Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2004 Lambalækjarflöt

Ár 2004, fimmtudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2004, kærur Daða Ágústssonar og Jóns Otta Sigurðssonar á ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Borgarbyggð.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. janúar 2004, sem barst nefndinni 14. s.m., kærir D ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Bogarbyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Borgarbyggðar hinn 15. janúar 2004. 

Sömu ákvörðun kærir J með bréfi sem úrskurðarnefndinni barst hinn 16. janúar 2004 og hafa framangreind mál verið sameinuð.  Krefjast kærendur ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfum, dags. 26. og 28. janúar 2004, krefjast kærendur þess að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærendur, sem eru eigendur sumarhúsa í landi Laufáss, hafa áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um deiliskipulag umrædds svæðis og eru þau mál til meðferðar fyrir nefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til framangreindra kærumála og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og gögn og sjónarmið Borgarbyggðar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Í lok ágúst 2003 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi í Hálsabyggð fyrir frístundahús í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Sagði í auglýsingunni að um væri að ræða stækkun skipulagssvæðis frá gildandi uppdrætti og að rými yrði fyrir fleiri frístundahús.  Kærendur eiga sumarhús á þessu svæði en munu ekki hafa orðið varir við auglýsingu umræddrar tillögu.  Var tillagan samþykkt og hófust framkvæmdir á grundvelli hennar í desember 2003.  Í umræddu skipulagi er m.a. gert ráð fyrir að reist verði smáhýsi til útleigu á svonefndri Lambalækjarflöt, sem er skammt norð-vestan við bústaði kærenda.  Á lóð nr. 5 á flötinni er gert ráð fyrir að reist verði þjónustuhús, allt að 6 metrar að hæð.  Er það einkum bygging þess sem kærendur setja fyrir sig og hafa þeir kært byggingarleyfi fyrir umræddu húsi og krafist stöðvunar framkvæmda við byggingu þess svo sem að framan er rakið.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er einkum á því byggt að með hinu umdeilda deiliskipulagi hafi verið leyfð atvinnustarfsemi á svæðinu, en þess hafi þeir ekki mátt vænta.  Ónæði muni verða af starfseminni og að auki verði fyrirhugað þjónustuhús allt of stórt og skerði útsýni.

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er kröfum kærenda mótmælt.  Er á því byggt að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við skipulags- og byggingarlög og deiliskipulag sem auglýst hafi verið og yfirfarið af  Skipulagsstofnun.  Að auki hafi starfsmenn tæknideildar bæjarins skoðað aðstæður á vettvangi og mælt fjarlægð milli húsa kærenda og hins umdeilda húss, svo og hæðarmun húsanna.  Sé hið umdeilda hús í um 150 metra fjarlægð frá því húsi kærenda sem nær standi og standi nýbyggingin að auki um 10 metrum neðar í landinu.  Byggingin muni því ekki raska hagsmunum kærenda. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 30. janúar 2004, reifar Björn L. Bergsson hrl. sjónarmið byggingarleyfishafa varðandi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Krefst hann þess að henni verði hafnað.  Telur hann kærendur ekki eiga lögvarða hagsmuni í kærumálinu.  Verði að telja að stöðvunarkrafa þeirra eigi ekki rétt á sér, enda séu hagsmunir byggingarleyfishafa margfalt meiri en hagsmunir kærenda.  Þótt framkvæmdir verði ekki stöðvaðar verði því ekki haldið fram að kærendur verði fyrir óafturtæku tjóni, enda sé engri byggð raskað né trjágróðri.  Yrði endanleg niðurstaða sú að leyfishafa væri framkvæmdin óheimil yrði húsið fjarlægt án vandkvæða.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Verða þær ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar umhverfis- og skipulagsnefndar Borgarbyggðar frá 6. janúar 2004 um að veita leyfi til að setja niður gamalt íbúðarhús sem þjónustuhús á lóð nr. 5 við Lambalækjarflöt í landi Laufáss í Borgarbyggð.  Eru jafnframt til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni kærumál þar sem deilt er um lögmæti samþykktar um deiliskipulag svæðis þess sem hér skiptir máli og kann niðurstaða í máli þessu m.a. að ráðast af úrslitum þeirra mála.  Ríkir af þessum sökum enn nokkur óvissa um málalok meðan málsrannsókn er ólokið en m.a. er fyrirhugað að kanna aðstæður á vettvangi.  Þykir að öðru jöfnu koma til álita að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda þegar aðstæður eru með þeim hætti sem að framan var lýst.

Á hitt er að líta að hús það sem um er deilt í málinu er færanlegt og verður því með hægu móti fjarlægt verði niðurstaða málsins kærendum í vil.  Ber af þessum sökum ekki nauðsyn til að verða við kröfum þeirra um stöðvun framkvæmda í því skyni að tryggja að þeir nái til fulls rétti sínum í málinu.  Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað, enda styðjast framkvæmdir byggingarleyfishafa við formlega gilt leyfi þar til bærs stjórnvalds.  Framkvæmdir samkvæmt leyfinu eru hins vegar alfarið á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan úrskurðarnefndin hefur ágreining málsaðila um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis til meðferðar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Ingibjörg Ingvadóttir