Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

102 og 120/2019 Freyjubrunnur

Með

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Freyjubrunns 25-27 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunns 23. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að sömu aðilar standa að báðum kærumálunum, auk þess sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 120/2019, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. október 2019 og 11. desember s.á.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. janúar 2007 var staðfest afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 16. s.m. um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja þriggja hæða fjölbýlishús ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 31. júlí s.á. og hófust framkvæmdir í kjölfar þess. Byggingarleyfið var síðan gefið út 24. september s.á. en framkvæmdir stöðvuðust á árinu 2008. Hið útgefna byggingarleyfi frá 2007 var svo endurútgefið 17. ágúst 2017 og hófust framkvæmdir á lóðinni um haustið. Skipulagsfulltrúi veitti hinn 29. s.m. umsögn um fyrirspurn varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Freyjubrunn þar sem m.a. kom fram að samþykktar teikningar væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Töluverð tölvupóstsamskipti áttu sér stað á milli kærenda og Reykjavíkurborgar næstu mánuði þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Hinn 2. ágúst 2018 var kærendum tilkynnt að ekki yrði aðhafst frekar í málinu og að eigendur Freyjubrunns 23 hefðu í höndunum útgefið byggingarleyfi og framkvæmdu í samræmi við það. Var byggingarleyfið kært til úrskurðarnefndarinnar sem felldi það úr gildi með úrskurði í máli nr. 112/2018, kveðnum upp 29. ágúst 2019, þar sem leyfið væri ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags um hámarkshæð húsa.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23. Í breytingunni fólst m.a. að fjölga íbúðum úr fimm í átta og auka byggingarmagn, auk þess sem kveðið var á um að svalir á norðurhlið hússins mættu ná 150 cm út fyrir byggingarreit. Þá var eftirfarandi tekið fram: „Hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga er 9,5 metrar frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar, ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 metrar. Ef þök eru flöt má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 89,0 m.y.s. en ef þök eru hallandi má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 90,5 m.y.s. Hæðarkótar miðast við hæðarkerfi Reykjavíkur.“ Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu 27. mars 2019 með athugasemdafresti til 8. maí s.á. Þá voru hagsmunaaðilar og nágrannar, þ. á m. kærendur, hvattir til að kynna sér breytingartillöguna með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð óbreytt fram að nýju á fundi skipulags- og samgönguráðs 3. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa 28. júní s.á. Með vísan til nefndrar umsagnar var tillagan samþykkt og vísað til borgarráðs. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 18. júlí s.á. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2019.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. september 2019 var tekin fyrir umsókn leyfishafa til þess að byggja steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23. Erindinu fylgdi m.a. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. september s.á. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og 30. október s.á. var byggingarleyfið gefið út.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafa hlotið ranga málsmeðferð. Fara hefði átt með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda verði með breytingunni vikið frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í þessu samhengi sé vísað til þess að byggingarreitur standi mun framar en aðrir byggingarreitir í sömu götu, hæð sé önnur og meiri og eignin sjálf öll á skjön við götumynd, auk þess sem nýting aukist hlutfallslega mikið. Áhrif deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið metin út frá gildandi deiliskipulagi og grenndarhagsmunum, auk þess sem hagsmunaaðilum hafi ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif breytingarinnar. Því hafi Reykjavíkurborg brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið telji að um minni háttar breytingu sé að ræða frá áður samþykktu deiliskipulagi en að mati kæranda sé það ekki í samræmi við lög. Hafi það og verið staðfest með úrskurði úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Upplýsingar í kynningargögnum á tillögu að breyttu deiliskipulagi hafi ekki verið full­nægjandi. Ekki hafi verið dregin upp raunsönn mynd af áhrifum deiliskipulags­breytingunni. Notað hafi verið tæknimál til endurskilgreina hvernig vegghæð skuli reiknast án þess að nefna það berum orðum að um hækkun á húsinu væri að ræða. Upphaflegar takmarkanir á hæð húsa samkvæmt eldra skipulagi hafi tryggt betra jafnvægi á götumynd og stallaða byggð niður hlíðina, sem lágmarki skuggamyndun á húsin fyrir ofan. Í umsögn skipulagsfulltrúa, varðandi þá athugasemd að byggingarmagn sé of mikið og að húsið hafi verið hækkað, sé vísað til þess að húsið við Freyjubrunn 23 sé sambærilegt húsinu að Freyjubrunni 29, en það geti ekki verið rök í sjálfu sér.

Framsetning skipulagsgagna hafi ekki verið skýr og því ekki í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ákvæðið geri þá kröfu að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir því í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Hin umdeilda breyting snúi aðeins að einni tiltekinni lóð og varði framkvæmd sem sé byrjuð. Þrátt fyrir það sé ákvæði um hámarksvegghæð, sem sé mismunandi eftir þakgerð, mjög óljós. Því sé ómögulegt að sjá hvað sé í reynd verið að heimila með deiliskipulagsbreytingunni.

Ekki hafi komið fram í kynningargögnum að gefin yrði eftir krafa skilmála um að hús skuli fylgja bindandi byggingarlínu neðri hæðar. Þær upplýsingar hafi komið fram í gögnum sem liggi á vef Reykjavíkurborgar, en hafi ekki verið hluti af gögnum sem fylgt hafi deiliskipulagstillögunni sem nágrönnum hafi verið kynnt. Þetta styðji að um meiri háttar breytingar á skipulagi sé að ræða því staða húss við götu hafi afgerandi áhrif á götumyndina og öryggi vegfarenda. Enn sé óljóst hversu umfangsmikil þessi breyting sé. Framsetningin hafi verið svo ruglingsleg að kærendum hafi í reynd ekki verið unnt að gæta andmælaréttar síns við málsmeðferðina.

Í svari kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar hafi þeir bent á að stjórnsýsla borgarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur, enda hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi byggingarleyfi í kærumáli nr. 112/2018. Breytingar á deiliskipulagi séu samráðsmál en ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda íbúa um skuggamyndun vegna hækkunar á húsi. Í tillögunni sé gengið út frá því að útgefið byggingarleyfi og samþykkt teikning séu lögleg, en svo sé ekki þar sem byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi með fyrrnefndum úrskurði úrskurðar­nefndarinnar. Ekki sé hægt að meta áhrif breytinganna út frá ólöglegri teikningu og byggingarleyfi. Upphaflegt mat umhverfis- og skipulagssviðs á umfangi og áhrifum sé rangt og byggt á röngum forsendum m.t.t. skuggamyndunar, umferðaröryggis, fjölda bílastæða, heildargötumyndar og nýtingarhlutfalls lóðar. Einnig sé ljóst varðandi fjölgun íbúða að ekki hefðu rúmast fimm íbúðir í húsi sem hefði verið löglega afgreitt frá upphafi. Því sé um mikla aukningu á fjölda íbúða að ræða. Fjölgun íbúða í húsinu hafi áður verið hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Hvað varði athugasemdir leyfishafa bendi kærendur á að deiliskipulagsbreytingar hafi verið gerðar til að laga deiliskipulag að þegar útgefnu byggingarleyfi og túlkun lóðarhafa. Ekki hafi verið gefin ástæða fyrir breytingu á deiliskipulagi en lögum samkvæmt beri að rökstyðja ákvarðanir sem þessar. Hér sé verið að sníða deiliskipulag að einni lóð en jafnframt draga með því verulega úr gæðum annarra íbúða og öryggi. Önnur hús í götunni takmarkist við þrjár hæðir eins og upphaflegt skipulag geri ráð fyrir. Það samræmist ekki heildarmynd hverfisins að hafa húsið við Freyjubrunn 23 á fjórum hæðum, en þar sé enginn kjallari. Ekkert hús sem séu fyrir neðan annað hús í hallandi landi sé hærra en húsið fyrir ofan nema þarna. Málið snúist ekki einungis um breytingu á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Mistök hafi verið gerð við útgáfu eldra byggingarleyfisins og allt ferlið eftir það hafi verið yfirklór og útúrsnúningur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hin umþrætta deiliskipulagstillaga hafi fengið málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 31. gr.. skipulagslaga nr. 123/2010, en sú málsmeðferð hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði sé að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt sé þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Deiliskipulagstillaga sú sem hér um ræði hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði 41. gr. skipulagslaga. Talið hafi verið að ekki væru skilyrði til að grenndarkynna skipulagstillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. laganna. Það sem hugsanlega rugli kærendur sé að hagsmunaaðilar og nágrannar hafi verið upplýstir með bréfi, dags. 27. mars 2019, um að auglýsing hefði birst í Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu 27. mars 2019 og hafi þeir sem teldu sig eiga hagsmuna að gæta verið hvattir til að kynna sér tillögurnar. Séu þessar bréfasendingar umfram lagalega tilkynningar­skyldu eins og hún sé skilgreind í skipulagslögum. Málsmeðferðin hafi uppfyllt gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi kynningargögn verið fullnægjandi. Bæði uppdráttur og greinargerð uppfylli skilyrði skipulagsreglugerðar um framsetningu á deiliskipulagi, sbr. gr. 5.5. í reglugerðinni. Um minni háttar breytingu sé að ræða á byggingarmagni en A-rýmin aukist um rúma 10 m2. Aukning á nýtingarhlutfalli sé vegna B-rýma, sem ekki hafi verið reiknuð inn í deiliskipulagið árið 2017. Að lokum sé hið umþrætta byggingarleyfi í fullu samræmi við breytt deiliskipulag.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að breytingar á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar séu mjög óverulegar, en hvorki hafi verið aukið við hæð hússins né byggingarmagn svo nokkru nemi frá því sem áður hafi verið fyrirhugað. Deiliskipulag svæðisins geri ráð fyrir að á lóðinni megi reisa fjölbýlishús með þremur íbúðarhæðum auk bílageymslu á jarðhæð, sbr. bls. 30 og nánari skýringar á bls. 35 í greinargerð deiliskipulagsins. Því heimili það að á lóðinni verði reistar þrjár íbúðarhæðir, með þeirri efstu inndreginni, ofan á bílageymslu sem sé að hluta til niðurgrafin. Sé fyrirhuguð hæð hússins í fullu samræmi við hæð nærliggjandi fjöleignarhúsa, sem reist séu á grundvelli sömu deiliskipulagsskilmála, að Friggjarbrunni 18, Freyjubrunni 25-27, 29, 31 og 33.

Byggingaráform rúmist áfram innan skilgreinds byggingarreits. Fjölgun íbúða í húsinu sam­ræmist yfirlýstu markmiði aðalskipulags Reykjavíkur um þéttingu byggðar, aukna fjölbreytni í valkostum húsnæðis til búsetu og kröfu um aukið framboð á minni íbúðum. Á fjölmörgum lóðum innan hverfisins hafi íbúðir verið minnkaðar og þeim fjölgað.

Frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að hámarksvegghæð bygginga yrði mæld frá fyrstu hæð íbúðarhúsnæðis, sem jafnframt sé aðkomuhæð hússins, en ekki frá bílageymslu í kjallara. Húshæðir fjölbýlishúsa séu skilgreindar sem „2-5 hæðir íbúðarhúsnæðis auk bílageymslu­hæðar“ á bls. 26 í greinargerð deiliskipulagsins, en í fjölbýlishúsum séu „bílageymslur á neðstu hæðum, niðurgrafnar þar sem landhalli gefur tilefni til.“ Í deiliskipulagsbreytingunni felist því ekki raunveruleg breyting á hæð hússins á lóðinni, heldur aðeins breyting á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Jafnvel þótt talið yrði að í breytingunni fælist breyting á leyfðum hæðum þá rúmist breytingin vel innan ramma aðalskipulags Reykjavíkur um hæðir húsa.

Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við kynningu og ákvörðun um samþykkt á breytingu deiliskipulagsins sé haldin einhverjum annmörkum sem varðað geti ógildingu ákvörðunarinnar. Í deiliskipulagstillögunni sé ítarlega gerð grein fyrir í hverju breytingin felist og ekkert í framsetningu tillögunnar geti gefið tilefni til misskilnings eða rangtúlkunar. Sérstaklega sé bent á að umfjöllun kærenda um þá beiðni leyfishafa að gefin yrði eftir svokölluð bindandi byggingarlína virðist byggja á þeim misskilningi að Reykjavíkurborg hafi orðið við þeirri beiðni með samþykki á breytingu deiliskipulagsins.

Byggingarleyfi sé gefið út á grundvelli aðaluppdrátta hönnuðar, sem hafi verið áritaðir um samþykki byggingarfulltrúa 24. september 2019. Með samþykktinni hafi verið staðfest að mannvirkið og notkun þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum á svæðinu. Með því hafi verið fullnægt tveimur af lagaskilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrirhugað mannvirki samræmist fyllilega skilmálum núgildandi deiliskipulags lóðarinnar. Leyfishafi leggi áherslu á að öll málsmeðferð við útgáfu byggingarleyfi samræmist ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 160/2010 og því beri að hafna kröfum kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23, sem felur m.a. í sér heimild til að fjölga íbúðum úr fimm í átta, auka byggingarmagn og að ákvarða hámarksvegghæð húsa með flötu þaki frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar í stað aðkomuhæðar. Einnig er deilt um lögmæti samþykkts byggingar­leyfis fyrir átta íbúða steinsteyptu fjölbýlishúsi með flötu þaki á umræddri lóð.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á því deiliskipulagi sem fyrir er. Almennt ber að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Skipulagsvaldið er jafnframt bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Deiliskipulagstillagan var ekki grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga heldur auglýst til kynningar í samræmi við reglur laganna um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Var því ekki farið með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða, líkt og kærendur halda fram. Hins vegar var með bréfi skipulagsfulltrúa vakin athygli hagsmunaaðila og nágranna á því að auglýst hefði verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23, bent á hvar kynningar­gögn væri að finna og hvernig hægt væri að koma að ábendingum og athugasemdum, en því verður ekki jafnað saman við grenndarkynningu. Að loknum kynningartíma var deili­skipulagstillagan afgreidd í skipulags- og samgönguráði, þar sem framkomnum athuga­semdum kærenda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, og var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði lögum samkvæmt. Tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi að formi til verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur fram að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga sé 9,5 m frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 m. Sama texta má finna í breytingartillögunni, sem sett er fram með þeim hætti að á samhliða uppdrætti er sýndur hluti gildandi deiliskipulagsuppdráttar og hluti breytts uppdráttar. Er tekið fram neðan við hann að uppdráttur breytist ekki. Einnig er gerð grein fyrir gildandi skipulagsskilmálum annars vegar og tillögu að breyttum skilmálum hins vegar hlið við hlið. Ekki er tekið skýrt fram í tillögu að texta breyttra skilmála að um sé að ræða breytingu á þeim skipulagsskilmálum gildandi deiliskipulags Úlfarsárdals að miða hámarksvegghæð eða hámarkshæð við kóta aðkomuhæðar. Sá skilningur fæst hins vegar af lestri gildandi skilmála sem eru til hliðar við texta breyttra skilmála. Þá kemur einnig skýrt fram í breytingartillögunni hvaða aðrar breytingar sé verið að gera á gildandi deiliskipulagi. Verður því ekki fallist á það með kærendum að framsetning breytingartillögunnar hafi ekki verið í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð.

Svo sem áður hefur komið fram komu kærendur að athugasemdum vegna deiliskipulags­tillögunnar. Bentu þeir m.a. á að fyrirhuguð hækkun myndi valda mikilli útsýnisskerðingu hjá íbúum ofar í hverfinu. Í umsögn skipulagsfulltrúa er þeirri athugasemd svarað á þann hátt að með deiliskipulagsbreytingunni væri „ekki verið að hækka vegghæð hússins frá því sem ákveðið var í fyrra deiliskipulagi heldur er verið að endurskilgreina hvaðan vegghæð skuli reiknast.“ Í því felst hins vegar að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er leyfilegt að byggja hærra hús en að óbreyttu deiliskipulagi, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 112/2018. Er því ljóst að framangreind breyting getur haft í för með sér grenndaráhrif gagnvart fasteignum í næsta nágrenni. Um þau áhrif er ekki fjallað í umsögn skipulagsfulltrúa og umsögninni að því leytinu til ábótavant. Að teknu tillit til skipulagsvalds sveitarstjórna þykir sá ágalli þó ekki eiga að leiða til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar, en öðrum athugasemdum var svarað efnislega. Þá raskar sú breyting auk annarra heimilaðra breytinga, þ.e. lítilleg aukning á byggingarmagni eða nýtingarhlutfalli, fjölgun íbúða og heimild til að láta svalir á norðurhlið ná 150 cm út fyrir byggingarreit hússins, ekki grenndar­hagsmunum kærenda að því marki að réttur þeirra hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að byggt verði steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Samkvæmt samþykktum uppdráttum byggingarleyfisins er byggingin í samræmi við gildandi deiliskipulag Úlfarsárdals, eins og því var breytt með fyrrnefndri deiliskipulagsbreytingu. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki verður ráðið að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvörðunar um hið umdeilda byggingarleyfi, verður gildi leyfisins ekki heldur raskað.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23.

33 og 74/2019 Grandagarður

Með

Árið 2019, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2019 um að samþykkja byggingarleyfi til að innrétta neyðarskýli fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur að Grandagarði 1A, koma fyrir hvíldaraðstöðu á 2. hæð, nýrri pallalyftu milli hæða, svölum með hringstiga og nýju bílastæði á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. maí 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignanna við Grandagarð 1B, 3, 5, 7, 9, 11 og 13 þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl s.á. að samþykkja byggingarleyfi til að innrétta neyðarskýli fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur að Grandagarði 1A, koma fyrir hvíldaraðstöðu á 2. hæð, nýrri pallalyftu milli hæða, svölum með hringstiga og nýju bílastæði á lóðinni. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, gera framangreindir eigendur fasteigna við Grandagarð þá kröfu að ógilt verði byggingarleyfi nr. BN055710, sem samþykkt var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. apríl 2019 og útgefið 3. júlí s.á. Jafnframt var þess krafist að framkvæmdir á grundvelli hins kærða byggingarleyfis yrðu stöðvaðar til bráðabirgða þar til endanlegur úrskurður væri genginn í málinu en því var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 29. ágúst 2019. Þar sem kærumálin stafa frá sömu kærendum og varða sama byggingarleyfi verður greint kærumál, sem er nr. 74/2019, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. ágúst 2019.

Málavextir: Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 22. janúar 2019, sótti Reykjavíkurborg Eignasjóður um leyfi til þess að endurinnrétta fasteignina Grandagarð 1A sem neyðarskýli fyrir skjólstæðinga Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Fram kemur í umsókninni að breytingin taki til frágangs og fyrirkomulags innandyra með tilheyrandi breytingum á útliti og nauðsynlegum flóttastiga og flóttasvölum. Jafnframt yrði komið fyrir útigeymslu, girðingu vegna útisvæðis og sorpgeymslu á norðurhlið lóðar. Norðurhlið hússins verði einangruð og klædd að utan í samræmi við uppdrætti. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 29. janúar 2019 var málinu frestað og vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. febrúar s.á. og var málinu vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra. Umsögn skrifstofu sviðsstjóra, dags. 22. s.m., var samþykkt á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa sama dag. Erindið var að nýju sent til umsagnar skipulagsfulltrúa á embættis­afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 26. s.m. og var umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. mars s.á. samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa sama dag. Byggingaráform voru samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. apríl 2019 og byggingarleyfi gefið út 3. júlí s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að fyrirhuguð starfsemi samræmist ekki skipulags­áætlunum svæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sé óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema með leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Beri byggingar­fulltrúa að samþykkja byggingaráform að því gefnu að þau samrýmist skipulagsáætlunum á viðkomandi svæði, sbr. 11. gr. sömu laga. Þá sé eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og þar sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags, m.a. varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé svæðið sem hér um ræði með  landnotkunina Hafnir (H2). Þar sé gert ráð fyrir hafnsækinni starfsemi og starfsemi sem almennt falli undir skilgreiningu athafnasvæða. Samkvæmt e-lið 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé athafnasvæði skilgreint sem svæði fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta sé á mengun svo sem léttur iðnaður, hreinleg verkstæði, bílasölur og umboðs- og heildverslanir. Einnig atvinnustarfsemi sem þarfnist mikils rýmis, t.d. vinnusvæði utandyra á lóðum eða starfsemi sem hafi í för með sér þungaflutninga, svo sem vörugeymslur og matvælaiðnaður.

Í aðalskipulagi sé þó tekið fram að fjölbreyttari landnotkun sé heimil við Fiskislóð og Grandagarð, samkvæmt ákvörðun þar um í deiliskipulagi, s.s. verslun, þjónusta og fínlegri atvinnustarfsemi. Gististaðir í flokki I og II geti verið heimilir í deiliskipulagi. Þessi stefnumörkun sé í samræmi við almenna skilgreiningu fyrir hafnarsvæði í landnotkunarkafla aðalskipulagsins en þar segi að íbúðir, hótel og gististaðir séu almennt ekki heimilaðir á hafnarsvæðum nema það sé sérstaklega tilgreint í sérákvæðum fyrir viðkomandi hafnarsvæði.

Á svæðinu sé í gildi deiliskipulag Vesturhafnar – Örfisey, sem samþykkt hafi verið í borgar­stjórn 3. nóvember 2015 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 27. janúar 2016. Í greinargerð með skipulaginu segi um svæði Þ2 (Ægisgarður – Grandagarður) að á svæðinu skuli vera smábátar og hafnsækin starfsemi í bland við ferðaþjónustu, veitingastaði, verslanir, söfn, listasmiðjur og smáiðnað. Möguleiki sé á hóteli á Ægisgarði og nýbyggingum á hafnarbakka Slippsvæðisins. Að öðru leyti sé gert ráð fyrir takmarkaðri uppbyggingu. Sérstaklega og afdráttarlaust sé tekið fram að gististaðir séu ekki heimilir á svæðinu. Þannig hafi verið afmarkað með skýrum og tæmandi hætti í deiliskipulaginu hvers kyns verslun og þjónusta skuli heimil, sbr. fyrirmæli aðalskipulags. Hvergi í gildandi skipulagsáætlunum sé gististarfsemi eða samfélagsþjónusta heimil á svæðinu.

Fullyrðingum um að landnotkunin „samfélagsþjónusta“ sé almennt heimil á miðsvæðum og þjónustusvæðum sé hafnað. Fullyrðingin virðist byggja á umfjöllun um samfélagsþjónustu í landnotkunarkafla aðalskipulags Reykjavíkur. Þar komi þó fram að samfélagsþjónusta sé almennt heimil á miðsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum ef gerð sé grein fyrir henni í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Hér sé því ekki um almenna reglu að ræða heldur undanþágu sem sé háð því að sérstaklega sé kveðið á um viðkomandi samfélagsþjónustu í hverfis- og/eða deiliskipulagi viðkomandi svæðis. Landnotkunin „samfélagsþjónusta“ sé skilgreind í aðalskipulagi í kaflanum Landnotkun – Skilgreiningar (bindandi stefna), sbr. einnig d-liður 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Séu skilgreind svæði samfélagsþjónustu ætluð fyrir stofnanir og fyrirtæki sem óháð eignaraðild veiti almenna þjónustu við samfélagið, svo sem menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, menningarstofnanir, félagslegar stofnanir, trúar­stofnanir og aðrar þjónustustofnanir ríkis, sveitarfélaga eða annarra aðila. Í kaflanum sé síðan áréttað að samfélagsþjónusta sem teljist grunnþjónusta fyrir viðkomandi hverfi sé heimil í íbúðarbyggð og að samfélagsþjónusta sé almennt heimil við aðalgötur og í skilgreindum kjörnum innan íbúðarbyggðar. Hvergi sé gert ráð fyrir að samfélagsþjónusta skuli heimil á svæðum sem falli undir skilgreiningu athafnasvæða eða hafnsækinna svæða. Meginreglan samkvæmt aðalskipulagi sé sú að á hafnarsvæðinu við Granda sé gert ráð fyrir hafnsækinni starfsemi og starfsemi sem almennt falli undir skilgreiningu athafnasvæða, sbr. e-liður 2. mgr. gr. 6.2. í skipulagsreglugerð. Frá þeirri meginreglu sé gerð sú undantekning að fjölbreyttari landnotkun, þ.m.t. verslun og þjónusta, sé heimil við Fiskislóð og Grandagarð „samkvæmt ákvörðun þar um í deiliskipulagi“. Í deiliskipulagi svæðisins sé á grundvelli þessarar undanþáguheimildar gert ráð fyrir starfsemi við Grandagarð sem falli undir landnotkunina ferðaþjónusta, veitingastaðir, verslanir, söfn, listasmiðjur og smáiðnaður. Ekki sé getið annarrar landnotkunar og séu ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að upptalning greinargerðarinnar sé tæmandi að þessu leyti. Óumdeilanlegt verði að telja að samfélags­þjónusta falli hvergi undir framangreinda upptalningu, einkum og sér í lagi þegar horft sé til þess að túlka verði öll frávik frá landnotkunarstefnu aðalskipulagsins þröngt.

Jafnvel þótt um væri að ræða samfélagsþjónustu sé óumdeilanlegt að þjónustan felist m.a. í því að bjóða þjónustuþegum gistiaðstöðu sem sé óheimil á svæðinu samkvæmt skipulags­skilmálum. Horfa verði til eðlis þeirrar þjónustu sem um sé að ræða og leggja mat á það hvort hún samræmist gildandi skipulagsskilmálum. Vísað sé til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. maí 2018 í máli nr. E-3902-2017, en þar hafi fyrirhuguð hagnýting húsnæðis að Bíldshöfða 18 verið undir gistiskýli fyrir hælisleitendur. Líkt og við eigi í máli þessu hafi aðalskipulag Reykjavíkur kveðið á um að á viðkomandi svæði, miðsvæði (M4b) í Grafarvogi, hafi ekki verið gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum nema það væri sérstaklega tilgreint í deiliskipulagi, en hvergi hafi verið kveðið á um slíka heimild í deiliskipulagi svæðisins. Af þessum sökum hafi héraðsdómur talið að starfræksla gistiskýlis væri í „andstöðu við þau sjónarmið um starfsemi á svæðinu sem mælt er fyrir um í aðalskipulagi og deiliskipulagi“. Hafi verið fallist á viðurkenningarkröfu um að óheimilt hafi verið að starfrækja gistiskýli í húsnæðinu og ákvörðun sýslumanns um að leggja lögbann við starfseminni hafi verið staðfest. Sömu sjónarmið eigi við fullum fetum í máli þessu enda séu málsatvik sambærileg að öllu leyti.

Varðandi rök Reykjavíkurborgar að ekki sé um gististað að ræða í skilningi 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald á þeim grundvelli að ekki sé greitt endurgjald fyrir gistinguna sé bent á að á fundi velferðarráðs 15. nóvember 2018 hafi verið samþykkt að heimila sviðsstjóra að setja gjaldskrá, 17.500 kr. á nótt, fyrir gistingu í gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar fyrir íbúa annarra sveitarfélaga. Gjaldskráin hafi tekið gildi 1. janúar 2019 og fyrir liggi að fjöldi sveitarfélaga hafi gengið að óskum Reykjavíkurborgar um greiðslu gistináttagjalds, þ.m.t. Garðabær og Hafnarfjörður.

Samkvæmt 2. gr. lóðarleigusamnings um lóðina Grandagarð 1a, dags. 1. apríl 2014, sé önnur starfsemi leigutaka en sala rafeindatækja til skipa, viðgerðarþjónusta og skrifstofur sem tengist slíkri starfsemi óheimil nema með skriflegu samþykki Faxaflóahafna sf. Ekki liggi fyrir upplýsingar um hvort slíks samþykkis hafi verið aflað.

Starfsemi gistiskýlis samræmist ekki þeirri starfsemi sem rekin sé í sömu byggingu að Grandagarði 1. Í tilvitnuðu húsnæði hafi björgunarsveitin Ársæll verið til húsa um áratugabil, en þar fari fram ein stærsta flugeldasala landsins í Gróubúð. Um sé að ræða stærstu fjáröflun björgunarsveitarinnar og liggi mikið við á stuttum tíma til að hægt sé að halda úti öflugu björgunarstarfi og þjálfun allt árið um kring. Augljóst sé að slíkur rekstur fari ekki saman við rekstur gistiskýlis í samliggjandi húsnæði. Í því samhengi sé vísað til þess að samskonar aðstaða hafi verið uppi vegna fyrirhugaðs reksturs gistiskýlis að Bíldshöfða 18, sbr. fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Í því máli hafi legið fyrir skýr afstaða yfirmanns brunavarna hjá Slökkviliði  höfuðborgarsvæðisins þess efnis að flugeldasala gæti ekki farið fram í húsnæðinu ef í því væri starfrækt gistiskýli. Sömu sjónarmið eigi við í máli þessu. Þessum sjónarmiðum hafi verið komið á framfæri við Reykjavíkurborg en ekki fáist séð að þessi þáttur málsins hafi verið rannsakaður sérstaklega, t.d. með því að leita afstöðu björgunarsveitarinnar, lögreglustjóra, slökkviliðsstjóra og/eða Vinnueftirlits ríkisins að því er varði áhrif fyrirhugaðrar starfsemi á flugeldasölu á svæðinu. Þá hafi ekki verið tekin afstaða til framangreindra athuga­semda í umsögnum skipulagsfulltrúa eða skrifstofu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs. Ekki hafi verið rannsakað hvaða óæskilegu áhrif fyrirhuguð starfsemi muni koma til með að hafa á rekstraraðila og eigendur fasteigna á svæðinu, m.a. vegna fyrirsjáanlegra truflana og verðrýrnunar sem hljótast muni af starfseminni. Þannig hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að í 1. mgr. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 segi að mannvirki sem háð sé byggingarleyfi skv. 9. gr. laganna skuli vera yfirfarið af byggingarfulltrúa og gengið úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerðar settum á grundvelli þeirra. Í 1. mgr. gr. 2.4.2., sbr. 5. mgr. sömu greinar byggingarreglugerðar nr. 112/2012 segi að leyfisveitanda, þ.e. byggingarfulltrúa í því máli sem hér sé til umfjöllunar, skuli m.a. ganga úr skugga um að fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Með bókun á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 1. febrúar 2019 hafi verið óskað eftir afstöðu skipulagsfulltrúa um skipulagslega stöðu umsóknarinnar. Svör hafi borist frá skipulagsfulltrúa, hinn 22. febrúar s.á. með umsögn skrifstofu sviðsstjóra sem og með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. mars s.á.

Í umsögninni komi fram að samkvæmt aðalskipulagi sé fasteignin á skilgreindu deiliskipulagssvæði H2, blönduðu athafnasvæði og sé lóðin innan þess hluta sem skilgreint sé sem þróunarsvæði Þ2, Ægisgarður – Grandagarður. Í gildi sé deiliskipulag Vesturhafnar, samþykkt í borgarráði 3. nóvember 2015 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2016. Um starfsheimildir sé vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra, dags. 22. febrúar 2019. Þar komi fram að á svæðinu sé heimilt að vera með leyfi fyrir þjónustustarfsemi og sé neyðarskýlið skilgreint sem slík, þ.e. samfélagsþjónusta. Ráða megi af aðalskipulagi að fjölbreytt starfsemi sé heimiluð á svæðinu og að skilgreina megi landnotkun vítt. Upptalning í aðalskipulagi yfir mögulega starfsemi sé einungis í dæmaskyni og sé sérstaklega talin upp verslun og þjónusta. Í kafla aðalskipulags um landnotkun segi um samfélagsþjónustu að sú landnotkun sé almennt heimil á miðsvæðum og þjónustusvæðum. Af því leiði að aðalskipulag veiti heimild til þess að á svæðum með landnotkun verslun og þjónustu megi koma fyrir samfélagsþjónustu. Ekki sé um gististað að ræða í skilningi 3. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald. Samkvæmt ákvæðinu séu gististaðir staðir þar sem boðin sé gisting að hámarki í 30 daga samfleytt í senn gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga.

Skipulagsfulltrúi hafi ekki gert skipulagslega athugasemd við notkun húsnæðisins undir fyrirhugaða starfsemi. Við samþykkt byggingaráforma hafi af hálfu byggingarfulltrúa verið í hvívetna gætt ákvæða byggingarreglugerðar, sér í lagi kröfu um yfirferð á skipulagslegum heimildum.

Hvorki í lögum um mannvirki né byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir að byggingarfulltrúi rannsaki sérstaklega ákvæði lóðarleigusamninga fyrir samþykkt byggingaráforma. Gengið sé út frá því að umsækjandi hafi lagt mat á hvort samningur standi í vegi fyrir því að umsókn fáist samþykkt. Lóðarleigusamningur sé einkaréttarlegur samningur sem sé á milli eiganda fasteignar og sveitarfélags. Lóðarleigusamningur og ákvæði hans binda samningsaðila en geti ekki leitt til þess að samþykkt byggingaráform sæti ógildingu, fari starfsemi sem fyrirhuguð sé, ásamt viðkomandi byggingarleyfisumsókn, í bága við einstök ákvæði slíks samnings. Sé það samningsaðila að beita úrræðum samningalaga telji þeir að leigutaki hafi vanefnt skuld­bindingar sínar á grundvelli samningsins.

Kærendur bendi á að óheimilt hafi verið að samþykkja byggingaráform þar sem starfsemin samrýmist ekki annarri starfsemi í fasteigninni, þ.e. flugeldasala í rými Björgunarsveitarinnar Ársæls, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. maí 2018 í máli E-3902/2017. Mikilvægt sé að hafa í huga að ekki sé um að ræða gistiþjónustu heldur úrræði á vegum Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til aðstoðar skjólstæðingum þeirra. Umsóknin hafi ítrekað farið til umsagnar forvarnardeildar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins áður en til samþykktar hafi komið. Engar athugasemdir hafi verið gerðar sem verði ekki túlkað á annan veg en þann að ekki séu nokkrar ástæður til að telja rekstur neyðarskýlis ganga gegn ákvæðum laga um brunavarnir, né ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir.

Hlutverk byggingarfulltrúa sé ekki að fjalla um gjaldtöku annarra aðila innan Reykjavíkur­borgar. Aftur á móti skuli á það bent að gjaldskrá um innheimtu kostnaðar vegna notkunar á neyðarskýlinu sé ekki eiginleg gjaldskrá í skilningi stjórnsýsluréttar heldur viðmið sem notað sé til að gera samninga við önnur sveitarfélög um kostnaðarþátttöku vegna þess kostnaðar sem hljótist af rekstri skýlisins.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Á heimasíðu Reykjavíkurborgar sé að finna umfjöllun um þá starfsemi sem nú sé rekin að Lindargötu 48, sem ætlað sé að gistiskýlið við Granda taki við af, en þar komi skýrt fram að Reykjavíkurborg líti á starfsemina sem gistiþjónustu. Ítrekað sé vísað til húsnæðisins sem „gistiskýlis“, að því sé ætlað að vera „næturathvarf“ og fram komi að skýlið sé opið alla daga frá 17:00 til 10:00 næsta dag. Með öðrum orðum sé ljóst að starfsemin felist fyrst og fremst í því að veita næturgistingu. Þá komi fram að alls hafi 195 karlmenn gist í samtals 10.632 nætur í gistiskýlinu við Lindargötu á árinu 2018. Sýni það að sama skapi hvers konar starfsemi sé fyrirhuguð að Grandagarði 1A.

Niðurstaða: Grandagarður 1A er á hafnarsvæði H2 samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Í almennum kafla um Hafnarsvæði í aðalskipulaginu kemur fram að hvert hafnarsvæði gegni sínu hlutverki og gildi sérstök skipulagsákvæði um hvert svæði. Íbúðir, hótel og gististaðir og smávöruverslanir séu almennt ekki heimilar á hafnarsvæðum nema það sé sérstaklega tilgreint í sérákvæðum fyrir viðkomandi hafnarsvæði. Um svæði H2 segir svo í hafnarkafla aðalskipulagsins að þar sé „[G]ert ráð fyrir hafnsækinni starfsemi og starfsemi sem almennt fellur undir skilgreiningu athafnasvæða í skipulagsreglugerð. Fjölbreyttari landnotkun er þó heimil við Fiskislóð og Grandagarð samkvæmt ákvörðun þar um í deiliskipulagi, s.s. verslun, þjónusta og fínlegri atvinnustarfsemi. Gististaðir í flokki II og III geta verið heimilir, sbr. ákvörðun í deiliskipulagi.“ Sama orðalag er að finna um svæðið í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna).

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Vesturhafnar – Örfiseyjar sem samþykkt var í borgarstjórn 3. nóvember 2015 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2016. Samkvæmt deiliskipulaginu er Grandagarður 1A á svæði með landnotkunina HVÞ – Hafnsækin starfsemi, verslun, þjónusta og fínlegri atvinnustarfsemi. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins skal á HVÞ-svæðum gera ráð fyrir hafnsækinni starfsemi sem almennt fellur undir skilgreiningu athafna­svæða í skipulagsreglugerð. Fjölbreyttari landnotkun s.s. verslun, þjónusta og fínleg atvinnu­starfsemi er þó heimil á ákveðnu svæði við Fiskislóð og Grandagarð samkvæmt nánari afmörkun á deiliskipulagsuppdrætti. Gististaðir eru ekki heimilir á svæðinu.

Samfélagsþjónusta er skilgreind í d-lið gr. 6.2. greinar skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Þar segir að um sé að ræða svæði fyrir stofnanir og fyrirtæki sem óháð eignaraðild veita almenna þjónustu við samfélagið, svo sem menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, menningarstofnanir, félagslegar stofnanir, trúarstofnanir og aðrar þjónustustofnanir ríkis, sveitarfélaga eða annarra aðila. Sömu skilgreiningu er að finna í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Með hliðsjón af framangreindu fellur neyðarskýli fyrir heimilis­lausa vímuefnaneytendur undir framangreint ákvæði. Í gildandi aðalskipulagi er samfélags­þjónusta ekki aðeins heimil á þeim svæðum sem hafa landnotkunina samfélagsþjónusta, heldur er hún „einnig almennt heimil á miðsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum og getur verið heimil á opnum svæðum (OP) ef gerð er grein fyrir henni í hverfis- og/eða deiliskipulagi.“ Túlka verður framangreint sem svo að heimild til að hafa samfélagsþjónustu á opnum svæðum sé skilyrt, þ.e. að slík heimild geti verið til staðar að uppfylltum þeim skilyrðum að heimildin sé tiltekin í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Það á hins vegar ekki við um miðsvæði og verslunar- og þjónustusvæði þar sem samfélagsþjónusta er almennt heimil nema annað sé tekið fram. Samkvæmt framansögðu er heimilt að reka samfélagsþjónustu á hinu umdeilda svæði.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreinings­mála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ágreiningur um túlkun lóðarleigusamnings, sem í eðli sínu er samningur einkaréttarlegs eðlis, verður því ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni.

Fyrir liggur að byggingarleyfisumsóknin um gisti­skýlið var samþykkt af hálfu forvarnardeildar slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og ekki var gerð athugasemdir við að starfsemin yrði í húsinu, þrátt fyrir að flugeldasala fari þar fram. Þá ber þess að geta að slökkviliðsstjóri gefur umsögn um og skoðar sölustaði flugelda, sbr. ix-lið 30. gr. og 3. mgr. 31. gr. reglugerðar nr. 414/2017 um skotelda. Einnig er rétt að benda á að smásala á skoteldum er aðeins heimil á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum skv. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2019 að samþykkja byggingarleyfi til að innrétta neyðarskýli fyrir heimilislausa vímuefnaneytendur að Grandagarði 1A, koma fyrir hvíldaraðstöðu á 2. hæð, nýrri pallalyftu milli hæða, svölum með hringstiga og nýju bílastæði á lóðinni.

104,105,106,108 og 110/2019 Skólavörðustígur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 14. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Skólavörðustíg 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með fjórum bréfum, dags. 9., 13. og 25. október 2019, er bárust nefndinni 10., 13., 23. og 25. s.m., kæra fimm aðrir eigendur fasteigna að Skólavörðustíg 8 og 10, Reykjavík, sömu ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Verða nefnd kærumál, sem eru nr. 105, 106, 108 og 110/2019, sameinuð kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með bréfi, dags. 31. október 2019, fór kærandi í kærumáli nr. 105/2019 fram á að fram­kvæmdir við fyrirhugaða biljarðstofu yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærandans.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. nóvember 2019.

Málavextir: Hinn 23. júlí 2019 var sótt um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi á annarri hæð hússins að Skólavörðustíg 8 í rými þar sem starfrækt hefði verið hárgreiðslustofa. Í umsókninni kom fram að gert væri þar ráð fyrir fjórum biljarðborðum og spilakössum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. ágúst s.á. var málinu vísað til umsagnar skipulags­fulltrúa og skilaði han umsögn 30. s.m. Í umsögninni kom fram að ekki væri gerð skipulagsleg athugasemd við veitingastað í flokki II í fasteigninni þar sem það samræmdist landnotkun samkvæmt aðalskipulagi og að enginn götuhliðakvóti væri fyrir efri hæðir húsa við Skólavörðustíg. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. september s.á. var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt. Var veitt leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi fyrir 30 manns, veitingastað í flokki II, tegund F, í rými 03-0201 að Skólavörðustíg 8.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að hið kærða byggingarleyfi, sem feli í sér verulega breytingu á hagnýtingu umrædds húsrýmis, fari gegn gildandi skipulagi. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form, eftir því sem við eigi, og aðrar skipulags­forsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Áætluð starfsemi samkvæmt fundargerð skipulagsfulltrúa sé veitingastaður í flokki II, þ.e. umfangslítill áfengisveitingastaður þar sem starfsemin sé ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og kalli ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu. Það liggi hins vegar í augum uppi að staður með vínveitingaleyfi, sem m.a. bjóði upp á aðgang að spilakössum, sé til þess fallinn að valda miklu ónæði í næsta nágrenni og kalli jafnframt á mikið eftirlit og löggæslu. Inngangur að biljarðstofunni sé baka til, þ.e. ekki frá Skólavörðustíg, og sé beint fyrir neðan svalir íbúða í húsinu. Ljóst sé að starfseminni muni fylgja mikið ónæði og óþrifnaður, þ. á m. vegna reykinga, og neyðarútgangur úr billjarðstofunni sé inn á stigagang þar sem hluti kærenda eigi fasteignir. Eigendur næstu fasteigna hafi ekki fengið kynningu á umsókninni, en hvorki hafi farið fram grenndarkynning né annað skipulagsferli. Þó sé það víðtekin venja að hagsmunaaðilum sé kynnt breytt notkun á húsnæði, ekki síst þegar um veitinga- og kaffihús sé að ræða. Auk þess komi fram í aðalskipulagi Reykjavíkur að ekki sé heimilt að reka spilasal og vínveitingastarfsemi í sama rými. Því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar sé Skólavörðustígur á svæði þar sem í gildi séu takmarkaðar vínveitingaheimildir. Þar megi almennt hafa opið til kl. 23:00 um helgar en lengst til kl. 01:00. Einnig megi heimila þar veitingstaði, kaffihús og krár í flokki I-II. Í gildi sé deiliskipulag fyrir reitinn, en þar sé landnotkun lóðarinnar ekki skilgreind sérstaklega og fari hún því eftir ákvæðum aðalskipulags.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sé öll jarðhæðin að Skólavörðustíg 8 skráð sem verslunarhúsnæði en hárgreiðslustofa sé skráð á hluta 2. hæðar, í rými 03-0201. Aðkoma að rýminu sé á bakhlið hússins en gengið sé upp hálfa hæð innan rýmisins og snúi sá hluti á 2. hæð hússins að götu. Umsóknin feli því ekki í sér breytingu á landnotkun á jarðhæð hússins. Samþykkt byggingarfulltrúa feli heldur ekki í sér heimild til að vera með fleiri spilakassa en fjóra í rýminu, en samkvæmt aðalskipulagi sé spilasalur rými þar sem reknir séu fleiri en fjórir spilakassar og rekstur spilakassa sé aðalstarfsemin sem þar fari fram.

Kærendur hafi ekki sýnt fram á að þeir verði fyrir raski eða óþægindum umfram það sem gangi og gerist í þéttri miðborgarbyggð, en það sé að öðru leyti í verkahring Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og eftir atvikum lögregluyfirvalda að sinna eftirliti með veitingastöðum, m.a. vegna hljóðvistar.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að Skólavörðustígur 8 sé á svæði M1a í aðalskipulagi þar sem heimiluð sé veitingastarfsemi sem hið kærða leyfi feli í sér. Aðeins sé veitt heimild fyrir fjórum spilakössum og sé starfsemi spilakassa því ekki aðalstarfsemi í húsnæðinu. Gangi starfsemin því ekki gegn aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá sé bent á að í gildandi deiliskipulagi fyrir skipulagsreitinn sé starfsemi á lóðinni ekki skilgreind sérstaklega og því skuli landnotkun vera í samræmi við gildandi aðalskipulag. Umrædd lóð sé í fasteignaskrá skráð sem viðskipta- og þjónustulóð. Fyrirhuguð starfsemi sé innan þeirrar skilgreiningar, en í rými undir starfsemina á annarri hæð húsnæðisins hafi áður verið starfrækt hárgreiðslustofu með aðkomu frá bakhlið hússins. Leyfið feli ekki í sér breytingu á landnotkun jarðhæðar hússins og sé það því í fullu samræmi við heimilaða notkun á lóðinni. Í ljósi framangreinds, sem og venjubundinnar framkvæmdar í sambærilegum málum, hafi ekki verið þörf á sérstakri kynningu til nágranna.

Niðurstaða: Í gildi er deiliskipulag staðgreinireits 1.171.2 frá árinu 2002, sem tekur til lóðarinnar Skólavörðustígs 8, en þar er ekki að finna sérstaka skilmála er taka til lóðarinnar. Fer landnotkun hennar því eftir ákvæðum gildandi aðalskipulags.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Skólavörðustígur 8 í skilgreindum miðborgarkjarna M1a. Í kaflanum Landnotkun – skilgreiningar (bindandi stefna) kemur fram að veitingastaðir í flokki I, II og III séu almennt heimilir í miðborg og miðsvæði (M) en að takmarkanir varðandi veitingastaði og gististaði séu tilgreindar í skilgreiningum fyrir einstök svæði. Þá er miðborgarsvæði M1a m.a. lýst á eftirfarandi hátt: „Sérstök áhersla er á smásölu­verslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu.“ Í sérstökum ákvæðum um spilasali er kveðið á um að ekki megi heimila rekstur spilasalar og vínveitingastarfsemi í sama rými, en spilasalur er skilgreindur sem rými þar sem reknir séu fleiri en fjórir spilakassar og rekstur spilakassa sé aðalstarfsemin sem þar fari fram. Þá kemur fram í sérstökum ákvæðum um vínveitingahús að takmarkaðar mið­borgarheimildir gildi á umræddu svæði. Á svæðum með takmörkuðum miðborgarheimildum megi almennt heimila veitingastaði, kaffihús og krár í flokki I-II og að opnunartími sé almennt til kl. 23:00 um helgar eða frídaga, en lengst til kl. 01:00.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar rekstur biljarðstofu með vínveitingaleyfi á 2. hæð hússins að Skólavörðustíg 8. Fellur sú notkun undir veitingastað í flokki II, tegund F, skv. 17. og 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fer notkunin ekki bága við framangreinda bindandi stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 fyrir svæðið og var því ekki þörf á grenndarkynningu byggingarleyfisins. Þá felur leyfið einnig í sér heimild til að reka spilakassa en þar sem einungis er veitt heimild til reksturs fjögurra spilakassa geta sérstök ákvæði aðalskipulagsins um spilasali ekki átt þar við. Loks verður opnunartími biljarðstofunnar samkvæmt byggingarleyfinu til kl. 23:00 á virkum dögum og til kl. 01:00 um helgar, sem er í samræmi við sérstök ákvæði aðalskipulagsins um opnunartíma vínveitingahúsa á svæðinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir biljarðstofu með vínveitingaleyfi að Skólavörðustíg 8.

14/2019 Leirutangi

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 1. febrúar 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir stækkun húss að Leirutanga 10.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur einbýlishúsanna nr. 2, 4, 6, 8, 12, 14 og 16 við Leirutanga í Mosfellsbæ þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 1. febrúar 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir stækkun húss að Leirutanga 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 28. júní 2019.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 5. janúar 2018 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi, dags. 7. desember 2017. Sótt var um leyfi til að hækka rishæð hússins nr. 10 við Leirutanga og innrétta íbúðarrými og geymslu í samræmi við framlögð gögn. Húsið skyldi hækkað í 7,40 m og stækkað úr 158,4 m² í 303,3 m². Erindið var grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 12. mars til 10. apríl 2018 og bárust athugasemdir, þar á meðal frá kærendum. Á fundi skipulagsnefndar 22. maí s.á. var með hliðsjón af framkomnum athugasemdum ekki fallist á umbeðna hækkun hússins. Í ljósi fyrirliggjandi skipulags­skilmála fyrir svæðið sem samþykktir höfðu verið á árinu 1981, þar sem hæð húsa var heimiluð 6,60 m, var samþykkt að grenndar­­kynna erindið að nýju með hliðsjón af þeim skilmálum.

Umsókn um byggingarleyfi var grenndarkynnt að nýju á tímabilinu frá 25. júní til 27. júlí 2018. Athugasemdir bárust, þ. á m. frá kærendum. Á fundi skipulagsnefndar 17. ágúst 2018 var skipulagsfulltrúa og lögmanni bæjarins falið að yfirfara gögn málsins og skila álitsgerð. Á fundi skipulagsnefndar 26. október 2018 var m.a. bókað að samþykkt yrði að fela byggingar­fulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hefðu borist. Var vísað til minnis­blaðs lögmanns sveitarfélagsins, dags. 24. s.m., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefnt skyldi að útgáfu byggingarleyfis til handa umsækjanda. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 1. febrúar 2019 var samþykkt byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Leirutanga 10 þannig að brúttóflatarmál húss færi úr 158,4 m² í 303,3 m² og hámarkshæð þess yrði 6,60 m.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að ákvörðun byggingarfulltrúa sé ólögmæt, málsmeðferðin klúður frá upphafi og að ekki hafi verið tekið tillit til ítarlegra og rökstuddra athugasemda þeirra. Kröfur kærenda séu reistar bæði á efnislegum og formlegum grunni. Málsmeðferðin hjá skipulagsyfirvöldum, báðar grenndarkynningarnar og viðbrögð við athuga­semdum hafi ekki verið lögum samkvæmt. Rökstudd andmæli og réttmætar ábendingar hafi verið virtar að vettugi og að engu hafðar eða skautað fram hjá þeim, bæði af skipulagsnefnd og embættismönnum.

Tekið sé undir sjónarmið bæjarlögmanns í minnisblaði, dags. 14. október 2018, þar sem fram komi að „ástæða getur verið til að afla frekari upplýsinga um meðferð eldri byggingarleyfis­umsókna í hverfinu og útbúa teikningar sem sýni hæð húsa í hverfinu og gerir grein fyrir skuggavarpi.“ Þetta lúti að grundvallaratriðum sem kærendur hafi margendurtekið hamrað á að skorti, en án viðbragða og árangurs. Fullnægjandi gögn og upplýsingar hefðu átt að liggja fyrir strax í upphafi við báðar grenndarkynningarnar og vitaskuld í allra síðasta lagi þegar ákvörðunin hafi verið tekin. Að því leyti sé ákvörðunin augljóslega byggð á ófullnægjandi forsendum og fullnægi ekki forskrift laga.

Málsrök Mosfellsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að byggingarleyfi það sem kæran lúti að feli eingöngu í sér hækkun mænis. Mænir á þeim hluta þaks sem liggi í austur-vestur hækki um 171 cm og verði hæð hans frá gólfplötu fyrstu hæðar eftir breytingar 658 cm. Mænir á þeim hluta þaks sem liggi í suður-norður hækki um 148 cm og verði hæð hans frá gólfplötu fyrstu hæðar eftir breytingar 593 cm. Ekki hafi verið veitt heimild til hækkunar mænis á skúr sem sé á lóðinni. Þá verði þvermál og ummál þaks hið sama fyrir og eftir breytingar og verði aukinni hæð mænis því mætt með auknum halla.

Umrædd fasteign sé á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 geti sveitarstjórn, að undangenginni grenndarkynningu, veitt byggingarleyfi í slíkum tilvikum án deiliskipulagsgerðar sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Umdeild framkvæmd rúmist innan þess sem fram komi í skipulags- og byggingarskilmálum frá 19. maí 1981 um stærð og gerð einbýlishúsa í hverfinu. Telji bæjaryfirvöld að skilmálarnir  hafi grundvallarþýðingu við mat á því hvers íbúar megi vænta, enda megi almennt gera ráð fyrir að landnotkun, byggðamynstur og þéttleiki byggðar verði í samræmi við slíka samþykkta skilmála.

Með tilvísun til minnisblaðs lögmanns bæjarins til „fullnægjandi gagna“ sé fyrst og fremst átt við þau atriði sem tiltekin séu í 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en óheimilt sé að gefa út byggingarleyfi fyrr en þau liggi fyrir. Framkvæmd hafi verið könnun á afgreiðslu eldri byggingarleyfisumsókna í hverfinu og hafi ekki fundist dæmi um að sambærilegum beiðnum hafi verið hafnað. Eðli máls samkvæmt hafi sú könnun takmarkast við gögn sem aðgengileg væru á tölvutæku formi. Telji kærendur sig hafa upplýsingar um eldri dæmi sé skorað á þá að tiltaka um hvaða hús ræði. Varðandi könnun á skuggavarpi þá hafi við nánari athugun ekki þótt vera nauðsyn á að aflað yrði slíkra gagna af hálfu bæjaryfirvalda enda hafi framkvæmdin öll verið í samræmi við fyrrgreinda skipulags- og byggingarskilmála. Erfitt sé að sjá að framkvæmdin geti falið í sér breytingu á landnotkun, byggðamynstri eða þéttleika byggðar enda þótt skuggavarp aukist alltaf eitthvað þegar mænir húss sé hækkaður.

Bæjaryfirvöldum hafi borist teikning sem kærendur hafi lagt fyrir úrskurðarnefndina sem sýna eigi skuggavarp vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Engar forsendur sé þar að finna sem sýni í raun þá hækkun á mæni hússins að Leirutanga 10 sem sé fyrirhuguð. Þá sé ekki gerð grein fyrir trjám, gróðri, skjólveggjum o.fl. sem hafi augljós áhrif á skuggavarp. Hvað sem líði áreiðanleika teikninganna og þeim áhrifum sem þeim sé ætlað að sýna sé ítrekað vægi þess að ekki sé hróflað við landnotkun, byggðamynstri eða þéttleika byggðar.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og komu kærendur að athugasemdum sínum við grenndarkynninguna. Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar í skipulagsnefnd og hún samþykkt, auk þess sem afstaða var tekin til fram­kominna athugasemda. Umsögn bæjarins um athugasemdir kærenda ásamt niðurstöðu var send kærendum með bréfi, dags. 5. nóvember 2018. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingar­leyfis­umsóknina á afgreiðslufundi 1. febrúar 2019.

Eins og rakið er í áður greindu ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er unnt að veita byggingar­leyfi á ódeiliskipulögðu svæði án deiliskipulagsgerðar sé framkvæmdin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Húsið á lóðinni Leirutanga 10 er 158,4 m² að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en með bílskúr sem stendur á lóðinni er heildarflatarmál húsa á lóðinni 197,6 m². Með hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir stækkun íbúðarhússins í 303,3 m² og að meðtöldum bílskúr fer heildarflatarmál bygginga á lóðinni því í 342,5 m². Umrædd lóð er 789 m² að flatarmáli og fer nýtingarhlutfall hennar því úr 0,25 í 0,43. Til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall lóðanna að Leirutanga 2-16 er samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands að jafnaði á bilinu 0,18-0,30, að tveimur lóðum undanskildum sem hafa nýtingarhlutfallið 0,33 og 0,42. Nýtingar­hlutfall grannlóða er því almennt töluvert lægra en nýtingarhlutfall lóðar byggingarleyfishafa yrði eftir umdeilda breytingu. Svo sem vísað hefur verið til af hálfu bæjar­yfirvalda voru samþykktir skipulags- og byggingarskilmálar fyrir svæðið í maí 1981, þar sem m.a. er tekið fram að nýtingarhlutfall lóða, að meðtöldum bílskúrum, mætti ekki vera meira en 0,3.

Telja verður að með umþrættu byggingarleyfi sé vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gerist á grannlóðum á svæðinu að óheimilt hafi verið að grenndarkynna umsóknina, enda verður að telja að umdeild hækkun nýtingarhlutfalls hafi óhjákvæmilega talsverð áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur. Verður af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 1. febrúar 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir stækkun húss að Leirutanga 10.

103/2019 Austurey

Með

Árið 2019, föstudaginn 18. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III og ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingar­leyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Austureyjar II, Bláskógabyggð, ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III, og ákvörðun byggingar­fulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III. Er krafist ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að úrskurðar­nefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 10. október 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frístundabyggðar í landi Austureyjar I og III frá 7. júní 2002. Með umsókn, dags. 1. apríl 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Í umsókninni fólst skilmálabreyting fyrir heildarsvæðið varðandi nýtingarhlutfall lóða sem yrði 0,03 í stað ákvæðis um hámarksstærð bygginga í fer­metrum. Heimilað yrði að reisa á hverri frístundalóð eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús. Auk þess yrði frístundalóðin Eyrargata 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m² ásamt stækkun byggingarreits. Tilgreint var að byggingarreitur væri 50 m frá vatnsbakka og 10 m frá lóðarmörkum og að gert yrði ráð fyrir 5 m belti fyrir göngustíg milli lóðanna Eyrargötu 7 og 9 í framhaldi af aðkomuvegi.

Á fundi skipulagsnefndar Bláskógabyggðar 10. apríl 2019 var mælst til þess að sveitarstjórn samþykkti framkomna breytingatillögu og að hún yrði auglýst samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags­­laga nr. 123/2010. Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna til kynningar á fundi sínum 9. maí 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 22. maí til 3. júlí s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 22. ágúst 2019 og tók afstöðu til framkominna athugasemda. Skipulagsfulltrúi sendi athugasemdaaðilum svör bæjarstjórnar með bréfi, dags. 4. september s.á.

Með erindi, dags. 5. september 2019, sendi Bláskógabyggð Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar umfjöllunar og tilkynnti stofnunin með bréfi, dags. 18. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Tók deiliskipulags­breytingin gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2019.

Með umsókn, dags. 10. september 2019, sótti landeigandi Austureyjar III um byggingarleyfi fyrir 183,7 m² sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið aflað álits Umhverfisstofnunar og Náttúruverndarnefndar á umdeildri deiliskipulagsákvörðun eða samþykktu byggingarleyfi. Með þeim framkvæmdum sem nú eigi sér stað í Austurey III sé verið að raska vistkerfi Apa­vatns. Það sé skýrt samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd að við slíkar framkvæmdir beri að afla umsagnar Umhverfisstofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag þar sem umsagnir samkvæmt 1. og 2. mgr. 68. gr. laganna liggi fyrir. Hvorki við samþykkt deili­skipulags né byggingarleyfis hafi þessara álita verið aflað og því beri að ógilda byggingarleyfið og taka deiliskipulagið til endurskoðunar.

Telji úrskurðarnefndin aftur á móti að afgreiðsla sveitarstjórnar hafi að þessu leyti átt við rök að styðjast og að ákvæði náttúruverndarlaga felli ekki úr gildi samþykkt deiliskipulagsins telji kærandi engu að síður að byggingarleyfið brjóti gegn lögum nr. 61/2006 um lax- og silungs­veiði en samkvæmt 33. gr. þeirra sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrr en leyfi hafi fengist hjá Fiskistofu. Þá hafi ekki verið óskað eftir áliti Veiðifélags Apavatns og umsagnar sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmda á lífríki vatnsins.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið fylgt ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og skipulagslaga nr. 123/2010 við samþykkt deiliskipulagsins. Ekki hafi verið leitað samráðs við hagsmunaaðila, sbr. gr. 5.2.1. reglugerðarinnar. Þannig hafi ekki verið haft samband við Veiðifélag Apavatns eða Náttúrufræðistofnun Íslands þrátt fyrir að framkvæmdirnar snerti viðkvæmt lífríki Apavatns sem hafi verið tilnefnt til B-hluta Náttúruminjaskrár árið 2018. Ekki sé í deiliskipulagi að finna skilgreindar takmarkanir á landnotkun sökum náttúruvár, en ljóst sé af myndum frá 2006 að mikil flóðahætta sé á svæðinu. Myndir af flóðum hafi verið sendar til sveitarstjórnar en hafi ekki fengið efnislega meðferð.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarstjórn byggir á því að málsmeðferðin hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við lög. Samkvæmt deiliskipulagi frá 2002 sé gert ráð fyrir byggingarreit á lóðinni Eyrargötu 9 á þeim stað þar sem hann sé í dag. Með deiliskipulags­breytingunni sé reiturinn stækkaður til austurs og suðurs og lóðin stækkuð um 1.735 m². Bent sé á að samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi sé þegar gert ráð fyrir byggingu á staðnum og að stækkun lóðarinnar hafi engin áhrif á vistkerfi eða náttúru svæðisins enda sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjum á þeim stöðum sem stækkunin taki til. Byggingarreiturinn sé í 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en málsástæða kæranda, um að ekki megi byggja í meira en 100 m fjarlægð frá vatnsbakka þar sem svæðið sé tilnefnt í B-hluta Náttúruminjaskrár, sé hafnað þar sem svæðið sé ekki enn komin inn á skrána með þeim réttaráhrifum sem því fylgi.

Því sé hafnað að ákvæði 61. og 68. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eigi við í málinu enda sé byggingarreitur í meira en 50 m fjarlægð frá vatnsbakka en það sé Apavatn sjálft sem njóti verndar, sbr. a-lið 1. mgr. 61. gr. laganna. Þá sé gert ráð fyrir byggingarreit á umræddum stað í skipulagi sem hafi hlotið lögmælta afgreiðslu og geti lög nr. 60/2013 ekki verið afturvirk. Heimiluð bygging samkvæmt umræddu byggingarleyfi hafi ekki áhrif á fiskigengd Apavatns og eigi 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði ekki við í máli þessu. Við vatnið séu fjöldamörg önnur sumarhús sem ekki hafi verið talið að hafi slík áhrif.

Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í samræmi við markmið skipulagslaga og ákvæði skipulags­reglugerðar. Hún hafi verið auglýst og hafi öllum sem hafi átt hagsmuna að gæta gefist tækifæri til að koma að athugasemdum. Hvað varði þau málsrök kæranda að ekki hafi verið skilgreind takmörkun landnotkunar vegna náttúruvár sé til þess að líta að Aðalskipulag Bláskógabyggðar 2015-2027 hafi verið samþykkt 25. maí 2018. Við gerð þess hafi farið fram mat á því hvaða svæði féllu undir náttúruvá.

Að lokum sé því hafnað að skilyrði séu til staðar til þess að fella úr gildi ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og veita byggingarleyfi. Samþykkt byggingaráform hafi verið í samræmi við skipulag og málsmeðferð að öðru leyti í samræmi við lög. Ekki hafi verið talið að framkvæmdir gætu haft í för með sér röskun á þeim landslagsgerðum sem verndaðar væru samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að fyrir liggi að hluti úr landi Austureyjar III hafi verið skipulagður sem frístundasvæði árið 2002, þar með talin lóðin Eyrargata 9, og hafi verið heimilt að byggja 163 m² á lóðinni fyrir breytingu. Sumarhúsið sem sé nú í byggingu verði 183,7 m². Ólíklegt sé að stækkun á sumarhúsi um 20 m² muni valda frekara raski eða hafa úrslitaáhrif um verndun Apavatns. Fyrirhugað sumarhús sé í eins og hálfs km fjarlægð frá Austurey III og er jörðin að Austurey I á milli. Mun því fyrirhugað sumarhús hvergi vera í sjónlínu frá landi kæranda.

Ekki sé verið að raska óröskuðu landi. Nú þegar hefur verið framkvæmt á svæðinu, en bæði séu frístundahús staðsett á lóðinni Eyrargötu 7 og jarðhiti hefur verið virkjaður. Fuglavarp á lóðinni að Eyrargötu 9 og umhverfis hana sé í engu ríkara en annars staðar í landi Austureyjar nema síður sé og til að mynda verpi engir andfuglar á lóðinni eða í námunda við hana.

Niðurstaða: Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 teljast jarðirnar að Austurey I og III til frístundasvæðis. Í lýsingu aðalskipulagsins segir m.a. um frístundasvæði að á þeim skuli lóðir að jafnaði vera ½ til 1 ha að stærð og nýtingarhlutfall skuli ekki vera hærra en 0,03. Í ákveðnum tilfellum geti frístundalóðir þó verið minni og nýtingarhlutfall allt að 0,05. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér skilmálabreytingu heildarsvæðisins varðandi nýtingarhlutfall sem breytist í 0,03. Heimilt verði að reisa eitt frístundahús og eitt smáhýsi/aukahús og þá verði lóðin að Eyrargötu 9 stækkuð úr 5.444 m² í 7.177 m². Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulags­áætlana því fullnægt.

Umdeild deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem hann og gerði. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við þeim var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. sömu laga. Með bréfi, dags. 18. september 2019, tilkynnti stofnunin að hún hefði farið yfir framlögð gögn og gerði ekki athugasemdir við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er ekki á B-hluta náttúruminjaskrár, sbr. lög nr. 60/2013 um náttúruvernd, því bar sveitarfélaginu ekki að leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar og viðkomandi náttúruverndar­­nefndar samkvæmt 68. gr. laganna. Með vísan til alls framangreinds liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Með hinu kærða byggingarleyfi er leyfishafa veitt heimild að byggja 183,7 m² sumarhús á lóðinni Eyrargötu 9 í landi Austureyjar III, en fyrir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu mátti reisa á lóðinni byggingar, samtals 163 m² að stærð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðar­nefndarinnar. Fyrirhugað sumarhús verður í nokkur hundrað metra fjarlægð frá landi kæranda. Verður ekki séð að stækkun heimilaðrar byggingar um 20,7 m² samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda vegna þeirrar fjarlægðar sem er á milli lands hans og fyrirhugaðs húss. Á kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti byggingarleyfisins svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 22. ágúst 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Austureyjar I og III.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 19. september 2019, um að samþykkja byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni Eyrargötu 9 í landi jarðarinnar Austureyjar III, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

112/2018 Freyjubrunnur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. ágúst 2017 um að endurútgefa byggingarleyfi fyrir þriggja hæða fjölbýlishúsi ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Freyjubrunni 25-27, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. ágúst 2017 að endurútgefa byggingarleyfi fyrir þriggja hæða fjölbýlishúsi ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þess sé þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. september 2018 og 26. mars 2019.

Málavextir: Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. janúar 2007 var staðfest afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 16. s.m. um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja þriggja hæða fjölbýlishús ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 31. júlí s.á. og hófust framkvæmdir í kjölfar þess.   Byggingarleyfið var síðan gefið út 24. september s.á. en framkvæmdir stöðvuðust á árinu 2008.

Hinn 30. maí 2017 höfðu kærendur samband við Reykjavíkurborg þar sem þau höfðu fengið fregnir af því að hefja ætti byggingu á þriggja hæða húsi við Freyjubrunn 23 og töldu þau fyrirhugaða framkvæmd stangast á við deiliskipulag. Hið útgefna byggingarleyfi frá 2007 var svo endurútgefið 17. ágúst 2017 og hófust framkvæmdir á lóðinni um haustið. Skipulagsfulltrúi veitti hinn 29. s.m. umsögn um fyrirspurn varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Freyjubrunn þar sem m.a. kom fram að samþykktar teikningar væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Töluverð tölvupóstsamskipti áttu sér stað á milli kærenda og Reykjavíkurborgar næstu mánuði þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Hinn 2. ágúst 2018 var kærendum tilkynnt að ekki yrði aðhafst frekar í málinu og að eigendur Freyjubrunns 23 hefðu í höndunum útgefið byggingarleyfi og framkvæmdu í samræmi við það. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 29. ágúst s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki deiliskipulagi. Fyrirhuguð bygging verði of há og skerði útsýni og birtu verulega gagnvart nærliggjandi húsum. Hinn 19. september 2017 hafi kærendur farið ásamt lögmanni sínum á fund með starfsmanni skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar. Á þeim fundi hafi fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs verið sammála kærendum um að útgefið byggingarleyfi væri ekki í samræmi við deiliskipulag. Þessi afstaða hafi síðar verið staðfest í formlegu svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags.  29. september 2017, við fyrirspurn leyfishafa um breytingar á húsi að Freyjubrunni 23.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Fyrir liggi að upphaflegt byggingarleyfi hafi verið gefið út árið 2007 og endurnýjað 17. ágúst 2017. Kærendum, sem séu íbúar í næsta húsi við Freyjubrunn 23, hafi verið kunnugt um yfirstandandi framkvæmdir til lengri tíma. Fram komi í kærunni að þeir hafi fundað með skipulagsfulltrúa 19. september 2017 vegna byggingarleyfisins. Í það minnsta megi gera ráð fyrir því að full vitneskja hafi verið um tilvist þess frá þeim tíma. Samt sem áður hefðu kærendur ekkert aðhafst í því að kæra útgáfu þess fyrr en 29. ágúst 2018, 377 dögum eftir útgáfu þess. Kærendur hafi beint samtali sínu að embætti sem ekkert hafi með útgáfu leyfisins að gera og hafi engar stjórnsýslulegar heimildir vegna byggingarmála. Hafa verði í huga að kærendur hafi notið aðstoðar lögmanns. Alla jafna megi geri strangari kröfur til lögmanna, sem séu sérfróðir um kæruleiðir og kærufresti stjórnsýslumála.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærufrestur sé liðinn vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkur um að endurútgefa byggingarleyfi 17. ágúst 2017. Af gögnum málsins megi ráða að kærendum hafi verið kunnugt um útgáfu þess a.m.k. frá 19. september s.á. þegar þeir hafi farið ásamt lögmanni til fundar við starfsmann umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kærða ákvörðun. Engar forsendur séu til þess að miða upphaf kærufrests við annað og síðara tímamark en 19. september 2017 enda komi afdráttarlaust fram í kæru að kærendum hafi verið fullkunnugt um útgáfu byggingarleyfisins við framangreint tímamark.

Órökstuddar vangaveltur þáverandi starfsmanns umhverfis- og skipulagssviðs þess efnis að byggingarleyfi samræmdist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins breyti engu um upphaf kærufrestsins. Þær vangaveltur starfsmannsins hafi heldur ekki átt við nokkur rök að styðjast, sem endurspeglist í þeirri staðreynd að gilt og útgefið byggingarleyfi hafi aldrei verið afturkallað eða fellt úr gildi af byggingarfulltrúa. Útgefið byggingarleyfi sé í fullu samræmi við 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og gildandi skipulagsáætlanir. Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við útgáfu leyfisins sé haldin einhverjum annmörkum sem varðað geti ógildingu ákvörðunarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Hið kærða byggingarleyfi var endurútgefið 17. ágúst 2017 en af gögnum málsins má ráða að kærendum hafi í síðasta lagi verið kunnugt um útgáfu þess á fundi með fulltrúum borgaryfirvalda 19. september s.á. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hins vegar 29. ágúst 2018 eða rúmum 11 mánuðum síðar.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur í gögnum málsins að eftir fyrrnefndan fund 19. september 2017, þar sem sú afstaða mun hafa komið fram af hálfu fulltrúa umhverfis- og skipulagssviðs að byggingarleyfið ætti sér ekki stoð í deiliskipulagi, áttu sér stað talsverð samskipti á milli kærenda og borgaryfirvalda þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Er það ekki fyrr en 2. ágúst 2018 sem kærendur eru upplýstir af starfsmanni umhverfis- og skipulagssviðs um að ekki verði aðhafst frekar í málinu. Telja verður að undantekningarákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við og að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki komið fyrr fram í málinu. Verður það því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrir­huguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Á svæðinu gildir deiliskipulag Úlfarsársdals sem tók gildi 19. febrúar 2018. Í skilmálatöflu sem hefur að geyma sérskilmála fyrir hverja lóð á skipulagssvæðinu kemur fram að heimilað sé að reisa tveggja og hálfrar hæðar hús á lóðinni Freyjubrunni 23 auk bílageymsluhæðar, en sömu skilmála var að finna í eldra deiliskipulagi. Þegar um tveggja og hálfrar hæða fjölbýlishús sé að ræða takmarkist byggingarmagn íbúðarhæða við 2,5 x grunnflöt byggingarreits. Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu þriggja hæða fjölbýlishúss ásamt geymslu- og bílageymslukjallara. Grunnflötur byggingarreits lóðarinnar er 251,75 m2 og er því leyfilegt flatarmál íbúðarhæða 629,4 m2. Samkvæmt samþykktri skráningartöflu verður byggingarmagn íbúðarhæða 559,4 m2 og er því innan leyfilegs byggingarmagns samkvæmt deiliskipulaginu.

Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram að fjölbýlishús verði almennt 2-5 íbúðarhæðir auk bílageymsluhæðar. Hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga sé 9,5 m yfir viðmiðunarkóta aðkomuhæðar (KA) ef þök séu flöt. Ef þök séu hallandi sé hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 m. Sjá má á samþykktum teikningum fyrir Freyjubrunn 23 að hámarkshæð byggingarinnar mun verða 13,45 m miðað við kóta aðkomuhæðar.

Með hliðsjón af framangreindu er hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags um hámarkshæð húsa, svo sem áskilið er í 11. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr., laga um mannvirki og verður það af þeim sökum fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 17. ágúst 2017, um að endurútgefa byggingar-leyfi fyrir þriggja hæða fjölbýlishúsi ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn, er felld úr gildi.

131/2018 Rangársel

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2018, er barst nefndinni 31. s.m., kærir Steinhús Verktakar ehf., Rangárseli 6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 20. júlí 2018 var sótt um byggingarleyfi til að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaleikskóla fyrir 15 til 20 börn. Útisvæði barna yrði komið fyrir „á lóð íbúðarhússins á efri hæð“ sem yrði girt af með eins metra hárri girðingu, en íbúðarhúsið er í eigu sömu aðila og greint verslunarrými. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. október 2018. Vísað var m.a. til umsagnar skipulags­fulltrúa vegna fyrirspurnar umsækjanda byggingarleyfisins, dags. 9. apríl 2018, þar sem ekki var gerð skipulagsleg athugasemd við erindið. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 25. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að barnaheimili á umræddum stað muni óhjákvæmilega trufla eða loka aðgengi að sameiginlegri geymslu sem sé staðsett við hlið útitröppu í vesturhluta húsalengjunnar, en hugmyndin sé að fara með börnin um þær tröppur til útisvæðis. Reksturs barnaheimilis muni leiða til þess að bílastæði muni algjörlega fyllast milli kl. átta og níu að morgni og milli kl. fjögur og fimm síðdegis. Auk þess muni sameiginleg bílastæði verða lögð af. Rekstur barnaheimilis muni óhjákvæmilega torvelda að hægt sé að stunda þar jafnframt aðra starfsemi. Í eignaskipta­yfirlýsingu sé getið um verslanir eða þjónustu í lengjunni. Þjónusta hafi víðtæka skilgreiningu en barnaheimili sé þar ekki meðtalið. Fasteignasali hafi metið áhrif þess að setja barnaheimili í lengjuna og sé niðurstaðan sú að það muni rýra verðmæti eignar kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að sú málsástæða kæranda sé fráleit að not barnaheimils af sameiginlegum tröppum muni trufla eða loka aðgangi að sameiginlegri geymslu. Aðgangur að sameiginlegri geymslu sé eðli málsins samkvæmt sameiginlegur og hafi því sameigendur jafnan rétt til aðgangs. Til að komast að útivistarsvæði, sem sé í eigu byggingarleyfishafa, sé gengið framhjá útigeymslunni og upp tröppur. Verði ekki séð að kærandi verði fyrir truflun af þeim sökum, hvað þá að aðgengi að geymslunni lokist. Ekki sé heldur fallist á að rekstur barnaheimilis muni leiða til þess að bílastæði fyllist á tilteknum tímum. Næg bílastæði séu á lóðinni og eðli málsins samkvæmt muni einhverjir bílar stoppa stutt á meðan börnin séu sótt. Sameiginleg bílastæði á lóðinni verði óbreytt.

Reykjavíkurborg átti sig ekki á því hvað kærandi eigi við með því að starfsemin muni gera annarri starfsemi erfitt fyrir enda hafi engin rök verið færð fyrir þeirri fullyrðingu. Ekki sé heimilt að vera með neina meiriháttar atvinnustarfsemi á lóðinni. Lóðin sé á skilgreindu íbúðarsvæði þar sem heimiluð sé minniháttar atvinnustarfsemi. Fullyrðingu kæranda um verðfall á eign sinni sé mótmælt enda hafi engin rök verið leidd fyrir þeirri ályktun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar rekstur barna­heimilis á fyrstu hæð hússins nr. 8 við Rangársel sem stendur á lóðinni nr. 2-8 við þá götu. Á svæðinu er í gildi deiliskipulagið Seljahverfi, Breiðholt II, frá árinu 1973. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna sérstaka skilmála á skipulagsuppdrætti er taka til húsnæðisins.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarbyggð. Sam­kvæmt gr. 6.2.a. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarbyggð skilgreind sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Þá er tekið fram í greinargerð aðalskipulagsins að innan skilgreindra íbúðarsvæða sé mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki valdi ónæði. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að umsókn um rekstur barnaheimilis fyrir 15 til 20 börn á jarðhæð hússins að Rangárseli 8 falli að skilgreindri landnotkun svæðisins. Er hin kærða ákvörðun samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi skipulag. Þá verður ekki séð að umdeild breyting hafi í för með sér röskun á hagsmunum kæranda í ljósi umfangs heimilaðs rekstrar enda verður kærandi að sæta því að aðrir eigendur fasteigna á lóðinni geti nýtt sér sameiginlegar tröppur. Þá verður heldur ekki séð að réttur kæranda til bílastæða á lóðinni verði á neinn hátt raskað.

Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fasteignanna við Rangársel 2-8 frá ágúst 1987 eru á fyrstu hæð, með aðkomu frá Rangárseli, „fjórir eignarhlutar, sem eiga eingöngu hlutdeild í lóð fyrir framan hvert verslunarbil ásamt bílastæðum þar.“ Jafnframt eru á annarri og þriðju hæð fjórar íbúðir í heildarhúseigninni og fylgir þeim eignum lóð fyrir framan hverja íbúð sem snúa að Skógarseli, þar sem fyrirhugað er að hafa útisvæði barna eins og áður hefur verið rakið. Með hliðsjón af þessu liggur fyrir að ekki hafi þurft samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 fyrir hinu kærða byggingarleyfi enda tók það samkvæmt efni sínu ekki til ráðstöfunar eða hagnýtingar á sameign annarra fasteignaeigenda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem raskað geta gildi hennar og verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili.

128/2018 Eyrarbraut

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 128/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni Eyrarbraut 12, Stokkseyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. október 2018, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Eyrarbraut 10, Stokkseyri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni við Eyrarbraut 12. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 29. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 21. apríl 2018 sendi kærandi skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar erindi varðandi gluggaop á norðurgafli bílskúrs að Eyrarbraut 12. Í erindinu var vísað til samkomu­lags, dags. 3. ágúst 1997, þar sem eigendur lóðanna við Eyrarbraut 10 og 12 samþykktu staðsetningu, stærð og gerð umrædds glugga á meðan móðir annars þáverandi eigenda fasteignarinnar að Eyrarbraut 12 notaði bílskúrinn til íbúðar. Þá kom fram í samkomulaginu að loka skyldi fyrir gluggann ef hún hætti að nota bílskúrinn til íbúðar nema að fengnu samþykki eigenda Eyrarbrautar 10 um annað. Samkomulaginu var þinglýst sem kvöð á fasteignina Eyrarbraut 12. Í málinu liggur fyrir að móðirin lést árið 2008. Meginástæðu erindisins kveður kærandi vera verulegt ónæði frá íbúum bílskúrsins að Eyrarbraut 12, sem sé af ýmsum toga. Þá ber kærandi því við að misskilningur ríki um mörk lóðanna við bílskúrinn.

Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi eigendum fasteignanna við Eyraveg 10 og 12 bréf, dags. 17. maí 2018, þar sem tilkynnt var að hann hefði tekið til skoðunar hvort umrætt gluggaop samrýmdist ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Einnig kom fram að tekið yrði til skoðunar hvort tilefni væri til að krefja aðila um úrbætur eða eftir atvikum að beita þvingunarúrræðum 55. eða 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. og 2.9.2. í reglugerðinni. Þá var eigendum einnig veittur frestur til að koma að sjónarmiðum sínum í málinu og leggja fram gögn áður en tekin yrði endanleg ákvörðun. Skipulags- og byggingar­fulltrúa barst bréf frá kæranda, dags. 25. maí 2018. Í bréfinu voru áður framkomnar athuga­semdir ítrekaðar. Þá barst jafnframt bréf frá eigendum Eyrarbrautar 12, dags. 1. ágúst 2018, þar sem komu m.a. fram sjónarmið vegna ágreinings um lóðamörk.

Í hinni kærðu ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 26. september 2018 var talið að rétt hefði verið að afla byggingarleyfis áður en settur hefði verið upp gluggi sá sem staðsettur væri á útvegg bílskúrs á lóðinni við Eyrarbraut 10. Hins vegar stæðu ekki efni til að beita þeim þvingunarúrræðum sem greini í ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkomulag hafi verið gert milli eigenda Eyrar­brautar 10 og 12 þess efnis að gluggaopi á bílskúr Eyrarbrautar 12 yrði lokað um leið og móðir þáverandi eiganda fasteignarinnar flytti úr bílskúrnum. Hún hafi andast árið 2008, þá löngu flutt úr honum, en glugginn sé þar enn. Þá sé búið að skipta um skyggt öryggisgler í neðri glugganum sem tilgreint sé í þinglýstu kvöðinni og sett hafi verið venjulegt gler í þann hluta gluggans. Þar með sé óskert útsýni frá glugganum inn í garð kæranda og stofu hennar. Gerð sé krafa um að glugganum verði lokað og að úrskurðarnefndin felli úr gildi synjun skipulags- og byggingar­fulltrúa, en hann hafi viðurkennt að staðsetning gluggans standist engar reglur.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Bæjaryfirvöld vísa til þess rökstuðnings sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun. Þar sé vísað til þess að almenna reglan sé að sækja þurfi um byggingarleyfi fyrir öllum nýjum mannvirkjum, viðbyggingum og breytingum á t.d. útliti, burðarkerfi og lagnakerfum. Ýmsar minniháttar framkvæmdir sem tilgreindar séu í gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 séu þó undanþegnar byggingarleyfi og sæki þessi undantekning frá kröfu um byggingarleyfi stoð í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Sú aðgerð að setja glugga í útvegg verði að teljast breyting á mannvirki sem sé háð leyfi byggingarfulltrúa í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga og sé því byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Ákvæði X. kafla mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. og 2.9.2. í byggingarreglugerð hafi að geyma íþyngjandi heimildarákvæði og því ekki um að ræða fortakslausa skyldu til þess að beita þeim, þrátt fyrir að ekki hafi verið formlega rétt staðið að framkvæmdum, sbr. 9. gr. laganna. Beiting þvingunarúrræða skuli byggja á atviksbundnu mati á hverju tilviki fyrir sig og skuli það gert með tilliti til meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, sbr. einkum 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Við mat á því hvort beita eigi þvingunarúrræðum beri m.t.t. meðalhófsreglu að meta þá andstæðu hagsmuni sem vegist á hverju sinni. Eigandi Eyrarbrautar 10 kveði veruleg óþægindi stafa frá margvíslegri notkun bílskúrsins að Eyrarbraut 12 og sé það meginástæða athugasemda hennar. Staðsetning gluggaopsins kunni að valda eigendum Eyrarbrautar 10 einhverjum óþægindum en ekki sé að sjá að þau óþægindi séu umfram það sem fólk megi almennt búast við í þéttbýli. Það sé því mat skipulags- og byggingarfulltrúa, m.t.t. eðlis, staðsetningar og umfangs gluggans, að þrátt fyrir annmarka er varði tilkomu hans feli tilvist hans ekki í sér svo verulega réttindaskerðingu að það leiði sjálfstætt til beitingar þvingunarúrræða. Þá hafi staðsetning og gerð gluggaopsins samræmst almennum öryggis­kröfum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á norðurvegg bílskúrs að Eyrarbraut 12. Sú ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 8. gr. laga um mannvirki fer byggingarfulltrúi með eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi og er m.a. tekið fram í gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að byggingarfulltrúi skuli grípa til viðeigandi aðgerða samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og 10. kafla mannvirkjalaga sé framkvæmd ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög, reglugerðir og byggingarlýsingu. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga getur byggingar­fulltrúi stöðvað framkvæmdir ef byggt er án þess að leyfi sé fengið fyrir framkvæmdinni eða ef ekki er að öðru leyti fylgt eftir ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er að finna heimild fyrir byggingar­fulltrúa til að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Þá heimilar 56. gr. byggingarfulltrúa að krefjast úrbóta að viðlögðum dagsektum. Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni. Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umræddum ákvæðum verður fyrst og fremst beitt sé það mat viðkomandi stjórnvalds að gengið sé gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum og skipulagslögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða gagnvart þriðja aðila vegna einstaklings­hagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja slíka hagsmuni, svo sem með því að bera ágreining um brot á samningi milli aðila undir dómstóla.

Bæjaryfirvöld rökstuddu synjun um beitingu þvingunarúrræða með þeim hætti að ekki væri að sjá að staðsetning gluggaopsins kynni að valda eigendum Eyrarbrautar 10 einhverjum óþægindum umfram það sem fólk mætti almennt búast við í þéttbýli. Þá hafi staðsetning og gerð gluggaopsins samræmst almennum öryggiskröfum. Verður ekki annað séð en að það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að ekki væri tilefni til að beita þvingunarúrræðum sé stutt fullnægjandi efnisrökum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar frá 26. september 2018 um að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna gluggaops á bílskúr sem stendur á lóðinni Eyrarbraut 12, Stokkseyri.

39/2019 Strandarvegur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 4. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2019, beiðni um að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. maí 2019, er barst nefndinni 3. júní s.á., fór skipulags- og byggingarfulltrúi Seyðisfjarðar, f.h. bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, fram á, með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, að úrskurðað verði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 3. júní 2019.

Málsatvik: Bæjarráð Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum 16. apríl 2019 að óska eftir ofangreindri málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar með vísan til 4. mgr. 9. gr. mannvirkja-laga nr. 160/2010, þar sem uppi væri verulegt álitamál um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Fram kemur í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú undantekning er gerð í 4. mgr. 9. gr. laganna að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. ákvæðisins skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar skv. 59. gr. laganna. Er í slíkum málum því tekin afstaða til þess hvort gerð tiltekins mannvirkis eða breyting á því sé háð byggingarleyfi.

Í máli þessu er ekki leitað niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um byggingarleyfisskyldu vegna gerðar tiltekins mannvirkis eða breytinga á því heldur er leitað álits nefndarinnar á því hvort samþykkt tiltekinnar reyndarteikningar af innra skipulagi Strandarvegar 21 feli í sér ákvörðun um byggingarleyfi. Slík lögspurning verður ekki borin undir úrskurðarnefndina á grundvelli 4. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga heldur verður einungis tekin afstaða til þess álitaefnis í kærumáli þar sem ágreiningur er uppi um gildi eða þýðingu áritunar svonefndrar reyndarteikningar.

Af framangreindum ástæðum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Beiðni bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar, um að úrskurðarnefndin úrskurði um hvort samþykkt reyndarteikninga af innra skipulagi Strandarvegar 21 á Seyðisfirði teljist fela í sér ákvörðun um byggingarleyfi, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

17/2019 Austurkór

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 27. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2019, er barst nefndinni 4. mars s.á, kærir eigandi Austurkórs 90, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar, afgirtum að hluta, og stíga við Austurkór, Kópavogi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með tölvupósti frá 31. maí 2019 fór kærandi fram á stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 21. mars 2019.

Málavextir: Í apríl 2018 hóf Kópavogsbær framkvæmdir við boltavöll, göngustíg og bætta aðkomu að fráveitulögnum í næsta nágrenni við íbúð kæranda. Ekki var gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið. Kærandi í máli þessu kærði þær framkvæmdir til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 15. nóvember 2018 í kærumáli nr. 103/2018 vísaði málinu frá þar sem ekki lá fyrir kæranleg stjórnvalds­ákvörðun um veitingu framkvæmdaleyfis. Í úrskurðinum var á því byggt að framkvæmd bæjaryfirvalda við boltavöllinn hefði verið framkvæmdaleyfisskyld en að framkvæmdir við göngustíg á svæðinu væru ekki háðar slíku leyfi.

Í kjölfar úrskurðar nefndarinnar var málið lagt fyrir skipulagsráð Kópavogsbæjar, sem samþykkti á fundi sínum 4. febrúar 2019 framkvæmdaleyfi fyrir gerð sparkvallar og stígum norðan og vestan við Austurkór 76-92. Sparkvöllurinn verði afgirtur að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn 12. s.m. og var hið kærða framkvæmdaleyfi gefið út 14. febrúar 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 103/2018 og ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Sérstaklega sé vísað til e-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem mæli m.a. fyrir um að ekki sé heimilt að breyta hæð lóðar innan hennar þannig að það valdi skaða á lóðum nágranna eða skerði aðra hagsmuni, t.d. vegna útsýnis. Það sé augljóst að mannvirkið liggi of hátt í landinu. Leiði það til skertra lífsgæða nágranna vegna lakara útsýnis sem og þess að í framkvæmdaleyfinu sé kveðið á um að heimilt sé að reisa tveggja til þriggja metra háar girðingar.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Hið kærða framkvæmdaleyfi sé í fullu samræmi við skipulag svæðisins og málsmeðferð hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Jafnframt verði ekki séð að sparkvöllurinn muni skerða útsýni eða hafa önnur neikvæð grenndaráhrif.

Athugasemdir kæranda við umsögn Kópavogsbæjar: Kærandi vísar m.a. til þess að máls­meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar þar sem komist sé m.a. að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé veruleg og þar af leiðandi leyfisskyld. Einnig sé dregið í efa að ákvæði byggingarreglugerðar hafi verið uppfyllt en ekki verði séð að á neinu stigi málsins hafi byggingarfulltrúi átt aðkomu að málinu.

Sú fullyrðing að sparkvöllurinn skerði ekki útsýni eða hafi önnur neikvæð grenndaráhrif sé ósönnuð. Ekki hafi verið gerð tilraun af hálfu skipulagsyfirvalda til að ræða við þá íbúa sem málið snerti, heimsækja þá eða kynna íbúum málið á vettvangi áður en framkvæmdir hæfust. Vettvangsskoðun úrskurðarnefndarinnar og niðurstaða hennar um að framkvæmdin sé veruleg og hafi verið háð framkvæmdaleyfi staðfesti að framkvæmdin sé viðamikil og að þörf hafi verið á frekari skoðun málsins.

Svo virðist sem að við framkvæmdina hafi ekki verið fylgt  ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, en í reglugerðinni og lögum sé m.a. mælt fyrir um nágrannarétt, grenndarkynningar og skerðingu útsýnis. Þá sé hvergi að finna í fundargerðum skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umfjöllun um úrskurð úrskurðarnefndarinnar, sem hljóti að vera mjög undarleg stjórnsýsla. Þá megi spyrja hvernig Kópavogsbær hefði farið með þetta mál ef óskyldur aðili hefði sótt um framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir verkefnið.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Að lokum kemur það fram í 5. mgr. 13. gr. að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu, sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar.

Með hinu kærða framkvæmdaleyfi var heimiluð gerð 30×15 m sparkvallar, sem verður að hluta girtur af með tveggja til þriggja  metra hárri stálgirðingu og afmarkaður af stíg norðan og vestan við Austurkór 76 til 92 í Rjúpnahæð. Jafnframt var heimilað að leggja göngustíg að sparkvellinum milli lóðanna við Austurkór 82, 84, 86, 88 og 90.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð – Vesturhluta er gert ráð fyrir boltavelli norðan lóðanna Austurkórs 88-92. Deiliskipulagið var upphaflega samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 13. mars 2007 og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí s.á. Með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 24. maí 2011 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á., var gerð breyting á deiliskipulaginu. Er þar heimilað að boltavöllurinn verði færður fjær lóðunum við Austurkór 88-92 og að hluta til út fyrir mörk þess svæðis sem skipulagið nær til. Aðrar upplýsingar um boltavöllinn en um staðsetningu hans er ekki að finna í skipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti er göngustígur vestan lóðanna Austurkórs 76-86, en ekki er þar gert ráð fyrir lagnastíg eða öðrum stíg norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Heimilaður boltavöllur liggur innan þess svæðis sem gildandi deiliskipulag tekur til og ætlað er undir boltavöll. Áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust var á svæðinu slóði að fráveitulögnum og hefur hann nú verið breikkaður og hækkaður og tengist hann nú áðurnefndum göngustíg, sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti og myndar aðkomuleið að boltavellinum.

Verður að telja með hliðsjón af framangreindu að heimilaðar framkvæmdir við stígagerð og boltavöll eigi stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og bar því ekki nauðsyn til að grenndarkynna þær framkvæmdir, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Sé tekið mið af fyrirhugaðri staðsetningu boltavallarins gagnvart íbúðar kæranda verður ráðið að grenndaráhrif með tilliti til útsýnis verði þar ekki veruleg. Ljóst er að vellinum fylgir umferð gangandi fólks um svæðið, auk þess sem honum munu fylgja allnokkur áhrif á næsta umhverfi, svo sem með tilliti til hljóðvistar vegna boltaleikja, en líta verður til þess að boltavöllur hefur verið ráðgerður á greindum stað í deiliskipulagi um árabil með þeim grenndaráhrifum sem slíkum velli fylgir.

Þær framkvæmdir sem heimilaðar eru með umræddu framkvæmdaleyfi fela m.a. í sér að boltavöllurinn verður girtur af að hluta með tveggja til þriggja metra hárri stálgirðingu. Er slík girðing háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi veitir skv. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og gr. 2.3.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda fellur slík girðing ekki undir undanþáguákvæði f-liðar 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Er hið kærða framkvæmda­leyfi því ekki viðhlítandi stoð fyrir gerð áðurnefndrar girðingar.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað að öðru leyti en því er varðar heimild fyrir áðurnefndri girðingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. febrúar 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum við gerð sparkvallar og stíga í Kópavogi, að öðru leyti en því er varðar leyfi til að reisa tveggja til þriggja metra háa stálgirðingu við völlinn.