Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

146/2017 Spítalastígur

Árið 2018, miðvikudaginn 28. febrúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 146/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Spítalastíg 8, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. desember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Spítalastíg 10 og Bergstaðastræti 17b, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu við Spítalastíg 8, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. desember 2017.

Málavextir:
Í gildi er deiliskipulag Bergstaðastrætisreita frá árinu 2005 með breytingum frá árunum 2007, 2011 og 2013. Samkvæmt því er heimilt að rífa skúrbyggingu á milli húsanna að Spítalastíg 8 og 10, byggja þar þriggja hæða hús í staðinn auk tveggja hæða sambyggðs bakhúss sem rísi ekki hærra en núverandi viðbygging á baklóð Spítalastígs 10. Byggja má svalir á hluta þaks bakbyggingarinnar.

Byggingarleyfisumsókn vegna Spítalastígs 8 var fyrst tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. september 2017. Var sótt um leyfi til að byggja tvær hæðir ofan á einnar hæðar viðbyggingar götumegin og eina hæð að garði. Umsóknin var síðan samþykkt 10. október s.á. og lá þá fyrir umsögn Minjastofnunar, dags. 2. október 2017. Var leyfið gefið út 21. nóvember 2017. Í bókun við samþykkt leyfisins kemur fram að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Í fyrrnefndri umsögn Minjastofnunar kemur fram að húsið að Spítalastíg 8 sé að stofni til frá árinu 1906, en að viðbygging þess sé frá 1916. Með vísan til laga um menningarminjar nr. 80/2012 sé það friðað. Heimilaði stofnunin fyrir sitt leyti gerð viðbyggingar við húsið með vísan til framlagðra aðaluppdrátta frá 6. september 2017 sem væru í samræmi við heimildir í gildandi deiliskipulagi frá árinu 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem búa í aðliggjandi fasteignum við Spítalastíg 10 og Bergstaðastræti 17b, telja þær breytingar sem af leyfinu hljótist snerti eignir þeirra og hagsmuni. Með hliðsjón af c-lið greinar 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi skort á að fullnægjandi gögn hafi legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar um samþykki annara aðila en meðeigenda. Byggingarfulltrúi hafi ekki átt frumkvæði að því að tilkynna um eða veita leiðbeiningar vegna útgáfu hins kærða leyfis. Leyfishafar hafi brotið þá forsendu leyfisins að frágangur á lóðarmörkum yrði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða og byggingarfulltrúi hafi látið það átölulaust. Framkvæmdaraðilar brjóti gegn 9. gr. reglugerðar um hávaða nr. 724/2008, enda hafi þeir ekki tilkynnt um fyrirhugaðar framkvæmdir sem hafi haft í för með sér ónæði fyrir íbúa nærliggjandi húsa, m.a. vegna múrbrots og niðurrifs.

Óljóst sé af aðaluppdráttum hvort burður hinnar nýju viðbyggingu sé sóttur í aðliggjandi hús kærenda að Spítalastíg 10 og Bergstaðastræti 17b. Viðbyggingin muni loka fyrir loftræsiop á þeim gafli Spítalastígs 10 sem snúi að henni og hafi leyfishafi farið fram á að þau verði fjarlægð. Teikningar viðbyggingarinnar séu í ósamræmi við núverandi útlit hússins, en þær sýni tvo kjallaraglugga í stað þeirra fjögurra sem nú séu til staðar. Þá sé óljóst hvort svalir og handrið á þeim fari yfir þaklínu hússins að Bergstaðastræti 17b. Samþykktir aðaluppdrættir feli í sér breytingu hússins úr einbýli í fjölbýli sem nýta mætti til gististarfsemi. Slík starfsemi sé þó óheimil, enda um skipulagt íbúðarsvæði að ræða.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að umdeild byggingarleyfisumsókn hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag og því hafi ekki verið þörf á sérstakri kynninu á henni. Embætti byggingarfulltrúa hafi engar skyldur að lögum til að tilkynna um upphaf framkvæmda, enda hafi embættið að öllu jöfnu ekki vitneskju um slíkt. Ekkert burðarþol verði sótt í vegg hússins að Spítalastíg 10. Ekki liggi fyrir gögn um að leyfi hafi verið gefið fyrir loftræsiopum á útvegg hússins að Spítalastíg 10 við lóðamörk þess að Spítalastíg 8 og ósamræmi í gluggasetningu á teikningum breyti engu um samþykkt hins kærða leyfis. Svalir séu sýndar skilmerkilega á teikningum og tengist þær með engum hætti Bergstaðastræti 17b. Loks sé á það bent að ekki liggi fyrir heimild til reksturs gistiheimilis að Spítalastíg 8. Séu því engin efnisrök til þess að fallast á kröfu kærenda í máli þessu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar telja sig hafa reynt að lágmarka ónæði vegna heimilaðra framkvæmda, en byggingarframkvæmdum fylgi ætíð eitthvað ónæði. Veitt byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag sem legið hafi fyrir í nokkurn tíma. Heimiluð viðbygging verði ekki áföst aðliggjandi byggingum, muni uppfylla kröfur byggingarreglugerðar og verði því sjálfberandi og hljóðeinangruð í samræmi við kröfur reglugerðarinnar. Kanna þurfi loftræsitúður á eldvarnarvegg aðliggjandi húss að Spítalastíg 10 með tilliti til ákvæða byggingarreglugerðar um eldvarnarveggi og glugga á útveggjum. Ekki verði séð að frágangur á loftristum, sem snúi að lóð Spítalastígs 8, uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Réttilega sé á það bent að á teikningar vanti glugga sem séu á núverandi byggingu og verði teikningar lagfærðar að því leyti, það snerti þó ekki viðbygginguna sem leyfið snúi að, heldur eldri hluta hússins. Svalir á 2. hæð viðbyggingar tengist hvorki Spítalastíg 10 né Bergstaðastræti 17b. Handrið svala sé í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingaráform vegna viðbyggingar við Spítalastíg 8. Umrædd lóð er deiliskipulögð og voru til staðar ónýttar heimildir til þeirrar stækkunar á viðbyggingu sem í byggingaráformunum fólust. Byggingarleyfi, sem er í samræmi við gildandi deiliskipulag, þarf ekki að kynna eða birta nágrönnum og hvílir því ekki frumkvæðisskylda á byggingarfulltrúa að tilkynna um útgáfu þeirra.

Skipulag götuhliðar að Spítalastíg er hér um ræðir gerir ráð fyrir randbyggð og því mun viðbyggingin við Spítalastíg 8 eðli máls samkvæmt standa þétt upp að húsinu Spítalastíg 10 og eru húsin nú þegar sambyggð. Deiliskipulag og samþykktir aðaluppdrættir hins kærða byggingarleyfis skilgreina því nákvæmlega hvernig frágangi á lóðamörkum þessara lóða skuli háttað. Bókun byggingarfulltrúa um samráð um frágang getur átt við um t.d. gróður og girðingar á lóðamörkum sem ekki eru nákvæmlega útfærð í skipulagi eða á samþykktum aðaluppdráttum. Þar sem skipulag og uppdrættir útfæra þennan frágang er ekki svigrúm til annars en að fylgja þeim samþykktum. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að viðbygging sú sem hin kærða ákvörðun heimilar muni verða sjálfstæð og sjálfberandi. Þá liggur ekki fyrir að leyfi hafi staðið til þess að gera loftræsiop í gafl hússins að Spítalastíg 10 við lóðarmörk Spítalastígs 8, en um eldvarnarvegg er að ræða. Fer því um þann frágang eftir samþykktum aðaluppdráttum beggja húsa og ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sbr. kafla 9.7 um varnir gegn útbreiðslu elds milli bygginga.

Samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags má hæð bakbyggingar Spítalastígs 8 ekki rísa hærra en viðbygging við Spítalastíg 10 en byggja má svalir á hluta þaks bakbyggingarinnar. Á samþykktum aðaluppdráttum umrædds leyfis er skýringartexti sem tiltekur að hæð 2. hæðar viðbyggingarinnar við Spítalastíg 8, sem snúi að garði, skuli háð hæð bakhúss Spítalastígs 10 og eru svalir sýndar á hluta þaks hennar sem liggja nokkuð frá lóðamörkum. Gert er ráð fyrir handriði á svölunum sem er í svipuðum stíl og handrið svala hússins að Spítalastíg 10 sem snúa einnig út í bakgarð. Svalahandrið heimilaðrar viðbyggingar er nokkru hærra en þak viðbyggingarinnar að Spítalastíg 10. Skilja verður skilmála skipulagsins svo að með því að heimila svalir á þaki bakhússins við Spítalastíg 8, megi einnig gera handrið til varnar falli af svölunum. Í ljósi þess að hinar heimiluðu svalir eru á þaki bakhúss sem skal vera jafnhátt þaki aðliggjandi viðbyggingar á næstu lóð, telst ráðgert handrið svalanna vera í samræmi við heimildir gildandi deiliskipulags. Styðst sú túlkun einnig við skýringarmyndir sem eru á gildandi deiliskipulagsuppdrætti.

Upplýst hefur verið að fyrir yfirsjón vanti glugga á kjallara Spítalastígs 8 á samþykkta aðaluppdrætti en sá hluti hússins tengist ekki umdeildum framkvæmdum. Á skráningarblaði sem samþykkt var af byggingarfulltrúa samhliða aðaluppdráttum þeim sem liggja til grundvallar hinni kærðu ákvörðun kemur fram að í kjallara sé ráðgerð geymsla og að á öðrum hæðum verði íbúðir. Samræmist það landnotkunarheimildum viðkomandi lóðar samkvæmt gildandi aðalskipulagi en í gildandi deiliskipulagi er ekki tekin afstaða til þess hvort þar skuli vera sérbýli eða fjölbýli. Hið kærða byggingarleyfi felur ekki í sér heimild til gististarfsemi í hinni fyrirhuguðu viðbyggingu, en slík starfsemi er eftir atvikum háð sérstöku starfsleyfi og þarf auk þess að rúmast innan gildandi landnotkunar viðkomandi svæðis.

Samkvæmt 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða skal viðkomandi heilbrigðisnefnd fara með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur nefndin vald til beitingar þvingunarúrræða samkvæmt ákvæðum hennar. Eftir atvikum er hægt að kæra þær ákvarðanir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar varðandi hávaða vegna þeirra framkvæmda sem hér um ræðir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efniságallar sem raskað geta gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður því ekki fallist á ógildingarkröfu kærenda.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfisumsókn vegna viðbyggingar við Spítalastíg 8, Reykjavík.