Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

123/2020 Vaka við Héðinsgötu

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2020, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að heimila Vöku hf. að starfa án starfsleyfis að Héðinsgötu 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Kleppsvegi 6, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að heimila Vöku hf. að starfa án starfsleyfis að Héðinsgötu 2. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2021, gerði kærandi kröfu um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Í ljósi þess að starfsleyfi var gefið út 2. febrúar s.á. verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda og er málið tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. desember 2020.

Málavextir: Með umsókn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 28. október 2019, sótti Vaka hf. um tímabundið starfsleyfi til loka árs 2021 fyrir bílapartasölu, bifreiða- og vélaverkstæði, hjólbarðaverkstæði og úrvinnslu vegna endurvinnslu bíla að Héðinsgötu 2, Reykjavík. Hinn 4. nóvember 2019 sendi heilbrigðiseftirlitið beiðni um umsögn vegna umsóknarinnar til bæði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Sama dag var birt á heimasíðu heilbrigðiseftirlitsins tilkynning um móttöku umsóknar og auglýsing um tillögu að starfsleyfi fyrir starfsemina að Héðinsgötu 2, sbr. 8. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Auglýsingatími tillögu um starfsleyfi var frá 5. nóvember til 2. desember 2019.

Í upphafi árs 2020 flutti Vaka hf. starfsemi sína að Héðinsgötu 2 og fljótlega eftir það fóru að berast kvartanir frá íbúum í nágrenninu vegna ónæðis og áhyggna um mengun. Umkvörtunarefni þeirra var staðfest í eftirlitsferðum heilbrigðiseftirlitsins, en frá mars til september 2020 fór eftirlitið í sjö slíkar ferðir. Í þeim kom einnig í ljós að starfsemin var umfangsmeiri en sótt var um starfsleyfi fyrir og lýst var í greinargerð með umsókn, auk þess sem starfsemin fór út fyrir lóðarmörk. Með tölvupósti heilbrigðisfulltrúa 28. febrúar 2020 til eins þess sem kvartað hafði var upplýst um að samkvæmt stjórnsýsluvenju væri fyrirtækinu leyft að hefja starfsemi á meðan verið væri að ljúka starfsleyfisumsókn.

Í eftirlitsferð 14. september 2020 gaf starfsmaður eftirlitsins Vöku hf. munnleg tilmæli og ítrekaði einnig fyrri tilmæli sem höfðu verið gefin í fyrri eftirlitsferðum. Var forsvarsmanni fyrirtækisins gerð grein fyrir því að umsókn fyrirtækisins frá október 2019 yrði að óbreyttu lögð fyrir næsta fund umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur og lagt til að henni yrði synjað. Í sömu eftirlitsferð var jafnframt rætt um að fyrirtækið skilaði inn nýrri umsókn í samræmi við starfsemi og drægi til baka þá sem unnið væri að. Hinn 28. október 2020 barst heilbrigðiseftirlitinu bréf frá fyrirtækinu þar sem fyrri umsókn um starfsleyfi var dregin til baka og samhliða sótt um starfsleyfi að nýju.

Á afgreiðslufundi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 2. febrúar 2021 var síðari umsókn Vöku hf. um starfsleyfi samþykkt og leyfi gefið út.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að þegar kæra hafi verið send úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi starfsleyfi ekki enn verið gefið út. Ekki sé hægt að hefja starfsleyfisskylda starfsemi á meðan umsókn sé til meðferðar samkvæmt stjórnsýsluvenju.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er vísað til þess að sótt hafi verið um starfsleyfi til tveggja ára í október 2019 vegna flutninga hinnar umdeildu starfsemi að Héðinsgötu 2, Reykjavík. Hafi húsnæðið verið tekið út af hálfu eftirlitsins, sem hafi talið það uppfylla kröfur um hollustuhætti og mengunarvarnir og samræmast þeirri starfsemi sem kynnt hefði verið fyrir fulltrúum eftirlitsins á þeim tíma. Á auglýsingatíma starfsleyfisumsóknar hafi engar athugasemdir borist eða ábendingar, en óskað hafi verið eftir umsögn frá skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa. Skipulagsfulltrúi hafi ekki gert neinar athugasemdir, enda ljóst að hvorki aðal- né deiliskipulag setji skorður við léttri iðnaðarstarfsemi á reitnum. Hafi skipulagsfulltrúi látið það í hendur heilbrigðiseftirlitsins að meta hvort starfsemin félli þar undir. Hins vegar hafi komið í ljós að húsnæðið væri skráð sem vörugeymsla og því hafi umsögn byggingarfulltrúa verið neikvæð. Í kjölfar þess hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir breytingu á notkun hússins úr vörugeymslu í bíla- og hjólbarðaverkstæði með geymsluhúsnæði fyrir ökutæki, bílauppboðssal o.fl.

Stjórnsýsluvenja sé venja sem myndast hafi á tilteknu sviði stjórnsýslunnar og kunni að vera svo rótgróin, og eftir atvikum kunn, að hún teljist bindandi fyrir viðkomandi stjórnvöld þar til ný ákvæði í lögum eða reglum víki henni til hliðar. Á þessu sviði hafi orðið til stjórnsýsluvenja. Í þeim tilvikum geti fyrirtæki, sem uppfylli í meginatriðum öll sett skilyrði um útgáfu starfsleyfis haldið áfram rekstri á meðan starfsleyfisumsókn sé í vinnslu, enda liggi fyrir að um sé að ræða starfsemi sem geti fengið starfsleyfi á umræddum stað og að þau skilyrði sem ekki séu þegar uppfyllt sé unnt að uppfylla með góðu móti. Umrædd venja hafi orðið til í ljósi meðalhófs þar sem mjög íþyngjandi sé fyrir fyrirtæki að leggja niður starfsemi sína á meðan starfsleyfisumsókn sé í ferli. Þar sem mjög viðtekin venja hafi verið til staðar árum saman telji heilbrigðiseftirlitið að venja þessi sé bindandi fyrir sig þar sem gæta verði að jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Áréttað sé að þessi venja eigi ekki við um öll fyrirtæki heldur aðeins þau sem séu í rekstri, uppfylli að mestu leyti öll skilyrði fyrir útgáfu á starfsleyfi og þau skilyrði sem ekki séu uppfyllt séu þess eðlis að auðvelt sé að bregðast við þeim og lagfæra.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi byggir aðallega á því ekki sé lagastoð fyrir þeirri ákvörðun að leyfa leyfishafa að starfa án formlegs starfsleyfis. Geri kærandi sérstaka athugasemd við að slíkt bráðabirgðaleyfi, eða undanþága, hafi ítrekað verið veitt munnlega án þess að það hafi verið skjalfest skriflega eða formlega birt í samræmi við góðar stjórnsýsluvenjur.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sé óheimilt að hefja atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út. Eina undantekningin á þessu sé í 4. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna þar sem segi að ráðherra sé heimilt að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Þá segi í 4. mgr. 7. gr. laganna að útgefandi starfsleyfis skuli innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi hafi runnið út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis.

Af því leiði að starfsleyfi þurfi að vera „gefið út“ svo heimilt sé að hefja viðkomandi starfsemi. Með útgáfu hljóti að vera átt við formlega veitingu á skjalfestu starfsleyfi, enda sé með öllu ómögulegt að „gefa út“ munnlega tilkynningu sem komi fram í tveggja manna tali.

Þrátt fyrir að stjórnsýslulög nr. 37/1993 útiloki ekki að stjórnvaldsákvörðun sé tilkynnt munnlega hljóti það þó að heyra til undantekninga. Almenna venjan sé að stjórnvaldsákvörðun sé birt skriflega fyrir þeim sem hún beinist að. Þetta eigi ekki síst við þegar um sé að ræða ákvarðanir um opinber leyfi, sem málsaðili verði að geta framvísað eða haft sýnileg á starfsstöð sinni. Stjórnvaldsákvarðanir sem ekki séu birtar almenningi, þannig að enginn eða fáir viti af þeim, geti ekki heldur haft nema mjög takmarkað fordæmisgildi í stjórnsýslu.

Þá sé meint stjórnsýsluvenja með öllu ósönnuð. Það sé ein af meginreglum réttarfars að sá sem beri fyrir sig venju verði að leiða tilvist og efni hennar í ljós, líkt og endurspeglist í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það hafi heilbrigðiseftirlitið ekki gert. Enn fremur geti venja ekki gengið framar settum rétti, síst af öllu þegar hún sé beinlínis í andstöðu við settan rétt eins og hann komi fram í fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 7/1998.

Verði litið svo á að hin kærða ákvörðun sé ekki ákvörðun um leyfisveitingu heldur um undanþágu frá kröfu um starfsleyfi byggi kærandi á því að heilbrigðiseftirlitinu skorti vald til að veita slíka undanþágu. Samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 7/1998 sé ráðherra einum heimilt að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi.

Viðbótarathugasemdir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu eftirlitsins er áréttað að ákvörðunin sem um ræði hafi verið tekin á grundvelli stjórnsýsluvenju. Hún hafi orðið til svo fyrirtæki, sem uppfylli í meginatriðum öll sett skilyrði um útgáfu starfsleyfis, geti haldið áfram rekstri á meðan starfsleyfisumsókn sé í vinnslu. Enda liggi þá fyrir að um sé að ræða starfsemi sem geti fengið starfsleyfi á umræddum stað og að þau skilyrði sem ekki séu uppfyllt sé unnt að uppfylla með góðu móti. Umrædd venja hafi orðið til í ljósi meðalhófs þar sem mjög íþyngjandi sé fyrir fyrirtæki að leggja niður starfsemi sína á meðan starfsleyfisumsókn sé í ferli. Ákvörðunin hafi því verið ekki tekin formlega og ekki sendar út tilkynningar vegna hennar. Upplýsingar um þetta verklag hafi eingöngu verið sendar í tölvupósti 28. febrúar 2020 til eins þess sem kvartað hafði í kjölfar þess að hann sendi inn erindi um málið.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 komi fram að óheimilt sé að hefja atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út eða hann ekki verið skráður hjá Umhverfisstofnun. Vísi eftirlitið til þess að í frumvarpi sem hafi orðið að breytingalögum nr. 66/2017 komi meðal annars fram: „Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skráningarskylda í stað útgáfu starfsleyfa verði tekin upp í áföngum og ekki er gert ráð fyrir tímamörkum við framkvæmd hennar, þ.e. rekstraraðili þarf einungis að skrá starfsemi sína einu sinni. Eftir að rekstraraðili hefur skráð starfsemi sína getur hann starfað svo framarlega sem hann uppfyllir hlutaðeigandi kröfur sem gilda um starfsemina. Með því að hafa starfsleyfi ótímabundin verður ekki gerður aðstöðumunur á starfsemi hvort hún sé starfsleyfisskyld eða skráningarskyld. Þá mun nýja fyrirkomulagið draga úr álagi á stjórnsýsluna vegna þess að ekki verður lengur þörf á undanþágu frá starfsleyfi á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu og gildistími eldra starfsleyfis er runninn út. Í nýja fyrirkomulaginu mun starfsleyfi gilda á meðan Umhverfisstofnun er að endurskoða starfsleyfið og endurskoðað starfsleyfi tekur síðan við af eldra starfsleyfi þegar endurskoðun þess er lokið. Með þessu móti þurfa fyrirtæki ekki að eiga á hættu að starfa án starfsleyfis vegna þess að gildistími starfsleyfis hafi runnið út. Eftir sem áður þurfa rekstraraðilar að uppfylla þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar.“

Stefna löggjafans sé þannig að megnið af þeirri starfsemi sem heilbrigðiseftirlitið gefi út starfsleyfi fyrir verði eingöngu skráningarskyld en ekki leyfisskyld. Þá sé stefnt að því að starfsleyfi verði ótímabundin. Þróunin sé því sú að fyrirtæki í fullri starfsemi eigi að geta haldið henni áfram um ókominn tíma, svo lengi sem þau uppfylli þær kröfur sem til starfseminnar séu gerðar. Þessi breyting ýti enn styrkari stoðum undir þá stjórnsýsluvenju sem hafi skapast, þ.e. að ekki sé til þess ætlast að fyrirtæki sem séu í rekstri þurfi að stöðva rekstur sinn á meðan á vinnslu starfsleyfis standi. Sér í lagi þegar um sé að ræða starfsemi sem að nánast öllu leyti uppfylli þau skilyrði sem gerð séu fyrir útgáfu starfsleyfis og að þau skilyrði sem ekki séu uppfyllt séu þess eðlis að þau hvorki skapi umhverfis- né öryggisáhættu og vel sé hægt að bæta úr þeim áður en ákvörðun um starfsleyfi verði tekin. Margar ástæður geti verið fyrir drætti á afgreiðslu umsóknar, t.d. ófrágengin mál hjá byggingarfulltrúa eins og í þessu tilfelli.

Starfsleyfi fyrir Vöku hf. hafi nú verið gefið út, en veiting þess hafi verið samþykkt á afgreiðslufundi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur 2. febrúar 2020 og greinargerð verið birt á heimasíðu þess.

—-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í máli þessu en hefur ekki nýtt sér það tækifæri.

Niðurstaða: Í þessu máli er deilt um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að heimila fyrirtækinu Vöku hf. að stunda starfsleyfisskylda starfsemi á nýrri starfsstöð á meðan starfsleyfisumsókn þess var til meðferðar. Sú ákvörðun var ekki tekin á fundi eftirlitsins, en skjalfest var í tölvupósti 28. febrúar 2020 til eins þeirra sem kvartað hafði yfir starfseminni að slík ákvörðun hefði verið tekin.

Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er vísað til þess að um sé að ræða stjórnsýsluvenju fyrir því að heimila fyrirtækjum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að hefja starfsleyfisskylda starfsemi á meðan umsókn um starfsleyfi er enn til meðferðar. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari upplýsingum um tilvist þeirrar stjórnsýsluvenju, þá sérstaklega m.t.t. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og þeirrar heimildar ráðherra sem þar er að finna, til þess að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Í svörum eftirlitsins, sem fram koma í viðbótarathugasemdum þess, er vísað til þess að stefna löggjafans sé sú að megnið af þeirri starfsemi sem heilbrigðiseftirlitið gefi út starfsleyfi fyrir verði eingöngu skráningarskyld en ekki leyfisskyld. Þá sé stefnt að því að starfsleyfi verði ótímabundin og sé því þróunin sú að fyrirtæki sem séu í fullri starfsemi eigi að geta haldið henni áfram um ókominn tíma svo lengi sem þau uppfylli þær kröfur sem til starfseminnar séu gerðar. Um þetta var vísað til frumvarps sem varð að breytingalögum nr. 66/2017 sem breyttu lögum nr. 7/1998. Í svörum heilbrigðiseftirlitsins er ekki að finna frekari upplýsingar um tilvist meintrar stjórnsýsluvenju, svo sem tilvísun til sambærilegra mála sem fengið hafi sömu afgreiðslu, hvort eftirlitið telji um staðbundna venju að ræða, sem eigi einungis við um fyrirtæki sem starfi innan svæðis Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, eða hvort hún eigi við um landið allt. Þá er ekki vikið að því hve lengi venja þessi eigi að hafa verið við lýði.

Um skráningarskyldu þá sem vísað er til í svörum heilbrigðiseftirlitsins segir í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 7/1998 að ráðherra sé heimilt að kveða á um það í reglugerð að atvinnurekstur, sbr. viðauka IV í lögunum, verði háður skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfis, sbr. 4. og 5. gr. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að rekstraraðili atvinnurekstrar, sem sé skráningarskyldur samkvæmt 1. mgr., skuli skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun áður en hún hefst. Umhverfisstofnun skuli upplýsa heilbrigðisnefndir um skráningar rekstraraðila. Ráðherra hefur ekki samþykkt reglugerð á grundvelli nefndrar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 7/1998 og þar af leiðandi hefur Vaka hf. ekki skráð starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun í samræmi við 3. mgr. 8. gr. laganna.

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er skýrt kveðið á um að allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV, skuli hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefi út. Í sama ákvæði er að finna þá undanþágu að ráðherra sé heimilt, ef ríkar ástæður mæli með því og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og eftir atvikum heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Slíkrar undanþágu var ekki leitað heldur heimilaði heilbrigðiseftirlitið umrædda mengandi starfsemi á nýrri starfsstöð með vísan til stjórnsýsluvenju. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 7/1998 segir um undanþáguheimild ráðherra að almenn ákvæði hafi verið í reglugerðum um undanþágur og að þær hafi verið með ýmsu móti allt frá því að ráðherra hafi veitt þær að fenginni umsögn Hollustuverndar og heilbrigðisnefndar til þess að vera í höndum heilbrigðisnefnda að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélag og að fengnum meðmælum Hollustuverndar ríkisins. Hafi þær verið bæði tímabundnar og ótímabundnar. Er áréttað í athugasemdunum að hér eftir sé eingöngu gert ráð fyrir tímabundnum undanþágum og að þær skuli vera í höndum umhverfisráðherra. Stjórnsýsluvenja getur ekki vikið til hliðar skýrum lagafyrirmælum og þær athugasemdir sem að framan greinir benda eindregið til þess að lögfesting undanþáguheimildar ráðherra til handa hafi beinlínis verið gerð í þeim tilgangi að skapa festu og gæta samræmis með því að hafa þá heimild á einni hendi. Hafði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur því ekki heimild til að leyfa mengandi starfsemi án þess að fyrir lægi starfsleyfi eða undanþága ráðherra frá kröfu um starfsleyfi. Er þar um ótvíræðan ógildingarannmarka að ræða.

Með breytingalögum nr. 58/2019 var annarri undanþágu bætt við 6. gr. laga nr. 7/1998. Í 4. mgr. 6. gr. segir nú að útgefanda starfsleyfis sé heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfis á meðan nýtt starfsleyfi sé í vinnslu, að hámarki til eins árs, hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist útgefanda. Kemur fram í athugasemdum með nefndri grein með frumvarpi því sem varð að breytingalögunum að gert sé ráð fyrir að þessi heimild verði notuð í undantekningartilvikum til þess að bregðast við sérstökum aðstæðum. Heilbrigðiseftirlitið hefur vísað til þess að heimild til starfseminnar án starfsleyfis hafi verið veitt svo starfsemi Vöku hf. mætti halda áfram. Þess sér ekki í stað í gögnum málsins og verður ekki ráðið af málatilbúnaði eftirlitsins að til greina hafi komið að framlengja gildistíma starfsleyfis fyrirtækisins eða að fram hafi farið málsmeðferð í þeim tilgangi. Studdist ákvörðun eftirlitsins því ekki við þessa undanþágu. Er í því sambandi einnig rétt að benda á að starfsleyfi fyrirtækisins var áður bundið við aðra starfstöð en þá sem hér um ræðir og að í starfsleyfi skal m.a. tilgreina staðsetningu starfsemi, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að málsmeðferð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hafi verið aðfinnsluverð. Þó verður ekki hjá því litið að umsókn Vöku hf. um starfsleyfi var samþykkt á afgreiðslufundi eftirlitsins 2. febrúar 2021. Þar sem hin umdeilda starfsemi fer nú fram á grundvelli starfsleyfis hefur hin kærða ákvörðun eftirlitsins að heimila starfsemina án gilds starfsleyfis enga þýðingu að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en samkvæmt henni geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

5/2021 Vogar 1, Skútustaðahreppi

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 5/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Skútustaðahrepps frá 9. nóvember 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir ferðaþjónustusvæði og frístundabyggð í landi Voga 1, Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2021, er barst nefndinni 13. s.m., kærir eigandi að Björk, Skútustaðahreppi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Skútustaðahrepps frá 9. nóvember 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir ferðaþjónustusvæði og frístundabyggð í landi Voga 1, Skútustaðahreppi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 10. febrúar 2021.

Málsatvik og rök: Nýtt deiliskipulag fyrir ferðaþjónustusvæði og frístundabyggð í landi Voga 1, Skútustaðahreppi var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 9. nóvember 2016 og tók gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 26. janúar 2017.

Kærandi bendir á að ástæða þess að kæra sé ekki fyrr tilkomin sé af þeirri einföldu ástæðu að endanlega útfærsla aðkomuvegarins inn á svæðið hafi verið framkvæmd án vitneskju kæranda. Þó svo að sú vitneskja hafi legið fyrir að deiliskipuleggja hafi átt svæðið þá hafi ekki legið fyrir að nýr vegur kæmi til með að liggja yfir einkalóð og upptaka eigna væri fyrirhuguð í framtíðinni. Sé því farið fram á að kæran verði tekin til umfjöllunar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af hálfu Skútustaðahrepps er bent á að í greinargerð deiliskipulagsins um fyrirhugaðan veg komi fram að lega nýrra slóða sé sýnd í grófum dráttum á skipulagsuppdrætti, endanleg veglína kunni að víkja lítillega frá þeirri legu þar sem tekið verði tillit til aðstæðna og landslags. Í svari við fyrirspurn vegna deiliskipulagsins árið 2017 hafi sveitarfélagið tekið fram að ekki sé hægt að veita framkvæmdaleyfi án samþykkis viðkomandi landeigenda.

Ljóst sé því að engar framkvæmdir muni eiga sér stað á landi í einkaeign án samþykkis landeigenda og engar eignarnámsheimildir í gildandi deiliskipulagi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. janúar 2017. Tók kærufrestur því að líða 27. janúar, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst 13. janúar 2021, eða um fjórum árum eftir að kærufresti lauk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt fyrirmælum  28. gr. stjórnsýslulaga.

Í ljósi málsástæðna kæranda þykir rétt að taka fram að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignaréttindum nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu skilyrði til þess.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

12/2021 Skógarstígur

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 12/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar 15. janúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Saurbæjarás.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Skógarstígs 4, Fjallabyggð, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 15. janúar 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðarinnar Saurbæjarás. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er þar að auki krafist að framkvæmdir á grundvelli hennar verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar verði frestað. Þá er þess einnig krafist að Fjallabyggð verði gert skylt að hlutast til um að fjarlægður verði sökkull sem byggður hafi verið á lóðinni Skógarstígur 2.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar 26. ágúst 2020 var samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar að Saurbæjarási í Fjallabyggð og er það sambærileg breyting og áður hefur komið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni í kærumáli nr. 36/2020. Í breytingunni felst hliðrun byggingarreits á lóð Skógarstígs 2 um 10 metra til austurs, þ.e. í átt að lóðarmörkum við akbraut Skógarstígs. Með bréfi, dags. 1. september 2020, var hagsmunaaðilum gefið færi á að gera athugasemdir við hina fyrirhuguðu breytingu.

Athugasemdir bárust á kynningartímanum, m.a. frá kærendum, og voru athugasemdir á þá leið að hin fyrirhugaða breyting hefði áhrif á útsýni og verðmæti nærliggjandi fasteigna. Athugasemdum var svarað með bréfi, dags. 11. janúar 2021, auk þess sem gerð var grein fyrir því  að skipulags- og umhverfisnefnd hefði samþykkt breytingu á deiliskipulaginu með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar Fjallabyggðar. Bæjarstjórn samþykkti hina kærðu deiliskipulagsbreytingu á fundi sínum 15. janúar 2021 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda 11. febrúar s.á.

Kærendur krefjast þess að framkvæmdir og yfirvofandi framkvæmdir á lóðinni á Skógarstíg 2 verði stöðvaðar og að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar skuli frestað meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Fjallabyggð hafi sýnt það í ákvörðunum sínum og með framgöngu að sveitarfélagið hafi þann einbeitta vilja að koma í gegn færslu á byggingarreit lóðarinnar Skógarstígur 2 og leyfa eigendum þeirrar lóðar að byggja hús þar sem þegar hafi verið settur niður sökkull að byggingu. Kærendur hafi sýnt fram á að þetta sé ólögmætt og færsla byggingarreitsins hafi þegar verið úrskurðuð ólögmæt af hálfu úrskurðarnefndarinnar, sbr. úrskurð í máli nr. 89/2020. Í ljósi þess að sveitarfélagið virðist hafa þann einbeitta vilja að knýja þetta í gegn engu að síður geri kærendur kröfu um að framkvæmdir og yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar og réttaráhrifum hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar frestað.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að meginregla stjórnsýsluréttar, sem m.a. komi fram í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997, sé að kæra fresti almennt ekki réttaráhrifum. Reglan sé áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Stöðvun framkvæmda sé því undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri eingöngu að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Þá séu engar framkvæmdir yfirvofandi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011 þar sem ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi á hinni umdeildu lóð eftir að úrskurðarnefndin felldi úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 með úrskurði í máli nr. 36/2020. Samkvæmt gr. 2.4.7. í byggingarreglugerð falli byggingarleyfi sjálfkrafa úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Hafi umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi því fallið sjálfkrafa niður þar sem hann hafi hvorki skilað inn séruppdráttum af fyrirhuguðu mannvirki né fullnægjandi gögnum um byggingarstjóra og því aldrei komið til útgáfu byggingarleyfis á grundvelli umsóknarinnar. Líti Fjallabyggð svo á að engin umsókn um byggingarleyfi sé til meðferðar innan sveitarfélagsins vegna Skógarstígs 2.

Jafnframt sé byggt á því að hið kærða deiliskipulag feli ekki í sér heimild til þess að hefja framkvæmdir. Því muni ávallt þurfa að koma til sérstakrar stjórnvaldsákvörðunar ef hefja eigi framkvæmdir á lóðinni. Ef til þess kæmi væri slík ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, þar sem eftir atvikum væri hægt að krefjast stöðvunar á framkvæmdum.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Slík ákvörðun hefur ekki verið kærð í máli þessu, enda mun hún ekki liggja fyrir samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir nefndinni. Af þessu leiðir að jafnaði er ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem gert er ráð fyrir með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu eða frestun réttaráhrifa. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar geta kærendur komið að greindum kröfum að nýju, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.

113/2020 Kársnesbraut

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 113/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. október 2020 um að samþykkja tillögu að byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Þróunarfélagið ehf., eigandi Hafnarbrautar 12, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. október 2020 að samþykkja tillögu að byggingarleyfi fyrir Kársnesbraut 104. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 10. desember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 2. september 2019 var lögð fram byggingarleyfisumsókn lóðarhafa Kársnesbrautar 104 þar sem óskað var eftir því að reisa tvær viðbyggingar við núverandi hús á lóðinni. Var gert ráð fyrir 80 m2 viðbyggingu á suðurhlið hússins og annarri 1100 m2 viðbyggingu á norðurhlið hússins á þremur hæðum með lyftu og stigahúsi. Samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna framlagða tillögu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var umsóknin grenndarkynnt með athugasemdafresti frá 6. janúar 2020 til 3. febrúar s.á. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2020 og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar þar sem athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 21. september s.á. var umsóknin samþykkt með áorðnum breytingum. Á fundi bæjarráðs 24. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 13. október s.á. var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann telji að grenndarkynning sú sem liggi til grundvallar byggingarleyfinu hafa verið áfátt í veigamiklum atriðum. Brjóti framlögð tillaga gegn nábýlisrétti og grenndarhagsmunum kæranda, en hann sé að byggja íbúðir á næstu lóð. Þar að auki sé enn sá meginannmarki á allri málsmeðferðinni og hinu kærða byggingarleyfi að notast hafi verið við röng lóðarmörk sem geri það að verkum að Kópavogsbær hafi í raun veitt byggingarleyfi sem heimili lóðarhöfum Kársnesbrautar 104 að byggja bílastæði á lóð Hafnarbrautar 12.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að Kársnesbraut 104 standi á ódeiliskipulögðu svæði og hafi umsókn um byggingarleyfi af þeim sökum verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi málsmeðferðin verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Við grenndarkynningu hafi komið fram athugasemdir frá kæranda og gerðar hafi verið breytingar á tillögunni sem hafi komið til móts við athugasemdir kæranda. Jafnframt hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að þrátt fyrir að stuðst hefði verið við eldra lóðarblað í kynningu hefði það ekki haft þau áhrif að grenndarkynningaruppdrættir gæfu ranga mynd af hinum kærðu byggingaráformum.

Þá sé vakin athygli á því að þegar þetta sé ritað hafi byggingarfulltrúi ekki samþykkt byggingaráform í samræmi við kynnta tillögu þar sem beðið sé eftir viðbrögðum frá hönnuði við athugasemdum byggingarfulltrúa á tæknilegum útfærslum á aðaluppdrætti.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þeirra sömu atriða og fram koma í greinargerð bæjaryfirvalda. Að auki hafi tillögunni verið breytt að grenndarkynningu lokinni til að koma til móts við athugasemdir kæranda. Breytingarnar hafi falið í sér að húsið væri stallað inn að vestanverðu eins og hægt sé, þaklína þess lækkuð næst götunni og húsið tekið upp í fulla hæð um tvo metra frá útvegg, svo að þaklínan héldi sér frá götunni. Auk þess hafi verið sett inn valma sneiðing á gaflinn sem snúi í vestur til að lækka hann. Lengra sé ekki hægt að ganga þar sem frekari minnkun myndi gera það að verkum að fyrirhuguð vélasamstæða sem viðbygging eigi að hýsa komist ekki fyrir í húsinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að mótvægisaðgerðir sem bent sé á komi að litlu sem engu leyti til móts við ábendingar hans. Notast sé við rangt lóðarblað sem geri það að verkum að bílastæði nágranna lendi á lóð Hafnarbrautar 12. Ekki fylgi byggingarlýsing aðaluppdráttum og séu þeir illa málsettir. Teikningar sem sýni skuggavarp séu enn fremur ekki meðfylgjandi aðaluppdráttum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar þar sem staðfest var afgreiðsla skipulagsráðs, er liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hefur aflað þeirra upplýsinga frá Kópavogsbæ að byggingaráform á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu hafi ekki verið samþykkt á þeim tíma sem liðinn er frá kæru. Er því ekki að svo stöddu fyrir hendi samþykkt byggingarleyfi sem kæranlegt er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, enda er meðferð hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar ekki lokið. Ljúki henni með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

115/2020 Laufskógar

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar 2020, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 115/2020, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Hveragerðis frá 8. október 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2020, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi Laufskóga 19, þá afgreiðslu bæjarstjórnar Hveragerðis frá 8. október 2020 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé  krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 10. desember 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 18. ágúst 2020 var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21. Afgreiddi nefndin málið með þeim hætti að vekja  athygli á því að húsið yrði staðsett nokkuð nærri lóðarmörkum og lagði til að málinu yrði vísað í grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 20. ágúst 2020. Með bréfi skipulagsfulltrúa sama dag var umsóknin grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum og frestur gefinn til að koma að athugasemdum til 20. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 6. október s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og hún samþykkt með þeim breytingum að fjarlægð hússins frá lóðarmörkum yrði 5 m. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 8. október 2020.

Kærandi bendir á að einbýlishúsið eigi að rísa á lóð þar sem fyrir séu fjórir kofar og því muni lóðin breytast í fjölbýlishúsaslóð. Lóðarteikningar séu rangar því einungis séu sýndir þrír kofar. Staðsetning einbýlishússins innarlega á lóðinni sé í ósamræmi við byggðarmynstur auk þess sem staðsetningin muni trufla garðrými og næði nágrannalóða. Fyrirhugaður aðkomuvegur búi til botnlanga inn af lóðinni og trufli enn frekar garðrými kæranda. Samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 sé lóðin á svæði sem sé fullbyggt fyrir utan þéttingarmöguleika á garðyrkjulóðum. Því sé byggingarleyfið ekki í samræmi við aðalskipulag. Þá hafi grenndarkynning verið ófullnægjandi þar sem öllum athugasemdum kæranda hafi ekki verið svarað af skipulags- og mannvirkjanefnd.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er bent á að bæði skipulags- og mannvirkjanefnd og bæjarstjórn hafi svarað innsendum athugasemdum. Það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að framkvæmdin félli vel að yfirbragði byggðar og stefnumörkun í Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029. Í skipulaginu sé svæðinu lýst sem fullbyggðu svæði þar sem fyrir sé blönduð byggð garðyrkjustöðva og íbúðabyggðar á 1-2 hæðum, aðallega einbýlishús á stórum lóðum. Fram komi í skipulagsskilmálum að heimilt sé að auka byggingarmagn núverandi íbúðarlóða og skuli þá leitast við að halda götumynd eins og kostur sé. Nýtingarhlutfall sé 0,3 til 0,45. Byggingarleyfið sé því í samræmi við aðalskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis í kjölfar grenndarkynningar er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar frá 8. október 2020 er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur liður í málsmeðferð sem lýkur með ákvörðun byggingarfulltrúa. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur ekkert byggingarleyfi enn verið samþykkt eins og áskilið er skv. lögum nr. 160/2010 þar sem tilskilin gögn liggja ekki fyrir. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

102/2020 Rjúpnabraut

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 16. september 2020 að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Krókshlíð ehf., lóðarhafi Rjúpnabrautar 10, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 16. september 2020 að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Gerð er sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að taka ákvörðun um fjarlægingu eða lækkun á sumarhúsinu á nefndri lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 9. nóvember 2020.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Hinn 4. mars 2020 lagði lóðarhafi Rjúpnabrautar 9 fram umsókn um byggingarleyfi sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa sama dag. Á aðaluppdráttum sem fylgdu byggingarleyfis-umsókninni kom fram að um væri að ræða sumarhús á lóð umsækjanda með rishæð, 131,8 m² að flatarmáli og með 5,8 m mænishæð. Í fundargerð var bókað að sótt hefði verið um að setja hús niður á steinsteyptan grunn sem tæki mið af landi í kringum húsið. Fyrir lægju gögn vegna hæðarmælinga á lóð og sökkli. Eigandi hefði áður verið búinn að fá byggingarleyfi fyrir sumarhúsi með risi sem yrði samtals 131,8 m² á umræddri lóð. Að endingu var bókað að umsóknin samræmdist gildandi deiliskipulagi og var hún samþykkt. Þeirri ákvörðun byggingar­fulltrúa var skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu lóðarhafa Rjúpnabrautar 10 með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 29/2020, uppkveðnum 4. júní 2020, hafnaði nefndin kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Vísaði nefndin til þess að í mars 2007 hefði verið samþykkt breyting á skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Úthlíðar sem tók m.a. til stærða húsa á skipulagssvæðinu. Með breytingunni væri heimilað að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á hverri lóð, en nýtingarhlutfall mætti þó ekki fara yfir 0,03. Þá var og tiltekið að „mænishæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, megi vera 6,5 m“. Þá tiltók nefndin í niðurstöðu sinni að í hinu kærða byggingarleyfi væri heimiluð bygging að flatarmáli 131,8 m² með 5,8 m mænishæð. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar yrði samkvæmt því 0,027. Samkvæmt því væri ljóst að stærð hússins og mænishæð hefðu ekki farið í bága við skilmála gildandi deiliskipulags.

Í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins sendi kærandi bréf til sveitarstjóra Bláskógabyggðar, dags. 24. ágúst 2020. Í bréfinu voru gerðar athugasemdar við samþykkt þess deiliskipulags sem hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans væri byggð á. Taldi kærandi að samþykkt þess hefði ekki farið fram með lögmætum hætti, nánar tiltekið samþykki á þeim skilmála deiliskipulagsins um að „mænis­hæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, má vera 6,5 m“. Vísað var til þess að deiliskipulags­breytingin hefði verið auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu, Blaðinu og Glugganum 26. apríl til 24. maí 2007. Í auglýsingunum hefðu allar upplýsingar komið fram, nema þær sem hefðu varðað breytingu á skilmálum um mænishæð húsanna. Kærandi telji ljóst vera að umrædd breyting hefði ekki verið samþykkt í sveitarstjórn í aðdraganda auglýsingarinnar. Hvernig slíkur skilmáli hefði komist inn í deiliskipulagið eftir birtingu auglýsingarinnar væri kæranda hulin ráðgáta. Með hliðsjón af þessu krafðist kærandi þess að sveitarfélagið kæmi því til leiðar að sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut yrði fjarlægt án tafar eða lækkað svo það uppfyllti skilmála deiliskipulagsins um mænishæð eins og það hefði verið áður en breytingin var gerð.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar beindi erindi kæranda til byggingarfulltrúa sem tók það fyrir á afgreiðslufundi 16. september 2020. Í fundargerð var bókað að kröfu um að fjarlægja sumar­bústað á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut í Úthlíð eða að húsið yrði lækkað væri hafnað. Ítarlegur rökstuðningur yrði sendur kröfuaðila. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 16. september 2020, eru færð fram frekari rök fyrir hinni kærðu ákvörðun. Í bréfinu eru m.a. raktar þær breytingar sem gerðar voru á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupsstungum árið 2007 og gerð grein fyrir málavöxtum í kærumáli nr. 29/2020 fyrir úrskurðarnefndinni. Ályktaði byggingarfulltrúi að endingu að hin umrædda bygging væri í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála svæðisins og málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfisins væri lögmæt. Því væri ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Hvorki væri því lagaskilyrði né tilefni til að beita 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að þvinga það fram að húsið yrði fjarlægt eða lækkað.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa sé ekki tekin afstaða til  málsástæðna í erindi kæranda. Óskað hafi verið eftir nánari skýringum frá byggingarfulltrúa og sveitarstjóra Bláskógabyggðar. Í tölvupóstsamskiptum kæranda og sveitarfélagsins hafi sveitarstjóri gert tilraunir til þess að útskýra fyrir kæranda að afgreiðsla deiliskipulagsins hafi staðist lög en án árangurs. Frekari upplýsingar hefðu aftur á móti borist sem hafi verið til þess fallnar að styrkja grunsemdir kæranda um að samþykkt deiliskipulagsins hefði verið ólögmæt. Þannig hafi sveitarstjóri sent kæranda auglýsta skilmálabreytingu sem hefði birst í B-deild Stjórnartíðinda 16. ágúst 2007. Í auglýsingunni segi að í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 hafi sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkt eftir­farandi deiliskipulag og deiliskipulagsbreytingu: „2. Breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum, skilmálabreyting.“ Í auglýsingunni hafi þó hvergi verið minnst á skilmálabreytinguna um leyfilega mænishæð húsa á hinu deiliskipulagða svæði sem renni frekari stoðum undir að skilmálinn hafi ekki verið samþykktur með lögmætum hætti.

Það veki athygli að kærandi hafi fengið í hendur tvær mismunandi útgáfur af greinargerð með deiliskipulaginu sem báðar eigi að heita samþykktar af sveitarstjórn. Fyrri útgáfan hafi að geyma greinargerðina á einni blaðsíðu, en þar sé hvergi að finna ummerki þess að hún hafi verið samþykkt. Við greinargerðina hafi svo verið hengt blað með staðfestingarstimpli skipulags­fulltrúa. Ómögulegt sé að vita um tengingu þess blaðs eða stimpilsins við sjálfa greinargerðina. Seinni útgáfan hafi verið lögð fram við  meðferð úrskurðarnefndarinnar á málinu sem hafi verið kært til nefndarinnar 4. mars 2020. Þá hafi stimplinum í fyrri útgáfu greinargerðarinnar verið bætt neðst við greinargerðina sjálfa svo allt hafi verið á einu blaði. Leturstærðinni hafi einnig verið breytt til samræmis við letrið í greinargerðinni. Virðist vera að sveitarfélagið hafi afritað stimpil og undirskrift skipulagsfulltrúans á aukablaði fyrri útgáfunnar og límt það við sjálfa greinargerðina. Engar skýringar hafi verið veittar um ofangreint föndur starfsfólks sveitarfélagsins við greinargerð deiliskipulagsins. Telji kærandi þessa framreiðslu sveitar­félagsins á gögnum málsins með miklum ólíkindum, en ljóst megi vera að alvarlegt sé ef átt hafi verið við gögnin til einhvers konar matreiðslu á málsástæðum sveitarfélagsins fyrir stjórnsýslunefnd sem hafi mál þess til skoðunar. Sé þess óskað að úrskurðarnefndin taki þetta til sérstakrar athugunar. Það athugast einnig að byggingarfulltrúi hafi vísað til úrskurðar nefndar­innar í máli nr. 29/2020 um gildi deiliskipulagsins. Það hafi enga þýðingu fyrir þetta mál enda hafi þau álitaefni sem nú séu borin undir nefndina ekki verið til umfjöllunar í því máli sem hafi varðað ákvörðun byggingarfulltrúa til veitingar byggingarleyfis.

Kærandi hafi mikla hagsmuni af málinu. Sumarhúsið sem nú sé verið að reisa á lóðinni nr. 9 standi örstutt frá sumarhúsi hans. Skilmálar eldra deiliskipulags hafi gert ráð fyrir að mænishæð húsa, þar sem hús standi hæst, mætti vera 6,5 m. Sumarhúsið sem standi andspænis lóð kæranda fari hins vegar langt yfir slíkar takmarkanir og rýri gríðarlega lífsgæði þeirra sem noti sumarhús og lóð hans.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kæranda í málinu. Er bent á að mál þetta hafi áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar, en með úrskurði sínum 4. júlí 2020 í máli nr. 29/2020 hafi nefndin staðfest að umdeilt byggingarleyfi hefði verið í samræmi við skipulag og hafi því kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa verið hafnað. Þá hafi úrskurðarnefndin staðfest með umfjöllun í niðurstöðu sinni að ákvæði um 6,5 m mænishæð þaðan sem jörð standi hæst væri í gildandi deiliskipulagi. Verði ekki annað séð en að úrskurðarnefndin hafi með fyrri úrskurði sínum tekið afstöðu til þess að umrætt deiliskipulag hafi verið lögmætt og að byggingarleyfið hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Verði því ekki séð að þörf sé fyrir nefndina að leysa úr þessum ágreiningi aftur í ljósi þess að úrskurðir nefndarinnar séu fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi, sbr. 6. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Hefði því verið eðlilegra að kærandi hefði krafist endurupptöku ef hann teldi skilyrði endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vera fyrir hendi.

Af hálfu Bláskógabyggðar sé sem fyrr byggt á því að málsmeðferð þeirrar breytingar sem hafi verið gerð á deiliskipulagi árið 2007 hafi verið lögum samkvæmt og skýrt hafi komið fram í gögnum sem hafi fylgt þeirri breytingu að mænishæð húsa á svæðinu mætti vera 6,5 m þar sem jörð standi hæst. Beiðni um breytingu á skilmálum deiliskipulagsins hafi fyrst verið tekin fyrir á 34. fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 8. febrúar 2007. Þar hafi komið fram að í þágildandi deiliskipulagi hafi verið heimilt að byggja allt að 100 m² frístundahús og 10 m² aukahús, með 6,5 m mænishæð frá jörðu þar sem jörð standi hæst. Samkvæmt þessu sé ljóst að í eldra deiliskipulagi hafi verið gert ráð fyrir að mænishæð húsa væri 6,5 m frá jörðu þar sem það standi hæst. Með umræddri breytingu hafi því ekki staðið til að breyta reglum um mænishæð heldur fyrst og fremst leyfilegum fermetrafjölda húsa á svæðinu. Þá sé einnig ljóst að töluvert misræmi hafi verið milli skipulaga á svæðinu og margar smáar deiliskipulags­breytingar hafi verið gerðar á götum og lóðum innan svæðisins. Með breytingu á heildarsvæðinu sem hafi verið gerð 6. mars 2007 hafi þessu verið breytt og deiliskipulag svæðisins samræmt. Með þeirri breytingu sem samþykkt hafi verið 6. mars 2007 hafi því ákvæði deiliskipulags um mænishæð húsa verið samræmd fyrir heildarsvæði þannig að miðað væri við 6,5 m þar sem jörð standi hæst. Verði því að telja að um hafi verið að ræða þarfa samræmingu sem hafi stuðlað að auknu réttaröryggi í skipulagsmálum á svæðinu.

Tekið hafi verið fram í greinargerð með breytingu á deiliskipulagi, dags. 25. apríl 2007, að hámarks mænishæð yrði 6,5 m. Ljóst sé að greinargerð með deiliskipulagi teljist almennt til skipulagsgagna. Samkvæmt 4. mgr. 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé ljóst að greinargerð tilheyri deiliskipulaginu og sé sá þáttur þess þar sem einstök atriði séu skýrð ítarlegar. Eðli máls samkvæmt komi því ekki allt fram í auglýsingu sem sé birt vegna þeirra breytinga sem séu gerðar. Í auglýsingu sem birt sé í B-deild Stjórnartíðinda komi almennt aðeins fram helstu atriði sem felist í breytingunni. Með auglýsingu um breytingu á deili­skipulaginu sem hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. ágúst 2007, hafi þannig aðeins verið tilteknar þær helstu breytingar sem gerðar hefðu verið á deiliskipulaginu, þ.e. að hámarksstærð frístundahúsa yrði 280 m² og hámarksstærð aukahúss yrði 30 m² og að nýtingarhlutfall mætti ekki vera hærra en 0,03. Hvað varði hæð húsa sé ljóst að ekki hafi deiliskipulaginu verið beinlínis breytt hvað þetta varðaði þar sem heimiluð mænishæð í eldra deiliskipulagi hafi verið 6,5 m. Hins vegar hafi ákvæði deiliskipulags um hæð húsa verið samræmt samhliða breytingu á deiliskipulaginu og telja verði eðlilegt að slíkt hafi verið tiltekið í greinargerð með breytingu á deiliskipulaginu. Þá sé einnig ljóst að málsmeðferð breytingarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Sveitarfélagið telji ásakanir um meint skjalafals vera verulega ámælisverðar og ómálefnalegar. Ásökunum kæranda sé alfarið vísað á bug. Ljóst sé að þessar „mismunandi“ útgáfur af greinar­gerðinni séu eitt og sama skjalið. Annað skjalið, sem hafi verið skilað til úrskurðarnefndarinnar í fyrra máli, hafi verið skalað niður svo bæði greinargerð og undirskrift kæmust fyrir á sömu blaðsíðu. Ljóst sé að slíkt hafi verið gert við ljósritun, einungis til þess að einfalda lestur skjalsins og minnka umfang þess. Getur slíkt ekki undir nokkrum kringumstæðum talist skjalafals enda ljóst að um sama skjal sé að ræða og hafi slíkt engin áhrif á gildi skjalsins eða í því sem þar komi fram. Sé rétt að úrskurðarnefndin skoði hvort tilefni og heimilt sé að ávíta kæranda vegna þessara röngu ásakana.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir því að úrskurðarnefndin hafi slegið því föstu í fyrra máli að deiliskipulagið, sem sé til umfjöllunar í málinu, hafi verið gilt. Kærandi hafi lagt fram ný gögn um samþykkt hins umrædda deiliskipulags sem ekki hafi legið fyrir í hinu fyrra máli, þar sem sveitarfélagið hefði m.a. lagt fram gögn um samþykkt deiliskipulagsins sem hafi verið til þess fallin að gefa villandi mynd af deiliskipulagsferlinu. Vísist um það til umfjöllunar í kæru um tvær mismunandi útgáfur af greinargerð með deiliskipulaginu sem lagðar hafi verið fram til nefndarinnar. Þá verði ekki talið að svör sveitarfélagsins við athugasemdum kæranda um framreiðslu þessara gagna séu mjög frambærileg. Þær skýringar sem sveitarfélagið gefi á misræmi skjalanna séu frekar máttlausar, þar sem sagt sé að um eitt og sama skjalið sé að ræða, en seinna skjalið hafi verið „skalað niður“ svo bæði undirskrift og greinargerð kæmust fyrir á einni blaðsíðu.

Í greinargerð sveitarfélagsins sé því svo haldið fram að ekki hafi verið nauðsynlegt að taka fram mænishæð í auglýsingu þar sem helsta breytingin hafi snúið að stærð og fermetrafjölda húsa. Þessu sé mótmælt. Í fyrsta lagi telji kærandi að aldrei hafi staðið til hjá sveitarstjórn að breyta skilmála um mænishæð, sé litið til gagna málsins, en hvað sem því líði sé um að ræða gríðarlega breytingu frá fyrra skipulagi sem varði hagsmuni allra íbúa á svæðinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi byggir málflutning sinn einna helst á því að samþykkt breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum 6. mars 2007 hafi ekki verið lögum samkvæmt. Umþrætt breyting var samþykkt í sveitarstjórn 6. mars 2007 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst s.á. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Kærufrestur vegna deiliskipulagsbreytingarinnar er því löngu liðinn og kemur málsmeðferð eða efni hennar þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga að sé byggingar­framkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti séu fjarlægð. Er ákvörðun um beitingu þessa þvingunarúrræðis háð mati stjórn­valds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. laganna í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þess sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Gefur umrætt ákvæði sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hags­munum sem búa að baki ákvæðum laga um mannvirki.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfu um beitingu þvingunarúrræða var m.a. studd þeim rökum að hin umdeilda bygging væri í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og málsmeðferð við afgreiðslu byggingarleyfis mannvirkisins hefði verið lögmæt. Í því sambandi var vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 29/2020 þar sem því var slegið föstu að hið kærða byggingarleyfi hefði ekki farið í bága við skilmála gildandi deiliskipulags. Verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna beitingu þvingunarúrræða hafi verið studd efnislegum rökum.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 16. september 2020 um að synja beiðni um að fjarlægja eða lækka sumarhúsið á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut.

92/2020 Auðbrekka Dalbrekka

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 11. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 9. október 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Auðbrekku 9-11.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Dalbrekku 2, Kópa­vogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 9. október 2020 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi fyrir lóðina Auðbrekku 9-11. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, en að öðrum kosti að aðeins verði heimilað eitt stæði merkt fötluðum, í stað fimm hefðbundinna stæða og eins fyrir fatlaða, í þeim hluta inngarðs sem tilheyri Dalbraut 2-14.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 9. nóvember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 15. júní 2020 var samþykkt að grenndar­kynna tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir lóðina Auðbrekku 9-11. Í breytingunni fólst að breyta atvinnuhúsnæði á neðstu hæð hússins í íbúðarhúsnæði með níu stúdíóíbúðum,  46 m2 að stærð, ásamt 17 m2 geymslulofti. Þá var gert ráð fyrir 11 bílastæðum, þar af einu fyrir hreyfi­hamlaða. Að lokinni grenndarkynningu tillögunnar var erindið lagt fram á embættis­afgreiðslufundi skipulagsstjóra 7. ágúst 2020 þar sem málinu var vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar vegna framkominna athugasemda sem borist höfðu á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 7. september s.á. var deiliskipulagsbreytingin samþykkt og afgreiðslan staðfest á fundi bæjarráðs 10. s.m., sem og á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. Tók deiliskipulags­breytingin gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 22. október 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að skipulagsráð Kópavogs hafi hinn 15. júní 2020 samþykkt að breyta áður samþykktu deiliskipulagi. Í grenndarkynningu hafi verið vísað til breytinganna þannig að hún snerti Auðbrekku 9-11. Við nánari skoðun uppdrátta hafi mátt vera ljóst að breytingin sneri einnig að skipulagi og nýtingu lóðar sem tilheyrði Dalbrekku 2-14. Hafi þurft talsverða eftirgangsmuni til að fá útskýrt í hverju umrædd breyting væri fólgin.

Kærandi hafi kallað eftir upplýsingum og gert athugasemdir við umrædda breytingu á deiliskipulagi. Fyrirhuguð breyting deiliskipulags hafi síðan verið samþykkt í skipulagsráði og af bæjarráði og bæjarstjórn 7. og 22. september 2020. Athugasemdir kæranda snúi að vinnulagi skipulagsráðs Kópavogs annars vegar og að illa rökstuddri ákvörðun hins vegar.

Í einkasamtölum við arkitekt hússins hafi komið fram að upphaflegt deiliskipulag hafi „ekki gengið upp“ og að arkitektarnir hafi unnið samkvæmt því skipulagi, sem nú standi til að samþykkja endanlega, samkvæmt samkomulagi við embættismenn Kópavogs. Aðferðafræðin sem hér sé lýst sé ámælisverð. Rétt hefði verið að viðurkenna galla á samþykktu deiliskipulagi, setja fram tillögur um breytingar og fá þær samþykktar og ganga þannig fram í samræmi við fyrirmæli skipulagslaga. Sé það í raun látið í hendur arkitekta og framkvæmdaraðila að skipuleggja „eftir sínu höfði“ og samþykkja svo eftir á. Með þessu móti sé unnið með mjög alvarlegum hætti gegn rétti almennings til að koma sínum sjónarmiðum að.

Allir sem hafi komið nálægt verklegum framkvæmdum þekki að breytingar „eftir á“ séu afar erfiðar og kalli á mun harðari afstöðu framkvæmdaraðila gegn slíkum breytingum. Héraðsdómur Vesturlands hafi fellt dóm í máli nr. E-6/2019 þar sem keimlík atburðarrás sé gagnrýnd harðlega. Það veki athygli að samhliða þeirri ákvörðun að breyta notkun Auðbrekku 9-11, sem kalli á fækkun bílastæða í inngarði á þeirri lóð, sé tækifærið notað til að fjölga bílastæðum á þeim hluta inngarðs sem tilheyri Dalbrekku 2-14. Þarna sé unnið með mjög ógagnsæjum hætti. Í umsögn umhverfissviðs Kópavogsbæjar segi m.a: „Varðandi öryggi barna þá skal bent á að það það (svo!) fyrirkomulag að hafa bílastæði og aðkomu að þeim fyrir framan eða aftan við hús er algengasta fyrirkomulagið á öllum deiliskipulögðum svæðum á höfuðborgarsvæðinu og ekki sé (svo!) hvernig koma ætti almennt í veg fyrir að blanda saman gangandi og akandi umferð á umræddu svæði.“ Sem almenn fullyrðing sé þessi staðhæfing efalítið réttmæt. Á hitt sé að líta að í tilfelli inngarðs Dalbrekku 2-14 og Auðbrekku 9-11, sé sá inngarður þak 2ja hæða bílageymsluhúss með samtals á annað hundrað bílastæði undir þaki. Það séu því óvenjugóðar aðstæður til að gera betur en almennt um aðskilnað gangandi og akandi umferðar. Hér sé engin nauðsyn sem knýi hönnuði og eigendur húsnæðis til að blanda saman umferð barna að leik og starfi og bifreiða á leið að eina stæðinu sem sé við hús. Þvert á móti sé hér möguleiki á að útiloka daglega umferð ökutækja frá inngarði og leyfa aðeins umferð sjúkrabifreiða, slökkviliðs og annarra viðbragðsaðila. Athugasemd umhverfissviðs veki upp efasemdir um að sá sem hana riti hafi skoðað aðstæður með fullnægjandi hætti.

Hvað efnisinnhald ákvörðunarinnar varði komi fram í kynningargögnum að bílastæðin sem nú sé gert ráð fyrir á þeim hluta inngarðs sem tilheyri Dalbrekku 2-14 verði á svæði sem áður hafi verið merkt sem athafnasvæði slökkviliðs. Kærandi hafi gert athugasemdir við að það skerði möguleika á aðkomu slökkviliðs og björgunarliðs að íbúð þeirra. Skipulagsráð hafni þeirri athugasemd og segi að gert sé ráð fyrir aðkomu slökkviliðs frá norður-, suður- og vestur­­­­­­­­­hliðum hússins. Við þetta sé það að athuga að enginn möguleiki sé á að komast að húsinu eða íbúum innan þess frá suðurhlið því þar sé gluggalaus brunaveggur og fyrirhugað að byggja þar annað hús í sömu hæð og húsið að Dalbrekku 2. Aðkoma frá vesturhlið sé þá m.a. frá akstursbraut í neðri bílakjallara, þ.e.a.s. hæð –1. Aðkoma frá norðurhlið sé yfir þak Dalbrekku 4 og 6 og verði að teljast fremur torsótt. Rök skipulagsráðs, sem bæjarstjórn geri að sínum, verði að teljast fremur veigalítil og beri þess merki að höfundi þeirra hafi yfirsést lega hússins á lóðinni, gluggaleysi og skort á björgunaropum á suðurvegg hússins að Dalbrekku 2.

Skipulagsráð fullyrði að breytingar á deiliskipulagi og teikningum hafi verið yfirfarnar af eldvarnarhönnuði hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir til umhverfissviðs Kópavogs og til slökkviliðsins hafi fengist staðfesting á að af þeirra hálfu hafi verið farið yfir teikningar vegna breytinga á húsinu Auðbrekku 9-11 hinn 6. desember 2018. Ekki verði séð af framlögðum gögnum að farið hafi verið yfir breytingar á teikningum vegna fyrirkomulags í inngarði sem tilheyri lóð Dalbrekku 2-14. Upplýsingagjöf umhverfissviðs sem skipulagsnefnd og bæjarstjórn byggi ákvarðanir sínar á sé í besta falli villandi. Þetta hljóti að teljast ámælisverð málsmeðferð. Þess megi geta í þessu samhengi að eina aðkoma slökkviliðs að stúdíóíbúðunum níu á kjallarahæðinni að Auðbrekku 9-11 sé frá umræddum inngarði. Þær íbúðir hafi, eftir því sem best verði séð, einungis flóttaleið út í inngarðinn. Þótt það snerti ekki hagsmuni íbúa Dalbrekku 2 með beinum hætti hljóti þetta atriði þó að verða að koma til skoðunar þegar heildaráhrif þeirrar breytingar að koma fyrir bílastæðum á bletti, sem áður hafi verið merktur sem athafnasvæði slökkviliðs í inngarðinum, sé skoðuð.

Í umsögn vegna kvörtunar annars eiganda íbúðar við Dalbrekku 2 segi umhverfissvið: „Bílastæði inn á lóð Dalbrekku 2-8 eru ekki til umræðu í þessari umsögn en þó skal það nefnt að þau bílastæði sem sýnd eru með aðkomu um port inn í inngarð eru bílastæði fyrir fatlaða svo hægt sé að uppfylla kröfur í byggingarreglugerð um hlutfall íbúða fyrir fatlaða“. Þarna sé látið að því liggja að öll stæðin sex í inngarði séu fyrir fatlaða. Það standist ekki miðað við þær teikningar sem kæranda hafi verið sýndar. Þar sé aðeins gert ráð fyrir einu sérmerktu stæði fyrir fatlaða. Þessi ummæli séu því í besta falli villandi.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að hin kærða ákvörðun feli í sér óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina Auðbrekku 9-11. Árið 2019 hafi byggingarfulltrúi samþykkt breytta notkun húsnæðisins úr iðnaðarhúsnæði í gistiheimili með níu útleigueiningum ásamt 11 bílastæðum, þar af einu stæði fyrir hreyfihamlaða. Með hinni kærðu skipulagsbreytingu sé verið að breyta greindum útleigueiningum gistiheimilisins í íbúðir. Samkvæmt grenndarkynningaruppdrætti sé jafnframt gert ráð fyrir sama fjölda bílastæða fyrir neðan húsið og samþykkt hafi verið af hálfu byggingarfulltrúa árið 2019. Því sé breyting á notkun húsnæðisins í raun eina breytingin frá núverandi fyrirkomulagi. Ætti breytingin að hafa jákvæðari grenndaráhrif í för með sér fyrir aðliggjandi lóðarhafa, enda almennt meiri truflun af starfsemi gistiheimilis en af íbúðarhúsnæði. Þá sé bent á að mæliblað sem fylgt hafi með þing­­­lýstum lóðarleigusamningi í júní 2017 geri ráð fyrir kvöð um aðkomu fyrir lóð Auðbrekku 9-11 á milli Dalbrekku 2 og Auðbrekku 7. Jafnframt hafi verið talið að m.t.t. stærða íbúðanna væri 1,2 bílastæði á íbúð nægjanlegt en gildandi bílastæðakrafa fyrir skipulagsvæðið sé 1,3 bílastæði á íbúð.

Ljóst sé að byggingaráform fáist ekki samþykkt ef brunavarnir séu ekki í samræmi við gildandi reglur. Líkt og tekið hafi verið fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. 7. september 2020, hafi aðkomuleiðir og brunavarnir hússins nú þegar verið yfirfarnar af Slökkvi­liði höfuðborgarsvæðisins án athugasemda. Hvað varði athugasemdir kæranda um aðkomu utanaðkomandi arkitekta þá sé slík tilhögun ekki óalgeng. Slík vinna sé þó alltaf unnin í samráði við skipulagsdeild Kópavogsbæjar. Sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags fari með skipulags­valdið innan marka síns sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það sé því ávallt sveitarstjórn sem hafi endanlegt ákvörðunarvald í skipulagsmálum. Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglna og sé það mat Kópavogsbæjar að hún raski ekki lögvörðum hagsmunum kæranda svo að ógildingu varði. Að öllu framangreindu virtu telji bæjaryfirvöld að hafna eigi kröfu kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að það sé rangt sem bæjaryfirvöld haldi fram að kærandi geri athugasemdir við brunavarnir, sem og fjölda bílastæða. Kærandi geri athugasemdir við staðsetningu bílastæða í inngarði á þeim hluta hans sem tilheyri lóð Dalbrekku 2-14.  Bílastæði séu ekki of fá heldur of mörg. Þá séu ekki gerðar athugasemdir við brunavarnir sem slíkar heldur breytingu á skipulagi sem feli í sér að hluti af lóð Dalbrekku 2-14 sem áður hafi verið merkt sem athafnasvæði slökkviliðs sé tekinn undir merkt bílastæði. Kærandi kannist ekki við að hafa gert athugasemdir við aðkomu utanaðkomandi arkitekta við gerð skipulags­breytingarinnar. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um að slíkt gæti verið á svig við lög og reglugerðir en orð stjórnvaldsins veki vissulega grun um að það telji sig hafa gert eitthvað aðfinnsluvert í ferlinu.

Í athugasemdum bæjaryfirvalda sé talsverðu rými eytt í að ræða breytingar á húsnæðinu Auðbrekku 9-11. Það sé vissulega ruglandi að breytingar sem séu íþyngjandi fyrir íbúa Dalbrekku 2-14 séu kynntar undir erindi sem hafi yfirskriftina „Breyting á deiliskipulagi Auðbrekku 9-11“.  Svo virðist sem þessi skringilegheit í yfirskrift hafi ruglað stjórnvaldið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar um að breyta deiliskipulagi Auðbrekku svæði 1, 2 og 3 vegna lóðarinnar Auðbrekku 9-11. Í breytingunni felst að atvinnuhúsnæði á neðstu hæð hússins, sem notað hafði verið undir gistiheimili, er breytt í íbúðarhúsnæði. Gert er ráð fyrir níu stúdíóíbúðum í rýminu og að þeim fylgi 11 bílastæði. Fram kemur í breyttum skipulagsskilmálum að lóðin Auðbrekka 9-11 stækki til suðurs um 245 m2 og verði eftir breytingu um 1.490 m2. Þá segir að heimild verði fyrir að byggja við núverandi verslunar- og þjónustuhúsnæði um 240 m2 viðbyggingu á tveimur hæðum og kjallara við vesturgafl núverandi húss og koma fyrir niðurgrafinni bílageymslu.

Í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, gr. 5.8.5., kemur fram hvernig framsetningu breytinga á deiliskipulagi skuli háttað. Í gr. 5.8.5.1., nánar tiltekið 1. mgr., segir að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir í hverju breytingin felist í greinargerð og á uppdrætti. Í gr. 5.8.5.3. er tekið fram að nái breyting aðeins til hluta deiliskipulagssvæðis skuli sýna þann hluta ásamt næsta nágrenni. Gildandi deiliskipulagsuppdrátt skuli nota sem grunn fyrir breytingar og afmarka skuli það svæði sem breytingin nái til. Mælikvarði, tákn og merkingar skuli vera þau sömu og á upprunalegu deiliskipulagi nema uppdráttur sé endurteiknaður í heild sinni með nýjum merkingum og táknum.

Á deiliskipulagsuppdrætti hinnar kærðu breytingar eru mörk þess svæðis sem skipulagsbreytingin tekur til sýnd þannig að hún nái aðeins til lóðarinnar Auðbrekku 9-11. Á þeim hluta uppdráttarins sem sýnir breytt deiliskipulag má þó sjá að á honum hafa verið gerðar breytingar sem eru fyrir utan mörk áðurnefnds svæðis. Fela þær breytingar m.a. í sér breytta tilhögun bílastæða á kostnað leiksvæðis/dvalarsvæðis í inngarði á lóð Dalbrekku 2-14 án þess að þess sé getið í skilmálum eða greinargerð. Þá kemur fram í skilmálum að lóðin Auðbrekka 9-11 stækki til suðurs en á uppdrætti er stækkunin til norðurs. Í breyttum skipulagsskilmálum kemur þar að auki fram að byggð verði 245 m2 viðbygging við vesturgafl Auðbrekku 9-11, en deiliskipulagsuppdrátturinn sýnir ekki slíka breytingu.

Sá uppdráttur sem sýnir breytt deiliskipulag er því ekki í samræmi við breytta skilmála og sýnir uppdrátturinn enn fremur breytingar sem ekki er gerð grein fyrir og eru fyrir utan mörk þess svæðis sem deiliskipulagsbreytingin gildir um. Þar er jafnframt búið að breyta húsnúmerum og byggingarreitum og fjölda hæða við Dalbrekku 2-10 frá því sem er í gildandi deiliskipulagi.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að framsetning hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar sé haldin slíkum ágöllum að varði ógildingu hennar, enda er framsetningin verulega villandi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 9. október 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Auðbrekku 9-11.

92/2020 Síðumúli

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 10. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 92/2020, kæra á synjun fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar frá 16. mars 2020 á erindi um breytingu á gjaldtöku fasteignagjalda vegna breyttrar notkunar fasteignarinnar að Síðumúla 39, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2020, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi Síðumúla 39 og 41,2% eignarhluts í bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A, þá ákvörðun fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar frá 16. mars 2020 að hafna kröfu um „breytingu á notkun“ fasteignarinnar að Síðumúla 39, Reykjavík. Er þess krafist að breytt notkun Síðumúla 39 verði staðfest frá 3. febrúar 2017. Til vara er þess krafist að breytt notkun verði staðfest frá 18. júlí 2017. Til þrautavara er þess krafist að breytt notkun verði staðfest frá 17. ágúst 2017. Til þrautaþrautavara er þess krafist að breytt notkun verði staðfest frá 12. júní 2018.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. nóvember 2020.

Málavextir: Í janúar 2016 seldi Reykjavíkurborg einkahlutafélagi, sem síðar var sameinað kæranda, fasteignina að Síðumúla 39 ásamt 41,2% eignarhlut í bílastæðahúsa að Grensásvegi 16A, en þá var húsnæðið skráð sem atvinnuhúsnæði. Borgarráð Reykjavíkur samþykkti nýtt deiliskipulag á fundi sínum 22. desember 2016 sem tók til þess svæðis sem framangreindar fasteignir eru á. Fól breytingin það m.a. í sér breytta notkun efri hæða Síðumúla 39 í íbúðarhúsnæði. Hinn 18. júlí 2017 samþykkti byggingarfulltrúa Reykjavíkur byggingaráform fyrir Síðumúla 39 sem m.a. fólu í sér breytta notkun hluta fasteignarinnar. Heimilað var með samþykktinni að byggð yrði 4. hæð ofan á húsið og tvær hæðir ofan á vestari hluta bílgeymslu og innrétta 35 íbúðir. Eftir breytinguna yrðu 199 m2 á jarðhæð atvinnuhúsnæði, en öðru rými fasteignarinnar var breytt í íbúðarhúsnæði.

Hinn 9. janúar 2019 sótti kærandi  um endurmat fasteignamats til Þjóðskrár Íslands, án árangurs þar sem upplýsingar um breytta notkun fasteignarinnar höfðu ekki borist fasteignaskrá Þjóðskrár. Í kjölfar þessa hafði kærandi samband við borgaryfirvöld og krafðist þess að skráð notkun yrði tilkynnt til Þjóðskrár og að réttar upplýsingar yrðu lagar til grundvallar við leiðréttingu á ákvörðun gjaldstofns fasteignaskatts.

Kærandi beindi bréfi til Reykjavíkurborgar, dags. 4. mars 2020, þar sem tíunduð voru málsatvik og ítrekað að tilkynna hefði átt breytta notkun fasteignar til fasteignaskrár strax og hún hefði legið fyrir. Þá var reiknaður út mismunur álagðra fasteignagjalda og þess sem kærandi taldi að hefði átt að vera rétt álagning og tekið fram að vegna ofgreiðslu fasteignagjalda ætti kærandi inneign hjá Reykjavíkurborg að upphæð kr. 7.823.576 án tillits til dráttarvaxta. Þessu bréfi var svarað af hálfu Reykjavíkurborgar með tölvupósti 5. s.m. þar sem fram kom að ekki væru forsendur til að verða við erindinu. Engar heimildir í lögum um tekjustofna sveitarfélaga eða í reglugerð um fasteignaskatt heimiluðu að lækka eða fella niður fasteignaskatt vegna þess að fasteign hefði staðið ónotuð í einhvern tíma, eða að skattflokki væri breytt við samþykkt byggingaráforma. Til þess að hægt væri að breyta skattflokki þurfi að koma til þinglýst eignaskiptayfirlýsing. Kærandi svaraði með tölvupósti 6. s.m. og tók fram að framkvæmd við skráningu fasteigna hefði verið með öðru móti við aðrar framkvæmdir í borginni þar sem Reykjavíkurborg hafi endurgreitt ofgreidd fasteignagjöld. Fór kærandi fram á að erindi hans yrði tekið til afgreiðslu. Í svörum borgarinnar með tölvupósti sama dag var tekið fram að breyting á skráningu færi ekki fram við samþykkt byggingaráforma, enda aðeins um áform að ræða. Skráningu væri breytt að verki loknu.

Með tölvupósti 16. mars 2020 var erindi kæranda um breytingu á gjaldtöku fasteignagjalda frá 4. s.m. synjað af hálfu fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar. Var vísað til þess að breyting á skráðri notkun fasteignar væri lögum samkvæmt háð leyfi byggingarfulltrúa. Þá hefðu sveitarfélög ekki heimild skv. lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga til að breyta álagningu fasteignaskatts sem lagður væri á miðað við skráningu viðkomandi fasteignar í fasteignaskrá. Var leiðbeint um að ákvörðun borgarinnar mætti vísa til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995. Kærandi taldi hins vegar að skv. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. skyldi vísa málinu til Þjóðskrár, sem hann og gerði með kæru, dags. 26. mars s.á.

Þjóðskrá taldi málið eiga undir Yfirfasteignamatsnefnd og framsendi kæruna þangað og var kæranda tilkynnt þar um með tölvupósti 31. mars s.á. Yfirfasteignamatsnefnd taldi að eins og málið væri lagt upp ætti það ekki undir sitt valdsvið, en líklega ætti það undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var kæranda tilkynnt um það með bréfi 20. apríl s.á. Í kjölfar þess bað kærandi um leiðbeiningar í tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 30. s.m.. Því var svarað með tölvupósti af hálfu úrskurðarnefndarinnar þar sem fram kom að ekki yrði séð að hin kærða ákvörðun væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli mannvirkjalaga. Hins vegar var bent á að hægt væri að leita til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis á grundvelli kæruheimildar í 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, enda væru málefni sveitarfélaga, Þjóðskrár og Yfirfasteignamatsnefndar á forræði þess ráðuneytis.

Í kjölfarið var stjórnsýslukæru, dags. 5. maí 2020, beint til ráðuneytisins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið svaraði kærunni með bréfi 24. september s.á. og lýsti því að það gæti ekki tekið kæruna til meðferðar. Benti ráðuneytið á að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga skæri yfirfasteignamatsnefnd úr ágreiningi um gjaldskyldu fasteignaskatts en ef eigandi óskaði eftir breytingu á skráningu fasteignar skyldi hann sækja um slíkt til viðkomandi sveitarfélags samkvæmt mannvirkjalögum, enda væri breyting á skráðri notkun háð leyfi byggingarfulltrúa. Synjaði byggingarfulltrúi um slíka breytingu væri sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt nefndum lögum. Beindi kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar með kæru.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að Reykjavíkurborg hafi hafnað því að leiðrétta tilgreinda notkun fasteignar hans sem sé að nær öllu leyti íbúðarhúsnæði, auk þess að hafna því að senda Þjóðskrá réttar upplýsingar til að leggja til grundvallar við skráningu og fasteignamat, en Reykjavíkurborg miði gjaldstofn fasteignaskatts við þá skráningu.

Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki sé óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Byggingarfulltrúi hafi veitt niðurrifsleyfi, byggingarleyfi og komið að úttektum. Byggingarfulltrúa og sveitarfélaginu hafi þar með borið að breyta skráðri notkun samhliða, enda standi sú skylda í órofa sambandi við ákvörðun um að samþykkja breytta notkun.

Bent sé á að við ákvörðun um hvaða notkun fasteignar skuli skráð hverju sinni og tilkynnt til Þjóðskrár og lögð til grundvallar við ákvörðun fasteignaskatts, skuli litið til ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, sbr. einkum 4. og 5. gr. laganna. Þótt fasteignin að Síðumúla 39 hafi í öndverðu verið byggð sem atvinnuhúsnæði beri að haga skráningu skv. nýjustu upplýsingum hvers tíma, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 6/2001. Þar verði að líta til raunverulegrar notkunar hverju sinni, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 85/2006 og úrskurði yfirfasteignamatsnefndar m.a. í málum nr. 12/2013 og 5/2014. Í þessu sambandi verði lagðar til grundvallar breytingar á skipulagi er varði notkun lands, ákvarðanir viðkomandi sveitarfélags sem varði fasteignina og notkun hennar, svo og breytingar á viðkomandi mannvirki og framkvæmdum við það, sbr. 1. og 2. mgr. 5. gr. laga nr, 6/2001.

Reykjavíkurborg sé skylt að tilkynna Þjóðskrá um framangreindar breytingar jafnskjótt og þær verði, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 6/2001. Með því móti verði tryggt að fram fari frummat Þjóðskrár á fasteignamati og að mat byggi á réttum upplýsingum. Með vísan til þess að um endurbyggingu fasteignar sé að ræða, sem hafi falið í sér verulega breytingu á öllu mannvirkinu, telji kærandi enn fremur einsýnt að fasteignina beri að meta samkvæmt matsstigi 9 uns lokaúttekt fari fram.

Telji kærandi Reykjavíkurborg bundna af því að ákvarða gjaldstofn fasteignaskatts til samræmis við raunverulega notkun. Í því sambandi stoði ekki að bera því við að skráning fasteignar standi slíkri framkvæmd í vegi. Það sé enda í höndum Reykjavíkurborgar að láta Þjóðskrá í té réttar upplýsingar. Þótt borginni hafi láðst að leiðrétta skráningu á fyrri stigum sé henni í lófa lagið að beina tilkynningu til Þjóðskrár til leiðréttingar í samræmi við það sem rétt sé.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg telur að vísa eigi kærunni frá úrskurðarnefndinni þar sem kæruefnið eigi ekki undir nefndina, en ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að krafa kæranda sé um tilkynningu til Þjóðskrár um breytingu á skráningu á notkun og endurgreiðslu fasteignagjalda vegna þegar samþykktrar breyttrar notkunar umræddrar fasteignar. Um slíkt fari eftir lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Ekki er að finna kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í lögunum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi mótmælir kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun málsins. Kröfugerð kæranda lúti að synjun Reykjavíkurborgar um breytingu á skráðri notkun fasteignar frá nánar tilgreindu tímamarki. Vísað sé til bréfs svarsamgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis til kæranda vegna sömu ákvarðana Reykjavíkurborgar, þar sem fram komi að skráning notkunar fasteignar sé í höndum byggingarfulltrúa skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Synjun um slíka breytingu á skráningu sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt mannvirkjalögum.

Afstaða ráðuneytisins og kæranda fái sem fyrr segi stoð í mannvirkjalögum, enda þurfi heimild fulltrúa sveitarfélagsins til að breyta notkun, sbr. 9. gr. laganna og séu þær ákvarðanir kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 59. gr. laganna.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Þar segir að stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Á grundvelli þessarar kæruheimildar er hægt að kæra ákvarðanir byggingarfulltrúa sem teknar eru með stoð í nefndum lögum. Á það til dæmis við um ákvarðanir um veitingu byggingarleyfa skv. 9. gr. laganna, en samkvæmt 9. gr. laganna er m.a. óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu liggur fyrir í máli þessu að byggingarfulltrúi samþykkti umsókn frá kæranda, sem m.a. fól í sér breytta notkun húsnæðis hans, á afgreiðslufundi sínum 18. júlí 2017. Um þetta er ekki deilt og er sú ákvörðun ekki til skoðunar í kærumáli þessu. Þá brestur úrskurðarnefndina vald til að breyta notkun fasteignarinnar frá öðrum tíma en samþykkt byggingarfulltrúa laut að, svo sem varakröfur kæranda eru settar fram. Snýst ágreiningur máls þessa enda ekki um breytta notkun fasteignarinnar í skilningi mannvirkjalaga heldur um skráningu fasteignarinnar í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og álagningu fasteignagjalda sem byggist á þeirri skráningu, en sú skráning fer eftir lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Á kæruheimild mannvirkjalaga því ekki við í máli þessu. Þá liggur fyrir að hvorki ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli nefndra laga nr. 6/2001 né ákvarðanir um álagningu á grundvelli laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga eru kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þar sem kæruheimild skortir að lögum til að úrskurðarnefndin skeri úr þeim ágreiningi sem fyrir hendi er verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

129/2020 Hólmasel

Með

Árið 2021, mánudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 129/2020, kæra vegna óhæfilegs dráttar á á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Hólmasels 2, Reykjavík, og álagningu fasteignagjalda fyrir sömu eign.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2020, er barst nefndinni 8. s.m., kærir eigandi eignarhluta 01-0103 og 01-0104 í fasteigninni Hólmasel 2, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar hans vegna Hólmasels 2 og álagningu fasteignagjalda fyrir sömu eign. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að úrskurðað verði að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda og að ákvarðanir um álagningu fasteignagjalda verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 18. desember 2017 sótti kærandi um byggingarleyfi vegna eignarhluta 01-0104 í fasteigninni Hólmasel 2 og var með umsókninni sótt um „[t]ilfærsl[u] á innveggjum vegna íbúðarbreytingar. Stækkun á íbúð og baðherbergi, þannig að bílskúr minnkar.“ Erindi kæranda var hafnað af byggingarfulltrúa þar sem samþykki meðeigenda skorti. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 11. júní 2019 í máli nr. 47/2018. Í kjölfarið sendi kærandi inn nýja umsókn 21. nóvember 2019 og var erindinu vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. desember s.á.. Hinn 20. s.m. barst úrskurðarnefndinni kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. janúar 2020 þar sem því var frestað. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 27. febrúar s.á., í máli nr. 131/2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að byggingarfulltrúi tæki fyrirliggjandi umsókn kæranda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 21. apríl 2020, 28. s.m og 12. maí s.á. var erindið tekið fyrir að nýju og að endingu var það samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á tafir á afgreiðslu erindi hans hafi staðið yfir í um þrjú ár. Þá hafi það verið mistök hjá embætti byggingarfulltrúa að breyta notkun á eignarhluta 01-0104 í atvinnuhúsnæði en fasteignagjöld í þeim flokki séu 1,47% hærri en hjá íbúðum. Því sé um ólöglega gjaldtöku að ræða. Það sama gildi um eignarhluta 01-0103 en hann eigi að skrá sem ósamþykkta íbúð. Óheimilt sé að innheimta fasteignagjöld af þeim eignarhluta sem atvinnuhúsnæði þar sem engin virðisaukaskattskyld starfsemi fari þar fram.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því mótmælt sem röngu að málið hafi tafist með óeðlilegum hætti. Ítrekaðar frestanir á afgreiðslu erindisins megi rekja til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum sem snúið hafi að uppfærðri skráningartöflu fyrir fasteignina. Fyrir liggi að kærandi hafi nú þegar fengið úrlausn erindis síns með samþykki byggingarleyfisins. Kærandi hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins þar sem kæruefnið hafi nú þegar verið afgreitt. Sé þess því krafist að þeim kærulið verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Heimild sveitarstjórnar til álagningar fasteignaskatts fari skv. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Hvorki verði séð að lög nr. 4/1995 hafi að geyma kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar né að álagning fasteignaskatts geti fallið undir málefnasvið umhverfis- og auðlindamála. Af þeim sökum sé einnig gerð krafa um að þeim kærulið verði vísað frá.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu í 2. mgr. 29. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar fyrir breyttri notkun eignarhluta 01-0104 í fasteigninni Hólmaseli 2, Reykjavík, en fyrir liggur að byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 10. nóvember 2020. Hefur því verið bundinn endir á málið en sú afgreiðsla er ekki kærð. Hefur ekki þýðingu að lögum að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi sem hefur þegar verið samþykkt. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Einnig er kærð álagningu fasteignagjalda vegna eignarhluta 01-0103 og 0104 í sömu fasteign. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Um álagningu fasteignaskatts er fjallað í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í þeim lögum. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka kæruefnið til endurskoðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

122/2020 Vindorkuver að Hróðnýjarstöðum

Með

Árið 2021, föstudaginn 5. febrúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2020, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. júlí 2020 um tillögu að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða, Dalabyggð, að því er varðar athugasemd í 13. tl. í ákvörðuninni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Storm orka ehf. ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. júlí 2020 um tillögu að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða, Dalabyggð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 7. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 8. apríl 2019 barst Skipulagsstofnun tillaga kæranda að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkuvers að Hróðnýjarstöðum, Dalabyggð, í samræmi við 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Tillagan var auglýst á heimasíðu Skipulagsstofnunar 23. apríl 2019 og kom þar fram að frestur til athugasemda væri til 2. maí 2019. Sama dag og auglýsingin var birt var einnig sent bréf til kæranda og honum tilkynnt að umsagna hefði verið leitað og frestur til að skila inn umsögnum væri sömuleiðis til 2. maí 2019. Umsagnir um tillögu að matsáætlun bárust m.a. frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Kærandi sendi 31. maí 2019 tölvupóst til Skipulagsstofnunar með drögum að svörum við athugasemdum umsagnaraðila. Í framhaldi af því óskaði Skipulagsstofnun frekari umsagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og skilaði stofnunin frekari athugasemdum 31. júlí s.á. Skilaði þá kærandi athugasemdum til Skipulagsstofnunar 26. ágúst s.á. þar sem fram kom að frekari umsögn Náttúrufræðistofnunar bætti engu við fyrri umsögn varðandi það hvaða rannsóknir væru nauðsynlegar á svæðinu.

Hinn 20. apríl 2020 lagði kærandi fram kæru til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Skipulagsstofnunar á tillögunni og var kæran framsend úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 24. s.m. Með úrskurði uppkveðnum 9. júlí s.á. í máli nr. 30/2020 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að dráttur á afgreiðslu málsins væri óhæfilegur og lagði fyrir stofnunina að taka fyrirliggjandi tillögu kæranda að matsáætlun til afgreiðslu án frekari tafa. Með ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 28. júlí 2020, var fallist á framlagða tillögu að matsáætlun með 18 tölusettum athugasemdum. Í athugasemd nr. 13 segir eftirfarandi: „Rannsóknir á fuglum með VP aðferð standi a.m.k. í tvö ár og spanni, auk varptíma, fartíma vor og haust (15. apríl til 31. maí og 1. ágúst til 15. september). Fuglarannsóknir nái yfir allt framkvæmdasvæðið. Leggja þarf mat á töpuð búsvæði með þéttleikamælingum á mismunandi búsvæðum á tímabilinu 1. til 15. júní. Upplýsa þarf um það hvaða fuglar verða helst í árekstrarhættu við vindmyllur og hver eru líkleg afföll þeirra. Leggja þarf fram tillögur að mótvægisaðgerðum, eftir því sem við á.“ Tekið var fram í ákvörðuninni að framkvæmdaraðili gæti kært „ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.“ Mun ákvörðunin hafa borist kæranda 30. júlí 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að Skipulagsstofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar hún hafi tekið fram í hinni kærðu ákvörðun að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hvorki hafi verið vísað til laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála né til þess að kærufrestur væri einn mánuður. Í ljósi þess að hin kærða ákvörðun hafi borist í lok júlí á orlofstíma aðkeyptra sérfræðinga kæranda, vegna umfangs málsins, samfélagslegra ástæðna af völdum COVID-19 og veikinda, vænti kærandi þess að nefndin taki málið til efnislegrar úrlausnar. Vísað sé til eðlis máls og meginreglna stjórnsýsluréttarins um andmælarétt og meðalhófs. Þá virðist úrlausnarefnið fordæmisgefandi en í máli nr. 30/2020 hafi úrskurðarnefndin tekið undir þau rök Skipulagsstofnunar að helsta ástæða óhæfilegs dráttar á málsmeðferð hafi verið sú að vindorkuver af því umfangi sem kærandi áformi eigi sér ekki hliðstæðu á Íslandi.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að í hinni kærðu ákvörðun hafi verið vísað til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem segi að um kærufrest fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Því hafi í ákvörðuninni verið að finna leiðsögn um hvar hægt væri að nálgast upplýsingar um kærufrest. Þótt stofnunin hafi ekki tilgreint að hann væri einn mánuður hafi kærandi mátt vita að um kærufrestinn væri mælt fyrir um í lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Þá sé málið ekki fordæmisgefandi. Í því sambandi megi benda á að í úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 31. janúar 2019 í máli nr. 80/2017 hafi ekki verið fallist á kröfu um ógildingu á því skilyrði sem sett hafi verið í ákvörðun um tillögu að matsáætlun vegna vindmylla í Þykkvabæ að afla þurfi upplýsinga um farleiðir fugla með radarmælingum í tvö ár og gera grein fyrir flugferlum og flughæðum fugla. Nefndin hafi því tekið afstöðu til sambærilegs álitaefnis. Þá fái stofnunin ekki séð að skilyrði 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem fjalli um þær aðstæður þegar kæra berist að liðnum kærufresti, séu uppfyllt.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar þá málsástæðu sína að Skipulagsstofnun hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því sé mótmælt að um ágreiningsefnið hafi verið fjallað í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 80/2017. Málin séu að takmörkuðu leyti sambærileg en í máli nr. 80/2017 hafi ekki reynt á ákvæði um andmælarétt kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. júlí 2020 um tillögu að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða, Dalabyggð. Í ákvörðuninni var tekið fram að framkvæmdaraðili gæti kært hana til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í 7. mgr. nefnds lagaákvæðis segir að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kærur fari samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Fram kemur í kæru að ákvörðunin hafi borist kæranda 30. júlí 2020 og var kærufrestur því liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 19. nóvember s.á.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. sömu laga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Leiðbeiningum Skipulagsstofnunar var áfátt að því leyti að kærufrestur var ekki tilgreindur, en til þess var tilefni þar sem hann er skemmri en þriggja mánaða kærufrestur stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga. Hins vegar verður að telja að kærandi hafi haft þann möguleika sem til þurfti á að kynna sér kærurétt sinn skv. lögum nr. 106/2000 sem leiðbeint var um. Í athugasemdum með 27. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að markmiðið með kærufresti sé að stuðla að því að stjórnsýslumál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt er. Jafnframt að telji aðili rétt að kæra ákvörðun beri honum að gera það án ástæðulauss dráttar. Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun hafi borist á orlofstíma auk þess að vísa til umfangs málsins, samfélagslegra ástæðna af völdum COVID-19 og veikinda. Verður ekki talið af þeim sökum afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist svo seint sem raun bar vitni og er rétt að benda á í þessu samhengi að almennur kærufrestur stjórnsýslulaga var einnig liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Hvorki í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga né heldur greinargerð með frumvarpi til laganna er að finna skilgreiningu á því hvaða ástæður geti talist til veigamikilla ástæðna. Við mat á því hvað teljist til slíkra ástæðna hefur þó verið talið að líta beri til hagsmuna aðila máls svo og almannahagsmuna, t.a.m. hvort úrlausn þess geti haft víðtækari skírskotun og þar með þýðingu fyrir fleiri en umræddan aðila. Ágreiningsefni máls þessa lýtur að athugasemd í 13. tl. hinnar kærðu ákvörðunar en sú athugasemd varðar skilyrði um framkvæmd á fuglarannsóknum. Telur kærandi athugasemdina vera ólögmæta og þarflausa og krefst þess að hún verði felld úrgildi. Að mati úrskurðarnefndarinnar varðar úrlausn málsins því fyrst og fremst afmarkaða hagsmuni kæranda vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar hans og felur ekki í sér þýðingarmikið fordæmi. Er í þessu sambandi rétt að benda á að lögmæti sambærilegrar athugasemdar Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar vindorkuvers í Garpsdal, Reykhólahreppi, var til úrlausnar í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 78/2020 sem kveðinn var upp 22. desember 2020. Verður því ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Að framangreindu virtu þykja undantekningákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni samkvæmt fyrirmælum sama ákvæðis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.