Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

113/2023 Hafnargata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 113/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 um að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Eignakaup ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. október 2023.

Málavextir: Hafnargata 23 er á ódeiliskipulögðu svæði. Í nóvember 2022 sendi kærandi erindi til bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar og óskaði umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu verslunarrýmis á jarðhæð húss að Hafnargötu 23 í íbúð og verslun. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. desember s.á. var erindinu synjað og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 6. s.m. Hinn 18. desember 2022 ítrekaði kærandi fyrra erindi sitt og sótti „formlega“ um fyrirhugaðar breytingar og eftir atvikum endurupptöku erindisins liti sveitarfélagið svo á að fyrri ákvörðun þess hafi verið stjórnvaldsákvörðun. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. febrúar 2023 og því hafnað, einkum með vísan til ákvæða aðalskipulags sem þá hafði ekki tekið gildi. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. s.m. Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og var ákvörðun bæjarstjórnar felld úr gildi með úrskurði í máli nr. 34/2023, uppkveðnum 6. júlí 2023.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 8. ágúst 2023, en þar vísaði hann til umsóknar „dags. 17.11.2022 um byggingarleyfi fyrir breytingu á verslunarrými […] við Hafnargötu 23 Reykjanesbæ að hluta til í íbúð“ og krafðist þess að erindið yrði tekið til afgreiðslu að nýju. Byggingarfulltrúi vísað erindinu til umhverfis- og skipulagsráðs og á fundi ráðsins 1. september 2023 var umsókn kæranda tekin fyrir og hafnað. Vísaði ráðið m.a. til þess að til þess að halda verslun og þjónustu sem „lífvænlegum möguleika“ í götunni væri mikilvægt að skoða skipulag heildstætt og unnið væri að deiliskipulagi fyrir Hafnargötu. Breytingar innan einstakra lóða yrðu ekki teknar til greina á meðan á þeirri vinnu stæði. Á fundi bæjarstjórnar 5. s.m. var eftirfarandi bókað um málið: „Níunda mál fundargerðarinnar Hafnargata 23 […] samþykkt 11-0 án umræðu.“ Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dags. 7. september 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að það eigi að leiða til ógildingar hennar. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði, andmælarétt, rannsókn máls og meðalhóf.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi ekki verið afgreidd í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 34/2023, heldur hafi henni verið hafnað með rökum sem ekki hefðu áður komið fram. Hin nýju rök lúti að því að þróun verslunar við Hafnargötu varði almannahagsmuni og því sé eðlilegt að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið þar sem tekið sé á slíkum þáttum. Í því sambandi hafi verið vísað til gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en þar komi fram að áður en umsókn um byggingar- eða framkvæmdaleyfi sé grenndarkynnt skuli skipulagsnefnd leggja mat á hvort framkvæmdin falli að tilgreindum skilyrðum eða hvort önnur atriði, svo sem hvort framkvæmdin varði almannahagsmuni, kalli á aðra málsmeðferð.

Sá skilningur að ákvörðun um landnotkun og þróun verslunar á miðbæjarsvæðum varði almannahagsmuni og því þurfi að ákvæði um það að koma fram í deiliskipulagi sé ekki í samræmi við lög. Ákvarðanir eða stefnumörkun um landnotkun séu fyrst og fremst viðfangsefni aðalskipulags, sbr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt hefði verið að samþykkja umsókn kæranda án þess að gera þyrfti deiliskipulag og vísa megi til breytinga sem gerðar hafi verið á Hafnargötu 16 og 34 en þar hafi verið heimilaðar breytingar á rými fyrir verslun og þjónustu á 1. hæð í íbúð en ekki hafi verið deiliskipulag í gildi fyrir þá reiti.

Samþykki á umsókn kæranda hefði verið í samræmi við markmið bæjaryfirvalda enda hafi verið gert ráð fyrir í umsókninni að verslun yrði áfram í þeim hluta rýmisins sem snúi að Hafnargötu. Í þágildandi aðalskipulagi hafi verið kveðið á um að lögð væri áhersla á styrkja stoðir smá- og fagverslana á svæðinu en jafnframt tekið fram að ekki væri gert ráð fyrir stórum og rýmisfrekum verslunum á svæðinu. Bæjaryfirvöld hafi hins vegar ekki vísað til síðastnefndu skilmálanna.

Í tilkynningu til kæranda um hina kærðu ákvörðun, dags. 7. september 2023, komi fram að kæranda sé heimilt að tjá sig um málið innan 14 daga. Það sé ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda felist í andmælarétti að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því.

Málið hafi ekki verið afgreitt í bæjarstjórn í samræmi við 2. mgr. gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð og því fari fjarri að bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs enda hafi engin umræða átt sér stað um málið í bæjarstjórn.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. Málið hafi verið lengi til skoðunar hjá bæjaryfirvöldum og fjallað um það frá mörgum hliðum en byggt hafi verið á sömu sjónarmiðunum frá upphafi málsins.

Ekki sé hægt að fallast á sjónarmið kæranda um að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015–2030 hafi verið heimild fyrir íbúðum á jarðhæð innan miðsvæðis M2 og því mætti án sérstakrar skoðunar breyta hvaða rými sem væri í íbúð. Í greinargerð aðalskipulagsins hafi einnig komið fram að styrkja skyldi stöðu smá- og fagverslana og veitingastaða. Þessi sjónarmið stangist á og þurfi hvert tilfelli að fá lögmæta umfjöllun, málsmeðferð og afgreiðslu. Það sé í höndum skipulagsyfirvalda hverju sinni að ráða fram úr málum sem þessum þar sem uppi séu öndverð sjónarmið um framtíðaruppbyggingu eða þróun íbúða- og verslunarrýma.

Í máli þessu sé um að ræða skipulagsskylda breytingu og marka þurfi málinu skýran farveg samkvæmt skipulagslögum. Lóðin að Hafnargötu 23 sé hluti af heildstæðri einingu en umsókn kæranda hafi varðað „breytingu innan einnar lóðar innan einingarinnar.“ Ljóst sé að ferill málsins þurfi að taka mið af 41. gr. skipulagslaga. Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá fundi 1. september 2023 komi fram að vinna við gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði sé hafin og ótækt að afgreiða umsókn samkvæmt 44. gr. skipulagslaga þar sem aðeins sé um að ræða „breytingu á landnotkun innan einnar lóðar af stærri heild.“ Ekki sé fallist á að fordæmi sem nefnd séu í kæru séu sambærileg máli þessu.

Við deiliskipulagsgerð sé byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit. Því fari fjarri að öllum þessum atriðum séu gerð nægjanleg skil í aðalskipulagi enda ekki til þess ætlast til þess að það sé gert.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 um að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til erindis kæranda frá 17. nóvember 2022 varðandi ósk um umsögn umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu á verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð. Hafnaði umhverfis- og skipulagsráð erindi kæranda og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. febrúar 2023. Var sú afgreiðsla felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 34/2023, uppkveðnum 6. júlí 2023. Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi bréf til byggingarfulltrúa, dags. 8. ágúst 2023, og vísaði hann til erindis síns frá 17. nóvember 2022 sem umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum breytingum. Vísaði byggingarfulltrúi málinu til umhverfis- og skipulagsráðs á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem synjaði umsókninni á fundi 1. september 2023. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna 5. s.m. og var kæranda tilkynnt um hana 7. s.m.

Byggingarfulltrúi hefur ekki komið að málinu eftir að framangreindar afgreiðslur lágu fyrir en endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Þá eru ekki sett ákvæði í samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp um heimild umhverfis- og skipulagsráðs til fullnaðarafgreiðslu mála. Hin kærða synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

52 og 87/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur­.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss að Bergstaða­stræti 2 í veitingastað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra 10 íbúar að Skólavörðustíg 5, Skólavörðustíg 3A og Laugavegi 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun Bergstaðastrætis 2 í veitingastað. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem barst úrskurðarnefndinni 16. s.m., kærir Hótel Óðinsvé hf. einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 87/2021, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. og 25. júní 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. janúar 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að opna veitingastað í flokki II, tegund f, fyrir allt að 55 gesti og tvo starfsmenn, lækka kjallaragólf um 50 cm og setja stiga upp á 2. hæð við norðurgafl hússins að Bergstaðastræti 2.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áform um breytta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 hafi ekki verið kynnt nágrönnum og að kærendum hafi ekki verið kunnugt um málið fyrr en 21. mars 2021. Þá hafi einn kærenda fengið fregnir af málinu og samdægurs sent fyrirspurn til byggingar­fulltrúans í Reykjavík, en engin svör hefðu borist þegar kæra til úrskurðar­nefndarinnar hafi verið lögð fram. Kærendur byggja á því að í fyrirhugaðri krá muni verða spiluð tónlist fram á nætur auk þess sem drykkjuhljóð muni berast frá gestum. Afar stutt sé að svefnherbergis­gluggum í næstu íbúðum við Bergstaðastræti 2 og gerð hússins sé þess eðlis að ekki verði unnt að tryggja næturró íbúa í nærliggjandi húsum. Uppdrættir þeir sem samþykktir hafi verið 7. janúar 2020 sýni ekki nauðsynlegar hljóðvistarlegar breytingar. Reynsla kærenda af rekstri krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3 sé sú að hávaði sé mikill og að gestir hafi gengið örna sinna hvar sem er, m.a. í bakgörðum húsanna í kring. Einn kærenda bendir á að hann leigi út fjórar íbúðir á efri hæðum Bergstaðastrætis 4, sem sé við hlið Bergstaðastrætis 2, og að staðsetning kráarinnar/ölstofunnar að Bergstaðastræti 2 sé beint fyrir neðan svefnherbergi íbúðanna í húsi nr. 4. Hafi nú þegar ítrekað orðið að endurgreiða leigu af þessum sökum og hafi leiguhúsnæðið fengið slæmar umsagnir á netinu vegna reksturs krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3. Jarðhæð og kjallari Bergstaðastrætis 4 sé leigt út til verslunarreksturs og hafi starfsemin þar orðið fyrir ónæði vegna næturgesta Bergstaðastrætis 3. Svar frá lögfræðingi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, þar sem fram komi að leyfið sem um ræði falli undir flokk II, sem sé umfangslítill áfengisveitingastaður og ekki til þess fallinn að valda ónæði í nágrenninu, sé ekki í samræmi við raunverulega upplifun nágranna Bergstaðastrætis 2 af slíkum rekstri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 7. janúar 2020 en kæran ekki lögð fram fyrr en 15. apríl 2021. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun telja borgaryfirvöld að hafna eigi kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að deiliskipulag reitsins heimili þá starfsemi sem kæran lúti að og að starfsemin samræmis einnig aðalskipulagi. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi verið í sam­ræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga. Bergstaðastræti 2 sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og á svæðinu sé lögð sérstök áhersla á smávöruverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Í gildi sé deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3, Laugavegs- og Skólavörðustígsreits, sem tók gildi 10. desember 2002 ásamt síðari breytingum. Bergstaðastræti sé enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 og sé svæðið eitt af mörgum svæðum innan miðborgarinnar sem lúti starfsemiskvótum. Á skilgreindu götusvæði nr. 22 skuli hámarkshlutfall starfsemi, að smásöluverslun undan­skilinni, vera 50%. Við breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2 verði hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% og því innan heimilaðra marka eftir breytinguna. Í ljósi þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi aðal- og deiliskipulagi hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri úrskurðarnefndinni að vísa kærunni frá. Leyfishafi telur að ástæða kærunnar sé sú að kærendur séu mótfallnir opnun veitingastaðar að Bergstaðastræti 2 og að þeir hafi fyrir fram gefnar væntingar til þess að veitingastaðurinn muni valda íbúum ónæði. Veitingastaðurinn falli undir skilgreiningu í flokki II sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Fyrirhugaðar framkvæmdir og opnun veitingastaðar í flokki II séu í fullu samræmi við deili­skipulag svæðisins, sem og aðalskipulag Reykjavíkur, og því hafi ekki verið þörf á grenndar­kynningu. Svæðið sem húsið að Bergstaðastræti 2 standi á sé skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni, þar sem lögð sé áhersla á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Bergstaðastræti 2 standi enn fremur á svæði sem teljist hafa rýmri veitinga­heimildir en almennt gildi á svæðinu samkvæmt korti sem flokki svæði í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar. Bergstaðastræti sé á kortinu á rauðu svæði.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi byggir á að byggingarleyfishafi haldi því ranglega fram að Bergstaða­stræti 2 sé á svæði með rýmri heimildir til vínveitinga en almennt gildi á svæðinu. Húsið standi þvert á móti á svæði sem teljist hafa takmarkaðar heimildir, litað með grænum lit á korti, og hvers kyns starfsemi sem valdið geti ónæði hljóti því að vera óheimil eftir kl. 23:00. Afgreiðsla byggingarfulltrúa sé samkvæmt framangreindu byggð á röngum forsendum og hana beri því að fella úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 7. janúar 2020 en kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 20. apríl og 16. júní 2021, eða rúmu ári eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi lá fyrir. Kærendur bera því við að þeim hafi ekki verið kunnugt um heimilaða breytta notkun húsnæðisins að Bergstaðastræti 2 fyrr en 21. mars 2021 annars vegar og svo 15. júní s.á. hins vegar.

Samþykkt eða útgáfa byggingarleyfis sætir ekki opinberri birtingu og er að jafnaði aðeins tilkynnt umsækjanda leyfis. Leiðir af því að ekki er unnt að miða kærufrest þriðja aðila sem kann að eiga hagsmuna að gæta við dagsetningu ákvörðunar byggingarfulltrúa. Borgaryfirvöld hafa ekki sýnt fram á að kærendur hafi vitað eða mátt vita af samþykkt hins kærða byggingarleyfis fyrir þann tíma sem þeir halda fram, en rekstur samkvæmt hinni breyttu notkun var ekki hafinn þegar kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni. Verður upphaf kærufrests í máli þessu því miðað við þau tímamörk sem kærendur halda fram að þeim hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Teljast kærur í máli þessu því hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimilað var að breyta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 eru veitingastaðir í flokki II skilgreindir sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“.

Umrætt hús er innan staðgreinireits 1.171.3, Laugarvegs- og Skólavörðustígsreits. Í skilmálum deiliskipulagsins segir að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni. Um það segir svo: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Til þess að efla smásöluverslun staðbundið í miðborgarkjarnanum, stuðla að fjölbreyttri starfsemi og lifandi almenningsrýmum eru ákvæði um útlit og starfsemi við götuhliðar í miðborgarkjarna. Almennar veitingaheimildar miðsvæða gilda í miðborgarkjarna en á afmörkuðu svæði eru rýmri veitingaheimildir.“ Samkvæmt flokkun svæða í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar er Bergstaðastræti 2 í flokki „rýmri heimilda“ og er því heimilt að reka þar veitingastað í flokki III með heimilaðan opnunartíma til allt að kl. 04:30 um helgar og á frídögum. Bergstaðastræti 2 stendur enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 þar sem hlutfall annarrar starfsemi en smávöruverslunar skal vera að hámarki 50%. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% við umrædda breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2. Fellur hin breytta notkun því innan starfsemiskvóta svæðisins. Er hið kærða byggingarleyfi samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi deiliskipulag, m.a. hvað land­notkun varðar, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og var borgaryfirvöldum ekki skylt að láta fara fram grenndarkynningu áður en byggingarfulltrúi samþykkti leyfisumsóknina.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að umrætt húsnæði uppfylli kröfur reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka. Umkvartanir kærenda um mögulegt ónæði og óþrif vegna reksturs umrædds veitingarstaðar lúta að eftirliti með starfseminni en varða ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar og koma þær því ekki til álita í málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II.

59/2020 Dagverðarnes

Með

Árið 2020, föstudaginn 16. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 29. apríl 2020 um að synja umsókn um að breyta lóðinni nr. 103 við Dagverðarnes úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júlí 2020, er barst nefndinni 10. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru A, dags. 29. maí 2020, varðandi þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradals­hrepps frá 29. apríl 2020 að synja umsókn um að breyta lóðinni nr. 103 við Dagverðarnes úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og breyting á skráningu lóðarinnar að Dagverðarnesi nr. 103 verði samþykkt með breytingu­hreppshrepps. Til vara er þess krafist að samþykkt verði breyting á aðalskipulagi Skorradalshrepps sé það skilyrði fyrir nefndri breytingu á deiliskipulagi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 24. ágúst 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. mars 2020, óskaði kærandi, sem er eigandi frístunda­lóðarinnar að Dagverðarnesi nr. 103, eftir breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Dagverðarness, svæði 3. Fól umsóknin í sér að lóðin að Dagverðarnesi 103 yrði breytt úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Í greinargerð með umsókninni kom m.a. fram að ekki yrði farið fram á breytingu á núverandi nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis, en verið væri að byggja heilsársíbúðarhús á lóðinni. Gagnvart sveitarfélaginu myndi umsækjandi ekki þurfa á neinni þjónustu að halda umfram það sem þegar væri veitt af Skorradalshreppi og sveitarfélagið veiti þeim lögbýlum og einbýlishúsalóðum sem væru í dalnum. Þá voru og tiltekin þegar samþykkt fordæmi íbúðarhúsalóðar í Dagverðarnesi staðsett á landi skipulögðu fyrir sumarhúsalóðir en lóð nr. 72 væri skráð sem slík.

Skipulags- og byggingarnefnd Skorradalshrepps tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 28. apríl 2020 og var það afgreitt með eftirfarandi bókun: „Erindi barst frá lóðarhafa Dagverðarnes 103 þar sem óskað er eftir því að breyta frístundalóð í íbúðarhúsalóð […] Skipulags- og byggingar­nefnd hafnar beiðni lóðarhafa þar sem það er ekki í samræmi við Aðalskipulag Skorradals­hrepps 2010-2022.“ Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var lögð fram á fundi hrepps­nefndar Skorradalshrepps 29. apríl 2020 sem staðfesti hana.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að þegar sé fyrir hendi hús sem sé staðsett á skipulögðu frístundasvæði en skráð sem íbúðarhúsnæði. Það hús sé af sömu stærð og kærandi sé að byggja í Dagverðarnesi 103 en nefnt hús sé að Dagverðarnesi 72. Vísast í þessu sambandi til jafnræðis­reglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og meðalhófsreglu 12. gr. laganna sem Skorradalshreppur hafi litið fram hjá við afgreiðslu erindisins. Í tilkynningu um afgreiðslu komi fram að beiðni lóðarhafa sé ekki í samræmi við aðalskipulag Skorradalshrepps. Lóðarhafa sé vel kunnugt um að breytingin sé hvorki í samræmi við deiliskipulag né aðalskipulag en kærandi hafi farið fram á breytingu á deiliskipulagi Dagverðarness á svæði 3 þar sem um sé að ræða minni háttar breytingu á gildandi skipulagi.

Málsrök Skorradalshrepps: Sveitarfélagið gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að nefndin hafni framkomnum aðal- og varakröfum kæranda.

Sveitarfélagið telji að ósamræmi sé á milli þess erindis kæranda sem skipulags- og byggingar­nefnd hafi afgreitt og þeirra krafna sem hann geri fyrir úrskurðarnefndinni. Ósamræmið felist í því að ekki sé þess krafist að úrskurðarnefndin ógildi ákvörðun sveitarfélagsins um að synja um breytingu á deiliskipulagi heldur sé gerð sú krafa um að synjun um breytingu á skráningu umræddrar lóðar verði felld úr gildi.

Bent sé á að engin afstaða hafi verið tekin til beiðni um breytingu á skráningu umræddrar lóðar þar sem að beiðni kæranda hefði verið lögð fram sem beiðni um breytingu á gildandi deili­skipulagi á þar til gerðu eyðublaði. Hafi skipulags- og byggingarnefnd því ekki tekið afstöðu til þess hvort heimila eigi breytingu á skráningu umræddrar lóðar úr sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Þá sé jafnframt bent á að þar sem að sveitarstjórn hafi, samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, forræði á skipulagsmálum innan sveitarfélagsins, sé úrskurðar­nefndinni óheimilt að taka skipulagsákvarðanir fyrir sveitarfélagið. Vísist um þetta til 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Bent sé á að samkvæmt ákvæðinu geti úrskurðarnefndin ekki tekið nýja ákvörðun heldur aðeins endurskoðað ákvarðanir sem þegar hafi verið teknar.

Í 12. gr. skipulagslaga sé mælt fyrir um að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Lóðin Dagverðarnes 103 sé innan svæðis sem sé skilgreint sem frístundabyggð í aðalskipulagi hreppsins. Í beiðni kæranda um deiliskipulagsbreytinguna sem hafi komið til afgreiðslu hafi ekki verið gert ráð fyrir því að aðalskipulagi sveitarfélagsins yrði breytt til samræmis og hafi það komið í veg fyrir umbeðna breytingu. Skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki getað fallist á beiðni kæranda og telji sveitarfélagið að á grundvelli þessa geti úrskurðarnefndin ekki fallist á kröfur kæranda samkvæmt efni kærunnar.

Þá hafi beiðni kæranda um óverulega breytingu á umræddu deiliskipulagi verið þess efnis að landnotkunarflokki lóðarinnar yrði breytt úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Sveitarfélagið telji að því hafi ekki verið heimilt að fallast á slíka beiðni þar sem samræmi verði að vera á milli aðalskipulags sveitarfélagsins og umrædds deiliskipulags og því hafi kærandi þurft að gera ráðstafanir varðandi það að breyta aðalskipulaginu til samræmis við umsótta breytingu á deiliskipulaginu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en ekki er á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir skipulagsyfirvöld að afgreiða mál með tilteknum hætti. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags.

Eins og að framan er rakið sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Dagverðarness. Fól umsóknin í sér að lóð hans, Dagverðarnes 103, yrði breytt úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Samkvæmt Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 er lóð kæranda á skipulögðu svæði fyrir frístundabyggð, merkt F1 B. Af þessu er ljóst að í aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu og hefði því ekki verið unnt að verða við kröfu kæranda um að lóð hans verði skráð sem lóð undir íbúðarhús að óbreyttu aðalskipulagi vegna áskilnaðar 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Kærandi hefur vísað til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í ljósi þess að lóðin Dagverðarnes 72, sem tilheyrir umræddri frístundabyggð, sé skráð sem íbúðarhúsalóð. Nefnd lóð er skráð á aðalskipulagsuppdrætti sem stök íbúðarhúsalóð. Verður því ekki talið að um sambærileg tilvik sé að ræða og liggur því ekki fyrir að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við meðferð erindis kæranda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 29. apríl 2020 um að synja umsókn um að breyta lóðinni nr. 103 við Dagverðarnes úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð.

98/2019 Langeyrarvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrar­vegar 4 frá og með 9. september 2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2019, er barst nefndinni 24. september s.á., kærir eigandi, Langeyravegi 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 að leggja 20.000 króna dagsektir á kæranda. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Einnig var þess krafist að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Fallist var á kröfu kæranda um frestun réttar­áhrifa með úrskurði nefndar­innar, uppkveðnum 11. október 2019.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 1. október 2019.

Málavextir: Með bréfi, dags. 10. janúar 2019, upplýsti byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar kæranda um að hann hefði til skoðunar meinta óleyfisframkvæmd sem meðal annars fælist í breytingum á útliti bílskúrs að Langeyrarvegi 4 án þess að leyfis meðeiganda hefði verið aflað. Þá væri ekki heimilt að vera með tvær íbúðir í rýminu eins og grunur léki á að búið væri að gera. Óskaði byggingarfulltrúi eftir skýringum frá kæranda og leiðbeindi honum um að sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum en ella að breyta útliti hússins í fyrra horf. Kærandi svaraði byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 31. janúar 2019, þar sem m.a. var vísað til þess að fyrirhugað væri að halda húsfund um málið og að kærandi hefði haft samband við arkitekt vegna breytinga á útliti hússins.

Með bréfi, dags. 10. júlí 2019, barst kæranda tilkynning frá byggingar­fulltrúa þar sem boðuð voru áform embættisins um að leggja dagsektir á kæranda með heimild í 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Kom og fram að samkvæmt samþykktum teikningum ættu að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en samkvæmt þinglýstum leigusamningi væri rýmið leigt út sem íbúð. Þá væri ekki gert ráð fyrir timburklæðningu utan á byggingunni. Erindi byggingar­fulltrúa var svarað með bréfi kæranda, dags. 17. s.m., þar sem kom fram að kærandi hefði farið yfir málið með arkitekt og að tryggt yrði að bílskúrsdyr yrðu áfram á húsinu. Ekki væri ljóst hvernig klæðning byggingarinnar færi í bága við mannvirkjalög og þá félli umræddur eignarhluti kæranda undir notkunarflokk 3 samkvæmt gr. 9.1.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 22. ágúst 2019, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun að beitt yrðu 20.000 króna dagsektum frá og með 9. september 2019 vegna breytinga á útliti og fjölgun „eigna“ sem ekki væri heimild fyrir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt reglna stjórnsýslu­réttar þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Ekki hafi verið tekin framkvæmanleg og rökstudd stjórnvalds­ákvörðun í aðdraganda ákvörðunar um dagsektir. Dagsektarákvörðuninni sé ætlað að knýja á um athafnir og sé íþyngjandi ákvörðun. Verði slík ákvörðun að vera skýr, framkvæmanleg og studd málefnalegum rökum. Kærandi geti ekki með ótvíræðum hætti gert sér grein fyrir því hvers krafist sé af honum þar sem hann hafi fylgt því sem embætti byggingar­fulltrúa hafi gert athugasemdir við. Framkvæmdir þær sem hafi leitt til dagsekta teljist til minniháttar framkvæmda, sem séu undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Til þess beri að líta að eignarhluti kæranda hafi alltaf verið klæddur en teikningar hússins hafi aldrei gefið vísbendingar um leyfilegar eða óleyfilegar klæðningar. Ákvörðun um að skipta um eldri klæðningu falli þannig að mati kæranda undir c-lið gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem viðhald bygginga að utan þegar notað sé eins eða sambæri­legt efni og frágangur þannig að útlit byggingar sé ekki breytt. Athugasemdir byggingarfulltrúa um notkun á rýminu til búsetu eigi sér ekki lagastoð enda rúmist það innan stjórnarskrárvarins eignarréttar hvers íbúðareigenda hvernig og með hvaða hætti hagnýtingu séreignar sé háttað. Kærandi hagnýti rýmið með þeim hætti að það sé leigt út til leigjanda, sem nýti það, eftir því sem kærandi best viti, ekki til annars en heimilt sé.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er m.a. vísað til þess að byggingar­fulltrúi hafi eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna sé meðal annars óheimilt að breyta húsnæði, burðakerfi þess, lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Sömu reglur komi fram í gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt 55. gr. mannvirkjalaga sé byggingarfulltrúa heimilt að stöðva fram­kvæmdir hafi leyfi ekki verið fengið fyrir þeim. Sömu reglu sé að finna í gr. 2.9.1. í byggingar­reglugerðinni. Til að byggingarfulltrúi geti rækt sitt eftirlitshlutverk og fylgt eftir ákvörðunum sínum séu í 56. gr. mannvirkjalaga og í gr. 2.9.2. í reglugerðinni ákvæði um heimildir til að knýja fram úrbætur með álagningu dagsekta. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 160/2010 beri eigandi húsnæðis ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laga og reglugerða. Fyrir liggi að kærandi hafi breytt m.a. útliti húsnæðis án heimildar. Byggingar­fulltrúi hafi þess vegna beitt framan­greindum úrræðum í málinu, þ. á m. dagsektum. Verði ekki annað séð en að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga og reglugerða sem vísað hafi verið til og gætt hafi verið að öllum meginreglum stjórnsýslu­réttarins við meðferð málsins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi enn engin rök fært fyrir því að gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eigi ekki við. Kærandi leggi áherslu á að frá byggingu hússins hafi hans eignarhluti alltaf verið klæddur án nokkurra athugasemda af hálfu sveitarfélags eða meðeiganda, þar til meðeigandi hafi óskað eftir því við kæranda að hann skipti um klæðningu á eignarhlutanum því honum þætti hún ljót. Kærandi hafi ekki talið það forgangsverkefni en hann gæti hugsað sér að klæða húsið með klæðningu eins og þeirri sem hann hafi nú verið sektaður fyrir að nota. Klæðningin sé í sama litatón og fyrri klæðning og telji kærandi hana falla innan marka c-liðar gr. 2.3.5. í reglugerðinni, sem endurnýjun vegg­klæðningar þegar notað sé sambærilegt efni og frágangur þannig að útlit byggingar breytist óverulega. Framkvæmdin sé því undanþegin byggingarleyfi og beri kærandi samkvæmt gr. 2.3.7. í reglugerðinni ábyrgð á því að ekki sé gengið á rétt nágranna og að virt séu ákvæði laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Kærandi upplýsi að vegna breyttra aðstæðna hafi komist á samkomulag milli kæranda og leigjanda um að leigusamningur um bílskúr verði felldur úr gildi og verði samningnum aflýst af eigninni. Samt sem áður mótmæli kærandi því sem fram komi í bráðabirgðaúrskurði að ágreiningur snúist um það hvort afla þurfi byggingarleyfis fyrir breyttri notkun. Ekki sé um breytta notkun að ræða heldur sé notkun í samræmi við skráningu, hvort sem rýmið sé nýtt fyrir geymslu bifreiðar, húsgagna, verkfæra eða fyrir búsetu. Kærandi geri ekki kröfu um að skráningu rýmisins verði breytt vegna notkunar. Það sé afstaða kæranda að byggingarfulltrúa skorti valdheimildir til þess að þvinga fram breytta notkun á rými sem kærandi eigi í séreign. Rýmið sé stök bílgeymsla fyrir einn notanda og samkvæmt töflu 9.01 í byggingarreglugerð, skipting mannvirkja í notkunarflokka, teljist slík bílgeymsla hluti einbýlis- og fjölbýlis­­húsa samkvæmt þriðja notkunarflokki. Sá flokkur gildi samkvæmt gr. 9.1.3. um rými þar sem gert sé ráð fyrir að fólk gisti. Telji byggingarfulltrúi að fólk gisti í rýminu þá skorti hann valdheimildir til þess að fá því breytt, hvort sem það mat byggingarfulltrúa á hagnýtingu leigjenda sé rétt eður ei.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. mars 2020 að við­stöddum kæranda og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar.

Niðurstaða: Ágreiningur í máli þessu snýst í grundvallaratriðum um það hvort kæranda hafi borið að afla byggingarleyfis samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 fyrir klæðningu á bílskúr hans og ætlaðri breytingu á notkun bílskúrsins.

Samkvæmt samþykktum teikningum að umræddri fasteign eiga að vera bílskúrsdyr á bílskúr við framhlið húss kæranda, en framhlið bílskúrsins er með viðarklæðningu. Samkvæmt 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er óheimilt að breyta notkun eða útliti mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skiptist fasteign kæranda annars vegar í eignarhluta 101, sem er skráður sem bílskúr, og hins vegar eignarhluta 103, sem er skráður sem íbúð. Ekki verður ráðið með óyggjandi hætti af því sem fyrir liggur í málinu að bílskúrinn sé nú notaður sem íbúð og liggja ekki fyrir fullnægjandi ástæður til að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki að því er notkun rýmisins varðar. Hins vegar verður ekki fallist á með kæranda að breyting á útliti bílskúrsins falli undir undantekningarákvæði c-liðar gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð, enda getur umdeild breyting ekki talist óveruleg breyting á útliti hans þegar litið er til samþykktra aðaluppdrátta hússins og útlits sambyggðs bílskúrs. Með vísan til framangreinds var byggingar­fulltrúa rétt að krefjast þess að kærandi aflaði sér byggingarleyfis fyrir nýrri/breyttri klæðningu eða eftir atvikum að útliti skúrsins yrði komið í fyrra horf.

Samkvæmt mannvirkjalögum er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunar­úrræðum til þess að knýja aðila til athafna eða athafnaleysis, m.a. dagsektum, sbr. 2. mgr. 56. gr. laganna. Vísaði byggingarfulltrúi til þeirrar lagaheimildar í ákvörðun sinni um að leggja á dagsektir vegna breytinga á útliti fasteignar kæranda. Svo sem rakið hefur verið hér að framan hefur byggingarfulltrúi ítrekað veitt kæranda færi á að veita skýringar og koma á framfæri athugasemdum í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar og var kæranda bent á að yrði tilmælum byggingarfulltrúa ekki sinnt gæti komið til beitingar dagsekta samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga. Með vísan til þess liggja ekki fyrir neinir þeir annmarkar á nefndri hinni ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 21. ágúst 2019 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 á lóðarhafa Langeyrarvegar 4 frá og með 9. september 2019 að því er varðar nýja/breytta klæðningu á bílskúr á lóðinni.

10/2019 Kerhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. desember 2018 um að hafna breytingu á skráningu húss að Ker­hrauni C103/104 úr sumarhúsi í íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Kerhrauns C103/104 þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. desember 2018 að hafna breytingu á skráningu hússins að Kerhrauni C103/104 úr sumarhúsi í íbúðarhús. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ólögmæt og að úrskurðað verði að skráningu sumarhússins að Kerhrauni C103/104 verði breytt í íbúðarhús.

Gögn málsins bárust frá Grímsnes- og Grafningshreppi 19. febrúar 2019.

Málavextir: Kærandi sendi Grímsnes- og Grafningshreppi erindi, dags. 3. desember 2018, þar sem óskað var eftir því að breytt yrði skráningu á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhrauni C103/104 í íbúðarhús. Sveitarstjórn tók erindið fyrir á fundi 19. s.m. og hafnaði því með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð. Kæranda var tilkynnt um synjunina með bréfi, dags. 20. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 2. október 2013 hafi sambærilegt erindi og hér um ræði verið samþykkt, þar sem Snæfoks­stöðum 99 hafi verið breytt úr sumarbústað í einbýlishús. Ráða megi af fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps við þá afgreiðslu að hún telji það óverulega breytingu að breyta sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, enda skuli allir vera jafnir fyrir lögum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarstjórnin bendir á að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun. Kærufrestur í máli þessu hafi því verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Þá hafi erindi kæranda til sveitarstjórnar falið í sér fyrirspurn um a.m.k. óverulega breytingu á aðalskipulagi. Lóð kæranda sé í skipulagðri frístundabyggð og því hefði þurft að breyta aðalskipulagi til þess að unnt væri að fallast á breytta skráningu. Málefni varðandi aðalskipulag eigi ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og beri því að vísa kærunni frá skv. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. og 38. gr. þeirra laga sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. gr. og 40.-42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. og 43. gr. þeirra, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 439/2012. Af þessu leiði að sá sem óski eftir aðal- og/eða deili­skipulagsbreytingu eigi ekki heimtingu á að sú breyting fáist samþykkt. Lóðarhafar hafi þannig ekki einhliða rétt til skipulagsbreytingar óháð afstöðu þeirra sem hagsmuna eigi að gæta.

Að baki synjun á erindi kæranda séu bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið. Lóð kæranda sé staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Skipulagssvæðið sé í heild um 107 ha og telji 130 frístundalóðir á svæðum A, B og C. Sveitarstjórn hafi ekki heimilað breytta landnotkun stakrar lóðar við slíkar aðstæður. Varðandi lóðir nr. 99 og 100 að Snæfoks­stöðum (Rauðhólahverfi) þá séu aðstæður þar allt aðrar en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun. Samþykkt hafi verið að breyta notkun þessara tveggja lóða úr frístundabyggð í landbúnaðarsvæði til samræmis við aðliggjandi svæði þar sem mjög stutt sé í aðalveg og gott að þjónusta lóðirnar með tilliti til fastrar búsetu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi tekur fram að honum hafi ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en 26. janúar 2019, en kæran hafi verið lögð fram innan mánaðar frá þeim tíma. Því beri ekki að vísa kærunni frá. Þá sé ljóst að hin kærða ákvörðun sé ekki á hendi Skipulags­stofnunar og ráðherra og því eigi 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga ekki við.

Rétt sé að sveitarstjórnir taki endanlega ákvörðun um aðal- og deiliskipulagsbreytingar en slík ákvörðun verði ekki byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum, sbr. tilvitnaðan Hæstaréttardóm. Ekki sé málefnalegt að líta til þess hversu nálægt landbúnaðarsvæðum lóðir liggi eða til þess hversu langt sé í aðalveg. Ef engin lög eða reglugerðir styðji þessi sjónarmið verði að telja þau ómálefnaleg. Að lokum skuli á það bent að lóð kæranda liggi einnig að landbúnaðarsvæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kærða ákvörðun. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina með tölvupósti, 20. desember 2018. Kærandi kveðst hafa verið erlendis frá 11. desember 2018 til 15. janúar 2019 og ekki hafa skoðað tölvupóst fyrr en að hann hafi komið heim til Íslands. Kærandi átti þess kost allt að einu að kynna sér efni tölvupóstsins sem honum hafði verið sendur 20. desember 2018 og var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðar­nefndinni. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal þó ekki vísa kæru frá af þeim sökum ef afsakanlegt verði talið að hún hafi borist að liðnum kærufresti. Áskilið er í 1. og 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga að í skriflegri tilkynningu til aðila um ákvörðun skuli leiðbeina um kæruheimild, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Kæranda voru ekki veittar slíkar leiðbeiningar og verður máli þessu því ekki vísað frá með hliðsjón af tilvitnuðu ákvæði stjórnsýslulaga.

Með erindi kæranda, dags. 3. desember 2018, óskaði hann eftir „að fá að breyta skráningu á húsi [s]ínu í íbúðarhús enda uppfyllir húsið ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhús“. Líta verður svo á að í erindi hans hafi falist umsókn um byggingarleyfi enda er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga er sveitarstjórn heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Í 6. mgr. 7. gr. kemur og fram að samþykkt sem sé sett samkvæmt þessari grein skuli lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skuli hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun. Umsókn um byggingarleyfi skal beint til byggingarfulltrúa skv. 10. gr. laganna og skal hann tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr.

Í gildi er samþykkt um stjórn og fundarsköp Grímsnes- og Grafningshrepps nr. 757/2013. Samkvæmt 1. mgr. 3. tölul. B-liðar 40. gr. samþykktarinnar skipa Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverja­hreppur sameiginlega sex manna skipulagsnefnd uppsveita skv. sérstökum samningi þar að lútandi. Í 2. mgr. sama ákvæðis kemur fram að nefndin fari með skipulagsmál skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarmál skv. 7. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 1. mgr. 4. tölul. B-liðar 40. gr. samþykktarinnar segir að sömu sveitarfélög og að framan greinir fari með stjórn embættis skipulagsfulltrúa uppsveita bs. samkvæmt sérstökum samningi. Þá kemur fram í 2. mgr. þess ákvæðis að framsals- og valdheimildir til skipulagsnefndar uppsveita bs. og skipulags- og byggingarfulltrúa byggðasamlagsins fari eftir ákvæðum samnings og samþykkta fyrir skipu­lagsfulltrúa uppsveita bs.

Samkvæmt 2. mgr. 92. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal samvinna sveitarfélaga ávallt grundvallast á samningi viðeigandi sveitarfélaga sem ekki öðlast gildi fyrr en hann hefur fengið staðfestingu viðkomandi sveitarstjórna. Samkvæmt 1. mgr. 93. gr. sömu laga skulu samningar um samvinnu sveitarfélaga sem framselja vald til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga einnig fá staðfestingu ráðuneytis. Í 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að í B-deild Stjórnartíðinda skuli birta reglugerðir, samþykktir og auglýsingar sem staðfestar eru af ráðherra. Framangreind ákvæði sveitarstjórnarlaga gilda almennt um starfsemi byggðasamlaga en byggðasamlög byggja á samningi milli sveitarfélaga, sbr. m.a. 3. mgr. 94. gr. laganna.

Samþykkt fyrir byggðasamlagið Skipulags- og byggingarfulltrúi uppsveita bs., dags. 9. júní 2016, fjallar nánar um hlutverk byggingarfulltrúa byggðasamlagsins. Hvergi í samþykktinni er kveðið á um að samþykki sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna þurfi fyrir veitingu byggingarleyfis né að sveitarstjórn komi að þeim málum yfir höfuð. Ekki verður séð að framangreindur samningur hafi verið birtur í B-deild Stjórnartíðinda. Þá eru hvorki samþykktir þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að byggðasamlagi uppsveita né byggðasamlagsins á lista Mannvirkjastofnunar yfir samþykktir sveitarfélaga sem gerðar hafa verið á grundvelli 7. gr. mannvirkjalaga. Að lokum liggur fyrir að hvorki skipulagsnefnd né skipulagsfulltrúi byggðasamlagsins hefur tekið erindi kæranda fyrir. Þar sem ekki er til staðar samþykkt sem uppfyllir kröfur 7. gr. mannvirkjalaga er það byggingarfulltrúi sem tekur ákvörðun um byggingarleyfisumsóknir.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Byggingarfulltrúi, sem lögum samkvæmt er bær til að taka ákvörðun um breytta notkun mannvirkis skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga hefur ekki tekið ákvörðun í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður slík ákvörðun ekki borin undir úrskurðar­nefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kæranda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

35/2019 Bæjarhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. maí 2019, er barst nefndinni 23. s.m., kæra Fjóluvellir ehf., Suðurlandsbraut 32, Reykjavík, ákvörðun byggingar­fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að veita byggingarleyfi til að breyta innra fyrirkomulagi hússins nr. 26 við Bæjarhraun „sem felur í sér stórbreytta notkun“. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 21. júní 2019.

Málavextir: Kærandi er eigandi blómaverslunar að Bæjarhrauni 26, matshluta 0101. Með umsókn, dags. 11. mars 2019, sótti eigandi matshluta 102 í umræddri fasteign um að breyta innra fyrir­komulagi Bæjarhrauns 26 samkvæmt teikningum, dags. 5. mars s.á. Nánar tiltekið var sótt um að breyta innra fyrirkomulagi þannig að húsnæðið hentaði sem veitingastaður í flokki III. Teikningarnar voru áritaðar og með stimpli Slökkviliðs höfuðborgar­­­svæðisins og Heilbrigðis­eftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Byggingar­fulltrúi samþykkti erindið á afgreiðslu­fundi 3. apríl 2019 í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 og er það sú ákvörðun sem kærð er.

Sótt var um starfsleyfi fyrir starfseminni í samræmi við ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með bréfi, dags. 23. apríl 2019, óskaði Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort umræddur rekstur væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar. Byggingar­fulltrúi svaraði með tölvupósti 3. maí s.á. þar sem fram kom að reksturinn væri í samræmi við samþykkta notkun fasteignarinnar.

Í málinu liggur fyrir minnisblað skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar, dags. 9. maí 2019. Er þar tekið fram að lóðin  Bæjarhraun 26 sé á landnotkunarsvæði, sem skilgreint sé sem athafnasvæði, merkt AT1, í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Er og m.a. vísað til þess að skipulagslega séu engar forsendur sem mæli gegn því að heimila rekstur veitingahúss að Bæjar­hrauni 26. Byggingarleyfisumsókn um breytingar á innra fyrirkomulagi í eign 0102 hafi verið samþykkt þar sem hún samræmdist viðkomandi skipulagsuppdráttum og uppfyllti skilyrði byggingar­reglugerðar er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að rekstur blómaverslunar hafi verið í tæp 40 ár að Bæjarhrauni 26. Í upphafi hafi húsnæði það sem nú sé verið að breyta í vínveitinga-, skemmti- og hljómleikastað fyrir þungarokk verið hannað með rekstur verslunar í sér­hönnuðu blómahúsi í huga. Því hafi kærandi í raun alltaf mátt búast við að fyrirhugaður rekstur yrði aldrei leyfður án samþykkis kæranda. Vísist til 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þar sem fram komi í 4. mgr. ákvæðisins að ef breytt nýting valdi sumum eigendum, einum eða fleiri, sérstökum óþægindum þá geti einn krafist þess að ekki verði af breytingunum. Kærandi hafi bent skipulags­­yfirvöldum á að vilji þau tryggja Íslenska Rokkbarnum framtíðarhúsnæði sé þeim í lófa lagið að kaupa eignarhluta kæranda ásamt byggingarrétti, sem og að greiða blóma­versluninni skaðabætur í samræmi við 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Sterk neikvæð afstaða kæranda vegna beiðni um samþykki um rekstrar­leyfi til handa Íslenska Rokkbarnum hafi strax komið fram. Samkvæmt lögum og leiðbeiningum frá byggingar­­­fulltrúa hefði samþykki kæranda þurft að liggja fyrir til að leyfa eða samþykkja rekstur vínveitinga- og hljómleikastaðar. Lífsviðurværi kæranda og grunnur að fjárhagslegri afkomu hans byggist á að viðkvæmur rekstur blómaverslunarinnar verði ekki fyrir tekjumissi, truflunum og öðrum þeim ótal vandamálum og óþægindum sem muni fylgja eða geti fylgt ákvörðun byggingarfulltrúa og bæjarráðs. Hver viti borinn maður geti ekki reiknað með eða fullyrt að þessi rekstur sé það aðlaðandi hann dragi aukin viðskipti til blómaverslunarinnar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að um sé að ræða umsókn um breytingu á innréttingu verslunar- og þjónusturýmis á fyrstu hæð. Við töku ákvörðunarinnar hafi legið fyrir þær forsendur að umrætt húsnæði væri staðsett á landnotkunar­svæði sem skilgreint væri sem athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi Hafnar­fjarðar. Í skilmálum aðalskipulags segi einnig að „í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar er svæðið milli Reykjavíkurvegar, Flatahrauns og Fjarðarhrauns skilgreint sem athafnasvæði, annars vegar fyrir iðnað og hins vegar verslun og þjónustu.“ Sé umrædd stefna um landnotkun í gildandi aðalskipulagi í fullu samræmi við gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sé þar gert ráð fyrir að sá flokkur skuli tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar skuli nánar tilgreint í skilmálum. Undir verslun og þjónustu falli skv. c-lið gr. 6.2. meðal annars hótel, gistiheimili, veitingahús og skemmtistaðir. Því sé ljóst að á lóðinni Bæjarhrauni 26 sé meðal annars gert ráð fyrir að þar sé rekin veitinga- og/eða skemmtistaður. Að því virtu hafi byggingarfulltrúi samþykkt umrædda umsókn um breytingu á innra fyrirkomulagi húsnæðisins, enda hafi umsóknin verið í samræmi við gildandi skipulag og hafi uppfyllt skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er lúti að fyrirhugaðri starfsemi í rýminu.

Hvað varði tilvísun kæranda í væntanlega ákvörðun bæjarráðs þá skuli upplýst að bæjarráð hafi enga ákvörðun tekið í tengslum við breytingar á innra rými eða rekstri að Bæjarhrauni 26. Slík erindi heyri ekki undir bæjarráð. Vegna fullyrðingar kæranda um að „leyfi til rekstrar skemmtistaðarins liggi fyrir“ skuli upplýst að hvorki byggingarfulltrúi né bæjarráð hafi veitt umsögn vegna umsóknar rekstraraðila um nýtt rekstrar­leyfi fyrir veitingastað í flokki III.

—–

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar sem hann nýtti sér ekki.

Niðurstaða: Lóðin Bæjarhraun 26 er á ódeiliskipulögðu svæði og er í máli þessu deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar að innra skipulagi húss á lóðinni verði breytt að hluta á þann veg að húsnæðið henti sem veitingastaður í flokki III.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Kemur og skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynnt skuli í slíkum tilvikum. Er þannig með ótvíræðum hætti lögð sú skylda á sveitarfélög að sjá til þess að grenndarkynning fari fram áður en leyfi er gefið til framkvæmda á ódeiliskipulögðu svæði og það þrátt fyrir að framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag hvað landnotkun varðar. Sú undantekning er þó gerð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga að skipulagsnefnd er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur undir höndum hefur grenndar­kynning ekki farið fram. Þá hefur málið ekki komið til kasta skipulagsnefndar og hún því ekki nýtt sér greinda heimild 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að falla frá grenndarkynningu.

Þar sem hvorki hefur farið fram grenndarkynning né verið fallið frá henni í samræmi við 44. gr. skipulagslaga verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 3. apríl 2019 um að heimila breytt innra fyrirkomulag hússins nr. 26 við Bæjarhraun.

94/2019 Ásholt

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 9. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 24. maí 2019 um að afturkalla fyrri ákvörðun og hafna erindi um að breyta notkun frístundahússins Ásholts í Hjaltadal í íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. september 2019, er barst nefndinni 20. s.m., kæra lóðarhafar lóðar þeirrar er Ásholt í Hjaltadal stendur á, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 24. maí 2019 að afturkalla fyrri ákvörðun og hafna erindi um að breyta notkun frístundahússins Ásholts í íbúðarhús. Skilja verður kröfur kærenda sem svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Skagafirði 23. október 2019.

Málavextir: Kærendur sendu skipulags- og byggingarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar bréf, dags. 1. maí 2019, þar sem óskað var eftir því að notkun frístundahússins Ásholts í Hjaltadal yrði breytt og yrði það eftirleiðis skráð sem íbúðarhús. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 17. maí 2019 var erindið samþykkt og húsið talið uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar til að notkun þess yrði breytt. Í kjölfar framangreinds fundar barst skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins tölvupóstur þar sem honum var tjáð að samkvæmt kaupsamningi um lóð þá er húsið Ásholt stendur á væri ekki heimilt að breyta notkun þess án samráðs við lóðareiganda. Skipulags- og byggingarnefnd Skagafjarðar tók málið aftur fyrir 24. maí 2019 og bókaði að „[í] ljósi nýrra upplýsinga sem nú liggja fyrir afturkallar skipulags- og byggingarnefnd fyrri ákvörðun og hafnar erindinu frá ofangreindum fundi 17. maí sl.“ Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 29. s.m. voru fundargerðir framangreindra funda teknar fyrir. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 17. maí en bókaði „[v]akin er athygli á því að á 349. fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 24. maí sl. var samþykki um breytta notkun á frístundahúsi Ásholts afturkallað og erindinu hafnað í ljósi nýrra upplýsinga sem komu fram í lóðarleigusamningi.“ Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar frá 24. maí. Kærendum var tilkynnt um framangreinda afgreiðslu með bréfi, dags. 4. júní 2019, þar sem fram kom að ástæða þess að skipulags- og byggingarnefnd hefði endurskoðað afgreiðslu sína frá 17. maí s.á. og hafnað erindinu væri athugasemd þinglýsts landeiganda. Með bréfi, dags. 25. júlí s.á., óskuðu kærendur eftir rökstuðningi á breyttri ákvörðun. Einnig bentu kærendur á að þeir teldu sig eiga rétt á að koma andmælum að í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti. Skipulags- og byggingarnefnd fól skipulags- og byggingarfulltrúa að svara erindinu á fundi sínum 1. ágúst 2019 og var sú afgreiðsla staðfest á sveitarstjórnarfundi 21. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins svaraði erindinu með bréfi, dags. 27. s.m. Í svarbréfinu kom fram að þegar umsókn kærenda hefði upphaflega verið tekin fyrir hefði einungis legið fyrir lóðarleigusamningur vegna leigu á lóðinni sem sumarhúsið stæði á og hefði umsóknin verið samþykkt á þeim grundvelli. Eftir að athugasemdir bárust frá leigusala lóðarinnar hafi komið í ljós að kaupsamningur um lóðina hafi aðeins heimilað byggingu smáhýsis eða sumarbústaðar. Í niðurlagi bréfsins kom fram að heimilt væri að kæra framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðunina.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í eignayfirlýsingu, dags. 10. október 2010, komi fram að frístundahúsið Ásholt standi á tiltekinni lóð. Ekkert í eignayfirlýsingu þessari feli í sér skilyrði um að einungis sé heimilt að byggja smáhýsi og/eða sumarbústað. Í lóðarleigusamningi, dags. 10. október 2010, segi „[l]eigusali selur leigutaka á leigu byggingarlóð, og til annarra afnota.“ Kærendur hafi ætlað að nýta sér þennan möguleika, þ.e. að skrá byggingu á lóðinni sem húsnæði til varanlegrar búsetu. Ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að fella niður samþykkt umsóknarinnar sé mjög fjárhagslega íþyngjandi bæði vegna útgjalda og skerðingu verðmætis bústaðarins.

Málsrök Sveitarfélagsins Skagafjarðar: Af hálfu Sveitarfélagsins Skagafjarðar er farið fram á frávísun málsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 140/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar. Í 7. gr. sömu laga sé mælt fyrir um heimild til þess að í sveitarfélagi starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar.

Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar nr. 961/2013 sé kveðið á um hlutverk skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins. Í 1. málsl. gr. 4.1. segi að nefndin annist störf þau sem nefndinni séu falin samkvæmt 7. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 3. málsl. sömu greinar samþykktarinnar segi að auk þessara verkefna og verkefna er lúti að hafnarmálum þá geti sveitarstjórn falið nefndinni ýmis verkefni með erindisbréfum. Eftir breytingu sem gerð hafi verið á samþykkt nr. 961/2013 með samþykkt nr. 906/2015 sé mælt fyrir um útgáfu byggingarleyfis í tölul. 4.1. í B-lið 47. gr. Þar sé kveðið á um að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi í samræmi við 9. gr. mannvirkjalaga. Sé þar jafnframt kveðið á um að í ákveðnum tilvikum skuli hann vísa máli til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sem fjalli þá um byggingaráform í samræmi við 11. gr. mannvirkjalaga. Meðal þess sem fram komi í framangreindri 9. gr. mannvirkjalaga sé að óheimilt sé að breyta notkun mannvirkis án samþykkis byggingarfulltrúa. Telja verði að afgreiðsla nefndarinnar sé ekki fullnaðarafgreiðsla byggingarleyfis enda komi ekki fram í framangreindum ákvæðum samþykktanna að afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar í slíkum tilvikum sé fullnaðarafgreiðsla. Verði því að telja að ályktanir nefndarinnar á umræddum fundum hafi verið tillaga til sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Verði ekki á það fallist breyti það engu um það að í málinu liggi ekki fyrir formlega útgefið skriflegt byggingarleyfi undirritað af byggingarfulltrúa. Slíkt sé skilyrði fyrir því að fyrir liggi endanleg stjórnvaldsákvörðun, enda sé slík útgáfa falin byggingarfulltrúa skv. lögum, þ.e. skv. 5. tölul. 3. gr. mannvirkjalaga. Gera megi ráð fyrir að fyrir slíka útgáfu hefði farið frekari vinna, eftir atvikum grenndarkynning, að undangenginni könnun á því hvort hennar væri þörf, ákvörðun um gjaldtöku vegna útgáfu byggingarleyfis o.s.frv.

Þegar fundur hafi verið haldinn í sveitarstjórn 29. maí 2019 hafði ekki verið haldinn sveitarstjórnarfundur frá 24. apríl s.á. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 17. maí hafði því ekki hlotið staðfestingu sveitarstjórnar þegar nefndin afturkallaði þá afgreiðslu sem ella hefði legið fyrir sveitarstjórn að staðfesta á fundinum 29. maí 2019. Liggi því ekki fyrir í málinu stjórnvaldsákvörðun önnur en endanleg ákvörðun sveitarstjórnar frá 29. maí. Sú ákvörðun sé ekki kærð í máli þessu. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi veiti byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Í 6. mgr. 7. gr. kemur og fram að samþykkt sem sé sett samkvæmt þessari grein skuli lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skuli hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þá skal umsókn um byggingarleyfi beint til byggingarfulltrúa skv. 10. gr. laganna og skal byggingarfulltrúi tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. Samkvæmt framansögðu er það byggingarfulltrúi sem afgreiðir byggingarleyfisumsóknir nema kveðið sé á um að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn samþykki afgreiðsluna samkvæmt sérstakri samþykkt.

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar nr. 961/2013, sem nú er fallin úr gildi. Þar var fjallað um skipulags- og byggingarnefnd í tölul. 4.1. í B-lið 47. gr. Þeirri grein var breytt með samþykkt nr. 906/2015. Eftir breytingu greinarinnar var þar kveðið á um að byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi í samræmi við 9. gr. mannvirkjalaga. Telji byggingarfulltrúi að erindi sé bersýnilega í ósamræmi við skipulagsáætlanir, skipulagsskilmála og/eða byggingarreglugerð eða óvissu ríkja um hvort uppfyllt séu ákvæði laga, reglugerða og samþykkta, skal hann vísa málinu til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sem fjallar þá um byggingaráformin í samræmi við 11. gr. mannvirkjalaga. Afgreiðsla byggingarleyfismála heyrir því undir  byggingarfulltrúa, svo sem að samþykkja umsókn, hafna henni eða vísa máli til skipulags- og byggingarnefndar.

Fyrir liggur að einu afskipti skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar í máli þessu voru að svara bréfi kærenda með rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þá er samþykkt Sveitarfélagsins Skagafjarðar ekki á lista Mannvirkjastofnunar yfir samþykktir sveitarfélaga sem gerðar hafa verið á grundvelli 7. gr. mannvirkjalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þrátt fyrir að mál þetta hafi verið tekið fyrir á þremur fundum skipulags- og byggingarnefndar og tveimur fundum sveitarstjórnar hefur byggingarfulltrúi, sem lögum samkvæmt er bær til að taka ákvörðun um breytta notkun mannvirkis skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga, ekki tekið ákvörðun í því.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kærenda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

131/2018 Rangársel

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 22. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2018, er barst nefndinni 31. s.m., kærir Steinhús Verktakar ehf., Rangárseli 6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 20. júlí 2018 var sótt um byggingarleyfi til að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaleikskóla fyrir 15 til 20 börn. Útisvæði barna yrði komið fyrir „á lóð íbúðarhússins á efri hæð“ sem yrði girt af með eins metra hárri girðingu, en íbúðarhúsið er í eigu sömu aðila og greint verslunarrými. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. október 2018. Vísað var m.a. til umsagnar skipulags­fulltrúa vegna fyrirspurnar umsækjanda byggingarleyfisins, dags. 9. apríl 2018, þar sem ekki var gerð skipulagsleg athugasemd við erindið. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 25. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að barnaheimili á umræddum stað muni óhjákvæmilega trufla eða loka aðgengi að sameiginlegri geymslu sem sé staðsett við hlið útitröppu í vesturhluta húsalengjunnar, en hugmyndin sé að fara með börnin um þær tröppur til útisvæðis. Reksturs barnaheimilis muni leiða til þess að bílastæði muni algjörlega fyllast milli kl. átta og níu að morgni og milli kl. fjögur og fimm síðdegis. Auk þess muni sameiginleg bílastæði verða lögð af. Rekstur barnaheimilis muni óhjákvæmilega torvelda að hægt sé að stunda þar jafnframt aðra starfsemi. Í eignaskipta­yfirlýsingu sé getið um verslanir eða þjónustu í lengjunni. Þjónusta hafi víðtæka skilgreiningu en barnaheimili sé þar ekki meðtalið. Fasteignasali hafi metið áhrif þess að setja barnaheimili í lengjuna og sé niðurstaðan sú að það muni rýra verðmæti eignar kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að sú málsástæða kæranda sé fráleit að not barnaheimils af sameiginlegum tröppum muni trufla eða loka aðgangi að sameiginlegri geymslu. Aðgangur að sameiginlegri geymslu sé eðli málsins samkvæmt sameiginlegur og hafi því sameigendur jafnan rétt til aðgangs. Til að komast að útivistarsvæði, sem sé í eigu byggingarleyfishafa, sé gengið framhjá útigeymslunni og upp tröppur. Verði ekki séð að kærandi verði fyrir truflun af þeim sökum, hvað þá að aðgengi að geymslunni lokist. Ekki sé heldur fallist á að rekstur barnaheimilis muni leiða til þess að bílastæði fyllist á tilteknum tímum. Næg bílastæði séu á lóðinni og eðli málsins samkvæmt muni einhverjir bílar stoppa stutt á meðan börnin séu sótt. Sameiginleg bílastæði á lóðinni verði óbreytt.

Reykjavíkurborg átti sig ekki á því hvað kærandi eigi við með því að starfsemin muni gera annarri starfsemi erfitt fyrir enda hafi engin rök verið færð fyrir þeirri fullyrðingu. Ekki sé heimilt að vera með neina meiriháttar atvinnustarfsemi á lóðinni. Lóðin sé á skilgreindu íbúðarsvæði þar sem heimiluð sé minniháttar atvinnustarfsemi. Fullyrðingu kæranda um verðfall á eign sinni sé mótmælt enda hafi engin rök verið leidd fyrir þeirri ályktun.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar rekstur barna­heimilis á fyrstu hæð hússins nr. 8 við Rangársel sem stendur á lóðinni nr. 2-8 við þá götu. Á svæðinu er í gildi deiliskipulagið Seljahverfi, Breiðholt II, frá árinu 1973. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna sérstaka skilmála á skipulagsuppdrætti er taka til húsnæðisins.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarbyggð. Sam­kvæmt gr. 6.2.a. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er íbúðarbyggð skilgreind sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Þá er tekið fram í greinargerð aðalskipulagsins að innan skilgreindra íbúðarsvæða sé mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi enda sé um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki valdi ónæði. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að umsókn um rekstur barnaheimilis fyrir 15 til 20 börn á jarðhæð hússins að Rangárseli 8 falli að skilgreindri landnotkun svæðisins. Er hin kærða ákvörðun samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi skipulag. Þá verður ekki séð að umdeild breyting hafi í för með sér röskun á hagsmunum kæranda í ljósi umfangs heimilaðs rekstrar enda verður kærandi að sæta því að aðrir eigendur fasteigna á lóðinni geti nýtt sér sameiginlegar tröppur. Þá verður heldur ekki séð að réttur kæranda til bílastæða á lóðinni verði á neinn hátt raskað.

Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fasteignanna við Rangársel 2-8 frá ágúst 1987 eru á fyrstu hæð, með aðkomu frá Rangárseli, „fjórir eignarhlutar, sem eiga eingöngu hlutdeild í lóð fyrir framan hvert verslunarbil ásamt bílastæðum þar.“ Jafnframt eru á annarri og þriðju hæð fjórar íbúðir í heildarhúseigninni og fylgir þeim eignum lóð fyrir framan hverja íbúð sem snúa að Skógarseli, þar sem fyrirhugað er að hafa útisvæði barna eins og áður hefur verið rakið. Með hliðsjón af þessu liggur fyrir að ekki hafi þurft samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 fyrir hinu kærða byggingarleyfi enda tók það samkvæmt efni sínu ekki til ráðstöfunar eða hagnýtingar á sameign annarra fasteignaeigenda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem raskað geta gildi hennar og verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. október 2018 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir að breyta notkun verslunarrýmis í húsinu nr. 8 við Rangársel í barnaheimili.

28/2018 Lækjargata

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2018, kæra vegna ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrar­kaupstaðar frá 24. janúar 2018 um að synja beiðni um breytta skráningu Lækjargötu 4, Akureyri, í atvinnuhúsnæði til sölu gistingar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Matador ehf. ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarkaupstaðar frá 24. janúar 2018 um að synja umsókn kæranda um leyfi til breyttrar skráningar fasteignarinnar að Lækjargötu 4 á Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 14. mars 2018 og 30. janúar 2019.

Málavextir og rök: Húsið að Lækjargötu 4 er einbýlishús og stendur á deiliskipulögðu svæði, sem ætlað er undir íbúðarbyggð samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Fyrri eigandi fasteignarinnar var með rekstrarleyfi til sölu gistingar, sem gilti til ársins 2020. Við eigendaskipti kom í ljós að endurnýja þurfti rekstrarleyfið og sótti nýr eigandi um rekstrarleyfi hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra 11. desember 2017. Hinn 13. desember s.á. óskaði sýslumaður eftir umsögn byggingarfulltrúa um umsókn um rekstrarleyfi fyrir gistingu í húsinu að Lækjargötu 4, en samkvæmt reglugerð nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er hann einn umsagnaraðila við veitingu slíks leyfis. Hinn 9. janúar 2018 barst svar frá byggingarfulltrúanum og var þar bent á að kærandi þyrfti að sækja um breytta notkun fasteignarinnar til skipulagsráðs bæjarins svo eignin gæti flokkast sem atvinnuhúsnæði. Í kjölfarið sótti kærandi um leyfi til breyttrar skráningar fasteignarinnar að Lækjargötu 4 í atvinnuhúsnæði, svo veita mætti rekstrarleyfi til starfrækslu gististaðar þar.

Á fundi skipulagsráðs 24. janúar 2018 var bókað að ráðið synjaði erindinu þar sem atvinnuhúsnæði til sölu gistingar teldist ekki þjóna íbúum svæðisins og félli því ekki undir leyfða starfsemi á íbúðarsvæðum samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu skipulagsráðs með bréfi sviðsstjóra skipulagssviðs, dags. 26. s.m., og fylgdu leiðbeiningar um það hvernig óska mætti rökstuðnings vegna hennar, endurupptöku eða setja fram kæru. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi ráðsins, sem barst honum með bréfi sviðsstjóra þess, dags. 23. febrúar 2018. Var þar bent á kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og kærði kærandi synjun skipulagsráðs sama dag.

Kærandi bendir á að útleiga á einbýlishúsinu að Lækjargötu 4 falli að núgildandi aðalskipulagi Akureyrarbæjar. Í aðalskipulagi segi m.a. að á íbúðarsvæði skuli fyrst og fremst gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði. Þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð. Falli útleiga á einbýlishúsi hluta úr ári undir slíka starfsemi. Sönnunarbyrði um að svo sé ekki hvíli á Akureyrarbæ sem verði að sýna fram á að einhver þessara atriða eigi við um skammtímaútleigu einbýlishúss.

Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að ákvæði aðalskipulagsins hafi verið skýrð svo að önnur starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð, verði einnig að þjóna hagsmunum íbúanna, rétt eins og verslanir, hreinlegur iðnaður, handiðnaðarfyrirtæki, þjónustustarfsemi og leiksvæði, sem talin séu upp í skilmálunum. Það hafi því verið mat skipulagsráðs að gististaðir geti ekki talist til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, enda þjóni gististaðir fyrst og fremst ferðamönnum en ekki íbúum hverfa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Akureyrarkaupstaðar frá 24. janúar 2018 á umsókn kæranda um leyfi til breyttrar skráningar fasteignarinnar að Lækjargötu 4 á Akureyri.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er m.a. óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða fengnu leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins, sbr. 10. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein skal umsókn um byggingarleyfi ásamt hönnunar–gögnum send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa, sem fer yfir umsóknina, gengur úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna, og reglugerða settra samkvæmt þeim, og tilkynnir umsækjanda eftir atvikum um samþykkt byggingaráforma hans, sbr. 11. gr. nefndra laga.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum segir að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu til ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var umsókn kæranda synjað á fundi skipulagsráðs 24. janúar 2018. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu var sviðsstjóri skipulagssviðs á þessum tíma bæði skipulags- og byggingarfulltrúi og sat sem skipulagsfulltrúi fundi skipulagsráðs, m.a. þann fund sem hér um ræðir. Hann kom hins vegar að öðru leyti ekki að ákvörðuninni þótt hann hafi tilkynnt kæranda um hana. Af hálfu Akureyrarbæjar er tekið fram að þrátt fyrir að byggingarfulltrúi fari með lögbundið vald til fullnaðarákvörðunar samkvæmt mannvirkjalögum geti hann alltaf nýtt sér ákvæði 3. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og framselt vald til fullnaðarafgreiðslu til viðkomandi fastanefndar, í þessu tilfelli skipulagsráðs. Akureyrarbær hafi því litið svo á að bókun skipulagsráðs 24. janúar 2018 hafi verið stjórnvaldsákvörðun og falið í sér lokaákvörðun.

Samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki og athugasemdum í lögskýringargögnum, sem að framan eru rakin, er endanleg ákvörðun um afdrif umsóknar um byggingarleyfi á hendi byggingarfulltrúa. Sveitarstjórn er þó heimilt, með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. laganna, að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Akureyrarbær hefur ekki sett sér slíka samþykkt og er ekki að finna í mannvirkjalögum heimild til handa byggingarfulltrúa til að framselja vald það sem honum er fengið samkvæmt þeim. Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála og skv. 3. mgr. nefndrar lagagreinar getur starfsmaður sem fengið hefur framselt vald til fullnaðarafgreiðslu mála úr hendi sveitarstjórnar skv. 2. mgr. ávallt óskað eftir að m.a. viðkomandi fastanefnd taki ákvörðun í máli. Í þessu sambandi skal á það bent að framangreind valdheimild byggingarfulltrúa er byggð á ákvæðum mannvirkjalaga og kemur 42. gr. sveitarstjórnarlaga því ekki til álita hér.

Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið er ljóst að ákvörðun skipulagsráðs gat ekki bundið enda á málið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur var hún liður í að upplýsa hvort hin umsótta breyting væri í samræmi við skipulag, sbr. 2. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga. Eftir sem áður þurfti að koma til sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa, en ákvörðun hans liggur ekki fyrir í málinu. Kærandi verður þó ekki látinn bera hallann af því og verður að svo komnu máli að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að Akureyrarbær telur málinu lokið, auk þess sem tæpt ár er liðið frá kæru og enn liggur ekki fyrir afgreiðsla byggingarfulltrúa í málinu, verður lagt fyrir hann að taka erindi kæranda til efnislegrar meðferðar án frekari tafa í samræmi við 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Þegar ákvörðun byggingarfulltrúa vegna erindis kæranda liggur fyrir er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. sömu laga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

 Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Akureyrarkaupstaðar að taka til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun fasteignarinnar að Lækjargötu 4 á Akureyri.

26/2017 Bergþórugata 23

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 5. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2017, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2017 á umsókn Þrengsla ehf. um að breyta notkunarflokki fjölbýlishúss á lóð nr. 23 við Bergþórugötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Þrengsli ehf., Bergþórugata ehf. og Kaffihúsið ehf., Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2017 að hafna umsókn Þrengsla ehf. um að breyta notkunarflokki fjölbýlishúss á lóð nr. 23 við Bergþórugötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að umsókn kæranda verði samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. apríl 2017.

Málavextir:
Með kaupsamningi, dags. 20. september 2016, seldi Kaffihúsið ehf. Þrengslum ehf. eignarhluta í fasteigninni að Bergþórugötu 23, en í samningnum var það skilyrði sett fyrir kaupunum að leyfi fengist fyrir gististarfsemi í öllu húsinu. Rekstraraðili fasteignarinnar er Bergþórugata 23 ehf. og standa nefndir aðilar að kærumáli þessu.

Hinn 22. nóvember 2016 sótti einn kærenda um breytingu á skilgreiningu mannvirkis til byggingarfulltrúans í Reykjavík. Fól umsóknin í sér að fjölbýlishús á lóð nr. 23 við Bergþórugötu færi úr notkunarflokki 3 í notkunarflokk 4. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2017 var umsóknin tekin fyrir og henni vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. febrúar s.á. var umsókninni synjað með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 3. s.m.

Í umsögn skipulagsfulltrúa kom fram að í skipulagi svæðisins sé landnotkun skilgreind sem íbúðarbyggð (ÍB) en innan íbúðarbyggðar gildi ákveðnar heimildir og takmarkanir er varði starfsemi gististaða. Í töflu 3 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi fram innan hvaða landnotkunarflokka gististarfsemi sé heimiluð eftir flokkum. Með vísan til töflunnar sé ljóst að einungis gististarfsemi í flokki I, gisting á lögheimili umsækjanda, sé heimiluð innan íbúðarbyggðar en ekki gististarfsemi í flokki II-V. Í gildandi deiliskipulagi svæðisins komi fram að ekki sé gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum innan svæðisins.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir telji að ákvörðun byggingarfulltrúa sé haldin formlegum annmarka en hún sé alfarið byggð á umsögn skipulagsfulltrúa. Undir þá ákvörðun riti skipulagsfræðingur og verkefnastjóri. Þó starfshæfni hans sé á engan hátt dregin í efa þá verði ekki fram hjá því litið að erindi umsækjanda hafi fyrst og fremst varðað lögfræðilega túlkun á ákvæðum aðal- og deiliskipulags og sé niðurstaða hans byggð á því að ekki sé „tekið undir túlkun umsækjanda“ á aðal- og deiliskipulagi.

Eins og hin kærða ákvörðun beri með sér hafi byggingarfulltrúi ekki fjallað efnislega um málið, heldur hafi hún í reynd verið tekin af skipulagsfulltrúa. Sú málsmeðferð geti vart samrýmst vönduðum stjórnsýsluháttum.

Í gildi sé aðalskipulag sem samþykkt hafi verið í borgarstjórn 26. nóvember 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar 2014. Hinn 21. október 2014 hafi verið samþykkt „óveruleg breyting á aðalskipulagi“ þar sem eftirgreindum texta hafi m.a. verið bætt við túlkun á ákvæðum um gististaði: „Ofangreind ákvæði eru ekki afturvirk. Mögulegt er að endurnýja leyfi um starfsemi sem var til staðar fyrir staðfestingu aðalskipulagsins, enda sé um óbreytta starfsemi að ræða í sama húsnæði og áður.“ Bersýnilegt sé að sú breyting sem hafi falist í hinni óverulegu breytingu komi ekki í veg fyrir að leyfi sé útvíkkað á sama stað enda hafi það enga breytingu í för með sér hvað varði grenndaráhrif vegna þess rekstrar sem þegar hafi verið fyrir í umræddu húsnæði. Þegar aðalskipulagsbreytingin hafi tekið gildi hafi verið leyfisskyld starfsemi að Bergþórugötu 23 sem óskað hafi verið eftir að næði til annarra íbúða innan sama húsnæðis.

Í gildandi deiliskipulagi Njálsgötureits, sem hér eigi við, sé heimilaður rekstur lítilla fyrirtækja líkt og Bergþórugata ehf. sannarlega sé, en í því deiliskipulagi undir 7. lið segi orðrétt: „Ekki skal gera ráð fyrir gistiheimilum og hótelum, en heimilt er í samræmi við aðalskipulag að vera með litlar vinnustofur, fyrirtæki svo sem gallerý og smáverslanir sem hvorki valda ónæði né aukinni umferð.“

Það leyfi sem kærandi hafi sótt um falli undir flokk II samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, þ.e. gististaður án veitinga, en slíkri gistingu verði ekki jafnað við gistiheimili eða hótel sem óheimil séu samkvæmt deiliskipulaginu. Eins og ráða megi af skilgreiningu b. liðar 6. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sé gistiheimili gististaður með takmarkaðri þjónustu og þá sé jafnframt ráðgert að á slíkum gististöðum sé næturvarsla eða gestamóttaka sem sé opin allan sólarhringinn og morgunverður framreiddur, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar. Þar sem beinlínis sé kveðið á um í reglugerðinni að morgunverður sé framreiddur á „gistiheimilum“ en undir leyfi samkvæmt flokki II falli „gististaðir án veitinga“ sé bersýnilegt að þar sé um eðlisólíka hluti að ræða.

Þá liggi fyrir að kærendur hafi ráðist í ýmsar framkvæmdir og viðbyggingu hússins í trausti þess að mögulegt sé að nýta fasteignina undir rekstur gistiþjónustu. Þegar ráðist hafi verið í þær framkvæmdir, hafi rekstur gististaða verið heimill samkvæmt skipulagi svæðisins og muni kærendur hafa haft réttmætar væntingar til að ekki yrðu breyting þar á.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé landnotkun umrædds svæðis skilgreind sem íbúðarbyggð. Þar sé í gildi deiliskipulag Njálsgötureits, samþykkt í borgarráði 26. september 2013 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á. Innan skilgreindrar íbúðarbyggðar í aðalskipulagi gildi ákveðnar heimildir og takmarkanir er varði starfsemi gististaða og er t.d. óheimilt að vera með gististað í flokki II-V innan íbúðarbyggðar.

Eitt skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Allar heimildir séu til staðar fyrir byggingarfulltrúa að leita umsagnar skipulagsfulltrúa. Sérstaklega sé kveðið á um í 2. ml. 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki og 5. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að „ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins“. Ákvörðun byggingarfulltrúans hafi því verið í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu sé í gildi rekstrarleyfi í flokki II fyrir íbúð nr. 01-01, dags. 6. júní 2013, og gildi til 6. júní 2017. Ljóst sé að breytingarákvæði aðalskipulagsins eigi við í tilfelli íbúðarinnar enda hafi rekstrarleyfi verið samþykkt fyrir birtingu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Ákvæði um takmörkun á gististöðum miði m.a. að því að stemma stigu við fjölgun þeirra innan íbúðarhverfa í því skyni að sem minnst sé vikið frá ríkjandi landnotkun og draga með því úr áhrifum slíkra breytinga á íbúðarhúsnæðismarkað.

Ekki sé fallist á að fyrrgreint breytingarákvæði gildandi aðalskipulags feli í sér heimild til útvíkkunar rekstrarleyfis í aðrar íbúðir í húsinu að Bergþórugötu 23. Eitthvað sem heiti „útvíkkun á leyfi“ sé hvorki í lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007, né í reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 1277/2016. Hér sé um að ræða nýtt leyfi fyrir annað fastanúmer en nú sé í gildi fyrir eina íbúð. Í töflu 3 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi fram innan hvaða landnotkunarflokka gististarfsemi sé heimiluð eftir flokkum. Með vísan til töflunnar sé ljóst að einungis gististarfsemi í flokki I, gisting á lögheimili umsækjanda, sé heimiluð innan íbúðarbyggðar en ekki gististarfsemi í flokki II-V og í gildandi deiliskipulagi komi fram að ekki sé gert ráð fyrir gistiheimilum eða hótelum innan svæðisins. Ekki sé tekið undir þá túlkun umsækjanda á gististarfsemisákvæðum deiliskipulagsins að gististarfsemi í formi íbúðarleigu sé undanskilin í þeim ákvæðum og flokkist sem rekstur „lítilla fyrirtækja“. Sú túlkun að setja íbúðargistingu undir sama flokk og rekstur lítilla fyrirtækja eigi sér ekki stoð. Hér sé átt við þjónustu sem geti þjónað íbúum innan íbúðarbyggðarinnar sem gistiheimili geri ekki.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar. Nefndin er ekki bær til þess að taka nýja stjórnvaldsákvörðun af þeim sökum verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að umsókn um breyttan notkunarflokk verði samþykkt.

Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn eins kærenda um að notkunarflokkur fjölbýlishússins að Bergþórugötu 23 yrði færður í flokk 4. Um notkunarflokka er fjallað í kafla 9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í gr. 9.1.2. kemur fram að brunavarnir mannvirkis ákvarðist af notkun þess með tilliti til öryggis fólks og dýra. Flokkun ákvarðast af því hvort sofið er innan mannvirkjanna, hvort fólk sem þar er þekkir flóttaleiðir innan þeirra og hvort það geti sjálft bjargað sér úr mannvirkinu við eldsvoða. Í gr. 9.1.3. eru notkunarflokkarnir sex taldir upp og skilgreindir. Í gr. 9.1.4. er tekið fram að sérbýlishús, frístundahús, stakar íbúðir og stök herbergi til skammtímaleigu og húsnæði til heimagistingar skulu uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar um eldvarnir í íbúðarhúsum, þ.e. í notkunarflokki 3. Sama gildi um eldvarnir sameignar ef húsnæðið er í fjöleignarhúsi. Ef gestafjöldi er yfir 10 manns telst húsnæðið í notkunarflokki 4 og skal uppfylla ákvæði reglugerðarinnar fyrir þann notkunarflokk. Í notkunarflokk 4 falla mannvirki þar sem gisting er boðin, s.s. hótel og aðrir gististaðir. Notkunarflokkur húsnæðis ræðst því af notkun þess samkvæmt samþykktu byggingarleyfi og breytist ekki nema heimiluð notkun samkvæmt slíku leyfi sé breytt með nýrri ákvörðun.

Með hliðsjón af því sem fyrir liggur í máli þessu verður að ætla að umsókn sú sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun hafi í raun falið í sér beiðni um breytta notkun annarra íbúða fyrrgreinds fjöleignarhúss en íbúðar merktri 0101, sem áður hafði fengið samþykkta breytta notkun úr íbúðarhúsnæði í gististað í flokki II. Í húsinu eru 12 íbúðir og færi það því í notkunarflokk 4 ef samþykkt væri gististarfsemi í öllum eignarhlutum hússins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er hin umþrætta fasteign á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði. Á þeim svæðum er aðeins heimilt að hafa gististaði í flokki I skv. skilmálum aðalskipulagsins um landnotkun. Í gildandi deiliskipulagi svæðisins kemur fram að á íbúðarsvæðinu skuli vera íbúðarbyggð en heimilt sé að vera með heimagistingu á reitnum samkvæmt skilgreiningu heimagistingar í 10. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Aðalskipulagsbreytingin frá árinu 2014, sem vísað hefur verið til í þessu máli, fól í sér sérstök ákvæði um starfsemi innan landnotkunarsvæða, bætti við eftirfarandi setningu neðanmáls í töflum 1, 2, 3 og 4: „Ofangreind ákvæði eru ekki afturvirk. Mögulegt er að endurnýja leyfi um starfsemi sem var til staðar fyrir staðfestingu aðalskipulagsins, enda sé um óbreytta starfsemi að ræða í sama húsnæði og áður. Þetta á þó ekki við á svæðum þar sem tekið er skýrt fram í almennri skilgreiningu landnotkunar að viðkomandi starfsemi skuli vera víkjandi.“ Telja verður að samþykki fyrir breyttri notkun á öðrum íbúðum hússins en íbúð nr. 0101 væri breyting á starfsemi sem fæli í sér annað og meira en endurnýjun þess leyfis sem til staðar var fyrir nefnda íbúð. Samþykkt slíkrar umsóknar hefði ekki átt stoð í gildandi aðalskipulagi.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Var byggingarfulltrúa rétt að leita slíkrar umsagnar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og taka mið af þeirri umsögn við töku ákvörðunarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. febrúar 2017 um að hafna umsókn um að breyta notkunarflokki fjölbýlishúss á lóð nr. 23 við Bergþórugötu.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    Þorsteinn Þorsteinsson