Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

50/2016 Melgerði

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 50/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. maí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Melgerði 32, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 1. júní 2016.

Málavextir: Lóðin sem um ræðir er á ódeiliskipulögðu svæði í vesturbæ Kópavogs. Á lóðinni sem er 800 m2 að flatarmáli, stendur einnar hæðar einbýlishús, 127,3 m2 að stærð, þar af er bílskúr 28,5 m2. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, 29. október 2015, var lögð fram umsókn um byggingarleyfi til breytinga á fasteigninni að Melgerði 34, Kópavogi. Var henni vísað til skipulagsnefndar með skírskotun til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fól umsóknin í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð yrði sólstofa við suðurhlið hússins. Ný íbúð yrði á efri hæð og húsið því tvíbýli eftir breytingu. Heildargólfflatarmál hússins með bílskúr yrði 248,6 m2, eftir breytingu sem væri aukning um 121,3 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31.

Á fundi skipulagsnefndar 9. nóvember 2015 var umsóknin lögð fram og samþykkt að grenndarkynna tillöguna samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Frestur til athugasemda var frá 23. nóvember 2015 til 21. desember s.á. Athugasemdir bárust frá tveimur aðilum, þ. á m. öðrum kærenda. Sneru þær að skuggavarpi sem kæmi til vegna hækkunar hússins að Melgerði 34 og af því tilefni var þeim sem athugasemdir höfðu gert sendar teikningar með tölvupósti 5. janúar 2016 sem sýndu skuggavarp af breyttu húsi. Á fundi skipulagsnefndar 21. mars s.á. var tillagan lögð fram að nýju, ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um þær, og hún samþykkt. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 12. apríl 2016 og var hin kynnta umsókn um byggingarleyfi samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. september s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur benda á að gerð hafi verið athugasemd af þeirra hálfu þar sem þeir hafi farið fram á skuggamælingu vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í ljósi þeirrar mælingar hafi kærendur gert athugasemd þar sem mælingin hafi sýnt fram á að framkvæmdin myndi valda miklu skuggavarpi á vesturhlið fasteignar þeirra og fyrirhugaður sólpallur á lóð þeirra yrði í skugga vegna hækkunar húss leyfishafa. Telji kærendur það óásættanlegt að rýra verðgildi eignar þeirra með aukinni skuggamyndun í garði þeirra, auk þess sem áætlanir kærenda varðandi sólpall væu í uppnámi. Um sé að ræða gamalt og rótgróið hverfi sem kærendum finnist að eigi að halda ásýnd sinni í grófum dráttum. Að bæta heilli hæð ofan á hús telji kærendur valda mikilli röskun á þeirri ásýnd. Því sé borið við að nýting umrædds húss sé ekki í samræmi við önnur hús í hverfinu þar sem það sé aðeins á einni hæð. Í götunni séu þrettán hús á einni hæð og/eða með lítið ris, líkt og húsið að Melgerði 34. Telji kærendur óþarft að rýra eignir annarra til að ná þessari stækkun, enda sé lóðin Melgerði 34 það stór að vel ætti að vera hægt að stækka húsið á annan veg en að bæta við hæð.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að umrædd breyting hafi falið í sér að byggð yrði hæð ofan á núverandi hús, anddyri stækkað og byggð sólstofa við suðurhlið hússins að Melgerði 34. Húsinu yrði breytt í tvíbýli með heildarbyggingarmagni 220,1 m2. Nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,16 í 0,31. Þar sem um sé að ræða ódeiliskipulagt svæði hafi byggingarfulltrúi vísað erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi erindið verið grenndarkynnt og athugasemdum svarað. Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju og samþykkt á fundi skipulagsnefndar 21. mars 2016, hafi sú afgreiðsla verið staðfest af bæjarráði 31. s.m og á fundi bæjarstjórnar 12. apríl s.á.

Á umræddu svæði sé nær eingöngu að finna hús á tveimur til þremur hæðum. Húsið sem standi á lóðinni Melgerði 34 sé eitt af örfáum sem eftir séu á einni hæð. Á svæðinu sé að finna lóðir með hærra nýtingarhlutfall, en meðalnýtingarhlutfall á götureitnum sé 0,28. Eftir breytingu verði byggingarmagn á lóð nr. 34 við Melgerði því ekki umtalsvert meira en það sem sé í götureitnum í dag. Umrædd breyting samrýmist að öllu leyti götumynd og yfirbragði svæðisins. Breytingin muni þó hafa í för með sér einhverja aukningu skuggavarps. Ítarleg könnun á því hafi leitt í ljós að aukið skuggavarp hefði ekki verulega íþyngjandi áhrif á nærliggjandi lóðir.

Kærendur hafi bent á að hækkun hússins muni setja áætlanir þeirra um sólpall sem eigi að ná að mörkum lóðanna nr. 32 og 34 við Melgerði í uppnám. Sé á það bent að samkvæmt f. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þurfi samþykki aðliggjandi lóðarhafa ef skjólveggur eða girðing sé nær lóðarmörkum en 1,8 m. Að auki segi í e. lið sömu greinar að pallur úr brennanlegu efni megi ekki vera nær lóðarmörkum aðliggjandi lóðar en 1,0 m. Samkvæmt framangreindu sé því ekki heimilt að reisa sólpall sem nái alveg að lóðarmörkum lóðar en auk þess þurfi samþykki lóðarhafa Melgerðis 34 ef skjólgirðingu sé ætlað að vera nær lóðarmörkum en 1,8 m. Umrædd breyting muni því ekki hafa veruleg áhrif á grenndarhagsmuni kærenda.

Athugasemdir leyfishafa: Fyrir liggi að mótmæli kærenda við fyrirhugaðar breytingar að Melgerði 34 lúti aðeins að mögulegu skuggavarpi vegna hækkun hússins gagnvart palli sem leyfishafa skiljist að eigi að vera með heitum potti sem ekki sé til staðar og ekkert samþykki sé fyrir.

Tekið sé undir sjónarmið þau sem fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar Kópavogs, dags. 21. mars 2016, en í 4. lið umsagnarinnar sé á það sé bent að við Melgerði og Borgarholtsbraut séu nær eingöngu hús á tveimur til þremur hæðum. Hús leyfishafa sé eitt örfárra sem aðeins sé á einni hæð. Meðalnýtingarhlutfall í götureitnum sé 0,28, lægst 0,13 að Borgarholtsbraut 47 og hæst 0,39 að Borgarholtsbraut 45, en nýtingarhlutfall á Melgerði 34 sé aðeins 0,16 og verði 0,31 eftir breytingu. Hækkun hússins um eina hæð sé í takt við byggðarmynstur hverfisins, byggingarstíl og hæð húsa. Það að þurfa að þola lítilsháttar skuggavarp kl. 18:00 þegar sólin sé hæst á lofti í júní ár hvert á hluta norðvesturhluta lóðarinnar nr. 32 við Melgerði geti seint talist mjög íþyngjandi og því sé fullyrðingu kærenda mótmælt sem órökstuddri að framkvæmdin muni valda miklu skuggavarpi á vesturhlið lóðar kærenda og að aukið skuggavarp muni rýra verðgildi fasteignar þeirra. Andmæli kærenda við hækkun húss leyfishafa um eina hæð sé óskiljanlegt þegar horft sé til þess að hús kærenda sé kjallari, hæð, ris og þar yfir manngengt ris, en það ris sé ekki í skráðum fermetrafjölda hússins. Nýtingarhlutfall þess húss sé 0,29. Sé á það bent að húsið nr. 28 við Melgerði sé eins og hús nr. 34 en það sé á tveimur hæðum. Steyptur stigi sé í dag í húsi leyfishafa upp á geymsluloft með steyptri plötu, en þar sé ekki ris eins og ranglega sé fullyrt í kæru. Hæsta lofthæð geymsluloftsins sé undir 1,50 m og alveg niður í 0,10 m. Af þessum frágangi verði ráðið að upphaflegur húsbyggjandi hafi í öndverðu ætlað að hafa húsið tveggja hæða eins og húsið við Melgerði 28 en hann af einhverjum ástæðum, e.t.v. vegna fjárskorts, horfið frá því. Þau 13 hús sem nefnd séu í kæru séu flest öll með risi sem í séu svefnherbergi en ekki geymslulofti eins og sé í húsi leyfishafa. Hús í grennd við hús leyfishafa séu flest tveggja hæða eða meira.

Niðurstaða:
Svæði það sem fasteignin Melgerði 34 í Kópavogi tilheyrir hefur ekki verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar og þá að undangenginni grenndarkynningu.

Svæðið sem um ræðir er fullbyggt og gamalgróið hverfi. Hús sem standa norðan megin við Melgerði, þ. á m. hús leyfishafa, eru á einni til tveimur hæðum og mörg hver með rishæð að auki. Er þau ýmist einbýlishús eða tvíbýlishús. Nýtingarhlutfall á næstu lóðum er allt frá 0,13 til 0,39 og verður nýtingarhlutfall lóðar leyfishafa 0,31 eftir breytingu. Mænishæð hússins verður einnig sambærileg mænishæð húsa á næstu lóðum. Með hliðsjón af því verður húsið eftir breytingu í samræmi við gildandi landnotkun svæðisins, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Má því ætla skuggavarp frá húsinu á næstu lóðir eftir breytinguna verði ekki annað og meira en gerist og gengur í hverfinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggja fyrir þeir ágallar á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 2. september 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu einnar hæðar ofan á núverandi einbýlishús á lóðinni Melgerði 34 í Kópavogi ásamt stækkun anddyris, byggingu sólstofu við suðurhlið þess og að breyta húsinu í tvíbýli.

115/2017 Vegamótastígur

Með

Árið 2018 miðvikudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi á nefndum lóðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra eigendur, Grettisgötu 3, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna Vegamótastígs 7 og 9. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. nóvember 2017, er barst nefndinni 23. s.m., kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fimm hæða húsi með gististað í flokki IV á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Verður kærumál þetta, sem er nr. 137/2017, sameinað þessu máli þar sem hinar kærðu ákvarðanir lúta að sömu byggingarframkvæmd og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2017 og 25. janúar 2018.

Málavextir:
Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5, svonefndan Laugavegs- og Skólavörðustígsreit, frá árinu 2002. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015 tók gildi breyting á því skipulagi þar sem heimilað var að reisa fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara að Vegamótastíg 7 og 9. Í kjallara skyldu vera bílastæði. Á lóðunum var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis og eitt stæði fyrir hverja 130 m2 hótelrýmis eða fyrir sambærilega starfsemi. Þá var gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða til nota fyrir nefndar lóðir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða hóteli á Vegamótastíg 7 og 9 auk kjallara á tveimur hæðum.

Með úrskurði, uppkveðnum 31. mars 2017, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess, í nefndum úrskurði, að eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, handan götu, sem ekki var sérstaklega ætlað að þjóna starfsemi viðkomandi byggingar, uppfyllti ekki kröfur gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. maí 2017 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir fimm hæða sambyggðum byggingum á lóðum 7 og 9 við Vegamótastíg ásamt kjallara á tveimur hæðum. Gert var ráð fyrir gististað í flokki V á efri hæðum og veitingasal fyrir allt að 130 gesti á fyrstu hæð og í efri kjallara og tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara hússins ásamt geymslurými.

Með úrskurði, uppkveðnum 6. september s.á., felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun úr gildi á þeim forsendum að fjöldi hæða bygginga á nefndum lóðum og notkun kjallararýmis færi gegn gildandi deiliskipulagi. Þá var einnig vísað til þess í nefndum úrskurði að tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða í neðri kjallara uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar, ásamt því að þinglýst kvöð á lóð nr. 7 við Vegamótastíg afmarkaði byggingarreit lóðarinnar vegna brunastiga og flóttaleiðar frá Laugavegi 18b og rýmis fyrir sorptunnur.

Í kjölfarið var sótt um takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum í grunni fyrirhugaðs húss 13. september 2017 sem var samþykkt samdægurs.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. október 2017 var samþykkt byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi með hóteli á efri hæðum og veitingastað á jarðhæð á fyrrgreindum lóðum. Á fundi borgarráðs hinn 2. nóvember s.á. var ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eftir að nýtt byggingarleyfi hafi verið gefið út hafi fleygun haldið stanslaust áfram með öllum þeim óþægindum sem því fylgi. Enn sé haldið áfram að bora undir hús þeirra án þeirra samþykkis. Þá muni fyrirhugaður veitingastaður á jarðhæð hótelsins valda kærendum miklu ónæði vegna hávaða. Þá sé mikill hæðarmunur á hinu leyfða hóteli og Grettisgötu 3 og 5 sem þýði að slík bygging verði mun hærri en áætlað hafi verið í byrjun.

Einnig sé gerð athugasemd við málsmeðferð Reykjavíkurborgar og vanvirðingu við íbúa og næstu nágranna. Aldrei hafi verið rætt við eða hlustað á kærendur og í þau skipti sem þeim hafi verið svarað hafi það verið með útúrsnúningi. Hvorki hafi verið vilji til að koma á staðinn og mæla hávaða vegna fleygunar, sem kærendur hafi þurft að búa við í sex mánuði, né að athuga skemmdir sem hafi orðið á eign kærenda.

Þá vísi kærendur til ástæðna sem raktar hafi verið í fyrri kærum þeirra vegna fyrirhugaðs hótels í málum nr. 16/2016, 17/2017 og 70/2017.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að athugasemdir kærenda snúist m.a. um hæð húsa, skuggavarp og nýtingarhlutfall, en þau atriði ráðist af ákvæðum gildandi deiliskipulags. Kærufrestur vegna þess skipulags sé löngu liðinn. Deiliskipulagið heimili fimm hæða sambyggðar byggingar auk kjallara fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði og hótel eða sambærilega starfsemi. Engin rök séu sett fram af kærendum um að verið sé að brjóta ákvæði deiliskipulags og skilmála fyrir umræddar lóðir.

Í skilmálum deiliskipulagsins segi í liðum a) og b): „Á lóðunum verða byggingar sem verða alls fimm hæðir, efsta hæð verður inndregin sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð verður undir húsunum. Hæð bygginga er til samræmis við hæð hússins við Laugaveg 18, inndregin efsta hæð Vegamótastígs 7 og 9 er í sömu hæð og inndregin efsta hæð Laugavegs 18, í kóta 38,62.“ Þá komi fram í lið k) að heimilt sé að lyftur og stigahús nái upp fyrir hámarkshæðir, þó að hámarki 3,5 m. Byggingarnefndarteikningar sýni að ekki sé farið yfir kóta deiliskipulagsskilmála. Bílastæðaþörf bygginganna sé uppfyllt en samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins skuli vera kjallari undir húsunum sem notaður verði fyrir bílastæði. Á byggingarnefndarteikningu séu sýnd fjögur bílastæði, þ. á m. tvö sérmerkt fyrir hreyfihamlaða. Í skilmálum deiliskipulagsins komi fram að ef ekki sé hægt að uppfylla bílastæðakröfur í kjallara sé heimilt að borga sig frá þeim. Á fyrstu hæð beggja húsa sé samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins gert ráð fyrir millihæð á hluta hæðarinnar. Teikningar séu í samræmi við þennan áskilnað deiliskipulagsins.

Eins og fram komi í deiliskipulaginu sé það á svæði sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 skilgreini sem Miðsvæði M1A. Í aðalskipulaginu, sem og í breytingu á því frá ágúst 2017, segi um tillögu að landnotkun á svæði M1A sem samþykkt hafi verið: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði, auk gistiþjónustu.“

Í aðalskipulagsbreytingunni frá því í ágúst 2017 komi fram að gera þurfi grein fyrir hótelum/gististöðum í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi fyrir Vegamótastíg, Grettisgötu, Klapparstíg og Laugaveg segi um Vegamótastíg 7-9 að gert sé ráð fyrir verslunum og þjónustu á 1. hæð en íbúðum og/eða ferðatengdri þjónustu/hóteli á efri hæðum.

Í kæru sé því haldið fram að í nýju byggingarleyfi komi fram heimild til að reka veitingastað í flokki III. Byggingarfulltrúi veiti ekki veitingaleyfi, hann samþykki einvörðungu uppdrætti sem geti sýnt veitingastað. Sýslumenn gefi úti rekstrarleyfi fyrir veitingarekstur að uppfylltum þeim skilyrðum sem talin séu upp í 25. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Engar ákvarðanir hafi verið teknar um veitingastað með næturopnun eins og kærendur gefi í skyn. Um starfsemi veitingastaða gildi sérstakar reglur sem borgaryfirvöld framfylgi. Aðalskipulag heimili þrenns konar opnunartíma veitingastaða á skilgreindu miðsvæði M1A og verði rekstraraðili veitingastaðar að Vegamótastíg 7-9 að hlíta skilmálum og ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma.

——–

Reykjavíkurborg var gefinn kostur á að koma að athugasemdum í kærumáli þessu en hún hefur ekki nýtt sér þann rétt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum við Vegamótastíg 7 og 9 og ákvörðun hans frá 24. október s.á., sem staðfest var af borgarráði 2. nóvember s.á., að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu hóteli ásamt veitingastað á jarðhæð á framangreindum lóðum. Varða bæði byggingarleyfin sömu byggingarframkvæmdina.

Í kjallara byggingarinnar er gert ráð fyrir fjórum bílastæðum, þar af tveimur fyrir hreyfihamlaða. Í 6. kafla byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er að finna þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við eða á lóðum bygginga sem falla undir skilyrði kaflans um algilda hönnun. Í gr. 6.2.4. segir: „Ef fjöldi bílastæða á lóð annarra bygginga en falla undir 5. og 6. mgr. er ákvarðaður í skipulagi skal lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða á lóð vera skv. töflu 6.03. Þegar um fleiri stæði er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hver byrjuð 200 stæði. Ætíð skal að lágmarki gera ráð fyrir einu stæði fyrir hreyfihamlaða.“ Samkvæmt nefndri töflu er því lágmarkskrafa fyrir heimilað hótelrými að gert verði ráð fyrir einu bílastæði á lóð. Í töflu 6.02 í sömu grein kemur fram að við veitingastaði með 1-100 sæti skuli vera eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða að lágmarki en samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir veitingasal með sætum fyrir allt að 100 manns. Þarf því eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða vegna fyrirhugaðs veitingahúss.

Lóðirnar sem um ræðir eru staðsettar á reit M1A samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Er þar m.a. gert ráð fyrir veitingastarfsemi á jarðhæð og gististarfsemi á efri hæðum. Deiliskipulag svæðisins, eftir breytingu árið 2015, gerir ráð fyrir 5 hæða byggingu sem nær yfir báðar lóðirnar með bílakjallara. Á fyrstu hæð, sem er með millilofti, er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og á efri hæðum verði íbúðir og/eða ferðatengd þjónusta/hótel. Fer hámarkshæð húss ekki yfir uppgefinn kóta í deiliskipulagi. Verður því ekki annað ráðið en að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og ákvæði byggingarreglugerðar og hafi því ekki meiri grenndaráhrif en vænta mátti samkvæmt skilmálum skipulagsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. september 2017 um að samþykkja takmarkað byggingarleyfi vegna lóðanna Vegamótastígs 7 og 9.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. október 2017, sem staðfest var í borgarráði 2. nóvember s.á, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir fimm hæða steinsteyptu húsi á lóðunum Vegamótastíg 7 og 9.

146/2017 Spítalastígur

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. febrúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 146/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Spítalastíg 8, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Spítalastíg 10 og Bergstaðastræti 17b, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Spítalastíg 8, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. desember 2017.

Málavextir:
Í gildi er deiliskipulag Bergstaðastrætisreita frá árinu 2005 með breytingum frá árunum 2007, 2011 og 2013. Samkvæmt því er heimilt að rífa skúrbyggingu á milli húsanna að Spítalastíg 8 og 10, byggja þar þriggja hæða hús í staðinn auk tveggja hæða sambyggðs bakhúss sem rísi ekki hærra en núverandi viðbygging á baklóð Spítalastígs 10. Byggja má svalir á hluta þaks bakbyggingarinnar.

Byggingarleyfisumsókn vegna Spítalastígs 8 var fyrst tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. september 2017. Var sótt um leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á einnar hæðar viðbyggingar götumegin og eina hæð að garði. Umsóknin var síðan samþykkt 10. október s.á. og lá þá fyrir umsögn Minjastofnunar, dags. 2. október 2017. Var leyfið gefið út 21. nóvember 2017. Í bókun við samþykkt leyfisins kemur fram að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Í fyrrnefndri umsögn Minjastofnunar kemur fram að húsið að Spítalastíg 8 sé að stofni til frá árinu 1906, en að viðbygging þess sé frá 1916. Með vísan til laga um menningarminjar nr. 80/2012 sé það friðað. Heimilaði stofnunin fyrir sitt leyti gerð viðbyggingar við húsið með vísan til framlagðra aðaluppdrátta frá 6. september 2017 sem væru í samræmi við heimildir í gildandi deiliskipulagi frá árinu 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem búa í aðliggjandi fasteignum við Spítalastíg 10 og Bergstaðastræti 17b, telja þær breytingar sem af leyfinu hljótist snerti eignir þeirra og hagsmuni. Með hliðsjón af c-lið greinar 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi skort á að fullnægjandi gögn hafi legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar um samþykki annara aðila en meðeigenda. Byggingarfulltrúi hafi ekki átt frumkvæði að því að tilkynna um eða veita leiðbeiningar vegna útgáfu hins kærða leyfis. Leyfishafar hafi brotið þá forsendu leyfisins að frágangur á lóðarmörkum yrði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða og byggingarfulltrúi hafi látið það átölulaust. Framkvæmdaraðilar brjóti gegn 9. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008, enda hafi þeir ekki tilkynnt um fyrirhugaðar framkvæmdir sem hafi haft í för með sér ónæði fyrir íbúa nærliggjandi húsa, m.a. vegna múrbrots og niðurrifs.

Óljóst sé af aðaluppdráttum hvort burður hinnar nýju viðbyggingu sé sóttur í aðliggjandi hús kærenda að Spítalastíg 10 og Bergstaðastræti 17b. Viðbyggingin muni loka fyrir loftræsiop á þeim gafli Spítalastígs 10 sem snúi að henni og hafi leyfishafi farið fram á að þau verði fjarlægð. Teikningar viðbyggingarinnar séu í ósamræmi við núverandi útlit hússins, en þær sýni tvo kjallaraglugga í stað þeirra fjögurra sem nú séu til staðar. Þá sé óljóst hvort svalir og handrið á þeim fari yfir þaklínu hússins að Bergstaðastræti 17b. Samþykktir aðaluppdrættir feli í sér breytingu hússins úr einbýli í fjölbýli sem nýta mætti til gististarfsemi. Slík starfsemi sé þó óheimil, enda um skipulagt íbúðarsvæði að ræða.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að umdeild byggingarleyfisumsókn hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og því hafi ekki verið þörf á sérstakri kynninu á henni. Embætti byggingarfulltrúa hafi engar skyldur að lögum til að tilkynna um upphaf framkvæmda, enda hafi embættið að öllu jöfnu ekki vitneskju um slíkt. Ekkert burðarþol verði sótt í vegg hússins að Spítalastíg 10. Ekki liggi fyrir gögn um að leyfi hafi verið gefið fyrir loftræsiopum á útvegg hússins að Spítalastíg 10 við lóðamörk þess að Spítalastíg 8 og ósamræmi í gluggasetningu á teikningum breyti engu um samþykkt hins kærða leyfis. Svalir séu sýndar skilmerkilega á teikningum og tengist þær með engum hætti Bergstaðastræti 17b. Loks sé á það bent að ekki liggi fyrir heimild til reksturs gistiheimilis að Spítalastíg 8. Séu því engin efnisrök til þess að fallast á kröfu kærenda í máli þessu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar telja sig hafa reynt að lágmarka ónæði vegna heimilaðra framkvæmda, en byggingarframkvæmdum fylgi ætíð eitthvað ónæði. Veitt byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag sem legið hafi fyrir í nokkurn tíma. Heimiluð viðbygging verði ekki áföst aðliggjandi byggingum, muni uppfylla kröfur byggingarreglugerðar og verði því sjálfberandi og hljóðeinangruð í samræmi við kröfur reglugerðarinnar. Kanna þurfi loftræsitúður á eldvarnarvegg aðliggjandi húss að Spítalastíg 10 með tilliti til ákvæða byggingarreglugerðar um eldvarnarveggi og glugga á útveggjum. Ekki verði séð að frágangur á loftristum, sem snúi að lóð Spítalastígs 8, uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Réttilega sé á það bent að á teikningar vanti glugga sem séu á núverandi byggingu og verði teikningar lagfærðar að því leyti, það snerti þó ekki viðbygginguna sem leyfið snúi að, heldur eldri hluta hússins. Svalir á 2. hæð viðbyggingar tengist hvorki Spítalastíg 10 né Bergstaðastræti 17b. Handrið svala sé í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingaráform vegna viðbyggingar við Spítalastíg 8. Umrædd lóð er deiliskipulögð og voru til staðar ónýttar heimildir til þeirrar stækkunar á viðbyggingu sem í byggingaráformunum fólust. Byggingarleyfi, sem er í samræmi við gildandi deiliskipulag, þarf ekki að kynna eða birta nágrönnum og hvílir því ekki frumkvæðisskylda á byggingarfulltrúa að tilkynna um útgáfu þeirra.

Skipulag götuhliðar að Spítalastíg er hér um ræðir gerir ráð fyrir randbyggð og því mun viðbyggingin við Spítalastíg 8 eðli máls samkvæmt standa þétt upp að húsinu Spítalastíg 10 og eru húsin nú þegar sambyggð. Deiliskipulag og samþykktir aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis skilgreina því nákvæmlega hvernig frágangi á lóðamörkum þessara lóða skuli háttað. Bókun byggingarfulltrúa um samráð um frágang getur átt við um t.d. gróður og girðingar á lóðamörkum sem ekki eru nákvæmlega útfærð í skipulagi eða á samþykktum aðaluppdráttum. Þar sem skipulag og uppdrættir útfæra þennan frágang er ekki svigrúm til annars en að fylgja þeim samþykktum. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að viðbygging sú sem hin kærða ákvörðun heimilar muni verða sjálfstæð og sjálfberandi. Þá liggur ekki fyrir að leyfi hafi staðið til þess að gera loftræsiop í gafl hússins að Spítalastíg 10 við lóðarmörk Spítalastígs 8, en um eldvarnarvegg er að ræða. Fer því um þann frágang eftir samþykktum aðaluppdráttum beggja húsa og ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. kafla 9.7 um varnir gegn útbreiðslu elds milli bygginga.

Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags má hæð bakbyggingar Spítalastígs 8 ekki rísa hærra en viðbygging við Spítalastíg 10 en byggja má svalir á hluta þaks bakbyggingarinnar. Á samþykktum aðaluppdráttum umrædds leyfis er skýringartexti sem tiltekur að hæð 2. hæðar viðbyggingarinnar við Spítalastíg 8, sem snúi að garði, skuli háð hæð bakhúss Spítalastígs 10 og eru svalir sýndar á hluta þaks hennar sem liggja nokkuð frá lóðamörkum. Gert er ráð fyrir handriði á svölunum sem er í svipuðum stíl og handrið svala hússins að Spítalastíg 10 sem snúa einnig út í bakgarð. Svalahandrið heimilaðrar viðbyggingar er nokkru hærra en þak viðbyggingarinnar að Spítalastíg 10. Skilja verður skilmála skipulagsins svo að með því að heimila svalir á þaki bakhússins við Spítalastíg 8, megi einnig gera handrið til varnar falli af svölunum. Í ljósi þess að hinar heimiluðu svalir eru á þaki bakhúss sem skal vera jafnhátt þaki aðliggjandi viðbyggingar á næstu lóð, telst ráðgert handrið svalanna vera í samræmi við heimildir gildandi deiliskipulags. Styðst sú túlkun einnig við skýringarmyndir sem eru á gildandi deiliskipulagsuppdrætti.

Upplýst hefur verið að fyrir yfirsjón vanti glugga á kjallara Spítalastígs 8 á samþykkta aðaluppdrætti en sá hluti hússins tengist ekki umdeildum framkvæmdum. Á skráningarblaði sem samþykkt var af byggingarfulltrúa samhliða aðaluppdráttum þeim sem liggja til grundvallar hinni kærðu ákvörðun kemur fram að í kjallara sé ráðgerð geymsla og að á öðrum hæðum verði íbúðir. Samræmist það landnotkunarheimildum viðkomandi lóðar samkvæmt gildandi aðalskipulagi en í gildandi deiliskipulagi er ekki tekin afstaða til þess hvort þar skuli vera sérbýli eða fjölbýli. Hið kærða byggingarleyfi felur ekki í sér heimild til gististarfsemi í hinni fyrirhuguðu viðbyggingu, en slík starfsemi er eftir atvikum háð sérstöku starfsleyfi og þarf auk þess að rúmast innan gildandi landnotkunar viðkomandi svæðis.

Samkvæmt 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða skal viðkomandi heilbrigðisnefnd fara með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur nefndin vald til beitingar þvingunarúrræða samkvæmt ákvæðum hennar. Eftir atvikum er hægt að kæra þær ákvarðanir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar varðandi hávaða vegna þeirra framkvæmda sem hér um ræðir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður því ekki fallist á ógildingarkröfu kærenda.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn vegna viðbyggingar við Spítalastíg 8, Reykjavík.

19/2016 Gvendargeisli 16

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Gvendargeisla 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð í húsinu að Gvendargeisla 16. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust 16. mars 2016.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Grafarholts austur frá árinu 2002. Í almennum skilmálum þess kemur fram að uppgefnar fermetratölur tiltekinna húsagerða séu viðmiðunartölur og að bílgeymslur og sameign reiknist ekki með í íbúðastærðum. Uppgefið nýtingarhlutfall lóða sé einnig til viðmiðunar, en miðist við heildarstærð bygginga. Fyrir einbýlishús af þeirri gerð sem hér um ræðir (H-hús) gildir þeir sérskilmálar að þau skuli vera ein til tvær hæðir, viðmiðunarflatarmál sé 215 m2 og nýtingarhlutfall lóðar 0,3. Þakform sé frjálst en mælst til þess að þök séu lágreist svo byggingar skerði ekki útsýni og varpi ekki skugga á næstu hús að óþörfu. Hámarkshæð slíkra húsa sé 7,7 m og meðalhæð norðurveggja skuli ekki vera umfram 6 m.

Með umsókn, dags. 26. október 2015, var óskað eftir leyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem veitti umsögn með bréfi, dags. 7. janúar 2016. Í henni kemur fram að stækkunin sé innan hæðartakmarkana bæði hvað varði heildarhæð og meðalhæð norðurveggjar. Stærð hússins eftir stækkun án bílskúrs verði 213,5 m2 og því innan viðmiðunarmarka. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun verði 0,34, sem sé yfir viðmiðunarhlutfalli. Til þess beri þó að líta að nýtingarhlutfall nálægra lóða sé á bilinu 0,28 til 0,40 þrátt fyrir viðmið deiliskipulags um nýtingarhlutfall upp á 0,30. Því verði að telja stækkunina innan gildandi deiliskipulagsheimilda. Ekki verði séð að stækkunin skerði útsýni eða sólarbirtu næstu húsa að þarflausu. Ekki séu því gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Með vísan til þessarar umsagnar skipulagsfulltrúa var fyrrgreind umsókn um byggingarleyfi samþykkt.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja hina kærðu ákvörðun brjóta stórlega gegn hagsmunum sínum og vera í andstöðu við gildandi deiliskipulag.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg lét málið ekki til sín taka en vísaði til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda hafi úttekt skipulagsfulltrúa staðfest að stækkunin sé innan hæðartakmarkana og innan gildandi heimilda um nýtingarhlutfall. Vísað sé til röksemda skipulagsfulltrúa. Kærendur hafi ekki rökstutt með hvaða hætti hin kærða ákvörðun brjóti gegn hagsmunum þeirra og því sé ekki unnt að taka frekari afstöðu til kærunnar.

Niðurstaða: Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er hæð hússins að Gvendargeisla 16, eftir hækkun þaks, innan hæðarmarka gildandi deiliskipulags og er flatarmál hússins að frádregnum bílskúr einnig innan viðmiða deiliskipulagsins. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun telst 0,34, sem er yfir uppgefnu viðmiði í skilmálum skipulagsins um nýtingarhlutfall fyrir umrædda húsagerð, sem er 0,30.

Til þess ber að líta að nýtingarhlutfall sambærilegra lóða á skipulagssvæðinu er nú þegar á bilinu 0,28 til 0,40 og er nýtingarhlutfall lóðar kærenda, sem liggur að lóð leyfishafa, 0,33. Eins og framkvæmd skilmála skipulagsins um nýtingarhlutfall lóða á svæðinu hefur verið háttað er nýtingarhlutfall lóðarinnar Gvendargeisla 16 í samræmi við það sem heimilað hefur verið á deiliskipulagssvæðisins. Í ljósi þessa, og einnig þess að um viðmiðunarhlutfall er að ræða, verður nefnt frávik ekki talið hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um samþykkt byggingarleyfis fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16.

114/2017 Tröllaendi 1 Flatey

Með
Árið 2018, fimmtudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykhólahrepps frá 22. ágúst 2017 um að samþykkja byggingaráform um starfsmannahús að Tröllenda 1 í Flatey á Breiðafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra eigendur Byggðarenda í Flatey á Breiðafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykhólahrepps frá 22. ágúst 2017 að samþykkja byggingaráform um starfsmannahús að Tröllenda 1 í Flatey. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykhólahreppi 19. október 2017.

Málavextir: Í gildandi aðalskipulagi Reykhólahrepps frá árinu 2008 fellur lóð sú er hið kærða byggingarleyfi tekur til innan skilgreinds athafnasvæðis austast í Flatey, merkt A1 – Tröllendi. Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að á athafnasvæðum skuli almennt ekki gera ráð fyrir íbúðum, en að unnt sé að gera ráð fyrir íbúðum tengdum starfsemi fyrirtækja, s.s. fyrir húsverði. Í deiliskipulagi fyrir athafnasvæðið að Tröllenda frá árinu 2016 er umrædd lóð auðkennd A1 og tekið fram í skilmálum að á henni megi vera hús undir gistiaðstöðu fyrir starfsmenn atvinnufyrirtækja í Flatey. Það hús skuli vera allt að 120 m2, á einni hæð, með lágu risi sem hafi 15-20° þakhalla og mænisstefnu NV-SA. Þak skuli klætt torfi og skuli húsið uppfylla kröfur samkvæmt kafla 6.7 í byggingarreglugerð um íbúðir og íbúðarhús. Heimilt sé að byggja 20 m2 geymsluskúr á lóðinni, annað hvort stakstæðan eða sem hluta starfsmannahúss. Heimilað heildarbyggingarmagn sé alls 140 m2. Lóðin sé 492 m2 og nái byggingarreitur yfir hana alla.

Á fundi skipulags-, húsnæðis- og hafnarnefndar Reykhólahrepps hinn 11. maí 2017 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsi að Tröllenda 1. Bókað var að nefndin samþykkti byggingaráformin með fyrirvara um að stærð mannvirkisins yrði í fermetrum talið innan heimilda deiliskipulags og að húsnæðið yrði innan skilgreinds byggingarreits. Byggingarfulltrúa var jafnframt falið að fylgja málinu eftir. Umsóknin var tekin fyrir að nýju í nefndinni hinn 29. maí s.á. og afgreidd með eftirfarandi bókun: „Haft hefur verið samband við Skipulagsstofnun, Landmótun og Minjavernd vegna fyrirvara á síðasta fundi nefndarinnar. Með vísan í skipulagslög 123/2013 3. mgr. 43. gr. samþykkir nefndin að um óverulegt frávik frá deiliskipulagi sé að ræða, að hagsmunir nágranna skerðist ekki. Nefndin staðfestir því framlögð byggingaráform.“ Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps hinn 8. júní 2017 var þessi afgreiðsla nefndarinnar staðfest. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina með áritun þar um á aðaluppdrætti hinn 22. ágúst 2017. Samkvæmt uppdráttunum er um að ræða gistihús vegna hótelrekstrar í Flatey. Grunnflötur aðalhúss er tilgreindur 142 m2 og geymslu 15 m2. Af uppdráttunum má ráða að hluti geymsluhúss og svæði undir sorptunnur og sólpall verði utan byggingarreits og lóðar.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast hafa skilning á þörf fyrir starfsmannahús það sem hið kærða byggingarleyfi snúi að, enda hafi þeir ekki sett sig upp á móti nýlegu deiliskipulagi sem geri ráð fyrir lóð undir slíkt hús. Af bókunum skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins frá því í maí 2017 megi hins vegar ráða að Minjavernd, sem sé byggingaraðili hússins, hafi viljað fara út fyrir heimildir deiliskipulags að því er varði stærð þess og staðsetningu innan byggingarreits. Eftir upphaf framkvæmda hafi grunur vaknað um að þær samræmdust ekki gildandi deiliskipulagi. Hafi af því tilefni verið óskað eftir samþykktum aðaluppdráttum hússins hjá byggingarfulltrúa Reykhólahrepps, sem borist hafi að hluta með tölvupósti hinn 14. september 2017. Frekari gögn hafi ekki borist þrátt fyrir ósk þar um.

Gerð sé athugasemd við að stærð hússins samkvæmt uppdrætti sé 153 m2, þakhalli sé 40-45°, langveggir séu 3,5 m háir, mænishæð sé 4,95 m og gert sé ráð fyrir millilofti og mænisstefnu í NV-SSA. Húsið standi auk þess á hárri fyllingu og standi því mjög hátt í landinu og skyggi á útsýni frá húsi kærenda. Allt sé þetta í andstöðu við gildandi deiliskipulag og það hvernig skipulagið hafi verið kynnt fyrir íbúum. Enn fremur hafi skipulagsnefnd ekki verið heimilt að beita 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við afgreiðslu uppdrátta að húsinu og útgáfu byggingarleyfis, enda um svo mikil frávik að ræða frá gildandi deiliskipulagi að borið hefði að fara með málið samkvæmt 2. mgr. 43. gr. eða jafnvel 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsnefnd og sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi farið langt út fyrir heimildir sínar til minniháttar breytinga á deiliskipulagi með útgáfu á hinu kærða byggingarleyfi. Kærendum hafi fyrst orðið ljóst um þessi miklu frávik frá gildandi deiliskipulagi þegar þeim hafi borist áðurgreindur tölvupóstur hinn 14. september 2017.

Málsrök Reykhólahrepps: Af hálfu Reykhólahrepps er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en ella að kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis verði hafnað.

Byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi skipulags-, húsnæðis- og hafnarnefndar Reykhólahrepps hinn 29. maí 2017. Jafnframt hafi verið samþykkt að nýta heimild 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi sú samþykkt verið staðfest af sveitarstjórn hinn 8. júní s.á., samhliða því sem að hin kærða ákvörðun hafi verið staðfest. Í kjölfarið hafi framkvæmdir hafist. Mælt hafi verið fyrir sökklum 23. júní 2017 og hinn 16. ágúst s.á. hafi verið búið að slá frá sökklum. Frá þeim tíma hafi mátt ráða umfang hússins og hæðarsetningu í lóðinni. Hefði kærendum borið að afla sér upplýsinga um mannvirkið eftir að staðfesting sveitarstjórnar um byggingaráformin lá fyrir og hefði þeim í síðasta lagi mátt vera ljóst umfang mannvirkisins um miðjan ágúst, þegar sökklar hefðu verið steyptir. Kæra hafi borist úrskurðarnefndinni tveimur mánuðum síðar, hinn 6. október 2017, og þar með að liðnum kærufresti. Beri því að vísa málinu frá. Auk þessa eigi kærendur ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, enda verði ekki séð hvernig frávik það sem felist í hinni kærðu ákvörðun frá skipulagsskilmálum vegi að einstaklegum og lögvörðum hagsmunum þeirra. Beri einnig af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá.

Byggingar á umræddri lóð séu 17 m2 stærri að flatarmáli en skipulag geri ráð fyrir. Um sé að ræða innan við eins metra breikkun á 20 m langhlið hússins, er snúi að húsi kærenda. Vikið sé lítillega frá mænisstefnu, horn geymsluhúss skagi lítillega út fyrir byggingarreit og þakhalli á samþykktum uppdráttum sé 34°. Ekkert af þessu hafi hins vegar áhrif á hagsmuni kærenda. Þess utan hafi við byggingu hússins verið leitast við að draga úr mænishæð þess með lækkun gólfplötu og veggja og minnkun þakhalla niður í 30°. Þetta hafi þau áhrif að húsið standi ekki hærra en ef það hefði verið byggt með þeim þakhalla sem skipulag geri ráð fyrir. Sveitarfélagið hafi einnig ákveðið að byggingarleyfishafa verði gert að lækka þakhalla niður í 20° og því sé ekki þörf á að taka afstöðu til þess kæruliðar sem varði þakhallann. Athugasemdir sem snúi að hæðarsetningu hússins og vegg- og mænishæð varði skipulagið sjálft og komi því ekki til skoðunar í kærumálinu, enda kærufrestur vegna þess löngu liðinn. Þar sem frávik frá skipulagi raski ekki hagsmunum kærenda sé skilyrðum 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga fullnægt til útgáfu byggingarleyfis án breytingar á deiliskipulagi. Til öryggis hafi sveitarfélagið samþykkt að gera breytingu á deiliskipulaginu svo byggingin samrýmist því, sbr. bókun þess efnis frá 12. október 2017.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi telur kærendur skorta kæruaðild að málinu, enda eigi þeir ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. Þau frávik frá deiliskipulagi sem kærendur beri fyrir sig varði, eins og atvikum sé háttað, ekki einstaklega lögvarða hagsmuni þeirra. Um sé að ræða almenna hagsmuni sem skipulagsyfirvöld gæti í skjóli skipulagsvalds. Hús kærenda standi um 100 m frá framkvæmdasvæðinu og það sé beinlínis rangt að heimilað hús muni skerða útsýni þeirra umfram það sem ráð sé fyrir gert í deiliskipulagi.

Við hönnun hússins hafi verið gert ráð fyrir að það stæði í lægð á milli hæðardraga. Komið hafi hins vegar í ljós að lóðin lægi hærra í Tröllendahæðinni og stæði húsið því hærra en ætlað hafi verið. Til að bregðast við þessu hafi sökklum, gólfi, veggjum og þaki verið breytt með það fyrir augum að lækka húsið, eins og kostur væri. Samtals hafi húsið því lækkað um 70 cm á byggingartíma frá því sem samþykktar teikningar hafi ráðgert. Þessar breytingar hafi verið unnar í samráði við og með vitund byggingarfulltrúa, sem hafi fengið nýjar teikningar. Þak hússins sé tvíhalla með 10° og 30° halla og mænishæð sé sú sama og ef þakið væri allt með 20° halla. Torf hafi reynst illa á þökum í Flatey sökum þurrviðris á sumrum og skorts á vatni til vökvunar. Því sé aðeins torf á lægra þakinu. Grunnflötur hússins sé 142 m2 og skúrs 15 m2. Heimilt sé samkvæmt nýrri byggingarreglugerð að byggja allt að 20 m2 skúr innan lóðar. Sökum þess að eitt horn skúrsins nái út fyrir byggingarreit hafi teikningar verið samþykktar af skipulags-, byggingar-, húsnæðis- og hafnarnefnd með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hafi sveitarstjórn staðfest þá samþykkt.
 
Niðurstaða: Af gögnum verður ráðið að hús það sem hin kærða ákvörðun heimilar að Tröllenda 1 verði í sjónlínu frá húsi kærenda að Byggðarenda og ber ekkert þar á milli. Hefur byggingin því áhrif á útsýni frá fasteign kærenda. Verða kærendur af þeim sökum taldir eiga grenndarhagsmuni af því að umrætt hús verði staðsett innan skipulagðrar lóðar og að það verði ekki meira áberandi í umhverfi sínu en skipulag geri ráð fyrir. Í ljósi þessa teljast kærendur eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt áritun byggingarfulltrúa á fyrirliggjandi aðaluppdrætti fyrirhugaðs húss að Tröllenda 1 samþykkti hann byggingaráformin hinn 22. ágúst 2017, sbr. 9. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Ekki liggur fyrir að sveitarfélagið hafi sett sérstaka samþykkt sem kveði á um aðra málsmeðferð byggingarleyfisumsókna, svo sem á grundvelli 7. gr. mannvirkjalaga, þar sem heimilað er að fela sérstökum byggingarnefndum afgreiðslu byggingarleyfisumsókna. Verður upphaf kærufrests vegna veitingar umdeilds byggingarleyfis því í fyrsta lagi miðað við fyrrgreint samþykki byggingaráforma. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að byggingarleyfi hafi verið gefið út samkvæmt 13. gr. laganna, sem er forsenda þess að hefja megi framkvæmdir. Verður ekki fullyrt að kærendum hafi mátt vera ljóst efni hinnar kærðu ákvörðunar fyrr en þeim bárust samþykktir aðaluppdrættir hússins í tölvupósti hinn 14. september 2017. Barst kæra í máli þessu samkvæmt því fyrir lok eins mánaðar kærufrests, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með vísan til framangreinds verður kærumál þetta tekið til efnislegrar meðferðar.

Gildandi deiliskipulag kveður á um heimild til byggingar 120 m2 húss á umræddri lóð, sem geti, ef heimilaður 20 m2 geymsluskúr sé sambyggður því, orðið alls 140 m2. Húsið skuli vera á einni hæð, með lágu risi með 15-20° þakhalla, mænisstefnu NV-SA og þaki klæddu torfi. Byggingarreitur nái til allrar lóðarinnar, sem sé 492 m2 að stærð. Samþykkt byggingarfulltrúa á byggingaráformum frá 22. ágúst 2017 víkur í nokkrum atriðum frá þessum skilmálum skipulagsins. Flatarmál hússins er tilgreint 142 m2, og því nokkuð umfram heimilaða stærð, en geymsluskúr, sem að hluta er tilgreindur sem þvottaaðstaða, er ekki sambyggður.  Óumdeilt er að halli risþaks er töluvert meiri en skipulagsskilmálar heimila og að mannvirkið stendur að hluta utan lóðar. Þá er mænisstefna hússins ekki í samræmi við skipulagsskilmála og aðeins er gert ráð fyrir torfi á hluta þaksins. Var hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá skilmálum deiliskipulags í byggingarleyfi, ef um sé að ræða svo óverulegt frávik að tilgreindir hagsmunir nágranna skerðist í engu, sbr. einnig gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þau frávik samþykktra aðaluppdrátta frá skilmálum gildandi deiliskipulags sem hér hafa verið greind hafa áhrif á grenndarhagsmuni kærenda að því er varðar útsýni. Auk þess snerta frávikin nýtingarhlutfall lóðar, form hússins, stærð byggingarreits og lóðar, ásamt gerð og lögun þaks. Þessi frávik geta ekki talist óveruleg. Skilyrði þess að vikið sé frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis skv. 43. gr. skipulagslaga voru því ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykhólahrepps frá 22. ágúst 2017 um samþykkt byggingaráforma vegna starfsmannahúss að Tröllenda 1 í Flatey.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

100/2017 Þrastargata

Með
Árið 2017, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2017, kæra vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir kvisti á húsi nr. 7b við Þrastargötu og vegna breytinga á þeirri ákvörðun frá 19. september og 3. október s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir, eigandi húss að Þrastagötu 7, ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir kvisti á hús nr. 7b við Þrastargötu. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. október 2017, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili enn fremur samþykki leyfisins eins og því var breytt með ákvörðunum byggingarfulltrúa hinn 19. september og 3. október 2017. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi að hluta.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. september og 11. október 2017.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Fálkagötureita, sem samþykkt var á árinu 2008 og tekur m.a. til lóðarinnar Þrastargötu 7b. Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að heimilt sé að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1 m. Gæta skuli að því að kvistur fari húsum vel og falli vel að byggingarstíl þeirra. Fyrir fasteignina að Þrastargötu 7b gildir sérskilmáli um að heimilt sé að byggja þar litla viðbyggingu, pall, kvist og geymsluskúr.

Á árinu 2015 var sótt um leyfi til byggingarfulltrúa fyrir áður byggðum kvisti á suðurhlið hússins við Þrastargötu 7b, auk nýs kvists á norðurhliðinni og sólskála við húsið. Minjastofnun veitti af því tilefni álit sitt, dags. 24. mars 2015, og gerði ekki athugasemd við byggingaráformin með þeim rökstuðningi að nýr kvistur yrði sambærilegur að gerð og stærð og sá kvistur sem fyrir væri á suðurhlið hússins og að gluggar kvistsins tækju mið af gerð þeirra sem fyrir væru.

Með umsókn, dags. 7. júní 2017, var umsóknin frá árinu 2015 lögð fram að nýju með vísan til þess að einungis sá hluti erindisins sem sneri að þegar byggðum kvisti hefði hlotið samþykki. Væri því sótt um leyfi til byggingar viðbyggingar og nýs kvists og vísað til fyrrnefnds álits Minjastofnunar. Erindið var tekið fyrir á nokkrum afgreiðslufundum byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í júní, júlí og ágúst 2017. Niðurstaðan varð sú að bókað var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 11. ágúst að sækja þyrfti um breytingu á deiliskipulagi vegna sólskála sunnan hússins. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 29. s.m. var leyfi fyrir áður gerðum breytingum samþykkt og umsókn um byggingu nýs kvists á norðurhlið hússins sömuleiðis.

Kæra vegna þessarar samþykktar byggingarfulltrúa barst úrskurðarnefndinni 14. september 2017 og í kjölfarið var málið tilkynnt borgaryfirvöldum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. s.m. var erindi leyfishafa um breytingu á fyrra byggingarleyfi samþykkt, en sú breyting fól í sér að málsetning umrædds kvists var leiðrétt á uppdráttum. Byggingarfulltrúi tilkynnti hinn 26. s.m. að hann hefði farið á vettvang og skoðað framkvæmdina. Hefði hann í kjölfarið stöðvað framkvæmdir þar sem kvistur hefði farið hærra í þaki en samþykktir uppdrættir sýndu. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. október s.á. var erindi leyfishafa um frekari breytingu á byggingarleyfinu samþykkt, sem fól í sér að mænishæð á uppdráttum var breytt. Jafnframt var bókað að um óverulegt frávik frá deiliskipulagi væri að ræða, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kjölfarið var stöðvun framkvæmda aflétt.

Málsrök kæranda: Kærandi tiltekur að kæran snúi einungis að þeim hluta byggingarleyfisins sem varði heimild til byggingar kvists norðanmegin hússins að Þrastargötu 7b, en sú hlið hússins snúi að lóð hans að Þrastargötu 7. Framkvæmdin snerti grenndarhagsmuni kæranda í ljósi þess að fyrirhugaður kvistur muni varpa skugga á lóð hans. Byggingarleyfið sé í andstöðu við skilmála gildandi deiliskipulags fyrir Fálkagötureiti, enda nái fyrirhugaður kvistur yfir 74% þakflatar og muni vera 0,77 m og 0,85 m frá þakendum hvorum megin. Brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Byggðarmynstur Þrastargötu njóti verndar samkvæmt skilmálum deiliskipulags og hefði því borið að leita álits Minjastofnunar eða annars sérfróðs aðila um stækkunina, líkt og kæranda hafi borið að gera við framkvæmdir á húsi sínu að Þrastargötu 7 nokkrum árum fyrr.

Veita hefði átt kæranda andmælarétt í tilefni af samþykkt byggingarfulltrúa á nýjum aðaluppdrætti vegna breytinga á hinu kærða byggingarleyfi, enda væri hann aðili máls. Þá hafi ekki verið til staðar heimild til að breyta eða endurskoða hina kærðu ákvörðun, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir breytingu á byggingarleyfi, með lagfæringu á aðaluppdráttum, séu samþykkt byggingaráform í andstöðu við deiliskipulagsskilmála. Enda þótt lengd þaks hafi verið breytt úr 6,30 m, samkvæmt uppdrætti samþykktum 29. ágúst 2017, í 6,68 m, á uppdrætti samþykktum 19. september s.á., og í 6,87 m á uppdrætti samþykktum 3. október s.á., séu kvistir enn innan við 1 m frá þakbrún. Miðað við breytta þaklengd á aðaluppdrætti sé grunnflötur kvists 65% af þakfleti. Kvistir séu hærri en gefið sé upp á aðaluppdrætti.

Gerðar séu athugasemdir við umsögn Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2017. Þannig sé því mótmælt að hagsmunir kæranda skerðist ekki að því er varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Engin rannsókn hafi verið gerð á þessu, en augljóst megi telja að hækkun á kvisti og stækkun á flatarmáli hans hafi áhrif á útsýni frá Þrastargötu 7 og á skuggavarp inn á þá lóð og á hús sem þar standi. Þá sé ósamræmi aðaluppdrátta við deiliskipulag umfram það sem heimilað sé, með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en Reykjavíkurborg hafi ekki lagt mat á þetta ósamræmi. Því sé og hafnað að húsið við Þrastargötu 7b sé bakhús, en það sé mjög áberandi, séð frá Hjarðarhaga. Loks liggi fyrir að yfirstandandi framkvæmdir séu í verulegu ósamræmi við þau áform sem Minjastofnun hafi veitt álit sitt um á árinu 2015.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að umræddur kvistur standi meira en 1 m frá þakbrúnum í samræmi við deiliskipulag. Þótt hann fari yfir meira en helming þakflatar sé frávikið það óverulegt að það falli undir 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ákvæðið heimili að við útgáfu byggingarleyfis megi víkja óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Kvisturinn standi lægra en þakbrún og muni ekki varpa meiri skugga en þegar sé til staðar. Álits Minjastofnunar hafi verið leitað um sömu teikningar á árinu 2015 og hafi það álit verið jákvætt. Ósk kæranda um niðurrif hússins að Þrastargötu 7 og byggingu nýs staðsteypts húss sé ekki sambærileg við ósk leyfishafa um að byggja lítinn kvist. Rannsóknarreglu hafi því verið gætt og jafnræðisregla ekki verið brotin.

Athugasemdir leyfishafa: Byggingarleyfishafi segir umræddan kvist þegar risinn í fullu leyfi yfirvalda, í samræmi við gildandi deiliskipulag. Fjarlægð kvista frá þakendum hafi verið leiðrétt á uppdráttum og sé 1,12 m. Álits arkitekts hafi verið leitað um skuggavarp á húsið og lóðina að Þrastargötu 7 og hafi það verið talið ólíklegt. Ekki sé hægt að sjá hvaða grenndarhagsmuna kærandi hafi að gæta. Á suðurhlið húss hans séu hvorki svalir né þakgluggi sem skuggi geti fallið á. Þá sé suðurlóð hans 1,14 m á breidd, mælt frá húsi, og girt af með þéttri 2,20 m hárri girðingu. Álits Minjastofnunar hafi verið leitað vegna byggingarleyfisumsóknarinnar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis vegna kvists á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b. Kærendur telja leyfið fara út fyrir heimildir í gildandi deiliskipulagi, en Reykjavíkurborg telur leyfið falla innan skipulagsheimilda, m.a. með tilliti til heimildarákvæðis 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Upphaflegt byggingarleyfi var útgefið af byggingarfulltrúa 29. ágúst 2017. Leyfinu var breytt í tvígang með ákvörðunum byggingarfulltrúa hinn 19. september og 3. október s.á. Líta verður svo á að með nefndum breytingum séu eldri leyfi úr gildi fallin. Fram hefur komið hjá kæranda að kæran nái eftir atvikum til allra þessara þriggja ákvarðana. Í ljósi þess að tvær fyrrnefndu ákvarðanirnar hafa í reynd fallið úr gildi verður þeim þætti málsins vísað frá úrskurðarnefndinni. Eftir stendur hið kærða byggingarleyfi eins og það stóð efnislega eftir síðustu samþykkt afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 3. október 2017.

Af aðaluppdrætti þeim sem samþykktur var af byggingarfulltrúa hinn 3. október 2017 má ráða að fjarlægð umrædds kvists frá þakendum skuli vera 1,12 m hvorum megin. Lengd þaksins er málsett 6,87 m, grunnflötur risþaks 5,00 m og mænishæð 2,24 m. Að teknu tilliti til lengdar frá þakendum er lengd norðurkvistsins því 4,63 m og á breiddina nær hann alveg frá mæni að þakbrún. Kvistur á suðurhlið hússins er svipaður þeim kvisti. Reiknuð breidd hvors þakflatar risþaksins út frá málsetningu aðaluppdráttar er 3,36 m. Hvor þakflötur risþaksins án kvista er því 23,1 m2, en sá flötur sem fer undir hvorn kvist er 15,6 m2. Hvor kvistur þekur því um 67,5% þess þakflatar sem hann stendur á.

Í gildandi sérskilmálum fyrir húsið að Þrastargötu 7b, í deiliskipulagi Fálkagötureita frá árinu 2008, kemur fram að heimilt sé að byggja kvist á húsið. Í almennum skilmálum skipulagsins er enn fremur heimilað að byggja kvisti á risþök á helmingi þakflatar og skuli fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1 m. Umræddir aðaluppdrættir uppfylla þá skipulagsskilmála að kvistur sé meira en 1 m frá þakenda. Reykjavíkurborg lagði fram útreikning á hlutfalli kvistar á norðurhlið af heildarþakfleti hússins. Þar er þakflötur kvists sagður vera 15,5 m2, en að heildarþakflötur sé 40,2 m2. Hann sé því 39% af heildarþakfleti hússins. Í þeim útreikningi er þakflötur lágreistrar viðbyggingar lagður við heildarþakflöt risþaksins, en sá hluti þaksins sem fer undir kvistinn dreginn frá. Þá reiknast áður byggður kvistur ekki inn í hlutfallstölu kvista þaksins. Með hliðsjón af texta skilmála skipulagsins verður ekki á þessum forsendum byggt. Þak viðbyggingarinnar getur ekki talist hluti risþaks. Sú hlutfallstala sem vísað er til í skipulagsskilmálunum getur annað hvort átt við um hlutfall kvista á þeirri hlið risþaks sem við á hverju sinni eða eftir atvikum hlutfall allra kvista á öllum þakflötum viðkomandi risþaks. Á hvorn veginn sem er teldist hlutfall kvista á því risþaki sem hér um ræðir vera um 67,5% og því nokkuð umfram þá heimild sem tilgreind er í deiliskipulagsskilmálum. Af framangreindu má ljóst vera að aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis frá 3. október 2017 eru í ósamræmi við heimild skipulagsins til byggingar kvista, sem takmarkast við helming þakflatar.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn heimilað að gefið sé út byggingarleyfi sem víki óverulega frá deiliskipulagi, enda skerðist hagsmunir nágranna í engu að því er varðar nánar tiltekin atriði. Í bókun á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa um samþykkt umrædds byggingarleyfis hinn 3. október 2017 kemur fram að byggingarleyfið feli í sér óverulegt frávik frá deiliskipulagi. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að samþykkis sveitarstjórnar, samkvæmt nefndu ákvæði, hafi verið aflað áður en hið kærða byggingarleyfi var samþykkt af byggingarfulltrúa. Þar að auki verður frávik frá heimilaðri stærð kvists, sem hlutfall af stærð risþaks, úr 50% í 67,5%, ekki talið óverulegt og ekki liggur fyrir að útilokað sé að umræddur kvistur geti haft grenndaráhrif gagnvart kæranda.

Skilyrði fyrir samþykki byggingarleyfis er að viðkomandi mannvirki samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Svo sem að framan greinir verður hið kærða byggingarleyfi ekki talið vera í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags Fálkagötureita og ber því að fella það úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hinum kærðu ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. ágúst og 19. september 2017 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. október 2017 um að veita  byggingarleyfi fyrir kvisti á norðurhlið hússins að Þrastargötu 7b.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________               ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

64/2017 Skólavegur Fáskrúðsfirði

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2017, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 16. maí 2017 um að eigendum verði gert að fjarlægja óleyfisframkvæmd við sólpall innan lóðarinnar að Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júní 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Skólavegar 12, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 16. maí 2017 að óleyfisframkvæmd á lóð þeirra verði fjarlægð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðarbyggð 29. og 30. nóvember 2017.

Málavextir:
Umsókn eins kærenda um byggingu sólpalls og 140 cm hárrar skjólgirðingar úr timbri á lóðinni við Skólaveg 12 á Fáskrúðsfirði var móttekin af skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar hinn 13. júní 2016. Umsóknin var tekin fyrir á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins 15. s.m. og samþykkt að grenndarkynna hana fyrir hagsmunaaðilum á aðliggjandi lóð að Skólavegi 14 með athugasemdafrest frá 20. júní til 18. júlí 2016.

Í bréfi, dags. 16. júní 2016, sem sent var út í tilefni grenndarkynningarinnar, kemur fram að sótt sé um leyfi til byggingar 40 m2 sólpalls með 1,4 m hárri skjólgirðingu á austur-, vestur- og suðurhlið hans. Pallurinn verði staðsettur syðst og vestast á lóð Skólavegar 12 og standi 0,5 m frá mörkum lóðarinnar í vestri og 1,5 m í suðri. Hæð pallsins verði rétt yfir hæð lóðar. Nefndin tók umsóknina fyrir að lokinni grenndarkynningu hinn 21. júlí 2016 og lágu þá fyrir athugasemdir frá eiganda Skólavegar 14 er borist höfðu og umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa um þær. Samþykkti nefndin umsóknina með vísan til þess að fram komnar athugasemdir væru ekki þess eðlis að hafna bæri henni. Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 25. s.m. Byggingarfulltrúi tilkynnti umsækjanda þá niðurstöðu með bréfi, dags. 9. ágúst 2016, þar sem jafnframt kom fram að leyfið tæki gildi þegar byggingarleyfisgjöld hefði verið greidd.

Eigandi Skólavegar 14 spurðist fyrir um hvort framkvæmdin samræmdist samþykktu byggingarleyfi með bréfi, dags. 13. september 2016. Fyrirspurnin var tekin fyrir hinn 19. s.m. á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar og bókað að nefndin teldi framkvæmdirnar ekki samræmast samþykktu leyfi. Var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að fylgja ákvörðun nefndarinnar eftir. Hann ritaði bréf til kærenda, dags. 19. janúar 2017, þar sem gefinn var kostur á að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um að þeim yrði gert að fjarlægja þann hluta framkvæmda sem samræmdust ekki útgefnu byggingarleyfi. Það skyldi gert að viðlögðum dagsektum, eða eftir atvikum á kostnað lóðarhafa. Vísað var til mannvirkjalaga nr. 160/2010, skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 til grundvallar ákvörðuninni. Kærendur andmæltu fyrirhugaðri ákvörðun með bréfi, dags. 17. febrúar s.á. Töldu þeir framkvæmdina vera innan veittra heimilda og að boðuð þvingunarráðstöfun myndi vega að eignarrétti þeirra sem verndaður væri í stjórnarskrá.

Með bréfi, dags. 16. maí 2017, að undangengnum allnokkrum bréfaskiptum og óformlegum samskiptum við eigendur Skólavegar 12 og 14, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kærendum um þá ákvörðun að fjarlægja bæri pallaefni á milli skjólveggjar og grindverks á mörkum lóðanna Skólavegar 12 og 14 innan tiltekins frests. Ákvörðun um dagsektir eða niðurrif á kostnað lóðarhafa væri frestað þar til kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri liðinn. Vísað var í gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð, X. kafla mannvirkjalaga og X. kafla skipulagslaga til stuðnings þeirri ályktun að um óleyfisframkvæmd væri að ræða. Þessari ákvörðun hafa kærendur vísað til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða ákvörðun brjóti gegn eignarrétti þeirra sem varinn sé af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Andmælum þeirra hafi ekki verið svarað af framkvæmdasviði Fjarðarbyggðar sem brjóti gegn góðum stjórnsýsluháttum auk þess sem ekki sé vikið að málsástæðum og rökstuðningi kærenda í hinni kærðu ákvörðun. Látið sé nægja að vísa til bréfaskipta í málinu. Útfærslu á endanlegum frágangi sólpallsins hafi verið ætlað að koma til móts við athugasemdir sem komu fram við grenndarkynningu frá eiganda aðliggjandi lóðar. Því hafi bil milli sólpalls og girðingar á lóðarmörkum verið klætt af með snyrtilegum hætti til að koma í veg fyrir uppsöfnun laufs og rusls. Þessi útfærsla hafi verið kostnaðarsamari en upphafleg útfærsla og hafi verið gerð af tillitssemi við eiganda aðliggjandi lóðar. Það skjóti því skökku við að kærendum sé nú gert að fjarlægja þessa viðbót að undirlagi þessa sama nágranna. Frágangurinn sé ekki í andstöðu við fyrirliggjandi byggingarleyfi og það væri á skjön við sanngirnissjónarmið að gera kærendum að fjarlægja og breyta snyrtilegum frágangi pallsins sem engum sé til ama.

———-

Yfirvöldum Fjarðarbyggðar var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en þau hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar um að eigendur lóðarinnar að Skólavegi 12 fjarlægi þann hluta sólpalls við mörk aðliggjandi lóðar að Skólavegi 14 sem fólst í framlengingu pallsins frá skjólgirðingu að lóðamörkum. Ákvörðunin byggir á því að nefndur frágangur sólpallsins hafi ekki verið í samræmi við samþykkt byggingarleyfi og sé því óhjákvæmilegt að krefjast þess að honum verði komið í lögmætt horf, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, X. kafla mannvirkjalaga nr. 160/2010 og X. kafla skipulagslaga nr. 123/2010.

Byggingarfulltrúa er í 56. gr. mannvirkjalaga heimilað að leggja fyrir eiganda byggingarleyfisskylds mannvirkis að koma því í lögmætt horf samkvæmt samþykktum teikningum og byggingarlýsingu að viðlögðum dagsektum, eða að öðrum kosti að slíkt sé gert á kostnað eiganda, sbr. einnig 55. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð. Skilyrði þess að nefndum þvingunarráðstörfunum sé beitt, er að um sé að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd sem sé ekki í samræmi við útgefið byggingarleyfi.

Fyrir liggur að einn kærenda sótti um byggingarleyfi fyrir byggingu sólpalls með 140 cm hárri skjólgirðingu á lóð sinni. Við grenndarkynningu var við það miðað að pallurinn stæði 1,5 m frá suðurmörkum lóðarinnar og 0,5 m frá vesturmörkum hennar. Fram kemur í umsögn skipulags- og byggingarfulltrúa að lokinni grenndarkynningu, dags. 18. júlí 2016, að sökum þess að fyrirhuguð framkvæmd væri nær lóðamörkum en 1 m og að fyrirhuguð girðing væri hærri en sem næmi fjarlægð hennar frá lóðarmörkum, félli hún ekki undir undanþágu byggingarreglugerðar frá leyfisskyldu vegna minniháttar framkvæmda og væri því byggingarleyfisskyld. Styðst sú ályktun við grenndarkynningargögn.

Fyrirliggjandi ljósmyndir af endanlegum frágangi pallsins bera með sér að hann nær alveg að mörkum aðliggjandi lóðar í vestri. Einnig liggur fyrir að kærendur hafi að eigin frumkvæði breytt hönnun pallsins eftir að upphafleg umsókn um byggingarleyfi var lögð fram með það fyrir augum að bregðast við athugasemd sem fram kom við grenndarkynningu. Endanlegur frágangur pallsins á lóðamörkunum er því ekki í samræmi við hina grenndarkynntu umsókn og samþykkt byggingarleyfi. Fyrir liggur í málinu að ekki hefur verið gefið út byggingarleyfi vegna viðbótarinnar sérstaklega. Með hliðsjón af framangreindu voru því fullnægjandi skilyrði til þess að skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar væri heimilt að taka hina kærðu ákvörðun, sbr. 55. og 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð.

Hin kærða ákvörðun var tekin af skipulags- og byggingarfulltrúa í kjölfar ábendingar nágranna og með bréfi hans, dags. 19. janúar 2017, var kærendum veittur andmælaréttur í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann rétt nýttu kærendur sér og komu á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 17. febrúar s.á. Í tilkynningu til kærenda um hina kærðu ákvörðun voru færð fram rök að baki ákvörðuninni með vísan til málsatvika og viðeigandi réttarheimilda. Var því áskilnaði 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning ákvörðunar gætt.

Eðli máls samkvæmt er hagnýtingu fasteigna settar skorður í ýmsum lögum með tilliti til almannahagsmuna. Skipulagslög og mannvirkjalög hafa m.a. það hlutverk að setja slíkar almennar skorður. Í 15. gr. mannvirkjalaga kemur fram að lóðarhafi og byggingarleyfishafi beri ábyrgð á að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið eftir ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Óleyfisframkvæmd í skilningi mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar getur þannig ekki orðið andlag eignarréttinda sem njóta verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Verður því ekki fallist á þá málsástæðu að hin kærða ákvörðun brjóti gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti kærenda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Fjarðarbyggðar frá 16. maí 2017 um að fjarlægja skuli óleyfisframkvæmd innan lóðarinnar að Skólavegi 12, Fáskrúðsfirði.

____________________________
Ómar Stefánsson

____________________________                      ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                          Þorsteinn Þorsteinsson

126/2017 Mímisvegur

Með
Árið 2017, föstudaginn 1. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2017 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á þaki hússins að Mímisvegi 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. október 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur., Freyjugötu 44, Reykjavík, og eigendur, Freyjugötu 42, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2017 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á þaki hússins að Mímisvegi 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg verði gert að bæta úr öllum annmörkum á meðferð málsins.

Kærendur gera jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 26. október 2017.

Málavextir: Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 27. febrúar 2015 var lögð fram fyrirspurn, dags. 25. s.m., um það hvort heimilað yrði að breyta þaki hússins að Mímisvegi 4 úr valmaþaki í risþak til samræmis við upphaflega hönnun hússins, sem samþykkt hafði verið af byggingarnefnd 31. október 1931. Húsið var síðar byggt með valmaþaki, en það mun vera eina húsið með slíkri þakgerð í röð fjögurra húsa suðaustanmegin við Mímisveg. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. mars 2014, er húsið talið sóma sér vel eins og það sé, en að það myndi ekki stinga í stúf við umhverfið ef það yrði byggt upp í samræmi við fyrirspurnina. Ekki var gerð skipulagsleg athugasemd við erindið og fyrirheit gefin um að umsókn í samræmi við fyrirspurn yrði grenndarkynnt. Mælst var til þess að umsagnar Minjastofnunar yrði aflað. Í umsögn hennar, dags. 19. mars 2015, var ekki gerð athugasemd við fyrirhugaðar breytingar, enda væru þær í samræmi við upphaflega hönnun. Hækkun á þaki færi ágætlega og myndi sóma sér vel í götumynd Mímisvegar. Gerð var krafa um að ytri frágangur yrði í samræmi við upphaflegan stíl hússins.

Lögð var fram umsókn á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 14. júlí 2015 um leyfi vegna tvíbýlishússins að Mímisvegi 4 til byggingar 3. hæðar og riss, innréttingar nýrrar íbúðar í risi, byggingar svala á suðurgafli 1.-3. hæðar, gerðar nýs inngangs og innréttingar íbúðarherbergis í kjallara. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 23. október s.á. var ákveðið að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Mímisvegi 2, 2a og 6, Fjölnisvegi 15, Sjafnargötu 14, og Barónsstíg 78 og 80. Á fundinum var lögð fram fyrrnefnd umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. mars 2014, og ný umsögn, dags. 2. október 2015. Í síðarnefndu umsögninni var lagt til að uppdrættir yrðu lagfærðir lítillega og að grenndarkynnt yrði fyrir þeim hagsmunaaðilum sem ákvörðunin tiltók.

Að lokinni grenndarkynningu, sem fram fór dagana 6. nóvember til 4. desember 2015, var erindið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. desember s.á. Engar athugasemdir höfðu borist og var erindið því samþykkt og vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Byggingarleyfisumsóknin var síðan samþykkt á afgreiðslufundi hans hinn 15. desember s.á. og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 17. s.m. Byggingarleyfið var loks gefið út af byggingarfulltrúa 9. ágúst 2017.

Málsrök kærenda: Kærendur telja málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar annmörkum háða. Þær breytingar sem fyrirhugaðar séu húsinu að Mímisvegi 4 verði að teljast umtalsverðar, enda um að ræða verulega útlitsbreytingu með tilkomu svala á öllum hæðum suðurhliðar hússins, auk þess sem þak hússins verði hækkað um allt að 4 m. Þessi hækkun muni skerða útsýni kærenda, valda auknu skuggavarpi í hverfinu og sé til þess fallin að rýra verðgildi viðkomandi fasteigna. Skipulagsfulltrúi hafi ekki fjallað um þessi atriði í umsögn sinni. Umrætt svæði njóti hverfisverndar í aðalskipulagi og gangi breytingin gegn þeirri vernd. Byggingarfulltrúa hafi því verið óheimilt að gefa út byggingarleyfi, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í ljósi umfangs breytinganna hefði leyfisveitingin þurft að eiga stoð í deiliskipulagi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 51/2015.

Gefa skuli út byggingarleyfi innan árs frá því að sveitarstjórn afgreiði leyfisumsókn að lokinni grenndarkynningu, sbr. 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynnt hafi verið 6. nóvember til 4. desember 2015, byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsóknina 15. s.m. og borgarráð hinn 17. s.m. Byggingarleyfi hafi hins vegar verið gefið út tæpum 20 mánuðum síðar, eða hinn 9. ágúst 2017, og hafi þá verið liðinn lögmæltur frestur. Hefði átt að grenndarkynna umsóknina að nýju í samræmi við ofangreinda lagagrein. Þessi ágalli eigi einn og sér að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Þá hafi grenndarkynningin, sem fram hafi farið síðla árs 2015, verið ólögmæt þar sem hún hafi ekki tekið til kærenda, þrátt fyrir að þeir hafi töluverða hagsmuni af þeirri útsýnisskerðingu sem af framkvæmdinni hljótist. Vísað sé í þessu sambandi í leiðbeiningablað Skipulagsstofnunar nr. 8b um grenndarkynningar, þar sem kemur m.a. fram að kynna skuli hækkun þaks fyrir næstu nágrönnum og öðrum þeim sem geti orðið fyrir áhrifum af henni, t.d. vegna útsýnis eða skuggavarps. Bent sé á að einn kærenda hafi á svipuðum tíma ráðist í tugmilljóna króna framkvæmdir að Freyjugötu 44, að fengnu byggingarleyfi, sem nú verði til einskis. Skipulagsyfirvöldum hafi því verið kunnugt um grenndarhagsmuni kærenda og því borið að leita sjónarmiða þeirra vegna fyrirhugaðra framkvæmda, sem ekki hafi verið gert. Því hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum skipulagslaga, rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og gegn andmælarétti kærenda.

Kæra í máli þessu hafi borist innan kærufrests. Byggingarleyfið hafi verið gefið út 9. ágúst 2017 og kærendur hafi fyrst orðið varir við framkvæmdir í byrjun október s.á. Upphaf kærufrests beri að miða við það þegar byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi sent afrit af byggingarleyfinu með tölvupósti til lögmanns kærenda hinn 18. október s.á., eftir eftirgrennslan af þeirra hálfu.

Kærendur telji mörg álitamál vera uppi um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar, sem hvert um sig geti leitt til ógildingar hennar. Horfa beri til svipaðra viðmiða og gert hafi verið í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 1/2015 og 61/2015.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hinn 15. desember 2015 og hafi því kæran borist að liðnum kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið sama eigi við ef miðað sé við 27. gr. og 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem tilgreini að stjórnsýslukærur skuli bera fram innan þriggja mánaða, eða í allra síðasta lagi innan árs, frá því aðila hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Ekki sé fallist á að kærufrest skuli miða við útgáfu byggingarleyfis hinn 9. ágúst 2017, enda skuli miða við daginn þegar ákvörðun um að veita leyfið hafi verið tekin. Útgáfa byggingarleyfis sé aðeins formlegs eðlis til að tryggja að tiltekin skilyrði leyfisins hafi verið uppfyllt. Kærendum hafi verið kynnt byggingaráformin. Þeir hafi hins vegar ekki gert athugasemd við þau og því hafi leyfishafi haft réttmætar væntingar til þess að geta hafið undirbúning framkvæmda.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast frávísunar málsins þar sem kæra hafi ekki borist innan kærufrests, auk þess sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Húseignirnar að Freyjugötu 42 og 44 séu í töluverðri fjarlægð frá Mímisvegi 4 og standi hærra í holtinu. Tvö fjögurra hæða hús með risþaki byrgi sýn séð frá Freyjugötu 42 og hávaxinn trjágróður, sem nái hátt yfir efstu þök, takmarki útsýni frá Freyjugötu 44. Um sé að ræða afar litla skerðingu á útsýni við hækkun efsta punkts þaks um 2,7 m og breytingu á lögun þess. Því sé ranglega haldið fram að byggingarleyfið snúi að byggingu nýrrar 3. hæðar og rishæðar, sem hækka muni húsið um 4 m. Um sé að ræða rishæð ofan á 2. hæð hússins í stað valmaþaks. Útsýnisskerðing sú er eigendur Freyjugötu 44 telji sig verða fyrir sé út um glugga á nýjum þakkvisti, sem ekkert hafi legið fyrir um þegar leyfishafar hafi sótt um leyfið, enda hafi fyrirhugaðar framkvæmdir að Mímisvegi 4 þegar verið samþykktar þegar gefið hafi verið út leyfi fyrir nýjum þakkvisti að Freyjugötu 44. Ekki hafi þótt ástæða til að grenndarkynna síðarnefndu byggingaráformin fyrir eigendum Mímisvegar 4. Ekki sé skylt að grenndarkynna vegna þess eins að framkvæmd sjáist frá öðrum húsum.

Lögð sé áhersla á að breytingarnar séu í samræmi við upprunalega hönnun hússins og að Minjastofnun hafi gefið jákvæða umsögn um áformin. Breytingarnar séu í samræmi við skipulagsáætlanir og ekki þess eðlis að vera deiliskipulagsskyldar. Sá frestur til útgáfu byggingarleyfis sem gefinn sé í 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé helst til knappur og beri að túlka rúmt með hliðsjón af meðalhófsreglu, enda miklir hagsmunir í húfi hjá leyfishafa. Í öllu falli verði að líta svo á að slíkur ágalli sé minniháttar.

Kæra í máli þessu hafi borist eftir lok kærufrests, þar sem upphaf frestsins beri að miða við samþykkt afgreiðslufundar byggingarfulltrúa hinn 15. september 2015. Hið sama eigi við þótt miðað sé við útgáfu byggingarleyfis hinn 9. ágúst 2017, enda hafi framkvæmdir hafist þá þegar með niðurrifi eldra þaks og uppslætti hins nýja. Kærendum hefði því strax átt að verða ljóst að leyfi hefði verið veitt fyrir framkvæmdum og hefði kærufrestur því átt að hefjast í síðasta lagi í ágústmánuði. Allt að einu hafi verið staðið rétt að undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar, byggingarleyfisumsóknin hafi hlotið jákvæða umsögn, verið grenndarkynnt og sé í fullu samræmi við hverfisverndarákvæði aðalskipulags, sem og ákvæði laga.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 16. nóvember 2017.

Niðurstaða: Fyrir liggur í málinu að hið kærða byggingarleyfi var gefið út 9. ágúst 2017, en að sögn leyfishafa hófust framkvæmdir skömmu síðar, m.a. með niðurrifi þaks Mímisvegar 4. Kærendur segjast fyrst hafa orðið varir við framkvæmdir í byrjun október s.á. og að þeir hafi fyrst fengið staðfest umfang þeirra hinn 18. október 2017, er þeir fengu afrit af byggingarleyfinu sent með tölvupósti frá starfsmanni byggingarfulltrúa.

Kærufrestur fyrir úrskurðarnefndinni er einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Byggingarleyfi sætir ekki opinberri birtingu og því miðast kærufrestur við það tímamark þegar kærendum var sannanlega kunnugt, eða hefði mátt vera kunnugt, um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kærendum og leyfishafa greinir á um upphaf framkvæmda við þak Mímisvegar 4 og hvenær af þeim mátti ráða hvert efni hins kærða leyfis var. Varhugavert þykir að draga þá ályktun af því sem fyrir liggur í málinu að kærendum hafi mátt vera ljóst efni byggingarleyfisins fyrr en þeir fengu sent afrit af því hinn 18. október 2017. Barst kæran samkvæmt því innan kærufrests.

Kærendur, sem eru eigendur íbúða að Freyjugötu 42 og 44, telja sig verða fyrir skerðingu á útsýni til sjávar vegna þeirrar hækkunar sem hlýst af breyttu þakformi Mímisvegar 4. Styðja framlagðar ljósmyndir af uppslætti þaksins og skoðun á vettvangi þá ályktun. Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er heimilað að víkja frá deiliskipulagsskyldu við veitingu byggingarleyfis en þá skal grenndarkynna byggingarleyfisumsókn. Í 2. mgr. 44. gr. sömu laga er kveðið á um að grenndarkynna skuli fyrir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn. Í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga er heimilað að vikið sé frá kröfu um grenndarkynningu ef framkvæmd sé svo óveruleg að hún skerði í engu hagsmuni nágranna að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp og innsýn. Í ljósi áhrifa á útsýni frá fasteignum kærenda, sem fylgja heimiluðum breytingum hússins að Mímisvegi 4, teljast þeir eiga hagsmuna að gæta í skilningi ákvæða skipulagslaga um grenndarkynningu. Hefði því borið að grenndarkynna fyrir þeim byggingaráformin í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, en það var ekki gert. Til þess ber einnig að líta að meira en ár leið frá afgreiðslu borgarráðs, í kjölfar grenndarkynningar á umræddu byggingarleyfi, þar til byggingarleyfi var útgefið af byggingarfulltrúa. Með vísan til 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefði því borið að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina að nýju áður en leyfið var veitt.

Með tilliti til þess að grenndarkynningu er ætlað að veita hagsmunaaðilum andmælarétt auk þess sem hún er liður í rannsókn máls, leiða greindir ágallar á grenndarkynningu umræddrar byggingarleyfisumsóknar til þess að ógilda verður hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. ágúst 2017 um veitingu byggingarleyfis vegna breytinga á þaki hússins að Mímisvegi 4.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson
 

113/2015 Langabrekka

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. nóvember 2015 um að synja um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 10. nóvember 2015 að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að byggingarfulltrúa verði gert að veita umrætt leyfi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 8. febrúar 2016.

Málavextir: Kærandi hefur um árabil óskað eftir leyfi bæjaryfirvalda Kópavogs fyrir byggingu við bílskúr sinn að Löngubrekku 5. Hefur því erindi hans ítrekað verið hafnað af bæjaryfirvöldum, auk þess sem íbúar á aðliggjandi lóð hafa ætíð andmælt þeim áformum. Kærur vegna þessara byggingaráforma hafa áður borist úrskurðarnefndinni, sbr. úrskurð í máli nr. 8/2013 og úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 97/2006 og 34/2007.

Kærandi lagði fram umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs síns að Löngubrekku 5 hinn 8. júní 2015. Umsókninni fylgdu uppdrættir sem sýndu bílskúrinn ásamt fyrirhugaðri viðbygginu. Af uppdráttum að dæma var áætluð viðbygging um 19 m2 að grunnfleti og 3,3 m há. Með viðbyggingunni var ætlunin að stækka núverandi bílskúrsbyggingu því sem næst að mörkum lóðarinnar Álfhólsvegar 61. Á uppdrættinum er viðbyggingin merkt sem geymsla.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 15. júní 2015, en málinu þá frestað. Nefndin samþykkti á fundi sínum 22. s.m. að grenndarkynna umsótta breytingu, með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi sendi inn greinargerð vegna umsóknarinnar, dags. 13. ágúst 2015, auk þess sem athugasemdir bárust frá íbúum Álfhólsvegar 61, dags. 18. s.m. Kærandi mótmælti þeim athugasemdum með bréfi til skipulagsnefndar, dags. 31. s.m. Íbúar Álfhólsvegar 61 mótmæltu afskiptum umsækjanda af málsmeðferðinni með bréfi, dags. 20. september 2015, og komu á framfæri frekari athugasemdum. Skipulagsnefnd tók umsóknina fyrir að lokinni grenndarkynningu 14. september 2015 og 26. október s.á. og hafnaði henni, að fenginni umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 26. október 2015. Bæjarráð tók afgreiðslu skipulagsnefndar fyrir hinn 29. s.m. og vísaði henni til bæjarstjórnar, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar hinn 10. nóvember 2015 með 11 atkvæðum og hafnaði jafnframt erindi kæranda. Byggingarfulltrúi hafnaði í kjölfarið byggingarleyfisumsókn kæranda hinn 12. nóvember s.á., með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarstjórnar og 44. gr. skipulagslaga.

Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir synjuninni með bréfi, dags. 18. nóvember 2015, sem var svarað af formanni skipulagsnefndar með bréfi, dags. 18. desember s.á. Í rökstuðningnum kemur fram að eftir vettvangsferð á lóð kæranda hafi komið í ljós að athugasemdir lóðarhafa Álfhólsvegar 61 um að bílskúr kæranda væri notaður sem íbúðarhúsnæði hafi átt við rök að styðjast. Einnig er nefnt að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá séu 15 manns til lögheimilis að Löngubrekku 5, í tveimur skráðum íbúðum. Af umsókn kæranda megi hins vegar ráða að sótt sé um viðbyggingu við bílskúr. Ljóst megi vera að í umsókn og framlögðum uppdrætti sé ekki miðað við raunverulega notkun húsnæðisins. Notkun bílskúrsins hafi enda verið breytt án heimildar þar til bærra aðila, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn bæjarskipulags Kópavogs frá 16. mars 2007 sé mælt með að leyfi fyrir stækkun bílskúrsins verði veitt og að í umsögn bæjarskipulags frá 26. október 2015 hafi ekki verið tilgreind nein atriði sem valda ættu synjun umsóknar um byggingarleyfi. Stækkun bílskúrsins falli að stefnumörkun Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024, sem leggi áherslu á góða nýtingu lands og þéttingu byggðar. Þá nái velflestir bílskúrar á umræddu svæði við Löngubrekku, sem sé ódeiliskipulagt, að mörkum aðliggjandi lóða við Álfhólsveg. Óheimilt sé að hafna leyfisumsókn á grundvelli vangaveltna eða gruns um að bygging verði notuð á annan hátt en getið sé um í umsókn.

Kærandi sendi viðbótarupplýsingar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 20. janúar 2016, eftir að honum barst rökstuðningur Kópavogsbæjar, dags. 18. desember 2015, barst honum. Hann telur afstöðu skipulagsnefndar hafa ráðist af grun um að viðbyggingin yrði notuð undir íbúð og ítrekar að stækkun bílskúrsins sé í samræmi við stefnu aðalskipulags og að staðsetningin sé ekki á skjön við staðsetningu bílskúra á svæðinu við lóðamörk lóða við Álfhólsveg. Engin gögn styðji umkvörtun íbúa Álfhólsvegar 61 um hávaða eða að notkun húsnæðisins samræmist ekki gr. 9.2.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hluti skúrsins sé teiknaður og samþykktur sem tómstundaherbergi, sem eðlilega fylgi nokkur ívera og umgangur. Íbúar Löngubrekku 5 séu 9 en ekki 15 og séu því upplýsingar um lögheimilisskráningar rangar. Ekki verði innangengt í aðra hluta bílskúrsins úr viðbyggingunni, sem torveldi að nýta hana til íbúðar. Synjun á byggingarleyfi á grundvelli vangaveltna um hugsanlega notkun, sem ekki samræmist umsóknargögnum, geti varla verið í anda byggingarlaga eða byggingarreglugerðar.

Kærandi sendi enn viðbótarupplýsingar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. janúar 2017, þar sem fram kemur að hann hafi þá enn á ný lagt fram umsókn um byggingarleyfi vegna stækkunar bílskúrs síns. Hafi því sem fyrr verið mótmælt af íbúum Álfhólsvegar 61.

Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær vísar til þess að skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sé m.a. óheimilt að reisa eða breyta notkun á mannvirki án þess að fá til þess leyfi hjá byggingarfulltrúa sveitarfélags eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun. Sótt hafi verið um leyfi til að byggja við bílskúr og á meðfylgjandi teikningu hafi viðbyggingin verið sögð geymsla. Hafi á fyrstu stigum málsmeðferðar verið gengið út frá þessum skilgreiningum. Á kynningartíma hafi borist athugasemdir frá nágranna um að notkun bílskúrsins væri önnur en gefin væri upp. Í áliti skipulags- og byggingardeildar hafi komið fram að bílskúrinn væri ekki innréttaður samkvæmt aðaluppdrætti. Vettvangsferð hefði staðfest álit skipulags- og byggingardeildar og hefði það haft úrslitaáhrif á ákvörðun skipulagsnefndar. Að mati nefndarinnar hefðu fylgigögn byggingarleyfisumsóknarinnar ekki samræmst raunverulegri áætlaðri notkun og hefði umsókninni af þeim sökum verið hafnað. Ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á niðurstöðu skipulagsnefndar.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla laganna að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Tiltekna undanþágu frá deiliskipulagskyldu var að finna í þágildandi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, þar sem skipulagsnefnd gat ákveðið að veita mætti byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að undangenginni grenndarkynningu ef áætluð framkvæmd samræmdist stefnu aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Lóð kæranda að Löngubrekku 5 er í grónu hverfi sem ekki hefur verið deiliskipulagt og var farið með umsókn hans um viðbyggingu við bílskúr á lóðinni samkvæmt fyrrgreindri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þess að synja kæranda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5. Kærandi telur synjunina hafa byggst á ólögmætum sjónarmiðum, en Kópavogsbær byggir lögmæti synjunarinnar á rangri framsetningu á umsókninni af hálfu kæranda.

Kópavogsbær hefur borið því við með vísan í 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að skipulagsnefnd hafi metið það sem svo, að fengnum athugasemdum úr grenndarkynningu og eftir vettvangsferð á umrædda lóð, að byggingarleyfisumsókn kæranda væri ekki í samræmi við raunverulega áætlaða notkun. Skipulagsnefnd hafi því hafnað umsókninni og að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi byggst á þeirri niðurstöðu. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 12. nóvember 2015 er sömuleiðis vísað í afgreiðslu skipulagsnefndar til útskýringar á höfnun byggingarleyfisumsóknarinnar og jafnframt vísað í þágildandi 44. gr. skipulagslaga. Í rökstuðningi til kæranda frá formanni skipulagsnefndar með bréfi, dags. 18. desember 2015, eru sömu ástæður nefndar fyrir synjuninni og vísað til gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem kveður á um þvingunarúrræði m.a. til að aflétta ólögmætri notkun húsnæðis.

Fyrir liggur að byggingarleyfisumsókn kæranda var í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti fyrir umrædda lóð en höfnun umsóknarinnar var fyrst og fremst studd þeim rökum að bílskúr á lóðinni væri nýttur til íbúðar. Ekki var vísað til þeirra skipulagsforsendna sem tíundaðar eru í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga við afgreiðslu málsins. Komi til þess að húsnæði sé notað á annan hátt en skipulag eða aðaluppdrættir heimila eru byggingarfulltrúa veitt úrræði að lögum til þess að koma málum í lögmætt horf, sbr. 56. gr. laga um mannvirki, sbr. og gr. 2.9.1. og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð.

Með hliðsjón af framangreindu er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum annmörkum að fallast verður á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. nóvember 2015 um að synja um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við bílskúr að Löngubrekku 5.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

86/2017 og 89/2017 Efri-Vík Skaftárhreppur

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Syðri-Vík, Skaftárhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí s.á., sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst s.á., um að samþykkja deiliskipulag fyrir Efri-Vík í Landbroti vegna íbúðar- og frístundabyggðar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir byggingu starfsmannahúsa á lóðinni Selhólavegi 1, nú Sólvöllum 1, úr landi Efri-Víkur. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir á grundvelli byggingarleyfisins verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Verður seinna kærumálið, sem er nr. 89/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 23. ágúst, 7. september, 23. október og 9. nóvember 2017.

Málavextir: Um árabil hefur verið rekin ferðaþjónusta í landi Efri-Víkur sem staðsett er skammt sunnan Kirkjubæjarklausturs í Skaftárhreppi. Á hluta landsins er frístundabyggð sem var skipulögð með deiliskipulagi frá 1993. Í kjölfar aukinna umsvifa í ferðaþjónustu var unnið að gerð nýs deiliskipulags og að samhliða breytingu á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022.

Lýsing á aðalskipulagsbreytingunni var samþykkt til auglýsingar í júnímánuði 2016 og var aðalskipulagstillaga síðar auglýst með athugasemdafresti frá 16. febrúar til 3. apríl 2017.  Samkvæmt tillögunni skyldi landnotkun í landi Efri-Víkur breytt til að heimila nýtt íbúðarsvæði, opið svæði til sérstakra nota var fellt út og afmörkun frístundasvæðis breytt. Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti aðalskipulagsbreytinguna 5. apríl 2017. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 15. júní s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda 30. s.m.

Á fundi skipulagsnefndar 18. október 2016 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu vegna Efri-Víkur samhliða greindri aðalskipulagsbreytingu. Staðfesting sveitarstjórnar lá fyrir 10. nóvember s.á. og var deiliskipulagstillagan auglýst samhliða framangreindri tillögu að breyttu aðalskipulagi, þ.e. með athugasemdafresti frá 16. febrúar 2017 til 3. apríl s.á. Voru báðar tillögurnar kynntar á opnum fundi 2. mars s.á.

Gert var ráð fyrir því í deiliskipulagstillögunni að hluta skipulagðrar frístundabyggðar í landi Efri-Víkur yrði breytt í íbúðarsvæði. Að auki myndi deiliskipulagssvæðið stækka nokkuð frá eldra deiliskipulagi og bætast við íbúðarsvæði á nokkrum lóðum, m.a. þar sem áður hefði verið skilgreint opið svæði til sérstakra nota. Eftir sem áður tæki deiliskipulagssvæðið til svæðis vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204 eða svonefnds Meðallandsvegar, en einnig bættist við svæðið íbúðarlóð suðaustan vegarins þar sem ráðgert væri að reisa þrjú raðhús, samtals 600 m2, með allt að 4 m mænishæð.

Á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 4. apríl 2017 var deiliskipulag fyrir Efri-Vík lagt fram til samþykktar. Var bókað að engar athugasemdir hefðu borist vegna þess á auglýsingatíma en gerð hefði verið ein breyting eftir auglýsingu. Var bókað að mælst væri til þess að skipulagið tæki gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Á sama fundi voru lagðar fram til afgreiðslu tvær umsóknir um byggingarleyfi á deiliskipulagssvæðinu, annars vegar vegna íbúðarhúss og hins vegar vegna starfsmannaíbúða. Hinn 5. sama mánaðar fundaði sveitarstjórn Skaftárhrepps og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar. Afgreiðslur byggingarleyfisumsóknanna voru báðar kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæra á afgreiðslu vegna starfsmannaíbúða var síðar dregin til baka í kjölfar afturköllunar sveitarfélagsins og með úrskurði kveðnum upp 7. nóvember 2017 vísaði úrskurðarnefndin hinu kærumálinu frá, en það var nr. 73/2017.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 20. júní 2017, en þá hafði borist umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands þar sem gerðar voru athugasemdir við fráveitu. Auk þess höfðu athugasemdir borist að liðnum fresti frá landeigendum Syðri-Víkur með bréfi, dags. 2. júní 2017. Bókað var um helstu athugasemdir landeigenda og þeim svarað af skipulagsnefnd. Einnig var bókað að nefndin hafnaði því að hætt yrði við deiliskipulag svæðisins, enda væri það í samræmi við aðalskipulagsbreytingu sem hefði fengið staðfestingu Skipulagsstofnunar. Mælst væri til þess að deiliskipulagstillagan tæki gildi með auglýsingu þar um í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Á fundi sínum 21. júní s.á. tók sveitarstjórn fyrir og staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar.

Skipulagið var enn tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 11. júlí s.á., en þá hafði Skipulagsstofnun sent umsögn sína og gert athugasemdir í allnokkrum liðum. Bókað var að brugðist hefði verið við athugasemdunum og að nefndin teldi viðkomandi breytingar ekki verulegar. Væri því mælst til þess að skipulagið tæki gildi í samræmi við 42. gr. skipulagslaga eftir aðra yfirferð Skipulagstofnunar. Sveitarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 13. s.m. Skipulagsstofnun kunngerði með bréfi, dags. 28. júlí s.á., að ekki væru gerðir fyrirvarar við skipulagið eftir þær lagfæringar sem hefðu verið gerðar. Samþykkt deiliskipulagsins var loks auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 4. ágúst 2017 og hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með vísan til nýsamþykkts deiliskipulags samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Skaftárhrepps byggingarleyfi vegna starfsmannaíbúða á lóðinni Sólvöllum 1 í landi Efri-Víkur og var umsækjendum tilkynnt um það með bréfi, dags. 14. ágúst 2017. Var sú samþykkt einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að vinnubrögð skipulagsyfirvalda í tengslum við uppbyggingaráform í landi Efri-Víkur hafi verið óvönduð og einkennst af fljótfærni.

Lögbundins samráðs hafi ekki verið gætt við málsmeðferð hins kærða deiliskipulags, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sé að auki vísað til þeirra markmiða nefndra laga að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda þar um, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Eign kærenda liggi að mörkum hins kærða deiliskipulagssvæðis, en sérstaklega sé mælt fyrir um það í 3. mgr. gr. 5.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að hafa skuli samráð við eiganda lands sem liggi að svæði sem deilisskipulagstillaga tekur til. Þótt kærendum hafi síðar verið gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum þá komi það ekki í stað samráðs, sem skuli eiga sér stað þegar skipulagsferlið sé enn opið og raunhæf tækifæri enn til staðar til að hafa áhrif á framvindu skipulagsgerðar. Þá hafi athugasemdum kærenda ekki verið svarað á fullnægjandi hátt og þær að mestu verið virtar að vettugi.

Uppbygging samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi muni hafa umtalsverð grenndaráhrif í för með sér fyrir kærendur, sem fari út fyrir það sem þeir þurfi að sæta samkvæmt nábýlisrétti. Sjón- og hljóðmengun sé fyrirsjáanleg sem muni hafa neikvæð áhrif á not kærenda af jörð sinni. Jörð kærenda sé landbúnaðarjörð sem sé m.a. nýtt til beitar. Aukin umferð sé óæskileg þar sem búfé sé á beit. Fyrirhuguð uppbygging að Sólvöllum 1 muni skerða verulega útsýni kærenda til fjalla af heimili sínu. Uppbygging þar sé fyrirhuguð nálægt íbúðarhúsi kærenda og muni sveitafriðsæld sem þeim sé ómetanleg hverfa. Loks hafi ranglega verið staðið að breytingu á skipulagstillögunni í skipulagsferlinu.

Hvað hið kærða byggingarleyfi frá 14. ágúst 2017 varði sé á því byggt að það grundvallist á ólögmætu deiliskipulagi þar sem ekki hafi verið fullnægt skilyrðum 2.-6. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þannig verði ekki séð að fyrir hafi legið aðal- og séruppdrættir sem áritaðir hafi verið af leyfisveitanda, að tilskilin gjöld hafi verið greidd, að yfirlýsingar byggingarstjóra og iðnmeistara hafi verið afhentar leyfisveitanda eða að skráð hafi verið í gagnakerfi Mannvirkjastofnunar að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga. Þá liggi ekki fyrir neitt yfirlit um innra eftirlit vegna hönnunarinnar og um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða. Feli framangreint í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og ólögfesta rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Loks hafi hið kærða byggingarleyfi ekki verið tekið fyrir af skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps, líkt og áskilið sé í erindisbréfi nefndarinnar. Samþykkt þess og útgáfa sé af þessum sökum ólögmæt.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að ákvarðanataka vegna deiliskipulags íbúðar- og frístundabyggðar í landi Efri-Víkur hafi í hvívetna farið að reglum stjórnsýsluréttarins og skipulagslögum. Skipulagstillögurnar hafi verið kynntar og auglýstar, umfram það sem lögbundið sé, og hafi athugasemdum kærenda verið svarað efnislega þótt þær hafi borist utan athugasemdafrests. Aukning umferðar um svæðið verði hverfandi og muni undir engum kringumstæðum skerða not kærenda af jörð sinni til landbúnaðar.

Umhverfisáhrif verði lítil umfram þau áhrif sem þegar séu af frístundabyggð á svæðinu. Nýjar lóðir séu á gömlum aflögðum túnum og á fyrrum golfvelli. Engar líkur séu á mengun neysluvatns og eftir vettvangsskoðun hafi þótt sýnt að útsýni kærenda skerðist óverulega vegna þeirra bygginga sem heimilaðar séu í skipulaginu. Umferð og grenndaráhrif verði óveruleg umfram það sem fylgi núverandi hótelrekstri og frístundabyggð að Efri-Vík. Telja verði málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar lögmæta, bæði hvað varði efni og form.

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við lögformlegt skipulag svæðisins, eins og því hafi þá verið breytt. Byggingarleyfið hafi ekki verið tekið sérstaklega til afgreiðslu af skipulagsnefnd og sveitarstjórn þar sem það hafi byggst á skipulagi sem þegar hefði verið afgreitt af sömu stjórnsýslueiningum. Leyfið hafi verið samþykkt með afgreiðslubréfi og hafi fullnægjandi gögn borist til samræmis við kröfur sem gerðar hafi verið í nefndu bréfi. Engin óvissa ríki um lögmæti skipulagsferlisins sem réttlætt geti stöðvun framkvæmda. Óvissa ríki hins vegar um það hvaða hagsmuni kærendur telji sig vera að vernda. Sé rökstuðningi áfátt um það atriði.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að starfsmannaíbúðir séu í þágu reksturs hans. Fyrirtækið hafi 45 manns í vinnu og sé með þeim stærri í Skaftárhreppi. Mikil nauðsyn væri á að koma upp íbúðum fyrir starfsmenn. Erfitt hafi reynst að fá úthlutað lóðum á Kirkjubæjarklaustri og hafi orðið úr að skipuleggja nokkrar lóðir í landi Efri-Víkur til slíkrar uppbyggingar. Allir hefðu haft tækifæri til að gera athugasemdir við skipulagið innan auglýsts frests. Þá hafi leyfishafi gert sér ferð til kærenda í tvígang vegna þessa, fyrst sumarið 2016 og síðan í mars 2017. Hann hefði lítil viðbrögð fengið. Því sé hafnað að starfsmannahúsin valdi sjónmengun eða hávaða, enda um að ræða lágreist hús fyrir starfsmenn, sem ferðist til vinnustaðar fótgangandi eða á örfáum smábílum. Þá sé íbúðarhús kærenda í um 400 m fjarlægð frá starfsmannaíbúðunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur í Skaftárhreppi, sem og um lögmæti byggingarleyfis vegna starfsmannaíbúða, samþykktu með stoð í því skipulagi.

Hið kærða deiliskipulag tekur til svæðis þar sem áður var deiliskipulögð frístundabyggð, Álfabyggð, og opið svæði til sérstakra nota, hvort tveggja vestan Landbrotsvegar, þjóðvegar nr. 204. Þá tekur deiliskipulagssvæðið til einnar íbúðarlóðar suðaustan vegarins, þar sem áður var skilgreint landbúnaðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022, en eldra deiliskipulag Álfabyggðar tók ekki til þeirrar lóðar.

Í auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu skipulagsákvörðunar í B-deild Stjórnartíðinda kemur fram að eldra deiliskipulag innan svæðisins falli úr gildi með gildistöku hins nýja deiliskipulags. Í gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er tekið fram að við heildarendurskoðun deiliskipulags, sem fellir eldri áætlanir úr gildi, skuli framsetning og málsmeðferð vera sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Hið kærða deiliskipulag tók til stærra svæðis en eldra skipulag og fól í sér töluverðar efnislegar breytingar. Bar því að fara að fyrirmælum 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um gerð deiliskipulagsins, kynningu og samráð, 41. gr. um auglýsingu og samþykkt þess, og 42. gr. um afgreiðslu þess.

Sveitarstjórn nýtti sér heimild 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga til að víkja frá þeirri skyldu að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar ef allar meginforsendur deiliskipulagsins liggja fyrir í aðalskipulagi. Í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð er tekið fram að með meginforsendum sé átt við stefnu um áherslu og uppbyggingu landnotkunarreita, svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar. Jafnframt nýtti sveitarstjórn sér heimild 2. mgr. 41. gr. laganna til að auglýsa og samþykkja breytingar á aðalskipulagi samhliða deiliskipulaginu. Í aðalskipulagsbreytingu þeirri sem gildi tók 30. júní 2017 fólust breytingar á greinargerð og sveitarfélagsuppdrætti gildandi aðalskipulags Skaftárhrepps. Eftir breytingarnar sýnir sveitarfélagsuppdráttur breytta landnotkun á skipulagssvæðinu, þannig að í stað tilgreiningarinnar Ú1, opið svæði til sérstakra nota, og F5, frístundabyggð, er nú að finna á uppdrætti tilgreininguna F5 með annarri afmörkun og ÍB1, íbúðarbyggð. Sést af uppdrættinum að íbúðarbyggðin er beggja vegna frístundabyggðarinnar og teygir hún sig yfir Landbrotsveg í átt að eign kærenda. Hluti íbúðarbyggðarinnar verður á svæði sem auðkennt var sem landbúnaðarsvæði á eldri aðalskipulagsuppdrætti. Þá var greinargerð aðalskipulagsins breytt þannig að við bættust skilmálar í kafla 2.1., Landbúnaðarsvæði neðan 200 m y.s., sem lutu að heimildum til að byggja frístundahús og íbúðarhús sem ekki tengjast búrekstri á landbúnaðarsvæðum bújarða. Einnig var breytt kafla 2.4., svæði fyrir frístundabyggð, og felldur út kafli 2.3., opin svæði til sérstakra nota. Loks var bætt við nýjum kafla 2.18,  íbúðarsvæði, þar sem gert var ráð fyrir nýju íbúðarsvæði í Efri-Vík, ÍB1, og breytt kafla 2.12, skilgreining vatnsgæða og flokkun vatns. Verður af framangreindu ráðið að meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi, svo sem því var breytt, og þar með að heimilt hafi verið að víkja frá þeirri lagaskyldu að gera deiliskipulagslýsingu.

Svo sem áður er vikið að var ekki gerð lýsing vegna hins kærða deiliskipulags. Var deiliskipulagstillagan auglýst og kostur gefinn á að koma á framfæri athugasemdum. Af auglýsingu verður ekki ráðið að sumar þeirra íbúðarlóða sem þar var ráðgert að skipuleggja yrðu staðsettar á áður ódeiliskipulögðu svæði, sem hafði verið til landbúnaðarnota, líkt og sú lóð sem skipulögð er handan Landbrotsvegar, næst bæjarstæði kærenda. Verður þetta ekki heldur ráðið með neinni nákvæmni af auglýsingu um tillögu að aðalskipulagsbreytingu, sem birt var á sama tíma, þótt þar kæmi fram að hluti landbúnaðarsvæðis færi undir íbúðarbyggð. Lýsingu vegna aðalskipulagsbreytingarinnar fylgdi ekki uppdráttur sem sýndi nýja íbúðarbyggð handan Landbrotsvegar, næst landamerkjunum við jörð kærenda, og mátti ekki ráða sérstaklega af lýsingunni að slík byggð væri fyrirhuguð.

Skipulagslög hafa það m.a. að markmiði að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála, þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Sem og að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana, þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana, sbr. c- og d-lið 1. gr. laganna. Sér þess stað í lögunum að á öllum skipulagsstigum er lögð áhersla á samráð við almenning og hagsmunaaðila. Í gr. 5.2. í skipulagsreglugerð er nánar fjallað um kynningu og samráð við gerð deiliskipulags og um samráð og samráðsaðila er sérstaklega fjallað í gr. 5.2.1. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta og í 3. mgr. er m.a. tekið sérstaklega fram að ef tillaga að deiliskipulagi eða tillaga að breytingu á því tekur til svæðis sem liggur að landamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Fyrir liggur að umrætt deiliskipulagssvæði liggur að landi kærenda og því hefði borið að kynna þeim fyrirhugaða deiliskipulagbreytingu áður en endanleg tillaga var samþykkt af sveitarstjórn til auglýsingar. Það var ekki gert og er þar um annmarka á málsmeðferðinni að ræða.

Með hliðsjón af þeim breytingum sem urðu í nærumhverfi kærenda, við landamörk þeirra, má fallast á með kærendum að slíkt samráð hefði best þjónað markmiðum ákvæða skipulagslaga. Það verður þó ekki fram hjá því litið að allt að einu komu kærendur að athugasemdum sínum í málinu, þótt utan auglýsts athugasemdafrests væri. Skipulagið var tekið upp að nýju eftir samþykkt þess og athugasemdirnar teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar og fundi sveitarstjórnar. Athugasemdunum var þá svarað efnislega og tekið tillit til þeirra, að því marki að vegtenging var felld út innan lands þeirra. Auk þess var tekið til sérstakrar athugunar hvort sjónræn áhrif af byggingum næst bæjarstæði kæranda yrðu ótilhlýðileg. Að því búnu var hið kærða deiliskipulag samþykkt að nýju. Verður að öllu því virtu ekki talið að nefndur annmarki hafi verið svo verulegur að varði ógildingu deiliskipulagsákvörðunarinnar. Í þessu samhengi skal á það bent að það felst ekki í skyldu sveitarfélags til samráðs að fallist verði á allar þær athugasemdir sem í því samráðsferli kunni að koma fram, en sveitarstjórnum er að lögum ætlað víðtækt vald til ákvarðana um skipulag, sem eftir atvikum geta haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum að viðlagðri bótaskyldu.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var að öðru leyti í samræmi við ákvæði 41. og 42. gr. skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu deiliskipulags og teljast þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu, að teknu tilliti til athugasemda Heilbrigðiseftirlits Suðurlands og Skipulagsstofnunar, ekki hafa breytt áður auglýstri tillögu í grundvallaratriðum, í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna. Var því ekki þörf á að auglýsa tillöguna að nýju.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að slíkir annmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar. Rétt er þó að benda á að telji kærendur sig verða fyrir grenndaráhrifum af skipulagsákvörðuninni sem verði þeim til tjóns geta þeir leitað til sveitarfélagsins eftir bótum með vísan til 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi tekur til byggingar starfsmannahúsa á lóð þeirri er liggur að jörð kærenda. Felur það í sér leyfi til að reisa þrjú raðhús með fimm smáíbúðum hvert og er það í samræmi við skilmála deiliskipulags þess efnis að á lóðinni megi byggja að hámarki þrjú raðhús með mænisþaki, samanlagt að hámarki 600 m², eða hvert um sig ekki stærra en 200 m², og hámarkshæð í mæni 4 m. Hefur úrskurðarnefndin og gengið úr skugga um að þau gögn sem nauðsynleg voru fyrir útgáfu byggingarleyfis skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi legið fyrir.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga veitir byggingarfulltrúi sveitarfélags byggingarleyfi, eftir atvikum að undangenginni umfjöllun byggingarnefndar sveitarfélags, samkvæmt sérstakri samþykkt. Sé slík samþykkt til staðar í samræmi við 7. gr. mannvirkjalaga er heimilt að gera að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga. Skaftárhreppur hefur ekki sett sér slíka samþykkt en í erindisbréfi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps kemur fram að innan verksviðs nefndarinnar sé „að fjalla um umsóknir um leyfi til bygginga og annara verklegra framkvæmda.“ Skipulagsnefnd Skaftárhrepps hafði fjallað um umsókn um byggingarleyfi á umræddri lóð hinn 4. apríl 2017. Afgreiðsla á þeirri umsókn var síðar afturkölluð. Við samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa á hinu kærða byggingarleyfi vegna lóðarinnar var vísað sérstaklega til þess að fyrri afgreiðsla hefði verið felld úr gildi. Má af því ráða að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingarleyfi er varðaði sömu byggingar á sömu lóð er áður hafði verið fjallað um í skipulagsnefnd. Var hann og til þess bær, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga.

Að þessu virtu eru ekki heldur efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 13. júlí 2017 um samþykkt deiliskipulags fyrir íbúðar- og frístundabyggð í landi Efri-Víkur.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps frá 14. ágúst 2017 um samþykkt byggingarleyfis fyrir starfsmannahúsum á lóðinni Sólvöllum 1 úr landi Efri-Víkur.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson