Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2014 Þórunnartún

Með
Árið 2014, miðvikudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðar nr. 4 við Þórunnartún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Anna Þórdís Rafnsdóttir hdl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigandi, húsfélag og leigjendur að Þórunnartúni 2, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. júlí 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.220.0 vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún, er fól í sér aukningu á byggingarmagni og breytingu á byggingarreit. Með bréfum til nefndarinnar sama dag kærir sami lögmaður sömu ákvörðun borgarráðs, annars vegar f.h. Höfðatorgs ehf. og hins vegar f.h. Höfðahótels ehf.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Hildur Leifsdóttir hdl., f.h. Höfðahótels ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. september 2014 að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á baklóð lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún, til að byggja þar ofan á inndregna 5. hæð og til að innrétta gististað með 93 herbergjum í flokki V, teg. a. Með tveimur bréfum til nefndarinnar, dags. 22. október 2014, kærir sami lögmaður annars vegar f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna, sem eru eigandi, húsfélag og leigjendur að Þórunnartúni 2, og hins vegar f.h. Höfðatorgs ehf., sömu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík.

Gera allir kærendur þá kröfu að ákvörðun borgarráðs um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.220.0 vegna Þórunnartúns 4 og ákvörðun byggingarfulltrúans um veitingu byggingarleyfis á sömu lóð verði felldar úr gildi. Að auki eru gerðar kröfur um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Var hafnað kröfu kærenda frá 29. júlí 2014 um að yfirvofandi framkvæmdir yrði stöðvaðar með úrskurði uppkveðnum 18. september s.á. Gera kærendur nú þá kröfu að nýhafnar framkvæmdir við Þórunnartún 4 verði stöðvaðar til bráðabirgða.

Með úrskurðinum frá 18. september 2014 voru mál nr. 82/2014 og 83/2014 sameinuð máli þessu. Síðari kærumálin, sem eru nr. 113/2014, 114/2014 og 115/2014, verða nú einnig sameinuð máli þessu enda þykja hagsmunir aðila, sem allir eru þeir sömu, ekki standa því í vegi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar í heild sinni. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til síðari stöðvunarkröfu kærenda, er varðar nýhafnar framkvæmdir við Þórunnartún 4.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 11. og 22. september, 5. og 19. nóvember og 2. desember 2014.

Málavextir: Hinn 5. mars 2014 var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar umsókn um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún. Var óskað eftir breytingu á byggingarreit og auknu nýtingarhlutfalli. Þá var þess óskað að skilmálum um bílastæði yrði breytt þannig að gert yrði ráð fyrir einu bílastæði á hverja 130 m2 nýbyggingar í stað eins bílastæðis á hverja 50 m2 nýbyggingar. Loks var þess óskað að leyfð yrði akstursleið á lóðinni við lóðamörk Þórunnartúns 2 og 4 vegna aðkomu takmarkaðrar umferðar inn á bílastæði á lóðinni. Akstursleiðin yrði sameiginleg með kvöð um gönguleið sem fyrir væri. Var skipulagsfulltrúa falið að hafa samband við hagsmunaaðila vegna nefndrar umferðarkvaðar. Hinn 12. s.m. var haldinn fundur á vegum skipulagsfulltrúa þar sem greind deiliskipulagsbreyting var kynnt ásamt þeim forsendum sem lágu að baki beiðni um breytingu á umferðarkvöð. Hinn 26 s.m. var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs samþykkt að auglýsa breytingartillöguna samkvæmt lagfærðum uppdrætti. Var hún auglýst 9. apríl 2014, með athugasemdarfresti til 21. maí s.á. Bárust athugasemdir á þeim tíma, m.a. frá kærendum. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní s.á, var innsendum athugasemdum svarað og lagt til að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt óbreytt. Hinn 25. s.m. var tillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði og staðfest af borgarráði 3. júlí s.á. Var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst s.á. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 30. september 2014 að veita leyfi til að byggja viðbyggingu og innrétta 93 herbergi í húsi á lóðinni nr. 4 við Þórunnartún, í samræmi við breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Hafa kærendur kært framangreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar, eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að ákvörðun Reykjavíkurborgar gangi gegn áherslum og markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, sem og settum lögum og reglum. Feli breytingartillagan í sér að útbúin verði bílastæði ofanjarðar við Þórunnartún og þau verði aðgengileg með samnýtingu á gönguleið sem kvöð sé um og liggi milli Þórunnartúns 2 og 4. Ekki hafi verið lagt neitt rökstutt mat á það í ákvörðun Reykjavíkurborgar hvort umferð muni aukast við lóð Þórunnartúns 2 vegna greindrar samnýtingar, en kærendur telji ljóst að svo muni verða. Að auki fari breytingin þvert gegn 2. mgr. a-liðar í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem kveði á um öruggar, greiðar og aðlaðandi leiðir fyrir gangandi og hjólandi. Í aðalskipulagi Reykjavíkur komi fram að stefnt sé að vistvænni samgöngum með því að efla aðra ferðamáta en einkabílinn og draga úr aukningu bílaumferðar. Hafi kærendur áhyggjur af þeim áhrifum sem breytingin mun hafa í för með sér og búast megi við að töluvert ónæði muni hljótast af. Telji kærendur það óumflýjanlegt að aðgengi að Þórunnartúni 2 muni takmarkast með tilkomu nýs hótels.

Hafi Reykjavíkurborg ekki rökstutt hvar lóðarhafi hyggist gera pláss fyrir sorpgáma vegna reksturs hótelsins annars staðar en á fyrirhuguðum bílastæðum. Samkvæmt gr. 5.3.2.16. í skipulagsreglugerð sé skylt að gera grein fyrir afmörkun gámasvæða eða sorpgerða á lóðum utan hefðbundinna atvinnusvæða. Muni umþrættar breytingar leiða til fráhrindandi viðmóts gagnvart Þórunnartúni 2 og umhverfinu þar í kring, en að auki telji kærendur að ákvörðun Reykjavíkurborgar brjóti gegn ákvæði 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveði á um að í rökstuðningi ákvörðunar stjórnvalds skuli greina frá þeim réttarreglum og matssjónarmiðum sem ákvörðun byggist á. Virðist ákvörðun Reykjavíkurborgar byggjast á huglægum atriðum en ekki upplýsingum sem hafi verið aflað á faglegan hátt. Sé af þeim sökum um að ræða brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Sé einnig bent á að ekki sé um óverulega breytingu á samþykktu deiliskipulagi að ræða, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Telji kærendur að í hinni kærðu ákvörðun felist talsverð frávik frá notkun, útliti og formi viðkomandi svæðis og um verulega skerðingu á grenndarhagsmunum sé því að ræða. Hafi átt að fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og 2. mgr. gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð. Að auki hafi einn kærenda, Höfðahótel ehf., sótt um svipaðar breytingar á deiliskipulagi Höfðatorgs í september 2013, þar sem sótt hafi verið um 150 stæði á 75.000 m2 svæði eða aðeins eitt stæði á hverja 500 m². Hafi ekki verið fallist á þá umsókn með vísan til áherslna skipulagsyfirvalda í Reykjavík á umhverfis- og mannlífsvernd á svæðinu. Hafi forsendur ekki breyst svo mjög að lögmætt hafi verið að afgreiða hina kærðu breytingartillögu með öðrum hætti. Hafi því verið um að ræða brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

Telji kærendur að af framangreindum ástæðum beri að fella úr gildi hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Af því leiði að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og beri því einnig að fella það úr gildi.
   
Málsrök sveitarfélagsins: Af hálfu Reykjavíkurborgar er því hafnað að deiliskipulagsbreytingin gangi gegn skilmálum deiliskipulagsins um umhverfisleg gæði. Umferð muni ekki aukast umfram það sem tekið hafi verið fram í deiliskipulagi fyrir breytingu. Sé umsókn Höfðatorgs ehf. um breytingu á deiliskipulagi Höfðatorgs, m.a. vegna fjölgunar bílastæða ofanjarðar um 150, ekki sambærileg við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Sé í deiliskipulagi Borgartúnsreits gert ráð fyrir bílastæðum á baklóðum allra bygginga, auk bílastæða við götu. Hins vegar segi í umsögn skipulagsfulltrúa um umsókn Höfðatorgs ehf. að í deiliskipulagi Höfðatorgs frá 2007 sé lögð áhersla að allt umhverfi ofanjarðar sé manneskjulegt og hafi af þeim sökum verið settir skilmálar varðandi bílastæði og ráðstöfun lóðar fyrir almenning. Þá sé í skilmálum deiliskipulags Höfðatorgs kveðið á um að bílastæði skuli vera að mestu neðanjarðar og sé á skipulagsuppdrætti sýndur takmarkaður fjöldi bílastæða ofanjarðar. Séu því gildandi deiliskipulagsforsendur ólíkar fyrir Borgartúnsreit 1.220.0 og fyrir reit Höfðatorgs. Að auki sé bent á að fyrirhuguð hótelbygging á lóð Þórunnartúns 4 sé 27% af stærð Höfðahótels og hafi hún ekki verið talin hafa í för með sér aukningu umferðar. Ekki sé fyrirhugað að nota bílastæði undir ruslagáma vegna reksturs hótelsins og af þeim sökum hafi ekki verið sett inn afmörkun fyrir slíka gáma í deiliskipulag fyrir lóðina.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé Þórunnartún 4 á reit blandaðrar miðborgarbyggðar, þar sem m.a. sé gert ráð fyrir gistiþjónustu. Heimili skipulagsleg staða Þórunnartúns 4 hótelrekstur og hafi svo verið frá því deiliskipulag fyrir svæðið hafi verið samþykkt árið 2004. Að auki sé bent á að deiliskipulagstillagan hafi ekki verið grenndarkynnt heldur auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi því ekki verið farið með breytingartillöguna eins og um óverulega breytingu væri að ræða, líkt og kærendur haldi fram.

Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við deiliskipulagsbreytinguna, sem hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst 2014.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að deiliskipulag frá árinu 2002 hafi heimilað hótelbyggingu og aukið nýtingarhlutfall á lóðinni áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi tekið gildi. Hafi fasteignin við Þórunnartún 4 verið keypt í þeim tilgangi að endurbyggja hana og breyta í hótel. Heimild til byggingar hótels á lóðinni hafi því legið fyrir áður en unnið hafi verið deiliskipulag Höfðatorgs og geti kærendur ekki með neinu móti komið í veg fyrir að hótel rísi á lóðinni. Snúi efni kæranna aðallega að bílastæðum og umferð.
   
Gerðar séu mismunandi kröfur um fjölda bílastæða eftir því hvort um gisti- eða ráðstefnuhótel sé að ræða. Hótelbyggingin að Þórunnartúni 4 muni verða gistihótel með 93 herbergjum og ekki sé þar gert ráð fyrir rekstri á opnum veitingastað. Muni bílaumferð vegna gesta því verða í lágmarki. Felist í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu fjölgun bílastæða um níu á lóðinni en um þrjú fyrir framan húsið. Hafi áður verið reknar skrifstofur í húsinu en slíkri starfsemi fylgi meiri bílastæðaþörf. Muni starfræksla hótels því létta á þörf fyrir bílastæði í næsta nágrenni, sem ætti að vera kærendum í hag. Að auki sé bent á að sameiginlega göngu- og aksturskvöð sé víða að finna í skipulagi og ljóst sé að umferðarhraði verði í algjöru lágmarki. Muni þessi aðkomuleið því ekki verða íþyngjandi fyrir kærendur. Séu áhyggjur kærenda af aukinni umferð ástæðulausar þar sem annar rekstur en gistihótel myndi hafa í för með sér mun meiri umferð um götuna. Einnig sé áréttað að með breytingum á Þórunnartúni 4 muni umhverfi og götumynd breytast til mikilla bóta, sem leiði til hækkunar á fasteignarverði.

Einnig sé bent á að ekki hafi verið gengið á rétt kærenda við afgreiðslu deiliskipulagstillögunnar. Hafi hún verið kynnt fyrir kærendum og þeim gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar. Það hafi kærendur gert og hafi ítarlegar athugasemdir þeirra og sjónarmið legið fyrir við afgreiðslu deiliskipulagsins. Byggingarleyfið fari ekki í bága við samþykkt deiliskipulag. Að auki sé bent á að á sama tíma og kærendur séu að reyna að koma í veg fyrir framkvæmdaráform að Þórunnartúni 4, með því að bera fyrir sig aukna umferð og skort á bílastæðum, hafi Höfðatorg ehf., sem sé einn kærenda, sótt um aukið byggingarmagn fyrir veitingastað sem myndi draga að sér aukna umferð. Sé því ljóst að bakgrunnur kærunnar sé tilraun til að hefta samkeppni. Tilraunir til að hefta samkeppni eigi ekki að koma til skoðunar við afgreiðslu skipulagsmála.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi deiliskipulagsbreytingar fyrir Borgartúnsreit vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún. Þá er deilt um byggingarleyfi það er styðst við hið breytta deiliskipulag. Er aðallega deilt um fjölgun bílastæða ofanjarðar og aukningu á umferð á tilgreindu svæði vegna umferðarkvaðar.

Sveitastjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Getur almenn stefnumótun í skipulagsáætlunum þar sem lögð er áhersla á gangandi umferð ekki takmarkað vald sveitarfélags til að ákveða nánara fyrirkomulag umferðar á skipulagssvæði, enda sé það í samræmi við lög og reglur. Í a-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 segir að kvaðir skuli setja um umferðarrétt, þar sem það eigi við, og að áhersla skuli lögð á öruggar, greiðar og aðlaðandi leiðir fyrir gangandi og hjólandi. Áður en til hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingu kom var kvöð um gönguleið á lóð leyfishafa, við mörk lóðar hans og lóðar kærenda, en eftir breytinguna verður kvöðin sameiginleg um akstursleið vegna aðkomu að bílastæðum. Samkvæmt skilmálum eftir breytingu skal kvöðin útfærð þannig að gangandi umferð sé gert hátt undir höfði og þess gætt að ekki stafi hætta af bifreiðum við blindhorn. Verður ekki annað séð en að deiliskipulagsbreytingin uppfylli kröfur tilvitnaðs reglugerðarákvæðis.

Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst m.a. aukning byggingarmagns á umræddri lóð úr 2.373,2 m2 í 2.783,2 m2, eða um 410 m2. Þá er dregið úr kröfu um fjölda bílastæða þannig að í stað eins bílastæðis á hverja 50 m2 nýbyggingar verði eitt stæði á hverja 130 m2, auk þess mun bílastæðum fjölga ofanjarðar um níu. Fallast má á að umdeild skipulagsbreyting geti haft í för með sér einhver grenndaráhrif gagnvart kærendum, einkum vegna umferðar og fjölgunar bílastæða. Hins vegar er á það að líta að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Borgartúnsreiturinn á miðsvæði, en á slíkum svæðum er m.a. gert ráð fyrir þjónustu tengdri tiltekinni starfsemi, s.s. hótel- og veitingastarfsemi, og annarri sérhæfðri þjónustu. Var svo einnig samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem í gildi var þegar deiliskipulag Borgartúnsreits tók gildi 2004. Þá hefur heimild fyrir bílastæðum á lóðum svæðisins verið til staðar í deiliskipulagi Borgartúnsreits a.m.k. frá árinu 2004. Með hliðsjón af framangreindu verður hvorki talið að frekari rannsókna hafi verið þörf við töku hinnar kærðu ákvörðunar né að hagsmunum kærenda hafi verið raskað að því marki að ógildingu varði.

Kærendur hafa haldið því fram að samsvarandi umsókn um breytingu á deiliskipulagi Höfðatorgs, sem heimilað hefði bílastæði ofanjarðar, hafi verið synjað af borgaryfirvöldum á árinu 2013. Fyrir það svæði sem greind umsókn um deiliskipulagsbreytingu tók til gildir deiliskipulag Höfðatorgs. Eru skilmálar þess deiliskipulags ólíkir skilmálum deiliskipulags Borgartúnsreits 1.220.0. Þannig er í deiliskipulagi Höfðatorgs lögð áhersla á að bílastæði verði neðanjarðar og gert ráð fyrir að allt að 60% lóðarinnar verði opið svæði fyrir almenning en í deiliskipulagi Borgartúnsreits er hins vegar gert ráð fyrir bílastæðum ofanjarðar við byggingar á öllum lóðum reitsins. Þá felst í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu fjölgun bílastæða um níu en í umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi Höfðatorgs fólst beiðni um 150 stæði ofanjarðar. Verður því ekki séð að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með hinni kærðu ákvörðun, enda ekki um sambærileg tilvik að ræða.

Í hinu breytta deiliskipulagi er gert ráð fyrir bílastæðum á hinni umdeildu lóð en ekki gámasvæði. Hafa kærendur bent á að nefnd bílastæði kunni að verða notuð fyrir sorpgáma. Samkvæmt gr. 5.3.2.16. í skipulagsreglugerð skal afmarka gámasvæði og staðsetja þau á baklóðum eða í aflokuðum rýmum á lóðum utan hefðbundinna atvinnusvæða, þar sem þörf er á. Ekki liggur fyrir í málinu að nein þörf sé á eða áform séu uppi um meðferð eða geymslu sorpgáma á lóðinni, sbr. framangreint ákvæði, en ljóst er að geymsla þeirra á bílastæðum væri í andstöðu við deiliskipulagið.

Loks liggur fyrir að farið var með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga en ekki sem óverulega breytingu á deiliskipulagi og að hin umdeilda tillaga var sérstaklega kynnt hagsmunaðilum. Verður því ekki annað ráðið en farið hafi verið að lögum við meðferð málsins.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafnað. Að framangreindri niðurstöðu fenginni, um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, er byggingarleyfið í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Borgartúnsreit 1.220.0. Verður kröfu um ógildingu þess því einnig hafnað.
   

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 3. júlí 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðar nr. 4 við Þórunnartún.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. september 2014 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu á baklóð, til að byggja inndregna 5. hæð þar ofan á og til að innrétta gististað með 93 herbergjum í flokki V, teg. a, á sömu lóð við Þórunnartún 4.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

109/2013 Austurgata

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 27. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 109/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 2. október 2013 um að samþykkja breytingar á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóða nr. 22 og 22b við Austurgötu og nr. 19 við Strandgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. nóvember 2013, sem barst nefndinni 14. s.m., kæra eigendur að Austurgötu 24, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 2. október 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóða nr. 22 og 22b við Austurgötu og nr. 19 við Strandgötu. Er þess krafist „að nýbyggingar á lóðunum nr. 22 og 22b við Austurgötu falli betur [að] núverandi skipulagi, skeri sig ekki úr núverandi götumynd Austurgötunnar og séu með nægjanlegum fjölda bílastæða“.

Verður að skilja málskot kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi er varðar breytingar á lóðum nr. 22 og 22b við Austurgötu.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 28. nóvember 2013.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 28. maí 2013 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna Austurgötu 22 og 22b og Strandgötu 19. Í henni fólst að lóðirnar Austurgata 22 og 22b yrðu sameinaðar í eina lóð og gert væri ráð fyrir sex íbúðum á lóðinni ásamt sex bílastæðum, þar af einu fyrir hreyfihamlaða. Að auki var gert ráð fyrir tveggja hæða nýbyggingu á baklóð Strandgötu 19 með fjórum íbúðum. Samþykkt var að auglýsa tillöguna og var það gert 6. júní s.á., með athugasemdarfresti til 19. júlí s.á. Bárust athugasemdir við tillöguna, þ. á m. frá kærendum. Hinn 27. september s.á. var breytingin samþykkt af skipulags- og byggingarráði með svohljóðandi bókun: „Skipulags- og byggingarráð samþykkir deiliskipulagið þar sem brugðist hefur verið við athugasemdum, og að málinu verði lokið skv. 43. gr. skipulagslaga 123/2010. Skipulags- og byggingarráð tekur undir svör skipulags- og byggingarsviðs með áorðnum breytingum og gerir þau að sínum.“ Var athugasemdum kærenda svarað með bréfi sama dag og þar tekið fram hverjar breytingar hefðu verið gerðar að teknu tilliti til athugasemdanna. Var breyting á deiliskipulaginu samþykkt af bæjarstjórn 2. október 2013 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 6. nóvember s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að fyrirhuguð bygging við Austurgötu 22 standi við hlið húss kærenda að Austurgötu 24 og tilheyri því Austurgötu en ekki Linnetsstíg. Því ætti að taka mið af húsum við Austurgötu en ekki aðeins húsi eða húsum við Linnetstíg. Sé stærð og ásýnd fyrirhugaðra bygginga að Austurgötu 22 ekki í neinu samræmi við núverandi götumynd. Að auki sé aðeins gert ráð fyrir sex bílastæðum á fyrirliggjandi teikningu og þar af einu stæði fyrir fatlaða, en kærendur telji það of lítið. Nú þegar séu vandræði með bílastæði við götuna. Í svari Hafnarfjarðarbæjar sé bent á að bílastæði í miðbæ Hafnarfjarðar geti nýst allri umferð um götur með aðkomu frá Strandgötu. Hins vegar hafi Austurgata ekki aðkomu frá Strandgötu heldur Linnetstíg og sé ekki hægt að ætla íbúum Austurgötu að nýta bílastæði í miðbæ Hafnarfjarðar. Loks líti kærendur svo á að athugasemdum þeirra hafi ekki verið svarað þar sem í svarbréfi sveitarfélagsins hafi einungis verið tekið tillit til tveggja þeirra athugasemda sem kærendur hafi haft í frammi, auk þess sem í svarbréfinu sé eingöngu fjallað um aðra þeirra tveggja lóða sem um ræðir.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að lóðirnar Austurgata 22 og 22b hafi samkvæmt skipulagsbreytingunni verið sameinaðar í eina lóð. Hafi ekki borist neinar athugasemdir vegna þeirrar sameiningar. Fyrirhugaðar nýbyggingar á lóð Austurgötu 22 muni ekki hafa áhrif á götumynd Austurgötu þar sem þær muni standa innarlega á lóðinni en ekki út við götu. Að auki haldist klettur við götu óbreyttur. Séu nýbyggingarnar lægri en hús á horni Austurgötu og Linnetsstígs. Hvað varði bílastæði sé í gildandi deiliskipulagi Hafnarfjörður, miðbær 2000, gert ráð fyrir einu bílastæði á hverja íbúð en fyrirhugað sé að reisa þar sex íbúðir. Að auki muni bílastæði fyrir fatlaða tilheyra einni íbúðinni. Þá sé tekið fram að við meðferð deiliskipulagsbreytinganna hafi verið komið til móts við athugasemdir kærenda.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er skírskotað til þess að fyrirhugaðar nýbyggingar séu ekki hærri en nærliggjandi hús við Austurgötu sem séu tveggja hæða. Þetta sé svipað fyrirkomulag og á húsi sem áður hafi staðið á lóðinni Austurgötu 22b en verið rifið árið 2006. Sé gert ráð fyrir sex 80 m2 íbúðum í fyrirhuguðum húsum á lóðinni. Samkvæmt skipulagi sé bílastæðaþörf fyrir þessa stærð íbúða eitt stæði á hverja íbúð og sé af þeim sökum gert ráð fyrir sex bílastæðum fyrir lóðina, þar af einu fyrir hreyfihamlaða. Geti það ekki talist óeðlilegt að litlum íbúðum í miðbæ fylgi eitt stæði og varla sé hægt að ætlast til þess að eigendur lóðarinnar útvegi stæði fyrir nærliggjandi þjónustu eða íbúðir. Sé ekki sanngjarnt að reikna með því að meint bílastæðavandræði verði leyst á kostnað lóðareiganda Austurgötu 22. Sú lóð sé að nokkru leyti skorin frá götumyndinni þar sem stór klettur sé á milli Austurgötu 22 og 24. Fyrirhuguð hús muni standa aðeins innar í lóðinni en flest hús við Austurgötu til að hægt sé að nýta hluta lóðarinnar fyrir bílastæði. Að öðru leyti muni húsin falla vel að götumynd Austurgötu. Hafi deiliskipulagið verið lengi í vinnslu og unnið í góðri samvinnu við bæjaryfirvöld. Hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem borist hafi og tillögunni breytt með hliðsjón af þeim. Byggingarmagn hafi verið minnkað og lögun bygginga breytt, m.a. til að sjónlínur myndu haldast frá Strandgötu að Fríkirkjunni við Austurgötu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar á breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóðanna Austurgötu 22 og Strandgötu 19.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið og bera ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti, þ.m.t. götumynd. Með hliðsjón að framangreindu verður að líta svo á að ákvörðun um götumynd lúti fyrst og fremst skipulagslegum markmiðum sem eru á forræði sveitarfélaga fremur en lögvörðum hagsmunum einstaklinga.
Hin umdeilda tillaga var auglýst til kynningar og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar. Afstaða var tekin til athugasemda kærenda og þeim svarað auk þess sem nokkuð tillit var tekið til þeirra við endanlega afgreiðslu breytingartillögunnar. Samþykkt tillaga var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Var málsmeðferð því lögum samkvæmt.
   
Loks er hvorki að finna í lögum eða reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða. Á uppdrætti deiliskipulagsins Hafnafjörður, miðbær 2000, var ekki gert ráð fyrir bílastæðum á greindum lóðum en í greinargerð með deiliskipulaginu segir varðandi umrætt skipulagssvæði að fyrir nýjar íbúðir sé gerð krafa um eitt bílastæði fyrir hverja íbúð en að öðru leyti sé ekki gert ráð fyrir breytingum á bílastæðakröfum. Hin umþrætta deiliskipulagsbreyting gerir ráð fyrir einu bílastæði á hverja íbúð og fer því ekki í bága við almenna skilmála gildandi deiliskipulags á svæðinu.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar frá 2. október 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulaginu Hafnarfjörður, miðbær 2000, vegna lóða nr. 22 og 22b við Austurgötu og nr. 19 við Strandgötu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

16/2013 Búðavað

Með

Árið 2014, mánudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 16/2013, kæra á afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Búðavaði 4, Reykjavík, afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. janúar 2013 á beiðni um breytingu á deiliskipulagi Norðlingaholts vegna gestabílastæða við Búðavað 4, 6 og 8 í Reykjavík.  Krefjast kærendur þess að afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs verði hnekkt.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá sveitarfélaginu 12. apríl 2013.

Málsatvik: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 26. október 2012 var tekin fyrir beiðni kærenda um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi fyrir Norðlingaholt um gestabílastæði við Búðavað. Var erindið afgreitt neikvætt með vísan til svohljóðandi umsagnar skipulagsstjóra: „Fyrirspurnin hefur breyst mikið frá upphaflegri fyrirspurn íbúa dags. 8. ágúst 2011. Upphaflega var óskað eftir heildstæðri breytingu með því að fella niður öll gestabílastæði norðanmegin götu en nú er óskað eftir að fella aðeins niður þrjú gestastæði sem liggja að lóðunum nr. 4, 6 og 8 við Búðavað. Á þessum lóðum hefur ekki verið framkvæmt í samræmi við samþykkt deiliskipulag hvað varðar lóðarfrágang og fjölda bílastæða inn á lóð.“ Var niðurstaða skipulagsstjóra eftirfarandi: „Í ljósi þess að lítið er eftir að upphaflegri heildarhugmynd og að einungis náðist samstaða um að fella niður tvö samliggjandi stæði og síðan eitt er ekki fallist á að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirspurnina.“

Með bréfi kærenda til skipulagsráðs, dags. 6. janúar 2013, var þess krafist að skipulagsstjóri léti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem fæli í sér að gestabílastæði við Búðavað 4, 6 og 8 yrðu felld út af deiliskipulagi. Þá var farið fram á að málið yrði lagt fyrir skipulagsráð til formlegrar afgreiðslu. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 16. janúar 2013. Var fært til bókar að lagt væri fram málskot kærenda og að fyrri afgreiðsla skipulagsstjóra frá 26. október væri staðfest. Hafa kærendur kært þá afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að við Búðavað séu 22 íbúðir og við þær séu 44 bílastæði. Sunnan við götuna, framan við Búðavað 2-6, séu jafnframt 14 gestabílastæði og einnig sé gert ráð fyrir 8 gestabílastæðum inn á lóðum við norðanverða götuna. Að hafa svo mörg bílastæði í götunni gangi gegn þeirri áherslu sem fram komi í aðalskipulagi Reykjavíkur um að borgin eigi að vera vistvæn, leggja eigi áherslu á almenningssamgöngur og greiða fyrir hjólreiðum. Þá sé heimilt samkvæmt aðalskipulagi að víkja frá kröfum um fjölda bílastæða í deiliskipulagi. Yrði fallist á umbeðna breytingu yrðu 19 gestabílastæði við götuna og hlutfall bílastæða á íbúð 2,8. Hafi allir eigendur fasteigna við Búðavað samþykkt umrædda breytingu en sveitarfélagið hafi hvorki svarað því hvers vegna vilji íbúa hafi ekki verið virtur né vísað til laga eða reglugerða máli sínu til stuðnings. Hagsmunir íbúa við Búðavað 4, 6 og 8 af því að losna við gestabílastæðin af lóðum sínum séu mikil og beri borginni að vega og meta þá hagsmuni. Geri samþykktar teikningar af húsum við norðanverða götuna ráð fyrir mjög stórum forstofuglugga rétt fyrir framan gestabílastæðin. Muni það fela í sér veruleg óþægindi fyrir íbúa þessara húsa að fá gestabílastæði þremur metrum frá slíkum gluggum.
 
Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ætíð hafi verið litið á erindi kærenda sem fyrirspurn en ekki umsókn. Afgreiðsla skipulagsfulltrúa frá 26. október 2012 hafi verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hafi Reykjavíkurborg óskað eftir frávísun málsins þar sem ekki hafi verið um kæranlega stjórnsýsluákvörðun að ræða. Í framhaldi af því hafi kærendur dregið kæru sína til baka. Hafi skipulagsyfirvöld fundað með kærendum og bent þeim á að hægt væri að skjóta málinu til umhverfis- og skipulagsráðs sem þeir hafi og gert. Enda þótt ráðið hafi staðfest fyrri afgreiðslu embættismanna liggi það eigi að síður fyrir að hér hafi einungis verið um neikvætt svar við fyrirspurn að ræða. Kærendum hafi verið bent á að þeir geti sótt formlega um umrædda breytingu en því hafi þeir hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á beiðni um að fallið yrði frá áformum í deiliskipulagi Norðlingaholts um nánar greind gestabílastæði við Búðavað. Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur landeigandi óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Hins vegar var fjallað um erindi kærenda, dags. 6. janúar 2013, í umhverfis- og skipulagsráði hinn 16. janúar 2013, undir D–lið ýmis mál, sem málskot, sbr. bókun ráðsins þess efnis að um málskot væri að ræða og að fyrri afgreiðsla ráðsins frá 26. október væri staðfest. Var fundargerð ráðsins lögð fram á fundi borgarráðs 17. s.m. þar sem bókað var að B-liður væri samþykktur en hvorki var fjallað um D-lið fundargerðarinnar né afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á erindi kærenda. Bera bókanir umhverfis- og skipulagsráðs það með sér að erindi kærenda var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn en ekki sem beiðni um breytingu á deiliskipulagi.
 
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál. Erindi sem afgreitt er sem fyrirspurn getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir. Ljóst er, með hliðsjón af orðalagi erindis kærenda frá 6. janúar 2013, að gerð var krafa um að erindið hlyti formlega afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs. Erindi kærenda hefur ekki hlotið slíka afgreiðslu eins og áður er rakið. Þar sem málið hefur ekki verið til lykta leitt verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til framangreinds lagaákvæðis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir

114/2012 Suðurgata

Með

Árið 2013, föstudaginn 27. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 114/2012, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. október 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð húss nr. 18 við Suðurgötu í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. október 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra F, G, S og H, Suðurgötu 18, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 3. október 2012, er staðfest var í borgarráði 4. s.m., að synja gerð fjögurra bílastæða fyrir framan húsið nr. 18 við Suðurgötu.  Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að henni verði breytt á þann veg að veitt verði heimild til að gera þrjú bílastæði á framlóð hússins. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 10. febrúar 2012 var lögð fram fyrirspurn f.h. íbúa Suðurgötu 18 um möguleika á að koma fyrir bílastæðum á lóðinni í samræmi við framlagða tillögu.  Var erindið afgreitt neikvætt og talið að það samræmdist ekki deiliskipulagi með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 10. febrúar s.á.  Ný fyrirspurn um gerð bílastæða á umræddri lóð var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 23. maí 2012 en einnig var lagt fram minnisblað framkvæmda- og eignasviðs, dags. 20. mars s.á., og umsögn skipulagsstjóra, dags. 21. maí s.á.  Var umsögn skipulagsstjóra samþykkt og honum jafnframt falið að yfirfara bílastæðamál við Suðurgötu í samráði við samgöngustjóra.  Í umsögninni kom fram að fyrirspurninni fylgdu þrjár tillögur, ein er sýndi fjögur bílastæði fremst á lóð, ein er gerði ráð fyrir þremur bílastæðum efst í lóð, með innkeyrslu um stíg er liggur upp að Suðurgötu 20, og loks tillaga er sýndi þrjú bílastæði framan við hús með aðkomu um nefndan stíg.  Var lagt til að tekið yrði jákvætt í að vinna deiliskipulagsbreytingu á kostnað lóðarhafa þar sem heimiluð yrðu þrjú bílastæði á baklóð með aðkomu um stíg á lóðarmörkum Suðurgötu 18 og 22. 

Hinn 14. ágúst 2012 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð hússins nr. 18 við Suðurgötu.  Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til skipulagsráðs er afgreiddi umsóknina á fundi hinn 3. október s.á. með svofelldri bókun:  „Synjað. Umsækjanda er bent á bókun skipulagsráðs frá 23. maí 2012.“  Borgarráð staðfesti greinda afgreiðslu hinn 4. s.m. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að deiliskipulag fyrir Suðurgötureit geri bæði ráð fyrir bílastæðum á baklóðum og eins fyrir framan hús.  Breyting á deiliskipulagi sé því óþörf.  Að auki sé um minni háttar breytingu frá núverandi ástandi að ræða og sé hún í samræmi við það sem Reykjavíkurborg hafi þegar samþykkt varðandi staðsetningu bílastæða við hús á svæðinu.  Að mati kærenda séu bílastæði á baklóð hússins lakasti kosturinn og hafi t.d. í för með sér aukið ónæði.  Þá hafi húseigendur við Suðurgötu 20 og 22 sett sig upp á móti þeirri leið.  Hugnist öllum hlutaðeigandi að bílastæði verði á framlóð hússins, sunnan megin, svo sem eigi við um flest hús við götuna, með aðgangi um stíg sem sé á milli húsa nr. 18 og 22. 

Kærendur byggi á því að gerð bílastæða á eignarlóð sé ekki mannvirkjagerð í skilningi 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og þurfi því ekki byggingarleyfi.  Reykjavíkurborg hafi leyft bílastæði fyrir framan flest hús götunnar.  Verði borgin við ákvarðanatöku að virða jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Reykjavíkurborg hafi einnig veitt sérstakt leyfi fyrir bílastæðum framan við hús nr. 10 og 22 við götuna, en hús nr. 22 sé við hlið húss kærenda.  Jafnframt hafi Reykjavíkurborg liðið óleyfisframkvæmdir í áratugi við bílastæði fyrir framan hús við götuna og hafi auk þess lækkað gangstéttir við slíkar innkeyrslur og þannig í raun samþykkt þær. 

Vísað sé til þess að áhöld séu um eignarheimild og afnotarétt að þeim stíg sem skilji að hús kærenda og Suðurgötu 22 en ljóst sé að hús nr. 18 eigi ekki eitt aðgang að stígnum.  Engin bílastæði séu við hús kærenda og þurfi að leggja bifreiðum út á Suðurgötu við fermingu og affermingu þeirra.  Öryggi íbúa hússins og annarra vegfaranda sé þannig stefnt í hættu.  Þá séu engin almenn bílastæði við götuna og hafi kærendur m.a. lagt bílum sínum við Kirkjugarðsstíg, en þar hafi Reykjavíkurborg nú úthlutað sendiráði tveimur merktum bílastæðum, sem kærendur geti því ekki nýtt sér lengur.  Jafnframt sé á það bent að umsögn skipulagsstjóra taki ekki til þeirra krafna sem gerðar séu um aðgang og fram komi í gr. 6.2.1., 6.2.2., 6.2.5. og 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Einnig samrýmist hin kærða ákvörðun ekki gr. 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjölda bílastæða.  Þá sé óásættanlegt að binda fjölda bílastæða við þrjú, en þrjár íbúðir séu í húsinu, og vanti stæði fyrir gesti og hreyfihamlaða. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kærenda í máli þessu verði hafnað.  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að umsókn kærenda sé verulega frábrugðin upphaflegum tillögum.  Ekki sé fallist á að deiliskipulagið heimili bílastæði á umræddri lóð.  Þá segi og í skipulaginu að sögulegt gildi byggðar á þessu svæði sé mikið og að mikilvægt sé að Reykjavíkurborg standi vörð um það.  Einnig segi þar að reiturinn sé fullbyggður og að í flestum tilvikum verði sem minnst hróflað við byggingum fyrir utan eðlilegt viðhald þeirra og lóða.  Ennfremur sé bent á að í umsögn skipulagsstjóra, sem vísað hafi verið til við afgreiðslu umsóknarinnar, komi fram að sú tillaga er sýni bílastæði á baklóð samræmist best markmiðum deiliskipulagsins.

Gerð bílastæða sé byggingarleyfisskyld framkvæmd.  Bílastæði teljist til mannvirkis í skilningi gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og skv. gr. 4.3.1. skuli tilgreina fjölda bílastæða á aðaluppdrætti og gera sérstaklega grein fyrir hvernig hann samræmist kröfum í deiliskipulagi og byggingarreglugerð.  Einnig skuli skv. gr. 4.3.9. gera grein fyrir heildarfjölda bílastæða í byggingarlýsingu. 

Ekki sé fallist á að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin á kærendum en fallist hafi verið á gerð bílastæða bak við hús þeirra, eins og kærendur hafi á sínum tíma lagt til.  Aðstæður á lóðum geti verið mismunandi og ekki sjálfgefið að lóðarhafar í miðborginni fái samþykkt bílastæði þar sem þeir helst kjósi.  Vissulega séu samþykkt einhver bílastæði á flestum lóðunum samkvæmt deiliskipulaginu en aðeins á tveimur stöðum séu sýnd bílastæði á austurhluta lóða, en þau hafi þegar verið samþykkt þegar deiliskipulagið hafi tekið gildi.  Annars staðar séu bílastæði aftar í lóðum yfirleitt í tengslum við bílgeymslur og þau séu ekki sýnd á deiliskipulagsuppdrætti.  Þetta þýði þó ekki endilega að slíku verði við komið á öllum lóðum við Suðurgötu.  Bílastæði sem sett hafi verið í óleyfi annars staðar skapi ekki rétt til handa kærendum í málinu.  Hafi lóðarhöfum sem byggt hafi bílastæði í óleyfi verið send bréf þar sem þeim sé gert að gera grein fyrir bílastæðunum.  Verði gatan í framhaldinu skoðuð í heild m.t.t. bílastæðamála. 

Þá verði ekki fallist á að eingöngu bílastæði framan við húsið geti uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar og skipulagsreglugerðar um bílastæði.  Jafnframt sé bent á að ekki séu gerðar neinar kröfur í lögum eða reglugerðum um gestastæði eða stæði fyrir hreyfihamlaða á þegar byggðum lóðum í grónum hverfum borgarinnar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um staðsetningu bílastæða á lóðinni nr. 18 við Suðurgötu.  Umrædd lóð er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag staðgreinireits 1.161, er staðfest var af umhverfismálaráðherra hinn 26. ágúst 1993.  Á gildandi deiliskipulagsuppdrætti eru sýndar merkingar fyrir bílastæði, t.d. framan við hús nr. 10 og 22 við Suðurgötu, en ekki liggur fyrir hvort merkingar þessar styðjist við samþykktir sveitarstjórnar.  Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 21. maí 2012, kemur fram að samkvæmt byggingarnefndarteikningum séu á flestum lóðum samþykkt einhver bílastæði og á sumum lóðum séu bílastæði framan við bílgeymslur.  Þá er tiltekið að aðeins Suðurgata 16, 18, 24 og 26 hafi ekkert samþykkt bílastæði, en að gerð hafi verið bílastæði á nokkrum lóðum án heimildar og séu einkum áberandi bílastæði á lóð Suðurgötu 24 og bílastæði í garði Suðurgötu 16. 

Í deiliskipulaginu segir að reiturinn sé í raun fullbyggður og að lagt sé til að í flestum tilvikum verði sem minnst hróflað við byggingum, fyrir utan eðlilegt viðhald bygginga og lóða, og haldið í margbreytilegt svipmót reits í ströngum ramma.  Gert sé m.a. ráð fyrir að leyfa megi minni háttar breytingar, svo sem kvista, svalir, garðstofur og smærri viðbyggingar, sem færi íbúðir nær nútíma hýbýlaháttum og bæti aðstöðu íbúa.  Fara skuli varlega í allar útlitsbreytingar og hugað að listrænu gildi húsa.  Tilgreint er að hugsa mætti sér einhverjar bakbyggingar á Suðurgötulóðum, e.t.v. yfirbyggð bílastæði.  Þá segir eftirfarandi:  „Bílastæði eru á einkalóðum og í götustæðum.  Suðurgata er þröng tvístefnugata, þar sem erfitt er að stöðva bíla.  Á nokkrum lóðum hefur verið gengið frá missnotrum bílastæðum á austurhluta lóðar, þar sem áður voru gróskumiklir garðar.  Æskilegt væri að leggja bílum á baklóðum í vestri, þar sem því verður komið við, að öðrum kosti þarf að vanda og samræma frágang bílastæða við Suðurgötu.“ 

Verður framangreint orðalag deiliskipulagsins um bílastæði ekki túlkað með þeim hætti að girt sé fyrir staðsetningu bílastæða framan við hús í götunni.  Þess eru og dæmi að skipulagsyfirvöld borgarinnar hafi ekki amast við gerð bílastæða á lóðum við götuna til þessa.  Þá kunna nokkrir annmarkar að vera á því að staðsetja bílastæði á baklóð Suðurgötu 18 í ljósi vafa sem uppi virðist vera um eignarhald að þeim stíg sem nota þyrfti til að komast að þeim stæðum. 

Með vísan til þess er að framan greinir verður að telja að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að ógildingu varði. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. október 2012 um að synja umsókn um leyfi til að breyta fyrirkomulagi og staðsetja fjögur bílastæði á framlóð húss nr. 18 við Suðurgötu í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

32/2008 Suðurgata

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 13. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 32/2008, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu.  Jafnframt er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 29. apríl 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. maí 2008, er barst nefndinni 6. s.m., kærir Björgvin Þórðarson hdl., f.h. K, Suðurgötu 19, Hafnarfirði, samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 á breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu og ákvörðun bæjarstjórnar frá 29. apríl 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsákvörðun og ákvörðun um veitingu byggingarleyfis verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi og hefur því ekki komið til þess að taka þyrfti afstöðu til stöðvunarkröfunnar.

Málavextir:  Með auglýsingu birtri í Lögbirtingarblaðinu hinn 25. október 2007 auglýsti Hafnarfjarðarbær kynningu á breytingu á deiliskipulagi frá árinu 2002 fyrir Hafnarfjörð, miðbæ, svæði R4, skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærandi, ásamt öðrum aðilum, skilaði inn athugasemdum á kynningartíma sem var til 6. desember s.á.  Umrædd deiliskipulagsbreyting var samþykkt hinn 26. febrúar 2008 og birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 3. apríl s.á.

Ekki var í deiliskipulagi gert ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni nr. 18 við Suðurgötu fyrir hina umdeildu skipulagsbreytingu.  Kom fram í sérskilmálum fyrir lóðina að hún væri 229 m² og á henni væri 452,2 m² þjónustuhús á tveimur hæðum með risi.  Nýtingarhlutfall væri 1,98 og yrði aðkoma almennings og aðfanga frá Strandgötu.  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er lóðin stækkuð í 713,5 m², byggingarreitur stækkaður og hámarksgólfflötur byggingar á lóðinni heimilaður 1.700 m².  Byggja má við núverandi hús og endurbyggja það að hluta, en sunnan við kjallara er heimiluð einnar hæðar bygging.  Hámarksnýtingarhlutfall verður 2,38.  Bifreiðastæði innan lóðar verða átta en nokkrum bílastæðum við íþróttahús er breytt í rútustæði og bifreiðastæðum austan við íþróttahús fjölgað um fjögur.

Byggingarleyfishafi sótti hinn 14. apríl 2008 um leyfi til að rífa húsið við Suðurgötu 18 að mestu leyti og byggja á lóðinni 40 herbergja hótel í samræmi við framlagðar teikningar.  Var umsóknin tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 23. apríl 2008 og staðfest í bæjarstjórn 29. s.m.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar um byggingarleyfið.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að með hinni umdeildu hótelbyggingu sé útsýni frá húsi hans verulega skert og draga muni úr birtu og sól með auknu skuggavarpi í götunni.  Umferð á svæðinu, sem sé of mikil fyrir, muni aukast verulega á öllum tímum sólarhrings og ekki eingöngu við breytta aðkomu hússins að Suðurgötu 18.  Nú þegar sé veruleg starfsemi af allskyns toga á svæðinu, s.s. leikhús, hótel, íþróttahús og tónlistarskóli, sem stuðli að mikilli umferð á öllum tímum sólarhrings.  Þá verði að hafa í huga umferð um svæðið vegna Flensborgarskóla, St. Jósepsspítala og íbúðarhverfa fyrir ofan Suðurgötuna.  Akstur einka-, leigu- og bílaleigubíla auk rútubíla um svæðið sé nú þegar nægur þótt ekki bætist við 1.700 m² hótel með 40 herbergjum.  Við umrædda götu, og nærliggjandi götur, búi barna- og fjölskyldufólk og því sé aukin umferð afar óskynsamleg.  Loks sé á það bent að líklegt sé að helmingur þeirra níu bílastæða sem áætlað sé að fylgi hótelinu verði komin í notkun þegar starfsfólk hótelsins sé mætt til vinnu.

Jafnframt bendi kærandi á að umgangur á svæðinu muni aukast verulega.  Flug séu allan sólarhringinn og hótelum fylgi flugrútur, leigu- og bílaleigubílar.  Rekstri hótelsins sjálfs muni fylgja talsverð umferð og ónæði vegna þrifa á herbergjum og flutningi á þvotti, veitingum og birgðum, sem hafi í för með sér stöðuga umferð.  Jafnframt megi reikna með útleigu á aðstöðu fyrir ráðstefnur o.fl. og óraunhæft sé því að áætla að þeir sem sæki í þjónustu hótelsins tilheyri aðeins einum markhópi og séu allir miklir notendur almenningssamgangna.

Þá bendi kærandi á að hús Prentsmiðju Hafnarfjarðar að Suðurgötu 18 sé 60 ára gamalt, með langa og merkilega sögu sem eitt elsta iðnaðarhús bæjarins.  Það standi við götu með mörgum gömlum húsum þar sem íbúarnir hafi margir hverjir lagt talsvert á sig til að halda götumynd og útliti húsa í sinni upprunalegu mynd.  Skipulagsyfirvöld myndu enda leggjast gegn miklum breytingum á flestum þessara húsa.  Því sé algjörlega óásættanlegt að breyta prentsmiðjuhúsinu með því að hækka það og setja á það fjóra kvisti með svalagluggum, stækka það um 1.100 m², fjölga gluggum og byggja við það fjögurra hæða lyftuhús.

Framangreind upptalning, sem byggð sé á áralangri reynslu kæranda af sambýli við alla þá starfsemi sem þegar sé á svæðinu við Suðurgötu, leiði í ljós að starfsemi af þessari stærðargráðu sé ofaukið á umræddu svæði.

Loks telji kærandi augljóst, með vísan til ofanritaðs, að hið kærða deiliskipulag rýri verðmæti eignar hans og brjóti því gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að Suðurgata 18 sé skráð sem atvinnuhúsnæði og sé á miðbæjarsvæði Hafnarfjarðar.  Hótelrekstur sé hluti af miðbæjarstarfsemi og samræmist vel notkun annarra bygginga á umræddum reit.  Almennt sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum í tengslum við hótel í miðbæjum, s.s. fjöldi dæma sýni, bæði erlendis og í Reykjavík.  Einnig sé bent á að lenging á umræddu húsi hafi óveruleg áhrif á útsýni til vesturs.  Húsið hafi verið lækkað um 10 cm frá auglýstri tillögu.  Það sé nú 1,4 m hærra en íþróttahúsið en verði 2,2 m hærra en það eftir stækkun.  Hækkun Suðurgötu 18 skerði eitthvað útsýni af efstu hæðum húsa beint fyrir ofan, en skuggavarp sýni að skuggi vegna hækkunar þess nái vart inn á lóðir húsanna kl. 17:00 á jafndægrum.

Rétt hafi verið staðið að öllum afgreiðslum í umræddu máli.  Erindið hafi verið auglýst skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og kynningarfundur haldinn á auglýstum tíma.  Fundurinn hafi einnig verið boðaður með bréfum til íbúa allra húsa í nágrenninu.  Athugasemdir hafi borist og þeim verið svarað eftir bestu vitund.  Byggingarnefndarteikningar, sem samþykktar hafi verið 23. apríl 2008, séu í samræmi við samþykkta deiliskipulagsbreytingu. 

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að sérstakt tillit hafi verið tekið til byggðar við Suðurgötu og í næsta nágrenni þegar breytingar á umræddu húsnæði hafi verið hannaðar.  Margir íbúar í nágrenni lóðarinnar séu ánægðir með ætlaða starfsemi í húsinu.  Fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu og notkun þess hafi verið samþykktar einróma á öllum stigum stjórnsýslunnar, sem sé afar óvenjulegt fyrir skipulagsbreytingar í miðbæ.  Mótmæli kæranda séu ekki byggð á faglegum staðreyndum eða rökstuddum efnislegum ástæðum.

Bent sé á að samkvæmt samþykktum teikningum sé húsið 1.527 m² og nýtingarhlutfall 2,04, en í kæru sé ranglega sagt að húsið verði 1.700 m².  Ýmislegt hafi verið gert til að halda heildarsvip hverfisins og láta húsið falla sem best að umhverfi sínu.  Stærsta breytingin á húsinu sé stækkun þess til norðurs, á lóð við hlið hússins, en þessari lóð hafi verið úthlutað til stækkunar hússins árið 1958.  Jafnframt sé ástæða til að nefna að í húsinu verði eitt lítið fundarherbergi fyrir u.þ.b. sex til átta manns, en misskilnings gæti í andmælum kæranda þegar hann nefni að í húsinu verði 500 manna ráðstefnu- og fundaraðstaða, enda hafi á heimasíðu hótelsins verið auglýst að slíkur fjöldi myndi rúmast í íþróttahúsi, safnaðarheimilinu og tónlistarskólanum í miðbæ Hafnarfjarðar en ekki í aðstöðu hótelsins.

Hafa verði í huga við mat á fram komnum athugasemdum við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu að á undirskriftarlista þann er kærandi hafi útbúið hafi aðilar víðsvegar úr bænum ritað nafn sitt, auk íbúa í Kópavogi og Reykjavík.  Þau andmæli gefi ekki rétta mynd af afstöðu nágranna við umdeilt deiliskipulag. 

Rétt sé hjá kæranda að húsið sé gamalt en það sé jafnframt í slæmu ásigkomulagi.  Það sé ekki friðað en byggingarleyfishafi vilji halda því í upprunalegri mynd að mestu leyti.  Loks sé því mótmælt að sólskin og birta breytist.

Aðkoma að húsinu sé flutt niður fyrir það að Strandgötu þannig að aðkomu frá Suðurgötu verði lokað.  Það þýði að engin umferð verði Suðurgötumegin, sem hljóti að vera betra en núverandi fyrirkomulag samkvæmt eldra deiliskipulagi.  Bent sé á að verð íbúðarhúsnæðis sé oft hærra nær miðbæjum, líkt og í Reykjavík, þar sem ætíð sé mikil eftirspurn eftir húsnæði næst miðbæ.  Þingholtin og svæði með póstnúmer 101 séu t.a.m. með dýrari hverfum borgarinnar, en þar séu mörg hótel í góðu sambýli við byggðina í kring.  Hótel þyki góður kostur í nágrenni við íbúðarbyggð, enda séu hótel, og verði, svefn- og kyrrðarstaður þeirra sem þau sæki.  Því megi halda fram að umdeild breyting á deiliskipulagi lóðarinnar við Suðurgötu 18 muni gera hús í nágrenninu verðmætari og umhverfið meira aðlaðandi, enda sé um að ræða endurbyggingu gamals hrörlegs húss sem taki mið af einkunnum húsa í götumyndinni. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu skipulagsákvörðun er lóðin Suðurgata 18 stækkuð um hátt í 500 m² og verður hún 713,5 m2. Þá verður byggingarreitur stækkaður og samanlagður hámarksgólfflötur byggingar á lóðinni ákvarðaður 1.700 m².  Hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt skipulaginu verður 2,38.  Bílastæði innan lóðar eru átta en nokkrum bílastæðum við íþróttahús er breytt í rútustæði og stæðum austan við íþróttahús fjölgað um fjögur. Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er fyrirhugað hús á lóðinni 1.527 m2 og eykst byggingarmagn á henni um 1.075 m2. 

Umrædd deiliskipulagstillaga var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, kynningarfundur haldinn með íbúum, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um skuggamyndun, áður en ákvörðun var tekin í málinu.  Verður ekki séð að formlegri meðferð skipulagstillögunnar hafi að ráði verið ábótavant en þó hefðu gögn um skuggavarp mátt vera ítarlegri og sýna skuggavarp við fleiri tímamörk en gert var. 

Í deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, sem öðlaðist gildi hinn 19. október 2001, og breytt er með hinni kærðu ákvörðun, er kveðið á um bílastæði miðbæjarins.  Segir þar m.a. að á verslunar- og þjónustusvæðum miðbæjarins séu öll bílastæði til almennrar notkunar fyrir svæðið í heild.  Segir þar einnig að fyrir nýtt verslunar- og þjónustuhúsnæði skuli reikna eitt bílastæði fyrir hverja 50 m², en fyrir hvert stæði utan lóðar skuli koma gjald í bifreiðastæðasjóð.  Átti þetta fyrirkomulag sér nokkra stoð í þágildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 1995-2015 þar sem sagði að á ýmsum stöðum væri hægt að reikna með samnýtingu bifreiðastæða, einkum á miðsvæðum, og að í eldri hverfum væri hægt að víkja frá reglum skipulagsins um bifreiðastæði ef til þess lægju önnur veigamikil skipulagsleg sjónarmið.

Þegar bæjaryfirvöld samþykktu hina kærðu skipulagsákvörðun hinn 26. febrúar 2008 var tilvitnað aðalskipulag ekki lengur í gildi.  Þess í stað gilti þá Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025, en þar segir að bifreiðastæðaþörf skuli almennt vera leyst innan lóðar.  Er ekki að finna í greinargerð þess skipulags ákvæði um samnýtingu bílastæða á miðsvæðum eða önnur ákvæði er sérstaklega lúta að lausn á bílastæðaþörf slíkra svæða.  Segir hins vegar í greinargerð þess að varðandi bílastæði á atvinnu- og þjónustulóðum sé vísað til 3. kafla skipulagsreglugerðar. 

Að því marki sem hinar kærðu ákvarðanir heimila aukið byggingarmagn á umræddri lóð verður við það að miða að þörf fyrir bílastæði vegna aukningarinnar verði leyst innan lóðar í samræmi við gildandi reglur um fjölda bílastæða.  Í greinargerð með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, sem færð er inn á uppdrátt að breytingunni, segir aðeins að átta bílastæði verði á lóðinni.  Þá segir að nokkrum bílastæðum við íþróttahús verði breytt í rútustæði en bílastæðum austan við það verði fjölgað um fjögur.  Bílastæðum fækki um þrjú frá því sem verið hafi.

Ljóst er að hvorki er fullnægt kröfum skipulagsreglugerðar né aðalskipulags um fjölda bílastæða fyrir umdeilda nýbyggingu samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.  Í 7. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segir þó að unnt sé að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt sé fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.  Hafa bæjaryfirvöld vísað til þess að almennt sé ekki gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hótel í miðbæjum og vísa jafnframt til athugunar sem gerð hafi verið á umferð um reitinn á álagstímum.  Þrátt fyrir þessar ábendingar verður hins vegar ekki talið að bílastæðaþörf vegna fyrirhugaðrar starfsemi sé minni en gengur og gerist um ýmsa þjónustustarfsemi eða að hún sé svo óveruleg að leysa megi hana með átta bílastæðum innan lóðar.  Samræmist hin kærða deilskipulagsbreyting því hvorki ákvæðum skipulagsreglugerðar né skilmálum þess aðalskipulags sem við á og verður hún því felld úr gildi.

Samþykkt sveitarstjórnar um að veita hið kærða byggingarleyfi var gerð hinn 29. apríl 2008.  Í 5. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem giltu á þeim tíma, var kveðið á um að staðfesting sveitarstjórnar félli úr gildi ef byggingarleyfi hefði ekki verið gefið út innan 12 mánaða.  Þá sagði í 1. mgr. 45. gr. laganna að byggingarleyfi félli úr gildi ef framkvæmdir væru eigi hafnar innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli hinnar kærðu samþykktar um byggingarleyfi og er hún því fallin úr gildi samkvæmt framangreindum ákvæðum.  Verður kröfu um ógildingu hennar því vísað frá úrskurðarnefndinni.    

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:  

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 26. febrúar 2008 um að samþykkja  breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar varðandi lóðina nr. 18 við Suðurgötu.  Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar frá 29. apríl 2008, um að veita byggingarleyfi fyrir 40 herbergja hóteli á lóðinni, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Hildigunnur Haraldsdóttir

22/2010 Laugavegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010 um að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. apríl 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, f.h. stjórnar húsfélagsins að Laugavegi 86-94, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010 að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 9. mars 2010 var tekin fyrir umsókn húsfélagsins að Laugavegi 86-94 þar sem sótt var um leyfi til að loka bílastæðum á baklóð greindrar lóðar með slám.  Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra.  Hinn 12. mars s.á. var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi hans og eftirfarandi bókað:  „Neikvætt. Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. s.m. var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað. Samræmist ekki deiliskipulagi.“  Staðfesti borgarráð afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að þegar leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu hússins að Laugavegi 86-94 hafi á samþykktum teikningum verið sýndar slár bæði í innkeyrslu að baklóð hússins sem og bílakjallara í eigu Reykjavíkurborgar.  Hafi þetta fyrirkomulag meðal annars verið hugsað til þess að vernda aðgengi að einkabílastæðum íbúða á lóðinni.  Af hálfu bílastæðasjóðs hafi slárnar síðar verið færðar niður í kjallara.  Hafi þetta verið gert án þess að gerðar væru ráðstafanir til að einkabílastæði íbúða í húsinu yrðu vernduð.  Hvorki hafi verið sótt um þessa breytingu til byggingarnefndar né teikningum skilað inn svo sem skylt hafi verið.  Verið sé að rýra eign þeirra sem bílastæðin eigi, en almenningur og einkum nágrannar leggi bílum sínum í stæðin og hindri eigendur þeirra í að nota þau.  Hafi íbúar í nágrenninu ekki notkunarrétt á bílastæðum á lóðinni en benda megi á að engin bílastæði séu samþykkt á baklóðum húsa að Grettisgötu og Barónsstíg sem aðlæg séu lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg.  Hindri slárnar í engu gönguleið að þeim lóðum og megi frekar telja að umrædd breyting auðveldi aðgengi íbúanna að lóðum sínum.  Þá bendi kærandi ennfremur á að slárnar hafi verið færðar án samþykkis meðeigenda bílastæðasjóðs að lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg.  Slárnar hafi þegar verið settar upp í góðri trú.  Hafi það aðeins verið gert til að eigendur íbúða að Laugavegur 86-94 kæmust að bílastæðum sínum.  Gera verði þá kröfu að slárnar fái að vera þannig að eigendurnir verði ekki fyrir óþægindum þegar þeir ætli að leggja bílum sínum. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld krefjast þess að kröfu kæranda verði hafnað.  Sé á því byggt að ekki hafi verið gert ráð fyrir því á samþykktum aðaluppdráttum lóðarinnar að aðkomu að baklóð Laugavegar 86-94 yrði lokað með slám, líkt og haldið hafi verið fram.  Fram komi á greindum uppdráttum að bílaplan á lóðinni skuli vera aðgengilegt fyrir slökkvilið og sorpbíla og sé kvöð um aðgengi að baklóðinni á uppdráttum. 

Ekki sé heldur heimild fyrir hliðlokunum í samþykktu deiliskipulagi fyrir skipulagsreitinn.  Í umræddu skipulagi, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 30. apríl 2002, hafi fyrra ástandi á „opnu svæði“ í engu verið breytt gagnvart lóðarhöfum og aðgengi að baklóðum þeirra á engan hátt verið skert.  Hafi byggingarfulltrúa verið heimilt að synja umsókn um byggingarleyfi þar sem uppsetning slánna sé ekki í samræmi við deiliskipulag. 

Bent sé á að þegar hafi verið settar upp slár sem loki aðgengi að baklóðinni, en mannvirki af þessu tagi sé byggingarleyfisskylt samkvæmt ákvæðum 11. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Ekki verði heldur fallist á þau rök að íbúum Laugavegar 86-94 sé nauðsyn að loka aðgengi að baklóðinni til að verja bílastæði sín umfram aðrar lóðir í Reykjavík. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um réttmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa að synja umsókn kæranda um að setja upp slár er loka fyrir umferð ökutækja annarra en íbúðareigenda Laugavegar 86-94 að bílastæðum á baklóð. 

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.174.3.  Deiliskipulagið er að stofni til frá árinu 2002 en samþykktar hafa verið nokkrar breytingar á því.  Var m.a. sú breyting gerð á skipulaginu á árinu 2003 að heimilað var að byggja fjögurra hæða nýbyggingu á lóðinni nr. 86-94 við Laugaveg, auk bílgeymslu neðanjarðar á allt að fjórum hæðum undir nýbyggingunni og undir baklóð (bílastæði) Reykjavíkurborgar.  Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins frá 2002 er kvöð á greindri lóð þess efnis að göngustígur og akstursleið skuli vera að bílastæði á baklóð.  Segir þar einnig að gert sé ráð fyrir að bílastæðið verði endurgert og allt útlit þess bætt og verður ekki annað ráðið af skipulaginu en að umrætt bílastæði sé á sérgreindri lóð í eigu Reykjavíkurborgar.  Samræmist það ekki gildandi skipulagi að stýra aðkomu ökutækja að umræddu bílastæði á baklóð með slám og var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn um leyfi til að loka henni með slám, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. mars 2010, sem borgarráð staðfesti hinn 18. s.m., um að synja umsókn um leyfi til að loka með slám fyrir aðkomu ökutækja að bílastæðum á bakvið húseignina nr. 86-94 við Laugaveg. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________                   ________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

59/2011 Þverholt

Með

Ár 2011, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2011, beiðni um úrskurð um leyfisskyldu framkvæmda við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2011, er barst nefndinni 29. s.m., fer S, íbúi að Urðarholti 7 í Mosfellsbæ, fram á að úrskurðað verði um að framkvæmdir við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ séu leyfisskyldar.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar en þar sem þær voru að mestu afstaðnar þegar erindi málshefjanda barst var ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu. 

Mál þetta sætir meðferð samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Málsatvik og rök:  Í lok aprílmánaðar 2011 munu framkvæmdir hafa byrjað við stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6, en þar er rekin bílasala.  Liggur fasteign málshefjanda að nefndri lóð.  Í kjölfarið spurðist hann fyrir um framkvæmdirnar hjá byggingaryfirvöldum bæjarins, m.a. í bréfi, dags. 23. maí 2011, og mótmælti þeim.  Svar barst frá byggingarfulltrúa bæjarins í bréfi, dags. 3. júní s.á., þar sem sú afstaða kom fram að greindar framkvæmdir væru hvorki leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum né mannvirkjalögum og kölluðu ekki á breytingar á skipulagi.  Málshefjandi, sem er eigandi íbúðar á jarðhæð fjölbýlishússins að Urðarholti 7, kærði framkvæmdirnar til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 6. júlí 2011 með þeim rökum að ekki lægi fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu.  Í kjölfar þess barst úrskurðarnefndinni erindi málshefjanda svo sem að framan greinir.

Málshefjandi vísar til þess að umdeildar breytingar á lóðinni að Þverholti 6 raski grenndarhagsmunum hans en með þeim séu sett bílastæði að lóðarmörkum Þverholts 6 er snúi að fasteign hans.  Breytingar þessar muni hafa í för með sér útsýnisskerðingu, aukið ónæði og muni auk þess takmarka afnot málshefjanda af fasteign hans, svo sem við að koma sólpalli fyrir í því horni lóðar sem snúi að fyrirhuguðu bílastæði.  Þá valdi breytingarnar því að fasteign hans verði ekki jafn söluvæn og áður.  Með framkvæmdunum sé því farið gegn reglum eignar- og grenndarréttar.

Umdeildar framkvæmdir hljóti að teljast byggingarleyfisskyldar, sbr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gerð bílastæða sé háð samþykki byggingarnefndar, sbr. grein 64.11 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Ekki verði séð að þargreindar undantekningar eigi við í máli þessu.  Vísað sé sérstaklega í c-lið greinar 2.3.5 í drögum að nýrri byggingarreglugerð þar sem komi skýrt fram að breyting á hæð lóðar, sem valdi skaða eða skerði hagsmuni nágranna, sé óheimil án samþykkis útgefanda byggingarleyfis og lóðarhafa viðkomandi nágrannalóðar.  Það ákvæði eigi hér við þar sem hæð jarðvegs á lóðamörkum Þverholts 6 og fasteignar málshefjanda hafi verið gjörbreytt málshefjanda til tjóns.  Hér megi vísa í úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 61/2009 en þar hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að uppsetning á hliði og grindverki á lóðarmörkum væri byggingarleyfisskyld, m.a. í ljósi ákvæða byggingarreglugerðar og vegna þess hve mikil áhrif grindverkið hafi haft á umferð og aðkomu að lóð.  Það sé mat málshefjanda að umræddar framkvæmdir við Þverholt 6 hafi jafn mikil, ef ekki meiri, áhrif á gæði eignar hans en framkvæmdir þær sem um sé fjallað í nefndum úrskurði.  Þá séu áhöld um hvort breytingarnar samræmist skipulagi en engin grenndarkynning hafi farið fram vegna þeirra.  Breytingar á lóð Þverholts 6 fari því einnig í bága við skipulagslög nr. 123/2010.

Af hálfu byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar hefur verið áréttuð sú skoðun, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 3. júní 2011, að greindar framkvæmdir séu ekki þess eðlis að þær kalli á nýtt skipulag eða séu háðar formlegum leyfum samkvæmt skipulagslögum eða mannvirkjalögum.  Verið sé að ganga betur frá norðurhluta lóðarinnar með því að slétta hana og sá og planta gróðri.  Ekki sé fyrirhugað að auka umsvif eða aðstöðu þess atvinnurekstrar sem þar sé fyrir.  Malbikað svæði á norðvesturhluta lóðarinnar verði stækkað og með því skapaður möguleiki fyrir stöðu lítilla bíla en sú stækkun nái ekki að mörkum lóðar málshefjanda.

Lóðarhafi Þverholts 6 bendir á að um sé að ræða sjálfsagða framkvæmd vegna eðlilegrar hagnýtingar á umræddri lóð.  Almennt hafi lóðarhafi fulla heimild til framkvæmda innan lóðarmarka án þess að nágrannar eigi íhlutunarrétt í því efni.  Alltaf fylgi visst óhagræði og ónæði því að búa og starfa í þéttbýli og fólk verði að sætta sig við eðlilega hagnýtingu og starfsemi á nágrannalóðum.  Sú framkvæmd sem hér um ræði sé innan allra marka og með leyfi byggingaryfirvalda og eigi kærandi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna umdeildra breytinga á lóðinni að Þverholti 6.

Vettvangsskoðun.  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 2. september 2011.

Niðurstaða:  Breytingar þær á lóðinni að Þverholti 6 sem hér eru til umfjöllunar fela í sér að fyllt er upp í hluta fláa á henni norðvestanverðri er snýr að lóð málshefjanda og liggur nálægt mörkum lóðanna.  Um er að ræða tiltölulega mjóa ræmu sem jöfnuð er að hæð malbikaðs plans á lóðinni og fyrirhugað er að malbika og nota undir bílastæði.  Að öðru leyti er hæð lóðarinnar ekki breytt en hún stendur nokkru hærra en lóð málshefjanda og er fyrrgreindur flái til þess ætlaður að jafna hæðarmun lóðanna.  Um þrír til fjórir metrar eru frá brún fyllingarinnar undir fyrirhuguð bílastæði að lóðamörkum fyrrgreindra fasteigna.

Hinn 11. desember 2008 var samþykkt byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni að Þverholti 6 og er þar tilgreindur fjöldi bílastæða á lóð og staðsetning þeirra sýnd á samþykktri afstöðumynd.  Hinn 18. janúar 2011 tók gildi deiliskipulag miðbæjar Mosfellsbæjar sem tekur til lóðarinnar að Þverholti 6.  Þar er gert ráð fyrir að núverandi hús víki en í þess stað rísi fjölbýlishús með bílakjallara.  Á deiliskipulagsuppdrætti eru ekki sýnd bílastæði á lóð.  

Staðsetning bílastæða á lóð getur haft áhrif á grenndarhagsmuni lóðarhafa aðlægra lóða.  Með umdeildri breytingu er verið að skapa rými fyrir bílastæði andspænis lóð málshefjanda, en slík stæði hafa ekki verið þar áður.  Er með því vikið frá staðsetningu bílastæða samkvæmt fyrrgreindu byggingarleyfi frá árinu 2008.

Samkvæmt gr. 18.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem enn er í gildi, er afstöðumynd mannvirkis hluti aðaluppdrátta og samkvæmt gr. 19.4 eru lóðauppdrættir meðal séruppdrátta er leggja skal fram áður en byggingarleyfi er gefið út.  Samkvæmt gr. 18.14 nefndrar reglugerðar skal á afstöðumynd m.a. sýna bílastæði á lóð.  Skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er að aðal- og séruppdrættir hafi verið yfirfarnir og leyfisveitandi áritað þá til staðfestingar.  Af þessum ákvæðum verður leidd sú niðurstaða að samþykkja þurfi breytingu á gildandi byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem víkja frá staðfestum aðaluppdráttum.  

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeild breyting á tilhögun bílastæða á lóðinni að Þverholti 6 sé háð byggingarleyfi samkvæmt mannvirkjalögum.

Úrskurðarorð: 

Umdeild breyting á tilhögun bílastæða á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ er  byggingarleyfisskyld.

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

47/2011 Þverholt

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 6. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2011, kæra vegna framkvæmda við breytingu og stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júní 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir S, íbúi að Urðarholti 7, Mosfellsbæ, framkvæmdir við breytingu og stækkun bílastæðis að Þverholti 6 í Mosfellsbæ.  Gerir kærandi þá kröfu að leyfi byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar fyrir hinum kærðu framkvæmdum verði fellt úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði á um stöðvun framkvæmda.  Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málsatvik og rök:  Í lok aprílmánaðar 2011 munu framkvæmdir hafa byrjað við stækkun bílastæðis á lóðinni að Þverholti 6, en þar er rekin bílasala.  Liggur fasteign kæranda að nefndri lóð.  Í kjölfarið spurðist kærandi fyrir um framkvæmdirnar hjá byggingaryfirvöldum bæjarins, m.a. í bréfi, dags. 23. maí 2011, og mótmælti þeim.  Svar barst frá byggingarfulltrúa bæjarins í bréfi, dags. 3. júní 2011, þar sem sú afstaða kom fram að umdeildar framkvæmdir væru hvorki leyfisskyldar samkvæmt skipulagslögum né mannvirkjalögum og kölluðu ekki á breytingar á skipulagi. 

Kærandi vísar til þess að umdeildar breytingar á lóðinni að Þverholti 6 raski grenndarhagsmunum hans með útsýnisskerðingu, auknu ónæði vegna reksturs bílasölunnar og takmarki auk þess afnot kæranda af fasteign hans, svo sem við að koma sólpalli fyrir í því horni lóðarinnar sem snúi að greindu bílastæði.  Þá valdi breytingarnar því að fasteign kæranda verði ekki jafn söluvæn og áður.  Umdeildar framkvæmdir brjóti í bága við 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, eða eftir atvikum 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, varðandi framkvæmdaleyfi og samþykki byggingaráforma auk þess sem farið sé gegn reglum eigna- og grenndarréttar.  Áhöld séu jafnframt um hvort umræddar framkvæmdir séu í samræmi við skipulag. 

Af hálfu byggingaryfirvalda Mosfellsbæjar hefur verið áréttuð sú skoðun, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda frá 3. júní 2011, að greindar framkvæmdir séu ekki þess eðlis að þær kalli á nýtt skipulag eða séu háðar formlegum leyfum samkvæmt skipulags- eða mannvirkjalögum. 

Niðurstaða:  Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ, dags. 3. júní 2011, sem sent var sem svar við fyrirspurnum kæranda til embættisins í tilefni af umdeildum framkvæmdum á lóðinni að Þverholti 6 í Mosfellsbæ. 

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður ákvörðunin að binda endi á meðferð máls sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum hefur ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun sveitarstjórnar á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010, eða kæranleg ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010, sem borin verður undir úrskurðarnefndina.  Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

15/2008 Austurbrún

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2008, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. desember 2007 um að samþykkja breytt deiliskipulag í Laugarási vegna lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. mars 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir Andri Árnason hrl., f.h. átta íbúa við Austurbrún 20-28, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. desember 2007 að samþykkja breytt deiliskipulag í Laugarási vegna lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 19. október 2007 var lögð fram umsókn lóðarhafa Austurbrúnar 26 um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar.  Fól umsóknin í sér stækkun lóðarinnar úr 385 í 404 m², þannig að borgarland sem nýtt væri sem bílastæði yrði gert að bílastæði er tilheyrði lóðinni að Austurbrún 26.  Var samþykkt að grenndarkynna umsóknina og stóð kynningin yfir frá 25. október til 22. nóvember 2007.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum. 

Í athugasemdum og svörum skipulagsstjóra, dags. 7. desember 2007 sagði m.a. eftirfarandi:  „Í ljósi viðbragða hagsmunaaðila á reitnum er ekki hægt að mæla með því að kynnt tillaga verði samþykkt þar sem um sameiginlegt gestabílastæði er að ræða og mun lóðarstækkun Austurbrúnar 26 þannig ganga á hagsmuni heildarinnar. … Lagt er því til að fallið verði frá kynntri tillögu og erindinu synjað.“ 

Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 19. desember 2007, þar sem eftirfarandi var bókað:  ,,Samþykkt með vísan til a liðar 12. gr. samþykktar um skipulagsráð.  Skipulagsráð tekur að mestu undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra en telur ástæðu til að samþykkja erindið með vísan til þess að aðliggjandi lóðarhafar hafa áður fengið sambærilegar lóðarstækkanir á kostnað göngustíga. Með vísan til þess og almennra sanngirnissjónarmiða telur skipulagsráð að málefnaleg sjónarmið hnígi til þess að samþykkja hina kynntu tillögu óbreytta.“  Auglýsing um gildistöku samþykktarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar 2008. 

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að í 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kveðið á um þá meginreglu að með breytingar á deiliskipulagi skuli fara sem um nýtt deiliskipulag sé að ræða.  Þannig beri sveitarstjórn að auglýsa slíkar breytingar og fara að öðru leyti með þær í samræmi við framangreinda meginreglu í stað þess að grenndarkynna breytinguna, líkt og gert hafi verið í þessu tilviki. 

Af hálfu kærenda sé í sjálfu sér ekki gerð athugasemd við stækkun umræddrar lóðar.  Hins vegar séu kærendur mótfallnir stækkun hennar með þeim hætti sem hin kærða ákvörðun geri ráð fyrir, enda feli hún í sér skerðingu á almennum bílastæðum í götunni, sem kærendur geti ekki fellt sig við.  Jafnframt verði ekki séð að stækkun lóðarinnar takmarkist við notkun undir bílastæði, heldur sé um að ræða stækkun lóðarinnar á kostnað almenns gestabílastæðis sem nýst hafi öllum íbúum götunnar. 

Bent sé á að 2. mgr. 26. gr. laganna feli í sér undantekningarreglu frá fyrrgreindri meginreglu laganna, sem skýra beri þröngt.  Eingöngu sé því heimilt að víkja frá 1. mgr. 26. gr. laganna ef um smávægilegar breytingar á gildandi deiliskipulagi sé að ræða.  Álíti kærendur hina kærðu breytingu verulega, auk þess sem hún varði hagsmuni margra aðila.  Hið breytta skipulag feli í sér fækkun almennra bílastæða í götunni, úr átta í sjö, sem sé umtalsvert og komi sér illa fyrir íbúa, auk þess sem það feli í sér skerðingu verðmætis eigna við götuna.  Fækkun bílastæða í götunni bitni á fjölmörgum íbúum þar, en almenn gestabílastæði séu nú of fá.  Hið umþrætta bílastæði nýtist hins vegar öllum íbúum götunnar jafnt, einnig lóðarhafa Austurbrúnar 26.  Með breytingunni sé hins vegar gætt hagsmuna eins íbúa götunnar á kostnað allra hinna, en með því sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni.  Álíti kærendur slíkt stangast á við meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Bendi kærendur á að umrædd breyting feli í sér að lokað sé fyrir hjóla- og gönguleiðir um götuna og því sé umferð gangandi og hjólandi vegfarenda útilokuð um suðurenda götunnar, nema um lóðir. 

Ekki verði séð að nein haldbær skipulagsleg rök hafi legið fyrir hinni umdeildu breytingu, enda sé hún ekki rökstudd að öðru leyti en því að vísað sé til þess að „málefnaleg rök hnígi til þess að samþykkja hina kynntu tillögu óbreytta“.  Að öðru leyti sé í bókun ráðsins tekið undir þau sjónarmið sem sett hafi verið fram í áðurnefndri umsögn skipulagsstjóra.  Telji kærendur að þar sem ákveðið hafi verið að fara gegn vel rökstuddri umsögn skipulagsstjóra hafi skipulagsráði borið að rökstyðja niðurstöðu sína með mun ítarlegri hætti en gert hafi verið og geta þeirra málefnalegu sjónarmiða sem ráðið hafi talið hníga til samþykktar tillögunnar. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið undir það með kærendum að í samræmi við almenn lögskýringarsjónarmið beri að skýra undantekningar laga þröngri lögskýringu.  Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 164/2007 sé að hluta komið inn á mörkin milli 1. og 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um það hvað teljist veruleg breyting.  Þar segi m.a:  ,,Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.“  Þá sé einnig vísað til úrskurðar í máli nr. 105/2005 þar sem úrskurðarnefndin hafi talið fækkun bílastæða vegna stúdentaíbúða ekki það verulega breytingu á deiliskipulagi að þurft hafi að auglýsa hana, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna, heldur hafi grenndarkynning, sbr. 2. mgr. 26. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna, verið nægjanleg því verið hafi um óverulega breytingu að ræða.  Auk þessa sé bent á að með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 6. febrúar 2008, hafi stofnunin ekki gert athugasemdir við að hin kærða samþykkt yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Þá sé vísað til þess að í meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins felist að stjórnvöld verði að gæta hófs í meðferð valds síns.  Þannig sé stjórnvaldi ekki aðeins skylt að líta til þess markmiðs sem starf þess stefni að heldur beri því einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda þeirra einstaklinga og lögaðila sem athafnir stjórnvaldsins og valdbeiting beinist að.  Lagaleg þýðing meðalhófsreglunnar sé sú að hún hafi fyrst og fremst þýðingu þegar ákvörðun eða athöfn stjórnvalds byggi á mati á aðstæðum.  Meðalhófsreglan sé ekki fastmótuð regla sem segi til um hver niðurstaða eigi að vera í einstöku máli heldur gefi hún fremur til kynna ákveðin sjónarmið sem stjórnvaldshafa beri að hafa í huga þegar hann taki ákvörðun sem hafi íþyngjandi áhrif á líf borgaranna.  Það sé afstaða Reykjavíkurborgar að með hinni kærðu samþykkt hafi skipulagsráð ekki brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og ekki hafi verið um að ræða ákvörðun sem telja megi íþyngjandi fyrir aðra íbúa Austurbrúnar, þ.á m. kærendur. 

Vísað sé til þess að veigamikil sanngirnissjónamið hafi legið fyrir ákvörðun skipulagsráðs.  Vissulega fækki stæðum úr átta í sjö en vert sé að benda á, sbr. bókun skipulagsráðs, að rétthafar aðliggjandi lóða hafi áður fengið sambærilegar lóðarstækkanir á kostnað göngustíga.  Í gildi sé deiliskipulag Laugaráss, staðfest af Skipulagsstjórn ríkisins hinn 29. júní 1983.  Hinn 22. nóvember 1988 hafi borgarráð samþykkt niðurfellingu stíga milli lóðanna nr. 22 og 24 og milli lóðanna nr. 26 og 28 við Austurbrún og jafnframt að borgarland milli lóðanna nr. 22 og 24 skiptist jafnt milli viðkomandi lóða.  Sé það afstaða Reykjavíkurborgar að fækkun stæða um eitt vegna lóðarstækkunar Austurbrúnar nr. 26 geri það ekki að verkum að hagsmunir heildarinnar séu fyrir borð bornir, heldur hið gagnstæða þar sem umrædd breyting hafi það í för með sér að nú sitji íbúar Austurbrúnar við sama borð. 

Varðandi þá málsástæðu kærenda að ákvörðun skipulagsráðs hafi ekki verið rökstudd sé vísað til bókunar ráðsins.  Sé það afstaða Reykjavíkurborgar að í þeirri bókun felist vel rökstudd niðurstaða skipulagsráðs sem hafi verið einróma í afstöðu sinni til breytingarinnar. 

Andsvör kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar:  Af hálfu kærenda er bent á að almennt sé gert ráð fyrir einu einkabílastæði við hvert hús götunnar.  Með hinni kærðu samþykkt verði bílastæðin við hús nr. 26 hins vegar orðin tvö til þrjú, enda jafngildi grunnflötur umræddrar lóðarstækkunar tveimur bílastæðum.  Ekki verði séð að sérstök ástæða sé til þess að einkabílastæðum við umrætt hús verði fjölgað með þessum hætti á kostnað annarra íbúa götunnar. 

Þá verði ekki séð hvaða almennu sanngirnissjónarmið hafi legið því til grundvallar að fjölga einkabílastæðum eins íbúa götunnar á kostnað annarra íbúa.  Álíti kærendur að samþykkt borgarráðs frá 22. nóvember 1998 hafi ekki nokkra þýðingu við mat á þessu, enda með engu sambærilegt, auk þess sem um hafi verið að ræða breytingar til hagsbóta fyrir suma íbúa götunnar en alls ekki alla.  Þá hafi umræddar breytingar verið gerðar að frumkvæði og ósk íbúa að Austurbrún 26. 

Málsrök lóðarhafa að Austurbrún 26:  Lóðarhafa að Austurbrún 26 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Telur hann að með hinni kærðu samþykkt hafi borgaryfirvöld viljað rétta hlut hans, en hann hafi verið eini lóðarhafinn við þá botnlangagötu sem um ræði sem aðeins hafi haft eitt bílastæði.  Með ákvörðuninni hafi verið komið til móts við sjónarmið um að allir lóðarhafar á svæðinu eigi að sitja við sama borð. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Fulltrúar úrskurðarnefndarinnar kynntu sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 23. september 2009. 

Niðurstaða:  Á svæði því er um ræðir er í gildi deiliskipulag í Laugarási frá árinu 1983 og felur hin kærða samþykkt í sér breytingu þess, þ.e. heimild til stækkunar lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún úr 385 í 404 m2.  Svæði það er stækkunin tekur til var áður hluti borgarlands og nýtt sem bílastæði. 

Í 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að ef sveitarstjórn ákveði að breyta deiliskipulagi skuli fara með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, þ.e. að auglýsa tillögu um breytingu með áberandi hætti, sbr. 1. mgr. 25. gr. laganna.  Undantekningu frá þessari reglu er að finna í 2. mgr. 26. gr. laganna þar sem segir að heimilt sé að falla frá auglýsingu ef um óverulega breytingu sé að ræða.  Telur úrskurðarnefndin að stækkun lóðarinnar að Austurbrún 26 og nýting hennar í kjölfarið sé þess eðlis að borgaryfirvöldum hafi verið heimilt, eins og þarna stóð á, að neyta fyrrgreindrar undanþáguheimildar, enda verður ekki talið að byggðarmynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist til muna við breytinguna. 

Eins og áður segir var svæði það er stækkun lóðarinnar að Austurbrún 26 tekur til áður nýtt sem bílastæði.  Verður ekki annað af málsgögnum ráðið en að með hinni kærðu ákvörðun sé verið að jafna mun er verið hafi á aðstöðu lóðarhafa með tilliti til bílastæða.  Verður og að líta til þess að hinn 22. nóvember 1988 samþykkti borgarráð niðurfellingu stíga, sem sýndir voru á skipulagi milli lóðanna 22 og 24 svo og milli lóðanna 26 og 28 við Austurbrún, og að eigendur lóðanna nr. 22, 24 og 28 hafa notið þeirrar breytingar og fengið samsvarandi stækkun lóða sinna.  Er ákvörðun sú sem um er deilt í máli þessu í góðu samræmi við þessar breytingar, en auk þess, leiðir af þeim að ekki fær staðist sú fullyrðing kærenda að með henni hafi verið lokað fyrir hjóla- og gönguleiðir á svæðinu.  Styðst hin kærða ákvörðun og við málefnaleg sjónarmið um jafnræði og verður ekki á það fallist að í henni felist mismunun eða að rökstuðningi hennar hafi verið svo áfátt að leiða eigi til ógildingar.  Verður kröfu kærenda því hafnað. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. desember 2007 um að samþykkja breytt deiliskipulag í Laugarási vegna lóðarinnar nr. 26 við Austurbrún. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

141/2007 Skólavörðuholt

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 10. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 151/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. ágúst 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. nóvember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir S, Bergþórugötu 4, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. ágúst 2007 að samþykkja breytt deiliskipulag Skólavörðuholts.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 15. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs 4. október 2006 var samþykkt að kynna fyrir hagsmunaaðilum drög að tillögu að breyttu deiliskipulagi Skólavörðuholts, Iðnskólareits, eða svæðis er afmarkast til vesturs af Frakkastíg, til norðurs af Bergþórugötu, til austurs af Vitastíg og til suðurs af bílastæðum milli Hallgrímskirkju og Iðnskólans (nú Tækniskólans) á Skólavörðuholti.  Að lokinni kynningu fyrir hagsmunaaðila var málið tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 10. nóvember 2006 en nokkrar athugasemdir höfðu borist.  Á fundi skipulagsráðs 9. maí 2007 var málið tekið fyrir ásamt samantekt skipulagsfulltrúa og var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins.  Var tillagan auglýst til kynningar frá 25. maí til 6. júlí 2007 og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. 

Í auglýsingu skipulagsstjóra, dags. 25. maí 2007, sagði m.a:  „Meginefni í uppbyggingu að Holtinu er tillaga að fullnaðaruppbyggingu Iðnskóla þá aðallega fyrir þá starfsemi sem Vörðuskóli hefur hýst til skamms tíma.  Tillagan gerir ráð fyrir tveggja hæða nýbyggingu vestan núverandi bygginga við Frakkastíg og heimilar hækkun á núverandi verkstæðisbyggingu um eina hæð auk byggingar miðlægrar tveggja hæða þjónustubyggingar við núverandi aðalinngang skólans.  Gert er ráð fyrir að byggja megi bílastæðageymslu neðanjarðar milli skóla og kirkju með aðkomu um Vitastíg.  Við Bergþórugötu er lagt til að (heil)byggja randbyggð fyrir íbúðir eða til notkunar fyrir skólann.“  Á uppdrætti tillögunnar sagði ennfremur:  „Ekki er gert ráð fyrir aukningu á bílastæðum ofanjarðar innan deiliskipulagsreitsins.  Nokkur bílastæði eru í innigarði Iðnskólalóðar og er ekki reiknað með fjölgun þeirra, heldur byggingu bílastæða neðanjarðar vegna aukningar byggingarmagns.  Gera skal ráð fyrir a.m.k. 1 bílastæði fyrir hverja 50m² aukins byggingarmagns fyrir þjónustustofnanir, en 1 bílastæði fyrir hverja íbúð óháð stærð.“ 

Á fundi skipulagsráðs 15. ágúst 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Auglýst tillaga samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í umsögn skipulagsstjóra.  Vísað til borgarráðs.“  Í umsögn skipulagsstjóra kom m.a. fram að fallið hafi verið frá fyrrgreindum áformum um bílakjallara.  Framangreint samþykkti borgarráð á fundi 23. ágúst 2007.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 28. september 2007, tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemdir við að samþykktin yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þess efnis 12. október 2007. 

Hefur kærandi skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er bent á að forsaga máls þessa sé sú að í október 2006 hafi hagsmunaaðilum verið send til kynningar tillaga að deiliskipulagi Iðnskólareits.  Íbúar á svæðinu hafi gert athugasemdir við áformin og m.a. bent á að ekki væri gert ráð fyrir neinum bílastæðum í tengslum við nýjar byggingar Iðnskólans og því væri ekki uppfyllt ákvæði byggingarreglugerðar um fjölda bílastæða til samræmis við áformaðar byggingar.  Þegar tillagan hafi verið auglýst hafi bílastæði verið sýnd í bílakjallara milli Iðnskólans og Hallgrímskirkju og með því hafi augljóslega verið fallist á sjónarmið íbúa svæðisins varðandi bílastæðaþörf.  Að auglýsingu lokinni hafi skipulagsráð tekið ákvörðun um að falla frá þeirri hugmynd sinni að sprengja Skólavörðuholtið til að koma þar fyrir bílakjallara, enda hafi komið fram mikil andstaða íbúa og annarra nágranna Iðnskólans vegna tillögunnar. 

Eftir að skipulagsráð hafi tekið ákvörðun um að falla frá byggingu bílakjallara, sem uppfyllt gæti skilyrði reglna um bílastæði í samræmi við áformaðar byggingar, sé staða málsins því sú sama og verið hafi í upphafi á haustdögum 2006.  Með hinni kærðu samþykkt hafi borgarráð fallist á að fækka núverandi bílastæðum á lóð Iðnskólans um leið og heimilað sé 5.700 m2 byggingarmagn án nokkurra bílastæða. 

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 14. ágúst 2007, komi fram að ekki séu gerðar neinar kröfur um að fyrirhuguðum byggingum Iðnskólans fylgi bílastæði.  Ákvörðun um að falla frá ákvæðum reglugerðar um að fjöldi bílastæða við nýbyggingar skuli vera í samræmi við byggingarmagn stríði gegn ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar.  Í kynningu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Iðnskólareit sem auglýst hafi verið hafi í engu verið vikið að því að verið væri að undanskilja fyrirhugaðar framkvæmdir kvöðum um bílastæði.  Þvert á móti hafi verið kynnt deiliskipulagstillaga sem hafi gert ráð fyrir 130 nýjum bílastæðum samfara þeim byggingum sem sýndar hafi verið á uppdrætti. 

Í umsögn skipulagsstjóra, dags. 14. ágúst 2007, komi fram sú ákvörðun skipulagsráðs að tillagan sem auglýst hafi verið sem sjálfstætt deiliskipulag Iðnskólareits nr. 1.192 hafi eftir að auglýsingu hafi lokið verið breytt í: „… breyting á deiliskipulagi Skólavörðuholts stgr. 1.140.“  Augljóslega sé hér um algjörlega nýja tillögu að ræða og þurfi málsmeðferðin að vera í samræmi við það. 

Sú kynning sem fram hafi farið á deiliskipulagi Iðnskólareits hafi falið í sér kynningu á framlögðum gögnum um stækkun Iðnskólans í Reykjavík en ekki á gögnum sem sýni breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts.  Til að borgarbúar geti látið í ljós skoðun sína á fyrirhuguðu deiliskipulagi einhvers svæðis borgarinnar eða eftir atvikum breytingu á áður samþykktu deiliskipulagi þurfi borgaryfirvöld að tryggja að íbúum séu kynnt rétt gögn.  Á dagskrá fundar borgarráðs 23. ágúst 2007 hafi verið til umfjöllunar breyting á deiliskipulagi Iðnskólareits en ekki Skólavörðuholtsins.  Rétt sé að taka fram að deiliskipulag Skólavörðuholts nái til mun fleiri íbúa og snerti hagsmuni mun fleiri aðila en eingöngu þeirra sem búi í næsta nágrenni við Iðnskólann.  Tillaga um breytingu á áður gerðu deiliskipulagi Skólavörðuholts sé algjörlega óreifuð og hafi ekki fengið lögmæta málsmeðferð. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hið kærða deiliskipulag geri ekki ráð fyrir að fjölgað verði bílastæðum á Skólavörðuholti vegna viðbyggingar við Iðnskólann.  Bílastæðin séu staðsett á borgarlandi þannig að um sé að ræða almenningsstæði fyrir fjölbreytta starfsemi á svæðinu.  Nýrri viðbyggingu við Iðnskólann sé að mestu leyti ætlað að taka við starfsemi og nemendum sem Vörðuskóli hýsi.  Því sé ekki um einfalda fjölgun nemenda að ræða.  Auk þess sé gert ráð fyrir nýjum matsal og aukinni miðlægri aðstöðu nemenda.  Slíkar breytingar séu ekki taldar hafa í för með sér aukið álag á bílastæði.  Deiliskipulagið sé þannig í fullu samræmi við gr. 64.1 byggingarreglugerðar nr. 441/1998, þar sem segi að heimilt sé að kveða á um fjölda bílastæða í deiliskipulagi. 

Þá sé því mótmælt að hin samþykkta tillaga hafi ekki fengið málsmeðferð í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.  Deiliskipulagsbreytingin hafi verið í auglýsingu frá 25. maí til 6. júlí 2007.  Tíu athugasemdabréf hafi borist er leitt hafi til breytinga á auglýstri tillögu.  Málsmeðferð hafi því verið samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Fallið hafi verið frá tillögu um bílageymslu neðanjarðar á lóð Iðnskólans og ákvæði um eitt bílastæði á hverja 50 m² aukins byggingarmagns fellt niður.  Með breytingunni hafi lóð Iðnskólans verið stækkuð í átt að Frakkastíg.  Heimilt sé að byggja við Iðnskólann, byggja á lóðunum nr. 10, 12 og 18 við Bergþórugötu og byggja við hús á lóðunum nr. 4, 6 og 6b við Bergþórugötu.  Einnig sé gert ráð fyrir nýrri aðkomu á lóð Iðnskólans frá Vitastíg. 

Í athugasemdum hafi verið var bent á að deiliskipulag á Iðnskólareit eða staðgreinireit 1.192.0 hafi verið auglýst sem sjálfstætt deiliskipulag.  Sú leiðrétting hafi þá verið gerð að gert hafi verið ráð fyrir að tillagan fæli í sér breytingu á deiliskipulagi Skólavörðuholts, staðgreinireits 1.140, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 31. nóvember 2001, enda sé það svæði afmarkað með þeim hætti að ofangreindur reitur innan Frakkastígs og Bergþórugötu sé hluti af þeirri heild.  Uppdrættinum hafi því verið breytt með tilliti til þess og hafi hann verið tilgreindur sem breyting á deiliskipulagi Skólavörðuholts án þess að breytt hafi verið efnisatriðum auglýstrar tillögu að öðru leyti af þeim ástæðum.  Málsmeðferð hafi því verið í fullu samræmi við skipulags- og byggingarlög, sbr. bréf Skipulagsstofnunar, dags. 28. september 2007. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er lýst var í maí 2007 auglýst tillaga að deiliskipulagi svæðis er afmarkast til vesturs af Frakkastíg, til norðurs af Bergþórugötu, til austurs af Vitastíg og til suðurs af bílastæðum milli Hallgrímskirkju og Iðnskólans á Skólavörðuholti.  Í auglýsingunni sagði m.a. að gert væri ráð fyrir að byggja mætti bílageymslu neðanjarðar milli Iðnskólans og Hallgrímskirkju.  Á uppdrætti er fylgdi tillögunni sagði ennfremur:  „Ekki er gert ráð fyrir aukningu á bílastæðum ofanjarðar innan deiliskipulagsreitsins.  Nokkur bílastæði eru í innigarði Iðnskólalóðar og er ekki reiknað með fjölgun þeirra, heldur byggingu bílastæða neðanjarðar vegna aukningar byggingarmagns.  Gera skal ráð fyrir a.m.k. 1 bílastæði fyrir hverja 50m² aukins byggingarmagns fyrir þjónustustofnanir, en 1 bílastæði fyrir hverja íbúð óháð stærð.“  Bárust athugasemdir er tillagan var auglýst er vörðuðu framangreint.  Við afgreiðslu skipulagsráðs var fært til bókar að tillagan væri samþykkt með þeim breytingum sem fram kæmu í umsögn skipulagsstjóra, sem fól m.a. í sér að fallið var frá áformum um bílakjallara.  Segir aðeins eftirfarandi á uppdrætti hins kærða deiliskipulags:  „Ekki er gert ráð fyrir aukningu á bílastæðum ofanjarðar innan deiliskipulagsreitsins.  Nokkur bílastæði eru í innigarði Iðnskólalóðar og er ekki reiknað með fjölgun þeirra né fjölgun bílastæða vegna aukins byggingarmagns.“ 

Í 7. mgr. gr. 3.1.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulagi og eru í greininni ákvæði um lágmarksfjölda bílastæða.  Þá segir ennfremur að unnt sé að víkja frá lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt sé fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. 

Með hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er leyft að auka byggingarmagn á skipulagsreitnum um rúmlega 7.000 m².  Þrátt fyrir það er í engu gerð grein fyrir því hvernig leyst skuli úr bílastæðaþörf er skapast vegna þessarar aukningar.  Í hinni kynntu tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins var gert ráð fyrir að gerður yrði bílakjallari á Skólavörðuholti í þessu augnamiði en við samþykkt tillögunnar var horfið frá þeim áformum án þess að grein væri gerð fyrir því í tillögunni með hvaða öðrum hætti bílastæðakröfu yrði mætt, s.s. með innheimtu bílastæðagjalds, sbr. 54. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Nægir ekki að skýringar varðandi bílastæðamál á svæðinu hafi komið fram í umsögn skipulagsstjóra, sem vísað var til við afgreiðslu skipulagsráðs á tillögunni, heldur þurfti áætlun um lausn bílastæðakröfu að koma fram í deiliskipulaginu sjálfu.  Samræmist hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki ákvæðum skipulagsreglugerðar hvað þetta varðar og verður hún því felld úr gildi.      

Auk þess efnisannmarka sem að framan getur leikur vafi á hvort gætt hafi verið réttrar aðferðar við meðferð hinnar umdeildu skipulagstillögu.  Í 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að ef sveitarstjórn ákveði að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik.  Veður að ætla að tilgangur ákvæðis þessa sé að tryggja að öllum þeim er hagsmuna eigi að gæta gefist kostur á að gera athugasemdir ásamt því að þeir sem ekki geri athugasemdir megi treysta því að tillagan standi óhögguð í grundvallaratriðum, verði hún samþykkt. 

Úrskurðarnefndin telur að vegna eðlis og umfangs þeirrar breytingar sem gerð var á hinni umdeildu skipulagstillögu hefði komið til álita hvort þurft hefði að auglýsa hana að nýju.  Vegna þess efnisannmarka sem var á tillögunn hefur það þó ekki þýðingu hér að skera úr um hvort borgaryfirvöldum hafi verið skylt að auglýsa tillöguna að nýju, enda hefði ný auglýsing ekki bætt úr þeim annmarka sem á tillögunni var. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. ágúst 2007, um breytt deiliskipulag Skólavörðuholts, Iðnskólareits, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007, er felld úr gildi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir