Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2017 Bergþórugata 23

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 5. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2017, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2017 á umsókn Þrengsla ehf. um að breyta notkunarflokki fjölbýlishúss á lóð nr. 23 við Bergþórugötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Þrengsli ehf., Bergþórugata ehf. og Kaffihúsið ehf., Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2017 að hafna umsókn Þrengsla ehf. um að breyta notkunarflokki fjölbýlishúss á lóð nr. 23 við Bergþórugötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að umsókn kæranda verði samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. apríl 2017.

Málavextir:
Með kaupsamningi, dags. 20. september 2016, seldi Kaffihúsið ehf. Þrengslum ehf. eignarhluta í fasteigninni að Bergþórugötu 23, en í samningnum var það skilyrði sett fyrir kaupunum að leyfi fengist fyrir gististarfsemi í öllu húsinu. Rekstraraðili fasteignarinnar er Bergþórugata 23 ehf. og standa nefndir aðilar að kærumáli þessu.

Hinn 22. nóvember 2016 sótti einn kærenda um breytingu á skilgreiningu mannvirkis til byggingarfulltrúans í Reykjavík. Fól umsóknin í sér að fjölbýlishús á lóð nr. 23 við Bergþórugötu færi úr notkunarflokki 3 í notkunarflokk 4. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2017 var umsóknin tekin fyrir og henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. febrúar s.á. var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 3. s.m.

Í umsögn skipulagsfulltrúa kom fram að í skipulagi svæðisins sé landnotkun skilgreind sem íbúðarbyggð (ÍB) en innan íbúðarbyggðar gildi ákveðnar heimildir og takmarkanir er varði starfsemi gististaða. Í töflu 3 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi fram innan hvaða landnotkunarflokka gististarfsemi sé heimiluð eftir flokkum. Með vísan til töflunnar sé ljóst að einungis gististarfsemi í flokki I, gisting á lögheimili umsækjanda, sé heimiluð innan íbúðarbyggðar en ekki gististarfsemi í flokki II-V. Í gildandi deiliskipulagi svæðisins komi fram að ekki sé gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum innan svæðisins.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji að ákvörðun byggingarfulltrúa sé haldin formlegum annmarka en hún sé alfarið byggð á umsögn skipulagsfulltrúa. Undir þá ákvörðun riti skipulagsfræðingur og verkefnastjóri. Þó starfshæfni hans sé á engan hátt dregin í efa þá verði ekki fram hjá því litið að erindi umsækjanda hafi fyrst og fremst varðað lögfræðilega túlkun á ákvæðum aðal- og deiliskipulags og sé niðurstaða hans byggð á því að ekki sé „tekið undir túlkun umsækjanda“ á aðal- og deiliskipulagi.

Eins og hin kærða ákvörðun beri með sér hafi byggingarfulltrúi ekki fjallað efnislega um málið, heldur hafi hún í reynd verið tekin af skipulagsfulltrúa. Sú málsmeðferð geti vart samrýmst vönduðum stjórnsýsluháttum.

Í gildi sé aðalskipulag sem samþykkt hafi verið í borgarstjórn 26. nóvember 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2014. Hinn 21. október 2014 hafi verið samþykkt „óveruleg breyting á aðalskipulagi“ þar sem eftirgreindum texta hafi m.a. verið bætt við túlkun á ákvæðum um gististaði: „Ofangreind ákvæði eru ekki afturvirk. Mögulegt er að endurnýja leyfi um starfsemi sem var til staðar fyrir staðfestingu aðalskipulagsins, enda sé um óbreytta starfsemi að ræða í sama húsnæði og áður.“ Bersýnilegt sé að sú breyting sem hafi falist í hinni óverulegu breytingu komi ekki í veg fyrir að leyfi sé útvíkkað á sama stað enda hafi það enga breytingu í för með sér hvað varði grenndaráhrif vegna þess rekstrar sem þegar hafi verið fyrir í umræddu húsnæði. Þegar aðalskipulagsbreytingin hafi tekið gildi hafi verið leyfisskyld starfsemi að Bergþórugötu 23 sem óskað hafi verið eftir að næði til annarra íbúða innan sama húsnæðis.

Í gildandi deiliskipulagi Njálsgötureits, sem hér eigi við, sé heimilaður rekstur lítilla fyrirtækja líkt og Bergþórugata ehf. sannarlega sé, en í því deiliskipulagi undir 7. lið segi orðrétt: „Ekki skal gera ráð fyrir gistiheimilum og hótelum, en heimilt er í samræmi við aðalskipulag að vera með litlar vinnustofur, fyrirtæki svo sem gallerý og smáverslanir sem hvorki valda ónæði né aukinni umferð.“

Það leyfi sem kærandi hafi sótt um falli undir flokk II samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þ.e. gististaður án veitinga, en slíkri gistingu verði ekki jafnað við gistiheimili eða hótel sem óheimil séu samkvæmt deiliskipulaginu. Eins og ráða megi af skilgreiningu b. liðar 6. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sé gistiheimili gististaður með takmarkaðri þjónustu og þá sé jafnframt ráðgert að á slíkum gististöðum sé næturvarsla eða gestamóttaka sem sé opin allan sólarhringinn og morgunverður framreiddur, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Þar sem beinlínis sé kveðið á um í reglugerðinni að morgunverður sé framreiddur á „gistiheimilum“ en undir leyfi samkvæmt flokki II falli „gististaðir án veitinga“ sé bersýnilegt að þar sé um eðlisólíka hluti að ræða.

Þá liggi fyrir að kærendur hafi ráðist í ýmsar framkvæmdir og viðbyggingu hússins í trausti þess að mögulegt sé að nýta fasteignina undir rekstur gistiþjónustu. Þegar ráðist hafi verið í þær framkvæmdir, hafi rekstur gististaða verið heimill samkvæmt skipulagi svæðisins og muni kærendur hafa haft réttmætar væntingar til að ekki yrðu breyting þar á.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé landnotkun umrædds svæðis skilgreind sem íbúðarbyggð. Þar sé í gildi deiliskipulag Njálsgötureits, samþykkt í borgarráði 26. september 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á. Innan skilgreindrar íbúðarbyggðar í aðalskipulagi gildi ákveðnar heimildir og takmarkanir er varði starfsemi gististaða og er t.d. óheimilt að vera með gististað í flokki II-V innan íbúðarbyggðar.

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Allar heimildir séu til staðar fyrir byggingarfulltrúa að leita umsagnar skipulagsfulltrúa. Sérstaklega sé kveðið á um í 2. ml. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki og 5. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að „ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins“. Ákvörðun byggingarfulltrúans hafi því verið í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sé í gildi rekstrarleyfi í flokki II fyrir íbúð nr. 01-01, dags. 6. júní 2013, og gildi til 6. júní 2017. Ljóst sé að breytingarákvæði aðalskipulagsins eigi við í tilfelli íbúðarinnar enda hafi rekstrarleyfi verið samþykkt fyrir birtingu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Ákvæði um takmörkun á gististöðum miði m.a. að því að stemma stigu við fjölgun þeirra innan íbúðarhverfa í því skyni að sem minnst sé vikið frá ríkjandi landnotkun og draga með því úr áhrifum slíkra breytinga á íbúðarhúsnæðismarkað.

Ekki sé fallist á að fyrrgreint breytingarákvæði gildandi aðalskipulags feli í sér heimild til útvíkkunar rekstrarleyfis í aðrar íbúðir í húsinu að Bergþórugötu 23. Eitthvað sem heiti „útvíkkun á leyfi“ sé hvorki í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, né í reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 1277/2016. Hér sé um að ræða nýtt leyfi fyrir annað fastanúmer en nú sé í gildi fyrir eina íbúð. Í töflu 3 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi fram innan hvaða landnotkunarflokka gististarfsemi sé heimiluð eftir flokkum. Með vísan til töflunnar sé ljóst að einungis gististarfsemi í flokki I, gisting á lögheimili umsækjanda, sé heimiluð innan íbúðarbyggðar en ekki gististarfsemi í flokki II-V og í gildandi deiliskipulagi komi fram að ekki sé gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum innan svæðisins. Ekki sé tekið undir þá túlkun umsækjanda á gististarfsemisákvæðum deiliskipulagsins að gististarfsemi í formi íbúðarleigu sé undanskilin í þeim ákvæðum og flokkist sem rekstur „lítilla fyrirtækja“. Sú túlkun að setja íbúðargistingu undir sama flokk og rekstur lítilla fyrirtækja eigi sér ekki stoð. Hér sé átt við þjónustu sem geti þjónað íbúum innan íbúðarbyggðarinnar sem gistiheimili geri ekki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar. Nefndin er ekki bær til þess að taka nýja stjórnvaldsákvörðun af þeim sökum verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að umsókn um breyttan notkunarflokk verði samþykkt.

Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn eins kærenda um að notkunarflokkur fjölbýlishússins að Bergþórugötu 23 yrði færður í flokk 4. Um notkunarflokka er fjallað í kafla 9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í gr. 9.1.2. kemur fram að brunavarnir mannvirkis ákvarðist af notkun þess með tilliti til öryggis fólks og dýra. Flokkun ákvarðast af því hvort sofið er innan mannvirkjanna, hvort fólk sem þar er þekkir flóttaleiðir innan þeirra og hvort það geti sjálft bjargað sér úr mannvirkinu við eldsvoða. Í gr. 9.1.3. eru notkunarflokkarnir sex taldir upp og skilgreindir. Í gr. 9.1.4. er tekið fram að sérbýlishús, frístundahús, stakar íbúðir og stök herbergi til skammtímaleigu og húsnæði til heimagistingar skulu uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar um eldvarnir í íbúðarhúsum, þ.e. í notkunarflokki 3. Sama gildi um eldvarnir sameignar ef húsnæðið er í fjöleignarhúsi. Ef gestafjöldi er yfir 10 manns telst húsnæðið í notkunarflokki 4 og skal uppfylla ákvæði reglugerðarinnar fyrir þann notkunarflokk. Í notkunarflokk 4 falla mannvirki þar sem gisting er boðin, s.s. hótel og aðrir gististaðir. Notkunarflokkur húsnæðis ræðst því af notkun þess samkvæmt samþykktu byggingarleyfi og breytist ekki nema heimiluð notkun samkvæmt slíku leyfi sé breytt með nýrri ákvörðun.

Með hliðsjón af því sem fyrir liggur í máli þessu verður að ætla að umsókn sú sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun hafi í raun falið í sér beiðni um breytta notkun annarra íbúða fyrrgreinds fjöleignarhúss en íbúðar merktri 0101, sem áður hafði fengið samþykkta breytta notkun úr íbúðarhúsnæði í gististað í flokki II. Í húsinu eru 12 íbúðir og færi það því í notkunarflokk 4 ef samþykkt væri gististarfsemi í öllum eignarhlutum hússins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er hin umþrætta fasteign á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði. Á þeim svæðum er aðeins heimilt að hafa gististaði í flokki I skv. skilmálum aðalskipulagsins um landnotkun. Í gildandi deiliskipulagi svæðisins kemur fram að á íbúðarsvæðinu skuli vera íbúðarbyggð en heimilt sé að vera með heimagistingu á reitnum samkvæmt skilgreiningu heimagistingar í 10. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Aðalskipulagsbreytingin frá árinu 2014, sem vísað hefur verið til í þessu máli, fól í sér sérstök ákvæði um starfsemi innan landnotkunarsvæða, bætti við eftirfarandi setningu neðanmáls í töflum 1, 2, 3 og 4: „Ofangreind ákvæði eru ekki afturvirk. Mögulegt er að endurnýja leyfi um starfsemi sem var til staðar fyrir staðfestingu aðalskipulagsins, enda sé um óbreytta starfsemi að ræða í sama húsnæði og áður. Þetta á þó ekki við á svæðum þar sem tekið er skýrt fram í almennri skilgreiningu landnotkunar að viðkomandi starfsemi skuli vera víkjandi.“ Telja verður að samþykki fyrir breyttri notkun á öðrum íbúðum hússins en íbúð nr. 0101 væri breyting á starfsemi sem fæli í sér annað og meira en endurnýjun þess leyfis sem til staðar var fyrir nefnda íbúð. Samþykkt slíkrar umsóknar hefði ekki átt stoð í gildandi aðalskipulagi.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Var byggingarfulltrúa rétt að leita slíkrar umsagnar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og taka mið af þeirri umsögn við töku ákvörðunarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2017 um að hafna umsókn um að breyta notkunarflokki fjölbýlishúss á lóð nr. 23 við Bergþórugötu.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

54/2018 Eikjuvogur 27

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 14. júní kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, Eikjuvogi 29, Reykjavík, og D og E, Eikjuvogi 25, Reykjavík  þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2018 að staðfesta samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. s.m. um að veita leyfi fyrir byggingu tveggja húsa á tveimur hæðum með samtals þremur íbúðum á lóð nr. 27 við Eikjuvog. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður síðara kærumálið, sem er nr. 66/2018, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að kærunum. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 25. apríl og 9. maí 2018.

Málavextir:
Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 25. janúar 2018 var staðfest samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27, að undangenginni auglýsingu á tillögu þar um. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. apríl s.á. Breytingin felur í sér að í stað einbýlishúss verði heimilaðar þrjár íbúðir í tveimur húsum á lóðinni sem tengjast saman með sameiginlegum stigagangi. Byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðar helst óbreytt, sem og fjöldi bílastæða.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2018 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða húsum með þremur íbúðum á lóðinni Eikjuvogi 27 og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði Reykjavíkur 26. s.m. 

Málsrök kærenda:
Kærendur byggja á því að um sé að ræða deiliskipulagsbreytingu í rótgrónu hverfi þar sem öll hús austan götunnar Eikjuvogs, utan endahússins nr. 1, séu einbýlishús. Vakin sé sérstök athygli á fyrirhugaðri vegghæð og að húsið sé hærra en samþykkt hús samkvæmt áðurgildandi deiliskipulagi, auk þess sem breytingunni fylgi aukið skuggavarp fyrir aðliggjandi lóðir. Ekki sé gert ráð fyrir því í aðalskipulagi að byggðinni neðan/austan Eikjuvogs verði breytt úr sérbýlishúsabyggð í fjölbýlishúsabyggð. Um sé að ræða fordæmisgefandi ákvörðun sem muni þá gilda gagnvart öllum eigendum húsa í hverfinu. Þannig sé um að ræða grundvallarbreytingu á skipulagi og nýtingu hverfisins sem stoð þurfi að eiga í aðalskipulagi. Jafnframt sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 120/2014, þar sem sambærileg breyting á deiliskipulagi hafi verið felld úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er því alfarið hafnað að um sé að ræða grundvallarbreytingu á skipulagi og nýtingu hverfisins. Eina breytingin sem hin kærða skipulagsákvörðun heimili, umfram fyrri heimildir, sé fjölgun íbúða úr einni í þrjár. Engin breyting sé á byggingarmagni, heildarhæð bygginga eða nýtingarhlutfalli frá áðurgildandi deiliskipulagi fyrir Vogahverfi. Mörg hús í Eikjuvogi séu tví- og þríbýlishús, auk einbýlishúsa, og sé breytingin því í fullu samræmi við byggðamynstur. Skuggavarp við breytingu á mænisstefnu hússins verði óhjákvæmilega meira á nálægar lóðir en frá fyrri tillögu. Engin áhrif verði á lóð Eikjuvogs 25 á hásumri, en áhrifin séu meiri við jafndægur. Ekki sé þó um að ræða meira íþyngjandi skuggavarp á nálægar lóðir en því sem búast megi við í byggð borgarinnar. Þá sé fyrirhugað hús í samræmi við önnur hús í götunni og hverfinu. Umrædd deiliskipulagsbreyting sé ekki til þess fallin að skapa fordæmi fyrir auknum byggingarheimildum umfram þær heimildir sem þegar séu fyrir í eldra skipulagi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst frávísunar málsins varðandi deiliskipulagið þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst úrskurðarnefndinni. Þá mótmælir hann ógildingu deiliskipulagsins. Fleiri hús í götunni skiptist í fleiri en einn eignarhluta og nýtingarhlutfall lóðar, byggingarreitur og hæð hússins séu í samræmi við fyrra deiliskipulag. Þá séu áhrif af skuggavarpi ekki meiri en búast megi við í byggð í borg.

Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. mars 2018. Í samræmi við 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tók kærufrestur að líða 14. mars s.á. og var síðasti dagur kærufrests hinn 16. apríl s.á. þar sem 14. þess mánaðar bar upp á laugardag, sbr. 2. mgr. nefnds ákvæðis. Kæra í máli þessu barst 11. apríl 2018, eða innan kærufrests. Kröfu kærenda varðandi hina kærðu deiliskipulagsbreytingu verður því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni á þessum grundvelli.

Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27 og samþykki byggingarleyfis á grundvelli þeirrar breytingar, þar sem gert er ráð fyrir byggingu tveggja samtengdra húsa með þremur íbúðum í stað einbýlishúss.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breyting rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni og staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Framkomnum athugasemdum var svarað og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni meðferð Skipulagsstofnunar. Eftir hina kærðu ákvörðun var nýtingarhlutfall umræddrar lóðar, byggingarreitur og hámarkshæð bygginga óbreytt frá eldra deiliskipulagi. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting einungis í sér þá breytingu að heimilt er að byggja tvö samtengd hús með þremur íbúðum í stað einbýlishúss á umræddri lóð. Verður af þessum ástæðum ekki séð að deiliskipulagsbreytingin hafi að marki aukin grenndaráhrif umfram það sem vænta mátti að óbreyttu skipulagi. Telji hagsmunaaðilar sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagi þarf það ekki að raska gildi skipulagsbreytingarinnar en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.
 
Umrædd lóð er á skilgreindu íbúðarsvæði ÍB27 Vogar, sbr. gildandi Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Um svæðið segir nánar að það sé fullbyggt og fastmótað og hafi það byggst upp að mestu á árunum 1945-1955. Yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjölbreytt en lágreist byggð einkenni svæðið. Það að tilgreint sé í aðalskipulagi að hverfi sé fullbyggt og fastmótað girðir ekki fyrir byggingarframkvæmdir. Gerði enda fyrra deiliskipulag ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni. Samkvæmt deiliskipulagi Vogahverfis eru á svæði B einbýlis- og sambýlishús, m.a. við Eikjuvog, og er tekið fram í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að Eikjuvogur 27 sé á svæði B. Þá eru í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skráðar tvær íbúðir í húsinu Eikjuvogi 29, þar sem hluti kærenda er búsettur. Verður því ekki séð að yfirbragð byggðar breytist í trássi við aðalskipulag, enda er þar tekið fram að yfirbragð sé nokkuð fjölbreytt. Áskilnaði laga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana er að öllu framangreindu virtu fullnægt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, svo sem því var breytt með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Með vísan til þess og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvörðun, verður gildi leyfisins ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. janúar 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vogahverfis vegna Eikjuvogs 27.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. apríl 2018 um að samþykkja umsókn um byggingu tveggja húsa á tveimur hæðum með samtals þremur íbúðum á lóð nr. 27 við Eikjuvog.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson (sign)                                  Þorsteinn Þorsteinsson (sign)

152/2016 Rauðarárstígur 1

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 6. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 152/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2016, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hostel LV 105 hf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. október 2016 að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun eignarhluta 0101 og 0102 á 1. hæð hússins að Rauðarárstíg 1, Reykjavík, úr verslunarhúsnæði í gististað í flokki II, tegund E. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. október 2016 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að innrétta gististað í flokki II, tegund E, fyrir átta gesti í eignarhlutum 0101 og 0102 á fyrstu hæð í íbúðar- og atvinnuhúsi á lóð nr. 1 við Rauðarárstíg í Reykjavík. Var umsókninni synjað með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa frá 27. október 2015. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði 20. október 2016.

Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið rökstudd með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um annað erindi en sótt hafi verið um. Umsótt breyting sé í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags Reykjavíkur og gildandi deiliskipulag umrædds svæðis. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi farið gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, laga um mannvirki nr. 160/2010 og almennum reglum stjórnsýsluréttarins, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Borgaryfirvöld benda á að í fyrrgreindri umsögn, sem vísað hafi verið til við töku hinnar kærðu ákvörðunar, hafi verið fjallað um sambærilegt tilvik og mál þetta snúist um. Aðalskipulag kveði á um að verslunar- og þjónustustarfsemi hafi forgang á fyrstu hæðum götuhliða húsa á svæðinu. Umsókn kæranda sem synjað hafi verið hafi hvorki verið í samræmi við aðalskipulag né deiliskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum í veðbandsyfirliti frá Þjóðskrá Íslands urðu eigendaskipti á fasteignum kæranda í húsinu að Rauðarárstíg 1 á árinu 2017 og voru afsöl þess efnis þinglýst 26. maí 2017.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Lögvarðir hagsmunir kæranda í máli þessu voru tengdir réttarstöðu hans sem handhafa fasteignaréttinda í húsinu að Rauðarárstíg 1. Eins og fyrr er rakið á kærandi ekki lengur réttindi tengd umræddri fasteign og á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Auk þess hafa nýir eigendur eignarhlutanna sótt um og fengið samþykkt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun þeirra samkvæmt ákvörðun byggingarfulltrúa frá 20. febrúar og 10. apríl 2018. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
  

_________________________________________
Ómar Stefánsson (sign)

53/2018 Skemmubygging í Bjarnarflagi

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 29. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Björk, Mývatni, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 7. mars 2018 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu skemmu á lóð í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Var fallist á stöðvunarkröfu kæranda með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 17. apríl 2018.

Málsatvik og rök:
Með bréfi byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps, dags. 7. mars 2018, var Léttsteypunni ehf. tilkynnt að umsókn félagsins um byggingu skemmu í Bjarnarflagi hefði verið samþykkt sama dag. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Kærandi vísar til þess að hann sé sameigandi að lóðarréttindum þeirrar lóðar sem heimiluð skemma skuli standa á. Með hinni kærðu ákvörðun sé því brotið gegn stjórnarskrárvörðum eignarétti hans. Auk þess fari ákvörðunin í bága við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og sé málsmeðferð að öðru leyti svo ábótavant að ógildingu varði.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að eftir athugun málsins hafi verið ákveðið að kanna hvort tilefni væri til að afturkalla hina kærðu ákvörðun. 

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins, en hann hefur ekki nýtt sér þann kost í ljósi þeirrar málsmeðferðar sem fram fór hjá sveitarfélaginu í kjölfar kæru.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem veitt var 7. mars 2018 til byggingar skemmu í Bjarnarflagi. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. maí 2018, var leyfishafa tilkynnt um afturköllun hins kærða byggingarleyfis. Var vísað til bókunar skipulagsnefndar á fundi sínum 14. s.m. um málið, sem og til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tiltekið að þar sé m.a. gert ráð fyrir að heimilt sé að afturkalla ákvörðun ef hún teljist ógildanleg. Var og tekið fram að vegna stöðu eignaréttarlegra heimilda hafi ekki verið uppfyllt skilyrði til útgáfu byggingarleyfis.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
 

_____________________________
Nanna Magnadóttir

61/2018 Hraunteigur 3

Með

Árið 2018, föstudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um veitingu byggingarleyfis til að byggja tveggja hæða einbýlishús með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2018, er barst nefndinni 25. s.m., kæra lóðarhafar Hraunteigs 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn máls bárust frá Reykjavíkurborg 4. maí 2018.

Málavextir:  Hinn 27. janúar 2017 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi Teigahverfis vegna Hraunteigs 3 grenndarkynnt. Komu kærendur á framfæri athugasemdum á kynningartíma er lutu að götumynd, skuggavarpi, stærð, hæð og lögun fyrirhugaðrar nýbyggingar. Var skipulagsbreytingin samþykkt með breytingum og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2017.

Hinn 9. október 2017 var sótt um heimild til niðurrifs húss og bílskúrs sem fyrir voru á lóðinni Hraunteigi 3. Var byggingarleyfi þess efnis gefið út 27. s.m. og var niðurrifi lokið í janúar 2018. Þá var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. október 2017 samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóðinni og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 12. s.m. Úttekt vegna botns undir fyllingu fór fram 10. janúar 2018 og í byrjun febrúar s.á. hófust framkvæmdir á byggingu hins nýja einbýlishúss, en útgefið byggingarleyfi er dagsett 8. febrúar s.m. Byggingarfulltrúi staðfesti úttekt á sökklum hinn 22. mars 2018. Hefur kærandi skotið nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er á því byggt að upphaf kærufrests í máli þessu skuli miða við 8. apríl 2018, en þá hafi þeim fyrst orðið ljóst að útgefið byggingarleyfi samrýmdist ekki gildandi deiliskipulagi. Tveimur dögum áður, þ.e. 6. apríl, hafi byggingarleyfishafi komið að máli við annan kærenda vegna 140 cm hás steinveggjar sem hann hafi talið sig þurfa að byggja á lóðamörkum Hraunteigs 3 og 5. Þá fyrst hafi kæranda orðið ljóst að hækka átti lóð nr. 3 um meira en 100 cm frá því sem áður hafi verið. Í kjölfar þess hafi nefndur kærandi rætt við byggingarleyfishafa í síma og sent honum bréf, dags. 8. apríl 2018, þar sem alvarlegar athugasemdir hafi verið gerðar við áðurgreindan hæðarmun og að teikningar gerðu ráð fyrir að byggt væri út fyrir byggingarlínu við götu.

Kærendur telji ljóst að þær teikningar sem Reykjavíkurborg hafi samþykkt og lagt til grundvallar umþrættu byggingarleyfi, feli í sér að hæðarkótum lóðar hafi verið breytt umtalsvert. Ekkert komi fram á þeim myndum sem fylgdu deiliskipulagi að ætlunin hafi verið að breyta hæðarkóta á lóð, heldur beri þær þvert á móti með sér að hæðarkóti skuli vera óbreyttur. Þessu til stuðnings sé vísað til e. liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, þar sem segi m.a. að óheimilt sé að breyta hæð lóðar á lóðarmörkum án samþykkis leyfisveitanda og lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þar komi og fram að óheimilt sé að breyta hæð innan lóðar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. útsýni.

Kærendum hafi ekki þótt athugavert að deiliskipulag vegna Hraunteigs 3 hafi kveðið á um að steypa mætti stoðvegg á lóðarmörkunum þar sem kærendur hafi lækkað lóð sína lítillega út við götu árið 2003 með samþykki eftirlitsaðila. Umræddar lóðir hafi verið jafn háar fram að því. Hins vegar segjast kærendur hafa verið grunlausir um að til stæði að hækka lóðina um 100 cm, sem myndi leiða til a.m.k. 140 cm hæðarmunar á mörkum lóðanna við innkeyrslu að lóð nr. 5. Steyptur veggur við lóðamörkin sé úr takti við götumynd og jafnframt skýrt brot á kvöðum um hámarkshæð í gildandi deiliskipulagi. Breytingar á hæðarkótum lóðar nr. 3 leiði til þess að mikill hæðarmunur verði við aðrar nærliggjandi lóðir, s.s. Hrísateig nr. 8 og 10. Myndir sýni að hæð lóðar Hraunteigs 3 hafi verið sú sama og hæð lóðar við Hrísateig 10, en nú hafi verið steyptur veggur til að halda við jarðveg á framangreindum lóðamörkum. Veggurinn sé um 180 cm hár frá hæð lóðar á Hrísateig 10 og ljóst sé að reisa þurfi grindverk þar ofan á til að tryggja öryggi og því stefni í að veggurinn verði um 3 m hár með tilheyrandi lýti og skuggavarpi.

Umþrætt byggingarleyfi, sem veiti leyfishafa heimild til að byggja hús sem standi 2,7 × 8,2 m út fyrir skilgreindan byggingarreit, sé ekki í samræmi við ákvæði gildandi deiliskipulags um óbreytta byggingarlínu við götu. Deiliskipulagið heimili svalir til suðurs að götu og þak megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit, en ljóst sé að samþykktar teikningar geri ráð fyrir verulegum frávikum. Í þessu sambandi bendi kærendur á að svalir í Teigahverfi séu almennt ekki stærri en 1,2 × 3,0 m og hinar fyrirhuguðu svalir séu þannig sex sinnum stærri, eða 22 m2 í stað 3,6 m2, og með láréttum og lóðréttum steinsúlum, auk skorsteins sem standi út fyrir byggingarreit.

Ljóst sé að hin fyrirhugaða framkvæmd muni varpa skugga á eign kærenda og þar með verðfella hana. Kærendur hafi eytt bæði tíma og fjármunum í að gera garð í kringum fasteign sína aðlaðandi, einkum fyrir framan húsið, þar sem þau eigi athvarf, einkum að loknum vinnudegi á sólríkum dögum að vori og hausti. Skuggavarp hafi ekki verið kynnt þegar umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst og hafi kærendur gert athugasemdir við það og óskað eftir skuggavarpsútreikningi kl. 18. Ekki hafi verið fallist á það og skuggavarp kl. 17 hafi borist sem hluti af grenndarkynningu á breyttu deiliskipulagi. Bent sé á að vegna staðhátta tapist engin gæði sé skuggavarp kl. 17 skoðað en verulega halli á gæði við lóð nr. 5 þegar skoðað sé skuggavarp frá kl. 17:30 til 19:30.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að kærufrestur í máli þessu sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Umdeilt byggingarleyfi hafi verið gefið út 8. febrúar 2018 og framkvæmdir séu löngu hafnar.

Framkvæmdum við niðurrif eldra húss hafi lokið í janúar 2018 og 10. janúar s.m. hafi farið fram úttekt vegna botns undir fyllingu. Frá þeim tíma hafi verið gerðar nokkrar úttektir af hálfu byggingarfulltrúa á framkvæmdum. Staðfest úttekt á sökklum hafi verið gerð hinn 22. mars 2018. Samkvæmt ofangreindu hafi frestur til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Því beri að vísa málinu frá.

Rétt sé að benda á að það sé á verksviði leyfisveitanda að gæta þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti og skipulag og gera nauðsynlegar ráðstafanir reynist þess þörf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í gildandi deiliskipulagi séu ekki gefnir upp hæðarkótar en gerð sé grein fyrir hæðarsetningu fyrirhugaðs húss að Hraunteigi 3 og sú hæðarsetning sé í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins þar að lútandi. Lóðin sé eðli málsins samkvæmt hæðarsett til samræmis við hæð aðalgólfplötu hússins og kærendur hafi mátt vænta þess að svo yrði. Hæðarmuninn á lóðunum megi einnig rekja til breytinga sem gerðar hafi verið á lóð nr. 5, en hún sé 50-60 cm lægri en hún eigi að vera auk þess sem hún halli niður á við frá götu en það sé ekki í samræmi við uppdrætti.

Hæð stoðveggjar á mörkum lóða nr. 3 og 5, ákvarðist af hæð lóðar Hraunteigs 3. Sú girðing sem fyrir sé á lóð nr. 5 sé mun hærri en stoðveggurinn út við götuna en hún halli niður á við inn í lóðina og endi í svipaðri hæð og stoðveggurinn þar sem hún mæti horni bílskúrs lóðar nr. 5. Þar sé veggurinn hærri séð frá lóð nr. 5 vegna hæðarsetningar þeirrar lóðar og verði kærendur að bera hallann af því.

Fullyrðing kærenda um skerðingu útsýnis úr eldhúsglugga jarðhæðar sé vafasöm þar sem um kjallaraíbúð sé að ræða, auk þess sem kærendur séu búnir að selja þá íbúð og undirrita afsal sem lagt hafði verið inn til þinglýsingar þegar kæra var gerð. Leyfishafi sé að nýta þá heimild sem gefin sé í skipulagi til að byggja svalir til suðurs og hafa þak yfir þeim. Hönnun hafi verið breytt í samræmi við þær athugasemdir sem borist hafi við kynningu deiliskipulagsbreytingar vegna lóðarinnar Hraunteigs 3, þannig að hliðarveggur að austanverðu hafi verið felldur út og svalasvæðið opnað til hliðanna. Liður e í gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 veiti heimild fyrir verönd eða palli við suðurhlið undir svölum. Því verði ekki séð að byggingarleyfið fari svo í bága við skipulag að ógildingu varði.

Niðurstaða: Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011, er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Upphaf kærufrests í þessu máli ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um efni hins kærða byggingarleyfis, m.a. um hæðarkóta umræddrar lóðar. Líkt og fram kemur í málavöxtum samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa 10. október 2017 og var byggingarleyfið gefið út 8. febrúar 2018. Verður ekki fullyrt með óyggjandi hætti að kærendum hafi mátt vera kunnugt um að uppgefnir hæðarkótar fælu í sér breytingu frá fyrra áststandi fyrr en við úttekt byggingarfulltrúa á sökklum hinn 22. mars 2018, en þá lá grunnflötur hins nýja húss fyrir. Miðast kærufrestur því við þann dag. Samkvæmt framangreindu rann kærufrestur út mánudaginn 23. apríl s.á., eða tveimur dögum áður en úrskurðarnefndin tók á móti umræddri kæru. Þegar litið er til þess að kærendum var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest verður talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Í því sambandi er litið til þess að deiliskipulagsbreyting sú sem byggingarleyfið styðst við hefur ekki að geyma hæðarkóta lóðarinnar svo sem rétt hefði verið. Verður málið því tekið til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Í 16. gr. laganna kemur fram að útgefandi byggingarleyfis skuli hafa eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og reglugerða settum með stoð í þeim. Krafa kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggir á því að samþykktar teikningar séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og breyting á hæðarlegu lóðar frá því sem fyrir var eigi ekki stoð í því skipulagi.

Í málsgögnum er að finna gildandi hæðarblað vegna lóðar nr. 3 við Hraunteig sem sýnir hæðarkótana 12,82 og 13,16 við götu. Á hæðarblaðinu er hins vegar enga hæðarkóta að finna innst á lóð. Deiliskipulag sýnir enga hæðarkóta fyrir lóðaryfirborð, eins og fyrr var að vikið, en á teikningum sem byggingarfulltrúi samþykkti 10. október 2017, sem voru grundvöllur útgáfu byggingarleyfis, eru hæðarkótar við götu í samræmi við hæðarkóta framangreinds hæðarblaðs. Teikningarnar sýna enn fremur hæðarkótann 13,16 innst á lóð sem ber með sér að yfirborði lóðarinnar þar er ætlað að vera í sömu hæð og út við götu. Samkvæmt framangreindu verður ekki séð að umræddir hæðarkótar lóðar fari í bága við gildandi deiliskipulag.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi má stoðveggur á lóðinni ekki vera hærri en 0,4 m. Hæðarkóti stoðveggjarins, samkvæmt samþykktum teikningum, er 13,56. Líkt og áður greinir er grunnlína lóðar nr. 3 við Hraunteig 13,16. Samkvæmt því er veggurinn 0,4 m að hæð miðað við grunnflöt lóðar nr. 3 og því í samræmi við gildandi deiliskipulag. Í kæru kemur fram að lóð kærenda var lækkuð lítillega út við götu og á myndum sem fylgdu kæru sést að lóðin hallar niður á við frá götu. Veggurinn er því að hluta hærri en 0,4 m séð frá lóð nr. 5. Ákvarðanir kærenda um að lækka sína lóð geta ekki haft áhrif á réttarstöðu lóðarhafa Hraunteigs nr. 3. 
 
Í gildandi deiliskipulagi er heimiluð hámarksmænishæð aðalhúss frá aðalgólfi 7,3 m og má kjallari standa 0,2 m upp úr frágengnu yfirborði. Á samþykktum teikningum umdeilds byggingarleyfis kemur fram að hæðarkóti gólfplötu hússins er 13,49. Stendur kjallari því 0,33 m upp úr frágengnu yfirborði með hliðsjón af hæðarkóta lóðarinnar 13,16. Gólfflötur hússins er því 13 cm hærri en heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Þetta frávik er þó það óverulegt að það getur ekki ráðið úrslitum um gildi byggingarleyfisins. 

Kærendur telja byggingarlínu hússins ekki vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Á samþykktu deiliskipulagi kemur fram heimild til að gera svalir til suðurs að götu og að þak yfir þeim megi fara allt að 2,7 m út fyrir byggingarreit og eru samþykktar teikningar í samræmi við það. Skuggavarp sem framangreind breyting kann að valda er þegar ákveðin í deiliskipulagi sem sætir ekki endurskoðun í máli þessu.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum annmörkum að raskað geti gildi þess. Af því leiðir að hafna ber kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. október 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi með sambyggðri bílageymslu á lóð nr. 3 við Hraunteig í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

29, 30 og 31/2018 Dunhagi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 16. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 29/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 um að veita byggingarleyfi  til að byggja eina hæð ofan á og viðbyggingu við núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, Reykjavík, ásamt  fleiru.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Tómasarhaga 32 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018 að veita byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2018, er móttekið var sama dag, kæra tilgreindir íbúar og húseigendur á Hjarðarhaga 27 áðurnefnda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. febrúar 2018, sem barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi, Hjarðarhaga 44, framangreinda ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. janúar 2018.

Þar sem framangreind mál varða öll sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða síðargreind kærumál, sem eru nr. 30/2018 og 31/2018, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 23. mars 2018.

Málsatvik og rök:
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. janúar 2018 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja inndregna  hæð ofan á núverandi hús á lóðinni Dunhaga 18-20, byggja viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á því og sorpgerði fyrir verslunarrými innan í rými 0106. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018.

Kærendur benda á að hin kærða ákvörðun varði grenndarhagsmuni þeirra miklu. Útsýni skerðist og umferð, sem og skuggavarp aukist.  Lagaskilyrði hafi ekki verið til að fara með umsókn um hið kærða byggingarleyfi í grenndarkynningu. Framkvæmdin sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 eða skilgreinda landnotkun, auk þess sem hún sé ekki í samræmi við byggðamynstur.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er m.a. bent á að byggingarleyfi í málinu hafi verið samþykkt að nýju á afgreiðslufundi 20. mars 2018 og að þar með hafi hið kærða byggingarleyfi frá 9. janúar s.á. fallið úr gildi.

Niðurstaða:
Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 fór fram frekari málsmeðferð. Var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. mars 2018 að veita byggingarleyfið að nýju á grundvelli sömu byggingarleyfisumsóknar. Í tilkynningu byggingarfulltrúa, dags. 10. apríl s.á., er og vakin athygli á að byggingarleyfisumsókn hafi verið endursamþykkt vegna nýrrar málsmeðferðar umhverfis- og skipulagsráðs á henni. Bent er á að nýr kærufrestur hafi tekið að líða við þá samþykkt og hygðust kærendur nýta sér kærurétt sinn væri nauðsynlegt að þyrfti að kæra að nýju til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum. Hafa kærendur nýtt sér þann málsskotsrétt með kærum til úrskurðarnefndarinnar og eru þau kærumál nr. 69, 70 og 71/2018.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti að veita nýtt byggingarleyfi 20. mars 2018 hefur hin kærða ákvörðun ekki réttarverkan að lögum. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

41/2018 Þjóðhildarstígur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 22. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. mars 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Grænlandsleið 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júní 2017 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6. Verður að skilja málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. apríl 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 22. maí 2017, óskuðu eigendur Þjóðhildarstígs 2-6 eftir endurnýjun á byggingarleyfi, sem samþykkt hafði verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. júní 2015. Fól umsóknin í sér að byggð yrði létt viðbygging fyrir geymslu ofan á bílageymslu og skyggni framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 var framangreind umsókn samþykkt.

Með tölvupósti, dags. 10. júlí 2017, fór annar kærenda fram á að fá upplýsingar um þau byggingaráform sem samþykkt hefðu verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júní s.á. Einnig var óskað upplýsinga um hvort ekki ætti fyrir útgáfu byggingarleyfis að ganga frá lóð í samræmi við deiliskipulag og meðfylgjandi umsögn skipulagsfulltrúa frá 31. mars 2016 vegna umsóknar leyfishafa um samþykki reyndarteikninga, þar sem fram kom að frágangur á lóð væri ekki í samræmi við skipulag, og enn fremur hvort byggingarleyfi hefði verið gefið út. Svar barst 12. s.m. og var á þá leið að erindið um viðbyggingu sem spurt væri um hefði verið samþykkt á afgreiðslufundi 6. júní 2017. Ekkert byggingarleyfi hefði verið gefið út, en áformin væru gild í tvö ár eftir samþykkt þeirra. Hinn 21. nóvember 2017 var byggingarleyfi svo gefið út.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda kemur fram að hvorki hafi verið staðið við lóðarfrágang né gengið frá gróðurþekju sem eigi að vera á þaki bílageymslu og á þaki 1. hæðar. Ekki hafi verið gengið frá lóðinni eftir síðustu viðbyggingu sem hafi verið samþykkt 10. janúar 2006.

Veitingastaður hafi verið rekinn í umræddu húsi frá árinu 2004. Enn eigi eftir að fylla að bílageymslu. Grjót og möl ásamt illgresi blasi við út um glugga á húsi kærenda. Einnig hafi lóðin ítrekað verið notuð til aksturs, vöruflutninga, sem og lagningar bíla, allt gegn gildandi deiliskipulagi. Væntingar til leyfisveitanda um að gengið yrði frá lóðinni áður en byggingarleyfi yrði útgefið hefðu ekki staðist.

Óskað sé eftir því að gengið verði frá lóðinni samkvæmt deiliskipulagi og framkvæmdir við viðbygginguna stöðvaðar á meðan. Reynslan sýni að þegar umræddur eigandi hafi fengið að byggja viðbyggingu sé lóðarfrágangi samkvæmt teikningum og deiliskipulagi ekki sinnt. Einnig sé skjólveggur á lóðinni sem sé óleyfisframkvæmd og komi í veg fyrir að lóð falli að landi samkvæmt upprunalegum teikningum og gildandi deiliskipulagi.

Það margt sé óljóst varðandi lóðarfrágang að tilefni sé til að stöðva framkvæmd viðbyggingar og að úrbætur séu gerðar strax í þeim efnum. Reynslan sýni að eigandi hafi ekki haft hug á að sinna lóðarfrágangi eins og eigi að gera samkvæmt þeim teikningum sem kynntar hafi verið.

Málsrök Reykjavíkurborgar:
Af hálfu borgaryfirvalda kemur fram að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. júní 2017 hafi umsókn um leyfi til að byggja létta viðbyggingu fyrir geymslu ofan á þak bílageymslu, auk skyggnis framan við bílastæði við veitinga-, skemmti- og verslunarhúsið á lóð nr. 2-6 við Þjóðhildarstíg verið samþykkt. Byggingarleyfið hafi svo verið gefið út 21. nóvember 2017.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Kærendur hafi um langt árabil átt í reglulegum samskiptum við byggingarfulltrúa vegna ástands lóðarinnar Þjóðarhildarstígs 2-6, en þeir hafi verið ósáttir við notkun lóðarinnar sunnan megin við húsið fyrir akandi umferð. Reglulega hafi kærendur sent ábendingu til byggingarfulltrúa um alla umferð á lóðinni, meintar óleyfisframkvæmdir o.s.frv. Með tölvupósti til embættis byggingarfulltrúa 11. júlí 2017 hafi kærendur óskað eftir upplýsingum um hvort búið hafi verið að gefa út byggingarleyfi vegna málsins. Kærendum hafi verið svarað samdægurs af starfsmanni byggingarfulltrúa og efnislegt svar hafi borist daginn eftir.

Af framansögðu megi vera ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um samþykktina í síðasta lagi hinn 11. júlí 2017, en kæra hafi ekki borist fyrr en átta mánuðum eftir að þeim hafi verið orðin ljós afgreiðsla hennar. Hafi þá verið liðnir tæpir fimm mánuðir frá útgáfu byggingarleyfis, en rúmir níu frá samþykkt byggingaráforma. Hafi því verið liðinn sá mánaðarfrestur sem tiltekinn sé í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 til þess að kæra ákvörðun þeirra stjórnvalda sem sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinu kærða byggingarleyfi verður að líta til þess að hús kærenda stendur í rúmlega 30 m fjarlægð frá því húsi sem fyrirhuguð viðbygging mun standa á og liggur ofar í landi, en á milli er nokkur landhalli. Kjarrlendi og göngustígur er á milli húsanna. Fyrirhuguð 120 m2 viðbygging er þó í sjónlínu frá húsi kærenda. Hins vegar verður ekki séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Útsýni kærenda mun sömuleiðis ekki skerðast, þó svo að ásýnd húss leyfishafa muni breytast með tilkomu viðbyggingarinnar. Í ljósi staðhátta verður ekki séð að sú útlitsbreyting muni í neinu skerða áhrif kærenda. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærendur hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu umfram aðra og verður kæruaðild þeirra ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kærenda sem leitt geta til kæruaðildar þeirra samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Af gögnum kærumálsins, og kröfum kærenda í því, má ráða að meginástæða framkominnar kæru og ágreiningur þessa máls sé fyrst og fremst skortur á frágangi á lóð leyfishafa og notkun hennar. Að mati kærenda er ekki farið að deiliskipulagi eða útgefnum byggingarleyfum. Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Getur og komið til kasta Mannvirkjastofnunar á grundvelli sömu heimilda, sbr. 18. gr. laganna. Ákvarðanir þessara aðila um að beita, eða synja um að beita, framangreindum úrræðum geta eftir atvikum verið kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

 

60/2018 Áshamar

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 8. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 60/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að  Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. apríl 2018, kærir lóðarhafi Áshamars 48, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar í Vestmannaeyjabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og sveitarfélaginu gert að grenndarkynna málið að nýju.

Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 3. maí 2018.

Málavextir:  Hinn 20. febrúar 2017 tók umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fyrir umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Áshamri 32, sem er á ódeiliskipulögðu svæði. Ráðið samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36 og 50 og Búhamri 13, 29, 35 og 39 með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var kynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, og var gefinn fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að skila inn athugasemdum. Engar athugasemdir bárust innan frestsins og var byggingarleyfi gefið út hinn 31. ágúst s.á. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í febrúar 2018 og hafði kærandi af því tilefni samband við byggingarfulltrúa 7. mars s.á. Síðar sama dag sendi byggingarfulltrúi kæranda með tölvupósti þær upplýsingar sem sendar voru með grenndarkynningu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur ákvörðun um veitingu byggingarleyfis á lóð við Áshamar 32 ógilda þar sem umsóknin hafi ekki verið grenndarkynnt honum, en lóð kæranda, Áshamar 48, liggi að umræddri lóð. Fyrirhuguð bygging virðist vera með öðru byggingarlagi, hafa ólíka afstöðu og vera stærri en önnur hús á svæðinu. Um sé að ræða meira byggingarmagn og hærra hús en hægt sé að fallast á. Það birgi verulega fyrir útsýni kæranda til sjávar og skerði þannig gæði hans umfram það sem yrði ef byggingin yrði lægri. Kveðst kærandi ekki hafa fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar, en hann yrði fyrir mestri skerðingu á hagsmunum þar sem útsýni hans yrði skert verulega.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Er byggt á því að kæran hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Kæranda hafi verið fullkunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar hinn 7. mars 2018, eða rúmum mánuði áður en hann kærði hana.

Óumdeilt sé að grenndarkynning tók ekki til lóðarhafa að Áshamri 48. Fullyrðingum kæranda um að honum hafi ekki verið gerð grein fyrir málinu sé sérstaklega mótmælt. Fyrir liggi að kæranda voru afhent þau gögn sem fylgdu grenndarkynningu auk þess sem draga megi þá ályktun af lýsingum í kærubréfi að honum sé vel kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Ljóst sé að kæranda hafi verið gerð grein fyrir efni hinnar kærðu ákvörðunar og því hafnað að hann hafi ekki fengið nægar eða umbeðnar upplýsingar vegna málsins.

Bent er á að sjónarmið kæranda um skert útsýni séu ekki studd neinum gögnum. Ein af þeim forsendum sem lágu til grundvallar útgáfu byggingarleyfis hafi verið að hið nýja hús væri í samræmi við eldri hús í götunni. Húsið sé einlyft og um 30-40 cm hærra en það hús er stóð þar áður. Hús kæranda standi mun hærra í landinu og því telji bæjaryfirvöld rétt að kærandi geri sérstaklega grein fyrir skerðingu sinni á útsýni. 

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram í athugasemdum með nefndri 28. gr. að líta þurfi til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni, en undir þeim kringumstæðum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algerum undantekningartilvikum. Í máli þessu fara hagsmunir kæranda og handhafa hins kærða byggingarleyfis ekki saman.

Kærandi sendi hinn 7. mars 2018 byggingaryfirvöldum erindi vegna framkvæmda við Áshamar 32, en framkvæmdir voru þá nýlega hafnar. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu sama dag og sendi kæranda grenndarkynningargögn vegna umsóttra framkvæmda. Kæra barst nefndinni 25. apríl s.á., eða um einum og hálfum mánuði eftir að gögn málsins bárust honum. Í svari byggingarfulltrúa var kæranda ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest vegna málsins en umrædd bygging getur snert grenndarhagsmuni hans. Eins og málsatvikum er háttað verður talið afsakanlegt að kæra í þessu máli hafi borist svo seint sem raun ber vitni og teljast því skilyrði til að taka mál þetta til efnismeðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal grenndarkynning fara fram þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi á svæði þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að í grenndarkynningu felist að kynna nágrönnum fyrirhugaða framkvæmd sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og þeim gefinn kostur á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Lóð kæranda við Áshamar 48 liggur að lóð byggingarleyfishafa við Áshamar 32. Bar því að grenndarkynna byggingaráformin fyrir kæranda í samræmi við áðurnefnt ákvæði, en það var ekki gert.

Með tilliti til þess að grenndarkynningu er ætlað að veita hagsmunaaðilum andmælarétt auk þess sem hún er liður í rannsókn máls, leiðir framangreindur ágalli á grenndarkynningu umræddrar byggingarleyfisumsóknar til þess að ógilda verður hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. mars 2017 um veitingu byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar, Vestmannaeyjabæ.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson

78/2016 Grashagi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis vegna byggingar bílskúrs að Grashaga 10, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kæra A og B, Grashaga 12, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 16. ágúst 2016.

Málavextir: Forsaga þessa máls er sú að á lóðunum Grashaga 10 og 12 standa einbýlishús sem byggð voru árið 1973. Á árinu 1981 var reistur bílskúr við húsið að Grashaga 12, við lóðamörkin að Grashaga 10. Á svipuðum tíma voru steyptir sökklar og botnplata vegna fyrirhugaðs bílskúrs að Grashaga 10 við hlið bílskúrsins að Grashaga 12. Frá því að þessum framkvæmdum lauk hafa orðið eigendaskipti á báðum eignunum. Umræddar lóðir eru á ódeiliskipulögðu svæði.

Lögð var fram umsókn um byggingarleyfi hjá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 10. apríl 2015, þar sem óskað var eftir leyfi til byggingar bílskúrs við Grashaga 10. Fyrir væru steyptir sökklar og plata ásamt brunavegg REI-120 á lóðamörkum. Bílskúr hafi þegar verið reistur við Grashaga 12 og að leitast verði eftir að fylgja þeirri hönnun. Umsóknin var síðar samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. maí s.á. með fyrirvara um samþykki meðeiganda bílgeymslu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að samþykkis meðeigenda bílgeymslunnar, sem áskilið hafi verið við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar, hafi aldrei verið aflað. Þegar þeir hafi komið að heimili sínu eftir páskafrí vorið 2016 hafi framkvæmdir við bílskúrinn verið hafnar, m.a. með uppslætti útveggjar sem væri framlenging á útvegg þeirra eigin bílskúrs inni á þeirra lóð. Haft hefði verið samband við byggingarfulltrúa í framhaldinu og þess krafist að hann hlutaðist til um að samþykkis þeirra yrði aflað fyrir framkvæmdinni. Sú krafa hafi verið ítrekuð við embætti byggingarfulltrúa, þ. á m. í bréfi, dags. 24. apríl 2016. Viku áður en kæra hafi verið send til úrskurðarnefndarinnar hafi kærendur tjáð byggingarfulltrúa ásetning sinn um að kæra byggingarleyfið, en hann hafi þá loks brugðist við með því að tilkynna um stöðvun framkvæmda og að von væri á svari frá bæjarlögmanni við fyrrgreindu bréfi kærenda frá 24. apríl. Óásættanlegt sé að útveggur bílskúrs þeirra sé notaður án þeirra samþykkis og að hann hafi verið framlengdur innan lóðar þeirra án samþykkis. Þess sé krafist að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og að bílskúrinn við Grashaga 10 verði byggður með sjálfstæðum útvegg.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samþykki það sem áskilið hafi verið við samþykkt byggingaráforma umrædds bílskúrs hafi ekki borist til byggingarfulltrúa, en framkvæmdir engu að síður hafist. Eigendum Grashaga 10 hafi verið kunnugt um athugasemdir byggingarfulltrúa vegna þessa en hafi ekki bætt úr. Samkvæmt upplýsingum frá upphaflegum eigendum Grashaga 10 og 12 hafi útveggur bílskúrs Grashaga 12 verið byggður og fjármagnaður sameiginlega, enda hafi ætlunin verið að nýta hann einnig fyrir bílskúr sem rísa ætti að Grashaga 10. Þessar upplýsingar hafi fengist á fundi sem haldinn hafi verið með fyrri eigendum 11. ágúst 2016.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast frávísunar málsins þar sem  kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verið hafnað.

Leyfishafar hafi í byrjun árs 2015 hafið undirbúning að því að reisa bílskúr á lóð sinni Grashaga 10, en til staðar hafi verið samþykktir aðaluppdrættir frá byggingartíma hússins, dags. 8. apríl 1973, sem geri ráð fyrir slíkum bílskúr. Umsókn þar um hafi verið samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd Áborgar hinn 6. maí 2015. Ekki hafi verið á það minnst við leyfishafa að þeim bæri að afla samþykkis kærenda. Um sumarið 2015 hafi framkvæmdir hafist með vinnu í sökkli og með hreinsun málningar af hinum sameiginlega millivegg. Kærendur hafi engar athugasemdir gert þótt augljóst væri að til stæði að reisa bílskúr þar sem hinn sameiginlegi veggur yrði nýttur. Framkvæmdir hafi hafist að nýju vorið 2016, en þá hafi aðstoðarbyggingarfulltrúi haft samband og greint frá umkvörtun kærenda og farið fram á að samþykkis þeirra yrði aflað. Það samþykki hafi ekki fengist.

Leyfishafar telji að kærendum hafi mátt vera ljóst hvað til stæði þegar sumarið 2015 þegar framkvæmdir hófust. Óskað hafi verið eftir skriflegu samþykki þeirra 31. mars 2016 og hafi kærendur sent erindi vegna byggingarleyfisins til skipulags- og byggingarfulltrúa 24. apríl s.á. Kæran sé hins vegar dagsett 5. júlí 2016 og móttekin 6. s.m. og hafi því borist utan kærufrests. Ekki séu uppi neinar ástæður sem afsaki að kæran sé svo seint fram komin.

Mikið óhagræði og umtalsverður kostnaður fylgi því að reisa annan útvegg. Brjóta þyrfti gólfplötu, steypa nýjan sökkul, rjúfa þak og útvegg og stytta stálbita sem haldi uppi þaki. Gólfflötur bílskúrsins myndi í kjölfarið minnka. Ekki sé teljanlegt óhagræði af sameiginlegum notum milliveggjarins fyrir kærendur.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærendur hafa sjálfir lýst því sem svo að þeir hafi fyrst orðið varir við framkvæmdir upp úr páskum vorið 2016. Þeir hafi í kjölfarið leitað upplýsinga hjá skipulags- og byggingarfulltrúa en fá svör fengið. Fyrir liggur að kærendur sendu formlegt erindi um málið til skrifstofu skipulags- og byggingardeildar Árborgar með bréfi, dags. 24. apríl 2016, og má af því ráða að þeim var á þeim tíma kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 6. júlí 2016, eða meira en mánuði eftir að kærendum varð sannanlega kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæran barst því að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá sem berst að liðnum kærufresti, nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Eins og hér stendur á verður ekki séð að yfirvöld sveitarfélagsins hafi leiðbeint kærendum um kæruleiðir þegar þeir tóku að grennslast fyrir um þær framkvæmdir sem hafnar voru við bílskúrsbyggingu við lóðarmörk þeirra og að hluta innan lóðar þeirra. Kærendur höfðu ástæðu til þess að ætla að samþykkis þeirra þyrfti að afla áður en framhald yrði á framkvæmdum og að það væri yfirvalda sveitarfélagsins að sjá til þess að því skilyrði sem þau sjálf settu við samþykkt byggingaráforma yrði fullnægt. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu sveitarfélagsins að kærendur hafi ítrekað leitað viðbragða sveitarfélagsins við þeirri stöðu sem upp var komin og ekki verður séð að brugðist hafi verið við þeirri málaleitan kærenda með markvissum hætti. Í ljósi framangreindra atvika verður að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður hún því tekin til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að umræddar lóðir tilheyra svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að veita byggingarleyfi án þess að fyrir liggi deiliskipulag ef framkvæmdin samræmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skal þó viðkomandi skipulagsnefnd grenndarkynna áformin fyrir nágrönnum sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta af framkvæmdinni. Óumdeilt er að kærendur eiga hagsmuna að gæta af þeim framkvæmdum sem hér um ræðir, enda snúa þær að nýtingu útveggjar bílgeymslu þeirra og framlengingu veggjarins innan lóðar þeirra. Hefði því skipulagsnefnd sveitarfélagsins borið að grenndarkynna áformin áður en þau voru samþykkt. Ekki liggur fyrir að slík kynning hafi farið fram. Telst það verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun, enda hefði slík kynning getað dregið tímanlega fram upplýsingar sem hefðu getað skipt þar máli.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi.

 

140/2016 Bræðraborgarstígur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 12. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 140/2016, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Bræðraborgarstíg 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 að synja umsókn um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar kærenda í húsinu að Bræðraborgarstíg 30. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 19. desember 2016.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. september 2016 var lögð fram umsókn kærenda um leyfi til að setja létta, útdraganlega svalalokun á rennibraut á þaksvalir íbúðar þeirra í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 23. s.m. og það afgreitt með svohljóðandi hætti: „Neikvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 21. september 2016“, en í umsögninni var talið að erindið samræmdist ekki markmiðum deiliskipulags fyrir umrætt svæði.

Í nefndri umsögn kom m.a. eftirfarandi fram: „Þann 06.05.2016 var samþykkt hjá byggingarfulltrúa umsögn þar sem að samskonar erindi var ávarpað. Þar kemur m.a. fram: „Vegna forsögu málsins, að óánægja var meðal nágranna um bygginguna og ekki síst vegna þéttleika hverfisins, var talið mikilvægt að húsin sem byggð yrðu, myndu hafa létt yfirbragð. Meðal þess var að byggingarnar að Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Nýtingarhlutfall er nokkuð hátt á lóðinni og var ekki talin ástæða til að auka byggingarmagnið. Því var á fundi skipulagsstjóra 15.5.2009 ekki fallist á að byggja yfir svalirnar.“ Þó svo að þetta erindi fjalli um gustlokun og eigi því ekki að hreyfa við nýtingarhlutfalli deiliskipulagsins, þá er það hinsvegar markmið deiliskipulagsins að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.“

Tók byggingarfulltrúi málið fyrir að nýju 27. september 2016 og synjaði umsókninni með vísan til fyrrgreindrar umsagnar.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrri eigendur íbúðar þeirra hafi óskað eftir því að fá að reisa steinsteypta byggingu yfir svalir sem tilheyri íbúðinni. Þeim áformum hafi verið synjað á þeirri forsendu að nágrannar hússins að Bræðraborgarstíg 32 væru mótfallnir slíkri byggingu og að nýtingarhlutfall lóðarinnar yrði of hátt. Kærendur hafi hins vegar óskað eftir því að fá leyfi til að setja upp létta svalalokun á milli húsanna nr. 30 og 32. Hafi byggingarfulltrúi tilkynnt þeim að málinu væri lokið þar sem verið væri að sækja um það sama og áður. Þar sem niðurstaða byggingarfulltrúa hafi fjallað um allt aðra og eldri beiðni hafi kærendur farið fram á að mál þeirra fengi efnislega meðhöndlun. Við synjun byggingarfulltrúa á umsókn kærenda hafi verið byggt á umsögn sem ekki varði beiðni þeirra, heldur sé vísað til þéttleika, nýtingarhlutfalls og óánægju nágranna frá árinu 2009.

Á teikningum komi fram að fyrirhuguð svalalokun nái ekki að gafli húss nr. 32. Komi hún því ekki til með að hindra aðgengi að gaflinum fremur en nú sé. Af þessu leiði að lokunin varði ekki íbúa hússins að Bræðraborgarstíg 32 og sé hvorki um að ræða aukið nýtingarhlutfall lóðarinnar né þéttingu hverfisins. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi teikningar verið ranglega túlkaðar. Sé gustlokunin opnanleg endanna á milli þar sem hún liggi meðfram gafli Bræðraborgarstígs 32, í a.m.k. 40 cm fjarlægð. Svalalokunin sé úr gleri og því með létt yfirbragð. Hún muni ekki sjást frá götunni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa falli umsóknin ekki að markmiðum deiliskipulags Holtsgötureits um að yfirbragð byggðarinnar sé létt og að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 (áður 32A) séu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32. Teikning sem sýni gustlokun meðfram húsvegg aðliggjandi húss og tengi saman nánast alla hlið hússins geti ekki uppfyllt markmið um aðgreindan húskropp né slitið frá. Breyti engu í þessu samhengi þó svalalokunin sé úr gleri. Ekki verði annað af teikningu ráðið en að um sé að ræða lokaðan skála, þótt talað sé um gustlokun, en í umsögn skipulagsfulltrúa sé lokunin þó ávörpuð sem gustlokun. Þótt hún væri opnanleg væri það á hendi kærenda hvort opnað væri á milli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg. Var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa er taldi að hin umsótta breyting væri ekki í samræmi við markmið deiliskipulags fyrir umrætt svæði um að yfirbragð byggðarinnar væri létt og að byggingarnar við Bræðraborgarstíg 30 yrðu aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32.

Húsið að Bræðraborgarstíg 30 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Holtsgötureits. Þar sem húsið stendur gerir deiliskipulagið m.a. ráð fyrir nýbyggingum á sameinaðri lóð. Í skipulagsskilmálum er tekið fram að byggingarreitum á lóðinni sé skipt í einingar og að byggingarlína við götu sé bindandi. Þá er gerður áskilnaður um að í útliti húsanna skuli koma fram mismunandi sérkenni sem undirstriki takt götumyndar og skilji á milli reitanna. Um nánari útlistun á útliti húsanna er vísað til greinargerðar deiliskipulagsins. Þar segir eftirfarandi: „Gerð er krafa um að hvert húsnúmer hafi sérkenni í útliti sem skilur það frá húsum til beggja hliða. Þannig skal hver eining/húsnúmer undirstrika takt í götumynd með því að götuvegg sé skipt upp í lóðréttar einingar. Hver lóðrétt eining er eitt húsnúmer. Mismunandi einkenni geta falist í gluggasetningu, efnisvali, stöllun o.fl. Æskilegt er að höfð sé hliðsjón af frágangi nærliggjandi húsa svo sem dýpt glugga í vegg, hlutfalla í gluggum og þakköntum.“

Þá er að því vikið í almennum atriðum deiliskipulagstillögunnar að markmið hennar sé að gera skilmála fyrir óbyggðar lóðir á skipulagsreitnum og fyrir þau hús sem byggja má við eða breyta þannig að við frekari uppbyggingu á reitnum sé til skýr heildarstefna sem leiði til rökrænnar heildarmyndar á byggðamynstri reitsins. Markmiðið sé að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum en um leið hlúa að því sem fyrir sé og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar standi. Tryggja skuli að nýbyggingar falli vel að því umhverfi sem fyrir sé. Leitast skuli við að aðlaga nýbyggingar og viðbyggingar við eldri hús að götumynd og mynda fallega heild. Einnig skuli taka tillit til sérkenna svo sem dýptar glugga í veggjum og hlutfalla í þakköntum.

Er þannig m.a. tekið fram í skipulagsskilmálum sameinaðrar lóðar Holtsgötu 1-3 og Bræðraborgarstígs 32a að „í útlitum húsa skulu koma fram mismunandi sérkenni sem undirstrika takt götumyndar og skilji á milli reitanna.“ Húsið að Bræðraborgarstíg 30 liggur að húsinu nr. 32 við Bræðraborgarstíg, utan fjórðu hæðar hússins nr. 30, sem nýtir einungis hluta þakflatar þriðju hæðar þess. Segir svo á framlögðum byggingarteikningum að gustlokunin sé mynduð með álrömmum með öryggisgleri sem liggi á brautum og sé opnuð með því að renna römmunum til hliðar. Rúmmál sé 45 m³.

Að mati úrskurðarnefndarinnar myndi hin umsótta framkvæmd ekki hafa þau áhrif á götumynd að á svig yrði farið við greind skilyrði deiliskipulagsins. Þá verður hvorki séð að í deiliskipulaginu sé gerður sérstakur áskilnaður um að yfirbragð byggðarinnar sé létt né að byggingar við Bræðraborgarstíg 30 skuli vera aðgreindar og slitnar frá aðlægu húsi að Bræðraborgarstíg 32, líkt og segir í umsögn skipulagsfulltrúa. Erindi kærenda var því synjað með rökum sem byggðust á túlkun skipulagsskilmála á þann veg sem úrskurðarnefndin telur að ekki fái staðist.

Að framangreindu virtu byggði hin kærða ákvörðun á röngum forsendum og verður hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. september 2016 um að synja umsókn um leyfi fyrir svonefndri gustlokun á þaksvölum íbúðar 0401 í húsinu nr. 30 við Bræðraborgarstíg í Reykjavík.