Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2019 Arctic Sea Farm og Fjarðalax

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 26. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að taka til meðferðar frummatsskýrslu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. frá janúar 2019 um 14.500 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði, án þess að um hana hafi verið fjallað í matsáætlun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga þá ákvörðun Skipulagsstofnunar „að taka til meðferðar nýja frummatsskýrslu Fjarðalax og Arctic Sea Farm um 14.500 tonna framleiðsluaukningu á laxi í Patreks- og Tálknafirði án þess að um hana hafi verið sérstaklega fjallað í matsáætlun.“ Er þess krafist að „málsmeðferð Skipulagsstofnunar, sem telst fela í sér ætlað brot á rétti almennings, verði úrskurðuð óheimil með vísan til IV. kafla laga nr. 106/2000.“ Jafnframt er gerð krafa um að málsmeðferð verði byggð á 8.-11. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 28. mars 2019.

Málavextir: Hinn 30. september 2015 lögðu Fjarðalax ehf. og Arctic Sea Farm hf. fram frummatsskýrslu um eldi á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að lokinni lögboðinni athugun Skipulagsstofnunar lögðu Fjarðalax og Arctic Sea Farm hinn 9. maí 2016 fram matsskýrslu um framleiðslu á allt að 17.500 tonnum af laxi í Patreksfirði og Tálknafirði og óskuðu eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í áliti Skipulagsstofnunar frá 23. september s.á. komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum.

Fjarðalax og Arctic Sea Farm sóttu um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar með umsóknum, dags. 26. júlí og 23. september 2016. Gaf stofnunin út rekstrarleyfi þeim til handa 22. desember 2017 fyrir annars vegar 6.800 tonna og hins vegar 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi, en Umhverfisstofnun hafði veitt fyrirtækjunum starfsleyfi vegna eldisins 13. s.m. Felldi úrskurðarnefndin þær ákvarðanir úr gildi með úrskurðum kveðnum upp 27. september og 4. október 2018 í kærumálum nr. 3, 4, 5 og 6/2018.

Með breytingarlögum nr. 108/2018 bættist ný málsgrein við 21. gr. c. í lögum um fiskeldi nr. 71/2008 er fól í sér heimild ráðherra, að fenginni umsögn Matvælastofnunar, til að gefa út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að 10 mánaða hafi eldra rekstrarleyfi verið fellt úr gildi vegna annmarka á leyfisveitingu. Á grundvelli ákvæðisins sóttu fiskeldisfyrirtækin hinn 10. október 2018 um rekstrarleyfi til bráðabirgða skv. 2. mgr. tilvitnaðs lagaákvæðis til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Féllst ráðherra á umsóknina og gaf út rekstrarleyfi til bráðabirgða með ákveðnum skilyrðum, m.a. að bætt yrði úr þeim ágöllum sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefði talið vera á málsmeðferð við útgáfu rekstrarleyfanna. Með sömu skilyrðum veitti umhverfis- og auðlindaráðherra fyrirtækjunum undanþágu frá starfsleyfi vegna eldis þess sem þá var þegar hafið.

Í janúar 2019 lögðu kærendur fram til meðferðar hjá Skipulagsstofnun skýrsluna „Framleiðsla á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“. Í kjölfarið var skýrslan auglýst, m.a. á heimasíðu Skipulagsstofnunar 1. febrúar 2019, og kostur gefinn á að koma að athugasemdum til 19. mars s.á. Matsskýrsla um valkosti vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði var send Skipulagsstofnun í apríl s.á. og lá álit stofnunarinnar fyrir 16. maí 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að í málsmeðferð Skipulagsstofnunar felist athöfn stjórnvalds sem brotið hafi gegn þátttökurétti almennings. Sæti málið þar með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 2. tölul. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sem lúti að 4. málsl. 1. mgr. 8. gr. um matsáætlun. Skylt sé við endurupptöku mats á umhverfisáhrifum að fara eftir ákvæðum 8.-11. gr. laganna. Samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum skuli í matsáætlun koma fram upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti. Aðrir mögulegir framkvæmdakostir hafi ekki verið tilgreindir í matsáætlun þegar hið sameiginlega mat hafi farið fram sem frummatsskýrsla Fjarðalax og Arctic Sea Farm taki nú til. Af þessu leiði að ekki verði bætt úr þeim ágalla á mati á umhverfisáhrifum þeirra framkvæmda sem um ræði með því að leggja einungis fram nýja frummatsskýrslu. Kærandi telji að með málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi verið skautað framhjá fyrirmælum 8. gr. laganna um kynningu og samráð við almenning við gerð frummatsskýrslunnar. Slík málsmeðferð sé óheimil þar sem ekki sé tryggður aðgangur almennings að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að lög og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum gangi út frá því að matsskyld framkvæmd, sem ekki hafi áður sætt mati á umhverfisáhrifum, skuli undirgangast þá málsmeðferð sem lýst sé í IV. kafla laganna og hefjist með gerð matsáætlunar. Staðan í því máli sem kæran lúti að sé hins vegar sú að framkvæmdin hafi farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum.

Stofnunin telji aðstæður í málinu vera áþekkar því þegar stofnunin hafi tekið ákvörðun um að endurskoða þurfi mat á umhverfisáhrifum að hluta, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en þá beri að fylgja málsmeðferð samkvæmt 8.-11. gr. laganna „eftir því sem við á.“ Því sé ekki fortakslaus skylda til að endurtaka allt ferlið samkvæmt 8.-11. gr. þegar tekin sé ákvörðun um að endurskoða skuli mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin telji ekki tilefni til málsmeðferðar samkvæmt 8. gr. laganna þar sem úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um leyfi til umræddra framkvæmda beinist að því að í mati á umhverfisáhrifum hafi ekki verið fjallað um og lagt mat á tiltekna valkosti.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að ekki sé fullnægt því skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kæruheimild að mál hafi verið til lykta leitt. Því liggi ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu. Ákvarðanir sem teknar séu um meðferð stjórnsýslumáls og feli ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verði því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar. Skýrlega komi fram í kæru að um sé að ræða kæru vegna tiltekinnar málsmeðferðar hjá Skipulagsstofnun sem óumdeilanlega bindi ekki enda á mál í skilningi stjórnsýslulaga. Hin kærða málsmeðferð Skipulagsstofnunar sé því ekki kæranleg stjórnvaldsákvörðun og verði af þeim sökum að vísa kærunni frá nefndinni.

Almennt sé það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Hafi kærandi ekki sýnt fram á að hann eigi neinna slíkra hagsmuna að gæta er gæti verið grundvöllur aðildar hans að máli þessu samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Þá verði ekki ráðið af samþykktum kæranda að það samrýmist tilgangi hans að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að, sbr. undanþágureglu 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Ekki komi til álita að fella kæruefni þessa máls undir kæruheimild d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, þ.e. að um sé að ræða athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lúti að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Líta beri til þess að um sé að ræða framkvæmd sem hafi þegar sætt fullu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt 8.-11. gr. laga nr. 106/2000, þar sem gætt hafi verið að þátttökurétti almennings á öllum stigum. Hin svokallaða viðbót við frummatsskýrslu feli í sér nánari upplýsingaöflun og úrvinnslu sem almenningi sé gefið fullt færi á að kynna sér og gera athugasemdir við.

Frekari athugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir frávísunarkröfu leyfishafa og telur að ekki verði byggt á því að málið hafi ekki verið til lykta leitt með vísan til skilyrða 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála séu sérlög og gangi því framar stjórnsýslulögum. Framangreind ákvæði stjórnsýslulaga eigi því aðeins við þegar ákvæðum laga nr. 130/2011 sleppi, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu máli hafi Skipulagsstofnun tekið kæranlega ákvörðun um að víkja frá skýrum fyrirmælum 8.-11. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Það hafi stofnunin gert þegar ný frummatsskýrsla hafi verið tekin fyrir og auglýst til athugasemda án þess að fyrir lægi matsáætlun um aðra framkvæmdarkosti. Í það minnsta hafi verið um athöfn eða athafnaleysi að ræða í skilningi d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Með lögum nr. 89/2018 um breytingar á lögum nr. 106/2000 hafi verið innleidd að fullu ákvæði 1. mgr. 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB. Með lögunum hafi verið brugðist við athugasemdum og rökstuddu áliti ESA þar um. Í athugasemdum með 3. gr. laganna segi m.a.: „Þau tilvik sem eru talin falla undir þátttökurétt almennings og kveðið er á um í 1.-5. tölul. 3. gr. frumvarpsins eru eftirfarandi hvað varðar athafnaleysi: […] 5. Framkvæmdaraðili, í samráði við Skipulagsstofnun, lætur líða hjá að kynna almenningi tillögu að matsáætlun, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000.“ Í nefndri 11. gr. tilskipunarinnar séu tilgreind þrjú tilvik sem skuli vera kæranleg. Í fyrsta lagi ákvörðun, í öðru lagi athöfn og í þriðja lagi athafnaleysi. Athöfn og athafnaleysi eigi því að vera hægt að kæra sérstaklega á sama hátt og ákvörðun. Kærandi telji því engu máli skipta hvort hin kærða málsmeðferð eða annmarki á henni verða felld undir ákvörðun eða athöfn Skipulagsstofnunar eða athafnaleysi framkvæmdaraðila í samráði við Skipulagsstofnun. Hér skipti það eitt máli að málsmeðferð Skipulagsstofnunar sem slík fari augljóslega í bága við lög nr. 106/2000 með þeim breytingum sem gerðar hafi verið með lögum nr. 89/2018. Sérstaklega sé bent á að í 4. mgr. 6. gr. Árósarsamningsins komi fram að ríki skuli tryggja þátttöku almennings snemma í ferlinu á meðan allir kostir séu fyrir hendi og virk þátttaka almennings geti átt sér stað. Sömu sjónarmið komi fram í 2. og 4. mgr. 6. gr. tilskipunar 2011/92/ESB sem hafi verið leidd í íslenskan rétt með lögum nr. 89/2018. Hin kærða málsmeðferð skerði því augljóslega virka þátttöku almennings snemma í ferlinu þegar allir kostir eigi að vera fyrir hendi.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir eða ætlað brot á þátttökurétti almennings til úrskurðarnefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um tilteknar ákvarðanir og ætlað brot á þátttökurétti er að ræða, enda samrýmist það tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að. Teljast slík samtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi t.d. ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar 3. mgr. 4. gr., og varðandi athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. d-lið ákvæðisins. Kærandi er hagsmunasamtök og uppfyllir þau skilyrði til kæruaðildar sem þeim eru sett, en öll veiðifélög samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði hafa með sér landssamtök, Landssamband veiðifélaga, sem gætir sameiginlegra hagsmuna þeirra, sbr. 5. mgr. 4. gr. þeirra laga.

Í kjölfar úrskurða úrskurðarnefndarinnar í kærumálum nr. 3, 4, 5 og 6/2018 þar sem rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðalax og Arctic Sea Farm voru felld úr gildi hófust fyrirtækin handa, í samráði við Skipulagsstofnun, við að bæta úr mati því á umhverfisáhrifum sem lá hinum ógiltu leyfum til grundvallar. Í því mati á umhverfisáhrifum var lögð fram tillaga að matsáætlun í júní 2014 og var frestur til athugasemda við hana til 16. júlí s.á. Álit Skipulagsstofnunar í málinu lá fyrir 23. september s.á., svo sem nánar greinir í málavaxtalýsingu. Eins og þar kemur fram lá skýrslan „Framleiðsla á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði – Viðbót við frummatsskýrslu og kostagreining vegna 14.500 tonna framleiðsluaukningar“ fyrir í janúar 2019, en ekki var unnin viðbót við matsáætlunina frá 2014 eða ný matsáætlun gerð sem síðan væri kynnt almenningi. Heldur kærandi því fram að í því felist brot á þátttökurétti almennings sem kæranlegt sé til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Mælt er fyrir um kæruheimildir til úrskurðarnefndarinnar í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Annar ágreiningur, sem kann að rísa um framkvæmd þeirra laga og ekki er tilgreindur í 14. gr. þeirra eða öðrum lögum, sætir hins vegar ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, enda er þá ekki mælt fyrir um það í lögum, eins og fyrrnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur.

Með breytingalögum nr. 89/2018 var 14. gr. laga nr. 106/2000 breytt á þann veg að athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem brýtur gegn þátttökurétti almennings á nánar tilgreindum grundvelli sætir nú kæru til úrskurðarnefndarinnar. Sá grundvöllur sem um ræðir er talinn upp í fimm töluliðum í 6. mgr. nefndrar 14. gr. og hefur kærandi vísað til 2. tölul., sem aftur vísar til 4. málsl. 1. mgr. 8. gr. um matsáætlun. Í þeim málslið sagði á þeim tíma sem um ræðir: „Framkvæmdaraðili skal kynna tillögu að matsáætlun umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun.“ Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 er fjallað um skyldu framkvæmdaraðila til að gera matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Var það og gert á árinu 2014 en ný eða breytt tillaga að matsáætlun lá ekki fyrir áður en viðbót við frummatsskýrslu var kynnt. Kæra á athöfn eða athafnaleysi sem snýr að því að þátttökuréttindi almennings séu ekki virt lýtur að þeim skyldum sem lagðar eru á herðar Skipulagsstofnunar að sjá til þess að kynnt séu ákveðin lykilgögn í mati á umhverfisáhrifum, gefinn kostur á að gera athugasemdir o.s.frv. Það að framkvæmdaraðili hafi, í samráði við Skipulagsstofnun, látið hjá líða að gera nýja matsáætlun felur hins vegar ekki í sér athöfn eða athafnaleysi í skilningi þeirra ákvæða sem að framan eru rakin. Er enda ljóst að tillaga sem ekki hefur litið dagsins ljós verður eðli máls samkvæmt ekki kynnt almenningi, en samkvæmt orðalagi sínu er kæruheimild 2. tölul. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 8. gr., bundin við ágalla á slíkri kynningu.

Kærandi hefur einnig vísað til þess að Skipulagsstofnun hafi við meðferð málsins tekið kæranlega ákvörðun um að víkja frá skýrum fyrirmælum 8.-11. gr. laga nr. 106/2000 hvað varði matsáætlun. Almennt verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og áður segir teljast m.a. hagsmunasamtök hafa lögvarða hagsmuni af ákvörðunum um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður ekki skorið úr um lögmæti þess að bæta úr ágöllum á mati á umhverfisáhrifum án þess að gera og kynna matsáætlun að nýju fyrr en í kærumáli vegna útgáfu slíkra leyfa.

Þar sem að í málinu liggur hvorki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, né liggur fyrir athöfn eða athafnaleysi í skilningi d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

67 og 69/2019 Furugerði

Með

Árið 2019, miðvikudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 67/2019, kæra á afgreiðslu borgarráðs Reykjavíkur frá 4. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina að Furugerði 23 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir íbúar og eigendur Furugerðis 10 og Furugerðis 12, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 4. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Furugerði 23, Reykjavík.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 19. júlí 2019, er móttekin var hjá nefndinni sama dag, kæra 34 nánar tilgreindir eigendur og íbúar íbúða við Furugerði og Espigerði í Reykjavík sömu ákvörðun. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er nr. 69/2019, sameinað máli þessu.

Upplýsingar er málið varða bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. og 24. september 2019.

Málsatvik og rök: Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Furugerði 23 er á lóðinni gróðrarstöð, gróðurhús, söluskáli og ræktunarreitir ásamt íbúðarhúsi. Hinn 26. júní 2019 var samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur tillaga að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Í breytingunni felst að núverandi mannvirki verði fjarlægð og heimilað að reisa allt að 30 íbúðir á umræddri lóð. Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 4. júlí s.á.

Kærendur telja að þeir muni verða fyrir alvarlegu ónæði og röskun á margvíslegum hagsmunum sínum. Að auki muni eignir þeirra rýrna í verði vegna þeirrar miklu aukningar á byggingarmagni sem verið sé að heimila. Breytingin sé í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og fari m.a. gegn ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og meginreglu stjórnsýsluréttarins um réttmætar væntingar. Jafnframt hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá séu hvorki uppfyllt ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða né undanþáguheimild hljóðvistarstaðalsins ÍST 45:2003.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að ekki sé búið að birta auglýsingu um gildistöku hinnar kærðu breytingar í B-deild Stjórnartíðinda, en breytingin sé í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun.

Niðurstaða: Einungis ákvörðun sem bindur enda á mál verður kærð til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eftir samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar var hún send til lögboðinnar yfirferðar hjá Skipulagsstofnun í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bárust athugasemdir frá Skipulagsstofnun við yfirferð málsins sem sveitarfélagið þarf að bregðast við og er því ekki búið að senda breytinguna til birtingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Að lokinni meðferð tillögu að deiliskipulagi eða breytingu á því skal birta auglýsingu um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðinda skv. 42. gr., sbr. 43. gr. skipulagslaga. Fyrir liggur að ekki hefur enn verið birt auglýsing um gildistöku hinnar kærðu breytingar í B-deild Stjórnartíðinda, en þar til slík auglýsing hefur verið birt er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ekki lokið. Er enda ekki loku fyrir það skotið að tillagan taki breytingum eða hætt verði við gildistöku hennar, svo sem vegna framkominna athugasemda Skipulagsstofnunar. Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Verði birt auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagbreytingar þeirrar er um ræðir er rétt að benda á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar vegna ákvarðana sem sæta opinberri birtingu einn mánuður frá birtingu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

120/2018 Klettaborg

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 120/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 4. september 2018 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi Klettaborgar, Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Klettaborgar 29, Akureyri, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 4. september 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Klettaborgar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 24. október 2018.

Málavextir: Deiliskipulag Klettaborgar á Akureyri er frá árinu 2001 og er á skipulagssvæðinu gert ráð fyrir íbúðarhúsnæði auk leiksvæðis. Á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 18. maí 2018 var fjallað um erindi umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar um heimild til að breyta deiliskipulagi á leiksvæði við Klettaborg. Í breytingunni fólst að byggðar yrðu sex þjónustu­íbúðir fyrir fatlað fólk með mikla stuðningsþörf og sameiginleg aðstaða fyrir íbúa og starfsfólk. Skipulagsráð lagði til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og að næstu nágrönnum yrði tilkynnt um auglýsinguna. Bæjarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna á fundi sínum 22. maí 2018.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar 30. maí 2018 með fresti til að gera athuga­semdir til 12. júlí s.á. og var helstu hagsmunaaðilum tilkynnt um auglýsinguna. Nokkrar athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Tillagan var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs 29. ágúst s.á. þar sem lagt var til að bæjarstjórn samþykkti hana. Bæjarstjórn samþykkti svo tillögu skipulagsráðs á fundi 4. september 2018. Þeir aðilar sem gerðu athuga­semdir við deiliskipulagstillöguna fengu senda umsögn skipulagsráðs, er hafði að geyma svör við framkomnum athugasemdum, með bréfi, dags. 5. s.m. Deiliskipulagsbreytingin var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 21. s.m., að ekki væri gerð athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar væri birt í Stjórnartíðindum. Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birtist í B-deild Stjórnartíðinda 16. október 2018. Í auglýsingunni kemur fram að í breytingunni felist að ný lóð sé afmörkuð fyrir íbúðakjarna með sex íbúðum og að fyrirhugað leiksvæði verði flutt norður fyrir götuna.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi bæjaryfirvöld Akureyrar ekki farið að lögum og góðum stjórnsýslu­háttum með því að tilgreina ekki í auglýsingu um breytinguna hvers kyns húsnæði til stæði að byggja á þeirri lóð sem deiliskipulagsbreytingin næði til. Þannig kæmi hvergi fram í deili­skipulagstillögunni, sem birt hafi verið á heimasíðu Akureyrarbæjar 30. maí 2018, að um væri að ræða sex íbúðir fyrir fatlaða einstaklinga með mikla þjónustuþörf. Leita þurfi á vef Akureyrarbæjar til að átta sig með fullnægjandi hætti á því hvað raunverulega stæði til, en þær upplýsingar megi finna í fundargerð skipulagsráðs, dags. 18. maí 2018. Á téðum fundi hafi verið tekið fyrir erindi frá umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, þar sem óskað hafi verið eftir heimild til að breyta deiliskipulagi og tilgreint að fyrirhugað væri að byggja sex þjónustuíbúðir fyrir fatlað fólk með mikla stuðningsþörf, líkt og það sé orðað. Þessi málsmeðferð samræmist illa markmiðum að baki þeim ákvæðum skipulagslaga sem fjalli um auglýsingar og kynningar á fyrirhuguðum framkvæmdum og/eða breytingum á gildandi skipulagi, að það sé ekki tekið skilmerkilega fram í auglýsingu hvað raunverulega standi til. Fyrir liggi að eðlismunur sé á því hvort til standi að byggja sex íbúðir á svæðinu eða koma á fót atvinnustarfsemi í grónu hverfi. Auglýsingin og breytingartillagan séu því þess eðlis að þeir sem hana hafi séð og lesið hafi verið svo gott sem engu nær um það hvaða framkvæmdir væru fyrirhugaðar á svæðinu.

Tilgangurinn með því að auglýsa fyrirhugaðar framkvæmdir sé fyrst og síðast sá að almenningi, þeim sem kunni að eiga hagsmuna að gæta, gefist kostur á að koma að andmælum sínum og sjónarmiðum. Til þess að hlutaðeigandi gefist raunverulegur kostur á því að nýta þann rétt sinn verði allar þær upplýsingar að koma fram sem skipti máli varðandi hina fyrirhuguðu fram­kvæmd. Að mati kæranda sé það fráleitur málatilbúnaður að ekki skipti máli þótt um sé að ræða vinnustað og áhugavert að bæjaryfirvöld skuli ekki taka það sérstaklega fram.

Þá sé það einnig áhugavert að því sé haldið fram að almennt skipti ekki máli hverjir búi í þeim íbúðum sem byggðar séu og að í deiliskipulagi sé það ekki tilgreint sérstaklega. Þetta sýni að mati kæranda ótrúlegt skilningsleysi á grunnreglum skipulagslaga er lúti að ákvæðum um samráð og kynningu gagnvart almenningi vegna fyrirhugaðra framkvæmda enda snúi þetta mál ekki að því hverjir komi til með að búa í íbúðunum.

Mál þetta snúist um að til standi að byggja og starfrækja vinnustað í grónu hverfi þar sem ekki sé fyrir nein atvinnustarfsemi af nokkru tagi. Í svörum Akureyrarbæjar vegna athugasemda kæranda sé því slegið föstu að ekki sé um vinnustað að ræða heldur íbúðarhús. Kærandi hafi bent á að vinnustaður sé annars eðlis en íbúðarhúsnæði, sér í lagi þegar horft sé til þess að starfsmenn verði á vöktum og því umferð á öllum tímum sólarhrings. Þá geti það vart staðist að aðeins þrír til fjórir starfsmenn eigi að vinna í húsinu á hverjum tíma þegar um sé að ræða sex íbúða kjarna fyrir fatlaða einstaklinga með mikla stuðningsþörf.

Kjarni málsins sé sá að Akureyrarbær hafi ekki tilgreint með fullnægjandi hætti í auglýsingu að með breytingu á deiliskipulagi svæðisins stæði til að byggja íbúðir fyrir fatlaða einstaklinga með mikla stuðningsþörf. Sá vafi sé og verði uppi í málinu af þessum sökum að óvíst sé hvort allir þeir sem hagsmuna hafi að gæti hafi skilað inn athugasemdum í ljósi þeirra takmörkuðu upplýsinga sem veittar hafi verið í auglýsingunni. Kærandi telji þetta m.a. andstætt gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem fram komi að gera skuli skýra grein fyrir því í hverju breyting felist, bæði í greinargerð og á uppdrætti.

Kærandi hafi skilað inn athugasemdum, dags. 9. júlí 2018, þar sem fyrirhugaðri framkvæmd hafi verið mótmælt. Athugasemdirnar hafi verið yfirfarnar af hálfu Akureyrarbæjar og svarað lið fyrir lið með bréfi, dags. 15. ágúst s.á. Vakin sé athygli á því að sama aðila og teiknaði breytingartillöguna hafi verið falið að yfirfara eigin verk og svara athugasemdum, sem sé í besta falli vandræðalegt af hálfu bæjaryfirvalda. Bent sé á að í bréfinu sé leitast við að slíta úr samhengi þær athugasemdir sem settar hafi verið fram á málefnalegan hátt, að því er virðist í þeim eina tilgangi að gera lítið úr þeim.

Sérstaklega sé vakin athygli á reifun bréfritara á athugasemdum kæranda í c- og e-lið bréfsins. Í c-lið, sem vísi til liðs II í athugasemdum, sé kærandi ekki að leitast við að gera eitt né neitt „tortryggilegt“ heldur einungis að benda á þá staðreynd að auglýsingin sé ófullnægjandi og ekki í samræmi við markmið og tilgang skipulagslaga um samráð við almenning. Í e-lið, sem vísi til III. liðs í athugasemdum, bendi kærandi hvergi á að umferð verði „gríðarleg“ heldur á það að líkur standi til þess að umferð aukist og verði jafnvel nokkur á öllum tímum sólarhrings. Þessi ónákvæmni í framsetningu bréfritara, sem sé starfsmaður þess aðila sem teiknaði hina umþrættu breytingartillögu, bendi óneitanlega til þess að athugasemdir kæranda hafi ekki verið metnar á málefnalegum grunni eða þær skoðaðar í ljósi meginreglna stjórnsýsluréttarins.

Hvað sem öðru líði telji kærandi það afar óheppilegt að þeim aðila sem teiknaði breytingar­tillöguna sé falið að svara athugasemdum um eigið verk enda bendi svörin til þess að viðkomandi aðila hafi varla þótt athugasemdirnar svaraverðar. Að öllu virtu geti það ekki talist samrýmast góðum stjórnsýsluháttum að afgreiða athugasemdir kæranda með þeim hætti sem gert hafi verið.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að form og ferli hinnar kærðu breytingar á deiliskipulagi Klettaborgar hafi verið samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.

Skipulagsráð hafi lagt til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og að næstu nágrönnum yrði tilkynnt um auglýsinguna, sem bæjarstjórn hafi samþykkt. Á kynningartíma hafi sex athugasemdir borist. Tillaga að umsögn um efnisatriði athugasemda hafi verið lögð fyrir skipulagsráð, sem hafi lagt til við bæjarstjórn að deili­skipulagsbreytingin yrði samþykkt ásamt umsögn um innkomnar athugasemdir og að sviðs­stjóra skipulagssviðs yrði falið að annast gildistöku breytingarinnar. Bæjarstjórn hafi samþykkt tillöguna og eftir að Skipulagsstofnun hafi yfirfarið hana án athugasemda hafi deiliskipulags­breytingin birst í B-deild Stjórnartíðinda. Engir formgallar séu því í ferlinu sem leitt geti til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar.

Almennt sé ekki tilgreint í deiliskipulagi fyrir hverja íbúðir á skipulagssvæði séu ætlaðar. Nægi í því sambandi að benda á að í 4. mgr. 10. gr. þágildandi laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 segi að húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk skuli vera í íbúðarbyggð, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Ekki hafi því þurft að geta þess sérstaklega að íbúðir væru fyrir fatlað fólk í umræddri deiliskipulagsbreytingu.

Ekki verði séð hvernig auglýsing deiliskipulagsbreytingarinnar og breytingin sjálf sé í andstöðu við ákvæði gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð. Í auglýsingunni komi skýrt fram um hvaða svæði sé að ræða og í hverju breytingin felist, þ.e. að gert sé ráð fyrir nýrri lóð fyrir íbúðakjarna með sex íbúðum og að leiksvæði færist yfir á annað svæði. Í skipulagsgögnunum sjálfum komi síðan skýrt fram hvernig fyrirhuguð lóð sé afmörkuð, hvernig aðkomu sé háttað og upplýsingar um byggingarmagn og útlit mannvirkja. Fram komi í umsögn skipulagsráðs um innkomnar athugasemdir að ekki sé verið að skipuleggja lóð fyrir atvinnu­húsnæði heldur íbúðarhúsnæði fyrir fatlað fólk. Þó svo að í húsnæðinu verði nokkrir starfsmenn til að sinna þörfum íbúa verði ekki séð að það hafi neikvæð áhrif á aðra íbúa hverfisins umfram það sem almennt megi búast við frá litlu fjölbýli. Megi benda á að fjöldi bíla verði væntanlega minni en almennt megi gera ráð fyrir að fylgi húsum með sambærilegum fjölda íbúða auk þess sem aðkoma að lóðinni sé beint út á Dalsbraut, sem sé tengibraut, en ekki í gegnum íbúðarhverfið við Klettaborg.

Kærandi veki athygli á því að sama aðila og teiknaði breytingartillöguna hafi verið falið að yfirfara eigin verk og svara athugasemdum. Í samræmi við góða stjórnsýsluhætti og ákvæði 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi umsækjandi um deiliskipulagsbreytinguna og kærandi fengið tækifæri til að koma andmælum að varðandi efnisatriði innkominna athuga­semda áður en málið hafi verið afgreitt í skipulagsráði og bæjarstjórn. Ekki hafi verið um formlega umsögn um athugasemdir að ræða skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, heldur eingöngu minnisblað skipulagsráðgjafa fyrir hönd umsækjanda. Á fundi skipulagsráðs 29. ágúst 2018 hafi tillaga að umsögn bæjarins verið lögð fram og samþykkt. Sú tillaga hafi svo verið samþykkt á fundi bæjarstjórnar 4. september s.á.

Íbúðir fyrir fatlað fólk séu ekki stofnanir fyrir fatlað fólk heldur heimili þeirra, rétt eins og heimili annarra íbúa í íbúðarbyggð. Þrátt fyrir að fatlað fólk kunni að þurfa á aðstoð að halda í sínu daglega lífi séu heimili þeirra ekki skilgreind sem vinnustaðir. Þar sem deiliskipulags-tillagan hafi verið vegna íbúðarhúss hafi ekki verið ástæða til að tilgreina það nánar í auglýsingu, greinargerð og á uppdrætti breytinga á deiliskipulagi hverjir myndu búa í húsnæðinu. Því eigi sú málsástæða kæranda að eðlismunur sé á því hvort að til standi að byggja sex íbúðir eða koma á fót atvinnustarfsemi í grónu hverfi ekki við rök að styðjast.

Almennt fylgi íbúðum bílaumferð, þar sem ekki sé óalgengt að einn til þrír bílar séu á hverja íbúð. Rök fyrir því að meiri umferð stafi af íbúðum þar sem fatlað fólk búi eigi því ekki við rök að styðjast, enda reki fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir almennt ekki bifreiðar til eigin nota.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að afmörkuð er ný lóð fyrir íbúða-kjarna með sex íbúðum og leiksvæði er flutt til norðurs.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal fara með breytingar á samþykktu deiliskipulag eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, en þó er ekki skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skal tillaga að deiliskipulagi auglýst á sama hátt og kveðið er á um verðandi auglýsingu aðalskipulags, en tillagan þarf þó ekki að liggja frammi hjá Skipulagsstofnun á auglýsingatíma hennar.

Fjallað er um auglýsingu aðalskipulagstillögu í 31. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 1. mgr. nefndrar greinar skal sveitarstjórn auglýsa tillögu að aðalskipulagi með áberandi hætti, svo sem í dagblaði sem gefið sé út á landsvísu. Tillagan skal einnig auglýst í Lögbirtingablaðinu. Tillagan skal liggja frammi á skrifstofu hlutaðeigandi sveitarfélags eða á öðrum opinberum stað og vera auk þess aðgengileg á netinu. Í 2. mgr. 31. gr. segir að í auglýsingu skuli tilgreina hvar tillagan sé til sýnis og hve lengi og skal sá tími ekki vera skemmri en athugasemdafrestur. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests. Framangreind lagaákvæði bera með sér að markmið auglýsingar er að gera þeim sem vilja kynna sér tillöguna kleift að nálgast hana en ekki að koma öllum þeim upplýsingum á framfæri sem fram koma í tillögunni sjálfri. Var auglýsing um kynningu skipulagstillögunnar því í samræmi við 1. og 2. mgr. 31. gr. skipulagslaga.

Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa skv. 1. mgr. 37. gr. skipulags­laga. Hvorki í skipulagslögum né skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er gerð krafa um að tilgreint sé í deiliskipulagi hvort íbúðir séu byggðar fyrir tiltekinn hóp fólks og var því ekki þörf á að taka sérstaklega fram að umræddur íbúðakjarni væri ætlaður fyrir fatlaða einstaklinga.

Samkvæmt Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 er hin umdeilda lóð á íbúðarsvæði ÍB5. Í kafla 3.8.2. Félagsþjónusta, segir að gert sé ráð fyrir að á gildistíma aðalskipulagsins verði fleiri íbúðir fyrir fatlaða teknar í notkun og skuli þær dreifast sem mest um hverfi bæjarins. Í 10. gr. þágildandi laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 er fjallað um búsetu fatlaðra. Þannig er í 1. mgr. kveðið á um að fatlað fólk skuli eiga kost á félagslegri þjónustu, sem geri því kleift að búa á eigin heimili, og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur sé. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að sveitarfélag skuli tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum skv. 1. mgr. sé til staðar jafnframt því að veita þjónustu skv. 1. mgr. Í 4. mgr. lagagreinarinnar er svo tekið fram að húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk skuli vera í íbúðarbyggð skv. skipulagslögum. Að sama skapi kemur fram í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk nr. 370/2016 að sé þörf fyrir sérstakt húsnæði vegna sérstakra eða mikilla þjónustuþarfa fatlaðs fólks skuli þjónustuaðili sem ábyrgð beri á þjónustunni tryggja að slíkt húsnæði sé til staðar. Loks er tekið fram í a-lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að íbúðir fyrir fatlaða skuli vera í almennri íbúðarbyggð. Var bæjaryfirvöldum því ekki aðeins heimilt heldur skylt að tryggja íbúðarhúsnæði fyrir fatlað fólk og að slíkt húsnæði væri í íbúðarbyggð. Eðli húsnæðisins breytist ekki við veru aðstoðarfólks í húsnæðinu, sem er eftir atvikum nauðsynlegt með tilliti til framangreindra ákvæða. Allt að einu er um íbúðarbyggð að ræða en ekki atvinnuhúsnæði.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrarbæjar frá 4. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Klettaborgar.

130/2018 Ekrusmári

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Nónhæðar vegna Ekrusmára 4, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. október 2018, er barst nefndinni 26. s.m., kæra eigendur Ekrusmára 4, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs­­­­­­­­bæjar frá 25. september 2018 að synja um breytingu á deiliskipulagi Nónhæðar vegna Ekrusmára 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 11. desember 2018.

Málavextir: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar að Ekrusmára 4, Kópavogi. Húsið sem stendur á lóðinni er 182 m² á einni hæð og lóðin er 784 m². Hinn 30. október 2017 sóttu kærendur um breytingu á deiliskipulagi svæðisins vegna fyrirhugaðrar stækkunar á byggingar­reit lóðarinnar til norðurs þar sem reisa mætti 80 m² viðbyggingu á einni hæð og kjallara. Við breytinguna færi nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,23 í 0,33. Var beiðnin tekin fyrir á fundi skipulagsráðs 6. nóvember 2017. Á fundinum var ákveðið að grenndarkynna tillögu kærenda samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir lóðarhöfum Ekrusmára 2 og 6 og Grundarsmára 1, 3 og 5. Athugasemdar­frestur var til 20. apríl 2018. Athugasemdir bárust frá hagsmunaaðilum á kynningar­­tíma tillögunnar.

Á fundi skipulagsráðs 7. maí 2018 var málinu vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar og var umsögnin lögð fram á fundi ráðsins 16. júlí s.á. Í henni kom fram það mat deildarinnar að fyrirhuguð breyting á nýtingarhlutfalli væri í samræmi við gildandi deiliskipulag og ylli ekki íþyngjandi umhverfisáhrifum af umferð eða innsýn. Fyrirhuguð breyting leiddi hins vegar til verulegar stækkunar á byggingarreitt, eða um fjóra metra, og þar sem áætluð hæð viðbyggingar yrði 6,2 m ylli hún íþyngjandi umhverfisáhrifum, sérstaklega fyrir Ekrusmára 2, vegna skerts útsýnis og skuggavarps úr vestri á lóð og hús. Breytingin hefði fordæmisgildi fyrir svæði nr. 8 á Nónhæð. Málinu var frestað og skipulagsstjóra falið að boða málsaðila og hagsmunaaðila til samráðs­fundar. Á samráðsfundi 15. ágúst 2018 mættu þeir aðilar sem gerðu athugasemdir við tillöguna ásamt kærendum. Á fundinum lögðu kærendur fram nýja og breytta tillögu sem gerði ráð fyrir 100 m² viðbyggingu í stað 80 m². Á fundi skipulagsráðs 17. september s.á. var tillögu kærenda hafnað og var afgreiðslu ráðsins vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjar­stjórnar 25. september 2018 var afgreiðsla skipulags­ráðs staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að höfnun Kópavogsbæjar á beiðni þeirra um stækkun á byggingarreit sé ólögmæt þar sem hún byggist á röngum og ómálefnalegum for­sendum. Hvað varði innsýn þá hafi skipulags- og byggingar­deild bæjarins komist að því í umsögn sinni, sem lögð hefði verið fram á fundi skipulagsráðs 16. júlí 2018, að breytingartillagan myndi ekki hafa íþyngjandi áhrif á innsýn til nágranna. Norðan við hús kærenda sé óbyggt land sem geri það að verkum að mikil fjarlægð sé í næsta hús til norðurs. Ekki sé gert ráð fyrir hækkun hússins heldur fyrst og fremst að gerður verði kjallari og húsið stækkað sem honum nemi. Hæsti punktur hússins haldist óbreyttur en byggingarreitur færist fjórum metrum nær lóðarmörkum í norður. Athygli sé vakin á því að aðrar lóðir liggi ekki að þeim lóðar­mörkum heldur opið svæði í eigu bæjarins. Verönd við húsið að Ekrusmára 2 sé við suðvestur­horn húss kærenda og verði ekki séð að umrædd stækkun til norðurs hafi áhrif á skuggavarp á veröndina. Samkvæmt gögnum um skuggavarp sé um að ræða mjög takmörkuð áhrif austan megin við húsið, en ekki töluverð, eins og haldið sé fram af hálfu Kópavogsbæjar.

Í gildi sé deiliskipulag fyrir Nónhæð frá nóvember 1991. Samkvæmt skipulaginu sé hús kærenda að Ekrusmári 4 á svæði nr. 8 en í skilmálum fyrir svæðið sé þar gert ráð fyrir einbýlishúsum á tveimur hæðum og að samanlagður gólfflötur húsa skuli vera að hámarki 279,2 m². Húsið að Ekrusmára 4 sé nú skráð 182,2 m² en mjög mörg fordæmi séu fyrir því að samþykkt hafi verið stærri hús á svæðinu. Þær röksemdir Kópavogsbæjar séu því ekki réttar að aukinn fermetrafjöldi yrði nær hámarki og að Ekrusmári 4 yrði eftir breytinguna með stærstu húsum í götunni.

Mótmælt sé röksemdum Kópavogsbæjar um að nýtingarhlutafall lóðarinnar yrði hærra en meðal­nýtingarhlutfall á svæðinu, en það sé að meðaltali 0,28 meðan að tillagan feli í sér að nýtingarhlutfall verði 0,35. Í deiliskipulagi fyrir Nónhæð komi ekki fram neinar upplýsingar um hámarks­­nýtingar­hlutfall á svæðinu. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2014 sé hins vegar miðað við að nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða sé 0,20-0,35. Sé stækkunin því innan þeirra marka sem skipulag sveitarfélagsins geri ráð fyrir.

Kópavogsbær vísi til þess að um sé að ræða gróið hverfi þar sem litlar sem engar breytingar af þessu tagi hafi verið gerðar á þegar byggðu svæði. Á það beri hins vegar að líta að þegar hafi verið samþykktar svipaðar breytingar, s.s. stækkanir á Bergsmára 10, Bakka­smára 16, Grundarsmára 13 og Bollasmára 6. Hverfið hafi verið að taka á sig mynd en viðbúið sé að alltaf verði einhverjar breytingar, jafnvel í grónum hverfum. Kópavogsbær væri því ekki að setja fordæmi með því að samþykkja tillöguna heldur hafi bærinn nú þegar skapað fordæmi með þeim breytingum sem samþykktar hafi verið. Ítrekað sé að sú breyting sem sótt sé um sé innan ramma skipulags að öllu leyti nema að byggingarreitur stækki um 4 m til norðurs í átt að svæði sem sé óbyggt. Nýtingarhlutfall sé innan marka aðalskipulags.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að hin breytta tillaga feli í sér töluvert meiri grenndaráhrif en upphafleg tillaga. Þá hafi verið tekið fram í umsögn við fyrri tillögu að þrátt fyrir að sú tillaga væri í samræmi við skipulag svæðisins færi fyrirhuguð breyting verulega út fyrir byggingarreit og hefði íþyngjandi grenndaráhrif, þá sérstaklega gagnvart Ekrusmára 2. Uppfærð tillaga og sú sem kærendur hafi viljað leggja fram í stað upphaflegrar tillögu hefði enn meiri grenndaráhrif þar sem viðbyggingin myndi þá ná lengra í átt að mörkum aðliggjandi lóða, auk þess sem þá væri einnig gert ráð fyrir svölum á vestur- og austurenda viðbyggingarinnar. Í samskiptum kærenda við skipulagsyfirvöld hafi kærendur óskað eftir að draga upphaflegu tillöguna til baka og koma með nýja tillögu sem kæmi frekar til móts við athugasemdir hagsmunaaðila. Á samráðs­fundi með hagsmunaaðilum hafi hins vegar verið lögð fram ný tillaga sem hafi falið í sér aukningu byggingarmagns, þ.e. úr 44% í tæplega 55%. Bæjaryfirvöld telji að ekki sé hægt að bera saman uppbyggingu á óbyggðu svæði, s.s. Nónhæð, við það að auka byggingarmagn við þegar byggt hús í þéttu og grónu hverfi. Þá verði að telja þær breytingar sem kærendur bendi á að hafi verið samþykktar í nágrenninu töluvert minna íþyngjandi. Það eitt að heimilaðar hafi verið óverulegar breytingar í nágrenni við hús kærenda geti ekki gefið fordæmi fyrir þeirri viðbyggingu sem hér um ræði, enda sé hún töluvert stærri og hafi ívið meiri grenndaráhrif en tilgreindar breytingar.

Það sé bæjarstjórn sem fari með skipulagsvald innan marka sveitar­félagsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist tæki bæjarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Í máli þessu hafi bæjarstjórn í skjóli skipulagsvalds síns synjað umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi vegna Ekru­smára 4, sem að mati bæjarins sé byggt á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða: Um deiliskipulagsáætlanir er fjallað í VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga, en land­­eigandi eða framkvæmdaraðili getur m.a. óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað, sbr. 2. mgr. 38. gr. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna skal fara með breytingar á samþykktu deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða að öðru leyti en því að ekki er skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu skv. 1. mgr. 40. gr. Þá er sveitarstjórn heimilt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna að láta grenndar­kynna tillögu að breyttu deiliskipulagi sé hún óveruleg.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Á því svæði sem hér um ræðir hefur bæjarstjórn nýtt sér framangreint skipulagsvald með deiliskipulagi Nónhæðar frá nóvember 1991. Þá hefur sveitarstjórn í skjóli skipulagsvalds síns synjað kærendum um breytingu á því skipulagi. Kemur þá til skoðunar hvort sveitarstjórn hafi beitt valdi sínu á málefnalegan hátt og í samræmi við það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. nefndra laga að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Eins og rakið hefur verið fól tillaga kærenda að breyttu deiliskipulagi í sér 100 m² viðbyggingu á baklóð Ekrusmára 4, en upphafleg grenndarkynnt tillaga gerði ráð fyrir 80 m² viðbyggingu. Var það mat sveitarfélagsins að hafna bæri tillögu kærenda þar sem hún hefði í för með sér töluverð grenndaráhrif gagnvart lóðum næstu nágranna með skerðingu á útsýni og auknu skuggavarpi. Við deiliskipulags­breytinguna færi nýtingarhlutfall lóðar kærenda úr 0,23 í 0,35, en til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall lóðarinnar Ekrusmára 2 er 0,20 og nýtingarhlutfall lóðarinnar Ekrusmára 6 er 0,25. Samkvæmt Aðal­skipulagi Kópavogsbæjar 2012-2024 eru þau viðmið sett að nýtingar­hlutfall einbýlishúsa­lóða á deiliskipulögðum svæðum sé á bilinu 0,20-0,35. Fæli breytingin því í sér töluvert hærra nýtingarhlutfall en á næstu lóðum, sem væri fordæmisgefandi, og með því yrði farið í hámarksviðmið aðal­skipulagsins um nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða í sveitar­félaginu. Búa því efnis- og skipulagsrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þeirrar staðreyndar að íbúum sveitarfélags er  ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram breytingu á gildandi deiliskipulagi, verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Nónhæðar vegna Ekrusmára 4, Kópavogi.

50/2019 Döllugata

Með

Árið 2019, mánudaginn 16. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 50/2019, kæra á umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2019, er barst nefndinni 1. júlí s.á., er kærð umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 3. maí 2019 er varðaði umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Döllugötu 4, Reykjavík.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 11. júlí 2019.

Málavextir: Kærendur sóttu um byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með auka íbúð og innbyggðum bílskúr úr CLT krosslímdum timbureiningum á staðsteyptum grunni á lóð nr. 4 við Döllugötu, Reykjavík. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. mars 2019 þar sem henni var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn frá 3. maí s.á. bókaði skipulagsfulltrúi: „Neikvætt. Samræmist ekki deiliskipulagi, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa dags. 3. maí s.á.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. maí s.á. var málinu frestað með vísan til athugasemda skipulagsfulltrúa. Málinu var aftur frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 11. júní s.á. með vísan til athugasemda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. júlí 2019 var umsókn kærenda samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærendur telja, andstætt niðurstöðu skipulagsfulltrúa, að teikningar standist deiliskipulag. Kærendur hafi skilað inn greinargerð og gögnum sem styðji framangreinda afstöðu kærenda. Engin viðbrögð hafi fengist vegna þeirrar greinargerðar. Hvergi í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í reglugerðir máli skipulagsfulltrúa til stuðnings.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða. Afgreiðslu byggingarleyfisumsóknarinnar hafi verið frestað hjá byggingarfulltrúa með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og annarra athugasemda sem séu við erindið. Því hafi engin stjórnsýsluákvörðun verið tekin um afgreiðslu erindisins. Þar sem ekki sé um lokaákvörðun að ræða beri að vísa málinu frá nefndinni skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þrátt fyrir umsögn skipulagsfulltrúa hefur byggingarfulltrúi samþykkt að veita kærendum byggingarleyfi það er umsögnin snerist um. Hafa kærendur því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af því að fá skorið úr um lögmæti umsagnarinnar, sem aukinheldur batt ekki enda á málið eins og áskilið er til að hún verði kærð skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

122/2018 og 46/2019 Þjóðhildarstígur

Með

Árið 2019, föstudaginn 13. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. mars 2018 um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar að Þjóðhildarstíg 2-6, ófrágenginnar lóðar og bílaumferðar á baklóð nefndrar lóðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Grænlandsleið 19 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. mars 2018 að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar að Þjóðhildarstíg 2-6, ófrágenginnar lóðar og bílaumferðar á baklóð nefndrar lóðar. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2019, er barst nefndinni 4. s.m., kæra sömu aðilar þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2019 að synja kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna umferðar bifreiða um baklóð Þjóðhildarstígs 2-6. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Með hliðsjón af því að sömu aðilar standa að báðum kæru­málum og hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar verður síðara kærumálið, sem er nr. 46/2019, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 25. janúar og 26. ágúst 2019.

Málavextir: Kærendur hafa um árabil kvartað til borgaryfirvalda yfir frágangi og bílaumferð á baklóð Þjóðhildarstígs 2-6 sem þau telja að sé í ósamræmi við skipulag svæðisins. Hinn 6. júní 2017 samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á þak bíla­geymslu og skyggni framan við bílastæði við húsið að Þjóðhildarstíg 2-6. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en í kæru sinni óskuðu þau eftir því að gengið yrði frá lóðinni samkvæmt deiliskipulagi og framkvæmdir við viðbygginguna yrðu stöðvaðar á meðan. Í úrskurði upp kveðnum 22. maí 2018 var kærumálinu vísað frá sökum aðildarskorts en jafnframt var bent á að það væri hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra væri í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ákvörðun um að beita eða synja beitingu þeirra úrræða geti eftir atvikum verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með tölvupósti, dags. 23. febrúar 2018, kvartaði annar kærenda yfir skjólvegg á baklóð Þjóðhildarstígs 2-6 til byggingarfulltrúa og krafðist þess að skjólveggurinn yrði fjarlægður með vísan til 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í svari byggingarfulltrúa 13. mars s.á. kemur fram að á meðan framkvæmdir stæðu yfir, þjóni skjólveggurinn öryggishlutverki og verði því ekki farið fram á niðurrif hans að svo stöddu. Að framkvæmdum loknum verði málið skoðað að nýju og áhersla lögð á að gengið verði frá lóð í samræmi við gildandi deiliskipulag. Hinn 19. maí s.á. leitaði annar kærandi þessa máls til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir samskiptum sínum við byggingarfulltrúa. Með bréfi, dags. 17. september s.á., leiðbeindi umboðsmaður kæranda um þann möguleika að leita til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 13. mars. s.á. Sem fyrr greinir barst kæra í máli þessu til nefndarinnar 5. október s.á.

Hinn 24. september 2018 óskaði kærandi eftir því við byggingarfulltrúa að hann beitti þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 vegna umferðar bifreiða um baklóð Þjóðhildarstígs 2-6. Í svari byggingarfulltrúa 24. maí 2019 var áréttað að á meðan fram­kvæmdir stæðu yfir á lóðinni muni byggingarfulltrúi ekki gera kröfu um úrbætur. Því sé kröfu um beitingu þvingunarúrræða hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í bréfi byggingarfulltrúa frá 28. nóvember 2017 til eiganda Þjóðhildarstígs 2-6 komi fram að ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir hinum umrædda skjólvegg sem sé yfir 180 cm á hæð. Í ítrekunarbréfum byggingarfulltrúa til eiganda hafi komið fram að gróðurþekja eigi að vera á þaki bílgeymslu samkvæmt gildandi deiliskipulagi og grenndarkynntum teikningum að fyrri viðbyggingu frá árinu 2006. Því hefði fyrir löngu átt að vera búið að setja gróðurþekju á þak bílgeymslunnar. Í stað þess hafi verið reistur hár skjól­veggur sem nýttur hafi verið sem geymslustaður fyrir drasl, en það sé önnur nýting á mann­virkinu en gert hafi verið ráð fyrir samkvæmt teikningum.

Þrátt fyrir 14 ára samfelldan veitingarekstur að Þjóðhildarstíg 2-6 sé baklóð þess enn ófrágengin. Það eigi að vera löngu búið að klára þessa lóð og kærendur séu sannfærðir um að eigandi ætli sér ekki að ganga frá lóðinni samkvæmt gildandi deiliskipulagi frekar en áður.

Akstur um baklóð lóðarinnar sé í trássi við gildandi deiliskipulag. Veitingahúsið sem rekið sé á lóðinni í rúmlega 30 m fjarlægð frá íbúðabyggð. Bakhlið hússins, sem snúi að íbúða­byggðinni, hafi alltaf átt að vera lokuð. Á öllum tímum sólarhrings sé umferð á baklóðinni og fólki hleypt út og inn um bakdyr hússins. Kærendur hafi kvartað yfir því í áraraðir en ekkert hafi breyst. Um sé að ræða stórt hús með leyfi fyrir 1.446 manns, í hávaðaflokki III þar sem spila megi háværa tónlist í um 30 m fjarlægð við heimili kærenda. Eigandi hafi hunsað kröfur byggingarfulltrúa frá því í mars 2017, en þær hafi svo verið ítrekaðar í nóvember s.á.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að gefið hafi verið út byggingarleyfi fyrir viðbyggingu ofan á aðkomu bakinngangs umrædds húss. Á meðan á framkvæmdum standi þjóni skjólveggurinn öryggishlutverki og því verði ekki farið fram á niðurrif hans. Að framkvæmdum loknum verði málið skoðað að nýju og lögð áhersla á að gengið verði frá lóð í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Bæði 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki hafi að geyma matskenndar heimildir til handa byggingarfulltrúa til að beita þvingunarúrræðum ef um sé að ræða brot á ákvæðum laganna. Sé það undir byggingarfulltrúa komið hverju sinni, að teknu tilliti til allra aðstæðna, hvort bregðast eigi við ólögmætu ástandi með beitingu þvingunarúrræða. Við þá ákvörðun beri byggingarfulltrúa að líta til grundvallarreglna stjórnsýslulaga, s.s. um meðalhóf, enda sé um að ræða íþyngjandi aðgerð af hans hálfu. Íþyngjandi ákvörðun verði ekki tekin nema útilokað sé að ná sama markmiði með vægara úrræði. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að ekki væri ástæða til slíkra aðgerða því að þrátt fyrir að skjólveggurinn sé óleyfisframkvæmd en hann hafi þann tilgang að tryggja öryggi á lóðinni. Því hafi byggingarfulltrúi ekki séð ástæðu til að beita þvingunarúrræðum að svo stöddu.

Ekki verði séð að krafa þess efnis að beita skuli þvingunarúrræðum vegna ófrágenginnar bak­lóðar hafi verið beint að embættinu. Þar sem engin kæranleg stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir varðandi þá kröfu sé farið fram á að þeim hluta kærunnar verði vísað frá.

Kærendur hafi 25. september 2018 krafist þess að gripið yrði til þvingunarúrræða skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki vegna umferðar bifreiða á baklóð. Það sé mat byggingarfulltrúa að ekki sé nauðsyn á því að beita þvingunarúrræðum vegna umferðar um baklóð lóðarinnar. Á það hafi verið bent að framkvæmdir standi yfir við fasteignina og það sé eðlilegur hluti fram­kvæmda að hægt sé að komast að baklóðinni með efni og aðföng vegna hennar. Til standi að fara í framkvæmdir við frágang lóðarinnar eftir að bygggingarframkvæmdum ljúki. Byggingar­fulltrúi hafi komið sjónarmiðum um umferð á lóðinni til eiganda fasteignarinnar og vakið athygli á þeim kvörtunum sem embættinu hafi borist.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er bent á að nefndur skjól­veggur hafi engin áhrif á útsýni frá húsi kærenda enda standi það mun hærra í landi en skjól­veggurinn. Þá sé skjólveggurinn ekki á lóðamörkum kærenda og Þjóðhildarstígs 2-6. Kærendur hafi því ekki lögvarða hagsmuni af gerð og stöðu viðkomandi skjólveggjar. Þar að auki gegni veggurinn öryggishlutverki vegna byggingaframkvæmda.

Forsenda þess að unnt sé að ganga frá lóð við Þjóðhildarstíg 2-6 sé að lóðamörk liggi fyrir og þau séu skýr. Á hluta þess svæðis sem sé sunnan við Þjóðhildarstíg 2-6 liggi gangstígur sem sé innan lóðamarka Þjóðhildarstígs. Framkvæmdaraðili hafi í tvígang lagt fram tillögur að nýjum lóðamörkum að beiðni byggingaryfirvalda en það mál sé óafgreitt af þeirra hálfu. Frágangur lóðar geti ekki hafist fyrr en þetta mál sé frágengið af hálfu byggingar- og skipulagsyfirvalda. Megnið af ófrágengnu landi á milli Þjóðhildarstígs 2-6 og húss kærenda sé í eigu borgarinnar.

Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur og deiliskipulagi fyrir umrætt svæði sé gert ráð fyrir þjónustu- og verslunarhúsnæði með umlykjandi lóðum. Allar teikningar fyrir Þjóðhildarstíg 2-6 séu samþykktar af byggingarfulltrúa og þar sé gert ráð fyrir að þrennar dyr séu á suðurhlið hússins sem þjónusti efri hæð hússins auk þess að vera flóttaleiðir. Suðurhlið lóðarinnar sé aksturshæf. Í deiliskipulagi segi ekkert um að ekki megi nota lóðina þannig að sendibílar geti komist að fyrrgreindum dyrum. Í slíkri notkun á lóðinni felist ekki að verið sé að nota hana sem bílastæði enda sé bæði eðlismunur og lagalegur munur á stöðvun bifreiðar til að ferma eða afferma og lagningu bifreiða. Það sé rangt sem fram komi í kæru að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að bakhlið hússins skyldi vera lokuð.

Við úthlutun lóðarinnar Þjóðhildarstígs 2-6 hafi legið fyrir að starfsemi í húsinu fælist í veitingaþjónustu og umsjón einkasamkvæma og fyrir liggi fullgild leyfi til þeirrar starfsemi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.

Tilkynning um hina  kærðu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var send með tölvupósti 13. mars 2019 en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 5. október s.á. Var eins mánaðar kærufrestur samkvæmt framansögðu liðinn. Fyrir liggur að í tilkynningu ákvörðunarinnar var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar svo sem bar að gera skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Annar kærenda sneri sér til umboðsmanns Alþingis vegna umræddrar niðurstöðu borgaryfirvalda og er svar umboðsmanns við erindi hans dagsett 17. september 2018 þar sem bent var á kæruleið og kærufrest mála sem borin verða undir úrskurðarnefndina. Barst fyrri kæra í máli þessu innan mánaðar frá dagsetningu bréfs umboðsmanns. Með hliðsjón af framangreindu þykir afsakanlegt  að kæran hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður hún því tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Krafa kærenda um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á lóð Þjóðhildarstígs 2-6 var lögð fram með vísan til 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt ákvæðinu er það skipulagsfulltrúi sem tekur ákvörðun um beitingu þvingunar­úrræða vegna framkvæmda sem brjóta í bága við skipulag eða eru án framkvæmdaleyfis. Með hliðsjón af því að skjólveggurinn kom til vegna byggingarleyfis fyrir viðbyggingu ofan á aðkomu bakinngangs hússins á nefndri lóð var málið hins vegar afgreitt af byggingarfulltrúa enda tekur byggingarfulltrúi ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða vegna byggingarleyfis­skyldra framkvæmda á grundvelli 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Er ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis háð mati stjórn­valds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. laganna í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þess sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Gefur umrætt ákvæði sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hags­munum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða vegna skjól­veggjar var studd þeim rökum að á meðan á framkvæmdum standi þjóni skjólveggurinn öryggishlutverki. Þá var ákvörðun hans um að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna umferðar um baklóð studd þeim rökum að ekki yrðu gerðar kröfur um úrbætur á lóðinni á meðan framkvæmdir stæðu þar yfir. Framkvæmdum sé ekki enn lokið en samkvæmt sam­þykktum uppdráttum muni verða farið í frágang á baklóðinni. Líta verður svo á að með þeirri ákvörðun hafi byggingarfulltrúi jafnframt tekið afstöðu til þeirrar kröfu kærenda að beitt yrði þvingunarúrræðum vegna ófrágenginnar baklóðar. Verður að telja að hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa um að hafna beitingu þvingunarúrræða hafi verið studdar efnis­legum rökum, m.a. með hliðsjón af öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þar sem að fram­kvæmdir standa enn yfir verður framangreindu mati byggingarfulltrúa ekki hnekkt, þrátt fyrir að ekki liggi fyrir í málinu af hvaða ástæðum framkvæmdir hafa dregist svo sem raun ber vitni.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavíkur frá 13. mars 2018 að hafna beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar að Þjóðhildarstíg 2-6, ófrágenginnar lóðar og bílaumferðar á baklóð nefndrar lóðar.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. maí 2019 um að synja beiðni kærenda um beitingu þvingunarúrræða vegna umferðar bifreiða um baklóð Þjóðhildarstígs 2-6.

81/2018 Fitjar

Með

Árið 2019, föstudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2018, kæra á beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 þess efnis að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2018, er barst nefndinni 7. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Fitja, Skorradalshreppi, beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps frá 23. janúar 2018 um að kærendur leggi fram breytingu á Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Er þess krafist að staðfest verði að máls­meðferð Skorradalshrepps hvað varðar skipulagskröfur vegna „aukahúss á bújörð“ sé óhófleg og að byggingarfulltrúi, skipulagsfulltrúi, skipulagsnefnd og hreppsnefnd hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni skv. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er þess krafist að staðfest verði að á grundvelli Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 og skipulagslaga sé eðlilegast að landeigendur sæki um byggingarleyfi þegar um er að ræða „aukahús á bújörð“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 18. júlí 2018.

Málavextir: Á árinu 2017 áttu kærendur í samskiptum við Skorradalshrepp vegna stofnunar íbúðalóða í landi Fitja. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 12. desember s.á. var tekin fyrir ósk kærenda um gerð deiliskipulags fyrir tvær íbúðalóðir í landi Fitja. Hafnaði nefndin beiðninni þar sem að hún samræmdist ekki stefnu Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 en í aðalskipulaginu kom fram að innan annarrar íbúða­lóðarinnar væri skilgreint svæði fyrir verslun og þjónustu. Annar kærandi þessa máls sendi skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var leiðbeininga um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi fyrir aukahúsi í landi Fitja eða hvort óska ætti eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi sem fælist í því að svæði fyrir verslun og þjónustu á Fitjum yrði fellt út. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa 23. s.m. kemur m.a. fram að svo málið verið tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd verði kærandinn að leggja fram óverulega breytingu á aðalskipulagi og samhliða því mætti senda inn deiliskipulags­tillögu íbúðalóðanna.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 segi í kafla 5.2 um íbúðarsvæði að heimilt sé að reisa þrjú stök íbúðarhús á hverri jörð, óháð búrekstri, án þess að aðalskipulagi sé breytt. Með lögum nr. 7/2016 um breytingu á skipulags­lögum nr. 123/2010 hafi verið gerð breyting á 44. gr. skipulagslaga. Eftir breytinguna segi í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, en deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis komi fram að markmið þeirra breytinga sem lagðar séu til í frumvarpinu sé að sveitarfélög geti veitt leyfi til einstakra framkvæmda, m.a. á svæðum utan þegar byggðra hverfa, án þess að deiliskipuleggja svæðið.

Ekki sé hægt að gera þá kröfu til almennra borgara að þeir þekki lög og reglur til hlítar og því verði stjórnvöld að sinna leiðbeiningarskyldu sinni. Annar kærandi þessa máls hafi í byrjun janúar 2018 haft samband við Skipulagsstofnun til að ræða muninn á breytingu aðalskipulags og óverulegri breytingu aðalskipulags og í kjölfarið talið að lag væri að leggja fram óverulega breytingu aðalskipulags. Þessi kærandi hafi farið með þær upplýsingar á fund skipulagsfulltrúa og formanns skipulagsnefndar 16. janúar s.á. og hafi niðurstaðan orðið sú að kærandi skyldi senda inn slíka beiðni. Hvorki skipulagsfulltrúi né formaður skipulagsnefndar minntust á að komast mætti hjá skipulagsferli í málinu, þ.e. að sækja mætti um byggingarleyfi fyrir húsinu. Kærandi hafi síðar fengið þær upplýsingar frá öðrum fulltrúa í skipulagsnefnd sveitarfélagsins að ekki þyrfti að fara í neinar skipulags­breytingar þegar um væri að ræða „aukahús á bújörð“.

Í viðbótarathugasemdum kærenda er frekari framgangur málsins rakinn og er m.a. vísað til þess að skipulags- og byggingarnefnd hafi á fundi sínum 7. júní 2018 talið þörf á lýsingu deiliskipulags. Telja kærendur að falla hefði mátt frá lýsingu deiliskipulags á grundvelli 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga auk þess sem hægt hefði verið að auglýsa deiliskipulagstillögu samhliða óverulegri aðalskipulagsbreytingu.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þar sem fjallað er um efni kæru til nefndarinnar, segi m.a. að í kæru skuli koma fram hvaða ákvörðun það sé sem verið sé að kæra. Efni kærunnar varði ekki tiltekna lokaákvörðun sveitarfélagsins eða skipulagsfulltrúa þess í afmörkuðu stjórnsýslumáli eins og áðurnefnt lagaákvæði kveði á um. Kröfur kærenda lúti allar að því að nefndin staðfesti skilning kærenda sjálfra á því hvað sé óhófleg og/eða eðlileg málsmeðferð og einnig að staðfest verði að nefndir og starfsmenn hreppsins hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu við meðferð umrædds skipulagsmáls. Í málinu sé þannig að mati hreppsins ekki gerð nein krafa um að tilteknar lokaákvarðanir séu felldar úr gildi. Jafnframt segi í 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Það vísi til þess áskilnaðar laganna að til þess að nefndin geti tekið mál til úrskurðar þurfi að kæra tiltekna ákvörðun eða ákvarðanir. Enn fremur sé kæran óskýr og ruglingsleg hvað varðar hin kærðu atriði og geri þannig mun erfiðara að svara þeim atriðum sem fram komi í kærunni. Þar sem engin lokákvörðun sé kærð sé þess krafist að kærunni verði vísað frá.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála efir því sem mælt er fyrir um í lögunum. Er slíka kæruheimild að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum sóttu kærendur um gerð deiliskipulags vegna tveggja íbúðalóða í landi Fitja í Skorradalshreppi. Átti annar kærandi í sam­skiptum við starfsmenn sveitarfélagsins vegna málsins. Fór svo að sá kærandi sendi skipulags­fulltrúa sveitarfélagsins tölvupóst 18. janúar 2018 þar sem óskað var eftir leiðbeiningum um hvort kærendur ættu að sækja um byggingarleyfi eða óska eftir óverulegri breytingu á aðalskipulagi. Í svari skipulagsfulltrúa 23. s.m. er kærendum leiðbeint um að leggja verði fram óverulega breytingu á aðalskipulagi til þess að málið verði tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd.

Með vísan til þessa verður hin kærða beiðni skipulagsfulltrúa Skorradalshrepps ekki talin fela í sér ákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

115/2018 Bankastræti

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 12. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar um að breyta skilmálum deiliskipulags reits 1.171.2, á þann veg að heimila áður gerða geymslu, sorpgerði og svalir að Bankastræti 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 4c, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar frá 17. ágúst 2018, að breyta skilmálum deiliskipulags á reit 1.171.2, með því að heimila áður gerða geymslu, sorpgerði og svalir að Bankastræti 12. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. október 2018.

Málavextir: Í byrjun ágúst 2011 sendi kærandi byggingarfulltrúa fyrirspurn þess efnis hvort veitt hefði verið byggingarleyfi fyrir stórum viðarstrúktúrum, svölum, tröppum o.fl., sem byggð hefðu verið í porti sunnan við veitingastaðinn Prikið að Bankastræti 12, og þá til hvaða starfsemi það leyfi næði, en eins og sæist af ljósmyndum neyttu gestir staðarins áfengis á svölunum og í portinu eftir kl. 22 á kvöldin. Svar byggingarfulltrúa barst hinn 9. s.m. þar sem fram kom að málið hefði verið skoðað og að greinilegt væri að byggt hefði verið út fyrir heimildir. Aðspurður staðfesti kærandi við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdin ylli ónæði í nágrenninu.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð umrædds húss. Var umsóknin tekin fyrir á ný á fundi hinn 22. s.m. og er í fundargerð vísað til athugasemda eldvarnaeftirlits á umsóknarblaði. Umsóknin var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. desember s.á. Kærandi ítrekaði erindi sitt til byggingarfulltrúa 30. nóvember 2011, sem og 3. janúar 2012. Svar byggingarfulltrúa barst honum hinn 3. febrúar s.á., þar sem fram kom að leyfi fyrir framkvæmdunum hefði verið veitt hinn 6. desember 2011. Kærandi kærði veitingu leyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 2. maí 2012 sem með úrskurði uppkveðnum 21. nóvember 2013 felldi byggingarleyfið úr gildi þar sem það samræmdist ekki deili­skipulagi svæðisins.

Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi byggingarfulltrúa fyrirspurnir, dags. 28. janúar, 6. mars. og 28. mars 2014, þar sem spurt var um aðgerðir Reykjavíkurborgar í kjölfar úrskurðarins. Kæranda barst svar, dags. 28. mars s.á., þar sem fram kom að niðurstöðu væri að vænta á næstunni. Kærandi ítrekaði fyrirspurnina með tölvupósti 3. október s.á. og 24. s.m. Svar barst frá byggingarfulltrúa samdægurs vegna seinni fyrirspurnarinnar þar sem fram kom að farið yrði yfir málið á næstu dögum og muni kærandi upplýstur um framvindu mála. Enn sendi kærandi fyrirspurn dags. 18. febrúar 2016 og fékk það svar, 18. júlí s.á., að málið yrði skoðað. Kærandi benti svo á með tölvupósti 8. mars 2017 að honum hafi engin svör borist.

Sótt var um breytingu á skilmálum deiliskipulags staðgreinireits 1.171.2 28. september 2017. Tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulagsins vegna lóðarinnar nr. 12 við Bankastræti var grenndarkynnt frá 21. nóvember 2017 til og með 19. desember s.á. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma. Kærandi sendi Reykjavíkurborg fyrirspurn, dags. 2. febrúar 2018, þar sem hann sagðist hafa rekist á auglýsingu um breytingu á deiliskipulagi. Kærandi spurði hvernig útfærslan væri frábrugðin þeirri sem hafði verið felld úr gildi í fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þá spurði hann hvort að álits Minjastofnunar hafi verið leitað vegna breytingarinnar. Að lokum spurði kærandi hvers vegna grenndarkynningin hefði ekki náð til hans. Kærandi ítrekaði fyrirspurn sína 23. febrúar 2018 og aftur 2. mars. s.á. Kærandi fékk loks svarbréf hinn 21. s.m. Hinn 23. s.m. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna að nýju og fór sú grenndarkynning fram frá 5. apríl s.á. til og með 7. maí s.á. Kærandi var meðal þeirra sem grenndarkynningin náði til og sendi hann inn athugasemdir sem skipulagsfulltrúi svarað í umsögn sinni, dags. 18. júlí 2018. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 17. ágúst s.á. var tillagan samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 28. september s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á það bent að byggðar hafi verið svalir og tröppur í porti sunnan við Bankastræti 12 og hafi portið þjónað sem viðbót við skemmtistaðinn Prikið þó svo að skemmtistaðurinn hafi ekki haft útileyfi til veitingasölu. Þessi starfsemi hafi aukið mjög hávaða og ónæði frá staðnum. Þar sem umrætt hús sé friðað þurfi leyfi Minjastofnunar fyrir breytingunum en eftir því hafi aldrei verið leitað, hvorki nú né þegar byggingarleyfi það sem fellt var úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi verið veitt. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir kæranda til byggingarfulltrúa um málið hafi ekkert gerst og fátt hafi verið um svör.

Að öðru leyti vísar kærandi til fyrri kæru sinnar frá árinu 2012 enda séu málsrök öll þau sömu og ekkert hafi breyst. Málsrök kæranda í því máli snerust að mestu leyti um ónæði sem nágrannar yrðu fyrir vegna breytinganna og að um óleyfisframkvæmd væri að ræða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að bæði Bankastræti 12 og Skólavörðu­stígur 4c séu á miðsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Skólavörðustígur sé á landnotkunar­svæði M1c, sem skilgreint sé sem blönduð miðborgarbyggð og íbúðarbyggð. Bankastræti 12, sem hýsi veitingastaðinn Prikið, sé hins vegar á miðsvæði M1a, miðborgarkjarna. Skilgreiningu á miðborgarkjarna í Aðalskipulagi sé svohljóðandi: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykil­stofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Til þess að efla smásöluverslun staðbundið í miðborgarkjarnanum, stuðla að fjölbreyttri starfsemi og lifandi almenningsrýmum eru ákvæði um útlit og starfsemi við götuhliðar í miðborgarkjarna. Almennar veitingaheimildir miðsvæða gilda í miðborgarkjarna en á afmörkuðu svæði eru rýmri veitingaheimildir. Sjá nánar kaflann um Sérstök ákvæði um starfsemi. Frekari markmið um þróun miðborgarkjarnans eru sett fram í kaflanum Miðborgin í Borg fyrir fólk.“

Í kafla um sérstök ákvæði um starfsemi sé Bankastræti 12 á svæði með rýmri veitingaheimildir. Skilgreining rýmri miðborgarheimilda hljóði svo: „Lengst opið til 4.30 um helgar/frídaga. Á svæði með rýmri miðborgarheimildir má heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III. Þó aldrei lengur en til 4.30. Í rekstrarleyfi veitingastaða á þessu svæði má heimila útiveitingar, þó aldrei lengur en til kl. 23.00.“

Í gildi sé deiliskipulag fyrir reit 1.171.2, sem samþykkt var í borgarráði 8. október 2002. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé heimilt að byggja allt að fjögurra hæða hús á baklóð Bankastrætis 12. Ekki hafi verið sérstaklega tiltekið að á baklóð mætti koma fyrir geymslu, sorpgerði og svölum. Hin umdeilda skilmálabreyting skilgreini heimildir fyrir Bankastræti 12 skýrar með því að tilgreina að auk fyrri heimildar, þar sem byggja megi á bak við núverandi hús syðst á lóð fjögurra hæða hús með kjallara, sé einnig heimilt að koma fyrir á sama stað geymslu, sorpgerði og svölum. Skilmálabreytingin sem grenndarkynnt hafi var hafi eingöngu snúið að heimildum til framkvæmda á baklóð Bankastrætis 12 en ekki til veitingaheimilda Priksins. Bankastræti 12 sé hins vegar innan landnotkunar miðborgarkjarna M1a og veitinga­heimildir því rúmar í samræmi við skilgreiningar aðalskipulags sem taldar voru upp að framan.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting feli eingöngu í sér rýmkun á áður fengnum heimildum til framkvæmda á baklóð. Í samræmi við 31. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skal eigandi friðlýstra húsa og mannvirkja leita álits Minjastofnunar Íslands áður en sótt er um byggingar­leyfi fyrir framkvæmdinni. Í greininni segir: „Vilji eigandi friðlýstrar eignar ráðast í fram­kvæmd sem leyfi þarf til skal hann í umsókn sinni til Minjastofnunar Íslands lýsa fyrirhuguðum framkvæmdum og láta uppdrátt fylgja. Stofnunin skal svo fljótt sem við verður komið og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst gera eiganda grein fyrir afstöðu sinni. Setji stofnunin það skilyrði fyrir samþykki sínu að verk sé framkvæmt á tiltekinn annan hátt en tilgreindur er í umsókn er eiganda skylt að hlíta því.“

Engin gögn liggi fyrir um ónæði af rekstri veitingastaðarins enda séu slík mál ekki á borði skipulagsfulltrúa. Beri að beina kvörtunum vegna ónæðis til leyfisveitanda rekstrarleyfis eða lögreglu.

Athugasemdir rekstraraðila veitingastaðarins að Bankastræti 12: Bent er á að fullyrðingar kæranda um að hávaði frá Prikinu hafi aukist eigi ekki við nein rök eða mælingar að styðjast. Margir veitinga- og skemmtistaðir séu á svæðinu og nærtækara sé að líta svo á að hávaði berist frá þeim. Ekki hafi þurft að afla álits Minjastofnunar vegna deiliskipulagsbreytingarinnar en í ljósi athugasemda kæranda hafi það nú engu að síður verið gert.

Í bréfi Minjastofnunar, dags. 24. júní 2019, kemur fram að óskað sé eftir áliti stofnunarinnar á áður gerðum breytingum á baklóð hússins við Bankastræti 12, Priksins. Húsið sé tvílyft timburhús, að stofni til frá 1868. Húsið njóti friðunar vegna aldurs skv. 1. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012. Í því felist að óheimilt sé að raska húsinu, spilla því eða breyta, rífa eða flytja úr stað, nema með leyfi Minjastofnunar Íslands sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Húsið njóti hverfisverndar í dökkgulum flokki götumynda samkvæmt Húsaskrá Reykjavíkurborgar. Sótt sé um leyfi fyrir staðsetningu geymslugáms á baklóð sem standi fast upp við bakvegg hins friðaða húss án þess að tengjast því. Ofan á gáminum séu svalir úr timbri með málmstoðum sem myndi flóttaleið af 2. hæð hússins. Við hlið gámsins sé aflokað sorpgerði og hlið með gönguhurð hafi verið sett upp sem loki portið frá götunni. Í bréfi Minjastofnunar segir svo að þær þegar gerðu breytingar sem sótt sé um leyfi fyrir snerti ekki hið friðaða hús beint og rýri ekki varðveislugildi þess. Af þeim sé hins vegar lítil prýði og beri að líta gáminn og svalirnar sem bráðabirgðalausn þar til ráðist verði í nauðsynlegar endurbætur á húsinu. Minjastofnun geri ekki athugasemd við að svalirnar og gámurinn fái að standa á þeirri forsendu að um tímabundna lausn sé að ræða sem fjarlægð verði innan tíðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir staðgreinireit 1.171.2 sem afmarkast af Bankastræti, Skólavörðustíg, Bergstaðastræti, Hallveigarstíg og Ingólfsstræti. Í breytingunni felst heimild fyrir geymslu, sorpgerði og svölum sem þegar voru til staðar í porti á baklóð Bankastrætis 12 með útgöngudyrum sem snúa að Ingólfsstræti. Á kærandi fasteign við Skólavörðustíg. Fyrir breytinguna var heimild til að byggja fjögurra hæða hús með kjallara á baklóðinni með inndregna efstu hæð frá Bankastræti og hróflar deiliskipulagsbreytingin ekki við þeim byggingarheimildum.

Kærandi bendir á að hann hafi sent Reykjavíkurborg fjölmörg erindi varðandi málið en hafi sjaldan fengið svör. Það er meginregla stjórnsýsluréttar að hver sá, sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald, eigi almennt rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst, sbr. athuga­semdir við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þrátt fyrir að mjög hafi skort á að meginreglu þessari hafi verið fylgt í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar hafði það ekki áhrif á endanlega niðurstöðu í málinu. Af þeim sökum raskar sá ágalli ekki gildi ákvörðunarinnar.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Grenndarkynningin fór fram frá 21. nóvember 2017 til og með 19. desember s.á. Sú grenndarkynning var ekki send kæranda. Grenndar­kynningin var endurtekin frá 5. apríl 2018 til og með 7. maí s.á. og var þá send kæranda. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. á að taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er að auki tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Notkun, form og nýtingarhlutfall lóðarinnar Bankastrætis 12 breytist ekki við umdeilda deiliskipulags­breytingu en útlit byggingarinnar breytist óhjákvæmilega með tilkomu svala, geymslu og sorpgerðis. Í ljósi þess að hið umrædda svæði er lokað af með háum veggjum verður þó að telja breytinguna smávægilega með tilliti til ásýndar hússins frá götu og er aflokun svæðisins til þess fallin að draga frekar úr grenndaráhrifum gagnvart granneignum. Með breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.171.2 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 10. mars 2017 var heimilað að byggja 15 m2 svalir við suðurhlið hússins að Bankastræti 14. Verður því ekki talið að um fordæmisgefandi deili­skipulagsbreytingu sé að ræða á svæðinu. Var því heimilt að grenndarkynna breytingartillöguna í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Að kynningu lokinni var tillagan tekin fyrir í skipulags- og samgönguráði, framkomnum athugasemdum kæranda svarað, breytingartillagan samþykkt og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda

Samkvæmt deiliskipulagi umrædds svæðis nýtur húsið að Bankastræti 12 verndar vegna mikilvægis þess í götumynd Bankastrætis og Ingólfsstrætis og vegna aldurs er húsið háð þjóðminjalögum hvað varðar breytingar á ástandi þess. Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skulu skipulagsyfirvöld tilkynna Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og í 3. mgr. 30. gr. sömu laga kemur fram að álit Minjastofnunar Íslands skuli liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt til framkvæmda sem fjallað er um í greininni. Í máli þessu er um óverulegar breytingar á deiliskipulagi að ræða og eiga því tilvitnuð ákvæði laganna ekki við í máli þessu. Allt að einu liggur álit Minjastofnunar fyrir vegna umræddrar skipulagsbreytingar þar sem fram kemur að heimilaðar breytingar snerti ekki hið friðaða hús beint og rýri ekki varðveislugildi þess og leggist stofnunin því ekki gegn heimiluðum breytingum.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Bankastræti 12 á miðborgarsvæði M1a. Á svæðinu er heimilt að vera með veitingastaði flokkum I-III. Þá er Bankastræti 12 jafnframt á svæði með rýmri miðborgarheimildir. Í því felst að veitingastaðir mega vera opnir lengst til kl. 4:30 um helgar og öðrum frídögum. Samkvæmt framansögðu mega íbúar á svæðinu gera ráð fyrir ónæði sem hlýst af veitingastöðum á miðborgarsvæði. Ekkert bendir til þess að ónæði frá Bankastræti 12 sé meira en við megi búast.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldinn þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kæranda þar af leiðandi hafnað.

Rétt þykir að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi eiga eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógilding ákvörðunar skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur­borgar frá 17. ágúst 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags staðgreinireits 1.171.2 á þann veg að heimila áður gerða geymslu, sorpgerði og svalir að Bankastræti 12.

98/2018 Klapparstígur

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 12. september 2019 kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 98/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur 2.-4. hæðar Klapparstígs 29 þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 að breyta skilmálum deiliskipulags Brynju­reits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. nóvember 2018.

Málavextir: Hinn 27. júní 2017 var óskað eftir breytingu á gildandi deiliskipulagi Brynjureits, staðgreinireits 1.172.0, sem afmarkast af Klapparstíg, Hverfisgötu, Laugavegi og Vatnsstíg. Í breytingunum fólst að heimilað yrði að hafa veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29. Óskað var eftir breytingunni fyrir hönd eiganda jarðhæðar hússins. Skipulagsfulltrúi grenndar­kynnti umsótta breytingu fyrir eigendum nærliggjandi húsa og gaf þeim kost á að tjá sig um hana. Breytingartillagan var síðan samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 30. ágúst 2017 en orðalagi um opnunartíma til kl. 23 virka daga og kl. 01 um helgar var fellt út þar sem fyrirhugað var að breyta aðalskipulagi borgarinnar á þann veg að þau skilyrði kæmu þar fram. Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu 7. september 2017 og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 13. október s.á. Fól skipulagsbreytingin í sér heimild fyrir veitingastað í flokki II á jarðhæð Klapparstígs 29 í stað rakarastofu. Kærendur máls þessa kærðu þá deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með bréfi, dags. 19. mars 2018. Töldu þeir grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar ólöglega þar sem hún hafi ekki náð til eigenda fasteigna í húsinu að Klapparstíg 29 og þannig hafi verið brotið á andmælarétti þeirra.

Skipulagsfulltrúi sendi tilkynningu til kærenda 20. mars 2018 þess efnis að boðað væri til annarrar grenndarkynningar vegna málsins með fresti til athugasemda frá 22. mars 2018 til og með 19. apríl s.á. og sendu kærendur inn athugasemdir innan þess frests. Lagði skipulagsfulltrúi til í umsögn sinni, dags. 27. apríl 2018, að hin grenndarkynnta tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðarinnar að Klapparstíg 29 yrði samþykkt án breytinga. Var tillagan samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. maí 2018 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á.

Með úrskurði uppkveðnum 29. júní 2018 var fyrra máli kærenda vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem hin kærða ákvörðun hafði ekki réttarverkan að lögum eftir að hin nýja breyting á deiliskipulagi vegna Klapparstígs 29 tók gildi. Kærendur skutu síðan ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina kærðu deiliskipulagsbreytingu vera í andstöðu við sérstök ákvæði Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um miðbæ Reykjavíkur og atvinnu­starfsemi við Klapparstíg. Finna megi sérstök ákvæði um starfsemi, takmarkanir og frávik frá almennri skilgreiningu landnotkunar varðandi götuhliðar í miðborginni. Ljóst sé að Klappar­stígur, á milli Hverfisgötu og Laugavegs, sé ætlaður smávöruverslun og skuli hlutfall hennar nema að lágmarki 50%. Því sé hin umrædda deiliskipulagsbreyting, sem heimili rekstur veitingastaðar í flokki II, í andstöðu við aðalskipulag. Þegar af þeirri ástæðu sé breytingin ólögmæt, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.1.2. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í þessu samhengi vísa kærendur einnig til afgreiðslu umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 7. janúar 2016, vegna starfsemi Hard Rock Café við Lækjargötu og sambærilegs máls vegna veitingastaðarins NAM á Laugavegi 18b.

Skipulagsbreytingin sé einnig í andstöðu við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994. Ágreiningur málsins snúist m.a. um hvort breyting á rekstri hársnyrtistofu í rekstur kráar eða veitingarekstur með vínveitingaleyfi, feli í sér breytta hagnýtingu séreignar í skilningi 27. gr. fjöleignarhúsalaga en sjónarmiði eigenda jarðhæðar Klapparstígs 29 um að ekki þurfi samþykki meðeigenda fyrir breytingunni séu röng.

Í 27. gr. fjöleignarhúsalaga sé hvergi gerður áskilnaður um að hin meinta breytta hagnýting verði að snúa að sameign hússins, þvert á móti fjallar ákvæðið um þau tilfelli þegar breyting á hagnýtingu séreignar „frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi“ hefur í för með sér „verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum […]“. Í slíkum tilvikum sé breytingin háð samþykki allra eigenda hússins, jafnvel þótt breytingin varði einungis séreignarhluta eins eiganda hússins. Í almennum athugasemdum um 27. gr. fjöleignarhúsalaga, sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögunum, segi m.a. að „við það [sé] miðað að breyting á hagnýtingu séreignar sé alltaf háð samþykki annarra eigenda, ýmist allra ef breyting er veruleg, sbr. 1. mgr., eða einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta ef hún telst ekki veruleg, sbr. 3. mgr. [Sé] það ótvírætt eðlilegri og réttlátari tilhögun en nú [sé]“.

Fyrir liggi að kærendur hafi ekki veitt samþykki sitt fyrir veitingahúsa-, skemmtistaða- eða kráarrekstri á jarðhæð húsnæðisins að Klapparstíg 29. Þá sé mjög skýrt með tilliti til laganna og lögskýringargagna að breyting á hagnýtingu séreignar sé alltaf háð samþykki annarra eigenda, ýmist allra eða einfalds meirihluta. Hvorugt sé fyrir hendi í máli þessu þar sem einungis sjálfur eigandi jarðhæðarinnar sé samþykkur breytingum á eigin eignarhluta.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því er varð að fjöleignarhúsalögum komi skýrlega fram í almennum athugasemdum um 27. gr. laganna að áhersla sé lögð á að eigendur fái notið eigna sinna í friði og án truflunar. Kærendum þyki ljóst að rekstur kráar muni hafa veruleg áhrif á þá og valda þeim alls kyns ónæði, röskun og óþægindum. Þessi eðlisbreyting á sambýli kærenda ætti ekki að ná fram að ganga án þeirra samþykkis. Í umsögn skrifstofu sviðsstjóra frá 26. júní 2018 komi fram að hin breytta hagnýting séreignar jarðhæðarinnar, þ.e. úr rekstri hársnyrtistofu í rekstur kráar, sé svo veruleg að breyta þyrfti sameign hússins, m.a. lögnum og ytra byrði þess sem jafnframt sé háð samþykki allra kærenda.

Af öllu framangreindu sé ljóst að hin umrædda deiliskipulagsbreyting sé í andstöðu við lög um fjöleignarhús þar sem hún feli í sér breytingu á annars vegar hagnýtingu séreignar jarð­hæðarinnar og hins vegar sameign hússins án samþykkis kærenda, sbr. m.a. 6.og 8. gr. og 1. og 3. mgr. 27. gr. laganna.

Kærendur telji jafnframt að málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið í andstöðu við skipulagslög, stjórnsýslulög nr. 37/1993 og upplýsingalög nr. 140/2012. Reykjavíkurborg hafi metið breytinguna óverulega og því ekki talið ástæðu til málsmeðferðar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, heldur skyldi breytingin grenndarkynnt. Í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga segi að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Kærendum, sem hafi sannarlega mesta hagsmuni af deiliskipulagsbreytingunni, hafi upphaflega ekki fengið tillöguna senda til kynningar í samræmi við lög. Þess í stað hafi Reykjavíkurborg kynnt eigenda nærliggjandi íbúða umrædda breytingu. Í stað þess að viðurkenna að um mistök hafi verið að ræða hafi Reykjavíkurborg haldið því fram að kærendur hefðu ekki lögvarða hagsmuni af breytingunni en boðuðu þá síðar til annarrar grenndarkynningar.

Breytingin á deiliskipulaginu hafi verið veruleg og ljóst að rekstur kráar með a.m.k. opnunar­tíma lengur en til kl. 23 á virkum dögum og kl. 01 um helgar muni hafa veruleg áhrif á eigendur og íbúa efri hæða Klapparstígs 29. Í því sambandi sé vísað til þess að verslun hafi verið starfrækt á jarðhæð hússins í áratugi. Véla- og járnvöruverslun hafi starfað í húsinu fram yfir 1970 en undanfarna áratugi hafi verið rekin þar rakarastofa. Rekstur kráar með mjög rúman opnunartíma fæli í sér algjöra eðlisbreytingu frá þeim rekstri til verulegs óhagræðis fyrir kærendur.

Af málsmeðferðinni og samskiptum kærenda við Reykjavíkurborg megi sjá að brotið hafi verið gegn leiðbeiningarskyldu, upplýsingaskyldu og skyldu til að rökstyðja ákvörðun, sbr. 7., 15. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi verið brotið gegn andmælarétti þeirra skv. meginreglum stjórnsýsluréttar sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, þar sem þeim hafi verið haldið utan við afgreiðslu málsins og hafi ekki fengið þau gögn, upplýsingar, rökstuðning eða leiðbeiningar sem þeir leituðu eftir til að gæta hagsmuna sinna.

Einnig er vísað til þess að breytingin á deiliskipulaginu sé ekki í samræmi við tillöguna sem hafi verið grenndarkynnt þar sem í hinni samþykktu breytingu hafi verið felldar út takmarkanir á opnunartíma og virðist sem Reykjavíkurborg undirbúi breytingar á reglum sínum sem miði að því að hann verði enn lengri en kynntur hafi verið í grenndarkynningunni.

Að lokum byggja kærendur á því að undirbúningur og rannsókn málsins hafi verið í andstöðu við skipulagslög og meginreglur stjórnsýslulaga. Í því sambandi sé vísað til þess að ekki hafi verið rannsakað hvort breytingin teldist óveruleg breyting á deiliskipulagi. Í grenndar­kynningunni hafi ekki verið að finna rökstuðning fyrir málsmeðferðinni líkt og gr. 5.9.2.  skipulagsreglugerðar kveði á um. Ekki hafi verið rannsakað hvaða áhrif breytingin hefði á nærliggjandi umhverfi, hljóðvist, íbúðarbyggð og þá atvinnustarfsemi sem fram fari við götuna. Þá hafi ekki verið rannsakað hvort breytingin hafi verið í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt miðborgarkafla aðalskipulags Reykjavíkurborgar sé umrætt húsnæði á skilgreindu hliðar­verslunarsvæði 16 þar sem gert sé ráð fyrir 50% smásöluverslun að lágmarki á jarðhæðum húsa innan götusvæðisins. Í dag sé hlutfall smásöluverslunar 20% og hafi verið það síðan að starfsemiskvóti hafi verið settur á svæðinu með gildistöku aðalskipulagsins í febrúar 2014.

Áður hafi verið rekin rakarastofa á jarðhæð við Klapparstíg 29, sem flokkist undir „skrifstofur og fagleg þjónusta“, en ekki „smásöluverslun“. Það myndi því ekki hafa áhrif á starfsemiskvóta fyrir smávöruverslun á götuhliðum jarðhæða á svæðinu ef húsnæðinu yrði breytt úr rakarastofu í veitingastað, þ.e. hlutfall smásöluverslunar myndi haldast í 20% en ekki fara minnkandi. Frá því að starfsemiskvótar á götusvæðum í miðborg Reykjavíkurborgar tóku gildi um og upp úr aldamótum hafi vinnureglan við afgreiðslu á umsóknum um breytingu á starfsemi verið sú að ef starfsemi falli ekki undir smásöluverslun eða matvöruverslun þá hafi ekki verið gerð athugasemd við breytingu á starfseminni þrátt fyrir að smásöluverslun sé undir starfsemiskvóta á tilteknu götusvæði ef smásöluverslun minnki ekki.

Sú breyting á hagnýtingu, þ.e. að reka veitingastað í stað rakarastofu, sé ekki þess háttar breyting á hagnýtingu sem ákvæði 27. gr. fjöleignarhúsalaga taki til. Ljóst sé að samkvæmt gildandi skipulagi fyrir það svæði þar sem umrædd húseign standi sé heimilt að reka veitingahús. Þegar hagnýtingu séreignar sé hliðrað með þessum hætti úr þjónustu í veitingarekstur telji borgaryfirvöld að einkum hljóti að reyna á hvort aðili sem um slíkt sæki uppfylli fagleg skilyrði laga til að mega reka veitingahús á viðkomandi stað og hvort slíkt sé heimilt vegna gildandi skipulags. Því sé vísað á bug að breytingin sé í andstöðu við lög um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Ekki hafi verið farið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við meðferð málsins enda hafi málsmeðferð við deiliskipulagið alfarið verið í samræmi við skipulagslög, skipulagsreglugerð og stjórnsýslulög. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga skuli fara með breytingu á deili­skipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða með því fráviki að ekki sé skylt að taka saman lýsingu skv. 1. mgr. 40. gr. laganna. Sú undantekning sé gerð í 2. mgr. 43. gr. að telji sveitar­stjórn að gera þurfi breytingar á gildandi deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins, skuli fara fram grenndarkynning. Grenndar­kynning sé því undantekning frá meginreglunni. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærileg ákvæði sé að finna í gr. 5.8.2. skipulags­reglugerðar, en jafnframt sé þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Deiliskipulagstillaga sú sem hér um ræði hafi verið talin minni háttar breyting á notkun og hafi því verið grenndarkynnt öðrum lóðarhöfum og nágrönnum, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Við afgreiðslu deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið ákveðið að fella opnunartíma út þar sem opnunartími veitingastaða sé ekki lengur ákvarðaður í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Á þeim forsendum hafi verið gerð breyting á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar þar sem opnunartími veitingastaða sé ákvarðaður. Í aðalskipulagsbreytingu sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. mars 2018 hafi verið sett almennt viðmið um opnunartíma veitingastaða í flokki II, sem miðist við til kl. 23 á virkum dögum og kl. 01 um helgar. Hafi þótt rétt að hafa heimildina í aðalskipulagi fremur en deiliskipulagi.

Lóðin klapparstígur 29 sé skráð sem viðskipta- og þjónustulóð hjá Þjóðskrá Íslands og heimilt sé að stunda þar viðskipti og þjónustu. Óeðlilegt sé að takmarka í deiliskipulagi starfsemi við eina iðngrein líkt og gert hafi verið í eldra skipulagi. Því hafi verið gerð breyting til að opna á þær heimildir sem gildi á svæðinu skv. aðalskipulagi.

Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga og stjórnsýslulaga.

———-

Eigendum jarðhæðar að Klapparstíg 29 var gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri vegna kærumálsins en hafa ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að í stað orðalags í skilmálum deili­skipulagsins um að Rakarastofan á Klapparstíg 29 verði á jarðhæð komi heimild til að opna veitingastað í flokki II á jarðhæð hússins á sama stað. Að auki er tekið fram að ekki megi byrgja fyrir glugga í umræddu húsnæði og að ytri byrði hússins haldist óbreytt. Skilmálar skipulagsins haldast að öðru leyti óbreyttir.

Í 19. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er skipulagsáætlun skilgreind sem áætlun um markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands. Þar sé gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum sé stefnt og hvernig þær falli að landnotkun á tilteknu svæði. Í 2. mgr. 12. gr. sömu laga er jafnframt kveðið á um að í skipulagsáætlunum sé mörkuð stefna um landnotkun og byggðaþróun. Þar séu sett fram stefnumið um einstaka þætti er varða t.d. íbúðarbyggð og atvinnusvæði. Skv. 1. mgr. 37. gr. laganna er deiliskipulag skilgreint sem skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. einnig 6. tl. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér ákvörðun um heimilaða notkun húsnæðis á fyrstu hæð hússins að Klapparstíg 29, en skv. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er m.a. óheimilt að breyta notkun húss nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Skipulagsáætlanir breyta því ekki hagnýtingu séreignar einar og sér heldur þarf að liggja fyrir byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húsnæðis sem rúmast innan heimilda gildandi skipulags. Í ljósi þess var ekki þörf á að afla samþykkis annarra eigenda fjöleignar­hússins að Klapparstíg 29 skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga við greinda deiliskipulagsbreytingu. Við samþykki byggingarleyfis fyrir breyttri notkun séreignar getur hins vegar eftir atvikum þurft slíkt samþykki, sbr. 10. gr. laga um mannvirki og 27. gr. fjöleignarhúsalaga.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umræddur reitur á miðborgarsvæði M1a. Samkvæmt miðborgarkafla aðalskipulagsins er Klapparstígur 29 á hliðarverslunargötusvæði 16. Á því svæði er gert ráð fyrir að hlutfall smásöluverslunar sé að lágmarki 50%. Heimildir til annarrar starfsemi en smásöluverslunar geti því ekki verið umfram 50% og forsenda fyrir því að samþykkt sé breytt notkun á jarðhæð sé sú að hlutfall smásöluverslunar fari ekki undir 50% við þá götuhlið sem um ræðir. Jafnframt segir í miðborgarkafla aðalskipulagsins að við breytta starfsemi í götu með „götuhliðarstýringu“ skuli stuðlað að því að auka hlutfall virkra götuhliða. Ekki sé heimilt að breyta núverandi atvinnu- og þjónustuhúsnæði á jarðhæðum í íbúðir. Umrædd deiliskipulagsbreyting er innan landnotkunarheimilda aðalskipulags enda er ekki verið að minnka hlut smásöluverslunar á skipulagssvæðinu.

Hina kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Í því ákvæði er kveðið á um að sveitarstjórn skuli láta fara fram grenndarkynningu telji hún að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skv. 2. mgr. 43. gr. á að taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er að auki tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almanna­hagsmuni. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að skipulagslögum eru nefnd dæmi um óverulegar deiliskipulagsbreytingar. Í dæmaskyni er nefnt að til óverulegra framkvæmda teljist þegar iðnaðarhúsnæði er breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett eru í garð o.s.frv. Dæmi þessi eiga það sameiginlegt að hafa óveruleg grenndaráhrif. Við túlkun á heimild sveitarfélaga til að grenndarkynna deiliskipulagsbreytingu ber einnig að hafa í huga að um undantekningarákvæði er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og ber því að túlka heimildina þröngt.

Fyrir liggur að umdeild skipulagsbreyting heimilar rekstur veitingastaðar í flokki II með opnunartíma til kl. 23 á virkum dögum og til kl. 01 um helgar í stað rakarastofu sem rekin hafði verið að Klapparstíg 29 um árabil. Rekstur veitingastaða var heimill á skipulagssvæðinu fyrir breytinguna en ástæða hennar mun hafa verið sú að í deiliskipulagi hafi verið kveðið á um að í húsnæðinu væri áfram rekin rakarastofa. Víkur deiliskipulagsbreytingin ekki frá almennt heimilaðri landnotkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi skipulagssvæðisins. Ekki er um fordæmis­gefandi ákvörðun að ræða þar sem á skipulagssvæðinu eru þegar reknir veitingastaðir.

Kærendum var send tilkynning um grenndarkynningu 20. mars 2018. Frestur til að senda inn athugasemdir var frá og með 22. mars til 19. apríl s.á. Sá frestur er fjórar vikur og því í samræmi við 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og var athugasemdum kærenda svarað 27. apríl s.á. í samræmi við 2. málsl. sömu málsgreinar. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 2. maí 2018 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á. Framangreind málsmeðferð var því í samræmi við kröfur skipulags­laga. Þó verður ekki séð að rökstuðningur fyrir málsmeðferð skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga komi fram í bréfi sem sent var til kærenda, dags. 20. mars 2018, líkt og kveðið er á um í gr. 5.9.2. skipulagsreglugerðar. Slíkur annmarki á málsmeðferð varðar þó ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, þar sem kærendur fengu notið andmælaréttar.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Rétt þykir að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi eiga eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 2. maí 2018 um að breyta skilmálum deiliskipulags Brynjureits vegna lóðar nr. 29 við Klapparstíg.

106/2018 Suðurnesjalína 2

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 29. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. júlí 2018 um að fallast á tillögu Landsnets hf. að matsáætlun fyrir Suðurnesjalínu 2 á milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavíkurbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. ágúst 2018, er barst nefndinni 7. s.m., kærir Guðjón Ármansson hrl. f.h. sinna umbjóððenda þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. júlí 2018 að fallast á tillögu Landsnets hf. að matsáætlun fyrir Suðurnesjalínu 2 á milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavíkurbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 7. september 2018.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Suðurnesjalína 2 er fyrirhuguð háspennulína á Suðurnesjum og var hún hluti framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Í kjölfar málsmeðferðar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum veitti iðnaðar- og viðskiptaráðherra Landsneti heimildir á árinu 2014 til eignarnáms á tilgreindum jörðum sem Suðurnesjalína 2 skyldi liggja um. Þær ákvarðanir voru felldar úr gildi með dómum Hæstaréttar í málum nr. 511, 512, 513 og 541/2015, uppkveðnum 13. maí 2015. Orkustofnun hafði áður veitt Landsneti leyfi 5. desember 2013 til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2 á grundvelli 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, en það leyfi var fellt úr gildi með dómi Hæstaréttar 13. október 2016 í máli nr. 796/2015. Sveitarfélögin Reykjanesbær, Grindavík, Hafnarfjörður og Vogar veittu öll framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 og var dómsmál rekið vegna framkvæmdaleyfisins sem veitt var af Sveitarfélaginu Vogum. Var það leyfi fellt úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, í máli nr. E-1121/2015, og sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2017, í máli nr. 575/2016.

Ráðist var í nýtt mat á umhverfisáhrifum og 20. apríl 2018 barst Skipulagsstofnun tillaga Landsnets að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2 á milli Hamraness í Hafnarfirði og Rauðamels í Grindavíkurbæ samkvæmt 8. gr. laga nr. 106/2000. Með bréfi, dags. 11. maí s.á., gerðu kærendur athugasemdir við tillögu að matsáætlun. Hinn 6. júlí s.á. féllst Skipulagsstofnun á tillögu framkvæmdaraðila með athugasemdum og er það hin kærða ákvörðun.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé haldin bæði form- og efnisannmörkum og því beri að fella hana úr gildi. Nauðsynlegt sé að Landsnet skýri með ítarlegri þarfagreiningu hvers vegna nauðsynlegt sé að byggja 220 kV línu og jafnframt hvort og þá hvers vegna ekki sé talið nægilegt að byggja nýja 132 kV línu eða styrkja núverandi línu.

Í umfjöllun um valkost B, þ.e. jarðstreng meðfram Reykjanesbraut, segi m.a. að sá valkostur feli í sér sambærilega veikleika og valkostur A, jarðstreng sem fylgi Suðurnesjalínu, varðandi áhrif á jarðmyndanir, vatnsvernd, stefnu stjórnvalds, rekstraráhættu, 61. gr.  Laga um náttúruvernd nr. 60/2013 og framkvæmdakostnað. Þessu hafni kærendur og bendi á að áhrif jarðstrengs meðfram Reykjanesbraut hafi verið metin óveruleg við umhverfismat Aðalskipulags Sveitarfélagsins Voga 2008-2028. Í umfjöllun um valkost A sé talið til styrkleika að framkvæmdakostnaður sé lægri en vegna annarra kosta en hvergi sé getið um aukinn líftímakostnað. Einungis sé hægt að gera raunverulegan samanburð á kostnaði með því að taka tillit til bæði stofn- og rekstrarkostnaðar. Athugasemd sé gerð við að í framsetningu valkosta D og E, sem geri ráð fyrir blandaðri leið jarðstrengs og loftlína/annarra útfærslna, liggi ekkert fyrir um hvaða svæði gæti verið að ræða.

Nauðsynlegt sé að Landsnet leggi mat á og beri saman þjóðhagslega hagkvæmni mismunandi framkvæmdakosta við mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2. Fráleitt sé að mat á umhverfislegum kostnaði sé ekki meðal þess sem meta eigi í mati á umhverfisáhrifum á meðan framkvæmdakostnaður sé meðal þeirra þátta sem framkvæmdaraðili hyggist leggja mat á. Kærendur fái ekki séð að mat á framkvæmdakostnaði eigi heima í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar á grundvelli laga nr. 106/2000.

Þá séu þau skilyrði sem framkvæmdaraðila séu sett í ákvörðun Skipulagsstofnunar hvergi nærri fullnægjandi til að matsáætlun geti orðið grundvöllur að fullburða mati. Kærendur séu landeigendur á mögulegum línuleiðum og hafi ríka hagsmuni af því að matsáætlun standist lágmarkskröfur.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að kæran sé borin fram með vísan til 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 52. gr. skipulagslaga sé kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Stofnunin hafi tekið ákvörðun um að fallast á matsáætlun Landsnets með athugasemdum á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því eigi 52. gr. skipulagslaga ekki við í málinu.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 sé mælt fyrir um að úrskurðarnefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála „eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði.“ Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er orðið hafi að lögum nr. 130/2011 sé tekið fram að eingöngu verði kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar þær ákvarðanir sem „afmarkaðar eru í lögum hverju sinni“ sem og önnur úrlausnaratriði „ef lög mæla svo.“

Í 14. gr. laga nr. 106/2000 sé fjallað um málskot. Samkvæmt 2. mgr. geti framkvæmdaraðili kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. um breytingar á matsáætlun. Ákvörðun stofnunarinnar um að fallast á tillögu að matsáætlun Landsnets með athugasemdum feli í sér breytingar á henni. Eins og tilvitnuð 2. mgr. sé úr garði gerð sé ljóst að aðrir en framkvæmdaraðili, t.d. landeigendur, geti ekki kært ákvörðun af þessu tagi. Í dómi Hæstaréttar frá 14. mars 2008 í máli nr. 114/2008 sé þessi lagaskilningur lagður til grundvallar, sbr. eftirfarandi orð í dóminum: „Þótt mælt sé fyrir í lögum um þrengri aðild að kærumálum hjá æðri stjórnvöldum en leiðir af almennum reglum …“. Með lögum nr. 89/2018, sem samþykkt hafi verið á Alþingi í júní 2018, hafi bæst við 14. gr. tvær nýjar málsgreinar, en efni þeirra feli ekki í sér að landeigendur geti kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fallast á tillögu að matsáætlun með breytingum.

—–

Kærendum voru kynntar athugasemdir Skipulagsstofnunar en frekari athugasemdir komu ekki fram af þeirra hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Í máli þessu ritar lögmaður undir kæru fyrir hönd kærenda og liggur fyrir umboð Reykjaprents ehf. til reksturs kærumálsins fyrir úrskurðarnefndinni. Vegna annarra kærenda hefur lögmaðurinn vísað til umboðs í kærumálum nr. 80/2014 og nr. 40, 73, 101 og 108/2015, en þau mál lutu einnig að ágreiningi vegna Suðurnesjalínu 2. Það umboð er þó ekki veitt af öllum kærendum þess máls sem hér er til meðferðar auk þess sem eldra umboðið tekur samkvæmt efni sínu eingöngu til þeirra kærumála sem þar eru tilgreind. Verður kröfum annarra kærenda en Reykjaprents því vísað frá vegna þessa formgalla.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Með hinni kærðu ákvörðun féllst Skipulagsstofnun á tillögu Landsnets að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar Suðurnesjalínu 2 með athugasemdum á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fram kemur í nefndu ákvæði að geri stofnunin athugasemdir skuli þær verða hluti af matsáætlun.

Í 14. gr. laga nr. 106/2000 er fjallað um málskot til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli laganna. Í 1. mgr. 14. gr. er tiltekið að ákvarðanir skv. 6. gr. um matsskyldu framkvæmdar, sem tilgreind er í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin, og ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 5. gr. sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sama eigi við um ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 12. gr. um endurskoðun matsskýrslu. Er nefnd kæruheimild ekki bundin við aðra en þá er uppfylla aðildarskilyrði laga nr. 130/2011, sbr. og 7. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í 2. mgr. 14. gr. laganna að framkvæmdaraðili geti kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. laganna um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni, en hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar er þess efnis. Af skýru orðalagi laganna er ljóst að kæruheimild vegna þeirrar ákvörðunar er bundin við framkvæmdaraðila. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði til kæruaðildar vegna hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum tafa við gagnaöflun og vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.