Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2003 Hverfisgata

Ár 2003, mánudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2003, kæra eiganda húseignarinnar að Sunnuvegi 1, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Hverfisgötu 57, Hafnarfirði.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. nóvember 2003, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Ó, Sunnuvegi 1, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 að veita leyfi til að byggja við húsið nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda í Hafnarfirði til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og gögn frá Hafnarfjarðarbæ varðandi kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málavöxtum verður hér aðeins lýst stuttlega að því marki er þurfa þykir við úrlausn um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Í húsinu nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði eru tvær íbúðir, lítil íbúð í kjallara og önnur stærri á aðalhæðinni og í risinu.  Bílskúr er áfastur húsinu og stendur hann í sömu hæð og kjallarinn. 

Í maí árið 2001 fóru eigendur miðhæðarinnar og rissins fram á heimild byggingarnefndar Hafnarfjarðar til að byggja við húsið.  Beiðni þeirra laut að stækkun hússins á þann veg að ofan á bílskúrinn yrði byggð 18,4 m² stór stofa og í henni miðri yrði lokað eldstæði.  Beiðninni var vísað til skipulags- og umferðarnefndar sem grenndarkynnti hana frá 10. september 2002 til 9. október sama ár.  Engar athugasemdir bárust og með vísan til þess gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 23. október 2002. 

Hinn 28. mars 2003 veitti byggingarfulltrúi heimild til þess að byggðar yrðu svalir ofan á viðbygginguna samkvæmt ósk byggingarleyfishafans og í staðfestingu byggingarnefndar á embættisafgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 8. apríl 2003 segir að lagt hafi verið fram bréf nágranna, dags. 23. október 2002, vegna málsins.  Með þessari afgreiðslu virðist sem hið fyrra byggingarleyfi vegna viðbyggingarinnar hafi verið fellt úr gildi og nýtt gefið út sem gilti bæði vegna viðbyggingarinnar og svalanna.

Í máli þessu liggur fyrir að eigendaskipti urðu á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september 2003, en þá eignaðist kærandi máls þessa fasteignina.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2003, kærði kærandi samþykkt byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að staðsetning viðbyggingar þeirrar sem hér um ræðir sé í andstöðu við IV. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, nánar tiltekið 1.–6. tl. 75. gr., þar sem kveðið er á um fjarlægð húsa frá lóðarmörkum, bil milli húsa o.fl.  Staðsetning viðbyggingarinnar brjóti gegn kvöð lóðarleigu-samnings sem þinglýst sé á fasteignina nr. 57 við Hverfisgötu, þess efnis að ekki verði byggð viðbygging eða sambærileg mannvirki nær Sunnuvegi 1 en nemi 6,30 metrum.  Kvöð þessari hafi ekki verið þinglýst á Sunnuveg 1.

Kvörtun kæranda beinist einnig að svölum sem ætlunin sé að byggja og hafin sé bygging á en þær hafi ekki verið á þeirri teikningu sem lögð var fram í grenndarkynningu.  Svalir þessar hafi því hvorki verið kynntar nágrönnum né hlotið samþykki þeirra og því sé tilvísun byggingarnefndar í fundargerð hinn 8. apríl 2003 í bréf nágranna markleysa, enda sé í því bréfi hvergi fjallað um svalir á viðbyggingunni.

Kærandi heldur því fram að skorsteinn vegna arins í viðbyggingunni hafi verið færður og sé ekki byggður samkvæmt samþykktu byggingarleyfi. 

Þá bendir kærandi á að samkvæmt teikningu vegna viðbyggingarinnar, dags. 23. október 2002, verði samþykktin ekki virk fyrr en eftir skráningu eignaskiptayfirlýsingar hjá Fasteignamati ríkisins og þinglýsingu hennar.  Af veðbókarvottorðum Hverfisgötu 57 verði ekki séð að sú þinglýsing hafi átt sér stað.

Kærandi bendir ennfremur á að framkvæmdir séu samþykktar hinn 28. mars 2003 á lóð sem sé 225 m2.  Með lóðarleigusamningi, dags. 22. september 2003, sé lóðin stækkuð að því er virðist á kostnað lóðar Sunnuvegar 1 sem rýri þá eign að miklum mun.

Varðandi framkvæmdirnar almennt fullyrðir kærandi að gluggi á brunavegg rýri nýtingarmöguleika lóðar hans auk þess sem hann auki eldhættu.  Frá svölum viðbyggingarinnar sjáist vel inn í íbúð hans, skorsteinninn valdi reykmengun í garði hans, svefnherbergi og stofu auk þess sem af honum stafi brunahætta.  Svalir á viðbyggingunni séu nánast „yfir“ steyptum palli við útgang úr stofu hans út í garðinn og gjörbreyti því möguleikum til útivistar á þeim palli.

Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar:  Embætti byggingarfulltrúa í Hafnarfirði hefur komið til úrskurðarnefndarinnar gögnum vegna málsins en ekki greint sérstaklega frá sjónarmiðum bæjarins vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Fyrir úrskurðarnefndina lagði byggingarleyfis-hafinn ítarlega greinargerð og verða helstu sjónarmið hans rakin að því marki er þau varða kæruefnið. 

Byggingarleyfishafinn mótmælir því að framkvæmdir verði stöðvaðar og krefst þess að kærunni verði vísað frá því núverandi eigandi Sunnuvegar 1 hafi á þeim tíma sem byggingarleyfið hafi verið veitt, ekki átt lögvarða hagsmuni í málinu.  Þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni hafi framkvæmdum við viðbygginguna verið að mestu lokið og hið sama eigi við þegar kærandi hafi keypt fasteignina í september 2003.  Í ágúst hafi þakdúkur verið lagður ásamt festingum fyrir svalahandriðið, hluti skorsteinsins verið kominn og með gluggasetningu og hurð á gafli hafi verið ljóst að svalir væru fyrirhugaðar á þaki viðbyggingarinnar.  Frestur til að kæra samþykktir byggingarnefnda eða sveitarstjórna sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 aðeins mánuður frá því að frá því að kæranda hafi verið kunnugt um samþykktina og því hafi kærufrestur verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni.

Hvað nýgerðan lóðarleigusamning varði þá heldur byggingarleyfishafinn því fram að með honum hafi aðeins verið staðfest lóðaskipting sem alla tíð hafi verið viðhöfð milli lóðanna að Hverfisgötu 57 og Sunnuvegar 1 og því löngu komin hefð á skiptinguna. 

Byggingarleyfishafinn telur sig á engan hátt hafa vikið frá samþykktum teikningum eða byggingarleyfi þannig að að umrædd viðbygging sé á einhvern hátt verri fyrir kærendur.  Skorsteinninn hafi verið færður því sérfræðingar þeir sem settu hann upp hafi talið að mun öruggara væri að hafa skorsteininn á brunavegg. 

Hvað varði glugga á suðurvegg þá bendir byggingarleyfishafinn á að umræddur gluggi hafi verið hafður eins vestarlega á veggnum og unnt hafi verið og óskað hafi verið eftir samþykki þáverandi eiganda Sunnuvegar 1 fyrir staðsetningu hans. 

Byggingarleyfishafinn mótmælir þeirri fullyrðingu kæranda að hinar umdeildu svalir rýri nýtingarmöguleika kæranda á fasteign hans enda komi svalirnar til með að snúa að þeim hluta lóðar Sunnuvegar 1 sem sé minnst notaður.  Byggingarleyfishafinn mótmælir einnig þeirri fullyrðingu kæranda að hinar umræddu svalir séu „yfir” steyptum palli við útgang úr stofu yfir í garð kæranda.  Byggingarleyfishafinn bendir á að hann hljóti að eiga rétt til að hagnýta sér eign sína á eðlilegan hátt, þ.m.t. réttinn til að byggja svalir og nýta þær.  Svalirnar komi einnig til með að nýtast sem neyðarútgangur. 

Niðurstaða:  Í máli þessu verður að svo stöddu aðeins fjallað um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og eins og atvikum er háttað verður ekki fallist á að stöðva beri allar framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Aftur á móti verður að telja að vafi leiki á því hvort kæranda hafi verið ljóst að þakflötur viðbyggingarinnar yrði nýttur sem svalir.  Af gögnum málsins má ætla að sá þáttur framkvæmdarinnar hafi ekki verið kynntur nágrönnum svo sem lögskylt er samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og því leikur vafi á gildi byggingarleyfisins varðandi þann þátt.  Því er fallist á að stöðva beri framkvæmdir við gerð svala og frágang utanhúss sem þeim tengjast meðan úrskurðarnefndin hefur kærumál þetta til meðferðar.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir að Hverfisgötu 57 við gerð svala og frágangur utanhúss sem þeim tengist eru stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

____________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir