 15. apríl 2003.  Sé slíkt leyfi algengur framgangsmáti slíkra mála.

Að lokum sé vakin athygli á því að aðild að kröfugerð um niðurrif skv. VI. kafla skipulags- og byggingarlaga sé einvörðungu í höndum skipulags- og/eða byggingarfulltrúa viðkomandi bæjarfélags.  Hér sé um að ræða þvingunarúrræði sem byggingaryfirvöldum sé heimilt að beita með þeim skilyrðum að sýnt sé með óyggjandi hætti fram á að viðkomandi framkvæmd brjóti í bága við gildandi skipulag eða hún hafin eða framkvæmd án leyfis viðkomandi byggingaryfirvalda.  Eigi kærendur enga aðild að slíkri kröfu.

Niðurstaða:  Samkvæmt því sem fram er komið í málinu hófust framkvæmdir á lóðinni nr. 18 við Hafnarbraut á Dalvík í aprílmánuði 2003 og sendu kærendur af því tilefni bréf, dags. 2. maí það ár, til umhverfisráðs bæjarins með fyrirspurnum af því tilefni.  Fundur mun hafa verið haldinn af hálfu formanns umhverfisráðs með öðrum kærenda hinn 7. maí 2003 vegna málsins og endanlegt svar við fyrirspurnum lögmanns kærenda gefið í bréfi, dags. 27. júní s.á., er að sögn hans barst hinn 7. júlí.  Efni þess bréfs hafi ekki komist til vitundar hans fyrr en hinn 18. ágúst s.á.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að þeim, er telur rétti sínum hallað með þeirri ákvörðun, er kunnugt um hana.  Kærendur og lögmaður þeirra höfðu samskipti við bæjaryfirvöld vegna umdeildra framkvæmda frá maíbyrjun 2003 eða skömmu eftir að þær hófust og var fyrirspurnum kærenda um málsmeðferð og forsendur umdeilds byggingarleyfis svarað með bréfi, dags. 27. júní s.á., eins og áður greinir.  Af þessum málsatvikum verður ráðið að kærendum hlaut að hafa verið ljós veiting hins umdeilda byggingarleyfis skömmu eftir að framkvæmdir hófust og í öllu falli í kjölfar svarbréfs bæjaryfirvalda við fyrirspurnum lögmanns þeirra er barst starfsstöð hans hinn 7. júlí 2003.  Enda þótt innihald bréfsins hafi eigi komist til vitundar kærenda fyrr en nokkru seinna þykir hér verða að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða á fyrrgreindum móttökudegi bréfsins, sbr. meginreglu 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið barst kæra í máli þessu að liðnum kærufresti og ber því skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Ekki þykja þær ástæður vera fyrir hendi í máli þessu að tilefni sé til að víkja frá kærufresti skv. 1. og 2. tl. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

14/2003 Ásland

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2003, kæra eiganda byggingarlóðar að Áslandi 24 í Mosfellsbæ á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. mars 2003, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir I ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 18. desember 2002 um að breyta lóðinni að Áslandi nr. 22 úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð.

Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2003, sem barst nefndinni 16. sama mánaðar, áréttar kærandi að kæra hans hafi einnig átt að taka til byggingarleyfis fyrir húsi á lóðinni og að hann geri kröfu til að engar framkvæmdir fari fram á lóðinni Áslandi 22 meðan úrskurðarnefndin fjalli um kæruna.

Málavextir:   Hinn 8. október 2002 sótti eigandi lóðarinnar að Áslandi 22 í Mosfellsbæ um leyfi skipulags- og bygginganefndar Mosfellsbæjar til að byggja parhús á lóðinni.  Umrædd lóð er í íbúðarhverfi þar sem í gildi eru skipulags- og byggingarskilmálar frá maí 1982 sem gera ráð fyrir að á svæðinu rísi einbýlishús.  Þó er kveðið á um það í skilmálum að tvær íbúðir megi vera í húsum þar sem aðstæður leyfi.  Skipulags- og byggingarnefnd ákvað á fundi sínum sama dag að láta fara fram grenndarkynningu á erindinu, enda fólst í því að vikið yrði frá skipulagsskilmálum um húsgerð.  Grenndarkynning stóð yfir frá 15. október til 18. nóvember 2002.  Bárust athugasemdir frá tveimur aðilum, þar af önnur frá kæranda í máli þessu með símbréfi, dags. 18. nóvember 2002.  Taldi hann fyrirhugað hús m.a. ekki samræmast kröfum um húsgerð á svæðinu, skipting lóðar og fyrirkomulag húss væri í andstöðu við skipulagsskilmála, nýtingarhlutfall væri of hátt og húsið færi út fyrir byggingarreit.  Athugasemdum þessum var svarað en af málsgögnum verður jafnframt ráðið að nýtingarhlutfall hafi verið lækkað vegna athugasemda kæranda.  Málið var tekið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. desember 2002 og afstaða nefndarinnar til framkominna athugasemda færð til bókar.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að samþykkt yrði að breyta lóðinni úr einbýlishúsalóð í parhúsalóð „..í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.“  Tillögu þessa samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar á fundi sínum hinn 18. desember 2002 og er það sú samþykkt sem upphaflega var vísað  til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er rakið.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, var kæranda greint frá afstöðu skipulags- og byggingarnefndar til framkominna athugasemda og ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Var honum, í niðurlagi bréfsins, gerð grein fyrir því að ákvörðuninni væri hægt að skjóta til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Hinn 24. desember 2002 gaf byggingarfulltrúinn í Mosfellsbæ út byggingarleyfi fyrir umræddu parhúsi.  Var bókun byggingarfulltrúa um afgreiðslu málsins lögð fram í skipulags- og byggingarnefnd hinn 21. janúar 2003 og staðfest í bæjarstjórn 29. sama mánaðar.  Var kæranda tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi, dags. 4. febrúar 2003, og bent á að ákvörðunina mætti kæra til úrskurðarnefndarinnar innan eins mánaðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. mars 2003, sem barst hinn 7. sama mánaðar, kærði kærandi „…samþykki skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar að breyta lóðinni Ásland 22 úr einbýlishússlóð í parhússlóð, sem samþykkt var af bæjarstjórn 18. 12. 2002.“

Hinn 16. apríl 2003 barst úrskurðarnefndinni bréf kæranda, dags. 8. apríl 2003, þar sem hann áréttar að kæra hans frá 4. mars 2003 hafi einnig átt að taka til byggingarleyfisins og að gerð væri krafa til þess að engar framkvæmdir færu fram meðan úrskurðarnefndin fjallaði um kæruna.  Kveðst kærandi í bréfi þessu ekki hafa fengið bréf byggingarfulltrúa frá 19. desember 2002 fyrr en 13. janúar 2003 og að áður en hann hafi sent kæru sína hafi honum borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2003.  Hafi hann skilið það svo að kærufrestur hefði verið lengdur til 4. mars 2003.

Málsrök kæranda:  Málsrök kæranda koma einkum fram í athugasemdabréfi hans dags. 18. nóvember 2002.  Kveðst hann hafa keypt lóð sína að Áslandi 24 beinlínis sem lóð undir einbýlishús í einbýlishúsahverfi samkvæmt samþykktum skipulags- og byggingarskilmálum.  Þótt tvær íbúðir geti verið í einbýlishúsi undir sömu eign sé það ekkert sambærilegt við parhús með skiptingu lóðar, gjörólíkt að útliti og svip, tilheyrandi umferð og umgengni, kaupum og sölum.  Þá sé nýtingarhlutfall of hátt og húsið fari út fyrir byggingarreit.  Óréttmætt sé að vísa til þess að parhús hafi verið leyft að Áslandi 20, enda séu aðstæður þar aðrar, en sú lóð sé innst í botnlanga og nýtingarhlutfall allt annað.
Í niðurlagi athugasemdabréfs kæranda segir m.a:  „Vægt til orða tekið á þetta hús ekkert heima á þessum stað.  Þessir menn eiga ekki að vera að kássast upp á fólk í þessu hverfi, það er nóg til af stöðum fyrir þessa húsagerð.“

Málsrök bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ:  Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn málsins frá byggingarfulltrúanum í Mosfellsbæ.  Telur hann að rétt hafi verið staðið að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar og að tillit hafi verið tekið til athugasemda kæranda.  Honum hafi verið tilkynnt um ákvarðanir í málinu með venjubundnum hætti.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að grenndarkynning hafi farið fram eins og lög standi til og hafi íbúar við götuna ekki mómælt fyrirhugaðri byggingu.  Einu efnislegu mótmælin hafi komið frá kæranda, sem búi úti á landi.  Við byggingu hússins séu ákvæði um hæðarkóta og nýtingarhlutfall virt og séu athugasemdir kæranda um þau atriði ekki á rökum reistar.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur hver sá er telur rétti sínum hallað með ákvörðun byggingarnefndar eða sveitarstjórnar skotið málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því honum varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun.  Liggur fyrir að kæranda hafði borist bréf byggingarfulltrúa, dags. 19. desember 2002, eigi síðar en hinn 13. janúar 2003.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sem honum var kynnt í umræddu bréfi því til 13. febrúar 2003.

Með kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hinn 4. mars 2003 kærði kærandi framangreinda ákvörðun og gerði í kærunni með skýrum hætti grein fyrir því um hvaða ákvörðun væri að ræða.  Var kærufrestur vegna hennar þá liðinn og mátti kæranda vera það ljóst, enda var í framangreindu bréfi byggingarfulltrúa gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og kærustjórnvaldi.

Með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. apríl 2003 kom kærandi því fyrst á framfæri að fyrir honum hafi vakað að kæra hans tæki einnig til ákvörðunar byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis sem kæranda hafði verið tilkynnt um með bréfi, dags. 4. febrúar 2003.  Kveðst kærandi hafa skilið málið svo að með síðastnefndu bréfi hefði kærufrestur verið framlengur til 4. mars 2003.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind sjónarmið kæranda.  Með bréfi byggingarfulltrúa hinn 4. febrúar 2003 var kæranda kynnt ný ákvörðun sem ekki verður séð að hann hafi kært fyrr en með bréfi sínu hinn 8. apríl 2003, sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. sama mánaðar.  Var kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar því liðinn.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti.  Víkja má frá þeirri reglu ef afsakanlegt verður talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða ef veigamiklar ástæður mæla með því að hún verði tekin til meðferðar.  Verður hvorki talið að kærandi hafi sýnt fram á að afsakanlegt sé að kæra hans barst svo seint sem raun ber vitni né að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar.  Væri það og andstætt hagsmunum byggingarleyfishafa, enda mátti hann með réttu ætlast til að hagsmunaaðilar tækju ákvörðun um það innan lögboðins frest hvort þeir ætluðu að neyta kæruréttar.

Með hliðsjón af framansögðu ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni og koma efnisatriði þess því ekki til úrlausnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir

8/2004 Lambalækjarflöt

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2004, kærur Daða Ágústssonar og Jóns Otta Sigurðssonar á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. janúar 2004, sem barst nefndinni 14. s.m., kærir D ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Bogarbyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 15. janúar 2004. 

Sömu ákvörðun kærir J með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. janúar 2004 og hafa framangreind mál verið sameinuð.  Krefjast kærendur ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfum, dags. 26. og 28. janúar 2004, krefjast kærendur þess að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur, sem eru eigendur sumarhúsa í landi Laufáss, hafa áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um deiliskipulag umrædds svæðis og eru þau mál til meðferðar fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til framangreindra kærumála og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og gögn og sjónarmið Borgarbyggðar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærendur eiga sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið varir við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústaði kærenda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess sem kærendur setja fyrir sig og hafa þeir kært byggingarleyfi fyrir umræddu húsi og krafist stöðvunar framkvæmda við byggingu þess svo sem að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er einkum á því byggt að með hinu umdeilda deiliskipulagi hafi verið leyfð atvinnustarfsemi á svæðinu, en þess hafi þeir ekki mátt vænta.  Ónæði muni verða af starfseminni og að auki verði fyrirhugað þjónustuhús allt of stórt og skerði útsýni.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kærenda mótmælt.  Er á því byggt að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við skipulags- og byggingarlög og deiliskipulag sem auglýst hafi verið og yfirfarið af  Skipulagsstofnun.  Að auki hafi starfsmenn tæknideildar bæjarins skoðað aðstæður á vettvangi og mælt fjarlægð milli húsa kærenda og hins umdeilda húss, svo og hæðarmun húsanna.  Sé hið umdeilda hús í um 150 metra fjarlægð frá því húsi kærenda sem nær standi og standi nýbyggingin að auki um 10 metrum neðar í landinu.  Byggingin muni því ekki raska hagsmunum kærenda. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 30. janúar 2004, reifar Björn L. Bergsson hrl. sjónarmið byggingarleyfishafa varðandi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Krefst hann þess að henni verði hafnað.  Telur hann kærendur ekki eiga lögvarða hagsmuni í kærumálinu.  Verði að telja að stöðvunarkrafa þeirra eigi ekki rétt á sér, enda séu hagsmunir byggingarleyfishafa margfalt meiri en hagsmunir kærenda.  Þótt framkvæmdir verði ekki stöðvaðar verði því ekki haldið fram að kærendur verði fyrir óafturtæku tjóni, enda sé engri byggð raskað né trjágróðri.  Yrði endanleg niðurstaða sú að leyfishafa væri framkvæmdin óheimil yrði húsið fjarlægt án vandkvæða.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Eru jafnframt til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni kærumál þar sem deilt er um lögmæti samþykktar um deiliskipulag svæðis þess sem hér skiptir máli og kann niðurstaða í máli þessu m.a. að ráðast af úrslitum þeirra mála.  Ríkir af þessum sökum enn nokkur óvissa um málalok meðan málsrannsókn er ólokið en m.a. er fyrirhugað að kanna aðstæður á vettvangi.  Þykir að öðru jöfnu koma til álita að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda þegar aðstæður eru með þeim hætti sem að framan var lýst.

Á hitt er að líta að hús það sem um er deilt í málinu er færanlegt og verður því með hægu móti fjarlægt verði niðurstaða málsins kærendum í vil.  Ber af þessum sökum ekki nauðsyn til að verða við kröfum þeirra um stöðvun framkvæmda í því skyni að tryggja að þeir nái til fulls rétti sínum í málinu.  Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað, enda styðjast framkvæmdir byggingarleyfishafa við formlega gilt leyfi þar til bærs stjórnvalds.  Framkvæmdir samkvæmt leyfinu eru hins vegar alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan úrskurðarnefndin hefur ágreining málsaðila um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis til meðferðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Ingibjörg Ingvadóttir

59/2001 Stigahlíð

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2001, kæra tveggja íbúa við Stigahlíð í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 um að veita byggingarleyfi er fól m.a. í sér heimild til að reka atvinnustarfsemi í  einbýlishúsinu að Stigahlíð 93.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. desember 2001, sem barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f. h. G Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. nóvember 2001 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Stigahlíð 93, að því er varðar heimild fyrir atvinnustarfsemi í húsinu.  Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 15. nóvember 2001.  Kærendur gera þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi að því er varðar heimild fyrir breyttri notkun hússins.

Málavextir:  Fasteignin að Stigahlíð 93 í Reykjavík er einbýlishús sem stendur við botngötu þar sem eingöngu eru fyrir einbýlishúsabyggð.  Í gildi er deiliskipulagsuppdráttur fyrir svæðið frá árinu 1961 er ber yfirskriftina „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi.“  Uppdrátturinn sýnir legu gatna á skipulagsreitnum, lóðir og byggingarreiti, en honum fylgir ekki greinargerð.

Með bréfi, dags. 11. júlí 2001, tilkynnti byggingarleyfishafi nágrönnum sínum um framkvæmdir við fasteignina að Stigahlíð 93 og upplýsti m.a. um fyrirhugaða breytingu á notkun hússins.  Var það upplýst að fyrirhugað væri að reka þar teiknistofu auk þess sem fasteignin yrði nýtt til íbúðar.

Hinn 12. júlí 2001 barst embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík símbréf frá lögmanni kærenda þar sem m.a. var farið fram á stöðvun framkvæmda við breytingar á húsinu nr. 93 við Stigahlíð.  Voru gerðar athugasemdir við breytingar á lóð hússins er fólust í gerð bílastæða og fyrirhugaða nýtingu þess til atvinnustarfsemi.  Byggingarfulltrúi tilkynnti ákvörðun sína um stöðvun framkvæmda við fasteignina með bréfi, dags. 17. júlí 2001, og var sú ákvörðun byggð á 1. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997, þar sem ekki hafði verið sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum.

Sótt var um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni hinn 19. júlí 2001 er fólu í sér lítils háttar stækkun og útlitsbreytingar á húsi og framkvæmdum á lóð ásamt fjölgun bílastæða í þrjú.  Var umsóknin tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. júlí s.á. en afgreiðslu frestað og erindinu vísað til umsagnar Borgarskipulags vegna fyrirhugaðrar atvinnustarfsemi.  Í umsögn lögfræðings Borgarskipulags um málið, dags. 30. ágúst 2001, komu fram efasemdir um að umsótt breyting á notkun hússins að Stigahlíð 93 væri í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar og aðalskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum.  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 var tekið undir skoðun þá er fram kom í greindri umsögn.

Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 3. október 2001 og var svofelld bókun gerð af hálfu meirihluta nefndarinnar:

„Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu sem samræmast skipulagsskilmálum. Óheimilt er að gera fleiri en tvö bílastæði á lóðinni. Húseigandi skal, áður en byggingarleyfi verður veitt skila inn uppdráttum þar sem hann afmarkar lóðina við götu með svipuðum hætti og gert hefur verið annars staðar í hverfinu.

Hvað varðar atvinnustarfsemi í húsinu er vitnað til bls. 27 í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur en þar stendur: „Á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði*. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi, enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar. Þjónustulóðir og opin svæði sem eru 1500m² eða minni fá ljósgráan lit íbúðasvæða.“

„*Einbýlishús, fjölbýlishús, stakar íbúðir, íbúðir aldraðra, dvalarheimili fyrir aldraða, íbúðir stúdenta, sambýli fatlaðra, heimili fyrir börn og unglinga og annað útirými.“

Skipulags- og byggingarnefnd telur að umrædda auglýsingastofu beri að skilgreina sem vinnustofu sem kalli ekki til sín óeðlilega mikla umferð og samþykkir starfsemi hennar í húsinu.

Nefndin gerir ekki athugasemd við að veitt verði byggingarleyfi þegar teikningar hafa verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði og tillögu Reykjavíkurlista.

Málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.“

Minnihluti nefndarinnar bókaði eftirfarandi um afstöðu sína til málsins:
        
„Með samþykkt sinni er meirihluti skipulags- og byggingarnefndar að heimila rekstur fyrirtækis/fyrirtækja í íbúðarhúsi sem stendur við þrönga húsagötu. Gert er ráð fyrir að 5 manns starfi þar og starfsemin mun því augljóslega valda töluverðri viðbótarumferð. Bílastæðamál eru óleyst. Afar hæpið verður að telja að umrædd starfsemi samrýmist þeim skipulagsskilmálum, sem um hverfið gilda. Við greiðum því atkvæði gegn þessari tillögu.“

Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu meirihluta skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum hinn 18. október 2001.  Byggingarleyfisumsóknin, þar sem gert var ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóð í stað þriggja í fyrri umsókn, var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. nóvember 2001.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. nóvember s.á. og staðfest í borgarstjórn hinn 15. nóvember 2001.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og  að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja ógildingarkröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ábótavant.  Kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á því að koma að athugasemdum sínum áður en byggingaryfirvöld hafi tekið hina umdeildu ákvörðun.  Umsögn Borgarskipulags í málinu hafi ekki verið kynnt kærendum og hafi þeim ekki verið um hana kunnugt fyrr en þeim hafi verið tilkynnt um afgreiðslu byggingarleyfisins með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. nóvember 2001.  Í ljósi þess, að kærendur hefðu kært umdeildar framkvæmdir að Stigahlíð 93 til byggingarfulltrúa hinn 12. júlí 2001, verði að telja þessa málsmeðferð fela í sér brot á andmælarétti kærenda sem þeim sé tryggður í stjórnsýslulögum.

Í bréfi eigenda fasteignarinnar að Stigahlíð 93 til nágranna frá 11. júlí 2001 komi fram að fyrirhugað sé að nýta húsið til íbúðar auk atvinnurekstrar.  Hálfu ári eftir að byggingarleyfishafi hafi keypt umrædda fasteign, hafi enginn búið í húsinu eða verið skráður þar til heimilis, en húsið eingöngu nýtt undir atvinnustarfsemi og rekstraraðilinn einn skráður eigandi þess.  Ekki verði séð að byggingaryfirvöld hafi gengið úr skugga um hverjar væru raunverulegar fyrirætlanir um nýtingu hússins og megi ætla að afstaða byggingaryfirvalda til umræddrar byggingarleyfisumsóknar hefði orðið önnur ef fyrir hefði legið að húsið yrði eingöngu nýtt undir atvinnurekstur svo sem af öllum málsatvikum megi ráða.

Þá telja kærendur hina kærðu ákvörðun efnislega ranga og andstæða aðalskipulagi og skipulagsreglugerð.  Fram komi í fyrirliggjandi umsögn lögfræðings Borgarskipulags að í aðalskipulagi sé fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðarsvæðum.  Þar megi þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi sem valdi ekki nágrönnum ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Grein 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 geri sömu kröfur til atvinnu- og þjónustustarfsemi í íbúðarbyggð sem einkum sé ætluð til að sinna þörfum íbúa hverfisins.  Þá segi í grein 4.2.2 að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð skuli valinn staður þannig að hvorki valdi hættu né óþægindum vegna umferðar eða annars ónæðis.

Bent sé á að húsið að Stigahlíð 93 standi innarlega í mjórri húsagötu efst við Stigahlíðina þar sem engin bílastæði séu við götu heldur aðeins inni á lóðum húsa og í götunni búi fjölskyldur með börn.  Umferð um götuna hafi hingað til einungis stafað frá íbúum hennar og gestkomandi.  Fyrir liggi að við umdeildan rekstur auglýsingastofu í húsinu að Stigahlíð 93 muni starfa a.m.k. fimm starfsmenn og sé sú starfsemi ekki þess eðlis að hún einskorðist við íbúa hverfisins.  Umferð um hverfið muni aukast vegna starfseminnar og verða meiri en ef húsnæðið væri notað til íbúðar og sé sú þegar raunin.  Starfsmenn aki daglega í og úr vinnu og auk þess megi búast við að þeir þurfi að aka til og frá vinnustað til að sinna erindum utan vinnustaðar.  Þá fylgi umferð þeim aðilum sem sæki þangað þjónustu.  Kærendur taki því undir umsögn Borgarskipulags frá 30. ágúst 2001 þar sem fram komi að umdeild starfsemi geti valdið nokkurri aukningu á umferð og skapað bílastæðavandamál á svæðinu.  Þar komi og fram að vegna aðstæðna á svæðinu, m.a. þar sem um hreina íbúðarbyggð sé að ræða í botngötu með engum almenningsbílastæðum, geti umdeild starfsemi orðið nokkuð íþyngjandi gagnvart nágrönnum.  Sé því varla heimilt með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar, landnotkunar aðalskipulags og gildandi deiliskipulags að samþykkja umsótta starfsemi í húsinu.  Geri kærendur þessi ályktunarorð lögfræðings Borgarskipulags að sínum.

Telja kærendur að form og efnisannmarkar þeir sem raktir hafi verið eigi að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar að því er varði heimild til atvinnustarfsemi í húsinu að Stigahlíð 93.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.

Vísað er til þess að á svæðinu sé í gildi deiliskipulag „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði Reykjavíkur hinn 28. nóvember 1961.  Mat skipulags- og byggingaryfirvalda hafi því einungis lotið að því hvort umrædd umsókn væri í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins og hafi lyktir orðið þær að umdeild umsókn fæli ekki í sér frávik frá deiliskipulaginu og því engar forsendur til þess að grenndarkynna umsóknina skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Við meðferð umsóknarinnar hafi engu að síður legið fyrir  ítarleg greinargerð frá lögmanni kærenda með sjónarmiðum þeirra og hafi byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir á lóðinni að Stigahlíð 93 að kröfu lögmanns þeirra.  Við meðferð málsins hafi framkomin sjónarmið nágranna verið höfð til hliðsjónar eins og sjá megi af fundargerð afgreiðslufundar skipulagsstjóra hinn 31. ágúst 2001 og bókunum meiri- og minnihluta  skipulags- og byggingarnefndar frá 3. október s.á.  Verði því ekki fallist á, eins og málsatvikum sé háttað, að andmælaréttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn.

Í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og ódagsettum skilmálum frá Borgarverkfræðingnum í Reykjavík, fyrir úthlutun einbýlishúsalóða við Stigahlíð sé ekki kveðið nánar á um landnotkun eða starfsemi á svæðinu.  Um landnotkun fari því eftir ákvæðum Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016. Í því skipulagi sé svæðið tilgreint sem íbúðasvæði sem skilgreint sé á eftirfarandi hátt:

„… á íbúðasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar mega þó einnig vera stakar hverfisverslanir, vinnustofur, gistiheimili, sendiráð og önnur umfangslítil starfsemi enda valdi hún nágrönnum ekki ónæði vegna ólyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.“

Framangreinda skilgreiningu aðalskipulags beri að skilja á þann hátt að meginreglan sé sú að á íbúðasvæðum skuli fyrst og fremst vera íbúðarhúsnæði.  Líta verði þó svo á að skipulagsyfirvöldum sé heimilt, innan ákveðinna marka, að leyfa tiltekna atvinnustarfsemi sem valdi nágrönnum ekki ónæði umfram það sem almennt megi búast við á tilteknu svæði.  Takmörkunin geti því aðeins verið grenndarréttarlegs eðlis og háð frjálsu mati stjórnvalds hverju sinni.  Þar af leiðandi verði að meta hvert tilvik fyrir sig, meðal annars að teknu tilliti til skipulags hverfisins, fyrirkomulags húsa, væntanlegrar umferðar, fjölda starfsmanna, tegundar starfsemi auk margra annarra þátta.  Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.2.1, sé íbúðasvæði skilgreint á sambærilegan hátt og í aðalskipulagi.

Byggingarleyfishafi hafi lýst því yfir að búið verði í húsinu og sé það í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti að húsinu, en samkvæmt þeim sé gert ráð fyrir teiknistofu auk íbúðar.  Byggingarleyfishafi og kona hans starfi bæði sem grafískir hönnuðir og reki teiknistofu sína í fasteigninni að Stigahlíð 93.  Auk þeirra starfi á teiknistofunni þrír starfsmenn.  Það geti ekki verið á valdsviði skipulags- og byggingaryfirvalda að fullvissa sig um að einstaklingar hafi búsetu á einhverjum ákveðnum stöðum né kanna það sérstaklega hvar þeir hafi lögheimili.  Byggingarleyfi taki einungis afstöðu til þess til hverra nota húsnæði sé ætlað og hafi verið samþykkt að í húsinu yrði íbúð auk vinnustofu.

Telja verði að óveruleg umferð fylgi umdeildri starfsemi og eigi hún ekki að valda öðrum íbúum óþægindum umfram það sem við megi búast með tilliti til stærðar hússins sem sé tæplega 400 fermetrar og gæti auðveldlega hýst töluvert stærri fjölskyldu en sem nemur þeim þremur starfsmönnum sem starfi á umræddri teiknistofu auk eigenda.  Benda megi á að fyrri eigandi hússins hafi verið með skrifstofu í húsinu til langs tíma.  Ekki sé óeðlilegt að rekin sé umfangslítil starfsemi samhliða búsetu í stærri húsum innan íbúðarhverfa svo sem skrif- og vinnustofur hönnuða, verkfræðinga og endurskoðenda.  Litið hafi verið svo á að slík starfsemi sé heimil í íbúðarhverfum valdi hún ekki óeðlilegu ónæði fyrir nágranna.

Með tilliti til ákvæða skipulagsreglugerðar og landnotkunar aðalskipulags verði að telja að borgaryfirvöld hafi óskoraða heimild til að meta það hvort umrædd starfsemi í húsinu sé þess eðlis að hún hafi íþyngjandi áhrif gagnvart íbúum götunnar.

Í ljósi framangreinds, þar sem fyrir liggur mat meirihluta skipulags- og byggingarnefndar að umþrætt byggingarleyfi hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði gildandi skipulags og skipulagsreglugerðar um atvinnustarfsemi á íbúðarsvæðum sé ekki efni til að raska hinni kærðu ákvörðun.

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á því að koma á framfæri við úrskurðarnefndina athugasemdum og sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en greinargerð um það efni hefur ekki borist nefndinni.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér heimild til ýmis konar breytinga á húsi og lóð fasteignarinnar að Stigahlíð 93 í Reykjavík auk heimildar til breyttrar notkunar hússins, en í máli þessu er einungis deilt um það hvort heimild til nýtingar hluta hússins til atvinnustarfsemi hafi verið lögmæt.

Bæjarráð Reykjavíkur staðfesti hinn 28. nóvember 1961 skipulagsuppdrátt fyrir umræddan reit með yfirskriftinni „Skipulag sunnan Hamrahlíðar, einbýlishúsahverfi“.  Deiliskipulag þetta er í gildi skv. 11. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Þótt skipulagið sé ófullkomið að því leyti, að  greinargerð skortir um nánari útfærslu uppdráttarins, ber nafngift hans og fyrirkomulag lóða, byggingarreita og bílastæða á uppdrættinum það með sér að gert hafi verið ráð fyrir hreinni einbýlishúsabyggð á skipulagssvæðinu svo sem raunin hefur orðið við uppbyggingu þess.

Byggingarleyfi, m.a. fyrir breyttri notkun húss, skal vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag skv. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Komi fram umsókn er víkur frá gildandi deiliskipulagi verður byggingarleyfi ekki veitt í samræmi við umsókn nema að lokinni deiliskipulagsbreytingu samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga eða eftir atvikum skv. 2. mgr. ákvæðisins ef um óverulega breytingu frá deiliskipulagi er að ræða. 

Vafi um ákvæði deiliskipulags um landnotkun á íbúðarsvæðum eða skortur á ákvörðun í því efni veitir sveitarstjórnum ekki, án breytingar á deiliskipulagi, heimild til að veita byggingarleyfi á grundvelli áætlaðrar landnotkunar aðalskipulags og skilgreiningar landnotkunarflokka í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Samkvæmt 2. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð skal í aðalskipulagi gera grein fyrir stærð og staðsetningu íbúðarsvæða en í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis kemur fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir notkun einstakra bygginga og byggingarhluta á íbúðarsvæðum sem ekki eru ætlaðir til íbúðar.  Verða reglugerðarákvæði þessi ekki skýrð á annan veg en þann að heimild til nýtingar húsnæðis á skipulögðum íbúðarsvæðum til annars en íbúðar verði að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi.  Sú túlkun er jafnframt í samræmi við þá meginreglu skipulags- og byggingarlaga, að  byggingarleyfi skuli vera í samræmi við deiliskipulagsáætlanir, en einungis er heimilt að veita byggingarleyfi á grundvelli aðalskipulags á þeim svæðum sem þegar eru byggð en hafa ekki verið deiliskipulögð, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna.

Hin umdeilda ákvörðun, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð, á ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þykir því verða að fella hina kærða ákvörðun um breytta notkun umrædds húss úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sú, að heimila atvinnustarfsemi í húsinu nr. 93 við Stigahlíð í Reykjavík, er fólst í byggingarleyfi sem samþykkt var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík hinn 6. nóvember 2001, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
       Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

76/2003 Ingólfsstræti

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2003, kæra Atla Gíslasonar hrl., sem eiganda 4. hæðar og f.h. eigenda 2., 3. og 5. hæðar auk rishæðar að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til þess að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara atvinnuhússins á lóð nr. 5 við Ingólfsstræti.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. desember 2003, sem barst nefndinn 16. s.m. kærir Atli Gíslason hrl., sem eigandi 4. hæðar og f.h. eigenda 2., 3. og 5. hæðar auk rishæðar að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til þess að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara atvinnuhússins á lóð nr. 5 við Ingólfsstræti.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 4. desember 2003.

Kærendur krefjast þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að hún verði ómerkt og að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að taka umsóknina til afgreiðslu á nýjan leik.  Loks krefjast kærendur þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málsatvik eru í stuttu máli þau að hinn 21. janúar 2003 sótti Eldhugi ehf. um byggingarleyfi til að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara hússins nr. 5 við Ingólfsstræti í Reykjavík.  Af málsgögnum verður ráðið að umsækjandi hafi vorið 2002 leitað afstöðu byggingaryfirvalda til erindisins og að jákvætt hafi verið tekið í erindið.  Þá liggur fyrir að deiliskipulag umrædds svæðis var tekið til endurskoðunar síðar á því ári og að þeirri endurskoðun lauk skömmu fyrir lok ársins 2002.

Framangreind umsókn var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. janúar 2003 og frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Málið var að nýju tekið fyrir hjá byggingarfulltrúa hinn 1. apríl 2003 og enn frestað.  Var umsækjanda m.a. bent á að leita umsagnar kærunefndar fjöleignarhúsamála um ágreining húseigenda um það hvort fyrirhuguð framkvæmd væri háð samþykki meðeigenda og að hvaða marki ef svo væri. 

Málinu var enn frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa hinn 8. apríl og 27. maí 2003 en á fundi hinn 23. september 2003 vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar.  Var á sama fundi lagt fram álit kærunefndar fjöleignarhúsamála þar sem nefndin lét í ljós það álit sitt að fyrirhuguð hagnýting eignarhluta álitsbeiðanda væri ekki háð samþykki annarra eigenda hússins.

Af hálfu Borgarskipulags var samþykkt að grenndarkynna umrædda umsókn fyrir nágrönnum og stóð kynning málsins yfir frá 1. til 30. október 2003.  Málið var að kynningu lokinni tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. nóvember 2003 og voru á fundinum m.a. lagðar fram fjölmargar athugasemdir sem borist höfðu.  Hinn 26. nóvember var málið tekið að nýju fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar og m.a. lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir.  Var umsóknin samþykkt með áskilnaði um samþykki heilbrigðiseftirlits, svo og um lokaúttekt byggingarfulltrúa og um prófun á hljóðvist staðarins.

Samþykkt þessi var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. desember 2003.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 11. desember 2003, svo sem að framan greinir.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hafa henni borist þrjár kærur frá nágrönnum þar sem sama ákvörðun er kærð og í máli þessu.  Ekki eru hins vegar hafðar uppi kröfur um stöðvun framkvæmda í umræddum málum og verða þau því ekki sameinuð máli þessu að svo stöddu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er í stuttu máli á því byggt að ekki hafi verið heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi nema með samþykki þeirra sem meðeigenda byggingarleyfishafa að fjöleignarhúsinu að Ingólfsstræti 5.  Telja þeir niðurstöðu kærunefndar fjöleignarhúsamála um þetta atriði ranga og benda á að álit kærunefndarinnar sé ekki bindandi við úrlausn málsins hjá úrskurðarnefndinni.  Þá halda kærendur því fram að hin kærða samþykkt sé í blóra við ákvæði aðal- og deiliskipulags um landnotkun o.fl.  Þá sé málsmeðferð áfátt, rannsókn m.a. ábótavant og svör við athugasemdum ófullnægjandi.  Fleiri atriði eru tilgreind sem ekki þykir ástæða til að tíunda á þessu stigi málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist í þessum þætti málsins að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.  Sé ljóst að málsmeðferð umsóknar þeirrar sem kærð sé í málinu hafi verið til fyrirmyndar og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga.  Þar sem uppi hafi verið ágreiningur milli eigenda í umræddu húsi um það hvort samþykki annarra eigenda þyrfti fyrir starfseminni hafi byggingarfulltrúi óskað þess að ágreiningnum yrði skotið til kærunefndar fjöleignarhúsamála. Þá hafi verið óskað eftir greinargerð varðandi hljóðvist hússins.  Þegar álit kærunefndarinnar um að ekki þyrfti samþykki meðeigenda hafi legið fyrir ásamt umsögn um hljóðvist hússins hafi byggingarfulltrúi vísað umsókninni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Þrátt fyrir að til væri deiliskipulag af reitnum, sem leyfi starfsemi þá sem hin kærða samþykkt fjalli um, auk þess sem starfsemin samræmist aðalskipulagi, hafi umsóknin verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum á reitnum. Hafi athugasemdunum verið svarað með ítarlegri umsögn skipulagsfulltrúa. 

Í ljósi umsagnar skipulagsfulltrúa hafi umsóknin verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 26. nóvember 2003 með fyrirvörum um að heilbrigðiseftirlit samþykkti frágang framkvæmdanna og að lokaúttekt byggingarfulltrúa færi fram á staðnum, þ.m.t. prófun á því hvort hljóðvistarkröfum hefði verið mætt.  Hafi borgarstjórn staðfest afgreiðslu nefndarinnnar á fundi sínum þann 4. desember sl. og hafi athugasemdaraðilum verið tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar og þeim leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.

Öðrum sjónarmiðum kærenda er hafnað með rökstuðningi sem frekari grein verður gerð fyrir við efnismeðferð málslins.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 18. janúar 2004, hefur Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl. komið sjónarmiðum bygginarleyfishafa á framfæri við úrskurðarnefndina.  Krefst hún þess að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar séu í eign Eldhuga ehf. að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík eigi sér stoð í formlega gildu byggingarleyfi sem ekki hafi verið hnekkt.  Þá hafi kærendur ekki sýnt fram á formgalla á málsmeðferð né fært fram haldbær rök fyrir því að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Af hálfu byggingarleyfishafa er þeim málsástæðum sem fram koma í kæru alfarið hafnað.  Um þá málsástæðu kærenda að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að samþykkja hið kærða leyfi vegna ákvæða laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 vísist til niðurstöðu kærunefndar fjöleignarhúsamála í málinu nr. 33/2002.  Þá sé því alfarið hafnað að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 2/2002 hafi nokkurt fordæmisgildi í máli þessu enda hafi umsókn sú er um hafi verið deilt í því máli ekki hlotið málsmeðferð sambærilega þeirri sem hin kærða ákvörðun hafi fengið. Þá hafi ákvæði deiliskipulags þess reits sem til umfjöllunnar hefi verið í því máli um landnotkun verið allt önnur en gildi á þeim reit þar sem Ingólfsstræti 5 standi. 

Að öðru leyti sé vísað til þeirra málsástæðna og lagaraka sem fram komi í  umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. nóvember 2003, og greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 29. desember 2003.

Þá er að lokum á því byggt að byggingarleyfishafi eigi ríka hagsmuni því tengda að geta haldið áfram framkvæmdum sínum við breytta nýtingu eignarhlutans á næstu vikum svo honum verði fyrr unnt að hagnýta sér eignarhluta sinn sem fram að þessu hafi staðið ónýttur.  Verði að telja hagsmuni kærenda af því að framkvæmdir verði stöðvaðar til muna minni en hagsmuni byggingarleyfishafa af því að fá þeim fram haldið.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Hefur lögmaður byggingarleyfishafa m.a. áréttað sjónarmið sín með bréfi, dags. 28. janúar 2004.  Þá hafa stuttar athugasemdir borist frá talsmanni Reykjavíkurborgar með bréfi sem barst úrskurðarnefndinni fyrr í dag.  Verða röksemdir aðila ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingaryfirvalda um breytingu á innra fyrirkomulagi og notkun eignarhluta byggingarleyfishafa á 1. hæð og í kjallara að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík.  Bera kærendur brigður á fyrirliggjandi álit kærunefndar fjöleignarhúsa og telja hina umdeildu breytingu á notkun eignarhlutans háða samþykki sameigenda að húsinu.  Þá telja þeir vafa leika á um að hin kærða samþykkt eigi sér fullnægjandi stoð í skipulagi.  Fleira hafa kærendur til tekið en öllum málsástæðum þeirra og sjónarmiðum er hafnað af hálfu borgaryfirvalda og byggingarleyfishafa.

Úrskurðarnefndin telur að enda þótt fyrirhugaðar framkvæmdir séu í sjálfu sér ekki stórfelldar geti hin breytta notkun haft í för með sér ærna röskun á högum kærenda komi hún til framkvæmda.  Telur úrskurðarnefndin að þörf sé frekari rannsóknar á réttarstöðu kærenda sem sameigenda að umræddu fjöleignarhúsi og á skipulagslegum forsendum hinnar kærðu ákvörðunar.  Þykir svo mikill vafi leika á um lögmæti hennar að fallast beri á kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur málið til meðferðar. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________       ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Ingibjörg Ingvadóttir

24/2003 Borgartún

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2003, kæra Hegra ehf., vegna Borgartúns 23 og Bústaðar ehf., vegna Borgartúns 29, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um útgáfu byggingarleyfis til byggingar átta hæða skrifstofuhúss ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún í Reykjavík.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. apríl 2003, er barst nefndinni sama dag, kæra Hegri ehf., vegna Borgartúns 23 og Bústaður ehf., vegna Borgartúns 29, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um að gefa út byggingarleyfi til að reisa átta hæða steinsteypt skrifstofuhús ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún í Reykjavík. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í borgarstjórn hinn 30. janúar 2003.

Málavextir:  Árið 1993 var samþykkt af borgaryfirvöldum deiliskipulag fyrir götureit sem afmarkast af Sæbraut til norðurs, Kringlumýrarbraut til austurs, Borgartúni til suðurs og Höfðatúni til vesturs.  Samkvæmt deiliskipulaginu var nýtingarhlutfall lóða almennt 0,7.  Frá þeim tíma hefur starfsemi á svæðinu breyst verulega og hafa risið þar nýbyggingar fyrir skrifstofur og ýmis konar þjónustu í stað eldri bygginga, þar sem m.a. var miðstöð fyrir vöruflutninga, rekstur vörubílastöðvar og önnur áþekk starfsemi.  Hafa frá árinu 1998 verið gerðar átta breytingar á deiliskipulagi svæðisins vegna breyttrar nýtingar þess.  Taka þessar breytingar til allra lóða á reitnum nema lóðar móttökuhúss Reykjavíkurborgar, Höfða, og lóða kærenda, en síðasta breytingin tekur til lóðanna nr. 25-27 og 31.  Breytingar þessar hafa lotið að því að breyta byggingarmagni og fyrirkomulagi bygginga á lóðunum og hefur nýtingarhlutfall fyrir einstakar lóðir á svæðinu verið hækkað, að sögn borgaryfirvalda í samræmi við stefnumörkun Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 um bætta nýtingu athafnahverfa.

Í byrjun árs 2002 var lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðanna nr. 25 – 27 og nr. 31 við Borgartún þar sem gert var ráð fyrir aðkomu að lóðinni nr. 25 – 27 um lóðina nr. 31 auk aðkomunnar yfir lóðirnar nr. 23 og 29.  Þá gerði tillagan ráð fyrir að á lóðinni nr. 25 – 27 og á baklóð nr. 33 yrði heimilt að byggja sjö hæða hús með inndreginni áttundu hæð auk kjallara.  Nýtingarhlufall ofanjarðar yrði 0,9 en með kjallara, þar með töldum bílakjallara, 1,1.  Á fundi hinn 23. janúar 2002 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að auglýsa tillöguna og staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 29. janúar 2002. 

Allmargar athugasemdir bárust frá nágrönnum, þar á meðal kærendum.  Lutu þær að ýmsum atriðum er varða aðkomu að umræddum lóðum, sem eru baklóðir með aðkomu um framlóðir, m.a. á mörkum lóða kærenda.  Auk þess voru athugasemdir gerðar við stærð, hæð og fyrirkomulag bygginga á lóðunum, hækkað nýtingarhlutfall, aukna umferð, skert útsýni, hæðarsetningu o.fl.  Einnig barst athugasemd frá eigendum lóðarinnar nr. 31 við Borgartún vegna umferðarkvaðarinnar.  Sú athugasemd var afturkölluð með bréfi, dags. 30. apríl 2002, með þeim fyrirvara að skipulags- og byggingarnefnd féllist á takmarkaðri aðkomu en deiliskipulagstillagan gerði ráð fyrir.

Tillagan var í kjölfarið lögð fyrir skipulags- og byggingarnefnd hinn 5. júní 2002 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar og umsögn verkfræðistofu umhverfis- og tæknisviðs um umferðarmálin.  Var tillagan samþykkt með svohljóðandi bókun:  „Auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 01.06.02 og verkfræðistofu dags. 03.06.02 með þeim breytingum sem þar koma fram.  Vísað til borgarráðs.”

Borgarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 14. júní 2002 og auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. ágúst 2002.  Var sú ákvörðun borgaryfirvalda kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Hinn 14. janúar 2003 gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út byggingarleyfi vegna átta hæða steinsteypts húss ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún.  Húsið er 6.600 m², þar af byggingar ofanjarðar 5.850 m².  Bílastæði við húsið eru 149, þar af a.m.k. 20 stæði í bílakjallara.  Í apríl 2003 kröfðust kærendur þess að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar.  Þeirri kröfu hafnaði úrskurðarnefndin með úrskurði uppkveðnum hinn 15. maí s.l. 

Framangreindri ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu byggingarleyfis á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja kröfu sína um ógildingu byggingarleyfis þeim rökum að krafist hafi verið ógildingar skipulagsákvörðunar þeirrar sem leyfið eigi sér stoð í.  Verði fallist á kröfur kærenda um ógildingu skipulagsákvörðunarinnar verði byggingarleyfið einnig fellt úr gildi.  Á hinni kærðu skipulagsákvörðun séu ýmsir ágallar, sem leiða eigi til ógildingar hennar.  Það hafi m.a. skort á að fullnægjandi samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við skipulagsgerðina en að auki fari deiliskipulagið efnislega með ýmsum hætti í bága við hagsmuni kærenda, langt umfram það sem lögmætt geti talist. 

Kærendur halda því fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um veitingu byggingarleyfisins fyrr en 1. apríl 2003.  Frá áramótum 2002 – 2003 hafi þeir spurst fyrir um útgáfu þess á skrifstofu byggingarfulltrúa en fengið þau svör að það lægi ekki fyrir.  Þeim hafi því verið veitt röng svör hjá embætti byggingarfullrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er aðallega krafist frávísunar kæru á hinu umdeilda byggingarleyfi þar sem sé hún of seint fram komin.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna er þess krafist að hafnað verði kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfisins.  Kæra þeirra vegna byggingarleyfisins sé alfarið á því byggð að deiliskipulagið muni sæta ógildingu og sé ekki studd öðrum sjálfstæðum málsástæðum. 

Byggingaryfirvöld benda á að komið hafi verið til móts við sjónarmið kærenda í ýmsum efnum varðandi skipulagsgerðina og séu engar málsástæður kærenda þess eðlis að þær geti leitt til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar. 

Byggingaryfirvöld halda því fram að misskilnings gæti hjá kærendum þess efnis að rangar upplýsingar hafi verið veittar hjá embætti byggingarfulltrúa vegna útgáfu byggingarleyfisins.  Misskilningur kærenda liggi í því að þrátt fyrir að umsóknin hafi verið samþykkt í janúar 2003 hafi skilyrði til útgáfu leyfisins og leyfi til að hefja framkvæmdir, skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, ekki verið uppfyllt fyrr en hinn 1. apríl 2003.  Þann dag hafi byggingarstjóri undirritað yfirlýsingu skv. 3. mgr. 44. gr. og tilkynnt iðnmeistara.  Gjöld vegna framkvæmdarinnar skv. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. hafi verið greidd hinn 31. mars 2003.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni á þeirri forsendu að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst nefndinni, enda verður ekki séð af gögnum málsins að kærendum hafi mátt ljóst vera fyrr en framkvæmdir hófust á lóðinni, eða í byrjun apríl 2003, að byggingarleyfi hafi verið veitt. 

Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið byggist á deiliskipulagi sem kært hafi verið til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar. 

Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulags þess sem hið umdeilda byggingarleyfi á stoð í.  Af því leiðir að ekki eru efni til að ógilda byggingarleyfið af ástæðum er varða skipulagsforsendur þess.

Miðað við ákvarðaða landnotkun svæðisins í gildandi aðal- og deiliskipulagi verður ekki fallist á að framkvæmdin gangi um of gegn hagsmunum kærenda enda verður að líta til þess að umræddar eignir eru á verslunar- og þjónustusvæði og þykir því hugsanleg röskun á hagsmunum þeirra svo óveruleg að ekki leiði til ógildingar hins umdeilda byggingarleyfis.  Þá verður og ekki séð af gögnum málsins að byggingarleyfið sé haldið þeim annmörkum er leiða ættu sjálfstætt til ógildingar þess. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. janúar 2003 um að veita byggingarleyfi til að reisa átta hæða steinsteypt skrifstofuhús ásamt geymslu- og bílakjallara á lóðinni nr. 25 – 27 við Borgartún í Reykjavík. 

________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir.

68/2003 Hverfisgata

Með

Ár 2003, mánudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2003, kæra eiganda húseignarinnar að Sunnuvegi 1, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Hverfisgötu 57, Hafnarfirði.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. nóvember 2003, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Ó, Sunnuvegi 1, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 að veita leyfi til að byggja við húsið nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Hafnarfirði til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og gögn frá Hafnarfjarðarbæ varðandi kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málavöxtum verður hér aðeins lýst stuttlega að því marki er þurfa þykir við úrlausn um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Í húsinu nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði eru tvær íbúðir, lítil íbúð í kjallara og önnur stærri á aðalhæðinni og í risinu.  Bílskúr er áfastur húsinu og stendur hann í sömu hæð og kjallarinn. 

Í maí árið 2001 fóru eigendur miðhæðarinnar og rissins fram á heimild byggingarnefndar Hafnarfjarðar til að byggja við húsið.  Beiðni þeirra laut að stækkun hússins á þann veg að ofan á bílskúrinn yrði byggð 18,4 m² stór stofa og í henni miðri yrði lokað eldstæði.  Beiðninni var vísað til skipulags- og umferðarnefndar sem grenndarkynnti hana frá 10. september 2002 til 9. október sama ár.  Engar athugasemdir bárust og með vísan til þess gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 23. október 2002. 

Hinn 28. mars 2003 veitti byggingarfulltrúi heimild til þess að byggðar yrðu svalir ofan á viðbygginguna samkvæmt ósk byggingarleyfishafans og í staðfestingu byggingarnefndar á embættisafgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 8. apríl 2003 segir að lagt hafi verið fram bréf nágranna, dags. 23. október 2002, vegna málsins.  Með þessari afgreiðslu virðist sem hið fyrra byggingarleyfi vegna viðbyggingarinnar hafi verið fellt úr gildi og nýtt gefið út sem gilti bæði vegna viðbyggingarinnar og svalanna.

Í máli þessu liggur fyrir að eigendaskipti urðu á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september 2003, en þá eignaðist kærandi máls þessa fasteignina.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2003, kærði kærandi samþykkt byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að staðsetning viðbyggingar þeirrar sem hér um ræðir sé í andstöðu við IV. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, nánar tiltekið 1.–6. tl. 75. gr., þar sem kveðið er á um fjarlægð húsa frá lóðarmörkum, bil milli húsa o.fl.  Staðsetning viðbyggingarinnar brjóti gegn kvöð lóðarleigu-samnings sem þinglýst sé á fasteignina nr. 57 við Hverfisgötu, þess efnis að ekki verði byggð viðbygging eða sambærileg mannvirki nær Sunnuvegi 1 en nemi 6,30 metrum.  Kvöð þessari hafi ekki verið þinglýst á Sunnuveg 1.

Kvörtun kæranda beinist einnig að svölum sem ætlunin sé að byggja og hafin sé bygging á en þær hafi ekki verið á þeirri teikningu sem lögð var fram í grenndarkynningu.  Svalir þessar hafi því hvorki verið kynntar nágrönnum né hlotið samþykki þeirra og því sé tilvísun byggingarnefndar í fundargerð hinn 8. apríl 2003 í bréf nágranna markleysa, enda sé í því bréfi hvergi fjallað um svalir á viðbyggingunni.

Kærandi heldur því fram að skorsteinn vegna arins í viðbyggingunni hafi verið færður og sé ekki byggður samkvæmt samþykktu byggingarleyfi. 

Þá bendir kærandi á að samkvæmt teikningu vegna viðbyggingarinnar, dags. 23. október 2002, verði samþykktin ekki virk fyrr en eftir skráningu eignaskiptayfirlýsingar hjá Fasteignamati ríkisins og þinglýsingu hennar.  Af veðbókarvottorðum Hverfisgötu 57 verði ekki séð að sú þinglýsing hafi átt sér stað.

Kærandi bendir ennfremur á að framkvæmdir séu samþykktar hinn 28. mars 2003 á lóð sem sé 225 m2.  Með lóðarleigusamningi, dags. 22. september 2003, sé lóðin stækkuð að því er virðist á kostnað lóðar Sunnuvegar 1 sem rýri þá eign að miklum mun.

Varðandi framkvæmdirnar almennt fullyrðir kærandi að gluggi á brunavegg rýri nýtingarmöguleika lóðar hans auk þess sem hann auki eldhættu.  Frá svölum viðbyggingarinnar sjáist vel inn í íbúð hans, skorsteinninn valdi reykmengun í garði hans, svefnherbergi og stofu auk þess sem af honum stafi brunahætta.  Svalir á viðbyggingunni séu nánast „yfir“ steyptum palli við útgang úr stofu hans út í garðinn og gjörbreyti því möguleikum til útivistar á þeim palli.

Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar:  Embætti byggingarfulltrúa í Hafnarfirði hefur komið til úrskurðarnefndarinnar gögnum vegna málsins en ekki greint sérstaklega frá sjónarmiðum bæjarins vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Fyrir úrskurðarnefndina lagði byggingarleyfis-hafinn ítarlega greinargerð og verða helstu sjónarmið hans rakin að því marki er þau varða kæruefnið. 

Byggingarleyfishafinn mótmælir því að framkvæmdir verði stöðvaðar og krefst þess að kærunni verði vísað frá því núverandi eigandi Sunnuvegar 1 hafi á þeim tíma sem byggingarleyfið hafi verið veitt, ekki átt lögvarða hagsmuni í málinu.  Þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni hafi framkvæmdum við viðbygginguna verið að mestu lokið og hið sama eigi við þegar kærandi hafi keypt fasteignina í september 2003.  Í ágúst hafi þakdúkur verið lagður ásamt festingum fyrir svalahandriðið, hluti skorsteinsins verið kominn og með gluggasetningu og hurð á gafli hafi verið ljóst að svalir væru fyrirhugaðar á þaki viðbyggingarinnar.  Frestur til að kæra samþykktir byggingarnefnda eða sveitarstjórna sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 aðeins mánuður frá því að frá því að kæranda hafi verið kunnugt um samþykktina og því hafi kærufrestur verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni.

Hvað nýgerðan lóðarleigusamning varði þá heldur byggingarleyfishafinn því fram að með honum hafi aðeins verið staðfest lóðaskipting sem alla tíð hafi verið viðhöfð milli lóðanna að Hverfisgötu 57 og Sunnuvegar 1 og því löngu komin hefð á skiptinguna. 

Byggingarleyfishafinn telur sig á engan hátt hafa vikið frá samþykktum teikningum eða byggingarleyfi þannig að að umrædd viðbygging sé á einhvern hátt verri fyrir kærendur.  Skorsteinninn hafi verið færður því sérfræðingar þeir sem settu hann upp hafi talið að mun öruggara væri að hafa skorsteininn á brunavegg. 

Hvað varði glugga á suðurvegg þá bendir byggingarleyfishafinn á að umræddur gluggi hafi verið hafður eins vestarlega á veggnum og unnt hafi verið og óskað hafi verið eftir samþykki þáverandi eiganda Sunnuvegar 1 fyrir staðsetningu hans. 

Byggingarleyfishafinn mótmælir þeirri fullyrðingu kæranda að hinar umdeildu svalir rýri nýtingarmöguleika kæranda á fasteign hans enda komi svalirnar til með að snúa að þeim hluta lóðar Sunnuvegar 1 sem sé minnst notaður.  Byggingarleyfishafinn mótmælir einnig þeirri fullyrðingu kæranda að hinar umræddu svalir séu „yfir” steyptum palli við útgang úr stofu yfir í garð kæranda.  Byggingarleyfishafinn bendir á að hann hljóti að eiga rétt til að hagnýta sér eign sína á eðlilegan hátt, þ.m.t. réttinn til að byggja svalir og nýta þær.  Svalirnar komi einnig til með að nýtast sem neyðarútgangur. 

Niðurstaða:  Í máli þessu verður að svo stöddu aðeins fjallað um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og eins og atvikum er háttað verður ekki fallist á að stöðva beri allar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Aftur á móti verður að telja að vafi leiki á því hvort kæranda hafi verið ljóst að þakflötur viðbyggingarinnar yrði nýttur sem svalir.  Af gögnum málsins má ætla að sá þáttur framkvæmdarinnar hafi ekki verið kynntur nágrönnum svo sem lögskylt er samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og því leikur vafi á gildi byggingarleyfisins varðandi þann þátt.  Því er fallist á að stöðva beri framkvæmdir við gerð svala og frágang utanhúss sem þeim tengjast meðan úrskurðarnefndin hefur kærumál þetta til meðferðar.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir að Hverfisgötu 57 við gerð svala og frágangur utanhúss sem þeim tengist eru stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

____________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir                    

65/2003 Sunnuhvoll

Með

Ár 2003, mánudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 65/2003, kæra eigenda sumarhússins Víðilundar, Miðengi, Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu, á ákvörðunum byggingarnefndar og sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps og byggingarfulltrúa Árnessýslu um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til niðurrifs og nýbyggingar á lóð Sunnuhvols.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. október 2003, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Birgir Már Ragnarsson, hdl., f.h. Á og H, eigenda sumarhússins Víðilundar í landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu, ákvarðanir byggingarnefndar og sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps og byggingarfulltrúa Árnessýslu um að veita eigendum sumarhússins Sunnuhvols leyfi til niðurrifs og nýbyggingar á lóð Sunnuhvols.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og útgefið byggingarleyfi, sem veitt hafi verið á grundvelli þeirra, verði ógilt.  Þá er þess krafist að úrskurðað verði þegar í stað að framkvæmdir, sem hafnar séu á grundvelli fyrrgreinds byggingarleyfis, verði stöðvaðar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga og 5. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um úrskurðarnefndina.

Úrskurðarnefndin gerði byggingarleyfishafa þegar viðvart um kæru í máli þessu og kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hefur byggingarleyfishafi haldið að sér höndum um framkvæmdir og hefur krafa kærenda um stöðvun þeirra því ekki þurft að koma til úrlausnar. 

Af hálfu byggingarleyfishafa og sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er krafist frávísunar máls þessa og hafa aðilar reifað málið um þá kröfu.  Hefur úrskurðarnefndin ákveðið að taka málið til úrlausnar um frávísunarkröfuna sérstaklega en eins og málið liggur nú fyrir telst það nægilega upplýst um þann þátt.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir málavöxtum og málatilbúnaði aðila að því marki sem nauðsyn ber til við úrlausn álitaefna um formhlið málsins.

Málavextir:  Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis til byggingarframkvæmda á liðlega tveggja hektara spildu úr landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu.  Á landspildu þessari standa tveir sumarbústaðir, Sunnuhvoll og Víðilundur og er hinn síðarnefndi í eigu kærenda.  Er landspildan í sameign eigenda sumarbústaðanna tveggja en afnotum er skipt samkvæmt samningi þannig að hvorum bústað fylgja afnot af sérgreindri lóð, en ágreiningur er með aðilum um skýringu á ákvæðum samnings þessa um rétt og skyldur eigendanna.

Hinn 19. mars 2003 sendu eigendur Sunnuhvols umsókn til byggingarnefndar Grímsnes- og Grafningshrepps um leyfi til byggingar nýs tvískipts sumarhúss, 115,4 m² að stærð, í stað eldra húss sem yrði rifið.  Umsókninni fylgdu teikningar af hinni nýju byggingu.  Hinn 25. mars 2003 samþykkti byggingarnefnd umsóknina og var umsækjanda tilkynnt um niðurstöðuna með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. mars 2003.  Sama dag sendi byggingarfulltrúinn kærendum máls þessa bréf með teikningum af nágrannahúsinu til fróðleiks.  Með bréfi, dags. 28. mars 2003, tilkynnti byggingarfulltrúinn umsækjendum að honum hefðu borist athugasemdir frá kærendum við útgáfu byggingarleyfisins og jafnframt að málið yrði tekið fyrir í sveitarstjórn þann 2. apríl sama ár.

Með bréfi, dags. 1. apríl 2003, gerðu kærendur athugasemdir og kváðust kæra leyfi til fyrirhugaðra byggingarframkvæmda að Sunnuhvoli og var erindinu beint að byggingarnefnd og byggingarfulltrúa.  Var tekið fram í bréfinu að kærendum hefði aldrei verið kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir og hefðu þeir fyrst séð teikningar af fyrirhuguðu húsi deginum áður, eða þann 31. mars 2003.  Lutu athugasemdir þeirra að því að húsið yrði allt of stórt.  Erindi kærenda var áréttað og reifað nánar með bréfi, dags. 2. apríl 2003.

Hinn 2. apríl 2003 var ákvörðun byggingarnefndar um að veita umrætt byggingarleyfi samþykkt í sveitastjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.

Með bréfi, dags. 22. apríl 2003, svaraði byggingarfulltrúi erindi kærenda frá 1. apríl 2003.  Var kærendum þar gerð grein fyrir samþykktum byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu.  Þá segir í bréfinu:  „Enginn ágreiningur er um að þið eigið land sitt hvoru megin við lækinn og nægjanlegt bil er á milli húsanna“  Ennfremur segir í bréfinu: „Varðandi kæruna á byggingarleyfinu þá hefur byggingarleyfið ekki verið gefið út enn.  Ef kæra á svona mál, þá er kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.“

Hinn 14. september 2003 mótmæltu kærendur með símskeyti framkvæmdum sem þá voru hafnar til undirbúnings byggingarframkvæmdum samkvæmt hinu umdeilda leyfi.  Skutu kærendur málinu loks til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 22. október 2003, en þá höfðu byggingarleyfishafar þegar lokið við að rífa eldra hús og var framkvæmdum við sökkul nýbyggingar að mestu lokið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að taka beri mál þetta til efnisúrlausnar þrátt fyrir að kærufrestur skv. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi verið liðinn þegar kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni.  Vísa kærendur í þessu sambandi til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggja þeir í fyrsta lagi á því að samkvæmt gögnum málsins liggi fyrir að með bréfum, dags. 1. og 2. apríl 2003, hafi kærendur kært umrædda málsmeðferð og veitingu byggingarleyfis.  Hinn 2. apríl 2003 hafi sveitastjórn samþykkt umrædda beiðni um byggingarleyfi.  Bréf kærenda þar sem umrædd ákvörðun hafi verið kærð hafi því borist byggingarnefnd og byggingarfulltrúa innan kærufrests samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Í 7. gr. stjórnsýslulaga sé fjallað um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds og í 2. mgr. ákvæðisins komi fram að berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snerti starfssvið þess, beri því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt sé.  Byggingarfulltrúinn hafi ekki framsent kæru þá sem honum hafi borist frá kærendum til úrskurðarnefndarinnar, líkt og honum hafi borið samkvæmt stjórnsýslulögum.  Hann hafi látið það nægja að benda kærendum á að kæra skyldi til úrskurðarnefndarinnar.  Með því hafi hann ekki sinnt lögboðinni skyldu sinni, en hefði hann gert það þá sé ljóst að kæran hefði borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests.  Telji kærendur í ljósi þessa afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. 

Í öðru lagi byggja kærendur á því að ákvarðanir byggingaryfirvalda hafi ekki verið birtar þeim með fullnægjandi hætti.  Samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nái hugtakið aðili máls ekki aðeins til þeirra sem séu beinir aðilar að máli.   Með tilliti til þeirra augljósu hagsmuna sem kærendur eigi af úrlausn umrædds máls um veitingu byggingarleyfis á sameignarlandi þeirra, sé ljóst að þeir teljist aðilar að meðferð þess.  Samkvæmt því hefði byggingarfulltrúa m.a. borið að gæta ákvæðis 20. gr. stjórnsýslulaga við birtingu ákvörðunar um veitingu byggingarleyfisins.  Með bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 22. apríl 2003, hafi þeim verið tilkynnt um samþykki sveitastjórnar og þeim bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar.  Samkvæmt skýru ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga hefði átt að veita kærendum, auk upplýsinga um kæruheimild og hvert ætti að beina kæru, upplýsingar um kærufresti og kærugjöld.  Þetta hafi ekki verið gert.  Í ljósi þess að kærufrestur til úrskurðarnefndar sé sérlega stuttur, eða einn mánuður, hefði verið sérstaklega mikilvægt að þessar upplýsingar kæmu fram.  Beri í því sambandi að líta til þess að byggingarfulltrúinn hafi vitað að kærendur hafi ekki verið sáttir við ákvarðanir byggingaryfirvalda, enda hefði hann móttekið kæru sem honum hefði borið að framsenda til úrskurðarnefndarinnar. 

Þá benda kærendur á að í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2003, segi að byggingarleyfið hafi ekki enn verið gefið út.  Telji kærendur að upplýsingar þessar séu beinlínis villandi og til þess fallnar að valda þeim misskilningi að ekki skuli kæra fyrr en byggingarleyfi liggi fyrir.  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga og ákvæðum byggingarreglugerðar og reglugerðar um úrskurðarnefndina, miðist upphaf kærufrest við ákvörðun sveitarstjórnar.  Með hliðsjón af ummælum byggingarfulltrúans hafi kærendur haft réttmæta ástæðu til að ætla að ekki þyrfti að huga að kærumálum fyrr en byggingarleyfi lægi fyrir. 

Telja kærendur í ljósi alls framangreinds að það sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr.  Beri í þessu sambandi að líta sérstaklega til þess að kærendur séu ekki löglærðir aðilar og ekki meðvitaðir um hinn stutta kærufrest, auk þess sem þau hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að málið væri til meðferðar á grundvelli fyrri kæru þeirra.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Sveitarfélagið krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni og vísar til 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem fram komi að vitneskja um samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar marki upphaf kærufrests til úrskurðarnefndar.  Frá því tímamarki hafi viðkomandi einn mánuð til að skjóta málinu til nefndarinnar.  Þegar gögn málsins séu skoðuð komi glöggt fram að kærendum hafi verið kunnugt um afgreiðslu byggingarnefndar, sveitarstjórnar og byggingarleyfi vegna framkvæmdanna áður en kærufrestur til úrskurðarnefndar hafi runnið út. 

Sveitarfélagið hafnar sjónarmiðum kærenda þess efnis að byggingarfulltrúi hafi ekki fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni og hafi afvegaleitt kærendur með upplýsingum um óútgefið byggingarleyfi.  Hið rétta sé að með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2003, hafi kærendum verið formlega tilkynnt um samþykkt byggingarnefndar og sveitarstjórnar.  Þar sem kærendur hafi áður sent inn „kæru á byggingarleyfi“ hafi þau verið upplýst um að byggingarleyfi hefði ekki enn verið gefið út og þeim bent á að ef kæra ætti mál sem þessi ætti að beina kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Óumdeilt sé að kærendum hafi með greindu bréfi verið tilkynnt um samþykkt byggingarnefndar og sveitarstjórnar, eins og reyndar tekið sé fram í kæru lögmanns kærenda til úrskurðarnefndar.  Ekkert meira hafi þurft til að koma.  Þar með liggi fyrir að frá þeirri stundu hafi kærendum verið kunnugt um greindar samþykktir, sem þau hafi nú kært. 

Þá er á það bent af hálfu sveitarfélagsins að byggingarfulltrúi hafi að öllu leyti uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Bréf kærenda frá 1. og 2. apríl 2003 hafi falið í sér athugasemdir varðandi óútgefið byggingarleyfi.  Byggingarfulltrúi hafi upplýst um að byggingarleyfið hefði ekki verið gefið út og hafi leiðbeint þeim um hvert þau gætu kært málið.  Engin skylda hafi hvílt á byggingarfulltrúa að framsenda bréf þeirra til úrskurðarnefndar, enda hafi þessi bréf verið á misskilningi byggð.  Eðlilegt hafi því verið að líta á bréfin sem athugasemdir við fyrirhugað byggingarleyfi en ekki kæru á samþykkt sveitarstjórnar, sem ekki hafi legið fyrir þegar bréfin hafi verið rituð.  Einnig verði að hafa í huga við umfjöllun um meintan misskilning kærenda að þau hafi tilkynnt sjálf í fyrrgreindum bréfum sínum til byggingarfulltrúa að þau nytu lögfræðilegrar aðstoðar og hafi nafngreint lögmann sinn.

Þá sé umfjöllun í kæru um ólögmæta birtingu á samþykkt byggingarnefndar og sveitarstjórnar á misskilningi byggð.  Óumdeilt sé að kærendum hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 22. apríl 2003, um samþykktir byggingaryfirvalda í sveitarfélaginu og jafnframt sérstaklega bent á hvert ætti að beina kæru vegna málsins. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafar krefjast frávísunar málsins.  Ljóst sé af málsgögnum að kærendum hafi verið kunnugt um hið kærða byggingarleyfi frá í apríl 2003.  Kæra berist engu að síður ekki fyrr en seint í október 2003.  Þar með sé lögbundinn mánaðar kærufrestur löngu liðinn.  Eins og fram komi í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga geti sá sem telji rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar skotið máli sínu til úrskurðarnefndar innan mánaðar frá því að honum sé orðið kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Ljóst megi telja af kærunni að mánuður hafi verið liðinn frá því að kærendum hafi verið ljóst að sveitarstjórn hafði samþykkt byggingarleyfi.  Það komi fram í bréfum og símtölum milli byggingarfulltrúa og kærenda.  Samkvæmt orðalagi í ákvæðinu sjálfu sé nægilegt að kæranda sé kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Í máli þessu liggi fyrir að kærendur hafi vitað um afgreiðslu sveitarstjórnar fljótlega eftir að málið hafi verið afgreitt í sveitarstjórn.  Öllum tilvísunum til þess að kærendur séu ekki löglærðir sé hafnað. 

Byggingarleyfishafar fallast ekki á þá túlkun kærenda að byggingarfulltrúa hafi borið skylda til að senda mótmæli við umsókn um byggingarleyfi sjálfkrafa áfram sem kæru hins útgefna leyfis.  Byggingarfulltrúa hafi verið rétt að líta á bréf kærenda sem mótmæli við umsókn um byggingarleyfi, en ekki kæru á samþykkt sveitarstjórnar, enda hafi sú samþykkt þá ekki legið fyrir.  Því hafi honum ekki borið að framsenda erindið til úrskurðarnefndarinnar.  Byggingarleyfishafar mótmæla einnig rökum varðandi ólögmæta birtingu.  Samkvæmt skýru ákvæði laganna sé nægilegt að aðila sé kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Ekki sé gerð krafa um formlega birtingu og því nægilegt að sannað sé að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðunina.  Mótmælt sé að 20. gr. stjórnsýslulaga eigi við, m.a. með hliðsjón af því að fyrir liggi að kærendur hafi notið aðstoðar lögmanns. 

Andsvör kærenda við málsrökum byggingarleyfishafa:  Kærendum var gefinn kostur á að koma að andsvörum vegna umsagnar byggingarleyfishafa og bárust þau úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 28. nóvember 2003.  Benda kærendur þar á að því hafi ekki verið haldið fram af þeirra hálfu að þeim hafi ekki verið kunnugt um afgreiðslu sveitastjórnar í lok apríl sl., en aftur á móti eigi tiltekin sjónarmið að leiða til þess að kæra þeirra sé tekin til greina, þ.e. annars vegar vegna þess að þeir hafi á þeim tíma þegar sent kæru og hins vegar vegna þess að birting stjórnsýsluákvörðunarinnar hafi verið ólögmæt. 

Kærendur mótmæla því að þeir hafi notið aðstoðar lögmanns enda hafi þeir aðeins notið aðstoðar lögmanns á tilteknum stigum málsins.  Þar fyrir utan sé það alþekkt í stjórnsýslurétti að það, að aðili njóti aðstoðar lögmanns, leysi stjórnvald á engan hátt undan því að sinna störfum sínum og leiðbeiningarskyldu í samræmi við lög.  Á það sé sérstaklega bent að umrædd ákvæði í skipulags- og byggingarlögum séu flókin og því mikilvægt að vandað sé til leiðbeininga hvað þau varði.

Loks hafna kærendur því að byggingarfulltrúi hafi mátt líta á kæru þeirra sem eitthvað annað en kæru.  Það komi greinilega fram í kærunni hvað um sé að ræða. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið ritaði byggingarfullrúi kærendum bréf, dags. 22. apríl 2003, þar sem fram kemur að byggingarnefnd hafi samþykkt teikningar að nýbyggingu og niðurrif eldra húss að Sunnuhvoli og að þessar ákvarðanir hafi verið staðfestar af sveitarstjórn 2. apríl 2003.  Þá kemur fram í bréfinu að kæra beri mál af þessu tagi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Óumdeilt er að kærendum barst umrætt bréf fljótlega eftir dagsetningu þess.

Fallast má á með kærendum að nokkrir annmarkar hafi verið á svari byggingarfulltrúans í nefndu bréfi og hafi m.a. verið villandi að taka fram að byggingarleyfi hefði ekki enn verið gefið út í því samhengi sem hér um ræðir, enda gátu þær upplýsingar verið til þess fallnar að villa um fyrir kærendum um upphaf kærufrests.  Einnig skorti á að getið væri um kærufrest.

Af umræddu bréfi verður ráðið að byggingarfulltrúi og byggingarnefnd hafi ekki ætlað að sinna erindum kærenda frá 1. og 2. apríl sem kærum og að til þess hafi verið ætlast að kærendur snéru sér sjálfir til úrskurðarnefndarinnar með kæru í málinu.  Var kærendum, eftir móttöku bréfsins, ekki rétt að líta svo á að þau hefðu þegar kært með fullnægjandi hætti jafnvel þótt fallist væri á að byggingarfulltrúa hefði borið að framsenda erindi þeirra til úrskurðarnefndarinnar.  Verður því við það að miða að kæra í málinu hafi fyrst komið fram hinn 23. október 2003 þegar kæran barst úrskurðarnefndinni.

Kemur þá til úrlausnar hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist svo seint sem raun ber vitni þannig að við eigi undantekningarregla 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, um að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eins og kærendur halda fram. 

Við mat á því hvort umrætt ákvæði eigi við í hinu kærða tilviki verður að líta til þess að kærendum var kunngert um hinar kærðu ákvarðanir með bréfi hinn 22. apríl 2003 og jafnframt gerð grein fyrir því hvert beina ætti kæru í málinu.  Var kærendum eftir það í lófa lagið að leita frekari upplýsinga hjá hinu tilgreinda kærustjórnvaldi, sem hefur opna starfsstöð og leiðbeiningarskyldu.  Höfðu kærendur ítrekað tilefni til að kynna sér rétt sinn, m.a. þegar framkvæmdir hófust eða þegar sáttaviðræður aðila fóru út um þúfur.  Allt að einu héldu þeir að sér höndum í um 6 mánuði og hófust fyrst handa um kæru í málinu eftir að eigendur Sunnuhvols höfðu rifið eldra hús og hafið framkvæmdir við nýbyggingu.

Kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er einungis einn mánuður.  Er með ákvæðinu vikið frá almennri reglu stjórnsýsluréttarins um þriggja mánaða kærufrest, m.a., í því skyni að ekki ríki réttaróvissa um lögmæti ívilnandi leyfa til framkvæmda lengur en brýna nauðsyn ber til.  Verður að telja að sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggi að baki þessari sérreglu um kærufrest.

Með hliðsjón af atvikum máls og þeim sjónarmiðum sem að framin eru rakin fellst úrskurðarnefndin ekki á að þeir annmarkar sem voru á tilkynningu byggingarfulltrúa til kærenda leiði til þess að afsakanlegt verði talið að kæran í máli þessu hafi fyrst komið fram um hálfu ári eftir að kærendum var send umrædd tilkynning, en fallast má á að vanhöld um upplýsingar um hinn skerta kærufrest hefðu getað réttlætt að kæra hefði borist eftir að hann var liðinn en þó innan hóflegra tímamarka.

Engar aðrar ástæður eru fyrir hendi er þykja réttlæta hinn langa drátt sem varð á því að kært væri í máli þessu og  ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa máli þessu frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

74/2003 Kríunes

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 24, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2003, kæra íbúa að Fagranesi og Fagraholti, Vatnsenda, Kópavogi á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. september 2003 um breytingu á deiliskipulagi Kríuness, Vatnsenda, Kópavogi og á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 20. nóvember 2003 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Kríunesi, Vatnsenda þrjár íbúðir, glerhýsi og kjallara.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2003, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra E og M, f.h. íbúa að Fagranesi og Fagraholti, Vatnsenda, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. september 2003 að breyta deiliskipulagi Kríuness, Vatnsenda, Kópavogi.  Jafnframt kæra þeir ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 20. nóvember 2003 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Kríunesi, Vatnsenda þrjár íbúðir, glerhýsi og kjallara.  Samþykkt skipulagsnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 23. september 2003 og samþykkt byggingafulltrúa var staðfest af byggingarnefnd hinn 3. desember 2003 og bæjarstjórn hinn 9. desember 2003.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi til kærunnar og framkominnar kröfu.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Kópavogsbæjar um kæruefnið og með hliðsjón af framlögðum gögnum er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé nú tækt til efnisúrlausnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Kríunes að Vatnsenda, Kópavogi er einbýlishús sem stendur við Elliðavatn og hefur þar verið starfrækt heimagisting í átta herbergjum.  Þar er einnig aðstaða til fundahalda, veiðileyfi bjóðast þar til kaups og bátaleiga er á staðnum. 

Hinn 6. júní 2001 var samþykkt deiliskipulag fyrir Kríunes og fól það í sér heimild til stækkunar heimagistingar í tveimur áföngum.  Í fyrsta áfanga var gert ráð fyrir um 288 m² stækkun og í seinni áfanga um 182 m² stækkun.  Auk þess var gert ráð fyrir u.þ.b. 147 m² glerhýsi sem nýtast átti sem almennt þjónusturými.  Stækkun hússins samkvæmt deiliskipulaginu skyldi því vera um 615 m² og heildarflatarmál hússins því um 975 m², allt á einni hæð. 

Hinn 17. janúar 2003 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Kríunesi.  Framkvæmdir hófust og var að mestu lokið við að steypa undirstöður þegar byggingarnefnd ákvað á fundi hinn 16. apríl 2003 að afturkalla byggingarleyfið þar sem það var, að mati nefndarinnar, í andstöðu við deiliskipulag lóðarinnar. 

Í kjölfar afturköllunar byggingarleyfisins var unnin tillaga að nýju deiliskipulagi Kríuness og á fundi skipulagsnefndar hinn 1. júlí 2003 var samþykkt að auglýsa tillöguna.  Hún fól í sér að íbúðin sem fyrir er í húsinu yrði stækkuð auk þess sem heimilt yrði að gera þrjár nýjar íbúðir.  Undir hluta hússins yrði gert ráð fyrir kjallara þar sem yrðu m.a. bílageymslur, þvottahús og geymslur.  Grunnflötur byggingarinnar yrði óbreyttur miðað við fyrra deiliskipulag og hið sama gilti um hæð þeirra.  Bæjarráð staðfesti, í umboði bæjarstjórnar, afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 10. júlí 2003.  Tillagan var auglýst frá 25. júlí til 18. ágúst 2003 með athugasemdarfresti til 1. september s.á.  Ennfremur var athygli nágranna vakin á auglýsingunni.  Athugasemdir og ábendingar bárust frá kærendum máls þessa og voru þær lagðar fram á fundi skipulagsnefndar hinn 2. september 2003.  Á fundi nefndarinnar hinn 16. september 2003 var lögð fram umsögn bæjarskipulags, dags. 16. september 2003, og samþykkti skipulagsnefnd tillögu að breyttu deiliskipulagi Kríuness ásamt umræddri umsögn og var málinu  vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. 

Á fundi bæjarstjórnar hinn 23. september sl. samþykkti bæjarstjórn tillöguna ásamt umræddri umsögn.  Skipulagsstofnun var send deiliskipulagstillagan með bréfi, dags. 3. október 2003, og gerði stofnunin ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Sá fyrirvari var þó hafður á að frekari grein yrði gerð fyrir fjölda bílastæða á lóðinni.  Deiliskipulagsbreytingin var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. nóvember 2003 og var kærendum tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi sama dag.

Í kjölfar samþykktar á breyttu deiliskipulagi var lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 5. nóvember 2003 umsókn Kríuness ehf. um að byggja við húsið í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Umsóknin fól í sér að íbúðin sem fyrir er í húsinu yrði stækkuð ásamt því að reistar yrðu til viðbótar þrjár íbúðir í viðbyggingu við húsið.  Undir hluta viðbyggingarinnar yrði kjallari sem nýttist sem sameiginlegt rými fyrir íbúana.  Byggingarnefnd vísaði erindinu til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa að uppfylltum skilyrðum nefndarinnar, sem voru að leggja þyrfti fram eignarskiptayfirlýsingu fyrir húsið áður en unnt væri að samþykkja umsóknina.  Byggingarfulltrúi samþykkti erindið hinn 20. nóvember 2003 eftir að komið hafði verið til móts við umrædd skilyrði og staðfesti byggingarnefnd afgreiðslu hans á fundi hinn 3. desember 2003 og bæjarstjórn á fundi hinn 9. desember 2003.
Framangreindum ákvörðunum skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi hafa kærendur nú skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan er rakið. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að með hinum kærðu ákvörðunum skipulags- og byggingaryfirvalda í Kópavogi sé gengið gegn hagsmunum þeirra.  Helsti kostur fasteigna í nágrenni Kríuness sé hið friðsæla umhverfi, en með aukinni starfsemi í Kríunesi muni umferð aukast til muna.  Kærendur halda því og fram að með umræddum ákvörðunum sé brotið gegn gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem segi að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þar megi þó einnig gera ráð fyrir eðlilegri þjónustustarfsemi við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem ætla verði að hvorki muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.

Kærendur fullyrða að með hinum kærðu ákvörðunum sé gengið gegn hagsmunum þeirra, því fari svo fram sem horfi, muni umferð um sameiginlegan veg Kríuness og kærenda margfaldast.  Fyrirhuguð bygging komi til viðbótar þeirri heimagistingu sem fyrir sé rekin í Kríunesi, sölu á veiðileyfum, bátaleigu og fundaaðstöðu.  Þó í deiliskipulaginu sé ekki gert ráð fyrir að aðrir en dvalargestir heimagistingar nýti sér fundaaðstöðuna fáist ekki séð hvernig tryggt verði að farið verði eftir því. 

Kærendur vísa til þess að hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt eftir að byggingarnefnd Kópavogsbæjar hafi afturkallað byggingarleyfi fyrir stækkun íbúðarhúss Kríuness.  Því sé tillagan aðeins aðlögun deiliskipulags að byggingu sem áður var áætluð, með þeim breytingum að nú séu ráðgerðar fleiri íbúðir ásamt heimagistingunni sem þar sé þegar fyrir hendi.  Þannig séu uppfyllt stærðarákvæði heimagistingar þó svo að stefnt sé að byggingu með aðstöðu fyrir miklu umfangsmeiri rekstur.  Bæjaryfirvöld í Kópavogi séu því fyllilega meðvituð um að stefnt sé að starfsemi í Kríunesi sem sé í engu samræmi við umhverfið og allri aðkomu og aðstöðu ofviða.  Með vísan til alls framangreinds sé farið á svig við gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Kærendur benda á að í umsögn skipulagsstjóra, dags. 16. september 2003, sé gert ráð fyrir því að íbúðir hússins verði fjórar en í afgreiðslu byggingarfulltrúa á byggingarleyfinu segi að þær verði fimm.

Kærendur krefjast þess einnig að úrskurðarnefndin kveði á um ábyrgð og hugsanlega bótaskyldu bæjaryfirvalda í Kópavogi.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Kópavogsbær vísar til þess að í gildi hafi verið deiliskipulag fyrir Kríunes, dags. 20. júlí 2001.  Í því deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir íbúðarhúsi á einni hæð með heimagistingu og glerhýsi fyrir almenna þjónustu.  Heildargrunnflötur þeirra bygginga hafi verið áætlaður um 975 fermetrar.  Á landi Kríuness hafi jafnframt verið fyrirhuguð bygging hesthúss fyrir 4-6 hesta.  Tillagan hafi verið auglýst í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi engar athugasemdir eða ábendingar borist á kynningartíma skipulagstillögunnar. 

Kópavogsbær bendir á að í hinu kærða deiliskipulagi fyrir Kríunes, sé áfram gert ráð fyrir íbúðarhúsi á einni hæð með heimagistingu, glerhýsi og hesthúsi.  Heildargrunnflötur íbúðarhússins verði u.þ.b. sá hinn sami og í eldra deiliskipulagi.  Hins vegar sé, samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi, gert ráð fyrir fjórum íbúðum og kjallara í stað einnar.  Kjallarinn, sem sé 330 m² að stærð, verði nýttur sem sameiginlegt rými fyrir íbúðirnar og þar verði bílageymsla, þvottahús, geymslur og heitur pottur.  Samkvæmt deiliskipulaginu sé ekki gert ráð fyrir stækkun heimagistingarinnar. 

Miðað við reynslutölur megi reikna með þremur íbúum í hverri íbúð eða alls níu íbúum til viðbótar að Kríunesi.  Land Kríuness sé um 1,8 ha að flatarmáli og aðkoma um veg Vatnsendabýlisins (Kríunesveg), sem sé sameiginlegur með nokkrum íbúðarhúsum á svæðinu milli vatns og vegar þ.á.m. húsum kærenda.  Samkvæmt deiliskipulaginu sé fjarlægðin milli bygginga í Kríunesi og húsa kærenda að Fagraholti og Fagranesi um 80 metrar.  Land Fagraness sé um 8.500 m² að flatarmáli og Fagraholts um 1.500 m².  Fjarlægð milli aðkomuvegarins og Fagraholts sé um 45 metrar og milli Fagraness og vegarins um 75 metrar.  Landrými milli umræddra bygginga á svæðinu sé því mikið og verði ekki með góðu móti séð að umrædd fjölgun íbúða raski högum nágranna eða valdi skaða á umhverfi Fagraholts og Fagraness.

Kópavogsbær bendir á að vatnið og svæðið umhverfis það sé mikið nýtt til útivistar af Kópavogsbúum sem öðrum.  Veiði hafi verið stunduð í Elliðavatni um ómuna tíð og til skamms tíma hafi einnig verið rekin bátaleiga við vatnið.  Þetta séu þættir sem geri svæðið eftirsóknarverðara fyrir íbúana sem þar búa svo og aðra er þangað sæki.  Heimagistingin sé þáttur í ferðaþjónustu og því hafi ábúendur að Kríunesi tekið að sér sölu veiðileyfa og bátaleigu fyrir Vatnsendabýlið. 

Kópavogsbær vekur athygli á frávikum varðandi stærð húsbyggingarinnar annars vegar á deiliskipulagsuppdrættinum og á samþykktum teikningum hins vegar en þar sem stærðir á skipulagsuppdrætti séu sagðar „u.þ.b.” hafi byggingarnefnd metið það svo að þessar stærðarviðmiðanir væru innan eðlilegra vikmarka.

Kópavogsbær vill sérstaklega taka fram að meinlega prentvilla sé bæði í fundargerð byggingarnefndar og í bréfum varðandi byggingarleyfið þar sem segi að leyfi hafi verið veitt fyrir fimm íbúðum í húsinu.  Þetta sé ekki rétt enda megi af gögnum málsins glöggt greina að samþykkt hafi verið að byggja við húsið og fjölga íbúðum um þrjár þannig að þær verði samtals fjórar.  Byggingarfulltrúi muni leggja fram leiðréttingar um þetta atriði á næsta reglulega fundi byggingarnefndar og tilkynna það öllum viðkomandi.

Málsrök byggingarleyfishafans:  Byggingarleyfishafinn bendir á að Vatnsendalandið hafi á undanförnum árum tekið miklum breytingum og nú sé búið að skipuleggja byggð allt í kringum Kríunes af hálfu Kópavogsbæjar og einnig í Norðlingaholti af hálfu Reykjavíkurborgar.  Á nesinu þar sem Kríunes standi hafi einnig átt sér stað miklar breytingar.  Ný hús hafi risið og fleiri eigi eftir að líta dagsins ljós samkvæmt nýju deiliskipulagi, m.a. við hlið kærenda sem verði miklu mun nær þeim en bygging sú sem rísa muni í Kríunesi. 

Byggingarleyfishafinn mótmælir fullyrðingum kærenda þess efnis að starfsemin sem að sé stefnt í Kríunesi verði í engu samræmi við nágrenni sitt og ofviða aðkomu og aðstöðu.  Þvert á móti sé Kríunes tilvalinn staður vegna stærðar og legu lóðarinnar fyrir ýmiskonar þjónustustarfsemi.

Byggingarleyfishafinn heldur því fram að allir nágrannar aðrir en kærendur séu samþykkir byggingaráformum hans og bendir á að ónæðið sem hljótist af aukinni umferð komi lítið við kærendur.  Hinn sameiginlegi vegur hans og kærenda sé langt frá húsum þeirra enda báðir með einkavegi heim til sín. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er annars vegar í máli þessu deilt um lögmæti samþykktar skipulagsnefndar hinn 16. september 2003 þess efnis að breyta deiliskipulagi Kríuness og hins vegar um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 20. nóvember 2003 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á sama stað á grundvelli fyrrnefnds deiliskipulags.  Er það megin úrlausnarefni máls þessa hvort hið umdeilda deiliskipulag og hið umdeilda byggingarleyfi samræmist ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og öðrum réttarreglum um skipulags- og byggingarmál.

Fyrir liggur í máli þessu að tillaga að deiliskipulagsbreytingunni var auglýst og málsmeðferð hagað í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ákvörðun bæjarstjórnar um hið breytta skipulag hlaut lögboðna meðferð Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 25. gr. nefndra laga og gerði stofnunin ekki athugasemdir við að breytingin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og var gildistaka hennar þar auglýst.  Verður því ekki séð að neinir þeir annmarkar hafi verið á meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar að ógildingu varði. 

Byggingarfulltrúi hefur gert grein fyrir misræmi sem fram kemur annars vegar á samþykktu deiliskipulagi og hins vegar á samþykktu byggingarleyfi hvað varðar stærð hússins.  Á deiliskipulagsuppdrættinum er fermetrafjöldi tiltekinna rýma hússins ekki nákvæmlega tilgreindur en það er aftur á móti gert í byggingarleyfinu og að mati úrskurðarnefndarinnar rúmast frávik þessi innan heimildar deiliskipulagsins.

Þá hefur og byggingarfulltrúi gert grein fyrir misritun í fundargerð byggingarnefndar hinn 3. desember 2003 og útsendum gögnum þess efnis að heimilt verði að bæta við í Kríunesi fimm íbúðum en ekki þremur eins og fram kemur í byggingarleyfisumsókn og samþykktum teikningum.  Þykir ekki ástæða til að gera athugasemd vegna þessa þar sem um augljósa misritun er að ræða sem þegar hefur verið lagfærð í fundargerð byggingarnefndar hinn 17. desember 2003. 

Kærendur styðja kröfu sína um ógildingu hins kærða deiliskipulags og hins kærða byggingarleyfis þeim rökum að heimilaðar framkvæmdir raski óhæfilega hagsmunum þeirra sem nágranna. 

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2000–2012 stendur hluti lóðar Kríuness á íbúðarsvæði en heildarstærð lóðarinnar er 1,8 ha og talsverð fjarlægð er í næstu íbúðarhús enda svæðið nokkuð stjálbýlt.  Heildarflatarmál hússins samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er 1.354 m² eftir stækkun þess en reitur undir íbúðarhúsið samkvæmt aðalskipulaginu er 3.150 m².  Nýtingarhlutfall lóðarinnar verður því innan þeirra marka sem kveðið er á um í aðalskipulaginu, eða 0,43.  Þá er byggingarreitur og grunnflötur bygginganna eftir breytingu sá hinn sami og var samkvæmt eldra deiliskipulagi. 

Samkvæmt framangreindu er byggingarmagni á umræddri lóð í hóf stillt og nýting hennar að öðru leyti ekki meiri en búast má við með tilliti til stærðar lóðarinnar og þess sem gert hafði verið ráð fyrir í eldra skipulagi.  Ekki verður séð að aukin umferð vegna stækkunar hússins að Kríunesi leiði til ógildingar hins kærða deiliskipulags og byggingarleyfis í ljósi þess að kærendur búa í nokkurri fjarlægð frá vegi þeim sem umferð að Kríunesi fer um og játa verður lóðarhafanum eðlilega nýtingu lóðar sinnar þótt af því kunni að hljótast aukin umferð.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að hið umdeilda deiliskipulag eða byggingarleyfið sem sækir stoð sína í það, valdi kærendum slíku óhagræði eða röskun að ógilda beri þær ákvarðanir.

Í tilefni af kröfu kærenda um að úrskurðarnefndin kveði á um ábyrgð og hugsanlega bótaskyldu bæjaryfirvalda í Kópavogi vegna hinna umdeildu framkvæmda skal bent á að samkvæmt 3. mgr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga er það ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til bótaábyrgðar vegna gildistöku skipulagsáætlana.  Verður því ekki tekin afstaða til þess álitaefnis í úrskurði þessum.

Með hliðsjón af framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hafna beri kröfum kærenda um ógildingu umdeildra ákvarðana. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 16. september 2003 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 20. nóvember 2003 verði felldar úr gildi.

____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Óðinn Elísson                    

72/2003 Stakkahlíð

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2003, kæra íbúa að Bogahlíð 8 og 10 í Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. október 2003 að heimila niðurrif verslunarhúss á lóðinni að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og  ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2003 um að veita leyfi til þess reisa tvílyft steinsteypt fjölbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur  

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. desember 2003, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar,  kæra Ö og A, f.h. íbúa í Bogahlíð nr. 8 og 10 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 15. október 2003, sem staðfest var í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. nóvember s.á., að heimila niðurrif verslunarhúss á lóðinni að Stakkahlíð 17 í Reykjavík og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. nóvember 2003, sem staðfest var í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 20. nóvember s.á., að veita leyfi til þess að reisa tvílyft steinsteypt fjölbýlishús með 10 íbúðum á sömu lóð.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og jafnframt hefur með bréfi, dags 10. desember 2003, verið farið fram á að heimilaðar framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum verði stöðvaðar þar til málalyktir fáist um hið kærða byggingarleyfi.

Úrskurðarnefndin hefur aflað gagna og leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Reykjavík til fyrirliggjandi kröfu um stöðvun framkvæmda og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Mál þetta hefur haft nokkurn aðdraganda og hafa deilur um niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 og byggingarleyfi fyrir nýju húsi á lóðinni komið áður til kasta úrskurðarnefndarinnar. 

Vorið 2001 kom fram ósk eiganda húseignarinnar að Stakkahlíð 17 um að aðalskipulagi Reykjavíkur yrði breytt þannig að lóð hússins, sem væri verslunarlóð samkvæmt skipulaginu, yrði breytt í íbúðarlóð og í framhaldi af breytingunni yrði heimilað að breyta verslunarhúsi því sem á lóðinni væri í íbúðarhús.  Borgaryfirvöld tóku jákvætt í erindið og var umbeðin breyting aðalskipulags undirbúin og samþykkt af borgaryfirvöldum í ágúst 2002.  Var skipulagsbreytingin staðfest af umhverfisráðherra hinn 11. október 2002.

Samhliða meðferð tillögu að framangreindri breytingu aðalskipulags var unnið að tillögum að endurbyggingu húss á lóðinni.  Var horfið frá því að breyta húsi því er fyrir var á lóðinni og þess í stað lagt til að það yrði rifið og nýtt hús reist í þess stað.  Voru tillögur þessar kynntar nágrönnum og um þær fjallað á fjölmörgum fundum byggingaryfirvalda og verður af málsgögnum ráðið að þær hafi verið í stöðugri endurskoðun allt þar til ákvörðun var tekin um að veita hið umdeilda byggingarleyfi á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. október 2002.  Kærendur töldu að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hefði verið áfátt og að leyft hefði verið meira byggingarmagn á lóðinni en unnt væri að sætta sig við.  Skutu þeir málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 4. desember 2002, svo sem að framan greinir.

Með úrskurði, uppkveðnum 31. janúar 2003, stöðvaði úrskurðarnefndin framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 að kröfu íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6, sem einnig höfðu kært hina umdeildu ákvörðun.  Taldi úrskurðarnefndin slíka annmarka vera á hinni kærðu ákvörðun að líklegt væri að hún yrði ógilt.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. febrúar 2003 var framangreindur úrskurður um stöðvun framkvæmda lagður fram.  Jafnframt var á fundinum ákveðið að afturkalla hið umdeilda byggingarleyfi frá 16. október 2002 og veita að nýju leyfi fyrir sömu framkvæmdum á lóðinni.  Voru ákvarðanir þessar staðfestar á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 20. febrúar 2003.

Eftir að afturköllun byggingarleyfisins frá 16. október lá fyrir vísaði úrskurðarnefndin máli kærenda vegna þess byggingarleyfis frá með úrskurði uppkveðnum hinn 21. febrúar 2003.  Kærendur skutu síðan veitingu byggingarleyfisins frá 5. febrúar 2003 til úrskurðarnefndarinnar.

Byggingarleyfið frá 5. febrúar 2003 var jafnframt kært af íbúum Bogahlíðar 2, 4 og 6 sem kröfðust þess að fyrirhugaðar framkvæmdir við niðurrif hússins að Stakkahlíð 17 yrðu stöðvaðar meðan kærumálið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Var bráðabirgðaúrskurður kveðinn upp hinn 3. apríl 2003 þar sem fallist var á kröfu um stöðvun framkvæmda við niðurrif hússins meðan beðið væri efnisúrlausnar í kærumálinu.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. apríl 2003 var lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að deiliskipulagi umrædds svæðis.  Samþykkti nefndin að kynna tillöguna fyrir hagsmunaðilum á svæðinu áður en endanleg tillaga yrði unnin.  Var tillagan í kynningu frá 22. apríl til 6. maí.  Fimm athugasemdabréf bárust vegna tillögunnar og voru þær kynntar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 9. maí 2003.  Tillagan var á ný lögð fyrir fund nefndarinnar þann 14. maí s.á. ásamt samantekt skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar, dags. 12. maí 2003, og umsögn verkfræðistofu umhverfis- og tæknisviðs um umferðarmál, dags. 15. apríl 2003.  Á fundinum var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 20. maí 2003.  Var tillagan auglýst til kynningar frá 30. maí með athugasemdafresti til 11. júlí og bárust fimm bréf með athugasemdum við hina auglýstu tillögu.

Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 27. ágúst 2003 og voru framkomnar athugasemdir kynntar og lagt fram minnisblað, dags. 25. ágúst 2003, frá fundi formanns skipulags- og byggingarnefndar og eins íbúa í Bogahlíð 2-6, dags. 25. ágúst 2003.  Tillagan var á ný tekin fyrir á fundi nefndarinnar hinn 3. september 2003 auk framangreindra gagna, umsagnar skipulagsfulltrúa um athugasemdir, dags. 27. ágúst 2003, og minnisblaði, dags. 1. september 2003, um tiltekin atriði sem skipulags- og byggingarnefnd hafði óskað upplýsinga um.  Var auglýst tillaga samþykkt með þeirri breytingu að gera skyldi ráð fyrir einu stæði til viðbótar fyrir hreyfihamlaða á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð.  Beindi meirihluti nefndarinnar þeim tilmælum til hönnuðar hússins að endurskoða gluggasetningu og hönnun glugga á norður- og austurhlið hússins í nýrri umsókn um byggingarleyfi vegna framkominna athugasemda um innsýn milli húsa.  Borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti afgreiðslu skipulagstillögunnar á fundi sínum hinn 18. september 2003.

Athugasemdaraðilum var tilkynnt um lyktir málsins með bréfi, dags. 22. september 2003, og var tillagan síðan send Skipulagsstofnun til skoðunar í samræmi við 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Með bréfi, dags. 2. október 2003, tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Auglýsing þar um var birt hinn 6. október sl.

Í kjölfar samþykktar deiliskipulagsins var sótt um nýtt byggingarleyfi fyrir byggingu húss að Stakkahlíð nr. 17, niðurfellingu eldra leyfis og heimild til þess að rífa það hús sem fyrir var á lóðinni.  Breytingin frá áður samþykktu byggingarleyfi fólst í því að húsið hafði verið fært fjær húsunum við Bogahlíð um einn metra til vesturs, auk þess sem gert var ráð fyrir tveimur stæðum fyrir hreyfihamlaða á lóðinni í stað eins áður.   Þá hafði verið gerð breyting á innra fyrirkomulagi og gluggum á austur- og norðurhlið hússins. 

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 15. október 2003 og samþykkt að fella eldra byggingarleyfi úr gildi og að heimila niðurrif hússins á lóðinni og var byggingarfulltrúa falið að afgreiða byggingarleyfisumsóknina.  Borgarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum hinn 6. nóvember 2003.  Byggingarleyfisumsókn fyrir nýju húsi á lóðinni var síðan afgreidd á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 4. nóvember sl. og staðfest af borgarstjórn Reykjavíkur 20. nóvember 2003.

Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. desember 2003, sem móttekið var hinn 4. desember s.á., var tilkynnt um niðurfellingu eldra byggingarleyfis og að samþykkt hefði verið heimild til niðurrifs eldra húss og að gefið hefði verið út nýtt byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi með 10 íbúðum á lóðinni.  

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli kærenda, dags. 18. mars sl., og var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni í ljósi þess að hin kærða ákvörðun í því máli frá 5. febrúar 2003 hefði verið afturkölluð.

Kærendur hafa nú kært til úrskurðarnefndarinnar veitingu hins nýja byggingarleyfis og heimild til niðurrifs eldra húss eins og fyrr greinir.  Sú staðreynd liggur nú fyrir að verslunarhúsið að Stakkahlíð 17 var rifið og mun það hafa átt sér stað hinn 11. desember sl.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til sjónarmiða sinna sem fram hafi komið í fyrri kærumálum þeirra um sama efni til úrskurðarnefndarinnar.  Benda þeir á að þeim hafi ekki gefist tækifæri til þess að afla frekari gagna hjá borgaryfirvöldum en það muni verða gert.  Bent er á að litlar breytingar hafi verið gerðar á umdeildri nýbyggingu frá fyrri áformum og í umsögn borgarinnar í máli þessu gæti misræmis í nokkrum atriðum við staðreyndir og gögn í málinu sem kærendum hafi verið kynnt.

Af fyrri kærum og fyrirliggjandi gögnum má ráða að af hálfu kærenda sé á því byggt að tilgreint nýtingarhlutfall lóðarinnar að Stakkahlíð 17 orki tvímælis og fyrirhuguð nýbygging sé of stór með hliðsjón af stærð lóðar.  Gengið sé óhæfilega á hagsmuni nágranna með fyrirhugaðri byggingu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um að stöðvunarkröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að henni verði hafnað. 

Nefndinni beri að vísa kröfunni um stöðvun framkvæmda frá þar sem hún sé algjörlega órökstudd sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997.  Í tilvitnaðri 3. gr. komi fram að „…skilmerkilega…” skuli gerð grein fyrir því hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni.  Þrátt fyrir að ekki séu gerðar ríkar kröfur til kæru skv. almennum reglum stjórnsýslunnar verði að gera þær kröfur að málatilbúnaður kærenda sé skýr og studdur einhverjum málsástæðum.  Ófært sé að úrskurðarnefndinni sé falið það hlutverk af kærendum að búa bæði til málsástæður og lagarök.  Vonlaust sé þá fyrir aðra aðila málsins, s.s. handhafa byggingarleyfis og umsagnaraðila eins og Reykjavíkurborg, að gæta réttar síns og gefa umsögn um slíkar kærur.  Því sé alfarið hafnað að tilvísanir til fyrri kæra, sem varði aðrar ákvarðanir en hér séu kærðar, uppfylli þær lágmarkskröfur sem gera verði til stjórnsýslukæra sem varði hagsmuni annars aðila svo miklu sem hér um ræði.

Allt að einu sé ekki tilefni til að fallast á framkomna kröfu um stöðvun framkvæmda við niðurrif verslunarhúss að Stakkahlíð 17 eða framkvæmdir á lóðinni samkvæmt veittu byggingarleyfi.

Áréttað sé að húsið að Stakkahlíð nr. 17 hafi verið fært um einn metra frá kærendum til vesturs auk þess sem gluggasetningu á þeirri hlið sem snúi að þeim, þ.e. austurhliðinni, hafi verið breytt frá eldra byggingarleyfi.  Hvað almenn grenndarsjónarmið varði, hafi byggingarleyfi nýs húss að Stakkahlíð 17 ekki veruleg áhrif á hagsmuni kærenda.  Í fyrsta lagi verði það hús sem heimilt sé að byggja samkvæmt skipulaginu ekki nema um 0,8 metrum hærra en það hús sem nú standi á lóðinni.  Húsið stingi ekki í stúf við byggðamynstur svæðisins og sé lægra en flest hús á reitnum.  Lengra verði á milli húsa til austurs.  Húsið lengist til suðurs en lenging í þá átt hafi hins vegar óveruleg áhrif, m.a. þar sem húsin austan við Stakkahlíð 17, þ.m.t. hús kærenda að Bogahlíð 10, standi hærra í landi.  Þá skerðist útsýni úr íbúðum vegna byggingarinnar mjög lítið ef nokkuð umfram það sem áður hafi verið, nema hjá íbúum á 1. hæð allra húsanna.  Þá muni skuggavarp vegna hússins breytast óverulega frá því sem áður hafi verið og verði ekki meira en menn þurfi almennt að búa við í þéttbýli.  Breyting á birtuskilyrðum fyrir nágrennið vegna hússins sé því nánast engin. Breyting á notkun hússins, þ.e. úr verslunarhúsnæði/félagsheimili í íbúðarhúsnæði sé til bóta fyrir nágrennið af sjónarhóli grenndarhagsmuna.  Hvað umferðarþáttinn varði þá liggi fyrir álit verkfræðistofu um að breytingarnar á skipulaginu og bygging hússins leiði til óverulegra breytinga á umferð.

Að öðru leyti sé vísað almennt til greinargerðar Reykjavíkurborgar frá 1. desember sl., sem lögð hafi verið fram vegna kæru annarra aðila um sömu ákvarðanir og fylgiskjala með henni.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Kröfu um stöðvun framkvæmda á lóðinni að Stakkahlíð 17 er mótmælt af hálfu byggingarleyfishafa.  Er tekið undir rök og sjónarmið Reykjavíkurborgar sem færð hafi verið fram í málinu í tilefni af þeirri kröfu.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök í málinu og hafa skírskotað til málsraka í fyrri kærumálum um sama efni er átt geti við í kærumáli þessu.  Ekki þykir þörf á að að gera nánari grein fyrir röksemdum aðila í úrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur verið sett fram krafa um frávísun á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda að Stakkahlíð 17.

Úrskurðarnefndin er stjórnvald og gilda því reglur stjórnsýsluréttarins um meðferð mála fyrir nefndinni.  Samkvæmt 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir leiðbeiningar- og rannsóknarskylda á nefndinni við meðferð mála.  Kröfugerð kærenda er ótvíræð um að krafist sé stöðvunar framkvæmda á umræddri lóð og hafa þeir nú í þrígang kært heimild til niðurrifs verslunarhússins að Stakkahlíð 17 og byggingarleyfi fyrir nýju húsi, og mikill fjöldi gagna liggur fyrir um málsatvik og sjónarmið þeirra.  Í kærubréfi, dags. 4. desember 2003, og erindi, dags. 10. desember s.á. kemur fram að kærendur hafi ekki haft tækifæri til þess að afla gagna hjá borgaryfirvöldum en hyggist gera það og lýsa sig reiðubúna til frekari upplýsingagjafar og gagnaöflunar í þágu málsins.  Að þessu virtu verður kröfu kærenda í þessum þætti málsins ekki vísað frá sökum vanreifunar.

Eins og rakið hefur verið hefur hús það sem fyrir var á lóðinni að Stakkahlíð 17 nú verið rifið, en á þeim tíma var í gildi úrskurður úrskurðarnefndarinnar um stöðvun framkvæmda við niðurrif hússins, sem kveðinn var upp hinn 3. apríl 2003 í tilefni af kröfu íbúa að Bogahlíð 2, 4 og 6 þar um, í kærumáli þeirra vegna heimildar borgaryfirvalda til niðurrifs hússins frá 5. febrúar 2003.  Eins og málum er nú háttað er ekki tilefni til að taka afstöðu til fyrirliggjandi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við niðurrif og er kröfu þeirra þess efnis vísað frá úrskurðarnefndinni.

Stendur þá eftir krafa kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar hafa verið með veitingu byggingarleyfis fyrir fjölbýlishúsi með 10 íbúðum á umræddri lóð hinn 4. nóvember 2003, sem borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti hinn 20. nóvember sl.

Nýtingarhlutfall íbúðarhúsalóða á umræddum skipulagsreit virðist vera nokkuð hátt og eru dæmi um að nýtingarhlutfallið fari yfir 1,0 á einstökum lóðum.  Aðilar greinir á um forsendur útreiknings nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Stakkahlíð 17, m.a. vegna tveggja metra breiðs göngustígs sem liggur við lóðarmörk Stakkahlíðar 17.  Samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi mun hæð fyrirhugaðs húss vera um 0,8 metrum meiri en hæð húss þess sem fyrir var á lóðinni og mun fjarlægð milli húsa verða um 20 metrar.  Gert er ráð fyrir bílastæðageymslu neðanjarðar á lóðinni fyrir 15 bíla. 

Hið umdeilda byggingarleyfi á sér stoð í deiliskipulagsákvörðun þeirri sem staðfest var í borgarstjórn hinn 6. nóvember sl. og virðist nýtingarhlutfall lóðarinnar að Stakkahlíð 17 ekki skera sig verulega úr samanborið við nýtingarhlutfall nágrannalóða undir fjölbýlishús.

Með hliðsjón af framanrituðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að byggingarmagn á lóðinni sé ekki slíkt að umfangi og raski ekki grenndarhagsmunum nágranna í þeim mæli að fallist verði á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við niðurrif verslunarhúss á lóðinni nr. 17 við Stakkahlíð í Reykjavík, sem borgarstjórn Reykjavíkur heimilaði hinn 15. október 2003, er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Þá er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt byggingarleyfi frá 4. nóvember 2003, er borgarstjórn staðfesti hinn 20. nóvember s.á.  hafnað.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir