Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2003 Ingólfsstræti

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2003, kæra Atla Gíslasonar hrl., sem eiganda 4. hæðar og f.h. eigenda 2., 3. og 5. hæðar auk rishæðar að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til þess að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara atvinnuhússins á lóð nr. 5 við Ingólfsstræti.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. desember 2003, sem barst nefndinn 16. s.m. kærir Atli Gíslason hrl., sem eigandi 4. hæðar og f.h. eigenda 2., 3. og 5. hæðar auk rishæðar að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til þess að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara atvinnuhússins á lóð nr. 5 við Ingólfsstræti.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 4. desember 2003.

Kærendur krefjast þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að hún verði ómerkt og að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að taka umsóknina til afgreiðslu á nýjan leik.  Loks krefjast kærendur þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Málsatvik eru í stuttu máli þau að hinn 21. janúar 2003 sótti Eldhugi ehf. um byggingarleyfi til að innrétta kaffi- og vínveitingastað á 1. hæð og í kjallara hússins nr. 5 við Ingólfsstræti í Reykjavík.  Af málsgögnum verður ráðið að umsækjandi hafi vorið 2002 leitað afstöðu byggingaryfirvalda til erindisins og að jákvætt hafi verið tekið í erindið.  Þá liggur fyrir að deiliskipulag umrædds svæðis var tekið til endurskoðunar síðar á því ári og að þeirri endurskoðun lauk skömmu fyrir lok ársins 2002.

Framangreind umsókn var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 28. janúar 2003 og frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Málið var að nýju tekið fyrir hjá byggingarfulltrúa hinn 1. apríl 2003 og enn frestað.  Var umsækjanda m.a. bent á að leita umsagnar kærunefndar fjöleignarhúsamála um ágreining húseigenda um það hvort fyrirhuguð framkvæmd væri háð samþykki meðeigenda og að hvaða marki ef svo væri. 

Málinu var enn frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa hinn 8. apríl og 27. maí 2003 en á fundi hinn 23. september 2003 vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar.  Var á sama fundi lagt fram álit kærunefndar fjöleignarhúsamála þar sem nefndin lét í ljós það álit sitt að fyrirhuguð hagnýting eignarhluta álitsbeiðanda væri ekki háð samþykki annarra eigenda hússins.

Af hálfu Borgarskipulags var samþykkt að grenndarkynna umrædda umsókn fyrir nágrönnum og stóð kynning málsins yfir frá 1. til 30. október 2003.  Málið var að kynningu lokinni tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 12. nóvember 2003 og voru á fundinum m.a. lagðar fram fjölmargar athugasemdir sem borist höfðu.  Hinn 26. nóvember var málið tekið að nýju fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar og m.a. lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir.  Var umsóknin samþykkt með áskilnaði um samþykki heilbrigðiseftirlits, svo og um lokaúttekt byggingarfulltrúa og um prófun á hljóðvist staðarins.

Samþykkt þessi var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. desember 2003.  Skutu kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 11. desember 2003, svo sem að framan greinir.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hafa henni borist þrjár kærur frá nágrönnum þar sem sama ákvörðun er kærð og í máli þessu.  Ekki eru hins vegar hafðar uppi kröfur um stöðvun framkvæmda í umræddum málum og verða þau því ekki sameinuð máli þessu að svo stöddu.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er í stuttu máli á því byggt að ekki hafi verið heimilt að veita hið umdeilda byggingarleyfi nema með samþykki þeirra sem meðeigenda byggingarleyfishafa að fjöleignarhúsinu að Ingólfsstræti 5.  Telja þeir niðurstöðu kærunefndar fjöleignarhúsamála um þetta atriði ranga og benda á að álit kærunefndarinnar sé ekki bindandi við úrlausn málsins hjá úrskurðarnefndinni.  Þá halda kærendur því fram að hin kærða samþykkt sé í blóra við ákvæði aðal- og deiliskipulags um landnotkun o.fl.  Þá sé málsmeðferð áfátt, rannsókn m.a. ábótavant og svör við athugasemdum ófullnægjandi.  Fleiri atriði eru tilgreind sem ekki þykir ástæða til að tíunda á þessu stigi málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist í þessum þætti málsins að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði hafnað.  Sé ljóst að málsmeðferð umsóknar þeirrar sem kærð sé í málinu hafi verið til fyrirmyndar og í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga.  Þar sem uppi hafi verið ágreiningur milli eigenda í umræddu húsi um það hvort samþykki annarra eigenda þyrfti fyrir starfseminni hafi byggingarfulltrúi óskað þess að ágreiningnum yrði skotið til kærunefndar fjöleignarhúsamála. Þá hafi verið óskað eftir greinargerð varðandi hljóðvist hússins.  Þegar álit kærunefndarinnar um að ekki þyrfti samþykki meðeigenda hafi legið fyrir ásamt umsögn um hljóðvist hússins hafi byggingarfulltrúi vísað umsókninni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Þrátt fyrir að til væri deiliskipulag af reitnum, sem leyfi starfsemi þá sem hin kærða samþykkt fjalli um, auk þess sem starfsemin samræmist aðalskipulagi, hafi umsóknin verið grenndarkynnt hagsmunaaðilum á reitnum. Hafi athugasemdunum verið svarað með ítarlegri umsögn skipulagsfulltrúa. 

Í ljósi umsagnar skipulagsfulltrúa hafi umsóknin verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 26. nóvember 2003 með fyrirvörum um að heilbrigðiseftirlit samþykkti frágang framkvæmdanna og að lokaúttekt byggingarfulltrúa færi fram á staðnum, þ.m.t. prófun á því hvort hljóðvistarkröfum hefði verið mætt.  Hafi borgarstjórn staðfest afgreiðslu nefndarinnnar á fundi sínum þann 4. desember sl. og hafi athugasemdaraðilum verið tilkynnt um afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar og þeim leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.

Öðrum sjónarmiðum kærenda er hafnað með rökstuðningi sem frekari grein verður gerð fyrir við efnismeðferð málslins.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Með bréfi, dags. 18. janúar 2004, hefur Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl. komið sjónarmiðum bygginarleyfishafa á framfæri við úrskurðarnefndina.  Krefst hún þess að hafnað verði kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á því byggt að þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar séu í eign Eldhuga ehf. að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík eigi sér stoð í formlega gildu byggingarleyfi sem ekki hafi verið hnekkt.  Þá hafi kærendur ekki sýnt fram á formgalla á málsmeðferð né fært fram haldbær rök fyrir því að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Af hálfu byggingarleyfishafa er þeim málsástæðum sem fram koma í kæru alfarið hafnað.  Um þá málsástæðu kærenda að Reykjavíkurborg hafi ekki verið heimilt að samþykkja hið kærða leyfi vegna ákvæða laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 vísist til niðurstöðu kærunefndar fjöleignarhúsamála í málinu nr. 33/2002.  Þá sé því alfarið hafnað að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 2/2002 hafi nokkurt fordæmisgildi í máli þessu enda hafi umsókn sú er um hafi verið deilt í því máli ekki hlotið málsmeðferð sambærilega þeirri sem hin kærða ákvörðun hafi fengið. Þá hafi ákvæði deiliskipulags þess reits sem til umfjöllunnar hefi verið í því máli um landnotkun verið allt önnur en gildi á þeim reit þar sem Ingólfsstræti 5 standi. 

Að öðru leyti sé vísað til þeirra málsástæðna og lagaraka sem fram komi í  umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 7. nóvember 2003, og greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 29. desember 2003.

Þá er að lokum á því byggt að byggingarleyfishafi eigi ríka hagsmuni því tengda að geta haldið áfram framkvæmdum sínum við breytta nýtingu eignarhlutans á næstu vikum svo honum verði fyrr unnt að hagnýta sér eignarhluta sinn sem fram að þessu hafi staðið ónýttur.  Verði að telja hagsmuni kærenda af því að framkvæmdir verði stöðvaðar til muna minni en hagsmuni byggingarleyfishafa af því að fá þeim fram haldið.

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari röksemdir fyrir kröfum sínum og sjónarmiðum í málinu.  Hefur lögmaður byggingarleyfishafa m.a. áréttað sjónarmið sín með bréfi, dags. 28. janúar 2004.  Þá hafa stuttar athugasemdir borist frá talsmanni Reykjavíkurborgar með bréfi sem barst úrskurðarnefndinni fyrr í dag.  Verða röksemdir aðila ekki raktar hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.
 
Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingaryfirvalda um breytingu á innra fyrirkomulagi og notkun eignarhluta byggingarleyfishafa á 1. hæð og í kjallara að Ingólfsstræti 5 í Reykjavík.  Bera kærendur brigður á fyrirliggjandi álit kærunefndar fjöleignarhúsa og telja hina umdeildu breytingu á notkun eignarhlutans háða samþykki sameigenda að húsinu.  Þá telja þeir vafa leika á um að hin kærða samþykkt eigi sér fullnægjandi stoð í skipulagi.  Fleira hafa kærendur til tekið en öllum málsástæðum þeirra og sjónarmiðum er hafnað af hálfu borgaryfirvalda og byggingarleyfishafa.

Úrskurðarnefndin telur að enda þótt fyrirhugaðar framkvæmdir séu í sjálfu sér ekki stórfelldar geti hin breytta notkun haft í för með sér ærna röskun á högum kærenda komi hún til framkvæmda.  Telur úrskurðarnefndin að þörf sé frekari rannsóknar á réttarstöðu kærenda sem sameigenda að umræddu fjöleignarhúsi og á skipulagslegum forsendum hinnar kærðu ákvörðunar.  Þykir svo mikill vafi leika á um lögmæti hennar að fallast beri á kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hefur málið til meðferðar. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________       ___________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                          Ingibjörg Ingvadóttir